Leita í fréttum mbl.is

Mótormax 4 - Landsbankinn 3, tæpara gat það nú ekki verið

Ég er bæði hissa og ekki yfir niðurstöðu Hæstaréttar í dag.  Fyrst og fremst er ég þó hissa að dómur sé kominn 3 dögum eftir að málflutningi lauk. 

Í færslu um daginn, þá velti ég því fyrir mér af hverju ákveðið var að endurflytja mál fyrir fullskipuðum rétti.  Ég gaf upp nokkrar mögulegar skýringar, þ.e.

A.  Hæstiréttur er orðinn pirraður á endalausum málferlum vegna gengistryggðra lána.

B.  Hæstiréttur ætlar að fjalla um túlkun á stjórnarskránni. 

C.  Ætlunin er að kveða úr um vexti lánanna.

D.  Breyta á fyrri niðurstöðu um lögmæti gengistryggingar.

E.  Breyta á fyrri niðurstöðu um vexti lánanna.

Ég verð að viðurkenna, að ég sleppti viljandi einni skýringu, sem ég hef aftur tjáð mig um í hópi félaga minna, og mér sýnist sem hún hafi verið raunin

F. Niðurstaða 5 manna dóms breytti fyrri dómum.

Samkvæmt því sem kom fram í fréttum Stöðvar 2 í kvöld, þá voru þeir þrír sem mynduðu minnihluta réttarins í dag í 5 manna dómi þegar málið var flutt í hið fyrra skipti fyrir Hæstarétti.  Miðað við að málið var flutt fyrir 7 manna dómi sl. mánudag, þ.e. fyrir þremur dögum, þá er ljóst (að mínu mati) að dómarar voru ekki að taka afstöðu í málinu á þessum rúmlega tveimur sólarhringum frá því málflutningi lauk.  Þriggja manna minnihlutinn myndaði þriggja manna meirihluti áður.

Meirihlutinn bendir á í sínu áliti að rétturinn hafi áður dæmt um ólögmæti sambærilegra lánasamninga í málum 30/2011 og 31/2011:

Þá er til þess að líta að Hæstiréttur hefur í dómum sínum 8. mars 2011 í málum nr. 30/2011 og 31/2011 tekið afstöðu til þess að lánssamningar, sem höfðu að geyma sömu skilmála og fram koma í lánssamningnum í þessu máli, hafi verið um skuldbindingar í íslenskum krónum. Samkvæmt þessu verður að líta svo á að hér sé um að ræða lán sem ákveðið var í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla.

Þeir dómar féllu 2/1, þ.e. Garðar Gíslason og Árni Kolbeinsson mynduðu meirihluta og Jón Steinar Gunnlaugsson minnihluta.  Núna mynda Garðar og Jón Steinar minnihluta ásamt Markúsi Sigurbjörnssyni.  Hvers vegna hefur Garðar skipt um skoðun?  Er það vegna þess að í málum 30/2011 og 31/2011 var ekki munnlegur málflutningur og hann fékk ekki rökstuðning lögmanns Landsbankans, eins og hann fékk núna?  Mér finnst Garðar þurfa að skýra út hvers vegna hann skiptir um skoðun.

Ljóst er að forseti réttarins, Ingibjörg Benediktsdóttir, hefur ekki getað hugsað sér að rétturinn skipti um skoðun á ekki lengri án þess að hann væri fullskipaður.  Ég veit ekki hverjir þeir tveir dómarar voru sem bættust við frá 5 manna dómnum, en ef marka á fréttir Stöðvar 2 í kvöld, þá virðast þeir hafa ráðið niðurstöðunni.

Hvaða skilaboð hefði hin niðurstaðan gefið?  Í fyrsta lagi að Hæstiréttur gæti ekki ákveðið sig, þ.e. að ekki er hægt að treysta því að rétturinn dæmi á sama hátt í sambærilegum málum.  Í öðru lagi að fyrri niðurstöður réttarins um gengistryggð lán væru ekki fordæmisgefandi fyrir sambærileg mál.  Í þriðja lagi, að fjármálafyrirtækin ættu endilega að halda áfram með sín málaferli, þar sem sannfærandi málflutningur gæti snúið dómurum.

Merkilegast við þessa niðurstöðu í dag, er að þetta snýst meira og minna um sömu málsgrein í lánasamningnum:

..um fjölmyntalán til 5 ára að jafnvirði kr. 150.000.000, - Krónur eitthundrað og fimmtíu milljónir 00/100, í neðanskráðum myntum og hlutföllum: CHF 25% JPY 15% USD 35% EUR 25%.  Fjárhæð hvers gjaldmiðils ákvarðast þó ekki fyrr en einum virkum bankadegi fyrir útborgunardag lánsins.

Meirihlutinn segir að þar sem upphæð skuldar í hverri mynt verði ekki ákveðinn fyrr en síðar, þá sé augljóslega um ólöglega gengisbindingu að ræða, en minnihlutinn segir að þar sem tiltekið sé að um fjölmyntalán sé að ræða sé augljóslega um löglegt lán að ræða.  Báðir aðilar koma með frekari rökstuðning, en það er samt túlkunin á ofangreindum texta í lánasamningnum sem virðist skipta mestu máli.  Ég get ekki annað en spurt mig:  Hvernig er hægt að túlka ofangreinda texta á svona gjörólíkan hátt?  Spyr sá sem ekki veit.

Afleiðingarnar

Ég held að menn átti sig ekki alveg á afleiðingum dómsins.  Hér segir Hæstiréttur beint út, að öll lán þar sem höfuðstóll er tilgreindur í krónum er krónulán og ekkert annað.  Eins og rétturinn bendir á, þá gefur Landsbankinn ekki viðhlítandi skýringu á því hvers vegna upphæðin er tilgreind í krónum hafi átt að lána erlendar myntir.  Það er sem sagt ekki hægt að fela sig á bak við hlutföll, heldur verður að gefa upp upphæð í erlendri mynt til þess að um löglegt lán í erlendri mynt sé að ræða. 

Næst þarf að láta reyna á hvort lán sem sótt var um í íslenskum krónum, höfuðstóllinn er tilgreindur í erlendri mynt, en útgreiðsla og afborganir fara fram í íslenskum krónum, eru lögleg lán í erlendri mynt eða enn eitt form á gengistryggðu láni.


mbl.is Lánið ekki í erlendri mynt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilskipun frá 1798 um áritun afborgana á skuldabréf - Vaxtakvittun gildir gagnvart öllum eigendum viðskiptabréfs

Ýmislegt skemmtilegt er til í íslensku lagasafni.  Sum lög eru t.d. öðrum lífseigari og þar eru lífseigust allra lög frá 1275 Kristinréttur Árna biskups Þorlákssonar.  Í þjóðlendumálum hafa menn síðan gjarnan vitnað til Jónsbókar frá 1281.  Um ferminguna eða "uppvaxandi upgdómsins confirmation" er getið í konungstilskipun frá 1736 og aftur í tilskipun frá 1759.  Allt er þetta mismikilvægt og þannig á líka við um tilskipun frá 9. febrúar 1798 um áritun afborgana á skuldabréf.

Tilskipunin er frekar stutt, þannig að ég ætla bara að birta hana hér í heild:

1. gr. Eins og það er skylda lánardrottins, þegar skuldunautur borgar allan höfuðstól skuldabréfs, að skila honum aftur bréfinu með áritaðri kvittun, eins á hann, þegar nokkuð er afborgað af höfuðstólnum, að hafa við höndina frumrit skuldabréfsins, og vera skyldur til, í nærveru skuldunauts eða umboðsmanns hans, að rita bæði á bréfið sjálft það, er afborgað er, og að gefa auk þess sérstaka kvittun fyrir því.

Ef lánardrottinn skorast undan að gera þetta, þá er skuldunaut (sem vottfast býður fram afborgun þá, er greiða skyldi) heimilt að fresta afborguninni, þangað til lánardrottinn gegnir fyrrgreindri skyldu sinni; og er skuldunaut eigi skylt, meðan svo stendur, að svara vöxtum af þeim hluta höfuðstólsins, sem í gjalddaga var fallinn og boðinn var fram.

2. gr. Kvittanir á lausu blaði fyrir afborgunum af höfuðstól, er skuldabréf er fyrir, skulu, ef afborganirnar eru eigi einnig ritaðar á skuldabréfið sjálft, aðeins hafa gildi gagnvart þeim, sem gaf þær út, en eigi teljast gildar gagnvart öðrum, sem fyrir veðsetningu, framsal eða á annan löglegan hátt eru orðnir réttmætir handhafar skuldabréfsins.

3. gr. Þó má vaxtagreiðsla vera undanþegin þessum fyrirmælum, og sérstakar kvittanir fyrir vöxtum vera fullgildar, eigi aðeins gagnvart þeim, er út gaf kvittunina, heldur og gagnvart hverjum öðrum, sem skuldabréfið hefir síðar verið selt í hendur að veði eða til eignar.

Árita skal afborgun á frumrit skuldabréfs

Tilskipunin lýsir því að árita eigi afborganir á skuldabréf til sönnunar því að afborgun hafi átt sér stað.  Hafi lánardrottinn ekki gert það, þá er lántaka (skuldunaut) heimilt að fresta frekari afborgunum uns lánardrottinninn hefur orðið við þessu.  Það sem meira er, óheimilt er að reikna vexti vegna hinnar gjaldföllnu en ógreiddu afborgunar meðan áritun hefur ekki farið fram.

Ansi er ég hræddur um að fá fjármálafyrirtæki uppfylli ákvæði þessarar tilskipunar.  Mér er sagt að fyrir 15 árum hafi þetta verið mjög tímafrekur og mikilvægur starfsþáttur hjá útlánsfyrirtækjum, en síðan hafi þetta lagst af.  Bent hefur verið á að lög nr. 131/1997 sé hugsanleg orsök fyrir því að þessi háttur var lagður af, en í 20. gr. laganna segir m.a.:

Lokafærsla verðbréfamiðstöðvar um greiðslu afborgunar og vaxta inn á reikning til eignarskráðs rétthafa hefur sama gildi gagnvart skuldara og áritun á skuldabréf

Málið er að lögin gilda bara um "rafræna útgáfu verðbréfa og skráningu eignarréttinda yfir þeim."  Þau sem sagt gilda ekki um verðbréf sem gefin eru út á pappír.

Miðað við orðanna hljóðan í tilskipuninni frá 1798, þá geta lántakar (skuldunautar) núna labbað inn til síns viðskiptabanka og neitað að greiða næstu afborgun lána sinna þar til bankinn er búinn að árita hverja einustu undangengna afborgun á skuldabréfið sjálft og dugar þá ekki að gera það á eitthvert afrit, þetta skal gert á frumrit bréfsins.  Sé ég fyrir mér kaosinu sem yrði í bönkunum, ef lánþegar ætla að krefjast þessa af bankanum sínum.  Nú dugir ekki fyrir löggjafann að hlaupa til og breyta þessu, þar sem lög geta ekki verið afturvirk.  (Asni er ég.  Þegar kemur að því að bjarga fjármálafyrirtækjum úr klemmu, þá er hægt að setja afturvirk lög.  En þegar bjarga á almúganum, þá er það brot á rétti ímyndaðra "erlendra kröfuhafa".)

Kvittun fyrir vöxtum telst fullgild gagnvart öllum

En þetta er nú ekki stærsta málið í þessari ágætu tilskipun.  Í grein 2 og 3 segir nefnilega að kvittanir á lausum blöðum hafi ekkert gildi nema fyrir þann sem gaf þær út nema að þær séu fyrir vöxtum.  Þannig "má vaxtagreiðsla vera undanþegin þessum fyrirmælum, og sérstakar kvittanir fyrir vöxtum vera fullgildar, eigi aðeins gagnvart þeim, er út gaf kvittunina, heldur og gagnvart hverjum öðrum, sem skuldabréfið hefir síðar verið selt í hendur að veði eða til eignar".

Nú er ég ekki löglærður, en þarna sýnist mér tilskipunin segja að kvittunin sem ég fékk fyrir vöxtunum sem ég greiddi árið 2005 af þá gengistryggða láninu mínu teljist fullgild "gagnvart hverjum öðrum, sem skuldabréfið hefir síðar verið selt í hendur að veði eða til eignar".  Þ.e. bankinn með nýju kennitöluna sem fékk fyrirmæli frá Fjármálaeftirlitinu að taka við láninu mínu, hann getur ekki innheimt aðra vexti aftur í tímann en þá sem ég hef greitt, hafi ég í höndunum kvittun á lausu blaði um að greiðslan hafi átt sér stað.  Eins gott að maður hafi kvittanirnar við höndina.

Krefjumst þess að fjármálafyrirtæki fari að lögum

Ég held að kominn sé tími til að fjármálafyrirtækin fari að lögum.  Þau komust upp með það í 9 ár að brjóta gegn lögum nr. 38/2001 um vexti og verðbætur.  Í hátt í 15 ár hafa þau líklega brotið gegn tilskipuninni frá 1798 vegna þess að þau tóku að sér að túlka lög nr. 131/1997 frjálslega sér í hag.  Nú ætla sum þeirra (tek fram að þau sem ekki lánuðu gengistryggt eru saklaus) að rukka stóran hluta heimila um nýja vexti þrátt fyrir að tilskipunin frá 1798 segi að kvittun sem send hafi verið af fjármálafyrirtækinu teljist fullgild þó svo að skuldabréfið hafi komist í eigu annarra eftir að vaxtagreiðslan átti sér stað.

Ég er búinn að eiga í bréfaskiptum við eina af nýju kennitölunum og bent þeim á, að vilji þeir rukka mig um vexti aftur í tímann, þá hafi ég staðið í skilum við hrunbankann og verið í skilum þegar nýja kennitalan eignaðist lánin mín.  Þeir blésu náttúrulega á það eins og afmæliskerti, en svo virðist sem illa gangi að slökkva á kertinu.  Líklegast svona trixkerti.  En svo virðist sem tilskipunin frá 1798 komi mér til hjálpar.  Kvittanirnar sem ég hef fyrir vöxtunum frá maí 2004 til október 2008 teljast fullgild (og þar með fullnaðar-) kvittun fyrir vaxtagreiðslunni.  Eigandi skuldabréf getur ekki, þó ekki sé sá sami og tók við vaxtagreiðslunni, krafist þess að vextir verði greiddir aftur af sama gjalddaga.

Ættu fjármálafyrirtækin að óttast innihald tilskipunarinnar frá 9. febrúar 1798?  Ja, svari nú því hver fyrir sig.  Ekki fer á milli mála að 3. gr. verður mörgum þeirra þungur baggi, svo mikið er víst.  En hvað myndi nú gerast, ef lánþegar (skuldunautar) krefjast þess að farið sé að 1. greininni.  Í hvernig málum gætu fjármálafyrirtækin þá lent?  Hvað ætli taki langan tíma að árita allar afborganir á skuldabréf til 10 ára með mánaðarlegum gjalddögum?  Það eru 120 áritanir sem þurfa að vera á bréfinu.  Líklegast búa þau til tölvuforrit til að sjá um þessar áritanir, en það þarf að sækja hvert einasta skuldabréf í hvert sinn sem greitt er af því og árita það.  Er ég hræddur um að starfsmannafjöldinn í fjármálafyrirtækjunum mundi ekki duga, ef allir lántakar nýttu sér þetta.  Ekki að ég myndi nenna því, þar sem um langan veg er að fara, 20-25 mínútur bara aðra leiðina.  Síðan myndi bætast við löng bið í bankanum, þar sem líklegast hefðu fleiri fengið þessa hugmynd.  En ég held að fjármálafyrirtækin ættu að óttast það, að lántakar krefjist að þau uppfylli ákvæði 1. gr. tilskipunar frá 1798.

Framkvæmd tilskipunarinnar prófspurning

Þegar ég var að leita upplýsinga fyrir þessa færslu, þá rakst ég á próf í viðskiptabréfaviðskiptum frá því 6. nóvember 2010.  Í C-hluta prófsins er einmitt spurning sem snýr að þessu efni, þ.e. er kvittun fyrir vöxtum fullnaðarkvittun.  Án þess að hafa svarið fyrir framan mig, þá þykist ég alveg átta mig á hvert það var.  Það var nefnilega gefið upp í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 31. október 2007, en þar segir í dómsorðum:

Þá leiða reglur um viðskiptabréf til þess að stefnda getur borið greiðslukvittun fyrir sig gagnvart stefnanda, sbr. 2. gr. tilskipunar frá 9. febrúar 1798 um áritun afborgana á skuldabréf.

Búmm, ég heyri varnir fjármálafyrirtækjanna falla, sérstaklega ef ég bæti ákvæði 3. gr. við um vextina.

(Ég vil taka það fram að Sturla Jónsson (gjarnan kallaður Sturla bílstjóri) á heiðurinn af því að rannsaka þessa tilskipun og koma með ábendinguna.)


Brandari ársins - Vilja skattleggja leiðréttingu Landsbankans!

Í fréttum Stöðvar 2 í kvöld kom fram að í fjármálaráðuneytinu væru menn að hugleiða að skattleggja viðskiptavini Landsbankans sem nýta sér ný úrræði til að létta undir með skuldaþrælum landsins.  Mikil er mannvonska Steingríms J. að geta ekki lynt fólki það að fá eitthvað af ránsfengnum til baka án þess að skattleggja endurgreiðsluna.  Eru menn ekki í lagi, spyr ég bara.  Búið er að blóðmjólka fólk með óréttmætum kröfum og þegar loksins einum banka dettur í hug að koma örlítið til móts við skuldaþrælana, þá skal í staðinn gera þá að skattaþrælum.

Ég veit að hugsjónir kommúnista í gamla daga voru ættaðar frá gömlu Sovétríkjum Stalíns, þar sem allir áttu helst að vera öreigar.  Ég hélt að þetta væri liðin tíð, en kannski er ég bara svona barnalegur.

Þegar þýfi er skilað, þá telst það ekki gjöf.  Ofteknir vextir og stökkbreyttur höfuðstóll lána vegna svika, lögbrota, blekkinga og pretta hrunbankanna er ekkert annað en þýfi og því telst það ekki gjöf þegar því er skilað.  Fjármálaráðherra með fulltingi forsætisráðherra hefur aftur staðið fyrir því að verja þjófnaðinn, þar sem með því vill hann refsa fólki fyrir að hafi hleypt honum fyrr að kjötkötlunum.  Hann hefur frekar viljað stefna skuldastöðu landsins við útlönd í hættu, en að standa með almenningi í landinu.  Hann skelfur á beinum út af ímynduðum "erlendum kröfuhöfum" og líka þeim sem hann vissi hverjir voru.  Ítrekað hefur verið sýnt fram á að ákvarðanir hans varðandi Icesave voru rangar, en nei þetta var ekki honum að kenna heldur sjálfstæðismönnum.  Honum hefur verið bent á fáránleikann í samningum við ímyndaða "erlenda kröfuhafa", en aftur var það allt sjálfstæðismönnum að kenna.  Og núna, þegar hann hefur tækifæri til að standa með fólkinu í landinu, þá getur hann ekki setið á sér að hugsa um skattlagningu.  Ætli það sé líka sjálfstæðismönnum að kenna?

Steingrími væri hollt að fara yfir æðruleysisbænina:

Guð gefi mér æðruleysi,

til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt,

kjark til að breyta því sem ég get breytt

og vit til að greina þar á milli

Það er nefnilega þetta með kjarkinn og vitið sem hefur vantað aftur og aftur hjá ráðherranum, þegar komið hefur að því að standa með fólkinu í landinu.  Ítrekað hefur komið fram að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, sem í augu flestra vinstri manna, er táknmynd mestu hægri öfgahyggju sem til er, já, meira að segja AGS, hefur viljað ganga lengra til aðstoðar skuldugum heimilum landsins, en hins svo kallaða "vinstri velferðarstjórn" Steingríms og Jóhönnu hefur viljað gera.  Nú hvet ég Steingrím til að seilast eftir þeim mikilvæga kjarki sem hann þarf að sýna til að stuðla að réttlæti í þjóðfélaginu og nýta sér það vit sem honum var fært í vöggugjöf til að finna leið til að koma á sátt í þjóðfélaginu.  Fyrsta skref í þá átt er að bera þessa vitleysu um skattlagningu til baka áður en dagur rís.


Gott að Seðlabankinn nær áttum - Hærri endurheimtur lána hækka skuldir enn meira

Morgunblaðið fjallar í dag um gjörbreyttar upplýsingar um erlendar skuldir þjóðarbúsins. Seðlabanki Íslands gaf í vikunni út ársfjórðungslegar upplýsingar um erlenda stöðu þjóðarbúsins og er óhætt að segja að heldur líti þetta verr út en áður. Í frétt...

Landnám norrænna manna og landnám annarra

Þekking nútímamannsins um landnám Íslands er byggð á tveimur ritum, þ.e. Landnámu og Íslendingabók. Báðar þessar bækur eru ritaðar á fyrri hluta tólftu aldar eða hátt í 250 árum eftir að fyrstu norrænu menn áttu að hafa numið hér land. Menn hafa hingað...

Varnarræður kröfuhafa gömlu bankanna fluttar af stjórnarliðum - Nýju bankarnir skulda ekki erlendum kröfuhöfum

Ég hef verið að hlusta á varnarræður stjórnarliða fyrir hönd kröfuhafa gömlu bankanna, en þær voru fluttar á Alþingi í morgun. Mikil er skömm þess fólks, sem tekur hagsmuni ímyndaðra kröfuhafa gjaldþrota banka umfram hagsmuni þjóðarinnar. Heldur var hún...

600 milljarðar af skuldum heimilanna við bankana vegna verðtryggingar og fleira áhugavert

Þær hrúgast inn skýrslurnar og skjölin þessa daganna, sem styðja við fullyrðingar okkar sem staðið hafa í fararbroddi í fyrir hagsmunum heimilanna eftir hrun. Rit Seðlabanka Íslands Fjármálastöðugleiki 2011-1 , sem kom út í dag, dregur þar ekkert undan...

Hvernig er hægt að afskrifa það sem ekki var fært til eignar?

Efnahags- og viðskiptaráðherra hefur svarað fyrirspurn Gunnars Braga Sveinssonar um tap [fjármála]fyrirtækja vegna gjaldþrota eða afskrifta hjá fyrirtækjum á árunum 2006 - 2010, sundurliðaða á ár og atvinnugreinar. Upplýsingarnar eru sem hér segir fyrir...

Áhugaverð úrræði hjá Landsbankanum, en hvað þýðir "smáaletrið"?

Gott er að heyra að Landsbankanum gangi svo vel að viðskiptavinirnir fái að njóta þess. Leiðirnar þrjár eru áhugaverðar, en þær eru þó settar nokkrum hindrunum/takmörkunum sem ekki allir geta komist framhjá og hugsanlega síst þeir sem mest þurfa á...

Hæstiréttur fullskipaður í endurfluttu máli

Heldur hefur farið minna en ég átti von á fyrir umræðu um fréttir Fréttablaðsins og visir.is (sjá hér og hér ) um að Hæstiréttur hafi ákveðið að mál NBI hf. (Landsbankans hf.) gegn þrotabúi Motormax ehf. skuli endurflutt fyrr fullskipuðum dómi eftir að...

Afslættir sem bankarnir fengu á lánasöfnum heimila og fyrirtækja

Enn og aftur er komin upp umræðan um hvaða afslætti nýju bankarnir fengu af lánasöfnum sem flutt voru frá hrunbönkunum. Í þetta sinn er tilefnið skýrsla fjármálaráðherra, Steingríms J. Sigfússonar, um endurreisn bankakerfisins. Óhætt er að segja að...

Enn hækka verðtryggð lán - Verðtryggingin verður að fara

Á fundi um verðtrygginguna í Háskóla Reykjavíkur fyrir réttri viku, þá sagði ég að ef fram héldi sem horfði, þá gætum við búist við yfir 10% verðbólgu á árinu. Einn fundarmaður mótmælti þessari fullyrðingu minni og benti á að verðbólgan væri bara 2,8%....

Áhugavert viðtal við Steingrím

Ég var loksins að hlusta á viðtalið við Steingrím J. Sigfússon sem tekið var við hann í þættinum Í bítið á Bylgjunni í morgun. Fyrst var rætt við Sigurjón M. Egilsson stjórnanda Sprengisands, en hann ræddi þetta í þættinum sínum sl. sunnudag. Taldi...

Magnaðar myndir Ingólfs Bruuns frá upphafi gossins - Amazing pictures from the start of the Vatnajökull eruption

Ingólfur Bruun, leiðsögumaður og lögreglumaður, var á ferð í Skaftafelli sl. laugardag og tók magnaðar myndir neðan af Skeiðarársandi af upphafi gossins. Kjartan Pétur Sigurðsson, leiðsögumaður og ljósmyndari, hefur sett þær saman í hreyfimyndir á...

Öskufall byrjað á Reykjavíkursvæðinu

Ég fæ ekki betur séð en að öskufall sé byrjað á Reykjavíkursvæðinu. Hengillinn er horfinn í kófið séð frá mínu heimili og sama gildir um hesthúsinn norðan við Suðurlandsveg. Þetta kóf er mun þéttara en í fyrra og nær hraðar yfir stærra...

Í hvaða heimi lifir Steingrímur? - Ekki mikil eignabruni hjá venjulegu fólki!

Satt best að segja, þá hef ég aldrei heyrt aðra eins fásinnu, eins og þessa fullyrðingu Steingríms J. Sigfússonar, að ekki hafi orðið mikill eignabruni hjá venjulegu fólki. Fróðlegt væri að fá að vita á hverju maðurinn byggir þessa staðhæfingu. Stór...

Gengistryggð lán voru færð niður um meira en helming við yfirfærslu til nýju bankanna

Í síðustu viku kom út skýrsla fjármálaráðherra um endurreisn íslensku bankanna . Er þetta mikil skýrsla og fróðleg lesning. Er ég kominn á nokkurn rekspöl með að lesa hana og vil hvetja alla þá sem vilja skilja hvernig þetta fór fram til að kynna sér...

Fyrirséð í mörg ár

Loksins átta bandarísk stjórnvöld sig á vanda sínum. Ekki er hægt að halda endalaust áfram að taka lán fyrir útgjöldum alríkisstjórnarinnar. Fyrir umheiminn er þetta grafalvarlegur hlutur, þar sem hökkt í bandarísk hagkerfinu getur valdið heimskreppu...

Fyrstu batamerkin - en gagnrýnt að ekki hafi verið nóg gert fyrir einkageirann

Ég hef nú ekki verið mesti aðdáandi matsfyrirtækjanna í gegn um tíðina og þetta mat breytir því ekki. Mér finnst þetta mat þó vera óvenju vel rökstutt miðað við margt sem á undan er komið og ber að fagna því. Gott er að sjá, að þegar stjórnvöld fara...

Hvað hafa dómstólar sagt um áður gengistryggð lán?

Mig langar að rifja upp helstu úrskurði dómstóla varðandi áður gengistryggð lán. Tekið skal fram að hér er ekki um túlkun mína á þessum dómum að ræða heldur bara hvað sagt er. Vitnað er í dóma Hæstaréttar í þeim tilvikum sem úrskurðir/dómar réttarins eru...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 26
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 22
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband