Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2010

Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlit hvetja til lögbrota

Ég trúi ekki mínum eigin augum.  Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlit hvetja fjármálafyrirtæki til lögbrota og hafa með því rétt af neytendum. 

Menn geta haft mismunandi sýn á niðurstöðu Hæstaréttar, en með tilmælum sínum eru Seðlabanki og FME að hvetja fjármálafyrirtæki til að brjóta gegn 36. gr. laga nr. 7/1936 og neytendaverndartilskipun 93/13/EBE.  Kjarninn í þessu tvennu (sem eru að mestu samhljóða) er að sé uppi ágreiningur um túlkun samnings, þá skuli túlkun neytandans gilda (36. gr. b-liður).

Í tilkynningu Seðlabanka og FME er furðuleg lagatúlkun, sem ég hélt að ekki ætti að sjást.  Vísað er til 18. og 4. gr. laga nr. 38/2001.  18. greinin á eingöngu við, þegar kröfuhafi þarf að endurgreiða lántaka oftekna vexti.  Hún á ekki við í neinu öðru tilfelli og ekki eru nein tilefni til að víkja frá, enda greinin ófrávíkjanleg skv. 2. gr. laganna.  4. greinin á eingöngu við "ef hundraðshluti eða viðmið vaxta er ekki tiltekið".  Ég veit ekki um einn einasta lánasamning þar sem það á við.  Þetta heitir að grípa í síðasta hálmstráið og er ekki líklegt til árangurs fyrir dómstólum.

Mér finnst alveg stórfurðulegt að Seðlabanki Íslands og FME hafi tekið það að sér að túlka með þessum hætti dóm Hæstaréttar.  Er staða bankakerfisins virkilega það viðkvæm, þrátt fyrir ótrúlegan hagnað á síðasta ári, að grípa þarf til þess að hækka vextina svona.  (Ekki það, að í einhverjum tilfellum er mögulegt að samningsvextir séu þegar hærri en 8,25%!)  Samkvæmt frétt í Fréttablaðinu í gær nema gengistryggð lán rétt rúmlega 900 milljörðum, þar af lán heimilanna um 135 milljarðar.  Vextir Seðlabankans eru núna 8,25%.  Reikna má með því að þeir lækki um 0,5 - 1% eftir nsæta fund peningamálanefndar bankans og fari í, segjum til einföldunar 7,5%. [Ég mislas á vef SÍ að vaxtaákvörðunardagur væri 2. júli og hef því tekið það atriði út.]  Munurinn á hagstæðustu samningsvöxtum er þá u.þ.b. 5%.  5% af 135 milljörðum er 6,75 milljarðar og tólfti hluti af því um 550 milljónir.  Segjum að réttaróvissan, sem að mati Seðlabanka og FME, vari í 4 mánuði, þá geri þetta alls 2,2 milljarða.  Ekki segja mér eitt augnablik, að þetta sé það sem skiptir máli!

Ekki má hverfa frá þessari frétt öðru vísi en að benda á það sem er jákvætt við þetta upphlaup Seðlabanka og FME að stofnanirnar viðurkenna í reynd að mun fleiri lán falli undir dóm Hæstaréttar en fjármálafyrirtækin hafa hingað til viljað viðurkenna.  Þá hækkar upphæðin sem um ræðir vissulega úr 2,2 milljörðum á fjórum mánuðum í 15 milljarða miðað við 5% vaxtamun.  Aftur er það ekkert sem setur bankakerfið á hliðina eða hvað?


mbl.is Miða við lægstu vexti á hverjum tíma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Nei, afnám reglna fyrir fjármálakerfið hafði EKKERT með frjálshyggjuna að gera

Þessi söguskýring Sambands ungra sjálfstæðismanna er ekki ný á nálinni ig hún er jafn röng núna og þegar hún hefur verið sett fram áður.  Hrun efnahagskerfis heimsins og þar með Íslands ristir nefnilega inn í hjartarætur frjálshyggjunnar að einkaframtakinu sé best treystandi og það muni alltaf finna bestu leið til að láta hlutina ganga.

Ég hef svo sem ekki sett tíma minn mikið í að elta uppi hvað frjálshyggjan hefur sagt hér og þar um hitt og þetta, en man vel eftir hugtökunum "einkavæðing" og "afnám reglna" (deregulation) en hvort um sig er kjarni frjálshyggjunnar.  Thatcherismi eða Reaganismi mér er sama hvorn frjálshyggjupólinn menn elta leiddu saman og sitt í hvoru lagi til þess að ríkið hætti í stórum stíl afskiptum af fyrirtækjarekstri og síðan dró úr eftirliti eða að eftirlitið var einkavætt (sem er svo sem besta mál).  Það sem skiptir samt mestu máli er þegar losað var um þær reglur sem áttu að tryggja öryggi þjóðfélagsins gegn vafasömum starfsháttum fyrirtækja.  Þetta hét að aflétta hömlum á rekstri fyrirtækja.

Það getur vel verið að einstaklingar hafi brugðist, en við það brást frjálshyggjan.  Það nefnilega kom í ljós að einkaframtakið fann ekki bestu leið fyrir samfélagið heldur fyrir sjálft sig.

Stærstu mistök afnám reglna má líklegast rekja til ákvörðunar sem Bill Clinton tók að því að sagt eru að undirlægi Goldman Sachs.  Þetta er sú ákvörðun að afnema hömlur á fjárfestingabankastarfsemi viðskiptabanka. Þetta er líklegast ein afdrifaríkasta skrefið á þeirri braut sem leiddi okkur að hruni Bears Stern, Lehman Brothers og fleiri bandarískra banka.

Hér á Íslandi var það einkavæðing bankakerfisins og sú ákvörðun að treysta einkabönkunum fyrir að haga sér innan ákveðins ramma en ekki strangra reglna sem hleypti hér öllu í bál og brand.  Það er rétt að einstaklingarnir brugðust, en eins og ég segi að ofan, það er kjarni kenninga frjálshyggjunnar að einkaframtakið finni bestu leið og því sé best treystandi til að hafa eftirlit með sjálfum sér.  Hér á landi brást þetta eftirlit eða kannski mest að hlustað væri á og farið eftir því sem eftirlitið sagði.  Sem sagt, sú kenning frjálshyggjunnar að fyrirtækjum væri best treystandi til að hafa eftirlit með starfsemi sinni átti ekki við hér á landi.

Ég er alls ekki ósammála því að fyrirtækjum eigi að treysta til þess að hafa eftirlit með sjálfum sér.  En til þess að það virki, þá verða stjórnendur fyrirtækjanna að sjá akk í því.  Ég vinn við m.a. ráðgjöf á sviði áhættustjórnunar.  Það er því mitt hlutverk að selja fyrirtækjum þá hugmyndafræði, að rétt áhættustjórnun mun skila þeim mestri arðsemi.  Ekki til skamms tíma, heldur til langframa.  Markmið fyrirtækjareksturs á að vera að lifa vel og lengi og viðhalda viðskiptasambandi við viðskiptavininn allan þann tíma.  Takist þetta, þá munu eigendurnir fá arð af eign sinni.  Það er þetta langtíma samband viðskiptavina og fyrirtækisins annars vegar og fyrirtækisins og hluthafanna/eigendanna sem skiptir öllu máli.  Hvort hagnaðurinn er 10 milljónir eða 10 milljarðar eitthvert tiltekið ár er aukaatriði. En græðgi fjármagnseigenda varð fyrirtækjunum að falli.

Nú þessu skylt er að hið eftirlitslausa fjármálakerfi er orðið svo stórt, að það getur lagt að velli hvaða "andstæðing" sem það vill.  Hagkerfi á við evrusvæðið hefur ekki burði til að verjast árás frjálshyggjufyrirtækjanna á það.  Ekki fór mikið fyrir vörnum Íslands sem tekið var sem eftirréttur í framhaldi af falli Lehman Brothers.  Ég sagði, að þegar ESB ákvað að leggja 700 milljarða evra í björgunarsjóð að Evrópa hafi verið lögð að veði.  Ég var að hlusta á Max Keiser um daginn og hann notaði nánast sömu orð.  Þetta eftirlitslausa fjármálakerfi, sem er afsprengi frjálshyggjunnar, er orðið að skrímsli sem mun ekki hætta fyrr en það hefur étið hagkerfi heimsins og um leið gengið af sjálfu sér dauðu.

Í mínum huga fer ekkert á milli mála að sú hugmyndafræði frjálshyggjunnar að einkaframtakinu sé best treystandi fyrir rekstri því einkaframtakið muni sjá til þess að hámarka afrakstur og að einkaframtakinu sé best treystandi til að hafa eftirlit með sjálfum sér vegna þess að það mun alltaf gera það sem er fyrir bestu, þessi hugmyndfræði er hrunin.


mbl.is SUS: Ekki frjálshyggjunni að kenna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lögfræði er um lög en ekki tilfinningar

Mér finnst það með ólíkindum, þegar lektor í hagfræði við háskóla í Bandaríkjunum fer að kenna fyrrverandi hæstaréttardómara á Íslandi að túlka evrópska neytendaverndarlöggjöf.  Stundum er betra að þegja og opinbera ekki fyrir heiminum fákunnáttu sína í lögfræði en að reyna að yfirfæra hagfræðiskilning yfir á lögfræðina.  Ég held raunar að Jón Stiensson [var Danielsson í upphaflegri frétt á mbl.is] og fleiri hagfræðingar, sem hafa reynt að yfirfæra aðferðafræði hagfræðikenninganna (sem margar hafa beði skipbrot á síðustu misserum) yfir á samningalög, ættu bara að halda sig við að endurmeta hagfræðikenningarnar.

Lögfræði er ekki um sanngirni, hún er um lög, eins og Ragnar Baldursson lögmaður orðaði það í gær.  Mér finnst það bíræfni hjá hagfræðingi, sem alveg örugglega hefur ekki sérmenntun í evrópskri neytendaverndarlöggjöf, að telja sig hafa betri þekkingu á lögunum, en maður sem helgað hefur líf sitt lögunum.  Ekki það að Jón er frjáls að sínum skoðunum og komi en með haldbær lögfræðileg rök fyrir henni með réttri tilvísun í lagagreinar henni til stuðning og önnur lögskýringargögn, þá er ég viss um að ábending eða gagnrýni hans fær góða umfjöllun.  En að segja að eitthvað fáist ekki staðist vegna þess að honum finnist það furðulegt, er bara ekki sæmandi lektor í hagfræði sem vill láta taka sig alvarleg.  Ef það er á svona rökum sem hagfræðin virkar, þá skil ég vel að ekkert er að ganga upp í fjármálaheiminum.


mbl.is Efast um íslenska lögfræði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Húsfyllir á borgarafundi í Iðnó

Í kvöld fór fram borgarafundur í Iðnó um dóm Hæstaréttar um gengistrygginguna.  Húsfyllir var og fjöldi fólk fylgdist auk þess með umræðunni utandyra.  Frummælendur voru fjórir:  Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, alþingismennirnir Pétur Blöndal og Lilja Mósesdóttir og loks Guðmundur Andir Skúlason frá Samtökum lánþega.  Auk þeirra sátu við pallborðið Ragnar Baldursson lögmaður og síðan ég sjálfur fyrir hönd Hagsmunasamtaka heimilanna.

Ýmislegt áhugavert kom fram á fundinum, þó ekki væri alltaf farið með rétt mál að mínu mati.  Gylfi Magnússon hóf framsögu sína með því að segja að hann ætlaði ekki út í lögfræðina, enda kannski skynsamlegt, þar sem honum hefur nokkrum sinnum upp á síðkastið tekist að lesa lagagreinar í vitlausan hátt.  Hann viðurkenndi að gengistryggðu lánin væru búin að vera til vandræða frá 2008.  Því væri gott að Hæstiréttur hafi tekið af skarið, en varaði við að áhrifin væru ýmisleg.  Óumdeilt væri að höfuðstóll lánanna lækkaði mikið, en svo fór hann að túlka dóminn (og fór út í lögfræði).  Hans túlkun var að Hæstiréttur hafi ekki kveðið úr um til hvaða lána dómurinn næði né um vextina.  Ragnar Baldursson kom með aðra skoðun á þessu síðar.  Gylfi setti fram þá skoðun sína að vextirnir ættu að bera sömu vexti og óverðtryggð ógengistryggð lán frá svipuðum tíma.  Honum var tíðrætt um sviðsmyndir (sem er líklegast þýðing á enska orðinu scenario) og sagði að Seðlabankinn hafi teiknað um ýmsar sviðmyndir eftir að dómurinn féll.  Í þeirri svartsýnustu, þar sem miðað er við að öll lán beri óbreytta vexti, gæti afleiðingin verið sú að ríkið þyrfti ekki bara að leggja Landsbankanum eigið fé heldur einnig Arion banka og Íslandsbanka og gætu þau fjárútlát numið 100 milljörðum.   En þá þyrfti líka allt að fara á versta veg.  Það er íhugunarefni, að stjórnvöld og Seðlabanki teikna núna upp svartsýnar sviðsmyndir, en það var ekki gert áður en lánasöfnin voru flutt frá gömlu bönkunum til þeirra nýju.  Ekki ætla ég að kvarta yfir því að menn geri það núna, en hvers vegna var það ekki gert fyrir ári.  Það er ekki eins og stjórnvöld hafi ekki verið vöruð við.

Guðmundur Andri sagði að raunar hafi allt verið sagt sem þarf að segja.  Þá átti hann við að dómur Hæstaréttar sé skýr og vextirnir standi.  Honum fannst furðulegt að stilla hlutunum þannig upp, að eina leiðin til að koma í veg fyrir að bankarnir fari á hliðina sé að annað hvort borgi fólk meira fyrir lánin sín eða borgi það í sköttunum.  Það gæti bara ekki verið rétt að almenningur eigi að borga fyrir fjárfesta.  Hann vildi að Gylfi stæði við stóru orðin frá því í haust, þ.e. að menn fari að sjálfsögðu eftir dómi Hæstaréttar.  Guðmundur taldi það glapræðisleg mistök hafi færsla lánanna ekki verið rétt gerð.  hann vildi líka vita hverjir ættu bankana og hverjir væru kröfuhafar þeirra.  Loks sagði hann að áhrif dómsins væru líka þau, að nú gæti fólk lifað mannsæmandi lífi.

Pétur Blöndal byrjaði að koma því að hversu fórnfús hann hafi verið að mæta, þar sem í dag átti að vera fyrsti frídagurinn hans í 2 ár.  Hann sagði ýmislegt óljóst varðandi dóminn, t.d. hvort endurgreiðslur komi til lækkunar á höfuðstóli eða til útgreiðslu (mér finnst þetta ekki koma dómnum sjálfum við heldur frekar tæknilegri útfærslu á framkvæmd hans).  Hann velti líka fyrir sér hvaða vextir ættu að vera og hvaða lán ættu að falla undir dóminn.  Sagði hann að fjármálakerfið ætti í vanda, þar sem það gæti vart talist traustvekjandi fjármálakerfi sem hefði boðið upp á ólögleg lán í 9 ár.  Þá fór hann út í aðra hluti, enda getur Pétur ekki talað um fjármál nema nefna sparifjáreigendur og sagði að forsendubrestur hafi orðið víðar.  Hann benti á að fjármagn kæmi frá sparifjáreigendum og taldi að vandinn á Íslandi væri að sparnaður væri ekki nógu mikill.  Ég mótmælti því síðar.

Lilja Mósesdóttir fagnaði því að almenningur væri búinn að rísa tvisvar upp og hafna skuldum.  Í fyrra skiptið væri það vegna Icesave og svo núna.  Hún hefði viljað almennar aðgerðir strax í fyrra, en nú væri það um seinan.  Hún hefði haft áhyggjur af íslenskum heimilum og hefði kosið að strax hefði verið farið í almennar aðgerðir.  Var alltaf ósammála því að bara lántakar en ekki lánveitendur bæru ábyrgðina.  Hún sagði að dýrasta leiðin hafi verið valin og enn eigi að halda áfram þá leið.  Hún væri líka mjög seinfarin og auki ósætti.  Hún benti á að endurreisn bankanna hafi ekki gert ráð fyrir að gengistryggingin væri ólögleg, bara að fólk færi í gjaldþrot (og bankarnir hirtu eignirnar).  Hún vildi fá að vita hvað AGS hefði ráðlagt, hver beri ábyrgðina á því að endurreist var of dýrt bankakerfi, hvers vegna FME hafi ekki bannað lánin og hvers vegna Seðlabankinn hafi fært gengistryggðu lánin inn í gjaldeyrisjöfnuð bankanna?  Ekki væri hægt að taka framfyrir hendur á dómskerfinu þar sem það ferli væri komið í gang, en aðstoða þyrfti þá sem eru með verðtryggð lán.  Sagðist hún taka undir hugmyndir Þórs Saari að nota endurgreiddar vaxtabætur til þess.

Nú tóku við fyrirspurnir úr sala.  Flestum fyrirspurnum var beint til Gylfa Magnússonar og svaraði hann þeim af stakri prýði.  Aðeins í einu tilfelli var fyrirspyrjandi með leiðindi við ráðherra og tel ég að fólk hafi virt það við hann að koma og svara hans hafi ekki fallið í kramið.

Ég fékk að koma að athugsemdum við framsöguræður og benti ég á nokkur atriði sem mér fannst orka tvímælist eða hreinlega vera rangt.  Fyrst spurði ég hvers vegna ekki hefðu verið teiknuð upp sú sviðsmynd að gengistryggingin yrði dæmd ólögleg.  Stjórnvöld hefðu voru vöruð við og því ekki eins og þessi möguleiki hafi ekki verið fyrir hendi.  Ég mótmælti þeirri staðhæfingu Péturs Blöndal að sparnaður væri lítill hér á landi.  Mér telst til að hann nemi 4.400 milljörðum sem væru sko alls ekki litlar tölur.  2.200 milljarðar væru í innstæðum, 1.900 milljarðar í skyldusparnaði lífeyris og 3-400 milljarðar í séreignasparnaði.  Þetta væru sko ekki lágar tölur.  Ég velti því líka fyrir mér hvers vegna ekki var farin sú leið við að bjarga sparnaðinum, sem þýskir sparifjáreigendur á KaupthingEdge fengu að reyna, en þar var höfuðstólinn endurgreiddur, en vextina þurfi að sækja sem almenna kröfu í þrotabúið.  Ég benti þá á AGS vilji að meira sé gert í skuldamálum heimilanna.  Það hljóti að vera furðulegt að einhver hægrisinnaðasta alþjóðastofnun í heiminum vilji ganga lengra ríkisstjórn sósíalista og sósíaldemókrata.  Loks benti ég á að við þurfum ekki fleiri dóma heldur samninga.  Nást þarf breið sátt um niðurstöðuna í skuldamálum heimilanna.

Ragnar Baldursson. lögmaður, fór yfir þann dóm Hæstaréttar sem hann flutti.  Hann telur dóminn skýran.  Tekist var um þrjú atriði: 1) lán eða leiga og var niðurstaðan lán; 2) lán í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðli og niðurstaðan var lán í íslenskum krónum; og 3) er gengistrygging lögleg eða ólögleg verðtrygging og niðurstaðan er að hún er ólögleg verðtrygging.  En Ragnar segir að meira felist í dómnum.  Eitt af því er að vextirnir skuli standa óbreyttir.  Rétturinn dæmdi vextina gilda.

Ég náði að ræða við Ragnar betur um þetta og var niðurstaðan af því, að því sem ekki var breytt það stendur.  Tel ég það ákaflega skýra og einfalda niðurstöðu.

Gylfa var tíðrætt um ósanngirni þess að vextirnir stæðu.  Ég svaraði því í lokaorðum mínum.  Fyrst benti ég á að Hagsmunasamtök heimilanna hafa lagt til ákveðna málsmeðferð (og fylgir hún með fyrir neðan í meðfylgjandi skjali).  Síðan ræddi ég um annað tjón sem lántakar hafa haft af hruninu og fjárglæfrum fyrrum stjórnenda bankanna og eigenda þeirra.  Sagði ég að margir mældu tap sitt í milljónum ef ekki milljóna tugum (eins og ég geri).  Þá sagði ég: 

Það getur vel verið að vextirnir séu lágir, en miðað við það sem á undan er gengið, þá á ég það skilið.

Uppskar ég mikið lófaklapp fundargesta fyrir vikið.

Fundargestir verða að fyrirgefa að ég er ekki að fjalla um fyrirspurnir sem bornar voru upp.  Bæði var að þær heyrðust ekki allar vel og eins væri hreinlega of langt mál að fjalla um þær allar.  Því er betra að sleppa þeim öllum en að koma bara með sumar.

Ég þakka að lokum góðan fund og vona að framhald verði á í náinni framtíð.


Vangaveltur og svör af þræði Láru Hönnu

Ég hef í dag tekið þátt í umræðu á þræði Láru Hönnu á Eyjunni sem heitir Áhættufíkn og Borgarafundur.  Langar mig að birta hluta af því sem ég segi þar hér fyrir neðan.

Fyrst vil ég þakka Láru Hönnu fyrir góðar samantektir sem yfirleitt eru betri en bestu fréttaskýringar fjölmiðlanna.

  •  

    Góð grein hjá Bergþóru. Ég held að hún lýsi sögu margra.

    Eins og ég hef marg oft bent á, þá felst veruleg fjárhagsleg áhættufíkn í því að búa á Íslandi vegna þess að Ísland er líklega eitt landa í heiminum, þar sem áhættuvarnir fjármálafyrirtækjanna byggja á því að verpa áhættunni yfir á almenning, en ekki (fag-)fjárfesta.

    Nú verður fróðlegt að hlusta á umræðuna í kvöld og vona ég að Gylfi Magnússon sjái sér fært að mæta.

  •  

    „ekkinn“ segir: En þegar látakendur tóku þessi lán, þá voru þeir ekki að taka lán á þeim kjörum sem þeir krefjast núna.

    Veistu hvað „ekkinn“, jú, fólk var að því og raunar var það þannig að fyrstu árin þá sveiflaðist greiðslubyrðin um tugi prósenta niður á við. Í staðinn fyrir að borga 20.000 þús. kr. af hverri milljón á þriggja mánaðafresti greiddi fólk 14.000. En þess fyrir utan var enginn að taka þessi lán miðað við að lánveitandinn myndi vinna skipulega gegn lántakanum vegna þess að hann var að hjálpa eiganda sínum að hagnast um háar upphæðir.

    Eitt í viðbót: Fyrir um 17 mánuðum lögðu Hagsmunasamtök heimilanna fram tillögu um lausn á þessu máli. Fjármálafyrirtækin töldu sig, þá vera í þeirri stöðu að hafna henni. Samtökin endurnýjuðu tillöguna í aðeins breyttu formi sl. haust. Aftur var því hafnað. Það hékk á spýtunni að verðtryggð húsnæðislán væru inni í pakkanum. HH lögðu til að miðað við gengi 1.1.2008 yrði gengistryggðum lánum þeirra sem vildu snúið yfir í verðtryggð lán með 4% þaki á síðan öll verðtryggð lán frá þeim tíma. Þessar hugmyndir fengu ekki umræðu! Þær voru kynntar á fundum hjá bönkunum um leið og þeir kynntu okkur sínar hugmyndir. Þær voru kynntar í þingflokkum og hjá ráðherrum. Nei, þá var samningsstaða fjármálafyrirtækjanna talin sterk og þau þurftu ekki að hlusta á sanngjarnar tillögur sérhagsmunahóps! Nú er Hæstiréttur búinn að dæma okkur betri rétt. Nokkuð sem fjármálafyrirtækin gerðu ráð fyrir að gæti gerst, þar sem þau kappkostuðu við sl. haust að tilkynna að færi fólk í skilmálabreytingar, þá fyrirgerði það ekki betri rétti sem dómstólar kynnu að veita því. Það var vissulega innifalið í tillögum HH að afslættir nýja bankanna frá hinum gömlu yrðu notaðir í öllu lánakerfinu, þannig að ríkið og þar með skattgreiðendur þyrftu ekki að hlaupa undir bagga með Íbúðalánasjóði.

 

  •  

    Valur B, þú segir: „Bíddu, voru þá Hagsmunasamtök heimilanna bar fyrir þá sem tekið höfðu gengistryggð lán, hvað með alla hina?“

    Það þarf verulegan vilja til að hafa þennan skilning á mínum orðum, þar sem annars staðar í sama texta segi ég: „Það hékk á spýtunni að verðtryggð húsnæðislán væru inni í pakkanum. HH lögðu til að miðað við gengi 1.1.2008 yrði gengistryggðum lánum þeirra sem vildu snúið yfir í verðtryggð lán með 4% þaki á síðan öll verðtryggð lán frá þeim tíma.“

    Fer eitthvað á milli mála hverjar kröfur HH eru? 4% þaki á öll verðtryggð lán frá 1.1.2008. Þessar kröfur hafa ekkert breyst, þó Hæstiréttur hafi dæmt lántökum gengistryggðra lána betri rétt.

    Síðan Valur, leiðrétting: Ég er stjórnarmaður hjá HH og er ekki og hef aldrei verið formaður HH.

    Albert. Það er rétt að ég ákvað að taka þessi lán, en ég vissi ekki tvennt:
    1. Ég vissi ekki að lánin voru ólögleg og fjármálafyrirtækið væri að fremja lögbrot með því að bjóða mér það.
    2. Ég vissi ekki að fjármálafyrirtæki væru að undirbúa eða farin í gang með mikla stöðutöku gegn lántökum og hugmyndin væri að fella krónuna til að hækka lánin upp úr öllu valdi. Þetta er í reynd niðurstaða sem lesa má út úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

    Ég hef aldrei vikið mér frá því, að ég sótti í gengistryggð lán eftir mikla íhugun. Ég held ég hafi byrjað að velta þessum málum fyrir mér í febrúar 2003 eftir að konan kom heim úr saumaklúbbi með þær fréttir að það væru bara allir að fara út í þetta. Fyrsta svona lánið sem ég tók var vorið 2004. Það var bílalán hjá Glitni sem var hluti af Íslandsbanka hinum þriðja (þ.e. í þriðja skipti sem banki bar nafnið Íslandsbanki). Stuttu síðar endurfjármagnaði ég óhagstæð lán (verðtryggð með 9% vöxtum) með gengistryggðu láni á 2,5% vöxtum (LIBOR vextir) auka 3,2% vaxtaálags eða alls 5,7% vöxtum. Ég gerði þetta m.a. vegna þess að ég hafði farið í mikla rannsóknavinnu með gengisþróun og verðbólguþróun. Málið er að það datt engum í hug að fjármálafyrirtækin myndu grafa undan krónunni í eiginhagsmunaskyni. Skýrsla RNA bendir til þess að undirliggjandi væri gróf markaðsmisnotkun og hugsanlegt glæpsamlegt athæfi.

  •  

    Albert, ef ríkið þarf að greiða 100 milljarða, þá hafa alvarleg mistök verið gerð af efnahags- og viðskiptaráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu. Það er aumt af Gylfa að skella þessu fram á þennan hátt. Fyrir utan að uppgjör bankanna lýkur ekki fyrr en 2012.

  •  

    Ég hef á undanförum tveimur árum eða svo viðað að mér alls konar upplýsingum og lesið örugglega ígildi British Encyclopaediu af fréttum, greinum og bloggum um fjármálakerfið. Hvergi í þessu efni hef ég séð að það þyki sjálfsagt að varpa áhættuvörnum fjármálafyrirtækja yfir á almenna viðskiptavini. Það er frekar talað um að hinn almenni viðskiptavinur eigi að geta treyst því að fjármálafyrirtækið hafi uppi áhættuvarnir fyrir hann. Það er aftur hlutverk fjármálafyrirtækisins að byggja upp áhættuvarnir sínar í gegn um aðra fjármálagerninga sem eru boðnir fagfjárfestum enda hafa þeir faglega kunnáttu til að meta áhættuna sem fylgir. Nei, hér á landi er þessu algjörlega öfugt farið. Almennir viðskiptavinir eiga að taka áhættuna að fullu. Auðvitað sleppur almennur viðskiptavinur aldrei við alla áhættuna, en stóra áhættan á aldrei að falla á hann heldur eingöngu áhætta innan eðlilegra vikmarka.

  •  

    Mér yfirsást spurning Magnúsar frá 12:59:
    „Munt þú sætta þig við ef að niðurstaðan verði sú að lántakendur erlendra lána fái sama díl og við hin. Ekki verri díl eins og var fyrir dómsuppkvaðningu og ekki heldur niðurfellingu á stórum hluta lánsins eins og nú lítur út fyrir.“

    Eins og staðan er núna stendur sami díll ekki í boði, en ef mér hefði verið boðinn hann haustið 2008 eða á vormánuðum 2009, þá hefði ég líklegast þegið hann, þá og því aðeins að sett hefði verið þak á árlega verðbætur. Ég skil nefnilega ekki í þessari umræðu af hverju lántakar verðtryggðra lána eru að argast í þeim sem njóta betri niðurstöðu vegna dóma Hæstaréttar. Þeir eiga líka að krefjast réttlætis fyrir sig, en ekki draga hina inn í sitt ranglæti.

    Albert kl. 16.35:
    Lánin voru ekki dæmd ólögleg, bara verðtrygging við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. En eins og ég segi í svari við spurningu Magnúsar, þá felst réttlæti verðtryggða hópsins ekki í að koma öllum í hripleka báta heldur að bjarga þeim sem eru í hriplegum verðtryggðu bátunum fyrir í góða báta. Óttar Guðmundsson læknir skrifaði fyrir langa löngu pistil sem hét „Að liggja á nagla“ og gekk út á hund sem lá á nagla og vegna þess að hann þekkti ekkert annað, þá hélt hann áfram að liggja á nagla. Lánþegar með verðtryggð lán eru svona eins og hundurinn í dæmisögunni hans Óttars. Menn halda að það sé bara besta mál að halda áfram að greiða af brjálæðislega vitlausum verðtryggðum lánum, vegna þess að þeir vita af því að það er hægt að standa upp og krefjast þess að kerfinu verði breytt.

    En, albert, ég hef ítrekað sagt að sanngirni verður að virka í allar áttir og stend við það. Mér líður ekkert betur við það, að einhver fjármálafyrirtæki fari á hausinn, þó ég hafi það stundum á tilfinningunni að innan sumra þessara fyrirtækja hafi ekki verið til vottur af mannlegu velsæmi. Mín siðferðiskennd býður mér það að leita samninga við fjármálafyrirtækin um niðurstöðu í þessu máli. Fyrstu þreifingar áttu sér stað á fundi með framkvæmdastjóra Samtaka fjármálafyrirtækja sl. föstudag og óskað hefur verið eftir fundum með bankastjórum viðskiptabankanna þriggja. Búið er að ákveða tvo fundi en sá þriðji er ekki ákveðinn. Kröfur Hagsmunasamtaka heimilanna eru að samningsvextir gildi frá lántökudegi fram að dómi Hæstaréttar og þar til annað verður ákveðið með samningum eða vegna þess að lánveitendur nýta sér endurskoðunarákvæði í lánasamningum. Hagsmunasamtök heimilanna hafa jafnframt bent á, að fjölmargir lántakar kunna að eiga skaðabótakröfu á hendur fjármálafyrirtækjunum. Reiknað er með því að á það verði látið reyna fyrir dómi nema að fyrirtækin semji.

    Annars held ég að fjármálafyrirtækin hafi minnstar áhyggjur af almenningi. Það eru kröfur fyrirtækjanna sem munu haf mun meiri áhrif. Sjálfstæðir atvinnurekendur sem misstu allt sitt sjá fram á leiðréttingu sinna mála. Verktakafyrirtæki sem svipt voru tækjum sínum sjá fram á leiðréttingu sinna mála. Sama gildir um bændur um allt land. Fyrirtæki voru þvinguð í gjaldþrot o.s.frv. o.s.frv. Vaxtakjör heimilanna eru tittlingaskítur samanborði við þetta allt.

    Jóhannes spyr (kl. 13.15) hvers vegna ekki bara miða við forsendubrestinn. Það verður örugglega reynt að nota þau rök, að fyrst fjármálafyrirtækin rukkuðu ekki meira, þá sé það hin lögmæta greiðsla og ekki skuli haggað við henni. Kannski standast þau rök, hver veit? Mér finnst það hæpið, en ég er ekki lögfræðingur. Vissulega segir í 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 að ekki skuli víkja ákvæðum ef niðurstaðan er neytandanum í óhag. Ég held bara að ekki sé hægt að halda inni ákvæði hluta samningstímans og víkja því annan hluta.

Umræðuna í heild er síðan hægt að sjá hér: Áhættufíkn og Borgarafundur

Ja hérna, er kreppunni lokið!

Öðruvísi mér áður brá.  Kreppunni lokið með allt upp í loft.  Þýðir þetta þá að AGS er að fara heim?

Skoðun AGS á dómi Hæstaréttar kemur mér ekki á óvart, þar sem Franek Rozwadowsky greindi okkur hjá Hagsmunasamtökum heimilanna frá skilningi sjóðsins á dómnum sl. föstudag.  Við bentum Franek á að sjóðurinn hafi fengið dapra lögfræðiráðgjöf varðandi þetta efni.  Dómurinn hafi úrskurðað um þrennt: 1) leigusamningar eru lánasamningar; 2) gengistrygging er ólögleg; 3) samningarnir skulu að öðru leiti halda.

Ég verð þó að fagna því sem haft er eftir fulltrúum AGS um skuldavanda heimilanna.  Í frétt mbl.is segir: 

Fulltrúar AGS á Íslandi fagna lögum um aðstoð við fjölskyldur í skuldavanda sem samþykkt voru í síðustu viku. Meira þarf þó að gera til að bregðast við vandanum.

Sýnir þetta að AGS hlustaði á þennan hluta í málflutningi okkar hjá Hagsmunasamtökum heimilanna, enda tel ég að við höfum lagt fram haldgóð rök fyrir því.

Meira um þennan fund síðar, þegar frekari upplýsingar liggja fyrir.

 


mbl.is Kreppunni lokið segir AGS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fullgilt sjónarmið Evrópuvaktarinnar

Ég ætla ekki að taka neina afstöðu hér til deilumálsins, þ.e. greiðsluskyldu vegna Icesave, heldur eingöngu ummæla og hæfis Per Sanderud.

Samkvæmt íslenskum stjórnsýslulögum væri embættismaður eða ráðherra búinn að gera sig vanhæfan til að fjalla um mál á stjórnsýslustigi, ef viðkomandi hefði viðhaft ummæli eins og Per Sanderud gerði.  Nokkur dæmi eru um það að almenn ummæli ráðherra hafi leitt til þess að hæfi hans hafi verið dregið í efa af dómstólum, sbr. að Svi Friðleifsdóttir varð að víkja í máli vegna Kárahnjúka.

Eftirlitsstofnun getur ekki talist hlutlaus, ef hún kveður upp dóm áður en andmælaréttur hefur verið virtur.  Skiptir engu máli hversu stofnunni þykir væntanleg niðurstaða vera augljós.  Þar fyrir utan teljast það vart fagleg vinnubrögð að kveða upp úrskurð á þann hátt sem Sanderud gerði.  Ég tek því heilshugar undir þá skoðun Evrópuvaktarinnar, að með ummælum sínum gerði Sanderud sig og ESA vanhæf til að fjalla um málið.  Íslensk stjórnvöld eiga því að fara fram á að nýjum aðila verði falið að fjalla um málið eða a.m.k. að ESA hætti sinni umfjöllun.

Eins og ég segi í upphaf, þá skiptir ágreiningsmálið sjálft engu máli hér, heldur eingöngu málsmeðferðin.  Sanderud segir raunar beint út að andmælaréttur Íslands verði ekki virtur.

Þetta minnir mig á eldgamalt mál, sem mér finnst ákaflega gaman að rifja upp.  Það er frá tíð Sverris Hermannssonar sem menntamálaráðherra.  Háskólanemar voru einu sinni sem oftar að agnúast út í LÍN og Sverrir ákvað að skipa nefnd til að fara yfir málið.  Aðspurður af fréttamanni útvarps hvenær vænta megi niðurstöðu nefndarinnar, þá svaraði Sverrir:  "Það á nú ekki að taka langan tíma, þar sem niðurstaðan er þegar ljós."


mbl.is Vekur upp spurningar um hæfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grétar Vilmundarson - minningarorð

Mig langar að minnast góðs manns, Grétars Vilmundarsonar, fyrrum félaga míns hjá Gróttu og fyrirmyndar í mörgu sem ég og fleiri strákar á mínum aldri gerðum varðandi íþróttaferli okkar.  Genginn er einn þeirra sem ég tók mér til fyrirmyndar á mínum yngri árum.

Ég man líklega fyrst eftir Grétari í kringum 1970, þá var hann í sigursælu liði Gróttu á Reykjanesmóti.  Með honum í liði voru stjörnur (í augum okkar strákanna) eins og Árni Indriðason, Halldór Kristjánsson, Þór Ottesen og Magnús Sigurðsson svo fáeinir séu nefndir.  Þessi hópur fór með lið Gróttu upp í 1. deild í fyrsta sinn sem það gerðist.

Grétar skar sig úr þessum hópi á ýmsa vegu, en þó mest þar sem hann var svo mikill félagi okkar strákanna.  Hann var alltaf til í að ræða við okkur og oftar en ekki fólst alls konar grín, glens og gaman í því.  Annað sem skar sig úr var að hann var virkur handboltadómari og var því heilu og hálfu helgarnar upp í íþróttahúsi að dæma leikina okkar.  Þar var hann sífellt að leiðbeina krökkunum um hvað væri rétt og rangt og ef einhver gerði ótrúlega vitleysu, þá var Grétar fyrstu manna til að hughreyst viðkomandi eða sá spaugilegu hliðina á skoti upp í stúku, sendingu sem fór fram á gang og fleira þess háttar.  Rataði boltinn óvart til hans, gat hann átt það til að taka eitt körfuskot um leið og hann skilaði boltanum til þess sem átti að fá hann.

Það var fyrir tilstilli Grétars sem ég gerðist handboltadómari og þó dómgæsla sé á margan hátt sjálfspíningarhvöt, þá sá ég ekki eftir þeirri ákvörðun.  Um tíma dæmi ég með Grétari og var það mjög gott, þar sem hann var alltaf mjög réttsýnn dómari.

Handboltaferill Grétars var farsæll.  Ég þekki ekki hvernig hann var áður en hann kom í Gróttu, en hann batt tryggð við félagið meðan það var hægt, en fór að mig minnir tvö ár í Þrótt, þegar verulega var farið að halla undan fæti hjá meistaraflokki Gróttu.  Áður en kom að því náði ég að leika nokkur tímabil með Grétari og af gömlu körlunum (eins og þeir voru orðnir þá) í meistaraflokki.  Var það mikil upplifun, en þó var nú farið að falla á ljómann sem var á þeim 7 árum fyrr.  Óhætt er að segja að engum var fært að herma eftir skotstíl Grétars og áttu þeir svilar, hann og Halldór, það sameiginlegt.  Ég veit ekki hvað hún Guðrún Öfjörð tengdamóðir þeirra gaf þeim, en eitthvað var það.  Annar valhoppaði og hinn horfði upp í stúku, en báðir hlóðu þeir inn mörkunum.  Hitt veit ég að hún Guðrún var ákafleg stolt af þeim strákunum og ræddum við það ófáum sinnum við pressuna í Prjónastofunni Iðunni, þar sem hún vann í fyrirtæki fjölskyldu minnar.

Ég hélt áfram samskiptum við Grétar í gegn um starf mitt sem formaður handknattleiksdeildar Gróttu á árunum 1980 - 83 og síðan dómgæsluna þar til að Grétar lagði flautuna á hilluna, m.a. af heilsufarsástæðum.  Síðustu árin voru samskiptin lítil, eins og verða vill, en ekki fór þó á milli mála að heilsu hans fór hrakandi og húmorinn fjaraði út.

Genginn er góður maður sem hjálpaði okkur strákunum mikið.  Inga og dætur ég votta ykkur samúð mína. Grétari þakka ég fyrir mörg góð ár í boltanum.

Marinó G. Njálsson


Uppgjör milli nýju og gömlu bankanna verða endurskoðuð 2012

Mér finnst einhvern veginn menn hafa gleymt því, að uppgjör milli nýju og gömlu bankanna eiga að koma til endurskoðunar 2012.  Vissulega var hugmyndin að sú endurskoðun myndi leiða til þess að kröfuhafar fengju meira í sinn hlut, en hver segir að það sé meitlað í stein.

En það eru nokkur atriði sem ég held að litið sé framhjá:

1.  Afslátturinn á gengistryggðu lánunum við yfirfærslu frá gömlu bönkunum til þeirra nýja var miðaður við gengi 30.9.2008 eða þar um bil.  Hafi lánasöfnin farið á milli með segjum 45% afslætti, þá eru þau að fara á gengisvísitölu innan við 110.

2.  Bankarnir hafa ekki fært upp í bókum sínum gengishagnað vegna veikingar krónunnar.  AGS bannaði það, eins og kemur upp í ársuppgjöri Íslandsbanka.

3.  Mörg gengistryggðu lánanna eru til langs tíma og það er út í hött að reikna með veikri krónu allan þann tíma.  Styrking krónunnar myndi hafa sambærileg áhrif og afnám gengistryggingar til langframa að teknu tilliti til verðlagsbreytinga á lánstímanum.  Dómur Hæstaréttar er því hraðvirk núvirðing lánanna fyrir utan að færa lánin að bókfærðu verði þeirra.

4.  Þó svo að búið sé að skilja á milli gömlu og nýju bankanna, þá er endanlegu uppgjöri ekki lokið.  Það á að fara fram 2012, a.m.k. í sumum tilfellum.  Nú er staðreyndin að kröfuhafar munu líklegast fá minna en tölur Deloitte gerðu ráð fyrir og ég verð bara að segja, hvað með það!

Svo má náttúrulega velta fyrir sér af hverju menn reiknuðu ekki með þeim möguleika að Hæstiréttur myndi dæma gengistrygginguna ólögmæta. Það voru fjölmargir aðilar búnir að vara við því að gengistryggingin væri ekki í samræmi við ákvæði 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 og benda á orðalagið í athugasemdum með frumvarpinu að með þeim ákvæðum væri verið að taka af allan vafa um að óheimilt væri að binda lán í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla.  Af hverju tóku menn þetta ekki alvarlega við uppgjörið?  Af hverju var að minnsta kosti ekki gerður fyrirvari?  Gunnar Tómasson og Björn Þorri Viktorsson sendu öllum hlutaðeigandi og öllum þingmönnum bréf þar sem varað var við þessu.  Ég er búinn að vera að hamra á þessu hér á þessari síðu og Hagsmunasamtök heimilanna í útsendu efni.  Að ekki hafi verið gerður fyrirvari við þetta eru hrein og klár afglöp þeirra sem komu að uppgjörinu fyrir hönd nýju bankanna og þar með stjórnvalda.

En nú erum við í þeirri stöðu að Hæstiréttur hefur fellt sinn dóm.  Fjármálafyrirtækin munu eftir fremsta megni reyna að draga úr tjóni sínu, alveg eins og lántakar voru að reyna að draga úr skaða sínum.  Fjármálafyrirtækin gera það ekki með því að reyna að fara framhjá dómi Hæstaréttar.  Þau gera það ekki með frjálslegri túlkun sinni á dómnum.  Þau geta eingöngu gert það með því að nýta ákvæði samninganna og það verður að gera innan marka 36. gr. laga nr. 7/1936.  Ákvæði 18. gr. laga nr. 38/2001 eiga bara við þegar lánveitendur þurfa að endurgreiða ólöglega vexti og þar með ólöglega gengistryggingu.  Það virkar ekki í hina átti.  Ákvæði 36. gr. verndar neytandann fyrir breytingum á samningi lántaka í óhag.  Mér sýnist sem fjármálafyrirtækin séu einfaldlega mát eða þvingað mát sé í stöðunni.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa lagt fram tillögu um hvernig farið skuli með uppgjör vegna lánanna.  Samtökin fengu lögfræðing til að fara yfir þær, áður en þær voru lagðar fram og talsmaður neytenda hefur einnig skoðað þær og leist "mjög vel á málsmeðferð", eins og hann sagði í tölvupósti til mín.  Nú er komið að fjármálafyrirtækjunum að ákveða hvað þau vilja gera, en hvað sem þau gera, þá geta þau ekki rukkað meira en upphafleg greiðsluáætlun segir til um og þau verða að hætta að rukka þá sem eru búnir að greiða meira en samtala greiðsluáætlunar segir til um.


mbl.is Afsláttur af eignum dugar ekki til
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólitískar vangaveltur hjá ópólitískum manni

Ég var að lesa færslu á Silfrinu hans Egils og umræðuna sem þar kom upp.  Ég var byrjaður að skrifa athugasemd, en hún eiginlega þróaðist út í þessar vangaveltur hér.  Þær spunnust út frá því að Guðbjörn Guðbjörnsson sagði sig úr Sjálfstæðisflokknum í kjölfar samþykktar flokksins um að draga til baka ESB umsókn.  Hér eru vangaveltur mínar:

Fróðlegt að lesa þessa umræðu (þ.e. á Silfrinu) um þörf á flokki á mið-hægri væng.  Furðuleg afmörkun, þegar vængirnir eru orðnir jafn þokukenndir og raun ber vitni.  Eina stundina er Sjálfstæðisflokkurinn vinstra megin við Samfylkinguna í félagshyggju og aðra er VG hægra megin við Sjálfstæðisflokkinn í frjálshyggju allt eftir því hvert málefnið er.

Ég held að það sem Ísland þarf er flokkur fyrir fólkið.  Hvort að hann er vinstri hægri snú flokkur eða hægri vinstri snú flokkur skiptir ekki máli.  Bara að hann beri hagsmuni almennings fyrir brjósti og leysi úr málum sínum á lýðræðislegan hátt.  Hvað eru t.d. raunverulega margir á Íslandi sem vita hvort aðild að ESB er jákvæð eða neikvæð?  Hvað felst í aðildinni, hvað við fáum og hverju við fórnum?  Ég tel mig alveg þokkalega upplýstan mann, en ég get ekki sagt af eða á hvort ESB aðild er það sem hentar okkur, en ég veit fyrir víst, að við eigum að stefna að því að uppfylla öll skilyrði inngöngu og öll skilyrði fyrir upptöku evru óháð því hvort við förum í ESB eða tökum upp evru, vegna þess að það er alveg örugglega til hagsbóta fyrir almenning!

Gallinn við fjórflokkinn er sagan og þeir hlekkir sem hún lætur þá dragast með.  Þetta er saga sérhagsmuna, spillingar, afneitunar, mistaka, óeiningar, efnahagsóstöðuleika, getuleysis, úrræðaleysis og svona gæti ég haldið lengra áfram.  Nú segir einhver að VG eigi ekki slíka sögu.  En dettur einhverjum heilvita manni í hug að skilja að sögu VG og Alþýðubandalagsins?  Samfylkingin neitar ekki uppruna sínum í Alþýðuflokknum, þó hún sé löngu búin að gleyma út á hvað sá flokkur gekk.  Þingstörf í vetur hafa sýnt okkur að Samfylkingin er orðin að hagsmunagæsluflokki fyrir fjármagnseigendur og VG hefur dregist inn í það.  Öðru vísi mér áður brá að sósíalistar og sósíaldemókratar taki upp hanskann fyrir auðvaldið til að lemja niður almúgann!  Og á sama tíma tekur flokkur atvinnurekenda upp hanskann fyrir almúgann (fyrirgefið mér þetta Sjálfstæðismenn, en hlekkir sögunnar segja að þið séuð hagsmunagæsluflokkur atvinnurekenda).

Það verður engin breyting í bráð hjá fjórflokknum.  Í gær fékk Sjálfstæðisflokkurinn kjörið tækifæri til að breytast.  Hann gat kosið almennan flokksmann í embætti varaformanns.  Ólöf er örugglega fín.  Kannast við hana af Nesinu, en hún er hluti af flokksverkinu - kerfinu.  Auk þess er hún konan hans Tomma, sem rekur eitt stærsta fyrirtæki landsins.  Áður var Þorgerður Katrín varaformaður, sem ég þekki líka frá gamalli tíð, metnaðarfull og klár kona, sem hafði unnið sig upp í efri stéttir þjóðfélagsins.  Og það er punkturinn.  Í gær gat Sjálfstæðisflokkurinn færst nær almúganum, en hann kastaði því tækifæri frá sér.  Ég vil samt óska Ólöfu til hamingju.  Það var þá loks að Seltirningur varð varaformaður flokksins.  Gamla Gróttufólkið er farið að raða sér út um allt í þjóðfélaginu Smile

Samfylkingin er ennþá að ákveða hvað hún ætlar að gera.  Jóhanna sagðist ekkert vera á förum, en hefur greinilega misskilið hlutverk sitt sem forsætisráðherra.  Í því embætti er einmitt gott að vera á ferðinni, þ.e. út á meðal almúgans.  Hún getur það náttúrulega ekki, þar sem hún gæti lent í sömu klemmu og skoðanabróðir hennar hann hr. Brúnn sem lenti á konu með óheppilega skoðun.  Jóhanna, hann Hrannar getur ekki verndað þig endalaust fyrir staðreyndum um stöðuna í þjóðfélaginu.  Ennþá verra hjá Samfylkingunni er að allir innan hennar ganga í sama vitlausa múgsefjunartaktinum.  Það er sama hvaða vitleysa kemur frá flokksforustunni, enginn þorir að víkja af línunni.  Jábræðralagið skal standa þó ekkert vit sé í því.  Síðan á Samfylking bara eitt svar við öllu: ESB, ESB, allt er betra í ESB.  Þessi mantra er orðin svo vandræðaleg, að maður er farinn að óttast að fólkið gangi í dáleiðslu og fari sér að voða.

VG kettirnir eru frekar kindugir, því þeir rata alltaf í réttum fjölda heim, þó ekki séu alltaf þeir sömu heima!  Þetta er eitt furðulegasta leikrit sem ég hef upplifað.  Ein Lilja er alltaf með eigin skoðun meðan önnur Lilja fylgir formanninum.  Þriðja Liljan hoppar á milli.  Ég er ekki viss um að Eysteinn hafi kveðið um svona Liljur, því þá hefði kvæðið ekki orðið jafn fagurt og raun bar vitni.  Hann hefði sífellt þurft að breyta bragarhættinum.  Innan VG er furðulegt safn þingmanna og skil ég ekki hvernig Álfheiður Ingadóttir getur átt heima þarna.  Hún hefur ekki í sér að taka afstöðu með almúganum.  Á hinum endanum eru eins rauðir kommar og hægt er að hugsa sér.  Takt þekkir flokkurinn ekki, en mér finnst það samt fela í sér vissan sjarma.

Svo er það Framsókn.  Ég talaði á miðstjórnarfundi flokksins um daginn um stöðu heimilanna.  Ég sagði þeim eitt og annað og hafði á tilfinningunni, að fyrir utan mesta lagi 10 manns í salnum, þá vissi þetta fólk ekki hvað var að gerast.  Sorglegt.  Sama gerðist raunar þegar ég hélt erindi hjá Sjálfstæðismönnum í fyrra.  Afneitunin eða sambandsleysið við þjóðfélagið er átakanlegt.  Tek þó fram að innan Framsóknar er alveg hörkudugleg kona, Eygló Þóra Harðardóttir.  Stundum finnst mér kröftum hennar sóað innan flokksins.  Sama á við um Unni Brá hjá Sjálfstæðisflokknum og ég skil alls ekki hvað Lilja Móses þolir lengi við í VG.  Ég held í einlægni að Framsókn vilji vel, en hann hefur bara enga vigt.  Það hlustar enginn á flokkinn, enda engin þörf á því.  Tilvistarkreppa hans hlýtur því að vera svakaleg. Ekki bætir úr skák að hann hefur leitað í smiðju Einars Ágústssonar, en eins og þeir sem muna eftir þeim mæta manni vita, þá fékk hann viðurnefnið "já, já - nei, nei", af því að hann gat aldrei haft skoðun á neinu eða skipti um skoðun á milli viðtala.

Fjórflokkurinn er að grafa sína gröf.  Það sýndu sveitastjórnarkosningarnar um daginn.  Sjálfstæðisflokkurinn barði heldur betur í brestina í gær og nú er spurningin hvort hann hrökkvi í sundur.  Ístöðuleysi flokksins er ótrúlegt.  Hann tekur 180 gráðu beygjur þegar það hentar honum, þó það gangi stundum þvert á landsfundarsamþykktir.  Maður hefur á tilfinningunni að skoðanakannanir ráði för.  Þrátt fyrir þetta mun fjórflokkurinn lifa af meðan að fólk hefur ekki annan og traustan kost.  Þökk sé Borgarahreyfingunni, þá verður ekki hægt að treysta að grasrótin geti komið sér saman um eitt eða neitt.  Ég er ekki að taka afstöðu í því máli, bara segja að þessi uppákoma olli skaða.  Ég hef rætt nokkrum sinnum við Margréti og Þór, en Birgittu varla svo heitið getur í nær 20 ár.  Ég held samt ekki, að þau hrófli mikið við fjórflokknum.  Hvað með Besta flokkinn og slík framboð?  Mér finnst alveg fínt að hafa Jón Gnarr í Reykjavík og vil fá að fylgjast með honum úr fjarlægð áður en álit verður gefið út.  Vona bara að hann verði betri stjórnandi en Georg Bjarnfreðarson.

Bara svo það sé á hreinu, þá er ég ekki að hugsa um uppreisn eða framboð gegn fjórflokknum.  Ég held að pólitík sé mannskemmandi, a.m.k. eins og hún er stunduð í dag.  Sjáum bara hvernig ráðherrastarfið hefur farið með ljúfan mann, eins og Gylfa Magnússon.  Hann glataði sakleysi sínu, en það sem verra er, að mér sýnist hann hafa glatað hugsjónum sínum.  Ég vona hans vegna að hann fái sem fyrst að snúa til fyrri starfa, því ég get ekki séð að honum líði vel í því sem hann er að gera. Ég held líka að Pétur Blöndal hafi alveg sagt satt þarna um daginn.  Þetta er illa launað og ákaflega slítandi starf fyrir þá sem stunda það af einurð.  Vinnutíminn er heilsuspillandi og álagið líka, þó svo að landsmenn sjái alltaf ofsjónum yfir þinghléum, þá kæmi mér ekki á óvart að árlegur vinnutími þeirra þingmanna sem mest leggja á sig sé langt yfir þessum 1.600 tímum sem hinn almenni launamaður á að skila.  Ég er alveg handviss um að Alþingi brýtur oft mjög gróflega gegn lögum um hvíldartíma og um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustað.  Svo má ekki gleyma að hver sem er svo vitlaus að láta kjósa sig þarna inn, er búinn að gefa út opið skotleyfi á allt sem viðkomandi segir og skotin koma án tillits til þess hvort ummælin voru viturleg eða ekki.  Er ég sko alls ekki saklaus af slíkri skothríð. 

Því vil ég að lokum þakka öllum þingmönnum fyrir störf þeirra frá síðustu kosningum.  Þó ég sé ekki sáttur við allt sem þið gerðuð, þá vona ég að þið hafið verið, í ykkar huga, að leggja ykkur fram fyrir þjóðina.  Meira get ég ekki farið fram á.  Nú ef þið eruð ekki sannfærð um að þið hafið verið að leggja ykkur fram, þá hafið þið líklegast þrjú ár til að bæta úr því.


Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.12.): 37
  • Sl. sólarhring: 66
  • Sl. viku: 345
  • Frá upphafi: 1680483

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 40
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband