Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2010
21.2.2010 | 02:32
Svindl og svínarí í skuldsettri yfirtöku
Það er með ólíkindum þetta plott nokkurra ósvífinna einstaklinga/eignarhaldsfyrirtækja að kaupa fyrirtæki af sjálfum sér með skuldsettri yfirtöku til þess eins að mjólka nokkra tugi milljarða út úr bankanum sínum. Eins og kemur fram í frétt Markaðarins 11. apríl 2007 og ég hef raunar vakið nokkrum sinnum athygli á, þá tókst þessum mönnum að greiða sér út sex falda þá upphæð í arð sem fór í að kaupa fyrirtækið Iceland. Nú birtir Morgunblaðið þá frétt að plottið var ennþá dýpra eða eigum við að segja ósvífnara. Jón Ásgeir og félagar stofnuðu fyrirtækið Iceland Food Stores Limited til að kaupa hlutabréf Iceland verslunarkeðjunnar af fyrirtækinu Icebox Holding, sem var í eigu sömu aðila, fyrir litlar 560 milljónir punda. Þá jafngilti það þetta um 73 milljörðum kr. miðað við núverandi gengi er talan rúmlega 110 milljarðar.
Plottið í þessum viðskiptum var að ná í 280 milljónir punda og greiða til eigendanna. Upphæðin var fengin frá Landsbanka Íslands. Hinn helmingur kaupverðsins var fenginn með því að skuldsetja Iceland verslanirnar (samkvæmt frétt Morgunblaðsins) um 280 milljónir punda. Ég skil vel að fólk hafi verið glaðbeitt á myndinni úr boðsferð Landsbankans sem farið hefur um netið undanfarna daga. Síðan er það náttúrulega alveg ótrúleg tilviljun eða hitt þó heldur, að maðurinn sem veitti lánið og tók þátt í gleðskapnum með þeim sem fengu lánið, skyldi hafa verið ráðinn bankastjóri bankans sem lántakendur áttu. Í siðmenntuðu þjóðfélagi væri þetta talið augljóst merki um mútur. En við erum ekki siðmenntað þjóðfélag. Þessir menn gerðu Ísland að bananalýðveldi af verstu sort.
Ég verð að viðurkenna, að ég er orðinn ákaflega þreyttur á þessum svikamyllusögum. Ég er orðinn ennþá þreyttari á öllum þeim sem hafa komið fram og réttlætt ruglið. Það er út í hött að fá lán til að greiða út arð. Það er út í hött að kaupa skuldlaust fyrirtæki af sjálfum sér og skuldsetja það fyrir raunvirði þess. Það er út í hött að tvöfalda verð á fyrirtæki á nokkrum mánuðum til þess eins að ná í viðbótar aur. Alveg sama hvar er komið niður, alls staðar blasir bullið við. Og síðan á að leyfa þessum sömu aðilum að eignast gömlu svikamyllufyrirtækin sín eftir skuldahreinsun. Það þarf mikla viðskiptaheimsku til að búa yfir svona hroka og græðgi. Átta menn sig ekki á því að þeir glötuðu mannorði sínu og það verður ekki svo auðveldlega unnið aftur.
Eftir því sem fleiri svona mál koma upp á yfirborðið missir maður trúna á þetta samfélag. Stundum held ég að ekki sé upp á það púkkandi. Hvers vegna er maður að búa í samfélagi, þar sem fáeinir einstaklingar telja það sjálfsagt að láta fyrirtæki taka himin há lán, bara svo þeir geti fengið greiddan út fáránlegan arð? Eða lögmenn og endurskoðendur virða að vettugi starfseiða sína um að virða lögin vegna þess að þeir fá með því aðeins meiri tekjur? Staðreyndin er sú, að Jón Ásgeir og co hefðu aldrei getað gert það sem þeir gerðu, ef ekki hefði verið fyrir lögmenn og endurskoðendur sem voru tilbúnir að finna leiðir framhjá lögunum, brjóta þau, litu á ólöglegt athæfi með blinda auganu eða sýndu vítavert gáleysi og vanhæfi í starfi. Það hafa alveg nógu margir haft samband við mig með upplýsingar um ýmis "bolabrögð" þessara stétta til þess að ég viti alveg hvað ég er að segja. Sem betur fer tók tiltölulega fámennur hópur þátt í mesta sukkinu, en einn er einum of mikið. Skora ég á þessa aðila að sýna sóma sinn í því að stíga fram og greina satt og rétt frá því sem þeir tóku þátt í. Við samborgarar ykkar eigum það inni hjá ykkur.
Iceland-arðurinn 2007 fjármagnaður af Landsbanka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (36)
20.2.2010 | 16:41
Svælum út illa fengið fé með gjaldmiðilsskiptum
Mig langar að varpa fram hugmynd sem ég hef heyrt oftar en einu sinni. Hún er að skipta um gjaldmiðil, þ.e. úr krónum í nýjar krónur eða hvað við viljum kalla nýja gjaldmiðilinn. Tilgangurinn væri fyrst og frest til að svæla út fé sem skotið var undan af íslenskum fjárglæframönnum, sem kölluðu sjálfa sig "business" menn.
Ég hef heyrt því fleygt að hér á landi séu stórir hópar fjárfesta sem eiga skít nóg af peningum. Ekki sé allt þetta fé eins vel fengið, þ.e. menn hafa látið peningana renna í gegn um alls konar aflandsfyrirtæki til að komast hjá því að gefa þessa peninga upp til skatts. Með því að skipta um gjaldmiðil yrðu menn að gefa peningana upp eða tapa þeim ella. Gætum að því, að verið er að tala um hundruð ef ekki þúsundir milljarða. Skattur af þessu fé gæti dugað til að greiða upp allan hrunkostnað ríkisins, bæta almenningi tap sitt og endurbyggja velferðarkerfið.
Til að tryggja að bankarnir hafi ekki milligöngu um að hylma yfir með gömlu viðskiptafélögum sínum, þá yrðu skipti á öllum upphæðum umfram 50 milljónir að eiga sér stað í gegn um Seðlabankann og þeim fylgja ítarleg greinargerð um uppruna peninganna. Gefinn yrði stuttur gluggi upp á 1 ár til að skipta frá gömlum gjaldmiðli til hins nýja. Eftir það væri núverandi mynt ekki gjaldgeng í viðskiptum og eina leiðin til að skipta henni yfir í nýjan gjaldmiðil væri eftir ítarlega skoðun á uppruna peninganna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
18.2.2010 | 16:00
Óskiljanlegur málflutningur ráðherra
Ég á stundum í mestu erfiðleikum með að skilja Gylfa Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra. Hér kemur enn eitt atriðið sem ég skil ekki í málflutningi hans. Hann heldur því fram í ræðustóli á Alþingi að
staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur frá 12. febrúar sl. í gengistryggingamáli gætu lántakendur verið í verri stöðu en annars
og rökstuðningur hans er:
Þá blasir við og það er tiltekið í lögum um vexti og verðtryggingu, að miða beri við vexti sem birtir eru af Seðlabankanum og eru hagstæðustu útlánsvextir á hverjum tíma.
Skoðum nú betur hvar þetta stendur í lögunum. Þetta er í 4. gr. laganna, en hún hljóða svona í heild:
Þegar greiða ber vexti skv. 3. gr., en hundraðshluti þeirra eða vaxtaviðmiðun er að öðru leyti ekki tiltekin, skulu vextir vera á hverjum tíma jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir skv. 10. gr. Í þeim tilvikum sem um verðtryggða kröfu er að ræða skulu vextir vera jafnháir vöxtum sem Seðlabankinn ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum verðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir skv. 10. gr. (leturbreyting MGN)
Þetta ákvæði, sem Gylfi vitnar í, á eingöngu við þegar vextir hafa ekki verið tilgreindir í lánasamningnum. Málið er að í öllum samningunum er "hundraðshlutfall þeirra eða vaxtaviðmiðun" tiltekið. Greinin sem Gylfa vitnar til á því ekki við. Auk þess segir í 2. gr.
Loks segir í 18. gr. laganna:
Ef samningur um vexti eða annað endurgjald fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar eða dráttarvexti telst ógildur og hafi endurgjald verið greitt ber kröfuhafa að endurgreiða skuldara þá fjárhæð sem hann hefur þannig ranglega af honum haft. Við ákvörðun endurgreiðslu skal miða við vexti skv. 4. gr., eftir því sem við getur átt.
Þegar þetta er allt lagt saman, þá getur lántaki ekki lent í verri stöðu. Eða það þarf alveg einstaklega einarðan vilja Hæstaréttar til að túlka allan vafa í lögunum fjármálafyrirtækjunum í hag, til að slíkt gæti gerst. Hef ég enga trú á því miðað við þau dómafordæmi sem Eyvindur G. Gunnarsson benti á í síðasta Silfri Egils.
Gætu lent í verri stöðu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
18.2.2010 | 14:37
Lán í erlendri mynt voru almennt ekki veitt
Enn og einu sinni fer Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, í orðaleik til að komast hjá því að taka upp hanskann fyrir lántaka í landinu. Hann á að vita betur en svo að tala um gengistryggð lán sem lán í erlendri mynt. Hann á líka vita betur en svo að halda, að erlendur gjaldeyrir hafi skipt um hendur í slíkum gjörningum. Það gerðist ekki. Af hverju getur Gyldi ekki bara sagt sem er, að fjármálafyrirtæki hafi með gjörningum sínum reynt að fara á svig við lög. Þetta snýst ekki um óvandaða skjalagerð. Þetta snýst um að menn voru að leika sér á gráu svæði, að menn höfðu ekki betri skilning á lögunum en raun ber vitni og/eða að menn vissu nákvæmlega hvað þeir voru að gera en vegna þess að enginn kærði þá og að eftirlitsaðilar klikkuðu á vaktinni þá gengu þeir sífellt lengra og lengra.
Það skal þó virða við Gylfa að hann er nota ekki hugtakið erlent lán, í staðinn segir hann "lán í erlendri mynt". Þar er hann að finna smugu til að skjóta sér inn í og forðast að segja að lánin hafi verið gengistryggð (þó það standi í flestum lánasamningunum) og í tilfelli "erlends láns" þarf útgefandinn að vera með heimilisfestu utan landsteinanna, þ.e. gefið út í erlendri starfstöð erlends lögaðila. (Sjá nánar færsluna: Íslenskt lán, myntkörfulán, gengistryggt lán eða erlent lán - hver er munurinn?).
Ég get ekki annað en fagnað þeirri umræðu sem varð á Alþingi í dag, en það vekur samt athygli hvað Samfylkingin forðast enn og aftur að taka afstöðu með fólkinu í landinu. Það er nokkuð ljóst að hún telur sig ekki þurfa að sækja nýtt umboð til þjóðarinnar alveg á næstunni.
Óvönduð skjalagerð veldur réttaróvissu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Ég var að hlusta á Eygló Harðardóttur og Árna Þór Sigurðsson í þættinum Í bítið á Bylgjunni. Undir lok þáttarins fengu bæði mjög einfalda spurningu: Hvað er það jákvæða sem ríkisstjórnin hefur gert fyrir heimilin?
Svar Eyglóar var í grófum dráttum: Ekkert. Úrræði ríkisstjórnarinnar fyrir heimilin byggjast á frestunum. Ekkert jákvætt og varanlegt úrræði hefur komið fram. (Hana setti raunar hljóða.)
Svar Árna: Látið ekki svona. Allar ríkisstjórnir gera eitthvað gott. T.d. greiðsluaðlögunin.
Þetta er tæmandi upptalning á því sem þessir tveir þingmenn töldu hafa verið gert jákvætt fyrir heimilin í landinu. Annar er stjórnarþingmaður og hinn stjórnarandstöðuþingmaður. Þeim kom samanlagt í hug EITT atriði. ALLT annað sem ríkisstjórnin hefur gert fyrir heimilin væru frestanir á vandanum.
Árni benti síðan til viðbótar, að það hafi þurft að endurreisa heilt bankakerfi og að maður tali nú ekki um gjaldþrot Seðlabankans upp á "tæpa 400 milljarða", eins og hann sagði.
Nú ætla ég ekki að bæta einu eða neinu við, en bið fólk að hugleiða, að ef stjórnarþingmaðurinn Árni Þór Sigurðsson getur aðeins nefnt EITT atriði, ætli þau séu mikið fleiri jákvæðu og varanlegu úrræðin sem komið hafa frá ríkisstjórninni í þágu heimilanna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
Það er nú kannski að æra óstöðugan að koma með enn eina færsluna um þessa deilu um gengistryggðu lánin, en ég má til. Í umræðu undanfarna daga, þá hefur mörgum reynst hált á svellinu þegar kemur að því að ákveða hvað þessir fjármálagjörningar kallast. Hagmunasamtökum heimilanna tóku þá afstöðu snemma á síðasta ári að nota alltaf hugtakið "gengistryggt lán" og sérstaklega eftir að farið var að vekja athygli á vafanum um lögmæti lánanna. Ástæðan fyrir þessari ákvörðun er (og var), að um er að ræða lán milli tveggja innlendra aðila sem sótt er um í íslenskum krónum, greitt út í íslenskum krónum, tekur höfuðstólsbreytingum í íslenskum krónum og greitt er af í íslenskum krónum. Það er bara verðtryggingarákvæðið sem er með tengingu við gengi og í mjög mörgum lánasamningum er hreint og beint tiltekið að lánið sé gengistryggt. Með þessu er jafnframt verið að tengja hugtakanotkun okkar við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur.
Í umræðu síðustu mánaða hafa komið fram alls konar rök fyrir því hvers vegna svo kölluð myntkörfulán geta ekki verið neitt annað en venjuleg íslensk lán með mismunandi verðtryggingu. Langar mig að rifja það upp, eins og ég man það.
- Myntkörfur eru breytilegar og gat hver lántaki valið um þá kröfu sem hann vildi. Myntkörfur gátu þannig innihaldið krónuna, bæði verðtryggða og óverðtryggða, í bland við erlendar myntir.
- Hægt var að breyta hlutföllum mynta innan körfunnar eftir fyrirfram ákveðnum reglum á lánstímanum.
- Gefið var út eitt skuldabréf með mörgum ólíkum myntum, þar með talið krónum, og þetta skuldabréf var í krónum. Oft var meira að segja talað um jafnvirði íslenskra króna.
- Dæmi voru um að myntkörfur væru gefnar út í sjóðseiningum, sbr. SP-5 sjóðurinn hjá SP fjármögnun, sem ekki er hægt að skilja á neinn hátt annan en afleiðu fremur en mynt.
- Myntkörfulánum var þinglýst í íslenskum krónum.
- Á lánsumsókn var óskað eftir upphæði í íslenskum krónum, útborgun var í íslenskum krónum, afborgun var í íslenskum krónum.
Þetta er vafalaust ekki tæmandi listi, en sýnir að það var eingöngu í orði en ekki á borði að einhverjar erlendar myntir væru með í þessu spili. Þessi lán voru mjög einfaldlega íslensk fjárskuldbinding tengd við dagsgengi mismunandi gjaldmiðla og stundum bara að hluta.
Þá er spurningin hvort hér sé um að ræða "erlent lán". Getur neytendalán á Íslandi talist "erlent lán"? Þessu svarar löggjafinn í lögum nr. 87/1992 um gjaldeyrismál. Í 1. gr. laganna er skilgreining á því hvað telst innlendur aðili. Þar segir í 2. tölulið:
sérhvern lögaðila sem skráður er til heimilis hér á landi á lögmæltan hátt, telur heimili sitt hér á landi samkvæmt samþykktum sínum eða ef raunveruleg framkvæmdastjórn hans er hér á landi; hérlend útibú lögaðila, sem heimili eiga erlendis, teljast til innlendra aðila.
Aðrir teljast "erlendir aðilar".
Einnig er skilgreint í lögunum hvað eru innlend verðbréf og erlend verðbréf. Skoðum hverjar þessar skilgreiningar eru:
Innlend verðbréf merkja hvers konar framseljanleg kröfuréttindi sem innlendur aðili gefur út, svo sem hlutabréf, arðmiða, skuldabréf, vaxtamiða, hlutdeildarskírteini í verðbréfasjóði, svo og framseljanleg skilríki fyrir eignarréttindum að öðrum eignum en fasteignum eða einstökum lausafjármunum.
Erlend verðbréf merkja hvers konar framseljanleg kröfuréttindi sem erlendur aðili gefur út, svo sem hlutabréf, arðmiða, skuldabréf, vaxtamiða, hlutdeildarskírteini í verðbréfasjóði, svo og framseljanleg skilríki fyrir eignarréttindum að öðrum eignum en fasteignum eða einstökum lausafjármunum.
Það stendur því skýrum stöfum í lögunum, að verðbréf sé innlent ef útgefandinn er innlendur. Erlent lán getur því aldrei verið gefið út af innlendum aðila. Á þessu er raunar klykkt í athugasemd með frumvarpinu að lögunum, en þar segir (eins og ítrekað hefur komið fram) um 1. gr.:
Rétt er að vekja athygli á því að það fer eftir búsetu útgefanda hvort verðbréf eru flokkuð sem innlend eða erlend en ekki myntinni sem verðbréfið er gefið út í. Þannig er verðbréf ávallt innlent ef aðili búsettur hér á landi gefur það út og gildir þá einu hvort það er gefið út hér á landi, erlendis, í íslenskum krónum eða erlendri mynt. Þessar skilgreiningar eru í samræmi við skilgreiningar OECD. Bent skal á að í daglegu tali hér á landi eru verðbréf hins vegar iðulega flokkuð eftir myntinni eða útgáfustaðnum.
Svipað gildir um erlend lán. Í samræmi við notkun hugtaka í þessu frumvarpi er um að ræða erlent lán þegar innlendur aðili fær lán hjá erlendum aðila. Mynt lánsins ræður hér engu um. Í þeim tilvikum, þegar innlendur aðili tekur lán hjá erlendum aðila og endurlánar lánsféð öðrum innlendum aðila, telst fyrra lánið erlent lán en hið síðara innlent.
Íslensk fjármálafyrirtæki geta því ekki gefið út erlend lán. Þau geta gefið út lán í erlendri mynt, en lánið er íslenskt. Á þetta bendir Gunnlaugur Kristinsson, löggiltur endurskoðandi, í grein á Eyjunni fyrir áramót og vil ég enn og einu sinni vitna í þá grein hér, þar sem hann ályktar um eðli lánanna út frá sínum lagaskilningi:
Nánast undantekningalaust hefur veiting lána í erlendri mynt eða lána með gengistryggingu, til almennings og fyrirtækja á Íslandi, verið veitt til viðskipta þar sem undirliggjandi verðmæti eru í íslenskum krónum og greiðsla til lántaka verið í íslenskum krónum þrátt fyrir hin gengistryggðu ákvæði eða hreinlega erlend lánsfjárhæð tilgreind í texta skuldabréfsins... Skuldbinding milli tveggja innlendra aðila er því alltaf í íslenskum krónum, ef útgreiðsla lánsins var í íslenskum krónum og lánveitandinn er innlendur aðili, hvernig sem á málið er litið enda er íslenska krónan eini lögmæti gjaldmiðill landsins.
Niðurstaða mín er svipuð og Gunnlaugs: Lán sem íslensk fjármálafyrirtæki hafa veitt frá gildistöku laga nr. 87/1992 eru íslensk óháð því í hvaða mynt lánin eru veitt. Næsta spurning er því hvort heimilt sé að veita lán í erlendri mynt hér á landi, sé það heimilt hvaða reglur gilda um slíka lánveitingu og hvort rétt sé að takmarka lánveitingarnar við tiltekinn hóp viðskiptamanna og þá fyrst og fremst fyrirtæki. Loks bera að velta fyrir sér hvenær er skuldbinding í lánasamningi í íslenskum krónum, þó erlendur gjaldmiðill sé tiltekinn í lánasamningnum, og hvenær er hann það ekki. Það er nefnilega kjarninn í 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 að með lögunum var heimildin "til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla" felldar niður. Eða eins og segir:
Samkvæmt 13. gr. og 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins verður ekki heimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Er talið rétt að taka af allan vafa þar að lútandi.
Ég tek það fram, að ég hef ekki svar við þessum spurningum, þ.e.:
- Er heimilt að veita lán í erlendri mynt hér á landi?
- Sé það heimilt hvaða reglur gilda um slíka lánveitingu?
- Er rétt að takmarka slíkar lánveitingarnar við tiltekinn hóp viðskiptamanna og þá fyrst og fremst fyrirtæki?
- Hvenær er skuldbinding í lánasamningi í íslenskum krónum, þó erlendur gjaldmiðill sé tiltekinn í lánasamningnum, og hvenær er hann það ekki?
en brýnt er að svör við þeim fáist. Ég tók nefnilega eftir því, þegar lögmaður var beðinn um það af Speglinum á RÚV um daginn að gefa hlutlausa lýsingu á afleiðingum bíladómsins, þá átti hann í mestu vandræðum með að vera hlutlaus og kom upp með alls konar varnir fyrir fjármálafyrirtækin. Það væri því vel þegið, ef einhver nægilega kunnugur lögum gæti komið með innlegg í þessa umræðu.
Þegar Hæstiréttur tekur fyrir áfrýjanirnar tvær í bílalánamálunum, þá verður það helsta viðfangsefni dómaranna að ákveða hvort viðkomandi lánasamningar hafi verið skuldbinding í íslenskum krónum eða ekki og hver er munurinn á skuldbindingu í íslenskum krónum og erlendum gjaldmiðli. T.d. lántaki sem sækir um upphæð í íslenskum krónum, eins og ég býst við að flestir gera. Hefur það áhrif á skilgreininguna að sótt var um í íslenskum krónum eða skiptir það engu máli. Höfum í huga, að viðkomandi hefur engin áhrif á orðalag skuldabréfsins og í flestum tilfellum sér viðkomandi aldrei neitt annað en íslenskar krónur. Lánveitandinn sér líklegast heldur ekkert annað en íslenskar krónur, þó einhver bókhaldsfærsla sýni debet og kredit færslu í erlendri mynt. Það gæti meira að segja skipt sköpum fyrir lántaka hvort mynt tengingin er í einni mynt eða tveimur eða hvort að hluta til sé tengt við íslenskar krónur. í augum lántakans er um sama gjörning að ræða, sem aftur lögin geta verið að túlka á marga mismunandi vegu. Er þá hægt að ætlast til þess, að lántaki, sem er leikmaður þegar kemur að lögunum, eigi að hafa fullan skilning á mismuninum. Auk þess má reikna með því, að lánveitandinn hafi notað sama skuldabréfaformið hvort heldur um var að ræða eina mynt, erlenda myntkörfu eða lán að hluta í íslenskum krónum.
En svo ég svari spurningunni í fyrirsögn greinarinnar, þ.e. hver er munurinn á íslensku láni, myntkörfuláni, gengistryggðu láni og erlendu láni, þá held ég að taka megi það saman í eftirfarandi:
- Íslenskt lán er lán þar sem útgefandi lánsins er með heimilisfestu á Íslandi óháð í hvaða mynt lánið er
- Erlent lán er lán þar sem útgefandinn lánsins er ekki með heimilisfestu á Íslandi óháð mynt lánsins
- Myntkörfulán er lán sem er bundið var myntum í tilbúinni körfu af myntum og breytist höfuðstóll þess með dagsgengi þeirra gjaldmiðla sem eru í körfunni. Þetta lán telst samkvæmt niðurstöðu héraðsdóms vera gengistryggt lán (sjá nánar næsta lið).
- Gengistryggt lán er skuldbinding í íslenskum krónum sem tengt er dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Héraðsdómur úrskurðaði að gengistrygging væri eitt form verðtryggingar og væri þetta form í andstöðu við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 og felldi hana því úr gildi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.2.2010 | 22:06
Hrunið - hlutar 4 og 5: Basel II og matsfyrirtæki
- Basel II regluverkið um eiginfjárhlutfall og áhættustýringu fjármálafyrirtækja, röng innleiðing þess og framkvæmd bæði hér á landi og erlendis
- Alvarlegar brotalamir í starfsemi matsfyrirtækjanna.
Basel II
Ég veit ekki hve margir átta sig á því, að stór hluti regluverks fjármálafyrirtækja á rætur sínar að rekja til Alþjóðagreiðslubankans (Bank of International Settlements, BIS) í Basel í Sviss. BIS er oft kallaður seðlabanki seðlabankanna, þar sem seðlabankar eiga einir aðild að bankanum og BIS er seðlabönkum innan handar um ýmislegt. Núverandi seðlabankastjóri var einmitt sóttur til BIS.
Ein öflugasta nefndin hjá BIS er svo kölluð Basel nefnd (Basel Committee). Hennar hlutverk er að setja ramma og reglur um fjármálaeftirlit. Eitt af grundvallar skjölum, sem nefndin hefur gefið út, er með reglur um eiginfjárhlutfall og áhættustýringu fjármálafyrirtækja. Í núverandi útgáfu er skjalið kallað New Capital Accord eða Basel New Capital Accord, en oftast vísað til þess sem Basel II.
Það er mín skoðun, eftir að hafa bæði kynnt mér og líka notað Basel II í minni ráðgjöf, að Basel II reglurnar, sem áttu að vera gríðarleg framför við stjórnun eiginfjárhlutfalls og áhættu, séu ein helsta ástæðan fyrir því að fjármálakerfi heimsins blés út og síðan hrundi. Fólk má þó ekki misskilja mig, að ég telji Basel II af hinu illa, en staðreyndin er sú, að regluverkið eins og það er sett upp er þensluhvetjandi. Það þrífst á því að bólur myndist og að þær verði sem stærstar. En Basel II fékk góðan stuðning frá matsfyrirtækjunum og má segja að samverkan þessara þátta ásamt gjörsamlega misheppnaðri áhættustýringu leiðandi fjármálafyrirtækja í hinum vestræna heimi hafi að lokum nærri gert út af við fjármálakerfi heimsins.
Það er víst kominn tími á að ég skýri hvað ég á við. Í fyrri Basel reglum sem eru frá áttunda eða níunda áratug síðustu aldar voru frekar stífar reglur um hvernig reikna átti eiginfjárhlutfall út frá áhættu af útlánum og eignasöfnum. Hin margfræga krafa um 8% eiginfjárhlutfall er grunnurinn, en frá þessum 8% voru undantekningar. Í grófum dráttur, þá er engin áhætta talin vera af því að lána ríki, sveitarfélögum og ríkisfyrirtækjum ef þau höfðu ríkisábyrgð. Slík útlán vógu ekkert í útreikning á eiginfjárhlutfalli. Væru lán á fyrsta veðrétti á íbúðarhúsnæði og í öðrum traustum eignum, þá fékkst 50% afsláttur af eiginfjárkröfunni, en annars þurfti að eiga 8 kr. í eigið fé, ef 100 kr. voru lánaðar út. Galdurinn til að fá þetta kerfi til að virka var að lán urðu að vera á fyrsta veðrétti.
Bankamenn fundu fyrir því að þetta trausta kerfi, það hamlaði vöxt banka. Það var sama hvað andvirði eigna jókst mikið, að ákvæðið um fyrsta veðrétt var það sem hélt aftur af útlánaaukningu nema meira eigið fé kæmi til. En fjárfestar vildu það ekki. Þeir vildu fá arðinn sinn út svo þeir gætu leikið sér með peningana annars staðar. Hvað var til bragðs að taka? Jú, aflétta takmörkunum um fyrsta veðrétt og fara að meta lánshæfi fyrirtækja, þannig að hægt væri að lána traustum fyrirtækjum meira. Sama var gert varðandi verðbréfahliðina, þ.e. að meta verðbréf og láta "traust" verðbréf hafa minni áhrif á eiginfjárkröfuna. Úr varð flókið kerfi um eiginfjárhlutfall og áhættustjórnun. The New Basel Capital Accord fæddist eða Basel II. Reglurnar voru gefnar út 2001, en það var misjafnt eftir löndum hvenær þær tóku gildi. Hér á landi tóku þær gildi 2003 og er hægt að rekja húsnæðisbóluna og hlutabréfabóluna beint til innleiðingar reglnanna.
Grundavallarmunurinn á Basel I og II felst í tvennu. Í Basel I voru traust lán bara á fyrsta veðrétti. Í Basel II voru þau lán traust sem voru á fyrstu 80% veðrýmis, þ.e. áhættustuðull þeirra var 0,5 í staðinn fyrir að vera 1 áður. Í Basel I voru öll verðbréf og öll fyrirtæki jafnt metin, en í Basel II er tekið upp lánshæfismat. Það hafði vissulega tíðkast að einhverju leiti, en ekki eins víðtækt og nú varð. Það sem meira var, að því betra sem matið var, þess minni kröfu gerði fjármálagjörningur byggður á matinu til eiginfjárhlutfallsins.
Ég veit ekki hvort nefndarmenn í Basel nefndinni áttuðu sig á því hvaða ormi þeir voru að hleypa út, en það átti fljótlega eftir að koma í ljós. Í fyrsta lagi gerðist það, að útlánageta fjármálafyrirtækja nærri því tvöfaldaðist við innleiðingu reglnanna. Lán sem áður höfðu vegið krónu fyrir krónu inn í útreikning á eiginfjárhlutfalli, vógu allt í einu helmingi minna. Krafa til fjármálafyrirtækja um 8% eiginfjárhlutfall lækkaði í reynd niður í 4%, þó svo ég efist um að það hafi verið reyndin. Hvatning til veðsetningar varð mjög mikil og það sem meira var, að þrýstingur á verð jókst líka. Áður var það fyrsti veðréttur sem skipti öllu, en nú töldust lán traust meðan þau voru innan 80% af verðmæti veðsettrar eignar. Hvað gerðist þegar því marki var náð? Þá var um að gera að hækka verðmæti eignarinnar svo hægt væri að veðsetja hana meira. Þetta átti jafnt við um fasteignir sem verðbréf og voru hlutabréf skýrasta dæmið um þetta. Íslenska "efnahagsundrið" byggði mjög mikið á þessu.
Nú þegar fjármálafyrirtæki voru búinn að fullnýta þetta nýfengna frelsi var áhættustuðullinn lækkaður aftur og nú í 0,35. Lækkun úr 0,5 í 0,35 jók útlánagetu um rúm 42%. Hér á landi kom þessi breyting til framkvæmdar 2. mars 2007, daginn eftir að matarskatturinn var lækkaður! Hvað gerðist hér á landi í framhaldi af því? Jú, það kom nýr verðbólgukúfur, húsnæðisverð hækkaði og krónan styrktist. Í mínum huga er þetta skýrasta sönnunin fyrir því að Basel II er þensluvaldandi og bóluhvetjandi.
Þáttur matsfyrirtækjanna
Matsfyrirtækin eru bæði fórnarlömb og gerendur. Við innleiðingu Bsel II þurfti að meta pappíra, fyrirtæki og opinbera aðila. Eitthvað hafði verið gert af þessu áður, en ekki í því mæli sem nú var. Það var nefnilega eitt aðalatriðið í Basel II, að pappírar, fyrirtæki eða opinberir aðilar sem ekki voru með mat fá sjálfkrafa lakari áhættustuðul og að lágmarki stuðulinn 1,0. Það var því lífsnauðsynlsgt upp á útlánagetu fjármálafyrirtækja, að fyrirtæki fengju betri kjör ef pappírar voru með gott mat og það sama á við umopinbera aðila. Allt í einu heltust yfir matsfyrirtækin þúsundir, hundruð þúsunda, ef ekki milljónir beiðna um að meta hin og þessi atriði. Þetta varð að gerast einn, tveir og þrír og það réðu matsfyrirtækin ekki við. Þau höfðu ekki mannskap, hvað þá nægilega marga með rétta þekkingu, menntun eða reynslu. Þetta gat ekki endað nema með ósköpum og það var niðurstaðan.
Í skýrslu bandaríska verðbréfa eftirlitsins (Securities Exchange Commission, SEC) frá sumrinu 2008 kemur fram að víða var pottur brotinn hjá matsfyrirtækjunum (sjá færslu mína: Matsfyrirtækin fá ákúru frá SEC og ESB). Við heimsókn SEC til matsfyrirtækjanna kom í ljós að verklagsreglur höfðu verið margbrotnar. Aðskilnaður ábyrgðahlutverka var ekki virtur sem varð til þess að sami aðili sá um samningagerð um verð á þjónustu og um að meta það sem samningurinn snerist um. Moody's varð uppvíst að alvarlegri forritunarvillu (sjá Ætli þetta sé það eina sem Moody's hefur að óttast?), sem hafði veruleg áhrif á mat einstakra pappíra. Ástæðan fyrir þessu var að viðskiptavinunum lá á og matsfyrirtækin voru ekki vanda sínum vaxinn. En þetta var ekki það versta.
Versta atriðið í þátttöku matsfyrirtækjanna var þegar þau fóru að skipta sér að samsetningu fjármálavafninga, rekstri fyrirtækja og veita ráðgjöf um eignasölu. Nú voru þessi fyrirtæki farin að leiðbeina viðskiptavinum sínum um það hvernig hægt væri að hafa áhrif á mat til hækkunar! Þetta er náttúrulega gróft brot á hlutleysiskröfunni sem gerð er til matsfyrirtækjanna. Hvernig á þriðji aðili að geta treyst mati matsfyrirtækjanna, þegar þau eru farin að veita ráðgjöf líka? Ég verð bara að segja, að ég skil ekki af hverju matsfyrirtækjunum hefur ekki verið stefnt fyrir það tjón sem mat þeirra olli. Hin hliðin var að þröngva opinbera aðila til að einkavæða arðsöm fyrirtæki af einhverjum óskiljanlegum ástæðum, eins og Micheal Hudson sagði í Silfri Egils í byrjun árs.
Það er ekki hlutverk matsfyrirtækja að gera neitt annað en að koma með vel rökstutt mat á þeim atriðum sem þau hafa tekið að sér að meta. Hvort það er lánshæfi ríkja eða fyrirtækja, áhætta fólgin í fjármálavafningum eða hvað það er annað sem um ræðir? Matið á að vera gegnsætt og byggt á fyrirfram gefnum mælikvarða, sem hefur sannað gildi sitt á löngum tíma. Það er ekki hlutverk fyrirtækjanna, að veita ráðgjöf. Um leið og þau gera það, þá gera þau sig vanhæf. Svo einfalt er það. Á ensku er til lykil hugtak sem er "segregation of duties" og hefur verið þýtt á íslensku "aðskilnaður ábyrgðarhlutverka". Matsfyrirtækin virðast, samkvæmt skýrslu SEC, ekki skilja þetta hugtak.
Þetta tvennt saman
Ef við skoðum virkni Basel II og matsfyrirtækjanna saman, þá er ljóst að auðvelt er fyrir fjármálafyrirtæki að misnota sér matsfyrirtækin til að auka áhættusækni en samt uppfylla Basel II reglurnar. Það var niðurstaða SEC að slíkt hafi átt sér stað, m.a. með ráðgjöf matsfyrirtækjanna til fjármálafyrirtækja um það hvernig hægt væri að búa til vafninga úr ótraustum skuldabréfum sem fengu mat langt umfram áhættuna sem fólst í skuldabréfunum. Matsfyrirtækin leiðbeindu fjármálafyrirtækjunum sem sagt um það hvernig þau gætu snúið á matið!
Þetta skiptir máli gagnvart Basel II, þar sem skuldabréf, sem skoruðu ein og sér varla hærra en A eða þess vegna BBB+, urðu allt í einu AAA vöndlar. Þar með urðu þau að góðri söluvöru. Kaupendur voru yfirleitt önnur fjármálafyrirtæki sem þannig eignuðust góðar eignir oft í skiptiviðskiptum. Þ.e. banki A átti AAA metna fjármálavafninga og banki B átti sambærilega vafninga, þó í báðum tilfellum að undirliggjandi skuldabréf (sem veðin voru í) væru með mun lakara mat. Með því að eiga gagnkvæm viðskipti, þá hækkaði matið á eignasafni bankanna og þar með eiginfjárgrunnurinn. Hærri eiginfjárgrunnur þýddi meiri útlánageta. Önnur leið var að endurskipuleggja fjárhag helstu skuldunauta, oft með sjónhverfingum, til að hækka lánshæfismat þeirra. Hærra lánshæfismat styrkti eiginfjárgrunninn og þar með jókst útlánagetan.
Nú kemur að raunverulegri áhættustýringu fjármálafyrirtækjanna. Með eignabólan hélst gangandi og verð hækkaði stöðugt, þá virtust eiginfjárgrunnur fjármálafyrirtækjanna vera góður, en svo var ekki. Hækkun eiginfjárgrunnsins var á fölskum forsendum náð fram með fjármálaleikfimi. Dæmi var um að rökin með áhættumati og matseinkunn með fjármálavafningi hafi verið um 400 blaðsíður, þar sem stærðfræðiformúlur þöktu drjúgan hluta síðnanna. Fjármálaverkfræðingar og doktorar í fjármálastærðfræði voru allt í einu orðnir mikilvægustu starfsmenn fjármálafyrirtækja og matsfyrirtækja. Í skýrslu SEC kemur fram, að mönnum þótti þetta ótrúverðugt. Það kom líka á daginn, að einfaldleikinn er oft næst sannleikanum. Eiginfjárgrunnur mjög margra fjármálafyrirtækja var byggður á sandi sjónhverfinga.
Auðvitað er það mannlegi þátturinn sem brást. Græðgi stjórnenda fjármálafyrirtækja og matsfyrirtækja varð fjármálakerfi heimsins að falli. Fjármálafyrirtækin nýttu sér veikleika Basel II reglnanna til hins ítrasta. Í þeim var nefnilega gert ráð fyrir, í einhverri furðulegri einfeldni, að menn spiluðu ekki á 80% veðsetningarregluna. Það var ekki hægt, þegar eingöngu fyrsti veðréttur var í lægri áhættuflokki. Það er bara eitt lán sem kemst á fyrsta veðrétt, en hægt er að bæta endalaust á meðan þakið er miðað við 80%. Verðmatið er bara hækkað og þá er hægt að skuldsetja meira. Ég segi því, eins og ég hef sagt áður: Blame it on Basel.
Í athugasemd við færslu 6. október 2008 segi ég:
Það eru einmitt kröfur í Basel II regluverkinu sem gerðu það að verkum að lánalínur bankanna voru innkallaðar. Ekki er ég að setja út á það, en það voru þessar sömu kröfur sem gerðu það að verkum að matsfyrirtækin fóru í þann sérkennilega gjörning að snúa handónýtum BBB undirmálslánum í AAA gæðapappíra þar sem Basel reglurnar komu í veg fyrir að stóru bankarnir gætu keypt BBB undirmálslánin í sama mæli og AAA pappíra. Að stórir bankar í Bandaríkjunum hafi fengið bandarísku matsfyrirtækin til að hjálpa sér að snúa á Basel reglurnar er númer eitt, tvö og þrjú ástæðan fyrir því að allt er í steik í fjármálaheiminum í dag.
Þetta er kannski vel í orð lagt, en það er staðreynd að menn gerðu eitt og annað til að leika á reglurnar og matsfyrirtækin virðast hafa verið ákaflega viljug til að taka þátt í því. SEC dróg í sinni skýrslu fram fjölmörg atriði, þar sem ekkert fer á milli mála að maðkur var í mysunni. Má þar t.d. nefna tölvupóst frá 15. des. 2006 milli greinenda í sama fyrirtæki þar sem þeir eru að tala um CDO (collateralized debt obligations):
Let's hope we are all wealthy and retired by the time this house of cards falters.
Pælingar starfsmanns í tölvupósti frá 2004 um hvort viðskiptavinur fari annað ef greiningin sé óhagstæð:
I am trying to ascertain whether we can determine at this point if we will suffer any loss of business because of our decision and if so how much.
Ég fæ ekki betur séð en þetta þætti glæpsamlegt athæfi, ef þetta ætti sér stað innan verðbréfafyrirtækis. Niðurstaða SEC af úttekt sinni var líka að skikka matsfyrirtækin undir eftirlit sitt og leggja til að þau verði undir eftirliti fjármálaeftirlita í hverju landi fyrir sig.
Ég gæti svo sem haldið áfram með þessa færslu, en læt hér staðar numið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
16.2.2010 | 09:47
Af hverju tók fólk gengistryggð lán?
Í tæp níu ár hefur verið ólöglegt að gengistryggja lánasamninga. Þrátt fyrir það hafa fjármálafyrirtæki boðið slíka samninga. Ég er með í skjölum hjá mér afrit af slíkum samningi um bílakaup frá árinu 2001. Ég gerði ekki þann samning, heldur keypti bílinn af þeim sem gerði samninginn og byrjaði á því að gera samninginn upp. En hvers vegna voru þessi lán í boði og hvers vegna létu lántakar fallast í þá freistni að taka slík lán?
Svarið við þessari spurningu er einfalt: Einstaklingar og fyrirtæki sérstaklega voru hætt að hafa efni á hinu hefðbundna íslenska lánakerfi. Innan þess voru tveir slæmir kostir. Annar var 5 - 9% verðtryggð lán. Hinn óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum sem voru almennt á bilinu 9 - 18%, en áttu það til að fara upp í 25% ef ekki hærra. Þess vegna tóku fólk og fyrirtæki gengistryggð lán. Lántakar voru búnir að gefast upp á okurkjörum hins hefðbundna innlenda lánakerfis.
Auðvitað treystu lántakar á það, að verið var að bjóða löglega afurð og segja má að meðan allt gekk vel, þá var það besta mál. Almennt held ég að lántakar hafi ekki verið að treysta á að gengið héldist mjög sterkt eða styrktist óeðlilega, það var búbót á þeim tíma. Nei, það voru fyrst og fremst hinir lágu vextir sem verið var að sækjast eftir.
Það þarf engan doktor í stærðfræði til að sjá, að lán með 3,5% vöxtum er hagstæðara en lán á 5% verðtryggðum vöxtum eða 9% óverðtryggðum. Vissulega stóð það og féll með gengisþróuninni, en undanfarin 20 ár, var búinn að vera ásættanlegur gengisstöðugleiki og flestir lántaka gátu þolað eðlilega veikingu krónunnar á lánstímanum. Slík veiking myndi hvort eð er mælast í verðbólgu og hækkun breytilegra vaxta. Þetta var því win-win staða hvernig sem á það var litið meðan umhverfi gengismála var eðlilegt. Það sem fólk vissi ekki var að fjármálafyrirtækin voru að missa tökin á hlutunum og vissu líklegast (annað bæri vott um ótrúlega vanhæfni stjórnenda þeirra) í hvað stefndi. Síðan vissu lántakar ekki, að afurðin var ólögleg og það er ekki hægt að ætlast til þess að almenningur hafi það góðan skilning á lögum, að hann átti sig á merkingu þeirra laga sem hér um ræðir.
Ég hef tekið samlíkingu með fæðubótaefnum. Þegar við kaupum slík efni úti í búð, þá reiknum við með að þau innihaldi bara lögleg efni. Komi í ljós að það eru ólögleg efni í fæðubótaefninu og þau jafnvel skaðleg, þá ber söluaðilinn/innflytjandinn ábyrgð og ber að bæta fólki skaða sem það kann að hafa orðið fyrir. Það er aftur ekkert í íslenskum lögum sem veitir innflytjanda rétt til að krefja neytandann um aukalega greiðslu vegna þess að neytandinn fékk óvænta vellíðunartilfinningu af hinu ólöglega efni. Það er því neytandinn sem á hugsanlega skaðabótakröfu út af neikvæðum fylgikvillum, en verður ekki krafinn um viðbótargreiðslu vegna jákvæðra fylgikvilla. Lögin verja neytandann og nú horfum við til Hæstaréttar um túlkun hans á lögunum.
Ef við færum þessa samlíkingu yfir á gengistryggðu lánin, þá reiknuðu lántakar að þau væru lögleg afurð, sem tryggði þeim lægri greiðslubyrði af láni en sambærilegu hefðbundnu láni. Lántakar reiknuðu með að gengið myndi veikjast eitthvað á lánstímanum en að sú breyting yrði að jafnaði minni en áhrif verðtryggingar á verðtryggð lán. Þetta gekk upp til marsbyrjunar 2008, en þá misstu bankarnir tökin á ástandinu. Sumir tala um að þeir hafi stundað markaðsmisnotkun og þetta hafi allt verið hluti af einhverju plotti, ég vil frekar líkja þessu við að spila í rúllettu og veðja alltaf á rautt. Að lokum kemur svart og það gerðist. En stóra málið er, að verðtrygging við gengi er ólögleg (eins og ég hef verið óþreytandi að benda á síðustu 12 mánuði eða svo).
Barátta Hagsmunasamtaka heimilanna hefur snúist um forsendubrest lána. Á þann málflutning hefur ekki verið hlustað nægilega vel. Við hefðum gjarnan viljað láta reyna á 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 og önnur lög sem tengjast réttmæti lánasamnings og veðsins. Þeirri baráttu er ekki lokið, þó Hæstiréttur staðfesti dóm héraðsdóms. Forsendubresturinn nær nefnilega til hefðbundinna verðtryggðra lána og vaxta óverðtryggðra lána.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)
15.2.2010 | 12:21
GPS staðsetningartæki í öll tæki sem notuð eru á jöklum
Þakka ber fyrir giftusamlega björgun. Þarna hefði getað farið illa og núna kominn tími til að skipuleggjendur jöklaferða endurskoði öryggismál sín enn frekar. Almennt held ég að fáir ferðaskipuleggjendur séu eins meðvitaðir um öryggismál. en nú þarf að stíga skrefinu lengra. Í fyrsta lagi var búið að spá aftakaveðri og það er mikil áhætta að fara með hóp af meira að segja reyndu fólki í ferð við slíkar aðstæður hvað þá reynsluminna fólki. Í öðru lagi þarf að vera auðveldara að rekja ferðir sleða og staðsetja þá. Það hlýtur að vera eðlileg krafa að annað hvort allir sleðar hafi GPS staðsetnignartæki eða að hver einstaklingur í svona ferð beri slíkt tæki. Ef GPS tæki hefði verið á sleðanum, þá hefði verið hægt að aka að honum á nokkrum mínútum.
Ég tala hér bæði sem sérfræðingur í áhættustjórnun og leiðsögumaður.
Við sáum þarna þúst | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
13.2.2010 | 17:29
Eftirlitsaðilar brugðust og þess vegna komust fjármálafyrirtæki upp með að bjóða ólöglega afurð
Það er merkilegt að lesa rök stjörnulögfræðingsins, Sigurmars K. Albertssonar. Hann veit það jafnvel og þeir sem vit hafa, að mjög margir ágallar voru á dómi héraðsdóms í máli SP-fjármögnunar. Hann veit líka að það eru ekki rök, að eftirlitsaðilar hafi ekki sinnt starfi sínu. Síðan veit hann, að ákvæði 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 eru ófrávíkjanleg.
Það er rétt að það er óheppilegt að tveir dómar úr sama húsi séu jafn ólíkir og falli á gjörólíkan máta. En ástæðan er einföld. Fyrri dómsniðurstaðan var arfavitlaus og ef Hæstiréttur vísar henni ekki aftur til héraðs, þá er Hæstiréttur einfaldlega ekki að sinna skyldu sinni. Brotalamirnar í málsmeðferð voru hreinlega of margar.
Hæstaréttar að breyta dómum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 0
- Sl. sólarhring: 81
- Sl. viku: 275
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 34
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði