Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2011

Hárrétt hjá Lilju - Lífeyrissjóðirnir eru of stórir miðað við fjárfestingar í boði

Við hrun bankakerfisins í október 2008 hvarf um þeið stór hluti af fjárfestingakostum hér á landi.  Um leið lokaðist á möguleika innlendra fjárfesta til að flytja fé úr landi til fjárfestinga erlendis.  Þetta bitnar ekki síst á lífeyrissjóðum landsins, þar sem stærð þeirra samanborið við fjárfestingakosti hér á landi eru einfaldlega allt of mikil.

Heildareignir lífeyrissjóðanna eru um 1.900 milljarðar króna. Þó örugglega megi deila um hvort þetta sé nákvæmlega rétt tala vegna ýmissa óuppgerðra mála vegna bankahrunsins, þá er hún óhugnalega stór samanborið við verðmæti verðbréfa í boði hér á landi.  (Þegar ég tala um verðbréf, þá eru það hlutabréf, skuldabréf og aðrir þeir pappírar sem ganga kaupum og sölu á fjármálamarkaði.)  Á hverju ári bætist við þessa upphæð hátt í 100 milljarðar vegna iðgjalda ársins, bæði í sameiginlega sjóði og séreignarsjóði.  100 milljarðar er gríðar há tala og má sem dæmi nefna að hún nemur ríflega tvöföldum lífeyrisgreiðslum almannatrygginga á síðasta ári.  Meðan gjaldeyrishöft eru í gangi og líklegast á meðan gjaldmiðill landsins er ekki samþykktur á alþjóðafjármálamarkaði, þá eiga lífeyrissjóðirnir ekki aðra kosti en að ávaxta þessa fjármuni hér innanlands.

Lífeyrissjóðirnir eru risar sem gína yfir innlendum fjárfestingamarkaði.  Ég ætla ekkert að tjá mig um hvort hegðun þeirra á þessum markaði er góð eða slæm, en ljóst er að þeir hafa gríðarleg áhrif.  Fáir aðrir stórir fjárfestar eru á markaðnum og engir í sama stærðarflokki og lífeyrissjóðirnir.  (Kannski er rangt að tala um sjóðina sem eina heild, en þeir koma mjög oft fram sem slíkir og því erfitt annað en að líta á þá sem einn risa frekar en fjóra stóra sjóðir og helling af minni.)  Meðan lífeyrissjóðirnir geta komið svona fram sem heild, þá hverfur af markaðnum heilbrigð samkeppni.

Haldi lífeyrissjóðirnir áfram að vaxa líkt og þeir gera, verða þeir ennþá viðkvæmari fyrir óstöðugleika í íslensku efnahagslífi.  Höggið sem þeir urðu fyrir í hruninu var stórt af þeirri einu ástæðu hve víða fjárfestingar þeirra teygðu anga sína.  Ef eitthvað er, þá koma þeir við á fleiri stöðum. 

Hættulegasti hlutinn í þessu er þó líklega samþjöppun valds í íslensku atvinnulífi og íslensku efnahagslífi.  Nú þegar eru hlutirnir þannig að menn sitja hver í stjórn hjá öðrum eða eigum við segja fyrir aðra.  Fulltrúar atvinnulífsins sitja allt í senn í stjórnum sjóða, stjórnum ráða hjá Samtökum atvinnulífsins, í stjórnum fjármálafyrirtækja og jafnvel bankaráðum.  Ég skil ekki hvernig þetta fólk fer að því að gegna störfum sínum svo vel sé.  Þetta fólk situr þá allt sömu megin borðsins, sem er meira en hægt er að segja hina sem sitja með þeim í stjórnum lífeyrissjóðanna.  Fulltrúar verkalýðsfélaganna, fyrirgefið, sjóðfélaganna, eru allt í senn að verja kjör launafólks, verja lífeyrisréttindi þeirra og verja stöðu fyrirtækisins sem lífeyrissjóðurinn hefur fjárfest í.  Hvernig getur stjórnarmaður í fyrirtæki jafnframt verið í hatrammri kjarabaráttu gegn þessu sama fyrirtæki?  Hvernig getur stjórnarmaður í lífeyrissjóði verið í hatrammri kjarabaráttu, sem verkalýðsleiðtogi, gegn fyrirtækjum sem teljast mikilvæg fjárfesting fyrir lífeyrissjóðinn?  Ég fæ þetta ekki til að ganga upp.  Þess vegna virði ég þá afstöðu Vilhjálms Birgissonar á Akranesi að vera bara með einn hatt, hatt verkalýðsforingjans.


mbl.is Segir lífeyrissjóðina vera of stóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framfærslulífeyrir öryrkja og ellilífeyrisþega er hneisa

Ég fjallaði um þetta mál í síðustu færslu minni Þróun sem átt hefur sér langan aðdraganda og á eftir að versna.  Því miður hefur þetta ástand ekki fengið nægan hljómgrunn í samfélaginu.  Líklegasta ástæðan er að þjóðfélagið hefur ekki efni á því að gera nauðsynlegar bragabætur.  Það breytir ekki því að það er hneisa að stór hluti landsmanna skuli vera skikkaður af ríkinu til að lifa undir fátæktarmörkum.

Staðreyndir málsins eru að íslenskt samfélag stendur ekki undir sér, a.m.k. ekki í bili.  Kostnaðurinn við að reka það er meiri en skatttekjurnar sem ríkissjóður getur haft án þess að skattarnir skerði lífskjör.  Bæði erum við of fámenn til að standa undir allri þeirri þjónustu og velferð sem við viljum að ríki og sveitarfélög bjóði upp á, og við erum of skuldsett.  Ástandið var lítið betra hér fyrir hrun þegar ríkissjóður var "nánast" skuldlaus.  Ég set "nánast" innan gæsalappa, þar sem skuldir hans við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins var nokkur hundruð milljarðar, en það hafði láðst að geta þess í ríkisbókhaldi.

Mér hefur alltaf þótt það furðulegt, að fólk greiði skatta af tekjum sem eru undir framfærslumörkum.  Á hinn bóginn er persónuafsláttur ekkert annað en niðurgreiðsla á launakostnaði og er í raun enginn munur á persónuafslætti og beingreiðslum til bænda eða sjómannaafslætti, öllu er ætlað að greiða niður rekstrarkostnað viðkomandi launagreiðanda.

Er hægt að bæta kjör öryrkja og aldraðra?  Hversu harkalegt sem það er, þá efast ég um þjóðfélagið hafi bolmagn til þess í bráð.  Meðan atvinnurekendur eru berjast með kjafti og klóm gegn því að lægstu launataxtar nái skammtíma framfærsluviðmiðum vinnuhóps velferðarráðuneytisins, þá sé ég ekki fyrir mér að lífeyrir hækki.  Nú ekki getur ríkið séð af skatttekjum í bili (að því virðist) og núverandi fjármálaráðherra er fallinn í sömu gryfju og þeir sem hann gagnrýndi mest hér áður fyrr og segir landsmenn ekkert muna um þessar fáu krónur sem hann er beðinn um að slá af bensínlítranum.

Velferðarstjórn vinstri flokkanna ber ekki nafn með rentu.  Hún hefur gert allt annað en staðið vörð um velferðina og skjaldborgin um heimilin snerist upp í andhverfu sína.  Guðbjartur Hannesson á hrós skilið fyrir að hafa látið gera skýrsluna um neysluviðmiðin.  Hagsmunasamtök heimilanna voru búin að berja á Árna Páli meðan hann var félagsmálaráðherra að neysluviðmiðin væri skilgreind, en líkt og með annað hjá Árna Páli, ef það kom ekki fjármálafyrirtækjunum til góða, þá var það ekki framkvæmt. 

Guðbjartur mætti á fund um fátækt í haust og ljóst var eftir hann, að honum var brugðið.  Ég treysti honum til góðra verka.  Ég svo sem treysti Jóhönnu til góðra verka hér áður fyrr. Hún vann vel sem félagsmálaráðherra að málefnum þeirra sem minna máttu sín.  Núna er hún aftur komin í varðlið fjármagnseigendanna og þá gleymist lítilmagninn.


mbl.is Heldur fólki föstu í viðjum fátæktar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þróun sem átt hefur sér langan aðdraganda og á eftir að versna

Hún er ekki björt lýsingin sem Berglind Nanna Ólínudóttir gefur af stöðu sinni.  Því miður er hún ekki ein um þetta og þeim fer fjölgandi sem lenda í fátæktagildru íslenska "velferðarkerfisins".  Ætli það séu ekki um 15 ár síðan að ég skrifaði mína fyrstu grein um þessi málefni og satt best að segja hefur lítið breyst.  Stórum hluta landsmanna er ætlað að lifa af tekjum sem duga ekki fyrir framfærlsu.

Pétur Blöndal uppskar mikla reiði um miðjan 10. áratuginn, þegar hann af sínu alkunna yfirlæti talaði niður til lífeyrisþega og sagði ekkert mál að lifa á grunnbótum. Það er svo sem alveg rétt að hægt er að lifa á grunnbótum, en þá má viðkomandi ekki skulda krónu.  Helst þarf viðkomandi að eiga maka sem er með góðar tekjur til að greiða allan húsnæðiskostnað, að maður tali nú ekki um óþarfaútgjöld á borð við tannlæknaþjónustu, sumarleyfi, tómstundir barnanna og fleira í þeim dúr.  Raunar er ætlast til þess að fyrir einstæðan öryrkja, sem er með barn á sínu framfæri, þá eigi nær allur kostnaður vegna barnauppeldisins að koma frá velgjörðarmönnum.

Staðreyndir málsins eru, að "velferðarkerfið" gerir ekki ráð fyrir að einstaklingar þiggi "góðvild" þess nema í stuttan tíma á yngri árum.  Það gerir líka ráð fyrir að sá sem þiggur stuðning þess hafi tekjur annars staðar frá.  En jafnframt þá refsar það einstaklingum grimmilega fyrir slíka "heppni".

Ég þekki þetta af eigin raun, þar sem konan mín er MS-sjúklingur.  Eins og algengt er um MS-sjúklinga, þá er starfsorka þeirra verulega skert og af þeim sökum eru þeir yfirleitt metnir 75 - 100% öryrkjar.  Hér á árum áður var henni refsað fyrir það, að ég hefði mannsæmandi tekjur, en nú er búið að afnema þá vitleysu, en þó bara að hluta.  Tekjur mínar skerða enn bætur hennar, ef tekjurnar heita fjármagnstekjur, hvort sem um er að ræða af bankabókinni minni (sem er að vísu tóm) eða ef mér dytti í hug sú vitleysa að vera með eiginrekstur í einkahlutafélagi.  Þannig að sé maki öryrkja sjálfstætt starfandi er hann þvingaður af furðulegri löggjöf um almannatryggingar til að annað hvort vera með reksturinn undir eigin kennitölu eða verður að passa sig á því að greiða sér engan arð af starfseminni.  Málið er nefnilega að 25% af fjármagnstekjum (hvort heldur viðkomandi eða makans) umfram frítekjumörk skerða lífeyri almannatryggingakerfisins.

Þetta atriði er sérlega varhugavert í núverandi ástandi í þjóðfélaginu.  Mjög margt eldra fólk er fast í húsnæði sínu, þar sem það getur ekki selt nema taka á sig gríðarlegt tap.  Það getur heldur ekki flutt í hagstæðara leiguhúsnæði eða inn til barnanna sinna og leigt í staðinn út húsnæðið sitt nema fá á sig skerðingu lífeyris.  Staða þess er þessa stundina þannig, að það ræður ekki við afborganir lánanna sinna, og ef það reynir að moka sig út úr skaflinum, þá kemur almannatryggingakerfið (og raunar skattkerfið líka) og sturta stórgrýti í veg þeirra.  Ef þessi lífeyrisþegi hefði á einhverjum tímapunkti stofnað leigufélag um húsið sitt, þá fengi hann að draga allan kostnað fyrst frá tekjunum áður en fjármagnstekjurnar byrjuðu að skerða lífeyrinn.

(Ekki má gleyma þeim fáránleika, að fjármagnstekjuskatturinn er ekki dreginn af tekjustofninum sem skerðir lífeyrinn!)

Ég fæ stundum pósta frá fólki sem er fast í gildrum stjórnvalda.  Hér er eitt dæmi og vona ég að viðkomandi fyrirgefi mér að hafa ekki spurt um leyfi, en ég hef tekið allt út sem vísað gæti til viðkomandi:

Í byrjun árs 2008 ákváðum við að minnka við okkur og fara í litla blokkaríbúð fyrir aldraða.  Við settum húsið á sölu í febrúar það ár.  Markaðsverð var áætlað um [xx] miljónir.  Strax fengum við nokkrar heimsóknir, enda húsið talið söluvænlegt.  Eitt ófullnægjandi tilboð barst nánast strax og annar beið með að gera tilboð þar til honum tækist að selja sína eign.  Þá kom bomban. Seðlabankastjóri, Davíð Oddsson, kom fram í sjónvarpi allra landsmanna og tilkynnti að nú yrði um 30% verðfall á fasteignum.  Þar með fór nánast öll sala í frost.

Við höfum ekki haft á stefnuskrá okkar að safna auði (á kostnað annarra).  Fremur hefur verið reynt að gera þessu þjóðfélagi það gagn sem við höfum getað, enda unnið alla tíð og ekki þegið styrki af hinu opinbera.  Umsögn starfsmanns hjá Umboðsmanni skuldara var líka sú að við værum í hópi “skynsama fólksins”! Nú er hins vegar svo komið að sjónvarpsstöðvum og prentmiðlum hefur verið sagt upp.  Skrúfað hefur verið fyrir utanlandsferðir (eigum .. börn erlendis) og við hvorki reykjum né drekkum.  Einnig hefur verið skrúfað fyrir leikhúsferðir, sem við höfum yndi af, sem og ferðum til lækna fækkað verulega.  Við höfum selt jeppa og húsvagn sem við áttum og nú er sparnaður af reikningum, sem nota átti meðal annars í útfarkostnað búinn.  Staðan er líka farin að hafa áhrif á líkamlega og andlega líðan.

Þegar eign okkar var sett á sölu þóttumst við standa nokkuð traustum fótum í tilverunni og sáum fram á að geta átt einhverja aura fyrir útför og til að eiga út ævikvöldið.  Nú er tilfinningin sú að staðið sé á bráðnandi ísmola með hengingaról um hálsinn.  Hraði bráðnunar ræðst af aðgerðum yfirvalda og fjármálastofnanna.

Við ættum að vera sest í helga stein til að njóta elliáranna en sökum krafna, sem reynt er að standa skil á hefur húsbóndinn farið ítrekað [út á land], lagst í “útlegð” og snapað þar upp vinnu og mun enn gera.  Ekki er sjálfgefið að einstaklingur á áttræðisaldri fái starf á Reykjavíkursvæðinu (né heldur annars staðar).

Síðan klikkir bréfritari út með orðunum:

Standist sú staðhæfing að best sé að aldrað fólk búi eins lengi og unnt er í eigin húsnæði verður að gera því fært að gera það.  Fólk verður að fá að halda reisn sinni eins lengi og unnt er og koma verður í veg fyrir að fólk verði "hreppsómagar" að óþörfu.

Tekið skal fram að lánin sem eru að sliga þetta góða fólk eru venjuleg íslensk verðtryggð húsnæðislán!

Stjórnvöld verða að fara að vakna upp, ef hér á ekki að skapast allsherjar neyðarástand.   Neyð margar er mikil núna, en ástandið ætti að vera viðráðanlegt, ef lagst er á árarnar við að laga það.  Málið er, að stjórnvöld og fjármálafyrirtæki eru að róa í öfuga átt við þarfir almennings og atvinnulífsins.  Skattar og afborganir lána eru að sliga fólk og fyrirtæki.  Farið að vakna til vitundar um þetta áður en það verður um seinan.


mbl.is „Lágmarkstilvera er ekki í boði“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fáránleiki endurútreikninga: Skuldar háar fjárhæðir þó lánið hafi verið greitt upp 2007

Í síðari símatíma Reykjavíkur síðdegis á Bylgjunni í gær (27.4.2011) hringdi inn kona sem sagði farir sínar ekki alveg sléttar.  Mig langar að birta grófa endurritun samtalsins hér (þ.e. samfellt mál og öllum endurtekningum og mistökum sleppt).  

Hringjandi:  Góða kvöldið.  Ég er að velta fyrir mér þegar skipt var um kennitölu á bönkunum, þ.e. gamla kennitalan og nýja kennitalan.. 

Útvarpsmaður: Þegar þeir fóru í kennitöluflakkið..

H:  ..þá fengu erlendir kröfuhafar þetta með einhverjum afslætti.  Ég er mikið að velta þessu fyrir mér.  Ég er með erlent lán sem ég greiddi upp árið 2007og er að fá bréf um það, að ég skuldi um 600 þús. af láninu.  Hvernig getur nýi bankinn eignast uppgreidda kröfu í gamla bankanum?

Ú:  Ég vildi nú að ég hefði svar við því.  Þetta er nú alveg óskiljanlegt.

H:   Þetta skil ég ekki heldur.  Eignuðust þeir gamla bankann alveg eða hvað eignuðust þeir?

Ú: Eignuðust þeir ekki kröfurnar?

H:  Uppgreiddar kröfur líka?

Ú:  Þú varst búin að borga?

H:  Ég greiddi þetta lán upp 2007.

Ú:  Hvað ertu að fá í hausinn núna?

H:  600 þúsund og ég má velja á milli fjögurra leiða.

Ú:  Hvaða leiðir eru það?

H:  Það eru alls konar leiðir, ég má velja hvernig ég gangi frá þessu.

Ú:  Við höfum rætt við lögmenn um þetta og þeir segja að þeir sem lendi í þessu eigi bara að stefna bankanum.

H:  Á ég að þurfa að fara kaupa mér lögfræðing út af láni sem ég er búin að borga út af einhverjum banka sem er í eigu ríkisins?  Nýi bankinn er í eigu einhverra erlendra kröfuhafa.  Ég er búin að borga þetta og ríkið á þetta uppgreidda lán.

Ú:  Bankinn metur það þannig að miðað við endurútreikninga hafir þú greitt of lítið af..

H:  Það er greinilegt.  Þeir eru búnir að reikna það út.  En ég skil ekki hvernig nýi bankinn geti eignast uppgreidda kröfu í gamla bankanum.  Það er það sem ég er ekki alveg að kveikja á, skilurðu?

Ú: Það væri gaman að spyrja einhvern að því.

---

Ég er búinn að fjalla um fáránleika laga nr. 151/2010, gengislánalaganna, all nokkrum sinnum.  Ég hef gert það út frá nokkrum sjónarhornum, en aldrei þeim sem hringjandinn nefnir, þ.e. að uppgreidd lán geti ekki talist eign, hvað þá eign nýja bankans.  Hafa skal í huga, að við síðustu afborgun skal lánveitandi senda lántaka stimplað frumrit lánsins til merkis um að lánssamningurinn sé uppgerður.  Um leið er láninu aflýst.  Hann myndar því ekki lengur kröfu og þar með eign í bókum bankans.  Hafi hann verið fluttur yfir í nýja bankann, þá var hann fluttur yfir á virðinu 0 kr.  Það er ekki fræðilegur möguleiki að lán sem bankinn á ekki frumrit af, geti flust frá gamla bankanum til þess nýja sem hugsanlega framtíðarkrafa.  (Tekið skal fram að ég er með annað svona mál hjá mér og þar er skuldin 850 þús.kr. vegna láns með upprunalegan höfuðstól upp á um 1.600.000 kr.)

Ég er búinn að senda tveimur af þeim þremur bönkum sem ég er með áður gengistryggð lán hjá yfirlýsingu, að ég viðurkenni ekki rétt þeirra til að endurreikna gjalddaga vegna tímabils þar sem lánin voru í fullum skilum.  Í öðru tilfellinu voru lán gefin út af banka sem hrundi og síðan færð yfir í þann nýja samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins.  Lánin voru í skilum við flutninginn, þ.e. allar innheimtar gjalddagagreiðslur höfðu verið inntar af hendi í samræmi við ákvæði lánasamninganna.  Ég hef því bent bankanum á, að telji hann að ég skuldi vexti vegna gjalddaga meðan lánið var í eigu gamla bankans, þá sé nýi bankinn ekki aðili að því máli.

Í lögum nr. 50/2000 um lausafjárkaup segir í 81. gr. krafa sem ber vexti:

Kaup á kröfu sem ber vexti ná til áfallinna vaxta sem ekki eru gjaldfallnir á umsömdum afhendingartíma. Greiða skal jafnvirði vaxtanna sem viðbót við kaupverðið, enda hafi krafan ekki verið seld sem óvís krafa.

Þetta ákvæði segir að nýr eigandi kröfu skal greiða jafnvirði áfallinna, ógreiddra vaxta í kaupverði.  Sé svo ekki, þá má gagnálykta að hann sé ekki eigandi vaxta vegna þess tíma, þegar lánið var ekki í hans eigu.  Gamli bankinn á vextina, ef einhverjir vextir eru.  Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur E-5215/2010 ákveður dómarinn að kröfu Arion-banka, að bankinn eigi ekki aðild að endurgreiðslukröfu Sjómannafélags Íslands nema vegna þess tíma þegar lán Sjómannafélagsins var í eigu Arion banka. 

Allt bendir til þess, að afturvirk vaxtahækkun sé í besta falli vafasöm og næsta örugglega ólögleg.  Afturvirk vaxtahækkun á uppgreidd lán er örugglega ólögleg, þar sem greiðandi er búinn að fá afsal vegna lánsins og þar sem greiðandinn gerði ekkert ólöglegt og ekki er hægt að rekja nein mistök til hans, þá er nánast útilokað að hann verði gerður ábyrgur.  Afturvirk vaxtahækkun á þegar greidda gjalddaga, þar sem lántaki stóð við ákvæði lánasamningsins, er nær örugglega ólögleg.  Nú eigi afturvirk vaxtahækkun sér einhverja stoð, þá eiga gömlu bankarnir vaxtakröfuna, ekki þeir nýju.

Í lokin vil ég nefna, að Íslandsbanki - Fjármögnun hefur gefið það út, að ekki verði innheimt skuld á uppgreiddar kröfur komi í ljós við endurútreikning að slík skuld sé til staðar.  Hvernig ætlar bankinn að réttlæta þetta en rukkar okkur hin um vexti fyrir sama tímabil.

Bendi fólki síðan á nokkrar eldri færslur:

Fjármálafyrirtæki í klemmu

Endurútreikningur án samþykkis lántaka hefur enga merkingu - Afturvirk hækkun vaxta er eign gamla bankans

Dæmt að Arion banki eigi ekki aðild að hluta máls - Skaut bankinn sig í fótinn?

Uppgreitt lán skal taka nýja vexti og lántakar skulda 3,5 m.kr. á eftir

Tímamótadómur í Héraðsdómi Reykjavíkur: Afturvirk vaxtabreyting ekki viðurkennd


Vaxtahlé Icesave samninga var blekking - Icesave samninganefndin þarf að útskýra þetta

Dómar héraðsdóms um forgang Icesave innstæðna í þrotabú Landsbanka Íslands eru mikil lesning.  Áhugavert er hvernig umfjöllun um einstök atriði sveiflast á milli löggjafar landanna og hafa dómarar lagt sig fram við að greina hvar hvert atriði á heima.  Hvergi er hlaupið að neinu í niðurstöðunni, að ég fæ best séð, en löglærðir gætu verið á annarri skoðun.

Tvennt verkur sérstaka athygli mína.  Fyrra er að vextir frá vanefndardegi til 22. apríl 2009 teljast forgangskröfur og kostnaður erlendu tryggingasjóðanna vegna samskipta við innstæðueigendur eru það ekki.  Hvorutveggja snýr að Icesave-samningunum, en í fyrsta samningnum kröfðust erlendu sjóðirnir, FSCS í Bretlandi og DNB í Hollandi, að íslensk stjórnvöld ábyrgðust þetta tvennt.  Og það sem meira er Svavarsnefndin samþykkti það.  Síðara atriðið hefur (að ég best veit) hangið inni í hinum tveimur samningunum, en vextirnir duttu út fyrir framgreint tímabil.  Í staðinn var Íslendingum talið trú um að stjórnvöld fengju "vaxtahlé".  Nú kemur í ljós að það er var og er blekking.

DNB gerði kröfu um að Landsbankinn greiddi dráttarvexti vegna vanefndatímabilsins.  Aðalkrafa þeirra var að íslenskir dráttarvextir giltu, þ.e. allt að 26,5% vextir, fyrsta varakrafa var að hollenskir dráttarvextir giltu, þ.e. 6%, ogönnur varakrafa að innlánsvextir Icesave giltu.  FSCS gerði sams konar kröfur, nema skrefin eru fleir.  Meðal krafna er að greiddir séu 8% dráttarvextir.  Héraðsdómur fellst á dráttarvextina í báðum tilfellum, þ.e. 6% til Hollendinga og 8% til Breta.  Samkvæmt hinum mjög svo "hagstæða" Icesave 3 átti að greiða rétt rúmlega 3% vexti og fá vaxtahlé í eitt ár eða svo.  Þannig fékk íslenska samninganefndin það út að vextir yrðu innan við 3% á ári allan samningstímann.  Nú kemur sem sagt í ljós, að þetta vaxtahlé var bara blekking.  FSCS og DNB voru búnir að gera kröfu um mun hærri vexti í bú Landsbankans.  Vissulega var sú krafa til skemmri tíma, en 6% vextir í hálft ár er 3% í heilt ár.  Einnig var ekki öruggt að vextirnir yrðu viðurkenndir sem forgangskrafa, en hvers vegna áttu Íslendingar að bera hallann af því?

Næsta er að spyrja sig hverjir vissu af þessu sjónarspili.  Vissu samningamenn Íslands af því?  Fjármálaráðherra? Aðrir ráðherrar? Þingmenn?  Lee Buchheit kom fram á blaðamannafundi og barði sér á brjósti vegna þessa vaxtahlés sem hafði fengist fram.  Það var ekkert vaxtahlé.  Kröfunni hafði bara verið beint annað.

Mér finnst svona blekkingarleikur heldur ómerkilegur.  Þjóðinni er seld sú staðhæfing að tekist hafi að fá vaxtahlé sem spari 25-30 ma.kr., þegar staðreyndin er ekkert slíkt vaxtahlé var veitt.  Menn höfðu farið með kröfuna þangað sem hún átti heima.  Vá, þarna fauk út um gluggann hluti af áróðri já-sinna. 

Annað sem fauk út um gluggann í dag var ógnin að neyðarlögin stæðust ekki.  Ég óttaðist svo sem þann þátt ekkert, þar sem ESA hafði þegar gefið álit með þeirri niðurstöðu.  Auðvitað er alltaf möguleiki á að íslenskir dómstólar komist að annarri niðurstöðu en ESA, en þá væri bleik brugðið.


mbl.is Lögmætt markmið neyðarlaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er þetta nú alveg rétt, Árni Páll?

Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, fór með heillanga tölu í fréttum Stöðvar 2 í gær og hún er endurtekin í frétt mbl.is, sem þessi færsla er hengd við.  Mig langar að fara yfir atriði sem nefnd eru í fréttinni og skoða þau út frá minni þekkingu á málinu:

Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, segir að löggjöf og aðgerðir stjórnvalda vegna ólögmætra gengislána hafi byggst á þeim vaxtaútreikningum sem hefðu komið fram í dómum Hæstaréttar á sínum tíma. 

Staðreynd málsins er að Hæstiréttur hefur aldrei tilgreint nákvæmlega í úrskurðum sínum eða dómum hvernig útreikningar eiga að fara fram.  Alltaf er byggt á því að aðilar máls hafi komið sér saman um útreikninga.  Kaldhæðnin við það er að þeir útreikningar hafa verið mismunandi frá einu máli til annars. Þannig eru vextir reiknaðir út á annan veg í máli 471/2010 en málum sem síðar hefur verið dæmt í.  Hafa skal í huga varðandi það mál, að það var uppgjörsmál þar sem deilt var um lokauppgjör.  Í því reyndi því ekki á áframhaldandi greiðslur.  Annað atriði, sem dregur verulega úr gildi þess, er að Lýsing handvaldi málið.  Búið var að taka það úr dómi, þegar Lýsing ákvað að stefna því aftur.  Lýsing valdi því lögfræðinginn til að flytja það, héraðsdómarann til að dæma það og málsástæðurnar.  Þrátt fyrir að lögmanninum, sem undirbjó málið fyrir Hæstarétti, hafi verið lagðar til fjölbreyttar upplýsingar og boðin alls konar aðstoð, þá nýtti hann sér ekkert af því (að ég best veit).  Daginn fyrir málflutning í Hæstarétti bað hann um fund, þar sem hann lagði fram fjölmörg skjöl með útreikningum.  Skjöl sem búið var að leggja fram í réttinum og eingöngu var hægt að gera munnlegar athugasemdir við í málflutningi.  Hann lagði ekki fram neina útreikninga sjálfur, fyrir utan að annar lögmaður flutti málið fyrir Hæstarétti og sá virtist enga þekkingu hafa á því.  Ekki er því hægt að segja með sönnu að hafðar hafi verið uppi varnir í málinu. 

Árni Páll lítur svo á að kvörtunin til ESA beinist fyrst og fremst að því sem fram hafi komið í dómum Hæstaréttar þegar hann dæmdi gengislánin ólögmæt. Niðurstaða Hæstaréttar hafi verið sett fram með skýrum hætti.  Lagasetning Alþingis í kjölfar hæstaréttardómanna hafi beinlínis byggt á því fordæmi sem Hæstiréttur hefði þar með sett um endurútreikning ólögmætra gengislána.

Þar sem túlkun Hæstaréttar á vaxtaútreikningi hefur aldrei komið fram með skýrum hætti, er ómögulegt að segja hver hún er.  Kvörtunin beinist að lögum nr. 151/2010, hún beinist að því að dómstólar hunsi neytendavernd (á því eru undantekningar sbr. dóm Héraðsdóms Reykjavíkur X-77/2011), að hvorki dómstólar né Alþingi hafi nýtt sér að leita álits ESA og EFTA-dómstólsins og hún beinist að afturvirkum áhrifum vaxtabreytinga.

Bara til að hafa það á hreinu, þá segir Hæstiréttur hvergi í úrskurði sínum í máli 471/2010 að reikna skuli vextina upp frá útgáfudegi láns.  Dómurinn segir heldur ekki að taka skuli upp greidda gjalddaga pg endurreikna þá.  Hann segir að lánin skuli taka vexti Seðlabanka Íslands, en sleppir því alveg að segja frá hvaða degi.  Í slíkum tilfellum hefur ákvörðunin alltaf gilt frá úrskurðardegi.  Rétt er að benda á, að nokkrir umsagnaraðilar um frumvarp að lögum nr. 151/2010 bentu á að afturvirkni vaxta gæti verið brot á eignarrétti lántaka samkvæmt stjórnarskrá.  Einn þessara aðila var lögfræðistofa sem gætir hagsmuna kröfuhafa!

Afleiðing þeirrar lagasetningar var að um 50 milljarðar voru fluttir frá fjármálafyrirtækjum til heimila í landinu

Þetta er svo mikið kjaftæði að ráðherra sem heldur þessu fram á ekkert erindi í ráðherrastól.  Staðreyndir sem ráðherrann lítur framhjá eru dómar Hæstaréttar frá 16. júní 2010.  Frá þeim tíma var óheimilt að reikna höfuðstól lánanna miðað við gengisbreytingar, samanber dóma Hæstaréttar 30/2011 og 31/2011.  Að fjármálafyrirtæki hafi hunsað niðurstöðu Hæstaréttar gerir það ekki að verkum að krafa þeirra lækki við lögin.  Hún lækkaði í júní.  Síðan má deila um hvort lögin hafi flutt 30 ma.kr. frá heimilunum til fjármálafyrirtækjanna eða staðfest lækkun sem Árni Páll les út úr dómum Hæstaréttar frá 16. september.  Vissulega fela lögin í sér einhverja bót fyrir lántaka, en hún felst í meðferð vanskila og dráttarvaxta annars vegar og hins vegar er ekki spurt um það hvaða lánsform lánssamningur fór á, hafi það innihaldið tilvísun í erlenda mynt, þá féll samningurinn undir lögin.

Ég hef fullan skilning á því að Árni Páll sé að bjarga eigin skinni eða reyna slá sig til riddara, en hvet hann til þess að hætta að ljúga að fólki.  Hann er ekki einu sinni að hagræða sannleikanum, heldur hreint og beint að segja ósatt.  Slík kann sjaldan góðri lukku að stýra.


mbl.is Löggjöfin tók mið af dómum Hæstaréttar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kvörtunin til ESA farin

Föstudaginn 15. apríl fóru 15 kg af pappír í þremur bögglum til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA).  Þessi kvörtun er búin að vera lengi í vinnslu eða frá því í ágúst á síðasta ári.  Sendi ég þá fyrirspurn til starfsmanns ESA um hvort slík kvörtun gæti verið tæk til umfjöllunar hjá stofnuninni.  Nokkrum dögum síðar fékk ég upphringingu frá starfsmanninum og þá hófst ferli, sem lauk með að kvörtunin fór út.

Að kvörtuninni standa hHagsmunasamtök heimilanna, Samtök lánþega og fjölmargir einstaklingar, sem skrifa undir hana í eigin nafni.  Reynt hefur verið að vanda eins vel til verksins og mögulegt hefur verið.  Kvörtunin sjálf er upp á hátt í 60 blaðsíður, en fylgigögn telja 500 blaðsíður.  Meðal fylgigagna eru fjölmargir endurútreikningar fjármálafyrirtækja, sem sýna svart á hvítu hversu fáránleg lög nr. 151/2010 eru eða eigum við að segja túlkun og framkvæmd fjármálafyrirtækjanna á þeim.

Ég ætla ekki á þessari stundu að fara dýpra ofan í rökstuðning okkar, sem að þessu standa, en get bara sagt að hann er ítarlegur og góður.  Hvort það dugi til að fá niðurstöðu frá ESA sem við teljum ásættanlega, verður að koma í ljós.  Það er með ESA eins og aðra opinbera úrskurðaraðila, að ómögulegt er að segja til um hver afstaða þeirra er þeim málum sem til þeirra er vísað.  Ég treysti á réttsýni þeirra og vonast til að niðurstaðan verði okkur hliðholl.


mbl.is Kvörtun lántakenda send til ESA
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Héraðsdómur leitar í smiðju Hæstaréttar - Misskilningur varðandi erlend lán og fjórfrelsið

Ég get nú ekki sagt að niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur í dag hafi komið mér á óvart.  Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 92/2010 frá 16. júní 2010 komst rétturinn að því að leigusamningur var lánasamningur, lánsamningurinn hafi verið í íslenskum krónum með gengisbindingu og gengisbindingin hafi verið ólögleg gengistrygging.  Héraðsdómur kemst að nánast samhljóða niðurstöðu í aðeins fleiri orðum.

Ég skil vel að fjármálafyrirtækin reyna allt til að fá klúðri sínu snúið sér í hag.  Þau buðu upp á ólöglega afurð sem er að valda þeim fjárhagstjóni.  En þegar maður les dóm Hæstaréttar í máli nr. 92/2010, þá er niðurstaða réttarins mjög skýr:

  • Kaupleigusamningur var dæmdur vera lánasamningur, þar sem "leigutaki" greiddi vexti og átti að eignast bifreiðina í lok "leigutímans".
  • Samningsupphæð var tilgreind í krónum.
  • "Leigugjald" tók breytingum í samræmi við dagsgengi tilgreindra erlendra gjaldmiðla.

Öll þessi atriði áttu við  í máli nr. X-532/2010 sem Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm um í dag.

Misskilningurinn um erlend lán og fjórfrelsið

Íslandsbanki lét reyna á í málflutningi sínum á fjórfrelsi EES samningsins um frjálst flæði fjármagns.  Hélt lögmaður bankans því fram að með banni við gengistryggingunni væri verið að hamla gegn frjálsu flæði fjármagns.  Þessu atriði hafnaði dómarinn alfarið með eftirfarandi rökstuðningi:

Með setningu laga nr. 38/2001 voru heimildir til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla felldar niður. Lögin standa því hins vegar ekki á nokkurn hátt í vegi að lán séu veitt hérlendis í erlendri mynt. Reifun sóknaraðila á þeim málatilbúnaði að framangreind niðurstaða sé í andstöðu við skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum um frelsi til fjármagnsflutninga, sbr. 40. samningsins, er alls ófullnægjandi. Þykir sóknaraðili ekki hafa fært fram fyrir því haldbær rök að ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001 séu andstæð ákvæðum EES-samningsins um frjálsa fjármagnsflutninga, sbr. 40. gr. samningsins. Verður því að hafna þeim málatilbúnaði sóknaraðila.

Ég held raunar að dómarinn hafi getað gengið ennþá lengra.

Eftir að hafa rætt þetta atriði við ansi marga aðila á undanförnum tveimur árum eða svo, þá held ég að Íslandsbanki sé að misskilja þetta ákvæði EES-samningsins.  Ákvæðinu um frjálst flæði fjármagns er ekki ætlað að verja hagsmuni innlendra lánveitenda til að lána hér á landi í erlendri mynt.  Tilgangurinn er að gera erlendum lánveitendum kleift að veita lán hér á landi í mynt síns lands eða einhverri annarri mynt, þ.m.t. í íslenskum krónum.  Frjálst flæði fjármagns snýst um að fjármagn geti flætt yfir landamæri.  Innan hvers ríkis hefur slíkt frelsi ríkt frá því að bankaviðskipti voru gefin frjáls.  Fjórfrelsið á að tryggja að Íslandsbanki (eða þess vegna ég sem einstaklingur) geti tekið lán hjá erlendu fjármálafyrirtæki og það fyrirtæki geti fengið lögmætt veð til tryggingar lánveitingunni.  Ekki má koma í veg fyrir að a) peningarnir fari á milli landa og b) að lánveitandi þinglýsi veðbandi á veðhæfa eign sem lántaki veitir sem tryggingu.  Stjórnvöld mega setja reglur um framkvæmd þessara hluta og þær mega meira að segja vera íþyngjandi, en ekki má koma í veg fyrir lánveitinguna og ekki má koma í veg fyrir veðsetninguna.  Hér á landi gilda þær reglur að ekki má þinglýsa erlendu skuldabréfi á íslenska eign, en í staðinn er þinglýst tryggingabréfi. 

Ég hef nokkrum sinnum vitnað í grein Gunnlaugs Kristinssonar, löggilts endurskoðanda, Almenningur skuldar ekki erlend lán, sem hann birti á Lúgu Eyjunnar í desember 2009.  Þar bendir Gunnlaugur á þá augljósu staðreynd að krónan sé lögeyrir þessa lands.  Skuldbindingar milli innlendra aðila séu því alltaf í krónum.  Lán milli tveggja innlendra aðila séu því íslensk lán og geti aldrei verið erlend lán.  Sé lánveitandinn aftur erlendur aðili, þá sé lánið erlent lán, sama í hvaða mynt það sé veitt.

Að þessu sögðu, þá er alveg sama hvernig menn snúa sér í þessu máli, að lán sem veitt er hér á landi er íslenskt lán.  Skuldbindingin er í íslenskum krónum, útborgunin er í íslenskum krónum og greiðslan er í íslenskum krónum.  Fari ég með 100 USD seðil og vilji leggja hann inn á gjaldeyrisreikning, þá kaupir bankinn af mér seðilinn á kaupgengi og selur mér síðan gjaldeyri til að leggja inn á reikning.  Þannig var þetta a.m.k. um árið, þegar ég átti gjaldeyrisreikning í USD hjá SPRON.  Þegar ég síðan vildi taka út af reikningnum, þá snerist ferlið við. 

Fyrir nokkrum árum var ég staddur í Bretlandi og þurfti að millifæra greiðslu vegna reiknings í dollurum í banka.  Ég hafði búið mig undir þetta með því að hafa með mér nóg af dollaraseðlum.  Ég fyllti út innlagnarseðil í bankanum og rétti gjaldkeranum peningana.  Þá hófst ferli sem kostaði mig 10% aukalega.  Fyrst var seðlunum skipt yfir í pund og síðan var pundunum aftur skipt yfir í dollara sem millifærðir voru inn á hinn bandaríska reikning.  Svona fara gjaldeyrisviðskipti fram.  Og þess vegna skiptir ekki máli í hvaða mynt íslenskur banki gefur út skuldabréf.  Hann getur aðeins greitt lánið út í íslenskum krónum, þó peningarnir endi inni á gjaldeyrisreikningi.  Það getur verið að hann sleppi lántakanum við þóknanir og pappírsvnnu sem felst í því að skipta fram og til baka, en í bókum bankans eru viðskiptin skráð í íslenskum krónum og það er það sem skiptir mestu máli. Frjálst flæði fjármagns hefur ekkert með það að gera hver lögeyrir landsins er eða í hvaða mynt viðskipti innanlands eru stunduð.


mbl.is Fjármögnunarleigusamningur ólöglegur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Upplýsingaleynd og almannahagsmunir

Forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, hefur lagt fram nýtt frumvarp til upplýsingalaga.  Markmið laganna er eins og segir í 1. gr. þeirra:

að tryggja gegnsæi í stjórnsýslu og við meðferð opinberra hagsmuna m.a. í þeim tilgangi að styrkja:

  1. upplýsingarétt og tjáningarfrelsi,
  2. möguleika almennings til þátttöku í lýðræðissamfélagi,
  3. aðhald fjölmiðla og almennings að stjórnvöldum,
  4. möguleika fjölmiðla til að miðla upplýsingum um opinber málefni,
  5. traust almennings á stjórnsýslunni.

Í 2. gr. er tilgreint að lögin nái til allrar starfsemi stjórnvalda og lög aðila sem eru að 75% hluta eða meira í eigu hins opinbera.  Þó eru takmarkanir varðandi lögaðilana.

Í 6. gr. eru talin upp gögn undanþegin upplýsingarétti:

Réttur almennings til aðgangs að gögnum tekur ekki til:

  1. fundargerða ríkisráðs og ríkisstjórnar, minnisgreina á ráðherrafundum og gagna sem tekin hafa verið saman fyrir slíka fundi,
  2. gagna sem útbúin eru af sveitarfélögum, samtökum þeirra eða stofnunum og varða sameiginlegan undirbúning, tillögugerð eða viðræður þessara aðila við ríkið um fjárhagsleg málefni sveitarfélaga,
  3. bréfaskipta við sérfróða aðila til afnota í dómsmáli eða við athugun á því hvort slíkt mál skuli höfðað,
  4. gagna sem ráðherra aflar frá sérfróðum aðilum vegna undirbúnings lagafrumvarpa,
  5. gagna sem tengjast málefnum starfsmanna, sbr. 7. gr.,
  6. vinnugagna, sbr. 8. gr.

Í frumvarpinu er þess getið að eftir 30 ár eigi síðan gögnin að berast Þjóðskjalasafni og í þeim tilgangi eru lagðar til breytingar á lögum um Þjóðskjalasafn.  Þar er það sem gamanið kárnar.  36. gr. frumvarpsins fjallar um fyrirhugaðar breytingar á öðrum lögum.   Í 2. tölulið er fjallað um lög um Þjóðskjalasafn Íslands.  Byrjað er í undirlið c. að segja að Þjóðskjalasafni Íslands sé skylt að veita almenningi aðgang að skjölunum þegar 30 ár eru liðin frá því að þau verða til enda gildi ekki takmarkanir 9. gr. a - c.  Þeim greinum er bætt við lög um Þjóðskjalasafn með frumvarpi forsætisráðherra og hljóða sem hér segir:

d.      Við lögin bætist ný grein, sem verður 9. gr. a, svohljóðandi:
Þjóðskjalasafni Íslands er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að skjölum þegar liðin eru áttatíu ár frá því að þau urðu til þótt þar komi fram upplýsingar er varða fjárhags- og einkamálefni einstaklinga, þar á meðal persónuupplýsingar sem teljast viðkvæmar í skilningi 8. tölul. 2. gr. laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, svo og upplýsingar um vernd vitna, brotaþola og annarra sem fjallað er um í skjölum hjá lögreglu, ákæruvaldi, dómstólum og stjórnvöldum sem hafa vald til að beita stjórnsýsluviðurlögum.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er óheimilt að veita aðgang að sjúkraskrám og öðrum skrám um heilsufarsupplýsingar nafngreindra manna fyrr en liðin eru 100 ár frá síðustu færslu í skrárnar.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er aðgangur að aðalmanntölum, prestsþjónustubókum og sóknarmanntölum heimill þegar liðin eru 50 ár frá því að upplýsingar voru færðar inn.

e.      Við lögin bætist ný grein, sem verður 9. gr. b, svohljóðandi:
Óheimilt er að veita aðgang að skjölum sem hafa að geyma upplýsingar sem snerta virka og mikilvæga hagsmuni einstaklings eða fyrirtækis um atvinnu-, framleiðslu- eða viðskiptaleyndarmál.

f.      Við lögin bætist ný grein, sem verður 9. gr. c, svohljóðandi:
Stjórnvald getur ákveðið við afhendingu skjala til Þjóðskjalasafns Íslands að skjal verði fyrst aðgengilegt þegar liðin eru 60 ár frá því að það varð til ef það þykir nauðsynlegt til að vernda virka almannahagsmuni um:
      a.     öryggi ríkisins eða varnarmál,
      b.     samskipti við önnur ríki eða fjölþjóðastofnanir,
      c.     bréfaskipti stjórnvalda við sérfróða menn til afnota í dómsmáli eða við athugun á því hvort slíkt mál skuli höfðað,
      d.     viðskipti stofnana og fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga, að því leyti sem þau eru í samkeppni við aðra.
g.      Við lögin bætist ný grein, sem verður 9. gr. d, svohljóðandi:
Þegar sérstaklega stendur á getur þjóðskjalavörður ákveðið að synja um aðgang að skjali sem er yngra en 110 ára, svo sem þegar það hefur að geyma upplýsingar um einkamálefni einstaklings sem enn er á lífi eða um almannahagsmuni er að ræða.

Það eru þessar heimildir þjóðskjalavarðar sem eru hvað mest umdeildar.  Látum vera að fólk njóti persónuverndar.  Ekki ætla ég að deila á það.  Spurning er aftur hvort gögn dómstóla eigi að vera lokuð í 80 ár.  Nú varðandi heilsufarsupplýsingarnar, þá þýðir þetta í reynd að þær eru lokaðar í 100 ár frá andláti, sem þýðir jafnframt að allir eftirlifendur við andlát eru komnir undir græna torfu (eða orðnir að dufti).  Ekki að nokkrum varði sjúkdómasaga annarra og því er þetta hið besta mál.

Auðvelt er að snúa út úr hinni nýju grein sem á að verða 9. gr. b.  Þar er talað um virka og mikilvæga hagsmuni um atvinnu-, framleiðslu- eða viðskiptaleyndarmál.  Hvenær eru hagsmunir virkir og hvenær eru þeir mikilvægir?  Hvernig haldast hagsmunir virkir og mikilvægir í yfir 30 ár?  Hér sé ég að rifist verði um að sjá upprunalegt starfsleyfi Fjarðaráls eftir um 23 ár eða svo, raforkusamninga Landsvirkjunar við stóriðjuver og fleira í þessum dúr.

f - liður er saga út af fyrir sig.  Hvernig dettur mönnum í hug á þeim tímum sem við lifum núna, að 30 ára gamlar upplýsingar séu svo leynilegar að það þurfi að framlengja leynd þeirra um önnur 30 ár.  Svona leyndarhyggja er út í hött.  Eðlilegast er að fella þennan f-lið út.  Breytingar á þjóðfélaginu eru svo hraðar, að almenningur áttar sig á því, að í langflestum tilfellum voru ákvarðanir teknar 30 árum fyrr barn síns tíma.

g - liður toppar samt líklegast allt:

Þegar sérstaklega stendur á getur þjóðskjalavörður ákveðið að synja um aðgang að skjali sem er yngra en 110 ára, svo sem þegar...um almannahagsmuni er að ræða.

Þetta er nú eiginlega tær snilld.  Hvernig getur 110 ára gamalt skjal snert almannahagsmuni?  Í skýringu með frumvarpsgreininni er ekkert vikið að almannahagsmunum, enda skil ég ekki hvernig eitthvað sem gerðist fyrir 30, 60, 80 eða hvað þá 110 árum getur varðað almannahagsmuni í dag.

Hugtakið "almannahagsmunir" er oftast notað, þegar verið er að réttlæta það að halda einhverju vafasömu leyndu.  Málið er, að varði eitthvað "almannahagsmuni", þá felur það í sér að gott er fyrir almenning að vita allt sem hægt er að vita um málefnið.  Notið menn "öryggissjónarmið" eða eitthvað í þá áttina, þá getur hugsanlega verið ástæða til að viðhalda leynd.  En hugtakið "almannahagsmunir" getur aldrei átt við.  Stjórnvöld hafa aftur ítrekað falið sig á bak við "almannahagsmuni" þegar verið er með leyndarhyggju og vafasamt baktjaldamakk.

Verði þessum leyndarhyggjugreinum bætt inn í lög um Þjóðskjalasafn Íslands, þá er alveg lágmark að settar verið mjög stífar skorður við beitingu þeirra.  Koma verður t.d. algjörlega í veg fyrir að stjórnvöld geti útilokað almenning frá vitneskju um atburði sem viðkomandi voru kannski þátttakendur í 30 árum eftir að þeir gerðust.  Í mínum huga ætti að gera allar slíkar upplýsingar opinberar í síðasta lagi 10 árum síðar, en ekki 30 árum, hvað þá 60 árum síðar.  Leyndarhyggja stjórnvalda gefur bara samsæriskenningum og gróusögum byr undir báða vængi.


Sjálfsuppfyllandi spádómar eða réttlát viðvörun matsfyrirtækja með lítið traust

Stóru matsfyrirtækin þrjú eru í sérkennilegri klemmu.  Á árunum fyrir fjármálakreppuna voru lykill í markaðssetningu fjármálafyrirtækja á skuldabréfavafningum sem síðar hleyptu fjármálakerppunni af stað.  Núna eru þau líklegast að reyna að bæta fyrir fyrri misgjörðir með því að koma með raunhæft mat á stöðunni í dag.  Klemman sem fyrirtækin eru í, er að þau hafa því miður glatað trúverðugleika sínum vegna þáttöku í svindlinu sem gekk á fyrir hrun og hitt er hvort neikvæðar breytingar þeirra, hvar sem er í heiminum, eigi ekki á hættu að verða að sjálfsuppfyllandi spádómum.

Árin 2008-10 birti ég nokkrar færslu hér, þar sem ég er mjög gagnrýninn á matsfyrirtækin. Hér eru nokkrar þeirra:

Hrunið - hlutar 4 og 5:  Basel II og matsfyrirtæki (16.2.2010)

Svindl matsfyrirtækjanna og Basel II reglurnar (25.10.2008)

Geta þeir ekki hætt þessari vitleysu?  (11.10.2008)

Sökudólgurinn fundinn!  Er það? (16.9.2008)

Matsfyrirtækin fá ákúru frá SEC og ESB  (17.7.2008)

Eru matsfyrirtækin traustsins verð? (3.4.2008)

Eru matsfyrirtækin traustsins verð - hluti 2 (23.4.2008)

Ég geri mér fulla grein fyrir að ekki stenst allt í þessum skrifum stenst nánari skoðun en ótrúlega margt gerir það og það sem meira er, að atriði sem byggð voru á hreinni rökvísi í upphafi hafa verið staðfest síðar.

Í stuttu máli eru staðreyndir málsins sem hér segir:

  • Matsfyrirtækin voru beggja vegna borðsins þegar kom að mati á ýmsum afurðum fjármálafyrirtækjanna fyrir hrun alþjóðlegra fjármálamarkaða.
  • Matsfyrirtækin gættu ekki að því að viðhalda hlutleysi milli mats og ráðgjafar.  Þannig aðstoðuðu þau fjármálafyrirtæki við að útbúa vafninga, sem ættu möguleika á að fá hátt mat.
  • Matsfyrirtækin virtu ekki kröfur um "kínverska veggi" milli ólíkrar starfsemi.  Þannig vann sami aðili að því að semja við fjármálafyrirtæki um verð á matsgerð og tók síðan þátt í matinu.
  • Matsfyrirtækin höfðu hag af því að meta afurðir fjármálafyrirtækja hátt, þar sem það jók líkurnar á því að fjármálafyrirtæki beindi meiri viðskiptum til matsfyrirtækisins.
  • Matsfyrirtækin tóku þátt í að útbúa fjármálaafurðir sem höfðu í sér innbyggða galla.  SEC fjallar sérstaklega um þetta í skýrslu sumarið 2008.
  • Matsfyrirtækin tóku þátt í ráðstefnum á vegum fjármálafyrirtækja, þar sem þau voru virk í markaðsstarfi vegna afurðanna sem þau voru að meta.
  • Matsfyrirtækin endurskoðuðu ekki fyrra mat sitt undirmálslánavafningum og gáfu út ný, þrátt fyrir að staðreyndir sýndu að áhættan tengd þeim væri allt önnur og meiri, en forsendur fjármálafyrirtækjanna sögðu til um.

Vafalaust væri hægt að telja fleira upp, en vil ljúka færslunni með tilvitnun í bloggfærslu mína frá 11.10.2008 þar sem ég fjalla m.a. skýrslu SEC frá júní 2008:

Í skýrslu SEC með frumniðurstöðum þá er að finna ólýsanlega fáránlega hluti. Hér eru tvö dæmi:

Tölvupóstur sendur 15. des. 2006 milli tveggja greinenda í sama fyrirtæki að lýsa CDO (collateralized debt obligations):

Let's hope we are all wealthy and retired by the time this house of cards falters.

Pælingar starfsmanns í tölvupósti frá 2004 um hvort viðskiptavinur fari annað ef greiningin sé óhagstæð:

I am trying to ascertain whether we can determine at this point if we will suffer any loss of business because of our decision and if so how much.

Ég fæ ekki betur séð en þetta þætti glæpsamlegt athæfi, ef þetta ætti sér stað innan verðbréfafyrirtækis.

Skýrslu SEC er að finna í heild á vefsíðu SEC og má nálgast hana með því að smella hér.

 

PS. Mæli með því að fólk skoði þátt BBC The Greed Game sem er að finna á færslu hjá Láru Hönnu Einarsdóttur frá 10.10.2008, frá þeim tíma þegar flóðbylgja bankahrunsins var að skella á okkur.


mbl.is Moody's lækkar einkunn írskra banka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 34
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 30
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband