Leita í fréttum mbl.is

Orðrómur gerir menn taugaveiklaða

Það er grein í Markaðnum í dag, þar sem Christopher Cox, forstjóri bandaríska fjármálaeftirlitsins, er með sams konar vangaveltur um tilraunir skortsala til að hafa áhrif á fjármálamarkaði með því að dreifa órökstuddum orðrómi og FME er að rannsaka hér.  Líkt og hér á landi, þá sjá menn að einstök fyrirtæki hafa verið valin úr fjöldanum og neikvæðum orðrómi dreift um þau.  Fall Bear Stearns og Lehman Brothers er, t.d., rakið að einhverju leiti til falskra sögusagna, sama á við versnandi stöðu húsnæðislánasjóðanna Fannie Mae, Freddie Mac og Washington Mutal.

Líkt og með íslensku bankana, þá bar Bear Stearns ítrekað til baka sögusagnir um slæma stöðu bankans, en með því að sá fræjum tortryggni tókst þeim sem héldu sögusögnunum á lofti að grafa það mikið undan trausti lánveitenda Bear Stearns á millibankamarkaði, að bankinn hætti að fá peninga að láni.  Þetta hljómar kunnuglega fyrir okkur Íslendinga og er mjög svipað "atlögu" spákaupmanna á íslenska bankamarkaðinn.

Svona sjálfsuppfyllandi spádómum virðist fara fjölgandi á fjármálamarkaðinum.  Fjöldinn allur af greinendum er togaður fram á sjónarsviðið af fréttamiðlum til að fjalla um órökstuddan orðróm sem birtur var á slúðursíðu einhvers vefmiðils eða bara í bloggi ónafngreinds bloggara.  Menn eru orðnir svo hræddir um að lenda í næsta Enron eða WorldCom, að fyrirtæki sem eru í góðum rekstri þurfa að verjast orðrómi með oddi og egg og jafnvel það dugar ekki alltaf til.  Að þessu leiti hefur hinn lifandi fréttaflutningur á Internetinu mjög neikvæð áhrif, þar sem auðvelt er að henda inn orðrómi sem athugasemd við blogg hjá trúverðugum sérfræðingi og áður en klukkutími er liðinn, er CNBC eða FT.com búin að birta þetta.  Svo eru kallaðir til sérfræðingar virtra fyrirtækja til að fjalla óundirbúið um slúðrið án þess að vita að það er ekki flugufótur fyrir fréttinni.  Minnugir þess að Enron hófst með svona "frétt", þá þora menn ekki annað en að trúa "fréttinni" og gefa henni því ósjálfrátt trúverðugleika.  Boltinn er farinn að rúlla og nú er sko eins gott að varnirnar séu í lagi. 

Því miður er sá tími liðinn, að menn geti beðið af sér storminn.  Taka verður strax af festu á svona orðrómi, því eðli Internetsins er einfaldlega þannig, að efni sem þangað fer inn verður þar löngu eftir að frumheimildin er horfin.  Jafnvel þótt leiðrétting sé birt eða hin ranga frétt lagfærð, þá hangir upprunalegi textinn inni á ólíklegustu stöðum og getur skotið upp kollinum fyrirvaralaust í fréttaskýringu, greiningarskýrslu eða sem rökstuðningur með annarri órökstuddri staðhæfingu.

En hvað er til ráða?  Christopher Cox forstjóri SEC telur að eina leiðin til að ráðast gegn þessum vanda sé meiri upplýsingagjöf fjármálafyrirtækja og vandaðri fréttaflutningur.  Vandamálið er aftur að brennt barn forðast eldinn.  Enron og WorldCom hneykslin eru enn fersk í minnum manna. Það er gjarnan sagt, að þar sem er reykur, þar er eldur.  Allir eru að reyna að verða næsti "whistle blower" og komast þannig á forsíðu Time eða að forðast að verða næsti Arthur Andersen (endurskoðandi Enron sem hjálpaði Enron við að eyða sönnunargögnum).  Taugaveiklunin er því alls ráðandi og þetta ástand eru skortsalar og vogunarsjóðir að nýta sér, hugsanlega með hjálp tilhæfulausra frétta um bága stöðu fyrirtækja.  Hver sem uppruni slúðursins er, þá er komin í gang hringekja slúðurs og sögusagna sem erfitt verður að stoppa.

Þessu óskylt, en samt ekki. Það er eitt sem ég hef alltaf furðað mig á varðandi verðbreytingar á markaði:  Það er hve lítið magn/fjárhæð í viðskiptum getur haft mikil áhrif.  Kannski er þetta einfeldni í mér, en mér hefur alltaf þótt óeðlilegt að viðskipti með hlutfallslega lítið magn af bréfum eða olíu á gengi sem er á skjön við gengi í stærri viðskiptum getur gert það að verkum að verðið hækkar eða lækkar.  Menn geta verið með kauptilboð inni upp á segjum 100 hluti á verði sem er mun hærra en flestra annarra og þar sem þessu tilboði er að sjálfsögðu tekið, þá er markaðsverðmæti viðkomandi fyrirtækis skyndilega orðið mun hærra en það var áður.  Þetta er vel þekkt aðferð við að hafa áhrif á verðmyndun.  Aðili með mikið magn bréfa sem þarf að selja, gæti þannig sett fram (dæmigert í gegnum þriðja aðila) óeðlilega hátt kauptilboð á litlu magni í þeirri von að aðrir fylgi á eftir.  Síðan er allur pakkinn seldur á hærra gengi með verulegum hagnaði.  Vissulega gengur þetta ekki alltaf upp, en taki nokkrir aðilar sig saman, þá getur verið mjög auðvelt að ráðskast með verð á markaði þar sem taugaveiklun ríkir, t.d. bólumarkaði.  Olíumarkaðurinn er skýrt dæmi um þetta. 


Áhrif lánakreppunnar á sjóðsstjóra

Ég var að fá í tölvupósti skýrslu sem tekin var saman af KPMG um áhrif lánakreppunnar (credit crisis) á sjóðsstjóra fjárfestingasjóða (fund managers).  Skýrslan er unnum upp út svörum 333 stjórnenda frá 57 löndum, m.a. Íslandi, og viðtölum við 16 forstjóra.  Hún er því talin gefa nokkuð góða mynd af því hvað stjórnendur telja vera afleiðingar lánakreppunnar á fjárfestingar og fjárfestingasjóði.  Svarendur voru alls staðar af úr heiminum, þó flestir eða 31% séu frá Norður-Ameríku.  Þá voru 29% svarenda frá Vestur-Evrópu, 23% frá Asíu/Kyrrahafssvæðinu og 17% annars staðar frá.

Helstu niðurstöður skýrslunnar eru:

  • Fjárfestar hafa ekki lengur áhuga á að nota flókin tól við fjárfestingaákvarðanir
  • Sjóðsstjórar hafa glatað trausti vegna lánakreppunnar, þó ekki jafnmikið og bankageirinn
  • Menn hafa áhyggjur af skorti á hæfu og reyndu starfsfólki
  • Áhættustjórnun, matsaðferðir og stjórnskipulag er í uppnámi
  • Sjóðsstjórar þurfa, ef þeir ætla að ná árangri í framtíðinni, að huga betur að uppástungum viðskiptavinanna
Það væri fróðlegt að vita hvort þetta er það sem íslenskir fjárfestingasjóðir eru að upplifa þetta líka.  Ég hef svona pínulítið á tilfinningunni, eftir að hafa lesið skýrsluna, að menn telji ekki lengur nóg að sækja klára "krakka" beint úr skóla, heldur sé nauðsynlegt að hafa sjóaða einstaklinga sem geta beitt innsæi og þekkingu til viðbótar við flott tól.  Gegnsæi í ákvörðunartöku þarf að aukast á kostnað flókinna ákvörðunarlíkana, sbr. þau sem notuð voru til að hreinlega fela óásættanlega áhættu í tengslum við bandarísku undirmálslánin.

Annars er forvitnilegt að sjá, að fyrirtæki ætla á næstunni að efla áhættustjórnun (75%), rannsóknir (49%), rekstrar- og áhættuhlítingu (operational and risk compliance) (45%) og áreiðanleikaprófanir á sjóðum/tólum (due diligence on funds/instruments) (43%).  Svo er bara að sjá hvort þetta verði til þess að fyrirtæki styrkist og sjóðir aukist eða hvort eitthvað annað stjórni verðmæti sjóðanna.

Evra eða ekki, það er spurningin.

Mér finnst þessi umræða um evru eða krónu vera á villugötum.  Ég tek undir með þeim sem segja að krónan sé ekki nógu sterkur gjaldmiðill til að vera sjálfstæð, þ.e. án tenginga við aðra gjaldmiðla.  Þetta sjáum við bara á sveiflum á gengi krónunnar síðustu 7 ár eða svo, frá því að hún var sett á flot og verðbólgumarkmið voru tekin upp.  Það má svo sem leita orsaka fyrir því að krónan er svona óstöðug, en þessi pistill á ekki að fjalla um það.

Mér finnst Seðlabankinn og ríkisstjórn standa frammi fyrir velja milli þriggja meginleiða og síðan hefur hver og einn þeirra sína undirleiðir, ef svo má að orði komast.  Meginleiðirnar eru:

  1. Halda krónunni áfram á floti líkt og verið hefur undanfarin 7 ár.
  2. Tengja krónuna við einhverja myntkröfu líkt og gert var áður en krónan var sett á flot og láta krónuna fljóta innan tiltekinna vikmarka.
  3. Kasta krónunni og taka upp einhverja aðra mynt.

Það eru ekki aðrir möguleikar í myndinni.  En til að geta ákveðið hvaða leið er heppilegust, er nauðsynlegt að skoða kosti og galla hverrar leiðar og ekki síður skoða hvaða undirleiðir hver og ein meginleið býður upp á.

1.  Halda krónunni áfram á floti líkt og hefur verið undanfarin 7 ár.

Þessi leið virðist vera fullreynd.  Íslenska hagkerfi virðist ekki nógu stórt til að geta haldið krónunni stöðugri.  Hagsveiflur eru miklar og virðist óstöðugleiki krónunnar vega þar þungt.  Til þess að þessi leið gangi þá virðist þurfa verulega uppstokkun í peningamálastjórnun Seðlabankans og hugsanlega breytt viðhorf þeirra sem versla með krónuna á millibankamarkaði.

2.  Tengja krónuna við einhverja myntkröfu líkt og gert var áður en krónan var sett á flot og láta krónuna fljóta innan tiltekinna vikmarka.

Þessi aðferð var notuð hér á landi allt til ársins 2001.  Hún hafði í för með sér gengisfellingu á nokkurra ára fresti eða í hvert sinn sem einhver brestur varð í fiskveiðum.  Nú hafa þær breytingar orðið á hagkerfinu að stóriðja er orðin stærri í gjaldeyrisöflun en sjávarútvegur, fjármálageirinn hefur stækkað mikið og ferðaþjónustan er stærri en nokkru sinni fyrr.  Hugsanlega er því hægt að taka aftur upp tengingu við myntkröfu, en spurningin er bara hvaða myntir, í hvaða hlutföllum, hvaða vikmörk á að nota, hvenær ætti að taka um slíka tengingu og hvaða ferli ætti að nota til að ákveða breytingar á hlutföllum og vikmörkum.  Seðlabankinn ætti að geta nýtt almenn hagstjórnartæki áfram, svo sem verðbólgumarkmið og stýrivexti, en landsmenn yrðu að vera undir það búnir að gengið héldi áfram að sveiflast, þó þær sveiflur yrðu líklegast ekki eins miklar og áður.

3.   Kasta krónunni og taka upp einhverja aðra mynt.

Þetta er sú leið sem flestir tala um og halla flestir sér að evrunni.  Hér eru mörg vafamál.  Fyrsta er spurningin um hvaða mynt ættum við taka upp.  Evran er ekki sjálfsagður kostur af þeirri einföldu ástæðu að til að fá inngöngu í myntbandalagið, þá þurfa innviðir hagkerfisins að vera í lagi.  Aðrir kostir sem hafa verið nefndir eru norska krónan, svissneski frankinn og Bandaríkja dalur.  Hugsanlega eru aðrir kostir og þá þarf alla að gaumgæfa áður en menn festa sig á eina mynt.  Við gætum alveg eins tekið upp Kanada dal eða þann ástralska, ekki má heldur útiloka breska pundið og því ekki rússneska rúblu?  Það má ekki taka ákvörðun um þetta byggða á því að evrukórinn er háværastur.  Lykilatriði í þessu máli er síðan tímasetningin.  Tímasetningin hlýtur að taka mið af stöðu krónunnar gagnvart þeirri mynt sem um ræðir.  Er evra upp á 110 kr. heppileg eða teljum við að 100 kr. gefi réttari mynd eða 120 kr.?  Ef það er svissneski frankinn viljum við sjá hann í 55 kr., 65 kr. eða 75 kr.?  Ákvörðun um skipta um mynt verður ekki tekin nema seðlabanki viðkomandi lands samþykki það.  Það eru því fullt af álitamálum sem verður að greiða úr áður en hægt er að taka þessa ákvörðun.

Hvað sem verður gert, þá þarf að fara í umfangsmikla vinnu við að greina kosti og galla hverrar leiðar fyrir sig.  Þessa vinnu þarf að hefja án tafar og ráða til verksins fagmenn með þekkingu á svona ákvörðunarferli og fá í vinnu hagfræðinga og fulltrúa helstu hagsmunaaðila.  Það þýðir ekki að velja einn kost vegna þess að flestir vilji hann.  Valið verður að vera byggt á vandlegri greiningu og áhættumati og að fengnum nauðsynlegu samþykki seðlabanka viðkomandi lands/landa.  Lykilatriðið er að mínu mati tímasetningin.  Ég held að ekki verði hægt að fastsetja einhverja dagsetningu.  Betra sé að miða við eitthvað tímabil (1 - 2 mánuði) og velja gengi innan þess tíma, þegar sæmilegt jafnvægi er komið á gengið.  T.d. að flökt á 1 - 2 vikna tímabili mætti ekki vera meira en 0,5% (eða 1%).  Þetta þyrfti náttúrulega að útfæra nánar.

Sem sérmenntaður á sviði ákvörðunargreiningar (e. decision analysis), þá veit ég að góð ákvörðun verður ekki tekin nema undirvinnan sé góð. Ég veit það líka að góð ákvörðun tryggir ekki góða útkoma, hún eykur bara líkurnar á henni.  Eins og ég lýsi þessu viðfangsefni að ofan, þá sýnist mér að leysa megi það með hjálp ákvörðunargreiningar.

Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar veitir ráðgjöf á sviði ákvörðunargreiningar og áhættustjórnunar.  Hægt er að óska eftir nánari upplýsingum með því að senda tölvupóst á oryggi@internet.is.


mbl.is Ríkisstjórnin ræði evrumál við ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rangárvellir undir Eyjafjöllum!

Það er grein í Morgunblaðinu í dag undir fyrirsögninni Völvan í höllinni. Þar er talað við Guðrúnu Hjörleifsdóttur, en hún dvelur um þessar mundir sem ráðskona í húsi bróður míns og mágkonu að Lambafelli undir Eyjafjöllum. Þetta er áhugaverð grein og vil...

Hvaða reglur gilda á þínum vinnustað?

Þessi umfjöllun um hvað Guðmundur Þóroddsson, fyrrverandi forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur (OR), tók eða tók ekki með sér snýr að mínu sérsviði, þ.e. stjórnun upplýsingaöryggis. Í stöðlunum ISO 27001 og ISO 27002, sem eru kjarnastaðlar um stjórnun...

Hver er kostnaðurinn af bæjarstjóraskiptunum í Grindavík?

Mér finnst þessi umræða um kostnað af bæjarstjóraskiptunum í Grindavík vera nokkuð merkileg. Þar takast menn á um ábyrgð og útgjöld og í báðum tilfellum vilja sjálfstæðismenn varpa sökinni á Samfylkinguna. Hér fara sjálfstæðismenn með rangt mál og langar...

Hvað hefði gerst ef þetta hefði verið öfugt?

Það er forvitnilegt að fylgjast með fréttum um þennan "eltingaleik". Hvalaskoðunarskip fer á hvalveiðislóðir til að ná "hneykslanlegum" myndum af hvalveiðum. Skipstjóri hvalveiðibátsins segist ekki hafa viljað skjóta fleiri hrefnur af ótta við að stefna...

Úrskurður Persónuverndar í Grundarmáli

Persónuvernd birti í gær úrskurð sinn í máli sem snýst um rétt elliheimilisins Grundar til að láta InPro, áður Heilsuvernd og nú Heilsuverndarstöðin, skrá upplýsingar um fjarvistir og veikindi starfsmanns síns. Niðurstaða Persónuverndar er að ,,[v]innsla...

Áhugaverðir og spennandi tímar framundan hjá GGE

Það er gaman að sjá að hugsjónir manna deyja ekki, þó kreppi að eða pólitík bregði fyrir mönnum fæti. Hátt í ári er síðan að REI-málið setti allt á endann og stein í götu GGE manna. Þykist ég vita að mikill tími hafi farið í að vinnu úr klúðri reykvískra...

Af kökum, hausum og fleira vefrusli á blog.is

Ég er með einkaeldvegg (personal firewall) á tölvunni minni og með hann stilltan þannig að lokað er fyrir allt sem ekki er sérstaklega leyft. Ég get stillt eldvegginn þannig, að hann lætur mig vita hvaða smáforrit (cookies, private header og þess háttar)...

Þetta er nú meiri skáldskapurinn!

Það er merkilegt að skuldatryggingaálagið skuli hækka nokkrum dögum eftir að Kaupþing tekur lán á kjörum sem eru með álagi langt undir 100 punktum. (Voru það ekki 35 punktar?) Þessi "markaður" með skuldatryggingaálag er bara skáldskapur og það heldur...

Hver veldur slysi, "lestarstjórinn" eða sá sem fer fram úr? - Hugleiðing um orsök og afleiðingu

Ástæðan fyrir því að ég spyr þessarar spurningar er ályktun sem höfundar greinargerðar Samtaka atvinnulífsins um þróun húsnæðismarkaðar 2003 - 2008 komast að. Telja höfundar greinargerðarinnar að stefnumörkun stjórnvalda sumarið 2003 og upptaka 90% lána...

Miniputt

Ég var alveg búinn að gleyma þessum leik, þar til ég rakst á hann fyrir tilviljun í kvöld. Fyrir þá sem hafa gaman af minigolfi.

Adebayor ætlar ekki að fara, en er samt ekki viss um að vera

Þær eru nú nokkuð misvísandi fréttirnar um það hvort Adebayor hafi tekið af allan vafa um það hvort hann yrði um kyrrt eða ekki. Samkvæmt frétt Sky Sport, þá mun það ekki koma í ljós fyrr en í næstu viku eða svo hvort hann verður áfram. Þar er haft eftir...

Svona fer þegar stjórnun rekstrarsamfellu er ekki sinnt

Ég hef oft fjallað hér um stjórnun rekstrarsamfellu, en hún snýst um að sjá fyrir það "ófyrirséða" og grípa til ráðstafana til að koma í veg fyrir að það gerist. Eins og þessu máli er lýst, þá klikkaði tvennt: 1. Bráðnauðsynlegur útsendingarbúnaður var...

Bankarnir orðnir langþreyttir á úrræðaleysi Seðlabankans?

Mér sýnist sem Kaupþing sé að bresta þolinmæðin á úrræðaleysi Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar. Fyrst er það hátt í 40 milljarða lán á hagstæðum kjör og nú að bjóða út sérvarin skuldabréf vegna íbúðalána. Kannski er bankinn með þessu að sýna ríkinu og...

Sýnir hvers konar rugl er í gangi

Loksins hafa bankarnir gert það sem þeir áttu að gera fyrir löngu, þ.e. sanna það fyrir heiminum að skuldatryggingaálagið er ekki í neinu samræmi við raunveruleg kjör á markaði. Nú er bara að sjá hvort Seðlabankinn og hinir viðskiptabankarnir fylgi ekki...

19. júní dagur kvenna á Íslandi

Í tilefni dagsins, 19. júní, og vil ég óska öllum konum til hamingju með daginn sem markað hefur afgerandi spor í kvenréttindabaráttuna á Íslandi. Það er forgöngukonum þessarar baráttu að þakka að íslenskar konur fóru að taka virkari þátt í stjórnun...

Trúin á aðgerðum engin

Það er greinilegt að markaðurinn hefur enga trú á því að ríkisstjórnin grípi til aðgerða fljótlega eða hafi yfirhöfuð getu á að gera eitt eða neitt. Orð Geirs í gær eru greinilega álitin innantóm og bera þess merki að ríkisstjórnin sé gjörsamlega...

Gagnaleki

Undanfarna mánuði hafa ítrekað birst í fjölmiðlum fréttir um að persónuupplýsingum hafi verið stolið, þær glatast á furðulega hátt eða komist í rangar hendur. Þessi atvik hafa í litlu mæli komið niður á Íslendingum, en í byrjun júní mátti þó sjá frétt...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.9.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 1682132

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband