23.9.2011 | 15:02
Áhugaverð skýrsla en sama villa um afskriftir
Ég er búinn að skanna í gegn um skýrslu Maríu-nefndarinnar, eins og hún var kölluð á sínum tíma. Ég sakna þess að sjá ekki á áberandi stað í skýrslunni hverjir sitja í nefndinni og hafa starfað fyrir hana. Skýrslan er áhugaverð fyrir margra hluta sakir og lýsir vel hinum flóknu verkferlum sem kosið var að innleiða í stað einfaldleikans sem ég, sem fulltrúi Hagsmunasamtaka heimilanna, lagði til í vinnu starfshóps í fyrra haust.
Ég vil hrósa Maríu og hennar fólki fyrir góða vinnu, en get þó ekki neitað því að margar spurningar vakna við lestur skýrslunnar. Nefndin gerir ýmsar góðar athugasemdir sem ég tel að bankarnir þurfi að taka til athugunar. T.d. af hverju er Lýsing ekki með í 110% leiðinni?
Ólíkt nefndinni, þá er ég bara ánægður að sjá, að bankarnir eru ekki allir steyptir í sama mótið varðandi lausn mála. Það að minnsta kosti gefur skuldsettum heimilum von um að einhver þeirra brjóti sig að lokum út úr samflotinu og komi að alvöru til móts við kröfur fólks um réttlæti. Mér finnst 110% leiðin ekkert réttlæti og raunar alveg kolklikkuð aðferð. Hvaða réttlæti er í því að einstaklingur A sem var með 90% veðsetningu á húsnæði sínu fyrir hrun og hún fór síðan upp í 165% (fasteignaverð lækkaði og skuldir hækkuðu) fær niðurfærslu í 110%, en sá sem var með 40% veðsetningu sem fór upp í 70%, hann fær ekkert. Tjón beggja var hlutfallslega jafn mikið, þ.e. vetsetning hækkaði um 75%, en annar á að bera tjón sitt að fullu meðan hinn fær tjón sitt bætt að fullu og jafnvel gott betur. En þessi færsla fjallar um skýrslu Maríu-nefndarinnar.
Afskriftir fyrirtækja
Fjallað eru um afskriftir yfir 1 ma.kr. í kafla 9 sem hefst á blaðsíðu 68 í skýrslunni (bls. 70 í pdf-skjalinu). Þar eru birtar upplýsingar með meintum afskriftum til fyrirtækja fram til 30. júní 2011. Ekki er gefið upp frá hvaða tíma er byrjað að telja afskriftirnar, en sterklega er gefið í skyn að um sé að ræða afskriftir hjá nýju bönkunum og öðrum fjármálafyrirtækjum eftir hrun. Upplýsingunum er skipt í tvær töflur, illu heilli, þar sem í annarri er "eftirgjöf skulda" en í hinni upplýsingar um nauðasamninga, eins og í þeim felist ekki "eftirgjöf skulda". Ég sakna þess að sjá ekki hverjar skuldirnar eru eftir aðgerðir. En séu heildartölurnar lagðar saman, þá kemur í ljós að eftirgjöf skulda hjá viðkomandi fyrirtækjum í töflunni um "eftirgjöf skulda" nam 336,1 ma.kr., en eftirgjöf skulda í töflunni um "nauðasamninga" nam 217,7 ma.kr. Alls gerir þetta 553,8 ma.kr. sem er 50 ma.kr. hærri upphæð en í svari Árna Páls Árnasonar, efnahags- og viðskiptaráðherra, sem hann gaf Alþingi í núna í september. Það þýðir að önnur fjármálafyrirtæki en bankarnir þrír hafa afskrifað að minnsta kosti 50 ma.kr. hjá fyrirtækjum og eignarhaldsfélögum sem fengið hafa meira en 1 ma.kr. í eftirgjöf skulda. (Þ.e. ef svar ráðherra er satt og rétt hvað tölur varðar.)
Maríu-nefndin fellur í sömu gryfju og aðrir opinberir aðilar, að eigna nýju bönkunum þær afskriftir sem þeir láta góðfúslega ganga til fyrirtækja, þegar staðreyndin er sú, að þessar afskriftir áttu sér stað í gömlu bönkunum. Hvenær ætla opinberir aðilar að viðurkenna, að nýju bankarnir hafa aldrei átt löggilda kröfu upp á bókfært virði lánanna sem þeir tóku yfir, eins og það stóð í bókum gömlu bankanna. Mér sýnist Steingrímur J. Sigfússon vera eini aðilinn sem ekki reynir í sínum skýrslum að breiða yfir þá staðreynd að það voru gömlu bankarnir sem framkvæmdu afskriftina, en eru nýju bankarnir að reyna láta svo út líta að þeir séu að afskrifa.
Tölur Seðlabankans tala sínu máli
Ég átti spjall við Vilhjálm Birgisson, formann VLFA, í gær. Við vorum að fara yfir tölur frá Seðlabanka Íslands um útlán innlánsstofnana. Ég hef birt þessar upplýsingar nokkrum sinnum áður hér á síðunni, en greinilega er þörf á því að birta þær einu sinni enn.
Seðlabanki Íslands birtir mánaðarlega tölur um stöðu hinna og þessa atriða hjá fjármálafyrirtækjunum. Er þetta birt í excel-skjölum sem uppfærð eru í hvert sinn undir liðnum hagtölur á vefsvæði bankans. Upplýsingunum er skipt niður í flokka og einn þeirra heitir "Lánakerfi", sem síðan er skipt í reikningar lánakerfisins, bankakerfi, efnahagur Seðlabankans, lífeyrissjóðir, ýmis lánafyrirtæki, verðbréfa- og fjárfestingasjóðir og tryggingafélög. Með því að smella á bankakerfi, þá birtist síða með upplýsingum frá bönkunum, þ.e. reikningar innlánsstofnana, útlán og innlán. Áhuga verð er yfirlýsing sem gefin er á síðunni, en þar segir:
Útlán Arion banka hf., Íslandsbanka hf. og NBI hf. eru í þessum tölum metin á kaupvirði þ.e. því virði sem þessir aðilar keyptu útlánasafnið á af fyrirrennurum sínum. Lánasöfnin eru endurmetin reglulega sem getur leitt til hækkunar eða lækkunar á virði einstakra lána. Breytingar á útlánasafni þessara aðila geta því stafað af endurmati á virði lána eða af raunverulegum lánahreyfingum. Seðlabankinn hefur nú samræmt gögn um útlán og niðurfærslur bankanna þriggja sem urðu til í október 2008. Þessi samræming leiðir til þess að höfuðstóll útlána þessara þriggja aðila hækkar, frá fyrri birtingu gagnanna, ásamt framlagi á niðurfærslureikning þeirra.
Já, Seðlabankinn færir upplýsingarnar um útlán á "kaupvirði, þ.e. því virði sem þessir aðilar keyptu útlánasafnið á af fyrirrennara sínum". Hér er enn ein viðurkenningin á því að nýju bankarnir fengu verulegan afslátt af lánunum, en hafa þrátt fyrir það reynt að rukka þau í botn eða eru að telja sér til tekna að vera að afskrifa eitthvað sem ekki er til í bókum þeirra.
Næst er áhugvert að smella á tengilinn Útlán undir tímaraðir. Þá fær maður upplýsingar um hver breytingin hefur verið á útlánum milli mánaða langt aftur í tímann. Séu sérstaklega skoðaðir dálkar BJ og BK, þá sér maður hvert bókfært virði lánasafnanna var (m.a. í gömlu bönkunum) í lok september 2008 (dálkur BJ) og í október 2008 (dálkur BK) en núna eru lánin komin yfir í nýju bankana og gömlu bankarnir eru dottnir út. Tekið skal fram að aðrar fjármálastofnanir eru inni í tölunum fyrir báða dálka og ekki er vitað hve mikið virði útlána þeirra hefur breyst á milli mánaða og síðan fóru ekki öll lán gömlu bankanna yfir í nýju bankana, þannig að ekki er allur mismunurinn afsláttur sem nýju bankarnir fengu.
Hér fyrir neðan eru teknar saman upplýsingar yfir útlán alls og síðan sérstaklega til fyrirtækja, eignarhaldsfélaga og heimila úr skjali Seðlabankans. (Seðlabankinn skiptir lántökum í sjö hópa, en þessi þrír eru stærstir.) Fremst eru tölur úr dálki BJ (sept.08) í excel-skjalinu, síðan út dálki BK (okt.08), þá tölur yfir stöðuna 31.12. 2008, 2009 og 2010 og loks staðan í lok júlí á þessu ári. Áhugavert er að bera saman hinn mikla mun sem er á tölum í fremstu tveimur dálkunum en tölurnar fyrir október 2008 gefa hugmynd um þær miklu afskriftir sem áttu sér stað í gömlu bönkunum áður en lánasöfnin voru keypt af nýju bönkunum.
HAGTÖLUR SEÐLABANKANS | ||||||
Flokkun útlána innlánsstofnana - tímaraðir | ||||||
M.kr | sep.08 | okt.08 | des.08 | des.09 | des.10 | júl.11 |
Innlendir aðilar, alls (liðir 1-9) | 4.789.137 | 1.973.245 | 1.964.101 | 1.679.011 | 1.710.880 | 1.656.069 |
Fyrirtæki | 1.987.460 | 1.192.529 | 1.245.311 | 1.162.071 | 1.129.433 | 1.097.100 |
Eignarhaldsfélög | 1.609.173 | 359.119 | 425.824 | 226.200 | 231.190 | 199.926 |
Heimili | 1.032.026 | 584.939 | 592.039 | 512.742 | 528.487 | 486.564 |
þ.a. íbúðalán | 606.886 | 310.749 | 331.726 | 285.104 | 300.604 | 269.380 |
2 Yfirdráttarlán | 251.515 | 156.480 | 139.331 | 145.122 | 149.370 | 130.186 |
Fyrirtæki | 110.918 | 79.135 | 73.644 | 66.998 | 61.089 | 57.568 |
Eignarhaldsfélög | 33.979 | 7.244 | 6.823 | 7.207 | 4.750 | 2.317 |
Heimili | 78.280 | 59.529 | 48.773 | 51.013 | 55.082 | 42.895 |
4 Óverðtryggð skuldabréf | 630.305 | 157.403 | 198.815 | 250.696 | 331.278 | 428.968 |
Fyrirtæki | 150.670 | 63.616 | 88.877 | 148.897 | 155.405 | 224.482 |
Eignarhaldsfélög | 415.679 | 70.969 | 82.992 | 77.333 | 119.903 | 111.778 |
Heimili | 26.724 | 18.128 | 18.455 | 15.674 | 53.314 | 88.047 |
þ.a. íbúðalán | 298 | 283 | 1.614 | 28.234 | 45.383 | |
5 Verðtryggð skuldabréf | 973.626 | 510.842 | 534.939 | 511.864 | 532.267 | 533.810 |
Fyrirtæki | 191.832 | 140.483 | 151.369 | 170.639 | 207.720 | 216.161 |
Eignarhaldsfélög | 54.433 | 19.047 | 20.079 | 22.578 | 19.207 | 19.374 |
Heimili | 627.091 | 346.424 | 358.432 | 313.667 | 296.095 | 289.942 |
þ.a. íbúðalán | 499.333 | 251.893 | 266.513 | 235.943 | 217.061 | 203.166 |
6 Gengisbundin skuldabréf | 2.855.024 | 1.261.437 | 1.302.065 | 974.854 | 866.318 | 679.321 |
Fyrirtæki | 1.441.289 | 856.910 | 878.013 | 728.915 | 665.443 | 553.662 |
Eignarhaldsfélög | 1.057.930 | 240.791 | 262.095 | 115.272 | 80.828 | 64.222 |
Heimili | 271.950 | 145.699 | 151.133 | 122.260 | 111.538 | 55.209 |
þ.a. íbúðalán | 107.553 | 58.558 | 64.930 | 47.547 | 55.309 | 20.831 |
7 Eignarleigusamningar | 57.823 | 29.609 | 30.374 | 26.291 | 27.637 | 31.398 |
Fyrirtæki | 34.631 | 17.908 | 18.681 | 19.129 | 16.980 | 21.395 |
Eignarhaldsfélög | 0 | 298 | 303 | 119 | 211 | 424 |
Heimili | 22.136 | 11.033 | 11.011 | 6.513 | 9.817 | 8.979 |
8 Gengisbundin yfirdráttarlán | 110.735 | 48.607 | 59.169 | 31.684 | 31.909 | 28.095 |
Fyrirtæki | 51.295 | 27.712 | 24.733 | 25.176 | 21.168 | 22.548 |
Eignarhaldsfélög | 42.345 | 15.401 | 27.403 | 2.558 | 5.154 | 1.543 |
Heimili | 5.207 | 3.644 | 3.554 | 3.223 | 2.407 | 1.347 |
9 Niðurfærslur | -102.180 | -203.770 | -337.458 | -265.360 | -230.900 | -177.407 |
| ||||||
Heimild: Upplýsingasvið SÍ. |
Lítið fer á milli mála að "kaupverð" nýju bankanna á þeim hluta lánasafna gömlu bankanna sem færðist yfir, var langt undir bókfærðu virði í gömlu bönkunum. Þegar vara er keypt á niðursettuverði, þá hefur seljandi greinilega fært verðið niður hjá sér, þ.e. afskrift hefur átt sér stað hjá seljandanum. Nú er þessi vara ekki venjuleg neysluvara, heldur lán til viðskiptavinar. Ef eigandi kröfunnar lækkar bókfært virði kröfunnar, þá er hann jafnframt að segja að innheimtuvirðið sé ekki í samræmi við nafnvirði fyrir niðurfærslu. Að nýr eigandi kröfunnar kjósi að líta framhjá afskrift gamla kröfueigandans er skiljanlegur hlutur þegar um vogunarsjóð er að ræða, en að viðskiptabanki viðkomandi lántaka skuli haga sér þannig er gjörsamlega út í hött. Höfum þá líka í huga, að kröfuhafar gamla bankans hafa samþykkt virðisrýrnunina og tilgangurinn með selja nýja bankanum kröfurnar eftir að þær höfðu verið afskrifaðar verulega var einmitt til að koma til móts við lánatakana en ekki nýjan kröfueiganda. Íslensk stjórnvöld fengu Deloitte LLP og Oliver Wyman einmitt til að endurmeta lánasöfnin vegna þess að ekki var talið að lántakar stæðu undir hinni hækkuðu greiðslubyrði eða að þeir höfðu orðið fyrir slíku tjóni vegna eignarýrnunar eða tekjumissis að ólíklegt væri að kröfurnar fengjust innheimtar eins og höfuðstóll þeirra stóð. Það er því siðlaust með öllu og svik við þá samninga sem gerðir voru, að nýju bankarnir ætli að láta sem engar afskriftir hafi átt sér stað hjá gömlu bönkunum. Því miður fellur Maríu-nefndin í þá gildru að telja afskriftir, sem tilheyra ekki nýju bönkunum, þeim til eigna. Er það dapurlegt að mínu mati.
Sagan endurrituð
En tölur Seðlabankans hafa ekki alltaf litið svona út. Hafa þær raunar tekið allverulegum breytingum í tímans rás. Að sjálfsögðu breytast þær í lok hvers tímabils, en það er ekki það sem ég á við. Nei, tölur sem eiga að gilda fyrir t.d. 31.12.2008 og 31.12.2009 hafa ítrekað breyst á milli útgáfa af skjali SÍ. Ég hef haft það fyrir sið að hlaða þessu skjali niður tvisvar eða þrisvar á ári. Hef ég því breytingasögu talnanna í grófum dráttum. Hér fyrir neðan birti ég árslokatölurnar fyrir 2008 og 2009 eins og þær litu út í sama skjali sem ég hlóð niður 14.7.2010, þ.e. fyrir 15 mánuðum. Maður hefði nú haldið að í júlí 2010, þá væri komin mynd á stöðu mála í árslok 2008, en svo er alls ekki. Ég hef meiri skilning á því að árslokatölur fyrir 2009 hafi tekið einhverjum breytingum frá 14.7.2010, en þær eru samt full miklar að mínu mati og mér liggur við að segja grunsamlegar.
HAGTÖLUR SEÐLABANKANS | ||||
Útlán innlánsstofnana - tímaraðir | ||||
Staða í skjali frá júlí 2010 borið saman við stöðu í skjali tekið út í september 2011 | ||||
Skjal frá júlí 2010 | Skjal frá sept 2011 | Skjal frá júlí 2010 | Skjal frá sept 2011 | |
Staða M.kr | des.08 | des.08 | des.09 | des.09 |
Innlendir aðilar, alls (liðir 1-9) | 1.963.161 | 1.964.101 | 1.678.578 | 1.679.011 |
Fyrirtæki | 1.150.971 | 1.245.311 | 1.074.056 | 1.162.071 |
Eignarhaldsfélög | 408.243 | 425.824 | 208.962 | 226.200 |
Heimili | 558.050 | 592.039 | 476.012 | 512.742 |
þ.a. íbúðalán | 300.677 | 331.726 | 248.451 | 285.104 |
2 Yfirdráttarlán | 129.727 | 139.331 | 124.903 | 145.122 |
Fyrirtæki | 68.808 | 73.644 | 62.373 | 66.998 |
Eignarhaldsfélög | 6.695 | 6.823 | 9.593 | 7.207 |
Heimili | 46.658 | 48.773 | 47.269 | 51.013 |
4 Óverðtryggð skuldabréf | 193.519 | 198.815 | 226.837 | 250.696 |
Fyrirtæki | 83.270 | 88.877 | 134.746 | 148.897 |
Eignarhaldsfélög | 82.716 | 82.992 | 70.510 | 77.333 |
Heimili | 17.970 | 18.455 | 14.948 | 15.674 |
þ.a. íbúðalán |
| 283 |
| 1.614 |
5 Verðtryggð skuldabréf | 517.841 | 534.939 | 491.687 | 511.864 |
Fyrirtæki | 149.555 | 151.369 | 163.853 | 170.639 |
Eignarhaldsfélög | 18.802 | 20.079 | 22.744 | 22.578 |
Heimili | 344.637 | 358.432 | 300.304 | 313.667 |
þ.a. íbúðalán | 242.683 | 266.513 | 207.947 | 235.943 |
6 Gengisbundin skuldabréf | 1.194.558 | 1.302.065 | 885.623 | 974.854 |
Fyrirtæki | 799.916 | 878.013 | 670.968 | 728.915 |
Eignarhaldsfélög | 248.255 | 262.095 | 102.465 | 115.272 |
Heimili | 135.570 | 151.133 | 105.269 | 122.260 |
þ.a. íbúðalán | 57.994 | 64.930 | 40.505 | 47.547 |
7 Eignarleigusamningar | 26.323 | 30.374 | 21.332 | 26.291 |
Fyrirtæki | 16.314 | 18.681 | 15.770 | 19.129 |
Eignarhaldsfélög | 304 | 303 | 98 | 119 |
Heimili | 9.361 | 11.011 | 4.994 | 6.513 |
8 Gengisbundin yfirdráttarlán | 55.345 | 59.169 | 30.293 | 31.684 |
Fyrirtæki | 23.400 | 24.733 | 24.274 | 25.176 |
Eignarhaldsfélög | 25.343 | 27.403 | 2.429 | 2.558 |
Heimili | 3.196 | 3.554 | 2.891 | 3.223 |
9 Niðurfærslur | -190.711 | -337.458 | -105.649 | -265.360 |
| ||||
Heimild: Upplýsingasvið SÍ. |
Eins og hægt er að sjá, þá hefur orðið talsverð breyting og finnst mér það sæta furðu. Helst lítur út sem fjármálafyrirtækin séu með "bókhaldsbrellum" að breyta upplýsingum svo þær henti betur síðari tíma skýringum á atburðum. Spurning hvort Seðlabankinn eigi ekki að birta sögu svona breytinga, ef þær fara yfir eitthvert tiltekið lágmark. T.d. breytast niðurfærslur í lok árs 2008 um nærri 77% á milli útgáfa af tölunum og um 151% í árslok 2009. Þetta eru meiri breytingar en svo að þær verðskuldi ekki sérstakra skýringa.
Fengu 170 milljarða afskrifaða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.9.2011 | 00:02
SFF hefur áhyggjur af álögum á fjármálakerfið
Hræðilegt er að heyra af hinum illu hugmyndum ríkisstjórnarinnar að leggja 10,5% launaskatt á aumingja fjármálafyrirtækin. Ég kemst bara nærri því við að lesa viðtalið við Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóra Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF), sem birt er á visir.is. Hann hefur svo miklar áhyggjur af því, greyið karlinn, að samkeppnisstaða bankanna versni og nóg borgi þeir nú líka til ríkisins. Æ, æ, æ. Ég meina bankarnir þrír högnuðust bara, já bara, um litlar 42.000 m.kr. á fyrstu 6 mánuðum ársins og þeir eru sko ekki aflögufærir um meira en þeir þegar greiða. Það voru bara 115 m.kr. á dag, sem náttúrulega skiptist í þrennt. Sko, Arion banki greiðir t.d. 242 m.kr. af 10.000 m.kr. hagnaði í sérstakan bankaskatt sem standa á undir tjóninu sem Kaupþing olli. (242 m.kr. eru innan við 9 daga hagnaður.) Mig minnir að tjón af Kauðþingi hafi verið meira en 1.000.000 milljónir eða voru það 6.000.000 milljóna. Með þessu áframhaldi verður Arion banki búinn að greiða um tjónið niður á 2.066 árum miðað við lægri upphæðina og að bankinn greiði 242 m.kr. hálfsárslega. (Um 12.400 ár ef hærri upphæðin er tekin.)
Ég velti því oft fyrir mér í hvaða veruleika Guðjón Rúnarsson lifir. Höfum í huga að þetta er maðurinn sem skrifaði umsögn um frumvarp að lögum um vexti og verðbætur árið 2001 og varaði við því að yrði frumvarpið óbreytt að lögum, þá yrði ólöglegt að veita gengistryggð lán. Hann hylmdi yfir með fjármálafyrirtækjunum í fleiri, fleiri ár og þrætti út í rauðan dauðann að lánin væru ólögleg, en samt varaði hann sjálfur við því að slík lánveiting yrði ólögleg væri ákvæðið sett í lög. En þetta er kannski dæmigert fyrir starfsemi fjármálafyrirtækja: Ekki að láta lögin flækjast fyrir manni, þegar gróði er handan við hornið. A.m.k. sannaðist það í þessu máli.
Þessi skattur er svo sem hvorki góður né vondur, en mér finnst eðlilegast að refsa bara þeim sem haga sér illa. Þarna verður Guðjón að beina umvöndunum sínum til stóru strákanna og stelpunnar sem hafa hækkað launakostnað hjá sér á hvern starfsmann langt umfram það sem hinir minni þola. Ríkisstjórnin er bara að bregðast við hegðun sem ekki er talin ásættanleg. Ef bankarnir kynnu sér hóf og sýndu samfélagslega ábyrgð, þá þyrfti ekki að nota skattkerfið til að leiðbeina þeim. Um það snýst málið. Þeir sem misbjóða þjóðarsálinni geta átt von á því að hún bíti frá sér.
Brilliant skattur á bankana
Annars er ég með aðra hugmynd að skatti á bankana þrjá:
Leiði endurmat lánanna, sem þeir fengu með verulegum afslætti frá gömlu kennitölunni sinni, til þess að virði þeirra hækkar í bókum bankanna, skal skattleggja þetta endurmat um 95%. Einnig skulu greiðslur (afborganir og vextir) sem eru umfram það sem orðið hefði, ef staða lánanna væri eins og hún var bókfærð í stofnefnahagsreikningi, skattleggjast um 95%. Þó skulu engar tölur tvítaldar. Bönkunum verður heimilt að draga frá skattstofninum sannanlegar afskriftir sem þeir hafa veitt eða töp sem þeir verða fyrir af þessum lánum, en í staðinn koma þær tölur ekki til frádráttar annars staðar í reikningum þeirra.
Þessi skattur gefur bönkunum í reynd tvo kosti: 1. Borga skattmann 95% af því sem rukkað er inn umfram yfirtökuvirði lánanna, þ.e. það sem bankarnir greiddu gömlu kennitölunni (og þar með kröfuhöfum hennar) fyrir lánasöfnin. 2. Skila afskriftunum sem fóru fram í gömlu bönkunum til lántaka eins og lýst er í skýrslu Deloitte LLP, yfirfarið var af Oliver Wyman og samþykkt af slitastjórnum gömlu bankanna og fulltrúum kröfuhafa.
Telji bankarnir að þessi skattur sé ósanngjarn, þá hvet ég bankastjórana að setja sig í okkar spor eru svo kallaðir viðskiptavinir þeirra. Okkur finnst ekkert sanngjarnt við það að lánin okkar hafi fyrst hækkað upp úr öllu valdi vegna gerða (og aðgerðarleysis) vanhæfra stjórnenda, stjórnarmanna og eigenda gömlu bankanna og svo þegar gömlu bankarnir reyna að leiðrétta skaðann, þá séu nýju bankarnir að drepast úr græðgi og neiti að láta afskriftir gömlu bankanna ganga til okkar. Ég hef nokkrum sinnum bent á að það hefur fallið dómur í máli svipaðs eðlis, þ.e. rafverktaki fékk afslátt á ljósum sem hann setti upp hjá viðskiptavini og rukkaði viðskiptavininn upp í topp án afsláttar. Dómstóll skikkaði rafverktakann til að láta afsláttinn ganga til viðskiptavinarins. Í mínum huga er enginn munur á þessum málum, þ.e. út frá lögunum. Í báðum tilfellum er vara keypt með afslætti, í báðum tilfellum er viðskiptavinurinn svikinn um að njóta afsláttarins og niðurstaða dómstólsins í máli rafverktakans ætti því að vera fordæmisgefandi fyrir nýju bankana.
Samkvæmt skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn bankakerfisins, afskrifuðu gömlu bankarnir milli 1.800 og 2.120 ma.kr. af eignum sem færðar voru yfir í nýju bankana áður en þær voru færðar yfir. Efnahags- og viðskiptaráðherra og SFF hafa upplýst okkur auman almúgann að bankarnir séu búnir að nota 620 ma.kr. af þessu. Það þýðir að 1.180 - 1.500 ma.kr. eru eftir. Ef þeir velja að innheimta það allt í topp (eins og þeir hafa verið að reyna), þá gæfi það litlar 1.121. til 1.425 ma.kr. í tekjur fyrir ríkið. Þá upphæð mætti nota til að greiða upp drjúgan hluta af skuldum ríkissjóðs, sem hann, nota bene, tók á sig vegna afglapa stjórnenda og eigenda gömlu bankanna. Ef bankarnir velja að rukka bara það sem þeir greiddu fyrir, þá mun efnahagslífið taka kipp, fólk mun fá trú á að réttlæti sé til, bankarnir munu hugsanlega hljóta fyrirgefningu fyrir ósvífni sína og fækka mun í hópi þeirra sem telja að þetta þjóðfélag sé ekki hollt fyrir börnin þeirra.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.9.2011 | 20:19
Hvernig er Ísland í dag?
"Svona er Ísland í dag" er eitthvað sem við látum okkur um varir hnjóta af alls konar ástæðum. En hvernig er Ísland í dag og hver er ástæðan?
Nýtt embætti, umboðsmaður skuldara, virðist vera það sem mestu skiptir fyrir marga landsmenn. Þangað leitar fólk mest megni vegna þess að nokkrir "fjármálasnillar" misstu tökin á starfinu sínu. Í staðinn fyrir að fyrirtækin sem þeir unnu hjá (og sumir vinna hjá nýju kennitölunni) leiðrétti mistökin sem snillarnir gerðu, þá skal hné fylgja kviði og fólk gert eignalaust. Er þetta ekki merkilegt? Ef ég starfa hjá heildsölu og geri mistök, t.d. sel viðskiptavini gallaða vöru sem kostar viðskiptavininn háar fúlgur, þá er líklegast að heildsalan leiðrétti mistökin. En vinni ég hjá fjármálafyrirtæki og geri rækilega í buxurnar gagnvart viðskiptivini mínum, þá koma Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn og reyna að sannfæra viðskiptavininn um að ekkert réttlæti sé í öðru en að hann þrífi skítinn upp, láti mig fá nýjar buxur og hærri laun, auk þess á viðskiptavinurinn að taka á sig allan afleiddan kostnað af því að ég hafi gert í buxurnar, svo sem þrif á húsnæði fjármálafyrirtækisins, að hylma yfir gjörninginn, greiða mér bætur fyrir álitshnekkinn, borga sálfræðihjálp og svo framvegis. Fjármálafyrirtæki eru nefnilega verndaðir vinnustaðir. Geri þau eitthvað af sér, þá eru þau vernduð fyrir því að taka afleiðingunum. Já, svona er Ísland í dag!
Umboðsmaður skuldara er í þeirri sérkennilegu stöðu að koma á samningum milli viðskiptavina fjármálafyrirtækja og fyrirtækjanna um það hve mikið fjármálafyrirtækið fær að innheimta af kröfum sem hækkuðu upp úr öllu valdi vegna áðurnefndu mistaka. Vissulega voru ekki öll fjármálafyrirtækin beinir gerendur, en ekkert þeirra afþakkaði ávinninginn. Hvernig sem á það er litið, þá eru fyrirtækin að reyna að innheimta fé sem er m.a. tilkomið vegna þess að mistök starfsmanna fjármálafyrirtækja þykja eðlileg í þessu þjóðfélagi og þau má alls ekki leiðrétta. Sum þessara fjármálafyrirtækja eru meira að segja, að reyna að innheimta kröfur sem eru ekki einu sinni til í bókhaldi þeirra. Þau voru nefnilega svo heppin að fá þær á mikið niðursettu verði. En, eins og ég nefndi áður, þá gilda einar reglur um fjármálafyrirtæki og aðrar um önnur fyrirtæki á samkeppnismarkaði. Fjármálafyrirtæki mega nefnilega hafa samráð um það að innheimta sem mest. Því datt fyrirtækjunum, sem keyptu vöruna á niðursettu verði ekki í hug að slá af verði hennar. Nei, helv.. viðskiptavinurinn skal greiða upp í topp, skítt með það þó við hefðum gert mistök. (Auðvitað eru það "við" vegna þess að sama fólk vinnur hjá nýju kennitölunni og þeirri gömlu.) Já, svona er Ísland í dag!
Viðskiptasiðferði fjármálafyrirtækja hvarf út í buskann í kringum einkavæðingu og hefur ekki fundist. Það er talið af, þó viðskiptavinir fyrirtækjanna hafi ekki gefið upp alla von um að það snúi til baka. Með viðskiptasiðferðinu hvarf einnig sanngirni, réttsýni og jafnræði, þ.e. jafnræði allra. Nú er þetta eins og í Animal Farm, að allir eru jafnir, en sumir eru jafnari en aðrir. Sumir fá nefnilega eðilega, sanngjarna og réttláta skuldaleiðréttingu og heil ósköp til viðbótar, meðan almenningur fær nánast ekkert sem ekki var hvort eð er tapað fyrir fjármálafyrirtækið og því bar samkvæmt alþjóðlegum bókhaldsstöðlum að afskrifa. Já, svona er Ísland í dag!
Stór hluti fyrirtækja er svo illa staddur, að hann á líklegast bara um tvennt að ræða: Að kasta sér í faðm fjármálafyrirtækjanna eða hætta starfsemi. Detti einhverjum eitthvað annað í hug, þá er líka eins gott að samkeppnisaðili sé ekki kominn í faðm bankanna. Hann fær nefnilega syndaaflausn, fyrirgefið, skuldaaflausn og getur því keppt við allt önnur rekstrarskilyrði. Mér fannst t.d. góður brandarinn hjá starfsmanni byggingavörurfyrirtækis haustið 2009, þegar ég hrósaði fyrirtækinu hvað það væri orðið samkeppnishæft í verði. "Já, svona er það þegar við erum komnir í eigu ..banka." Eftir að eitt olíufélag fór í faðm bankans síns, þá sáu tvö í viðbót sig tilneydd til að gera það sama, því annars voru þau ekki samkeppnishæf. Hvað fær eigendur þessara fyrirtækja til að kasta frá sér eign sinni og láta bankann taka hana yfir? Líklegast hafa þeir vitað, að mölduðu þeir í móinn, þá færi bankinn bara einhverja aðra leið til að taka fyrirtækið yfir. Skilvirkast er að loka yfirdrættinum og síðan öllum öðrum lánalínum. Fyrirtæki sem lendir í þessu, lifir ekki vikuna. En skuldir fyrirtækjanna höfðu hækkað vegna mistakanna sem ég nefndi áður. Af hverju mátti ekki leiðrétta mistökin og lækka skuldir fyrirtækjanna þannig? Nei, það er ekki hægt. Illa fenginn eða ekki, þá er kröfuréttur fjármálafyrirtækja, svo einkennilegt sem það er, varinn af eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Það er a.m.k. mat fjármálaráðherra, efnahags- og viðskiptaráðherra og allra þingmanna stjórnarflokkanna og þess vegna væri verið að brjóta á stjórnskrárvörðum rétti fjármálafyrirtækjanna að fá þau til að skila hinum illa fengna ávinningi. Já, svona er Ísland í dag!
Nú þykir einhverjum sem ég sé ósanngjarn í garð fjármálafyrirtækjanna. Sum þeirra tóku ekki þátt í einu eða neinu og önnur voru ekki einu sinni til þegar allt hrundi. Ég man ekki eftir einu einasta fjármálafyrirtæki, sem sagði: "Ég tek ekki þátt í þessu!" eða "Ég þigg ekki verðbæturnar sem leggjast á lánin vegna græðgi bankamanna." Ekki sagði Íbúðalánasjóður þetta, ekki sögðu lífeyrissjóðirnir þetta og ekki einu sinni litlu sparisjóðirnir sem stóðu kreppuna af sér. Nei, allir tóku með glöðu geði við arðinum, gróðanum af afglöpum bankamannanna, vegna þess að þannig er það sem fjármálafyrirtæki vinna. Þeim er alveg sama hvernig hækkun lánanna er tilkomin, heiðarlega eða ekki, þeir taka öllum hækkunum opnum örmum. Og hefur þeim dottið í hug að skila einhverju? Já, af um 5-700 ma.kr. hækkun verðtryggðra lána frá seinni einkavæðingu til dagsins í dag (nenni ekki að reikna þetta nákvæmlega), þá ætla Íbúðalánasjóður og lífeyrissjóðirnir að skila í mesta lagi 50 mö.kr. Restinni ætla þeir að halda, þó svo að þeir viti að þessar hækkanir eru tilkomnar vegna vísvitandi, óheiðarlegra aðgerða annarra fjármálafyrirtækja til þess einmitt að hækka lánin. Kannski er ekki öll upphæðin komin til vegna þessa, en mun meira en þessir skítnu 50 ma.kr. sem á að skila. Já, svona er Ísland í dag!
Þar sem viðskiptasiðferðið hvarf, þá verð ég að ganga út frá því að innan fjármálafyrirtækjanna ríki siðleysi. Það lýsir sér m.a. í því að í staðinn fyrir að bankarnir þrír lækki lán viðskiptavina sinna til samræmis við hið niðursetta verð, sem þau voru yfirtekin á, þá hreyfist höfuðstóllinn bara upp á við. Ok, höfuðstóll áður gengistryggðra lána lækkaði hjá flestum, en það eru líka einu mistökin sem hafa verið leiðrétt, en ekki fyrr en Hæstiréttur kvað upp úr um það. Og meira segja þó hann hafi gert það, þá tregðast ennþá sum fjármálafyrirtækin við. Þau ætla nefnilega að láta reyna á það hvort önnur kommusetningin í einni línu breyti niðurstöðu málsins. En ég var að tala um siðleysið. Það er siðlaust, að krefja viðskiptavin um 10 m.kr. fyrir lán sem bankinn tók yfir á 5 m.kr. Raunar er það ekki bara siðlaust, það er glæpsamlegt. Já, svona er Ísland í dag!
Halda nýju bankarnir virkilega að fólk gleymi þessari framkomu í þess garð? Verið getur að í augnablikinu séu ekki aðrir kostir en að eiga viðskipti við kvalara sinn, en geti lítill sparisjóður í Þingeyjasýslu dregið til sín í viðskipti stóran hóp Reykvíkinga, hvernig ætli þetta verði þegar ný innlánsstofnun opnar dyr sínar á höfuðborgarsvæðinu. Þá mun fólk muna eftir því hvernig bankarnir fóru með (viðskipta)vini sína og drífa sig eitthvað annað með viðskiptin. Ætli það sé Ísland framtíðarinnar!
Annars er ég þannig gerður, að ég vil ekki gefa upp alla von um að nýju bankarnir sjái villu síns vegar. Arion banki segist ekki eiga neitt eftir og kannski er það rétt. Tölur í skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn bankanna gefa annað í skyn, að ég tali nú ekki um hagnaður bankans. Vandi bankanna er að trúverðugleiki þeirra er enginn. Glitnir, Landsbanki Íslands og Kaupþing sáu um að fórna honum á altari græðginnar ásamt ýmsu öðru sem var fúslega fórnað á kostnað viðskiptavina. Ekki hafa þeir heldur gert margt til að ávinna sér trúverðugleika. Núna tæpum þremur árum frá hruni telja þeir að góður hagnaður sé styrkleikamerki, þegar hann ber aftur vott um siðleysi í augum almennings. Græðgi. "Sértu velkomið, 2007!" var það fyrsta sem mér datt í hug, þegar bankarnir birtu hagnað sinn. Fór eitthvað af honum í samfélagsleg verkefni? Nei, vitaskuld ekki. Hann á að renna til eigendanna. Já, svona er Ísland í dag!
Nú stjórnvöld eru síðan kapituli út af fyrir sig. Fyrst var það ríkisstjórn Geirs H. Haarde, sem gat ekki sinnt nema einu verki í einu, þ.e. björgun bankanna. Engum þar á bæ datt í hug að sporna þyrfti við aukningu atvinnuleysis. Þá koma þriggja mánaðastjórn VG og Samfylkingar með stuðningi Framsóknar. Hún einbeitti sér að endurreisn bankanna. Aftur fórst gjörsamlega fyrir að sporna við auknu atvinnuleysi. Svo koma núverandi ríkisstjórn. Enn var það endurreisn bankanna og samningar um hana og mál tengd hruninu. Ekkert bólaði enn á þvi að reynt væri að sporna við aukningu atvinnuleysis. Hafa menn ekki heyrt minnst á "multi-tasking"? Mér skilst að fjögur störf hafi orðið til fyrir atbeinan ríkisstjórnarinnar á Vestfjörðum! Já, heil fjögur störf. Þremur árum eftir hrun eru menn að hugleiða það að byggja spítala sem við munum aldrei hafa efni á að reka. Nýbúið er að opna tónlistar- og ráðstefnuhús, sem stendur ekki undir sér, fyrir starfsemi sem er haldið uppi af ríkissjóði. Hvar er atvinnuuppbyggingin sem átti að fara í gang haustið 2009? Vissulega hefur atvinnuleysi minnkað samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar, en gleymum því ekki að nokkrir tugir þúsunda hafa flutt úr landi, gríðarleg fjölgun hefur orðið í háskólum og síðan hafa sumir verið svo lengi atvinnulausir, að þeir eru dottnir út af skrám! Já, svona er Ísland í dag!
Ég skil vel að þörf hefur verið á því að loka fjárlagagatinu. Lántökur ríkissjóðs fóru úr 20 ma.kr. í 2.000 ma.kr. á 60 sekúndum og af þessum lánum þarf að greiða vexti. Í staðinn fyrir að hirða allan hagnað af nýju kennitölum fjármálafyrirtækjanna sem keyrðu allt í kaf, þá fá þau að halda honum en almenningur er skattpíndur eins og hægt er og þegar ekki er hægt að ganga lengra í þá áttina, þá er velferðarkerfið skorið við nögl. Þannig hefur ríkinu tekist að gera fleiri atvinnulausa og fært kostnað af einum lið fjárlagafrumvarpsins yfir á annan. Málið er að atvinnulífið borgar fyrir þann lið! Hugmyndir sem byggjast á atvinnusköpun, laða að erlenda fjárfestingu, gera rekstrarumhverfi fyrirtækja betra með því að nýju bankarnir skili til þeirra afslættinum sem þeim var svo rausnarlega veittur, og fleira í þá áttina eiga að því virðist ekki upp á pallborðið. Kannski óttast menn að árangurinn verði góður og þá geti menn hætt að tala hve allt er erfitt. Í hagfræði er til ákaflega skemmtileg formúla um samspil framboðs og eftirspurnar. Hún sýnir áhrif á eftirspurn, ef krónunum er fækkað sem hægt er að nota í neyslu. Ég hvet fjármálaráðherra til að kynna sér virkni hennar. Ég hvet hann líka til að skoða hver efnahagsleg áhrif gætu orðið að því að skikka bankana þrjá með lagasetningu að skila orðalaust og án tafa 80% af þeim afslætti sem þeir fengu til viðskiptavina sinna eins og þessi afslættir voru skilgreindir og reiknaðir út í skýrslu Deloitte LLP í London og staðfest var og yfirfarið af Oliver Wyman. Samkvæmt tölum ráðherrans sjálfs, þá eru þetta á bilinu 1.200 til 1.500 ma.kr. og þar af segjast bankarnir vera búnir að nýta 620 ma.kr. Ef skuldir eru lækkaðar um 600 - 900 ma.kr. til viðbótar, þá er ég viss um að atvinnulífið muni glæðast og störfum fjölga og fjárlagagatið minnka og velta aukast og velferðarkerfið styrkjast og bankastarfsemi eflast og, og, og... Svona gæti Ísland verið á morgun!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
22.9.2011 | 09:37
Teljast lánin frá Bretum og Hollendingum ekki greiðsla?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
21.9.2011 | 19:59
Er það þess vegna sem skuldatryggingaálagið er í 310?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
21.9.2011 | 14:10
Sigurjón víkur sér undan ábyrgð - Snilldar afleikur "snillings"
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
18.9.2011 | 23:55
Silfrið í dag
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
16.9.2011 | 16:31
Arðsemi af útleigu er oft of lág, en hver er ástæðan
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.9.2011 | 13:16
Hver á bílinn minn? En húsið mitt?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
14.9.2011 | 22:52
Landsbankinn segist hafa afskrifað 219 ma.kr. hjá fyrirtækjum og einstaklingum en það sést ekki í reikningum
Bloggar | Breytt 15.9.2011 kl. 14:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
14.9.2011 | 16:50
Guðbjartur, þú ert í aðstöðu til að breyta þessu!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
13.9.2011 | 12:30
Góður hagnaður Íslandsbanka, en hvar eru afskriftirnar sem SFF talar um?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
12.9.2011 | 16:35
Illugi braut lög, en það er allt í lagi - Virðingu Alþingis setur niður
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
11.9.2011 | 11:36
Varð heimurinn hættulegri fyrir 10 árum eða gerðist að löngu fyrr?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
10.9.2011 | 13:42
Liverpool vann Stoke 8 - 0..
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
9.9.2011 | 00:23
Skítugir skór fjármálafyrirtækjanna, neytendavernd og lögleysa
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
5.9.2011 | 22:23
Eignarhaldsfélög og fasteignafélög fá 380 ma.kr. afskriftir - Önnur rekstrarfélög og einstaklingar rúmlega 120 ma.kr.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (16.1.): 4
- Sl. sólarhring: 6
- Sl. viku: 26
- Frá upphafi: 1681257
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 25
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði