Leita í fréttum mbl.is

Vangaveltur og svör af þræði Láru Hönnu

Ég hef í dag tekið þátt í umræðu á þræði Láru Hönnu á Eyjunni sem heitir Áhættufíkn og Borgarafundur.  Langar mig að birta hluta af því sem ég segi þar hér fyrir neðan.

Fyrst vil ég þakka Láru Hönnu fyrir góðar samantektir sem yfirleitt eru betri en bestu fréttaskýringar fjölmiðlanna.

  •  

    Góð grein hjá Bergþóru. Ég held að hún lýsi sögu margra.

    Eins og ég hef marg oft bent á, þá felst veruleg fjárhagsleg áhættufíkn í því að búa á Íslandi vegna þess að Ísland er líklega eitt landa í heiminum, þar sem áhættuvarnir fjármálafyrirtækjanna byggja á því að verpa áhættunni yfir á almenning, en ekki (fag-)fjárfesta.

    Nú verður fróðlegt að hlusta á umræðuna í kvöld og vona ég að Gylfi Magnússon sjái sér fært að mæta.

  •  

    „ekkinn“ segir: En þegar látakendur tóku þessi lán, þá voru þeir ekki að taka lán á þeim kjörum sem þeir krefjast núna.

    Veistu hvað „ekkinn“, jú, fólk var að því og raunar var það þannig að fyrstu árin þá sveiflaðist greiðslubyrðin um tugi prósenta niður á við. Í staðinn fyrir að borga 20.000 þús. kr. af hverri milljón á þriggja mánaðafresti greiddi fólk 14.000. En þess fyrir utan var enginn að taka þessi lán miðað við að lánveitandinn myndi vinna skipulega gegn lántakanum vegna þess að hann var að hjálpa eiganda sínum að hagnast um háar upphæðir.

    Eitt í viðbót: Fyrir um 17 mánuðum lögðu Hagsmunasamtök heimilanna fram tillögu um lausn á þessu máli. Fjármálafyrirtækin töldu sig, þá vera í þeirri stöðu að hafna henni. Samtökin endurnýjuðu tillöguna í aðeins breyttu formi sl. haust. Aftur var því hafnað. Það hékk á spýtunni að verðtryggð húsnæðislán væru inni í pakkanum. HH lögðu til að miðað við gengi 1.1.2008 yrði gengistryggðum lánum þeirra sem vildu snúið yfir í verðtryggð lán með 4% þaki á síðan öll verðtryggð lán frá þeim tíma. Þessar hugmyndir fengu ekki umræðu! Þær voru kynntar á fundum hjá bönkunum um leið og þeir kynntu okkur sínar hugmyndir. Þær voru kynntar í þingflokkum og hjá ráðherrum. Nei, þá var samningsstaða fjármálafyrirtækjanna talin sterk og þau þurftu ekki að hlusta á sanngjarnar tillögur sérhagsmunahóps! Nú er Hæstiréttur búinn að dæma okkur betri rétt. Nokkuð sem fjármálafyrirtækin gerðu ráð fyrir að gæti gerst, þar sem þau kappkostuðu við sl. haust að tilkynna að færi fólk í skilmálabreytingar, þá fyrirgerði það ekki betri rétti sem dómstólar kynnu að veita því. Það var vissulega innifalið í tillögum HH að afslættir nýja bankanna frá hinum gömlu yrðu notaðir í öllu lánakerfinu, þannig að ríkið og þar með skattgreiðendur þyrftu ekki að hlaupa undir bagga með Íbúðalánasjóði.

 

  •  

    Valur B, þú segir: „Bíddu, voru þá Hagsmunasamtök heimilanna bar fyrir þá sem tekið höfðu gengistryggð lán, hvað með alla hina?“

    Það þarf verulegan vilja til að hafa þennan skilning á mínum orðum, þar sem annars staðar í sama texta segi ég: „Það hékk á spýtunni að verðtryggð húsnæðislán væru inni í pakkanum. HH lögðu til að miðað við gengi 1.1.2008 yrði gengistryggðum lánum þeirra sem vildu snúið yfir í verðtryggð lán með 4% þaki á síðan öll verðtryggð lán frá þeim tíma.“

    Fer eitthvað á milli mála hverjar kröfur HH eru? 4% þaki á öll verðtryggð lán frá 1.1.2008. Þessar kröfur hafa ekkert breyst, þó Hæstiréttur hafi dæmt lántökum gengistryggðra lána betri rétt.

    Síðan Valur, leiðrétting: Ég er stjórnarmaður hjá HH og er ekki og hef aldrei verið formaður HH.

    Albert. Það er rétt að ég ákvað að taka þessi lán, en ég vissi ekki tvennt:
    1. Ég vissi ekki að lánin voru ólögleg og fjármálafyrirtækið væri að fremja lögbrot með því að bjóða mér það.
    2. Ég vissi ekki að fjármálafyrirtæki væru að undirbúa eða farin í gang með mikla stöðutöku gegn lántökum og hugmyndin væri að fella krónuna til að hækka lánin upp úr öllu valdi. Þetta er í reynd niðurstaða sem lesa má út úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

    Ég hef aldrei vikið mér frá því, að ég sótti í gengistryggð lán eftir mikla íhugun. Ég held ég hafi byrjað að velta þessum málum fyrir mér í febrúar 2003 eftir að konan kom heim úr saumaklúbbi með þær fréttir að það væru bara allir að fara út í þetta. Fyrsta svona lánið sem ég tók var vorið 2004. Það var bílalán hjá Glitni sem var hluti af Íslandsbanka hinum þriðja (þ.e. í þriðja skipti sem banki bar nafnið Íslandsbanki). Stuttu síðar endurfjármagnaði ég óhagstæð lán (verðtryggð með 9% vöxtum) með gengistryggðu láni á 2,5% vöxtum (LIBOR vextir) auka 3,2% vaxtaálags eða alls 5,7% vöxtum. Ég gerði þetta m.a. vegna þess að ég hafði farið í mikla rannsóknavinnu með gengisþróun og verðbólguþróun. Málið er að það datt engum í hug að fjármálafyrirtækin myndu grafa undan krónunni í eiginhagsmunaskyni. Skýrsla RNA bendir til þess að undirliggjandi væri gróf markaðsmisnotkun og hugsanlegt glæpsamlegt athæfi.

  •  

    Albert, ef ríkið þarf að greiða 100 milljarða, þá hafa alvarleg mistök verið gerð af efnahags- og viðskiptaráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu. Það er aumt af Gylfa að skella þessu fram á þennan hátt. Fyrir utan að uppgjör bankanna lýkur ekki fyrr en 2012.

  •  

    Ég hef á undanförum tveimur árum eða svo viðað að mér alls konar upplýsingum og lesið örugglega ígildi British Encyclopaediu af fréttum, greinum og bloggum um fjármálakerfið. Hvergi í þessu efni hef ég séð að það þyki sjálfsagt að varpa áhættuvörnum fjármálafyrirtækja yfir á almenna viðskiptavini. Það er frekar talað um að hinn almenni viðskiptavinur eigi að geta treyst því að fjármálafyrirtækið hafi uppi áhættuvarnir fyrir hann. Það er aftur hlutverk fjármálafyrirtækisins að byggja upp áhættuvarnir sínar í gegn um aðra fjármálagerninga sem eru boðnir fagfjárfestum enda hafa þeir faglega kunnáttu til að meta áhættuna sem fylgir. Nei, hér á landi er þessu algjörlega öfugt farið. Almennir viðskiptavinir eiga að taka áhættuna að fullu. Auðvitað sleppur almennur viðskiptavinur aldrei við alla áhættuna, en stóra áhættan á aldrei að falla á hann heldur eingöngu áhætta innan eðlilegra vikmarka.

  •  

    Mér yfirsást spurning Magnúsar frá 12:59:
    „Munt þú sætta þig við ef að niðurstaðan verði sú að lántakendur erlendra lána fái sama díl og við hin. Ekki verri díl eins og var fyrir dómsuppkvaðningu og ekki heldur niðurfellingu á stórum hluta lánsins eins og nú lítur út fyrir.“

    Eins og staðan er núna stendur sami díll ekki í boði, en ef mér hefði verið boðinn hann haustið 2008 eða á vormánuðum 2009, þá hefði ég líklegast þegið hann, þá og því aðeins að sett hefði verið þak á árlega verðbætur. Ég skil nefnilega ekki í þessari umræðu af hverju lántakar verðtryggðra lána eru að argast í þeim sem njóta betri niðurstöðu vegna dóma Hæstaréttar. Þeir eiga líka að krefjast réttlætis fyrir sig, en ekki draga hina inn í sitt ranglæti.

    Albert kl. 16.35:
    Lánin voru ekki dæmd ólögleg, bara verðtrygging við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. En eins og ég segi í svari við spurningu Magnúsar, þá felst réttlæti verðtryggða hópsins ekki í að koma öllum í hripleka báta heldur að bjarga þeim sem eru í hriplegum verðtryggðu bátunum fyrir í góða báta. Óttar Guðmundsson læknir skrifaði fyrir langa löngu pistil sem hét „Að liggja á nagla“ og gekk út á hund sem lá á nagla og vegna þess að hann þekkti ekkert annað, þá hélt hann áfram að liggja á nagla. Lánþegar með verðtryggð lán eru svona eins og hundurinn í dæmisögunni hans Óttars. Menn halda að það sé bara besta mál að halda áfram að greiða af brjálæðislega vitlausum verðtryggðum lánum, vegna þess að þeir vita af því að það er hægt að standa upp og krefjast þess að kerfinu verði breytt.

    En, albert, ég hef ítrekað sagt að sanngirni verður að virka í allar áttir og stend við það. Mér líður ekkert betur við það, að einhver fjármálafyrirtæki fari á hausinn, þó ég hafi það stundum á tilfinningunni að innan sumra þessara fyrirtækja hafi ekki verið til vottur af mannlegu velsæmi. Mín siðferðiskennd býður mér það að leita samninga við fjármálafyrirtækin um niðurstöðu í þessu máli. Fyrstu þreifingar áttu sér stað á fundi með framkvæmdastjóra Samtaka fjármálafyrirtækja sl. föstudag og óskað hefur verið eftir fundum með bankastjórum viðskiptabankanna þriggja. Búið er að ákveða tvo fundi en sá þriðji er ekki ákveðinn. Kröfur Hagsmunasamtaka heimilanna eru að samningsvextir gildi frá lántökudegi fram að dómi Hæstaréttar og þar til annað verður ákveðið með samningum eða vegna þess að lánveitendur nýta sér endurskoðunarákvæði í lánasamningum. Hagsmunasamtök heimilanna hafa jafnframt bent á, að fjölmargir lántakar kunna að eiga skaðabótakröfu á hendur fjármálafyrirtækjunum. Reiknað er með því að á það verði látið reyna fyrir dómi nema að fyrirtækin semji.

    Annars held ég að fjármálafyrirtækin hafi minnstar áhyggjur af almenningi. Það eru kröfur fyrirtækjanna sem munu haf mun meiri áhrif. Sjálfstæðir atvinnurekendur sem misstu allt sitt sjá fram á leiðréttingu sinna mála. Verktakafyrirtæki sem svipt voru tækjum sínum sjá fram á leiðréttingu sinna mála. Sama gildir um bændur um allt land. Fyrirtæki voru þvinguð í gjaldþrot o.s.frv. o.s.frv. Vaxtakjör heimilanna eru tittlingaskítur samanborði við þetta allt.

    Jóhannes spyr (kl. 13.15) hvers vegna ekki bara miða við forsendubrestinn. Það verður örugglega reynt að nota þau rök, að fyrst fjármálafyrirtækin rukkuðu ekki meira, þá sé það hin lögmæta greiðsla og ekki skuli haggað við henni. Kannski standast þau rök, hver veit? Mér finnst það hæpið, en ég er ekki lögfræðingur. Vissulega segir í 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 að ekki skuli víkja ákvæðum ef niðurstaðan er neytandanum í óhag. Ég held bara að ekki sé hægt að halda inni ákvæði hluta samningstímans og víkja því annan hluta.

Umræðuna í heild er síðan hægt að sjá hér: Áhættufíkn og Borgarafundur

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Kristófer Arnarson

 

Það er alveg frábært að lesa þessa pistla þína Marinó.

Víða má sjá fullyrðingar um að dómur Hæstaréttar komi sér illa fyrir almenning.

Þá hlýtur með sömu rökum að vera hægt að segja að þegar lán hækkuðu um 100% og vel það, á meðan kaupmáttur rýrnaði um einhver 20% eða svo, hafi komið sér alveg einstaklega vel fyrir þennan sama almenning.

Jón Kristófer Arnarson, 28.6.2010 kl. 22:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 21
  • Sl. sólarhring: 122
  • Sl. viku: 584
  • Frá upphafi: 1677601

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 52
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband