Leita í fréttum mbl.is

Vaxtadómar og Árna Páls-lög - hluti 2 - Bláeygur Hæstiréttur?

Óhætt er að segja að Hæstiréttur hafi hrist vel upp í þjóðfélaginu sl. miðvikudag.  Í mínum huga kom niðurstaðan ekki á óvart og var gjörsamlega fyrirséð út frá kröfurétti og neytendarétti.  Ég verð þó að segja að ég er ekki sáttur við allan rökstuðning réttarins, frekar en ég var sáttur við rökstuðning hans í september 2010, rökstuðning FME og Seðlabanka Íslands í júní 2010 og efnahags- og viðskiptaráðuneytisins þegar Árna Páls-lögin voru til umfjöllunar hjá efnahags- og viðskiptanefnd í nóvember og desember 2010.

Ég veit eiginlega ekki hvar á að byrja þessa umræðu, því ruglið sem hefur viðgengist er svo mikið.  Eða á ég að segja rökleysan.  Skoðum nokkra punkta:

  • Að tengsl gengistryggingar og vaxta sé slíkt að gengistrygging sé forsenda vaxtanna
  • Að nota mál 471/2010 sem fordæmi fyrir húsnæðislánamál og bara yfir höfuð lán sem tekin voru áður en lánið í máli 471/2010 var tekið
  • Að efnahags- og viðskiptaráðuneytið hafi haldið uppi vörnum fyrir fjármálafyrirtækin í meðferð frumvarps Árna Páls
  • Að fordæmi dómanna á miðvikudaginn sé takmarkað
  • Að Árni Páll hafi verið að verja hagsmuni lántaka með lögum nr. 151/2010

Í nokkrum færslum ætla ég á næstu dögum að fjalla um þessi atriði.  Raunar má segja að ég hafi byrjað þessa uppfjöllun með færslunni um Leiðbeiningar FME/SÍ og Árna Páls lög hækkuðu vexti um allt að 357 ma.kr. á lánum heimilanna, þar sem ég bendi á hvernig lög nr. 151/2010 færðu stórar fjárhæðir frá almenningi til fjármálafyrirtækja.  Í þessari mun ég skoða meint tjón fjármálafyrirtækja vegna dómanna 16. júní 2010 og hvernig Hæstiréttur var blekktur til að halda að "tjón" Lýsingar væri dæmigert fyrir aðra.  

Hæstiréttur látið blekkjast aftur og aftur

Byrjum á þessu með tengsl gengistryggingar og vaxta.  Þar hefur Hæstiréttur látið blekkjast.  Svo einfalt er það.  Þær eru nokkrar gildrurnar sem Hæstiréttur fellur í og leiðir hann af leið í rökleiðingu sinni.  Þær sem mér finnst skipta mestu máli eru:

  1. Að fjármálafyrirtækin séu að fjármagna sig á sama hátt núna og áður
  2. Að öll fjármálafyrirtækin væru að fjármagna sig eins
  3. Að fjármálafyrirtæki hafi yfirhöfuð verið að fjármagna sig eins og þau sögðust hafa gert
  4. Að fjármögnun fjármálafyrirtækjanna komi neytendum við
  5. Að bæta þurfi fjármálafyrirtækjum upp tjón á ákveðnum tímabilum með því að endurreikna allan tímann
  6. Að lánþegum hefðu ekki staðið til boða önnur hagstæð lán, ef gengistryggð lán hefðu ekki staðið til boða
  7. Að lánið sem dæmt var um í september 2010 hafi verið dæmigert fyrir svona lán
  8. Rétturinn áttaði sig ekki á því að um handvalið lán var að ræða

Gott er að skoða fimm fyrstu atriðin saman. 

Grunnvillur í rökleiðslu Hæstaréttar

Stærstu villurnar, grunnvillurnar, í rökleiðslu Hæstaréttar eru tvær:

A.  Að öll fjármálafyrirtæki þurfi að fjármagna sig með lántöku í hvert sinn sem þau veita nýtt lán.

Almennt er talað um að hafi fjármálafyrirtæki 1.000 kr. til aflögu í útlán, þá geti það lánað úr 10.000 kr. eða því sem næst.  Þetta er vegna áhrifa hins svo kallaða peningamargfaldara sem byggir á því að um leið og lán er veitt er það lagt inn á reikning viðkomandi í sama banka.  Peningur fer út sem útlán og inn sem innlán.  En þetta er snúnara þegar kemur að gengistryggðu lánunum. 

Vel getur verið að Landsbanki Íslands (svo dæmi sé tekið) hafi á einhverjum tíma fengið 1 m. japanskra jena lánuð og síðan veitt lán upp á 1 m. JPY.  Málið er að í lang flestum tilfellum fékk lántakinn aldrei jenin í hendur heldur íslenskar krónum.  Jenin fóru aldrei út úr bankanum og raunar er miklu meira en hugsanlegt, að þau hafi aldrei verið til í bankanum.  Landsbanki Íslands gat því lánað þessi jen, eða voru það svissneskir frankar, evru eða bandarískir dalir, margoft án þess að eiga þau nokkru sinni til meðan lántakinn vildi ekki fá myntina í hendur.  Það sem meira er, að í hvert sinn sem Landsbanki Íslands stóð í þessu sýndargjaldeyrisviðskiptum, þá tók hann þóknun fyrir. 

Fjármögnunarkostnaður bankans fólst ekki í því hvað hann greiddi fyrir jenin heldur hvað hann greiddi fyrir krónurnar sem hann í raun og veru afhenti.  Sumar af þessum krónum greiddi hann fyrir dýru verði, en aðrar fjármagnaði hann með ódýrum innlánum.

B. Að LIBOR-vextirnir séu stóra viðmiðið í málinu. 

Mikilvægt er að skilja hvað fjármálafyrirtækið greiddi fyrir peningana sem runnu út til lántaka, hvort og þá hvernig það breyttist með breyttu gengi.  Fyrst skulum við átta okkur á því, að fjármálafyrirtækið ákvað að nóg væri fyrir það að fá tiltekið vaxtaálag ofan á þá vexti sem það fjármagnaði sig á.  Þetta vissu bæði lántakar og lánveitendur.  Að breyta þessari forsendu, eins og Hæstiréttur gerir ítrekað í dómum sínum, er grunnurinn af þeim ógöngum sem Hæstiréttur hefur í reynd komið sér í.  LIBOR vextir voru ekki stóra viðmiðið, heldur vaxtamunurinn sem fyrirtækin voru að sækjast eftir.  Skýrasta dæmið um þetta er að minnst tvö fjármálafyrirtæki notuðu ekki einu sinni LIBOR viðmiðun í sínum vöxtum.  Nei, stóra viðmiðið var álag ofan á þá vexti sem fjármálafyrirtækin sjálf sögðust greiða.  Ég segi "sögðust greiða" þar sem fátt bendir til þess að þau hafi fjármagnað sig í reynd með því að taka lán í erlendum gjaldmiðlum.

Í máli nr. 471/2010 var því haldið fram að fjármálafyrirtækið fjármagnaði sig á ákveðinn hátt.  Ef reikningar þess fyrirtækis eru skoðaðir og starfsheimildir, þá kemur ekkert fram sem bendir til, hvað þá sannar, að þessi háttur hafi verið hafður á. Flest bendir til þess, að það hafi fjármagnað sig á innlendum markaði, m.a. í gegn um eigendur sína, en einnig önnur fjármálafyrirtæki.

Gott og vel.  Göngum samt út frá því að það hefði fjármagnað sig eins og það bar við.  Þá var það fyrir 1.3.2008 að greiða af lánum sínum á sama gengi og lántaki greiddi af lánum sínum til fyrirtækisins.  Eini munurinn var að vextir lánanna voru ekki þeir sömu, þ.e. fyrirtækið fjármagnaði sig á millibankamarkaði á LIBOR-vöxtum með álagi sem var lægra en það álag sem lántaki greiddi.  Fyrirtækið varð því fyrir óverulegum, ef nokkrum, "forsendubresti" fram til þess dags, þó svo að gengistryggingin væri tekin úr sambandi.  Fjármögnun fyrirtækisins breyttist ekkert eftir 1.3.2008 og hefur raunar verið sú sama allan tímann.  En þetta átti BARA við um Lýsingu.  Ekkert annað fjármálafyrirtæki er í þessum sömu sporum og þar liggur hundurinn grafinn.

Hafa skal í huga að lánið í máli nr. 471/2010 var tekið í nóvember 2007 og nánast var sama hvernig tölur í því máli voru skoðaðar og þar með dómskröfur, lántaki kom alltaf betur út en ef gengistryggingin og samningsvextir voru látnir halda sér.  Ástæðan er einföld: 

Lánið var handvalið til að draga fram þá niðurstöðu sem fékkst.

Um það verður fjallað betur síðar.

Fjármögnun og "tjón" annarra fjármálafyrirtækja en Lýsingar

Til að sýna fram á hversu lélegt fordæmi málið var og þar með rökstuðningur Hæstaréttar í þeim dómum sem á eftir fylgdu og með Árna Páls-lögunum, þá er nauðsynlegt að skoða hvernig stærsti hluti gengistryggðra lána var fjármagnaður frá upphafi lánstíma til dagsins í dag.

Best er að skýra þetta út með því að skipta tímabilinu í þrennt, þ.e. frá lántökudegi til 1.1.2008, frá 1.1.2008 til falls fjármálafyrirtækis og loks eftir fall fjármálafyrirtækis.  (Hafa skal í huga að ekki féllu öll fjármálafyrirtæki í október 2008.  SPRON samsteypan féll í mars 2009.)

Frá lántökudegi til 1.1.2008

Fyrst er rétt að taka fram, að gengið er út frá því að fjármálafyrirtækin hafi í raun og veru fjármagnað sig með erlendum lánum (þó ég hafi séð mörg rök fyrir að svo hafi ekki verið og í besta falli hafi sami gjaldeyririnn verið láta velta oft í gegn, lánveitingu eftir lánveitingu). Frá lántökudegi til 1.1.2008 greiddu allir af lánum sínum á sama hátt, þ.e. á gengi dagsins að viðbættum vöxtum.  Vextir fjármálafyrirtækjanna voru eitthvað lægri en útlánsvextirnir.  Með því að afnema gengistrygginguna, þá detta allar gengissveiflur út úr útreikningunum hjá lántökum, en fjármálafyrirtækin halda áfram að vera með gengissveiflur.  Hvort fjármálafyrirtækið tapar eða hagnast á því veltur á tvennu:  A. Sveiflum á gengi frá lántökudegi til 1.1.2008 og hvernig það hefur áhrif á greiðslur lántaka;  B. Hvenær og á hvaða gengi fjármálafyrirtækið greiðir lánadrottni sínum.

Samkvæmt hagtölum Seðlabanka Íslands var staða gengistryggðra skulda við fjármálakerfið 165,8 ma.kr. í lok árs 2007.  Til að reyna að átta mig á því hver talan væri, ef lánin hefðu verið í íslenskum krónum, þá sýnist mér að sú tala hefði verið 166,4 ma.kr.  Sem sagt nánast sama tala.  Þetta segir okkur að engu hefði skipt fyrir fjármálafyrirtækin hvort lánin voru í gengistryggð eða ekki upp á höfuðstólsstöðu í árslok 2007.  En þá eru það vextirnir.  Ég sló líka á þá.  Niðurstaðan var að vextir af gengistryggðum höfuðstóli voru 39,3 ma.kr. frá 1.1.2004 til 31.12.2007, en ef sömu vextir hefðu verið á höfuðstóli í íslenskum krónum þá hefðu vextir orðið 40,1 ma.kr.!  Fjármálafyrirtækin höfðu ekki orðið fyrir neinu tjóni, raunar hagnast, ef samningsvextir hefðu gilt á íslenskan höfuðstól fram til 31.12.2007.

Vissulega hefur þetta mismunandi áhrif á mismunandi lán og þannig gæti eitt lán komið út í plús meðan annað verður í mínus.

Frá 1.1.2008 fram að falli fjármálafyrirtækja

Ekki fer á milli mála að á tímabilinu frá 1.1.2008 fram að falli fjármálafyrirtækjanna er afnám gengistryggingarinnar lántaka í hag, þ.e. upphæð höfuðstóls, afborgana og vaxta lækkar ef gengisþátturinn er tekinn út.  En hvort fjármálafyrirtækin verði fyrir fjárútlátum vegna þessa veltur allt á því hvernig það fjármagnar sig og greiðir af sínum lánum.  Sé það að greiða jafnóðum af lánum sínum, þá endurgreiddi það greinilega háar upphæðir umfram það sem lántaki greiðir miðað við að lánið sé ekki gengistryggt.  Málið er að fjármálafyrirtæki fjármagna sig almennt ekki að þau greiði sín lán niður sem mánaðarlegum afborgunum.  Þau fjármagna sig með kúlulánum, þ.e. einn gjalddagi eftir svo og svo marga mánuði eða ár.  Vaxtagreiðslur er aftur mismunandi eftir lánum, þ.e. stundum eru vextir greiddir reglulega á lánstímanum, en í öðrum tilfellum um leið og lánið er gert upp.  Það eru  því verulegar líkur á því, að fjármálafyrirtækin hafi ekki orðið fyrir neinu tjóni í formi meiri fjárútláta en það sem kom í kassann við afnám gengisbindingar lánanna.  Hafi slíkt ekki verið í gangi, þá er tap þess óverulegt.

Hvernig kemst ég að því að tapið hafi verið óverulegt?  Eins og áður segir var staða gengistryggðra höfuðstóla lána og höfuðstólsins án gengistryggingar nánast sú sama í ársbyrjun 2008, þ.e. um 165 ma.kr.  Miðað við að um 20 ára lán (að jafnaði) hafi verið að ræða, þá telst mér til að afborganir fyrstu 9 mánuðum ársins hafi verið annars vegar 8,4 ma.kr. og hins vegar 7,1 ma.kr., lægri talan íslenskur höfuðstóll.  Vextirnir sem fjármálafyrirtækin greiddu af heildarlánsfjárhæðinni voru aftur (miðað við 1% álag umfram LIBOR) 20,6 ma.kr.  Vaxtatekjur af lánunum námu hins vegar 28,6 ma.kr. ef miðað er við íslenskan höfuðstól, en 34,1 ma.kr. miðað við gengistryggðan.  "Tjónið" byggist því á því hvort vaxtamunurinn hafi verið 8 ma.kr. eða 13,5 ma.kr. og þessum 1,3 ma.kr. sem fjármálafyrirtækin hefðu fengið til viðbótar í afborganir.

Tíminn frá falli

Nú er nauðsynlegt að greina á milli nýrra fjármálafyrirtæka og þeirra sem eru í slitameðferð. 

Lýsing er eiginlega alveg kapítuli út af fyrir sig.  Fyrirtækið er eyland í þeim skilningi að það er ekki banki eða í eigu banka.  Útlán þess eru því mun tengdari upprunalegri fjármögnun lánanna og hver króna sem fyrirtækið nær ekki að innheimta kemur beint við greiðsluhæfi þess.  Þess vegna var niðurstaða í máli nr. 471/2010 á margan hátt rökrétt niðurstaða, en samt ekki.  Rökréttasta niðurstaðan hefði verið, ef ein af kröfum aðila (mér er sama hvor það var, þar sem málið var handvalið og því gjörsamlega ótækt sem prófmál) hefði verið að vísa til 2. gr. laga nr. 38/2001, þar sem segir:

Þó er ávallt heimilt að víkja frá ákvæðum laganna til hagsbóta fyrir skuldara.

Með því að nýta þetta ákvæði, þá hefði verið hægt að fara millileið, þannig að Lýsing hefði fengið þá vexti sem fyrirtækið þurfti án þess að setja snöru um hálsinn á öllum lántökum.

Þá eru það fyrirtækim í slitameðferð, þ.e. þau sem hrundu í október 2008.  Tjón þeirra er augljóslega mikið, en um það var samið við kröfuhafa.  Tjónið felst í því að veita nýju bönkunum afslætti sem kröfuhafar tóku á sig.  Sem sagt tjónið var afskrifað hjá hrunbönkunum og þó svo að kröfuhafar þeirra hafi gert sér vonir um að fá eitthvað af þessu til baka, þá var það aldrei fast í hendi. 

Hæstiréttur hefur ekkert með það að gera hvort og þá hvaða vexti slík fyrirtæki eiga að bera, þar sem þau greiða ekkert meira til kröfuhafa en þau hafa efni á.  Auk þess hafi allar slitastjórnir hrunbankanna gefið nýju bönkunum ríkulegan afslátt af gengisbundnum lánum við flutning þeirra til nýja bankanna.  Í mínum huga eru því slitastjórnir hrunbankanna og hrunbankarnir sjálfir ekki að taka á sig neitt tjón vegna ólögmætis gengisbindingarinnar umfram það sem þessir aðilar hafa sjálfir samþykkt.  Aftur á móti eru kröfuhafar þeirra að taka á högg, en það er ekki íslenska réttarkerfisins að rétta þeirra hlut óumbeðið.

Undantekning á fyrirtækjum í slitameðferð er vissulega SPRON-samsteypan.  Vandinn þar er að samkvæmt gjaldþrotalögum þá ber slitastjórn að hámarka eigur fyrirtækjanna, þ.e. fyrirtækin eiga að greiða kröfuhöfum sínum eins mikið og hægt er.  Hæstiréttur afgreiddi þetta snyrtilega í dómnum á miðvikudaginn.  Nýir vextir gilda frá dómsuppkvaðningu í máli nr. 604/2011 eða eins og Hæstiréttur segir:

Er því fallist á með sóknaraðilum, að sá rangi lagaskilningur sem samkvæmt framansögðu lá til grundvallar lögskiptum aðila i upphafi og þar til dómur Hæstaréttar gekk 14. febrúar 2011 verið í uppgjöri aðila einungis leiðréttur til framtíðar.

Niðurstaðan er eins hrein og skýr og hægt er.  SPRON/FF/Drómi mega ekki gengistryggja lán né innheimta nýja vexti fyrr en eftir dómsuppkvaðningu 14. febrúar 2011.  Dagsetningin er ekki þegar dómar 92/2010 og 153/2010 gengu, þegar dómur 471/2010 gekk eða við gildistöku laga nr. 151/2010.  Nei, það er þegar dómur Hæstaréttar gekk í máli nr. 604/2010.  Verður SPRON/FF/Drómi fyrir tjóni við þetta?  Nei, tjónið lendir alfarið á kröfuhöfum. Eins og áður segir voru þeir ekki aðilar að dómsmálunum og því ekki í verkahring Hæstaréttar að taka tillit til hugsanlegra krafna sem þeir gera á SPRON/FF/Dróma. Kjánalegast í þessu máli er, að aðalkröfuhafi FF er SPRON og aðalkröfuhafi SPRON mun vera Seðlabanki Íslands (án þess að ég hafi það staðfest).

Þá eru það nýju bankarnir.  Hvaða tjóni verða þeir fyrir við það að samningsvextir gildi á ógengistryggðum höfuðstóli áður gengistryggðra lána?  Ég ætla ekki að fullyrða að tap þeirra sé ekkert.  En að það hlaupi á einhverju háum tölum er gjörsamlega út í hött.  Allt veltur á því hvort afslátturinn sem þeir fengu á áður gengistryggðum lánasöfnum sé meiri eða minni munurinn á höfuðstóli án gengisbreytinga og bókfærðu yfirfærsluviðriði lánanna.  Sé bókfærða virðið lægra, þá verður ekkert tap, en sé það hærra, þá nemur tapið mismuninum.  Aftur megum við ekki rugla saman tapi vegna yfirfærslunnar og að bankarnir fari á mis við hagnað í framtíðinni.  Það er málinu óviðkomandi!

Þá er næst að spyrja hvort þeir verði fyrir tjóni vegna þess að samningsvextir gildi áfram.  Svarið við því er stórt NEI.  Raunar eru miklar líkur á því að vaxtamunur þeirra aukist miða við það sem hrunbankarnir voru að sækjast eftir.

Af hverju gerist það?  Hæstiréttur rökstyður það að samningsvextir geti ekki gilt eftir að gengistryggingar ákvæði hafi verið numið úr gildi með því að "slík vaxtakjör af láninu gátu ekki komið til álita nema í tengslum við gengistryggingu þess".  Hafa verður í huga, að ekki notuðu öll fjármálafyrirtæki tengingu við LIBOR vexti.  Þannig var Kaupþing með eigin vexti, SP-fjármögnun með gengiseiningar og einhverjar fleiri útfærslur voru á þessu.  Eins og ég hefur áður bent á voru þessi rök líklegast góð og gild gagnvart Lýsingu, en ekki öðrum.

Hvers vegna eru bankarnir ekki að fá minni vaxtamun? Ástæðan er hvernig nýju bankarnir fjármagna sig.  Þeir gera það nefnilega á annan veg en hrunbankarnir gerðu.  Nýju bankarnir fjármagna sig að stóru leiti með innlánum og það á mjög lágum vöxtum, alveg niður í 0,5% óverðtryggða vexti.  Þannig að þegar Hæstiréttur lét plata sig í að tengja vexti lánanna við lægstu vexti Seðlabanka Íslands samkvæmt 10. gr. laga nr. 38/2001, þá var hann að gefa nýju bönkunum viðbótarvaxtamun upp á ríflega 13%!  Tekið aftur fram að þetta var ekki gert í máli nr. 471/2010, heldur í þeim málum, þar sem Hæstiréttur leit svo á að dómur nr. 471/2010 væri fordæmisgefandi.

Hvert var þá "tjónið" af ógildingu gengistryggingarinnar?

Þegar allt kemur til alls, þá lendir "tjónið" af ógildingu gengistryggingarinnar miðað við að greiddir vextir gildi í öllum tilfellum nema einu á kröfuhöfum hinna föllnu fjármálafyrirtækja.  Sama hefði orðið ef samningsvextir á íslenskan höfuðstól hefðu gilt.  Eina undantekningin er Lýsing, sem þar sem lægri tekjur raska greiðsluhæfi fyrirtækisins.  Lýsing er bert að baki í þeim skilningi að það hefur ekkert fallið fjármálafyrirtæki að baki sér.  Gagnvart öðrum fyrirtækjum með starfsleyfi sem fjármálafyrirtæki, þá lýsir "tjónið" sér fyrst og fremst í glötuðu tækifæri til hagnaðar frá hruni til þess dags, þegar nýir vextir koma á lánin.  Hvenær það gerist virðist óyggjandi, þar sem dómur Hæstaréttar í máli nr. 600/2011 segir ákaflega skýrt og greinilega að kröfuhafi skuli bera byrðarnar af misskilningi aðila frá lántökudegi, þar til dómur gekk í máli nr. 604/2010 þann 14. febrúar 2011.  Ég get ekki túlkað þau orð Hæstaréttar á annan hátt, en að það eigi við um öll lán sem ennþá var greitt af á þeim tíma þegar dómurinn gekk.  Þá get ég ekki séð, að það skipti máli hvort lánin hafi verið í skilum eða ekki, þar sem útsendar tilkynningar fólu í sér upplýsingar um skuldbindingu sem gildir fyrir þann gjalddaga sem átti í hlut.
 
mbl.is Gæti lækkað lán fólks verulega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Þetta er athyglisverð og vel unnin úttekt. Ég hef líka verið að velta fyrir mér hinni raunverulegu lántöku bankanna í erlendum myntum. Ég fæ ekki séð að þessi gengistryggðu lán hafi verið inni í hinu eiginlega veltukerfi bankanna, sem Reiknistofan gerir upp á hverri nóttu eftir starfsdag. Sé þessi tilfinning mín rétt, gætu þessi lán verið verðlausar tölur úr reiknilíkani, þannig að lánveitandinn hafi ekki látið af hendi nein raunveruleg verðmæti og eigi því tæpast rétt á endurgreiðslu í raunverðmætum. Í þessu sambandi hef ég hugsað til dómsins í Bandaríkjunum, þar sem lánið var eingöngu reiknitala en ekki raunverðmæti.

Mér finnst líka umhugsunarvert að dómur 471/2010 skuli vera álitinn fordæmisgefandi. Sá dómur er staðfesting á héraðsdómi þar sem stór hluti af niðurstöðu dómarans er byggður á hans hugsunum og tilfinningum, en ekki á efnisatriðum málsins. Áberandi er að dómari þess máls sniðgengur góða rökfærslu verjanda í málinu en tekur svo alltaf undir með sækjanda, jafnvel í þeim atriðum þar sem rökfærslan gengur ekki upp, gagnvart gildandi löguim.

Þú bendir réttilega á hve Hæstiréttur hefur látið ginnast út í hreina vitleysu. Sorglegt er til þess að hugsa að það skuli vera ALLIR sömu dómararnir í Hæstarétti sem dæma málið 153/2010 og svo síðar á sama ári málið 471/2010. Það væri áreiðanlega fróðlegt að taka saman í eina skýrslu framkvæmd dómskerfisins í gegnum þetta tímabil bankahrunsins.

En enn og aftur takk fyrir þessa frábæru úttekt. Ég bíð spenntur eftir framhaldinu.

Guðbjörn Jónsson, 22.2.2012 kl. 07:51

2 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Það er mikilvægt að átta sig á því að hvaða marki það skiptir máli hvort bankarnir tóku erlend lán á móti slíkum lánum sem þeir veittu. Að mínu mati skiptir þetta einungis máli ef sýna á fram á að lán sem veitt var hafi raunverulega verið erlent lán og þar af leiðandi ekki ólöglegt. Þ.e.a.s. það gengur ekki upp að segjast hafa lánað evrur ef þú áttir engar evrur að lána.

Sé hins vegar fallist á að lánin hafi í raun ekki verið erlend lán heldur lán í krónum tryggð með gengisvísitölu skiptir í raun engu máli hvort bankinn átti gjaldeyri til að lána eða ekki. Þá kemur að spurningunni um hverngi eigi að skilgreina vexti eða vaxtakjör. Það er í rauninni alls ekki einfalt mál og það er líklega ástæðan fyrir því hve manni finnst þessir dómar misvísandi. Ef þú túlkar vexti þröngt, bara sem þann hluta lánskjaranna sem heitir vextir, eru engin rök fyrir því að láta neina aðra vexti en samningsvextina gilda. En ef þú túlkar vexti vítt, sem lánskjörin í heild er rökrétt niðurstaða að þar sem kjörin eru að hluta ógild séu þau það í heild.

Þorsteinn Siglaugsson, 22.2.2012 kl. 10:10

3 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Guðbjörn, ég fjalla meira um þetta í næstu færslu um málið.

Þorsteinn, ég er sammála þessari nálgun þinni um vexti og vaxtakjör, en ekki niðustöðunni um vaxtakjörin.  Vaxtakjörin voru álag ofan á fjármögnunarvexti og ég tel eðlilegt að það atriði haldist.  Þá á ég við raunverulega fjármögnun, en ekki millibankavexti sem eingöngu ná til lítilshluta fjármögnunarinnar.  Um þessar mundir er stærsti hluti fjármögnunar nýja bankanna innlánsvextir.  SPRON/FF/Drómi eru ekki með neina nýja fjármögnun um þessar mundir heldur eingöngu í að gera upp skuldir af eldri fjármögnun.  Staða Lýsingar er mér aftur óljós, þar sem fyrirtækið er enn að stunda útlán, en ég veit ekkert um hvernig fyrirtækið fjármagnar sig.

Marinó G. Njálsson, 22.2.2012 kl. 11:21

4 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Já, ef umsamdir vextir eru skilgreindir sem álag á einhverja fjármögnunarvexti skipta þeir máli. Það á við um lán sem eru raunverulega erlend. Ekki um önnur lán, held ég. Að öðru leyti skipta þessir fjármögnunarvextir engu máli, og hvers vegna ættu þeir líka að gera það? Ef þú lánar mér pening og við semjum um 10% vexti kemur það mér ekkert við hvort þú átt féð fyrir, færð það gefins eða tekur það að láni og hvaða vexti þú greiðir þá af því, enda fjallar samningur okkar ekkert um það. Sama á við um langflest önnur lán, innlend sem erlend. Ef þú tekur t.d. innlent verðtryggt lán gæti svo sem allt eins verið að bankinn sem lánar þér fjármagni sig í erlendum myntum og væri því alls ekkert háður verðtryggingunni. En það kæmi málinu einfaldlega ekkert við.

Þorsteinn Siglaugsson, 22.2.2012 kl. 15:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.11.): 28
  • Sl. sólarhring: 43
  • Sl. viku: 225
  • Frá upphafi: 1679920

Annað

  • Innlit í dag: 24
  • Innlit sl. viku: 202
  • Gestir í dag: 24
  • IP-tölur í dag: 24

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband