Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2010

Ekki bendi á mig...

Menn draga upp alls konar skýringar og afsakanir fyrir því að bönkunum tókst í 9 ár að bjóða upp á gengistryggð lán þrátt fyrir mjög skýran bókstaf laganna um að eina verðtryggingin sem leyfð er í lánasamningum sé við vísitölu neysluverðs og hlutabréfavísitölur, innlendar eða erlendar eða sambland þeirra.  Um það er innihald 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, eins og ég benti á í athugasemd við færslu hjá mér í febrúar á síðasta ári.  Ég verð að viðurkenna, að ég var svo hissa á innihaldi greinarinnar, að ég fylgdi henni ekki eftir, enda fannst mér ég þurfa að bera þetta undir lögfræðing.  Það gerði ég loks í apríl, eða öllu heldur hann kom til mín og benti mér á að fylgja málinu eftir.  Það voru nefnilega lögfræðingar bæði innan og utan fjármálafyrirtækjanna sem höfuð efasemdir um gengistrygginguna, en já-bræðralagið kom í veg fyrir að menn riðluðu fylkingunni.

Ég er sannfærður um að fjármálafyrirtækin vissu meira en þau eru að gefa í skyn.  Málið er að þau gerðu sér leik í því að dansa á gráa svæðinu.  Það sýnir bara skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis og það sýna t.d. ummæli Elínar Jónsdóttur, fyrrverandi starfsmann FME og núverandi forstjóra Bankasýslu ríkisins, í viðtali við Viðskiptablað Morgunblaðsins 8. janúar 2009, sjá hér fyrir neðan:

elin_jonsdottir_08012009.jpg

Þetta viðtal og margt annað bendir því miður til einbeitts vilja fjármálafyrirtækjanna að ganga eins langt og hægt væri, þó svo að fyrirtækin mættu vita að með því væru þau að teygja lögin og beygja langt út fyrir vilja löggjafans.  Síðan var öllum ákvörðunum áfrýjað eða þær kærðar og jafnvel niðurstöður dómstóla vefengdar, eins og er með dóma Hæstaréttar.

Þessi framkoma fjármálafyrirtækjanna fríaði FME ekkert undan því að grípa til aðgerða og þar liggur hundurinn kannski grafinn.  FME gaf eftir undan hreinum tuddaskap fjármálafyrirtækjanna.  Þau nýttu kraft sinn og stærð gegn hinni veiku eftirlitsstofnun.  En FME var veikt vegna þess að löggjafinn útvegaði FME ekki þau vopn sem stofnunin þurfti á að halda.  Svo einfalt er það.  Og líka vegna þess að FME var ekki að beyta af nægilegri hörku þeim vopnum sem stofnunin þó hafði.


mbl.is Myntkarfan týndist á gráu svæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fullt af áhugaverðum viðureignum í 16 liða úrslitum

Já, ég blogga stundum um annað lánamál Grin

Nú er ljóst hvaða þjóðir leika í 16 liða úrslitum.  Mér finnst nú að mbl.is hefði getað sagt hvaða lið mætast, en ég bæti bara úr því:

Úrúgvæ - S-Kórea

Bandaríkin - Gana

Argentína - Mexíkó

Þýskaland - England

Holland - Slóvakía

Brasilía - Chile

Paragvæ - Japan

Spánn - Portúgal

Þarna eru margir flottir leikir og ljóst er að í 8 liða úrslit komast örugglega þrjár Evrópu þjóðir og tvær Ameríku þjóðir, en síðan er spurningin hvort styrkur Asíu er meiri en S-Ameríku og loks er það ákaflega óljós viðureign Bandaríkjanna, sem ekkert hafa sýnt, og Gana sem ég veit ekki hvað eru að gera í þessari keppni frekar en aðrar Afríku þjóðir.  Skoðum leikina:

Úrugvæ - S. Kórea:  Málið með Úrugvæ er að þeir eru með Forlan.  Hann virðist ekki geta tapað mikilvægum leikjum þetta árið og alltaf skorar hann.  Úrugvæ vinnur.

Argentína - Mexikó:  Ég held að Argentína sé númeri of stór fyrir Mexíkó, en ekkert er gefið.  Ef ég man rétt þá er ekki langt síðan að Mexíkó vann bæði Argentínu og Brasilíu og það væri fíflaskapur að ætla að Argentína eigi leikinn gefinn.  Ég held samt að það gerist.

Þýskaland - England:  Þetta verður eins og að fylgjast með Karpov gegn Kasparov í skák hérna í gamla daga.  Það verður stillt upp í tvær varnir og þess gætt að ekkert fari í gegn.  Þjóðverjar eru ennþá í sárum eftir 5-1 yfirhalninguna um árið, en það er einhvern veginn þannig að þýska stálið missir allt bit á móti Englendingum.  Þó ég sé ekki hrifinn af enskum, þá eru þeir eiginlega á heimavelli og vinna því.

Bandaríkin - Gana:  Það er eiginlega móðgun við mörg af þeim liðum sem eru dottin út að þessi tvö líð séu þarna.  Þau geta hvorugt nokkuð og synd að annað þeirra komist áfram.  Gana vinnur.

Holland - Slóvakía:  Hér annað lið sem er nánast á heimavelli, þ.e. Holland.  Studdir af Búum, þá fara þeir létt með Slóvaka.  Holland vinnur.

Paragvæ - Japan:  Hvað hefur Paragvæ gert í keppninni?  Jafntefli við Ítalíu (sem gat ekki neitt), jafntefli við Nýja Sjáland (!) og sigur á Slóvökum. Nei, þá er Japan búið að sýna meira.  Sigur á Kamerún og mjög sannfærandi sigur á Dönum og naumt tap gegn Hollendingum.  Ég spái japönskum sigri, en vona að jeniið veikist.

Brasilía - Chile:   Brasilía vinnur Chile nánast alltaf. 21 sinni frá 1970 og Chile fjórum sinnum.  Þetta ætti að vera no-brainer og að maður tali nú ekki um 3 lykilmenn Chile í banni.  En þetta er nú einu sinni fótbolti og Brasilía er óútreiknanleg.  Spái samt business as usual, Brasilía vinnur.

Spánn - Portúgal:  Yfirleitt myndi ég telja þetta öruggan spænskan sigur, en Portúgal er svona lið sem ómögulegt er að átta sig á.  Eina stundina heldur maður helst að fótbolti sé ekki spilaður í landinu, bara leiklist sem byggir á því að veltast um í grasinu og halda um hina ýmsu líkamshluti, en svo gleyma menn leiklistinni og búmm mörkin hrúgast inn.  Ég held, því miður að leiklistin verði ofan á í þessum leik og Spánn vinni, en þá verða þeir að hafa Cecs inn á allan leikinn. Hann einn kann að þræða boltanum milli varnarmanna.

Það er því ljóst að nokkrir minni spámenn komast í 8 liðaúrslit, en þar mætast:

Úrúgvæ/S-Kórea - Bandaríkin/Gana

Argentína/Mexíkó - Þýskaland/England

Holland/Slóvakía - Brasilía/Chile

Paragvæ/Japan - Spánn/Portúgal

(Feitletruðu liðin eru þau sem ég spái áfram.)

Líklegast er fulldjarft að spá um framhaldið, sérstaklega þar sem ekki er ljóst hvort fyrri spá stenst. En ég held að þrjár Evrópu þjóðir fari áfram og síðan Diego Forlan!  Svo spái ég að Holland vinni Spán í úrslitaleik. Cool Og Diego Forlan vinni England í hinum.  Hann hefur ekki tapað fyrir ensku liði allt árið og byrjar varla á því núna.

Vinsæla spáin er að Argentína og Brasilía mætist í úrslitum og það er kannski líklegast, en einhver verður að halda með þeim sem minna mega sín. Whistling


mbl.is Brasilíumenn líklegastir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð ákvörðun ef rétt er eftir haft - Greiðsluáætlun á að gilda

Sé frétt RÚV rétt (hefur að vísu verið borin til baka), þá verður það gríðarlega stórt skref í rétta átt.  Hvort skrefið er í samræmi við ákvæði laga kemur ekki í ljós. 

Tekið skal fram að tveir stjórnarmenn Hagsmunasamtaka heimilanna áttu fund með framkvæmdastjóra Samtaka fjármálafyrirtækja í dag og var sá fundur mjög góður.  Á fundinum kom fram að fjármálafyrirtækin fengu leyfi Samkeppnisstofnunar að ræða saman.  Mikill þrýstingur er á þeim að klára málið núna um helgina.

Við frá HH lögðum mikla áherslu á rétt neytenda og hömruðum á  36. gr. laga 7/1936 sem kveður á um að sé ágreiningum um túlkun samnings, þá gildir túlkun neytandans.  Ég held að þetta hafi komið SFF á óvart.  Þá lögðum við mikla áherslu á, að ekki yrðu sendir greiðsluseðlar til þeirra lántaka, sem eru búnir að inna af hendi hærri heildargreiðslu en nemur samtölu greiðslna samkvæmt greiðsluáætlun.  Fyrirtækin mættu ekki ganga lengri í innheimtu en næmi því sem greiðsluáætlun gerði ráð fyrir.  Það er skoðun samtakanna að slíkt væri alvarlegt brot á samningsskilmálum og í andstöðu við niðurstöðu Hæstaréttar og ákvæði 36. gr.  Vona ég að tekið verði tillit til þessarar ábendingar.

Við tjáðum SFF að það hafi alltaf verið markmið HH að hægt væri að viðhalda viðskiptasambandi fjármálafyrirtækjanna og viðskiptavina þeirra.  Það væri öllum til hagsbóta.

Tekið skal fram að tilgangur fundarins var ekki að komast að niðurstöðu eða sátt, heldur að koma sjónarmiðum á framfæri og skiptast á skoðunum.  Ég er sáttur við fundinn, en á eftir að sjá hvort farið verður eftir ábendingum okkar.  Ekki var samið um neitt á fundinum, enda hvorugur aðili með umboð til slíks.

Á undan fundinum með SFF áttum við hjá HH fund með AGS í þeim tilgangi að tryggja að réttar upplýsingar um skuldastöðu heimilanna kæmust á framfæri við sjóðinn.  Við útskýrðum skilning okkar á dóma Hæstaréttar, þ.e. að í þeim fælust þrenn skilaboð:

1.  Bílaleigusamningar væru lánasamningar

2.  Gengistrygging væri ólögleg.

3.  Engu öðru var breytt í lánasamningunum umfram gengistryggingarákvæðið

Í því ljósi bentum við líka á 36. gr. laga 7/1936, því AGS virtist hafa hreinlega fengið rangar upplýsingar um áhrif og niðurstöður dómanna.  Hvort sem fólki líkaði betur eða verr, þá tryggði greinin rétt neytenda að halda inni ákvæðum sem væru þeim hagstæð, þrátt fyrir að aðrar aðstæður hafi breyst.

Ég hef það á tilfinningunni að AGS finnist dómur Hæstaréttar lýsa, ja er ekki best að segja fúski.  Það furða sig allir á því að svona geti gerst, en gert er gert og þetta verður ekki tekið til baka.  Vissulega breyti þetta stöðunni, en við lögðum áherslu á að þetta breytti ekki skoðun okkur á að leiðrétta þyrfti verðtryggð lán heimilanna.


mbl.is RÚV: AGS hefur áhyggjur af stöðu fjármálakerfisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fráleitur Gylfi - 18. gr. á eingöngu um oftekna vexti og endurgjald

Það er merkilegt hvað Gylfi Magnússon getur haldið áfram að vísa rangt í 18. gr. laga nr. 38/2001.  Löggjafanum datt nefnilega ekki annað í hug, en að vextir og endurgjaldið væri oftekið og því væri vikið til hliðar með dómi.  Þannig skapaðist krafa á kröfuhafann vegna oftekinna vaxta eða endurgjalds (lesist höfuðstólsafborgun), ekki öfugt.  18. gr. á ekki við lántakann, enda er ekki hægt að refsa lántakanum fyrir að lánveitandinn hafi boðið honum góð kjör.

Síðan vil ég vekja athygli enn og aftur á 36. gr. laga nr. 7/1936.  Með henni voru færð í lög ákvæði um neytendavernd.   Greinin er innleiðing á neytendaverndar ákvæðum tilskipunar 13/1993/EBE (eða hvernig þetta er skrifað).  Hún verndar neytendur fyrir ósanngjörnum samningsákvæðum en jafnframt segir að rísi ágreiningur um túlkun samnings, þá skuli túlkun neytanda gilda.


mbl.is Fjarstæðukennd niðurstaða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ábending frá Hagsmunasamtökum heimilanna vegna frétta mbl.is

Vegna þeirrar fréttar sem þessi færsla er hengd við, þá hafa Hagsmunasamtök heimilanna sent ritstjórn  mbl.is eftirfarandi tölvupost:

Hagsmunasamtök heimilanna telja að tilvitnun í yfirlýsingu samtakanna sé röng í fréttinni sem fylgir þessar frétt:

1.  HH tala í yfirlýsingu sinni um gengitryggð lán, ekki erlend lán.  Munurinn á gengistryggðum lánum og erlendum er að þau fyrri eru með íslenskan höfuðstól og geta verið í mörgum myntum.  Erlent lán er alltaf í einni mynt og er upphæð lánsins tilgreint í þeirri mynt og ekki er nein íslensk upphæð tilgreind.
2.  Óvissan sem samtökin telja vera í gangi er hvaða lán teljast erlend og hver gengistryggð.
3.  Samtökin telja enga óvissu vera um það hvernig eigi að meðhöndla lánin, en hvetja fjármálafyrirtæki til að stöðva innheimtuaðgerðir eða takmarka innheimtu við upphaflega greiðsluáætlun þar til ljóst er hvernig uppgjöri verður hátta.

Óskum við eftir að fréttin verði leiðrétt til samræmis við þetta.  Það er engin ástæða til að vera með svona knappan stíl á vefmiðli, þó svo að samtökin skilji að í prentmiðli þurfi oft að stytta mál sitt.

Virðingarfyllst
Marinó G. Njálsson
Hagsmunasamtök heimilanna.


mbl.is Byr sendir óbreytta greiðsluseðla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

FÚSK

Ég fékk póst frá manni í kvöld sem er orðinn ákaflega þreyttur á stjórnvöldum og fjármálakerfinu.  Mér finnst að það sem hann sagði eigi erindi til fleiri og fékk því góðfúslegt leyfi hans til að birta  að eigin vali úr því sem hann ritaði.  Hér kemur það.

FÚSK - FÚSK - FÚSK

Það er bara til eitt orð yfir stjórn og fjármálakerfið hér og það er: FÚSK

Pétur Blöndal var eitthvað að tala um að erlendir fjárfestar misstu trú á íslendingum. Það er skaði sem er löngu orðinn og nú skilur maður svo vel af hverju. Þetta heimóttarlega lið fer út í heim og þykist ætla að eiga viðskipti með tugi og hundruð milljarða. Það eina sem hefur gerst er að menn hafa stolið fjármunum frá erlendum bönkum og svo ætla þeir í ofanálag að stela meiru af landsmönnum sjálfum. Fúskið og aulahátturinn er svo yfirgengilegur að maður á vart til orð. Eigum við að fara að treysta þessu liði fyrir því að reka banka. Ég held nú síður. Finna þarf fólkið sem hefur snefil af auðmýkt í hjarta og meira en hálfa hugsun í kollinum. Sjáið hvernig þeir taka á erindum hjá FME og fleirum. Hvað er þetta annað en fúsk?

Nú hef ég fengið að sjá nokkuð af þessum gengistryggðu lánasamningum. Þeir eru ótrúlegt fúsk. Yfirlýsingar Gylfa Magnússonar eru í mótsögn aftur og aftur og hreint fúsk. Yfirlýsingar Seðlabankastjóra eru fúsk. Hvað eru þessir herramenn að opna trantinn með þetta fúsk sitt? Bankarnir keppast nú við að bæta skaðann með því að lýsa því yfir að þeir þoli afleiðingar dóms Hæstaréttar. AGS voru búnir að gefa það út að þeir hefðu fengið 600 milljarða svigrúm fyrir heimilin og 2800 milljarða fyrir fyrirtækin. Hvar er allt þetta svigrúm núna? Það virðist ekki rata eitt einasta satt orð af munni þessara manna.

Kristinn "Sleggja" Gunnarsson ryðst fram á ritvöllinn og fúskar sem aldrei fyrr. Hann er einn af þeim sem greiddi atkvæði með lögum 38/2001. Það er algjörlega augljóst að hann var ekki starfinu vaxinn því hann vissi ekki hverju hann var að greiða atkvæði. Enn og aftur fúsk og til allrar hamingju komst hann ekki aftur á þing.

Nú þurfa hausar að fjúka takk. Fúskarana út úr kerfinu. Þetta eru afleiðingar vina, pólitískra og ættingjaráðninga í háar stöður. FÚSK.

Ég er ekki brjálaður, ég er bara með æluna í kokinu yfir þessu eilífa fúski landa minna. Hvað með ykkur? Eigum við að láta bjóða okkur meira fúsk í stjórnsýslu og fjármálakerfi? Af hverju er þessi fúskari sem er talsmaður Samtaka fjármálafyrirtækja ekki búinn að segja af sér? Hann vissi vel að gengistryggðar verðbreytingar væru ólöglegar. Gerði hann eitthvað í málinu? Nei, hann fúskaði bara. Ég er orðinn algjörlega samsinntur þeim sem vilja kæra persónur og leikendur. Kæra fúskarana og láta þá standa frammi fyrir því að missa aleiguna. Ég hef fengið nóg af vanhæfum lygurum á háum launum.
 

----

Ég verð bara að segja eins og er, að síðustu dagar hafa fengið mig til að hugsa á líkum nótum.  Undanfarna tvo daga hef ég setið sveittur við að svara órökstuddum ummælum háttvirts efnahags- og viðskiptaráðherra, sem keppist við að gleyma öllu sem hann segir.  Þetta er sami maður og stóð á Austurvelli í janúar 2009 og talaði um að það glitti í löngutöng.  Og þetta er sami maðurinn og sagði á borgarafundi Hagsmunasamtaka heimilanna í september:

Í þessu tilviki er uppi réttarágreiningur. Úr honum skera dómstólar. Þegar úrskurður dómstóla liggur fyrir, þá fara menn að sjálfsögðu eftir honum. Það er bara einfaldlega þannig sem að réttarríkið virkar.

Og nú liggur úrskurður dómstóla fyrir, hvað gerist þá?  Jú, vegna þess að ráðherrann var tekinn í bólinu og hefur líklegast samið af sér við endurreisn bankanna vegna þess að hann hlustaði ekki á aðvaranir, þá skal ekki farið eftir dómi Hæstaréttar heldur reyna eftir öllum leiðum að komast hjá því.  Og hvers vegna?  Jú, vegna þess að hann er hræddur um að dómur Hæstaréttar leiðrétti stöðu lántaka meira en góðu hófi gegnir.  Vegna þess að áhrifin af dómi Hæstaréttar eru honum ekki að skapi.

Gylfi, við sjáum löngutöng vel núna.  Það er ekki sú sem þú talaðir um.  Ég held ég viti hver á hana.


Sanngirni þegar ráðherra hentar og röng lagatilvitnun

Ekki halda að ég sé kominn með Gylfa Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, á heilann, þó ég fjalli mikið um ummæli hans í gær og í dag.  Hann er bara endalaus uppspretta glórulausra ummæla, að ég get ekki annað en dregið þau fram.

Í þessu stutta viðtali við mbl.is sem þessi færsla er tengd við, þá eru nokkur ótrúlega furðuleg ummæli.  Langar mig að skoða þau:

1.   Dýrt að lánin verði á upprunalegum vöxtum:  Þegar gengistryggð lán stóðu almenningi til boða, þá voru þau á góðum vöxtum.  Þessir vextir eru betri í dag vegna þess að LIBOR-vextir hafa verið mjög lágir frá haustdögum 2008.  Þeir eiga eftir að hækka.  Evru-vextir voru dæmigert á bilinu 4,5-5,5%, vextir á pund voru 5,5-6,5% og vextir á dollara frá 4,0-5,0%.  Bætum ofan á þetta 2,5-3,5% vaxtaálagi fyrir íbúðalán og 5-9% fyrir bílalán og þá liggja vextir sem bundnir eru þessum myntum í 6,5-10% fyrir íbúðalán og 9-15,5% fyrir bílalán. Vissulega eru margir með lán í jenum og frönkum og þar lágu vextir lengi í kringum 0,5% fyrir jen og 1,5% fyrir franka.  Þess vegna sóttist fólk eftir þessum lánum og bankarnir buðu upp á þessa vexti meðan verðbólgan fór vel uppfyrir 8%.  Frá janúar 2005 til mars 2008, þ.e. á þeim tíma sem flest gengistryggð lán voru veitt, var verðbólga á bilinu 2,8-8,6% og var mest allan tímann hærri en 4%.  Nú eru LIBOR vextirnir vissulega lægri, en það er tímabundið ástand.  Verðbólgan er á niðurleið, þannig að óverðtryggðir vextir hér á landi munu lækka.  Við erum því að tala um tímabundið ástand þar sem vaxtamunur á innlánsvöxtum og útlánsvöxtum er lítill.  En hafi bankarnir haft efni á því að bjóða þessa vexti haustið 2006 í 8,6% verðbólgu, þá ættu þeir örugglega að hafa efni á því núna í 6-7% verðbólgu.

2.  Þungbært fyrir hagkerfið:  Hvers vegna er það þungbærara fyrir hagkerfið að hagnaður bankanna dregst eitthvað saman, en skatttekjur ríkisins aukast vegna aukinnar neyslu, miðað við að bankarnir sýni góðan hagnað en neysla og skatttekjur dragast saman?  Ég skil ekki svona röksemdarfærslu.  Það hlýtur að vera mjög gott fyrir hagkerfið að fólk hafi meira á milli handanna í staðinn fyrir að peningarnir leiti inn í banka sem (samkvæmt orðum Gylfa sjálfs) koma þeim ekki í umferð.

3.  Það segir enginn Hæstarétti fyrir verkum:  Mikið er gott að ráðherra er búinn að átta sig á því.  Ég get svarið, að mér fannst hann hafa verið að gera það í óteljandi ummælum í gær.

4.  Ósanngjörn lausn fyrir aðra lántakendur og lánveitendur, ef hluti þjóðarinnar fær gjafvexti sem lántakar hefðu aldrei geta fengið nema gert hafi verið ráð fyrir að um væru að ræða erlend lán með erlendum vöxtum: Það er nú svo margt í þessu, að ég ætla að búta þetta niður.

4.a  Ósanngjörn lausn fyrir aðra lántakendur og lánveitendur:  Sanngirni gildir í báðar áttir.  Af hverju er þetta ósanngjarnt núna, en þar það ekki þegar fólk var að kikkna undan byrðunum?  Er það bara ósanngjarnt þegar þeir ríku tapa?  Nei, ósanngirnið felst í vaxtastiginu, gengishruninu, verðbólgunni, verðbótunum og markaðsmisnotkun og fjárglæfraspili fjármálafyrirtækja, stjórnenda þeirra og eigenda í undanfara hrunsins.  Ósanngirnið felst í óbilgirni fjármálafyrirtækja og stjórnvalda að koma til móts við skuldsett heimili og fyrirtæki og verja í staðinn sökudólga hrunsins með kjafti og klóm.  Lántakar hafa ekki verið ósanngjarnir í sínum kröfum og ég held ekki að margir hafi búist við þeim málalyktum sem urðu í Hæstarétti í síðustu viku.  Það er ekki lántökum gengistryggðra lána að kenna, að SP-fjármögnun og Lýsing völdu að vera ekki með varakröfur eða varavarakröfu.  Lántakar gengistryggðra lána hafa ekki verið spurðir um hvernig framtíðarlánakerfi landsins á að vera, hvað þá hvaða vextir eiga að vera í framtíðinni á þeim lánum sem hér um ræðir.  Nei, það eina sem gerst hefur, er að menn kalla "ósanngjarnt, ósanngjarnt".

4.b  hluti þjóðarinnar fær gjafvexti:  Ég hef að nokkru svarað þessu að ofan.  En af hverju eru þetta gjafvextir núna en ekki áður en dómurinn féll.  Vextirnir hafa ekkert breyst svo ég viti.

4.c   lántakar hefðu aldrei geta fengið nema gert hafi verið ráð fyrir að um væru að ræða erlend lán með erlendum vöxtum: Hvað er maðurinn að segja?  Áttu við, Gylfi Magnússon, að bankarnir hafi veitt þessi lán í þeirri vissu að krónan myndi veikjast svo og svo mikið til þess að þeir gætu fengið góðan gengishagnað af þeim?  Takk fyrir.  Þú ert að leggja lántökum upp í hendur mjög góð rök í skaðabótamálum gegn bönkunum.  Hvaða máli skiptir í reynd hvernig fjármögnun lánanna var háttað?  Ég veit ekki betur en að þú, Gylfi Magnússon, haldir fram í svari eftir þig á Vísindavef Háskóla Íslands að í reynd hafi þessi lán verið fjármögnuð með vaxtaskiptasamningum í tengslum við jöklabréfin.  Vissulega mín túlkun á þínum orðum, en þú segir þar eitthvað á þann veg, að bankarnir hafi tekið lán í útlöndum og erlendir aðilar hafi gefið út jöklabréfin.  Síðan tóku erlendu aðilarnir að sér að greiða erlendu lánin, en íslensku bankarnir jöklabréfin.  Þannig kom aldrei ein evra af erlendu lánunum til landsins og fór aldrei ein króna af jöklabréfunum úr landi.  Krónurnar fóru í að veita "erlend lán" og gengistryggð lán á Íslandi.

5.  Ekki hvarflað að neinum að niðurstaðan yrði sú að gengistryggingin féll en vextirnir stæðu:  Æi, Gylfi, láttu ekki svona.  Björn Þorri Viktorsson sendi þér bréf í maí í fyrra, þar sem hann varaði þig við þessu.  Gunnar Tómasson, hagfræðingur sendi þér bréf í september í fyrra og varaði við þessu.  Skoðaðu þessa færslu hennar Láru Hönnu Löngu vitað um lögleysuna og þú sérð að það var búið að vara við þessu.  Þú bara hlustaðir ekki.  Ég skrifaði líka færslu um þessa vangaveltu mína og taldi einsýnt að ekkert kæmi í veg fyrir að LIBOR-vextirnir héldu þó gengistryggingin félli.  Vísaði ég þar til greinarinnar, sem þú kannt greinilega ekki og skoða á eftir.

6.  Í lögunum er beinlínis ákvæði sem kveður á um það að ef samningsákvæði um vexti eða annað endurgjald fyrir lán sé dæmt ólögmætt, þá eigi að miða við vexti Seðlabankans:  Sko, það er lágmark að fara rétt með tilvitnanir í lög. Í 18. gr. laga nr. 38/2001, sem ráðherra er að vísa í segir:

Ef samningur um vexti eða annað endurgjald fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar eða dráttarvexti telst ógildur og hafi endurgjald verið greitt ber kröfuhafa að endurgreiða skuldara þá fjárhæð sem hann hefur þannig ranglega af honum haft.  Við ákvörðun endurgreiðslu skal miða við vexti skv. 4. gr., eftir því sem við getur átt.

Og í 4. gr. segir:

Þegar greiða ber vexti skv. 3. gr., en hundraðshluti þeirra eða vaxtaviðmiðun er að öðru leyti ekki tiltekin, skulu vextir vera á hverjum tíma jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir skv. 10. gr.

Takið sérstaklega eftir feitletruðu orðunum.  18. gr. á við um endurgreiðslu frá kröfuhafa og 4. gr. á bara við þegar vextir eða viðmið þeirra eru ekki tilgreind.

Síðan segir í b og c-lið 36. gr. laga nr. 7/1936:

Komi upp vafi um merkingu samnings sem nefndur er í 1. mgr. 36. gr. a skal túlka samninginn neytandanum í hag.

Þó skal eigi taka tillit til atvika sem síðar komu til, neytanda í óhag.

Það er sama hvernig Gylfi snýr þessu, þá vernda lögin neytandann en ekki lánveitandann.

Ég gæti haldið áfram og tekið ræðu Gylfa á þingi í dag, en ég nenni því ekki.


mbl.is Hagkerfið þolir ekki samningsvexti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig geta kröfurhafar tapað því sem þeir hafa þegar gefið eftir?

Ég get ekki annað en haldið áfram að furða mig á ummælum Gylfa Magnússonar, efnahags- og viðskiptaráðherra.  Það bara hlýtur að vera einhver leynisamningur í gangi við kröfuhafa, ef tap þeirra getur numið hundruð milljarða til viðbótar því sem þeir hafa þegar gefið eftir.

Samkvæmt opinberum upplýsingum Seðlabanka Íslands og októberskýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, þá fór lánasöfn gömlu bankanna til þeirra nýju með miklum afslætti.  Mér telst til að þessi afsláttur hafi verið um 58%.  Samkvæmt þessu er búið að gera ráð fyrir leiðréttingu á gengistryggingunni.  Dómur Hæstaréttar hefur því engin áhrif á eignahlið bankanna, en hann hefur áhrif á tekjuhliðina.  Og það er í gegn um það sem kröfuhafar geta tapað.  Afslátturinn sem gefinn var, var nefnilega hluti af plotti.

Ef lánasöfnin hefðu ekki verið færð yfir með afslætti, þá hefði þurft að skuldsetja bankana upp á mismuninn á eignasafni þeirra og innlánum.  Einnig hefði það kallað á margfalt hærra eiginfjárframlag ríkissjóðs og þar sem skattgreiðenda.  Til að komast framhjá því, þá virðist sem lánasöfnin hafi verið færð niður, en eingöngu í bókum bankanna.  (Ég sem hélt að þetta væri sannvirði lánasafnanna.)  Krafan á lántakana var ekki lækkuð því búa átti til auðvelda tekjulind fyrir bankana svo hægt væri að sýna sem mestan hagnað.  Af hagnaðinum væri síðan greiddur góður arður og þannig fengju kröfuhafar til baka hluta af því sem gefið var eftir.  Nú hefur ráðherra upplýst að gert var ráð fyrir að kröfuhafar áttu að fá hundruð milljarða með þessu.

Ég hef oft bent á að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur farið fram á að bankarnir láti afsláttinn á lánasöfnunum ganga til lántaka.  Nú hefur Hæstiréttur í reynd framkvæmt þennan vilja AGS.  Það er gott.  Ef AGS er með þessa skoðun og tölur Seðlabankans sýna góða stöðu bankanna, hvers vegna er Gylfi þá með þetta upphlaup.  Eina ástæðan sem ég sé, er að gerðir hafi verið leynisamningar við kröfuhafa.


mbl.is Gæti kostað kröfuhafa hundruð milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tveir bankar hafna málflutningi ráðherra og seðlabankastjóra

Það er umhugsunarefni, að nú hafa tveir bankar stigið fram og hafnað alfarið málflutningi Gylfa Magnússonar, efnahags- og viðskiptaráðherra, og Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra.  Hafa bankarnir tekið undir málflutning minn, sem byggður er á opinberum gögnum.

Ég fagna því að bankarnir standa svona vel og skora því á þá að virða dóm Hæstaréttar undanbragðalaust.  Mér finnst eðlilegt að fjármálafyrirtækin beri vafann í þessu máli.  Höfum í huga að lántakarnir eru viðskiptavinir bankanna og þeir tóku þessi lán í þeirri trú að hér á landi væri heilbrigt fjármálakerfi, þar sem fjármálafyrirtæki væru að verja hagsmuni allra viðskiptavina sinna en ekki sumra.

Loks skora ég á Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, og Höskuld H. Ólafsson, bankastjóra Arion banka, að stuðla að sátt við viðskiptavini sína með því að funda með hagsmunaaðilum sem barist hafa fyrir sanngjarnir lausn á skuldavanda heimilanna.  Beiðni sama efnis hefur þegar verið komið á framfæri við Steinþór Pálsson, bankastjóra Landsbankans.


mbl.is Stefnir ekki efnahag bankans í hættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leiðrétting höfuðstóls gengistryggðra lána er þegar inni í bókum bankanna, ekki vextirnir

Í færslu sem ég skrifaði í gærkvöldi (sjá Ertu að segja satt, Gylfi? Gögn Seðlabankans gefa annað í skyn.) skoðaði ég tölur Seðlabankans um útlán bankanna.  Þar kemur fram að í lok 3. ársfjórðungs 2008 voru innlend gengisbundin útlán bankakerfisins til fyrirtækja, eignarhaldsfélaga og einstaklinga um 2.800 milljarðar kr.  Staða þessara útlán í lok árs 2008 var um 1.186 milljarðar, þ.e. hafði lækkað um 58%.  Í lok síðasta árs stóðu lánin í 880 milljörðum í bókum bankanna   Þrátt fyrir það voru þau lán sem voru undir rukkuð að fullu með þeirri gengishækkun sem hafði orðið .  880 milljarðar voru með öðrum orðum rukkaðir sem þeir væru hátt í 3.000 milljarðar (að teknu tilliti til veikingar krónunnar).

Nú falla ekki öll lán af þessum undir dóm Hæstaréttar.  Gerum ráð fyrir að öll lán heimilanna geri það og helmingur lána fyrirtækja og eignarhaldsfélaga.  Það gerir þá rúmlega 490 milljarðar á bókfærðu verði eða um 1.700 milljarðar eins og lánin eru innheimt.  Bókfærða verðið er líklegast eitthvað undir stöðu höfuðstóls án gengisbindingar, þar sem inni í því er gert ráð fyrir afskriftum og mögulegum endurgreiðslum.  Ég verð að viðurkenna að ég fæ ekki séð að það kosti bankana nokkuð að hlíta dómi Hæstaréttar, þegar það kemur að leiðréttingunni. 

Ef frétt Viðskiptablaðsins stenst, þá eru bankarnir að taka sér dómsvald.  Þeir eru að neita að hlíta dómi æðsta dómstóls landsins, eins og þeir séu yfir dóm hans hafnir.  Telji bankarnir að þeir ráði ekki við vaxtastig þeirra lána sem þeir (eða forverar þeirra) buðu upp á, þá er leiðin ekki að taka fram fyrir hendur Hæstaréttar.  Hún er að óska eftir samningum við hagsmunasamtök lántaka hvort sem þau heita Hagsmunasamtök heimilanna, Samtök lánþega, Bændasamtökin, Samtök atvinnulífsins, Alþýðusamband Íslands, Neytendasamtökin eða talsmaður neytenda, svo ég nefni nokkra aðila.  Taki fjármálafyrirtækin einhliða ákvörðun um að hlíta ekki dómi Hæstaréttar, þá eru þau að kalla yfir sig málsóknir og er það virkilega það sem þau vilja eyða tíma sínum og kröftum í á næstu árum.  Ég velti því líka fyrir mér hvort eigandi Landsbankans vilji að bankinn fari í stríð við almenning.  Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi Landsbankans, sagði við Pressuna í gær að bankinn vilji friðmælast og sættast við fólkið.  Ég vona að það sé rétt, þar sem ég hef óskað, fyrir hönd Hagsmunasamtaka heimilanna, eftir fundi með yfirstjórn Landsbankans um þessi mál.

En aftur að kostnaði bankanna.  Í mínum huga er það kristal tært að það mun ekki kosta bankana neitt að leiðrétta lánin í samræmi við dóm Hæstaréttar.  Það er búið að gera ráð fyrir því í bókum bankanna.  Það mun vissulega verða erfitt fyrir bankana að standa undir vaxtakjörum samninganna, en ég segi bara:  "Velkomnir í hópinn."  Þetta er það sem almenningur og fyrirtæki hafa þurft að búa við síðustu rúm tvö ár varðandi gengistryggð lán og síðustu rúm 30 árin vegna verðtryggðra lána.


mbl.is Afnám gengistryggingar kostar 100 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 0
  • Sl. sólarhring: 81
  • Sl. viku: 275
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband