30.6.2011 | 18:06
Dómur Héraðsdóms Suðurlands heldur ekki vatni
Héraðsdómur Suðurlands kvað upp úrskurð um vexti áður gengistryggðra lána núna fyrir helgi. Rökstuðningur dómarans var að þar sem lögum hefði verið breytt í desember væri hægt að hunsa stjórnarskrána, neytendavernd, evrópulöggjöf, samningalög og ég veit ekki hvað. Vegna hinna nýju laga, þá væru allar kvittanir ógildar allt að 10 ár aftur í tímann og fullnaðaruppgjör væri bara einhver pappírssnepill sem hefði ekkert að segja. Verð sem sett væri upp fyrir þjónustu væri hægt að breyta afturvirkt með lögum hvenær sem ef stjórnmálamönnum myndi detta það í hug.
Orkuveita Reykjavíkur ætti að fagna þessum dómi. Hér er búið að leggja í hendur fyrirtækinu lausn á vanda þess. Orkuveitan fær bara þingmenn Reykjavíkur og Suð-vestur kjördæmis til að samþykkja lög á Alþingi sem kveður úr um að heitt vatn og rafmagn frá fyrirtækinu skuli hækka um 50% afturvirkt til ársbyrjunar 2001. Nú olíufélögin hefðu líka getað bjargað fjárhag sínum á þennan hátt, en bankarnir urðu fyrr til.
Ég skil vel að héraðsdómari vilji ekki rugga bátnum of mikið. Gott og blessað. Hann hlýtur þó að vita, að afturvirk löggjöf er brot á stjórnarskránni! Rökstuðningurinn sem hann notar er greinargerð með frumvarpinu, þ.e. tilvísun í dóma frá annars vegar Noregi árið 1962 og síðan Hæstarétti árið 1953 er áhugaverð söguskýring en af hverju notaði hann ekki umsagnir fjölmargra aðila og þar á meðal frá lögmanni erlendra kröfuhafa sem efuðust um hvort lögin stæðust stjórnarskrána.
Mér finnst með ólíkindum að dómari samþykki afturvirkalöggjöf með þeim rökum að verið sé að bjarga fjárhagskerfinu. Voru færðar fram sannanir fyrir þessari staðhæfingu? Er eitthvað sem bendir til þess að fjárhagskerfið hrynji við það að vextir verði ekki afturvirkir? Hagnaður bankanna þriggja frá stofnun þeirra í október 2008 er eitthvað um 100 milljarðar króna. Bendir þetta til þess að bankarnir standi á brauðfótum? Þessi staðhæfing:
þar sem lögin væru þáttur í margþættri tilraun til að lagfæra fjárhagskerfi þjóðarinnar og koma því í fastari skorður
er einhver flugufótur fyrir því að afturvirk lagasetning stuðli að þessu? Ég hef nú fylgst nokkuð vel með þessum málum og aldrei hefur verið færð fram nokkur sönnun fyrir því að þetta sé rétt. Svo má spyrja hvort réttlætanlegt sé að níðast á saklausum almenningi til að ná þessum innistæðulausum markmiðum. Einnig má velta fyrir sér hvort fjárhagskerfi þjóðarinnar komist nokkuð frekar í fastar skorður með þessu, en með því að afturvirkir vextir verði dæmdir ólöglegir. Í hverju á festan að felast.
Ég get ekki lokið þessari færslu án þess að hnýta agnarögn í ráðherrann fyrrverandi sem tekur svo skýrt til orða að dómurinn sé staðfesting á dómi Hæstaréttar. Ætli þetta hafi verið rætt yfir eldhúsborðið heima hjá henni? Lögmaðurinn sem pantaði lagasetninguna og viðbrögð FME og Seðlabankans í fyrra er jú eiginmaður þingmannsins. Varla fer hún að segja eitthvað sem er í andstöðu við viðhorf þeirra sem halda uppi heimilishaldinu. Eins og segir í ensku málshætti, þá er það ekki til góðs að bíta höndina sem gefur manni að borða.
Viðbót kl. 20:50:
Eitt sem ég gleymdi varðandi dóminn: Dómarinn hafnar því að nýju bankarnir hafi keypt lánasöfnin af gömlu bönkunum:
Ekkert liggur fyrir um að stefnandi hafi keypt umrædda kröfu. Þvert á móti er upplýst að með stjórnvaldsákvörðunum Fjármálaeftirlitsins, á grundvelli heimildar í 100. gr. a í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, var eignum Glitnis banka hf. ráðstafað til Nýja Glitnis banka hf., sem breytti síðar um nafn og varð Íslandsbanki hf.
Hér þrýtur dómarann alveg rök. Hvað heitir það, þegar eign skiptir um hendur og gjald er greitt fyrir? Auðvitað keypti nýi bankinn lánasöfnin af gamla bankanum. Við getum svo sem notað alls konar orðalag, en það áttu sér stað viðskipti. Yfirtaka á lánasafni með miklum afslætti er verslun með lánasöfnin. Nýi bankinn greiddi fyrir lánasöfnin með því að taka yfir skuldir á móti. Þegar úthlutað er úr dánarbúi, þá er eign ráðstafað án þess að gjald komi á móti. Íslandsbanki greiddi fyrir hin niðurfærðu lánasöfn með því að taka yfir skuldir á móti. Dómarinn þarf ekki annað en að horfa til Landsbankans (áður NBI) til að sjá hvernig bankinn greiddi fyrir lánasöfn með skuldabréfi sem greitt er af. Samkvæmt skýringu dómarans, þá teljast það ekki kaup, ef ég eignast bifreið með því að taka yfir lán sem eru áhvílandi. Stjórnvaldsákvörðun breytir ekki eðli viðskiptanna, þ.e. að Íslandsbanki eignaðist lánasöfn með því að taka yfir jafnháar skuldir á móti.
Svo mætti líka hnýta í skýringu dómarans á hvað telst fullnaðarkvittun. Hann segir að kvittunin teljist ekki ógild, þar sem hún nýtist sem sönnun fyrir greiðslu en gleymir því að allt í einu er fullnaðargreiðsla orðin hlutagreiðsla. Ef þessi lögskýring dómarans stendur, þá geta neytendur aldrei treyst kvittunum sem þeir fá, þar sem gagnaðilinn getur komið með viðbótarkröfu hvenær sem er og kvittun sem áður var fullnaðarkvittun er allt í orðin að innágreiðslukvittun.
Staðfestir túlkun á dómi Hæstaréttar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (17.9.): 0
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 31
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 28
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
nákvæmlega það sem ég hugsaði. þetta lið hefur enga sómatilfinningu og gersamlega siðlaust.
Sigurður Sigurðsson, 30.6.2011 kl. 18:25
Ég er þér svo innilega sammála...ég las dóminn og augun ætluðu að rúlla út úr tóftunum....
Röksemdirnar eru svo míglekar að það vaknar spurning um hvað viðkomandi lærði í háskólanum...varla lögfræði. Hins vegar fannst mér Björn Þorri leggja mál skjólstæðinga sinna vel upp og það ætti að nýtast þegar til Hæstaréttar kemur.
Haraldur Baldursson, 30.6.2011 kl. 19:33
Væri ekki miklu nær að segja að "fjárhagskerfi" þjóðarinnar beri meiri skaða af því að reikna þessa vexti afturvirkt heldur en að gera það ekki? Ef það er rétt hjá Ólafi Arnarsyni að þessir afturvirku vextir renni að megninu til, til erlendra vogunnarsjóða þá er það hagur hagkerfisins að skuldir landsmanna verði sem minnstar eftir meðferð dómsstóla á gengistryggðum lánum.
En það er auðvitað til of mikils mælst að dómarar kunni bæði að reikna og skrifa.
Benedikt Helgason (IP-tala skráð) 30.6.2011 kl. 19:58
Já hún ríður ekki við einteyming vitleysan sem þeir senda frá sér dómararnir þessa dagana. Fyrst kemur þessi hroðalega vitlausi dómur í vaxtamálinu, sem eins og Marinó segir, heldur ekki vatni og svo til að bíta höfuðið af skömminni sýknar héraðsdómur í Exeter málinu en þar skein í gegn um vitnisburði sakborninganna að þeir vissu að þeir væru sekir en þeir kepptust við að benda hver á annan og sögðu nánast að eina málsbótin þeirra væri að einhver annar væri meira sekur.
Ekki líst mér vel á framhaldið hér á landi ef þetta er það sem koma skal en svo kannski er þetta bara eins og í fyrsta gengislánadóminum í héraði þar sem augljóst var að dómarinn þorði ekki annað en að dæma fjármögnunarfyrirtækinu í vil en Hæstiréttur sneri því við, sællar minningar.
Arnar (IP-tala skráð) 30.6.2011 kl. 20:45
Benedikt, ég hef einmitt bent á þetta. Þ.e. að innheimtur umfram þann afslátt sem bankarnir fengu á lánunum eru að hluta til neikvæðar fyrir gjaldeyrisstöðu þjóðarinnar, þar sem þeir peningar renna til "erlendra" kröfuhafa.
Marinó G. Njálsson, 30.6.2011 kl. 20:48
Sammála þér Marinó og ég horfi í öngum mínum fram á komandi mánaðarmót.
Á ég að mæta niðrí Íbúðalánasjóð eða til lífeyrissjóðsins míns og biðja um að fá að greiða afborgunina einsog venjulega en þess þá aðeins að ég fái í hendurnar yfirlýsingu þess efnis að þá sé ég laus allra mála varðandi þessa afborgun? Að viðkomandi munu ekki gera frekari kröfur vegna þessarar afborgunar á mig. Vextirnir verði ekki hækkaðir og endurreiknaðir, að vísitalan verði sú sem hún er núna en ekki einhver önnur eða endurreiknuð hærri og afturvirk. Að skilmálarnir í skuldabréfinu verði þeir sem ég undirritaði og samþykkti á sínum tíma en ekki einhverjir allt aðrir og verri...
Og ef ég fæ slíka yfirlýsingu...hvaða gildi hefur hún? Getur Alþingi ekki bara sett lög og kippt teppinu undan mér...aftur?
Hvernig á viðskiptalífið í landinu að virka ef þetta eru talin eðlileg vinnubrögð?
Magnús Birgisson (IP-tala skráð) 30.6.2011 kl. 21:01
Arnar, ótrúlegt vanhæfi eins dómarans í málinu. Vinnur hjá fyrirtæki í eigu Byrs og segir sig ekki frá málinu!
Magnús, var einmitt að hugsa þetta sama.
Marinó G. Njálsson, 30.6.2011 kl. 21:18
Já Marinó, Þetta vanhæfi er ótrúlegt dæmi um það bull sem ríður húsum alls staðar og fáránlegt að Arngrímur Ísberg telji þetta vera í lagi.
En mín niðurstaða er einhvern veginn á þá leið að það skuli láta almenning borga ALLANN reikninginn vegna hrunsins þó að það þurfi að þverbrjóta öll réttindi hans í leiðinni.
Það verður ekki langt í það að ég krefjist þess að einhverjir ráðherrar ríkisstjórnar og jafnvel óbreyttir þingmenn verði ákærðir fyrir landráð eða í það minnsta fyrir verulega grófa misbeitingu valds í þágu sjálfs sín og þeirra sem eiga þá, því það virðist alveg ljóst að þessu fólki er stýrt af einhverjum öflum sem er nákvæmlega sama hvað verður um hinn almenna borgara þessa lands.
Arnar (IP-tala skráð) 30.6.2011 kl. 21:27
Hagnaður bankanna þriggja frá stofnun þeirra í október 2008 er eitthvað um 100 milljarðar króna.
Nánar tiltekið 139,8 milljarðar frá 2008Q4 til 2011Q1.
Þar af fara 94,1 milljarðar til "erlendu" kröfuhafanna.
Plús vaxtagreiðslur af skuldabréfi Landsbankans við skilanefndina.
Guðmundur Ásgeirsson, 1.7.2011 kl. 03:57
Dómurinn er ótrúlegt bull sem styðst við fáranleg "lög" frá Alþingi. Það má ekki gleyma því að Árni Páll og Álfheiður eru mestu umboðsmenn fjármmálafyrirtækja á landinu og eru óvart bæði í stjórnarliðinu.
Hákon Hrafn (IP-tala skráð) 1.7.2011 kl. 08:19
Að Álfhildur hafi þessa skoðun gefur góða vísbendingu um afhverju ekki er meiri vilji innan norrænu velferðarstjórnarinnar að huga að velferð þegnana.
Sigurður Sigurðsson, 1.7.2011 kl. 12:47
En þessi lán voru dæmd ólögleg!
...allt tal um „fullnaðarkvittun“ og annað er bara rugl og skáldskapur hjá svokölluðum „hagsmuna“samtökum heimilanna.
Tekin voru erlend lán, sem var ólöglegt. Fjármálastofnunin borgaði lánið út og skuldarinn byrjaði að greiða í samræmi við ólöglega lánið. Þar sem síðar kom í ljós að lánið var ólöglegt þá þarf að endurgreiða upphæðina sem Fjármálastofnunin borgaði út og vextirnir eru lægstu vextir Seðlabankans. Tekið er tillit til þess að skuldarinn borgaði í samræmi við ólöglegt lán.
Hvað er það sem þið skiljið ekki??
Ég vil taka fram að ég tók hefðbundið erlent lán til að kaupa mína fyrstu íbúð og sit núna uppi með mjög yfirveðsetta eign. Það er því ekki eins og þetta komi mér ekki við.
Ólafur Guðmundsson, 1.7.2011 kl. 13:28
Ólafi finnst greinilega alveg eðlilegt að Alþingi setji lög sem breyta samningi sem gerður er á einkaréttarlegum grunni svo að sá aðili samningsins sem framdi glæp og braut þar með á réttindum hins aðilans fái nú örugglega allt sitt og vel það.
Því langar mig að spyrja hvernig Ólafur og þeir aðrir sem finnst þetta rétt niðurstaða myndu bregðast við ef Alþingi setti lög sem segðu að allir þeir sem skulda húsnæðislán t.d. skuli greiða 50% álag á allar afborganir? Þetta væri svo réttlætt með því að fjármálakerfið væri svo illa statt.
Raunveruleikinn er sá að ef þessi dómur fær að standa þá er ekki hæg að gera samninga á Íslandi lengur vegna þess að Alþingi væri heimilt að breyta þeim hvernig sem því sýndist og hvenær sem er. Ekki finnst mér það skemmtileg tilhugsun.
Arnar (IP-tala skráð) 1.7.2011 kl. 14:17
„Arnar“,
lánin (samningurinn) voru dæmd ólögleg! Þú hlýtur að skilja það? Þá þurfti að setja lög um það hvernig ætti að leysa vandamálið!!!
Ólafur Guðmundsson, 1.7.2011 kl. 14:28
Ólafur: Hvað er það sem þið skiljið ekki??
Ó við skiljum þetta mætavel. Þessi dómur er einfaldlega sniðinn að þörfum bankanna.
En þessi lán voru dæmd ólögleg!
Þú hefur ef til vill ekki kynnt þér málið nógu ítarlega? Lánin sjálf voru aldrei ólögleg, þessi fyrirtæki höfðu öll starfsleyfi til að veita lán í krónum, sem þau og gerðu. Það voru hinsvegar ákvæði lánasamninga um gengistryggingu sem voru dæmd ólögleg. Sé þeim vikið til hliðar í samræmi við meginreglur neytendaverndarlaga þá standa eftir lánasamningar sem eru fullkomlega löglegir eftir að gengistryggingin er fjarlægð. Það eru þessir samningar sem eiga að gilda, og sem við í hagsmunasamtökunum viljum að gildi. Í engum þessara samninga er kveðið á um allt að 21% vexti, og jafnvel þó það hefði verið á boðstólum á sínum tíma hefði enginn með fullu viti gert slíkan samning.
Ef það myndast dómafordæmi fyrir því að löglegum samningsákvæðum megi breyta eftir á með lagasetningu, þá er ekkert því til fyrirstöðu að Alþingi setji lög sem til dæmis segja að skatturinn sem þú borgaðir í fyrra eða hitteðfyrra (og fékkst sendan álagningarseðil því til staðfestingar!) hafi ekki verið nógu hár og þess vegna þurfi að rukka þig aftur um skatt á þessu ári af því sem áður var búið að skattleggja. Með öðrum orðum væri þar með heimilt að rukka þig aftur og aftur fyrir það sama og þú taldir þig í góðri trú vera þegar búinn að greiða fyrir.
Viltu taka sénsinn hversu mörg kjörtímabil myndu líðar þar til stjórnmálastéttin myndi komast upp á lagið með að notfæra sér þetta til að ganga að eigum þínum í hvert einasta skipti sem verður framúrkeyrsla á fjárlögum vegna þeirra eigin klúðurs og spillingar? Það væri auðvitað stórhættulegt, enda er þetta bannað í stjórnarskránni og það er ekki að ástæðulausu sem sama regla gildir í flestum öðrum vestrænum ríkjum með einum eða öðrum hætti.
þarf að endurgreiða upphæðina sem Fjármálastofnunin borgaði út
Ef þú heldur að fjármálastofnunin hafi lagt út peninga úr eigin vasa í þessum viðskiptum þá skilurðu einfaldlega ekki hvernig vestræn bankastarfsemi býr til fjármuni úr engu. Það er hinsvegar alls ekki við þig að sakast því séð hefur verið til þess að það er mjög erfitt fyrir þig að nálgast réttar upplýsingar, jafnvel þó þú berir þig eftir þeim.
En auðvitað er rétt og eðlilegt að þeir sem tóku lánin endurgreiði þau, það sem er deilt um er eingöngu hvernig skuli endurreikna þau án gengistryggingarinnar til að geta komist að réttri niðurstöðu um það sem eftir stendur í dag af höfuðstóli skuldarinnar og með hvaða skilmálum skuli greiða hann niður eftir endurreikninginn. Tilgangur laga 151/2010 átti að vera sá að knýja fram samræmda aðferðafræði en þau eru hinsvegar alltof óljós og ekki nógu tæmandi til að hægt sé að fara þannig eftir þeim. Afleiðingin er sú að hvert og eitt fjármálafyrirtæki túlkar lögin sér í hag og með mismunandi hætti, en aðeins ein aðferð getur verið rétt og því eru hinar það augljóslega ekki. Annað hvort eru allir að reikna þetta vitlaust, eða í besta falli allir nema einn.
Lög sem eru of óljós til að hægt sé að fara eftir þeim brjóta í bága við almenn mannréttindasjónarmið. Lög sem ekki er hægt að framfylgja eru gagnslaus. Lög sem ganga þvert á stjórnarskrá hafa ekkert gildi.
Guðmundur Ásgeirsson, 1.7.2011 kl. 15:08
Ólafur, þú ert að misskilja hlutina alveg big time! Hef ekki meira um það að segja.
Marinó G. Njálsson, 1.7.2011 kl. 16:44
Hvað er "hefðbundið" erlent lán ? Það var ekki mikið erlent við ólöglegu gengistryggðu lánin og mjög lítið hefðbundið, ef út í það er farið. Það voru fjármálastofnanirnar sem gáfu út kvittanir. Ekki aðeins til að kvitta fyrir að ákveðin upphæð hefði verið greidd heldur fyrir ákveðinni ráðstöfun greiðslurnar, þ.e. í nafnv.eftst. og vexti, hefði átt sér stað.
Þorsteinn Guðmundsson, 1.7.2011 kl. 17:44
Segi eins og Marinó, Ólafur er að misskilja hlutina hrapallega og ég legg til að hann kynni sér einföldustu lagareglur og staðreyndir mála áður en hann heldur áfram að tjá sig.
Arnar (IP-tala skráð) 1.7.2011 kl. 17:59
Takk fyrir ævinlega gott blogg Marinó :)
Þessi dómur sýnir okkur einfaldlega að dómskerfið virkar ekki - það lítur ekki til stjórnarskrár eða annara laga séu samin ný lög af Alþingi sem brjóta í bága við hið fyrrnefnda, sem er afar skrýtin niðurstaða dómstóla.
Sjáum nú hvað setur með Hæstarétt, það má vera að þessi tiltekni dómari sé hræddur við risana í kringum sig.
Andrea J. Ólafsdóttir, 1.7.2011 kl. 23:07
Að ætla lánþegum að greiða aftur, og með mikið hærri vöxtum, þegar greiddar afborganir vegna lögbrota lánveitanda er svo hrópandi galið. Það hlýtur einhvers staðar í þessu guðs volaða landi vera til ögn af réttlæti. Ef alþingismenn troða ólögum í gegn til þess eins að standa vörð um lögbrjóta; fjármálafyrirtækin í tilviki gengislána, þá er dómskerfið ónýtt og þrískipting valds í landinu. Við, eins og fleiri, bíðum eftir síðasta orðinu í þessu máli. Það getur bara ekki staðist að sá sem brýtur af sér eigi að fá bætur fyrir eigið brot og að sá sem brotið er á eigi að borga það. Það ætti að vera hverjum manni og ekki síst lögmanni ljóst að það er lágmark að sá sem brýtur af sér beri skaðann. Hvers vegna að snúa hlutunum á hvolf?
Jóna Ingibjörg Jónsdóttir (IP-tala skráð) 2.7.2011 kl. 09:22
Það verður að ganga í það, að þetta fólk fari með málið fyrir Hæstarétt. Þessi dómur er svo vitlaust að það er með ólíkindum. Getum við ekki eitthvað gert í því?
Árni Jón (IP-tala skráð) 2.7.2011 kl. 11:19
Á vissan hátt má líka skilja þennan dóm þannig, að héraðsdómarinn hafi einfaldlega ekki treyst sér til að kveða upp afgerandi dóm lántaka í vil af ótta við afleiðingarnar. Hann hafi þess vegna talið þann kost skárri að kveða upp dóm sem yrði nánast örugglega áfrýjað, svo hæstiréttur fái að taka afstöðu til hins fordæmisgefandi ágreiningsefnis um afturvirkni.
Þetta eru auðvitað bara vangaveltur því ekki veit ég hvað dómarinn hugsar. Aðalatriðið núna er að þessu verði áfrýjað til Hæstaréttar.
Guðmundur Ásgeirsson, 2.7.2011 kl. 13:45
Ég held að það væri nær að fjármögnunarfyrirtækin greiddu fólki skaðabætur vegna tjónsins sem þær hafa valdið með þessum ólöglegu lánum.
Það eru mýmörg dæmin um ólöglegar vörslusviftingar þegar fólk gat ekki lengur greitt af útblásnum og bólgnum lánunum. Svo voru aðrir sem borguðu af bílunum en ekki af einhverju öðru í staðinn.
Fyrir okkur sem kannski gátum með naumindum borgað á meðan afborganirnar þrefölduðust, þá komu oft í staðinn aðrar skuldir, eins og yfirdráttarskuldir og greiðsluþjónusta með himinháum vöxtum sem ennþá er verið að greiða niður, sem hefði ekki gerst hefðu þessi lán verið eðlileg. Þegar fólk á ekki lengur fyrir afborgunum og endar ná ekki saman þá fer af stað "skuldasnjóbolti" sem stækkar bara og stækkar sama hvað er gert. Því er skaðinn sem hefur hlotist af ólöglegu gengistryggðu lánunum oft mun víðtækari en fólk almennt gerir sér grein fyrir. Maður er í rauninni farinn að borga vexti margoft af sömu skuldinni.
HA (IP-tala skráð) 3.7.2011 kl. 15:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.