Leita í fréttum mbl.is

Tvö aðskilin mál - stjórnskipan og fjárhagsstaða Lögreglustjórans á Suðurnesjum

Skýrsla Ríkisendurskoðunar virðist falla bæði dómsmálaráðherra og Samfylkingu í geð, en samt eru þessir aðilar á öndverðum meiði í þessu máli.  Annar aðilinn vill ganga strax í að skilja á milli lög-, toll- og öryggisgæslu á Suðurnesjum/Keflavíkurflugvelli, en hinn vill ekki gera það fyrr en eftir heildarendurskoðun.  Hvernig getur það verið að báðir eru sáttir?  Pólitík?  Líklegasta skýringin er að hvor aðili um sig leitaði að þeim atriðum sem honum féll í geð og heldur þeim á lofti.   

Ég hef áður skrifað um þetta mál og má sjá þá umfjöllun hér.   Tók ég þá undir það sjónarmið Björns að þessi þrír þættir eiga alla jafna ekki að vera á sömu hendi af þeirri einföldu ástæðu að þeir heyra undir þrjú mismunandi ráðuneyti.  En vandamál lögreglustjóraembættisins á Suðurnesjum var ekki stjórnskipulags eðlis.  Vandinn var fjárhagslegs eðlis, þar sem rekstrarkostnaður embættisins var mun meiri en framlög á fjárlögum og sértekjur stóðu undir. 

Ríkisendurskoðun rekur í skýrslu sinni hvernig stendur á þessum fjárhagsvanda. 

  1. Hann er vegna langvarandi umframkeyrslu Sýslumannsembættisins á Keflavíkurflugvelli, m.a. vegna þess að kostnaður við ýmis verkefni tengd NATO var meiri en nam tekjum vegna verkefnanna.
  2. Brottför varnarliðsins varð til þess að sértekjur lækkuðu án þess að kostnaður minnkaði til samræmis eða framlög á fjárlögum aukin.
  3. Yfirtaka á lögreglu- og tollastarfsemi frá sýslumanninum í Keflavík kostaði meira en nam viðbótartekjum vegna verkefnanna.
  4. Útlit er fyrir að sértekjur ársins í ár lækki um 100 m.kr. en rekstrarkostnaður lækki aðeins um 30 - 40 m.kr.
  5. Frestun á orlofstöku (sem líklegast má rekja til skorts á starfsmönnum) kostar 40 m.kr.
  6. Ekki er tekið tillit til þess í fjárveitingum að launakostnaður er hærri hjá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum vegna vakta- og vinnuskipulags, en t.d. hjá Lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins og Tollstjóranum í Reykjavík.

Fjárhagslegur vandi lög-, toll- og öryggisgæslu á Suðurnesjum/Keflavíkurflugvelli er ekki leystur með því að kljúfa embætti lögreglustjórans í þrjár einingar.  Hann er eingöngu leystur með því að skera niður þjónustuna eða auka við fjárframlög.  Það má auðveldlega færa fyrir því rök að fjárhagsvandinn aukist hjá löggæsluhlutanum frekar en hitt við svona aðskilnað, þar sem tekjur af öryggisgjaldi hafa verið notaðar til að greiða niður kostnað af löggæslu og tollgæslu.  Á árunum 2005 - 2007 fór 60% af öryggisgjaldi í annað en lög gera ráð fyrir.

Vissulega eiga þeir sem heyra undir fjárlög að haga starfsemi sinni í samræmi við ákvörðun löggjafans.  Það getur aftur verið erfitt, þegar ekki er tekið tillit til raunverulegra útgjalda við gerð fjárlaga.  Í því virðist vandi Lögreglustjórans á Suðurnesjum liggja.  Kostnaður embættisins vegna þeirra verkefna sem því er ætlað að sinna er meiri en fjárlög gera ráð fyrir.  Þetta er svo sem ekkert nýmæli og gerist ekki bara innan dómsmálaráðuneytisins að embættismenn skeri tillögur ráðuneyta við nögl. 

Ríkisendurskoðun bendir á það í skýrslu sinni að líklegasta skýringin á umframkeyrslunni sé að heildarlaunagreiðslur á stöðugildi hjá embættinu séu hærri en grunnur fjárlaga geri ráð fyrir.  Þá segir:

Nauðsynlegt er að kanna til hlítar skýringar á þeim mun sem er á kostnaði við stöðugildi eftir embættum. Komi í ljós að hann á sér eðlilegar skýringar vegna eðlis starfseminnar virðist rétt að viðurkenna hann í fjárveitingum. Að öðrum kosti þurfa forráðamenn embættisins með einhverjum hætti að grípa til sparnaðar í rekstri..

Loks segir Ríkisendurskoðun:

Við sameiningu allrar lög- og tollgæslu á Suðurnesjum og Keflavíkurflugvelli undir hatti Lögreglustjórans á Suðurnesjum er nauðsynlegt að endurmeta og hugsanlega skilgreina upp á nýtt áherslur í starfsemi hins nýja embættis. Við þá vinnu, sem dómsmálaráðuneytið í samvinnu við Ríkislögreglustjóra ætti að koma að með beinum hætti, þarf óhjákvæmilega að leggja mat á hversu mikinn mannafla þurfi að hafa tiltækan annars vegar vegna landamæraeftirlits og annarrar löggæslu á Keflavíkurflugvelli og hins vegar til að þjónusta byggðarlögin á Suðurnesjum með fullnægjandi hætti. Verði niðurstaðan slíkrar stefnumótunar sú að rétt sé að breyta áherslum í starfseminni þarf hugsanlega að breyta núverandi starfaskipulagi og vinnufyrirkomulagi hjá embættinu. Fyrirfram er þó ekki hægt að fullyrða að slíkt muni óhjákvæmilega leiða til lægri rekstrarkostnaðar þess.

Ákvörðun dómsmálaráðherra við að skipta embætti Lögreglustjórans á Suðurnesjum upp er rétt út frá boðleiðum íslenskrar stjórnskipunar, þ.e. að hver þáttur embættisins eigi að heyra beint undir það ráðuneyti sem fer með viðkomandi málaflokk.  En hún er ekki tekin út frá þeim forsendum.  Hún var tekin vegna þess að embættið treysti sér ekki til að vinna innan heimilda fjárlaga og dómsmálaráðherra vill að hin ráðuneytin axli ábyrgð á sínum kostnaðarhluta.  Svo einkennilega vill til, að þessi ákvörðun verður dómsmálaráðuneytinu líklega dýrust í framkvæmd, þar sem samgönguráðuneytið hefur í raun greitt niður löggæsluhlutann með of háu öryggisgjaldi.  Spurningin sem hlýtur að vakna núna er hvort dómsmálaráðuneytið mun tryggja löggæsluhlutanum þau fjárframlög sem þörf er á (sem kallar á verulega hækkun framlaga) og ef svo verður, hvers vegna dómsmálaráðuneytið var ráðuneytið þá ekki tilbúið til þess áður?

Í lokin varðandi verkaskiptinguna, þá bendir Ríkisendurskoðun á að einfalt sé að gera þjónustusamning á milli ráðuneytana um hana sem feli í sér að Lögreglan á Suðurnesjum sjái um verkefni fyrir hin ráðuneytin.  Hafa skal í huga að sýslumenn um allt land sinna verkefnum fyrir önnur ráðuneyti en ráðuneyti dómsmála.  Má þar nefna fjármálaráðuneyti og félagsmálaráðuneyti. 


mbl.is Björn: Fagna niðurstöðu Ríkisendurskoðunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vantar almenning og atvinnulíf lánveitanda til þrautavara?

Það er mikið nefnt um þessar mundir að viðskiptabankana, Seðlabankann og þess vegna ríkið vanti lánveitendur til þrautavara.  Þetta er talin ein helsta ástæða fyrir lækkandi lánshæfismati og hækkandi skuldatryggingaálagi (þó það hafi lækkað síðustu daga) bankanna og ríkisins.  En mig langar bara að benda á, að mjög er farið að þrengja að lánamöguleikum almennings og fyrirtækja í landinu.  Eins og ástandið er í þjóðfélaginu í dag, er eingöngu hægt að fá lán á slíkum ofurkjörum að ein lántakan kallar á aðra innan fárra vikna.  Mjög margir aðilar eru í þeim sporum, að þeim dugir ekkert að draga seglin saman eða þeir geta ekki dregið þau nema mjög takmarkað saman.

Fyrirtæki eru mörg í þeim sporum að þau þurfa að leggja út fyrir miklum kostnaði við þróun, framleiðslu, sölu, markaðssetningu og þjónustu, en fá síðan tekjurnar af þessu mörgum mánuðum síðar.  Skýrasta dæmið um þetta eru ferðaþjónustufyrirtæki á borð við bílaleigur.  Þær endurnýja bílaflota sinn á hverju vori og nú standa þeim til boða lán og lánfyrirgreiðsla sem verður einfaldlega til þess að þær munu fara yfir um í hrönnum á haustmánuðum.  Byggingarverktakar eru kannski hálfnaðir eða rúmlega það með stóra byggingu og þá kippir viðskiptabankinn að sér hendinni.  Verktakinn gæti ekki einu sinni selt íbúðir í byggingunni á hálfvirði, þar sem hann fær ekki fjármagn til að ljúka byggingunni.  Sama gildir um einstakling, sem stendur í byggingaframkvæmdum.  Eina sem býðst eru yfirdráttarlán á himin háum vöxtum.  Þó svo að fólk vildi losa sig við eignir, þá er það ekki hægt, þar sem kaupendum bjóðast ekki lán.  Og ekki dugir framkvæmdastopp, þar sem vextina þarf að greiða um hver mánaðarmót og þá ekki litla.

Það virðist því liggja beinast við að fyrirtæki og almenning bráðvanti lánveitendur til þrautavara.

Eins og fram kom í viðtali við mig á Rás 2 um daginn, þá þekki ég þessa stöðu mjög vel, þar sem við hjónin erum að byggja og með núverandi húsnæði á sölu.  Okkur vantar herslumuninn upp á að geta flutt inn í nýja húsnæðið, en þann herslumun gengur alveg bölvanlega að brúa.  Þar sem við erum með tvöföld lán í gangi, þá komum við illa út úr greiðslumati.  Fasteignamarkaðurinn er nálægt alkuli (um +2° Kelvin) og því sjáum við ekki fram á að núverandi húsnæði seljist fyrr en í haust eða jafnvel síðar.  Ég hef ekki áhyggjur af stöðunni eftir ár eða tvö, þar sem jafnvægi kemst örugglega á fljótlega í framhaldi af því að gengið styrkist og laun hækka.  Ég kýs að líta á núverandi ástand sem ansi bratta brekku í maraþonhlaupi.  Spurningin er bara hversu fljótt við komust upp brekkuna, hvaða fórnir þurfum við að færa til komast upp og hvað tekur við þegar upp er komið.  Draumurinn er náttúrulega að gengið styrkist verulega á næstu vikum, verðbólgan gangi hratt niður, húsið seljist fljótlega á því sem næst uppsettu verði og að lán fáist á hagstæðum kjörum svo við getum flutt inn.  Það sakar ekkert að láta sig dreyma Smile 


Viðsnúningurinn hafinn?

Seðlabankinn er búinn að ákveða að halda stýrivöxtum óbreyttum.  Það þýðir að bankinn ætlar ekki að viðhalda því raunstýrivaxtastigi sem ríkt hefur undanfarin ár og er því í raun að lækka stýrivextina umtalsvert.  Þetta verður að skoðast sem yfirlýsing um vilja Seðlabankans að koma hjólum efnahagslífsins aftur í gang.

Raunstýrivextir, þ.e. stýrivextir umfram verðbólgu, standa núna í 3,7% og munu líklegast lækka með birtingu verðbólgutalna á næstu dögum niður fyrir 3% og jafnvel niður fyrir 2%.   Þetta er í samræmi við þá raunstýrivexti sem voru hér á eina tímabilinu sem hægt er að segja að hafi verið jafnvægi á hagkerfinu frá því að verðbólgumarkmiðin voru tekin upp, þ.e. frá nóvember 2002 til apríl 2004.  Á þessu tímabili var 12 mánaðaverðbólga oftast undir viðmiðunarmörkum Seðlabankans og stýrivextir stóðu í 5,3% (sem er nær því að vera um 5% miðað við breytta framsetningu stýrivaxta).  Raunstýrivextir mældust á þessum tíma frá 1,83% upp í 3,74% (sem síðan má lækka um 0,3% til að endurspegla breytta framsetningu stýrivaxtanna).  Hafa skal í huga, að frá desember 2004 hafa raunstýrivextir ekki verið undir fjórum prósentum og fóru hæst í 9,85% í ágúst í fyrra á sama tíma og verðbólga mældist 3,45%.

Ætli Seðlabankinn að halda þessu raunstigi stýrivaxta, þá gæti hann þurft að hækka þá við vaxtaákvörðun í byrjun júlí og halda þeim yfir 15% út árið.  Á hinn bóginn gæti Seðlabankinn litið til vísitölu breytinga milli mánaða og sagt sem svo, að fyrst að það dregur úr hækkun milli mánaða, þá hafi myndast tækifæri til að lækka stýrivextina.  Verðbólgumælingar næstu 6 - 7 mánuði munu hvort eð er að mestu endurspegla það skot sem er að eiga sér stað um þessar mundir og gengur hjá á nokkrum vikum. Það er því tilgangslaust að nota háa stýrivexti til að keyra niður verðbólgu sem þegar er í niðursveiflu. 


mbl.is Stýrivextir áfram 15,50%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ætli þetta sé það eina sem Moody's hefur að óttast?

Mér kæmi ekki á óvart, þó fleiri villur leyndust í forritum matsfyrirtækjanna. Ég hef, t.d., oft lýst undrun minni á því hvernig þeim tókst að meta fjármálavafninga með undirmálslánum til jafns við bandarísk ríkisskuldabréf (T-Bonds). Þar var á ferðinni...

Fjölgar brotum við hert eftirlit - ótrúleg rökvilla

Hún er kostuleg fullyrðingin sem sett er fram í þessari frétt um afbrotatölfræði lögreglunnar: Hegningarlagabrotum fækkaði í apríl miðað við sama mánuð í fyrra en umferðalagabrotum fjölgaði. Rekja má fjölgunina að miklu leyti til hraðakstursmyndavéla....

Efnahagskreppan - Fyrirsjánleg eða ekki?

Það var haft eftir Geir H. Haarde og Davíð Oddssyni um daginn að efnahagskreppan sem dunið hefur yfir þjóðina í kjölfar alþjóðlegu bankakreppunnar hafi ekki verið fyrirséð. Helstu rökin virðast vera að þar sem lausafjárkreppan hafi ekki verið fyrirséð,...

Lækkun vegna hugsanlega-ólíklega-kannski

Þetta er nú með kjánalegri rökstuðningi sem ég hef séð. Hugsanlegir erfiðleikar ef svo ólíklega vildi til að eitthvað ófyrirséð kæmi upp. Það er reynt að draga fram eins marga fyrirvara og hægt er en samt eru þeir notaðir til að réttlæta breytingu. Til...

Eiður Smári með tilboð frá frönsku liði

Samkvæmt slúðri á vefsíðunni tribalfootball.com hefur Eiður Smári Guðjohnsen fengið tilboð frá frönsku liði. Fréttin er höfð eftir DiarioSport, sem segir Eið Smára ánægðan með tilboðið, en mun ekki taka því fyrr en hann hefur rætt við forráðamenn...

Gengisvísitalan aldrei hærri í lok dags

Krónan náði nýrri lægð í dag. Gengisvísitalan endaði í 158,90 stigum. Fyrra met, 157,3 stig, var frá því 14. mars á þessu ári. Þetta er auk þess lægsta gengi krónunnar að minnsta kosti frá því að núllin tvö voru klippt af krónunni fyrir tæpum þremur...

Hagspá greiningardeildar Kaupþings

Hún er áhugaverð lesning Hagspá greiningardeildar Kaupþings fyrir 2008 til 2010 sem kom út í dag. Helstu ályktanir eru: Trúverðugleiki er ekki helsta vandamál Seðlabankans Bankana vantar erlendan lánveitanda til þrautavara Verðbólgan mun fara í 13,5% og...

Allt er til tjóns

Á vef Viðskiptablaðsins má lesa það álit Paul Rawlins sérfræðings hjá Fitch Ratings matsfyrirtækinu, að erlend lántaka ríkissjóðs eða Seðlabanka upp á 5 - 10 milljarða evra gæti haft veruleg neikvæð áhrif á lánshæfismat íslenska ríkisins. Það er svo sem...

Slóvakar fyrstir til að kasta krónunni

Ef svo fer að Slóvakía tekur upp evru þann 1. janúar 2009, þá verður það fyrsta landið til að láta mynteininguna krónu víkja fyrir evrunni. Kannski er þetta fordæmið sem aðrir munu fylgja en líklegt er talið að Danir kasti krónunni innan tíðar, Tékkar...

Verður 12 mánaðaverðbólga 18 - 20% í haust

Þetta verðbólguskot, eins og það er kallað, sem nú gengur yfir, verður líklegast mun lengra og þyngra en flestir gera sér grein fyrir. Það veltur þó allt á því hvort og þá hve langan tíma það tekur krónuna að rétta úr kútnum. Hagstofan birtir...

Í útvarpsviðtal út af bloggi

Það var hringt í mig í morgun frá Rás 2 og ég beðinn um að koma í viðtal út af bloggi mínu um efnahagsmál. Að sjálfsögðu stóðst ég ekki freistinguna og verður viðtalið birt á næstu dögum. [Uppfært kl. 17:54] Það er gagnrýni mín á hagstjórn Seðlabankans...

Aðdáendur Stoke eru þakklátir Íslendingunum

Ég hef tekið eftir því í umræðunni í gær og í dag hér á blogginu og í fjölmiðlum, að sá misskilningur virðist útbreiddur að stuðningsmenn Stoke beri einhvern kala til íslensku fyrrum eigenda liðsins. Ég er búinn að fylgjast með umræðu á spjallvef Stoke í...

Glæsilegt hjá Stoke

Til hamingju Stókarar. Sjá nánar blogg mitt: Stoke upp, Leicester niður

Stoke upp, Leicester niður

Stoke tryggði sér rétt í þessu sæti í Úrvalsdeildinni á næsta ári og sendi Leicester niður í 2. deild í leiðinni. Leikur liðanna endaði 0 - 0, en það var nóg fyrir Stoke. Leicester féll, þar sem Southampton vann Sheff U 3-2 eftir að hafa lent undir 0-1...

Ólíkt hafast menn að

Það er óhætt að segja, að ólíkt hafist menn að. Í Bandaríkjunum er hundruðum milljarða dollara veitt út í efnahagslífið af seðlabankanum, en hér virðist helst að betra sé að sem flestir missi atvinnuna eða fyrirtæki fari á hausinn. Það er eins og menn...

PCI gagnaöryggisstaðallinn - kröfur um uppfyllingu og ISO 27002

Mjög mörg fyrirtæki hér á landi þurfa að uppfylla kröfur gagnaöryggisstaðals greiðslukortafyrirtækjanna VISA og MasterCard eða Payment Card Industry (PCI) Data Security Standard (DSS). Í þessari grein verður farið yfir helstu atriði sem skipta máli....

Spennan í ensku Coca-Cola deildinni mikil

Á sunnudaginn fer fram síðasta umferð í ensku Coca-Cola Football League Championship eða það sem við köllum almennt ensku 1. deildinni. Fyrir þess síðustu umferð eru aðeins 9 lið af 24 liðum deildarinnar viss um að spila í deildinni á næsta...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 14
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband