Bloggfærslur mánaðarins, desember 2011
30.12.2011 | 13:16
Endurbirt færsla: Sparnaður er svo fjárfestar fái ódýrt lánsfé! - Raunverulegt hlutverk lífeyrissjóða er ekki sparnaður
Ég birti þessa færslu 5.10. sl. og í henni lýsi ég hvert sé að mínu mati (á dálítið "brútal" hátt, þ.e. viljandi talað í gífuryrðum) orðið raunverulegt hlutverk lífeyrissjóðanna eða eigum við að segja lífeyrissöfnunar almennings.
Sparnaður er svo fjárfestar fái ódýrt lánsfé! - Raunverulegt hlutverk lífeyrissjóða er ekki sparnaður
Fyrir helgi barst mér póstur frá konu sem sagði farir sínar og mannsins síns ekki sléttar gagnvart lífeyrissjóðnum hans. Hann var með séreignarsparnað hjá tilteknum sjóði og líka lán. Á nokkurra ára tímabili hafði lánið hækkað verulega en séreignarsparnaðurinn óverulega.
Ólafur Margeirsson, doktorsnemi í hagfræði fjallaði um þetta mál á síðunni sinni í færslunni Saga sjóðfélaga. Þar kemst hann að þeirri niðurstöðu að ekkert vit sé í því að greiða í séreignarsjóð og hvetur fólk til að taka út séreignarsparnaðinn sinn. Umfjöllun Ólafs um málið er einfaldlega það góð, að ég hef lítið við það að bæta. Vona ég að sendandinn erfi það ekki við mig, þó ég fjalli ekki beinum orðum um málið hér.
Gunnar Heiðarsson setti athugasemd inn á færslu mína Svör um verðtryggingu, sem ég birti í gærkvöldi, þar sem hann bendir á misvægi milli lántöku og sparnaðar. Munur á 1 m.kr. til 5 ára er á fjórða hundrað þúsund eftir því hver á peningana.
Hvorugt af þessu þarf að koma á óvart. Fjármálakerfið virkar svona. Þá á ég við, að taka peninga ódýrt að láni og lána þá út á hærra verði. Verum ekki svo einföld að halda, að betra sé að eiga peninga á lágum vöxtum í banka og skulda á hærri vöxtum, en að nota sparnaðinn til að greiða niður lán. Hér er sáraeinfalt dæmi: Sé 1 m.kr. á 1% vöxtum á sparisjóðsbók og sami aðili sé með 1 m.kr. lán á 11% vöxtum til 5 ára hjá bankanum sínum, þá er viðkomandi að tapa 250 þús.kr. á lánstímanum. (Meðallánsfjárhæð er 500 þúsund kr. og vaxtamunurinn 50 þúsund á ári eða alls 250 þúsund.) Í þessu tilfelli er hagkvæmast fyrir viðkomandi að nota peningana á sparireikningnum til að greiða upp lánið og leggja vaxtamuninn inn á sparireikninginn.
Raunverulegt hlutverk lífeyrissjóðanna
(Mig langar að vera dálítið brútal núna og setja fram ögrandi mynd á raunverulegu hlutverki lífeyrissjóðanna. Ekki skal líta á það sem á eftir kemur sem alhæfingu og á því sem sagt er, eru að sjálfsögðu undantekningar.)
Lífeyrissjóðakerfið er stærsta hítin. Hvergi tapar almenningur peningum sínum eins hratt og þar. Í hverjum mánuði er greitt fyrir þann sem er með 250.000 kr. í mánaðarlaun 30.000 kr. í lífeyrissjóð. 10.000 kr. koma af launum viðkomandi og 20.000 kr. koma frá atvinnurekandanum og eru ekkert annað en laun, þó við köllum það ekki því nafni. 30.000 kr. á mánuði er 360.000 kr. á ári. Ef í staðinn fyrir að greiða þetta á þennan hátt inn í sjóðina, fengi viðkomandi að nota peninginn til að greiða niður lán sín, þá græðir viðkomandi líklegast 10% af tölunni árlega í lægri vöxtum vegna lánsins síns. Hvers vegna á ég að greiða 12% af launum mínum til lífeyrissjóðsins míns til að geta tekið lán hjá þessum sama lífeyrissjóði á mun hærri vöxtum en ég fæ af peningunum sem hann fékk frá mér? Það er eitthvað stórlega rangt við það.
Tekið skal fram, að ég er ekkert á móti lífeyrissjóðum, en köllum hlutina réttu nafni:
1. Lífeyrissjóðirnir eru til að greiða niður útgjöld ríkisins. Lífeyrisgreiðslur voru fyrir 30 - 40 árum hugsaðar til að bæta kjör aldraðra í ellinni og hag örykja. Í dag eru þær fyrst og fremst niðurgreiðsla á framlagi ríkisins til velferðarkerfisins. Sá sem á mikil réttindi frá lífeyrissjóðnum er lítið bættari en sá sem á nánast engin réttindi eða mjög takmörkuð. Skiptir þá ekki máli hvort viðkomandi býr einn, með maka sínum eða er á vistheimili. Kerfið sem við búum við í dag gengur út á jöfnuð, þannig að allt sem við spöruðum í lífeyrissjóði á starfsævinni umfram manninn í næsta hús er ekki að nýtast okkur nema að mjög takmörkuðu leiti vegna þeirrar tekjujöfnunar sem felst í kerfinu. Nýlega steig fram kona sem var með á fimmta hundrað þúsund í greiðslur úr lífeyrissjóði á mánuði. Hún bjó á sambýli eldri borgara og þangað runnu nær allar tekjur hennar. Hún hafði ekki einu sinni efni á að kaupa jólagjafir handa barnabörnunum. Draumurinn um ferðalög í ellinni var brostinn vegna þess að sambýlið hirti nær allt af henni. Á næsta gangi var kannski einstaklingur sem hafði um 100 þúsund frá lífeyrissjóðnum og hann hafði sömu ráðstöfunartekjur og blessuð konan. Til hvers var konan þá að ávinna sér þessi réttindi og geyma þau í lífeyrissjóði, ef það bætti hag hennar ekkert? Nei, því miður hafa stjórnvöld eyðilagt þann hluta lífeyrissjóðakerfisins sem gekk út á "áhyggjulaust ævikvöld". Núverandi almannatryggingakerfi gengur nefnilega út á að gera hlut allra jafn nöturlegan.
2. Hlutverk lífeyrissjóðanna í dag er að útvega fé til fjárfestinga. Staðreynd málsins er að lífeyrissjóðirnir eru stærstu fjárfestar landsins. Þeir safna lánsfé frá iðgjaldsgreiðendum og þó svo í orði kveðnu þeir eigi að skila góðri ávöxtun, þá standa þær dyr galopnar. Ávöxtunarkrafan er nefnilega tengd afkomu sjóðanna, þannig að endurgreiðsla lánsfjárins fer allt eftir því hvernig fjárfestingastjórar sjóðanna standa sig og síðan efnahagsumhverfinu. Gangi allt á afturfótunum eins og síðustu 4 ár, þá segir framkvæmdastjórinn af sér! Nei, nei, nei. Þá tapar sjóðfélaginn peningunum sínum. Framkvæmdastjóranum líður kannski illa yfir þessu, en hann heldur laununum sínum og bílnum og hinum og þessum fríðindum. Sjóðfélaginn, hann aftur á móti þarf að sætta sig við 20% skerðingu og þaðan af meiri. Nú gangi vel, þá nýtur sjóðfélaginn þess vissulega, en framkvæmdastjórinn er líklegast verðlaunaður. Ánægðastir eru þó fjárfestar, þar sem þeir fá meiri pening til að leika sér með.
Íslensku lífeyrissjóðirnir eru orðnir allt of stórir fyrir Ísland. Fjárfestingageta þeirra stefnir í 2.000 ma.kr. og það þrátt fyrir að hafa tapað fleiri hundruð milljörðum árið 2008. 2.000 ma.kr. er um 30% umfram árlega þjóðarframleiðslu! Bara það eitt er hættumerki.
3. Sjóðfélagar hagnast meira á því að greiða niður lán en eiga peninga í lífeyrissjóðum. Ólafur Margeirsson komst að þessari niðurstöðu í sinni grein og ég er að sumu leiti sammála honum. Eins og staðan er í dag í þjóðfélaginu, þá er skuldlaus maður frjáls maður. Ég á einhverja milljóna tugi inni í mínum lífeyrissjóðum miðað við það sem ég hef greitt inn í þá. Ég hef fengið lán hjá einum þeirra og telst mér til að ég greiði um 5% hærri vexti af láninu, en það sem ég fæ út úr peningum mínum hjá sjóðnum. Ef öll lífeyrisiðgjöld vegna mín hefðu verið greidd inn á reikning, sem ég hefði getað notað í stað lántöku (notkunin háð ströngum skilyrðum), þá væru skuldir mínar brot af því sem þær eru í dag og þar með væri eignarhlutur minn í húsinu mínu mun hærri. Hugsanlega ætti ég það skuldlaust. Við aðrar efnahagsaðstæður gæti staðan snúist við, þ.e. hagkvæmara væri að taka lán og eiga pening í lífeyrissjóði. Þannig var það t.d. á árunum 2004 - 2006 fyrir þá sem tóku gengistryggð lán. Í dag er verið að flá þetta fólk lifandi með okurvöxtum Seðlabanka Íslands.
4. Lífeyrissjóðir geyma framtíðarskatttekjur ríkissjóðs og sveitafélaga. Þetta er líklegast einn mikilvægasti tilgangur lífeyrissjóðanna, þ.e. að taka skatttekjur nútímans og geyma þær til framtíðar. Því miður er ekki víst að þetta reynist ríkissjóði vel. Hafi lífeyrissjóðirnir tapað 4 - 5 hundruð milljörðum vegna hrunsins, þá tapaði ríkið (og sveitafélög) í leiðinni á bilinu 133 - 166 ma.kr. miðað við að þriðjungur upphæðarinnar fari í skatta. Ef ríkissjóður hefði þá reglu að innheimta skatt strax af lífeyrisiðgjöldum og safna honum í varasjóð sem hefði ávaxtast á sama hátt og hjá sjóðunum, þá hefði ríkið (og sveitafélög) átt um 600 ma.kr. í þessum varasjóði í lok september 2008. Sú upphæð hefði örugglega breytt ýmsu varðandi úrræðin sem ríki og sveitafélög hefðu getað gripið til í því skyni að endurreisa efnahagslífið. Spurningin er bara hvort ríkið hefði ekki verið búið að eyða þessum peningum fyrir löngu í einhverja vitleysu.
Ég er þeirrar skoðunar, líkt og margir fleiri, að nauðsynlegt sé að endurskoða framkvæmd lífeyrissparnaðar og opna þar meira fyrir einstaklingsbundinn sparnað. Samtryggingakerfið bólgnar út án þess að halda í við kröfurnar sem ætlast er til að það standi undir. Ólafur Margeirsson hefur sagt kerfið vera Ponzi svikamyllu, þ.e. þeir sem fyrst komast á eftirlaunaaldur fá sitt á kostnað þeirra sem síðar koma og loks þegar kemur að þeim verði ekkert eftir. Staðreyndin er sú, að lífeyrissöfnun almennings hefur að miklu leiti hrakið af leið hins upprunalega tilgangs. Það þarf að leiðrétta.
---
Með því að smella hér má lesa athugsemdirnar sem skrifaðar voru síðast. Eftir að færslan birtist, þá lenti ég í daglöngum tölvupóstsamskiptum við starfsmann eins lífeyrissjóðs, þar sem hann sagði mig ekki skilja kerfið. Þar sem ég hef bara unnið að ráðgjöf fyrir 14 lífeyrissjóði, þá taldi ég mig nú (og tel mig enn) hafa nokkra innsýn í starfsemi sjóðanna. Það sem meira er, að ég kerfisgreindi almannatryggingalögin vegna forritunar hugbúnaðarkerfisins ALMA sem Tryggingastofnun ríkisins notar. Þekki ég því vel hvernig kerfið er byggt upp, þó einstakar breytur og stikur (parametrar) hafi breyst hin síðari ár.
Margir fá ekkert frá TR | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífeyrissjóðir | Breytt 6.12.2013 kl. 00:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.12.2011 | 23:45
Íþróttamaður ársins: Þórir Hergeirsson
Samtök íþróttafréttamanna hafa valið íþróttamann ársins á hverju ári frá 1956 eða alls 55 sinnum. Fyrir dyrum stendur að velja íþróttamann ársins í 56. sinn á næstu dögum. Úr einstaklega vöndu er að ráða fyrir íþróttafréttamenn, þar sem enginn karlíþróttamaður hefur staðið sig afburðarvel. Heiðar Helguson er sá sem best hefur staðið sig af boltastrákunum og því er líklegt að hann verði fyrir valinu.
Hjá kvenþjóðinni er um fleiri góða kosti að ræða, en samt enginn sem hefur staðið upp úr. Anna Úrsúla Guðmundsdóttir er þó sú sem mér sýnist að hafa vinninginn, m.a. vegna frammistöðu sinnar á HM í Brasilíu. Nokkrar af fótboltastelpununm hafa einnig staðið sig vel og þar finnst mér Þóra Helgadóttir vera fremst meðal jafningja.
Meðal íþróttamannanna finnst mér valið því standa á milli þessara þriggja og kannski gerist það að handknattleikskona hljóti verðlaunin í annað sinn. Með fullri virðingu fyrir afreki Heiðar Helgusonar, þá eru nokkrar konur sem staðið hafa sig betur en hann á árinu og væri það dæmigerð óvirðing íþróttafréttamanna að velja þann karl, sem staðið hefur sig best í fótbolta, þegar kvennalandsliðin bæði í handbolta og fótbolta hafa staðið sig frábærlega á árinu. Svo má náttúrulega ekki gleyma ýmsum sem ekki komast á blað meðal topp 10 vegna þess að þeir leika sér ekki með bolta.
Sá íþróttamaður sem ég tel að eigi að fá titilinn er ekki kjörgengur. Þá á ég við Þóri Hergeirsson, Selfyssinginn knáa, sem gerði norsku stelpurnar að heimsmeisturum á HM í Brasilíu. Ekkert fer á milli mála, að afrek Þóris er með þeim bestu og mestu sem íslenskur afrekstíþróttamaður getur státað af. Ef einhver ætlar að segja að Þórir sé ekki afreksíþróttamaður, þá tel ég þann hinn sama vera með fordóma gagnvart starfi þjálfans. Þjálfarinn er mikilvægast einstaklingurinn í hverju keppnisliði. Hans hlutverk er að raða púslunum saman, samræma snúning tannhjólanna, smyrja legurnar, stilla klukkuverkið. Margir íslenskir þjálfarar hafa sýnt það og sannað, að fáir standast þeim snúningin hvað þetta varðar. Þórir Hergeirsson hefur náð lengst þeirra allra og gert lið í hópíþrótt að heimsmeisturum. Þess vegna er hann íþróttamaður ársins að mínu áliti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.12.2011 | 03:46
Glæsilegir viðskiptahættir nýrra banka eða hitt þó heldur
Sveinbjörnn Sveinsson setti færslu inn á vegginn hjá Lilju Mósesdóttur sl. þriðjudag 27. desember. Mér finnst að þetta innlegg hans verði að fá betri umfjöllun og krefjist raunar rannsóknar, því sé þetta rétt sem hann heldur fram í innleggi sínu, þá er hér einfaldlega um þá mestu svívirðu að ræða sem um getur. Ekki að þetta komi mér neitt á óvart, þar sem ég hef margoft bent á að þetta gæti gerst, en ég hélt að nýju bankarnir væru að meina það, þegar þeir segjast vera að reyna að leysa mál skuldugra viðskiptavina með sanngirni, réttlæti og jafnræði í huga. En fyrst er það færslan hans Sveinbjörns. (Ég tek það fram að ég hef leyft mér að laga aðeins ásláttarvillu og bætt inn orðum sem greinilega vantar.)
Ég gerði könnun og bauð í nokkrar eignir til að sjá hver viðbrögð bankanna yrðu . Þeir eru til búnir að semja við nýjan kaupanda; ekki skuldarann.
Dæmi 1: hjón í vinnu, tóku erl lán. Mat á húsi var 35 miljónir og þau skulduðu 33. Ásett nú 29 og bankinn til í að fara niður í 25 og halda frystingar eiginleikum. 115,000 í byrjunar afborganir og svo bæta 3 árum eftir á að 40 árum liðnum. En þeir eru ekki til í að semja við eigandann sem er búin að eyða öllum sparimerkjum og séreignarsjóðum + miklu hærri afborgana frá 1/1 2008 .
Dæmi 2: hjón í vinnu skulda 30 mil og sams konar hús á 30 milljónir en þeir eru til í að láta nýjan eiganda hafa það á 20 mil og henda fyrri eigendum á götuna. Sem sagt hreinn þjófnaður af fyrri eigendum, sem gætu ef þeir fengju leiðréttingu aftur í tímann (1/1 2008 og þar með eins og yfir 30 % skuldara) komið sínum málum á hreint, en NEI..
Ég er viss um að þessi dæmi Sveinbjörns eru ekki þau einu. Ég er líka viss um að bankarnir telji sig ekki skuldbundna til að ganga til samninga við núverandi/fyrri eigendur. Þetta er samt svívirða og ekkert annað.
Forkaupsréttur núverandi/fyrri eigenda
Ég hef nokkrum sinnum gert tillögu að því, að sett verði lög sem tryggja einstaklingi í skuldavanda forkaupsrétt að húsnæði sem fjármálafyrirtæki tekur yfir eða lætur bjóða upp. Slíkur forkaupsréttur gildir þar til húsnæðið er keypt af eiganda, sem ætlar að búa í húsnæðinu eða ætlar sannanlega að setja það á leigu. Margt mun vinnast með slíku fyrirkomulagi. Í fyrsta lagi, þá verður tryggt að sá sem missir húsnæði sitt á nauðungarsölu fá annað hvort sanngjarnt verð fyrir húsnæðið eða geti gengið inn í fáránlega lágt uppboðsverð. Í öðru lagi kemur það í veg fyrir að fjármálafyrirtæki hirði eign af viðskiptavini sínum til að koma henni í hendur vildarvinar. Ég hef heyrt af því að húsnæði hafi verið tekið af fólki eftir pöntun, þó ég hafi ekki staðfest dæmi enda erfitt að sanna slíkt hátterni. Tekið skal fram að fleiri en einn aðili hefur haft samband við mig út af grun um að hafa misst hús sitt um slíkum kringumstæðum. Í þriðja lagi, kemur það í veg fyrir að fjármálafyrirtækin mismuni fólki, þ.e. líkt og Sveinbjörn lýsir, er tilbúið að selja þriðja aðila húsnæði á 10 m.kr. lægra verði en hann krefur núverandi eigendur um að greiða. Í fjórða lagi, eykur þetta líkurnar á því að fólk haldi húsnæði sínu.
Siðasáttamálar og fagurgali virðast blekkingar einar
Ef Sveinbjörn fer rétt með, sem ég efast ekki um, þá er ljóst að fagurgali og siðasáttmálar eru blekkingar einar. Fjármálafyrirtækin hafa ekki áhuga á að ná sátt. Þau hafa eingöngu áhuga á að níðast á fólki eins lengi og mögulegt er. Eins og Sveinbjörn bendir á, þá er fólk búið að reyna að standa í skilum. Sparnaðurinn búinn, séreignarsparnaðurinn búinn, allt aukalegt hefur verið selt á brunaútsölu, en nei bankinn vill meira. Hann er nefnilega búinn að reikna út að hægt er að fá meira með þessum hætti. Hann tapar engu, þar sem hann heldur áfram að rukka fyrri eigandann eins lengi og mögulegt er.
Satt best að segja, þá fæ ég æluna upp í háls í hvert sinn sem ég les svona færslur. Halda menn virkilega að núverandi bankar séu stikk-frí frá því sem gerðist fyrir hrun? Þeir eru í eigu skilanefnda og/eða slitastjórna gömlu bankanna og þar með eru þeir skilgetin afkvæmi villinganna sem settu Ísland á hausinn. Stór hluti af því sem nýju bankarnir eiga er afrakstur af lögbrotum, markaðsmisnotkun, vanhæfi, svikum, blekkingum, prettum og hvað það nú er sem kallað var bankastarfsemi hér á landi á árinum 2003 - 2008. Hluti af því sem nýju bankarnir eru að reyna að kreista út úr viðskiptavinum sínum, er því illa fengið fé. Þýfi og ekkert annað. En svo merkilega vill til, að sé þjófnaður stundaður í nafni fjármálafyrirtækja, þá virðist hann vera löglegur. Ef mér dytti í hug að gera 1/10 af því sem bankarnir gerðu fyrir hrun, þá væri fyrir löngu búið að senda á mig sérsveitina, en, nei, vegna þess að svo kallaðir bankamenn stóðu fyrir gjörningnum, þá leggja stjórnvöld sig í líma við að hjálpa nýju fjármálafyrirtækjunum að innheimta hið illa fengna fé.
Blekkingar á blekkingar ofan
Verst finnst mér í þessu öllu eru þær blekkingar sem fjármálafyrirtækin virðast ennþá beita varðandi endurútreikninga á áður gengistryggðum lánum. Mjög margir aðilar hafa snúið sér til mín og ekki sagt farir sínar sléttar. Þeim eru boðnir endurútreikningar sem eiga að vera svo ofboðslega hagstæðir, en í ljós kemur að mjög oft eykst greiðslubyrðin verulega við endurútreikninginn! Svo heldur fjármálafyrirtækið því fram að það sé að gefa eitthvað eftir.
Hvernig getur fjármálafyrirtækið verið að gefa eftir, þegar greiðslan sem það fær er hærri en áður en lánið var náðarsamlegast endurreiknað? Hvernig get ég sem lántaki verið betur settur með því að greiða meira mánaðarlega, en ég gerði áður? Sá sem getur skýrt þetta út fyrir mér, þannig að ég fallist á útskýringuna, ætti næst að taka að sér að miðla málum milli gyðinga og palestínumanna.
Lánamál | Breytt 6.12.2013 kl. 00:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
22.12.2011 | 23:43
Hóphugsun
Jón Trausti Reynisson skrifar góðan leiðara í DV um hóphugsun og rekur að mörgu leiti hrunið til hennar.
Hóphugsun heitir á ensku Groupthink. Hugtakið hefur líka verið þýtt á íslensku sem hjarðhegðun, enda má segja að hópurinn sem fellur í gildru hóphugsunar einblíni meira á samstöðu hópsins, en það sem kemur honum og heildinni í raun vel.
Fyrir 20 árum hélt ég námskeið um markvissari ákvörðunartöku, þar sem ég kynnti 10 ákvörðunargildrur sem samkvæmt rannsóknum eru helstu ástæður fyrir því að ákvarðanir bregðast. Ein af þessum gildrum er hóphugsunin. Námskeiðið var m.a. byggt á bókinni Decision Traps, sem ég þýddi gróflega og gaf heitið Ákvörðunargildrur: Tíu hindranir á leiðinni til markvissari ákvörðunartöku og hvernig má sneiða hjá þeim. Langar mig hér að rifja upp hluta af efni 7. kafla námsefnisins.
Hópákvörðun
Herramenn, ég tek það sem svo að við séum sammála um þess ákvörðun...Því legg ég til, að við frestum frekari umræðu um þetta mál þar til á næsta fundi til að gefa okkur tíma til að koma upp með ágreiningsefni og kannski öðlast meiri skilning á því um það ákvörðunin snýst. - Alfred P. Sloan, yngri
Margt fólk leitar einfaldrar lausnar á óvissum við ákvörðunartöku: Það fær fleira fólk til liðs við sig, vegna þess að það heldur, að með því að láta marga góða heila vinna saman komi örugglega góð ákvörðun.
Því miður er þetta rangt. Það skiptir ekki máli hversu velgefnir meðlimir hópanna eru, hóparnir verða ekki ofurmannlegir. Hópar standa sig eingöngu betur en einstaklingar að því marki að ágreiningur verði milli meðlima, sem þeir geta leyst sín á milli með rökræðum og nákvæmari upplýsingaöflun. Þegar slíkt gerist, er líklegt að hópur skilji viðfangsefnið betur en einstaklingur og komi með viturlegri niðurstöðu. Þegar það gerist ekki, eru hópar jafn líklegir til að gera mistök og einstaklingar, ef ekki líklegri.
Hvers vegna bregðast hópar?
Hópar af velgefnu fólki er oft illa stjórnað. Meðlimir sættast oft í fljótfærni á ranga lausn. Síðan gefur hver öðrum svörun, sem lætur hópinn halda að hann hafi valið rétt. Meðlimir letja hver annan til að skoða veiku hliðarnar í vinnu þeirra. Eða að hópar skipast í andstæðar fylkingar, sem gerir rökrétta og samstillta ákvörðunartöku/niðurstöðu alveg vonlausa.
Irving Janis setti fram í bók sinni Groupthink ýmsar kenningar um það hvers vegna hópar bregðast. Hann rannsakaði fjöldann allan af hópákvörðununum og komst að því, að þær áttu ýmsa sameiginlega þætti, sem virtust saklausir í upphafi, en höfðu ógnvænlegar afleiðingar í för með sér. Þessir voru helstir:
- Samstaða. Meðlimir þekktu og kunnu vel hver við annan og vildu halda einingu innan hópsins.
- Einangrun. Hópar voru oft að taka ákvarðanir í það mikilli leynd, að ekki var hægt að bera ákvörðunina undir óháða aðila.
- Mikið álag. Mikilvægi ákvörðunarinnar, hve margbrotin hún var og þröng tímamörk settu mikinn þrýsting á hópinn.
- Sterkur leiðandi stjórnandi. Formaður hópsins gerði öllum ljóst strax í upphafi hvaða niðurstöðu hann/hún var fylgjandi.
Allir þessi þættir vinna saman við að mynda "hóphugsun". Samstaða, einangrun og mikið álag gera það venjulega að verkum að hópar komast að niðurstöðu of fljótt, oft með því að styðja það sem formaður hópsins lagði fyrst til. Hóparnir beina síðan athyglinni nær eingöngu að upplýsingum, sem styðja skoðanir þeirra. "Við erum búin að negla það niður", mundu nefndarmenn síðan segja hver við annan.
Hóphugsun verður til þess, að annars vel hæfir einstaklingar, gera glapparskot. Janis telur að hóphugsun sýni eftirfarandi einkenni:
- sjálfsritskoðun hópsins sem forðast að tala gegn meirihlutaáliti af ótta við að gert verði grín að þeim eða vegna þess að þeir vilja ekki að tími hópsins fari til ónýtis,
- þrýstingur settur á fólk innan hópsins, sem er ósammála áliti meirihlutans,
- blekking um styrk, sem er mjög algengur, þegar stór aðili ætlar að ráðskast með þann, sem talinn er minnimáttar,
- villandi og einhæft álit á fólki utan hópsins, sbr. að hægri menn setji alla vinstri menn undir sama hatt og öfugt.
Í öllum tilfellum leiðir hóphugsun til þess að of fáir möguleikar eru skoðaðir og of fá markmið tekin inn í myndina. Fyrsta afmörkun viðfangsefnisins eða möguleiki, sem sett er fram, er jafnframt hrint í framkvæmd án tillits til þess hvort það er gott eða slæmt. Upplýsingaöflun er einhliða, sérstaklega varðandi hættuna, sem felst í fyrirfram mynduðum skoðunum hópsins. (Ákvörðunartakar klikka oft í því að kynna sér t.d. skýrslur sem draga fram villur í lykilforsendum þeirra.)
Jafnvel þó hópur verði ekki hóphugsun algjörlega að bráð, þá líða flestar hópákvarðanir fyrir það, að fólk hneigist frekar að normi hópsins, en að segja álit sitt beint út. Hópar virðast þurfa einhvers konar staðfestingar til að virka.
Ef löngunin til að þóknast öðrum getur breytt einföldu mati, þá er ekki óeðlilegt að hægt sé að hafa áhrif á skoðanir fólks í flóknari málum. Kenningin er að betur sjá augu en auga, en hefur oft þannig áhrif hvert á annað, að það kemur í veg fyrir að sjálfstæðar skoðanir séu settar fram.
Hvernig á að stjórna ákvörðunartöku innan hóps
(Hingað til hefur færslan verið nánast orðrétt upp úr ritinu, en þar sem full langt mál er að fjalla um allt efni 7. kafla, ætla ég að stikla á stóru.)
Rétt mótun viðfangsefnis er gríðarlega mikilvægur þáttur. Japanir segja að 70% verkefnavinnu fari í að komast að sameiginlegri niðurstöðu um afmörkun viðfangsefnisins. Hópur sem afmarkar viðfangsefni sitt á rangan hátt, á mjög erfitt með að snúa til baka á byrjunarreit. Menn halda frekar áfram í vitleysunni, en að viðurkenna mistök og byrja með hreint borð. Hópurinn þarf því að feta þá þröngu slóð að forðast að allir fari sömu leið að ákvörðuninni en um leið komi í veg fyrir að hópurinn klofni eða innan hans myndist falskt sjálfsöryggi. Með þessu er verið að segja, að mikilvægt sé að allir meðlimir hópsins séu virkir. Svo það gangi upp, þá verður stjórnandi hópsins að sitja á sínum skoðunum, óska eftir nýjum hugmyndum og gagnrýni og tryggja að hópurinn hlusti á skoðanir minnihlutans. Þar sem ég hef tekið að mér að stjórna hópstarfi, þá hef ég það fyrir sið að láta lægst setta/veikasta/yngsta einstaklinginn tjá sig fyrst og svo koll af kolli upp stigann. Þannig geta allir sagt sína skoðun án þess að þurfa að hafa áhyggjur af því hvort hún stangist á við þegar framsettar skoðanir yfirmanns.
Í stuttu máli má segja að gott hópákvörðunarferli byggi á eftirfarandi:
- Að afmarka viðfangsefnið
- Virkja allan hópinn í gagnasöfnun
- Mynda hæfilegan ágreining um hugmyndir
- Tryggja að hópurinn sé mislitur - mislitur hópur skapar frekar ágreining
- Koma í veg fyrir ótímabært samkomulag
- Tryggja að gagnkvæm virðing haldist innan hópsins - að vera gagnrýnið á hugmyndir, ekki einstaklinga
Heimspeki | Breytt 6.12.2013 kl. 00:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
22.12.2011 | 15:10
Lög sem ekki er hægt að framfylgja - Önnur leið að skattleggja erlenda kortanotkun
Ég skil vel að ríkissjóður vilji ná í viðbótarkrónur í kassann og sjái tækifæri í þeirri verslun sem fer um netið. Við lagasetningu er þó mikilvægt að hægt sé að framfylgja lögunum. Samkvæmt lögunum, sem vísar er til í frétt Morgunblaðsins, þá skal
aðili með heimilisfesti eða fasta starfsstöð erlendis sem selur rafrænt afhenta þjónustu skv. d-lið 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. til aðila sem er ekki skráður skv. 5. gr. og er heimilisfastur eða með fasta starfsstöð hér á landi innheimta og skila virðisaukaskatti af þeirri þjónustu hér á landi. Þjónusta þessi telst ávallt nýtt þar sem kaupandi þjónustunnar hefur búsetu eða starfsstöð. Seljandi skal ótilkvaddur tilkynna starfsemi sína rafrænt á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður. Aðilar sem selja rafrænt afhenta þjónustu fyrir 1.000.000 kr. eða minna á hverju 12 mánaða tímabili skulu undanþegnir skattskyldu.
Ég segi nú bara: Hvaða snillingi datt í hug að setja þetta í lög?
Samkvæmt þessum texta skal erlendur aðili sem selur þjónustu eða vöru á netinu: a) hafa fullkomna þekkingu á íslenskum lögum; b) sýna frumkvæði að því að fara eftir lögunum; c) fylgjast með og gera áætlanir um sölu til Íslands og skrá sig ef ljóst er að sala fari yfir 1.000.000 kr.
Mér sýnist þessi lög gjörsamlega óframfylgjanleg með þeim hætti sem löggjafinn ætlast til. Bara a)-liður hér að ofan er "show stopper". Hvað ætli það séu margir erlendir netsöluaðilar sem hafa minnstu hugmynd um íslensk lög? Ég efast um að þeir séu fleiri en tveir. Hvernig eiga menn sem ekki vita af lögunum að geta haft frumkvæði af því að fara eftir þeim? Og þó svo væri, væru ekki bara nokkrar líkur á því að menn lokuðu frekar fyrir viðskipti við Ísland, en að standa í svona óþægindum. Loks er það þetta með 1 m.kr. á 12 mánaða tímabili. Er það í samræmi við gengi krónunnar á viðskiptadegi eða skal miðað við dagsgengi?
Ég átta mig á því að margar netverslanir krefjast virðisaukaskatts af því sem keypt er. Málið er að þá er eingöngu um að ræða viðskipti við aðila innan stórra landa eða ESB. Kannski er þetta sem koma skal, en mér finnst það vera ótrúleg tilætlunarsemi að netsöluaðilar þekki íslensk lög.
Hverju skilar þetta og er til önnur leið?
Er von að spurt sé. Friðrik Skúlason, alias Púkinn, er með færslu við frétt Morgunblaðsins, þar sem hann er með vangaveltur um hverju lögin skili. Gagnvart virðisaukaskattskyldum aðilum, þá breytir þetta nákvæmlega engu. Allur virðisaukaskattur sem slíkur aðili greiðir kemur til lækkunar á þeim skatti sem hann þarf síðan að greiða til ríkisins. Þannig að áhrifin eru 0 kr. Þá er eftir netverslun einstaklinga þar sem vara er afhent rafrænt. Hún er talsverð, en ég efast um að hún sé hálfdrættingur á við einn mánuð í innkaupum í Boston, Kaupmannahöfn eða London. Svo má velta fyrir sér hvort verið sé að mismuna fólki.
Sá sem kaupir flugmiða til útlanda má samkvæmt reglum koma með varning fyrir nokkra tugi þúsunda til landsins án þess að greiða af varningnum virðisaukaskatt eða tolla. Af hverju ætti þá ekki sama skattfrelsi að gilda fyrir þá sem versla á netinu og hlaða henni niður? Af hverju á viðkomandi að þurfa að greiða heilan helling fyrir flugmiða og gistingu (eða nota vildarpuntkana) til þess að njóta fríðinda á borð við skattfrelsins á innkaupum? Hluta þeirrar vöru sem afhent er rafrænt, er jú líka hægt að fá sem hilluvöru. Fyrir utan að mjög algengt er að fólk kaupi vöru á netinu, láti senda á heimilisfang/hótel þar sem einhvert "burðardýr" tekur við vörunni og "burðardýrið" flytur vöruna skatt- og tollfrjálsa inn í landið. (Ég átta mig á því að lögin taka til vöru sem afhent er rafrænt, en mér finnst nauðsynlegt að skoða þetta í stærra samhengi.)
Spurningin er hvort það standist jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, að sumir geti flutt allt sem þeir vilja til landsins, vegna þess að þeir hafa efni á því að ferðast, en hinir séu krafðir um virðisaukaskatt, afgreiðslugjald, tolla, aðflutningsgjöld og hvað þetta nú allt heitir, bara af því að þeim annað hvort fannst ekkert vit í því að ferðast til útlanda til að kaupa vöruna eða höfðu ekki efni á því.
Öll þessi viðskipti eru greidd með greiðslukortum. Ég myndi halda að einfaldasta leiðin væri að leggja bara skatt á erlenda notkun greiðslukorta. Vissulega er hluti þeirrar notkunar útgjöld greidd erlendis, en það mætti leysa með því að hafa þennan skatt 10% í staðinn fyrir 25,5%. Slík skattheimta væri mjög einföld, þar sem kortafyrirtækin/fjármálafyrirtækin vita upp á hár hve mikið kortin eru notuð. Námsmenn og þeir sem búsettir eru erlendis, en nota íslensk kort, þyrftu að tilkynna slíkt til bankans síns sem undanþægi þá þau kort (samkvæmt reglum þar um) þessum skatti.
Þetta er í mínum huga einföld, skilvirk og réttlát leið. Allir sitja við sama borð, en það fer ekki eftir efnahag fólks eða aðstæðum hvort það nýtur skattfríðinda eða ekki. Gagnvart fyrirtækjum breytir þetta engu, þar sem innskattur vegna þessa dregst frá útskatti og nettóáhrif eru núll. Gagnvart einstaklingum, þá hækka vörurnar sem keyptar voru á netinu eða í Boston um 10%, en fólk er samt að gera kjarakaup. Munurinn á verði hér á landi og í útlöndum verður minni, þannig að hluti verslunarinnar færist hingað til lands, kaupmönnum til mikillar ánægju. Skattmann fær sitt, þannig að allir lifa hamingjusamir upp frá því. Nú þeir sem telja skattinn vera of háan, þ.e. verið er að leggja skatt á erlenda neyslu, en ekki innkaup, sækja um endurgreiðslu reglum þar að lútandi.
Óhjákvæmilegt að breyta
Verslun á Íslandi líður mjög mikið fyrir verlsunarferðir til útlanda og á netinu. Um þessar mundir virðist þetta vera sérstaklega áberandi hvað varðar snyrtivörur og svo allt sem hægt að hlaða niður, þ.e. leiki, myndir og rafbækur. Ekkert nýtt er í því, að Íslendingar versli mikið í útlöndum, en aldrei áður hefur verið eins auðvelt að fylgjast með því í gegn um framkvæmd Seðlabankans á lögum um gjaldeyrishöftin. Nú er það, samkvæmt túlkun SÍ á lögunum, hreinlega hlutverk bankans að fylgjast með notkun greiðslukorta erlendis.
En aftur að óhjákvæmilegum breytingum. Verslun í landinu er sum hver í dauðateygjunum. Ekki einu sinni jólaverslunin bjargar henni. Myndast hefur vítahringur. Innlendir kaupmenn verða sífellt að hækka álagningu sína, þar sem minni innanlands verslun almennings stendur ekki undir rekstri fyrirtækjanna. Þetta verður til þess að hagkvæmara og hagkvæmara verður að fara í verslunarferðir til útlanda. Heimsókn í H&M, Target eða Viktoriu Secret, að maður tali ekki um í snyrtivörudeild stórverslunar, er nóg til að ferðin borgi sig og gott betur. Hjón með ungabarn fá ferðakostnaðinn allan til baka í verðmuninu á kerru undir barnið. Verslun erlendis dregur enn frekar úr innanlands verslun sem verður til þess að álagning þarf að hækkar og vítahringurinn styrkist frekar en hitt.
Meira og minna allt, sem verslað er í utanlandsferðum, rennur í gegn um græna hliðið í Leifsstöð. Örugglega væri hægt að stoppa nánast hvern einasta farþega sem er að koma úr verslunarferð hvort heldur til Glasgow eða Boston og rukka við komandi um háar upphæðir í tolla, virðisaukaskatt og sekta fyrir tilraun til smygls. Málið er að það er ekki gert og vonandi munu íslensk stjórnvöld aldrei grípa til slíkra aðgerða. Þetta er nefnilega hluti af sjálfsbjargarviðleitni landans. Vöruverð hér á landi eru óhemju hátt bæði vegna aðstæðna sem við ráðum ekkert við, þ.e. fámennis þjóðarinnar og að við erum úti í miðju ballarhafi, og vegna þess að hvergi á byggðu bóli eru neysluskattar hærri. Þetta atriði hækkar vöruverð strax um tugi prósenta umfram það sem kaupmaður í Bretlandi eða Bandaríkjunum þarf að greiða fyrir vöruna komna að húshlið. Ofan á þetta háa kostnaðarverð kemur síðan álagning kaupmannsins og virðisaukaskatturinn af álagningunni.
Eitthvað náttúrulögmál virðist ráða því, að álagning á smávöru (er raunar stór og smá) er mjög há hér á landi. Eins og kaupmenn miði álagninguna við að fá eðlilega álagningu af vörunni, þegar hún er kominn á tilboð eða útsölu. Þetta verður til þess, að fólk bíður eftir tilboðsdögum. Svo kallaðir "tax free" dagar Hagkaups eru t.d. búnir að rústa sölu á ýmisri sérvöru, þar sem fólk bíður með að kaupa vöruna, þar til næstu "tax free" dagar eru. Afslátturinn, sem er 20%, breytir miklu fyrir mjög marga og ræður því hvort snyrtivörur eru endurnýjaðar, skór keyptir eða peysa á barnið. En "tax free" dagar Hagkaups er ekki bara að eyðileggja fyrir fyrirtækinu sjálfu, heldur líka öðrum sérvöruverslunum. Af hverju að kaupa ilmvatn í Debenhams, þegar hægt er að fá það með 20% afslætti á "tax free" dögum í Hagkaup á næstu tveimur mánuðum? Ef þörfin er mikil, þá er alltaf hægt að sníkja prufu!
Er gerlegt að lækka vöruverð hér á landi það mikið að verslunarferðir leggist af? Ég efast um það. Er þá hægt að jafna stöðuna? Auðvitað er það hægt, en spurningin er hvort viljinn sé fyrir hendi.
Virðisaukaskattur á netinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
21.12.2011 | 16:09
Bankarnir forðast úrskurði í óþægilegum málum - My way or no way!
Á nokkrum vikum hafa þrjú mál, sem voru fyrir Hæstarétti, endað með án endanlegs úrskurðar. Fyrsta er að nefna mál Arion banka gegn Sjómannafélagi Íslands, en samið var um það mál áður en dómsniðurstaða fékkst. Hin tvö málin eru bæði mál sem bankarnir unnu í héraði, en sáu fram á að ekki bara tapa í Hæstarétti, heldur hefði reynt í báðum málunum á lögmæti laga nr. 151/2010.
Arion banki gegn Sjómannafélagi Íslands
Dómur í máli E-5215/2010 Arion banka gegn Sjómannafélagi Íslands (SfÍ) var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur 18. febrúar sl. Málið snerist um kröfu SfÍ um endurgreiðslu á ofgreiðslu vegna áður gengistryggðs fasteignaláns. SfÍ vildi að Arion banki endurgreiddi alla ofgreiðsluna, en Arion banki bar fyrir sig þá áhugaverðu málsvörn að hann hefði ekki eignast lánið fyrr en 10. janúar 2010 og væri því ekki aðili að þeim hluta kröfu SfÍ sem væri vegna ofgreiðslu fyrir þann tíma! Nú héraðsdómur féllst á þessi rök bankans og sagði SfÍ að félagið yrði að sækja annað til fyrri kröfueigenda, þ.e. Seðlabanka Íslands og Kaupþings.
Ég fjallaði um þetta mál í færslunni Dæmt að Arion banki eigi ekki aðild að hluta máls - Skaut bankinn sig í fótinn? og lýsti þar þeirri skoðun minni, eins og fyrirsögnin bendir til, að bankinn hafi með málsvörn sinni leikið herfilega af sér og gert öðrum nýjum kröfueigendum mikinn óleik. Ljóst er að menn innan Arion banka hafa áttað sig á alvarleikanum, þegar nær dró málflutning í Hæstarétti. Líklegast þykir mér að vinir þeirra í hinum bönkunum hafi hringt í þá og sagt þeim að semja, því Hæstiréttur mætti alls ekki staðfesta niðurstöðu héraðsdóms. Að minnsta kosti varð niðurstaðan sú að SfÍ og Arion banki sömdu utan dómstóla og málið var dregið til baka.
Ég segi bara:
Hafi sjómenn samið um eitthvað annað en fulla endurgreiðslu og síðan niðurfellingu eftirstöðva, þá sömdu þeir af sér.
Varðmæti samningsins fyrir Arion banka var nefnilega upp á margfalt hækki upphæð, en lánið sem var í húfi. Með því að semja utan dómstóla fékkst ekki mikilvægt dómafordæmi og Arion banki ásamt bestu vinum hans Íslandsbanka og Landsbankanum geta haldið áfram að sækja að landsmönnum í krafti þess að ekki sé kominn fordæmisgefandi dómur.
Ég hef ásamt mörgum öðrum hafnað aðild nýju bankanna að endurútreiknuðum vöxtum vegna þess tíma þegar lánin voru í eigu hrunbankanna. (Fyrir utan að ég hafna að yfir höfuð megi gera kröfu á mig aftur í tímann.) Varð ég því ákaflega ánægður með niðurstöður héraðsdóms í máli E-5215/2010, þar sem þar var fallist í öllu á þau rök sem ég hef sett fram. Sjómannafélag Íslands hafði tækifæri til að koma almenningi til varnar með því að fá efnislega niðurstöðu, en þeir guggnuðu þegar mest á reyndi. Er þetta því miður dæmigert fyrir samtök launafólks í landinu að Vilhjálmi Birgissyni undanskyldum.
Íslandsbanki gegn Ólafi og Áslaugu/Arion banki gegn Birni Þorra og Karli
Hér eru tvö mál (E-260-2010 og E-450/2009), þar sem bankarnir unnu sigur í héraði. Báðir héraðsdómarnir eru ákaflega áhugaverð lesning og væri hægt að skrifa langa pistla um ýmislegt sem þar kemur fram. Niðurstaða beggja var að lánin væru lögleg gengistryggð lán, að ekki hefði orðið forsendubrestur og að lántakar hefðu engan rétt vegna athafna bankanna fyrir hrun. Sem sagt báðir dómarar virtust telja bankamenn vera svo heilaga að þeir hljóta að ganga á vatni.
Áhugaverðast er þó að báðir dómarar lögðu sig í líma við að segja viðkomandi lán ekki falla undir fordæmi Hæstaréttar í málum nr. 92/2010 og 153/2010, gengislánadómum Hæstaréttar frá 16/6/2010. Ég veit ekki hvort það var Björn Þorri sem fór svona í taugarnar á dómurunum eða eitthvað annað, en það hlýtur að hafa verið óþægilegt fyrir þá, að fá ítarlegar greinargerðir Björns Þorra, þar sem örugglega var settur fram djúpur og heilsteyptur rökstuðningur. Enda skilst mér að Andri Árnason, lögmaður Íslandsbanka, hafi gengið út frá því eftir munnlegan málfluting í Héraðsdómi Suðurlands, að dómsuppkvaðning væri bara formsatriði. Annað kom þó í ljós.
Báðir bankarnir gerður það viljandi eða ekki, að ónýta málin fyrir Hæstarétti. Hafi það verið gert viljandi, sem ég tel líklegri skýringuna, þá getur það eingöngu hafa verið gert, þar sem þeir óttuðust niðurstöðuna. Staðreyndin er nefnilega sú, að meðan ekki fæst endanleg niðurstaða um vexti áður gengistryggðra lána og gildi greiðslukvittana, þá geta þeir haldið áfram að ganga að fólki. Ekki má líta framhjá því að í tvígang hafa dómstólar hafnað upptöku fullnustugerða sem byggðar voru á ólöglegum gengistryggðum lánum og því er það bönkunum í hag að halda áfram með slíkar fullnustugerðir, því þær eru að mati tveggja héraðsdóma endanlegar.
Hin skýringin að bankarnir hafi klúðrað hlutunum óviljandi er ekki góðs viti fyrir bankana. Segi ekki meira.
Mikilvægt fyrir alla að fá niðurstöðu
Gríðarlega mikilvægt er fyrir alla að niðurstaða fáist í álitaefni. Mér finnst eins og mér sé haldið í gíslingu fjármálafyrirtækja sem geta í krafti aðstöðumunar valtað yfir öll andmæli mín. Þar sem ég andmælti endurútreikningi og hafnaði að skrifa undir skilmálabreytingar, þá var þrengt að mér annars staðar. Yfirdráttur ekki framlengdur, lánamörk á greiðslukorti lækkuð og fleira svona skemmtilegt. Í staðinn fyrir að semja um hlutina eða sammælast um að leita til dómstóla, þá er manni svarað með þögninni eða allt dregið eins mikið á langinn eins og kostur er.
Ég get nefnt sem dæmi, að núna eru 850 dagar síðan ég óskaði eftir samningum við eitt fjármálafyrirtæki. Já, 850 dagar. Ég hef ítrekað ósk mína örugglega sex sinnum og sent þeim tvö ítarleg skjöl með hugmynd um uppgjör. Auk þess hef ég óskað eftir að fá að nýta mér úrræði sem fjármálafyrirtækið sjálft skrifaði undir að stæðu lántökum til boða, að fyrirtækið lengdi í lánum í samræmi við samkomulag sem gert var við það fyrir hrun og svona mætti lengi telja. Öllu þessu hefur verið hafnað! Í 2 ár og 4 mánuði hefur þetta fyrirtæki forðast það að finna lausn, komast að niðurstöðu. Ég telst heppinn, ef ég fæ svar og kraftaverk ef eitthvað er að græða á innihaldi svarsins. Á meðan þessu stendur, þá tikka vextir og kostnaður.
Ég er ekki einn um þessa stöðu. Nánast allir sem ég tala við, lýsa stöðu sinni á svipaðan hátt. Fjármálafyrirtækin þvinga fram sína lausn eða svara fólki með þögninni. Segja má að aðferð fjármálafyrirtækjanna sé mjög skýr: My way or no way! Virðist menn hafa gleymt að verðmætasta eign hvers fyrirtækis er viðskiptavinurinn.
Ég held að nýju bankarnir og slitastjórnin/skilanefndir fallinna fjármálafyrirtækja gleymi því að þessir aðilar eru ábyrgir fyrir tjóni sem hin föllnu fyrirtæki voru völd að. Með framkomu sinni eru fyrirtækin að beina fólki meira og meira inn á braut skaðabótamála. Er það virkilega það sem þau vilja? Ef svo er, þá verði þeim að góðu, því eftir því sem meira kemur í ljós við rannsókn sérstaks saksóknara verður meiri efniviður í rökstuðning fyrir skaðabótum.
Lánamál | Breytt 6.12.2013 kl. 00:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.12.2011 | 21:29
Hæstiréttur vandar um fyrir lögfræðingum Arion banka
Í annað sinn í desember vísar Hæstiréttur frá máli, þar sem fjármálafyrirtæki ónýtir málið með furðulegum uppákomum í tengslum við breyttar kröfur fyrir dómi. Ekki það, að í þessu máli, var ekki heilbrú (að mínu mati) í niðurstöðu Héraðsdóms Vesturlands, en ekki kom til þess að Hæstiréttur þyrfti að taka á þeirri niðurstöðu.
Arion banka er nokkur vorkunn í þessu máli. Hæstiréttur er búinn að dæma lán, eins og það sem um ræðir, ólöglegt gengistryggt lán (mál nr. 603/2010 og 604/2010 og nr. 30/2011, 31/2011 og 155/2011). Því hélt ekki niðurstaða héraðsdóms varðandi það efni. Vissulega var áfrýjað út frá varakröfum stefndu að lánið væri með ólöglega gengistryggingu (henni var vísað frá dómi í héraðsdómi!), en samkvæmt Hæstarétti átti bankinn ekki lendingu í því atriði. Til þess hefði bankinn þurft að hafa kröfur uppi í héraði með rökstuðningi fyrir útreikningi o.s.frv.
En sem sagt, Hæstiréttur var búinn að dæma sams konar lán hafa verið með ólöglega gengistryggingu og því var úr vöndu að ráða. Augljóst var að Hæstiréttur gat ekki fallist á að áfrýjendur ættu að greiða gengistryggða upphæð, þegar hann var áður búinn að segja að svona lán væri með ólöglegu ákvæði. Lausnin virðist því hafa verið, líkt og hjá Íslandsbanka um daginn, að ónýta málið fyrir Hæstarétti. Ég vona svo sannanlega að það hafi verið gert viljandi því annars er umvöndun Hæstaréttar í niðurlagi dómsins í besta falli neyðarleg:
Málið er þannig nú í því horfi að í raun eru engar málsástæður lengur tiltækar af hendi stefnda til að byggja úrlausn þess á að því er varðar ákvörðun á fjárhæð kröfunnar. Af þeim sökum er óhjákvæmilegt að vísa málinu af sjálfsdáðum frá héraðsdómi.
Gengislánamáli vísað frá | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lánamál | Breytt 6.12.2013 kl. 00:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Íslensk réttvísi á sér enga líka. Fyrst fá fjármálafyrirtæki að brjóta lög í 9 ár án þess að eftirlitsaðilar geri nokkuð í því, þá eru brotnar grundvallarreglur kröfuréttar með afturvirkum íþyngjandi lögum, bílalánafyrirtæki fá að taka lögin í sínar hendur af því að um einkamál er að ræða og nú síðast kemst hérðasdómur að því að ekki hægt að leiðrétta að aðgerðir sem voru afleiðing af lögbrotum vegna þess að engin lög leyfa það! Já, vegir réttvísinnar eru sannanlega ósannsakanlegir!
Þetta er svo sem ekki fyrsta málið, þar sem þetta er niðurstaðan. Um daginn var gjaldþrotaúrskurður staðfestur, þrátt fyrir að gjaldþrotabeiðnina hafi mátt rekja til ólöglegrar gengistryggingar. Í því tilfelli var um einstaklinga að ræða. Ég nenni ekki að vitna í yfirklórið sem notað var sem röksemd í því máli, en það er því miður dæmigert fyrir dómstóla að grípa í öll þau hálmstrá sem tiltæk eru, til að verja fjármálafyrirtækin. Sást það einna best í dómi Héraðsdóms Suðurlands frá því í vor, sem var svo arfavitlaus að Íslandsbanki sá sig knúinn til að eyðileggja málið í flutningi fyrir Hæstarétti svo niðurstöðunni yrði alveg örugglega snúið.
Dómstólar eiga að hafa frumkvæði að því að skoða neytendarétt
Mig langar að minna dómstóla landsins á, að dómar Evrópudómstólsins eru fordæmisgefandi hér á landi. Samkvæmt nokkrum dómum dómstólsins, þá ber dómstólum að líta til neytendaverndar í úrskurðum sínum, þrátt fyrir að slíkar röksemdir hafi ekki verið hafðar uppi í málarekstrinum. Einnig hefur lögsögumaður ESB gefið út úrskurð eða leiðsögn (veit ekki hvað á að kalla þetta), þar sem bent hefur verið á að neytendavernd er nánast öllum lögum æðri. Í máli C-302/04, Ynos, er t.d. fjallað um ósanngjarna skilmála í samningi og hafnað að þeir geti staðist. Í öðru máli ECJ C-76/10 (forúrskurður), segir:
Council Directive 93/13/EEC of 5 April 1993 on unfair terms in consumer contracts requires a national court, hearing an application for enforcement of a final arbitral award issued without the participation of the consumer, of its own motion, where the necessary information on the legal and factual state of affairs is available to it for this purpose, to consider the fairness of the penalty contained in a credit agreement concluded by a creditor with a consumer, that penalty having been applied in that award, if, according to national procedural rules, such an assessment may be conducted in similar proceedings under national law.
Eða eins og lögfræðinemar á Bifröst ályktuðu "að nauðsynlegt sé fyrir neytendaverndina að þessi fortakslausa skylda [að skoða tilskipun 93/13] sé til staðar, komi sú staða upp að neytandi þekki ekki rétt sinn ellegar hafi ekki ráð á að taka til varna í dómsmáli sem höfðað er á hendur honum, vegna samnings sem inniheldur skilmála sem falla undir tilskipun 93/13", þ.e. um ósanngjörn ákvæði í neytendasamningum (unfair terms in comsumer contracts). Í úrskurði í máli C-76/10er minnst þrisvar minnst á að dómstólum bera af eigin frumkvæði að rannsaka skilmála sem falla undir tilskipun 93/13 og í er hægt að sjá þetta í fleiri úrskurðum Evrópudómstólsins.
Hér á landi virðist neytendaréttur vera bara eitthvað sem flækist fyrir, hvort heldur löggjafanum, dómstólum eða fjármálafyrirtækjum, eins og dæmin sanna. Réttindi neytenda eru ítrekað fótum troðin og skiptir engu máli, þó fjármálafyrirtækin hafi skrifað undir yfirlýsingu um að þau ætli að bjóða upp á úrræði eða vinna eigi úr málum eftir tiltekinni forskrift. Hvorki er haft fyrir því að virða eigin undirskriftir eða fara eftir forskriftinni.
Skaðabótamál
Eina úrræðið sem ég sé neytendur hafa í mörgum tilfellum, er að höfða skaðabótamál. Tjón margra, t.d. vegna hinna ólöglegu gengistryggðu lána, hleypur á milljónum ef ekki tugum milljóna. Vandinn við skaðabótamál er að oft er erfitt að sanna nákvæmlega í hverju tjónið er fólgið. Hvernig á að meta tjón af óréttmætu gjaldþroti, þegar afleiðingar gjaldþrotsins eru hjónaskilnaður eða jafnvel sjálfsmorð? Sem betur fer eru þetta ekki algengustu fylgifiskar gjaldþrota, en því miður of algengir.
Ég get ekki betur séð en að almennt séu bara tveir kostir í boði:
1. Fjármálafyrirtæki sem farið hafa fram á nauðungarsölur, vörslusviptingar og gjaldþrot á grunni ólöglegrar gengistryggingar á lánum leiti sátta í þeim málum sem um ræðir og bjóði sanngjarnar bætur til að ljúka málum. Þegar ég tala um sanngjarnar bætur, þá er ég ekki bara að tala um upphæðir sem tengjast lánunum sjálfum heldur ekki síður sem felst í tjón vegna þess að eign var seld lágu verði, tapaðar tekjur, óþægindi sem lántaki varð fyrir, útlagður kostnaður hans vegna aðgerðanna, o.s.frv.
2. Að þolendur gerða stefni fjármálafyrirtækjunum og reyni að fá fullar bætur fyrir tjón sitt. Gera má ráð fyrir að þolendur taki sig saman í hópmálsókn.
Fleiri gætu farið í mál, en bara þeir sem hafa þurft að þola nauðungarsölu, vörslusviptingu eða gjaldþrot. Allir lántakar sem hafa viljugir eða þvingaðir skrifað undir endurútreikninga eiga líklega skaðabótakröfu á nýju fjármálafyrirtækin. Byggi ég það á því, að fjármálafyrirtækin máttu vita, miðað við umsögn Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja um frumvarp að vaxtalögum nr. 38/2001, að gengistryggingin var ólögleg og hefðu því átt að hætta öllum tilraunum til innheimtu um leið og málin komust í hámæli vorið 2009. Raunar vissu fjármálafyrirtækin þetta miklu fyrr, þar sem ég fékk mína fyrstu ábendingu um þetta atriði frá lögfræðingi sem starfaði hjá einum af stóru bönkunum. Af þeirri ástæðu þykir mér borðleggjandi, að menn vissu að þeir voru ekki bara á gráu svæði, heldur voru að brjóta lög. Annað atriði, sem mér finnst sanna þessa staðhæfingu mína, er að fyrstu árin vönduðu menn sig mun meira við útgáfu þessara lána, með útgáfu tryggingabréfa, vegna þess að þeir vissu að hinn hátturinn var óheimill samkvæmt lögum.
Ég bíð spenntur eftir því að fyrstu skaðabótamálin fari í gang, en vona að fjármálafyrirtækin sjái sæng sína útbreidda og bjóði sættir.
Kröfu um endurupptöku nauðungarsölu hafnað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lánamál | Breytt 6.12.2013 kl. 00:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.12.2011 | 23:38
Breytingar á vef og þjónustu Betri ákvörðunar ráðgjafarþjónustu Marinós G. Njálssonar
Þó ótrúlegt sé, miðað við þann tíma sem ég hef lagt í vinnu við hagsmunagæslu fyrir lántaka og heimilin, þá vill svo til að ég rek mitt eigið fyrirtæki, þar sem brauðstritið fer fram. Það heitir því sérkennilega nafni Betri ákvörðun sem rekja má til þess að sá var tilgangur þess í upphafi, þ.e. að aðstoða fólk og fyrirtæki við að endurmeta og bæta þá ferla sem fylgt var við ákvörðunartöku. Hélt ég m.a. fyrir um 20 árum námskeið í markvissari ákvörðunartöku og gerðu gárungarnir grín að því, að fyrir utan hjá mér biðu í röðum ráðherrar og þingmenn, forsvarsmenn allra helstu fyrirtækja landsins og sveitarstjórnarmenn um allt land. Svo gott var það nú ekki.
Starfsemin breyttist í tímans rás án þess að nafnið breyttist. Fyrir rúmum átta árum færðist starfsemin alfarið yfir í ráðgjöf um upplýsingaöryggismál, áhættustjórnun og stjórnun rekstrarsamfellu, kennslu um þessi málefni, úttektir og vinnu í faghópum. Hef ég átt nokkuð traustan hóp viðskiptavina og því lítið þurft að auglýsa mig. Af þessum sökum hef ég ekki sinnt vefnum mínum, www.betriakvordun.is, nægilega vel og lagt meiri áherslu á skrif mín á Mogga-blogginu hvort heldur umfjöllunarefnið hefur verið tengt mínu faglega sviði, hagsmunagæslu eða bara umfjöllun um þjóðfélagsmál. Núna verður breyting á þessu.
Fagleg málefni þurfa að fá meira rými í því sem ég geri. Af þeim sökum hef ég fært öll skrif mín um fagleg efni yfir á vef rekstrarins og verða þau eftirleiðis birt bæði á blogginu og á vef Betri ákvörðunar eða eingöngu á þeim síðarnefnda. Samhliða þessari breytingu, þá hef ég flokkað greinar um faglegt efni, þannig að þær birtast undir viðeigandi þjónustuflokkum, sé á annað borð hægt að flokka þær þannig. Greinar um áhættustjórnun eru því undir áhættumat og áhættustjórnun, rekstarsamfellumál undir neyðarstjórnun og stjórnun rekstrarsamfellu, persónuverndarmál undir öryggiskerfi persónuupplýsinga og svo framvegis. Með þessu vonast ég til að vefur Betri ákvörðunar muni nýtast betur þeim sem vilja kynna sér þessi efni.
Upp á síðkastið hafa einstaklingar, fagaðilar og fyrirtæki snúið sér til mín varðandi endurútreikninga áður gengistryggðra lána. Fyrst um sinn ýtti ég þessu frá mér, þar sem mér fannst ekki viðeigandi að ég væri að sinna þessu samhliða því að vera stjórnarmaður hjá Hagsmunasamtökum heimilanna. Eftir að ég kaus að víkju úr stjórninni, þá hef ég tekið slík mál að mér, þegar til mín hefur verið leitað. Nú hef ég ákveðið að kynna þessa þjónustu á vef fyrirtækisins.
Á sama hátt hafa aðilar leitað til mín um að taka saman tölulegar upplýsingar, skrifa skýrslur eða greinargerðir eða bara leggja til efni. Er slík þjónusta nú orðin hluti af þjónustuframboði Betri ákvörðunar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.12.2011 | 15:35
Múrbúðin og samkeppni á Íslandi
Á Eyjunni er frétt (fengin úr Viðskiptablaðinu) um málsókn Jóns Helga Guðmundssonar, aðaleiganda BYKO, gegn Baldri Björnssyni, stofnanda Múrbúðarinnar. Ég ætla ekki að fjalla um málið sem fréttin er um heldur það sem segja má að sé undanfari þess.
Fyrir mig sem húsbyggjanda er það guðs blessun detti Múrbúðinni í hug að flytja inn og selja nýja vörutegund. Í fyrsta lagi, þá er hægt að nálgast vöruna á hagstæðu verði hjá Múrbúðinni, en það sem kannski skiptir ekki minna máli, er að samsvarandi vara lækkar umtalsvert hjá samkeppnisaðilum. Þannig lækkaði verð á hreinlætistækjum þegar Múrbúðin opnaði hreinlætistækjaverslun sína og grófvara þegar grófvörudeildin var opnuð.
Viðbrögð samkeppnisaðila Múrbúðarinnar hafa borið þess öll merki, að þessi samkeppni hefur verið af hinum góða. Eða eigum við frekar að segja, að sú "samkeppni" sem var fyrir á markaðnum hafði stöðvast í einhvers konar jafnvægi án þess að ég ætli að skýra það nánar. A.m.k. var það þannig, að verð á sumum stærðum gipsplatna lækkaði umtalsvert hjá samkeppnisaðilum Múrbúðarinnar, þegar grófvörudeildin opnaði, meðan þær tegundir gipsplatna, sem ekki voru til sölu hjá Múrbúðinni, stóðu í stað! Ég er með verðlista í höndunum, sem sanna þetta. Vara sem fært í grófvörudeild Múrbúðarinnar er allt í einu á "sérverði" meðan sú sem ekki fæst þar er ekki merkt vera á "sérverði".
Ég ætla ekki að kvarta yfir því sem húsbyggjandi, að samkeppnisaðilar Múrbúðarinnar bregðist svona við, en ég ætti að hafa áhyggjur af því sem neytandi. Þetta er nefnilega aðferð hins stóra til að drepa niður samkeppni alls staðar í heiminum.
Hér á landi höfum við mýmörg dæmi um það, að "stóri" aðilinn hafi reynt að drepa "litla" aðilann með undirboðum. Lyfsali vogaði sér að opna lyfjabúð í samkeppni við annan aðila á Akranesi. Allt í einu buðust Akurnesingum alls konar kosta boð frá þeim sem líkaði ekki samkeppnin. Nokkrir stráklingar sýndu þá ósvífni að opna bensíndælu í Kópavogi og því var sko ekki tekið með þegjandi þögninni. Kaupmaður opnaði verslun í litlu bæjarfélagi og þá rigndi yfir bæjarbúa ómótstæðilegum tilboðum frá kaupfélaginu. Matvöruverslun var svo ófyrirleitin að bjóða mjólk á betra verði en Bónus og það endaði í því að Bónus seldi mjólkurlítrann á 1 kr. Allt er þetta dæmi um það, að forráðamenn fyrirtækja hafa nákvæmlega enga þekkingu á samkeppnislögum. Þeir halda að þeir geti gert hvað sem er í nafni samkeppni.
Sem neytandi á ég að hafa miklar áhyggjur af þessu hátterni þeirra, sem telja sig eiga markaðinn. Staðreyndin er nefnilega sú, að þegar búið er að berja þann óþæga til hlíðni eða ryðja honum út af markaðnum, þá kemst á jafnvægi að nýju. Jafnvægi sem stóri aðilinn ekki bara sættir sig við, heldur er líklegast að hann stjórni því. Jafnvæginu fylgir síðan hærra vöruverð.
Ég sem neytandi ætti að taka öllum "Múrbúðum" landsins fagnandi og vona að sem flestar slíkar verslanir opni. Ekki til að þvinga þá stóru í ófyrirleitna samkeppni eða ýta þeim út af markaðnum, heldur til að lækka vöruverð í landinu og bæta þjónustuframboð.
Okkar vandamál er af tvennum toga. Annað er fákeppni, þ.e. fáir aðilar keppa á hverjum markaði, en slíkt leiðir alltaf til þess að einhvers konar samkomulag næst um jafnvægi. Eitt form slíks samkomulags (sem jafnan er þegjandi samkomulag) er að fyrirtæki A fær að eiga ákveðinn geira markaðarins, fyrirtæki B annan og fyrirtæki C þann þriðja. Annað form er að menn sættast á ákveðið verðbil á milli fyrirtækja, þannig er Bónus nær alltaf 1 kr. ódýrari en Krónan og aðrar verslanir eru þar fyrir ofan. En það voru vandamálin. Annað var fákeppni, en hitt er hve stórar viðskiptablokkir eru hér á landi. Í gamla daga var það Kolkrabbinn og Sambandið, síðan var það Jón Ásgeir og Jón Helgi og núna eru það blokkir sem myndast í kringum eignarhald bankanna á fyrirtækjum.
Meðan þessi blokkamyndun heldur áfram, þá verður engin alvöru samkeppni hér á landi. Blokkirnar munu ná jafnvægi sín á milli og síðan ráðast af sameinuðum krafti gegn öllum þeim sem voga sér að raska jafnvæginu. Þannig hefur þetta verið, þannig er það og þannig verður það meðan samkeppnisyfirvöld leyfa slíka hegðun.
Og hvað get ég gert sem neytandi? Jú, líklegast verð ég að halda öllum góðum. Með því get ég helst tryggt að sá sem heldur uppi virkri samkeppni fái að lifa og hinir sem telja sér ógnað að þeim litla sætti sig við að hann fái sína sneið af kökunni. Múrbúðin verður að Bónus okkar húsbyggjenda, meðan BYKO og Húsasmiðja eru Hagkaup og Nóatún, þ.e. eru með hærra verð en jafnframt meira vöruúrval.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 0
- Sl. sólarhring: 5
- Sl. viku: 51
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 46
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði