31.10.2012 | 21:41
Af endurútreikningi og vöxtum áður gengistryggðra lána
Ég hef fengið nokkrar fyrirspurnir um áhrif dóms Hæstaréttar í máli 464/2012 á áður gengistryggð lán. Í staðinn fyrir að svara hverjum og einum, þá langar mig að koma með eina ýtarlega greiningu á dómnum og fleiri vinklum á stöðu áður gengistryggðra neytendalána (og lánum fyrirtækja að hluta).
Hvað sagði Hæstiréttur?
Gera verður skýran greinarmun á niðurstöðu Hæstaréttar og síðan rökleiðslu réttarins. Rökleiðsla er leið réttarins að niðurstöðu, en hvorki niðurstaða né er hægt að draga víðtækar ályktanir á rökleiðslunni.
Niðurstaða réttarins er tvíþætt. Sú fyrri er:
..Þótt ekkert þeirra atriða, sem að framan greinir, geti ráðið úrslitum eitt og sér, verður að líta svo á þegar þau eru öll virt í heild að það standi stefnda nær en áfrýjanda að bera þann vaxtamun, sem deilt er um í málinu og hlaust af hinni ólögmætu gengistryggingu. Er því fallist á með áfrýjanda að sá rangi lagaskilningur sem lá að baki lögskiptum hans og Sparisjóðs Mýrasýslu í upphafi verði í uppgjöri aðila einungis leiðréttur til framtíðar. Af því leiðir að stefndi getur ekki krafið áfrýjanda um viðbótargreiðslur vegna þegar greiddra vaxta aftur í tímann.
Hin síðari snýr að eignarrétti skuldara og gildi laga 151/2010:
..Með almennum lögum er ekki unnt með íþyngjandi hætti að hrófla á afturvirkan veg við réttarreglum um efni skuldbindinga og greiðslu skulda frá því sem gilti þegar til þeirra var stofnað og af þeim greitt, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 600/2011. Færi slíkt í bága við þá vernd eignarréttinda sem leiðir af 72. gr. stjórnarskrárinnar. Af þessum sökum fá nefnd lög [151/2010] ekki haggað þeirri niðurstöðu sem komist var að hér að framan.
Bæði þessi atriði eru nákvæmlega þau sömu og komu fram í dómi Hæstaréttar í máli 600/2011, þ.e. máli Elviru og Sigga gegn Dróma. Þetta ætti því ekki að koma á óvart og hefur ekkert með neytendarétt að gera. Annað snýr að kröfurétti og hitt að eignaréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Málið verður fyrst áhugavert, þegar við bætum neytendaréttinum við.
Hvað þýðir þetta fyrir lántaka?
Spurningarnar sem við stöndum frammi fyrir eru nokkrar, en þó er ekki víst að við þurfum að svara þeim öllum.
1. Eiga vextir að halda áfram að vera með LIBOR tengingu í samræmi við þá myntkörfu sem skilgreind var í upphaflegum lánasamningi eða síðari breytingu á myntsamsetningu hafi hún átt sér stað?
2. Ef ekki, hvaða vextir eiga að gilda?
3. Frá hvaða tíma eiga nýir vextir að taka gildi?
Í mínum huga er svar við spurningu 1 hreint og beint JÁ. Rökin eru: Samkvæmt neytendaverndartilskipun ESB 93/13/EEC, þá skal víkja ósanngjörnum skilmálum til hliðar en ekki breyta öðru sé samningurinn efnalegur á þann hátt. Því liggur í augum uppi að LIBOR vextir eigi að halda sér á samningunum í sömu hlutföllum og áður. Hafi lán borið 50% japanska vexti og 50% svissneska með 2% vaxtaálagi við upphaf samnings, þá skal samningurinn áfram bera 50/50 vexti viðmiðunarmyntanna og síðan það vaxtaálag sem er í gildi. Hæstiréttur hafði ekki leyfi til að hrófla við þessu, þar sem hann hafði ekkert með það að gera að finna "sanngjarna" vexti til að vega upp á móti tjóninu sem fjármálafyrirtækið varð fyrir. (Sjá nánar um þetta neðar, þar sem ég fjalla um dóm Evrópudómstólsins í máli C-618/10.)
En ef LIBOR tengingin á að víkja, hvað þá? Á þessu eru tvær hliðar. Önnur er sú sem Hæstiréttur er að rembast við að draga fram í dómum sínum og hin er sú sem ég lýsir síðar í pistlinum.
Hæstiréttur komst að því í dómum 600/2011 og 464/2012 að rangur lagaskilningur yrði bara leiðréttur til framtíðar og að fjármálafyrirtækin ættu að bera hallann af vaxtamuninum. Þá er spurningin hvaða vexti lánin eiga að taka og frá hvaða degi. Varðandi fyrra atriðið, þá komst Hæstiréttur að því í máli 471/2010, að Seðlabankavextir ættu að koma í staðinn fyrir samningsvexti. Þessu er ég ósammála, en látum mína skoðun liggja á milli hluta. Næst er því að skoða frá hvaða degi Seðlabankavextirnir eiga að gilda.
Dagsetningarnar sem koma til greina eru:
- Lántökudagur
- 16. júní 2010, þegar gengistrygging var dæmd ólögleg í Hæstarétti
- 16. september 2010, þegar Hæstiréttur kvað úr um vexti gengistryggðs bílaláns (471/2010)
- 28. desember 2010, þegar lög nr. 151/2010 tóku gildi
- 14. febrúar 2011, þegar Hæstiréttur kvað upp dóm í málum 603 og 604/2010
- 15. febrúar 2012, þegar dómur gekk í máli 600/2011
- 18. október 2012, þegar dómur gekk í máli 464/2012
- einhver önnur dagsetning
Allar þessar dagsetningar koma til greina og raunar má segja að í dómum í málum 471/2010, 603/2010, 604/2010, 600/2011 og 464/2012 þá togist á hjá Hæstarétti hver þessi dagsetning er. Í máli 471/2010, þá voru vextir endurreiknaðir til lántökudags og viðurkennd krafa Lýsingar sem byggði á þeim útreikningum. Gallinn við það mál, var að ekki voru lagðir nægilega margir möguleikar fyrir Hæstarétt. Kröfurnar hljóðuðu bara upp á allan tímann fyrir hverja þá vexti sem lagðir voru til. Og þar sem Hæstiréttur getur bara valið úr þeim kröfum sem reistar eru fyrir dómnum, þá hafði hann nánast ekkert val.
Næst er það 28. desember 2010. Á þessum degi taka gildi lög sem gjörbreyta samningum milli aðila. Hæstiréttur úrskurðar í dómum 600/2011 og 464/2012 að almenn lög geti ekki haft afturvirk áhrif. En geta þau haft framvirk áhrif? Er mögulegt að lögin geti breytt vöxtunum til framtíðar, þó þau geti ekki breytt þeim til fortíðar? Þetta er möguleiki sem ég vil ekki útloka, en Hæstiréttur kemst að gagnstæðri niðurstöðu í málum 600/2011 og 464/2012.
Dómar 603 og 604/2010 kveða úr um ólögmæti lánasamninga til lengri tíma og Hæstiréttur kemst að þeirri niðurstöðu að þeir skuli líka bera Seðlabankavexti, en segir ekki frá hvaða tíma. Því þurfti að stefna aftur og í dómi 600/2011 fæst loksins dagsetning, þ.e. 14. febrúar 2011, en á þeim degi var leiðréttur sá rangi lagaskilningur sem var um vexti áður gengistryggðra lána. Í dómi 464/2012 er síðan vísað til þeirrar dagsetningar og aðalkrafa Borgarbyggðar miðar við þá dagsetningu.
Loks hefur því verið haldið fram að dagsetning vaxtabreytinga ráðist af því hvort lán hafi verið í skilum eða ekki. Því er ég ósammála, eins og ég fjalla um næst.
Hvaða vexti og af hvaða fjárhæð?
Ég get ekki séð að leyst hafi verið út þeirri óvissu hvaða vexti eigi í raun að reikna af áður gengistryggðum lánum, a.m.k. eru menn eitthvað að ruglast með hver höfuðstólsfjárhæðin eigi að vera. Miðað við útreikningana sem lagðir voru fyrir Hæstarétt í máli 464/2012, þá virðist mér sem þar sé boðið upp á að greiddir vextir gildi þó svo að höfuðstólsfjárhæð skuldarinnar hafi lækkað. Mér finnst þetta ekki geta staðist miðað við orð Hæstaréttar um að rangur lagaskilningur verði bara leiðréttur til framtíðar. Hafi Borgarbyggð greitt 4% vexti af láni sem stóð í 200 m.kr., þá á Borgarbyggð áfram að borga 4% vexti þó svo að höfuðstóllinn haldi ekki lengur gengistryggingunni sinni. Fyrir þann sem greiddi í fleiri ár vexti af gengisuppreiknuðum höfuðstóli, þá munar þetta talsverðu. Segjum að höfuðstóll áður gengistryggðs láns lækki um 10 m.kr. 4% af 10 m.kr. eru 400 þúsund kr. og það í 4 ár gerir 1,6 m.kr. Í mínum huga fer ekkert á milli mála, að lántakinn hefur í þessu tilfelli ofgreitt vextina og á að fá þá endurgreidda í samræmi viðákvæði vaxtalaga.
Mörg dæmi eru um að gengi á lántökudegi var hærra, en á einstökum gjalddögum. Í þeim tilfellum gilda þeir vextir sem innheimtir voru fyrir þá gjalddaga. Er það byggt á því að ekki skal greiða hærri vexti en krafist var.
Hvað með lán sem ekki voru í skilum?
Lánin í málum 600/2011 og 464/2012 voru bæði í skilum og því telja sumir að fordæmi dómanna nái ekki lána sem ekki voru í skilum. Ég held að það standist ekki kröfurétt.
Leið lánveitanda til að fá bætur fyrir drátt á greiðslu er í gegn um dráttarvexti. Og ekki bara hvaða dráttarvexti sem er, heldur þá dráttarvexti sem lánssamningurinn tiltekur að eigi að gilda. Hafi lánveitandinn sent lántaka kröfu um greiðslu, þar sem tilgreind er skipting milli vaxta, afborgunar og annars kostnaðar, þá verður því ekki breytt. Drátturinn á greiðslu getur hins vegar veitt lánveitandanum rétt til að krefjast dráttarvaxta af greiðslunni sem átti að inna af hendi. Ekki af höfuðstólnum öllum, heldur bara hverri gjalddagagreiðslu sem hefur dregist fram yfir samningabundinn gjalddaga. Svo segir í bókinn Kaflar úr kröfurétti eftir Ólaf Lárusson.
Að lántaki eigi að greiða margfalda samningsvexti (og margfalda dráttarvexti) vegna þess, að lánveitandi hafi reynt að kúga af honum fé með því að rukka hann um mun hærri upphæð, en lög sögðu til um, stenst engan veginn. Ástæða þess að flestir hættu að greiða af lánum sínum var annars vegar sú trú lántaka að gengistryggingin væri ólögleg og lántakar biðu eftir því að fá greiðsluseðla með réttum upphæðum og hins vegar vegna þess að fólk hafði fengið frystingar á lán sín. Hið síðara hefur ekkert með vanskil að gera, þar sem greiðsla í frystingu er í skilum samkvæmt ákvæðum frystingarinnar og í lok frystingarinnar var vöxtum á frystingartímanum bætt ofan á eftirstöðvar lánsins og því voru vextirnir greiddir með því að fá lán fyrir þeim. Vissulega má segja að hið fyrra hafi verið vanskil, en svo ég tali fyrir sjálfan mig, þá skoraði ég á minn banka að senda mér rétta greiðsluseðla. Áskorun sem hann varð ekki við.
Mál ECJ C-618/10 og Hæstaréttardómur 471/2010
Dómur gekk í máli C-618/10 við Evrópudómstólinn þann 14. júní sl. Var dómurinn samhljóma forúrskurði lögsögumann dómstólsins frá 14. febrúar 2012. Í staðinn fyrir að vitna beint í dóminn, þá vil ég frekar endursegja niðurstöðuna og styðst í endursögninni við tvær greinar um málið, annars vegar af vefnum lexgo.be og hins vegar europolitics.info en niðurstöður beggja eru nokkuð samhljóma:
Niðurstaða Evrópudómstólsins í máli C-618/10 er að komist dómstóll í aðildarlandi að því að í neytendasamningi séu ósanngjarnir skilmálar, þá ber dómstólnum að víkja þeim ósanngjörnu skilmálum til hliðar, en samninginn skal efna að öðru leiti sé hann efnalegur. Dómstólnum er óheimilt að breyta ósanngjörnu ákvæði, því með geti sterki aðili samningsins hlaðið hann ýmsum ósanngjörnum ákvæðum vitandi að dómstóll muni einfaldlega leiðrétta samninginn til þess sem talist gæti sanngjarnt.
Þannig að dómstóll skal ógildi frekar en lagfæra ósanngjörn ákvæði í neytendasamningi.
Þetta atriði er sérlega áhugavert, þegar það er sett í samhengi við niðurstöðu Hæstaréttar í máli 471/2010. Þar komst Hæstiréttur nefnilega að því að gengistrygging og LIBOR vextir væru með svo órjúfanleg tengsl, að væri gengistryggingin dæmd ógild, þá leiddi af því að LIBOR vextir gætu ekki lengur haldið. Samkvæmt niðurstöðu Evrópudómstólsins í máli C-618/10, þá leiðir niðurstaða Hæstaréttar til þess, að bæði gengistryggingin og vaxtaákvæði áður gengistryggðra samninga eru ógild og ekkert á að koma í staðinn, þar sem samningarnir eru efnalegir án þessara ákvæða. Með því að dæma Seðlabankavextina á samningana í stað LIBOR vaxta var Hæstiréttur (samkvæmt ECJ) að ganga gegn neytendaverndartilskipun ESB og taka að sér að bjarga sterkari aðila samningsins frá stöðu sem hann hafði sjálfur komið sér í með því að bjóða upp á lánasamninga með ólöglegri gengistryggingu.
Er hægt að endurreikna lánin strax?
Það er mín skoðun, að hægt sé að endurreikna öll lán nú þegar. Þó svo að endanlegar leiðbeiningar vanti frá Hæstarétti um allt sem viðkemur endurútreikningunum, þá hefur Hæstiréttur samt sagt nóg til þess að leiðrétta má höfuðstólsstöðu lánanna fram að þeim tíma sem vanskil áttu sér 2008 og síðar. Þannig geta fjármálafyrirtækin endurreiknað fyrir tímabilið frá lántökudegi fram að þeim tíma þegar hætt var að greiða af láni og vanskil urðu. Hafi lán farið í frystingu, þá telst lánið í skilum samanber það sem ég sagði að ofan.
Hafi verið greitt af láni fram yfir dóm 604/2011, þá er ekki hægt að tala um vanskil.
Fyrir þann sem tók gengistryggt lán 2004 og fékk brjálæðislega háan bakreikning við fyrri endurútreikning þýðir endurútreikningur allt fram til ársbyrjun 2010 (svo dæmi sé tekið) líklega um 40% lækkun eftirstöðva. Í þeim tilfellum sem skuldaraskipti hafa orðið á slíkum lánum, myndi fyrri skuldari/skuldarar losna undan skuld, sem ranglega var á þá reiknuð.
Vegna þess tímabils sem ágreiningur er um, þá þyrfti viðkomandi lánveitandi að bíða frekari niðurstöðu Hæstaréttar. Það ætti samt ekki að koma í veg fyrir að tímabilið fram til ársbyrjunar 2008 og jafnvel lengur sé endurreiknað í samræmi við leiðbeiningar Hæstaréttar í dómi 464/2012. Búið er að halda nógu mörgum nógu lengi í gíslingu, þó ekki sé viljandi verið að lengja þann tíma.
Niðurstaða
Mín niðurstaða er frekar einföld. Hvað varðar neytendur, þá skulu samningsvextir lána haldast og þeir reiknast allan lánstímann af höfuðstóli (eftirstöðvum) lánsins eins og það hafi verið allan tímann í íslenskum krónum. Þó skal aldrei greiða hærri vexti fyrir hvern gjalddaga, en greitt var samkvæmt greiðsluseðli/greiðslutilkynningu frá lánveitanda að viðbættum hverjum þeim dráttarvöxtum og öðrum kostnaði sem á gjalddagagreiðsluna lagðist hverju sinni. (Hafa skal í huga, að lög 151/2010 breyttu þessu, þannig að greiddir dráttarvextir og annar kostnaður telst til innborgunar á höfuðstól.) Þetta þýðir að hverfa þarf frá fordæmi dóms 471/2010 hvað neytendur varðar og leita í staðinn eftir fordæmi í dómi Evrópudómstólsins í máli C-618/10.
Hvað varðar lögaðila, þá má líklegast skipta þeim í tvo hópa. Annar hópurinn er þeir sem hafa í raun stöðu neytenda, hinn er aftur lögaðilar sem ekki er hægt að segja að hafi stöðu neytenda. Um fyrri hópinn gildir það sem ég segi að ofan. Um hinn hópinn gildir það sama fram að dómi Hæstaréttar 14. febrúar 2011, en eftir það gilda vextir Seðlabankans.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (11.11.): 1
- Sl. sólarhring: 5
- Sl. viku: 67
- Frá upphafi: 1679959
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 61
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Sælir
Þú hefur líklega gert meira en nokkur "pólitíkus" til að koma fólki í skilning um þessi mál og fær rök fyrir þínu máli.
Vont að ekki skyldi vera hægt að fá lífeyrissjóðina til að taka á sig leiðréttingar og hafa "68 kynslóðina enn í silkipappír.
bk
Magnús
Magnús Ólafsson (IP-tala skráð) 1.11.2012 kl. 13:10
Mjög góð greining hjá þér Marínó. Eitt er samt erfitt að sjá fyrir sér. Það er hvernig Hæstiréttur snúi við fordæmi sínu um seðlabankavexti eins og þú segir:
,,Þetta þýðir að hverfa þarf frá fordæmi dóms 471/2010 hvað neytendur varðar og leita í staðinn eftir fordæmi í dómi Evrópudómstólsins í máli C-618/10."
Þýðir þetta þá að lánþegar leiti með þetta efni aftur í ágreining með vísun í nýja dóma Evrópudómstólsins?
Ágúst (IP-tala skráð) 1.11.2012 kl. 17:57
Blessaður sendu þessa grein á stjórnarheimilið, þar á bæ eru menn í tómu tjóni eftir að hafa þegið ráð þeirra fjárfreku.
Jónas Jónsson (IP-tala skráð) 1.11.2012 kl. 20:35
Jónas, ég held að stjórnarheimilið vakti skrif mín. A.m.k. fæ ég alls konar glósur frá þeirri hlið, ef ég hef potað í kýli sem er við það að springa.
Takk, Magnús. Lífeyrissjóðirnir munu gefa eftir smátt og smátt, eins og bankarnir hafa þegar leiðrétt lán um litla 300 milljarða án þess að viðurkenna kröfur HH og fleiri. Sigurinn sem vinnst á hljóðlátan hátt er alveg eins sætur og sá sem vinnst með hvelli.
Marinó G. Njálsson, 1.11.2012 kl. 21:41
Takk Marinó. Þú lætur ekki deigan síga.
Sigurður Hrellir, 2.11.2012 kl. 13:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.