Leita í fréttum mbl.is

Nærri 6 ár að baki

Það styttist óðfluga í að 6 ár séu frá falli bankanna í byrjun október 2008.  Hef ég oft velt fyrir mér hvort hægt hefði verið að koma í veg fyrir marga fylgikvilla falls þeirra.  Á þessum tíma, þ.e. í október 2008, skrifaði ég margar færslur um úrræði fyrir skuldara og atburði líðandi stundar.  Í einum þeirra lagði ég til að gengistryggðum lánum yrði skipt upp á tvö lán, annað sem stæði í því gengi sem lántakar höfðu búist við að yrði og hitt með þeirri upphæð sem umfram var og það fryst þar til betur viðraði í þjóðfélaginu (datt ekki í hug þá að gengistryggingin væri ólögleg).  Tekið skal fram, að þetta var áður en verðbólgan fór í hæstu hæðir og því komu hugmyndir um svipuð úrræði vegna verðtryggðra lána ekki fram fyrr en seinna.

Ekki þarf að taka það fram, að þetta hlaut ekki hljómgrunn hjá fjármálastofnunum.  Nei, þær ætluðu að blóðmjólka lántaka sem frekast hægt væri.  Afleiðingarnar hafa verið ógurlegar og haft margföld samfélagsleg áhrif á við mestu náttúruhamfarir.  Afleiðingar sem ég tel að hægt hefði verið að koma í veg fyrir og hafi verið með öllu óþarfar.

Nánast allir töpuðu miklu

Lítið fer á milli mála, að nánast allir töpuðu háum upphæðum á hruninu.  Vissulega hefur hópur fólks stigið fram og sagt að þeirra tjón hafi verið lítið eða ekkert, en ég held að þeir einstaklingar séu ekki að taka inn í reikninginn alla þá mörgu liði sem nauðsynlegt er að skoða. 

Ég ætla ekkert að draga fjöður yfir það, að fjárhagslegt tjón efnafólks var mjög mikið.  Það fólst ekki alltaf í því að einstaklingar töpuðu beint háum upphæðum af eigin fé, frekar að það tapaði tækifærunum til að verða óhugnanlega ríkt í gegn um bæði glæfralegar og skynsamlegar fjárfestingar.  Enginn fór verr út úr hlutunum í krónum og aurum en Björgólfur Guðmundsson sem fór frá því að vera kóngurinn í það að vera gjaldþrota á stuttum tíma.  Ég reikna þó ekki með að hann þurfi að lifa við sult og seyru það sem eftir er ævi hans.  Magnús Kristinsson er annar sem missti hásæti sitt (og þyrlu).  Fólk getur haft ólíkar skoðanir á þessum mönnum, en tjón þeirra var meira en allar aðgerðir ríkisstjórna Íslands fyrir heimilin í landinu, til að setja hlutina í samhengi.

Gríðarlega stór hópur fólks tapaði ævisparnaði sínum.  Mest eldri borgarar sem lagt höfðu allan sinn sparnað í hlutabréf og skuldabréf bankanna, Eimskipa og Icelandair.  Veit ég um of marga sem áttu milljónir, tugi milljóna og jafn hundruð milljóna í slíkum bréfum og töpuðu öllu.  Vissulega var talsverð froða í þessum eignum, en jafnvel þriðjungur upphæðarinnar hefði veitt mörgum eldri borgaranum áhyggjulaust ævikvöld.  Þetta voru ekki fjárfestar í þeim skilningi.  Bara venjulegt fólk sem hafði lagt hart af sér og sýnt ráðsemd um ævina og stundum verið heppið með ákvarðanir sínar.  Tjón þessa hóps er engu minna en tjón Björgólfs, ef ekki meira, vegna þess að það átti ekki þennan fína björgunarhring sem Björgólfur á í syni sínum og eiginkonu.  Hef ég átt í nokkrum samskiptum við einstaklinga úr þessum hópi og verð að segja eins og er, að sjaldan hef ég upplifað eins mikla uppgjöf og hjá þessu fólki.  Að missa ekki bara nánast allan sinn ævisparnað, heldur sjá lánin sín hækka upp úr öllu og húseignir hrynja í verði hefur reynst mörgum erfitt.  Á það bætist síðan innheimtuharka fjármálafyrirtækja, sem eru afsprengi tjónvaldanna.

Þeir hópar, sem að mínu mati, hafa tapað mestu eru þó ekki þeir sem nefndir eru að ofan.  Þeir eru þrír og vissulega getur fólk úr hópunum að ofan líka verið í þeim.  Sami einstaklingurinn getur fundið sig í fleiri en einum og jafnvel verið í þeim öllum.

Hópur 1. Fólk sem orðið hefur fyrir miklum tekjumissi eða orðið eftir í tekjuþróun.  Atvinnuleysi á Íslandi var innan við 2% fyrri hluta árs 2008.  Núna er langtímaatvinnuleysi um 3,5% og en er atvinnuleysi um og yfir 6,5%.  Að á bilinu 1/12 til 1/16 Íslendinga á vinnumarkaði hafi verið án atvinnu í 6 ár er líklegast mun verra, en að tapa krónum og aurum í uppsprengdum eignum.  Að þurfa að lifa á atvinnuleysisbótum mánuð eftir mánuð, ár eftir ár, fer ekki vel með nokkurn mann.  Bætum svo við lífeyrisþegum sem eru á strípuðum lífeyri og við erum með 1/5 sem þurfa að horfa í hverja einustu krónu áður en ákveðið er hvort henni er eytt í eitt frekar en annað.  Slíkt er hægt að þola í mánuð og mánuð, en ekki sem viðvarandi ástand.

Hópur 2. Fólk sem misst hefur heimili sitt fyrir slikk á nauðungarsölum eða farið í gjaldþrot.  Vissulega átti fyrning vegna gjaldþrots að ganga yfir á tveimur árum, en síðan hefur komið í ljós að fjármálafyrirtæki gleyma engu og þó meira en tvö ár séu liðin, þá koma einstaklingar að lokuðum dyrum hjá fjármálafyrirtækjunum.  Ýmislegt bendir til, að þeir "óverðugu" innan hóps gjaldþrota einstaklinga muni eiga mjög erfitt uppdráttar um langa tíð.  Áhrif nauðungarsala virðist ekki vera ósvipuð.  Fólk virðist komast á einhvern bannlista hjá fjármálafyrirtækjum og fær ekki fyrirgreiðslu til að kaupa nýtt húsnæði.  Höfum í huga, að fjármálafyrirtækin eru sjaldnast að tapa á nauðungarsölum.  Tjón fjármálafyrirtækjanna felst oftast í tapaðri ávöxtun eða að ekki fæst greitt upp í uppsprengdan innheimtu- og lögfræðikostnað, en ekki það að fjárhæðin sem tekin var að láni hafi tapast.  Fyrirtækin kaupa oftast eignirnar á skít á priki og halda áfram að innheimta það sem ekki fékkst greitt með yfirtöku eignarinnar.  Þau virða ekki lög um uppgjör við nauðungarsölu og síðan eru ótal dæmi um, að nauðungarsölur hafi verið ólöglegar, þó sýslumenn hafi ekki séð ástæðu til að stíga á bremsuna.

Hópur 3.  Persónulegur missir. Margar fjölskyldur hafa sundrast sem afleiðing af ástandinu sem skapaðist eftir hrun fjármálakerfisins.  Þær hafa ekki bara sundrast, fólk hefur lagst í veikindi, þunglyndi hefur sótt að mörgum og síðan eru örugglega mörg dæmi um að einstaklingar hafi tekið líf sitt.  Peninga má vinna til baka, en brotin hjónabönd, heilsubrestur og að maður tali nú ekki um tekin mannslíf verða ekki bætt.

Tjónvaldar fá innheimtuleyfi á tjónið

Líklegast er það ótrúlegasta við hrunið 2008, að tjónvaldarnir skuli hafa fengið að innheimta átölulaust af hálfu yfirvalda, það tjón sem þeir ollu fólki og fyrirtækjum.  Þetta er eiginlega svo magnað fyrirbæri, að fyrirmynd er hvergi að finna. 

Höfum í huga að hrunbankarnir töpuðu stríðinu sem lögðu upp í.  Þeir voru teknir yfir af ríkinu, þó svo að tveir þeirra hafi endaði í höndum kröfuhafa.  En í þessu stríði, þá voru það bankarnir sem töpuðu því, sem hafa fengið sjálfdæmi um innheimtu á tjóninu sem þeir sjálfir ollu með "stríðsrekstri" sínum.  Og nýju bankarnir sem stofnaðir voru á rústum þeirra gömlu, voru fengnir til að innheimta herkostnaðinn!  Verð að viðurkenna, að þetta er gjörsamlega út í hött.

Stjórnvöld áttu að grípa inn í og setja reglur.  Í þessu tilfelli áttu almennar reglur um breytingar á höfuðstól vegna tengingar við gengi eða vísitölu neysluverðs ekki standa, þar sem hrunbankarnir orsökuðu hrun krónunnar og þar með verðbólguna sem fylgdi.  Stjórnvöld með bein í nefinu hefðu stigið fram og sagt að staða lána í ársbyrjun 2008 væri innheimtanlega krafa nýju bankanna.  Allt annað var afleiðing af óviðunandi háttsemi hrunbankanna. 

En við bjuggum ekki þá og höfum ekki síðan búið við stjórnvöld með bein í nefinu.  Nei, hver meðvirka ríkisstjórnin á fætur annarri hefur verið við völd með óhuggandi áhyggjur af kröfuhöfum.  Kröfuhöfum sem hafa á hinn bóginn haft mjög góðan og mikinn skilning á stöðu Íslands.  Hafa samþykkt mikla niðurfærslu krafna sinna og veittu nýju bönkunum nægan afslátt af yfirteknum lánasöfnum til þess að hægt væri að lækka kröfur á fólk og lögaðila niður í stöðu þeirra í árslok 2007.  Ég held að það sé langt frá því, að þeir kröfuhafar sem áttu kröfur í hrunbankana fyrstu 1-2 árin hafi verið hópur gráðugra hrægamma.  Þvert á móti, þá held ég að þar hafi verið upp til hópa vinveittur hópur aðila, sem áttuðu sig á því að hag þeirra væri best borgið með því að endurreisa íslenskt þjóðfélag hratt og vel. Það voru stjórnvöld sem ákváðu aðra stefnu og halda því kröfuhöfum jafnt sem viðskiptavinum bankanna í heljargreipum óvissunnar.

Afleiðingin af þessari háttsemi er það ástand sem varað hefur á Íslandi síðustu 6 ár:  hátt atvinnuleysi, fjöldagjaldþrot fólks og fyrirtækja, íbúðir seldar nauðungarsölum ofan af fjölskyldum, stöðnun, kreppa og svona mætti lengi telja.  Verst er þó óvissuástandið.  Nærri 6 árum eftir hrun vita fjölmargir einstaklingar/fjölskyldur og fyrirtæki ekki enn skuldastöðu sína.  Óteljandi dómar hafa gengið á tveimur dómstigum og fjármálafyrirtækin virðast hafa sjálfdæmi um túlkun þeirra, hvort farið skal eftir þeim, hverju er farið eftir og þá hvenær.  Kostnaður nýju fjármálafyrirtækjanna af öllu þessu hleypur á milljarða tugum.  Sama á við um kostnað ríkisins.  Þá er eftir að reikna "kostnað" fjárfyrirtækjanna af hinum ýmsu aðgerðum sem gripið hefur verið til.  Sá "kostnaður" hefur ekki verið meiri en svo, að hann sést vart í bókum þeirra.  Nei, hinar aumu ríkisstjórnir sem hér hafa setið, hafa skapað nýju fjármálafyrirtækjunum að minnsta kosti 400 milljarða hagnað síðustu fimm fjárhagsár!  Fjármálafyrirtækin taka að sjálfsögðu það sem að þeim er rétt.  Myndu ekki flestir gera það í þeirra sporum.

Stjórnvöld, þ.m.t. Seðlabanki og Fjármálaeftirlit, segjast hafa haft stöðugleika fjármálakerfisins að leiðarljósi við ákvarðanir sínar.  En meðan óstöðugleiki ríkir í öðrum geirum þjóðfélagsins, hvernig er hægt að segja að fjármálakerfið búi við stöðugleika?  Meðan viðskiptavinir bankanna búa við óvissu, upplifa sig í þvinguðu viðskiptasambandi, vinna nánast dag og nótt til að eiga fyrir næstu afborgun lána, hvernig geta menn komist að þeirri niðurstöðu, að fjármálafyrirtækin búi við stöðugleika?  Fjármálalegur stöðugleiki verður ekki fyrr en nánast allir geta sagt, að þeim líði vel í viðskiptasambandi sínu við fjármálakerfið og fjármálastofnanir eru ánægðar með viðskiptasamband sitt við viðskiptavini sína.  Slíkt verður ekki nema viðskiptasambandið leiði til gagnkvæms ávinnings.

Lágir vextir, hóflegur vöxtur og sjálfbærni eru lykill að stöðugleika

En getum við lært eitthvað af undanfara og afleiðingum falls fjármálafyrirtækjanna í október 2008?  Já, við getum það, en ég kannast ekki við að menn hafi verið neitt of uppteknir af þeim lærdómi.  Froðumyndun er byrjuð aftur á hlutabréfamarkaði og húsnæðismarkaði.  Launamismunur er aftur farinn að koma fram.  Spillingin um að sumir fá og aðrir ekki er enn þá til staðar. Frændsemi, vinskapur, flokksskírteini og vera viðhlæjandi skiptir meira máli en heiðarleiki, hreinskilni, ráðsemd, sannleikur og traust.  Eyjamenningin er alls ráðandi:  Annað hvort ertu í liði með okkur eða ferjan fer í fyrramálið, eins mun vera viðkvæðið á Ermasundseyjunum.

Mín eigin athugun og ígrundun á ástandinu fyrir og eftir hrun segir mér, að nánast sé hægt að taka lærdóminn af hruninu saman í eina setningu:  Sígandi lukka er best!

Til að brjóta þetta frekar niður, þá er hér listi, langt frá því tæmandi, yfir atriði sem hafa má í huga:

  • Að fara sér hægt í öllum aðgerðum,
  • að undirbúa allt vel og vandlega,
  • að sofa á stórum ákvörðunum og leita álits óháðra aðila,
  • að storka skoðunum jábræðrabandalagsins,
  • að spyrja "hvað ef" spurninga, að skoða verstu útkomu ekki síður en þá bestu, 
  • að koma fram við aðra eins og maður vill að aðrir komi fram við sig,
  • að taka ábyrgð á eigin ákvörðunum en ekki skýla sig á bakvið að ekkert bannaði þetta,
  • að skilja áhættuna sem fylgir, ekki síst fyrir aðra,
  • að hófleg ávöxtun er best,
  • að lán eru almennt í skilum þegar vextir eru lágir,
  • að langtímahagnaður mun skilabetri árangri en skammtímagróði,
  • að besti sparnaðurinn fellst í því að greiða upp lán,
  • að stöðugleikinn einn tryggir efnahagslegt jafnvægi,
  • að sjálfbærni er lykillinn að framtíðinni, hvort heldur heimilisins, fyrirtækisins, ríkisins eða þjóðarinnar.

Þessi listi er ekki um lög og reglur sem stjórnvöld þurfa að setja.  Hann er um okkar eigin hegðun, heilræði og siðareglur.  Við listann má bæta endalaust fleiri góðum atriðum.


Hæstiréttur að missa sig?

Ég get ekki annað en spurt mig þessarar spurningar í fyrirsögn pistilsins.  Er Hæstiréttur að missa sig?

Í síðustu viku gekk dómur í máli nr. 338/2014, kröfu Landsbankans um að bú Ólafs H. Jónssonar verði tekið gjaldþrotaskipta, en Ólafur áfrýjaði dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í þá veru.  Gjaldþrotaúrskurðurinn er byggður á því að einn dag í september 2013 hafi farið fram árangurslaust fjárnám hjá Ólafi.  Gerð sem samkvæmt frétt Morgunblaðsins, Ólafi var ekki kunnugt um, en látum það gott heita.

Það eru hins vegar þessi orð Hæstaréttar sem mér er ómögulegt að skilja:

Að þessu virtu verður að líta á hið árangurslausa fjárnám, sem gert var hjá sóknaraðila 2. september 2013, sem sönnunargagn um ógjaldfærni hans. Breytir í því sambandi engu þótt skuldin sem leiddi til fjárnámsins hafi verið greidd. Á hinn bóginn getur sóknaraðili varist kröfu varnaraðila um gjaldþrotaskipti með því að sýna fram á að hann sé allt að einu fær um að standa skil á skuldbindingum sínum eða verði það innan skamms tíma, sbr. upphafsákvæði 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991.  (Feitletrun er mín.)

og síðan:

Þótt sóknaraðili haldi því fram að krafan sé fyrnd eða fallin niður hefur sá ágreiningur málsaðila ekki verið til lykta leiddur fyrir dómstólum. Af þessum sökum verður ekki horft framhjá kröfunni við mat á því hvort sóknaraðili sé fær um að standa skil á skuldbindingum sínum eða verði það í bráð.

Hér eru tvö atriði sem ég skil ekki og hef ég talað við lögfræðing sem tekur undir það með mér.

  1. Er það ekki sönnun á gjaldfæri að hafa greitt kröfuna sem árangurlausa fjárnámið gekk út á?  Hvernig er hægt að greiða kröfuna upp, ef gjaldfærið er ekki fyrir hendi?  Hæstiréttur bendir á að aðrar kröfur séu með veðtryggingu og hvað stendur þá eftir?
  2. Hæstiréttur samþykkir að krafa sem ekki hefur verið sannreynd fyrir dómi að sé réttmæt sé grunnur að því að úrskurða um gjaldþrot.  Ég hefði haldið, að Hæstiréttur hefði átt að vísa málinu frá eða aftur til héraðs, þar sem augljóslega er ágreiningur um kröfuna, Landsbankinn sæki á Ólaf um hvort krafan sé réttmæt, verði niðurstaðan Landsbankanum í hag, þá geti hann notað hana sem grunn í nýrri beiðni um að taka búið til gjaldþrotaskipta.  Er það virkilega svo að þeir sem leggja fram kröfu um gjaldþrotaskipti þurfa ekki að sanna, að kröfur þeirra eigi við rök að styðjast og upphæðin sé sú sem þeir halda fram?  Ef svo er, þá getur kröfueigandi sem sér fram á að verða undir í ágreiningsmáli einfaldlega krafist  gjaldþrotaskipta og þannig hefnt fyrir að verða gefa eftir.

Líklegast er rétt að halda áfram með "rökstuðning" Hæstaréttar:

Að teknu tilliti til þess verður ekki talið að sóknaraðila hafi tekist að hnekkja líkum fyrir ógjaldfærni sinni sem leiddar verða af fjárnámsgerðinni 2. september 2013. 
Þegar af þeirri ástæðu verður hinn kærði úrskurður staðfestur og þarf þá ekki að taka afstöðu til þess hvort aðrar kröfur varnaraðila, sem að framan greinir og enn eru óuppgerðar, séu nægilega tryggðar. (Feitletrun er mín.)

Þó ég sé ekki löglærður, þá sýnist mér Hæstiréttur teygja sig langt út fyrir það sem hann er spurður um.  Lögð var fram krafa um gjaldþrotaskipti vegna kröfu sem hefur verið greidd.  Samt telur rétturinn að honum hafi ekki "tekist að hnekkja líkum fyrir ógjaldfærni sinni".  Er rétturinn farinn að velta fyrir sér hvort Ólafur gæti hugsanlega í einhverju öðru tilfelli ekki greitt.  Ég hélt að rétturinn yrði að dæma samkvæmt staðreyndum, en ekki líkum.  Höfum í huga að rétturinn lítur framhjá öllum öðrum kröfum sem á Ólaf eru gerðar.  Af hverju á Ólafur að sanna gjaldfærni sína gagnvart kröfum sem rétturinn tekur ekki tillit til?  Ef þetta er löghyggja, þá er eitthvað að lögunum.

Ormagryfjan hefur verið opnuð

Ég er ansi hræddur um að Hæstiréttur hafi opnað ormagryfjuna.  Allir þeir aðilar sem hafa lent í árangurslausu fjárnámi geta nú lent í því að krafist verði gjaldþrotaskipta á búi þeirra þrátt fyrir að skuldin hafi verið gerð upp.  Fjármálafyrirtæki og innheimtufyrirtæki hafa fengið opið skotleyfi  á stóran hóp Íslendinga og geta þau með geðþóttarákvörðunum valið einstaklinga sem þeim er illa við.  Kröfu sína get þau stutt með öðrum kröfum sem ágreiningur er um.  Kröfuhafar þurfa nefnilega ekki að sanna að krafan sé gild.  Nóg er að hún sé sett fram.  Í þessu máli virðist mér t.d. að séu kröfur sem gætu fallið undir fordæmi dóma Hæstaréttar sjálfs vegna gengistryggðra lána!  En Hæstarétti er sama.  Það kemur honum ekki við hvort kröfurnar eigi við rök að styðja!

Já, nú eru allir sem einhvern tímann hafa lent í árangurlausu fjárnámi berskjaldaðir fyrir því að einhverju kröfuhafa, sem lent hefur í slíkri árangurslausri gerð, detti í hug eftir 10, 20 eða 30 ár að óska eftir því að bú viðkomandi verði tekið til gjaldþrotaskipta, þrátt fyrir að krafan hafi verið greidd.  Og ekki bara átt á hættu að fá slíka kröfu á sig, Hæstiréttur hefur sett fordæmi um að vegna þess að einhvern tímann fyrir löngu hafi viðkomandi ekki verið gjaldfær, þá gildi það um aldur og ævi.

Eins og ég segi, þá er ég ekki löglærður, en get lesið lög.  Sé Hæstiréttur að dæma að lögum, þá verður að breyta lögunum. 


mbl.is Greidd krafa grundvöllur gjaldþrots
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orðræða og orrahríð sem netið geymir

Þegar ég var yngri og sérstaklega á barnsaldri, þá var oft talað falllega um gömlu dagana og oft notað setningarbrotið "þegar amma var ung..".  Ja, þegar ömmur mínar og afar voru ung, þá var ekkert internet, þannig að þau þurftu ekki að óttast að það sem þau gerðu eða sögðu yrði ódauðlegt, nema svo (ó)heppilega vildi til að eitthvert skáld álpaðist til að setja söguna á blað.  Það vill nú svo til að Þórbergur Þórðarson leigði um tíma herbergi af langafa mínum og -ömmu, en ég er ekki viss um að þau hafi ratað inn í neina af bókum hans.  Verð samt að viðurkenna, að ég er ekki viss.

Við getum vissulega lesið skemmtilegar sögur um íslenska stjórnmálamenn, og þeir virtust hafa verið orðheppnir með ólíkindum.  Hafa líklega aldrei mismælt sig eða sagt neitt rangt, hef ég eftir mér fróðari mönnum um efni ævisagna þeirra.  Les ekki ævisögur og hef því ekki sannreynt það.  Á þessum árum gat fólk sagt allt mögulegt og þó úr því yrði einhver munnmælasaga, þá var nokkuð víst að sú saga myndi breytast mikið og frekar verða betri en fyrirmyndin en verri.

Netið gleymir engu

En nú er öldin önnur.  Nánast allt sem menn láta frá sér fer viðstöðulaust út á öldur ljósvakans.  Ekki bara það, heldur festist það í stærsta kóngulóavefi allra tíma, veraldarvefnum.  Þetta er vefur sem ekki slitnar og hann límir allt við sig sem einhverju sinni kemst í snertingu við hann.  Þannig getum við ekki bara lesið hvað Sigmundur Davíð í raun og veru sagði, heldur líka hvað Illugi Jökulsson (svo dæmi sé tekið) heyrði hann segja.  Við getum borið saman viðbrögð Dags Eggertssonar við gagnrýni á rússnesku rétttrúnaðarkirkjuna og viðbrögðum hans við tillögu um að kjósa um lóð undir mosku í Reykjavík.  Við getum lesið fréttir af "ljótum" klæðnaði sjónvarpsfréttamanna, "ólögulegum" vexti þulunnar, "framhjáhaldi" veðurfréttamannsins og guð má vita hvað.

Sem betur fer þá endist margt af þessu ekki í minni okkar.  Það kemur nefnilega eitthvað nýtt og ennþá meira krassandi sem tekur við.  En kóngulóavefurinn geymir allt.  Ef þið trúið mér ekki, þá vil ég benda á vefsvæðið  Internet Archive: Webback Machine, en þar má finna afrit af gömlum vefsíðum sem ekki eru lengur í loftinu.  Síðan má nota venjulegar leitarvélar og leita uppi allt og ekkert.

Orðstír deyr engum..

Ég velti því oft fyrir mér hvaða umræða stenst tímans tönn.  Hvaða orðstír það verður sem ekki deyr?  Menn gleyma nefnilega oft að erindin "Deyr fé, deyja frændur.." eru tvö.  Annað fjallar um góðan orðstír, en hitt slæman.  Það sem ég velti ekki síður fyrir mér, mun fólk horfa með stolti og ánægju til orða sinna og afhafna eða eftirsjá og leiða.  Líklegast veltur það á athöfninni.  Loks velti ég fyrir mér hvernig komandi kynslóðir munu líta á orðin.  Munu börnin og barnabörnin fyllast stolti yfir framgöngu mömmu/ömmu eða pabba/afa á árum áður.  Hver verður dómur sögunnar?

Ég ætlast svo sem ekki til að fólk breyti skoðunum sínum með þetta í huga, en mikið væri gott að það hugsaði aðeins hvers konar fyrirmyndir það er fyrir kynslóðina sem er að vaxa úr grasi.

Uppþot vegna moskuummæla

Mér fannst orð oddvita Framsóknarflokksins í Reykjavík um að setja lóðarúthlutun til Félags múslima í kosningu borgarbúa vera heimskulega, en ekkert meira.  Hún notaði kjánaleg rök, en lýsti því jafnframt yfir að hún setti sig ekki upp á móti að reist yrði bænarhús félagsins(!) og ekki vildi hún skerða á neinn hátt frelsi múslima til að iðka trú sína.  (Viðtalið má lesa hér.)  Því miður voru flestir hættir að lesa/hlusta, þegar kom að þessum hluta viðtalsins og því misstu þeir af því.

Viðbrögð hinna sem fylltust réttlátri reiði voru eins og Guðs í Gamla testamentinu.  Ofsafengin.  Sódóma og Gómorra skyldi eytt með eldi og brennisteini.  Skítt með þó flestir væru saklausir.  Allir skyldu líða fyrir orð einnar manneskju. Og það eru þessi viðbrögð sem ég held að þegar framlíða stundir fólk myndi ekki vilja að komandi kynslóðir geti lesið.  Málsmetandi einstaklingar, sem hafa sumir verið í kjöri til mikilsverðra embætta, misstu sig algjörlega.  Fjöðrin varð fljótlega að heilu hænsnabúi. Vitræn hugsun vék til hliðar fyrir einhverri ófreskju sem á frekar skylt við berserki eða hamhleypur en það dagfarsprúða fólk, sem þessir einstaklingar líklegast eru.

Mér dettur ekki í hug að gagnarýna fólk fyrir afstöðu sína, það að vera á móti hömlum á trúfrelsi (eins og það túlkaði orð oddvitans), en ég skil ekki hvernig orðræðan fór frá því að vera sterk mótmæli við því sem fólk heyrði yfir í það að tala um rasista, fasista, nasista, útlendingahatur, miðjuöfgaflokk og algilt hatur á framsóknarfólki.  Sérstaklega, þegar Sveinbjörg segir að allir eigi að geta iðkað trú sína og hún er hlynnt byggingu bænahúss.  Verst fannst mér að sjá umræðuna toga út úr hinum dýpstu skúmaskotum samfélagsins virkilega veika einstaklinga, sem eru ekkert annað en rasistar, fasistar, nasistar og bera með sér útlendingahatur.  Þá einstaklinga sem eru í raun og veru þeir lægstu af öllu lágu í þessu þjóðfélagi.  En þeir þorðu að koma út vegna þess að þeir töldu sig eiga skjól hjá þeim sem urðu fyrir eldingaveðrinu.  Og að ógleymdum þeim einstaklingum sem af óvitaskap sögðu hluti sem þeir iðrast að hafa sagt.

Var þetta raunverulegt eða sviðsett?

Líklega hefur hluti umræðunnar verið leikrit, þar sem verið var að prófa hve langt væri hægt að ganga í kosningabaráttunni.  Hef ég t.d. enga trú á því að fólk hafi meint allt það sem það ritaði og sagði.  Ég er fyrir langa löngu búinn að komast að því að maður tjáir sig á annan hátt í rituðu máli og ræðum, en maður gerir í mannlegum samskiptum.  Hér var kominn heldur smekklaus hlið af Morfís-ræðukeppninni.  Þó gekk svo langt að fréttist af því að einn góður fjölmiðlamaður hafi misst sig gagnvart konu sem hafði skoðanir honum ekki þóknanlegar, en hann baðst afsökunar og það sem meira var að skrif hans urðu umburðarlyndari á eftir.

Af umburðarlyndi umburðarlyndra

Það sem mér finnst skjóta skakkast við í þeirri orrahríð sem gengið hefur yfir undanfarna 10 daga, er hve hugtakið umburðarlyndi virðist hafa takmarkað svið.  Umburðarlyndið virðist bara ná til þess sem viðkomandi er þóknanlegt.  Hef ég nokkrum sinnum vísað til greinar Bergs Ebba Benediktssonar, leikara, Umburðarlyndi, þar sem hann segir á skoplegan hátt:

Umburðarlyndi er einn af mínum helstu kostum. Ég er umburðarlyndur maður og ég geri umburðarlyndi hátt undir höfði í skoðunum mínum til lífsins.

Umburðarlyndi er birtingarmynd samkenndar og samúðar. Það erum við umburðarlynda fólkið sem höldum þjóðfélaginu saman. Ef ekki væri til umburðarlynt fólk eins og ég þá væri hér hver höndin upp á móti annarri. Ég er stoltur af sjálfum mér því ég er ekki þrjóskur og þröngsýnn eins og flestir. Ég er umburðarlyndur.

Háðið náttúrulega skín í gegn eins og framhald greinarinnar ber með sér.  En skilaboðin eru sterk.  Allt of margir sem þykjast vera umburðarlyndir eru ótrúlega umburðarlausir.  Ekki bara það, þeir eru alveg ótrúlega falskir og veigra sé ekki við að fara með rangt mál, snúa út úr, bera upp á fólk rangar sakir, misbjóða öllum nema skoðanabræðrum sínum, og til hvers?  Að slá ómerkilegar pólitískar keilur og hugsanlega að fá fullnægingu sinna hvata.  Ég velti því oft fyrir mér hversu leiðinlegu lífi fólk lifir sem er í þessari stöðu.  Ef þetta er mesta skemmtun þess, hvernig eru þá hinir tímar sólarhringsins.  Auðvitað lenda allir einhvern tímann í því að tala sér þvert um hug, en þessi múgsefjun sem við urðum vitni að í síðustu viku og reynt er að halda við á a.m.k. einum miðli, er ekki bara niðurdrepandi.  Hún skemmir íslenskt samfélag og gerir það fráhrindandi.  Maður veit nefnilega aldrei hver er næstur og fyrir hvaða uppblásnu sakir.

Því miður ekki einstakur atburður

Svona framkoma er ekkert afmarkað tilfelli.  Hún er því miður allt of algeng.  Kosningar virðast vera kjörið tækifæri, en þegar grant er skoðað, þá eru dagarnir færri, þar sem ekkert svona er í gangi en hinir, þar ofsi og níðskrif ráða umræðunni.  Kannski er fólk ekki að höndla að geta tjáð skoðanir sínar fyrir framan tölvuna án þess að þurfa að horfa framan í þá manneskju sem verið er að fjalla um.  Bland.is er vefur sem ég fer aldrei inn á, en maður les reglulega sögur af því sem þar fer fram.  Einelti í skólakerfinu er stundum svo svæsið að manni bregður. En hvers vegna ættu börn og ungmenni að skilja alvarleika eineltis, þegar foreldrar þeirra stunda það á netinu dagsdaglega?  Fyrirmyndin að hegðun barnanna er foreldrarnir, en hver er fyrirmynd foreldranna.  Gleymum því ekki að orðræða okkar endurspeglar okkar innri mann.

Er ekki kominn tími til að breyta orðræðunni?  Hefja hana upp á hærra plan.  Sýna hverju öðru þá virðingu sem við viljum að okkur sé sýnd.  Vera börnunum okkar góð fyrirmynd á sem flestum sviðum.  Enginn er gallalaus, en berum persónuleikagalla okkar í hljóði.  Sýnum aðgát í nærveru sálar.

Hvet svo í lokin alla til að lesa hið magnaða ljóð Einars Benediktssonar, Einræður Starkaðar, en hann fjallar um flest af því ég er hér að fjalla um, þó sjónarhornið sé oft annað.


Framtíð húsnæðislána - stöðugleiki og lágir vextir skipta mestu máli

Framtíð húsnæðislána getur ekki legið í neinu öðru en kerfi en því sem tryggir lága nafnvexti án vísitölubindingar. Þetta er það kerfi sem við sjáum í nágrannalöndum Íslands. Í Danmörku, Noregi og Svíþjóð er verðbólga um 0,5-1,5% (er ekki með nýjustu...

Vísitölutenging lána heimilanna er alltaf slæm hugmynd

Mér finnst stundum merkilegt og nánast hlægilegt, þegar menn leita um allan heim af dæmum sem sýna að verðtryggð lán eða vísitölutengd lán eru töfralausnin, en ekki nafnverðslán (það sem við köllum óverðtryggð) eins og eru algengust í heiminum. Í...

Enn af áður gengistryggðum lánum

Ég hef nokkuð oft fjallað um áður gengistryggð lán og þá villu sem Hæstiréttur gerði með niðurstöðu sinni í máli nr. 471/2010. Þá er ég að vísa til þeirrar ákvörðunar dómsins að skera fjármálafyrirtæki niður úr snörunni og dæma þeim betri vexti en áður...

Leiðrétting verðtryggðra húsnæðislána

Þá eru það komið fram frumvarpið um leiðréttingu verðtryggðra fasteignalána heimilanna. Hugmyndin tekur smávægilegum breytingum, sem er til bóta miðað við tillögur nefndarinnar. Breytingin felst í því að viðmiðunartímabilið er stytt frá því að vera...

Vangaveltur um mælingu kaupmáttarbreytingar

Ég hef lengi velt því fyrir mér hvort mæling á kaupmætti sem birt er á hátíðarstundum sé í raun og veru rétt. Þ.e. hin almenna regla að skoða breytingar á launavísitölu og vísitölu neysluverð og segja það sé breytingin launavísitölunni í hag, þá sé...

Aðeins af verðtryggðum og óverðtryggðum lánum

Eins og fólki er ljóst, tókst meirihluta verðtryggingarnefndarinnar og ganga þvert gegn skipunarbréfi sínu. Ein af röksemdum meirihlutans fyrir því að hunsa skipunarbréf sitt var, að lágtekjuhópar gætu átt erfitt með að fá lán/ráða við fyrstu afborganir,...

Öðruvísi endurgreiðsluaðferð óverðtryggðra lána

Stóri dómur meirihluta verðtryggingarnefndarinnar er fallinn. Ég ætla að mestu að fjalla um skýrslu nefndarinnar í annarri færslu, en hér langar mig aðeins að svara einu atriði. Það er varðandi of háa upphaflega greiðslubyrði óverðtryggðra lán. Nefndin...

Skýrslan sem Árni Páll óskar eftir

Mér finnst þessi umræða um tillögur ríkisstjórnar Sigmundar Davíð Gunnlaugsson um úrræði vegna verðtryggðra húsnæðislána alltaf verða furðulegri og furðulegri. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi ráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu...

Leiðrétting lána lagar stöðu ÍLS

Í nokkur ár hef ég talað fyrir daufum eyrum um að leiðrétting verðtryggðra lána væri árangurrík aðferð til að laga stöðu Íbúðalánasjóðs. Loksins gerist það, að einhver sér þetta sömu augum og ég, þ.e. matsfyrirtækið Moody's af öllum. Rök mín hafa verið...

Upplýsingaöryggi/netöryggi

Innbrotið á vef Vodafone hefur heldur betur hrist upp í þjóðfélaginu. Veitti svo sem ekki af. Upplýsingaöryggismál hafa ekki beint verið í brennideplinum undanfarin ár fyrir utan góða umfjöllun Kastljóss fyrir um tveimur árum. Nú var sem sagt þjóðin...

Af almennum aðgerðum um lækkun verðtryggðra húsnæðisskulda

Vinnuhópur ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar um skuldamál heimilanna hefur skilað skýrslu sinni. Hún lofar í flestum atriðum góðu, þó svara þurfi fjölmörgum spurningum, sem nefndarmenn hafa ekki haft hugmyndaflug til að spyrja eða vildu ekki...

Lækkun verðtryggðra lána og ýmsar bábiljur

Nú fer að styttast í að sérfræðingahópur um leiðréttingu verðtryggra húsnæðislána heimilanna skili af sér. Úr öllum hornum hafa sprottið upp einstaklingar sem sjá þessu allt til foráttu án þess að koma með nein haldgóð rök. Ég vil leyfa mér að kalla...

Hugsum til framtíðar - nýsköpun og vöruþróun

Áhugaverða umfjöllun um risagróðurhús er að finna á vefnum visir.is. Hluti hennar var birtur í fréttum Stöðvar 2 í kvöld. Tvennt í þessari frétt vakti áhuga minn. Annars vegar hvað nýsköpun skiptir miklu máli og hins vegar hve mikla möguleika þjóðin á...

Afl, orka og sæstrengur

Í grein á mbl.is fjallar Ketill Sigurjónsson um sæstreng til Bretlands. Að vanda er Ketill faglegur í sinni umfjöllun. Í þessari umræðu eru tvö hugtök sem menn virðast rugla saman. Afl og orka. Afl er það sem við mælum í megavöttum (MW), en orkuna mælum...

Skortur á hæfi og ofgnótt af vanhæfi

Þau tíðkast hin breiðu spjót. Vegið er til hægri og vinstri að einstaklingum fyrir að þeir séu þar sem þeir eru en ekki aðrir sem ættu að þykja hæfari. Ég hef oft sagt að eitt stærsta vandamál Íslands sé skortur á hæfu fólki. Hef ekkert breytt þeirri...

We've got five years, my brain hurts a lot

Fyrirsögnin er tekin úr texta lags David Bowie Five Years eftir Tony Hiller og Byron Hill. Hún lýsir hugarástandi mínu núna 5 árum eftir hrun bankakerfisins. Það er nefnilega þannig, að mér finnst ég engu nær um þá fáránlegu stöðu sem fáeinir vanvitar...

Er Íslandi undir það búið að taka á móti 2 milljónum ferðamanna?

Nýtt gullæði er hafið á Íslandi og er það í formi ferðamanna sem sækja landið heim. Sem leiðsögumaður og áhugamaður um uppbyggingu ferðaþjónustu á Íslandi, þá hefur mér gefist færi á að fylgjast með þessari þróun hin síðari ár. Ég tel mig þó engan...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 1681248

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 17
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband