6.6.2014 | 20:07
Hæstiréttur að missa sig?
Ég get ekki annað en spurt mig þessarar spurningar í fyrirsögn pistilsins. Er Hæstiréttur að missa sig?
Í síðustu viku gekk dómur í máli nr. 338/2014, kröfu Landsbankans um að bú Ólafs H. Jónssonar verði tekið gjaldþrotaskipta, en Ólafur áfrýjaði dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í þá veru. Gjaldþrotaúrskurðurinn er byggður á því að einn dag í september 2013 hafi farið fram árangurslaust fjárnám hjá Ólafi. Gerð sem samkvæmt frétt Morgunblaðsins, Ólafi var ekki kunnugt um, en látum það gott heita.
Það eru hins vegar þessi orð Hæstaréttar sem mér er ómögulegt að skilja:
Að þessu virtu verður að líta á hið árangurslausa fjárnám, sem gert var hjá sóknaraðila 2. september 2013, sem sönnunargagn um ógjaldfærni hans. Breytir í því sambandi engu þótt skuldin sem leiddi til fjárnámsins hafi verið greidd. Á hinn bóginn getur sóknaraðili varist kröfu varnaraðila um gjaldþrotaskipti með því að sýna fram á að hann sé allt að einu fær um að standa skil á skuldbindingum sínum eða verði það innan skamms tíma, sbr. upphafsákvæði 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. (Feitletrun er mín.)
og síðan:
Þótt sóknaraðili haldi því fram að krafan sé fyrnd eða fallin niður hefur sá ágreiningur málsaðila ekki verið til lykta leiddur fyrir dómstólum. Af þessum sökum verður ekki horft framhjá kröfunni við mat á því hvort sóknaraðili sé fær um að standa skil á skuldbindingum sínum eða verði það í bráð.
Hér eru tvö atriði sem ég skil ekki og hef ég talað við lögfræðing sem tekur undir það með mér.
- Er það ekki sönnun á gjaldfæri að hafa greitt kröfuna sem árangurlausa fjárnámið gekk út á? Hvernig er hægt að greiða kröfuna upp, ef gjaldfærið er ekki fyrir hendi? Hæstiréttur bendir á að aðrar kröfur séu með veðtryggingu og hvað stendur þá eftir?
- Hæstiréttur samþykkir að krafa sem ekki hefur verið sannreynd fyrir dómi að sé réttmæt sé grunnur að því að úrskurða um gjaldþrot. Ég hefði haldið, að Hæstiréttur hefði átt að vísa málinu frá eða aftur til héraðs, þar sem augljóslega er ágreiningur um kröfuna, Landsbankinn sæki á Ólaf um hvort krafan sé réttmæt, verði niðurstaðan Landsbankanum í hag, þá geti hann notað hana sem grunn í nýrri beiðni um að taka búið til gjaldþrotaskipta. Er það virkilega svo að þeir sem leggja fram kröfu um gjaldþrotaskipti þurfa ekki að sanna, að kröfur þeirra eigi við rök að styðjast og upphæðin sé sú sem þeir halda fram? Ef svo er, þá getur kröfueigandi sem sér fram á að verða undir í ágreiningsmáli einfaldlega krafist gjaldþrotaskipta og þannig hefnt fyrir að verða gefa eftir.
Líklegast er rétt að halda áfram með "rökstuðning" Hæstaréttar:
Að teknu tilliti til þess verður ekki talið að sóknaraðila hafi tekist að hnekkja líkum fyrir ógjaldfærni sinni sem leiddar verða af fjárnámsgerðinni 2. september 2013.
Þegar af þeirri ástæðu verður hinn kærði úrskurður staðfestur og þarf þá ekki að taka afstöðu til þess hvort aðrar kröfur varnaraðila, sem að framan greinir og enn eru óuppgerðar, séu nægilega tryggðar. (Feitletrun er mín.)
Þó ég sé ekki löglærður, þá sýnist mér Hæstiréttur teygja sig langt út fyrir það sem hann er spurður um. Lögð var fram krafa um gjaldþrotaskipti vegna kröfu sem hefur verið greidd. Samt telur rétturinn að honum hafi ekki "tekist að hnekkja líkum fyrir ógjaldfærni sinni". Er rétturinn farinn að velta fyrir sér hvort Ólafur gæti hugsanlega í einhverju öðru tilfelli ekki greitt. Ég hélt að rétturinn yrði að dæma samkvæmt staðreyndum, en ekki líkum. Höfum í huga að rétturinn lítur framhjá öllum öðrum kröfum sem á Ólaf eru gerðar. Af hverju á Ólafur að sanna gjaldfærni sína gagnvart kröfum sem rétturinn tekur ekki tillit til? Ef þetta er löghyggja, þá er eitthvað að lögunum.
Ormagryfjan hefur verið opnuð
Ég er ansi hræddur um að Hæstiréttur hafi opnað ormagryfjuna. Allir þeir aðilar sem hafa lent í árangurslausu fjárnámi geta nú lent í því að krafist verði gjaldþrotaskipta á búi þeirra þrátt fyrir að skuldin hafi verið gerð upp. Fjármálafyrirtæki og innheimtufyrirtæki hafa fengið opið skotleyfi á stóran hóp Íslendinga og geta þau með geðþóttarákvörðunum valið einstaklinga sem þeim er illa við. Kröfu sína get þau stutt með öðrum kröfum sem ágreiningur er um. Kröfuhafar þurfa nefnilega ekki að sanna að krafan sé gild. Nóg er að hún sé sett fram. Í þessu máli virðist mér t.d. að séu kröfur sem gætu fallið undir fordæmi dóma Hæstaréttar sjálfs vegna gengistryggðra lána! En Hæstarétti er sama. Það kemur honum ekki við hvort kröfurnar eigi við rök að styðja!
Já, nú eru allir sem einhvern tímann hafa lent í árangurlausu fjárnámi berskjaldaðir fyrir því að einhverju kröfuhafa, sem lent hefur í slíkri árangurslausri gerð, detti í hug eftir 10, 20 eða 30 ár að óska eftir því að bú viðkomandi verði tekið til gjaldþrotaskipta, þrátt fyrir að krafan hafi verið greidd. Og ekki bara átt á hættu að fá slíka kröfu á sig, Hæstiréttur hefur sett fordæmi um að vegna þess að einhvern tímann fyrir löngu hafi viðkomandi ekki verið gjaldfær, þá gildi það um aldur og ævi.
Eins og ég segi, þá er ég ekki löglærður, en get lesið lög. Sé Hæstiréttur að dæma að lögum, þá verður að breyta lögunum.
Greidd krafa grundvöllur gjaldþrots | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (17.9.): 0
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 31
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 28
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
"Í kjölfarið greiddi Ólafur upp þá skuld og áfrýjaði málinu til Hæstaréttar." Áfrýjunin tekur til þess dóms sem áfrýjað er og þeirra málsgagna sem þar komu fram, ekki til þess sem á eftir skeði.
Hæstiréttur er að staðfesta að samkvæmt gögnunum þá hafi Ólafur verið ófær um að standa skil á skuldbindingum sínum þegar dómur var kveðinn upp í héraðsdómi og því hafi dómur héraðsdóms verið réttur og skuli standa.
Ufsi (IP-tala skráð) 6.6.2014 kl. 21:00
Það er ekki rökstuðningur Hæstaréttar. Hann nefnir hvergi í sínum dómsorðum að hann telji greiðsluna of seint til komna. Meira að segja viðurkennir að hafa þá vitneskju. Hann tala eingöngu um "að sóknaraðila hafi [ekki] tekist að hnekkja líkum fyrir ógjaldfærni sinni sem leiddar verða af fjárnámsgerðinni 2. september 2013."
Marinó G. Njálsson, 6.6.2014 kl. 21:12
"Þótt sóknaraðili haldi því fram að krafan sé fyrnd eða fallin niður hefur sá ágreiningur málsaðila ekki verið til lykta leiddur fyrir dómstólum." Áfrýjun til Hæstaréttar tekur aðeins til atriða sem hafa verið afgreidd hjá lægra dómsstigi.
Greiðslan er ekki dómtæk í áfrýjun þar sem hún kom ekki fram í héraðsdómi. Við áfrýjun dæmir Hæstiréttur aftur í máli með sömu gögnum og fyrir lágu við fyrri dómsuppkvaðningu, ekkert fjarlægt og engu bætt við. Við áfrýjun eru aðeins tekin gild gögn sem komu fram við undirrétt. Vitneskja um ný gögn eða nýja glæpi má ekki hafa áhrif á niðurstöðu áfrýjunnar. Ný gögn kalla á nýtt mál eða endurupptöku en ekki áfrýjun.
Ufsi (IP-tala skráð) 6.6.2014 kl. 21:48
Nú ert þú að misskilja. Þetta er önnur krafa sem Ólafur heldur fram að sé fyrnd. Hluti af þeim kröfum sem Hæstiréttur telur ekki þörf á að skoða.
Greiðslan kemur bara víst fyrir í dómsorði Hæstaréttar. Hann telur hins vegar "að sóknaraðila hafi [ekki] tekist að hnekkja líkum fyrir ógjaldfærni sinni sem leiddar verða af fjárnámsgerðinni 2. september 2013", þrátt fyrir að hafa greitt.
Annars hef ég það fyrir sið að vera ekki að rökræða við nafnlausa einstaklinga, þannig að annað hvort gefur þú upp nafn þitt eða við hættum þessum samskiptum.
Marinó G. Njálsson, 6.6.2014 kl. 22:01
Ég er alveg sammála þér að mér finnst Hæstiréttur hafa misstigið sig í þessu máli. Sérstaklega vegna þess að ekki var tekið með að viðkomandi hafði greitt þetta þegar það kom fyrir Hæstarétt.
Lög um aðför nr. 90 frá 1989 segir um aðför til fullnustu peningakröfu í 6. Kafla Andlag fjárnáms í 40 gr.
„40. gr. Heimilt er gerðarþola að neyta réttar til skuldajafnaðar við kröfu gerðarbeiðanda með kröfu, sem orðin er aðfararhæf, eða kröfu, sem gerðarbeiðandi viðurkennir rétta, ef almennum skilyrðum skuldajafnaðar er fullnægt“.
Þar sem Ólafur fékk á sig árangurslaust fjárnám, þar sem hann mætti ekki til að verja það, þá segir t.d. í 8. kafla sömu laga í 63. gr. segir:
„63. gr. Ekki er rétt að fjárnámi sé lokið án árangurs, ef bent er á eign gerðarþola, sem að nokkru gæti nægt til tryggingar kröfunni, nema staðreynt hafi verið með virðingu skv. 2. eða 3. mgr. 38. gr. að hún nægi ekki til fullrar tryggingar“.
Þar sem viðkomandi greiddi sína skuld þá myndi ég telja að þessi 63. gr. í kafla 8 í lögum um aðför myndi gilda til að afturkalla árangurslaust fjárnám sé virk. Til að halda áfram með Árangurslaust fjárnám þá segir í 64. gr. að til að þetta sé ekki virkt þá þarf gerðabeiðandi (Landsbankinn) að rökstyðja að gerðaþoli (Ólafur) hafi ekki eign til að taka má fjárnámi. Þar sem gerðaþoli (Ólafur) greiddi skuldina eins og segir í dóminum þá er 64. gr. ekki virk lengur.
Eins segir í lög um gjaldþrot nr. 21 frá 1991 í XI kafla í upphaf gjaldþrotaskipta í 65. gr.
„...Lánardrottinn getur þó ekki krafist gjaldþrotaskipta á búi skuldarans skv. 1. eða 2. mgr.:
1. ef krafa hans er nægilega tryggð með veði eða öðrum sambærilegum réttindum í eignum skuldarans eða þriðja manns eða vegna ábyrgðar þriðja manns,
2. ef þriðji maður býður fram greiðslu á kröfu hans eða ef krafan er ekki komin í gjalddaga að þriðji maður bjóði fram tryggingu fyrir henni sem verður talin nægileg“.
Í lið 2 sjáum við að ef greiðsla á sér stað hvort sem trygging eða peningum þá getur lánadrottin ekki krafist gjaldþrotaskipta.
Niðurstaða
Eins og sést á ofangreindu ætti hæstarétti að hafa litið á þetta áður en dómur féll, þannig tel ég að hann hafi misstigið sig.
Það sem ég velti fyrir mér hvort hæstiréttur hefur ekki tekið greiðsluna gilda og gerðaþoli þarf því að greiða lánadrottni aftur?
Í þessu sambandi er vert að minna á að tilmæli konungs frá því 9. Febrúar 1798 eru í gildi á hér á landi um skuldabréf, en í þeim lögum er að ef ekki er kvittað fyrir greiðslu aftan á skuldabréfið þá gildir laus kvittun ekki ein og sér. Með því tapar skuldari (Ólafur) mótbáru sinni fyrir dómi.
Ómar Gíslason, 9.6.2014 kl. 13:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.