Leita í fréttum mbl.is

Skilningsleysi ofurlaunamanna á samfélagslegum ójöfnuði - Hegðun óeirðaskeggja sem minnir á tölvuleik

Forvitnilegt er að lesa ummæli þessara þriggja ofurlaunamanna um ástandið hjá almúganum í Bretlandi.  Eins og þeir hafi ekki séð svona hluti gerast áður.  Ástandið meðal minnihlutahópa í Bretlandi er og hefur verið eldfimt um mjög langt skeið.  Atvinnuleysi er umtalsvert og í sumum fjölskyldum hafa margar kynslóðir aldrei kynnst því að hafa vinnu.  Þó þessar óeirðir virðist vera sprottnar upp úr engu, þá hefur það einmitt sýnt sig í gegn um tíðina að oft veldur lítill neisti miklu báli.  Í Grikklandi fór allt í bál og brand eftir að lögregluþjónn banaði af slysni ungum dreng.  Í Bandaríkjunum hefur margoft gerst að lögregluofbeldi hefur komið af stað gríðarlegum óeirðum.  Bretland er svo sem ekki óvant þessu og hafa ýmsar borgir orðið mjög illa úti í gegn um tíðina.  Engu er líkar en neisti hafi hlaupið í púðrið og allt fer í háaloft.

Ég horfði á fréttir Sky í gærkvöldi og fram eftir nóttu bæði af áhuga fyrir ástandinu og vegna þess að dóttir mín er búsett í London um þessar mundir.  Meðan ég horfði á myndir frá London og Liverpool, þá datt mér helst í hug að krökkunum sem voru þarna fremst í fylkingunni þætti þetta sjálfum bara sport eða líkt og þetta væri tölvuleikur sem yrði síðan resettaður ef ekki gengi nógu vel.  Margt hafði einkenni leiksins Grand Theft Auto, sem byrjaði fyrir rúmum 20 árum sem ákaflega saklaus leikur miðað við hvernig hann hefur þróast í dag.  Fólk dregið út úr bílum sínum svo hægt sé að kveikja í þeim eða stela, handtöskur rifnar af konum, farið ofan í bakpoka hjá ungum krökkum, kastað molotovkokteilum til að kveikja í byggingum, ráðist á verslanir með nauðsynjar og raftæki.

Stjörnunar þrjár sem vitnað er í, eru hluti af ástandinu, þó þær skilji það ekki.  Ég hef fylgst í mörg ár með umræðum á spjallborði eins úrvalsdeildarliðs.  Þar hefur sífellt orðið sterkari ólund og óþol fólks fyrir ofurlaunakröfum knattspyrnumanna.  Wayne Rooney er t.d. með um 150.000 pund í laun í viku hverri.  Flestum úr hópi óeirðaskeggja þætti gott að þéna það á 8 til 10 árum og mánaðarlaun Rooneys á starfsævinni.  Rio Ferdinand er með eitthvað lægri laun, en nóg til þess að hann þénar meira á mánuði en margur á starfsævinni.  Joey Barton er síðan hálfdrættingur miðað við Rooney, en samt eru vikutekjur hann svo ótrúlegar að velmenntaður sérfræðingur er varla að ná þeim á einu ári.

Allt byrjaði í Tottenhamhverfi sem er jú hverfi Tottenhamliðsins.  Þar hafa "hógvær" laun knattspyrnumanna einmitt verið að víkja fyrir ofurlaunum.  Nágrannarnir eru Arsenal, þar sem 90.000 pund á viku þykja víst ekki mannsæmandi laun, og jafnvel litlu liðin í úrvalsdeildinni verða að fara að bjóða leikmönnum árslaun sérfræðings í vikulaun ætli þau að geta fengið þá í vinnu.  Þessi ofurlaunaþróun manna sem eltast við bolta 90 mínútur í senn er komin út fyrir öll velsæmismörk.  Hún verður til þess að félögin hækka verð aðgangsmiða, þannig að færri og færri úr hópi þeirra verr stöddu hafa efni á að sækja leiki.  Sums staðar í mið og norður Englandi eru það nánast trúariðkun að sækja leiki liðsins síns og þegar launin hrökkva ekki fyrir miðaverði, þá hrynur tilveran hjá mörgum.

Hinn gríðarlegi aðstöðumunur sem er milli hinna ríku og hinna efnaminni, virðist vera rót vandans.  Verið er að sýna þeim sem eitthvað eiga hversu brothætt staða þeirra er.  Hversu auðvelt er að kippa fótunum undan tilverunni með rétt staðsettri íkveikju eða innbroti.  Þannig var kveikt í sögufrægu húsi sem hýsti húsgagnverslun og -framleiðslu, líklegast vegna þess að fyrirtækið var svo gamalt og ekki af neinni annarri ástæðu.  Ráðist var inn á heimili aldraðrar konu sem safnaði bókum og nokkrum bókakössum stolið.  Verið er að veikja öryggistilfinningu fólks á eins andstyggilegan hátt og hægt er.  Þó þessi fórnarlömd teljist seint til aðalsins, þá virðist sem þetta fólki hafi orðið að skotmarki vegna þess að það hafði það betra en almúginn.  (Þetta er svo sem ágiskun án sönnunar.)

Þó ekkert réttlæti þau skemmdarverk og þjófnað sem á sér stað í London og fleiri borgum Englands síðustu daga, þá hefur "kerfið" alið af sér kynslóð eftir kynslóð af einstaklingum sem finna ekki hjá sér neina samfélagslega ábyrgð vegna þess að þeim finnst þeir ekki vera virtir af samfélaginu.  Þetta fólk horfir síðan upp á goðin sín, sem eru tónlistarmenn eða knattspyrnumenn, vera með himinháar tekjur sem það getur ekki einu sinni dreymt um að fá.  Þessi samfélagslegi ójöfnuður er jarðvegurinn sem nærir óánægjuna, þó hún brjótist sem betur fer ekki út nema örsjaldan í atburðum sem þessum. 

Ríkisstjórnir Verkmannaflokksins bera mesta ábyrgð á því að þetta ástand hefur myndast, þó svo að einkennin brjótist ekki út fyrr en Íhaldsmenn og Frjálslyndir eru komnir til valda.  Greinilega hefur ekki verið tekið nægilega vel á vanda hinna sem minna mega sín, hvorki með sköpun starfa eða tækifærum til menntunar.  Þó svo að Verkamannaflokkurinn eigi að teljast flokkur félagshyggju, þá er ljóst að líkt og hér á landi, þá fara ekki saman orð og gjörðir.  Verði ekki brugðist við hinum gríðarlega félagslega vanda sem er víða á Bretlandseyjum, þá má því miður búast við að óeirðir eins og þessar geti endurtekið sig reglulega.  Tryggja verður þó að þeir sem tekið hafi þátt í gripdeildum verði látnir skila því sem þeir stálu, þó ég sé þeirrar skoðunar að refsingar muni ekki leiða til sátta.


mbl.is Fótboltastjörnur áhyggjufullar vegna óeirðanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Markaðir hrynja og Vilhjálmur Egilsson hefur áhyggjur af lífeyrisþegum!

Útvarpið var með stutt viðtal við Vilhjálm Egilsson hjá Samtökum atvinnulífsins vegna óstöðugleikans á erlendum fjármálamörkuðum.  Langar mig að birta fréttina í heild eins og hún er á vef RÚV (tekið skal fram að útsenda fréttin var langri):

Bein áhrif hér á landi

Verðlækkun á hlutabréfamarkaði erlendis hefur bein áhrif á íslenska lífeyriþega því lífeyrissjóðirni hafa fjárfest um fjögurhundruð milljarða í erlendum bréfum.

Þetta segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Hann segir að verðlækkun á hlutabréfamarkaði erlendis hafi bein áhrif á réttindi lífeyrisþega á Íslandi.  Lífeyrissjóðirnir hafa fjárfest fyrir um 400 milljarða á erlendum hlutabréfamörkuðum.  

"Íslenskir lífeyrissjóðir hafa fjárfest í erlendum hlutabréfum bæði í Evrópu og Bandaríkjunum.  Verðlækkun og verðfall á erlendum hlutabréfamörkuðum hefur því mikil áhrif á Íslandi bæði á atvinnu og athafnalíf", sagði Vilhjálmur Egilsson. 

Mér finnst aðdáunarvert hvernig Vilhjálmur nær að snúa ástandinu á erlendum mörkuðum upp í hættu fyrir íslenska lífeyrissjóði.  Auðvitað hafa verðbreytingar á erlendum mörkuðum mikil áhrif á eignir lífeyrissjóðanna, en hann gleymdi alveg að nefna að áhrif dýfu dagsins á lífeyrisréttindi hér á landi eru mun minni en nær 10% veiking krónunnar á þessu ári hefur haft í hina áttina.  Þ.e. verðbólgan sem við höfum verið að upplifa undanfarna mánuði er hefur haft gríðarleg jákvæð áhrif á eignir lífeyrissjóðanna.  Í fyrsta lagi, þá er verðbólgan að mestu tilkomin vegna veikingar krónunnar, sem hefur í staðinn orðið til þess að erlendar eignir lífeyrissjóðanna hafa hækkað í krónum talið.  Í öðru lagi, þá hefur verðbólgan bætt talsverðum verðbótum á innlendar eignir lífeyrissjóðanna og ólíkt verðfallinu á erlendu eignunum, þá hverfa verðbæturnar aldrei meðan núverandi kerfi stendur óhaggað.

Þrennt finnst mér ógnvekjandi í málflutningi Vilhjáms.  

1.  Hann lætur eins og lífeyrissjóðirnir séu skammtíma fjárfestar og þeir hafi ekki þolinmæði til að standa af sér dýfu sem þá sem varð í dag.  Ef þetta ástand hefur ekki lagast fyrir lok næsta árs, þá hefði ég kannski áhyggjur, en að hafa áhyggjur á fyrsta degi taugaveiklunarniðursveiflu er veruleg taugaveiklun. Mestar líkur eru á, að ástandið komist í samt horf innan nokkurra daga, nú ef ekki þá tekur það kannski nokkrar vikur eða í versta falli 12 - 18 mánuði.  Það er út af svona dýfum sem lífeyrissjóðirnir hafa áhættustýringu á eignum sínum.  En það sem mestu máli skiptir er að lífeyrissjóðirnir eru langtíma fjárfestar og eiga hvorki né mega fara á taugum þó einhver kippur komi á markaðinn.

2.  Hann bendir á að sjóðirnir þurfi um hver áramót að gera upp stöðu sína gagnvart lífeyrisskuldbindingum og laga réttindi sjóðfélaga að þeirri stöðu.  (Kom fram í útsendu viðtali.)  Ég segi nú bara að eins gott er að svona niðursveifla komi ekki á síðustu dögum ársins, þá hefðu markaðirnir engan tíma til að leiðrétta eignastöðu íslenskra lífeyrissjóða!  Ég hef nokkrum sinnum bent á að nauðsynlegt er að lengja það tímabil sem notað er til að meta stöðu lífeyrissjóða gagnvart lífeyrisskuldbindingum.  Með því að taka, segjum 10 ára tímabil, þá stæðu sjóðunum minni ógn af stuttum sveiflur á mörkuðum og þó þær væru lengri.  Þannig hægði bæði á aukningu réttinda og líka skerðingu þeirra.

Annars sýnir þetta vel, það sem ég hef margoft bent á:  Óverðtryggðar eignir lífeyrissjóðanna eru þær sem skipta þá mestu máli.  Ekki þær verðtryggðu.

3.  Þetta er atriði sem Vilhjálmur minntist ekki á og heldur ekki fréttamaður, þó hann hefði líklegast átt að spyrja Vilhjálm að því.  Er það staða lífeyrissjóðanna sem kemur í veg fyrir að krónan styrkist?  Ef Vilhjálmur Egilsson sýnir merki taugaveiklunar vegna 3 - 6% verðdýfu á mörkuðum, hvernig ætli ástandið verði á skrifstofu Samtaka atvinnulífsins, ef krónan tæki upp á þeim óskunda að styrkjast um 20 - 30%?  Þá fyrst rýrna erlendar eignir lífeyrissjóðanna og það þó svo að erlendir markaðir væru í góðri uppsveiflu.

Ég get ekki lesið neitt annað út úr orðum Vilhjálms Egilssonar, en að hann vilji að krónan veikist í þágu lífeyrisþega.  Veikari króna gerir nefnilega stöðu lífeyrissjóðanna sterkari.  Hann vill a.m.k. ekki að krónan styrkist, því þannig gætu lífeyrisþegar staðið frammi fyrir frekari skerðingu.  Ég benti fyrst á það haustið 2008 að þá hefði verið tækifæri fyrir lífeyrissjóðina að flytja fé heim.  Meðan gengisvísitalan var í 250 eða þar um bil var tækifæri fyrir sjóðina að draga inn sín net og hirða afraksturinn.  Vandinn var tvíþættur:  Í hvað áttu peningarnir að fara og hefðu sjóðirnir tækifæri til að fara með þá úr landi aftur.  Þess vegna héldu sjóðirnir sínum erlendu eignum og verða því að taka þeim sveiflum á mörkuðum og gengi krónunnar sem kunna að verða.  Höfum líka í huga, erlendar eignir sjóðanna hafa hækkað gríðarlega frá því í ársbyrjun 2008.  Raunar má segja að það sé blessaðri krónunni að þakka, að staða lífeyrissjóðanna sé ekki ennþá verri.  Ef við hefðum verið með evru, þá hefðu erlendar eignir ekki haft jafn mikil jákvæð áhrif á eignastöðu sjóðannaog krónan gerði.  Þá hefði tap þeirra orðið mun meira og þar með skerðing lífeyrisréttinda.

Ekki get ég hrósað framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins fyrir mikla röksnilld í þessu stutta viðtali.  Hann ekki bara sýndi ótrúlegan barnaskap, að halda að verðfall í ágúst hefði áhrif á réttindi sjóðfélaga í árslok, eins og markaðirnir gætu ekki tekið við sér, heldur opinberaði hann vanþekkingu sína á þolinmæði lífeyrissjóðanna sem fjárfesta og loks voru óbeinu skilaboðin þau, að krónunni skuli ekki láta sér detta í hug að styrkjast, þar sem það gæti leitt til skerðingar lífeyisréttinda.


Saga Maríu Jónsdóttur

Fyrir réttum hálfum mánuði skrifaði ég færsluna Draga fjármálafyrirtæki samninga á langinn svo þau geti innheimt hærri vexti og kostnað? um heldur vafasamar aðferðir fjármálafyrirtækja við að draga samninga og uppgjör eins mikið á langinn og hægt er í þeim vafasama tilgangi (að mér virðist) til að geta mjólkað aðeins fleiri krónur út úr viðskiptavininum.  Í gær barst mér í hendur viðtal Guðrúnar Helgu Sigurðardóttur við Maríu Jónsdóttur í ritinu Reykjavík, þar sem María lýsir æði furðulegum samskiptum sínum við Landsbanka Íslands hf., NBI hf. og Landsbankann hf.  (Vissulega eru NBI og Landsbankinn sitthvort nafnið á sama bankanum.)

Óhætt er að segja að María fari hörðum orðum um bankann í viðtalinu, en hann hefur og vill kalla sig banka allra landsmanna og hefur sett sér siðareglur.  Mál hennar er eins ótrúlegt og hægt er að hugsa sér og getur maður ekki annað en velt því fyrir sér hvort þeir sem komið hafa að því af hálfu bankanna hafi gerst sekir um lögbrot og þá brot á 248. gr. hegningarlaga nr. 19/1940. Hinn möguleikinn er að María sé ekki að segja satt og rétt frá, en ég hef enga trú á að svo sé, þar sem hún hefur svo oft greint frá þessu máli á opnum fundum.

Örstutt yfir málavöxtu:  María átti einbýlishús sem hún seldi í ársbyrjun 2008.  Í febrúarbyrjun fékk hún greiddar út hlutagreiðslu 70 m.kr. í peningum og áttu þessir peningar að notast við uppgjör á áhvílandi lánum. Þar sem skuldir Maríu við Landsbanka Íslands hf. voru nokkrar, þá krafðist bankinn þess að peningarnir færu inn á handveðsbók og áttu þeir að geymast þar í tvo daga.  Núna eru liðnir um 42 mánuðir og uppgjörið hefur ekki átt sér stað.  Í millitíðinni hafa lánin, bæði hjá Íbúðalánasjóði og Landsbanka Íslands/NBI/Landsbankanum safnað vöxtum og kostnaði, en peningurinn sem Landsbanki Íslands hf. ákvað að færi inn á handveðsbók hefur borið almenna vexti innlánsreikninga. Bankinn hefur að sögn Maríu bakað henni miklu fjárhagslegu tjóni fyrir utan að hún varð að hætta í námi sem hún ætlaði að fara í haustið 2008.  Hefur hún, svo dæmi sé tekið, ekki getað fengið sér varanlegt húsnæði.  Nú vanskilafólk það fær helst ekki vinnu, hafi það verið utan vinnumarkaðar, þannig að tjón Maríu felst í mörgu meiru en bara að hafa ekki aðgang að peningunum sínum.

Ég ætla ekki að fara út í smáatriði í þessari sögu, en eins og ég benti á í færslu minni um daginn, þá geta það vart talist löglegir og alveg örugglega ekki siðlegir viðskiptahættir að halda viðskiptavinum sínum í gíslingu (eins og María kemst að orði) í langan tíma af óskiljanlegri ástæðu.  Hver er tilgangurinn?  Ég sé bara einn og hann er að næla sér í aðeins meiri vexti og kostnað.  Að blóðmjólka viðskiptavininn.  Það var að minnsta kosti tilboðið sem NBI hf. gerði að hennar sögn tveimur árum eftir að bankinn hafði kyrrsett peningana hennar:  Gera skal upp lánin miðað við stöðu þeirra í febrúar 2010.  Hún átti að taka á sig allan kostnað sem lagst hafði á lánin frá því að bankinn fékk peningana í hendur, þar til uppgjör fór fram.  Já, rausnarskapurinn getur verið mikill hjá þessum blessuðu fjármálafyrirtækjum.

Ég er alveg sannfærður um að Landsbanki Íslands og NBI/Landsbankinn líta þetta mál öðrum augum.  Líklegast ber bankinn fyrir sig bankaleynd og hann geti ekki tjáð sig um mál einstakra viðskiptavina.  Ég skora samt á bankann að gera grein fyrir sinni stöðu í málinu, þ.e. hvernig standi á því að viðskiptavinur hafi þurft að bíða í mörg ár eftir því að frekar einfalt uppgjör færi í gegn um vinnsluferli hjá bankanum.

Hið ótrúlega er, að þessi saga er ekkert eins dæmi.  Ég þekki fleiri svona sögur, þó biðin hafi ekki verið 42 mánuðir.  Okkur hefur verið talið trú um, að við búum við "nýtt" viðskiptasiðferði, en reyndin er að lítið hefur breyst.  Harka fjármálafyrirtækjanna er í reynd mun meiri í dag, en hún var fyrir hrun.  Þá voru meiri mannleg heit og mál voru afgreidd hratt og vel.  Kannski í einhverjum tilfellum full hratt, en fyrir þann sem bíður er fátt verra til.  Einstaklingur sem bíður, hann getur ekki skipulagt framtíðina.  Hvað verður á morgun, í næstu viku, næsta mánuði eða á næsta ári?  Getur fjölskyldan farið í sumarfrí, hvar verða næstu jól haldin, eigum við húsið eða er það bankinn?  Þessi óvissa er versta upplifunin.  Um það eru allir sammála sem ég hef rætt við.


Loksins matsfyrirtæki sem segir sannleikann um skuldir Bandaríkjanna en nokkrum árum of seint

Ég hef nú ekki verið hrifinn af matsfyrirtækjunum vegna oft illa rökstuddra skýringa þeirra á lánshæfiseinkunnum Íslands og íslenskra fjármálafyrirtækja. Stóru matsfyrirtækin þrjú hafa líka, að mínu mati, ekki haft kjark og þor til að fella stóra dóma um...

Einkaframkvæmd er lántaka

Ég skil ekki þennan orðaleik að það minnki skuldbindingar ríkissjóðs (eða sveitarfélaga) að setja framkvæmdir í einkaframkvæmd. Í frétt í Fréttablaðinu, sem mbl.is vitnar til, þá er því haldið fram að forsætisráðherra telji of dýrt fyrir ríkið að taka...

Lágkúrulegur auðkennisþjófnaður - Facebook aðgangi stolið og leikið sér með hann

Haft var samband við mig um daginn út af sérkennilegum auðkennisþjófnaði. Einhverjir óprúttnir aðilar hafa tekið upp á því að stela facebook aðgangi fólks. Síðan er aðgangurinn notaður til að "læka" þetta og hitt, oft jafnvel eitthvað misjafnt, bæta inn...

Getum unnið allar þjóðirnar á góðum degi

Ótrúlegum drætti er lokið. Þó íslenska landsliðið hafi ekki riðið feitum hesti frá síðustu leikjum sínum í undankeppni EM og gekk einnig illa í síðust undankeppni HM, þá er riðill algjör happadráttur. Að lenda í riðli með Noregi, án efa annað af tveimur...

Áhættustýringin er að rakna upp - Stærra hrun í kortunum

Ástandið í fjármálaheiminum er að verða sífellt ískyggilegri. Eftir því sem fleiri bankar og lönd festast í vef fjármálakreppunnar, þá reyna fjármagnseigendur og þá sérstaklega vogunarsjóðir að bjarga því sem bjargað verður í eignasöfnum sínum. Því miður...

Skýringarnar á lækkun skulda eru margar, en ættu að vera fleiri - Rangar upplýsingar um skuldastöðu heimilanna

Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri, er í stuttu viðtali við Morgunblaðið í dag. Í viðtalinu er m.a. vikið að þeim upplýsingum að skuldir heimilanna hafi lækkað um heila 14,4 ma.kr. milli upplýsinga í skattframtölum 2011 og 2010. Já, þetta eru...

Draga fjármálafyrirtæki samninga á langinn svo þau geti innheimt hærri vexti og kostnað?

Ég hef nokkur dæmi fyrir framan mig um óeðlilegan drátt fjármálafyrirtækja við að ganga til eða ganga frá samningum við viðskiptavini sína. Lengst hafa liðið meira en tvö ár frá því að fyrirtæki óskaði eftir samningum, þar til fjármálafyrirtækinu...

Geta bankamenn (og fleiri) átt yfir höfði sér allt að 6 ára fangelsi vegna gengistryggðra útlána fjármálafyrirtækjanna?

Ég var spurður að því um daginn hvort að útgáfa og innheimta fjármálafyrirtækja á gengistryggðum lánum gæti hafa verið refsiverð athöfn. Vísaði viðkomandi þá sérstaklega til 264. gr. laga nr. 19/1940 almennra hegningarlaga. Þar sem mér finnst eðlilegt að...

Limbó

Kaþólskir trúa (trúðu) því að sálir óskírðra barna fari til Limbó meðan verið væri að ákveða hvort þær enda í hreinsunareldinum eða á betri stað. Sama á við um þá sem höfðu syndgað, en dóu í sátt við guð. Þeir einir fara á betri staðinn sem fengið hafa...

Verðtryggð húsnæðislán með 0,5 - 1,5% vöxtum

Væri það ekki draumur í dós, ef íslenskum húsnæðiskaupendum byðust verðtryggð húsnæðislán með 0,5 - 1,5% vöxtum ofan á verðtryggingu? Þetta er veruleikinn í Ísrael. Ísrael ásamt Chile og Íslandi eru einu löndin í heiminum (sem ég veit af), sem bjóða...

Brosandi ferðaþjónusta um allt land

Ég er nýkominn úr 12 daga ferð um landið með ísraelskan hóp. Alls staðar sem ég kom með hópinn, sem var með mikið af sérþörfum, þá var tekið á móti honum með bros á vör. Þjónustulund hótelstarfsmanna og veitingamanna, að ég tali nú ekki um brosmildi, var...

Dómur Héraðsdóms Suðurlands heldur ekki vatni

Héraðsdómur Suðurlands kvað upp úrskurð um vexti áður gengistryggðra lána núna fyrir helgi. Rökstuðningur dómarans var að þar sem lögum hefði verið breytt í desember væri hægt að hunsa stjórnarskrána, neytendavernd, evrópulöggjöf, samningalög og ég veit...

Virkjanir, náttúruvernd og orkusparnaður

Vegna umræðu um rammaáætlun um virkjanir langar mig að velta upp tveimur spurningum: 1. Hvaðan á hagvöxturinn að koma í framtíðinni, ef við hlaupum til og nýtum alla hagkvæma og fýsilega virkjunarkosti á næstu segjum 30-40 árum? 2. Þurfum við ekki að...

Orðhengilsháttur og útúrsnúningur fjármálafyrirtækja - Láta á reyna á hvert einasta lánaform

Eftir því sem ég best veit hafa á annan tug mála vegna gengistryggðra lánasamninga farið fyrir Hæstarétt og a.m.k. á þriðja tug fyrir héraðsdóma landsins. Niðurstaða er fengin úr fjölmörgum þeirra og allar hafa þær fallið lántökum í hag, þ.e. lánaformin...

Misskilningur blaðamanns

Hér er á ferðinni ótrúlegur misskilningur blaðamanns. Stuðlarnir sem eru gefnir sýna líkindi fyrir því að hvert land fyrir sig vinni mótið, ekki endanlega sætaskipan. Þannig gæti Ísland spilað til úrslita í mótinu, en það væri mat veðbankanna að það...

Sérfræðingur umboðsmanns skuldara vann fyrir fjármálafyrirtæki

Athygli mín var vakin á því í dag, að annar af sérfræðingu Raunvísindastofnunar sem vann fyrir umboðsmann skuldara að úttekt á endurútreikningum fjármálafyrirtækja, veitti einu fjármálafyrirtæki ráðgjöf um hvernig standa ætti að útreikningunum. Hann var...

Bankarnir haga sér eins og vogunarsjóðir - Kaupa kröfur með miklum afslætti og gefa ekki eftir fyrr en í rauðan dauðann

Í umræðum á Alþingi um daginn varð þingmönnum tíðrætt um hina illu vogunarsjóði. Eftir niðurstöðu Hæstaréttar í gær og yfirlýsingu Landsbankans í fjölfar dómsins finnst mér rétt að árétta það sem fram kom í skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn bankanna...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.1.): 8
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 30
  • Frá upphafi: 1681261

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband