Bloggfærslur mánaðarins, desember 2010
7.12.2010 | 16:59
Bankar með undirboð á fasteignamarkaði
Ég fékk þennan póst frá fasteignasala, sem segir farir sínar ekki sléttar gagnvart samkeppni frá bönkunum. Ég ákvað að taka út nöfn bankanna sem áttu í hlut.
Smá dæmi sem er ekkert smá dæmi..
Kona sem kom til okkar í lok seinustu viku og var að skoða íbúð í eigu einkaaðila með 100 % láni frá banka A sem henni líkaði það vel að hún lét okkur gera uppkast að tilboði sem hún fór með til að skoða með bankanum sínum sem er banki B sem er svo sem ekki í frásögu færandi.
En hún kemur aftur daginn eftir alveg í sjokki vegna þess að þjónustufulltrúinn sem hún talaði við í banka B sagði henni að vera ekkert að skoða þessa íbúð, banki A réði hver fengi að kaupa hana og gerði þjónustufulltrúinn í banka B allt tortryggilegt, t.d. að kaupverðið væri hærra en fasteignamat og fleira.
Þjónustufulltrúinn sagði henni að hún gæti útvegað henni íbúð á góðu verði sem banki B væri búinn að taka af einhverjum og hún ætti frekar að kaupa eina af þeim íbúðum og mundi hún láta hana hafa lista yfir þær íbúðir og þær íbúðir væru á miklu betra verði.
Konan sagði að ef hún hefði ekki sjálf átt íbúð sem hún ætlaði að fara að selja þá hefði ekki verið víst að hún hefði áttað sig á hve alvarlegt þetta væri, hún gæti t.d. lent í því að aðili sem væri áhugasamur um hennar íbúð væri boðið það sama af öðrum banka en hún væri í og salan fyrir henni mundi eyðileggjast.
Hef heyrt af svona dæmum áður, þ.e. að fólk hefur hringt aftur til okkar eftir að hafa skoðað íbúð hjá okkur sem því líkaði og sagst hætt við að kaupa hana því það hafi fengið íbúð á betra verði í gegnum bankann sinn en aldrei fengið það staðfest áður.
Ég býð ekki í fasteignamarkaðinn, ef það er svona sem bankarnir ætla að vinna. Ástandið er nógu erfitt hjá fólki sem gengur illa að selja, þó svo að bankarnir fari ekki í undirboð. Kannski finnst bönkunum íbúðaverð og þar með tryggingar þeirra ekki hafa lækkað nógu mikið. Þetta er að auki líklegast brot á samkeppnislögum, þar sem bankinn er að reyna að koma í veg fyrir samning milli tveggja aðila sér til hagsbóta.
Mér finnst mjög mikilvægt, að bankarnir raski ekki eðlilegri verðmyndun á markaði með undirboðum eins og þessi saga lýsir. Raunar held ég að það sé bönkunum til hagsbóta að halda að sér höndum á fasteignamarkaði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
7.12.2010 | 10:21
Taka skal þessum tölum með varúð, þær eiga það til að breytast
Ég verð að viðurkenna, að ég er fyrir löngu hættur að treysta tölum um landsframleiðslu, hagvöxt og fleiri slíkum hagstærðum, þegar þær koma fyrst út. Því eiga þær það til að breytast mjög mikið við frekari skoðun.
Annars er áhugavert að lesa í Hagtíðindum að ekki er allt sem sýnist.
Óleiðrétt landsframleiðsla dregst saman um 1,6% á 3. ársfjórðungi 2010 miðað við sama fjórðung árið áður.
...Landsframleiðslan fyrstu níu mánuði ársins 2010 nemur 1.142 milljörðum króna borið saman við 1.107 milljarða króna á sama tímabili árið áður. Að teknu tilliti til verðbreytinga dróst landsframleiðsla hins vegar saman um 5,5% að raungildi samanborið við fyrstu níu mánuði ársins 2009.
Síðan segir:
Líkt og við mat á landsframleiðslu undanfarna ársfjórðunga eru mikilvæg gögn um lánastofn innlána og útlána eftir ársfjórðungum enn ekki tiltæk frá og með 4. ársfjórðungi 2008 til og með 4. ársfjórðungs 2009. Því er ekki unnt að meta ársfjórðungslegar breytingar milli 2009 og 2010 þótt nú liggi fyrir tölur um fyrstu tíu mánuði ársins 2010. Áfram er því byggt á lauslegu mati á reiknaðri bankaþjónustu á 3. ársfjórðungi 2010.
.. Niðurstöður fyrir árin 2008-2010 eru bráðabirgðatölur sem breytast eftir því sem ítarlegri upplýsingar berast sem einnig hefur áhrif á árstíðaleiðréttu niðurstöðurnar.
Í enska texta Hagtíðinda segir síðan:
The seasonal results should therefore be interpreted with care.
Þetta eru sem sagt bráðabirgðatölur sem á að túlka með varúð.
Landsframleiðslan jókst um 1,2% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.12.2010 | 18:16
Afsláttur af lánum allra notaður í suma
Nú kom stóridómur ríkisstjórnarinnar og fjármálafyrirtækjanna síðast liðinn föstudag. Hann er eiginlega ótrúlegur, þar sem lítið er gert annað en að afskrifa sokkinn kostnað og jafnvel er gengið lengra en þarf í þeim efnum. Í þessari færslu vil ég benda á það ótrúlega ósamræmi sem er í málflutningi stjórnvalda og málsvara 110% leiðarinnar varðandi það hvernig afslætti af lánasöfnum heimilanna var háttað.
Samkvæmt framkomnum upplýsingum frá bönkunum og upplýsingum sem birst hafa í fjölmiðlum, þá fengu bankarnir verulegan afslátt af lánum heimilanna við flutning þeirra frá gömlu bönkunum til þeirra nýju. Þessi afsláttur var misjafn eftir bönkum, en almennt var farin sú leið að samræmdur afsláttur var gefinn af sambærilegum lánum. Þannig var ekki farið í að skoða greiðslugetu eða skuldastöðu hvers og eins lántaka, heldur var jafnt yfir alla ganga. Þannig fékk bankinn sama afslátt af láni einstaklings með mikla greiðslugetu og lága skuldsetningu og einstaklings með litla greiðslugetu og háa skuldsetningu, þegar um verðtryggð lán var að ræða. Samkvæmt tölu Seðlabanka Íslands var breytingin á lánum heimilanna hjá innlánsstofnunum sem hér segir milli 30.9.2008 og 31.12.2008:
Milljarðar kr | 31.12.2008 | 30.9.2008 | Mism. | Breyting |
Yfirdráttarlán | 46,7 | 78,3 | 31,6 | -40% |
Víxlar | 0,6 | 0,6 | -0,0 | 3% |
Óverðtryggð skuldabréf | 18,0 | 26,76 | 8,7 | -33% |
Verðtryggð skuldabréf | 344,6 | 627,1 | 282,5 | -45% |
þ.a. íbúðalán | 243,1 | 499,3 | 256,2 | -51% |
Gengisb. skuldabréf | 135,6 | 271,9 | 136,3 | -50% |
þ.a. íbúðalán | 58,0 | 107.6 | 49.6 | -46% |
Eignarleigusamningar | 9,4 | 22,1 | 12,7 | -58% |
Gengisb. yfirdráttarlán | 3,2 | 5,2 | 2,0 | -39% |
Innlendir aðilar, alls | 558,0 | 1.032,0 | 473.,0 | -46% |
þ.a. íbúðalán | 301,1 | 606,9 | 305,8 | -50% |
til viðbótar íbúðalán skilin eftir í Kaupþingi | 124,0 | |||
Innlendir aðilar, alls með Kaupþingslánum | 682,0 | 1.032,0 | 349,0 | -34% |
þ.a. íbúðalán | 425,1 | 606,9 | 181,8 | -30% |
Þessar tölur benda í fyrsta lagi til þess að bankarnir hafi fengið mun meiri afslátt af íbúðalánum heimilanna, en þeir 90 milljarðar sem fulltrúar þeirra segja að hafi fengist. Í öðru lagi voru gengisbundin húsnæðislán tekin yfir með allt að 46% afslætti, sem þýðir að afsláttur af öðrum húsnæðislánum (verðtryggðum) var að minnsta kosti 26%. Þessi afsláttur er misjafn eftir bönkum. Loks má benda á að þá er ótaldir um 167 milljarðar sem er afslátturinn af öðrum lánum.
Mín niðurstaða, af skoðun þessara talna, lestur frétta og umfjöllunar ljósvakamiðlanna um þessi mál, er að bankarnir fengu meira og minna flata afslætti af lánasöfnum heimilanna. Ekki var gerð tilraun til að ákvarða að eitt verðtryggt lán væri í verri stöðu gagnvart innheimtu en annað. Sama gildir um gengisbundin lán. Auk þess fengu bankarnir afslætti vegna lána sem mundu tapast, en það var gert með almennri viðbót við afsláttinn, ekki með því að hækka afslátt var tilteknum lánum. Með þeim aðgerðum, sem fjallað er um í viljayfirlýsingu stjórnvalda og fjármálafyrirtækjanna, er verið að taka afslætti af lánum þeirra, sem sýndu ráðdeild og hófsemi, til lána þeirra sem tóku áhættu með þeim rökstuðningi að síðarnefndi hópurinn sé yfirskuldsettur. Málið er að um það var ekki spurt, þegar afslátturinn var reiknaður út og það er gjörsamlega út í hött að það sé haft til hliðsjónar núna.
Aðeins að yfirskuldsetningunni. Stór hluti þeirra sem var yfirskuldsettur með fasteignalán sína voru það þar sem þeir annars vegar voru með gengisbundin lán og hins vegar vegna þess að þeir keyptu húsnæði á verðtryggðum lánum með mikilli skuldsetningu. Hvað fyrri hópinn áhrærir, þá fengu bankarnir lán þeirra með 46% afslætti, skv. tölu Seðlabankans, og fátt bendir til annars en að sá afsláttur dugi til að mæta klúðri bankanna vegna hinna ólöglegu gengistryggingar. Því til viðbótar fengu bankarnir yfir 85 milljarða í afslátt vegna annarra gengisbundinna lána heimilanna. Hvað síðari hópinn varðar, þá í fyrsta lagi veittu bankarnir þessum hópi ekki svona há lán nema að greiðslugeta hafi verið fyrir hendi, í öðru lagi fengu þeir sérstaka ábót á afsláttinn til að mæta augljóslega töpuðum kröfum og í þriðja lagi þá er yfirskuldsetning afstætt ástand. Á þetta benti ég í séráliti mínu, en þar bendi ég á að yfirskuldsetning sé aðeins vandamál undir tveimur kringumstæðu:
- Þegar greiðslugeta væri ekki næg.
- Þegar ekki væri hægt að selja húsnæði vegna skuldsetningar.
Það vill svo til að fyrra atriðið á við um alla stöðu skuldsetningar. Einstaklingur getur haft greiðslugetu fyrir 30% skuldsetningu á litlu húsnæði, en ekki fyrir 39% skuldsetningu. Hann er því í greiðsluvanda, en á ekki að fá neitt. Annar getur haft greiðslugetu fyrir 300% skuldsetningu og hefur haldið öllum lánum sínum í skilum, en á samkvæmt viljayfirlýsingunni að fá lánin færð niður í 110%.
Ástæðan fyrir því að ég setti fram sérálit eftir vinnu "sérfræðingahóps" forsætisráðuneytisins var einmitt að ég var ósammála um þá nálgun að yfirskuldsetning væri vandamál sem taka þyrfti á. Ég taldi að mun mikilvægara væri að fá úrlausn annarra mála og vil ég þar nefna:
- Skert greiðslugeta lántaka sama hver skuldsetningin er. Gildir líka um fólk í leiguhúsnæði og hefur ekki tekjur til að standa undir leigugreiðslum.
- Leiðréttur sé forsendubrestur lána hjá fólki sem tapað hefur stórum hluta af því eiginfé sem það lagði fram við íbúðakaup. Gildir líka um hækkun leiguverðs.
- Komið sé til móts við húsnæðiseigendur sem eru með yfirskuldsettar eignir og geta af þeirri ástæðu ekki selt án þess að taka á sig verulegt tjón.
- Hækka tekjur þeirra sem hafa ekki nægar tekjur til að framfleyta sér og sínum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
4.12.2010 | 15:13
Hvað fátt hefur breyst og margt reynst rétt - Upprifjun á færslum frá því í febrúar 2009
Ég var að leita að færslu frá febrúar 2009 og renndi því í gegn um allt sem ég skrifaði í þeim mánuði. Mig eiginlega hryllir við hvað lítið hefur breyst á þessum u.þ.b. 22 mánuðum.
2.2.2009 Aðgerðir fyrir heimilin: Hér ræði ég um það sem þurfi að gera og í reynd hefur sáralítið áunnist ennþá.
3.2.2009 Heimilin eiga að fjármagna bankana með fasteignalánum sínum: Líklegast hef ég aldrei verið sannspárri.
6.2.2009 Greiðsluaðlögunarfrumvörp missa marks: Þetta hefur sýnt sig vera hárrétt, enda ekki búið að breyta lögunum nema tvisvar og þau eru enn ekki að virka.
10.2.2009 Vandi heimilanna: Tilraun til greiningar: Hér er held ég ein raunsannasta greining á vandanum, áhrifum og afleiðingum. Synd að stjórnvöld hafi ekki nýtt sér þessa greiningu til að taka á vandanum strax.
10.2.2009 Taka á sig tapið hjá þeim stóru, en hvað með litlu aðilana?: Sjaldan held ég að mér hafi ratast eins rétt á sannleikann.
13.2.2009 Ekki spyrja um kostnað heldur ávinning: Menn byrjuðu snemma að horfa í vitlausa átt og því miður eru menn enn fastir í að horfa á brunarústir gömlu bankanna, en neita að viðurkenna að þar er minnsti skaðinn.
13.2.2009 Er hægt að ógilda verðtryggða og gengistryggða lánasamninga?: Þetta er upphafið að því að gengistryggingin var dæmt ólögleg. Ætli verðtryggingin fari sömu leið þegar á hana verður reynt?
15.2.2009 Eftirlitið ber ekki sök á glannaskap bankanna, bara á að hafa ekki stoppað hann: Í sjálfu sér ekkert meira um þetta að segja, en skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis staðfesti þetta í grófum dráttum.
16.2.2009 Game over - Gefa þarf upp á nýtt: Ég held stundum að þetta sé eina leiðin.
19.2.2009 Að ósi skal stemma: Leynifélög á Tortola afhjúpa galla í lögum: Ég held ennþá að það sem ég legg til í þessari færslu sé eina rétta. Gera þarf eigur Tortolafélaga upptækar og láta eigendurna sækja rétt sinn.
19.2.2009 Hagsmunir heimilanna eru hagsmunir þjóðarinnar: Hverju orði sannara og ekkert meira um það að segja.
20.2.2009 Verð- og gengistrygging böl heimilanna - 760 milljarða skattur á 8 árum: Menn eru smátt og smátt að opna augun fyrir þessu.
21.2.2009 Stöndum vörð um heimilin - Ræða flutt á Austurvelli 21.02.2009: Hélt ekki að til þess kæmi að ég héldi ræðu á kröfufundi. En engin veit sína ævi fyrr en öll er.
25.2.2009 Það er víst hægt að færa lánin niður: Þessi færsla lýsir einu af mörgu tækifærum sem stjórnvöld misstu af. Hægt hefði verið að búa til keðju viðskipta sem hefði nýst mörgum.
26.2.2009 Saga af venjulegum manni: Þetta er hinn grákaldi raunveruleiki sem stjórnvöld eru ekki ennþá að ná að skilja.
Bæði eru færslurnar fróðleg lesning og ekki síður margar þeirra frétta sem þær eru hengdar við.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
3.12.2010 | 23:49
Búið að vara við þessari leið frá því í júlí 2009
Í störfum mínum fyrir Hagsmunasamtök heimilanna hef ég rekist á alls konar dæmi sem sýna það og sanna, að hin svo kallaða 110% leið bankanna er óréttlát. Hún skilur hina sem varlega fóru eftir með tjón sitt, en þá sem tóku líklegast mestu áhættuna eftir í betri málum en þeir voru í fyrir sín íbúðarkaup.
Nú er ekki svo að Hagsmunasamtök heimilanna hafi ekki varðað við þessu fyrr. Nei, það er öðru nær. Þegar Nýja Kaupþing kynnti svona hugmynd fyrir stjórnarmönnum HH 24. júní 2009, þá sendu samtökin frá sér greinargerð um aðferðina. Ég læt greinargerðina fylgja með þessari færslu svo fólk geti séð gagnrýni samtakanna í heild. Helstu niðurstöður eru þó sem hér segir:
Almennt má gera ráð fyrir því að þeir sem áttu hlutfallslega lítið eigið fé til íbúðakaupa við lántöku séu flestir yngri lántakendur sem hafi verið að festa kaup á sinni fyrstu eign og eru jafnvel nýkomnir út á vinnumarkaðinn. Á hinn bóginn má gera ráð fyrir að fjölskyldur sem áttu meira eigið fé hafi verið búnar að vinna fyrir því á lengri tíma þar sem fyrirvinnur þeirra heimila hafi verið lengur á vinnumarkaði en fyrstu kaupendur. Tap þeirra (heimili A) vegna efnahagshrunsins er því í raun mun meira en fyrstu kaupenda (heimili B). Þar sem þessi lausn nýtist fyrst og fremst yngra fólki, sem við lántöku var með lítið eigið fé til íbúðakaupa og með verðtryggð lán en alls ekki þeim sem tóku gengistryggð lán, eða þeim sem áttu meira eigið fé við lántöku, má spyrja hvaða úrræði verða í boði fyrir þau heimili. Ef þessi leið er ætluð til að skapa friðþægingu fyrir stjórnvöld til að gera ekki neitt varðandi leiðréttingu á lánum heimilanna, þá er að lokum mikilvægt að komi fram að þetta úrræði felur ekki í sér neina leiðréttingu, og enn síður afskrift, og skapar jafnvel óásættanlegt ójafnræði milli lántakenda.
Hagsmunasamtök heimilin telja að þessi úrræði Nýja Kaupþing nýtist fyrst og fremst þeim sem tóku lán með háum upphaflegu lánshlutfalli (70-100%), hvort heldur verðtengd eða gengisbundin. Fyrir þá eru þessi úrræði ásættanleg skammtímalausn uns í ljós kemur hvað gerist með biðlánin eftir 2-3 ár. Samtökin geta ekki mælt með þessari lausn fyrir þá sem eru með gengisbundin og lægra upphaflegt lánshlutfall. Þá sjá samtökin ekki að þetta úrræði nýtist mörgum með undir 70% lánshlutfall við lántöku og tóku verðtryggt lán.
(Með heimili A er átt við heimili með háu eiginfjárhlutfalli meðan heimili B átti nánast ekkert eigið fé.)
Í meðfylgjandi grein er miðað við að lán hafi verið færð niður í 80% af markaðsverði eignar, en upp á það hljóðaði upphaflega hugmynd Nýja Kaupþings. Að þetta hlutfall sé 110% gerir ekkert annað en að skekkja myndina enn frekar. Niðurstaðan er einfaldlega sú að verið er gera upptækan stóran hluta þess eiginfjár sem fólk lagði í fasteignir sínar. Verst fer út úr þessu fólk sem er komið yfir fertugt og má segja að það lendi í stórfelldri eignaupptöku. Get ég ekki annað en velt fyrir mér hvort ekki sé verið að brjóta eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar á þessu fólki.
Það er staðreynd, að þau úrræði sem kynnt voru í dag sniðganga gjörsamlega vanda stórs hóps húsnæðiseigenda. Þetta fólk keypti á þeim tíma, þegar ekki var hægt að fá 100% lán og geyma peningana sína annars staðar vegna þess að það gaf betri ávöxtun. Nei, það varð að leggja fram 30 - 40% eigið fé við fasteignakaup. Það fór heldur ekki í bankann til að skuldsetja húsnæðið sitt upp í topp, þegar peningarnir flutu út úr bönkunum. Nú er verið að refsa því fyrir ráðdeildina.
Það er mjög ánægjulegt, að bankarnir ætli að staðfesta að sokkinn kostnaður er tapað fé, en ég er ekki svo viss um að öll yfirskuldsetning sé tapað fé. Nú er fasteignaverð í lágmarki og því er skuldsetning sem hlutfall af íbúðaverð almennt mjög hátt. Það á bæði við um þá sem skuldsettu sig hátt í upphafi og líka hina sem sýndu ráðdeild. Þegar fasteignaverð hækkar aftur, þá mun eiginfjárhlutfall beggja hópa aukast. Þrátt fyrir að báðir hópar hafi orðið fyrir viðlíka tjóni við hrun hagkerfisins, þá er það svo að annar hópurinn á að fá tjón sitt bætt, en hinn á að sitja uppi með það. Ég tek það skýrt fram, að ég hef alltaf talað fyrir því að hækkun lánanna skipti meira máli en lækkun fasteignaverðs. Raunar tel ég lækkun fasteignaverðs ekki skipta máli nema skuldsetning hamli fasteignaviðskipti. Þess vegna hef ég alltaf talað fyrir því að almenn lækkun lána skipti meira máli, en að koma stöðu láni niður í eitthvað hlutfall af fasteignaverði. Ég var vændur um að það væri vegna þess að það kæmi mér svo vel, en ástæðan er sú að mér finnst almenn lækkun lánanna hin réttláta niðurstaða.
Nú er sem sagt búið að ákveða að sniðganga vanda fólks á miðjum aldri, hvar sem það er í stétt. Verkamaður á miðjum aldri er líklegast búinn að tapa stærri hluta af ævisparnaði sínum en háskólamenntaði maðurinn á sama aldri. Það getur vel verið að greiðslugetan sé fyrir hendi, en tíu ár af afborgun lána hefur verið þurrkuð út, ef ekki meira. Varla telst það sanngjarnt. Eina sem bankarnir og stjórnvöld segja er: Þeir skulu borga sem geta borgað! Meira að segja formaður Sjálfstæðisflokksins, en flokkurinn hefur sótt mest fylgi sitt til þessa hóps, hann er glaður með niðurstöðuna. Ástæðan er líklegast, að hann sér að ríkisstjórnin er að grafa sína eigin gröf og það styttist í að hrunverjar Sjálfstæðisflokksins eygja það að komast til valda á ný. Ég sé ekki fyrir mér að fólk sem er búið að tapa milljóna tugum á efnahagsstjórn Sjálfstæðisflokksins hafi geð í að kjósa flokkinn aftur til valda. Ég ofmet kannski pólitískt minni kjósenda og síðan má ekki gleyma að þangað sækir klárinn sem hann er kvaldastur.
Ekki vil ég gera lítið úr þeim úrræðum sem kynnt voru í dag, en ég óttast að þau hafi skilið mjög margar fjölskyldur frammi fyrir ókleifum hamrinum. Þessi úrræði er a.m.k. ekki þau tækifæri til þjóðarsáttar sem stjórnvöld og bankarnir gátu gripið.
Hinir ráðdeildarsömu tapa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 4.12.2010 kl. 00:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
3.12.2010 | 13:45
Hvað kostar að afskrifa sokkinn kostnað?
Á háskólaárum mínum í Bandaríkjunum fékk hópur, sem ég var í, einu sinni það verkefni að meta kostnað við lagfæringu á biluðu kerfi. Viðkomandi fyrirtæki stóð frammi fyrir því að mjög dýr vél var ekki að virka og meta átti kosti aðgerða. Einn var að gera við vélina, annar að skipta henni út fyrir nýja. Við skoðun reyndist síðari kosturinn hagkvæmari, þar sem breytingin á vélinni myndi kosta meira en ný vél sem uppfyllti skilyrði. Þessi niðurstaða fór fyrir brjóstið á yfirmönnum, þar sem með því væri að þeirra mati verið að kasta háum upphæðum út um gluggann. Við bentum þeim á að það væri hreinlega rangt. Peningarnir sem fóru í að kaupa vélina væru löngu farnir og því skiptu þeir ekki máli. Þetta væri sokkinn kostnaður. Það eina sem skipti máli væri því kostnaður í framtíðinni.
Þessi saga hefur rifjast aftur og aftur upp fyrir mér á undanförnum 30 mánuðum eða svo. Staða fjármálafyrirtækja er nefnilega sú, að þau standa frammi fyrir sokknum kostnaði. Ákveðinn hluti lána í lánasöfnum þeirra er glatað fé, sokkinn kostnaður. Það skiptir því engu máli hvaða brögðum fjármálafyrirtækin beita, þessi peningur mun ekki rata inn á reikninga þeirra. Þetta vita þau mjög vel, enda er bókfært virði þessara lána mun lægra en innheimtuvirði. Það skiptir heldur ekki máli, að bankarnir hafi ekki þegar notað afsláttinn í eitthvað annað, sokkni kostnaður vegna annarra lána hverfur ekki, þó menn hafi notað allan afsláttinn. Í þeim tilfellum verða bankarnir annað hvort að bera þennan kostnað sjálfir eða snúa sér til kröfuhafa og gera þeim grein fyrir stöðunni.
Þær aðgerðir sem ríkisstjórnin og fjármálafyrirtækin kynntu í dag snerust að miklu leiti um að viðurkenna sokkinn kostnað. Það má því með sanni segja, að þær kosti ekki neitt, ef notuð er röksemdarfærslan að ofan um biluðu vélina. Kostnaður bankanna vegna lánanna er allur löngu fallinn til. Ok, hugsanlega er eitthvað smávegis að bætast við. Arnar Sigurmundsson viðurkenndi að það væru vanskil og útlánatöp og þar með væri þar sokkinn kostnaður. Íbúðalánasjóður viðurkennir að sokkinn kostnaður hans sé a.m.k. 25 ma.kr.
Út frá því að sokkinn kostnaður eigi ekki að kostnaðarmetast í nýrri ákvörðun, þá er "kostnaður" fjármálafyrirtækjanna, lífeyrissjóðanna og Íbúðalánasjóðs af aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar vel innan við 40 ma.kr., þar af eru 16 ma.kr. vegna hærri vaxtabóta.
Kostar banka og sparisjóði 90 milljarðar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
3.12.2010 | 12:59
Áhugaverður fréttamannafundur
Ég var að hlusta á fréttamann fund ríkisstjórnarinnar, fjármálafyrirtækjanna og lífeyrissjóðanna. Margt áhugavert koma fram, en skemmtilegast var þó að fylgjast með því hvernig þau tipluðu í kringum tölur eins og þær væru baneitraðar.
Guðjón Rúnarsson hjá Samtökum fjármálafyrirtækja sagði þó að "kostnaður" fjármálafyrirtækjanna væri um 90 ma.kr., Jóhanna sagðist áætla að 2/3 félli á bankana og 1/3 á Íbúðalánasjóð og lífeyrissjóðina og Arnar Sigurmundsson áætlaði að hlutur lífeyrissjóðanna væri 1/3 af 1/3 eða á bilinu 10 - 15 ma.kr. Miðað við að 2/3=90 ma.kr., þá er 1/3=45 ma.kr. og heildarkostnaður 135 ma.kr. Hlutur Íbúðalánasjóðs er áætlaður 30 ma.kr. og lífeyrissjóðanna 15 ma.kr. Þar höfum við það.
Arnar Sigurmundsson var vandræðalegur þegar hann var að lýsa kostnaði og áhrifum. Hann fór þvert á allt sem hann hefur sagt áður á fundum sem ég hef setið. Valdi hann í staðinn að ganga í smiðju okkar hjá Hagsmunasamtökum heimilanna um að innheimta lána verði betri, að sumt væri hvort eð er tapað og að þetta hefði nú óveruleg áhrif á réttindi sjóðfélaga. Ég get ekki skilið að 27 ma.kr. leiðrétting setti allt á annan endann, en 15 ma.kr. leiðrétting skipti engum máli.
Ég vil fagna þessu útspili stjórnvalda, en lýsa samt yfir ótta mínum um að verið sé að skilja ákveðna hópa eftir við ókleifan hamarinn. Niðurstaðan er að farið er í að afskrifa sokkinn kostnað, en þó ekki allan, og ekki krónu umfram það. Svo er það náttúrulega hópurinn sem lifir undir fátæktarmörkum og getur ekki framfleytt sér hvað þá greitt húsnæðiskostnað.
Skuldir færðar niður í 110% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.12.2010 | 10:13
Afstaða PwC til endurskoðunar vekur undrun mína
Ég get ekki annað en furðað mig á því viðhorfi PwC til ytri endurskoðunar, að hlutverk fyrirtækisins sé eingöngu að skoða gögn sem lögð eru fram án þess að sannreyna að þau séu rétt. Raunar trúi ég því ekki að fyrirtækið hafi almennt viðhaft slík vinnubrögð, þó það hafi opinberlega haldið slíku fram. Hér hefur eitthvað skolast til. Ég neita að trúa öðru.
Nú starfa ég m.a. við úttektir og hef fylgst með vinnu innlendra og erlendra úttektarmanna. Í öllum þeim úttektum hefur mikilvægasti þáttur úttektanna snúist um að sannreyna gildi upplýsinga. Ekki að efast um hlutirnir séu réttir, heldur fá að skoða undirliggjandi gögn til að rekja hvernig komist var að niðurstöðunni. Fá að sjá skjöl, rekja slóð ákvarðana, fara yfir útreikninga (þar sem það á við), sannreyna niðurstöðuna. Hingað til hef ég upplifað alls konar hluti, allt frá því að menn lesi yfir það sem þeir fá í hendur og kvitta upp á án þess að sýna nokkra þekkingu á því sem þeir eru að gera, til þess að slóðin er rakin lið fyrir lið til að skilja helstu undirliggjandi þætti.
Úttekt, hvort sem hún heitir endurskoðun, innri úttekt eða vottunarúttekt er alltaf byggð á stikkprufum. Ekki er hægt að ætlast til þess að menn skoði allt sem þarf að skoða, en mikilvægt er að veigamestu atriðin séu skoðuð minnst árlega og tekin sé stikkprufa úr öllum þáttum starfseminnar (sem úttekt/endurskoðun nær til) á nokkurra ára tímabili. Úttekt/endurskoðun getur aldrei byggst á því að taka orð eða tölur á blaði trúanlegt án þess að staðreyna hlutina.
Krefur PwC um bætur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
3.12.2010 | 09:37
Tapaðar skuldir afskrifaðar en aðrir sitja að mestu uppi með tjón sitt
Verði þessi aðgerðapakki stjórnvalda og fjármálafyrirtækja hins vegar að veruleika, þá ber því að fagna. Ég hefði viljað sjá aðra útfærslu, en ætla ekki að láta eins og frekur krakka með því að fara í fýlu. Virða verður allt sem gert er.
Í frétt Morgunblaðsins er slegið á tölur og þó þær séu ekki alveg nákvæmar samkvæmt þeim gögn um sem ég hef aðgang að, þá er stærðargráðan nokkuð nærri lagi (sjá færslu hér í gær Markmið og árangur af aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar). Hafa skal í huga að samkvæmt reikningsskilareglum fjármálafyrirtækja, þá ber þeim að færa á varúðarreikning útistandandi lán sem eru umfram trygginguna að baki láninu. Strangt til tekið eru fjármálafyrirtækin eingöngu að gera slíkt og síðan færa fyrningarfrest kröfunnar niður í 0 ár. Vegna þeirra lána sem fara í gegn um sértæka skuldaaðlögun, þá er verið að setja fyrningarfrestinn á 3 ár með möguleika á að fyrning verði rofin fyrir lok þess tíma.
Vaxtabætur og vaxtabótaauki er aftur alveg nýtt framlag. Samkvæmt því sem fram hefur komið í fjölmiðlum ætlar ríkisstjórnin að hætta við að lækka vaxtabætur um 2 ma.kr., en halda sig við ný tekju- og eignamörk. Þá hefur verið rætt um ótekjutengdan vaxtabótaauka upp á 6 ma.kr. sem á að fjármagna með skatti á fjármálafyrirtæki. Loks heyrðist mér Jóhanna nefna það í fréttum í gær, að stefnt sé að því að lækka vexti húsnæðislána. Verði það ofan á, þá er það líklegast mesta kjarabótin í þessum aðgerðum.
Gallinn við aðgerðapakkann er að þeir hógværu sitja uppi með hækkun höfuðstóls lána sinna. Leiðrétting þeirra felst í lækkun vaxta (ef af henni verður), en hún kemur til allra. Aðgerðapakkinn mismunar lántökum því gróflega eftir því hvað þeir skuldsettu sig mikið. Hættan við þetta er líka, að einhverjir í hópi hinna hógværu séu komnir í greiðsluvanda, þó skuldsetning þeirra sé ekki mikil. Vaxtalækkunin slær á þennan greiðsluvanda, en ekki víst að hún leysi hann alveg.
Þar sem augu manna hafa nær eingöngu beinst að húsnæðislánum, þá finnst mér rétt að draga athyglina að öðrum skuldum heimilanna. Þær eru um 700 ma.kr. Þetta er tifandi tímasprengja sem ekki verður slökkt á nema með afnámi verðtryggingar á neytendalánum (þar með húsnæðislánum) og verulegri launahækkun. Síðan þarf að verða hugarfarsbreyting í þjóðfélaginu. Við verðum að fara að breyta neyslu úr kreditneyslu í debetneyslu. Þá er ég ekki að tala um að hætta að nota kreditkort og nota bara debetkort, heldur að það sé til peningur fyrir neyslunni þegar hún á sér stað.
Í lokin verð ég að fjalla um skattlagningu séreignarlífeyrissparnaðar. Svo aumingjalegt sem það nú er, þá lítur fjármálaráðuneytið svo á, að séreignarlífeyrissparnað eigi helst ekki að skattleggja í neðsta skattþrepi. Hann eigi hreinlega að verða til þess að fólk greiði tekjuskatt í hærri skattþrepi. Mér hefur alltaf fundist þetta fáránlegt og hef ítrekað, fyrir hönd Hagsmunasamtaka heimilanna, í umsögnum til og á fundum nefnda Alþingis lagt til að úttekt á séreignarlífeyrissparnaði væri skattlög í lægsta skattþrepi og hefði ekki áhrif á skattþrep annarra tekna. Mér finnst það í hæsta máta óeðlilegt að ríkið níðist á fólki með sköttum, þegar það er að reyna að bjarga efnahag sínum.
Rætt um verulegar afskriftir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.12.2010 | 14:28
Grein frá Hagsmunasamtökum heimilanna
Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna hafa farið þess á leit við mig að ég veki athygli á grein á vef samtakanna. Ég tek það fram að ég kom ekki að ritun hennar, þó vísað sé í mína vinnu. Ég hvet fók til að lesa greinina svo það geti kynnt sér málflutning samtakanna milliliðalaust. Hér er fyrsti hluti greinarinnar, en aðfararorð og afganginn er hægt með því að smella á tengilinn neðst.
HVATNINGARPAKKI HEIMILANNA
Hagsmunasamtök heimilanna lögðu fram tillögur sínar um efnahagsaðgerð til leiðréttingar á skuldum heimilanna strax í janúar 2009. Núverandi tillögur að þjóðarsátt eru byggðar á þeim tillögum. Í grunninn hafa tillögurnar ekki breyst vegna þess að þær hafa staðist tímans tönn og í reynd hefur sýnt sig að varnaðarorð HH áttu við rök að styðjast. Megin markmið aðgerða eru tvö: Upprisa efnahagslífs og réttlæti/sanngirni.
Fasteignamarkaðurinn er enn botnfrosinn, neysla dregst enn saman, raunskatttekjur og velta samfélagsins hafa dregist saman (6,8% samdráttur 2009). Atvinnuleysi eykst og vel menntað og hæft fólk flytur úr landi (atgerfisflótti). Samdrátturinn er mun meiri en hann þyrfti að vera. Eina ástæðan fyrir því að dregið hefur lítillega úr atvinnuleysi á tímabili er útflutningur vinnuafls (megin útflutningsvara íslendinga nú um stundir að því er virðist).
Spurt er, hvað kostar?
Hagsmunasamtök heimilana spyrja á móti hvað kostar að fara ekki í þær aðgerðir sem samtökin leggja til. Sú spurning er mun mikilvægari og nú höfum við hluta sönnunargagnanna fyrir augunum. Hafa þarf í huga að ásetningur kerfisins er að láta heimilin greiða kostnað af óráðsíu banka og slæmri efnahagsstjórn. Kostnaðurinn er því lántaka fasteignalána að óbreyttu og HH hefur bent á að sá reikningur sé ekki bara óréttlátur heldur einnig óskynsamlegur. Sá reikningur kemur í ýmsum formum margfaldur til baka á ríkissjóð, fjármálafyrirtæki og samfélagið allt. Við höfum nú aðeins séð rétt í toppinn á þeim borgunarísjaka (gæti farið yfir 1.000 mja, þ.a. 500 mja. færsla eigna frá heimilum til fjármálastofnana til að bæta þeim eigin afglöp samkvæmt grein Agnars Jón Ágústssonar, 73.000 heimili eignalaus 2011).
Lesa greinina í heild á heimasíðu HH
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (17.9.): 0
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 31
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 28
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði