Leita í fréttum mbl.is

Sighvati Björgvinssyni svarað

Sæll Sighvatur

Þetta er Marinó "nokkur" Njálsson.  Þú sendir mér pillur í einhverju bræðikasti, þar sem þér líkar ekki við málflutning minn um orð þín í Silfri Egils sl. sunnudag.  Ég tek það fram að ég á ekki í neinu stríði við þig og mér þykir þú fara sérkennilega leið að Ólafi Arnarsyni að spyrða málflutning okkar saman.  Við Ólafur höfum svo sem þekkst í mjög mörg ár, leiðir okkar lágu saman í MR, en þess fyrir utan ekki talað mikið saman nema þá sjaldan að við hittumst á förnum vegi.

Mér fannst það merkilegt, sem þú sagðir í Silfrinu sl. sunnudag og þá sérstaklega orðin:

..og ég hef stóran hluta af mínum lífeyristekjum frá þeim árum sem ég var blaðamaður, þannig að ég veit alveg hvað ég er að segja um þetta.. (orðrétt eftir þér haft)

Ég benti á í færslu sl. sunnudag og aftur í dag, að þetta geti ekki staðist, þ.e. ómögulegt sé að lífeyrisgreiðslur vegna starfa sem blaðamaður (ritstjóri Alþýðublaðsins) frá 1969 til 1974, standi undir stórum hluta lífeyristekna þinna í dag.  Slíkt sé ekki fræðilegur möguleiki.  Benti ég á því til stuðnings orð Guðmundar Gunnarssonar, fyrrverandi formanns Rafiðnaðarsambands Íslands, sem sat með þér í settinu síðasta hluta umræðunnar.  Hann sagðist hafa greitt í lífeyrissjóð í 10 ár, þegar verðtryggingin var sett á.  Þá hafi inneign hans verið búin að rýna niður í andvirði eins lambalæris.

Ég sé að þessi málflutningur minn fer eitthvað illa í þig.  En þó svo sé, finnst mér í lagi að greinir satt og rétt frá.  Líklegast hefur þú í starfi þínu hjá Þróunarsamvinnustofnun átt erfitt með að fylgjast með þjóðfélagsumræðunni hérna heima, en mig langar til að leiðréttar nokkrar rangfærslur hjá þér og óþarfa ergelsi:

Þú segir:

Ég sé nú að Marinó nokkur Njálsson sem mun hafa verið formaður Hagsmunasamtaka heimilanna en sagði af sér, væntanlega af ærnu tilefni, sem eitthvað var víst rætt um á þeim tíma, tekur í tauminn með þér. Því geri ég ykkur báðum, þér og Marinó, sama tilboðið.

Hér tekst þér einhvern veginn að snúa flest á annan veg en það er: 

  • Fyrsta er þetta með "Marinó nokkur Njálsson".  Þú hefðir nú getað hringt í hana Jóhönnu fyrrum samstarfskonu þína og spurt hana út í þennan mann sem dirfðist að efast um sannleiksgildi orða þinna.  Auk þess er óvirðing að tala um menn á þessum nótum, þegar síðan er beint áskorun til manns.  Loks, þá aðgreini ég mig með G. fyrir Gunnar vegna þess að ég á mér nafna, Marinó Njálsson, sem er hinn mætasti maður og vil ég ógjarnan að villst sé á okkur.  Báðir höfum við unnið hjá sama fyrirtæki, báðir eru við kenndir við tölvubransann og báðir erum við í sama gönguhópnum.  Því greini ég mig skýrt með þessu G á milli fornafns og eftirnafns.  Eitt í viðbót aðgreinir okkur nafna.  Hann er kallaður Marri en ég Maddi af þeim sem nota ekki Marinó.
  • "..mun hafa verið formaður Hagsmunasamtaka heimilanna.." - ég var aldrei formaður HH, ekki einu sinni varaformaður, en gegndi um tíma stöðu ritara.
  • "..en sagði af sér.." - ég get ekki sagt af mér embætti sem ég gegndi ekki, en ég vissulega hætti í stjórn áður en kjörtímabilinu lauk.  Ég sem sagt sagði mig úr stjórninni.
  • "..væntanlega af ærnu tilefni.." - hér gefur þú í skyn að ég hafi haft óhreint mjöl í pokahorninu.  Staðreyndin er sú, að ég hafði gert samkomulag við konuna mína að um leið og ég og okkar fjármál yrði að söluefni í fjölmiðlum, þá stigi ég til hliðar.  Já, tilefnið var ærið, það var loforð sem ég stóð við.  Menn hafa leitað að ýmsu til að gera mig tortryggilegan.  Nú síðast sá Viðskiptablaðið ástæðu til að slá því upp, að fyrir 18 árum hafði ég dæmt handboltaleiki með Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur.  Þetta hlýtur þá að þýða að þessi 18 ár á milli fundu þeir ekki neitt!
  • "..tekur í tauminn með þér.." - gefur þú þarna í skyn að ég taki í tauminn með Ólafi Arnarsyni, en hið sanna er að mín færsla um að ekki stæðist að stór hluti lífeyrisgreiðslna þinna kæmu frá tímum þínum sem blaðamanns birtist áður en Ólafur birti sína, þannig að nær væri að tala um að Ólafur hafi gripið í tauminn með mér.

Boð um upplýsingaskipti

Þú gerir mér tilboð um einhver upplýsingaskipti, eins og ég hafi skorað á þig um að gefa upp einhverjar upplýsingar.  Því fer fjarri lagi.  Ég hef bara farið fram á að þú leiðréttir orð þín um að stór hluti lífeyris þíns komi frá því sem þú greiddir inn fyrir 38-43 árum.  Ég tek þessi orð ekki trúanleg, sérstaklega þegar orð Guðmundar Gunnarssonar um að hans lífeyrir hafi rýrnað niður í ígildi lambalæris þó hann hafi safnað í 10 ár en þú bara fimm.

Þú segir svo að ég fari með lygasögur.  Þær hef ég engar sagt, nema að ég kallaði þig óvart kommissar hjá Tryggingastofnun en átti að vera Þróunarsamvinnustofnun.  Var það saklaust misminni. 

Þú biður mig um að hlusta á upptökur af þættinum:

Síðasta Silfur Egils er á netinu og nærtækt fyrir þá sem vilja fara með satt en ekki búa til lygi að heyra það orðrétt, sem þar var sagt. Þar sagði ég að ég þekkti til hinna almennu lífeyrissjóða af eigin reynslu því kona mín fengi sinn lífeyri þaðan og ég sjálfur fengi greiðslur úr lífeyrissjóði blaðamanna.  Ég sagði aldrei að þorri lífeyrisins míns kæmi þaðan enda fer því víðs fjarri. Það er lygasaga, tilbúningur ykkar.

Allt í lagi, hlustum þá á Silfrið.  Hægt er að nálgast upptökuna hér.  Þrjú myndbönd eru birt í færslunni og sé myndband nr. 2 skoðað, þar sem Sigurður Þ. Ragnarsson kemur fram, þá segir þú orðrétt eftir 7 mínútur og 29 sekúndur:

..og ég hef stóran hluta af mínum lífeyristekjum frá þeim árum sem ég var blaðamaður, þannig að ég veit alveg hvað ég er að segja um þetta..

Vissulega notaði ég eftir minni "meginhluta", þar sem ég hafði ekki upptökuna þegar ég skrifaði færsluna.  Leiðréttist það hér með.  En hver stór hluti er "stór hluti" miðað við "meginhluti"?    Á þessu er í mínum huga bitamunur en ekki stærðarmunur. Þú gætir haft aðra skoðun á því.  Túlkunaratriði hvort 30% sé nóg til að vera stór hluti, eða hvort það þurfi að vera yfir 50%.  Samkeppniseftirlitinu finnst t.d. 40% ekki vera nógu stór til að vera "stór hluti", þ.e. samkeppnisráðandi.  Þetta er því erfitt túlkunaratriði sem hver og einn hefur líklegast sína sýn á.  Ólafur Arnarson færði ögn í stílinn og sagði þig hafa sagt engan annan lífeyri fá.  En það voru ekki mín orð og óska ég eftir því að þú gerir greinarmun á okkur Ólafi.  Við kunnum að vera á svipuðum aldri og með stúdentspróf frá sama skóla, en hann er með ljóst hár, ég dökkt,  á okkur er ágætur munur í þyngd, hann er sjálfstæðismaður en ég er í Samstöðu og hann er uppalinn í Garðabæ, ég á Seltjarnarnesi og svona mætti lengi telja.  Ekki vildir þú að Siggi ruglaði ykkur Styrmi saman.

Þú heldur svo áfram:

Ég kæri mig hins vegar ekki um að búa til sams konar lygasögur um persónulega hagi ykkar og þið gerið um mig.  Því endurtek ég tilboðið.  Ég er reiðubúinn að gera opinberlega grein fyrir mínum persónulegu högum þannig að fólk geti sjálft séð hvort og þá að hve miklu leyti mínir eiginhagsmunir hafi áhrif á þær skoðanir sem frá mér koma.

Það er nú um seinan fyrir þig að búa ekki eitthvað til um mig.  Þú ert bæði búinn að gera það beint og óbeint.  Ég hef ekki búið til eitt eða neitt um þína persónulegu hagi, þar sem ég hef enga vitneskju um þá né kæri mig um slíka vitneskju.  Ég hef ekki efast um hvaða hagsmuna þú ert að gæta eða gert ráð fyrir að málflutningur þinn sé á annarlegum nótum.  Ég efast um að ég hafi hagsmuna að gæta varðandi greiðslur til þín úr þeim lífeyrissjóði sem þú ert líklegast að fá blaðamannalífeyrinn þinn úr (án þess að ég viti hvaða sjóður það er) og ef svo er þá eru þeir hagsmunir mjög litlir.  Mínir stærstu lífeyrishagsmunir eru nefnilega í Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda og hann var ekki stofnaður fyrr en um það leiti sem þú steigst inn á þing eða 26. september 1974.

Hvers vegna ætti ég að gera grein fyrir mínum persónulegu högum, eignum, skuldum og tekjum? Ég hef ekki óskað eftir slíku frá þér og hef engan áhuga á slíkum upplýsingum.  Hugsanlega þætti einhverjum fjölmiðlum það áhugavert, en ég hef engan áhuga á að svala forvitni þeirra.  Ég vil bara að þú viðurkennir, að þú hafir mismælt þig eða orðið á í messunni.  Hafir þú ætlað að segja að þú hefðir góðar tekjur frá lífeyrissjóðinum sem þú greiddir í sem blaðamaður eða nokkrar eða eitthvað annað, þá er það hið besta mál.  Þú þarft ekki annað en að leiðrétta það.  En að gera þann úlfalda úr mýflugu sem þú gerir er fáránlegt.  Auk þess væri ekki nóg fyrir þig að gera grein fyrir eignum, skuldum og tekjum í dag.  Til þess að við stæðum jöfnum fótum, þá yrðir þú að fara aftur til áranna sem þú segist hafa stóran hluta lífeyris þíns frá, svo hægt væri að rekja hvernig réttindi þín þróuðust.  Síðan yrðir þú að gera grein fyrir lánum sem þú tókst á þeim tíma, upphæð þeirra og greiðsluflæðið af þeim.  Ertu til í það?  Ég hef engan áhuga á að vita það, en ég vil bara að hlutirnir séu á jafnréttisgrunni.

Mín saga í grófum dráttum

Ég hef sagt flest af því sem kemur hér fyrir neðan áður og hefið því verið auðvelt fyrir þig að leita upplýsingarnar uppi á vefnum.

Í mars 2002 eignuðumst við hjónin yndislega dóttur.  Bættist hún við ekki minna yndislegan hóp þriggja barna.  Við þessa fjölgun stóðum við frammi fyrir því að þáverandi húsnæði myndi ekki duga okkur innan fárra ár.  Við héldum samt aftur af okkur meðan strákarnir gátu deilt herbergi, en ljóst var að slíkt gat ekki gengið til lengdar.  Sóttum við því um lóð í Þingahverfi í Kópavogi vorið 2005, þ.e. áður en mesta brjálæðið byrjaði, og fengum.  Hugmyndin var að byggja eins ódýrt og hægt væri og láta söluandvirði af gamla húsinu dekka framkvæmdakostnað vegna nýja hússins.  Ég er viss, Sighvatur, að þú eða einhver í kringum ykkur hjónin hafi farið eins að hér á árum áður.  Ég er líka viss um að þú hafir átt þér svipaðan draum, fyrir utan að margt er líkt með okkur hvað fjölskylduna varðar, þ.e. 4 börn, 2 strákar og 2 stelpur.  Já, okkur hjón langaði til að byggja okkar draumahús.

En draumurinn snerist upp í martröð, þegar fasteignamarkaðurinn botnfraus í nóvember 2007 rétt um það leiti þegar við vorum komin nógu langt með nýja húsið til að setja það gamla á sölu.  Við sitjum uppi með tvær eignir.  Aðra sem við getum ekki selt (án þess að tapa háum upphæðum) og hina sem við náum ekki að klára (þó vissulega styttist í það, er að sparsla efri hæðina eftir því sem tími og peningar leyfa, en verð að láta vera að fá fagmenn í verkið).  Við búum í nýja húsinu og mikið væri gott að geta gert það áfram. 

Við erum með alla flóruna í lánum.  Þegar ég sá hvert stefndi vorið 2008, reyndi ég að fá öll lán fryst meðan það versta væri að ganga yfir.  Í ljós koma að það versta var framundan, en ekki að baki, og við, þ.e. Íslendingar, erum enn að moka okkur í gegn um skaflinn.  Framan af gerðum við allt til að halda lánum í skilum og lánadrottnum góðum.  Frystingar fengust, greiddir voru bara vextir og svona mætti lengi telja.  Frekar seig á ógæfuhliðina þegar SPRON féll í mars 2009.  Má segja að sú ákvörðun Steingríms og Gylfa Magnússonar, að færa SPRON ekki yfir í Nýjan SPRON hafi orðið að myllusteinum um háls okkar hjóna.  Myllusteina sem ómögulegt hefur verið að losna við og eru bök okkar sífellt að bogna meira undan þeim.

En eitt verður ekki af okkur tekið.  Við höfum sífellt reynt að semja.  Ég á það skjalfest, að 904 dagar eru í dag frá því fyrsta tilboð okkar um skuldauppgjör fór til eins lánadrottins okkar hjóna.  Á þessum 904 dögum hefur ýmislegt verið reynt og ekki í einu einasta tilfelli hefur verið gert ráð fyrir niðurfellingu upprunalegs höfuðstóls veðlána.  En ekkert hefur gengið þrátt fyrir að ég hafi gert fleiri tilboð en ég kæri mig um að nefna. 

Á sama tíma hef ég barist harðri baráttu fyrir leiðréttingu lána allra heimila með húsnæðislán og hef ALDREI látið mína stöðu stjórna gjörðum mínum.  Raunar er það þannig, að í sumum tilfellum hef ég talað fyrir úrræðum sem hafa gengið gegn hagsmunum okkar hjóna.  (Gerði ég það m.a. í vinnu sérfræðingahópsins svo kallaða.) 

Á þessum tíma hef ég líklegast fórnað tekjum upp á 8-9 m.kr. bæði vegna þess að ég hef látið hagsmunabaráttuna allt of oft ganga fyrir tekjuöflun og hitt að fyrirtæki úr ákveðnum geira þjóðfélagsins hafa ekki beint verið æst í að kaupa þjónustu af mér, en þau sköffuðu mér aftur uppistöðuna í tekjum mínum áður fyrr. 

Þrátt fyrir þetta hefur hópur einstaklinga haft það að leik eða vegna sjúkleika að níðast á mér, eins og ég hafi verið á óstjórnlegu neyslufylleríi, vilji láta aðra borga skuldir mínar, tortryggt mig við öll tækifæri og ég veit ekki hvað.  Ég er með þykkan skráp, en þetta hefur reynt mikið á fjölskyldu mína.  Samt tel ég mig bara vera að vinna að því að þeir sem brutust inn á heimili landsmanna skili því sem þeir tóku ófrjálsri hendi.  Í þeim innbrotum eru lífeyrissjóðirnir á vissan hátt þjófsnautar, þar sem þeir hafa glaðir skráð til eigna hjá sér verðbætur af verðbólgunni sem innbrotsþjófarnir orsökuðu.

Framhaldið

Næstu skref eru óljós.  Hæstiréttur, ESA, Evrópuþingið og framkvæmdastjórn ESB eru öll með mikilvæg mál til úrskurðar.  Við ættum að heyra frá Hæstaréttin innan 10 daga, en lengra er í hina.  Hugsanlega gætum við fengið fjórar mismunandi niðurstöður og þá verður úr vöndu að ráða.  Hvernig sem allt fer, þá vonast ég til að fleiri treysti mér til góðra verka en áður og verkefnin, sem hafa látið bíða eftir sér, fari að koma í hús.  Nú ef ekki, þá er bara að halda áfram að freista gæfunnar í útlöndum og vona að maður detti niður á áhugaverð verkefni þar.

Lokaorð

Ég vona að þú Sighvatur sért sáttur við þau svör og þær skýringar sem ég hef gefið hér.  Mig langar ekkert að elda grátt silfur við þig.  Mér fannst það aftur neikvætt að þú hafir ákveðið að hagræða sannleikanum í Silfri Egils sl. sunnudag til að koma höggi á félaga minn Sigurð Þ. Ragnarsson, varaformann Samstöðu.  Hann fékk ekki færi á að leiðrétta þig þar sem þú tókst upp nær allan tímann sem Egill ætlaði honum.  Það er ekki þér að kenna, þannig séð, því auðvitað á Egill að stjórna því hve mikið menn tala, en þér þótti ekkert leitt að yfirgnæfa Sigurð.  Sýna að þú værir ekki dauður úr öllum æðum, að það var meiri stormur í þér en Sigga stormi. 

Ég held að þar hafir þú misreiknað þig.  Almenningur vill ekki lengur panelista sem tala aðra á kaf og leyfa ekki umræðunni að fljóta.  Fólk vill heldur ekki menn sem segja "fáránlegt" án þess að skýra það út.  Fólk er búið að fá nóg af þeim sem tala allt niður og segja "ekki hægt".  Ég hélt að vinnan fyrir Þróunarsamvinnustofnun myndi gera þig víðsýnni, því þar er fólk (að ég get ímyndað mér) sífellt að leysa "ekki hægt" viðfangsefni.  Við Siggi stormur, Lilja Mósesdóttir og þau sem eru með okkur í Samstöðu erum einmitt ásamt fleiri góðum félögum okkar úr öðrum flokkum að vinna að því að festa í sessi þessa hugsun hér á landi.  "Ekki hægt" er ekki til í okkar orðaforða.  Vandamál eru heldur ekki til.  Hjá okkur eru þetta viðfangsefni sem þarf samhentan og hugmyndaríkan hóp til að finna góð lausn á til hagsbótar fyrir þjóðfélagið í heild en ekki þröngan hóp innan þess.

Með vinsemd

Marinó G. Njálsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ég held að þar hafir þú misreiknað þig. Almenningur vill ekki lengur panelista sem tala aðra á kaf og leyfa ekki umræðunni að fljóta. Fólk vill heldur ekki menn sem segja "fáránlegt" án þess að skýra það út. Fólk er búið að fá nóg af þeim sem tala allt niður og segja "ekki hægt". Ég hélt að vinnan fyrir Þróunarsamvinnustofnun myndi gera þig víðsýnni, því þar er fólk (að ég get ímyndað mér) sífellt að leysa "ekki hægt" viðfangsefni. Við Siggi stormur, Lilja Mósesdóttir og þau sem eru með okkur í Samstöðu erum einmitt ásamt fleiri góðum félögum okkar úr öðrum flokkum að vinna að því að festa í sessi þessa hugsun hér á landi. "Ekki hægt" er ekki til í okkar orðaforða. Vandamál eru heldur ekki til. Hjá okkur eru þetta viðfangsefni sem þarf samhentan og hugmyndaríkan hóp til að finna góð lausn á til hagsbótar fyrir þjóðfélagið í heild en ekki þröngan hóp innan þess.

Marínó ég tek fyllilega undir þetta með þér og þetta er frábært innlegg frá A til Ö. Við erum orðin bólusett fyrir svona frekjulörfum sem öllu vilja stjórna og víla ekki fyrir sér að níða skóinn niður af næsta manni ef það hentar þeim.

Það verður þó að virða honum það til vorkunnar að hann ólst upp í faðmi fjalla blárra sem ef til vill hafa heft hans útsýni yfir málefni. Þó sem betur fer þess gæti ekki almennt um okkur ísfirðinga.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 14.2.2012 kl. 23:30

2 identicon

 Fólk vill heldur ekki menn sem segja "fáránlegt" án þess að skýra það út. Fólk er búið að fá nóg af þeim sem tala allt niður og segja "ekki hægt"

Ég tek heilshugar undir með þér og þökk sé þér og Ólafi A. ásamt Hagsmunasamtökunum og Láru Hönnu og Mörgu fólki í Silfri Egils, þá er landinn orðin tölunæmari heldur en hann var. Ef þjóðin getur sett saman 2+2 og fengið út 4 þá er Íslandi borgið!

Takk Marinó, ég hlakka til að lesa svar Sighvats!

Anna Benkovic Mikaelsdottir (IP-tala skráð) 14.2.2012 kl. 23:33

3 identicon

Eiginlega til að lesa upphátt.

Bj (IP-tala skráð) 14.2.2012 kl. 23:34

4 Smámynd: Villi Asgeirsson

Flott færsla og síðasta málsgreinin negldi þetta. Hlakka til að lesa svarið sem þú eflaust færð.

Villi Asgeirsson, 14.2.2012 kl. 23:59

5 identicon

Marinó, það er rétt hjá Sighvati að eignir lífeyssjóðanna rýrnuðu gífurlega fyrir tíma verðtyggingarinnar.

Hins vegar misstu lífeyrsþegar ekki rétt af þessum ástæðum. Réttur þeirra fer eftir því hve mikið þeir hafa greitt í sjóðina, uppfært til núverandi verðlags, óháð því hve vel hefur gengið að ávaxta sjóðina á hverjum tíma.

Þannig getur Sighvatur átt rétt á góðum lífeyri vegna fjár sem var næstum að engu á nokkrum árum í vörslu lífeyrissjóðsins.

Verðtryggingin sem síðar kom gerir þetta mögulegt.   

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 15.2.2012 kl. 00:13

6 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Flottur, ég held að þú talir fyrir hönd æði margra. Sighvatur er auðvitað alin upp í anda fjórflokksins sem segir að ekkert megi gera án blessunar flokksins og ekkert sé hægt að gera án blessunar flokksins.

Við hin aftur á móti vitum að reynum við ekkert né gerum ekkert þá mun ekkert gerast. Tími fjórflokksins er liðin, aðeins dauðateigjurnar eftir.

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 15.2.2012 kl. 00:20

7 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ásmundur, hættu nú þessu rausi.  Það er ekki heil brú í þessu hjá þér.  Í fyrsta lagi hélt Sighvatur engu fram um að eignir lífeyrissjóðanna hefur rýrnað, heldur var það Guðmundur.  Hafi þær rýrnað niður í lambalæri, þá átti Sighvatur bara lambalæri og samkvæmt hans hundalógík, þá fær hann lambalæri í dag, nema hann fær það á 6 - 8 árum.

Það sem orðið var að næstum engu, er ennþá næstum ekkert bara næstum ekkert með verðbótum.  Verðbættu 10 kr. í 40 ár og 1000 kr. í 30 ár og þá hefði þurft að vera 9.990% verðbólga á þessum fyrstu 10 árum svo 10 kr. yrðu 1000 kr. þó svo að þú fengir 3,5% raunávöxtun, þá ættir þú samt eftir yfir 9.000% hækkun.  Nei, næstum ekkert árið 1979 verður næstum ekkert árið 2012 samanborið við allt hitt sem hefur safnast inn.

Marinó G. Njálsson, 15.2.2012 kl. 00:24

8 identicon

Marinó, ef þú gerir engan greinarmun á hvernig eigur lífeyrissjóðanna eru ávaxtaðar á ákveðnum tíma og hvað er greitt út þá er illt í efni með skilninginn.

Ég var að reyna að útskýra fyrir þér að það skiptir engu máli fyrir lífeyrissjóðsgreiðslur Sighvats þó að innborgað féð hafi rýrnað á umræddum tíma. Rétturinn fer ekki eftir því heldur eftir því hve mikið hann greiddi, uppreiknað til núvirðis.

Þess vegna er þessi tilvísun í ummæli Guðmundar marklaus.

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 15.2.2012 kl. 01:13

9 Smámynd: Hrannar Baldursson

Afar góð færsla, Marinó. Ég gat ekki hætt að lesa.

Ég veit að þér yrði tekið fagnandi hérna í Noregi, en þykir vænt um hvernig þú berst áfram af heilindum, kauplaust, gegn fólki sem fær full laun til að standa í vegi fyrir réttlátum lausnum. Það er við ofurefli að etja í augnablikinu, eins og alla tíð, en vonarneistinn er ennþá til staðar og fer stækkandi, þökk sé Marinó nokkrum G. Njálssyni og fjölda sjálfboðaliða.

Gangi þér vel með Samstöðu. Ég mun, eins og alltaf, fylgjast með af hliðarlínunni. 

Hrannar Baldursson, 15.2.2012 kl. 06:44

10 identicon

Einstaklega snyrtileg lesning, allt hakkað niður í smátt án nokkurs dónaskaps.

Ætli þessi bræði Sighvats, og Steingríms í gær eigi sér nokkuð skýringar í því að flokkar þeirra eru að þurrkast út, og nýr flokkur Samstöðu hafi meira fylgi en stjórnarflokkarnir báðir til samans....?

Hverju ætla þessir flokkar að lofa fyrir næstu kosningar, og hver á að taka mark á þeim loforðum?

Sigurður #1 (IP-tala skráð) 15.2.2012 kl. 09:00

11 Smámynd: Bragi

Hinn sanni boðberi Nýja málefnalega Íslands.

Bragi, 15.2.2012 kl. 09:27

12 Smámynd: Aðalsteinn Agnarsson

Flottur Marinó, nýtt Ísland vill ekki Sighvat eins og hann er í dag.

Aðalsteinn Agnarsson, 15.2.2012 kl. 13:40

13 identicon

Mjög góð færsla sem ég á eftir að marglesa.

Ég dáist að þrauseigju þinni og bjartsýni um framtíð íslensks þjóðfélags því sjálf er ég vondauf um breytingar til hins betra og er komin nálægt því að missa mína bernskutrú á að "almenningur" hafi þá yfirsýn sem þarf til að kosningar endurspegli raunverulegan þjóðarvilja.                Til þess að svo verði þarf almenn ummræða um þjóðmál að taka stökkbreytingu frá því sem nú er en ég sé engin merki þess  að það gerist í náinni framtíð.

Þú nefnir í þessari færslu dæmi um þá frumstæðu tilhneigingu að nota uppnefni á "andstæðing" máli sínu til framdráttar. "Marinó nokkur Njálsson sem mun hafa verið..." er afbrigði af  einelti sem sum okkar tengja við barnaskóla frekar en virðulega fyrrverandi ráðherra og valdamenn þjóðarinnar. Uppnefni eru  engu að síður, því miður, mjög algeng í íslenskum umræðum og virðast jafngildi vitmunalegs rothöggs í hugum margra okkar.

Agla (IP-tala skráð) 15.2.2012 kl. 13:52

14 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Tek undir óspillta aðdáun á þessu bréfi.  Algjörlega "spot on" málefnalegt stutt rökum og án ofstækis.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 15.2.2012 kl. 15:53

15 identicon

Reykjavík síðdegis birti könnun áðan á fylgi flokkanna.

Vg 5%

Samfylking 9%

Samstaða 29%.

Nýr flokkur Samstöðu með helmingi meira fylgi en báðir ríkisstjórnarflokkarnir til samans?

Er von að það hrikti í fjórflokknum?

Og hvert fer fylgið samfylkingar og Vg núna þegar Hæstiréttur er búinn að setja Árna Páls lögin um afturvirka vexti í tætarann?

Enn og aftur er ríkisstjórnin gerð afturreka með stöðutöku sína með umsvifamestu glæpamönnum þjóðarinnar.

Sigurður #1 (IP-tala skráð) 15.2.2012 kl. 16:44

16 Smámynd: Billi bilaði

Gífurlega flottur pistill, Marinó.

Billi bilaði, 15.2.2012 kl. 17:33

17 identicon

Tek hjartanlega og heilshugar undir orð Sigurðar #1

Og ég bæti við, að það er enn eitt lóð á vogarskálarnar til réttlætis og sanngirni fyrir okkur óbreyttan og sauðsvartan almúgann og veitir okkur traustvekjandi von að Marinó, sá öflugi og virti málsvari heiðarlegs uppgjörs og óbugandi baráttumaður fyrir skuldaleiðréttingu stökkbreyttra húsnæðislána verðtryggingaraðals samtryggðs 4-flokksins,  hafi komið að stofnun Samstöðu - flokks lýðræðis og velferðar. 

En munum að breytingar gerast ekki af sjálfu sér og við getum ekki ætlast til þess að Marinó og Lilja fórni ein öllum sínum kröftum fyrir okkur.  Leggjum sem flest okkar af mörkum og það gerum við með því að ganga til liðs við - og skrá okkur í Samstöðu - flokk lýðræðis og velferðar.

xc.is

Jón Jón Jónsson (IP-tala skráð) 15.2.2012 kl. 17:50

18 identicon

http://www.pressan.is/Frettir/LesaFrett/folk-sem-misst-hefur-allt-sitt-hlytur-ad-hofda-skadabotamal---their-sem-setja-svona-olog-eiga-ad-vikja

Jón Jón Jónsson (IP-tala skráð) 15.2.2012 kl. 18:09

19 identicon

Þetta er fín færsla. Ég horfði á Sighvat í Silfrinu og vorkenndi honum. Hann rausaði út og suður í einhverjum látum og sagði ekkert af viti. Var bara með æsingar án þess að geta fært rök fyrir neinu.

Ég fór með tæplega áttræðum manni í Tryggingastofnun í dag að athuga af hverju hann fær ekki fullar ellilífeyrisgreiðslur m.v. reiknivél Tryggingastofnunar. Það er rétt að taka fram að hluta af starfsævinni var maðurinn ríkisstarfsmaður, vann hjá Rarik í nokkur ár og var 2 sumur vélstjóri hjá Landhelgisgæslunni í þorskastríðsátökum. Hans lífeyrisgreiðslur frá ríkinu eru 0 krónur á ári, meira virði eru nú lífeyrisréttindin hans ekki. Svo var nú kostulegt að greiðslur frá Tryggingastofnun höfðu fyrir nokkru síðan verið lækkaðar vegna þess að stofnunin hafði fengið eitthvað af pósti til hans endursent. Í framhaldi af þessum endursendingum sendi TR honum bréf þar sem honum var gerð grein fyrir að þeir álitu að hann byggi ekki á uppgefnu heimilisfangi því pósturinn væri endursendur og því yrði heimilisuppbótin felld niður. Maðurinn kannast ekki við að hafa fengið þetta bréf, eflaust hefur það verið endursent líka. Og Tryggingastofnun felldi niður heimilisuppbótina. Við buðum starfsmanni TR að heimsækja þann gamla til að sannreyna að hann byggi þar sem hann býr og bárum okkur illa undan því að hann væri látinn gjalda fyrir það að pósturinn vildi frekar endursenda bréf Tryggingastofnunar en að koma þeim til viðtakanda. Nú er það svo að maðurinn fær ekki mikinn póst en þó einhvern slatta þannig að hann vissi ekki að pósturinn væri að koma sumu til hans en öðru ekki.

Svona er nú veruleikinn hjá þessum manni. Engar lífeyrisgreiðslur fyrir fyrrverandi ríkisstarfsmann og TR ákveður ellilífeyri og tengdar greiðslur út frá verklagi póstþjónustunnar.

Þetta er allt annar veruleiki en Sighvatur lýsti í Silfrinu. Nú væri gaman að fara með honum í Tryggingastofnun og athuga hvernig hans málum er háttað í raun.

Jón (IP-tala skráð) 15.2.2012 kl. 18:20

20 identicon

Takk fyrir að standa í þessu þrasi fyrir okkur, Marinó.

Svona kverúlantar og afdankaðir pólitíkusar eins og Sighvatur dæma sig algjörlega sjálfir. Allir með heila hugsun í sínum kolli sjá gallana á þeirra málflutningi.

Árni Jón (IP-tala skráð) 15.2.2012 kl. 18:22

21 identicon

Er ekki Sighvatur og hans líkir ad segja "konur geta ekki talad máli kvenna"?

Er ad meina tessi málstadur ad tid Olafur megid ekki skulda ef tid ætlid ad tala máli skuldara eda hafa skodun a thvi máli?

Kanski bara lika ad "fatladir eiga ekki ad tala máli fatladra " ?

Svo barnalegt eitthvad.....

disa (IP-tala skráð) 15.2.2012 kl. 23:27

22 Smámynd: Ómar Geirsson

Marínó.

Nafn þitt mun lifa lengur en margra annarra sem telja sig vinna að hagsmunum almennings.

Og það er það sem skiptir öllu máli.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 16.2.2012 kl. 18:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 43
  • Frá upphafi: 1678159

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband