Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2011

Tímamótadómur í Héraðsdómi Reykjavíkur: Afturvirk vaxtabreyting ekki viðurkennd

Eins og ég fjalla um í síðustu færslu (sjá Kynnir Arion banki sér ekki dóma Hæstaréttar? - Eru mörg gjaldþrot byggð á svona vitleysu?) þá fór Arion banki sneypuför í Hérðasdóm Reykjavíkur í dag.  Var bankinn gerður afturreka með kröfu um gjaldþrotaúrskurð, þar sem krafan var byggð á ólögmætri gengistryggingu.  Þó maður sé nú orðinn nokkuð sjóaður i að lesa dóma, þá yfirsást mér mikilvægasta atriði dómsins.  Í niðurstöðukafla dómsins er líkalegast ein stærsta setning í hagsmunabaráttu heimilanna fyrir réttlæti varðandi skuldamál, a.m.k. hina síðari mánuði.  Er hana að finna í eftirfarandi texta:

Sóknaraðili lagði fram við munnlegan flutning málsins yfirlit um skuld varnaraðila.  Skjalið er ekki skilmerkilegt í tengslum við þau álitamál sem hér eru uppi.  Sóknaraðili hélt því fram í málflutningi að vextir hefðu ekki verið greiddir að fullu.  Nánari skýring var ekki gefin á þessu.  Ekki er reifað skýrlega hvenær vanskil urðu á láninu.  Þá er ekki heimilt að reikna á ný afborgun af vöxtum og höfuðstól, ef hún hefur verið greidd að fullu á réttum gjalddaga eins og krafist var.  Er málið ekki reifað nægilega af hálfu sóknaraðila til að unnt sé að reikna skuld varnaraðila.  Verður að líta til þess að höfuðstóll nam 25.000.000 króna, en greiddar hafa verið samtals 4.435.659 krónur.  Skuldin er því sennilega ekki lægri en 20.564.341 króna.  Hversu mikið hærri hún með réttu er verður ekki reiknað út frá framlögðum gögnum.  Rétt væri að bæta við innheimtukostnaði, en þóknun sú sem sóknaraðili reiknar sér í gjaldþrotabeiðni er óhæfileg.

(Feitletrun er mín.)

Ekki vorum við fyrr búin að senda öll gögnin til ESA, en það kemur dómur á Íslandi sem staðfestir skoðun okkar um ólögmæti afturvirks vaxtareiknings.

Þá er ekki heimilt að reikna á ný afborgun af vöxtum og höfuðstól, ef hún hefur verið greidd að fullu á réttum gjalddaga eins og krafist var.

Tekið skal fram að þetta er ekki hluti af dómsorðum og gefur því ekkert fordæmi um það mun gerast.  Þetta er aftur sýnir að einhverjir dómarar efast um lögmæti afturvirks endurútreiknings vaxta.  Ég get ekki annað en dáðst af Jóni Finnbjörnssyni, héraðsdómara, en þetta er í annað sinn sem hann kemur með ákaflega áhugaverða niðurstöðu í dómsmáli.  Í fyrri dómnum sem féll 30. apríl 2010, kvað Jón mjög ákveðið á um að ekki eingöngu væri gengistrygging ólögmæt (með vísan í héraðsdóma Áslaugar Brynjólfsdóttur frá 12. febrúar 2010) heldur gekk lengra og sagði samningsvexti halda.  Hæstiréttur sniðgekk þá niðurstöðu þegar áfrýjunin var tekin fyrir og úrskurður kveðinn upp 16. júní í fyrra, sama dag og gengislánadómarnir féllu.

En núna segir Jón sem sagt að ekki sé heimilt að reikna á ný afborgun af vöxtum og höfuðstól, ef allt var gert eins og til var ætlast.  Bráðnauðsynlegt er að fá þetta atriði tekið fyrir í Hæstarétti, þar sem endurútreikningur fjármálafyrirtækjanna byggir á því að hægt sé að reikna vextina á ný.  Það sem Jón Finnbjörnsson er einfaldlega að segja er að afturvirkniákvæði laga Árna Páls Árnasonar nr. 151/2010, svo kölluð gengislánalög, standist ekki íslensk lög.  Því miður styður Jón þetta ekki með lagatilvísun og veikir það niðurstöðuna, en óhætt er að segja, að hann hendi risastórri sprengju inn í þessa umræðu.

Umfjöllun dómara í anda leiðbeininga Evrópudómstólsins um neytendavernd

Taka skal fram að Evrópudómstóllinn (ECJ) hefur ítrekað sagt að dómstólum beri að skoða atriði þar sem hugsanlega er verið að brjóta á réttindum neytenda, þó svo að þeirra sé ekki getið í skriflegri greinargerð eða málflutningi.  Raunar hefur snuðrað dómstóla fyrir að hafa ekki gætt réttinda neytenda, þegar fullt tilefni var til.  Þannig hefði, ef fylgt hefði verið fordæmi ECJ átt að vísa bílalánamálinu sem loksins felldi gengistrygginguna frá dómi í Reykjavík og vísa því til Héraðsdóms Norðurlands á Akureyri á þeirri forsendu að þar var varnarþing hins stefnda.  Reglan sé að sterkari aðili málsins eigi að sækja þann veikari heim.  Það sem meira er að í máli C-76/10 Pohotovost fékk slóvenskur dómari á baukinn fyrir að taka gilda ósanngjarna vaxtakröfu.


Kynnir Arion banki sér ekki dóma Hæstaréttar? - Eru mörg gjaldþrot byggð á svona vitleysu?

Í annað sinn á stuttum tíma lendir banki í því að vera sendur frá Héraðsdómi Reykjavíkur með skottið milli fótanna.  Síðast var það NBI hf., en núna er það Arion banki.  Málsástæðan er í bæði skiptin sú sama - "lögin eiga ekki við mig".

Í dómum Hæstaréttar nr. 30/2011 og 31/2011 snupraði rétturinn NBI hf. fyrir að halda sig hafinn fyrir lögin, þegar bankinn reyndi að halda fram gengistryggðri kröfu eins og dómar Hæstaréttar í málum 92/2010 og 153/2010 frá 16. júní 2010 um ólögmæti gengistryggingar hafi aldrei fallið.  Til að gera málið ennþá sneypulegra fyrir NBI hf. þá var útivist í málunum, þ.e. ekki var tekið til varnar í munnlegum málflutning, þó greinargerð hafi verið send inn. 

Maður hefði haldið að lögmaður Arion banka kynnti sér dóma Hæstaréttar og hagaði málflutningi sínum eftir því.  Kannski fær hann bara svo góða þóknun frá bankanum fyrir að flytja mál, að hann gerir þetta þess vegna, honum finnst svona gaman að eyða tíma réttarins eða hefur ekkert annað að gera.  Svona að öllu háði slepptu, þá var líklegast verið að reyna á lánsformið, en hefði ekki mátt gera það með öðrum hætti.

Fjármálafyrirtæki eru á fullu að fá dómstóla til að segja fyrirtækjunum hvaða lánsform eru með ólöglega gengistryggingu og hver ekki.  Þegar dómar Hæstaréttar féllu 16. júní sl., þá man ég að Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, stakk upp á því að kallaður væri saman nokkurs konar gerðardómur, sem fengi það hlutverk að vinna þetta verk.  Þannig að í staðinn fyrir að eyða dýrmætum tíma dómstóla í að skoða öll allt of mörg lánaform, þá væru formin flokkuð og eingöngu þau sem teljast á gráu svæði færu fyrir dóm.  Kannski var það gert og þetta er eitt af þessum formum, sem vafi lék á um, en einhvern veginn hljómar það eins og vafinn hafi ekki verið mikill.

Hvenær verða vitleysur fortíðarinnar leiðréttar?

Hin hliðin á þessu og allri þessari lönguvitleysu með ólögmætu gengistrygginguna er, hvað ætli hafi farið fram mörg fjárnám, vörslusviptingar, árangurslaus fjárnám, uppboð, árangurslaus uppboð og gjaldþrotaskipti vegna innistæðulausra krafna þar sem mál voru byggð á ólögmætri gengistryggingu?  Hvað ætli það séu margir dómar, úrskurðir, pappírar í hirslum dómstóla og sýslumanna um allt land sem byggja á ólögmætri gengistryggingu?

Ég geri ráð fyrir að einhver fjöldi einstaklinga og fyrirtækja hafi verið lýst gjaldþrota vegna krafna, sem dómstólar senda núna með umvöndunum aftur til föðurhúsanna.  Fólk hefur orðið fyrir tjóni vegna þessa og líf hafa týnst.  Hver er bótaskylda fjármálafyrirtækjanna? Eru þau byrjuð að fara í gegn um skjalasöfn sín til að finna tilfelli þar sem þau beittu fólk og fyrirtæki rangindum?

Um daginn var ég á kynningu hjá NBI hf., þar sem bankinn var að kynna slagorðið "Þinn banki" eða hvað það nú var og samfélagssátt.  Þetta var um svipað leyti og Hæstiréttur vandaði um fyrir honum að vera að sóa tíma dómskerfsins í tilhæfulausar dómskröfur.  Mér finnst að NBI hf. kannski átt að segja lögfræðisviði sínu og lögmenn frá þessum samfélagsgildum sínum.  Að ég tali nú ekki um nýju siðareglurnar, ekki það að ég kannist við að hinar gömlu hafi verið til.

Er til of mikils mælst að fjármálafyrirtækin fari sér hægt í að rústa lífi fólks og fyrirtækja meðan óvissunni er eytt?   Er til of mikils mælst að fjármálafyrirtækin bæti fyrir tjónið sem þau hafa valdið?  Er til of mikils mælst að fjármálafyrirtækin biðjist afsökunar á offorsi sínu og misgjörðum? Er til of mikils mælst að fjármálafyrirtækin sýni auðmýkt?

Aðeins þrír sparisjóðir á landsbyggðinni stóðu allt af sér.  Geta þeirra til að taka fólk og fyrirtæki í viðskipti hjá sér er takmörkuð. Hvort sem okkur almenningi og fyrirtækjum í landinu líkar það betur eða verr, þá getum neyðist stór hluti almennings og fyrirtækja að leita til að sprengja þeirra fjármálafyrirtækja sem orsökuðu hrunið.  Það verður því að nást sátt á milli aðila, en hún næst ekki ef fyrirtækin ætla að haga sér eins og þeim komi fortíðin ekki við.


mbl.is Kröfu um gjaldþrotaskipti hafnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ruglið í kringum endurútreikninga gengistryggðra lána - Kvörtun á leið til ESA

Endurútreikningar fyrrum gengistryggðra lána hafa verið nokkuð í sviðsljósinu á Bylgjunni þessa vikuna.  Heimir og Kolla í þættinum Í bítið hafa fengið til sín hvern gestinn á fætur öðrum til að ræða þessi mál.  Sjálfur hef ég nokkuð ritað um þetta efni, eins og lesendum hafa vafalaust tekið eftir. 

Nú er liðinn sá tími sem fjármálafyrirtækin fengu til að ganga frá endurútreikningunum.  Flest hafa sent útreikningana til viðskiptavina sinna, þó enn þá séu brögð á því að svo sé ekki.  Yfirleitt fylgir upplýsingunum skilaboð um að lántaki tilgreini hvaða leið hann velji, þ.a. verðtryggt eða óverðtryggt lán, jafnar afborganir eða jafnar greiðslur, o.s.frv.  Nokkur fjármálafyrirtæki tilkynna svo að verði ekki valið fyrir tiltekna dagsetningu, þá velji það sjálfkrafa þá leið sem gefur lægstan höfuðstól miðað við endurútreikninginn.

Ég hef verið spurður af mörgum hvað eigi að gera varðandi þessa endurútreikninga.  Fyrst vil ég nefna að fjármálafyrirtækin eiga að senda upplýsingar um útreikninga, þannig að lántakinn geti sannreynt aðferðir fyrirtækisins.  Tölur á blaði (eða í excel-skjali) með engum skýringum um hvernig einstakar tölur eru fengnar eru eins og sjálfval í Lottó.  Handahófsvaldar tölur sem hafa enga þýðingu fyrir þann sem fær þær í hendur nema þær leiði til þess að stóri vinningurinn falli viðkomandi í skaut.  Líklegast er þó að peningurinn renni til einhverra annarra.  Á vef Hagsmunasamtaka heimilanna er skapalón að bréfi sem hægt er að senda vilji menn hafna útreikningunum.  Ég hvet fólk til að nýta sér það.  Ég hvet fólk einnig til að bera við aðildarskorti nýju bankanna vegna þess tíma sem lánin voru í eigu gömlu bankanna.  Loks hvet ég fólk til að framkvæma sína eigin útreikninga, senda bankanum og bjóða upp á samning í samræmi við þá útreikninga.  

Rétt er að benda lántökum á, að nýr samningur kemst ekki á með einhliða tilkynningu fjármálafyrirtækis.  Meðan lántaki hefur ekki skrifað undir og undirskriftin vottuð af bærum aðilum, þá er ekki kominn á samningur.  Svo einfalt er það.  Dómar Hæstaréttar í málum 30/2011 og 31/2011 segja að fjármálafyrirtækið getur ekki haldið áfram að innheimta gengistryggðan höfuðstól, eins og gengislánadómarnir frá 16. júní 2010 (93/2010 og 152/2010) hafi ekki fallið.  Það eina sem fjármálafyrirtækið getur gert er að innheimta lánið eins og það hafi verið án gengisviðmiðunar frá upphafi og með samningsvöxtum.

Ég er í hópi fólks sem hefur undirbúið kvörtun til ESA vegna setningar laga 151/2010 og túlkana fjármálafyrirtækjanna og dómstóla á úrskurði Hæstaréttar í dómi 471/2010 um vexti áður gengistryggðs bílaláns.  Kvörtunin sjálf verður kynnt af Hagsmunasamtökum heimilanna og Samtökum lánþegar, þegar hún hefur verið send sem verður á allra næstum dögum.  Kvörtunin er upp á yfir 50 blaðsíður og fylgiskjöl bæta svo um 500 blaðsíðum við.  Að mínu mati hefur verið vandað vel til verksins, sem allt er unnið í sjálfboðavinnu.

Umsagnir um gengislánafrumvarpið

Margt er athugavert við lög 151/2010 sem samþykkt voru á Alþingi 22. desember sl.  Nægir bara að líta til fjölmargra óvenju harðorðra umsagna um frumvarpið (mál 206 á 139. löggjafarþingi), þegar það var til meðferðar í efnahags- og skattanefnd.  Því miður skorti verulegu á sjálfstæði Alþingis í því máli og lét nefndin greinilega undan vilja ráðherra og fjármálafyrirtækjanna í þeim efnum, en gaf lítið fyrir vel ígrunduð rök aðila sem vöruðu við því að í frumvarpinu fælist hugsanlegt brot á stjórnarskrárvörðum eignarrétti skuldara. Vil ég m.a vekja athygli á umsögn frá LOGOS lögmannsþjónustu, en fyrirtækið er í hópi kröfuhafa til ráðgjafar.  Í umsögninni segir: 

Hins vegar er frumvarpið ekki nægilega skýrt um lögmæti gengistryggðra lánssamninga lögaðila í kjölfar dóma Hæstaréttar, um hvort ákvæði 1. gr. frumvarpsins gildi afturvirkt, um hvernig verði greint milli einstaklinga og lögaðila, og um hver séu mörk milli stöðu einstaklinga og lögaðila vegna samfærilegra lánssamninga, t.d. svokallaðra bílalána.  Samkvæmt greinargerð með frumvarpinu er það sett fram til að draga úr óvissu og þörf á miklum fjölda dómsmála.  Verði frumvarpið að lögum er ólíklegt að það verði til að setja niður deilur.  Nær öruggt megi telja að það muni leiða til fjölda dómsmála milli fjármálastofnana og skuldara til að fá skorið úr óvissu, sem fyrirsjáanlegt er að muni taka langan tíma.  Slík dómsmál verði kostnaðar- og orkufrek fyrir alla aðila svo og stofnanir samfélagsins sem þurfi að skýra réttarástandið með fullnægjandi hætti.  Þó réttur löggjafans sé fyrir hendi til að bregðast við réttaróvissu, auk þess að koma á og viðhalda efnahagslegum stöðugleika, verður það best gert með víðtækari sátt allra aðila, þ.á m. þeirra sem eiga fjárhagslegra hagsmuna að gæta í nýju bönkunum, og þa´bæði með hagsmuni einstaklinga og lögaðila að leiðarljósi.

(Feitletranir eru mínar)

LOGOS varar sem sagt við því að frumvarpið leiði til sátta og hefur áhyggjur af afturvirkni.  Þá hvetur fyrirtækið til þess að leitað verði víðtækari sáttar allra aðila.  Ekki var nú hlustað mikið á þessi varnaðarorð, sem er furðulegt í ljósi þess að þetta er umsögn frá ráðgjöfum kröfuhafa gömlu bankanna.

Ása Ólafsdóttir, lektor við lagadeild Háskóla Íslands með samningsrétt sem sérsvið og aðstoðarmaður Rögnu Árnadóttur meðan hún var dómsmálaráðherra, segir m.a. í sinni umsögn:

..Nú er komið að uppgjöri gengislánasamninga.  Þar er því uppi spurning um hver eigi að bera halla af því við uppgjörið, að neytendum var boðið upp á lánasamninga þar sem í voru ákvæði um ógilda verðtryggingu.  Þar sem gerð er rík krafa til fjármálafyrirtækja um sérfræðiþekkingu og um vandvirkni í viðskiptum við lántakendur, auk þess sem neytendur voru í góðri trú um að þeir hefðu greitt réttilega af lánum sínum, taldi ég að komast mætti að þeirri niðurstöðu að fjármálafyrirtæki ættu hér að standa við og efna þær tilkynningar sem þau hefðu gefið út við framkvæmd lánasamninganna, allt fram til þess að gengistryggingin var dæmd ólögmæt.

Við uppgjör lánasamninga milli neytenda og lánveitenda, þ.e.a.s. ef neytandi hefði greitt af lánum sínum samkvæmt ákvæðum upphaflegs lánasamnings, mætti því a.m.k. ekki líta svo á að neytendur hefðu vangreitt hluta afborgana...

PricewaterhouseCoopers Legal (PwC) sendi líka inn umsögn og er hún ákaflega áhugaverð, svo ekki verði meira sagt.  Þar sem fjallað er almennt um frumvarpið segir m.a:

Hins vegar telur PwC Legal að gallar frumvarpsins séu mun fleiri en kostir þess.  Það er mat okkar að frumvarpið geti að miklu leyti brotið gegn ákvæðum stjórnarskrár, þá aðallega reglum um eignarrétt neytenda og fyrirtækja.  Þá er einnig líklegt að meginefni frumvarpsins feli í sér íþyngjandi afturvirka lagasetningu.  Telur PcW Legal að neytendur hafi ríkari neytendavernd með stoð í gildandi löggjöf en með nýja frumvarpinu..

(Feitletranir eru mínar.)

Í athugasemdum við einstakar greinar frumvarpsins verður gagnrýnin enn þá harðar.  Hér er hluti umsagnar um 2. gr. frumvarpsins (breytingu á 1. mgr. 18. gr. vxtl., þ.e. að samningur skuli bera seðlabankavexti):

PwC Legal telur ákvæðið samræmist ekki neytendasjónarmiðum sem fram koma m.a. í 1. mgr. 36. gr. b. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og í 2. og 3. mgr. 36. gr. c. sömu laga.  Ákvæðið getur verið mjög íþyngjandi fyrir neytendur.

Í athugasemd við 2. gr. (breyting á 5. mgr. 18. gr. vaxtalaga, um að "vangreiðsla" bætist á höfuðstól) segir m.a.:

..Er það álit umsagnaraðila að þessir útreikningar brjóti í bága við gildandi meginreglu kröfuréttar.  Sú meginregla gildir í kröfurétti að skuldari á ekki að greiða vexti eða aðrar vanskilagreiðslur af kröfu ef honum er ekki um að kenna að rétt greiðsla fór ekki fram.  Þessi meginregla er meðal annars lögfest í 7. gr. vxtl. hvað varðar dráttarvexti...

..Það er skoðun PwC Legal að löggjafinn ætti að kveða skýrt á um þá meginreglu i ákvæðinu að ekki skuli reiknast nokkurs konar vextir á van- og ofgreiðslur í þessum tilvikum heldur miða við það þegar [...] að uppgjör fór fram á samningi eða að annar aðili samningssambandsins, lántaki eða lánveitandi, sannarlega krafði gagnaðila sinn að samningnum um rétta greiðslu.

Í athugasemdum við 2. gr. (breyting á ákvæði 6. mgr. 18. gr. vaxtalaga) hnýtir PwC Legal í höfunda frumvarpsins:

..PwC Legal bendir á að orðalagið "ávinningur" sé mjög óheppilegt en umræddur ávinningur sem talað er um eru fjárhæðir sem fjármálafyrirtækin höfðu af skuldara með ólögmætum hætti.

Og loks vil ég vitna í athugasemdir við 2. gr. (breytingar á ákvæði 8., 9. og 10. mgr. 18. gr. vaxtalaga, um aðila- eða skuldaraskipti):

..Þessi regla getur verið mjög íþyngjandi og telur PwC Legal að reglan sé mjög líklega brot á 72. gr. stjórnarskrárinnar og reglum um bann við afturvirkni sem meðal annars eiga sér stoð í eignarréttarákvæði mannréttindasáttmála Evrópu..

Umræða undanfarinna daga og vikna eru nánast endurómun af umsögn þessara tveggja aðila, en það er fleira sem ég vil benda á.

Fyrst vil ég byrja á 8. - 10. mgr. sem vísað er til hér beint fyrir ofan um aðila- eða skuldaraskipti.  Þessi grein fór sýnist mér óbreytt inn í lögin.  Í henni er hvergi minnst á aðilaskipti á kröfuhafahliðinni, en í mörgum tilfellum hafa þau átt sér stað, þ.e. lán var gefið út af Kaupþingi, fluttist til Seðlabankans, var keypt af skilanefnd/slitastjórn og fært inn í Arion banka; lán var gefið út af Glitni og fært yfir í Íslandsbanka; lán var gefið út af Landsbanka Íslands og flutt yfir í NBI hf.; og lán var gefið út af BYR og flutt yfir í Byr sparisjóð.  Þar sem ekki minnst á hvað gerist við þessi aðilaskipti, þá hljóta ákvæði laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup eiga þar við, en í 81. gr. laganna segir:

Kaup á kröfu sem ber vexti ná til áfallinna vaxta sem ekki eru gjaldfallnir á umsömdum afhendingartíma. Greiða skal jafnvirði vaxtanna sem viðbót við kaupverðið, enda hafi krafan ekki verið seld sem óvís krafa.

Samkvæmt þessu þarf nýr eigandi kröfu að greiða fyrir áfallna en ógreidda vexti, þ.e. vexti sem fallið hafa á kröfu frá síðasta gjalddaga eða rekja má til vanskil sem þá er vitað um, við uppgjör.  Aðra vexti á hann ekki á skuldara nema vegna síðari gjalddaga.

Þessar þrjár umsagnir, sem eru frá þremur mjög ólíkum aðilum, eru nokkuð samhljóða um margt.  Efnahags- og skattanefnd kaus að hunsa þær alveg vegna þess að hún var að fylgja fyrirmælum frá ráðherra.  (Fyrirmælin komu kannski ekki beinum orðum, en formenn nefnda hafa sínar leiðir til að sækja línuna.)

Eina umsögn vil ég nefna til viðbótar.  Ekki vegna þess að hún sé svo gagnrýnin á frumvarpið.  Nei, hún talar eiginleg mest lítið um það.  Um er að ræða umsögn Viðskiptaráðs Íslands, en í því taka samtöku á hlið atvinnurekenda í fyrsta sinn, svo ég viti til, undir þann málflutning Hagsmunasamtaka heimilanna síðustu rúmlega tvö ár og það sem ég hef ítrekað fjallað um hér, að forsend hagvaxtar er að lausn fáist á skuldavanda heimilanna.  Eða eins og segir:

Skuldaúrlausn heimila er ein forsenda þess að efla eftirspurn í hagkerfinu og styðja við fyrirtæki landsins enda eru hagsmunir heimila samtvinnaðir hagsmunum atvinnulífs með  margvíslegum hætti.  Atvinnulífið er nauðsynleg forsenda atvinnusköpunar og aukinna lífskjara og heimilin eru undirstaða þeirrar verðmætasköpunar sem gerir fyrirtækjunum kleift að halda uppi hagvexti.  Eftir því sem lífskjör heimila batna og tekjur fyrirtækja aukast, þeim mun betur gengur að standa undir sameiginlegri þjónustu og velferðarkerfi sem Íslendingar sækjast eftir.

Heimilli og fyrirtæki eru í sameiningu uppspretta þeirrar eftirspurnar sem er lífæð hagkerfisins.  Skuldavandi eftirspurnar dregur þrótt úr hagkerfinu og veikir þann efnahagslega bata sem er nauðsynlegur nú og á næstu  misserum.  Hagvöxtur er allra hagur og markvissum skrefum stjórnvalda og fjármálakerfisins sem miða að því að draga úr óvissu sem enn er til staðar um meðferð skulda heimila og fyrirtækja má leysa mörg af þeim afleiddu vandamálum sem nú er glímt við.  Ekki er nægilegt að taka einungis á skuldavanda fyrirtækja eða heimila.  Taka verður á vanda beggja stoða eftirspurnarinnar.

Aðildarskortur nýju fyrirtækjanna

Arion banki bar fyrir til aðildarskorti í máli Sjómannafélags Íslands gegn bankanum (sjá mál Héraðsdóms Reykjavíkur nr. E-5215/2010).  Héraðsdómur tók undir þann málflutning.  Ég tel að þetta gildi í báðar áttir og því sé nýi bankinn aðeins aðili að vaxtakröfum vegna þess tíma sem lánið var í eigu bankans.  Vilji gamli bankinn heimta af mér vexti vegna tímans sem hann var starfræktur, þá er honum velkomið að setja fram kröfu um slíkt.  Ég vil aftur benda honum á, að samkvæmt bókum bankans og kvittunum sem hann hefur sent mér, þá stóð ég skil við hann á öllum gjalddagagreiðslum í samræmi við heimsendar tilkynningar, þó vissulega hafi það komið fyrir að ekki væri greitt nákvæmlega á eindaga.

Óskiljanleg krafa um afturvirkni

Mér er ómögulegt að skilja þá túlkun fjármálafyrirtækjanna á dómum Hæstaréttar, að hægt sé að senda mér rukkun vegna gjalddagagreiðslu sem ég framkvæmdi í júní 2004.  Ég gerði ekki ágreining um þá greiðslu og bankinn sendi mér kvittun fyrir henni.  Sama gildir um greiðsluna sem framkvæmd var í september 2008 og allar þar á milli.  Í tilfelli þess láns, sem ég vitna til, þá eru upphæðirnar ekki ýkja háar, en munurinn á útreikningum mínum og bankans telst þó í hundrað þúsund köllum.  Varðandi annað lán, þá erum við að tala um nokkrar milljónir.  Samkvæmt umsögn Ásu Ólafsdóttur, sem er vel að merkja sérfræðingur í samningarétti, þá deilum við túlkun á þessu atriði.

Kvörtun til ESA

Kvörtunin til ESA verður ekki stöðvuð úr þessu.  Þar mun hún vonandi fá sína umfjöllun og bráðabirgðaálit stofnunarinnar mun líklegast liggja fyrir innan tveggja til þriggja mánaða.  Gæti þó dregist.  Alltaf eru einhverjar líkur á að ESA hafni því að taka hana til meðferðar, en samkvæmt samtali mínu við starfsmann ESA bæði sl. sumar og á haustmánuðum, þá tel ég ekki miklar líkur á því.  Af hverju hefur kvörtunin ekki farið fyrr spyrja einhverjir.  Ástæðan er einfaldlega sú að það var alltaf eitthvað í gangi sem gat gert kvörtunina óþarfa.  Fyrst var það biðin eftir dómi Hæstaréttar, þá boðaði ráðherra frumvarp, endurútreikningar bílalána voru að koma, gerð var krafa um að leitað yrði álits EFTA-dómstólsins í nokkrum málum, frumvarpið var lagt fram og gert að lögum, beðið var ákvörðunar Hæstaréttar um að leita til EFTA-dómstólsins og loks var beðið útreikninga fjármálafyrirtækjanna.  Þegar ljóst var að hvergi var virtur réttur neytenda, þá fór í gang vinna við kvörtunina og verður hún, eins og áður segir, kynnt af fulltrúum Hagsmunasamtaka heimilanna og Samtaka lánþega á næstu dögum.


Áminningarbréf ESA - Leggjum hausinn í bleyti til að finna rök okkur til varnar

Ég hef fengið sterk viðbrögð við færslunni minni Um hvað snýst áminningarbréf ESA og hver er vörn/sekt stjórnvalda? og sitt sýnist hverjum.  Mig langar að búa hér til vettvang, þar sem fólk sem hefur kafað dýpra ofan í þetta efni eða bara hefur góðar hugmyndir um hvernig verjast má spurningum ESA, getur komið með málefnaleg rök.  Hér fyrir neðan hef ég stillt upp hinum fjórum megin atriðum í bréfi ESA og síðan helstu rökum sem komið hafa fram (og ég hef vitneskju um) sem vörn fyrir málstað Íslands.  Eftir því sem rökunum fjölgar í athugasemdum mun ég færa þau á réttan stað í færslunni.  Þannig mun, smátt og smátt, byggjast upp vonandi góður grunnur af röksemdum.  Hvort lögfræðingarnir, sem Jóhanna og Steingrímur ætla að setja í að semja svarið, vilja eða geta notað afraksturinn verður síðan bara að koma í ljós.

Fyrst er hér tengill að áminningarbréf ESA, svo þeir sem vilja geti skoðað það í heild.  Mikilvægt er að þeir sem vilja leggja fram efni vegna "varnarinnar" gæti að því að tekið sé á réttum álitaefnum og treysti því ekki alfarið á mína túlkun.

Álitaefni 1:   4.1 Obligation of result under Article 7 of Directive 94/19/EC

Rök ESA

ESA tilgreinir að tilskipun 94/19/EC leggi eftirfarandi skyldur (obligations of result) á EFTA ríki:

- to ensure that a deposit guarantee scheme is set up that is capable of guaranteeing the deposits of depositors up to the amount laid down in Article 7(1) of the Directive, and

- to ensure that duly verified claims by depositors of unavailable deposits are paid within the deadline laid down in Article 10 of the Directive.

Sem sagt stjórnvöld eiga tryggja tilvist innstæðutryggingakerfis sem er fært um að tryggja innstæður innstæðueigenda upp að því marki sem tilgreint er í grein 7 (1) í tilskipuninni og sjá til þess að viðurkenndar kröfur innstæðueigenda sem eiga óaðgengilegar innstæður fái þær greiddar út innan þeirra tímamarka sem getið er í grein 10.

Er það mat ESA að þessar skyldur hafi ekki verið uppfylltar af Tryggingasjóði innstæðueigenda og fjárfesta (TIF) og raunar ekki verið gerð tilraun til þess heldur eða eins og segir í bréfi ESA:

Therefore, as neither the Fund nor the Government have ensured payment to those depositors in the Netherlands and the United Kingdom whose deposits became unavailable within the meaning of Directive, Iceland has failed to comply with its obligation under Article 7. The argument that the obligation in Article 7 is only imposed on the deposit guarantee schemes is addressed below.

Í framhaldi af þessu skoðar ESA 24. mgr. aðfararorða tilskipunarinnar þar sem segir (á íslensku):

Tilskipun þessi getur ekki gert aðildarríkin eða lögbær yfirvöld þeirra ábyrg gagnvart innstæðueigendum ef þau hafa séð til þess að koma á einu eða fleiri kerfum viðurkenndum af stjórnvöldum sem ábyrgjast innlán eða lánastofnanirnar sjálfar og tryggja að innstæðueigendur fái bætur og tryggingu í samræmi við skilmálana í þessari tilskipun.

og vitnar til úrskurðar Evrópudómstólsins í máli C-222/02 Paul and others því til staðfestingar.  En ESA heldur áfram:

As a matter of fact, neither the Fund nor the Icelandic state ensured that the depositors in the Netherlands and the United Kingdom whose deposits were unavailable received any compensation from the Fund.

Eftir frekari röksemdarfærslu kemst ESA síðan að eftirfarandi niðurstöðu:

Even if that were not the case that the Fund is part of the Icelandic State and is considered to be an independent entity, the State remains under the obligation to ensure full compliance with the Directive and proper compensation of depositors under its terms.

Rök til varnar

Í fyrsta lagi viðurkennir ESA, að samningaviðræður hafi átt sér stað milli TIF og íslenskra stjórnvalda annars vegar og breska Financial Services Compesation Scheme (FSCS), breskar stjórnvalda, hollenska seðlabankans (DNB) og hollenskra stjórnvalda hins vegar.  Þeim viðræðum hafi  lokið með samkomulagi um fyrirkomulag endurgreiðslu TIF til FSCS og DNB.  Færa má góð og gild rök fyrir því að með fyrsta Icesave samningi þjóðanna hafi TIF uppfyllt kröfur 7. greinar (1) og 10. greinar um útgreiðslu til innstæðueigenda.  Bæði FSCS og DNB höfðu gripið til þess ráðs að greiða innstæðueigendum út áður en frestur samkvæmt 10. grein tilskipunar 94/19/EC rann út.  TIF fékk því ekki tækifæri til að inna greiðslurnar af hendi, gjörsamlega óháð því hvort það sjóðurinn hefði fjárhagslega getu til þess eða ekki.  Eða eins og ég segi í annarri færslu:

TIF fékk frest til útgreiðslu í samræmi við lög og tilskipunina.  Sá frestur var framlengdur tvisvar.  Áður en til þess kom að hann rynni út, voru FSCS og DNB búin að greiða út til innstæðueigenda.  Það getur því ekki staðist að TIF hafi átt að greiða til innstæðueigenda sem áður höfðu fengið greitt frá sjóðum í sínum löndum.   Með Icesave I samningnum var samið um að FSCS og DNB veittu TIF lán til greiðslu á sínum hluta.  Tæknilega séð hafði TIF því uppfyllt skyldur sínar áður en lokafresturinn til að gera það rann út.  Sá samningur var samþykktur á Alþingi með fyrirvörum, sem síðar kom í ljós að Bretar og Hollendingar vildu ekki fallast á.  Nýr samningur komst á og var hann í grunninn byggður á sömu hugsun, þ.e. FSCS og DNB lánuðu TIF fyrir greiðslunni.  Aftur var því engin ástæða fyrir TIF að ætla að ekki hafi verið staðið við ákvæði tilskipunar 94/19/EC.

Í öðru lagi höfðu bresk stjórnvöld fryst eigur þrotabús Landsbanka Íslands, þannig að bankinn hafði ekki færi á að greiða innstæðueigendum (eða TIF) á sama hátt og Kaupþing og Glitnir gerðu gagnvart innstæðueigendum á KaupthingEgde og Save&Save. 

 

Álitaefni 2:  4.2  Directive 94/ 19/EC and exceptional circumstances

Rök ESA

ESA byrjar á því að vísa í bréf íslenskra stjórnvalda frá 23. mars 2010, þar sem þau benda á að könnun framkvæmdarstjórnar ESB hafði leitt í ljós, að í engu landi hefðu tryggingasjóðir getu til að standa undir nema í mesta lagi hruni miðlungsstórs fjármálafyrirtækis.  Sjóðunum sé því ekki ætlað að standa undir því að innstæður séu ekki aðgengilegar vegna meiriháttar eða alsherjar bankakreppu.  Þessu er ESA ósammála og vísar til dóms Evrópudómstólsins frá 1990 (mál C-19/90 og C-20/90).  Þar hafi dómstóllinn komist það þeirri niðurstöðu að óvanalegar aðstæður leystu ríki ekki undan því að uppfylla ákvæði tilskipana.  ESA rökstyður svar sitt jafnframt með því að íslensk stjórnvöld hafi framlengt frest TIF í samræmi við tilskipunina og þar með í reynd viðurkennt að ákvæði hennar ættu ennþá við.  Þá bendir ESA á að aldrei hafi verið gefin út almenn yfirlýsing um að innstæður yrðu ekki aðgengilegar á Íslandi.  Aðgerðir stjórnvalda (m.a. neyðarlögin) komu í veg fyrir að slíkt ástand skapaðist.  Eða eins og segir í bréfi ESA:

Consequently, "exceptional circumstances" do not release the Icelandic Government from its responsibilities under Directive 94/19/EC and in particular from its obligation to ensure payments are made to depositors under Article 7(1) of that Directive. Moreover, the Authority notes that the Court of Justice has rejected that Member States may plead financial difficulties to justify non-compliance with the obligation laid down in Community directives.

Rök til varnar

Hugsanlega þarf ekki að bera fyrir sig "exceptional circumstances", ef ESA fellst á rökstuðning vegna annarra álitamála.  Fallist ESA á að TIF hafi uppfyllt skyldur sínar, samanber rök við fyrsta álitamál, þá hefur þetta atriði enga þýðingu.

Álitamál 3:   4.3 Directive 94/19/EC and the issue of payment up to the amount available in the fund

Rök ESA

ESA byrjar á því að greina frá þeim skilningi íslenskra stjórnvalda að með setningu laga nr. 98/1999 hafi það uppfyllt kröfur tilskipunarinnar og beri því ekki frekari skyldur.  ESA nefnir síðan aftur að "exceptional circumstances" lyfti ekki greiðsluskyldu og segir síðan að samanburður við önnur lönd skipti ekki máli.  Síðan bendir ESA á:

Moreover, during the financial crisis that struck in the autumn of 2008, the other Member States took measuresto avoid deposits becoming unavailable. Thus, the depositors with the Icesave branches in the Netherlands and the United Kingdom are the only ones who have not received even the minimum compensation from the deposit guarantee scheme responsible under the Directive. 

The Court of Justice has held consistently that a directive by its nature imposes an obligation on the States to achieve the result envisaged by it and all the authorities of the Member States must take all the appropriate measures, whether general or particular, to ensure fulfilment of that obligation. Consequently, if the Deposit Guarantee Fund established under the Directive fails to achieve the result prescribed, the State authorities have the obligation to ensure that the result prescribed is attained. The authorities are free to determine how that result is attained. Nevertheless, it is incumbent on the Icelandic authorities to ensure that payments are made to depositors up to the minimum amount guaranteed by Article 7(1) of the Directive.

Síðar segir ESA:

On the contrary, Annex II item (c) makes clear that the home State and the host State must "cooperate fully with each other to ensure that depositors receive compensation promptly and in the correct amounts"

Loks segir ESA:

Finally, it should be noted that according to the information provided to the Authority the Icelandic deposit guarantee scheme has not made any refunds at all within the prescribeddeadline, even for part of the deposits in issue according to the means available to the Fund.

Rök til varnar

Í mörgu gilda sömu rök við þessu atriði og álitaefni 1, þ.e. að FSCS og DNB greiddu út innstæður innstæðueigenda áður en frestur TIF til þess rann út.  Einnig var kominn á samningur milli aðila um að FSCS og DNB lánuðu TIF fyrir hluta sjóðsins í útgreiðslunni.  Varla getur ESA ætlast til þess að TIF greiddi innstæðueigendum út peninga sem FSCS og DNB höfðu þegar greitt út.

Ekki verður betur séð en að íslensk stjórnvöld hafi einmitt viðurkennt greiðsluskyldu TIF með þeim þremur Icesave samningum sem gerðir hafa verið. Í staðinn fyrir að reiða fram peninga, þá var gerður lánssamningur vegna greiðslunnar sem FSCS og DNB reiddu fram.  Það sem meira er, að afgreidd voru lög nr. 96/2009 frá Alþingi, þar sem fyrirkomulag greiðslunnar var samþykkt.  Bretar og Hollendingar völdu sjálfir að hafna fyrirvörum Alþingis og komu þannig í veg fyrir að samningurinn tæki gildi.  Vart er hægt að álasa stjórnvöldum hér á landi fyrir það.  Mergur málsins er að settu marki var náð með Icesave samningnum frá því í júní 2009.  Ekki var á nokkurn hátt reynt að víkja sér undan greiðsluskyldu TIF gagnvart erlendum útibúum íslensku bankanna, þó ESA ýji að öðru.

Álitaefni 4:  4.4 Non-discrimination

Rök ESA

ESA byrjar að segja frá aðgreiningu innlendra og erlendra innstæðureikninga og:

As a result of the domestic deposits being moved over to the new banks, domestic depositors were covered in full, above and beyond what is required by Article 7(1) of Directive 94/19/EC, whereas the foreign depositors did not even enjoy that minimum guarantee.

The Court of Justice recalled recently in Sturgeon that "[...]all Community acts must be interpreted in accordance with primary law as a whole, including the principle of equal treatment, which requires that comparable situations must not be treated dffirently [...J." Directive 94/19/EC would therefore only allow the Icelandic Government to treat depositors with domestic branches differently from depositors at branches in other EEA States if they were regarded as not being in a comparable position.

Fleiri rök fylgja, en niðurstaðan er afdráttarlaus:

It follows from the above, that even if the provisions of Directive 94/19/EC were interpreted, contrary to the reasoning set out above, as not imposing obligations of result, by treating deposits located in Icelandic branches differently from deposits located in other EEA States, Iceland is in breach of Article 4(1) and 7(1) of the Directive and/or Article 4 EEA.

Accordingly, Iceland has failed to fulfil its obligations arising under Articles 3(1), 4(1), 7(1) and 10(1) of Directive 94/19/EC and/or Article 4 of the EEA Agreement by failing to insure payment of compensation of 20.000 EUR to depositors on the so-called Icesaveaccounts of Landsbankinn within the time limits laid down in the Directive.

Rök til varnar

Helstu rök ESA eru bann við mismunun.  Því er rétt að spyrja að skoða hvernig 4. gr. EES samningsins hljóðar:

Hvers konar mismunun á grundvelli ríkisfangs er bönnuð á gildissviði samnings þessa nema annað leiða af einstökum ákvæðum hans.

Nú er alveg óumdeild að íslensk stjórnvöld mismunuðu innistæðu eigendum eftir staðsetningu reikninganna en ekki verður séð að mismunun hafi verið eftir ríkisfangi. Erlendir ríkisborgarar sem áttu innistæður í innlendum útibúum bankanna voru jafn tryggðir með sínar innistæður og íslenskir innistæðueigendur.  Og á sama hátt komu íslenskir innistæðueigendur að Icesave reikningum í Bretlandi og Hollandi að jafn lokuðum dyrum og þarlendir innistæðueigendur að Icesave reikningum. Ekki var því um neina mismunun á grundvelli ríkisfangs.

Þá er næst að skoða tilvitnun ESA í mál C-402/07 og C-432/07 (Sturgeon and others). Sé tilvituð setning skoðuð til enda, þá kemur í ljós að ESA sleppir feitasta bitanum, því í heild er umræddur texti svona:

In that regard, all Community acts must be interpreted in accordance with primary law as a whole, including the princieble of equal treatment, which requires that comparable situations must not be treated differently and different situations must not be treated in the same way unless such treatment is objectively justified (Case C-210/03 Swedish Match [2004] ECR I-11893, paragraph 70, and Case C-344/04 IATA and ELFAA [2006] ECR I-403, paragraph 95).

Þannig að Evrópudómstóllinn leyfir að sambærilegar aðstæður séu meðhöndlaðar á mismunandi hátt og ólíkar á sama hátt enda verði slík meðferð studd hlutlægum rökum.

Auðvelt er að koma með slík hlutlæg rök:

  1. Hér varð kerfishrun og 90% allra innstæðna hefðu orðið óaðgengilegar, ef bíða hefði átt eftir því að skilanefndir/slitastjórnir bankanna væru búnar að innkalla kröfur og úrskurða um þær, þá hefði þjóðfélagið einfaldlega stöðvast.  Fyrirtæki hefðu ekki getað greitt út laun, innflutningur hefði stöðvast, sama á við afborganir lána og allar framkvæmdir.
  2. Með aðskilnaði bankanna í nýja og gamla var leitast við að skilja nægilegar eignir eftir báðum megin svo hægt væri að greiða út til innstæðueigenda.  Bresk stjórnvöld komu með frystingu eigna Landsbankans (og um tíma íslenska ríkisins og Seðlabanka Íslands) sjálf í veg fyrir að bankinn gæti ráðstafað þeim fjármunum til innstæðueigenda.  Varla er hægt að ætlast til þess að innstæðueigendur á Íslandi bíði eftir því að breskum stjórnvöldum þóknist að aflétta frystingunni.
  3. Bresk og hollensk stjórnvöld komu í veg fyrir í fleiri mánuði að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn greiddi fyrsta hluta láns sjóðsins til Íslands.
  4. Mikill munur var á Landsbankanum á Íslandi og útibúi hans í London.  Fyrir utan að vera í London, þá má ekki gleyma því að Icesave-reikningarnir nutu svo kallaðrar uppbótartryggingar hjá bæði FSCS og DNB.  Í Bretalandi voru þeir því tryggðir af FSCS upp að 50.000 GBP á innstæður umfram 16.700 GBP lágmarkstrygginguna og í Hollandi af DNB upp að 100.000 EUR á innstæður umfram 20.887 EUR lágmarkstrygginguna.

Svo má benda á að í 3. mgr. 28. gr. EES samningsins og í 33. gr. er opnað á ákveðna mismunun ef hún grundvallast á sjónarmiðum um allsherjarreglu, almannaöryggi eða almannaheilbrigði.

Reimar Pétursson birtir eftirfarandi málsástæður (að hluta sömu og að ofan) í grein sinni Ástæðulaust að óttast umfjöllun dómstóla um ólögmæta mismunun:

1. Almenna reglan í 4. gr. EES-samningsins á aðeins við um mismunun »á gildissviði« EES-samningsins. Nú háttar svo til að EES-samningurinn fjallar ekkert um almenna stjórn efnahagsmála. Þar hefur hvert ríki samningsins óhindrað forræði. Aðgerðir ríkisins í október 2008 falla undir þetta en þeim var með almennum hætti ætlað að afstýra hruni í íslenskum efnahagsmálum. Það má því ætla að aðgerðirnar falli utan gildissviðs 4. gr. EES-samningsins, a.m.k. þegar reglu EES-samningsins um lágmarkstrygginguna sem nemur 20.887 evrum sleppir.

2. Þá verður að hafa í huga að 4. gr. EES-samningsins á því aðeins við að tilvik sem eru borin saman séu sambærileg. En stendur innistæðueigandi í Bretlandi eða Hollandi í sömu sporum og innistæðueigandi í útibúi á Íslandi? Fátt bendir til þess að svo sé. Innistæðueigendur í Bretlandi og Hollandi stóðu utan íslenskrar greiðslumiðlunar og innistæður þeirra höfðu því engin áhrif á fjármálastöðugleika á Íslandi. Þá voru innistæður þeirra í erlendri mynt, en að langstærstum hluta voru innistæður í íslenskum útibúum í krónum. Það er því margt sem bendir til að þessir innistæðueigendur hafi ekki verið í sambærilegri stöðu og því geti aldrei verið ólögmætt að gera greinarmun á þeim.

3. Jafnframt skiptir máli í þessu tilviki að útlendingar sem áttu innistæður í íslenskum bankaútibúum fengu nákvæmlega sömu meðhöndlun og íslenskir innistæðueigendur. Vegna þessa er hugsanleg mismunun aldrei meira en svonefnd óbein mismunun. Slík mismunun er lögmæt ef hún styðst við lögmæt sjónarmið og unnt er að telja upp fjölda sjónarmiða sem geta réttlætt aðgerðir ríkisins. Til að mynda varð að tryggja að unnt væri að greiða laun, nota greiðslukort til að kaupa lyf, eldsneyti og aðrar nauðsynjar. Aðgerðir sem hafa slíkt að markmiði teljast lögmætar.

4. Svo er mikilvægt að hafa í huga í hverju aðgerðir íslenska ríkisins voru fólgnar. Íslenska ríkið tók aldrei á sig beina fjárhagslega ábyrgð á öllum innistæðum í íslenskum bankaútibúum. Stjórnmálamenn gáfu einungis pólitískar yfirlýsingar, sem voru og eru lagalega óskuldbindandi, um að innistæður væru tryggðar. Lagalegu aðgerðirnar fólust hins vegar í því að ríkið stofnaði nýja banka, yfirfærði til þeirra innlendar eignir á móti innistæðum, lagði þeim til hlutfallslega lítið fé í formi ríkisskuldabréfs í íslenskum krónum til greiðslu eftir 10 ár, og setti á gjaldeyrishöft til að koma í veg fyrir að innistæður væru teknar út úr hagkerfinu.

5. Af fjölmörgum augljósum ástæðum gat ríkið ómögulega gert þessar sömu lagalegu ráðstafanir varðandi innistæðurnar á Icesave. Sem dæmi skal nefna að ríkið hefur ekki vald yfir eignum eða skuldbindingum utan yfirráðasvæðis þess. Þar með gat ríkið ekki knúið fram færslu þeirra yfir í nýjan banka. Þetta kom reyndar bersýnilega í ljós þegar Bretar beittu hryðjuverkalögum til að kyrrsetja allar eignir Landsbankans í Bretlandi. Og fyrst þetta var ómögulegt getur þetta ekki hafa verið ólögmætt.

6. Síðan verður ekki horft fram hjá því að gjaldeyrishöftum var og er beitt gagnvart innistæðueigendum í íslenskum útibúum. Bretar og Hollendingar eru hins vegar sem forgangskröfuhafar í þrotabú gamla Landsbankans óbundnir af þeim og munu fá beinharðan gjaldeyri greiddan úr búinu. Í því felast gríðarleg verðmæti. Þeir eru því á vissan hátt að fá betri meðhöndlun en eigendur sparifjár í íslenskum útibúum.

Alain Lipietz, fyrrum þingmaður á Evrópuþinginu, nefnir í grein sinni sem birt var í Morgunblaðinu 12.2.2010 eftirfarandi rök (hér tekin af vef Advice-hópsins):

Þótt hægt sé að skilgreina bankastarfsemi sem fyrirtæki á markaði má ekki gleyma að þessi geiri sinnir einnig mikilvægu þjónustuhlutverki. Bankakerfið sinnir því hlutverki að sjá um almenna greiðslumiðlun, sem þýðir að ef hún leggst af hætta peningar, sem er sú verðmætaskráning sem mest sátt er um, að vera í umferð.

Lagarök í áður birtum greinum

Hér fyrir neðan eru tenglar í nokkrar greinar með lagrökum.  Er þær flestar að finna á vef Advice, þó svo að þær hafi upprunalega birst annars staðar:

Lagarök um Icesave Höfundar: Lárus L. Blöndal og Stefán Már Stefánsson – MBL 12. jan 2010.

Um mismunun á grundvelli þjóðernis Höfundar: Lárus L. Blöndal og Stefán Már Stefánsson – MBL 13. jan 2010.

Möguleg bótaskylda ESB Höfundar: Lárus L. Blöndal og Stefán Már Stefánsson – MBL 14. jan 2010.

Icesave og stjórnarskráin Höfundar: Stefán Már Stefánsson, Sigurð Líndal og Lárus L. Blöndal – MBL 15. jan 2010.

Áminning ESA  Höfundar: Lárus L. Blöndal og Stefán Már Stefánsson – MBL 4. júní 2010.

Alain Lipietz: Íslendingar skulda ekkert  Höfundur: Alain Lipietz, hagfræðingur og fyrrv. evrópuþingmaður (febrúar 2010).

Mun ESA-úrskurður umturna bankakerfi Evrópu?  Birtist í MBL 6. sept 2010 – Höfundar: Davíð Blöndal, Eiríkur S. Svavarsson, Ragnar F. Ólafsson og Jóhannes Þ. Skúlason meðlimir í InDefence.

Possible Court Justifications on Icesave Agreement – A Minute  Höfundur: Peter Örebech – Tromsö 23. march 2011

 

 

 

 

Fleiri verður bætt við eftir því sem tími vinnst og þörf er á.


Ætli íslensku olíufélögin hafi heyrt af þessu? - Tapar Steingrímur á þessu?

Í gær hækkuðu íslensku olíufélögin verð á bensíni um 3 kr.  Ég var heppinn að ég fyllti á tankinn áður en það gerðist.  Ekki það að 3 kr. á lítrann skipti öllu máli, en þegar krónurnar þrjár hafa verið að bætast á með reglulegu millibili í fleiri mánuði, þá er pyngjan farin að léttast.  Fyrir utan að maður þorir varla að hreyfa bílinn.

Líklegast er ekki hægt að kenna íslensku olíufélögunum um þessa miklu hækkun eldsneytis.  Þau eru bara að bregðast við hækkun á alþjóðamörkuðum.  Raunar sýnist mér sem verð hér á landi sé alls ekki hærra en í t.d. Danmörku og Þýskalandi.  Málið er að alls staðar í heiminum eru stjórnvöld búin að átta sig á því að ekki er til tryggari tekjuöflun en felst í sköttum og gjöldum á hinu bráðnauðsynlega bensíni eða díselolíu.

Hér á landi eru tvenns konar gjöld sem halda uppi verðinu fyrir utan innkaupsverð og álagning olíufélaganna:  1) olíugjald, 2) virðisaukaskattur.  Bæði þessi atriði eru hlutfallstala af því sem olíufélögin vilja í sinn hlut.  Hækki heimsmarkaðsverð, þá hækkar olíugjaldið og virðisaukaskatturinn. 

Með kolefnisskatti, þá rennur um 52% af bensínverði í ríkissjóð.  52% af 238 kr. gerir 123,76 krónur.  Sá sem er á bíl sem eyðir 10 lítrum/100 km, greiðir því 1.237,6 kr. til ríkisins fyrir að aka þessa 100 km.  Þegar verð á bensínlítra var 120 kr. (sem er ekki svo ýkja langt síðan), þá komu 624 kr. í hlut ríkisins.  Sama slit var á vegakerfinu, sömu umferðarmannvirki voru til staðar, en hugsanlega var viðhaldskostnaðurinn eitthvað lægri.  Hafi 624 kr. dugað ríkinu þegar verðið var 120 kr., hvers vegna þarf ríkið þá tæplega tvöfalda þá upphæð í dag?  Er þetta ekki bara græðgi eða í besta falli röng hugsun.

Rannsóknir sína að umferð hefur dregist mikið saman eftir að bensínverð hækkaði.  Sú hækkun fer að nokkru saman við kreppuna, þannig að ekki er víst að allur samdrátturinn er hækkun bensínverðs að kenna, en líklegast vegur hún þungt.  T.d. hefur hækkun síðustu mánaða gert það að verkum að ég velti vel fyrir mér hverri ferð í vesturhluta Reykjavíkur.  Það þýðir t.d. að séu spennandi atburðir bæði í vesturhluta Reykjavíkur og austurhluta Kópavogs, þá þarf sá í vesturhluta Reykjavíkur að vera ákaflega spennandi til að ég velji hann framyfir hinn.  Sama á við verslun.  Ef það kostar mig nokkur hundruð krónur aukalega að versla ódýrt í vesturhluta Reykjavíkur, en í austurhluta Kópavogs, þá getur einfaldlega verið hagstæðara fyrir mig að versla í Kópavogi og borga aðeins meira en að keyra út á Granda eftir vörunni á tilboði.  Hækkandi bensínverð er þannig farið að stjórna ferðum mínum.

Ég býst við að fleiri hafi tekið upp svona breytingar á akstri.  Spurningin er því hvort ákafi stjórnvalda að elta breytingar á heimsmarkaðsverði með hlutfallslegri hækkun opinberra gjalda og skatta sé ekki að verða til þess að tekjur ríkisins lækki.  Samdráttur í umferð þarf að vísu að vera mjög mikill til að vega um alla hækkunina, en kannski kemur að því að það gerist.

Mér finnst eðlilegt að eitthvert þak ég á olíugjaldinu.  Þannig sé gjaldi hlutfall af álagningarstofnunum þar til einhverri hámarkstölu er ná.  Þá standi olíugjaldið í stað, þó svo að heimsmarkaðsverð knýi olíufélögin til hækkunar.  Með þessu dregur úr hækkun eldsneytisverðs sem þar með verður til þess að umferð dregst ekki eins mikið saman og það sem meira er hækkun vísitölu neysluverðs verður minni.  Við vitum öll að vísitala fer beint í lánin okkar, sem að jafnaði hækka um meira en nokkru sinni kostnaðurinn okkar af hærra bensínverði.  (Auðvitað væri best að taka verðtryggingu úr sambandi, en það er efni í mun lengri pistil.)

Ég vil skora á Steingrím J. Sigfússon, fjármálaráðherra, að hugleiða vel að setja hámark á olíugjaldið.  Ég veit að við hróflum ekki við virðisaukaskattinum, en hinu er auðveldlega hægt að breyta.  Jafnfram sting ég upp á að þakið verði miðað við hámarkið náist þegar eldsneytisverð nær 150 kr./lítra hvort heldur um er að ræða bensín eða venjuleg díselolía.


mbl.is Olíuverð lækkaði um rúm 3%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áminningarbréf ESA: Tvö atriði ættu að falla okkur í hag og tvö okkur í óhag

Ég fjalla um mína sýn á innihald áminningarbréfs ESA í færslu sem ég setti við aðra frétt (sjá Um hvað snýst áminningarbréf ESA og hver er vörn/sekt stjórnvalda?).  Mér sýnist út frá röksemdum ESA og almennri rökhyggju og kunnáttu minni á þeim lögum, reglum og tilskipunum sem ESA vísar til, að af þeim fjórum atriðum sem ESA tekur upp í bréfinu, þá eigum við góðar varnir í varðandi tvö þeirra, en nánast engar varðandi tvö þeirra.

Niðurstaða skoðunar minnar á áminningarbréfinu er sem hér segir:

Það er mín niðurstaða að tæknilega séð hafi TIF uppfyllt skyldur sínar samkvæmt tilskipun 94/19/EC strax með fyrsta Icesave samningnum.  Þá komst á skilningur um fyrirkomulag.  Ekki er hægt að koma með eftir á skýringu og segja, að fyrst Icesave II og III hafi verið felldir í þjóðaratkvæðagreiðslu, þá gildi þessi skilningur ekki lengur.   Það sem meira er að TIF uppfyllti skyldur sínar áður en frestur FME rann út samkvæmt ákvæðu tilskipunarinnar.  Eins og ESA bendir sjálft á, þá er hverju ríki frjálst hvernig það uppfyllir skyldur sínar. 

Varðandi tvö atriði, þá sé ég ekki að Ísland geti borið miklar varnir fyrir sig.  Fyrst er að þó höggið hafi verið mikið vegna kerfishruns, þá virtist ákaflega einfalt að bjarga innlendum innstæðum, en gjörsamlega fyrirmunað að bjarga þeim erlendu.  Eins var jafnræði innstæðueigenda brotið.  Hvorugt þessara mála er hægt að skrifa á TIF.  Einnig skiptir útkoma þjóðaratkvæðagreiðslunnar ekki máli fyrir þessi atriði.  Bæði má skrifa á FME sem meiriháttar klúður, hugsanlega hroka, en líklegast ótrúlega ósvífni.  Hvernig datt FME í hug að hægt væri að mismuna innstæðueigendum á þennan hátt?  Hverju hefði það breytt fyrir þá sem áttu hæstu innstæðurnar hér á landi, að aðgangur að þeim hefði skerst í einhvern tíma?  Ég er alveg viss um, að hefðu íslenskir aðilar ekki fengið aðgang að milljónatugum, hundruðum eða þúsundum, þá væri Landsbankinn fyrir löngu byrjaður að greiða út úr búinu.  Dómsmál hefðu farið fyrr af stað og fengið flýtimeðferð í dómskerfinu. 

Þetta klúður FME mun hugsanlega kosta skattgreiðendur háar upphæðir.  Þar liggur mestan fjárhaglega áhættan í því hvort neyðarlögin standast.  ESA hefur að vísu gefið út álit, þar sem stofnunin samþykkir það fyrirkomulag að innstæður hafi verið færðar til í kröfuröð.  Ég sé ekki Hæstarétt dæma á annan hátt.  Gerist það aftur, þá munu líklegast 600-700 ma.kr. falla á ríkissjóð auk þess sem hann þarf að bæta Icesave innstæðueigendum brot á jafnræðisreglu.  Hin áhætta sem felst í þessu klúðri FME er að dugi eignir Landsbankans ekki fyrir forgangskröfum, þá sé ég ekki annað en að mismunurinn falli á ríkissjóð.

 Til að sjá hvernig ég komst að þessari niðurstöðu verður bara að lesahina færsluna.


mbl.is Sterk rök okkar í Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um hvað snýst áminningarbréf ESA og hver er vörn/sekt stjórnvalda?

Talsvert hefur verið rætt um áminningarbréf ESA (Letter of formal notice), en um hvað snýst það?  Ekki hefur verið fjallað um efni þess í fjölmiðlum og stjórnvöld hafa forðast sem heitan eldinn að ræða innihaldið.  Nú vill svo til að bréfið er opinbert gagn og hægt er að nálgast það á t.d. vef ESA (sjá tengill að ofan).

Fyrsti hluti áminningarbréfsins lýsir hvað gerðist frá og með 7. október 2008.  M.a. að FSCS (breski tryggingasjóðurinn) og DNB (hollenski seðlabankinn f.h. hollenska tryggingasjóðsins) greiddu út innstæðutryggingar upp að annars vegar 50.000 pund og hins vegar 100.000 evra.  Einnig að viðræður stæðu yfir og það væri skoðun íslenskra stjórnvalda að TIF (íslenski tryggingasjóðurinn) uppfyllti kröfur tilskipunar 94/19/EC og íslenskra laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingakerfi.

Í hluti tvö er vitnað í ýmsar greinar tilskipunarinnar og í hluta þrjú í lög nr. 98/1999.

Hluti fjögur inniheldur mat ESA og þar byrjar fjörið, ef svo má segja. 

Grein 4.1

Grein 4.1 fjallar um vangaveltur hvort TIF hafi staðið við skuldbindingar sínar gagnvart lögum og hvort brot á þeim skuldbindingum leiði til ábyrgðar ríkisins á vanefndum TIF.  Dregin er sú ályktun hvorki TIF né stjórnvöld hafi stuðlað að því að innstæðueigendur fengju aðgang að innstæðum sínum og að því ESA best vissi hefði engin greiðsla borist frá TIF.  Í undirmálsgrein segir ESA aftur:

In that respect the Authority notes that the Furd and the British Financial Services Compensation Scheme (FSCS) have entered into a settlement agreement. Under Article l.l of that agreement the parties acknowledge that the FSCS has with the Fund's knowledge made payments in accordance with its rules to individual depositors of the UK Branch of Landsbankinn in respect of which the Fund had a compensation obligation under Act No. 98/1999. Similarly, the Fund and the Dutch National Bank have entered into a deed of assignment with regard to claims on Landsbankinn Amsterdam branch paid by the Dutch National Bank.

Í lok greinarinnar segir svo:

Even if that were not the case that the Fund is part of the Icelandic State and is considered to be an independent entity, the State remains under the obligation to ensure full compliance with the Directive and proper compensation of depositors under its terms.

Ef ég skoða innihald þessarar greinar, þá er það ályktun ESA að ríkið hafi átt að tryggja að greiðslur frá TIF bærust í samræmi við íslensk lög og tilskipun 94/19/EC.  Um þetta vil ég segja:

TIF fékk frest til útgreiðslu í samræmi við lög og tilskipunina.  Sá frestur var framlengdur tvisvar.  Áður en til þess kom að hann rynni út, voru FSCS og DNB búin að greiða út til innstæðueigenda eins og segir í undirmálsgreininni.  Það getur því ekki staðist að TIF hafi átt að greiða til innstæðueigenda sem áður höfðu fengið greitt frá sjóðum í sínum löndum.   Með Icesave I samningnum var samið um að FSCS og DNB veittu TIF lán til greiðslu á sínum hluta.  Tæknilega séð hafði TIF því uppfyllt skyldur sínar áður en lokafresturinn til að gera það rann út.  Sá samningur var samþykktur á Alþingi með fyrirvörum, sem síðar kom í ljós að Bretar og Hollendingar vildu ekki fallast á.  Nýr samningur komst á og var hann í grunninn byggður á sömu hugsun, þ.e. FSCS og DNB lánuðu TIF fyrir greiðslunni.  Aftur var því engin ástæða fyrir TIF að ætla að ekki hafi verið staðið við ákvæði tilskipunar 94/19/EC.

Niðurstaða mín er að TIF hafi tæknilega staðið við skyldu sína í gegn um það samkomulag sem náðist um Icesave í júní 2009 og aftur október 2009.  Það er ekki sjóðnum eða íslenskum stjórnvöldum að kenna, að Bretar og Hollendingar hafi ekki samþykkt fyrirvara Alþingis.  Strangt til tekið gætu Bretar og Hollendingar dregið Icesave I fram núna og fallist á fyrirvara Alþingis og þá væri málið úr sögunni.  Eina ástæðan fyrir því að Icesave I tók ekki gildi var krafa Breta og Hollendinga um hærri vexti og óeðlilegan forgang í þrotabú Landsbankans. 

Hitt er rétt að benda á, að stjórn TIF hafði miklar áhyggjur af eignastöðu sjóðsins eftir að ákveðið var að taka yfir Glitni í lok september.  Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er í 17. kafla fjallað um TIF.  Undirkafli 17.16 ber titilinn Tryggingasjóðurinn leitar eftir stuðningsyfirlýsingu íslenska ríkisins. Í kaflanum er lýst tölvupóstsamskiptum Áslaugar Árnadóttur, formanns stjórnar TIF, við Ingimund Friðriksson, seðlabankastjóra, Baldur Guðlaugsson, ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu, og Bolla Þór Bollason, ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneytinu.  Áslaug sendir þeim þrjár útgáfur af yfirlýsingu vegna TIF í drögum og hljóða þau sem hér segir:

A: Ríkisstjórn Íslands hefur ákveðið að ábyrgjast öll innlán í öllum íslenskum viðskiptabönkum, sparisjóðum og útibúum þessara aðila á Íslandi og erlendis.

B: Ríkisstjórn Íslands hefur ákveðið að ábyrgjast öll innlán í öllum íslenskum viðskiptabönkum, sparisjóðum og útibúum þessara aðila á Íslandi og erlendis.

Ábyrgð þessi gildir á meðan órói er á fjármálamörkuðum.

Samkvæmt lögum nr. 98/1999 skal Tryggingarsjóð[ur]i innstæðueigenda og fjárfesta greiða viðskiptavini aðildarfyrirtækis andvirði innstæðu hans við greiðsluþrot eða gjaldþrot aðildarfyrirtækis sjóðsins. Aðildarfyrirtæki sjóðsins eru allir íslenskir viðskiptabankar og sparisjóðir. Yfirlýsing þessi felur í sér að ríkisstjórn Íslands ábyrgist að Tryggingarsjóðurinn geti staðið við þær skyldur sínar.

C: Samkvæmt lögum nr. 98/1999 skal Tryggingarsjóð[ur]i innstæðueigenda og fjárfesta greiða viðskiptavini aðildarfyrirtækis andvirði innstæðu hans við greiðsluþrot eða gjaldþrot aðildarfyrirtækis sjóðsins. Aðildarfyrirtæki sjóðsins eru allir íslenskir viðskiptabankar og sparisjóðir. Yfirlýsing þessi felur í sér að ríkisstjórn Íslands ábyrgist að Tryggingarsjóðurinn geti staðið við þær skyldur sínar.

Satt best að segja virðist mér sem formaður stjórnar TIF sé að leggja til að ríkissjóður, sem ekki gat einu sinni tekið 500 ma.kr. lán, eins og Alþingi veitti heimild fyrir, ætti að tryggja innstæður upp á yfir 3.100 ma.kr. með yfirlýsingu.

Allt endaði þetta á því að stjórn TIF samþykkti að senda eftirfarandi bréf til forsætisráðherra og fór það 1. október 2008:

Stjórn Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta samþykkti á fundi sínum í dag að beina því til forsætisráðherra að skýrt verði með hvaða hætti Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta verði gert kleift að standa við skuldbindingar sínar samkvæmt lögum nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, ef eignir sjóðsins hrökkva ekki til að inna af hendi þær greiðslur sem lög kveða á um.

Þessu erindi var aldrei svarað og segi ég bara sem betur fer.  Virðist mér sem stjórn sjóðsins hafi ekki verið í neinum tengslum við veruleikann, að halda að ríkissjóður gæti tryggt það fjármagn sem um var að ræða.

Grein 4.2

Í grein 4.2 er tekið á atriðum varðandi kerfishrun.  Þar er vísað í bréf íslenskra stjórnvalda frá 23. mars 2010, þar sem þau benda á að könnun framkvæmdarstjórnar ESB hafði leitt í ljós, að í engu landi hefðu tryggingasjóðir getu til að standa undir nema í mesta lagi hruni miðlungsstórs fjármálafyrirtækis.  Sjóðunum sé því ekki ætlað að standa undir því að innstæður séu ekki aðgengilegar vegna meiriháttar eða alsherjar bankakreppu.  Þessu er ESA ósammála og vísar til dóms Evrópudómstólsins frá 1990 (mál C-19/90 og C-20/90).  Þar hafi dómstóllinn komist það þeirri niðurstöðu að óvanalegar aðstæður leystu ríki ekki undan því að uppfylla ákvæði tilskipana.  ESA rökstyður svar sitt jafnframt með því að íslensk stjórnvöld hafi framlengt frest TIF í samræmi við tilskipunina og þar með í reynd viðurkennt að ákvæði hennar ættu ennþá við.  Þá bendir ESA á að aldrei hafi verið gefin út almenn yfirlýsing um að innstæður yrðu ekki aðgengilegar á Íslandi.  Aðgerðir stjórnvalda (m.a. neyðarlögin) komu í veg fyrir að slíkt ástand skapaðist.

Vissulega má segja að aðferðir FME við aðskilnað milli innlendrar og erlendrar starfsemi Kaupþings, Glitnis og Landsbanka hafi tekið frá stjórnvöld vörn varðandi þennan þátt.  Klúður FME (sem ég hef nokkrum sinnum bent á) sem fólst í því að tryggja ekki jafnt aðgengi innlendra og erlendra innstæðueigenda að eignum sínum, gerir ríkinu ókleift að verjast þessu atriði.  Svo einfalt er það.  Einnig má svo sem benda á slitastjórn Landsbankans, en henni bar að gera Icesave innstæður aðgengilegar innstæðueigendum eins fljótt og kostur var.  Hún brást í því og hefur raunar setið á háum upphæðum í nærri 2 ár. 

Staðreyndin er að staðið var rangt að málum, þegar allar innlendar innstæður voru gerðar aðgengilegar án nokkurs rofs.  Mikið er búið að gagnrýna þetta í baráttu heimilanna vegna stökkbreyttra lána og hins mikla taps fólks í lögbundnum sparnaði, en rökin um mismunun innstæðueigenda eru líklegast sterkust.

Neyðarlögunum var ætlað að tryggja innstæður í bönkunum.  Það var gert með því að færa þær til í kröfuröð og gera þær að forgangskröfum.   Í einhverju bjartsýniskasti, þá virðist hafa verið gengið út frá því að a) í lagi væri að mismuna innstæðueigendum og láta innlenda hafa órofinn aðgagn að sínu, en erlendir máttu bíða síns tíma, b) gert var ráð fyrir að eignir bankanna dygðu fyrir öllum forgangskröfum og þær kæmu til útborgunar á hratt og vel.  Hvorutveggja klikkaði og því sitjum við uppi með þetta mál óleyst.

Svona út frá almennum vangaveltum, á tryggingasjóður að geta staðið undir kerfishruni?  Ef TIF hefði átt að geta staðið undir lágmarkstryggingu vegna allra innlána í íslenskum bönkum, þá geri ég ráð fyrir að í sjóðnum hefðu þurft að vera um 1.100 ma.kr. í sjóðnum.  Til þess að það hefði verið hægt, eins og ESA virðist vera að ýja að, þá hefði það kallað á gríðarlega hátt iðgjald, sem aðildarfyrirtæki sjóðsins hefðu þurft að greiða.  Mér telst til að 1.100 ma.kr. hafi verið lang leiðina í þriðjungur af innstæðum bankanna.  Ég er viss um að heyrst hefði hljóð úr horni frá ESA ef krafist hefði verið 20% iðgjalds og auðunnið mál að sýna fram á samkeppnishindrun.  (Lárus Blöndal tekur sé ég undir þetta sjónarmið í viðtali við Morgunblaðið, sjá Sterk rök okkar í Icesave.  Ath. ég byrjaði að skrifa þess færslu um 13.30 10.4.)  Ef staðan er, að tilskipunin geri ekki ráð fyrir að tryggingasjóðir stæðu undir kerfishruni, til hvers er þá verið að benda á, að sjái ríki til þess að virkur tryggingasjóður sé settur á fót, þá sé ábyrgð þess lokið?  Var þetta bara sett þarna upp á punt svo menn gætu vísað til þess að tryggingasjóðirnir ættu ekki að vera ríkistryggðir þó þeir væru það í reynd eða hugsuðu menn ákvæðið ekki til enda?  Mér sýnist sem það sé blanda af báðu.

Svo er í raun að sjá, að tilskipunin sé dulbúin krafa um ríkisábyrgð, nokkuð sem er augljóslega í andstöðu við samkeppnistilskipun ESB og írsk stjórnvöld fengu að "kenna á" eftir að þau lýstu því yfir að allar innstæður í írskum bönkum væru tryggðar.

Grein 4.3

Í þessari grein er fjallað um að greiðslur hafi ekki borist.  Bendir ESA á að

..the depositors with the Icesave branches in the Netherlands and the United Kingdom are the only ones who have not received even the minimum compensation from the deposit guarantee scheme responsible under the Directive

Ég verð að viðurkenna, að ég skil ekki þetta atriði.  Almennir innstæðueigendur (e. retail depositors) í þessum löndum voru búnir að greitt út í samræmi við reglur þessara landa.  Áttu þeir þá að fá sömu innstæðurnar greiddar tvisvar?  Auk þess hafði tvisvar verið samið um að líta skuli á hluta útborgunar FSCS og DNB sem lán til TIF vegna lágmarkstryggingarinnar.  

Þetta verður ennþá furðulegra í næstu málgrein, en þar segir m.a.:

Consequently, if the Deposit Guarantee Fund established under the Directive fails to achieve the result prescribed, the State authorities have the obligation to ensure that the result prescribed is attained. The authorities are free to determine how that result is attained. Nevertheless, it is incumbent on the Icelandic authorities to ensure that payments are made to depositors up to the minimum amount guaranteed by Article 7(1) of the Directive.

(Feitletrun er mín.)

Ég fæ ekki betur séð en að íslensk stjórnvöld hafi einmitt tryggt þetta með þeim þremur samningum sem gerðir hafa verið. Í staðinn fyrir að reiða fram peninga, þá var gerður lánssamningur vegna greiðslunnar sem FSCS og DNB reiddu fram.  Það sem meira er, að afgreidd voru lög nr. 96/2009 frá Alþingi, þar sem fyrirkomulag greiðslunnar var samþykkt.  Bretar og Hollendingar völdu sjálfir að hafna fyrirvörum Alþingis og komu þannig í veg fyrir að samningurinn tæki gildi.  Vart er hægt að álasa stjórnvöldum hér á landi fyrir það.  Mergur málsins er að settu marki var náð með Icesave samningnum frá því í júní 2009.  Ekki var á nokkurn hátt reynt að víkja sér undan greiðsluskyldu TIF gagnvart erlendum útibúum íslensku bankanna, eins og gefið er í skyn af ESA með:

No part of that Annex can be understood as meaning that the home State and its guarantee scheme is exonerated from the minimum guarantee it should give to depositors of its foreign branches in the event that deposit guarantee scheme of the host state intervenes.

Hér fer ESA hreinlega með fleipur.

Fleira er í sama dúr í grein 4.3 og er hreinlega eins og sá sem samdi hana skilji ekki eðli þeirra samninga sem gerðir höfðu verið.  Meðan að TIF gerir ráð fyrir því að lán FSCS og DNB séu fyrir hendi, þá er alveg út í hött að inna af hendi einhverjar greiðslu vegna þeirra innstæðna sem FSCS og DNB greiddu út.

Grein 4.4

Greinin fjallar um bann við mismunun.   Þetta er sá hluti bréfsins, sem ég tel íslensk stjórnvöld eiga erfiðast með að verjast.  Raunar get ekki séð að þau hafi nokkrar varnir.  Hafa skal þó í huga að þetta atriði er Icesave samningnum alveg óviðkomandi.  Efni hennar hefði staðið þó niðurstaðan í þjóðaratkvæðagreiðslunni hefði verið að lögin væru samþykkt.  Brotið var á jafnræði innstæðueigenda á allan mögulegan hátt.  Annar hópurinn (sá innlendi) fékk allar innstæður sínar tryggðar upp í top og aðgang að þeim strax.  Hinn hópurinn (sá erlendi) fékk þær tryggðar upp í top í orði, en ekki á borði.  Aðgangur að innstæðum rofnaði í vikur eða mánuði og þá eingöngu sumir og upp að tilteknu hámarki.  Þó svo að eignir Landsbankans dugi til að greiða öllum það sem þeim ber, þá munu stjórnvöld mjög líklega þurfa að greiða bætur vegna brots á jafnræðisreglunni.

Niðurstaða mín

Það er mín niðurstaða að tæknilega séð hafi TIF uppfyllt skyldur sínar samkvæmt tilskipun 94/19/EC strax með fyrsta Icesave samningnum.  Þá komst á skilningur um fyrirkomulag.  Ekki er hægt að koma með eftir á skýringu og segja, að fyrst Icesave II og III hafi verið felldir í þjóðaratkvæðagreiðslu, þá gildi þessi skilningur ekki lengur.   Það sem meira er að TIF uppfyllti skyldur sínar áður en frestur FME rann út samkvæmt ákvæðu tilskipunarinnar.  Eins og ESA bendir sjálft á, þá er hverju ríki frjálst hvernig það uppfyllir skyldur sínar. 

Varðandi tvö atriði, þá sé ég ekki að Ísland geti borið miklar varnir fyrir sig.  Fyrst er að þó höggið hafi verið mikið vegna kerfishruns, þá virtist ákaflega einfalt að bjarga innlendum innstæðum, en gjörsamlega fyrirmunað að bjarga þeim erlendu.  Eins var jafnræði innstæðueigenda brotið.  Hvorugt þessara mála er hægt að skrifa á TIF.  Einnig skiptir útkoma þjóðaratkvæðagreiðslunnar ekki máli fyrir þessi atriði.  Bæði má skrifa á FME sem meiriháttar klúður, hugsanlega hroka, en líklegast ótrúlega ósvífni.  Hvernig datt FME í hug að hægt væri að mismuna innstæðueigendum á þennan hátt?  Hverju hefði það breytt fyrir þá sem áttu hæstu innstæðurnar hér á landi, að aðgangur að þeim hefði skerst í einhvern tíma?  Ég er alveg viss um, að hefðu íslenskir aðilar ekki fengið aðgang að milljónatugum, hundruðum eða þúsundum, þá væri Landsbankinn fyrir löngu byrjaður að greiða út úr búinu.  Dómsmál hefðu farið fyrr af stað og fengið flýtimeðferð í dómskerfinu. 

Þetta klúður FME mun hugsanlega kosta skattgreiðendur háar upphæðir.  Þar liggur mestan fjárhaglega áhættan í því hvort neyðarlögin standast.  ESA hefur að vísu gefið út álit, þar sem stofnunin samþykkir það fyrirkomulag að innstæður hafi verið færðar til í kröfuröð.  Ég sé ekki Hæstarétt dæma á annan hátt.  Gerist það aftur, þá munu líklegast 600-700 ma.kr. falla á ríkissjóð auk þess sem hann þarf að bæta Icesave innstæðueigendum brot á jafnræðisreglu.  Hin áhætta sem felst í þessu klúðri FME er að dugi eignir Landsbankans ekki fyrir forgangskröfum, þá sé ég ekki annað en að mismunurinn falli á ríkissjóð.


mbl.is Mikilvægt að eyða óvissu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afgerandi NEI á fyrstu metrunum

Ekki er hægt að segja annað en að NEI-ið hafi komið nokkuð afgerandi úr talningu fyrstu atkvæða.  Reykjavík-Suður sker sig þó úr af torkennilegri ástæðu, sem ég ætla ekki að ráða í hér.

Hlustaði á "leiðtogana" áðan og velti fyrir mér í hvaða veruleika sumir voru þarna.  Nefni engin nöfn.  Eins fannst mér einkennilegt að tala er um að ekki verði frekar samið en í staðinn verði mál rekin fyrir dómstólum.  Í fyrsta lagi eru í gildi lög sem viðurkenna greiðsluskyldu Tryggingasjóðs innstæðueigenda og fjárfesta (TIF).  Í öðru lagi liggur fyrir að TIF hefur viðurkennt greiðsluskyldu sína.  Í þriðja lagi, þá voru það fyrst og fremst tvö megin atriði sem steytti á, þ.e. ríkisábyrgðin og forgangur TIF í þrotabú Landsbankans.

Ég held að réttu viðbrögð ríkisstjórnarinnar sé að bjóða Bretum og Hollendingum að TIF standi við sína greiðsluskyldu og fái forgang í þrotabú Landsbankans í samræmi við Ragnars Halls ákvæðið.  Báðir aðilar lyfti öllum hömlum og hindrunum þannig að TIF geti byrjað að endurgreiða Bretum og Hollendingum sem fyrst.  Þannig verði "skuld" TIF við FSCS (breska tryggingasjóðinn) og DNB (seðlabanka Hollands sem fer með mál innstæðutrygginga) greidd um hratt og vel.

Menn virðast vera uggandi vegna áminningarbréfs ESA (Letter of formal notice).  Ég hef lesið þetta bréf og mér sýnist stærsta atriðið í því vera spurningin um mismunun milli innlendra og erlenda innstæðueigenda.  Icesave-samningarnir þrír hafa ekkert tekið á þessu og því breyttir niðurstaðan í nótt ekkert því álitaefni sem ESA tekur upp í áminningarbréfinu.  Ég skil því ekki hvers vegna þetta bréf er eitthvað meira mál, ef viðurstaðan er Nei frekar en Já.  Er þetta að mínu mati enn einn hluti af blekkingu stjórnvalda í þessu máli.  Þarna er bréf með óþægilegu efni og nú á að kenna Nei-inu um að svara þurfi bréfinu.  Er það raunar með ólíkindum mikil ósvífni.

Meðan ekki eru öll atkvæði talin, þá er ekkert öruggt, þó vissulega sé staðan góð.  Hér í Kópavogi er maður sem fór inn og féll út af þingi í kosningum 2007, frekar en 2003, endalaust alla kosninganóttina.  Því segi ég að kálið er ekki sopið þó í ausuna sé komið.

Eitt í viðbót sem mér datt í hug:  Þegar ég hlustaði á Jóhönnu og Steingrím, þá skaut þeirri hugsun niður, að kannski væru þau ekkert svo ósátt við að lögunum væri hafnað.  Þetta fannst mér koma fram í því að ríkisstjórnin hefði ákveðið að halda ekki úti kynningu á þessum tveimur kostum, heldur láta grasrótarhópa sjá um það.  Hafi þeim tveimur þótt það svona mikilvægt að þjóðin samþykkti lögin, af hverju héldu þau þá ekki uppi sterkari og öflugri rökum/áróðri/auglýsingum fyrir því að svo yrði?  Ég virði það við þau, að ætla að hafa kynningarefni hlutlaust, en hafi það verið svona mikilvægt fyrir efnahag þjóðarinnar, þá hefðu þau átt að vera meira áberandi.  Út frá þessu, getur þá ekki bara verið að þeim finnist niðurstaðan ekki svo slæm.  Steingrímur talaði ekki sjaldnar um Icesave sem óskapnað (sem er svo sem rétt), en bendir það ekki einmitt til þess að hann hafi hreinlega ekki getað talað fyrir málinu gagnvart almenningi, þó hann hafi leikið hlutverkið vel gagnvart Alþingi.


mbl.is Fleiri segja já í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugsanlega rétt niðurstaða en út frá röngum rökum

Dómur féll í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag um gengisbundið lán sem Glitnir veitti fyrirtækinu Eignageir ehf.  Dómurinn féll stefnanda, Íslandsbanka hf., í hag.

Áður en ég byrja að fjalla um efnisatriði dómsins, vil ég benda á alveg ótrúlega villu sem er að finna í dómnum.   Í upphafi kaflans "Málavextir" segir:

"Hinn 23. júlí 2007 var gerður lánssamningur milli stefnda og Glitnis banka hf., nú Íslandsbanka hf.,.."


Ég vissi ekki til að Glitnir banki hf. væri núna Íslandsbanki hf.  Ég hélt að Glitnir væri ennþá til og Íslandsbanki væri nýtt fyrirtæki, meira að segja nokkurs konar dótturfyrirtæki Glitnis.  Mér finnst allt í lagi að dómari fari með rétt mál í úrskurði sínum og ef fyrsta setningin er röng, hvað ætli hann hafi misskilið fleira?

Í þessu máli skiptir lánsformið mestu máli.  Sum lán voru bara einfaldlega lögleg.  Nú þekki ég þetta mál ekkert utan það sem stendur á vef Héraðsdóms Reykjavíkur, en hef eftir lögfræðingi að lánform Glitnis hafi á ýmsan hátt verið frábrugðin formum hinna bankanna.  Í þessu tilfelli var gefið út tryggingarbréf og því var þinglýst á eignina.

Vissulega bendir allt til þess að hér hafi verið staðið fullkomlega rétt að málum.  Tvennt segir mér þó að svo hafi ekki verið.  Fyrra er að fjárhæð skuldabréfsins er sögð vera jafnvirði kr. 81.000.000.  Hvernig er hægt að tilgreina fjárhæð höfuðstóls í íslenskum krónum og halda því síðan fram að ekki sé um gengistryggingu að ræða?  Ég skil það ekki og mun aldrei skilja það.  Hitt er að lánið var greitt út í íslenskum krónum og greinilegt er að útgreiðslan var gengistryggð.  Fyrra atriðið vísar til þess að útgangspunktur lánveitingarinnar hafi verið íslenskar krónur og eingöngu sé um tæknilega útfærslu að ganga frá skjölum eins og gert var.

Mér finnst dómarinn sýna ótrúlega vanþekkingu á gengistryggðum lánum með orðum sínum:

"Samkvæmt þessu fékk stefndi því lagt inn á reikning sinn 89.784.060 kr. eða rúmum 8 milljónum meira en samningurinn tilgreinir, sem rennir stoðum undir það að um erlent lán sé að ræða."

Útborgun gengistryggðs láns og erlends láns er nákvæmlega eins.  Þetta atriði, sem dómarinn notar sem rök í málflutningi sínum, heldur ekki til að greina á milli þess hvort lánið er gengistryggt eða erlent.

Ekki tekur betra við í næstu setningu:

"Þá er ekki að sjá að lánsfjárhæðirnar séu bundnar gengi hinna erlendu mynta heldur bera þær vexti eins og tilgreindir eru í 3. gr. samningsins."

Einfaldur samanburður dómara á gengistryggðum lánasamningi og þessum hefðu leitt í ljós að 3. gr. samningsins (miðað við það sem greint er frá í dómnum) er nánast alveg eins og vaxtaákvæði gengistryggðra lánasamninga.  Hér verður dómarinn ber af alveg ótrúlegri fáfræði að þetta atriði eitt ætti að vera nóg til þess að Hæstiréttur sendi málið til baka.

Þrátt fyrir þessa tvo stóru annmarka, lýsir dómarinn yfir að samningsákvæði séu "verulega frábrugðin þeim samningsákvæðum sem dómstólar hafa fallist á að skuldbinding sé í raun í íslenskum krónum, en bundin gengi erlendra myndar" (sic)  Datt dómaranum ekki í hug að ástæðan væri að lánaform Glitnis hafa aldrei komið fyrir dóm áður og því ekki fjallað um þau?  En það er nefnilega heila málið.  Aðrir lánasamningar, sem dæmt hefur verið um, eru frá öðrum fjármálafyrirtækjum og hvert fyrirtæki hefur sína útfærslu.  Lánasamningar Glitnis eru raunar mjög frábrugðnir öðrum lánasamningur, segir hæstaréttarlögmaður mér, og hafa menn haft áhyggjur af því að gæti leitt til annarrar niðurstöðu.  Ekki vegna þess að lánin hafi ekki í raun verið gengistryggð heldur vegna þess að dómafordæmi Hæstaréttar vantaði.

Hafi dómarinn átt að tilgreina eitthvert eitt atriði til sönnunar þess að um löglegt erlent lán væri að ræða, þá hefði það verið tryggingabréfið.  En það er ekki gert.

Hugsanlega rataði dómarinn á rétta niðurstöðu, ég ætla ekki að segja til um það án þess að sjá samningsformið, en að mínum mati gerði hann það ekki út frá réttum rökum.


mbl.is Taldi að lánið væri í erlendri mynt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig sem fer tapar þjóðin

Eftir mikla yfirlegu um Icesave samninginn, hvað Já þýðir og hvað Nei þýðir, þá er það mín niðurstaða að hvernig sem fer, þá mun þjóðin tapa.

Ég hef nokkrum sinnum reynt að kryfja inn að beini þau álitamál sem helst virðast vera uppi varðandi Icesave.  Hér ætla ég að nefna nokkur þeirra.

1.  Er ríkissjóði skylt að gangast í ábyrgðir fyrir Tryggingasjóð innstæðueigenda og fjárfesta?

Þessu er svarað á skilmerkilegan hátt í tilskipun ESB 94/19/EC, þar sem segir í  næst síðustu málsgrein inngangskafla tilskipunarinnar:

Whereas this Directive may not result in the Member States' or their competent authorities' being made liable in respect of depositors if they have ensured that one or more schemes guaranteeing deposits or credit institutions themselves and ensuring the compensation or protection of depositors under the conditions prescribed in this Directive have been introduced and officially recognized;

og þýtt er í íslensku útgáfu tilskipunarinnar:

Tilskipun þessi getur ekki gert aðildarríkin eða lögbær yfirvöld þeirra ábyrg gagnvart innstæðueigendum ef þau hafa séð til þess að koma á einu eða fleiri kerfum viðurkenndum af stjórnvöldum sem ábyrgjast innlán eða lánastofnanirnar sjálfar og tryggja að innstæðueigendur fái bætur og tryggingu í samræmi við skilmálana í þessari tilskipun.

Vart er hægt að orða þetta skýrar.  Sé fyrir hendi kerfi til að ábyrgjast innlán, þá verða stjórnvöld ekki gerð ábyrg.

2.  Er fyrir hendi kerfi sem ábyrgist innlán? (Gagnrýni ESA gengur m.a. út á þetta)

Þessu svaraði ég í færslu hér í gær. Niðurstaða mín er að lög nr. 98/1999 uppfylli í öllum meginatriðum ákvæði tilskipunar 94/19/EC.  ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) gerir með jöfnu millibili athugun á frammistöðu stjórnvalda í Noregi, Liechtenstein og á Íslandi varðandi innleiðingu tilskipana sem falla undir EES samninginn.  Í frétt ESA frá 23.9.2002 kemur fram að stofnunin geri athugasemd við innleiðingu Íslands og Liechtenstein á nokkrum tilskipunum.  Ein af þeim tilskipunum sem Liechtenstein er ekki talið hafa innleitt er 94/19/EC, en ekki er minnst á hana gagnvart Íslandi.  Þetta er mjög mikilvægt atriði, þar sem viku áður (16.9.2002) hafði stofnunin líka kvartað við norsk stjórnvöld um að þau hafi ekki innleitt tilskipun 94/19/EC.  Ég get ekki annað en dregið þá ályktun að það hafi verið skoðun ESA, að Ísland hafi innleitt tilskipun 94/19/EC á fullnægjandi hátt á þessum tímapunkti og því hafi stofnunin ekki sent sams konar athugasemd til íslenskra stjórnvalda og stjórnvöld hinna landanna fengu. 

3. Er fyrir hendi greiðsluskylda Tryggingasjóðs innstæðueigenda og fjárfesta?

Á þessu er enginn vafi.  ESA hefur lýst því yfir í Letter of formal notice frá 26.5.2010 að Tryggingasjóðurinn beri ábyrgð á því að greiða breska innstæðutryggingasjóðnum um 2,1 milljarð punda og þeim hollenska 1,35 milljarð evra.  Um þetta er ekki deilt.  Icesave samningaviðræðurnar hafa snúist um það hvernig þessi upphæð skuli greidd til baka.  Samkvæmt tilskipun 94/19/EC og lögum nr. 98/1999 þá hvílir greiðsluskylda á Tryggingasjóði innstæðueigenda og fjárfesta.  Málið er að hann er fjárvana.  Bresk og hollensk stjórnvöld ákváðu hins vegar að taka yfir kröfur innstæðueigenda á hendur íslenska sjóðnum og því eru innstæðueigendur í flestum tilfellum í góðum málum.  Samkvæmt upplýsingum á vef breska innstæðutryggingasjóðsins, þá var Landsbanki Íslands með viðbótartryggingar hjá sjóðnum upp að 35.000 pundum á hver reikning.  Líklegast hefur bankinn verið með sams konar tryggingar í Hollandi, þ.e. upp að 50.000 evrum á hvern reikning.  Stjórnvöld í þessum löndum ákváðu síðan einhliða að hækka þessar tölur við útborgun í 50.000 GBP og 100.000 EUR.  Upphæðir umfram 16.200 GBP og 20.887 EUR eru þó íslenska tryggingasjóðnum óviðkomandi.

4.  Var innstæðueigendum mismunað eftir þjóðerni?

Ekkert bendir til þess að innstæðueigendum hafi verið mismunað eftir þjóðerni.  Allar innstæður voru gerðar að forgangskröfum í bú Landsbanka Íslands óháð þjóðerni.

5.  Var innstæðueigendum mismunað eftir búsetu?

Á þessu leikur enginn vafi.  Það var gert.  Vissulega voru allar innstæður gerðar að forgangskröfum, en síðan skilja leiðir.  Eins og fram kemur í bréfi ESA til íslenskra stjórnvalda og ég hef margoft bent á, þá var innstæðueigendum mismunað á þann hátt að innstæðueigendur á Íslandi hafa haft aðgang að sínum fjármunum óslitið.  Icesave innstæðueigendur í Bretalandi og Hollandi þurftu að bíða í nokkra daga eftir að fá að hámarki 50.000 GBP eða 100.000 EUR eftir því í hvoru landinu þeir lögðu inn.  Umfram þetta hámark hefur ekkert verið greitt út.  Þá hafa fjölmargir aðrir Icesave innstæðueigendur ekki fengið neitt, þar sem þeir falla hvorki undir hollensku trygginguna né þá bresku.  Það fer því ekkert á milli mála að innstæðueigendum var mismunað eftir búsetu.

6.  Hvar liggur greiðsluskyldan?

Þetta er bæði flókið og einfalt.  Í einfaldleika sínum liggur greiðsluskyldan hjá þrotabúi Landsbanka Íslands.  Þangað þurfa a) Tryggingasjóður innstæðueigenda og fjárfesta; b) breski tryggingasjóðurinn; c) hollenski tryggingasjóðurinn; d) aðrir tryggingasjóðir sem greitt hafa út vegna Icesave; e) innstæðueigendur sem engrar tryggingar njóta; og f) innstæðueigendur sem áttu meira en tryggingarvernd var fyrir að leita eftir greiðslu á kröfum sínum. Hver um sig af þessum aðilum hefur líklegast gert kröfu í þrotabú Landsbankans.  Þeir verða núna að bíða eftir því að byrjað verði að greiða út úr búinu. 

7.  Í hvaða röð á Landsbankinn að greiða forgangskröfuhöfum?

Um þetta hefur í mínum huga stirrinn staðið varðandi Icesave-samningana.  Mér hefur alltaf fundist eðlilegt, að hver innstæðureikningur sé meðhöndlaður sem sérstök krafa.  Síðan greiðist jafn mikið inn á hverja kröfu þar til annað tveggja gerist, að allar kröfur eru uppgreiddar eða að sjóðþurrð er orðin.  Þetta þýðir í reynd að fyrst er greitt inn á ábyrgðir Tryggingasjóðs innstæðueigenda. Hann sér síðan um að greiða öðrum tryggingasjóðum það sem þeir hafa greitt til innstæðueigenda fyrir hans hönd og til þeirra innstæðueigenda sem ekki hafa einu sinni fengið lágmarks vernd greidda út.  Næst er greitt inn á það sem eftir stendur af kröfum annarra tryggingasjóða upp að lægstu upphæð sem sjóðirnir hafa tryggt og til ótryggðra innstæðueigenda upp að sama marki.  Síðan er þetta endurtekið þar til allir tryggingasjóðir hafa fengið sitt greitt og ótryggðar innstæður fylgja með.  Síðast eru þær innstæður greiddar út sem eftir standa.

8.  Hvað gerist ef það verður sjóðþurrð?

Eigi Landsbanki Íslands ekki fyrir forgangskröfum, þá vandast málið.  Hér kemur að klúðri FME við stofnun NBI hf.  Þar á bæ hugsuðu menn dæmið greinilega ekki til enda eða voru mjög bjartsýnir varðandi endurheimtur á eignum Landsbankans.  Þetta atriði gæti leitt til ábyrgðar ríkissjóðs á fullri greiðslu Icesave-innstæðna.  FME er nefnilega á ábyrgð ríkisins og mistök FME geta valdið ríkinu skaðabótaskyldu.  Málið er að þetta kemur Icesave-samningnum ekkert við.  Sjóðþurrð getur orðið hvort heldur Icesave-lögin verða samþykkt eða ekki.  Vanti 100 milljarða upp á eignir Landsbankans dugi fyrir öllum innstæðum, þá verða þeir 100 milljarðar að koma úr ríkissjóði.  Svo einfalt er það.  Almenningur mun því þurfa að blæða fyrir mistök FME.  Almenningur mun þurfa að blæða fyrir að innstæður voru greiddar út upp í topp hér innanlands.  Nú verði ekki sjóðþurrð, þá er ríkið samt ekki sloppið.

9.  Eiga erlendir innstæðueigendur kröfu á ríkið?

Já, mér sýnist það.  Þar er ég sammála ESA sem segir að innstæðueigendum hafi verið mismunað, þegar innlendir höfðu órofinn aðgang að öllum innstæðum sínum meðan Icesave-innstæðueigendur hafa sumir ekki ennþá aðgang að sínum peningum.  Þetta atriði snýr að Icesave-samningnum, en líka að aðilum sem eru ekki aðilar að samningnum og kröfum sem eru umfram tryggingar erlendu tryggingasjóðanna.  Ég fæ ekki betur séð en allir þessir aðilar eigi réttmæta kröfu um vexti og geti þrotabú Landsbankans ekki greitt þá vexti endar krafan án efa hjá ríkissjóði.

10.  Hvað þýðir þetta allt gagnvart Icesave-samningnum og lögunum?

Í mínum huga fer ekkert á milli mála að Tryggingasjóður innstæðueigenda og fjárfesta ætti að greiða vexti vegna tafa á útgreiðslu frá sjóðnum.   Á ríkissjóður að ábyrgast þá greiðslu?  Nei, afdráttarlaust ekki.  Eina ástæðan fyrir því að ríkissjóður ætti að ábyrgjast Tryggingasjóðinn væri, ef endurheimtur á eignum Landsbankans dygðu ekki fyrir kröfunum sem sjóðurinn þarf að standa undir.  Slík ábyrgð kæmi auk þess í gegn um eignarhald ríkisins á fjármálafyrirtækjum sem eiga aðild að Tryggingasjóðnum, þar sem það eru aðildarfyrirtækin sem eiga að borga dugi tekjur sjóðsins ekki til, skv. lögum 98/1999.  Ríkisábyrgð í samningnum er því út í hött.  Verði endurgreiðslur úr þrotabúi Landsbankans í þeirri röð sem ég tilgreini í lið 7, þá verður þetta ekkert vandamál.  Það sem Hollendingar greiddu frá 20.887 EUR til 50.000 EUR er og verður aldrei vandamál Íslendingar og sama á við um greiðslu Breta á bilinu 16.200 til 35.000 GBP.  Landsbankinn var tryggður í þessum löndum af viðkomandi tryggingasjóðum.  Það sem er umfram þessar upphæðir gæti lent á ríkissjóði, en kemur samningnum ekkert við.

11.  Er öruggt að ógreiddar innstæður vegna sjóðþurrðar lendi á ríkinu?

Um þetta atriði er mesta óvissan og bréf ESA fjallar í megindráttum um það.  Grundvallarregla í EES samningnum er bann við mismunun eftir búsetu og þjóðerni.  Í þessu tilfelli væri það búsetuákvæðið sem ætti við.  Hér á landi fengu allir allt sitt, en sjóðþurrð gæti leitt til þess að einhverjir tapa hluta innstæðna sinna.  ESA mun örugglega krefjast þess að ríkissjóður bæti upp mismuninn og stjórnvöld munu bera fyrir sig neyðarrétti, þ.e. að höggið á hagkerfið hefði orðið of mikið, ef milljarða tugir eða hundruð hefðu tapast og ekki fengist bætt.  Höfum í huga að þetta atriði kemur Icesave-samningnum ekkert við.

12.  Hverju breyta dómsmál, ef lögunum verður hafnað?

Um hvað ætti slíkt dómsmál að snúast?  A)  Þarf Tryggingasjóðurinn að greiða lágmarkstrygginguna.  B) Vextina sem Tryggingasjóðurinn þarf að greiða Bretum og Hollendingum.  C)  Þarf ríkið að greiða það sem er umfram lágmarkstrygginguna.  D) Bætur til innstæðueigenda sem þurftu að bíða eftir aurunum sínum.  E) Það sem út af stendur dugi eignir Landsbankans ekki fyrir öllum innstæðum.

A.  Ég hef aldrei skilið þetta atriði.  Enginn þeirra hópa sem tekið hafa mestan þátt í umræðunni hefur eitt augnablik efast um skyldu Tryggingasjóðs innstæðueigenda og fjárfesta að standa við lágmarksverndina.  Ég sé í fréttaskýringu RÚV að talað er um að ríkið verið dæmt til að greiða 660 milljarða kr.  Þetta getur aldrei staðist.  Ábyrgðin er Tryggingasjóðsins og hann endurkrefur Landsbankans.  Þessi upphæð er alveg sú sama, hvort heldur Icesave-lögin eru samþykkt eða ekki.  Það er ekki eins og 660 milljarðar bætist við reikninginn.  Reikningurinn verður nákvæmlega sá sami að teknu tilliti til gengisbreytinga.

B.  Mál vegna vaxta til Breta og Hollendinga tapast alveg örugglega, en einnig má bara semja um það beint að Tryggingasjóðurinn greiði umsamda vexti.  Bara án ríkisábyrgðar og aðkomu ríkissjóðs.

C.  Í fréttskýringu RÚV eru menn að velta fyrir sér hvort ríkissjóður þurfi að greiða allt sem Bretar og Hollendingar greiddu út.  Í fyrsta lagi, þá greiðir íslenski tryggingasjóðurinn (með peningum frá Landsbankanum) lágmarkstrygginguna.  Í öðru lagi, þá var Landsbankinn aðili að breska tryggingasjóðnum og líklegast þeim hollenska líka.  Það er því útilokað að íslenska ríkið greiði það sem Landsbankinn var tryggður fyrir í þessum löndum.  Til hvers var þá tryggingin?  Í þriðja lagi, þá tóku Bretar og Hollendingar upp á því hjá sjálfum sér að greiða meira út en tryggingaverndin sagði til um.  Með neyðarlögunum voru innstæður gerðar að forgangskröfum.  Þar með var innstæðueigendum gert hærra undir höfði en ella.  Ef innstæður hefðu verið almennar kröfur, þá hefðu innlendir og erlendir innstæðueigendur tapað mörg hundruð milljörðum, ef ekki hátt í eitt þúsund milljörðum hjá Landsbankanum einum.  Aðgerðir stjórnvalda bættu því stöðu Icesave-innstæðueigenda og eru ástæðan fyrir því að Bretar og Hollendingar greiddu jafn skjótt út til innstæðueigenda og hækkuðu upphæðina umfram það sem verndin hljóðaði upp á.  Ég efast stórlega að það falli dómur, sem segir að ríkissjóður þurfi að greiða ígildi forgangskröfu Breta og Hollendinga í þrotabú Landsbankans sem þessir aðilar ákváðu sjálfir að taka yfir.

D. Tilskipun 94/19/EC tekur á þessu og búast má við að ríkið þurfi að punga út einhverjum peningum.  Þetta kemur Icesave-samningnum bara ekkert við og krafan verður til staðar hvað sem samningnum líður.

E.  Hér er mesta óvissan, en dómsmál vegna þessa verður höfðað sama hvort niðurstaðan er Já eða Nei.

Niðurstaðan

Min niðurstaða úr öllu þessu, er að hvernig sem kosningin fer verða fjölmörg mál óleyst.  Önnur mál sem leysast með því að samþykkja lögin, munu líklegast kosta svipað hvort heldur lögin verða samþykkt eða þeim hafnað.  Eina óvissuatriðið í mínum huga eru vextirnir, en með því að halda kröfuröðinni, eins og ég lýsi í lið 7 að ofan, þá muni það skila sér til baka.

Lee Buchheit kom í Silfur-Egils um daginn.  Því miður sagði hann nánast ekkert sem hönd var á festandi.  Jú, það var eitt.  Hann talaði um að þetta væri áhættugreining.  Þannig er það nú.  Íslendingar eiga að setjast niður og greina áhættuna af hvorri leið fyrir sig.  Út frá þessari greiningu eiga þeir síðan að velja.  Svo vill til að áhættugreining er hluti af minni sérmenntun.  Þegar allt kemur til alls, þá sé ég áhættu í aðeins einum viðbótarþætti verði lögin felld umfram þá sem eru til staðar verði lögin samþykkt.  Vextirnir sem þarf að greiða Bretum og Hollendingum.  Hækki þeir um 2% á ári, þá gerir það 13,2 ma.kr. miðað við 660 ma.kr. skuld.  Á móti kemur að verði kröfuröðin eins og ég lýsi henni í lið 7, þá greiðist þessi upphæð til baka fyrir árslok 2012, jafnvel fyrr. Og það sem meira er, Tryggingasjóðurinn á að greiða þessa vexti.  Þeir verða því að forgangskröfu í bú Landsbankans og fást greiddir með öðrum forgangskröfum.

Mitt áhættumat á þessum lögum er að segja NEI!

Hér eru síðan tenglar á nokkrar eldri færslur:

Skyldur stjórnvalda vegna innstæðutrygginga og neyðarlögin

Icesave - Á að borga og þá hver á að borga?

Sterkustu rökin gegn Icesave

Icesave samningurinn er óefni

 

 

 


mbl.is Aukning um 13 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 35
  • Frá upphafi: 1680016

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband