Leita í fréttum mbl.is

Hvaða framfærsluviðmið eiga við?

Í Morgunblaðinu í dag er stutt viðtal við mig vegna neysluviðmiða sem koma fram í skýrslu frá velferðarráðuneytinu.  Hafi fólk ekki vaknað nógu snemma í morgun, þá hefur það misst af tengli á viðtalið á forsíðu mbl.is og vil ég því benda því á tengilinn, en ekki síður skjal sem ég tók saman að beiðni blaðamanns og fylgir fréttinni á mbl.is.

Eins og einhverjir muna eftir, þá var ég beðinn um að taka þátt í vinnu "sérfræðingahóps" á vegum forsætisráðuneytisins um skuldamál heimilanna.  Ég hélt í einfeldni minni, að hópurinn ætti að skoða raunhæfar leiðir til lausnar vandanum, en svo reyndist ekki vera.  Sendi ég því inn sérálit, þar sem ég gerði grein fyrir minni skoðun.  Eitt atriði gerði ég þó meiri ágreining um en annað.  Það var neysluviðmiðið sem stuðst var við í útreikningum hópsins.  Taldi ég það allt of lágt.

Skýrsla velferðarráðuneytisins um neysluviðmið staðfestir svo ekki verður um villst, að mat mitt á raunveruleikanum var betra en fulltrúa hins opinbera í "sérfræðingahópnum".  Ef eitthvað var, þá var ég of íhaldssamur á neysluna, þ.e. taldi hana lægri en raunin er, a.m.k. samkvæmt tölum í skýrslu ráðuneytisins.

Samanburður erfiður

Gallinn við tölur frá mismunandi aðilum er samanburðarhæfnin.  Jafnvel eru vandræði með að bera saman tölur frá einum og sama aðilanum og á það við um tölur ráðuneytisins.

En hvernig er best að skoða þessar neyslutölur?  Umboðsmaður skuldara og áður Ráðgjafastofa um fjármál heimilanna skiptu útgjöldum heimilanna upp í fjóra útgjaldaflokka.  Fyrsti flokkurinn er það sem mætti kalla stöðluð neysla, þ.e. neysla sem virðist vera svipuð milli heimila af sömu heimilisgerð.  Annar flokkurinn er almenn neysla og útgjöld sem eru breytileg milli heimila, svo sem tryggingar, sími og net, fasteignagjöld, hiti, rafmagn skólakostnaður og afborganir neyslulána.  Þriðji flokkurinn er bifreið og bleyjur, þ.e. séu útgjöld vegna þessara liða, þá er þeim bætt ofan á útgjöld heimilisins.  Fjórði og síðasti flokkurinn er húsnæðislán eða leiga.  Faghópur velferðarráðuneytisins notast við fimm útgjaldaflokka:  neysluvörur, þjónusta, tómstundir, samgöngur og húsnæðiskostnaður.  Er hægt að bera saman tölur umboðsmanns skuldara og velferðarráðuneytisins eða eru þær of ólíkar?

Í skjalinu sem fylgir frétt Morgunblaðsins geri ég tilraun til þess að bera saman eftirfarandi gildi:

  • Neysluviðmið umboðsmanns skuldara í fyrsta flokki
  • Neysluviðmið sem "sérfræðingahópurinn" notaði í sinni skýrslu
  • Neysluviðmið sem ég taldi rétt að nota í vinnu "sérfræðingahópsins"
  • Skammtímaviðmið í skýrslu velferðarráðuneytisins
  • Grunnviðmið í skýrslu velferðarráðuneytisins
  • Dæmigert viðmið í skýrslu velferðarráðuneytisins

Ber ég þessi gildi saman í fyrsta lagi án bifreiðar og húsnæðis, í öðru lagi með bifreið en án húsnæðis og í þriðja lagi með bifreið og húsnæði.  Skýri ég í skjalinu nálgun mína til að samræma tölur eins og best verður kosið miðað við þann aðgang sem ég hef að talnagögnum.

Niðurstaðan samanburðar míns er að neysluviðmið "sérfræðingahópsins" hafi verið allt of lág og endurspegli í aðeins einu tilfelli það sem flokka mætti undir rétta neyslu, þ.e. útgjöld einstaklings án bifreiðar og húsnæðis.  Í öllum öðrum tilfellum reynist viðmið meirihluta "sérfræðingahópsins" umtalsvert frá því sem velferðarráðuneytið telur vera grunnviðmið.

Vissulega er neysla engra tveggja heimila nákvæmlega eins, þó oft sé hún keimlík.  Viðmið eru meðaltalsútreikningur fyrir ákveðinn hóp neytenda.  Dæmigert viðmið faghóps ráðuneytisins er ætlað að vera meðaltal "eðlilegrar" neyslu.  Í grunnviðmiðinu er búið að skerða nokkra útgjaldaflokka verulega og því er ekki hægt að ætlast til þess að heimilin búi við slíkt ástand í langan tíma.  Þannig hafa eftirfarandi útgjaldaliðir, sem teljast til dæmigerðrar neyslu, verið feldir út úr útgjaldaflokknum tómstundir og afþreying:

  • Tómstundir, stærri tæki
  • Viðgerðir á stærri tækjum til tómstunda
  • Happdrætti, getraunir o.fl.
  • Fréttablöð og tímarit
  • Ýmislegt prentmál (líklegast bækur)
  • Pakkaferðir innanlands
  • Pakkaferðir til útlanda
  • Þjónusta hótela og gistiheimila
  • Gisting á tjaldstæði
  • Aðrir gististaðir
  • Önnur gisting innanlands
  • Áfengi
  • Tóbak

Sumt af þessu er ekkert tiltökumál, en grunnviðmiðið gerir ekki ráð fyrir að fólk fari í sumarleyfi utan heimabyggðar.  Skemmtileg skilaboð sem fólk fær frá faghópnum.

Þessu til viðbótar gerir grunnviðmið ráð fyrir lægri kostnaði við föt og skó, síma og fjarskipti, aðra þjónustu fyrir heimili, heimilisbúnað, raftæki og viðhald raftækja og loks er hvorki gert ráð fyrir kostnaði við bifreið né húsnæði!  Ef bara er horft til útgjaldaflokka án samgangna og húsnæðis, þá eru grunnviðmiðin (fyrir hjón með 2 börn á höfuðborgarsvæðinu) um 68% af dæmigerðu viðmiði, þ.e. sá sem lifa þarf samkvæmt grunnviðmiðunum, þarf að draga útgjöld sín saman um 32% samanborið við þann sem fylgir dæmigerðu viðmiði.  Sultarólin herðist enn frekar sé skammtímaviðmiðið notað, þar sem ætlast er til að útgjöld þar séu aðeins 58% af dæmigerðu viðmiði.

Vissulega er reiknað með atriðum í dæmigerðri neyslu sem ekki allir leyfa sér eða hafa áhuga á.  T.d. fer tóbaksnotkun minnkandi og mörg heimili eru algjörlega án slíks kostnaðar.  Sama á við um áfengi, stærri tómstundatæki, happdrætti og getraunir svo fátt eitt sé nefnt.  Að sleppa þessum liðum er því engin "skerðing" á neyslu.

Neysluviðmið er bara viðmið.  Þetta er tilraun til að endurspegla raunverulega neyslu heimila og gefa henni nafn í útgjaldaflokkum.  Útreikningur faghóps velferðarráðuneytisins er ekki hafinn yfir gagnrýni, en ég tel hann vera áreiðanlegri og vandaðri en þau viðmið sem notuð hafa verið hingað til.  Viðmiðin þrjú eru því þarf innlegg í umræðuna um skuldabyrði og greiðslugetu heimilanna.


mbl.is Forsætisráðuneytið vildi ekki viðmið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

frábær samantekt, takk fyrir þetta

Óskar Þorkelsson, 12.2.2011 kl. 18:41

2 identicon

Það virðast allir gleyma að taka inn í dæmið að það eru um 15.000 einstaklingar sem greiða meðlög hér á landi. Sumir með allt að 3 börnum. Er það ekki svolítið stórt klúður að gleyma svo mikilvægu atriði? Við erum að tala um framfærslu þúsunda barna hér á landi.

Jóhann Kristjánsson (IP-tala skráð) 12.2.2011 kl. 18:56

3 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Góður pistill hjá þér Marinó.

Varðandi þá vinnu sem átti að vinna til að finna út raunhæft neysluviðmið, er ekki að sjá annað en verkið sé einungis hálfnað.

Nefndin skilar af sér útreikning á meðalneyslu einhvers ótiltekin hóps. Síðan er prjónað við einhverjum óraunhæfum viðmiðum, ýmist eru teknir út stórir en mikilvægir þættir, eða neyslan er strípuð niður í það mark að einungis er eftir það sem þarf til að halda lífi, við minnstu hugsanlega neyslu.

Það er ekki mikið mál að safna saman gögnum og reikna út meðaltalið. Þetta tók nefndina þó um hálft ár og síðan þurftu stjórnvöld nærri tvo mánuði til yfirlesturs, áður en þetta var birt!

Um "lágmarksviðmið" og "grunnviðmið" vil ég ekki tjá mig, enda eru þau einungis sett fram til að slá ryki í augu fólks. Brandari!

Tilgangur nefndarinnar var einn og aðeins einn. Hún átti að finna út framfærsluviðmið þar sem fólk gæti lifað sómasamlegu lífi. Nefndin átti ekki að reikna út meðalneyslu, nema þá sem vinnugagn, hún átti ekki að finna út einhver óraunhæf grunnviðmið eða lágmarksviðmið!

Því má segja að starf nefndarinnar sé einungis hálfnað, undirbúningsvinnu lokið og matsvinnan eftir!

Gunnar Heiðarsson, 13.2.2011 kl. 10:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 42
  • Frá upphafi: 1678164

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband