Leita í fréttum mbl.is

Varnarræður kröfuhafa gömlu bankanna fluttar af stjórnarliðum - Nýju bankarnir skulda ekki erlendum kröfuhöfum

Ég hef verið að hlusta á varnarræður stjórnarliða fyrir hönd kröfuhafa gömlu bankanna, en þær voru fluttar á Alþingi í morgun.  Mikil er skömm þess fólks, sem tekur hagsmuni ímyndaðra kröfuhafa gjaldþrota banka umfram hagsmuni þjóðarinnar. Heldur var hún lítilsigld afsökunin að kröfuhafar eigi meiri rétt en svipubarinn almenningur.  Þetta heitir að selja sál sína skrattanum.

Steingrímur J. Sigfússon sagði að aldrei hefði staðið til að afslættir sem nýju bankarnir hafi fengið af lánasöfnum færðum frá gömlu bönkunum rynnu til lántaka.  Nei, það átti að rukka innlenda aðila upp í topp vegna lána sem stökkbreyttust vegna svika, lögbrota og pretta stjórnenda og eigenda hrunbankanna í undanfara hrunsins.  Meðan hver uppljóstrunin á fætur annarri kemur fram þar sem lýst er döpru viðskiptasiðferði, lögbrotum, sýndarviðskipti með hlutabréf, lánaviðskiptum án trygginga til vildarvina o.s.frv. þá telur fjármálaráðherra sjálfsagt að almenningur og fyrirtæki greiði innheimtukröfur upp í topp.  Í hvaða heimi býr maðurinn?

Ekki var skárra að hlusta á Árna Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra.  Hann hefur snúist eins og vindhani í breytilegri átt í málflutningi sínum síðustu tvö ár.  Núna á allt í einu Íbúðalánasjóður ekki tilverurétt ef hann getur ekki veitt sömu úrræði og banki sem fékk 47% afslátt af lánasöfnum sínum og er ennþá að rembast við að innheimta lánin langt umfram bókfært virði þeirra.  Bankinn sem keypti verðlaus skuldabréf út úr peningamarkaðssjóðum fyrir ríflega 40 ma.kr. í október, nóvember eða desember 2008, en segist hafa afskrifað 22,5 ma.kr. af lánum viðskiptavina sinna frá október 2008 til desember 2010 (samkvæmt upplýsingum úr ársreikningum bankans).  Hverjum ætli bankinn hafi verið að hygla?

Ég nenni ekki að elta ólar við málflutning annarra stjórnarliða.  Hann dæmir sig sjálfur.  Ég verð þó að dást af hæfni Steingríms til að svara ekki því sem hann er spurður af.  Fáir íslenskir stjórnmálamenn kunna þá list betur nema kannski Jóhanna.  - Meira neðar.

Erlendir kröfuhafar

Þingmönnum var tíðrætt um erlenda kröfuhafa og einhvern veginn virtist allt snúast um þá.  Hverjir eru þessir erlendu kröfuhafar og hvaða rétt eiga þeir?  Í fyrsta lagi eru engir erlendir kröfuhafar hvað varðar hina endurreistu banka.  Kröfuhafar Íslandsbanka, Landsbankans og Arion banka eru ekki erlendir.  Kröfuhafar nýju bankanna eru fyrst og fremst a) innstæðueigendur og b) gömlu bankarnir.  Erlendir kröfuhafar hafa bara óbeint með nýju bankana að gera.  Þess vegna skiptir nákvæmlega engu máli hverjir þeir eru og ætla ég ekki að eyða meiri tíma í þá.  Ég vona að þingmenn átti sig á þessu og hætti að láta eitthvað sem skiptir engum máli trufla sig.  Við þurfum nauðsynlega að þingheimur einbeiti sér að því sem skiptir samfélagið máli, þ.e. endurreisn heimila og fyrirtækja landsins.

Höfum eitt alveg áhreinu:  Nýju bankarnir tóku við lánasöfnum sem höfðu verið afskrifuð í gömlu bönkunum.  Þeir tóku ekki við lánasöfnunum á kröfuvirði og færðu þau niður.  Nei, lánin voru afskrifuð/færð niður í gömlu bönkunum.  Skuldir nýju bankanna eru samkvæmt ársreikningum þeirra, sem hér segir:

Íslandsbanki

_slandsbanki_skuldir_1088222.jpg

Landsbankinn

landsbankinn_skuldir.jpg

Arion banki

arion_banki_skuldir.jpg

Fremri dálkurinn er alltaf 2010 og sá aftari 2009.

Takið eftir því að engir erlendir kröfuhafar eru nefndir hjá neinum þeirra.  Þetta eru fyrst og fremst innstæðueigendur og síðan margir lágir liðir.  Hvar eru þessir erlendu kröfuhafar sem Steingrímur er að tala um?

Sé síðan skoðað (eins og ég gerði í síðustu færslu) hvert verðmat útlánanna er, þá kemur hvergi fram að á bókum bankanna séu önnur lán en nemur hinum afskrifaða hluta lánasafna gömlu bankanna.

Íslandsbanki

_slandsbanki_skyring_34.jpg

Landsbankinn

landsbankinn_skyring_57.jpg 

Arion banki

arion_banki_skuldir_-_skyring_71.jpg

Erlendir kröfuhafar skipta sér að þrotabúum hrunbankanna.  Skiptastjórnir hrunbankanna eiga að sjá til þess að fá sanngjarnt verð fyrir eignir þrotabúanna.  Ekkert er óeðlilegt við að lánasöfn séu seld til nýju bankanna með einhverjum vikmörkum, en þá eiga þeir að gefa þessi vikmörk upp í ársreikningum sínum.  Það hafa þeir ekki gert.  Mér finnst það aftur frekja, ósvífni og ótrúlegir lélegir viðskiptahættir, að kaupa lánasöfn sem þegar hafa verið færð mikið niður af fyrri eiganda og innheimta þau eins og sú aðgerð hafi ekki átt sér stað.  Ég get samþykkt að bankarnir leggi einhver 10-15% ofan á til að eiga fyrir óvæntum áföllum, en ekki 80-100% og þaðan af meira. 

Mér finnst ljóst að Íslandsbanki, Arion banki og Landsbankinn séu búnir að átta sig á því að stærsti hluti viðskiptavina þeirra muni ekki eiga framtíðarviðskipti við bankana og því sé hægt að koma fram við þá eins og bönkunum sýnist.  Landsbankinn er örlítið að sýna lit, en fyrir marga er þetta full lítið og allt of seint.  Líklegast treysta bankarnir á hina gamalkunnu meðvirkni þjóðarinnar, að þangað sækir klárinn sem hann er kvaldastur.

Stjórnmálamenn í djúpum skít

Stjórnmálamenn landsins treysta bæði á gullfiskaminni landsmanna og að frekar leiti kjósendur þangað sem þeir þekkja vitleysuna en að treysta nýju einstaklingum/flokkum.  Mér fannst málflutningur Sjálfstæðismanna ekkert svakalega sannfærandi í dag.  Stjórnarliðar vöruðust að benda á hið augljósa, þ.e. yfirtöku bankanna á N1, en Steingrímur J. var oftar en einu sinni kominn með það mál fram á tungubroddinn en hætti við á síðustu stundu.  Það hefði líka afhjúpað grætilega lélegan málefnagrunn hans.  Bara til að hafa það á hreinu, þá held ég að N1 sé fórnarlamb yfirgangs bankanna og lélegra ákvarðana á árunum fyrir hrun krónunnar.  Hvað af því er hægt að skrifa á fyrrverandi eigendur og hvað á svik, blekkingar, lögbrot og pretti hrunbankanna og eigenda þeirra ætla ég ekkert að segja um.

Á flestum sviðum höfðu stjórnmálaflokkarnir endaskipti í umræðunni í dag.  Steingrímur varði einkavæðingu og hákarla viðskiptalífsins gegn almúganum, en Sjálfstæðismenn töluðu fyrir ríkisvæðingu og velferðarkerfinu.  Öðru vísi mér áður brá.  Steingrímur þolir öllum að segja sannleikann nema Hreyfingunni og Lilju Mósesdóttur.  Hann bandar frá sér orðum Sjálfstæðismanna og Framsóknar, en þegar þau þrjú, sem hafa líklegast verið hvað einörðust ásamt Eygló Harðardóttur í að segja hlutina umbúðalaust, koma með aðfinnslur þá taka sig upp gömul stjórnarandstöðusærindi hjá karlinum og hann missir lúkkið.

Þingmenn Samfylkingarinnar sýndu það og sönnuðu í dag, að þeir eru búnir að selja skrattanum sál sína.  Hvernig hver þingmaðurinn á fætur öðrum gat komið upp og varið það að stjórnvöld hafi ekki staðið á rétti heimilanna og fyrirtækja í landinu, það skil ég ekki.  Líklegast er þetta þessi sósíalismi andskotans sem Árni Páll var að tala um a.m.k. er sósíaldemókrataflokkur Íslands farinn að iðka einhvern þann furðulegasta sósíalisma sem ég hef orðið vitni að.  Andsvar Magnúsar Orra var hreinlega vandræðalegt og ennþá vandræðalegra var að helsti talsmaður almúgans hér fyrr á árum, Jóhanna Sigurðardóttir, lét ekki sjá sig, a.m.k. sá ég hana ekki í útsendingunni.  Eini af gömlu flokkunum sem stendur nokkuð fastur á sínu er Framsókn, enda stækkaði hann í dag um einn þingmann, þó honum gangi brösulega að efla fylgið.


mbl.is Þrekvirki við endurreisn banka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég verð bara að vekja athygli á greinargerð fjármálaráðuneytisins um skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn bankanna.  Þar segir í töluliði 5: 

Viðskiptabankar munu veita einstaklingum meiri afslátt af lánum þeirra en samið var um við yfirfærsluna en aukin verðmæti fyrirtækjalána munu bera það uppi.

Mikið þætti mér gott ef þetta yrði að veruleika.

Marinó G. Njálsson, 1.6.2011 kl. 23:53

2 identicon

Takk fyrir afar góða grein. Er ekki komin tími til að þegnar landssins fari að stand upp og fjarlæga þetta lið.  

Bragi (IP-tala skráð) 2.6.2011 kl. 00:03

3 Smámynd: Sigurður Hrellir

Steingrímur virtist rígmontinn yfir því að hafa sparað ríkinu stórar upphæðir við endurreisn bankakerfisins. Ef það væri eitthvað eftir af hugsjónum í kollinum á þessari aflóga gungu og druslu væri líklegast einhver eðlismunur á nýja bankakerfinu og því gamla. Svo er því miður ekki.

Og ef "sparnaðurinn" er til kominn með því að gefa út veiðileyfi á skuldugar fjölskyldur þá væri líklegast á sama hátt hægt að spara stórar upphæðir í heilbrigðiskerfinu með því að senda fórnarlömbum drukkinna ökumanna og ofbeldismanna reikninginn.

Sigurður Hrellir, 2.6.2011 kl. 01:12

4 identicon

flottur pistill Marinó þetta er ömurlegt lið og 0rðið lífsnauðsinlegt að losna við það, með öllum tiltækum ráðum.

magnús steinar (IP-tala skráð) 2.6.2011 kl. 09:52

5 Smámynd: Hrannar Baldursson

Merkilegt Marinó hvernig við endum alltaf á sama stað þrátt fyrir ólíka nálgun og sjónarhorn: Hefur þú viðurkennt ósigur þinn gagnvart stjórnmálakerfinu?

Hrannar Baldursson, 2.6.2011 kl. 10:18

6 identicon

Ég er samt soldið uggandi yfir þessari málsgrein að fyrirtæki eigi að bera uppi leiðréttingar einstaklinga. Nú eru flest fyrirtæki á Íslandi lítil og meðalstór. Flest þessi fyrirtæki eru rekin með fórnfýsi eigenda sem fá aldrei til baka það sem lagt hefur verið á sig til að framfleyta sér og öðru starfsfólki. Það eru tugþúsindir starfa í húfi og allt er þetta háð geðþótta starfmanna kröfunhafa í bönkunum sem ætla að fara áfram með ofbeldi hvað sem það kostar. Nú liggur fyrir að flest fyrirtæki voru með lán í erlendri mynt, bæði húsnæði, vélar, tæki ofl. Nú er búið að dæma þessi lán ólögleg í héraði og veit ég að margir bíða með von í brjósti um að hæstiréttur staðfesti þetta sem mér finnst vera mun meiri líkur en minni að gerist. Þurfum ekki að horfa langt til að sjá þessi lán lúta sömu lögmálum og önnur.

Mér finnst að umræðan um fyrirtæki hafa farið soldið leynt og undir því fyrirtæki eru ekki bara fyrirtæki ef við einföldum þetta mjög. Skuldaúrlausn fyrirtækja eins og Húsasmiðjunnar eða Vodafone er ekki það sama og 5-10 manna fyrirtæki í iðnaði eða þjónustu þar sem fólk hefur lagt allt undir og sér fram á að bankinn ætli að hirða allt, jafnvel í bullandi órétti.

Bara svona létt innlegg í þessa umræðu og finnst mér frábært að lesa pistlana hjá þér Marinó. Ég held hreinlega að bankarnir, sérstaklega Arion og ÍSB verði aldrei til í sanngjarna samninga við fólk eða fyrirtæki. Þess vegna er kannski eina úrræðið að fólk taki sig hreinlega saman og fari í greiðluverkföll til að fá þá að samningaborðinu. Kannski barnaleg nálgun en hingað til hafa lög eða reglur ekki skipt neinu máli í þessu hvað bankana varðar. Þeir gera bara það sem þeim sýnist.

Hynur Guðlaugsson (IP-tala skráð) 2.6.2011 kl. 12:39

7 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Vandamálið er að fáir aðrir en Marínó berjast með jafn sterkum rökum fyrir hagsmunum heimilanna. Raddir annarra eru lágværarari með þeirri undantekningu að Hagmunasamtök heimilanna reyna hvað þau geta.

Hins vegar er öllum þeim sem standa í þessu gegn bönkunum afar mislagðar hendur. Framsetning t.d. Marínós á sláandi efni er þess eðlis að hún ratar sjaldnast í fjölmiðla enda virðist sem svo að blaða- og fréttamenn nenni sjaldnast að lesa stórar skýrslur. Og vissulega ber blogg Marínós þess merki að vera stórar skýrslur en því miður án efnisyfirlits og niðurstöðu. Þetta er afskaplega slæmt því það sem hann hefur fram að færa virðist í mörgum tilfellum varpa ljósi á nærri glæpsamlega stjórnsýslu í ráðuneytum og bönkum. Samantektir vantar algjörlega en það er grundvöllur árangurs.

Og bankarnir fara sínu fram hvað sem hver segir. Þeir skáka í því skjólinu að fáir virðast fylgjast með gagnrýninni og í raun hafa þeir fullar hendur fjár og geta kaffært hvern þann sem virðist vera ósáttur. Og við, þessir sem stöndum agndofa á hliðarlínunni, gerum ekkert. Og hvað ættum við svo sem að gera annað en að skipta við bankanna. Þeim geyma sparnað okkar og launareikninga. Og vei þeim sem rífur kjaft. Hefnd bankanna sker inn að beini.

Verst er þó að ríkisstjórnin hefur tekið afstöðu með bönkunum og lætur sem málið sé fyrir löngu útkljáð fyrir hönd heimilanna. Forsætisráðherra og fjármálaráðherra hafa sagt að þau hafi klárað málefni heimilanna, ekkert frekar sé hægt að gera. Þið munið þetta með „svigrúmið“ ...

Stjórnarandstaðan á þingi virðist leggja áherslu á allt önnur mál heldur en þessi. Henni er þó vorkun því málefni á vettvangi stjórnmálanna breystast stöðugt. Jafnvel atvinnuleysið er ekki rætt lengur.

Spái því að raddir Marínós, Hagsmunasamtakanna og annarra hjaðni smám saman. Ástæðan er fyrst og fremst sú að ríkisstjórnin reynir að fela mistök sín með því að færa umræðuna að óskyldum málum, t.d. aðildinni að Nató, stjórnlagaráði, kvótakerfinu og álíka málum sem hafa ekkert með buddupólitík landsmanna að gera. Og gullfiskaminni okkar, almennra borgara, gerir það að verkum að ríkisstjórnin kemst upp með þetta.

Því miður ... ekkert mun breytast með sama áframhaldi.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 2.6.2011 kl. 15:16

8 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Sigurður, vissulega munu raddir þeirra sem hafa barist hvað lengst hjaðna að lokum.  Ég er t.d. hættur að hafa efni á því tekjulega að setja eins mikinn tíma í þetta og áður.  En það kemur maður í manns stað.  Baráttan fyrir leiðréttingu gengistryggðra lána er langt komin.  Segja má að hálfur sigur hafi þegar unnist og fyrir suma hefur sá hálfi sigur skipt sköpum.  Fyrir aðra skiptir hann engu, þar sem þeir eru með verðtryggð lán.  Sá slagur verður fyrir framtíðina, þ.e. að koma í veg fyrir að í boði verði verðtryggð lán til almennra neytenda.  Slíkt tíðkast hvergi í því mæli sem hér er og þó eru mörg lönd í heiminum með minni fjármálastöðugleika en við.

Varðandi þetta með efnisyfirlitið og niðurlagsorðin, þá kemur það í bókinni hvenær sem hún kemur

Marinó G. Njálsson, 2.6.2011 kl. 15:51

9 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Hlynur, ég get tekið undir þetta með þér, þar sem þau eru mörg hver ekki aflögufær.  Síðan gleyma menn einu.  Lánasöfn fyrirtækja voru tekin yfir með allt að 65-70% afslætti.  Fyrir flest þeirra er það veruleg búbót (og raunar heimilin líka) að fá 35-40% niðurfærslu skuldanna.  Því ekki að byrja á þessu og síðan skoða þá sem þurfa meira?

Marinó G. Njálsson, 2.6.2011 kl. 15:55

10 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Mér finnst það villandi og hreinlega rangur málflutningur, hvaðan sem hann kemur, að tala um gjaldþrota banka og þrotabú hinna gömlu banka. Staðreynd málsins er að enginn hinna gömlu banka, Glitnir, Kaupþing eða Landsbankinn er í, eða hefur lokið, gjaldþrotaskiptum. Þeir eru allir í fullum rekstri, með gild starfsleyfi fjármálafyrirtækis frá Fjármálaeftirlitinu, en eru í slitameðferð. Skv. 103.gr.a laga um fjármálafyrirtæki lýkur slitameðferð á tvo vegu. Annars vegar með því að:

"1. að láta fyrirtækið aftur í hendur hluthafa eða stofnfjáreigenda ......, eða

2. að greiða hluthöfum eða stofnfjáreigendum út eignarhlut þeirra af eftirstöðvum eigna séu þær einhverjar...."

Þá segir ennfremur að: "Nægi eignir fjármálafyrirtækis ekki til fullrar greiðslu krafna sem ekki hefur endanlega verið hafnað við slitameðferð getur slitastjórn þegar hún telur tímabært leitað nauðasamnings til að ljúka henni."

Og um árangurslausa nauðasamninga: "Nú liggur fyrir að eignir fjármálafyrirtækis nægi ekki til að standa að fullu við skuldbindingar þess og slitastjórn telur sýnt að ekki verði forsendur til að leita nauðasamnings skv. 3. mgr. eða frumvarp að honum hefur ekki fengist samþykkt eða hafnað hefur verið kröfu um staðfestingu hans og skal þá slitastjórn krefjast þess fyrir héraðsdómi, þar sem hún var skipuð til starfa, að bú fyrirtækisins verði tekið til gjaldþrotaskipta."

Gjaldþrotameðferð hefst því ekki fyrr en að slitameðferð lokinni og þá því aðeins að eignir fjármálafyrirtækis nægi ekki til að standa að fullu við skuldbindingar þess og slitastjórn telur sýnt að ekki verði forsendur til að leita nauðasamnings eða staðfestingu hans hefur verið hafnað af kröfuhöfum.

Hlutverk skilanefnda er að hámarka virði eigna bankanna, og þar inni eru nýju bankarnir. Það er því ekkert skrýtið að innheimta eigi lánin að fullu, það er jú hlutverk stjórnenda bankanna, skilanefndanna, að gera svo.

En af hverju þurftum við 3 nýja banka en ekki 1 "stóran" banka til taka við innlánum og "góðu" lánunum? Var það hugsanlega til þess eins að geta afhent nýju bankanna forverum sínum til eignar eins og var gert, til að hámarka endurheimtur eigna gömlu bankanna?

Ég bið þig um að leiðrétta mig Marinó, ef ég fer rangt með, en sá ekki í fljótu bragði í rannsóknarskýrslu Alþingis (20.kafla) að ríkið hefði lokið yfirtöku 75% hlutafé Glitnis og þess síður að það hefði eignast hlutafé Kaupþings eða Landsbanka. Spurningin er því hver á gömlu bankana í raun? Eru það kröfuhafar sem keyptu kröfur á hrakvirði; ríkið sem lagði engum þeirra til aukið hlutafé; eða bara sömu hlutafjáreigendur og fyrir hrun?

Ég tel líkur á að í fyllingu tímans, þegar nýju bankarnir verða orðnir nægjanlega sterkir (væntanlega að mati skilanefndanna), verði möguleiki á að sameina þá forverum sínum, og núverandi eigendum gömlu bönkunum (líklega að undanskildum Landsbönkunum báðum eins og er). Þar með fari gömlu bankarnir aldrei í gjaldþrotaskipti og eigendur þeirra fái þá aftur. Og þess vegna verðum við að fara fá þeirri spurningu svarað hver á gömlu bankana!

Erlingur Alfreð Jónsson, 2.6.2011 kl. 16:54

11 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Erlingur, þeir eru í slitameðferð, þannig að þeir eru þrotabú.  Bankar fara ekki í gjaldþrot heldur er þeim slitið.

Marinó G. Njálsson, 2.6.2011 kl. 17:14

12 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Jaaa....mér sýnist þá þarna aðallega verið að leika sér með hugtök; slit vs gjaldþrot. Og ef bankar fara ekki í gjaldþrot þá er skilanefnd Landsbankans með rangar upplýsingar á heimasíðu sinni hér:

http://lbi.is/Heim/Slitaferli/Lok-slitamedferdar/

Annars er athyglisverð þversögn í texta 1.mgr. 101.gr. og 5.mgr.103.gr.a á hvað gjaldþrotaskipti varðar:

"[101. gr.]1) [Skilyrði og upphaf slitameðferðar.

Bú fjármálafyrirtækis verður ekki tekið til gjaldþrotaskipta eftir almennum reglum."

Sé svo kíkt á á 5.mgr. 103.gr.a.: "........Um gjaldþrotaskiptin fer annars eftir almennum reglum að öðru leyti en því að ákvæði 2. mgr. 103. gr. gilda þar að breyttu breytanda,......"

2.mgr. 103 gr.: "Slitastjórn skal hafa að markmiði að fá sem mest fyrir eignir fjármálafyrirtækis, þar á meðal með því að bíða eftir þörfum efndatíma á útistandandi kröfum....."

Ég veit ekki hvað ég er að misskilja í þessum texta.

Ég set hér aftur tilvitnun í 103.gr.a:

"Hafi slitastjórn lokið greiðslu allra viðurkenndra krafna á hendur fjármálafyrirtæki og eftir atvikum tekið frá fé til greiðslu krafna sem ágreiningur stendur um og komið eignum þess eftir þörfum í verð lýkur hún slitameðferð með því annaðhvort:

1. að láta fyrirtækið aftur í hendur hluthafa eða stofnfjáreigenda ef fundur þeirra sem slitastjórn hefur boðað til hefur samþykkt með atkvæðum þeirra sem ráða yfir að minnsta kosti 2/3 hlutum hlutafjár eða stofnfjár að fyrirtækið taki upp starfsemi á ný og kjörin hefur verið ný stjórn til að taka við því úr höndum slitastjórnar, enda hafi Fjármálaeftirlitið veitt samþykki sitt til þess og fyrirtækið fullnægir öðrum skilyrðum laga til að hefja aftur starfsemi,....."

Spyr svo bara aftur: Hver á gömlu bankana? Eru þeir nú orðnir fé án hirðis?

Sannað til, þess um bönkum verður ekki slitið heldur verða þessir bankar sameinaðir í fyllingu tímans: Glitnir+Íslandsbanki og Kaupþing+Arion banki og hljómsveitin kemur úr pásu. Landsbankarnir eru olnbogabörn og örlög þeirra er óvissa að sinni.

Erlingur Alfreð Jónsson, 2.6.2011 kl. 18:12

13 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Erlingur, hvaða máli skiptir hvaða orð eru notuð ef við skiljum hvaða merkingu þau hafa?

Marinó G. Njálsson, 2.6.2011 kl. 18:16

14 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Nákvæmlega.....lest þú þá eitthvað annað úr þeim lagagreinum sem ég hef vísað til? Eða lastu þær kannski ekki yfir?

Erlingur Alfreð Jónsson, 2.6.2011 kl. 19:14

15 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Ég tel að þessir þingmenn flestir sem vörðu kröfuhafa bankana fyrir almúganum í gær skilji málið einfaldlega ekki. Steingrímur er ekki svona góður leikari hann virkilega trúi því að hann hafi orðið að selja nýjubankana á hrakvirði til þess að " bjarga" ríkissjóði.

Guðmundur Jónsson, 2.6.2011 kl. 22:20

16 identicon

Ályktun á vefsíðu Heimilin.is um nýjasta útspil Landsbankans, er þetta m.a. raunveruleikinn að búast megi við enn meiri veikingu hrun-kr. Ég sem hélt að lægi kylli flöt á botni kistunar í síðustu andarslitunum

"Mikilvægt er að benda á, að þær úrlausnir sem Landsbankinn hefur kynnt koma honum sjálfum mest til góða, og er um að ræða hagræðingu í verkferlum bankans auk þess sem eitraðar eignir hans eru afskrifaðar. Einnig má gera ráð fyrir að bankinn sé að búa sig undir stórhækkaða verðbólgu þegar líða tekur á árið vegna nýrra kjarasamninga og veikingar krónunnar.  Þannig má ætla að bankinn sé að reyna koma í veg fyrir stórkostlega greiðsluerfiðleika næsta vetur vegna einhliða verðtryggingar á lánsfé."

Kristinn M (IP-tala skráð) 3.6.2011 kl. 14:26

17 Smámynd: Andrea J. Ólafsdóttir

 Alltaf góður Marinó :)

Ég get staðfest það að Jóhanna var ekki í salnum því ég mætti á pallana til að hlusta á leikhús fáránleikans. 

Andrea J. Ólafsdóttir, 6.6.2011 kl. 15:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 1678129

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband