Leita í fréttum mbl.is

Landnám norrænna manna og landnám annarra

Þekking nútímamannsins um landnám Íslands er byggð á tveimur ritum, þ.e. Landnámu og Íslendingabók.  Báðar þessar bækur eru ritaðar á fyrri hluta tólftu aldar eða hátt í 250 árum eftir að fyrstu norrænu menn áttu að hafa numið hér land.  Menn hafa hingað til treyst þessum ritum, þar sem í ljós hefur komið að byggð hefur með sannið verið þar sem höfundar ritanna sögðu að byggð hefði verið.  Sem slík hafa ritin reynst mjög góð heimild um það sem gerðist eftir ákveðinn tíma.

Eftir að ég komst til vits og ára, þá hef ég (eins og fleiri) litið á þessi rit og önnur rit sem teljast til fornrita okkar, sem skemmtilegar sögur með sannsögulegu ívafi.  Nákvæmni þeirra er meiri eftir því sem styttra leið frá atburðum til skráningar.  Sum þeirra eru meira að segja samtímarit.  Tvö rit hafa skorið sig úr í mínum huga, þ.e. Landnáma og Íslendingabók.  Ég held að þau hafi fyrst og fremst verið skrifuð til að skjalfesta eignarrétt á löndum.  Eignarrétt norrænna manna á þeim löndum sem þeir tóku hugsanlega með ofbeldi af fyrri ábúendum.

Ég hef lengi velt fyrir mér hversu umfangsmikið landnám kelta var áður en norrænir menn komu hingað.  Voru hér bara einsetumenn eða var hér keltnesk byggð?  Hvernig ætli standi á því að stór hluti kvenna á keltneskar formæður?  Varla er ástæðan bara að norrænir menn rændu keltneskar byggðir í Skotlandi og Írlandi.  Til þess hefðu menn þurft að vera ansi duglegir við að fara í víking til þessara landa og náð að tæma margar byggðir af öllum sínum konum.  Enginn vafi er á að hér var byggð fyrir landnám norrænna manna, en spurningarnar sem standa ósvaraðar eru, hversu umfangsmikil var þessi byggð og hvað varð um þá sem hér bjuggu.

Frá tímum norræns landnáms (samkvæmt tímatali Landnámu) eru sögur af miklum fólksflutningum úr norðri í Skotlandi og eyjunum þar fyrir norðan.  Sumir fræðimenn hafa látið sér detta í hug að ástæðan sé flótti kelta frá Íslandi.  Mér finnst þetta alls ekki ósennilegt og þá að hér hafi verið blómleg byggð kelta, en þegar norrænir menn komu hafi þeir farið ránshendi um landið og drepið stóran hluta karlkynsábúenda en gert kvenfólkið að þrælum hafi fólk ekki hreinlega flúið úr landi.  Einhverjir karlmenn, þá sérstaklega ungir drengir hafi fylgt mæðrum sínum.  Það skýri fyrst og fremst hin skökku hlutföll milli formæðra kvenna og forfeðra karla.  (Fram hefur komið í erfðafræðirannsóknum að um 2/3 kvenna eiga keltneska formóður, en 3/4 karla á norrænan forföður.) 

Hafi byggð kelta verið nokkuð umfangsmikil og hér verið fjölskyldur, þá er það alveg jafngóð skýring á uppruna Íslendinga og víkingaferðir.  Hafi hér búið 5, 10 eða jafnvel 20 þúsund keltar, helmingur þeirra flúið og fjórðungur verið drepinn og fjórðungum hnepptur í þrældóm, þá skýrir það alveg jafnvel erfðafræðilegan uppruna Íslendinga og víkingaferðir.  Landnáma og Íslendingabók hefðu ekki greint frá þessu, þar sem tilgangur ritanna var, eins og áður segir, að sanna eignarrétt á landi og þar með festa í sessi ættarveldi/goðorð þjóðveldisins.  Ef þar hefði staðið að Kveld-Úlfur hefði tekið landið af Þórsteini kelta, Ingólfur hrakið Kjartan hinn írska í burtu o.s.frv., þá væri ljóst að tilkallið til landsins væri ekki eins sterkt.  Einnig væri kominn grunnur fyrir afkomendur fyrri ábúenda til að reka mál fyrir Alþingi til að heimta aftur lönd sín.  Það hefði því verið ógn við ættarveldin, ef menn hefðu skráð í þessi rit aðrar upplýsingar en þar koma fram.

Áður en menn fara að missa sig yfir vitleysunni í mér, þá eru þetta bara vangaveltur.  Eitt er alveg ljóst að hér var byggð fyrir "landnám".  Hvort sú byggð var hér vegna þess að landnám norrænna manna einfaldlega byrjaði mun fyrr eða vegna þess að hér var fyrir veruleg byggð annarra, þegar norrænir menn gerðu hér standhögg, verður líklegast ekki sannað svo óyggjandi sé.

Ég fjallaði einnig um þetta í pistlinum Við vitum vel að norrænir menn voru ekki fyrstir 13.3.2009 og urðu þá ágætar umræður í athugasemdum.

Höfundur er m.a. leiðsögumaður.


mbl.is Segir kenningum um landnám hrundið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nú þekki ég minn mann, Marinó. Eins og talað út frá mínu hjarta.

Hilmar Þór Hafsteinsson (IP-tala skráð) 4.6.2011 kl. 14:15

2 Smámynd: Þorsteinn H. Gunnarsson

Landnám afréttir þjóðlendur

Á Landnámsöld giltu ákveðnar reglur  hvernig menn helguðu sér land í byggð og af þeim reglum spruttu landamerki bújarða. Formreglur sem lutu að helgun annars lands til eignar voru aldrei í lög leidd á þjóðveldisöld. Sú venja skapaðist snemma að bændur ráku fé til heiða. Þessi lönd voru kölluð víðlend heimalönd, afréttir og almenningar. Með Hæstaréttardómi um Landmannaafrétt nr.199/1978  þar sem ríkisvaldið krafðist viðurkenningar á eignarrétti á landi og landsnytjum var komist að þeirri niðurstöðu að enginn ætti landið en bændur ættu óskoraðan beitarrétt á þessum afrétti og kallast það afréttarnot. Það má segja að Hæstiréttur hafi með dómi þessum kallað efir lagasetningu um eignarhald á afréttum og almenningum eða eins og segir í dómnum:  “Hinsvegar verður að telja, að handhafar ríkisvalds, sem til þess eru bærir, geti í skjóli valdheimilda sinna sett reglur um meðferð og nýtingu landssvæðis þess sem hér er um að ræða”. Upp úr þeirri umræðu eru þjóðlendulögin sett, lög nr.58 1998. Þjóðlenda er landsvæði utan eignarlanda sem íslenska ríkið á, þó einstaklingar eða lögaðilar eigi þar takmörkuð eignarréttindi t. d. beitarréttindi. Nú, á okkar tímum er verið að úrskurða um hvar mörk eignarlanda liggja og hvar þjóðlendna. Þegar því er lokið má raunverulega halda því fram að landnámi sé lokið. Forsætisráðuneytið ræður yfir þjóðlendum. Afrétt getur legið innan þjóðlendu.

Þorsteinn H. Gunnarsson, 4.6.2011 kl. 18:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 40
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 39
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband