Leita í fréttum mbl.is

Er sæstrengur til Evrópu það sem er best fyrir íslenskt samfélag?

Bloomberg fréttaveitan er með frétt um hugsanlegan útflutning á raforku um sæstreng til Skotlands.  Hugmyndin er ekki ný á nálunum, kom líklegast fyrst fram fyrir hátt í 30 árum, a.m.k. tók ég hana til skoðunar við gerð lokaverkefnis míns við Stanford háskóla veturinn 1987 - 88.

Við skulum hafa í huga, að Ísland er þegar einn stærsti útflytjandi raforku þegar.  Það er sú raforka sem notuð er við fiskvinnslu, álframleiðslu og aðra raforkufreka framleiðslu á útflutningsafurðum.  Þessi notkun raforku er undirstaðan þeirrar efnahagsuppbyggingar sem hér hefur átt sér stað undanfarna áratugi.  Önnur hlið á þessu máli er gríðarleg skuldasöfnun þjóðarinnar og gengið hefur verið fulllangt á ýmis náttúrugæði.

Á sínum tíma bar ég hugmyndina um útflutning á raforku um sæstreng undir leiðbeinanda minn, Allan Mann, en hann var á þeim tíma ein helsti sérfræðingur í heiminum varðandi uppbyggingu vatnsaflsraforkuvera.  Viðbrögð hans voru heldur snubbótt en þó skýr:  Notið raforkuna á Íslandi til að framleiða útflutningsafurðir.  Á þeim tíma sem liðinn er hefur ekkert gerst sem sannfærir mig um hið gagnstæða.  Ég bý vissulega ekki lengur yfir sambærilegri sérþekkingu á þessum málum, eins og haustið 1988, en hef reynt eftir bestu getu að fylgjast með.

Samkvæmt frétt Bloomberg er verið að skoða að flytja 18 teravattsstundir af raforku árlega til Skotlands.  (Landsvirkjun hefur borið þetta til baka og þar segjast menn vera að skoða 4 - 6 TWst, þannig að framleiðslan verði alls 18 TWst.)  Samkvæmt vef Landsvirkjunar var ársvinnsla fyrirtækisins 12,2 Twst árið 2009 í 12 orkuverum, þ.e.

6 Twst er um 50% aukning og ætli Landsvirkjun ekki að segja upp núverandi raforkusölusamningum til stóriðju og loka á sölu til almennings, þá þarf að byggja ný orkuver, endurnýja þau sem eru fyrir og/eða kaupa raforku af öðrum framleiðendum.  Nú veit ég ekki hvað mun kosta að byggja þær virkjanir sem þarf til að framleiða 4-6 TWst á ári.  Haft er eftir Rögnu Söru Jónsdóttur, fjölmiðlafulltrúa LV, að kostnaðurinn við hverja TWst liggi á bilinu USD 300 - 400 milljónir.  Ég geri ráð fyrir að hér hafi eitthvað skolast til og átt sé við kostnað við uppsett afl til að framleiða teravattstundirnar 4-6.  Ef svo er, þá er stofnkostnaðurinn á bilinu 140 - 280 milljarðar kr. (1,2 - 2,4 milljarðar USD).  Bætum við þetta kostnaðinum við sæstrenginn upp á USD 2,1 milljarðar og fáum heildarkostnað á bilinu 3,3 - 4,5 milljarðar USD (380 - 522 ma.kr.).   Bloomberg bendir á að miðað við núverandi markaðsaðstæður fáist 0,3-0,45 milljarðar USD (34-52 ma.kr.) fyrir 4-6 TWst í Bretlandi eða 74 m.USD (8,6 ma.kr.) fyrir hverja TWst.  Nú veit ég ekki hvort Ragna Sara tók inn í sína tölu kostnað við flutning á raforkunni frá aflstöð að sæstreng.  Líklega yrðu strengirnir margir og færu í hafið á mismunandi stöðum.  Þegar verið er að tala um svona stórt verkefni verða örugglega gerðar mun ríkari kröfur um að taka tillit til náttúrunnar.  34-52 m.kr. tekjur af raforkusölu mega ekki verða á kostnað annarra tekna, svo sem af ferðaþjónustu.

Ég reikna með því að svona verkefni verði ekki unnið nema á mjög löngum tíma, líklegast 10-20 árum.  Skuldsetning þjóðfélagsins, sem er út úr kortinu núna, verður orðin ein sú hæsta í heimi miðað við landsframleiðslu.  Landsframleiðslan eykst vissulega um einhver prósent miðað við núverandi stöðu.  Framkvæmdirnar munu valda umtalsverðri þenslu á framkvæmdatímanum, en verði haldið rétt á spilunum, þá verður hún minni en varð af Kárahnjúkavirkjum.  Að framkvæmdum loknum er ekki þörf fyrir mikinn mannafla til að reka kerfið.

Gott og vel, eftir 20 - 30 ár verður hugsanlega búið að reisa hér raforkuver um allt land til þess að anna þörf raforkuþyrstra Breta.  Spurningin sem við þurfum að svara:  Er þetta það sem við viljum?  Viljum við verða að raforkuforðabúi fyrir Bretland um ófyrirséða framtíð án þess að það leiði til atvinnusköpunar svo nokkru nemur hér á landi?  Um þessar mundir vinna innan við 250 manns hjá LV.  Gefum okkur að 50% stækkun á raforkuöflunarkerfinu fjölgi starfsmönnum í sama hlutfalli, þ.e. úr 250 í 375 manns.  Gefum okkur síðan að hjá Landsneti (sem sér um flutningskerfið) fjölgi líka um 50%, þ.e. úr 93 í 140 manns og loks að við sæstrenginn starfi um 50 manns.  Þá hafa framkvæmdir upp á um 500 milljarða kr. skapað 225 varanleg störf.  Það sem meira er:  Búið verður að nýta stóran hluta fýsilegra virkjunarkosta og fátt verður um góða staði til að virkja fyrir aðra íslenska atvinnuuppbyggingu.  Allt þetta til að fá tekjur upp á kannski 50 ma.kr. á ári.  Ég spyr aftur:  Er þetta það sem við viljum?

Framtíðarsýn til nýtingu raforku verður að fara saman við framtíðarsýn okkar til atvinnuuppbyggingar.  Á hverju ári bætast nokkur þúsund manns á atvinnumarkað.  Nýting innlendrar orku er forsenda þess að hægt sé að byggja hér upp nægilega mörg störf.  Innlend verðmætasköpun er forsenda hagvaxtar.

Annars er margt svo vitlaust í Bloomberg-fréttinni, að maður veltir því fyrir sér hver tilgangurinn er.  T.d. er ekki gerður neinn greinarmunur á raforkuframleiðslu og annarri nýtingu innlendra orkugjafa.  Það er líklegast satt, að verið sé að nýta um 18 TWst af innlendri orku, en hátt í þriðjungur fer til húshitunar og sú orka verður ekki nýtt til útflutnings.  Síðan hefur Landsvirkjun leiðrétt umfangið og segir það vera 4-6 TWst í stað 18, en viðmælendurnir annað hvort skilja ekki tölurnar eða eru að tala í kross við fréttamann Bloomberg.

Mín skoðun er að ljúka eigi við rammaáætlun um nýtingu orkuauðlinda áður en nokkur ákvörðun um framhaldið er tekin.  Gerum hlutina einu sinni rétt.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæll Marinó,

Ég segi hiklaust nei.  Sú raforka sem Ísland getur framleitt er aðeins smáhluti þess sem er notað í Evrópu (sjá t.d. http://www.indexmundi.com/map.aspx?v=Electricity+-+consumption(kWh)&co=eu)  Skv þessum upplýsingum þá notar Þýskaland um 545 TWh og án þess að reikna þetta þá sýnist mér að Evrópa noti um 5000 TWh.  4-6TWh er ekki upp í nös á ketti - 18TWh fær kisa varla til að hnerra;) 

Hvað geta Íslendingar gert og framleitt úr þessum 4-18TWh?  Hlýtur þetta ekki alltaf að vera spurning um hvaða virðisauka er hægt að búa til á Íslandi samanborið við hvað hægt er að fá fyrir hráefnið?  Þetta er eins og að selja fiskinn í sjónum og láta öðrum þjóðum um að veiða hann fyrir túkall á tonnið eða eitthvað álíka. 

Það er hægt að læra ýmislegt af því að það er hagkvæmt fyrir álfyrirtækin (eða a.m.k. var á sínum tíma) að flytja Báxít frá Ástralíu til Íslands til að framleið ál.  Ef raforka hefði verið eins ódýr í Ástralíu og á Íslandi þá hefði það ekki borgað sig.  Þetta snýst og hvað þjóðir geta búið til mikil verðmæti úr því hráefni sem þær hafa en ekki hversu mikið af óunnu hráefni þær geta flutt úr landi.

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 28.2.2011 kl. 21:22

3 identicon

Tek undir með ykkur. Það mundi endanlega tryggja lægsta verð til framtíðar. Það hlýtur að vera eftirsóknarverðara að framleiða með rafmagni hér heima og skapa störf og umsvif og fá margfeldisáhrif. Ég er hins vegar hissa á því hvers vegna ekki er hægt að spila meira inná umhverfisþáttinn og hreinleika orkunnar sem hér fæst og fá þannig meira verð en gengur og gerist. Trúi því varla að við þurfum að vera að keppa við kol, olíu eða kjarnorku á verðum eingöngu.

Elvar Eyvindsson (IP-tala skráð) 1.3.2011 kl. 07:21

4 identicon

Það er mikið búið að blogga um þetta, m.a. orkubloggarinn.

Þessir kaplar eru orðnir ansi góðir, og orkutap í flutningi mjög lítið, þannig að þetta er vel hægt. Svo er það kostnaðurinn, - Nor-Ger og Nor-Ned kaplarnir ætla að borga sig hratt upp, annar var kominn í 8% eftir aðeins 2 mánuði. Aðalkosturinn er þó verðið, sem er MARGFALT á við það sem stóriðjan borgar hérna.

Svo koma gallarnir. Engin afleidd störf. Og spurning hvort að okkur takist ekki að klúðra þessu eins og Norðmenn, sem lenda í hærra orkuverði sjálfir eftir sínar tilfæringar. Og ef við værum í ESB og með kapal, þá mættum við ekki hafa okkar ódýra verð lengur.....

Jón Logi (IP-tala skráð) 1.3.2011 kl. 08:37

5 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Hólmsteinn, mér sýnist Edvard G. Guðnason spyrja margra svipaðra spurninga og ég.  Eins bendir hann á að eftir er að rannsaka fjölmarga óvissuþætti og gera frumáhættugreiningu, hvað þá ítarlega greiningu, fyrir alla helstu þætti.

Annars finnst mér áhugavert þar sem segir um verkefni 2010-2011 að meta orkugetu.  Þar eru talin upp atriði, eins og að bæta við aflvélum, hugleiða dæluvirkjanir og auka miðlun.  Spurning hvort ekki megi fara þessa leið til að mæta innlendri eftirspurn og fresta þar sem framkvæmdum við nýja virkjanir þar til stefnumótun hér innanlands er lokið.

Ég tek það skýrt fram, að ég tel mikilvægt að nýta innlenda orkugjafa til nýsköpunar og atvinnuuppbyggingar.  Það þarf að gera af hófsemi og skynsemi og þessi kynslóð má ekki fullnýta alla möguleika.  Við eigum endilega að halda áfram prófunum með djúpboranir, sjávarfallavirkjanir, vindorku og sólarorku til viðbótar við vatnsafl og gufuafl.  Stærsta orkuöflunin sem við getum samt líklegast farið í, er í formi betri orkunýtingar hjá núverandi notendum. 20 - 30% betri nýting er ígildi góðrar virkjunar.

Marinó G. Njálsson, 1.3.2011 kl. 08:42

7 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Raforkuverð í Evrópu er oft mjög hátt og skynsamlegt að skoða þessa möguleika. Svona strengur milli Íslands og Evrópu yrði mikið tæknistökk, þegar haft er í huga að enn sem komið er er lengsti sæstrengur af þessu tagi einungis tæplega 600 km langur (milli Noregs og Hollands). Dýpið (mest um þúsund metrar) gæti einnig orðið til vandræða. Ólíklegt er að ráðist verði í svona verkefni fyrr en meiri reynsla er komin á sæstrengi á bilinu 600-1000 km langir.

Það er reyndar ekki verið að tala um stórfelldan útflutning á raforku, sem ella væri unnt að nýta hér. Það sem menn eru einkum að skoða er að hafa þann möguleika að kaupa hingað rafmagn þegar verðið í Evrópu er lágt (á næturna) og safna á meðan í miðlunarlónin. Svo þegar verðið í Evrópu er hátt (yfir daginn) væri unnt að fullnýta afl íslensku virkjananna og selja hluta raforkunnar til Evrópu gegn háu verði. Með þessu mætti hugsanlega stórauka arðsemi íslensku raforkufyrirtækjanna - án þess að þurfa að virkja mjög mikið í viðbót við það sem þegar er komið! Svona sæstrengur þýðir sem sagt ekki að við ætlum að fara að virkja í stórum stíl til að flytja út rafmagn. Bloomberg misskildi viðskiptahugmyndina illilega.

Ketill Sigurjónsson, 1.3.2011 kl. 11:40

8 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Vegna orðanna í færslunni "Það er líklegast satt, að verið sé að nýta um 18 TWst af innlendri orku, en hátt í þriðjungur fer til húshitunar og sú orka verður ekki nýtt til útflutnings", er vert að nefna að nú eru reyndar framleiddar um 17 TWst af rafmagni árlega hér á Íslandi. Þar af framleiðir Landsvirkjun um eða rúmlega 2/3.

Ketill Sigurjónsson, 1.3.2011 kl. 11:48

9 identicon

Langar til að koma einum vinkli enn inn í umræðuna, en það er spurningin um hvernig við ætlum að knýja samgöngur innanlands í framtíðinni. Öllum sem á annað borð fylgjast með fréttum ætti að vera ljóst, að farartæki knúin jarðefnaeldsneyti munu syngja sitt síðasta innan 30 - 50 ára eða svo, enda verður verðið orðið óviðunandi fyrir þann tíma. Við eigum varla annars kost hér en nýta innlenda orkugjafa, þ.e. raforku í þessu skyni. Ekki verður það nógu hagstætt ef við verðum búin að ráðstafa öllum okkar hagkvæmustu virkjunarkostum til álframleiðslu, ellegar til sölu um streng/i til Evrópu.

Bergbúi (IP-tala skráð) 1.3.2011 kl. 11:57

10 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Ef það mun borga sig að nota orkuna hér til að framleiða eldsneyti eða knýja rafbíla, mun það einungis gerast hægt og sígandi og rafstrengur veldur þar engum vandamálum (enda selur hann inn á spot-markað).

Ketill Sigurjónsson, 1.3.2011 kl. 12:08

12 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ketill, betri nýting á núverandi virkjunum má segja að kosti ekki mikið.  Þar sem hugmyndin er að selja inn á "spot-markað", þ.e. afhending innan einhverra mínútna, þá má reikna með því að hægt væri nánast að fullnýta alla framleidda raforku að því gefnu að flutningsgeta að sæstreng væri fyrir hendi.  Markmið Landsvirkjunar er að nýta það vatn sem annars rennur ónotað í gegn eða framhjá virkjunum.  Hef ég fullan skilning á því, enda snerist lokaverkefni mitt við Stanford einmitt um bestun á vatnsmiðlun fyrir vatnsaflsvirkjanir.

Fræðileg framleiðslugeta raforkukerfis Landsvirkjunar er samanlagt afl sinnum klukkutímar í árinu eða 1850*8760=16,2 GWst.  Flestar virkjanir eru ekki að framleiða á þessari fræðilegu getu, þar sem fara þarf fram viðhald og bilanir eiga sér stað.  Munurinn á þessari fræðulegu getu og raunframleiðslu er nálægt því að vera 4 GWst.  Segjum að raunhæft sé að ná helmingnum af því út úr núverandi virkjunum í formi betri nýtingar, þá er það tekjuauki fyrir Landsvirkjun upp á 15 ma.kr. miðað við forsendur í grein Bloomberg sem virðist miða við um 40 USD/MWst.  Þessar tekjur standa ekki undir framkvæmdum við strenginn, síðan á eftir að breyta innviðum íslenska kerfisins og flytja raforkuna að þeim stað sem strengurinn fer á haf út.  

Ég hef hingað til treyst Landsvirkjun til að gera hlutina á hagkvæmasta hátt, þó ég hafi ekki alltaf verið sammála framkvæmdum þeirra.  Raunar lagði ég það til fyrir 20 árum eða svo að sérfræðingar þeirra væru fengnir til að halda utan um framkvæmdir við Leifsstöð og Perluna.  Fram að þeim tíma höfðu kostnaðarfrávik við framkvæmdir LV verið í kringum 3%, sem teljast verður með því besta.  Ég velti því samt fyrir mér hvort ekki væri flötur á því að kaupendur raforkunnar taki þátt í kostnaðinum við sæstrenginn eða greiddu fyrir hann í heild.

Marinó G. Njálsson, 1.3.2011 kl. 13:02

13 identicon

 Jón Logi:

"Svo koma gallarnir. Engin afleidd störf. Og spurning hvort að okkur takist ekki að klúðra þessu eins og Norðmenn, sem lenda í hærra orkuverði sjálfir eftir sínar tilfæringar. Og ef við værum í ESB og með kapal, þá mættum við ekki hafa okkar ódýra verð lengur....."
Þetta er hárrétt.  Norskur vinur minn er raforkubóndi og selur rafmagn sitt á uppsprengdu verði til Danmerkur, samkvæmt reglum.
Ef af sölu til Evrópu verður að ræða,verður ekki hægt að undanskilja innanlands notkun.

Ólafur Sveinsson (IP-tala skráð) 1.3.2011 kl. 15:42

14 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Sammála Marinó.  Ég set risastórt spurningamerki við þessa framkvæmd.  Er engin orkufrek starfsemi sem við getum keyrt á næturna á Íslandi til að fullnýta næturslakann í kerfinu?

Þegar gagnaverin verða komin hingað að einhverju ráði eru afritatökur þá ekki mikið í gangi á næturna með tilheyrandi þörf fyrir viðbótarafl?  Ef við setjum upp risastór gróðurhús, er ljósaþörf þeirra ekki meiri á næturna en á daginn?  Hvaða fleiri leiðir höfum við en að flytja störfin út til Bretlands án þess að taka af þeim hagnaðinn?

Munurinn á þróunarríkjum og iðnríkjum er að þróunarríkin sjá um frumvinnsluna og síðan fer fullvinnslan fram í iðnríkjunum.  Það er fullvinnslan sem skapar arðinn. Það að senda raforkuna út "óunna" er skref í ranga átt.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 1.3.2011 kl. 15:49

15 identicon

Hólmsteinn Jónasson (IP-tala skráð) 1.3.2011 kl. 16:15

16 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Hólmsteinn, ef menn ætla inn á álagstíma, þá er verðið vissulega gott. Spurningin er fyrst verðið er svona gott, af hverju er ekki röð af vonbiðlum fyrir utan skrifstofu forstjóra Landsvirkjunar eða Orkuveitu Reykjavíkur.  Gæti verið að áhættan sé of mikil, tæknin ekki tilbúin eða að kostnaðargreining gefur ekki nógu góða niðurstöðu?

Ég er búinn að fá nóg í bili á íslenskum snilldarhugmyndum, sem eru svo góðar að ekki er hægt að hunsa þær.  Minn persónulegi reikningur vegna ævintýris "fjármálasnillinganna" er ekki undir 30 m.kr.og minn glæpur að hafa eignast fjórða barnið.  Áhættufælni mín er því í hámarki.  Nú þýðir ekkert að segja, að þetta lendi aldrei á landsmönnum, þar sem það sögðu menn líka síðast, en samt sitjum við uppi með minnst á fimmta hundrað milljarða sem koma þurfa úr vösum skattgreiðenda.  Verði farið út í svona framkvæmd, þá þarf að tryggja að fari allt á versta veg, þá séu skattgreiðendur varðir eins vel og hægt er og sett sé þak á þá upphæð sem gæti lent á ríkissjóði.

Marinó G. Njálsson, 1.3.2011 kl. 16:37

17 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæll Marinó,

Vegna þess sem Sigurður spyr varðandi gróðurhús, þá er væntanlega ekki svo mikil næturnotkun í gróðurhúsum sem hituð eru með jarðvarma.  Ástæðan er sú að flestar jurtir sem ræktaðar eru í gróðurhúsum eru frá suðlægari stöðum og þurfa jafnari tíma á dagsbirtu og myrkur.  Bestu tímar til gróðurhúsaræktunar á Íslandi eru á veturna þegar dimmt er og hægt að búa til dagsljós í 10-12 tíma, svipað og er sunnar á hnettinum.  Þess vegna ætti ekki að fara mikið fyrir næturnotkun á raforku í gróðurhúsum sem annars eru hituð með sólarljósi eða heitu vatni.  Ef þau eru hituð með rafmagni þá þarf að sjálfsögðu hita á næturnar, en jurtir vaxa venjulega best þegar eðlilegur munur milli dags og nætur, bæði í hita og ljósi er til staðar. 

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 1.3.2011 kl. 23:06

18 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Takk Arnór fyrir athyglisverðar upplýsingar.

Ég horfði á áhugavert viðtal á Hrafnaþingi í kvöld tengt verulegum innflutningi á rafmagnsbílum sem boðaður er næstu árin.  Þar er á leiðinni töluverð næturnotkun þar sem eigendur munu stinga bílum sínum í samband á næturnar.  Ég veit hins vegar ekki hvort það mun nýta alla umframorku í kerfinu og efast raunar um það.  Það er þó skref í þá átt að auka notkun á dauðum tímum.

Ég efast ekki um að þetta sé hagkvæmt fyrir orkufyrirtækin til langs tíma þar sem orkuverð á Evrópu á bara eftir að hækka næstu árin og áratugina.  Það er hins vegar ekki þar með sagt að það sé hagkvæmt fyrir íslenskt samfélag þar sem orkuverð til einstaklinga og fyrirtækja sem og atvinnustig og atvinnutækifæri eru lykilbreytur.  Að mínu mati vega hagsmunir samfélagsins þar þyngra en EBITA orkufyrirtækjanna, þótt hún sé auðvitað mikilvæg líka.  Gleymum því ekki að þessi opinberu orkufyrirtæki eru til fyrir eigendur sína - ekki öfugt.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 2.3.2011 kl. 01:57

19 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Fín umræða.

Það er klárt að svo langur strengur mun kosta mikið, - þann kostnað þarf að greiða niður af tekjum. Marínó telur umframorku innan kerfisins, hvergi nær duga til að greiða slík lán niður. Þ.e. örugglega rétt, svo það þarf væntanlega að gera þetta í samhengi við stórfellda virkjanagerð.

Augljós galli, að verð á rafmagni mun hækka innanlands, upp í markaðsverð erlendis. Þannig mun þá rafmagnsverð hér innanlands, halda áfram að auki að hækka, eftir því sem rafmagnsverð mun halda áfram að hækka erlendis vegna minnkandi olíu-/kola- og gasauðlinda.

Þessa hluti verður að hugsa í samhengi.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 2.3.2011 kl. 18:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (11.9.): 6
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 42
  • Frá upphafi: 1679457

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 25
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband