Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2011

Útbreiðsla vírusa, landfræðileg lega Íslands og landlægt kæruleysi - Vírusvörn í jólapakkann?

Áhugaverð frétt um útbreiðslu tölvuvírusa er á forsíðu Fréttablaðsins í dag, en þar segir:  "Tugir þúsunda tölva sýktar".  Í fréttinni, sem einnig má lesa hér, segir að samkvæmt rannsókn "sem unnin var við tækniháskólann í Delft í Hollandi", þá sé Ísland "í sjötta sæti yfir þau lönd þar sem hlutfall af smituðum tölvum er hæst".

Áður en lengra er haldið, er rétt að taka fram að ég hef lifibrauð mitt af því að aðstoða fyrirtæki við að efla upplýsingaöryggi sitt.  Hef ég meira og minna fengist við þessi mál síðustu 19 ár og sjö mánuðum betur.  Rek ég mína eigin ráðgjafaþjónustu, Betri ákvörðun ráðgjafaþjónustu Marinós G. Njálssonar, en nafnið vísar til þess að ég byrjaði á veita ákvörðunarráðgjöf áður en ég fór inn í upplýsingaöryggi og skyld málefni.  Þó er rétt að benda á, að áhættustjórnun byggir meira og minna á sömu atriðum og góð ákvörðunartaka.

Ég ætla ekki að deila um það, að margar tölvur séu sýktar hér á landi, en mér þætti fróðlegt að sjá þessar niðurstöður þeirra í Delft.  Leit á netinu bar ekki árangur, þannig að hafi einhver tengil á niðurstöður rannsóknarinnar, þá þætti mér vænt um, ef sá hinn sami gæti lagt mér hann til.

Ég efast stórlega um að Ísland sé í sjötta sæti í heiminum, þó miðað sé við hlutfall.  Tölur undanfarinna ára, sem birta hafa verið á ráðstefnum og fundum sem ég hef sótt, benda til þess að flest lönd Austur-Evrópu komi á undan okkur á þessum lista og síðan mörg lönd Suð-austur Asíu.  Ísland er þó líklega í þessari stöðu meðal landa innan OECD. 

En segjum að þetta sé rétt.  Þá er veruleg ástæða til að velta því fyrir sér hvers vegna staðan er svona.  Helsta ástæðan er hátt hlutfall sjóræningjaforrita, ólöglegt niðurhal efnis og tíminn sem fólk eyðir á netinu.  Allt eykur þetta hættuna á því að tölvan sýkist.  Einhverra hluta vegna sparar fólk líka við sig vírusvörnina.  Er það raunar með öllu óskiljanlegt, þar sem hægt er að kaupa vírusvarnir fyrir örfá þúsund.  T.d. kostar Lykla-Pétur kr. 4.900 fyrsta árið og kr. 2.900 eftir það og leyfið gildir fyrir allt að 5 tölvur á heimilinu.  Sams konar kjör eru í boði hjá flestum öðrum fyrirtækjum.  Allar foruppsettar tölvur koma með vírusvörn uppsettri með leyfi til nokkurra mánaða.  Endurnýjun á þeim leyfum er almennt ódýr, þ.e. hleypur á einhverjum þúsund köllum, sem er langt innan við kostað fyrir mús eða lyklaborð að ég tali nú ekki um verð á leik.  Er því ekki tilvalið að láta vírusvörn í einn jólapakka tölvueigandans þessi jólin!

Landfræðileg lega Íslands

Ein klausa í fréttinni er svo kostuleg, að ég verð að fjalla um hana:

[Jón Kirstinn Ragnarsson, sérfræðingur í upplýsingatækni hjá Deloitte] bendir á að mat hollensku sérfræðinganna sé trúlega fremur varfærið og það séu sannarlega alvarlegar fréttir að svo hátt hlutfall íslenskra tölva sé sýkt. Hingað til hafi mátt búast við að takmörk á netumferð til landsins í gegnum sæstrengi gæti verndað landið að einhverju leyti fyrir álagsárásum á vefsíður. Séu svo margar tölvur sýktar hér á landi sé lítið hald í þeim vörnum.

Maður verður eiginlega kjaftstopp, þegar maður les svona lagað.  ÖLL lönd í heiminum eru tengd um samskiptarásir, þar sem um hverja rás fer takmörkuð umferð.  Luxemborg er t.d. tengt við Belgíu, Þýskaland og Frakkland um ljósleiðarakapla og liggja þeirra margir hlið við hlið í sama skurðinum.  Í einhverjum tilfellum liggur kapall um Luxemborg frá Frakklandi til Þýskalands án annarrar viðkomu í Luxemborg en til að styrkja merkið.  Engin ástæða er að ætla að sú bandbreidd sem fer til Luxemborgar sé meiri eða minni en sú sem fer til Íslands.  Eini munurinn er fjarlægðin.

Í mínu starfi hef ég fengið upplýsingar um, að nettenging Íslands við umheiminn sé betri en t.d. Ástralíu og Nýja Sjálands.  Fjölmörg mun fjölmennari ríki um allan heim eru verr tengd en Ísland, enda skiptir það ekki máli.  Tölvuþrjótar eru ekkert að velta fyrir sér hvort samskiptarásin fari um sjó eða ekki, sé 10 Gbitar eða 10 Tbitar.  Þeir vinna á IP-tölum og þær bera engin auðkenni flutningslínunnar.  Sé eitthvað sem ætti að verja okkur er hve fáar IP-tölur eru skráðar hér á landi.  Hins vegar vinna gegn okkur heimsóknir íslenskra IP-talna á sjóræningjasíður, niðurhal á ólöglegu efni, að ég tali nú ekki um upphal á ólöglegu efni.  Íslenskar sjóræningjasíður, sem vistaðar eru erlendis, geta hugsanlega komið í veg fyrir að íslensk yfirvöld geti stöðvað þær, en í staðinn aukast líkurnar á því að tölvuþrjótar geti smeygt sér inn í samskiptin.

Landlægt kæruleysi

Okkar helsti óvinur er hið landlæga kæruleysi okkar gagnvart upplýsingaöryggi.  Mjög fá fyrirtæki hugsa á skipulegan hátt um upplýsingaöryggi og enn færri fara alla leið og fá vottun.  Ástæðan fyrir því að ganga ekki alla leið til vottunar er ekki bara kæruleysi heldur líka kostnaður.

Miklu skiptir, þegar sótt er um vottun sem gilda skal um allan heim að til verksins sé fenginn aðili með faggildingu.  Hér á landi er enginn slíkur aðili, en samkvæmt upplýsingum á síðu Vottunar hf., þá er fyrirtækið að vinna að því að fá faggildingu.  Vilji íslensk fyrirtæki fá vottun faggildra vottunaraðila verða þau því að leita til erlendra fyrirtækja (sem sum hafa starfsemi hér á landi).  Kostnaðurinn af því að fá erlenda aðila hefur vaxið mörgum í augum og hafa menn því kosið að láta duga að innleiða stjórnkerfi upplýsingaöryggis.  Er hægt að líkja því við að sitja í námi án þess að taka próf. 

Að minnsta kosti á annan tug fyrirtækja hafa fengið vottun samkvæmt staðlinum ISO/IEC 27001.  Á síðu BSI (Bristish Standards Institution) má sjá að 14 íslensk fyrirtæki hafa fengið vottun hjá þeim vegna ISO/IEC 27001 og einhver fyrirtæki eru vottuð í gegn um DNV í Noregi.  Hef ég m.a. leitt fyrirtæki í gegn um vottun hjá báðum þessum aðilum, þ.e. VALITOR hjá BSI og Íslenska getspá/Íslenskar getraunir hjá DNV, auk þess sem ÍG fékk um leið vottun vegna World Lotto Association Security Control Standard.

Fyrirtækin sem eru á lista hjá BSI eru:  Betware á Íslandi, upplýsingatæknisvið Reykjavíkurborgar, Landsbankinn hf., upplýsingatæknisvið Landspítala háskólasjúkrahúss, upplýsingatæknisvið Landsvirkjunar, Nýherji (að hluta), Orkuveita Reykjavíkur, SecurStore ehf. (bæði hér á landi og í Bretlandi), Skýrr (vegna starfsemi EJS), Stiki ehf., Þekking hf., Þjóðskrá Íslands (var upphaflega fengin vegna Fasteignamat ríkisins), Tryggingamiðstöðin hf. (dekkar allar starfsstöðvar og dótturfyrirtæki) og VALITOR hf.  Upplýsingar um umfang stjórnkerfa sem falla undir vottun eru fengnar af síðu BSI.

Vonandi mun listinn yfir vottuð fyrirtæki lengjast á næstu árum.  Veit ég af mörgum sem sett hafa stefnuna á vottun og er það alltaf fyrsta skrefið.  Hvort það takist innan settra tímamarka er ekki  aðalmálið því stærsta skrefið í átt til betra öryggis er að vera meðvitaður um að bæta þurfi öryggið.


Neikvæður viðskiptajöfnuður er stærsta vandamálið - Sama sagan út um allt

Ég hef oft verið spurður að því hvers vegna krónan styrkist ekkert þó svo að góður afgangur sé af vöruskiptum.  Svarið er einfalt: 

Vegna þess að viðskiptajöfnuður þjóðarbúsins við útlönd er í steik.

Viðskiptajöfnuður er annar helmingurinn af greiðslujöfnuði þjóðarinnar, en hin hliðin er fjármagnsjöfnuður.  Mikilvægt er að sem mest jafnvægi sé á milli þessara þátta og ennþá betra er að jafnvægið sé tilkomið án verulegrar lántöku. 

Í töflunni fyrir neðan eru birtar tölur frá upplýsingasviði Seðlabanka Íslands og sýna þær lykiltölur vegna greiðslujafnaðar við útlönd.  Birtar eru í fyrsta lagi tölur fyrir 2008, í öðru lagi frá hruni og í þriðja lagi samtala frá 1990.

 

HAGTÖLUR SEÐLABANKANS   
    
Greiðslujöfnuður við útlönd   
M.kr.2008Eftir hrunFrá 1990
Viðskiptajöfnuður (A=1+2+3+4)-363.602-410.636-1.711.341
  Útflutningur vöru og þjónustu (A1)652.8392.557.7137.216.958
  Innflutningur vöru og þjónustu  (A2)-687.445-2.124.293-7.425.735
  Þáttatekjur og framlög, nettó (A3)-328.996-844.056-1.502.564
  Vöruskiptajöfnuður (1)-6.666329.913-133.048
      Útfluttar vörur f.o.b.466.8591.666.3424.802.362
       Innfluttar vörur f.o.b.-473.525-1.336.429-4.935.410
  Þjónustujöfnuður (2)-27.940103.507-75.729
      Útflutt þjónusta, alls185.980891.3712.414.596
     Innflutt þjónusta, alls-213.920-787.864-2.490.325
  Jöfnuður þáttatekna (3)-325.508-819.733-1.460.541
      Tekjur126.614268.9721.111.073
         þar af vaxtatekjur174.032121.333557.967
      Gjöld-452.122-1.088.705-2.571.614
         þar af vaxtagjöld-500.629-880.860-2.058.153
  Rekstrarframlög (4)-3.488-24.323-42.023
Fjármagnsjöfnuður  (B=5+6)1.137.128347.5762.301.828
  Fjárframlög (5)-1.032-2.349-9.955
  Fjármagnshreyfingar*  (6)1.138.160349.9252.311.783
      Hreyfingar án forða1.238.839841.2143.041.154
          Bein fjárfesting450.846352.894-210.114
              Erlendis370.171208.056-1.469.568
              Á Íslandi80.675144.8381.259.454
          Verðbréfaviðskipti225.267-3.388.526-1.090.426
              Erlend verðbréf431.2956.469-1.058.139
              Innlend verðbréf-206.028-3.394.995-32.287
          Annað fjármagn562.7263.876.8464.341.522
              Eignir-212.986373.610-2.864.244
              Skuldir775.7123.503.2367.205.766
      Gjaldeyrisforði (- aukning)-100.679-491.289-729.371
Skekkjur og vantalið, nettó (A+B)-773.52663.060-590.487
Heimild: Upplýsingasvið SÍ.   

Samkvæmt þessum tölum hafa vöruskipti við útlönd verið jákvæð um 427 ma.kr. frá hruni, en þrátt fyrir það hefur viðskiptajöfnuður verið neikvæður um 410,6 ma.kr.  Ástæðan er að við höfum notað  880,9 ma.kr. í vaxtagreiðslur á þessum tíma eða ríflega þriðjung af öllum útflutningstekjum þjóðarinnar!  Vissulega voru greiðslurnar mestar á fyrstu sex mánuðunum eftir hrun eða 271,2 ma.kr., en árið 2009 voru þær 312,9 ma.kr., árið 2010 voru þær 219,3 ma.kr. og það sem af er þessu ári eru þær 180,9 ma.kr., þannig að þær stefna í 240 ma.kr. fyrir árið. Á móti þessu koma vaxtatekjur, en þær hafa verið brot af vaxtagjöldunum.

Þó tölurnar séu ískyggilegar vegna síðustu fjögurra ára, þá er þetta ekkert nýtt.  Munur á vaxtatekjum og vaxtagreiðslum eins langt og tölur Seðlabankans ná er 1.500 ma.kr.  Ástæðan er ákaflega einföld við erum búin að vera á kafi í erlendum lántökum.  Nettó lántökur, þ.e. lántökur mínus afborganir/endurgreiðslur, frá 1. janúar 1990 eru 3.088 ma.kr. á gengi hvers tíma.  Vegna gengisþróunar, þá eru bara lán í vanskilum 4.149 ma.kr.

Innlánsstofnanir í slitameðferð valda vanda

Þegar tölur Seðlabankans eru skoðaðar nánar, þá kemur í ljós að þjóðfélaginu blæðir linnulaust vegna innlánsstofnana í slitameðferð.  Þannig hafa þáttatekjur vegna þeirra frá hruni verið neikvæðar um 434,8 ma.kr. á móti 409,3 ma.kr. vegna annarra þátta.  Værum við laus við hrunbankana, þá væri viðskiptajöfnuður á þessu tímabili jákvæður um 24,1 ma.kr.  Svo sem engin stór upphæð, en samt jákvæð tala.

Eðlilegt að krónan styrkist ekki

Miðað við þessar tölur er bara eðlilegt að króna styrkist ekki. Ekki er til innistæða fyrir styrkingunni.  Raunar má segja að fullkomlega eðlilegt sé að krónan sé jafn óburðugur gjaldmiðill og reynslan hefur sannað.  Við höfum líklegast um aldur og ævi eytt um efni fram.  Þetta sést best á viðskiptajöfnuði síðustu tæplega 22 ára.  Hann er neikvæður um 1.711 ma.kr.  Það þýðir að á hverju ári hafa 78 ma.kr. úr landi vegna innflutnings vöru og þjónustu og þáttagjalda umfram það sem komið hefur inn vegna útflutnings vöru og þjónustu og þáttatekna.  Þetta er vandi þjóðarinnar í hnotskurn, þ.e. við eyðum meira en við öflum.  Til þess að hafa efni á eyðslunni, þá eru slegin lán í útlöndum, en lántakan gerir lítið annað en að auka á vandann.

Vandinn er því tvíþættur.  Annars vegar er það eyðsla um efni fram í gegn um tíðina og síðan er það lántökur og vaxtagreiðslur af þeim.  Undanfarin fjögur ár hafa vaxtagreiðslurnar bitið harkalega og er lífsnauðsynlegt að losna við stærsta hlutann af þeim sem fyrst.  Glíman við það er einfaldlega mikilvægasta viðfangsefni stjórnvalda og Seðlabanka um þessar mundir.

Sama munstur víða um heim

Lilja Mósesdóttir hefur bent á að sama munstur er að endurtaka sig víða um heim og sérstaklega á Vesturlöndum.  Viðskiptajöfnuður velflestra landanna er og hefur verið neikvæður um langa hríð.  Alls staðar er sama staðan.  Framleiðsla innanlands dregst sífellt lengra aftur úr innanlandseftirspurn og við því er brugðist með innflutningi.  Hvert hagkerfið á fætur öðru er hætt að standa undir sér.  Þau eru ekki sjálfbær.

Lykillinn að endurreisninni, ekki bara hér á landi, heldur á Vesturlöndum líka, er að hvert land um sig auki innanlandsframleiðslu til að draga úr innflutningi eða svo útflutningur geti aukist til að vega upp á móti nauðsynlegum innflutningi.  Að við séum hér á landi að greiða 1 krónu í vexti ofan á hverjar þrjár sem innflutt vara og þjónusta kostar segir mér, að innflutta varan sé í reynd 33% dýrari en fram kemur í innkaupsverði hennar.  Þar með er innflutt vara sem er 20% ódýrari en innlend framleiðsla í reynd einhverjum 5 - 10% dýrari, þegar allur kostnaður þjóðfélagsins er tekinn inn í myndina.  Það borgar sig sem sagt fyrir þjóðfélagið, að sleppa því að flytja inn örlítið ódýrari vöru til að keppa við innlenda framleiðslu, svo hægt sé að nota peninginn, sem annars færi að greiða fyrir hina innflutt vöru, í að greiða niður erlend lán.  Um leið og erlenda skuldin lækkar, þá lækka vaxtagreiðslurnar.  Lægri vaxtagreiðslur leiða til þess að þáttatekjur/-gjöld verða minna neikvæð en áður og smátt og smátt vinnum við okkur í átt að sjálfbærni.  Eftir því sem erlendur kostnaður er minni, því betra er það fyrir hagkerfið.

Skattleggja gjaldeyriskaup til að greiða erlendum kröfuhöfum

Hinn augljósi vandi við þetta, er að þeir sem afla teknanna eru mjög oft aðrir en þeir sem þurfa að greiða vexti og afborganir lána.  Gjaldeyrishöftin, sem núna eru við líði, taka á þessu með því að knýja á skilum á þeim gjaldeyri sem kemur inn í landið.  Með því er hægt að nota gjaldeyrinn í það sem skiptir mestu máli.  Spurningin er bara hvort það sé gert. 

Er það rétt nýting á þeim gjaldeyri sem kemur inn í landið, að nota hluta hans til að greiða vexti vegna fjármálafyrirtækja í slitameðferð?  Er bara yfirhöfuð rétt að nota eitt einasta sent eða penní vegna innlendra eigna erlendra aðila meðan staðan er svona erfið?  Ég geri mér grein fyrir að fjölmargir erlendir aðilar eru læstir hér inni með peningana sína, en mér sýnist það vera sjálfskaparvíti að bæði loka peningana þeirra hér inni og einnig greiða með fáránlega háa vexti af þeim peningi sem hér er fastur.  Og gagnvart erlendum kröfuhöfum hrunbankanna, þá á ekki að taka í mál, að eitt einasta sent eða penní af gjaldeyrisöflun þjóðarinnar fari í að greiða þeim.  Hrunbankarnir eiga sínar erlendu eignir og dugi þær ekki, þá er bara ekki meira að fá úr þrotabúin nema að hinir erlendu aðilar séu tilbúnir að taka á sig veruleg afföll.  Það kostar einfaldlega einhverja tugi prósenta ofan á dagsgengið, eigi að skipta krónum í erlenda gjaldmiðla til að gera upp skuldir við kröfuhafa hrunbankanna.

Ennþá fáranlegri er sá hluti samnings Steingríms J. við kröfuhafa bankanna, að þeir eigi rétt á allt að 320 ma.kr. viðbótargreiðslu frá hrunbönkunum vegna betri innheimtu.  Þetta er sáraeinfalt:  Við höfum ekki efni á því að láta þann gjaldeyri af hendi.  Mér er bara alveg sama hvað erlendir kröfuhafa hafa tapað miklu, meðan gjaldeyristekjur þjóðarbúsins standa ekki undir eftirspurn eftir gjaldeyri, þá er það hreint og beint brjálæði að auka við eftirspurnina á þennan hátt.  Þess samninga verður að taka upp hvað þetta varðar.  Einnig verður að fara í samninga við lánadrottna Landsvirkjunar, Orkuveitu Reykjavíkur og ríkissjóðs og fá þá til að lækka kröfur sínar, hvort heldur í formi mun lægri vaxta eða lækkunar höfuðstóls lánanna.  Ástæðan er einföld:  Gjaldeyristekjur þjóðarinnar ráða ekki við greiðslubyrðina.  Við þurfum að fá sömu meðferð og Grikkir, þ.e. verulega niðurfellingu skulda hins opinbera.  Skuldir þjóðarbúsins þurfa að fara niður fyrir 70% eins fljótt og kostur er og það verður ekki gert nema með niðurfellingu skulda.

Ef menn halda að það breyti einhverju að skipta um gjaldmiðil, þá sýnir ástandið í Evrópu að svo er ekki.  Vissulega gæti það hjálpað, en þá þyrfti Seðlabankinn líka að fá vald til að prenta peninga eða hann fengi tímabundið ótakmarkaðan aðgang að peningahirslum  þess seðlabanka sem ætti í hlut án þess að greiða nokkra vexti af slíku láni.  Samhliða því yrði að eiga sér stað mikil aukning innlendrar framleiðslu og samdráttur í innflutningi.  Það er nefnilega þannig, að svo lengi sem viðskiptajöfnuðurinn er neikvæður, þá halda peningar áfram að streyma úr landi.


Stóra fréttin er: Rúm 57% hafna fjórflokknum

Hvernig geta menn sagt að Sjálfstæðisflokkurinn fengi 50% fylgi, þegar hugur 56% er ekki þekktur.  Nær væri að segja að 22% styddu Sjálfstæðisflokkinn og menn vildu fara út í vangaveltur um mögulega kjörsókn, þá væri hægt að teygja þessa tölu upp í 25-26%.

Niðurstöður könnunarinnar sýna að verulegt rými er fyrir nýtt afl í íslenskum stjórnmálum.  Þeir flokkar sem eru fyrir, njóta ekki trausts almennings.  Fjórflokkurinn fær stuðning innan vð 43% aðspurðra (44% af 97 er 42,7).  Hreyfingin fær síðan stuðning rétt rúmlega 1,3% aðspurðra.   Er það nokkuð harðneskjulegt gagnvart henni, sem ein flokka á þingi hefur ekki látið leiðast út í þann sandkassaleik sem þar er.

Áhugavert verður á næstu vikum og mánuðum að sjá hvaða framboð eða fylkingar nýta sér þessa löngun kjósenda eftir breytingum.  Í gær kynntu Guðmundur Steingrímsson og Besti flokkurinn sitt samstarf, Borgarahreyfingin hefur verið að freista þess að ná samstöðu með grasrótarhópa og síðan hefur Lilja Mósesdóttir lýst yfir áhuga sínum á framboði.  Meðan ekki er ljóst hvað þessar nýju hreyfingar standa fyrir, þá er erfitt fyrir kjósendur að taka afstöðu og einnig erfitt fyrir þá sem framkvæma skoðanakannanir að hafa þær með.


mbl.is Sjálfstæðisflokkurinn stærstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fátækt er raunverulegt og stækkandi vandamál

Mikil umræða er í nokkrum vefmiðlum um einstæða móður, sem hafði ekki efni á að kaupa kludaflík á 7 ára dóttur sína.  Eins hræðilegt og þetta er, þá ætti þetta ekki að koma nokkrum manni á óvart.  Lífskjararannsókn Hagstofnunnar, sem birt var um daginn, sýnir að staða einstæðra foreldra er mjög erfið og stór hluti þeirra, 78,4%, eiga erfitt með að ná endum saman.  Tala sem hefur farið hækkandi undanfarin ár.  Því miður hafa stjórnvöld lítið sem ekkert hugsað fyrir neyð þessa hóps og látið sem allt snúist um skuldavanda.  Ég hef aftur ítrekað bent á að:

Skuldvandi er ekki vandamál nema honum fyldi greiðsluvandi, meðan greiðsluvandi er alltaf vandamál hvort sem honum fylgir skuldavandi eða ekki.

Stjórnvöld verða að átta sig á þessum sannindum og fara að bregðast við þeim.

Fátækt er raunverulegt vandamál

Í september í fyrra var haldinn fundur í Ráðhúsi Reykjavíkur um fátækt.  Ég var einn af þeim sem sátu fyrir svörum á fundinum.  Þar kom margt áhugavert fram, en fyrst og fremst hversu veikburða félagslega kerfið er hér á landi.  Markmið þess virðist vera að skera allt við nögl og vísa síðan fólki á hjálparstofnanir.  Ég skrifaði færslu um fundinn og hvet ég  fólk til að lesa hana, þar sem mér sýnist að því miður hafi minna áunnist á síðustu 15 mánuðum en efni hafa verið til.  Raunar sýnist mér, sem við séum sífellt að færast fjær markinu.

Staðreyndin er að fátækt er raunverulegt og vaxandi vandamál.  Er svo sem þekkt að slíkt gerist í kjölfara skuldakreppu, eins og þeirrar sem við erum að kljást við hér.  Í vinnu minni fyrir svo kallaðan sérfræðingahóp um skuldamál heimilanna fyrir rúmu ári þá settum við tölur í alls konar samhengi.  Skrifaði ég færlsu um máli í byrjun nóvember í fyrra sem ég byrja á eftirfarandi orðum:

Eftir að hafa setið yfir tölum í nokkrar vikur um afkomu heimilanna, greiðslugetu og skuldastöðu, þá finnst mér einsýnt að hér munu hlutirnir ekki færast í samt lag nema kaupmáttur aukist með hækkandi tekjum.  Slík hækkun tekna verður að ná til allra hópa með undir 450 þús.kr. í laun á mánuði.

Því miður er staðan sú, að tiltekinn hópur fjölskyldna hefur ekki tekjur til að standa undir lágmarksneyslu, hvað þá að hafa eitthvað afgangs til að greiða fyrir húsnæði.  Þetta er vandamál sem nær til allra fjölskyldugerða, en þó síst hjá barnlausum hjónum.

Lokaorð færslunnar voru síðan:

Allt virðist þetta bera að sama brunni:  Stór hópur landsmanna hefur ekki efni á því lífi sem þeir lifa, hver svo sem ástæðan er.

Hér fyrir neðan eru upplýsingar frá því fyrir ári um fjölda heimila sem áttu ekki fyrir neyslu, samkvæmt neysluviðmiðum sem Umboðsmaður skuldara notaði.  Viðmiðin eru annars vegar margfölduð með 1,5 og hins vegar 2,0 þar sem inn í þau vantar gríðarlega háa útgjaldaliði, eins og dagvistun, símkostnað, tryggingar og fleira svona "smávægilegt".

 Eiga ekki fyrir neyslu
 ney*1.5ney*2
Einst.9771.744
Einst. For.1.0042.289
Hjón1.6703.064
Alls3.6517.097

Taflan sýnir að ríflega 7.000 heimili eiga ekki fyrir almennri neyslu miðað við naumhyggju neysluviðmið sem leiðrétt eru með tilliti til þátta, sem skoðaðir eru sérstaklega í hverju tilfelli.  Þetta er eitthvað um 5% heimila í landinu og þegar kemur heimilum þar sem foreldrar eru einstæðir, þá er hlutfallið mun hærra.

Fyrir þessi heimili dugar ekki að hækka vaxtabætur eða koma með smávægilega hækkun barnabóta.  Eina sem dugar er veruleg hækkun launa, meðlags og barnabóta.  Þessir hópar þurfa að vinna upp kaupmáttarskerðingu undanfarinna ára.  Fyrir þá sem þetta dugar ekki, þá þurfa sveitafélögin að grípa inn í á mun meira afgerandi hátt.

Ég geri mér alveg grein fyrir að fjölmargir einstaklingar misnota sér kerfið, eru í óreglu eða hafa ekki getu til að stjórna sínum fjármálum.  Varnir gegn slíku mega ekki bitna á þeim sem eru ekki í þannig málum.


Glæsilegur sigur og áhugaverð staða

Óhætt er að segja að stórsigur Íslands í kvöld hafi verið jafn óvæntur og hann var sanngjarn.  Eftir sterka byrjun Þjóðverja, þá átti maður von á endurtekningu á Noregsleiknum, en kraftaverkin gerast.  Ekki er hægt segja neitt annað en að það hafi verið stórkostlegt að breyta stöðunni úr 4:11 í 13:12 á aðeins 11 mínútum.  Síðan endurtók liðið leikinn í síðari hálfleik, þar sem stelpurnar breyttu stöðunni úr 17:18 í 26:20 á 12 mínútum.  Með svona varnarleik, þá geta þær lagt allar þjóðir, svo mikið er víst.  Höfum í huga að Þjóðverjar lögðu Norðmenn í fyrsta leik.

Staðan í riðlinum er einkar áhugaverð.  Tvö efstu liðin eru með 6 stig, þá koma 3 lið með 4 stig og loks Kína með ekkert.  Sigur á Kínverjum á föstudag gæti farið svo langt að fleyta liðinu í 2. sæti riðilsins, en liðið gæti líka endað í 4. sæti, þó það vinni.

Leikirnir sem eru eftir eru Angóla - Þýskaland, Noregur - Svartfjallaland og Ísland - Kína í þessari röð.  Íslenska liðið mun því vita þegar það labbar inn á völlinn á föstudag hvaða úrslit eru nauðsynleg til að ná hagstæðustu riðilsstöðu eða hvort úrslitin skipta yfirhöfuð máli.  Vinni Angóla Þýskaland, þá fer Ísland áfram þó stelpurnar tapi fyrir Kína og það sem meira er að þær lenda alltaf í 4. sæti sama hvað gerist í öðrum leikjum. Verði einhver önnur úrslit í leik Þjóðverja og Angóla, þá þurfa þær einnig jafntefli

Til einföldunar má segja, að vinni Svartfjallaland Noreg eða það verði jafntefli, þá kemst Ísland hæst í 3. sæti.  Vinni Norðmenn og Angóla vinnur ekki Þýskaland, þá lendir Ísland í 2. sæti riðilsins með sigri á Kína. 

Samantekt á þessu er:

  • Angóla vinnur Þýskaland - Ísland lendir alltaf í 4. sæti sama hvernig aðrir leikir fara.
  • Angóla og Þýskaland gera jafntefli:
    • Ísland tapar fyrir Kína:  Ísland situr eftir í 5. sæti
    • Ísland gerir jafntefli:  Ísland lendir í 4. sæti, Angóla í 3. sæti og Þýskaland í 5. sæti
    • Ísland vinnur Kína:  Þá eru tveir möguleikar:
      • Noregur vinnur Svartfjallaland:  Ísland lendir í 2. sæti
      • Noregur vinnur ekki Svartfjallaland: Ísland lendir í 3. sæti
  • Þýskaland vinnur Angóla:
    • Ísland tapar fyrir Kína:  Ísland situr eftir í 5. sæti, Angóla tekur 4. sæti
    • Ísland gerir jafntefli:  Ísland lendir í 4. sæti, Angóla í 5. sæti og Þýskaland í 2. eða 3. sæti, eftir því hvernig leikur Noregs og Svartfjallalands fer.
    • Ísland vinnur Kína:  Þá eru þrír möguleikar:
      • Noregur vinnur Svartfjallaland:  Ísland lendir í 2. sæti, Svartfjallaland í því 3. og Þýskaland í því 4.
      • Noregur og Svartfjallaland gera jafntefli: Ísland lendir í 3. sæti og Þýskaland í því 4.
      • Svartfjallaland vinnur Noreg:  Ísland endar í 4. sæti, Þýskaland í 3. og Noregur í 2.

Út frá þessu væru draumaúrslitin á föstudaginn, að Ísland, Þýskaland og Noregur vinni sína leiki.  Þá verður mótherjinn í 16 liða úrslitum sigurvegarinn úr leik Suður Kóreu og Hollands, en Hollendingar ef leikurinn endar með jafntefli. 

Hafa skal varann á að Kína er sýnd veiði en ekki gefinn.  Liðið tapaði með einu marki fyrir bæði Angóla og Þjóðverjum, þannig að hitti þær á góðan dag, þá þarf íslenska liðið virkilega að leggja sig fram.  Svo náttúrulega getur kínverska liðið verið hroðalegt. Málið er að annar hver leikur hefur verið góður hjá Kínaverjum, en þriðji hver hjá íslenska liðinu.  Úrslitin eru því langt frá því að vera ákveðin fyrir fram.

Loks má benda á, að lendi íslenska liðið í 5. sæti, þá keppir það við  Kazakhstan í leik um 17. - 20. sæti.  Leikjaplanið má finna hér.

(Allt er þetta sagt með fyrirvara um að IHF hafi ekki breytt reglum sínum um röðun í sæti, ef tvö eða fleiri lið eru jöfn að stigum.)  


mbl.is Glæsilegur sigur á Þjóðverjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta fórnarlamb er fundið - Hófleg nýting tekjustofna best!

Ætla menn ekki að læra.  Nú hefur fjármálakerfið og spákaupmenn þvingað fram tvö ótrúlega stórtæk inngrip stjórnvalda í fjármálamarkaðinn á 3-4 árum.  Árið 2008 greip bandaríski seðlabankinn og bandarísk stjórnvöld til þess að dæla í sameiningu um 8,4 billjörðum (trillions) USD (7,7 billjarða frá Seðlabanka Bandaríkjanna og 700 ma. frá ríkisstjórninni, sjá $7.7 Trillion to Wall Street - Anything to Keep the Banksters Happy! | Truthout) inn í ofurstór bandaríks fjármálafyrirtæki sem voru of stór til að falla og gerðu þau í leiðinni ennþá stærri.  "Lán" voru veitt á lágum vöxtum sem notuð voru til að kaupa ríkisskuldabréf á aðeins hærri vöxtum og niðurstaðan var meiri hagnaður hjá þessum fyrirtækjum en meira segja á mestu uppgangsárunum.  Vextina borga skattgreiðendur, en peningarnir voru prentaðir hjá Ben frænda.  Á sama tíma austan ála Atlantshafsins dældu írsk, bresk og þýsk stjórnvöld háum upphæðum inn í fjármálastofnanir og sitja skattborgara þessara landa uppi með reikninginn.  USA 0 - Vogunarsjóðir 3 og ESB 0 - Vogunarsjóðir 2.

Stjórnendur stóru fjármálafyrirtækjanna á Wall Street eiga í stökustu vandræðum með að fela brosið á vörum sínum, enda mala þeir gull.  Lehman Brothers varð að vísu fórnarlamb, en með réttu hefðu þau átt að vera mun fleiri.

Já, bragðið heppnaðist fullkomleg.  Mikill vill meira og það reyndu þeir vestanhafs, en þá sagði Obama nei.  Til að bæta gráu ofan á svart, þá var hann svo ósvífinn, að krefjast þess að menn borguðu ekki bónusa, þannig að "lánunum" var skilaði í snarhasti.

Menn voru greinilega komnir með blóðbragð í munninn.  Leitin að veikasta hlekknum hófst.  Gerð var atlaga að Portúgal og Spáni, en bæði löndin stóðust áhlaupið í bili.  En það gerði Grikkland ekki.   Yfirstjórn ESB og Seðlabanki Evrópukomu í veg fyrir að Grikkir færu íslensku leiðina, þ.e. gefa kröfuhöfum langt nef.  Búið er að dælan hundruð ef ekki þúsundum milljarða evra inn í evrópskar fjármálastofnanir, svo síhungraðir úlfar fjármálakerfisins fá sitt.  Allt er þetta vegna þess að vogunarsjóðir og bandarískir stórbankar hafa lagt stórar upphæðir undir í afleiðum og hætt við að sú spilaborg hrynji, ef í ljós kemur að þeir hafi veðjað á rangan lit.  Til að halda stjórnvöldum við efnið hefur áhlaup verið gert að hverju fórnarlambinu á fætur öðru.  Grikkland er fallið, Ítalía er komin í gjörgæslu, frönskum stórbanka var bjargað með þögulli neyðaraðgerð aðfararnótt þriðjudags í síðustu viku, 1.400 milljarða evru björgunarsjóður hefur verið stofnaður.  ESB 0 - Vogunarsjóðir 5 og USA 0 - Vogunarsjóðir 4.

Það er alveg með ólíkindum hvernig menn geta hagað sé eins og hálfvitar með peninga, án allrar alvöru áhættustýringar, og síðan greiða skattborgara reikninginn.

Nú eru menn búnir að átta sig á því, að ekki er meiri pening að fá frá Evrópu.  Vogunarsjóðirnir tapa líklegast mest á því að evrusamstarfið liðist í sundur, þar sem þá geta þeir ekki þvingað Þýskaland til að bjarga Grikklandi.  Markmiðið var jú alltaf að komast í þýska ríkiskassann, enda eftir mestu að sælast þar.  Þetta er eins og með aðra nytjastofna.  Menn verða að nýta þá af skynsemi svo þeir gefi vel af sér á hverju ári.  Rányrkja leiðir til hruns.

Þá er um að gera að leita á önnur mið.  Nytjastofnar Asíu hafa ekki verið nýttir í um 20 ár, þannig að þar sjá menn tækifæri.  Ekkert er varið í þá í Afríku og Suður-Ameríka er ekki eins stór og Asía.  Spurningin er hvort við munum á næstu mánuðum og kannski 2 - 3 árum lesa um hrun á Indlandi, Malasíu, Indónesíu, Kóreu, Filippseyjum og öðrum öflugum löndum á svæðinu og í framhaldi af því í Ástralíu og á Nýja-Sjálandi.  Ég læt mér ekki detta í hug að hrægammar fjármálakerfisins verði nokkru sinni saddir.  Þeir munu halda áfram að leita að fórnarlömbum svo lengi sem ríkisstjórnir og seðlabankar halda sig það að einstakar fjármálastofnanir séu of stórar til að falla, að allar ríkisskuldir skuli greiddar og menn ráðast ekki að meinsemdinni sem er óábyrg útlánastarfsemi fjármálageirans.

Stærstu mistök stjórnmálamanna og stjórnenda seðlabanka um allan heim er ekki að hafa sofið á verðinum í aðdraganda þess hildarleiks sem núna er í gangi.  Vissulega voru það alvarleg mistök og verðskulda að allir sem hlut eiga að máli fari launalausir á eftirlaun.  Nei, stærstu mistökin eru að reyna að breiða fyrir mistökin sín.  Það er gert með því að gera stöðutöku vogunarsjóðanna áhættulausa.  Í hvert sinn sem stefnir í tap þeirra sem höguðu sér á óábyrgan hátt, þá er þeim nóg að hóta einhverjum minni máttar og Ben frændi eða Angela reiða fram svívirðilega háar upphæðir.  Ef ég gerði þetta, þá væri ég kærður fyrir fjárkúgun, en þar sem þetta er gert í nafni fjármálastarfsemi, þá telst þetta ekki bara löglegt heldur eðlileg viðskipti!  Eina leiðin til að stoppa þetta er að gera mönnum grein fyrir að þeir bera sjálfir ábyrgð á sinni áhættustýringu.


mbl.is Evrópa gæti dregið Asíu niður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rétta fjallið - Langtímahagsmunir ofar skammtímaávinningi

Bankahrunið ætti að kenna okkur að langtímahagsmunir þurfa að vera ofar skammtímaávinningi.  Skiptir þá ekki máli hvert málefnið er.  Allt of mörg dæmi eru um það, að næsti bikar er það markmið sem menn setja sér og er þá öllu kostað til.  Þannig hefur bankakerfi heimsins að því virðist verið rekið og þannig var bankakerfið á Íslandi rekið.  Frá þessari stefnu verðum við að víkja, þó það kosti að lengri tíma tekur að vinna sig upp úr öldudalnum. 

Sígandi lukka er best.  Það hefur ærið oft sannast.  Að taka eitt skref, ná jafnvægi þar áður en haldið er áfram.  Taka annað skref, ná jafnvægi áður en haldið er áfram.  Svona vinnum við okkur hægt og rólega út úr vandanum.  Þetta er ekki ólíkt því að klífa hamravegg.  Ef gripið eða fótfestan er ekki góð, þá gætum við misst takið og fallið niður eða bara runnið til baka.

Viljum við byggja upp traust atvinnulíf, þá gerum við það með þessum hætti.  Eitt skref í einu og finnum jafnvægið sem þarf til að halda áfram.  Því miður hefur verið of algengt að eðlilegri varúð er kastað fyrir róðann, þar sem skyndigróði var rétt handan við hornið.  Skyndigróði sem reyndist svo tálsýn og þá var ekkert bakland til að hjálpa viðkomandi að taka skellinn.  Um þessar mundir er bankakerfið að afskrifa (eða öllu heldur skila afskriftum gömlu bankanna) hjá fjölmörgum aðilum, sem héldu að þeir kynnu einhverja töfraaðferð við að klífa Everest.  Þeir tóku gylliboðum gömlu bankanna um skjótfengan gróða, keyptu hlutabréf án þess að eiga nokkurt eigið fé, fóru út í fjárfestingar í þeirri von að þeir væru óskeikulir.  Fjallagarpar hafa lengi sagt að mikilvægt sé að klífa "rétta" fjallið, the Right Mountain.  Ljóst er að íslenski fjármálaheimurinn kleif rangt fjall á árunum fyrir hrun.  Hann a.m.k. réð ekki við það "fjall" sem hann lagði á.

Þetta hljómar kannski frasakennt, en sannleikurinn er sá að langt ferðalag hefst með fyrsta skrefinu og til að komast á leiðarenda, þá þurfum við að stíga sjálf hvert einasta skref á leiðinni.  Ef eitthvað er of gott til að vera satt, þá er það oftast einmitt það.   Ætli menn að stytta sér leiðina, þá verður það oft til þess að þeir missa af tækifærinu til að læra og öðlast skilning og reynslu.  Er ég ansi hræddur um að það hafi einmitt verið þetta reynsluleysi og skortur á skilningi, sem hafi orðið íslenskum fjármálakörlum fjötur um fót og leitt þá út í þær ógöngur sem þeir rötuðu í og drógu því miður íslensku þjóðina með sér.

Grunnurinn skiptir máli

Ætli menn að byggja upp öflugt fyrirtæki, þá skiptir grunnurinn mestu máli.  Orkuveita Reykjavíkur eru dæmi um fyrirtæki, þar sem þetta gleymdist.  Ekki það að OR var mjög traust fyrirtæki á mjög traustum grunni.  Alveg algjörlega.  Sá grunnur var fyrir almenningsþjónustu, ekki framleiðslu fyrir stóriðju.  OR ákvað að klífa rangt fjall eftir að hafa náð fullkomnu valdi á að klífa rétt fjöll.  Hún byggði stórhýsi á grunni sem hentaði fyrir einbýlishús.

Dæmin um röng fjöll eru mýmörg.  Fiskeldi, rækjuveiðar, loðdýrarækt, bílaumboð, bankakerfið og svona mætti lengi, lengi telja.  Ekkert af þessu hefði þurft að bregðast, ef menn hefðu bara kunnað að klífa þessi fjöll sem þeir lögðu á.  Vandamálið var oftast að menn höfðu ekki fjármagn til að bíða eftir uppskerunni.  Í gamla daga var sagt, að sá sem setti verslun á fót þyrfti að þola 2 - 3 ár, jafnvel lengur, án þess að geta tekið nokkuð út úr rekstrinum.  Í dag ætla menn helst að fá milljón á mánuði frá fyrsta degi.  Slíkt er dæmt til að mistakast í 99% tilfella.

Hvernig klífur maður nýtt fjall?

Ég er svo sem enginn fjallagarpur, enda þarf ég svo sem ekki að vera það til að vita margt af þessu.  Ég er þó í gönguklúbbi og hef því af og til álpast á rangt fjall.  Ætlað mér um of.  Fyrst um sinn átti það til að bitna á fólkinu í kringum mig, en síðan lærði ég að ég stjórna og ber ábyrgð á minni fjallgöngu.  Til þess að komast á toppinn varð ég einfaldlega að fara hægar yfir en margir aðrir í hópnum.  Þetta hefur oft orðið til þess að ég komst ekki upp á toppinn, en ég hef komist hærra upp í hvert sinn.  Og er það ekki markmiðið:  Að gera betur í dag en í gær!

En hvernig klífur maður nýtt fjall?  Í bókinni The Right Mountain, Lessons from Everset On the Real Meaning of Success, lýsir höfundurinn, Jim Hayhurst, sr., ferð sinni með hóp manna á Everest.  Það eru tæp 16 ár síðan ég eignaðist þessa bók, en hún er mér sífelld uppspretta visku um lífið og árangurríka nálgun að lausn "óviðráðanlegra" viðfangsefna.  Frá því að ég eignaðist bókina hef ég lagt á óteljandi "fjöll" sem í upphafi hefðu átt að teljast "röng", en með réttri aðferðafræði hefur mér tekist að ná lengra en mér hefði dottið í hug i upphafi.  Já, ég hef af og til valið ögrandi verkefni og er baráttan fyrir réttlæti til handa heimilum landsins líklegast það mest ögrandi af öllum.  Ég alltaf byggt á því að smátt er gott og virt að langtímamarkmið skiptir meira máli en stundarávinningur.  Ætli maður að komast alla leið, þá má maður ekki sprengja sig á stuttum kafla.  Betra er að missa af fallegu útsýni frá einum stað, en að missa af því markmiði að sjá ennþá fallegra frá öðrum stað.  Nú einnig er mjög oft besta lausnin að snúa við, annað hvort til að velja aðra leið eða til að segja þetta gott að sinni.

The Right Mountain

Jim Hayhurst lýsir í bókinni, The Right Mountain, á einfaldan og auðskiljanlegan hátt því ferli sem fólst í því að klífa Everest.  En það er ekki ferlið sjálft sem skiptir máli, heldur það hugarfar sem maður fer með inn í ferlið og þann lærdóm sem draga má af því.  Af þeim sökum verður bókin, sem lýsir þessu ferðalagi, að einstakri leiðsögn um hvað skiptir máli í nútíma fyrirtækjarekstri.  Allir kaflar í bókinni bera annars vegar heiti og síðan tilvísun í hvað læra má af því sem þar er fjallað um.  Lærdómurinn eða skilaboðin/heilræðin eru einmitt það sem gerir bókina svo góða og birti ég hér fyrir neðan valdar greinar:

  • Kafli 1: Building a Team, a Real Team
  • Kafli 2: Commitment
  • Kafli 5: Bite-Sized Pieces
  • Kafli 6: Motivation Makes the Difference Every Time
  • Kafli 7: Life Is Not a Macho Sport
  • Kafli 8: Set Clear Goals and Communicate Them Clearly
  • Kafli 12: Sometimes You Have to Be Lucky
  • Kafli 13: Keep Perspective
  • Kafli 14: You Can't Go Full Tilt All the Time
  • Kafli 17: Sometimes You Have to Let Somebody Else Do It
  • Kafli 19: You Can Learn a Lot by Looking Back
  • Kafli 20: When You Don't Know What to Do, Do It Slowly
  • Kafli 22: The Laws of Nature Cannot Be Violated
  • Kafli 25: Define Roles and Goals
  • Kafli 26: Don't Get Cocky - Don't Forget the Lessons Learned
  • Kalfi 29: The Right Mountain
  • Kafli 30: Establishing Priorities
  • Kafli 31: Decision Making
  • Kafli 32: Using Core Value

Skilgreining á árangri

Bókinn lýkur með verkefnakafla og eftir að ég las hana fyrst, þá svaraði ég nokkrum spurningum.  Þó liðin séu tæp 16 ár, þá er ég bara nokkuð sáttur við það sem ég skrifaði.  Fyrst er það skilgreining mín frá (líklegast snemma árs) 1996 á hvað er árangur:

Árangur er að ná markmiðum sínum miðað við að þau séu hófleg og náanleg.  Markmiðin mega ekki brjóta gegn almennri siðferðiskennd eða vera á kostnað einhvers sem minna má sín.

Ég gæti ekki orðað þetta betur í dag.

Höfundurinn sjálfur segir hins vegar:

TRUE SUCCESS

is the attainment of purpose

without comprimising

CORE VALUES

(Core Values er það sem við tölum almennt um sem siðgæðisvitund.)


mbl.is Hurð skall nærri hælum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hér eru raunverulegar niðurstöðurnar úr skoðanakönnun Capacent

Ég var að fá tölvupóst með raunverulegum niðurstöðum úr skoðanakönnun Capacent Gallup.  Þær eru sem hér segir:

Fékk upplýsingar frá Capacent um nánari skiptingu á svörum. Raunveruleg staða er núna (og það nánast óbreytt frá síðustu mánaðarmótum):

26,5%    Sjálfstæðisflokkur

15,4%    Samfylking

15,0%    Skila auðu/ætla ekki að kjósa

15,0%    Taka ekki afstöðu

10,5%    Framsókn

  9,5%    VG

  8,5%    Aðrir/Hreyfingin

Nær 40% vilja ekki tilgreina neinn af fjórflokkunum svokölluðu. Svipað og síðast.

Hér mælist Hreyfingin og "aðrir" með 8,5% fylgi, þ.e. mjög svipað og VG, og Sjálfstæðiflokkurinn með 26,5% fylgi en ekki 38%.  Þeir sem ekki taka afstöðu eru álíka margir og segjast ætla að kjósa Samfylkinguna og sama á við um þá sem ætla að skila auðu eða ætla ekki að kjósa. 

Heil 30% eru annað hvort ekki búin að taka afstöðu eða ætla á þessari stundu ekki að kjósa/skila auðu.

Vildi bara leyfa fólki að sjá hvernig tölurnar breytast.  Enn og einu sinni er rétt að benda á að líklegast eru þessar niðurstöður fengnar eftir að svarendur hafa verið þráspurðir um afstöðu sína.  Skora ég enn og einu sinni á Capacent að birta tölur líka eftir fyrstu spurningu, svo fólk sjái hvert fylgið er samkvæmt henni.


mbl.is Aukinn stuðningur við Sjálfstæðisflokkinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Merkileg rök Lýsingar í málinu gegn Smákrönum - Lýsingu ber að sanna gjaldfærni

Ég ákvað að lesa yfir dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í mál Smákrana gegn Lýsingu.  Greinilegt er að málsvörn Lýsingar er á köflum örvæntingarfull.  Langar mig að skoða tvö atriði sérstaklega og benda á hina augljósu villur sem þessi atriði byggja á.  Annað er rök Lýsingar fyrir því að fjármögnunarleigusamningur sé leigusamningur en ekki lánssamningur og hitt er varðandi frjálst flæði fjármagns.

"Fjármögnunarsamningur er leigusamningur ekki lánssamningur"

Þetta atriði er eitt af þeim sem Hæstiréttur fjallaði sérstaklega um í dómum í málum nr. 92/2010 og 153/2010.  En skoðum nokkur atriði af því sem Lýsing segir:

  • Stefndi kveður að leigusamningur sé gagnkvæmur samningur, þar sem annar aðilinn, leigusali, heimili gagnaðilanum, leigutaka, tiltekin afnot af leigumun, gegn greiðslu endurgjalds sem kallist leiga eða leigugjald. Um sé að ræða gagnkvæman samning þar sem báðir samningsaðilar eigi rétt og beri skyldur.
  • Lánssamningur sé það kallað þegar lánveitandi veiti eða lofi að veita lántaka lán í formi greiðslufrests eða svipaðrar fjárhagslegrar fyrirgreiðslu og lántaki lofi að greiða lánið til baka skv. ákvæðum lánssamningsins. Þeir lánssamningar sem falli undir vaxtalögin nr. 38/2001 séu lánssamningar um peninga, eins og skýrt komi fram í 1. gr. laganna en þar komi fram að lögin gildi um vexti af peningakröfum á sviði fjármunaréttar.
  • Af mismunandi skilgreiningum á leigusamningum og lánssamningum, hér að framan, megi ráða að hinn umþrætti fjármögnunarleigusamningur sé leigusamningur en ekki lánssamningur.
  • Stefndi telur að þetta atriði geti ekki skipt máli í því sambandi hvort líta beri á samning aðila sem leigusamning eða lánssamning. Í þessu máli sé aðstaðan ólík því sem hafi verið í hinum tilvitnuðu dómum Hæstaréttar því að stefndi hafi keypt leiguhlutinn beint af stefnanda og leigt honum hann síðan með fjármögnunarleigusamningi. Slíkt afbrigði af fjármögnunarleigusamningi sé algengt hér heima og erlendis og sé á ensku kallað ,,sale and leaseback“.

Án þess að ég leiti uppi hvað dómari málsins segir um þessi atriði, þá bendir Hæstiréttur á í máli 282/2011 þá er sá regin munur á leigusamningi og lánssamningi, að leigjandi eignast engan rétt til hins leigða munar að leigutímaloknum og leigugreiðslur beri ekki vexti.  Í þessu máli leggst til viðbótar, að "leigutaki" fékk peninga frá "leigusala" inn á sinn reikning, 3,6 m.kr., og notaði þann pening ásamt 2,5 m.kr. af eigin peningum til að greiða fyrir "leigumuninn".  Veit ég ekki til þess, að það tíðkist í leigusamningum, að leigjandi byrji á því að greiða ríflega 40% andvirðis hins leigða munar.  Ekki kom heldur neins staðar fram í þeim hluta málflutnings Lýsingar, sem birtur er í dómi héraðsdóms, að Lýsing hafi keypt "leigumuninn" aftur af Smákrönum á 6,1 m.kr. sem ætti að vera hin eðlilega upphæð.  Þessi rök Lýsingar standast því ekki og þar með fella þessi rök um sjálft sig.

"Frjálst flæði fjármagns"

Hér er Lýsing alveg úti á túni.  Frjálst flæði fjármagns er hluti af fjórfrelsinu amkvæmt EES samningnum.  En hvað felst í fjórfrelsinu? Jú, það er 1) frelsi til fólksflutninga, 2) frelsi til að veita þjónustu, 3) frelsi til fjármagnsflutninga og 4) staðfesturétt.  Allt snýst þetta um að ekkert hamli þetta fernt í samskiptum milli aðildarríkja samningsins, en hvert ríki má setja hömlur sem gilda innan landamæra ríkisins

Lýsing var að lána fyrirtæki á Íslandi peninga og um þau viðskipti gilda íslensk lög.  Þau banna að verðtryggja upphæð samningsins við gengi erlendra gjaldmiðla.  Þau hvorki banna að Íslendingur taki lán hjá erlendri lánastofnun né að innlend lánastofnun veiti aðila utan Íslands lán svo fremi sem hinir erlendu aðilar séu innan EES.  Hvernig Lýsingu dettur í hug, að verið sé að brjóta á fjórfrelsinu í þessu tilfellli skil ég ekki.  Frelsi til fjármagnsflutninga í EES samningnum hefur ekkert með það að gera í hvaða mynt er hægt að gera samninga í hverju landi fyrir sig.  Bara að íslenskur aðili geti tekið þátt í löglegum fjármagnsflutningum til og frá erlendum aðila með aðsetur innan EES.

Lýsing ber því við að fyrirtækið fjármagni sig með ákveðnum hætti og þess vegna verði það að fá að tryggja sér tekjur með sambærilegum hætti.  Skerðing á því, sé brot á fjórfrelsinu.  Satt best að segja, þá skil ég ekki þessi rök.  Hvaða máli skiptir hvernig Lýsing fjármagnar sig?  Það er ekki fyrir dómi og er viðskiptavini fyrirtækisins gjörsamlega óviðkomandi.  Er þá hægt að gagnálykta, að þar sem óverðtryggð innlán bera 0,5% vexti, þá megi banki sem tekur við slíkum innlánum ekki krefjast nema 4% óverðtryggðra vaxta, þar sem það sé fullnægjandi vaxtamunur til að verja bankann gegn þeim afföllum sem verða á slíkum lánum?  Fjármögnun Lýsingar er ekki á ábyrgð viðskiptavinarins og hreinlega ámátlegt að bera slíkt fyrir sig í dómsmáli.

Þegar ég ræddi við starfsmanna ESA í ágúst í fyrra, þá spurði hann strax út í þetta atriði.  Þ.e. getur erlendur aðili veit íslenskum aðila lán í hvaða gjaldmiðli sem er og fengið veð í hérlendri eign sem sett er fram sem trygging.  Augljóst var af spurningunni, að væri svarið við henni já, þá væri ekki um neitt vandamál hvað þetta varðar.  Nú, svarið er já, en framkvæmdin er sú að gefa út tryggingabréf og þinglýsa því á eignina.  Eftir þetta samtal var ég sannfærður um að fjórfrelsið kæmi gengistryggðum lánum ekkert við, en menn höfðu verið að velta því fyrir sér í kringum mig.  (Ákveðinn paranoja var í gangi um ógilding gengistryggingarinnar gæti lent á ríkissjóði og þar með skattgreiðendum vegna brots gegn fjórfrelsinu.)  Ennfremur kemur fram í málflutningi Lýsingar, að ekki hafi verið amast við fjármagnsflutningi félagsins til Íslands (sbr. að það fjármagnaði sig erlendis).

Öllu tjaldað til

Merkilegt er til þess að vita, að Lýsing telji sig hafa gert allt rétt sem aðrir gerðu rangt með því einu að kalla hlutina öðru nafni.  Nú hefur Héraðsdómur Reykjavíkur bent fyrirtækinu á að svo er ekki.   Hið góða við þetta mál, er að Lýsing notaði öll vopnin í vopnabúrinu og þau reyndust haldslaus.  Hafa verður þó í huga að málið á eftir að fara fyrir Hæstarétt.  Þó mér þyki það ólíklegt, þá er aldrei hægt að útiloka þann möguleika að rétturinn snúi þessari niðurstöðu.  Þangað til mun Lýsing örugglega halda áfram að vörslusvipta fyrirtæki og einstaklinga í krafti þess að málunum sé ekki lokið fyrr en Hæstiréttur hefur kveðið upp rausn sína. 

Lýsingu ber að sanna gjaldfærni sína

Í ljósi niðurstöðu héraðsdóms, þá er fullt tilefni hjá lántökum að fara strax í hart við fyrirtækið.  Án þess að þekkja fjárhagsstöðu þess, þá getur ekki annað verið, en hún muni veikjast verulega staðfesti Hæstiréttur dóminn.  Jafnvel það mikið að fyrirtækið geti ekki staðið undir kröfum viðskiptavina vegna þess sem á undan er gengið og framundan er.  Sumir viðskiptavina AVANT brenndu sig á því að treysta yfirlýsingu um gjaldfærni fyrirtækisins eftir dóm Héraðsdóms Reykjavíkur 12. febrúar 2010. 

Ég tel rétt, að Lýsing sanni fyrir opinberum aðilum gjaldfærni sína, þ.e. að fyrirtækið geti staðið undir þeim skuldbindingum (fjárútlátum), sem staðfesting Hæstaréttar kynni að hafa.  Á það jafnt við um mál, þar sem viðskiptavinir hafa ennþá munina undir höndum og líka þau tilfelli þar sem viðskiptavinir hafa verið sviptir þeim.  Gleymum því ekki að ranglegar vörslusviptingar geta leitt af sér rétt til skaðabóta.


mbl.is Lýsing tapaði máli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 50
  • Frá upphafi: 1678110

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 44
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband