Leita í fréttum mbl.is

Af hæfi manna - Ósæmilega vegið að Gísla Tryggvasyni, talsmanni neytenda

Sérkennilega staða er komin upp.  Umboðsmaður Alþingis og talmaður neytenda hafa sent Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlit erindi um stjórnvaldsákvarðanir stofnanna til fjármálafyrirtækja um að nota vexti Seðlabankans í stað samningsvaxta á gengistryggð lán.  Umboðsmaður Alþingis segir nánast beint að SÍ og FME skortir lagastoð til að gefa út tilmælin, meðan talsmaður neytenda gengur lengra og segir það undanbragðalaust.  Báðir fjalla um málið út frá málsmeðferðinni, þ.e. viðkomandi stofnanir hafi ekki heimild, samkvæmt lögum og reglum sem um stofnanirnar gilda, til að taka þær stjórnvaldsákvarðanir sem þar um ræðir.  Hvorugur ræðir nokkuð um það hvernig túlka skuli dóm Hæstaréttar.

Þarna eru tvö embætti að gegna starfsskyldum sínum.  Annað er að gæta réttar neytenda og hitt að tryggja að stjórnvald hafi rétt til athafna samkvæmt lögum og jafnvel stjórnarskrá.  Viðbrögð sumra fjölmiðla eru því alleinkennileg.  Allt í einu er efast um hæfi talsmanns neytenda til að fjalla um málið, vegna þess að hann er með gengistryggt lán.

Mér finnst sem ruglað sé saman umfjöllun talsmanns neytenda um málsmeðferð og ákvörðun SÍ og FME um vaxtastig.  Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, er eins og fjölmargir aðrir landsmenn með lán sem hann hefur tekið vegna húsnæðiskaupa.  Ég hef spurt hann út í þetta og hann sagði mér að hann væri með lán hins dæmigerða Íslendings.  Þess vegna hefur hann gætt vel að sér í umfjöllun sinni, sem talsmaður neytenda, að halda sig eingöngu við málsmeðferð og snerta ekki á því hvaða vextir eru réttir.  Ég hef setið með honum marga fundi og þar höfum við vissulega rætt dóm Hæstaréttar, en aldrei hefur hann kveðið úr um það að samningsvextir væru þeir einu vextir sem kæmu til greina, enda væri það Hæstaréttar að ákveða það.  Það sem hann hefur aftur sagt á slíkum fundum er, að á meðan Hæstiréttur væri ekki búinn að kveða upp sinn úrskurð, þá hefði enginn aðili heimild til að grípa inn í það ferli með ákvörðun á borð við þá sem felst í tilmælum SÍ og FME.  Talsmaður neytenda hefur sem sagt fjallað um málsmeðferðina.  Til þess er hann hæfur og til þess er hann bær.  Það er starf hans að lögum.

Tilmæli talsmanns neytenda til fjármálafyrirtækja endurspegla einmitt þessa afstöðu hans.  Í þeim leggur hann til málsmeðferð.  Hún er að fjármálafyrirtæki ákveði lága, fasta greiðslu.  Hann nefnir ekki upphæðina (tillaga að henni kom frá Hagsmunasamtökum heimilanna) og hann víkur sér frá því að segja eitt eða annað um hvaða vextir eiga að gilda.  Tilmæli talsmanns neytenda eru skólabókardæmi um það hvernig hægt er að finna málamiðlun þar sem sneitt er gjörsamlega hjá því að fjalla um ágreiningsefnið.  (Hafa skal í huga að það ferli sem endaði með tilmælum talsmanns neytenda, tilkynningu Hagsmunasamtaka heimilanna og loks ákvörðun Samtaka fjármálafyrirtækja hófst mörgum dögum áður en SÍ og FME sendu út sín tilmæli.)

Þrátt fyrir mjög vönduð vinnubrögð Gísla Tryggvasonar, talsmanns neytenda, þá eru þeir til sem vilja gera hann tortryggilegan.  Hann hljóti að vera að þessu til að lækka sín lán.  Ja, ég segi bara:  Margur heldur mig sig. Við skulum velta því fyrir okkur næst, þegar fréttamenn þessara miðla fjalla um einhver umdeild þjóðfélagsmál, s.s. skattahækkanir, hvort þeir séu hæfir til að fjalla um málefnið.  Það nefnilega snertir þá persónulega!  Nei, ég ætla ekki að ganga svo langt, en þarna er saman líkja.  Embætti talsmanna neytenda mun fjalla um mál, þar sem einstaklingurinn Gísli Tryggvason mun njóta eða líða fyrir niðurstöðu talsmanns neytenda, enda er Gísli Tryggvason neytandi eins og allir aðrir landsmenn.  Á sama hátt er fréttamaðurinn/blaðamaðurinn sem fjallar um þjóðmál, hann er að fjalla um mál sem snerta hann persónulega sem þjóðfélagsþegn.  En að það þýði að viðkomandi sé óhæfur til að fjalla um málin er aftur argasti þvættingur og er þeim til minnkunar sem halda slíku fram.

Að þessi umræða sé komin upp enn einu sinni sýnir að einhver í "kerfinu" er að verja sig og sína hagsmuni.  Þannig er það alltaf.  Raunar er ég hissa á því hvað menn biðu lengi með þetta.  Talsmaður neytenda þykir í þessu tilfelli hentugt skotmark, en það hefðu alveg eins getað verið við hjá Hagsmunasamtökum heimilanna.  Búið er að beita þessari taktík á Björn Þorra Viktorsson og þar vomir stöðugt yfir vötnum saga sem tengist Byr.  Hún tekur sífelldum breytingu eftir því sem hún er sögð oftar og minnir mig á söguna sem fjöðrina sem varð að nokkrum hænum.  Reynt var að smyrja því á okkur hjá Hagsmunasamtökum heimilanna, að við væru stórskuldugt óreiðufólk haldið mikilli áhættufíkn.  Svona mun þetta halda áfram, því miður, vegna þess að einhverjum finnst sér ógnað með baráttu okkar fyrir réttlæti og sanngirni.


Mistök embættismanna og ráðherra kosta skattgreiðendur hugsanlega 100 milljarða - Lán heimilanna eru ekki ástæðan

Það er gott að menn kunni að reikna.  Vandamálið er að það er ári of seint.  Í febrúar í fyrra var fyrst byrjað að vekja athygli á því á opinberum vettvangi að gengistrygging væri hugsanlega ólöglegt form verðtryggingar.  Nú er verið að hóta landsmönnum með því, að eigi túlkun neytenda um að samningsvextir gildi á lánum með ólöglegu gengistryggingunni, þá komi 100 milljarða bakreikningur á skattgreiðendur.

Komi þessi bakreikningur, sem ég hef ekki gögn til að sannreyna, þá er hann eingöngu vegna alvarlegra mistaka og vanrækslu þeirra sem stóðu í samningum fyrir hönd ríkisins við yfirfærslu á lánasöfnum gömlu bankanna til þeirra nýju.  Já, ég segi mistaka og vanrækslu vegna þess að umræðan um hugsanlegt ólögmæti gengistryggingarinnar var komin á fullt í apríl í fyrra.  Birtust greinar eftir og viðtöl við menn sem höfðu efasemdir um lögmæti gengistryggingarinnar í apríl og maí í fyrra og í framhaldi af því voru send bréf á alla sem máli skipti.  Umræðan hélt áfram í allt fyrra sumar og í september varð mikilsvirtur hagfræðingur, Gunnar Tómasson, þátttakandi í henni.  Hann sendi líka ráðamönnum og Alþingismönnum bréf þar sem hann varaði við því að gengistrygging væri ólöglegt form verðtryggingar.  Þeir embættismenn og ráðherrar sem komu að samningum við kröfuhafa bankanna höfðu því öll tækifæri til að gera viðeigandi ráðstafanir.  Falli 100 milljarðar á skattgreiðendur, þá er það ekki því að kenna að fólk leitaði réttar síns.  Nei, það er þeim að kenna sem tóku þátt í samningum fyrir hönd stjórnvalda við kröfuhafa.

Heyrst hefur að ástæða hræðsluáróðursins sé staða Landsbankans.  Hann geti tekið á sig hluta af því höggi sem verði, ef samningsvextirnir verði staðfestir, en ríkissjóður þyrfti að leggja honum til 50 milljarða í aukið eigið fé.  Restin af upphæðinni dreifist á aðra.  Fyrst að því sem gæti dreifst á aðra.  Þurfi ríkissjóður að leggja Arion banka, Íslandsbanka og einhverju öðrum fjármálastofnunum til aukið eigið fé, þá leiðir það óhjákvæmilega til þess að hlutur ríkisins í þessum fyrirtækjum eykst.  Þessir eignarhlutar munu á einhverjum tímapunkti verða seldir og gera má ráð fyrir að ríkið endurheimti því framlag sitt, þegar að þar að kemur.  Landsbankinn er verra mál, en á móti verða eignasöfn hans "innheimtanlegri", þannig að meiri líkur er á að rekstraráætlanir hans standist í framtíðinni.

En eru líkur á því að 100 milljarðar falli á skattgreiðendur?  Eina leiðin til þess að það gerist er að stór hluti lána fyrirtækja falli einnig undir fordæmisgildi dóma Hæstaréttar.  Ástæðan er ekki lán einstaklinga.  Landsbankinn lýst því yfir í fréttatilkynningu frá 5. júlí að hann hafi fengið lán heimilanna með 34% afslætti frá nafnvirði lánanna, þ.e. upphaflegri höfuðstóls fjárhæð lánanna.  Kannski er þessi fréttatilkynning ekki sannleikanum samkvæmt, en þar til annað kemur í ljós, þá stendur hún.  Hafi bankinn fengið öll lánasöfn heimilanna með 34% afslætti frá nafnvirði, þá er frekar ólíklegt að hann ráði ekki við að samningsvextir gildi.  Íslandsbanki segist hafa fengið 47% afslátt af lánasöfnum heimilanna.  Það gefur bankanum umtalsvert svigrúm.  Auk þess kemur fram í gögnum Seðlabanka Íslands, að verðmæti eignaleigusamninga heimilanna hjá bönkunum hafi lækkað úr 22,1 milljarði 30.9.2008 í 4,6 milljarða 31.12.2009.  Það skyldi þó ekki vera að menn hafi gert ráð fyrir niðurstöðu Hæstaréttar.  Svo má ekki gleyma því að öll gengistryggð lán hafa einhver endurskoðunarákvæði vaxta og að þó LIBOR vextir séu lágir í dag, þá voru þeir það ekki sumarið 2008.

Falli 100 milljarðar á skattgreiðendur, þá er það ekki vegna þess að heimilin hafi fengið leiðréttingu sinna mála.  Til þess eru gengisbundin lán heimilanna einfaldlega ekki nógu há.  Samkvæmt tölu Seðlabankans námu þau um 110 milljörðum 31.12.2009.  Nei, ástæðan er gengisbundin lán fyrirtækja.   Þau námu 31.12.2009 um 900 milljörðum kr.

En þrátt fyrir þetta, er líklegt að 100 milljarðar falli á skattgreiðendur?  Ekkert er útilokað, en sé eitthvað að marka tölur Seðlabankans, þá virðist sem bankarnir hafi borð fyrir báru.  Fyrir hrun voru gengisbundin lánasöfn þeirra til einstaklinga og fyrirtækja að upphæð um 1.750 milljarðar, 31.12.2008 hafði þessi tala lækkað í 935 milljarða og 31.12.2009 stóð hún í 775 milljörðum.  Vissulega er búið að afskrifa eitthvað, sérstaklega hjá fyrirtækjum, en ef við miðum við töluna frá 31.12.2008, þá er búið að gera ráð fyrir ríflega 800 milljarða niðurfærslu þessara lána.  Þrátt fyrir að hafi 160 milljarðar bæst við á síðasta ári, þá skiluðu bankarnir þrír á því ári 50 milljarða hagnað eftir skatta!

Niðurstaðan er því sú, að lendi 100 milljarðar á skattgreiðendum vegna þess að gengistryggingin var dæmd ólögmæt, þá er það af tveimur ástæðum:

1. Vegna ótrúlegra mistaka og klúðurs embættismanna og ráðherra

2. Vegna þess að fyrirtæki landsins munu fá sín lán leiðrétt líka

Ástæðan er ekki að heimilin séu skráð fyrir 110 milljörðum í gengisbundnum lánum, sem bankarnir hafa auk þess verið að innheimta eins og lánin standi í rúmum 290 milljörðum.

Loks vil ég mótmæla þeirri orðanotkun að tala um "eignartilfærslu".  Þetta er ekki "eignartilfærsla", vegna þess að bankarnir hafa ekki fært lánin að fullu sem eign í bókum sínum.  Það sem aftur hefur verið í gangi, er að lán heimilanna sem bókfærð eru upp á 110 milljarða hafa verið innheimt eins og þau standi í rúmum 290 milljörðum og bókfærð 670-800 milljarða lán fyrirtækja hafa verið rukkuð eins og þau stand í 1.440 milljörðum.  Það á engin eignatilfærsla sér stað.  Það er aftur spurning hvort með þessu sé verið að koma í veg fyrir að fjármálafyrirtækin búi sér til með grófum hætti framtíðarhagnað á kostnað lántaka.  Þetta er það sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn vildi koma í veg fyrir þegar hann birti í októberskýrslu sinni á síðasta ári súluritin tvö sem ég ætla að birta hér fyrir neðan.  AGS vildi tryggja að afslátturinn sem gömlu bankarnir veittu þeim nýju rynni til lántaka, en ekki til baka til kröfuhafa í gegn um hagnað.  Efri myndin sýnir lán heimilanna, en sú neðri lán fyrirtækja.  Vinstri súlan sýnir upphæð lánanna eins og þau hafa að mestu verið innheimt, hægri súlan (fyrir utan hluta Íbúðalánasjóðs) sýnir upphæð eins og lánin stóðu í bókum fjármálafyrirtækjanna.

gross_and_fair_value_of_household_debt_1007211.jpg

 

gross_and_fair_value_of_corporate_debt_1007212.jpg


mbl.is 350 milljarða tilfærsla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samtök fjármálafyrirtækja verða við tilmælum talsmanns neytenda og tillögum Hagsmunasamtaka heimilanna

Ég get ekki annað en fagnað því að Samtök fjármálafyrirtækja hafa orðið við tilmælum talsmanns neytenda og tillögum Hagsmunasamtaka heimilanna frá síðast liðnum föstudegi.  Fólust tilmæli talsmanns neytenda í því að afborgun gengistryggðra lána miðist við fasta lága krónutölu og gerðu Hagsmunasamtök heimilanna í framhaldinu tillögu að því að sú krónutala væri á bilinu 5.000 - 5.500 kr. á hverja milljón miðað við upprunalegan höfuðstól lánanna.  Samkvæmt útreikningum Hagsmunasamtaka heimilanna ætti sú krónutala í ölum tilfellum að vera lægri en upphæð samkvæmt greiðsluáætlun.

Nú er bara spurningin hvort fjármálafyrirtækin fari eftir því atriði í tillögum Hagsmunasamtaka heimilanna, að ekki þurfi að fara út í skilmálabreytingar með tilheyrandi skjalagerð, þinglýsingu og kostnaði.  Eins verður forvitnilegt að vita hvort þau fjármálafyrirtæki sem eru með bílalán og önnur slík lán verði við því að takmarka greiðslur við 13.500 - 15.000 kr. fyrir hverja upphaflega milljón, eins og Hagsmunasamtök heimilanna lögðu líka til.

Ég lít svo á, að með tilmælum SFF til aðildarfélaga sinna sé nánast búið að grafa tilmæli Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlits.  Sýnir sú niðurstaða sem nú hefur fengist að orð eru til alls vís.  Nokkur samskipti hafa verið milli aðila frá 25. júní um niðurstöðu sem sátt gæti orðið um.  Því komu tilmæli Seðlabanka og FME í síðustu viku á óvart.  En núna skapast vonandi friður í þjóðfélaginu og fólk getur betur notið sumarleyfis síns.

Arion banki á hrós skilið fyrir að bregðast svona skjótt við tilmælum SFF og vona ég að önnur fjármálafyrirtæki bregðist einnig hratt við.  

Ég var ekki fyrr búinn að vista færsluna, en hinir tveir bankarnir tilkynntu að þeir ætla að verða við tilmælum SFF og vil ég einnig hrósa þeim fyrir skjót viðbrögð.


mbl.is Greiði 5000 krónur af hverri milljón
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orðaleikir Steingríms J og Landsbankans

Mér finnst þeir vera með ólíkindum orðaleikir stjórnvalda og Landsbankans varðandi verðmæti og afslætti á lánasöfnum. Nú er tími til kominn að menn hætti þessari vitleysu og fari rétt með tölur. Steingrímur J var í viðtali á Bylgjunni í morgun og...

Tillögur Hagsmunasamtaka heimilanna taka á þessu öllu

Mig langar að vekja athygli á því að Hagsmunasamtök heimilanna sendu út fyrir nærri hálfum mánuði tillögur að uppgjörsreglum sem taka á öllum þeim atriðum sem Lilja rekur í viðtalinu við Morgunblaðið. Langar mig að stikla á stóru í reglunum, en þær er...

BA-gráða í klassískum ballett er komin í hús

Ég verð að monta mig aðeins. Dóttir mín, Sæunn Ýr Marinósdóttir, útskrifaðist sl. fimmtudag með BA-gráðu í klassískum ballett frá einum virtast ballettskóla Evrópu, Ungversku dansakademíunni. Er hún fyrst íslenskra listdansara til að útskrifast með...

Tilmæli um að neytendur njóti vafans - Nú eiga fjármálafyrirtækin næsta leik

Ég fagna ákvörðun talsmanns neytenda að höggva á þann hnút sem Seðlabanki og Fjármálaeftirlit hnýttu í vikunni. Tilmæli hans til fjármálafyrirtækja eru: Efni: Tilmæli til SFF f.h. aðildarfyrirtækja að um að lægri föst krónutala verði innheimt til...

Játning óráðsíumanns og áhættufíkils

Ég fékk í kvöld einu sinni sem oftar þessa klassísku spurningu um áhættusækni þeirra sem tóku gengistryggð lán. Ég er búinn að fá þessa spurningu svo oft að ég hef ákveðið að hætta allri "afneitun" og viðurkenna syndir mínar og mistök. Fyrst er það...

Hvað sagði Hæstiréttur? - Tilmælin virka sem lög

Ég hef á undanförnum dögum heyrt í og rætt við nokkuð stóran hóp lögfræðinga. Með fáum undantekningum er menn sammála um að dómur Hæstaréttar hafi snúist um og takmarkast við þrjú atriði: 1. Voru þeir samningar sem málin snerust um leigusamningar eða...

Fattleysið mitt er með ólíkindum en það tók enda

Enn einn viðburðarríkur dagur er að kveldi kominn og enn einu sinni voru gengistryggð lán mál málanna. Ég er núna búinn að lesa margar fréttir og horfa á sjónvarpsfréttir á báðum stöðvum, hlusta á viðtöl á útvarpsstöðvum og hér á mbl.is. Þrátt fyrir...

Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlit hvetja til lögbrota

Ég trúi ekki mínum eigin augum. Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlit hvetja fjármálafyrirtæki til lögbrota og hafa með því rétt af neytendum. Menn geta haft mismunandi sýn á niðurstöðu Hæstaréttar, en með tilmælum sínum eru Seðlabanki og FME að hvetja...

Nei, afnám reglna fyrir fjármálakerfið hafði EKKERT með frjálshyggjuna að gera

Þessi söguskýring Sambands ungra sjálfstæðismanna er ekki ný á nálinni ig hún er jafn röng núna og þegar hún hefur verið sett fram áður. Hrun efnahagskerfis heimsins og þar með Íslands ristir nefnilega inn í hjartarætur frjálshyggjunnar að...

Lögfræði er um lög en ekki tilfinningar

Mér finnst það með ólíkindum, þegar lektor í hagfræði við háskóla í Bandaríkjunum fer að kenna fyrrverandi hæstaréttardómara á Íslandi að túlka evrópska neytendaverndarlöggjöf. Stundum er betra að þegja og opinbera ekki fyrir heiminum fákunnáttu sína í...

Húsfyllir á borgarafundi í Iðnó

Í kvöld fór fram borgarafundur í Iðnó um dóm Hæstaréttar um gengistrygginguna. Húsfyllir var og fjöldi fólk fylgdist auk þess með umræðunni utandyra. Frummælendur voru fjórir: Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, alþingismennirnir Pétur...

Vangaveltur og svör af þræði Láru Hönnu

Ég hef í dag tekið þátt í umræðu á þræði Láru Hönnu á Eyjunni sem heitir Áhættufíkn og Borgarafundur . Langar mig að birta hluta af því sem ég segi þar hér fyrir neðan. Fyrst vil ég þakka Láru Hönnu fyrir góðar samantektir sem yfirleitt eru betri en...

Ja hérna, er kreppunni lokið!

Öðruvísi mér áður brá. Kreppunni lokið með allt upp í loft. Þýðir þetta þá að AGS er að fara heim? Skoðun AGS á dómi Hæstaréttar kemur mér ekki á óvart, þar sem Franek Rozwadowsky greindi okkur hjá Hagsmunasamtökum heimilanna frá skilningi sjóðsins á...

Fullgilt sjónarmið Evrópuvaktarinnar

Ég ætla ekki að taka neina afstöðu hér til deilumálsins, þ.e. greiðsluskyldu vegna Icesave, heldur eingöngu ummæla og hæfis Per Sanderud. Samkvæmt íslenskum stjórnsýslulögum væri embættismaður eða ráðherra búinn að gera sig vanhæfan til að fjalla um mál...

Grétar Vilmundarson - minningarorð

Mig langar að minnast góðs manns, Grétars Vilmundarsonar, fyrrum félaga míns hjá Gróttu og fyrirmyndar í mörgu sem ég og fleiri strákar á mínum aldri gerðum varðandi íþróttaferli okkar. Genginn er einn þeirra sem ég tók mér til fyrirmyndar á mínum yngri...

Uppgjör milli nýju og gömlu bankanna verða endurskoðuð 2012

Mér finnst einhvern veginn menn hafa gleymt því, að uppgjör milli nýju og gömlu bankanna eiga að koma til endurskoðunar 2012. Vissulega var hugmyndin að sú endurskoðun myndi leiða til þess að kröfuhafar fengju meira í sinn hlut, en hver segir að það sé...

Pólitískar vangaveltur hjá ópólitískum manni

Ég var að lesa færslu á Silfrinu hans Egils og umræðuna sem þar kom upp. Ég var byrjaður að skrifa athugasemd, en hún eiginlega þróaðist út í þessar vangaveltur hér. Þær spunnust út frá því að Guðbjörn Guðbjörnsson sagði sig úr Sjálfstæðisflokknum í...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband