Leita í fréttum mbl.is

Bankarnir haga sér eins og vogunarsjóðir - Kaupa kröfur með miklum afslætti og gefa ekki eftir fyrr en í rauðan dauðann

Í umræðum á Alþingi um daginn varð þingmönnum tíðrætt um hina illu vogunarsjóði.  Eftir niðurstöðu Hæstaréttar í gær og yfirlýsingu Landsbankans í fjölfar dómsins finnst mér rétt að árétta það sem fram kom í skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn bankanna og ég fjallaði um í færslunni Afslættir sem bankarnir fengu á lánasöfnum heimila og fyrirtækja hinn 26. maí sl.

Ég fæ ekki betur séð að bankarnir þrír, Landsbankinn, Íslandsbanki og Arion banki, séu að haga sér nákvæmlega eins og vogunarsjóðirnir agalegu sem að sögn hafa keypt kröfur "erlendra kröfuhafa" á hendur hrunböndkunum þremur, Landsbanka Íslands hf., Glitnis hf. og Kaupþing banka hf.  Samkvæmt upplýsingum á vefnum keldan.is þá ganga skuldabréf gömlu bankanna kaupum og sölu á frá 6 kr. fyrir hverjar 100 kr. hjá Landsbanka Íslands til 28 kr. fyrir hverjar 100 kr. hjá Glitni, þ.e. kröfuhafar Landsbanka Íslands reikna með að fá 6% af kröfum sínum greiddar meðan kröfuhafar Glitnis reikna með 28%.  Kröfurnar ganga kaupum og sölum og eru erlendir vogunarsjóðir taldir helstu kaupendur.

Nýju bankarnir þrír keyptu lánasöfn af gömlu hryggðarmyndum sínum með verulegum afslætti.  Komið hefur fram að þessi afsláttur er misjafn eftir lánasöfnum og bönkum, en mín niðurstaða er að aflátturinn hafi að jafnaði verið um 40-45% af lánum heimilanna og 60-65% af lánum fyrirtækja (lægri talan tekur tillit til 215 ma.kr. viðbótargreiðslu til gömlu bankanna).  Nú í staðinn fyrir að bankarnir séu bara ánægðir með að fá lánasöfnin með afslætti og geta hafið enduruppbyggingu þjóðfélagsins með því að skila stærstum hluta afsláttarins beint til þeirra viðskiptavina, sem skulda, þá haga þeir sér nákvæmlega eins og vogunarsjóðirnir og gera allt sitt til að auðgast með því að krefjast hæsta mögulega verðs fyrir lánin, þ.e. fullnaðargreiðslu.  Vogunarsjóðirnir, sem alþingismönnum fannst vera andlit hins illa, eru ekki að krefja gömlu bankana um fulla greiðslu.  Þeir eru ekki að krefjast 100 kr. af Glitnir fyrir 100 kr. nafnvirðis skuldanna.  Nei, þeir sætta sig við 30 kr. og yrðu hæst ánægðir með 35 kr. fyrir hverjar 100 kr.

Tæknilega þá afskrifuðu gömlu bankarnir kröfur á innlenda viðskiptavini sína sem nemur þessum hlutföllum og seldu lánasöfnin niðurfærð til nýju bankanna.  Þ.e. nýju bankarnir keyptu skuldir sem búið var að afskrifa verulega, þ.e. á 35-40 kr. fyrir hverjar 100 kr. af skuldum fyrirtækja og 55-60 kr. fyrir hverjar 100 kr. af skuldum heimilanna.  Ef bankarnir höguðu sér eins og vogunarsjóðirnir, þá myndu þeir semja við fyrirtækin um að greiða þeim til baka 45-50 kr. fyrir hverja 100 kr. sem þau skulda og heimilin þyrftu að greiða 65-70 kr.  Eftir sætu bankarnir með dágóðan afgang sem hægt væri að nota til að mæta þeim töpum, sem þar fyrirtæki og heimili gætu ekki einu sinni greitt framangreindar upphæðir.  En sætta bankarnir sig við þetta?  Nei, þeir vilja allt upp í topp þar sem það er mögulegt og ekkert múður.  Ég fæ ekki betur séð en að siðferði vogunarsjóðanna sé skömminni skárri en siðferði bankanna.  Vogunarsjóðunum dettur ekki í hug að krefjast fullrar greiðslu, en bönkunum þykir það sjálfsagt.

Þá er það dómur Hæstaréttar og yfirlýsing Landsbankans.  Dómurinn er mjög afdráttarlaus, þó vissulega sé hann ekki einróma.  Yfirlýsing Landsbankans er þó nokkuð furðuleg.  Í fyrsta lagi segir að gerð hafi verið gjaldfærsla í reikningum til að mæta áhrifum dómsins.  Í fréttum fjölmiðla hefur komið fram að viðskiptavinum bankans  hafi með dómnum tekist að verjast 15 ma.kr. ólögmætri kröfu bankans. (Raunar var sagt að tap bankans hafi verið 15 ma.kr., en ég held að hitt sé rétt.)  Samkvæmt athugasemdum 56 og 57 í ársreikningi NBI hf. fyrir 2010, þá kemur fram að "allowance for impairment" hækkuðu um tæplega 15 ma.kr. milli 2009 og 2010, af þessari upphæð var innan við 13,4 ma.kr. vegna lána til viðskiptavina og þar af 1,7 ma.kr. vegna lána til einstaklinga.  Eftir standa þá 11,7 ma.kr. vegna lána til fyrirtækja og tel ég ólíklegt að öll sú upphæð hafi verið vegna þessara lána. (Upphæðin hækkaði um 2,5 ma.kr. á fyrsta ársfjórðungi þessa árs en það gerir samt bara 14,2 ma.kr.  á móti kemur þá hækkaði tala um 3,4 ma.kr. fyrstu níu mánuði síðasta árs og getur sú tala vart verið vegna dóma sem þá voru ekki fallnir!)  Mér finnst þetta benda til annars af tvennu:  1) að Landsbankinn er ekki að greina rétt frá í yfirlýsingu sinni varðandi að gert hafi verið ráð fyrir þessu í reikningum fyrir 2010; 2) að Landsbankinn hafi aldrei fært til eigna hluta þeirrar upphæðar sem hér um ræðir.  Í öðru lagi segir, að dómurinn muni ekki hafa áhrif á fjárhagsstöðu bankans.  Nú er ég alveg sammála bankanum, þar sem eitthvað sem ekki var fært til eignar getur ekki myndað tap hjá bankanum.  Vissulega varð hann af hugsanlegu framtíðargreiðsluflæði en mér þykir það þó ólíklegt.  Í þriðja lagi segir bankinn að framundan sé mikil vinna við endurútreikninga lána sem falla undir dóminn.  Ég hef tvennt við þetta að athuga:  1) ég hélt að bankinn væri búinn að átta sig á áhrifunum og hefði tekið tillit til þess í reikningum sínum, ef svo er þá eru endurútreikningarnir þegar til; 2) forvitnilegt verður að sjá hve langt bankinn teygir sig í að undanþiggja lán frá áhrifum dómsins.

Nú hefur komið fram að um 70% af lánum fyrirtækja hjá hrunbönkunum hafi verið gengisbundin.  Landabankinn segir að dómurinn í gær snerti tiltölulega lítinn hluta lánanna og því spyr ég:  Hvað um öll hin?   Ætlar Landsbankinn að þrást við og fara með öll þau lán líka í gegn um dómskerfið eða mun hann nú leita sátta við viðskiptavini sína.

Vogunarsjóðaháttsemi nýju bankanna er farin að fara verulega í taugarnar á viðskiptavinum þeirra.  Hvar sem ég fer trúir fólk mér fyrir vantrú sína á réttláta meðferð.  Fólk talar um að hætta viðskiptum við viðskiptabankann sinn, þar sem það getur ekki lengur komið inn í afgreiðslur þeirra með sama fólkið fyrir framan sig og áður.  Skiptir ekki máli hjá hverjum af þríburunum það var í viðskiptum.  Fólk er búið að fá upp í kok og er með æluna í hálsinum.  Hvenær ætla bankarnir að skilja það, að þetta eru viðskiptaVINIR þeirra, en ekki mjólkurkýr eða einhver til að riðlast á?  Hvenær ætla bankarnir að hætta að hafa sér eins og siðlausir vogunarsjóðir?


mbl.is Mikil vinna við endurútreikning
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Flott samantekt eins og ávalt. Ég er að velta því fyrir mér þeim möguleika á að stór hluti erlendra lána hafi verið stillt upp og afhent til tryggingar lánafyrirgreiðlsum erlendra banka til hinna Íslensku.

Þessir bankar voru allstaðar og margir -flestir fóru í gjaldþrot og kröfur afskrifaðar. Ég er því með það í huga mér að það sé búið að afskrifa stóran hluta gjaldeyrislána hér á Íslandi í erlendum gjaldþrotum.

Eggert Guðmundsson, 10.6.2011 kl. 15:17

2 identicon

Ég held að þú sért með þetta Eggert.  Það er margt sem bendir til þess að bankarnir hafi verið að búa til gjaldeyri úr krónum með þessum hætti og þá hugsanlega til þess að nota í veðsetningar erlendis.

Miðað við það sem hefur verið skrifað á þessa síðu undanfarið þá virðast a.m.k. hluti af þessum skuldabréfum hafa farið á flakk, ef þau eru að finnast í t.d. Hollandi hér eftir hrun. Lántakendur gætu gert margt vitlausara en að skreppa niður í sinn viðskiptabanka og krefjast þess að fá að sjá frumritin af skuldbréfunum.

Benedikt Helgason (IP-tala skráð) 10.6.2011 kl. 19:31

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Eggert: sjá hér Stórfelld fölsun þjóðhagsreikninga - bofs.blog.is

Þessi fölsun virðist hafa verið með leyfi Seðlabankans.

Benedikt: sjá hér 1798 9. febrúar/ Tilskipun um áritun afborgana á skuldabréf

Þessi konungstilskipun hefur enn lagagildi. Hún kveður meðal annars á um rétt skuldara til að afborgun skuldabréfs sé árituð á bréfið að honum viðstöddum, einnig um gildi fullnaðarkvittana og bann við afturvirkum vaxtabreytingum.

Guðmundur Ásgeirsson, 22.6.2011 kl. 15:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 31
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 28
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband