11.3.2013 | 21:43
Ver verðtrygging sparnað landsmanna?
Allir eru líklegast sammála því að mikilvægt er að verja sparnað landsmanna. Hef ég verið þar í fararbroddi frá því haustið 2008. Munurinn á mér og mörgum öðrum er að ég vildi freista þess að verja eins og kostur er allan sparnað.
Ég byrjaði strax eftir að Glitnir var tekin yfir að spyrja hvort hægt hefði verið að verja eign almennra hluthafa, þó fagfjárfestar hefðu tapað sínu. Mánuðina á undan hafði ég vakið athygli á skuldavanda heimilanna og bent á að eign heimilanna í húsnæði sínu væri hluti af sparnaði þeirra. Ég setti spurning við að valfrjáls sparnaður í bönkunum hafi verið varinn með neyðarlögunum, en lögbundinn sparnaður í lífeyrissjóðunum var látinn rýrna.
Tilefni þessara skrifa er grein Hrafns Magnússonar í Morgunblaðinu í dag. Í grein sinni eyðir Hrafn stóru plássi undir 34 ára gamalt mál og undanfara þess. Næst förum við að ræða umferðaröryggi út frá reynslunni af vinstri umferð!
En fyrst Hrafn telur að speki okkur eldri manna eigi erindi við okkur, þá langar mig að vitna í orð enn eldri manna, en þeirra sem Hrafn vitnar til. Hér er um að ræða umsögn Landsbanka Íslands frá 1966 um frumvarp að lögum, þar sem ætlunin var að veita heimild til verðtryggingar.
Samþykkt þessara ákvæða, þótt aðeins sé i heimildarformi, getur aðeins vakið tálvonir um úrlausnir eftir ófærum leiðum og dregið athyglina frá aðalatriðinu, að til er ein örugg leið til verðtryggingar á sparifé, sem sé að forðast það, sem verðrýrnuninni veldur, sjálfa verðbólguna.
Það var sem sagt skoðun þeirra sem teljast til kynslóðar afa minna og amma að verðtrygging sparifjár fæli bara í sér tálvonir.
Ólafslög og afleiðing þeirra
Það er alveg hárrétt hjá Hrafni að Ólafslögum var ætlað að bregðast við miklum vanda sem var í hagkerfinu. Það er líka rétt að sparnaður fólks í formi bankainnstæðna brann upp á árunum áður en lögin voru sett, en í staðinn jókst sparnaður fólks hratt í steinsteypunni. Er því ekki viss um að heildarsparnaður hafi lækkað á þessum árum, hann færðist til. Sjálfur tapaði ég stórum hluta fermingapeninga minna á verðbólgubálinu.
Ólafslögin hægðu ekki á verðbólgunni. Nei, þau juku á hraða hennar.
Skoðum nokkrar tölur um verðbólgu:
Grafið sýnir meðalverðbólgu hvers árs á tímabilinu 1940-2012. Á miðju þessu tímabili sjáum við ógnvaldinn mikla, þ.e. óðaverðbólguna á 8. og 9. áratugnum. Spyrjum okkur núna hverju breytti verðtryggingin? Síðustu fimm árin áður en verðtryggingin var lögleidd, þá var meðalverðbólgan 40,1% og 29,4% síðustu 10 árin. Fyrstu fimm árin eftir að verðtryggingin var lögleidd var meðalverðbólgan hins vegar 55,6% og 39,7% fyrstu 10 árin. Færa má fyrir því nokkuð gild rök að verðtryggingin hafi aukið verðbólguhraðann en ekki dregið úr honum. En látum það nú vera. Skoðum tímabilið frá 1940 til 1970. Á því tímabili var meðalársverðbólga 11,2% og þrátt fyrir það lögðust bankastjórar Landsbanka Íslands hf. gegn því (sbr. tilvísaða umsögn að ofan) að veitt væri heimild í lögum fyrir verðtryggingu.
Ég get alveg skilið að illa brenndir sparifjáreigendur hafi tekið verðtryggingunni fagnandi árið 1979, en þörfin fyrir verðtrygginguna hvarf árið 1992, þegar meðalársverðbólgan fór niður í 4,0%.
Stöðugleiki en skuldasöfnun
Tímabilið frá 1992 til 2007 er það tímabil í lýðveldissögunni sem hefur haft mestan stöðugleika verðlags. Maður hefði því haldið að þetta ætti að vera það tímabil þegar mest eignarmyndun hefði orðið hjá almenningi. Þegar maður aftur skoðar þetta tímabil, þá getur verið að eignir hafi hækkað í verði, en þær lítið gert annað en að halda í við skuldir. Aðeins 2005, 2006 og 2007 (þ.e. bóluárin) varð einhver marktækur viðsnúningur á því að skuldir jukust jafnt og þétt sem hlutfall af virði fasteigna. Úr því að vera 25% árið 1990 upp í að vera 43% árið 2008 (sjá meðfylgjandi mynd) og raunar upp í um 47% fyrir árið 2010, sem er síðasta árið sem ég hef ár áreiðanlegar tölur fyrir.
Þessi mynd er fengin úr verðtryggingarskýrslunni sem Gylfi Magnússon lét gera.
Hér er eðlilegast að álykta, að verðtryggingin skipti miklu máli við að hækka skuldir heimilanna, þar sem á mest öllu þessu tímabili stóðu húsnæðiskaupendum bara til boða verðtryggð lán.
Í árslok 2011 voru verðtryggðar skuldir heimilanna metnar vera um 1.285 milljarðar kr. samkvæmt upplýsingum sem ég sótti á vef Seðlabankans, þegar ég var að undirbúa erindi á fundi um verðtrygginguna í janúar 2012. Þó ekki sé hægt að lesa það beint út úr tölum SÍ hve verðbætur eru stór hluti af þessari tölu, þá má samt nálgast þessa tölu með einföldum útreikningi. Sá útreikningur leiddi mig að þeirri niðurstöðu að þessi tala skiptist í 600 ma.kr. sem teknir voru að láni og 685 ma.kr. sem bæst höfðu ofan á lánin sem verðbætur! Þetta er skýringin á því að eignarmyndun er svo hæg. Heimilin ná ekki einu sinni að halda í skottið á verðbótunum sem hrannast á skuldir þeirra.
Verðtrygging og sparnaður
Margir af helstu postulum verðtryggingarinnar halda því statt og stöðugt fram að án verðtryggingarinnar, þá muni sparnaður fólks brenna upp. Byrjum nú á því að skilgreina í hverju sparnaður fólks felst.
Almenningur á sparnað sinn í m.a. eftirfarandi formi:
- Fé í banka. Áætlað er að einstaklingar eigi um 1.200 milljarða kr. á innlánsreikningum í bönkum, þar af 214 ma.kr. verðtryggt. Kemur þó í ljós að megnið af innstæðum er í eigum mjög lítils hluta þjóðarinnar og flestir eiga lítið sem ekkert sparifé.
- Lífeyrissparnaður. Samkvæmt nýjustu tölum eru eignir lífeyrissjóðanna upp á nálæt 2.500 ma.kr.
- Húsnæði. Hátt í 90% heimila býr í eigin húsnæði. (Kannski ég ætti að setja eigin innan gæsalappa.) Miðað við að húsnæðisskuldir eru nálægt 1.300 ma.kr. og þær eru um 47% af fasteignavirði, þá eiga heimilin tæplega 1.500 ma.kr. í húsnæði sínu miðað við fasteignamat. Sé miðað við markaðsvirði, þá er þessi tala eitthvað hærri. Þrátt fyrir þetta er fólk á aldrinum 25-45 ára með neikvæða eign upp á 80 ma.kr. samkvæmt nýlegum gögnum.
- Aðrar eignir. Þetta er óræð tala sem ég ætla ekki að giska á, en í henni eru bílaeign, peningabréf, verðbréf, hlutabréf, listmunir, sumarhús og margt annað sem heimilin eiga.
Af þessum eignum er ótrúlega lítill hluti háður verðtryggingunni. Fæstir eru með sparifé sitt á verðtryggðum reikningum vegna binditímans. Ekki má verðtryggja reikninga nema féð sé bundið í lágmarkstíma, sem er einhver ár. (Verð að viðurkenna vanþekkingu mína á þessu, þar sem ég hef ekki getað leyft að geyma fé á verðtryggðum reikningi í líklegast 17 ár!) En sem sagt mjög lítill hluti sparifjár í bönkum er verðtryggður. Þá er það lífeyririnn. Ein alræmdasta þjóðsagan sem gengur í þjóðfélaginu er að lífeyrir sé verðtryggður. Þetta er tóm þvæla. Ef lífeyrir væri verðtryggður, þá mætti ekki skerða hann eða hækka. Hann fylgdi bara verðbólgunni. Þeir sem fá greiddan lífeyri vita að þannig gerast ekki kaupin á eyrinni. Húsnæðið er ekki verðtryggt, en það eru aftur skuldirnar! Eina leiðin til að fólk vilji halda áfram að greiða af skuldum sínum hefur falist í því að fasteignaverð haldi í við hækkun skulda. Á því er misbrestur um þessar mundir og hefur gerst áður, eftir að verðtryggingin var tekin upp. Þá eru það aðrar eignir og öll vitum við að þær eru ekki verðtryggðar.
Það er því ótrúlega lífseig lygasaga að verðtryggingin sé til að vernda sparnað.
Verðtryggingin sparifjár og lífeyrissjóðirnir
Á 8. áratugnum var, eins og áður hefur komið fram, umtalsverð verðbólga í landinu. Hún nældist um 1650% og þá tek ég meðalvísitölu ársins 1980 og ber saman við meðalvísitölu ársins 1970. Næsta áratug á eftir, þegar verðtryggingin var á fullu, þá reyndist verðbólgan um 1700%. Sem sagt verðtryggingin vann ekkert á verðbólgunni. Hún jók hana ef eitthvað var! En hvernig var þetta á áratugunum á undan? Á þeim 5. var verðbólgan um 230%, 89% á þeim 6. og 210% á þeim sjöunda. Síðustu tvo áratugi hefur hún svo verið 37% á þeim 10. og 82% á þeim síðasta. Við höfum sem sagt verið með lægri verðbólgu síðustu 20 ár, en þau 30 áður en allt fór úr böndunum vegna lélegrar hagstjórnar. Og það var einmitt á seinni hluta þessara 30 ára sem bankastjórar Landsbanka Íslands töluðu um að eina leiðin til að verðtryggja spariféð væri að losna við verðbólguna.
Eins og fyrirkomulag verðtryggingarinnar er í dag, þá er varla hægt að tala um að sparifé sé verðtryggt. Viljum við nefna hlutina réttum nöfnum, þá eru það fjárfestingar í tilteknu formi verðbréfa sem eru verðtryggðar. Lífeyrissjóðirnir eru mjög stórir eigendur verðtryggðra fjárskuldbindinga og liggja á bilinu 6-700 milljarðar (ef ekki meira) í verðtryggðum skuldabréfum ÍLS. Þá er rétt að spyrja sig að því hvaða máli skipta þessar eignir fyrir lífeyrissjóðina.
Ég bý nú ekki yfir sömu þekkingu á eignasöfnum lífeyrissjóðanna og Hrafn Magnússon gerir, en ég þarf svo sem ekki þá þekkingu til að sjá í hverju vöxtur eigna lífeyrissjóðanna hefur legið undanfarin 10 ár eða svo (og svo bý ég að því að hafa kynnt mér þetta aðeins). Á árunum 2002-2007 var mjög verulegur hluti ávöxtunar lífeyrissjóðanna í óverðtryggðum eignum. Um tíma var vöxtur óverðtryggðra eigna sjóðanna svo ör, að þeir voru í vandræðum með að halda sig innan fjárfestingarstefnu sinnar! Nú árið 2008 var allt í mínus hjá sjóðunum nema verðtryggðu eignirnar. Síðustu fjögur ár eru það aftur óverðtryggðar eignir sem færa mestu ávöxtunina og svo einstaka gjafagjörningar af hálfu fyrrverandi fjármálaráðherra. Í dag mælti svo núverandi fjármála- og efnahagsráðherra fyrir frumvarpi sem miðar að því að veita lífeyrissjóðunum rétt til að fjárfesta í enn meira af óverðtryggðum eignum!
Að loknum - Bara verið að tala um neytendalán
Þetta er orðin löng grein, en áður en ég hætti, þá verð ég að fá að hnýta í nokkur atriði í grein Hrafns. (Tek það fram að ég þekki Hrafn ekki af neinu nema góðu, hvort heldur þegar hann var framkvæmdastjóri Landsamtaka lífeyrissjóða eða þegar ég á spjall við hann í Salalaug.) Ég er búinn að benda á að atlaga að verðtryggingunni kemur atlögu að sparnaði landsmanna ekkert við. Já, skuldavandi heimilanna er verðtryggingunni að kenna, vegna þess að væru heimilin bara að kljást við verðbólguna án verðtryggingarinnar, þá væri enginn skuldavandi. Hrafn bendir á að verðtryggður sparnaður heimilanna nemi 214 milljörðum, en ég vil í staðinn benda á að verðtryggðar skuldir nema á milli 1.200 - 1.300 milljörðum. Hvort ætli skipti meira máli fyrir heimilin að verðtryggja 214 ma.kr. eða losna við verðtryggingu af 1.200 ma.kr.?
Varðandi verðtryggðar eignir lífeyrissjóðanna, þá erum við sem berjumst fyrir afnámi verðtryggingarinnar, bara að tala um afnám hennar gagnvart neytendalánum. Séum verðtryggðar eignir lífeyrissjóðanna um 1.500 ma.kr., þá hljóta aðrar eignir en beint eða óbeint í neytendalánum að vera um helmingur tölunnar.
Hrafn talar um að lánþegar hafi verið að sligast undan greiðslubyrði óverðtryggðra lána áður en verðtryggingin var sett á árið 1979. Útlánsvextir voru heil 20%. Árið 1979 var meðalverðbólga 43,9%, þannig að 20% vextir voru hrein gjöf hafi launaþróun fylgt verðbólgunni. Ég man enn þegar karl faðir minn fór og greiddi af húsnæðisláni hjá SPRON. Hann átti eftir að greiða einhvera 5 gjalddaga og afborgunin var upp á minnir mig 250 kr. (gamlar). Bætum 20% vöxtum af 1.250 kr. ofan á og heildargreiðslan var 500 kr. Það var um einn þriðji af tímakaupi mínu þetta sumar!
Það er bjarnargreiði að lána ungu fólki verðtryggt til langs tíma. Flest ungt fólk mun skipta um húsnæði innan nokkurra ára, þegar fjölgað hefur í fjölskyldunni. Fyrir það er ekkert lánsform óhagstæðara en einmitt það verðtryggða. Ástæðan er einfaldlega sú gildra sem felst í verðtryggingunni, þ.e. að fyrstu árin bætir hressilega á höfuðstólinn og eftirstöðvarnar hækka hratt. Við sölu, þá situr fólk uppi með að hafa greitt háar fjárhæðir í stuttan tíma, en eftirstöðvarnar hafa hækkað mun meira. Það er í þessu sem mestur hagnaður fjármálafyrirtækja af verðtryggingunni felst. Þ.e. að lánin séu greidd upp á fyrri hluta lánstímans, áður en afborganahluti lánsins fer að verða ráðandi hluti greiðslunnar.
Hrafn vill ekki tilraunastarfsemi. Við þessu vil ég segja: Árið 1979 var farið af stað með tilraun, þ.e. verðtryggingu fjárskuldbindinga, sparnaðar og launa. Fjórum árum síðar áttuðu menn sig á því að verðtrygging launa var feigðarflan. Almennt sparifé hefur ekki verið verðtryggt í mjög mörg ár, heldur eingöngu það sparifé sem innstæðueigendur vilja binda til langs tíma. Einnig hefur verið horfið frá verðtryggingu fjárskuldbindinga til skamms tíma, þ.e. innan við 5 ára. Menn hafa sem sagt smátt og smátt komist að því, að tilraunin sem hófst 1979 var ekki eins vel heppnuð og búist var við. Nú eru aðeins tveir flokkar hennar eftir og þó ég myndi helst vilja að báðir yrðu slegnir af, þá nægir mér að sett verði bann við verðtryggingu langtíma fjárskuldbindinga neytenda. Ég held nefnilega að sömu rök gildi um verðtryggingu miðað við vísitölu neysluverðs og verðtryggingu miðað við gengi, að þeir einu eiga að vera með verðtryggðar skuldir sem eru með verðtryggðar tekjur.
Viðurkennum þá staðreynd, að tilraunin sem hófst með Ólafslögum er komin á endastöð. Hún misheppnaðist kannski ekki fyrr en menn kunnu ekki að blása hana af!
Verjum sparnað landsmanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Efnahagsmál | Breytt 5.12.2013 kl. 23:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
5.3.2013 | 20:07
Ósanngjarna skilmála í neytendasamningi ber að fella niður óbætta
Þessi færsla er skrifuð í tilefni greinar Jóns Steinar Gunnlaugssonar í Morgunblaðinu í dag. Í grein sinni tiltekur hann 7 punkta sem eiga að styðja það, að heimilin borgi stökkbreyttar kröfur fjármálastofnana, þó að kröfurnar séu að hluta til komnar vegna lögbrota þessara sömu stofnana eða eldri kennitölu nýrra stofnana. Mig langar að bæta við minnst einum punkti sem virkar neytendum í hag.
Í úrskurði sínum í máli C-618/10 talar Evrópudómstóllinn (ECJ) um ósanngjarna skilmála (unfair terms) í neytenda samningum. Hann telur að ákvæði um 27% dráttarvexti sé ósanngjarn skilmáli í lánssamningi! Mér þætti áhugavert að fá álit ECJ á sanngirni verðtryggingarinnar í íslenskum neytenda samningum eða Seðlabankavaxta, þ.m.t. dráttarvaxta og stýrivaxta Seðlabankans í gegn um tíðina Verst er að við Íslendingar getum ekki leitað til ECJ nema í afbrigðilegum tilfellum. Við getum hins vegar leitað til ESA og EFTA dómstólsins. Leiðin til EFTA dómstólsins er eingöngu fær í tveimur tilvikum, þ.e. að mál sé höfðað fyrir dómstólnum eða að íslenskir dómstólar leiti til dómstólsins. Hingað til hefur Hæstiréttur ýmist neitað því að leita til EFTA dómstólsins eða komið í veg fyrir að Héraðsdómur Reykjavíkur leitaði til EFTA dómstólsins.
Í úrskurði sínum í máli C-618/10 segir ECJ, að landsdómstólar (national courts) eigi að hafa frumkvæði af því að taka upp neytendaverndarákvæði í umfjöllun sinni um málefni neytenda. Þetta er svo sem ekki í fyrsta skiptið sem ECJ segir þetta. Ég man hins vegar ekki til þess að Hæstiréttur hafi gert það, en hef svo sem ekki kynnt mér nema tillölulega fá mál sem fyrir réttin hafa farið.
Í máli 471/2010 um vexti gengistryggðra lána, þá teygði Hæstiréttur sig mjög langt til að sniðganga neytendarétt. Rétturinn gerði það fyrst með því að sniðganga lög um neytendavernd, þ.e. c-lið 36.gr. laga nr. 7/1936, en í greininni segir: "Ef [ósanngjörnum] skilmála er vikið til hliðar í heild eða að hluta, eða breytt, skal samningurinn að kröfu neytanda gilda að öðru leyti án breytinga verði hann efndur án skilmálans." Þetta ákvæði er í tilskipun 93/13/EEC sem ECJ vísar til þegar hann ákveður í máli C-618/10 að í staðinn fyrir 27% vanskilavexti komi engir vextir! Hæstiréttur ákvað hins vegar Seðlabankavexti með vísan til 4.gr. laga 38/2001, þrátt fyrir að í 2.gr. laganna segi að 4.gr. sé frávíkjanleg og tiltekur sérstaklega sé það til hagsbóta fyrir skuldara megi ekki bara víkja frá þeirri grein heldur öllum greinum laganna! Hæstiréttur fór sem sagt gjörsamlega öfuga leið miðað við Evrópudómstólinn, þ.e. úrskurðaði um vexti sem voru íþyngjandi fyrir skuldara, þrátt fyrir að hann hefði lagaheimild til að bregðast á annan hátt við.
Höfum í huga að Hæstiréttur ógilti verðtryggingarákvæði gengistryggðra lánasamninga með dómum sínum í málum 92/2010 og 153/2010 þann 16. júní 2010. Þar með var ljóst, að ekkert mátti koma í staðinn fyrir verðtryggingarákvæðið, a.m.k. ekki í neytendasamningum. Hann gekk síðan lengra í dómi sínum í máli 471/2010, þar sem hann ákveður að vextir áður gengistryggðra lána séu óaðskiljanlegur hluti hins ólöglega (ósanngjarna) skilmála. Þar með segir rétturinn að hinn ósanngjarni skilmáli sé bæði vextirnir og gengistryggingin. (Hér náttúrulega geng ég út frá því að ólöglegt ákvæði sé í leiðinni ósanngjarnt.) Ef marka má úrskurð ECJ í máli C-618/10, þá skal ekkert koma í staðinn fyrir skilmálana sem vikið var til hliðar og það þrátt fyrir að lög á Spáni leyfðu dómstólum að ákveða nýja vexti. Þau lög mátti ekki nýta þegar neytandi átti í hlut (sjá síðar). (Veit ekkert hvort annað gildir um fyrirtæki/lögaðila.) Lánin sem voru áður gengistryggðu hefðu því átt að vera óverðtryggð og vaxtalaus, ef Hæstiréttur hefði komist að sömu niðurstöðu og ECJ. Nú segir einhver, en hvað með vaxtaálagið? Eins og ég skil dóm Hæstaréttar í máli 471/2010, þá vék rétturinn því líka til hliðar, þannig að lánin ættu ekki einu sinni að bera vaxtaálagið. Rétturinn segir jú í dómi sínum:
Með því að þar greindum fyrirmælum um hæð þeirra verður samkvæmt framansögðu ekki beitt er óhjákvæmilegt að líta svo á að atvik svari hér til þess að samið hafi verið um að greiða vexti af peningakröfu án þess að tiltaka hverjir þeir skyldu vera. Samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001 skulu vextir þegar svo stendur á vera á hverjum tíma jafnháir vöxtum, sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir eru samkvæmt 10. gr. laganna.
Sem sagt ekkert um vaxtaálag. Þetta er gott og blessað, en ef við tökum núna úrskurð ECJ í máli C-618/10, þá hefur rétturinn ekki heimild til að nýta ákvæði vaxtalaga til að ákveða vexti sem ekki eru tilteknir. Að mati ECJ kemur 1 töluliður 6. greinar tilskipunar 93/13 í veg fyrir það, en hún var leidd í lög hér á landi með c-lið 36. gr. laga 7/1936. Sjá um hvað ECJ segir í úrskurði sínum:
In the light of the foregoing, the answer to the second question is that Article 6(1) of Directive 93/13 must be interpreted as precluding legislation of a Member State, such as Article 83 of Legislative Decree 1/2007, which allows a national court, in the case where it finds that an unfair term in a contract concluded between a seller or supplier and a consumer is void, to modify that contract by revising the content of that term.
(Í ljósi þess sem segir að framan, er svarið við annarri spurningu að grein 6 (1) í tilskipun 93/13 beri að túlka sem svo að hún gangi framar lögum í aðildarríki, eins og grein 83 í lögum 1/2007, sem leyfir landsrétti, þegar hann hefur komist að þeirri niðurstöðu að ósanngjarn skilmáli í samningi milli seljanda eða birgja og neytanda sé ógildur, að breyta samningnum með því að endurskoða þetta ákvæði.)
Hér segir Evrópudómstóllinn nokkuð afdráttarlaust, að neytendavernd hafi meira vægi en lög á borð við lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Neytendavernd dómarans fyrrverandi
Ég verð að viðurkenna, að mér finnst áhugavert hvernig dómarinn fyrrverandi lítur á neytendavernd. Sé neytandi beittur órétti, þá á hann ekki að geta fengið mál sín leiðrétt nema einhver annar borgi. Ég hef ávallt borið virðingu fyrir lagakunnáttu Jóns Steinars og tel hann snjallan lögmann. Mér þætti hins vegar áhugavert að vita hvers vegna hann telur neytendur ekki eiga að njóta verndar samkvæmt lögum og Evrópurétti og að sá sem eignast kröfu byggða á ósanngjörnum ákvæðum eigi að njóta vafans.
Nú skal tekið fram að hæð dráttarvaxtanna, þ.e. 27%, var getið í samningnum í máli C-618/10. Samt voru vextirnir taldir ósanngjarnir. Það er því ekki vörn vegna verðtryggingarinnar að neytendur viti af óstöðugleika eða megi búast við óstöðugleika. Valdi skilmálinn því að neytandinn er krafinn um ósanngjarna greiðslu, þá er hann ósanngjarn þó hann hefði verið meitlaður í stein og staðið þar í þúsund ár eða lengur. Verði verðtryggingin færð niður, þá hafa vissulega einhverjar tekjur tapast, en komist t.d. dómstóll að því að um ósanngjarnan skilmála var að ræða, þá voru tekjurnar bara loftbóla. Og þó svo að svo verði ekki, þá er tiltekinn hluti verðbóta loftbóla sem engin innistæða er fyrir og verður ekki innheimt hvað svo sem mun ganga á.
Neytendavernd | Breytt 6.12.2013 kl. 00:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Í fimm ár hafa heimilin í landinu mátt kljást við mikla hækkun lána sinna. Þessa hækkun má rekja til umfangsmikilla lögbrota sem fram voru af eigendum og stjórnendum Glitnis, Kaupþings og Landsbanka Íslands og fjölmargra annarra smærri fjármálafyrirtækja á árunum 2004 til ársbyrjunar 2008, sem hélt svo áfram hjá þessum sömu aðilum fram að hruni og hjá nýjum fjármálafyrirtækjum og þrotabúum hinna eftir hrun. Enn eru heimilin í gíslingu núverandi fjármálafyrirtækja og þrotabúa annarra vegna þess að þau neita að virða niðurstöður dómstóla og halda áfram að innheimta kröfur sem dómstólar hafa dæmt ógildar.
Ég er einn af stofnendum Hagsmunasamtaka heimilanna (HH) og verið mjög virkur í baráttu samtakanna fyrir réttlæti fyrir heimili landsins. Í okkar umfjöllun um úrræði fyrir heimilin ákváðum við að útiloka hugsunina "þetta er ekki hægt". Í staðinn veltum við okkur alltaf fyrir okkur "hvernig er þetta hægt". M.a. í því skyni lögðu HH ítrekað fram tillögur um bæði hvað þyrfti að gera og hvernig væri hægt að hlutina. Sem dæmi um þær hugmyndir sem HH lögðu fram eru:
- Nýtt húsnæðislánakerfi
- Afnám verðtryggingar á neytendalánum í þrepum
- Leiðrétting á lánum heimilanna með afskriftarsjóði
Allra þessar hugmyndir voru vel framkvæmanlegar, enda lá mikil vinna að baki þeim. En í staðinn fyrir að menn veltu fyrir sér hvernig þetta væri hægt, þegar þeir reyndust ósammála okkar nálgun, þá var bara sagt: "Ekki hægt!" Aldrei var sagt: "Við erum ekki sammála ykkar nálgun, en við höfum áhuga á að ræða við ykkur nánar um hugmyndina og finna út hvernig má framkvæma þetta." Nei, í staðinn var rætt við einhverja allt aðra aðila sem höfðu þveröfuga hagsmuni. Eða það héldu þeir a.m.k. HH hefur nefnilega alltaf litið á það sem sameiginlega hagsmuni fjármálafyrirtækja og viðskiptavina þeirra, að leysa þannig úr málum að báðir aðilar geti gengið sáttir frá borði og að viðskiptasamband aðila geti haldið áfram vegna vilja beggja til að viðhalda því.
Ekki hægt
Um þremur og hálfu ári eftir að HH lagði fram tillögur um nýtt húsnæðiskerfi kemur ASÍ loks með einhverjar tillögur. Ekkert hefur heyrst frá ríkisstjórninni, þrátt fyrir að ljóst er að Íbúðalánasjóður stendur á brauðfótum. Hugmyndir HH voru afgreiddar sem ekki hægt eða ekki þess virði að ræða um.
Afnám verðtryggingarinnar kom út úr þverpólitískri vinnu sem HH efndu til í ársbyrjun 2010. Allir flokkar sendu fulltrúa sína í þessa vinnu og aðeins einn fulltrúi Sjálfstæðisflokksins vildi ekki fara þá leið. Allir aðrir í hópnum sem fjölluðu um framtíð verðtryggingarinnar voru sammála niðurstöðunni, þar á meðal aðrir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins. Þessar tillögur voru síðan kynntar, en niðurstaða eins og alltaf: "Ekki hægt!" Ekki einu sinni spurt: "Er til önnur útfærsla?" Tekið fram að hugmyndin snerist eingöngu um afnám verðtryggingar á neytendalán. Núna þremur árum síðar, þegar öllum er ljós hvers konar skaðvaldur verðtryggingin er, þá eru fleiri orðnir hlynntir tillögunni, en enn er stór hópur sem segir: "Ekki hægt!"
Þá er það leiðrétting á lánum heimilanna. Ef lánin hefðu verið leiðrétt strax í febrúar, mars 2009, þá hefði kostnaðurinn af leiðréttingu verðtryggðra lána verið verið líklegast innan við 150 ma.kr. Í dag kostar sambærileg leiðrétting ekki undir 200 ma.kr., en taka verður tillit til þess að þegar er búið að leiðrétta sem nemur minnst 50 ma.kr. sem gerir það að verkum að 200 ma.kr. standa eftir. Vissulega stóð styrinn fyrir þremur árum líka um gengistryggð lán, þar sem farið var fram á mun hóflegri leiðréttingu en dómstólar síðan komust að niðurstöðu um að leiðréttingin ætti að vera.
Alltaf hefur verið sagt. "Ekki hægt!" en á sama tíma hefur verið hægt að leiðrétta og afskrifa háar upphæðir hjá nánast öllum öðrum í þjóðfélaginu. Þá hefur ekki verið sagt: "Ekki hægt!" Nei, þegar kemur að kvótagreifum eða lífeyrissjóðum, þá virðist allt vera hægt. Ríkissjóður gaf lífeyrissjóðunum t.d. 30 ma.kr. í tengslum við svo kölluð Avens bréf. Ríkissjóður notaði 180 ma.kr. eða var það 270 ma.kr. til að kaupa ónýt bréf af Seðlabankanum, en þau hefði mátt nota til að færa niður lán heimilanna. Ríkissjóður samdi um yfirfærslu eigna milli gömlu og nýju bankanna, þar sem kröfuhöfum var gefinn kostur á viðbótargreiðslu upp á 400 ma.kr., upphæð sem hefði gert betur en duga til að leiðrétta öll lán heimilanna.
Hreyfingin hefur þrisvar lagt fram tillögu mína og HH um afskriftarsjóð, þar sem Íbúðalánasjóði er hlíft algjörlega og útgjöld lífeyrissjóðanna eru í lágmarki. Þessi hugmynd var fyrst sett fram í nóvember 2010 í séráliti mínu sem fulltrúa HH í sérfræðingahópi um skuldamál heimilanna. En þetta er ekki hægt!
Minnst tvö framboð til Alþingis núna í vor hafa leiðréttingar á skuldum heimilanna á stefnuskrá sinni. Er ég þá að vísa til Dögunar og Framsóknar. Úrtölufólk er þegar farið að afgreiða hugmyndir Framsóknar, sem "ekki hægt"-tillögu. Skýjaborg sem ekki er hægt að hrinda í framkvæmd. Engum dettur í hug að spyrja: "Hvernig getum við látið þetta virka?" Nei, "ekki hægt"-fólkið hefur greinilega öll völdin í þjóðfélaginu, a.m.k. þegar kemur að því að leiðrétta skuldir heimilanna.
Þegar hins vegar kemur að því að ganga á heimilin í landinu, þá virðist þetta sama fólk vera komið í liðin "auðvitað er þetta hægt" og "að sjálfsögðu er þetta leyfilegt". Stjórnvöld og Sjálfstæðisflokkurinn hafa t.d. stutt fjármálafyrirtækin leynt og ljóst í því að innheimta ólöglegar kröfur vegna áður gengistryggðra lána. Veit ekki hvort þeim finnst þau vera fulltrúar fjármálaaflanna á þingi, en það lítur þannig út (með heiðarlegum undantekningum). Ekki hafa þessir aðilar tekið upp hanskann fyrir heimilin í málflutningi á Alþingi og hafi það verið gert, þá sést það bara orði en ekki verkum. Formaður Sjálfstæðisflokksins afgreiddi hugmyndir HH mjög hratt og afdráttarlaust á fundi HH með þingflokki Sjálfstæðisflokksins 8. október, 2010. "Þetta verður aldrei samþykkt. Þetta verður aldrei gert." Og hann var ekki að lýsa skoðun sinni á hugsanlegum viðbrögðum ríkisstjórnarflokkanna við tillögum HH. Nei, hann var að lýsa eigin afstöðu (eða var það afstaða flokksins) til tillagnanna. Settu þessi afdráttarlausu viðbrögð þingmenn flokksins í nokkurn vanda, þó einum þeirra hafi nú tekist að bæta um betur, þegar hann sagði: "Verðtrygging er blessun!" Án þess að segja hver það var, þá get ég þó staðfest að hann mun vart sitja á næsta þingi.
Afstaða formannsins á þessum fundi kom mér verulega á óvart, þar sem nánast ári áður, 12.10.2009, þá voru forsvarsmenn HH beðnir um að hitta þingflokk Sjálfstæðisflokksins í Valhöll og þar kvað við allt annan tón. Þá talaði Bjarni um þörf fyrir almennar aðgerðir, þverpólitíska laun, viðhalda ekki bara greiðsluviljanum, heldur líka von og tilgangi. Hann taldi líka tillögur HH vera skref í rétta átt (ekki alveg sama útfærsla og ári síðar). Velti fyrir sér hvaða vit væri í því að halda áfram að borga þegar allt eigið fé væri horfið og sagði skuldaleiðréttinguna nauðsynlega. (Ég skrifa niður glósur á öllum fundum, þannig að þetta er beint eftir Bjarna haft.) Ég velti því fyrir mér hvort þetta væri sami maðurinn sem ég væri að tala við í október 2010 og sá sem ég talaði við ári fyrr. Kannski var Bjarni bara svo upptekinn af því, að gera ekki þá vitleysu, eins og hann gerði nokkrum mánuðum síðar, þegar hann, að sögn Ólafar Nordal, varaformanns flokksins, steig þau mjög svo óvanalegu skref, af "foringja í stjórnarandstöðu, að standa með því sem hann telur rétt fyrir þjóðina"! Já, það er erfitt að vera í stjórnarandstöðu og mega ekki fylgja hjartanu, heldur verður að passa sig á því að koma ekki með neinar jákvæðar tillögur. (Þarna var Ólöf að lýsa afstöðu Bjarna til Icesave samningsins og við vitum öll hvernig sú vegferð fór.)
Höfum ekkert við úrtölufólk að gera
Ég verð að viðurkenna, að ég er orðinn nokkuð úrkula vonar að heimilin munu fá réttlæti í frá stjórnvöldum, hvort sem um er að ræða núverandi ríkisstjórn eða sú sem tekur við eftir kosningar. Eins og ég hef bent á, hefur aðeins eitt framboð af þeim sem gera má ráð fyrir að hafi einhverja vigt á Alþingi eftir næstu kosningar, leiðréttingu á skuldum heimilanna á stefnuskrá sinni. Og úrtölufólkið úr Sjálfstæðisflokki, Samfylkingu og VG er strax farið að segja "ekki hægt" í annarri hverri setningu. Nákvæmlega eins og það hefur gert allt þetta kjörtímabil. Gerir fólk sér ekki grein fyrir hvert úrræðaleysi núverandi ríkisstjórnar er að leiða samfélagið. Það getur vel verið að einhverjir aðilar séu í ágætum málum, t.d. hafa Álfheiður Ingadóttir, Pétur Blöndal og Árni Páll Árnason öll lýst því yfir í mín eyru að þau þurfi engar leiðréttingar lána. Álfheiður og Árni sögðust alveg ráða við að greiða tjónið sem lögbrjótarnir ollu þeim og líklegast skuldaði Pétur ekkert. En staðreyndin er að stór hluti heimila landsins, er í verulega skertri stöðu miðað við fyrir hrun og gæti þegið að hluti byrða hrunsins verði lyft af öxlum þeirra.
Hreyfingin hefur í þrígang lagt fram tillögu á Alþingi sem gengur út á að leiðrétta verðtryggð lán heimilanna. Þó leiðréttingin sé ekki mikil, sem hlutfall af ýmsum öðrum afskriftum, gjafagjörningum og leiðréttingum sem runnið hafa auðveldlega í gegn um kerfið, þá koma stjórnvöld í vegi fyrir því að tillaga Hreyfingarinnar fari í gegn um þingið. Almenningur virðist ekki vera meðvitaður um þessa tillögu Hreyfingarinnar, miðað við hvað þingmenn hennar njóta takmarkaðs stuðnings meðal kjósenda. Kannski kemur það í veg fyrir framgang tillögunnar á þingi, að ég er ráðgjafi Hreyfingarinnar í málinu og tillaga er upprunin hjá Hagsmunasamtökum heimilanna. Ég skora á fólk, þegar það fer á framboðsfundi á næstu vikum að spyrja frambjóðendur flokkanna sem eiga fulltrúa á þingi: "Hvað hefur þinn flokkur gert til að leita lausna á skuldavanda heimilanna?", "Hvers vegna hefur þinn flokkur ekki stutt tillögu Hreyfingarinnar um bjargráðasjóð vegna skuldavanda heimilanna?" Ekki leyfa þeim að komast upp með það svar að tillögurnar séu ekki raunhæfar, því það er rangt svar. Tillögurnar eru ekki bara raunhæfar. Þær eru nauðsynlegt skref í björgun Íbúðalánasjóðs og munu koma í veg fyrir að ríkissjóður þurfi að leggja ÍLS til 100-200 milljarða króna á næstu árum. Bara þetta síðasta ætti að vera góð og gild ástæða fyrir því að samþykkja tillögu Hreyfingarinnar og hrinda henni í framkvæmd.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
24.2.2013 | 17:37
Tjón lífeyrisþega af hruninu leyst með tillögu Gylfa A fyrir lántaka
Skuldamál heimilanna | Breytt 6.12.2013 kl. 00:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.2.2013 | 09:05
Dauði verðtryggðra neytendalána
Neytendavernd | Breytt 6.12.2013 kl. 00:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
1.2.2013 | 18:34
Landsbanki Íslands átti alla sök á Icesave og falli sínu
Icesave | Breytt 6.12.2013 kl. 00:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
28.1.2013 | 14:15
Ábyrgð ríkissjóðs á Icesave hafnað
Icesave | Breytt 6.12.2013 kl. 00:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
25.1.2013 | 19:55
Allt tekið að láni - Endurbirt færsla
HRUNIÐ | Breytt 6.12.2013 kl. 00:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
6.1.2013 | 23:42
Á ósvífnin sér engin takmörk?
Lánamál | Breytt 6.12.2013 kl. 00:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (37)
4.1.2013 | 00:50
Eldfjöll á Íslandi - Allt frá hurðasprengjum upp í stærstu bombur en ekki dómsdagssprengjur
Áhættustjórnun | Breytt 6.12.2013 kl. 00:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
19.12.2012 | 01:20
Eftirlitsnefnd með sértækri skuldaaðlögun enn með rangar forsendur
Skuldamál heimilanna | Breytt 6.12.2013 kl. 00:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
8.12.2012 | 19:14
Hann stóð svo vel til höggsins
Dægurmál | Breytt 6.12.2013 kl. 00:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
28.11.2012 | 22:01
Óverðtryggður og verðtryggður vandi Íbúðalánasjóðs
Íbúðalánasjóður | Breytt 6.12.2013 kl. 00:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.11.2012 | 21:41
Endurútreikningar áður gengistryggðra lána - Taka 55
Lánamál | Breytt 6.12.2013 kl. 00:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
14.11.2012 | 20:14
Einelti - Sagan sem ég ætlaði aldrei að segja
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
8.11.2012 | 22:35
Dómur með mikið fordæmisgildi
Lánamál | Breytt 6.12.2013 kl. 00:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
31.10.2012 | 21:41
Af endurútreikningi og vöxtum áður gengistryggðra lána
Lánamál | Breytt 6.12.2013 kl. 00:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
27.10.2012 | 23:47
Greiðsluvandi þjóðarbúsins - Hvað er til ráða?
Snjóhengjur | Breytt 6.12.2013 kl. 00:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
26.10.2012 | 16:02
Mótbárur sendar fjármálastofnun - endurbirt færsla
Lánamál | Breytt 6.12.2013 kl. 00:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
Snjóhengjur | Breytt 6.12.2013 kl. 00:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (15.1.): 4
- Sl. sólarhring: 7
- Sl. viku: 21
- Frá upphafi: 1681251
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 20
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði