Leita í fréttum mbl.is

Ótrúlegar rangfærslur í Silfri Egils - Hægri/vinstri skipting er úrelt hugmyndafræði

Ég var að hlusta á Silfur Egils, þar sem eru í panel fjórir einstaklingar.  Tveir sem eru að meta stöðuna á hlutlausan hátt, þ.e. Jóhanna Vigdís og Styrmir, og tveir sem eru að drepast úr spælingu yfir góðu gengi SAMSTÖÐU - flokks um lýðræði og velferð, þ.e. Þóra Kristín og Sighvatur.  Þau fyrrnefndu tjáðu skoðun sína á hlutlausan hátt og lýst því sem er að gerast, meðan hin tvö fóru með alls konar rangfærslur um SAMSTÖÐU og fyrir hvað hún stendur og Sighvatur síðar um lífeyrissjóðina.  Sumu af þessu verður bara að svara.

Spuni Þóru Kristínar

Þóra Kristín hélt því fram að Lilja Mósesdóttir og SAMSTAÐA hafi ekki viljað og vilji ekki vinna með Hreyfingunni og elur á því að hún sé ekki húsum hæf og vilji ekki vinna með neinum.  Nú er ég einn af þeim sem er í baklandi SAMSTÖÐU þó svo að ég hafi ekki talið rétt að bjóða mig fram til skilgreindra trúnaðarstarfs fyrir flokkinn.  Kom ég að vinnu við grunnstefnu flokksins og stefnuskrá var á eins mörgum undirbúningsfundum og mér var mögulegt.  Ég veit því upp á hár hvaða umræða hefur átt sér stað og á hvaða línu.

Það fer enginn í samstarf við annan aðila nema vera með sína stefnu á hreinu.  Stefna er ekki á hreinu nema hún sé skjalfest.  Þetta er sú leið sem var farin.  Ég er fyrsti maður til að viðurkenna, að margt er líkt með því sem Hreyfingin stendur fyrir og því sem stendur í stefnuskrá SAMSTÖÐU, en það var ekki vitað fyrr en stefnuskrá SAMSTÖÐU var komin niður á blað. Hitt er að Hreyfingin var í viðræðum innan svo kallaðrar Breiðfylkingarog er það enn. Spyrjum að leikslokum varðandi Breiðfylkinguna og sjáum svo hvort Breiðfylkingin og SAMSTAÐA eigi einhverja samleið.  Sjálfur sé ég marga vinkla á slíku og hef marg lýst því yfir að ég mundi vilja sameina það fólk sem harðast hefur barist fyrir nýju Íslandi með réttlátri leiðréttingu skulda heimila og rekstrar fyrirtækja og nauðsynlegri siðbót í samfélaginu.

Ótrúlegur Sighvatur

Sighvatur Björgvinsson er greinilega ekki hættur í pólitík og þekkir manna best þá leið að búa sannleikann í trúverðuga felubúninga.  Málið er að hann er ekki að segja sannleikanna.  Tvö atriði standa upp úr:

1.  Erlendir kröfuhafar eiga stjórnarskrárvarðan rétt á kröfur sínar í gömlu bankana.  Kröfuhafar gömlu bankanna skiptast í þá sem áttu kröfurnar fyrir 6. október 2008 og þá sem eignuðust þær eftir þann dag.  Hæstiréttur hefur komist að þeirri niðurstöðu að eignarréttur þeirra sem áttu kröfurnar fyrir 6. október 2008 er ríkari en þeirra sem eignuðust þær síðar.  Samkvæmt yfirliti yfir kröfuhafa í gömlu bönkunum sem hafa birst í fjölmiðlum, svörum ráðherra á þingi og í skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna, þá hefur stór hluti núverandi kröfuhafa eignast kröfurnar eftir 6. október 2008.  Hæstiréttur sagði í Icesave dómum sínum, að þeir sem keyptu kröfurnar með miklu afslætti, allt niður í 5% af nafnverði, eigi bara varinn eignarrétt fyrir þessum 5 prósentum en ekki öllum 100.  Þannig, Sighvatur, hættu að fara með svona steypu og ferðu að tala fyrir hagsmunum Íslands en ekki hagsmunum sem kröfuhafar eiga ekki.

2.  Meginhluti lífeyris hans kæmi frá þeim tíma þegar hann var blaðamaður.  Sighvatur Björgvinsson er búinn að vera þingmaður, eins og kom fram, síðan áður en verðtryggingunni var komið á.  Hann kom fyrst inn á þing árið 1974.  Hann hefur því fengið lífeyrisrétt af blaðamannalaununum sínum fyrir þann tíma (1969-1974).  Guðmundur Gunnarsson fletti óvart ofan af bullinu í Sighvati, þegar hann sagðist hafa greitt í lífeyrissjóð frá 1970 og á þeim tíma þegar verðtryggingunni var komið á átti hann andvirði eins lambalæris!  Sé Sighvatur að fá megnið af lífeyri sínum af því sem greitt var inn þegar hann var blaðamaður, þá er greinilegt að einhver annar er að greiða fyrir hann.  Svo skulum við ekki gleyma því að Sighvatur var þingmaður í 15 eða 17 ár, ráðherra í nokkrum ríkisstjórnum og loks kommissar í Tryggingastofnun ríkisins.  Ætli hann sé ekki að njóta lífeyris vegna þeirra starfa í dag, þ.e. úr Eftirlaunasjóði þingmanna (sem aldrei hefur átt fyrir útgreiddum lífeyri), Eftirlaunasjóði ráðherra (sem aldrei hefur átt fyrir útgreiddum lífeyri) og loks LSR.  Ég skal hundur heita, ef Sighvatur er að fá meira út úr lífeyrissjóðnum sínum sem hann greiddi í sem blaðamaður með grænjaxlalaun, en úr öllum hinum.  Nú ef svo er, þá er alveg öruggt að hann er ekki að fá þann lífeyri fyrir þann pening sem hann og Alþýðublaðið greiddu inn, því eins og Guðmundur lýsti svo vel var hann orðinn að lambalæri árið 1979 og Sighvatur vill bara fá lambalæri í dag hafi hann lagt inn lambalæri!  Svo má náttúrulega ekki gleyma því að Sighvatur fengi lambalærið út á 6-8 árum, þannig að hann fær bara nokkrar sneiðar á hverju ári!

Ég gæti tekið nokkur atriði til viðbótar hjá Sighvati, en læt það vera.

Mér leiðist það, þegar maður eins og Sighvatur kemur fram og skreytir sannleikann eins og hann gerði í Silfrinu.  Það er honum ekki samboðið. 

Tvö atriði hjá Guðmundi Gunnarssyni

Guðmundur Gunnarsson sagði að verið væri að greiða milli 70 og 80 ma.kr. á ári úr lífeyriskerfinu.  Það er bara núna þegar greiddir hafa verið vel yfir 50 ma.kr. úr séreignarsjóðum á þremur árum.  Sleppum greiðslunni úr séreignarsparnaði og þá er talan um 40-45 ma.kr.

Annað var þessi umræða um að lífeyrissjóðirnir hafi ekki mátt gefa verðtrygginguna eftir, þar sem menn hefðu með því brotið lög.  Enginn var að segja að þetta hefði verið gert án lagasetningar.  Mér finnst þetta aumur útúrsnúningur sem var líka notaður á okkur í Hagsmunasamtökum heimilanna á fundi með Landssamtökum lífeyrissjóða haustið 2010.  Fyrirgefið, þið eruð að tala við hugsandi fólk en ekki tóma grautarhausa.

Hægri - vinstri - snú

Ingimar Karl Helgason þykist hafa himinn höndum tekið vegna ummæla Sigurðar Þ. Ragnarssonar í Silfrinu um að SAMSTAÐA - flokkur lýðræðis og velferðar væri ekki vinstri flokkur og þegar litið væri á þá sem stóðu að stofnun hans væri alveg eins hægt að kalla hann hægri flokk.  Greinilegt er að fjölmiðlamenn og stjórnmálaskýrendur eru í miklum vanda.  Kominn er fram flokkur sem ekki vill taka sér sæti samkvæmt skipaninni í franska þinginu á 18. öld.  

Átta menn sig ekki á því, að stjórnmál í dag eru ekki lengur um hugmyndafræði 19. aldar?  Landsstjórn snýst um að gera það sem kemur best út fyrir þjóðfélagið á hverjum tíma.  Eina stundina getur það þýtt aðgerð sem er í anda frjálshyggju eins og að losa verslun undan verðlagsákvörðunum, aðra róttæk þjóðnýting eins og þegar Landsbankinn var tekinn yfir, þriðja atriðið er dreifingar ábyrgðar eins og þegar grunnskólinn var færður til sveitarfélaganna á sínum tíma.  Vá, Sjálfstæðisflokkurinn stóð að þessu öllu, en eitt atriðið er argasti kommúnismi, annað frjálshyggja og þriðja félagshyggja.  Hér á landi er meiri ríkisrekstur en í flestum samfélögum í kringum okkur, en þar hafa þó oftar verið vinstri stjórnir en hér á landi.  Velferðarkerfið er í anda jafnaðarmennsku Norðurlandanna.  Er Sjálfstæðisflokkurinn þá í raun og veru vinstri flokkur, þar sem hann hefur verið oftast í stjórn og viðhaldið þessu kerfi?  Nei, hann er bara sambland af öllum stjórnmálastefnum og leggur eins og fleiri áherslu á það sem selur best hverju sinni, en hann kallar sig hægri flokk þar hefði honum verið skipað til sætis í franska þinginu. Hægra megin við hina!

Bara til að fólk átti sig á því hvaðan fólk er að koma sem stendur að SAMSTÖÐU - flokki um lýðræði og velferð, þá koma nokkrir úr Fólkinu í bænum í Garðabæ, þarna er varaformaður Hagsmunasamtaka heimilanna og fyrrum Sjálfstæðismaður, fyrrverandi formaður Sambands ungra framsóknarmanna, fyrrverandi formaður Landsamtaka framsóknarkvenna, sjálfur hef ég hvergi verið í flokki fyrir utan að ég skráði mig í Framsókn vorið 2010 til að styðja Gísla Tryggvason í prófkjöri flokksins.  Hef ég ekki komið því í kring að skrá mig úr flokknum.  Út frá þessu er ljóst að margir koma af hægri vængnum, aðrir úr miðjunni og enn aðrir, eins og Lilja, af þeim vinstri.  En við sameinumst í þessu afli sem neitar að láta draga sig í dilka úreltrar hugmyndafræði sem á enga samleið með nútímanum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Það er ekki nýtt að fólk skeyti skapi sínu á nýjum framboðum.  Það verður hamast á Samstöðu og Breiðfylkingunni fram að kosningum.  Ég vann mikið í Frjálslyndaflokknum á sínum tíma og það var virkilega sárt að horfa upp á sögufalsanir og lygar af hálfu forkólfa fjórflokksins.  Þar var öllu tjaldað til þótt þeirr vissu betur.   Þessum gömlu pólitísku refum er ekkert heilagt.  Við skulum sjá hvað verður úr stofnun Breiðfylkingarinnar sem ég vil kalla Áfram Nýtt Ísland, og Samstöðu.  Það er svo sem ekkert útilokað í því máli.  Það er alltaf best að fara varlega í sakirnar eða eins og sagt er kapp er best með forsjá. 

Eitt er samt alveg ljóst fólkið í landinu vill breytingar, hvort það svo hlýðir kallinu er svo allt annað mál.  En þá getur það fólk engu um kennt nema sjálfum sér.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 12.2.2012 kl. 15:48

2 Smámynd: Þórir Kjartansson

Það er þakkarvert þegar menn eins og þú Marínó, nenna að setja sig inn í málin og svara því með rökum þegar menn eru að fara með staðlausa stafi. Ég hef mikið velt því fyrir mér hvort einhverskonar gegnumstreymiskefi sé betra en þessi sjóðasöfnun með allri sinni taphættu og hrossakaupum, sem alltaf fylgja, þegar miklir peningar eru annarsvegar.  Þú segir að greiðslur út úr sameignar lífeyrissjóðum landsmanna sé nú c.a. 40 milljarðar á ári.  Þá er spurningin hvað mikil er innkoman á ári? Þ.e. samanlagt  það sem tekið er af launþeganum og það sem atvinnurekandinn leggur á móti.  Ég hef spurt þingmenn þriggja flokka sem hér hafa haldið fundi nýlega að þessu en engin svör fengið.  Eins finnst mér oft vanta inn í umræðuna um verðtrygginguna, þegar menn tala um að hana sé ómögulegt að afnema því þá hækki bara vextirnir í staðinn, hvort það væri ekki  bara betra að fólk stæði frammi fyrir því strax hvað það kostaði að taka lán frekar en að festa sig í þessari seigdrepandi verðtryggingarsnöru sem enginn getur séð fyrir hvernig þróast.  Það myndi væntanlega leiða til þess að fólk tæki minna af lánum, þensla og offjárfestingar minnka og þá ættu vextir að lækka í  framhaldinu. 

Þórir Kjartansson, 12.2.2012 kl. 16:25

3 identicon

Það er svo greinilegt að það er farið að fara um aðstandendur ríkisstjórnarinnar svo um munar og ekki skemmir nú fyrir að fleiri stjórnmálasamtök eru á leiðinni í framboð,þannig að víst má telja að fjórflokkurinn verður sennilega alveg þurrkaður út í næstkomandi kosningum sem fer að styttast í.

En það er gleðilegt hvað Samstaða fer vel af stað og óska ég ykkur góðs áframhaldandi gengis.

Kristján Jón Blöndal (IP-tala skráð) 12.2.2012 kl. 16:40

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Sæll Marinó.

Vill Samstaða ná fram jöfnuði í þjóðfélaginu í gegnum skattkerfið og hversu langt er flokkurinn tilbúinn að ganga í þá átt?

Þetta er lykilspurning og svarið við henni auðveldar fólki að átta sig á eðli Samstöðu.

Gunnar Th. Gunnarsson, 12.2.2012 kl. 17:09

5 Smámynd: Einar Guðjónsson

Sighvatur var Alþingismaður í 23 ár samfellt, ráðherra í sex ár, blaðamaður í 5 ár ( á flokksblaðinu ) og framkvæmdastjóri ( sendiherraígildi ) Þróunarsamvinnustofnunar í 10 ár. Þess á milli framkvæmdastjóri Norræna Félagsins þess á milli. Sighvatur fær eftirlaun skv. gömlu góðu eftirlaunum frá 2003( sérréttindalögin frægu ). Hann virðist því fá 36% af fullum launum ráðherra og 72% af þingfararkaupi.Það gera í dag um 860 þúsund á mánuði fyrir Sighvat. Svo upplýsti hann að hann hefur einnig lífeyri úr lífeyrissjóði Blaðamanna. Sem Alþingismaður og ráðherra greiddi hann aldrei neitt í lífeyrissjóð af launum sínum.

Einar Guðjónsson, 12.2.2012 kl. 17:16

6 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Marinó hefur rétt fyrir sér. Margt af því sem kemur til kasta stjórnmálamanna á Alþingi hefur lítið að gera með vinstri eða hægri hugtök. Eiginlega allt sem kemur á borð stjórnmálamanna í sveitarstjórnum hefur ekkert að gera með þessi fornu hugtök.

Hins vegar mun sú staða koma upp er stjórnmálamenn þurfa að taka afstöðu til margra grunnatriða í stjórnmálum og þá skilur á milli.

Sjálfur er ég á þeirri skoðun að fólk verði að vera staðfast með sína grundvallastefnu, standa og falla með henni. Mér fallast stundum hendur þegar ég virði fyrir mér marga stjórnmálamenn, jafnt til hægri og vinstri, sem ekki svellur móður fyrir stefnu sína. Verst er auðvitað að horfa upp á ríkisstjórn sem svikið hefur allt sem hún lofaði en situr enn vegna þess að hún ætlar að sanna að vinstri stjórn getur setið út heilt kjörtímabil.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 12.2.2012 kl. 17:28

7 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Gunnar Th., allir fjórflokkarnir hafa barist fyrir jöfnuði í gegn um skattakerfið.  Hvað setur það þá?

SAMSTAÐA vill norrænt velferðarkerfi.  Slíkt kerfi er alltaf byggt á því að nota skatttekjur til að jafna út, en munurinn á íslensku útgáfunni og hinum er að hér á landi er byggt á sértækum rétti til aðstoða, en þar er verið með almennan rétt.

Hvar setur þetta SAMSTÖÐU miðað við aðra flokka?  Á nokkuð sama róli, þó útfærslan sé önnur.  Allir stjórnmálaflokkar á Íslandi teljast með vinstri slagsíðu þegar kemur að velferðarmálum vegna þess að velferðarmál eru stimpluð sem vinstri mál.  Á þessu byggir stóri misskilningurinn.  Velferðamál eru samfélagsmál, grunnur sem við byggjum allt hitt á.

Marinó G. Njálsson, 12.2.2012 kl. 17:30

8 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Takk fyrir þetta, Einar.

Auðvitað eru mál, Sigurður, þar sem slík grunngildi koma fram hjá flestum flokkum.  Hugmyndafræði SAMSTÖÐU er samt að taka á slíkum málum með málefnalegri umræðu, þar sem ágreiningur verður þeginn með þökkum í fyrri hluta  umræðunnar, sem síðan (vonandi) leiðir til sameiginlegrar niðurstöðu í lokin.  Niðurstöðu sem vonandi sem flestir geti sætt sig við.

Marinó G. Njálsson, 12.2.2012 kl. 17:36

9 identicon

það er alveg kristal tært, að ég mun kjósa það stjórnmálafl, sem hefur það á stefnuskrá sinni, að skattleggja þá sem fá greitt sak. eftirlaunalögunum frægu frá 2003, 60-70% skatt, þannig að útborgaður ellilífeyrir verði, sambærilegur og hjá venjulegu fólki, 200-250 þúsund á mánuði,það gengur ekki í siðuðu þjóðfélagi að menn séu að semja um eftirlaun við sjálfan sig. Sá tími er liðinn.

Halldór Guðmundsson (IP-tala skráð) 12.2.2012 kl. 18:30

10 identicon

Ég spái því að fylgi Samstöðu eigi eftir að aukast verulega í skoðanakönnunum áður en það fer niður aftur (ef það gerir það þá yfir höfuð). Óákveðni hluti kjósenda bíður með að gera upp hug sinn þar til að hann sér fram á að geta valið sér nýtt afl sem hann veit að mun hafa áhrif.

Nú er það staðfest í skoðannakönnun að það afl er komið fram, þannig að það kæmi mér ekki á óvart ef að við sæjum fylgi á Samstöðu fara upp í 30% og færri óákveðna í könnunum einhvern tímann á næstunni.  En auðvitað eru þetta bara ágiskanir af minni hálfu og tíminn mun leiða hið sanna í ljós.

En Silfrið endurspeglaði á átakanlegan hátt vandamál samfélagsins undanfarna áratugi. Í fyrri hlutanum voru dæmigerðir íslenskir stjórnmála- og áhrifamenn (með einhverjum undartekningum) sem byggja hugmyndafræði sína á svo yfirborðskenndri þekkingu að það fer um mann hrollur þegar þeir opna munninn. Rangfærslur og frasar fyrir allan peninginn og maður kemst ekki hjá því að hugsa að þetta lið megi aldrei aftur koma nálægt almannafé.

Í restina á Silfrinu er svo viðtal við heimsþekktan hagfræðing, augljóslega hlaðinn af þekkingu á efnahagsmálum, sem kemst auðvitað að sömu niðurstöðu og aðrir heimsþekktir hagfræðingar, að verðtrygging á húsnæðislánum sé rugl.

Hið klassíska svar lífeyrissjóðsforkólfana, sem eru að rembast við að vinna upp kynslóðahallan og 480 milljarða hruntap með því að setja fólk fætt á árunum 1965-1985 í þrot, er að erlendu hagfræðingarnir hafi ekki kynnt sér hið dásamlega séríslenska kerfi. M.ö.o. að Guðmundur Gunnarsson og álíka höfðingjar hafi fundið upp slíka snilld að ekki einu sinni nóbelsverðlaunahagfræðingar sjái í gegnum hana. Þetta væri fyndið ef þetta væri ekki svona sorglegt.

Benedikt Helgason (IP-tala skráð) 12.2.2012 kl. 18:48

11 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Sighvatur var grátlegur í silfrinu. En hvað fannst þér um ástralann???

Haraldur Rafn Ingvason, 12.2.2012 kl. 18:52

12 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Haraldur, ég var búinn að vita af því í viku að Keen yrði  í þættinum, þannig að ég búinn að vera að kynna mér hann.  Hann stóðst fullkomlega undir væntingum.

Benedikt, þetta er sama tilfinning og ég hef, þ.e. að fylgið gæti aukist áður en það fer að dala.  Síðan er það okkar sem stöndum að flokknum og þeim sem bætast í hópinn að viðhalda fylginu.  Verum samt viss um, að um leið og flokkurinn verður raunveruleg ógn, þá mun kerfið snúast til varnar.

Marinó G. Njálsson, 12.2.2012 kl. 19:41

13 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Marinó. Takk fyrir greinargóða og skiljanlega umfjöllun hér, eins og svo oft áður.

Það var átakanlegt að hlusta á Sighvat Björgvinsson og Guðmund Gunnarsson. Sighvatur átti ekki nógu marga hringi á fingrum sínum, til að hafa ofan af fyrir stressinu sínu, og Guðmundur Gunnarsson átti erfitt með að snúa höfði sínu í allar flótta-áttir, þegar hann var orðinn rökþrota um rán lífeyrissjóðanna.

Ótrúlegt að Guðmundur Gunnarsson sé pabbi þeirrar flottu persónu sem Björk Guðmundsdóttir er. Þetta er skýrt dæmi um að foreldrar og börn berjast svo sannarlega ekki alltaf fyrir sömu heiðarlegu sannfæringar-málefnunum.

Þeir Sighvatur og Guðmundur voru svo rökþrota, með sinn málflutning tvístraðan og van-rökstuddan, og út um allt í stjórnleysis-klíkuvarða rökræðu-bullinu, að þeim er hreinlega vorkunn að vera settir í beina útsendingu með sitt innistæðulausa bull!

Jóhanna Vigdís er að mínu mati afskaplega heilsteypt og flott persóna. Styrmir gamli er enn að reyna að verja gamlar syndir Sjálfstæðis-flokksins, sem hann hefur gefið sálu sína til. Það er ekki sannfærandi blanda hjá Styrmi gamla, að styðja og fordæma flokkinn í sömu setningunni.

Betur má ef duga skal til góðra verka, Styrmir minn! Það kostar fórnir að sinna raunverulegum réttlætanlegum hugsjónum! Þú hefur ekki enn þorað að fórna neinu fyrir þitt varnar-orðagjálfur fyrir Sjálfstæðisflokkinn siðspillta.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 12.2.2012 kl. 21:25

14 identicon

með malflutningi þessum er Sighvatur að leggja sitt til að halda við núverandi almannu trausti á stjórnmálamönnum.gamlir refir gleyma ekki sínum klækjum.

agust (IP-tala skráð) 12.2.2012 kl. 21:59

15 Smámynd: Þórir Kjartansson

Marínó, mig langar til að ítreka hvort þú hefur tölur yfir það hvað verið er að greiða inn í sameignarsjóðina á ári. Einnig væri fróðlegt að vita hver er rekstrarkostnaður allra þessara lífeyrissjóða á ársgrundvelli.

Þórir Kjartansson, 12.2.2012 kl. 23:34

16 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Þórir, nei, ég er ekki með þær tölur.

Marinó G. Njálsson, 12.2.2012 kl. 23:57

17 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þú skilur greinilega ekki spurningu mína, Marinó. Sorglegt.

Gunnar Th. Gunnarsson, 13.2.2012 kl. 00:34

18 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Gunnar Th., skýrðu þá spurninguna þína betur út, fyrst þú telur að ég skilji hana ekki.  Ég svaraði henni eins og ég skildi hana.

Marinó G. Njálsson, 13.2.2012 kl. 01:03

19 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Frábær grein að vanda Marinó og til hamingju með SAMSTÖÐU. Ég hef áður hvatt þig til að bjóða þig framm ásamt öðru góðu fólki og þó þú sért ekki í forsvari þá ert þú eins og þú segir í bakgrunninum og það er þakkarvert. Það er alveg á hreinu að þið munuð njóta góðs fylgis en eitt er öruggt og það er að kerfið mun snúast gegn ykkur (fjórflokkurinn) með öllum þeim ráðum sem þeir geta og skiptir þá siðferðið engvu máli. Lygar og útúrsnúnigar með allskonar vafningum. Varðandi Gunnar Th. gat ég ekki skilið spurninguna öðruvísi en þú, en kannski skilur hann bara ekki sjálfan sig. Takk enn og aftur fyrir þína ómældu vinnu sem þú hefur gert til þess að upplýsa okkur almenning með þínum færslum um hvað málin snúast. Kær kveðja.

Sigurður Kristján Hjaltested, 13.2.2012 kl. 10:49

20 Smámynd: Haraldur Baldursson

Um Sighvat "blaðamann" má lesa ágæt yfirgrip hérna :

http://www.althingi.is/altext/cv.php4?nfaerslunr=499

Haraldur Baldursson, 13.2.2012 kl. 12:36

21 identicon

Verðtryggingin er slæm. En með krónu sem gjaldmiðil er engin verðtrygging enn verri.

Óverðtryggð lán á Íslandi hafa allt of miklar sveiflur í greiðslubyrði til að þau séu valkostur fyrir fólk flest sem er að kaupa sér sína fyrstu íbúð. Allt öðru máli gegnir um lönd með stöðugri gjaldmiðla eins og evru.

Hugsið ykkur að þegar verðbólgan fer á skrið geta vextir hæglega orðið 20% eða hærri. Vextir á ári af 20 milljón króna láni væru þá 4 milljónir. Hætt er við að þá yrði ekki minna um vanskil en undanfarin ár.

Verðtryggð lán eru hagkvæmustu lánin að því leyti að þau gefa jafnasta greiðslubyrði. Þess vegna er að öðru jöfnu hægt að taka hærra verðtryggt lán en óverðtryggt lán án þess að lenda í vanskilum.

Það er fráleitt að banna verðtryggð lán meðan við erum enn með krónu sem gjaldmiðil ef óverðtryggð lán eru einnig í boði. Hvers vegna ekki að leyfa þeim sem sjá ekki aðra leið til að eignast íbúð en með verðtryggðu láni að gera það?

Óverðtryggðu lánin eru nú jafnvanhugsuð lausn og gengistryggðu lánin voru á sínum tíma.

Menn lokuðu augunum fyrir gengissveiflunum þegar þeir tóku gengistryggð lán. Og nú loka þeir augunum fyrir því að vextir óverðtryggðra lána hækka örugglega upp úr öllu valdi þegar verðbólgan fer á skrið

Í báðum tilvikum ímynda menn sér að þeir séu komnir með sömu kjör og íbúar evrulanda. Svo er þó alls ekki vegna krónunnar sem sveiflast i gengi  og veldur mikilli verðbólgu.

Að taka meirihluta íbúðarláns sem vertryggt lán og minnihlutann sem óverðtryggt lán er valkostur sem sameinar kosti beggja lánsforma.

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 13.2.2012 kl. 15:22

22 identicon

Samstaða er hægri flokkur. Það sést best á stefnumálinu sem flokkurinn er stofnaður um sem er almenn lækkun lána heimilanna.

Almenn lækkun lána þýðir að tekjulágir lífeyrisþegar og/eða skattgreiðendur, þar á meðal láglaunafólk, greiða skuldir þeirra sem standa mun betur fjárhagslega.

Tilfærsla fjármuna frá þeim sem minna mega sín til þeirra sem betur standa er ekki bara  hægristefna. Það er öfgahægristefna. Þannig er Samstaða enn einn sérhagsmunaflokkurinn.

Ég hef lengi haft Lilju grunaða um að vera hægrisinnaða. Annar varaformaðurinn, Sigurður Ragnarsson, kemur beint úr Sjálfstæðisflokknum. Veit ekki um hinn.

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 13.2.2012 kl. 16:24

23 identicon

Hádegisverður aldrei ókeypis, sagði fyrrverandi ráðherra í Silfrinu, en það vill nú svo skemtilega(óskemptilega) til að hádegisverðurinn hjá fyrrverandi ráðherra er ókeypis hjá honum, á kostnað skattgreiðenda.

Ég krefst þess að nýju framboðin berjist fyrir því að Elítan sem fær og kemur til að fá greitt samk. hinu fræga eftirlaunalögum frá 2003, og er að fá 500-900 þúsund í eftirlaun frá skattgreiðendum þessa lands á mánuði, verði skattlagðir 60-70% svo þeir séu að fá eins og þorri landsmanna í eftirlaun á mánuði, og mismunurinn notaður til að jafna lífskjörin hjá ellilífeyrisþegum.

Því það gengur ekki að stjórnmálamenn séu, að semja við sjálfan sig um allt önnur og hærri eftirlaun fyrir sjálfa sig, á kostnað skattgreiðenda, en gengur og gerist hjá öllum almennigi þessa lands,og senda reikninginn á yfirskuldsett heimili.

Hlutir eins og hér er lýst, eiga ekki að ske í siðuðu þjófélagi.

Halldór Guðmundsson (IP-tala skráð) 13.2.2012 kl. 16:30

24 identicon

Það sem flestum sést yfir er að verðtryggingin viðheldur verðbólgu"draugnum". Við bara trúum ekki á drauga lengur! Íslenska kerfið er svartur hundur sem bítur í skottið á sér. Þeir ríku verða ríkari. Þeir fátæktu verða öreigar. Að lokum hrynur viðundrið óhjákvæmilega dautt niður.

Fleirum er ljóst að vel er hægt að tengja krónuna við körfu af myntum til að hún verði nothæf sem gjaldmiðill. Skynsemi og samstaða er allt sem þarf!

 Lesið Ólaf Margeirsson 21.01.2012:

http://217.28.186.169/pressupennar/Lesa_Olaf_MArgeirsson/verdtrygging-eilifdarvelin-sem-brast

Almenningur (IP-tala skráð) 13.2.2012 kl. 16:47

25 identicon

Það er komin löng reynsla á það fyrir fáeinum áratugum að tengja gengi krónunnar við körfu af myntum.  Það endaði undantekningarlaust alltaf með stórri gengisfellingu.

Ástæðan er augljós. Það þarf að vera jafnvægi á milli eftirspurnar og framboðs á gjaldeyri. Ef gengið er fest þá verður gjaldeyisskortur ef eftirspurn er meiri en framboð.

Til að ná jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar þarf þá að hækka verð gjaldeyrisins eða með öðrum orðum lækka gengi krónunnar.   

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 13.2.2012 kl. 17:33

26 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Marinó, það er grundvallarmunur á því hvernig vinstrimenn og hægrimenn vilja beita skattkerfinu.

"Jöfnuður" er aðalatriði vinstrimanna og þeir vilja nota skattkerfið fyrst og fremst, til að ná því markmiði sínu. Þess vegna er stefnuskrá í skattamálum sterk vísbending um hvoru megin á vinstri/hægri ásnum stjórnmálaflokkar liggja.

Gunnar Th. Gunnarsson, 13.2.2012 kl. 17:47

27 identicon

Það er sorglegt að sjá að eftir meira en 30 ár með verðtryggingu hafi Íslendingar ekki meiri skilning á hvað verðtrygging er.

Vilhjálmur Birgisson varð ber að svo ótrúlegri vankunnáttu í Silfri Egils að mér blöskraði. Hann talaði um mikinn gróða lífeyrissjóðanna vegna verðtryggingar. 

Verðtrygging er aldrei gróði. Hún er leiðrétting á verðgildi fjárupphæðar þegar verðgildi krónunnar hefur rýrnað. Það sem Vilhjálmur kallar stórgróða lífeyrissjóðanna er því enginn gróði.

Sighvatur sýndi hins vegar að hann hefur fullan skilning á verðtryggingunni og hvers vegna hún er nauðsynleg í landi með lítinn gjaldmiðil sem sveiflast til og frá af minnsta tilefni.

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 14.2.2012 kl. 17:38

28 identicon

Það er ekki rétt hjá þér Ásmundur Harðarson.

Þegar skattar eru hækkaðir á t.d bensín eða tóbak og allt annað stendur í stað, þ.e krónan hefur ekki tapað neinu verðgildi, hækkar vísitala neysluverðs og fleiri krónur eru færðar til bókar sem eign kröfuhafa. Það er gróði.

Kannski blöskrar einhverjum vankunnátta þín.

Arnar Ívarsson (IP-tala skráð) 14.2.2012 kl. 18:49

29 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Vankunnátta Arnar, er hægt að tala um vankunnáttu heilaþveginna einstaklinga sem hafa ekkert vitrænt fram að færa en eru ekkert nema dónaskapur og villutrú sem þeir boða hér á blogginu? Þeim er frekar vorkunn að vita ekki betur, eða vilja ekki viðurkenna þegar sannleikanum er blakað framan í þá.  Eins og hross með blöðkur til að þeir sjái bara beint fram yfir sig en ekki það sem er að gerast í kring um þá.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 14.2.2012 kl. 18:56

30 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Enda gætir þessi einstaklingur sín á því að stofna ekki blogg heldur bara stæka einstök blogg, því ég er þess fullviss að þetta er ekki hans rétta nafn, það eru bara þrír Ásmundar Harðarsynir á þessu landi.  Það væri gaman að leggjast í smá rannsókn á því hver þeirra þessi er.  Ég nenni því bara ekki. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 14.2.2012 kl. 18:58

31 identicon

Arnar, skattar eru hluti af útgjöldum fólks. Þeir eru þess vegna hafðir með í vísitölunni. Ef það væri talið gefa réttari niðurstöðu að sleppa þeim væri það gert.

Það má deila um grundvöll vísitölunnar. En aðalatriðið er að þegar skattar, gjöld og verðlag hækka þá fæst minna fyrir sömu krónutölu en áður. Verðgildi krónunnar hefur rýrnað.

Það verður því að fjölga krónunum ef verðgildið á að vera óbreytt. Sú krónufjölgun er leiðrétting en ekki gróði þó að Vilhjálmur Birgisson og fleiri sjái ofsjónum yfir henni.

Skuldarar tala um lækkun lána sem leiðréttingu. Staða lána, sem hafa ekki verið lækkuð, er þó alveg skv samningum. Það er ekki hægt að breyta samningum eftir á nema með samþykki beggja aðila.

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 14.2.2012 kl. 20:57

32 identicon

Ásthildur, er ekki allt í lagi með þig? Þarftu ekki að fara að gera eitthvað í þínum málum?

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 14.2.2012 kl. 21:03

33 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Nei alls ekki ég er hæst ánægð með að vera eins og ég er en þú?

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 14.2.2012 kl. 21:15

34 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ásmundur Harðarson, ein af grundvallarreglum fjárfestinga er að ávöxtun í fortíð segir ekkert til um ávöxtun í framtíð.  Segja má að hið sama gildi um verðbólgu.

Margir af þeim sem tala af miklu afli gegn því að afnema verðtryggingu af neytendalánum grípa stöðugt svörtustu sviðmynd, þ.e. að verðbólga gjósi upp í 18,9% mjög reglulega.  Formaður RSÍ datt t.d. í þessa gildru í grein á Pressunni í dag.  Menn ná ekki að hugsa út fyrir kassann og átta sig því ekki á orsaka tengslum milli verðtryggingarinnar annars vegar og verðbólgu og  þenslu hins vegar.

Ekki er hægt að afnema verðtryggingu og láta húsnæðisvexti vera án þaks.  Í þessu liggur nefnilega galdurinn.  Danir fóru í gegn um þetta og þeim tókst að fara úr kerfi ótaminna vaxta yfir í hámarksvexti.  Þangað verðum við að fara.  Kerfi með breytilega vexti sem geta farið upp í tugi prósenta virkar aldrei.

Snúum nú aftur til 1992 og ímyndum okkur að við værum með óverðtryggða vexti, sem væru ýmist fasti, breytilegir eða fljótandi.  Lán væru til 40 ára en samið um vexti til 3-5 ára með möguleika að skipta um lánveitanda á sama tíma og vextir væru endurskoðaðir.  Jafnframt væri ekkert stimpilgjald.  Verðbólgan á árunum eftir 1992 var lág, þannig að vextir sem máttu fara hæst í 6% höfðu lækkað í 4,5%.  Stór hópur lántaka notaði tækifærið og færði sig yfir í fasta vexti til 5 ára.  Hver verða viðbrögð markaðarins?  Varúð.  Menn gera allt til að koma í veg fyrir þenslu.  Á endurnýjun hækka vextir örlítið og um leið slær á þá þenslu sem er á markaðnum.

Það sem samt mestu máli skiptir er að við fáum aðra þróun verðlags.  Lægri verðbólgu og ekki er þörf á eins miklum launahækkunum og var í gamla raunveruleikanum. 

Á þessum árum þokkalegt jafnvægi á viðskiptajöfnuði og sá jöfnuðu hefði orðið betri.  Við þetta allt hefðu svo margar forsendur breyst varðandi framtíðina (þ.e. okkar fortíð) að það sem síðar gerðist hefði einfaldlega aldrei gerst.

En það gerðist, búið og gert.  Við erum komin aftur inn í nútímann.  Tökum nú það sem ég lýsti hér að framan og látum það byrja í dag.  Getur verið að framtíðin yrði eins og ég lýsti fortíðinni?  Er ekki þess virði að reyna það?

Svo bið ég fólk um að sýna stillingu.  Ræðið um málefnin, en farið ekki í einstaklinginn.

Marinó G. Njálsson, 14.2.2012 kl. 21:41

35 identicon

Marinó, ef þessi framtíðarsýn þín er rétt þá þarf ekki að óttast verðtrygginguna.

Það bendir hins vegar ekkert til að þetta verði þróunin enda er mikil verðbólga óhjákvæmilegur fylgifiskur krónunnar vegna smæðar hennar.

Smæðin leiðir til mikilla gengissveiflna krónunnar. Niðursveiflur valda mikilli verðbólgu án þess að uppsveiflur dragi úr henni. Þess vegna er miklu meiri verðbólga hér en í evrulöndum óhjákvæmileg meðan við höfum enn krónu. 

Það er auðvitað ekki rétt að það leiði til litillar verðbólgu að afnema verðtryggingu. Við höfum reynsluna. Verðbólgan var miklu meiri hér áður en verðtryggingin var tekin upp og næstu ár á eftir meðan skuldir voru enn að mestu óverðtryggðar.

Þvert á móti var verðtryggingin innleidd til að draga úr verðbólgu . Sú viðleitni bar árangur.

Virkjana- og stóriðjuframkvæmdir leiða til mikillar verðbólgu. Mikil þensla er í gangi meðan á framkvæmdum stendur. Þegar þeim lýkur kemur samdráttarskeið og gengi krónunnar hrynur. 

Þegar verbólgan nálgast 20% þurfa óverðtryggð lán að bera 20-25% vexti. Ársvextir af 20 milljónum eru þá 4-5 milljónir sem er langt umfram greiðslugetu flestra. 

Óverðtryggð langtímalán verða því að vera með neikvæðri raunávöxtum ef þau eiga að ganga upp. Afleiðingarnar af því verða skelfilegar. Eignir lífeyrissjóðanna rýrna og kjör lífeyrisþega versna. Lifeyrisþegar greiða þá skuldir annarra að stórum hluta. 

Fólk mun ekki spara til að láta sparifé sitt rýrna að verðgildi. Því yrði mikill skortur á lánsfé. Aðeins þeir sem  eru í klíkunni fá lán. Þannig mun spillingin blossa upp sem aldrei fyrr. Lífeyrissjóðir munu fjárfesta í fasteignum ofl frekar en að láta sjóðina bera neikvæða raunvexti.

Óverðtryggð lán með neikvæðum raunvöxtum munu festa gjaldeyrishöftin í sessi. Annars er ekki hægt að fjármagna þau því að lausafé mun þá streyma úr landi þar sem ávöxtunin er miklu betri. Áhrifin verða einangrun og almenn lífskjaraskerðing.

Þannig er engin verðtrygging miklu verri kostur en verðtrygging þó að hún sé í sjálfu sér afleit. Eina lausnin er því að taka upp evru við fyrsta tækifæri. Það er afneitun að loka augunum fyrir því.

Asmundur Harðarson (IP-tala skráð) 14.2.2012 kl. 23:17

36 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ásmundur, þú greinilega skilur ekki rökin.  Við erum búin að prófa leið 1, þ.e. með verðtryggingunni, og ég er að lýsa leið 2, þ.e. án verðtryggingar.  Við vitum hvert leið 1 leiddi okkur, þannig að ef við höldum verðtryggingunni, þá endurtökum við bara hana.  Aðeins leið 2 færir okkur þann stöðugleika sem ég lýsi.

Evran er engin lausn nema fyrst sé kominn stöðugleiki.  Þá gæti krónan hugsanlega líka virkað vel.  Náum fyrst stöðugleika og skoðum svo hvað við viljum gera.

Marinó G. Njálsson, 14.2.2012 kl. 23:25

37 identicon

Marinó, við erum búin að prófa óverðtryggð lán með skelfilegum árangri í á aðra öld. Verðtryggingin hefur nú í áratugi haft heillavænleg áhrif þrátt fyrir annmarka hennar.

Eins og ég færði rök fyrir í fyrri athugasemd leiða óverðtryggð lán annað hvort til fjöldagjaldþrota vegna þess að fólk getur ekki staðið í skilum þegar verðbólgan fer á skrið eða að vextirnir verða stórlega neikvæðir með öllu þeim skelfilegu afleiðingum sem ég lýsti í síðustu athugasemd minni.

Þak á óverðtryggða vexti er ávísun á neikvæða raunvexti. Þak á óverðtryggða vexti skuldbindur lífeyrisþega og sparifjáreigendur til að greiða hluta lána skuldara við vissar aðstæður sem koma upp öðru hvoru.

Það er því feigðarflan að afnema verðtryggingu þó að óverðtryggð lán með jákvæðum raunvöxtum megi gjarnan koma sterkara inn sem valkostur með verðtryggðum lánum.

Eina viðunandi lausnin er að stefna að upptöku evru.

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 15.2.2012 kl. 00:56

38 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ásmundur, þú ert eins og risaeðla aftan úr fornöld.  Telur þú virkilega Íslands dagsins í dag sambærilegt við Íslands á 8. áratugnum?  Ásmundur, hvernig væri nú að kma undan teppinu og þora að kíkja út um gluggann.  Á 8. áratugnum kunnu menn ekkert til efnahagsstjórnar.  Við vorum að koma út úr verðstöðvunartímabili og verðlag var gefið frjálst.  Nær engir fjárfestingarkostir voru á markaði.  Launum launafólks hafði verið haldið niðri áratugum saman.  Lífeyriskerfið var að stíga sín fyrstu skref.  Maður þurfti að sækja um gjaldeyri fyrir öllu.  Innflutningsleyfi þurfti fyrir öllum innflutningi og útflutningsleyfi fyrir útflutningi.

Taktu nú, Ásmundur, skref inn í framtíðina.  Þó ekki væri nema inn í 10. áratuginn, því ef þú ætlar að dvelja á þeim 8. áfram, þá nenni ég ekki að svara þér.

Marinó G. Njálsson, 15.2.2012 kl. 07:57

39 identicon

Marinó, þú skilur greinilega ekki hvernig verðbólga, bólumyndun og gengishrun eru innbyggð í krónuna.

Þegar sveiflur á gengi eru tíðar, eins og er óhjákvæmilegt með lítinn gjaldmiðil, og niðursveifla veldur verðhækkunum án þess að uppsveiflan valdi verðlækkunum þá verður verðbólga óhjákvæmilega miklu meiri en td í evrulöndum.

Þetta hefur auðvitað ekkert með verðtryggingu að gera. Gengishækkun er bólumyndandi. Bólur enda undantekningarlaust með hruni gjaldmiðilsins og miklu verðbólguskoti. Þetta á við í dag.

Ef þú telur þig hafa ráð við þessu þá geta áhrifin aldrei verið nema takmörkuð. Auk þess geturðu ekki búast við að stjórnmálamenn fari eftir þeim.

Það er stórhættulegt að vera í afneitun gagnvart eðli krónunnar, hins mikla skaðvalds íslensks efnahagslífs.  

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 15.2.2012 kl. 10:50

40 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ásmundur, hættu nú alveg.  Á ég nú allt í einu ekki að skilja hvernig verðtrygging virkar.  Ég lærði að færa verðbótafærslur í bókhaldi bæði í menntaskóla og háskóla.  Hlífðu mér við svona vitleysu.

Marinó G. Njálsson, 15.2.2012 kl. 11:16

41 identicon

Marinó, ef þú hefur skilning á verðtryggingunni þá hlýturðu að skilja að Vilhjálmur Birgisson fór með algjört fleipur þegar hann talaði um verðtryggingargreiðslur til lífeyrissjóðanna sem ofsagróða. Eða hvað?

Kunnátta þín í bókhaldi tryggir ekki þennan skilning enda er verðtrygging reiknuð sem bókhaldslegur hagnaður þó að í raun sé hún aðeins leiðrétting og því enginn hagnaður.

Eins og staðan er núna eru bankareikningar með neikvæðum raunvöxtum að verðtryggðum reikningum undanskildum. Þrátt fyrir það er greiddur fullur fjármagnstekjuskattur af öllum vöxtum og verðtryggingu.

Sighvatur skrifaði einmitt blaðagrein um þetta nýlega og spurði Steingrím J hvort hann ætlaði að láta þetta viðgangast.  

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 15.2.2012 kl. 14:26

42 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Fyrirgefðu mér, Ásmundur, en hvar lendir maður í svona heilaþvotti, eins og mér sýnist þú hafa lent í. 

Þú mátt ekki rugla saman ávöxtun og raunávöxtun.  Öll ávöxtun sama hvaða nafni hún nefnist er tekjur.  Verðbætur upp á 350 ma.kr. eru því tekjur upp á 350 ma.kr. og síðan koma nafnvaxtatekjur.  Þessar tekjur koma frá þeim sem skulda.

Verðtrygging er form breytilegra vaxta og ekkert annað.  Þetta form tryggir að sama hvað gerist í hagkerfinu, þá taki lánveitandinn ekki aðra áhættu en felst í útlánatapi.  Sem er absúrd.  Enginn lánveitandi á að vera varinn í bak og fyrir gegn efnahagssveiflum.  Í skýrslu Askar Capital um verðtrygginguna er sú ótrúlega staðhæfing að fjárfestum eigi að bjóðast öruggar fjárfestingaleiðir.  Þær eru ekki til.  Því ef svo væri, þá þyrftu þeir enga vexti.

En ég hef ekki tíma í þessa umræðu í bili. Við getum tekið hana aftur upp seinna.

Marinó G. Njálsson, 15.2.2012 kl. 23:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 39
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 38
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband