Leita í fréttum mbl.is

Hlustar forsætisráðherrann á sjálfan sig?

Forsætisráðherra flutti föðurlega ræðu á Austurvelli á 17. júní.  Þegar maður les yfir ræðuna (á vef forsætisráðuneytisins), þá veltir maður því fyrir sér í hvaða fílabeinsturni hann dvelur dagana langa.  Mig langar hér að fjalla um nokkur atriði, sem mér finnst vera á skjön við veruleikann eða ekki byggða á því innsæi, sem maður væntir frá forsætisráðherra þjóðarinnar.

1.  Hann áminnir okkur landsmenn um að draga saman seglin vegna hækkunar eldsneytis, minnka akstur og aka sparsamari bílum.  Einnig ræddi hann um að breyta gjaldtöku á ökutækjum og eldsneyti til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Um þetta atriði er það að segja, að verulega hefur dregið úr akstri síðustu mánuði.  Þetta hefur mátt merkja á Hafnarfjarðarvegi frá því í febrúar og er það hending að umferðarteppa myndist þar á morgnana. Ekki er auðvelt að skipta yfir í sparneytnari bíla í einum grænum, því til þess að það sé hægt þarf að vera hægt að selja þann gamla.  Ekki er hlaupið að því frekar en nokkru öðru sem krefst lánsfé í þessu þjóðfélagi í dag.  Og varðandi breytta gjaldtöku á ökutækjum og eldsneyti, þá er það alfarið í höndum fjármálaráðherra, sem ekki hefur mátt heyra á það minnst að lækka álögur á eldsneyti en frekar viljað auka þær.  Nýlega skilaði enn ein nefndin af sér tillögu, að þessu sinni um að setja 5 - 7 króna koltvísýringsskatt á hvern seldan lítra af jarðefniseldsneyti.  Halda menn virkilega að 5 - 7 krónur muni breyta einhverju, þegar 70 - 100 kr. hækkun hefur breytt litlu.  Breyttar gjaldtökur á ökutækjum skila sér á löngum tíma og breyta því nákvæmlega engu fyrir ástandið í dag.  Það var svo sem ekki við því að búast að þessi ríkisstjórn gerði eitthvað til að létta undir með almenningi, enda gekk forsætisráðherra í læri hjá meistara iðnarinnar ,,athugum hvort þetta líði ekki hjá þó við gerum ekkert".

2.  ,,Það er mikilvægasta verkefni ríkisstjórnarinnar um þessar mundir að tryggja nýtt jafnvægi í efnahagslífinu og treysta jafnframt grundvöll atvinnustarfseminnar svo ekki komi til alvarlegs atvinnuleysis."

Í fyrsta sinn viðurkennir forsætisráðherra að til alvarlegs atvinnuleysis gæti komið.  Það er mikill viðsnúningur frá fyrri ummælum hans og fjármálaráðherra, sem vísað hafa þeim möguleika alfarið á bug.  Þegar litið er síðan til þess að ríkisstjórnin hefur nánast ekki gert neitt á síðustu mánuðum, fyrir utan að fá heimild til lántöku, þá spyr maður sig, hve langan tíma ætlar ríkisstjórnin að taka sér í að ,,tryggja nýtt jafnvægi í efnahagslífinu og treysta jafnframt grundvöll atvinnustarfseminnar svo ekki komi til alvarlegs atvinnuleysis".  Hvað ætlar ríkisstjórnin að misnota mörg færi til að ,,tryggja nýtt jafnvægi í efnahagslífinu og treysta jafnframt grundvöll atvinnustarfseminnar svo ekki komi til alvarlegs atvinnuleysis" áður en hún loksins grípur til aðgerða?  Þetta er farið að minna óþyrmilega á landsleik Íslands og Makedóníu.  Hverju tækifærinu til að gera eitthvað marktækt klúðrað vegna þess að menn telja sig ekki þurfa að reka smiðshöggið á verkið.  Það er staðreynd að ríkisstjórnin  hefur ekki endalausan tíma til að grípa til aðgerða eigi að sporna gegn alvarlegu atvinnuleysi og haldi fram sem horfir, þá mun tíminn renna út á ríkisstjórnina eins og á handboltalandsliðið sl. sunnudag.

3.  ,,Við Íslendingar vorum vel undir bakslag búnir, betur en flestar aðrar þjóðir"

Nei, við vorum illa undir þetta bakslag búin.  Meðalársnotkun Íslendinga á jarðeldsneyti er með því hæsta í heimi.  Bílaeign er því mesta í heimi á íbúa.  Vegakerfið er ekki sérstaklega hentugt fyrir ,,góðakstur". Og svona mætti lengi telja.

4.   ,,Þegar litið er til þess hvernig staðan er á alþjóðlegum fjármálamörkuðum sýnir sig að fátt er verðmætara en traust og trúverðugleiki. Slíkir eiginleikar eru ekki aðeins verðmætir í fari einstaklinga, heldur eiga þeir einnig við um þjóðir og fyrirtæki. Íslenska þjóðin nýtur trausts og það er mikilvægt að fyrirtækin okkar geri það einnig, ekki síst fjármálafyrirtækin."

Það er einmitt þetta traust sem virðist vanta.  Ekki á íslensku þjóðinni heldur á íslenska hagkerfinu og hagstjórninni.  Ástæðan er fyrst og fremst aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar sem hefur ítrekað sýnt að hún hefur ekki hugmynd um hvað er til bragðs að taka.  Fyrir örfáum vikum var gengisvísitalan í 145 og skuldatryggingarálag ríkissjóðs var vel undir 200.  Þeir tímar eru liðnir og tækifærin runnin ríkisstjórninni úr greipum í bili að minnsta kosti.  Hvort að Geir og félögum tekst að ávinna sér traust aftur á næstum vikum á eftir að koma í ljós, en það verður ekki gert með því aðgerðarleysi sem við höfum mátt horfa upp á undanfarnar vikur. 

5.  ,,Gleymum því þó ekki hve þessi þróun leikur margar aðrar þjóðir miklu verr en okkur"

Ég veit ekki alveg hvar forsætisráðherra hefur alið manninn síðustu mánuði.  Það hefur engin þjóð meðal þeirra sem við viljum bera okkur saman við farið jafn illa út úr þeim ,,alheimsvanda, sem nú er verið að fást við".  Það hefur enginn gjaldmiðill á Vesturlöndum lækkað eins hressilega og íslenska krónan, það hefur ekkert land þurft að búa við eins okurkennt skuldatryggingarálag og Ísland.  Við hvaða þjóðir er forsætisráðherra að bera okkur saman við?  Simbabve, Haíti eða Írak?  Ég man í svipan ekki eftir öðrum löndum sem eru í sambærilegum vanda.  Ég verð að viðurkenna að ég hélt að það væri meiri metnaður í ráðherranum en þetta.

6. ,,Alþingi hefur veitt ríkisstjórninni heimild til sérstakrar lántöku innan lands eða utan á árinu 2008... Sama tilgangi þjónar nýr samningur milli Seðlabanka Norðurlandanna, sem sýnir jafnframt norrænt vinarþel í verki. Þessar aðgerðir treysta varnir og viðbúnað landsins út á við sem er nauðsynlegt þegar vindar blása á móti."

Samningurinn við seðlabanka Norðurlanda dró tímabundið úr falli krónunnar, en þar sem of langur tími hefur liðið og ríkisstjórnin bara beðið á hnjánum, þá er allt fallið í sama farið aftur.  Lántökuheimildin ein og sér hefur engin áhrif meðan hún er ekki nýtt og það gæti raunar virkað í öfuga átt að bíða með að nýta hana.  Varnir landsins eru ekki bara veikar, þær hafa brostið víða.  Ef þetta væru flóðvarnargarðar, þá væru stór landsvæði undir vatni og það sem meira væri ríkisstjórnin hefði ekki minnsta grun um hvernig bregðast ætti við.  Aðgerðirnar drógu vissulega tímabundið úr fallinu, en síðan áttuðu spákaupmenn sig á því að orðum fylgdu ekki verk.  Þessar aðgerðir hafa ekkert gert til að hleypa lífi í húsnæðismarkaðinn eða lánamarkaðinn.  Það er allt steindautt.  Seðlabankinn hefur enga burði til að létta undir með markaðsaðilum fyrr en búið er að nýta lánsheimildina. 

Mér finnst forsætisráðherra hafa í ræðu sinni talað gegn betri vitund eða að hann er í slæmri afneitun. 


deCODE komið niður í penny stocks

Það er illa komið fyrir markaðsvirði þess fyrirtækis sem einu sinni var verðmætasta fyrirtæki landsins.  Verðmæti á markaði í dag USD 0,96 er ansi langt frá dölunum 60 sem verslað var með á gráa markaðnum fyrir 10 árum eða svo.  Vissulega var verðið á gráa markaðnum algjört bull og í engu samræmi við verðmat fyrirtækisins sjálfs eða innra verðmæti þess.  Á sama hátt er fall þess niður í penny-stock varla það sem eigendum og stjórnendur áttu von á.

Það er yfirleitt erfitt fyrir fyrirtæki að vinna sig upp úr falli niður fyrir 1 dal og þar með teljast til penny-stocks.  Þar sem ég veit að þetta verðmat hefur meira með markaðsatæður að gera en raunverulegt mat á fyrirtækinu, þá held ég að það eigi ekki að valda eigendum og stjórnendum of miklum áhyggjum.  Nú er greinilega kauptækifæri fyrir þá sem hafa pening og eru tilbúnir að fara í langtíma fjárfestingu.  Einnig ættu líkurnar á yfirtöku að hafa aukist verulega.

Ég er einn af þeim, sem hef tröllatrú á því sem fyrirtækið stendur fyrir, enda kynntist ég innviðum þess vel á sínum tíma sem starfsmaður þess.  Viðskiptahugmyndin er öflug, en líklegast er biðin eftir fyrsta lyfinu að reynast því fjötur um fót á markaði.  En gangi viðskiptahugmyndin upp, þá munu afurðir hennar gagnast komandi kynslóðum við að auka lífsgæði (a.m.k. hvað varðar heilsufar). 

Af þeim rannsóknum, sem komnar voru í gang, þegar ég vann fyrir ÍE, þá fannst mér langlífisrannsóknin áhugaverðust.  Það má segja, að með því að finna DNA-ið sem "veldur" langlífi þá finni menn anti-sjúkdómagenið.  Þ.e. það gen sem ver okkur fyrir sjúkdómum.  Hvort það sé síðan eftirsóknarvert að ná háum aldri verður hver að eiga við sig.


mbl.is Gengi deCODE niður fyrir 1 dal á hlut
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðdragandinn að stofnun Microsoft

20. ágúst 1992 birtist eftir mig grein í viðskiptablaði Morgunblaðsins þar sem ég fór yfir aðdragandann að stofnun Microsoft með fókusinn á þátt Bill Gates.  Langar mig að endurbirta úrdrátt úr þessari grein hér af því tilefni að Bill Gates hefur ákveðið að stíga til hliðar.  Hana er síðan hægt að lesa í heild á vefsvæði mínu www.betriakvordun.is með því að smella hér.  Grein var unnin upp úr bókinni Hard Drive: Bill Gates and the Making of the Microsoft Empire eftir James Wallace og Jim Erickson, útgefandi John Wiley & Sons, 1992.

Maðurinn bak við Microsoft-veldið

Hin óopinbera saga Bill Gates

Það fer ekkert á milli mála að Bill Gates er snillingur á sínu sviði, hann hefur ljósmyndaminni, óvenjulega hæfileika til að spá fyrir um framtíðina og óþrjótandi kraft til að vera í hlutverki frumkvöðuls.  En Bill Gates er mjög umdeildur maður og hataður af mörgum í tölvuiðnaðinum. Í bókinni Hard Drive, er lýst snilli hans, en ekki síður fjallað um einstaklinginn, sem beitir vitsmunalegum kúgunum, er tilfinningalega vanþroskaður, skortir snyrtimennsku og krefst þess að aðrir vinni allan sólarhringinn eins og hann.  Einnig er lýst keppnishörku hans, þar sem annað sæti er sama og að tapa, sem leitt hefur til rannsókna á viðskiptaháttum fyrirtækisins á vegum bandarískra yfirvalda.

 

Fyrstu árin

William Henry Gates III fæddist 28. október 1955.  Árið 1967 var Trey (eins og hann var kallaður), þá 11 ára gamall, kominn langt fram úr jafnöldum sínum í stærðfræði og raungreinum.  Ákváðu þá foreldrar hans að senda hann í Lakesideskólann í Seattle, sem talinn var bestur allra einkaskóla á svæðinu.  Þar var grunnurinn lagður að lífi tölvusnillingsins Bill Gates.

Það var í Lakesideskólanum sem Gates komst fyrst í snertingu við tölvu.  Það var PDP-10 tölva,  en skólinn fékk aðgang að henni um litla fjarvinnsluvél (teletype machine).  Það var einmitt í tölvuherbergi Lakesideskólans, sem Bill Gates hitti Paul Allen, strák sem var tveimur árum á undan honum í námi.  Sjö árum seinna stofnuðu þeir saman Microsoft.

Bill Gates varð snemma mikill tölvugrúskari (eða hakkari).  Hann og Paul eyddu á stuttum tíma þeim 3.000 USD, sem Lakesideskólinn hafði í tölvukostnað.  Ekki bara það, heldur voru þeir félagar mjög duglegir við að skjóta tölvuna niður.  Af þeim sökum voru þeir fengnir í vinnu af Computer Center Corporation við að finna villur í stýrikerfi PDP-10 tölvu fyrirtækisins.  Í staðinn gátu þeir unnið eins mikið og þeir vildu á tölvunni, þó utan almenns vinnutíma.  Þar með var boltinn byrjaður að rúlla.

Microsoft verður til

Fyrsta fyrirtæki, sem þeir félagar komu á fót, hét Traf-O-Data.  Það bjó til búnað til að túlka gögn um umferðarþunga yfir í auðskiljanlegt tölulegt form.  Fyrirtækið þénaði um USD 20.000 á líftíma sínum, en komst aldrei á skrið.

Haustið 1973 fór Gates í Harvard háskóla, meðan Allen hélt áfram að vinna að verkefnum fyrir Traf-O-Data, en með litlum árangri.  Einn kaldan desemberdag 1974 var Paul Allen að fara í heimsókn til Gates.  Á leiðinni kom hann við í sjoppu og rakst þar á nýjasta tölublað tímaritsins Popular Electroincs.  Á forsíðu blaðsins var mynd af Altair 8080, fyrstu örtölvunni!  Allen keypti blaðið og sýndi Gates með þeim orðum að nú gætu þeir loksins gert eitthvað með BASIC.  Þeir höfðu samband við Ed Roberts, eiganda MITS fyrirtækisins sem framleiddi Altair, til að kynna fyrir honum hugmynd þeirra um BASIC fyrir Altair og fengu þau skilaboð að 50 aðrir hafðu haft samband og að sá, sem kæmi fyrstur með nothæfa útgáfu af BASIC fyrir Altair, hreppti hnossið.

Þeir félagar lögðu nú nótt við dag að búa til BASIC fyrir Altair.  Þegar Allen fór að hitta Roberts, kom í ljós að MITS var lítið meira en bílskúrsfyrirtæki, en það átti eftir að breytast.  Hjá MITS mataði Allen Altair tölvuna (þá fyrstu og einu sem hann hafði unnið á (!)) með BASIC kótanum og prófaði.  Og viti menn, það virkaði fullkomlega, öllum á óvart og Paul Allen ekki síst.

Þetta varð til þess að Microsoft var stofnað sumarið 1975.  Nafnið er stytting á „microcomputer software“.  Bill Gates hætti í Harvard, þrátt fyrir mótmæli frá móður sinni, sem vildi umfram allt að hann lyki námi.  Upphaflega átti Gates 60% hlutafjár en Allen 40%.  Fyrirtækið var stofnað án yfirbyggingar og bruðls.  Allt miðaðist við að það kæmist með sem minnst fjármagn í upphafi.

 


Bill Gates lætur Steve Ballmer eftir völdin

Þær fréttir eru að berast frá Redwood í Washington að valdabarátta hafi átt sér stað milli Bill Gates og Steve Ballmer í um 8 ár og henni hafi lokið með því að Bill Gates hafi ákveðið að yfirgefa fyrirtækið. Þetta hlýtur að koma flestum í opna skjöldu,...

Í þögninni eftir storminn kemur þroskinn

Á vefsíðu minni www.betriakvordun.is er að finna hugleiðingu um áhættumat og rekstrarsamfellu í skugga jarðskjálftanna á Suðurlandi í síðustu viku. Ber hún yfirskriftina: Í þögninni eftir storminn kemur þroskinn - Hugleiðingar um áhættumat og samfelldan...

Auka reglurnar gengisáhættu?

Fyrst þegar ég skoðaði þessar nýju reglur Seðlabankans, þá sýndist mér sem Seðlabankinn væri með þeim að draga úr gengisáhættu með því að takmarka verulega heimildir til að hafa misræmi milli gengisbundinna eigna annars vegar og skulda hins vegar....

Metútflutningur

Það er forvitnilegt að sjá þessar bráðabirgðatölur um innflutning og útflutning. Það ánægjulega er að jöfnuður er að nást á vöruskiptum við útlönd. Aðeins fjórum sinnum á síðustu 5 árum hefur vöruskiptajöfnuðurinn verið jákvæður og aðeins einu sinni sem...

Er Skagfirðingum illa við sundkappa?

Á Sturlungaöld var síðast tekist verulega á í Skagafirði. Voru þá menn vegnir á báða bóga og stærsta orrusta Íslandssögunnar fór fram við Örlygsstaði. Skagfirðingar eru ákaflega stoltir af sögu sveitar sinnar, enda má segja að hvert strá í firðinum hafi...

Sorgleg niðurstaða

Það er sorgleg niðurstaða, ef satt er, að björninn hafi verið felldur. Menn bera því við að hafa ekki viljað missa hann upp í þokuna. Eftir því sem best er vitað hefur björninn verið á svæði í langan tíma og ekki verið til neinna vandræða. Hverju hefði...

Vonandi fær hann að lifa

Ég vona að menn grípi nú ekki til skotvopna og felli dýrið. Við Íslendingar erum svo sem ekkert vanir að fást við svona stóra fjórfætlinga, en þar sem hann er ennþá utan alfaraleiðar, þá ætti að vera hægt að ná honum lifandi. Eftir það væri hægt að koma...

Olíuverðhækkanir verðbóla?

Fyrirsögnin er fengin að láni frá Morgunblaðinu í dag (bls. 13). Þar er frétt um þann möguleika að olíuverðhækkanir séu fyrst og fremst afleiðing spákaupmennsku. Mikið er ég feginn að málsmetandi menn eru loksins farnir að tala um þessa hluti...

Kæra hefði engu breytt

Svona mál hafa áður komið upp og þeim hefur verið vísað frá. Síðast kom svona mál upp hér á landi nýlega. Markastaða á ljósaborði er til upplýsinga fyrir áhorfendur og aðra þá sem staddir eru á leikstað. Vissulega er æskilegt að sú staða sé rétt samkvæmt...

Svíar að valta yfir Argentínu - Lokastaða 33:21

Svíar hafa mikla yfirburði í leik sínum gegn Argentínu og var staðan fyrir skömmu 21:12. Leikurinn var i beinni á SVT2, en nú er búið að rjúfa þá útsendingu. Það er því ljóst að Svíar vinna þann leik örugglega og verða ekkert verulega þreyttir eftir...

Þetta er stórfurðulegt og út í hött

Heimsmarkaðsverð á oliu hefur lækkað um nærri því 10 USD á tunnuna frá því að það náði hæsta gildi fyrir rúmri viku. Bara í dag (samkvæmt BBC Market Data kl. 15:05 GMT) hefur West Texas Intermediate Crude Oil lækkað um USD 4,57 á tunnuna niður í USD...

Fá lið halda uppi meðaltalinu

Það er áhugavert að sjá töfluna yfir skiptinguna milli félagana (sem má t.d. nálgast á BBC sport, sjá hér og fyrir neðan), að það eru fimm félög sem halda uppi meðaltalinu, þ.e. Chelsea (132,8 m GPB), Manchester United (92,3 m. GBP), Arsenal (89,7 m....

Glitnir: Svartsýni fyrir þetta ár, en bjartsýni fyrir það næsta

Það er ekki mikil bjartsýni ríkjandi hjá greiningardeild Glitnis fyrir þetta ár. Meðaltalsgengi (gengisvísitala) upp á 142 á þessu ári og lokagengi um 135. Þetta þýðir vissulega nær 10% styrkingu krónunnar það sem eftir er árs. En skoða verður þessar...

"Það er ekki kreppa"

Þetta sagði Kristján Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í umræðum kvöldsins á Alþingi. Rök Kristjáns voru að það væri móðgun að kalla það ástand sem núna er kreppu, þar sem í kreppunni miklu hefði fólk farið svangt að sofa og þúsundir manna hefðu...

Hugleiðingar í lok dags

Jæja, dagurinn á enda og gengið stóð nokkurn veginn í stað eftir að hafa hækkað lítillega framan af degi. Hef ekki ennþá rekist á neinar hálærðar greiningar á verðbólgutölunum, en sé að menn úti í heimi eru sífellt að hafa meiri áhyggjur af verðbólgu...

Hörmungar gera menn auðmjúka

Það er fróðlegt að lesa þessa frétt um breytt viðhorf kínverskra yfirvalda. Hún sýnir svo ekki verður um villst að hinn opni fréttaflutningur af hörmungunum í Sichuan-héraði er farinn að hafa áhrif langt út fyrir það sem nokkrum manni hefði dottið í hug....

Lægri verðbólga en efni stóðu til

Þrátt fyrir fyrirsögn fréttarinnar, þá eru þessar verðbólgutölur jákvæðar fréttir. Verðbólga milli mars og apríl mældist 3,41% en 1,37% milli apríl og maí. Það þýðir mun skarpari lækkun milli mánaða en venjulega hefur fylgt gengisfalli. Þrátt fyrir þetta...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 14
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband