Leita í fréttum mbl.is

Silfrið í dag

Líklegast hafa einhverjir tekið eftir því að ég var gestur hjá Agli Helgasyni í Silfrinu í dag.  Upptökur af þættinum er hægt að sjá á vef RÚV - Silfur Egils Vettvangur dagsins - og á facebook síðu Láru Hönnu Einarsdóttur - Fyrstu klippurnar.

Ég vil taka það fram, að mér vitanlega hafa hvorki Arion banki né Íslandsbanki eignað sér opinberlega afskriftir sem voru framkvæmdar hjá Kaupþingi og Glitni.  Landsbankinn er einn um það - að ég best veit.  Gagnrýni mín beinist heldur ekki að framsetningu upplýsinga í árs- og árshlutareikningum bankanna.  Reikningarnir endurspegla 100% þann skilning minn að lánasöfn gömlu bankanna voru færð niður um tugi prósenta ÁÐUR en þau voru færð til nýju bankanna og í stofnefnahagsreikningi nýju bankanna eru þau færð inn á þessu niðurfærða virði.  Gagnrýni mín beinist að því hvernig reynt er að blekkja almenning með tröllasögum um afskriftir hjá nýju bönkunum.  Tröllasögur sem sagðar eru af Samtöku fjármálafyrirtækja, Fjármálaeftirliti og stjórnmálamönnum.

Efnahags- og viðskiptaráðherra hefur tvisvar gefið Alþingi svör um meintar afskriftir í nýju bönkunum fyrir árin 2009 og 2010.  Upplýsingarnar hefur hann fengið frá Fjármálaeftirlitinu.  Samkvæmt þeim voru afskriftir til einstaklinga og fyrirtækja 503 ma.kr. þessi tvö ár.  Þetta er gríðarlega há upphæð og ætti hún því að vera áberandi í reikningum bankanna.  En hún er það ekki.  Hún er raunar hvergi sjáanleg í heild en einhvern hluta hennar má finna þar.

Finnst þessi tala þá í bókum gömlu bankanna fyrir þessi tvö ár?  Nei, hana er ekki að finna þar heldur.  Ástæðan er einfaldlega sú, að afskriftirnar voru framkvæmdar í október og nóvember 2008 um það leiti sem nýju bankarnir voru stofnaðir.  Viðskiptavinirnir fengu bara ekki að vita af þvi fyrr en síðar, að þessar afskriftir fóru fram.

Magnús Orri talaði um að lán heimilanna hafi farið yfir með 28% afslætti og inni í því væru gengistryggðu lánin.  Rétt er að gengistryggðu lánin voru þar inni, en 28% afsláttur af lánasöfnum heimilanna gerir umtalsvert hærri tölu en þær 120 ma.kr. sem SFF segir að "afskriftir" vegna dóma Hæstaréttar og laga nr. 151/2010 hafi numið.  Samkvæmt upplýsingum bæði Seðlabanka og AGS var bókfært virði lána heimilanna um 806 ma.kr. í gömlu bönkunum 30. september 2008.  28% af þeirri tölu er 225,7 ma.kr.  Auk þess fara þessar 120 ma.kr. ekki saman við upplýsingar frá FME í lok júní 2010 um áhrif dóma Hæstaréttar á eignir bankanna.  Þessu til viðbótar er rétt að nefna, að AGS bannaði nýju bönkunum að færa upp gengishagnað á gengistryggð lán og var gengishagnaður aldrei færður sem tekjur í reikningum bankanna, heldur færður jafnóðum á varúðarreikning.

Kröfuhafar og eignaréttur

Efnahags- og viðskiptaráðherra hefur verið tíðrætt um að dómstólar hafi varið eignarrétt kröfuhafa.  Magnús Orri Schram tók þetta mál upp í Silfrinu í dag.  Málið er að ekki hefur verið deilt um eignarrétt þeirra kröfuhafa sem dómar hafa fjallað um.  Í hvorugu tilfellinu átti einhver af bönkunum þremur aðild að þeim dómsmálum.  Það hefur því ekkert reynt á eignarrétt nýju bankanna gagnvart kröfum sem þeir fengu á lækkuðu virði.  Sparisjóður Vestmannaeyja, sem var aðili að öðru málinu, hefur ekki fengið til sín að hluta afskrifaðar kröfur.  Sama á við Frjálsa, SPRON, Sparisjóð Suður-Þingeyinga og fjölmargar aðrar fjármálastofnanir.  Einu tilfellin þar sem fjármálafyrirtæki hefur keypt kröfur með afföllum er þetta með nýju bankana.

Í máli Sparisjóðs Vestmannaeyja átti að fella niður kröfu og leitaði sjóðurinn því til dómstóla til að láta reyna á stöðu ábyrgðarmanns.  Hvað varðar lán heimila og fyrirtækja hjá nýju bönkunum, þá er krafan lifandi en upphæð hennar var lækkuð af gömlu bönkunum.  Það er því ekki verið að ganga á kröfurétt og þar með ekki eignarrétt, heldur eingöngu verið að benda á að fyrri eigandi kröfunnar færði hana niður áður en nýr eigandi tók við henni.  Mér er lífsins ómögulegt að skilja að nýr eigandi eigi ríkari rétt í dag, en gamli eigandinn færði honum við yfirtöku kröfunnar.  A.m.k. sé ég ekki hvernig slík geðþóttarákvörðun nýja eigandans um að hækka kröfuna aftur umfram kaupverð geti skapað honum aukinn eignarrétt.  Krafan var framseld til hins nýja eiganda með afslætti og eignarrétturinn hlýtur að takmarkast við þá upphæð sem nýr kröfuhafi keypti kröfuna á.

Kannski er ég að fara út í móa með þessum rökstuðningi, en hugsanlega væri rétt að láta reyna á það hjá slitastjórn gamla bankans, að hann gefi hreinlega út yfirlýsingu til mín sem lántaka, að lánið mitt hafi verið fært niður um svo og svo mörg prósent í október 2008.  Samkvæmt skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn bankanna og samkvæmt úrskurði Fjármálaeftirlitsins frá 14. október 2008, þá var það einmitt gert.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Það er eins og eignaréttur okkar sem keypt höfum eigið húsnæði sé ekki jafn mikill og eignaréttur þeirra sem lána til kaupanna.  Eignaréttur okkar sem erum með verðtryggð lán er í raun enginn, þegar stjórnvöld verja bara eignarétt bankanna.  Gæti þetta ekki varðað jafnræðisregluna?  Á ekki að vera jafnræði með lántaka og lánadrottni? 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 19.9.2011 kl. 00:06

2 Smámynd: Ómar Bjarki Smárason

Ríkisstjórnin og þingliðið sem að henni stendur er greinilega ekkert annað en "sýndarveruleikaleppsstjórn" AGS og þar að auki með ESB heilkenni....

Þú stendur þig vel Marinó og hafðu þakkir fyrir.

Ómar Bjarki Smárason, 19.9.2011 kl. 01:15

3 Smámynd: Haraldur Baldursson

Marinó, þú áttir einhverja sterkustu innkomu viðmælenda í Silfrinu í verulega langan tíma...ég tek ofan hatt og kollu fyrir því hvernig að útför Magnúsar Orra var staðið....strák greyið var gjörsamlega týndur og þótti greinilega óþægilegt að standa berrassaður fyrir fram alþjóð (eða þann hluta sem á silfrið horfði).
Hafðu kæra þökk fyrir

Haraldur Baldursson, 19.9.2011 kl. 02:07

4 identicon

Sæll Marinó, ég þakka þér skýrar upplýsingar um talnaleiki bankanna og eignatilfærslu þeirra. Það er dæmigert fyrir jafnaðarmenn að höggva fót af heilbrigðum og jafna þar með kjörin við þá fótaveiku. Árangurinn er eyðilegging á sjálfsbjargarviðleitni fólks og eignum þeirra. Hver vill vera duglegur og reyna að byggja eitthvað upp, ef allt verður frá tekið? Það verður ekki af velferðarstjórn bankanna skafið. Haltu áfram þínu góða starfi.

Gústaf Adolf Skúlason (IP-tala skráð) 19.9.2011 kl. 09:30

5 identicon

Þetta var vandræðalegt, kjánalegt og heimskulegt hvernig Magnús Orri kom fram og opinberaði fáfræði sína og bagalegt siðferði. Tók engin eftir hvernig hann lagði upp dæmið með hvernig á að rukka þessar skuldir inn? S.s. skotleyfi á skuldara í skjóli stjórnvalda. Svo var þetta eignaréttafjas með slíkum ólíkindum að mér langaði að slökkva á sjónvarpinu.

Ég spyr bara.... hvað er AÐ þessu fólki á Alþingi???

PS. Flott hjá þér Marinó. Við þurfum aukna hörku í þessa umræðu sem endar með aðgerðum.

Hlynu Gudlaugsson (IP-tala skráð) 19.9.2011 kl. 09:32

6 Smámynd: Sigurður Sigurðsson

Það var eiginlega sorglegt að hlusta á þingmanninn verja hlut kröfuhafa af hörku. Mikið væri nú gott ef lántakar ættu svona málsvara á þingi.

Sigurður Sigurðsson, 19.9.2011 kl. 10:57

7 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Ef gjaldeyrislán voru inn í þessum "afslætti", þá er spurning um hvort þau hafi verið útbólgin skv. gengi á þessum tíma, eða á nafnverði hvers skuldabréfs.

Það skiptir höfuðmáli, því að ljós hefur komið að það var enginn "afsláttur" á þessum gengislánum, heldur voru þau dæmd ólögleg þ.e. gengisviðmiðunin, og því verður að finna út á hvaða forsendum, þau liggja inn í þessum meintum afsætti.

Eggert Guðmundsson, 19.9.2011 kl. 10:59

8 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Eggert, samkvæmt mínum upplýsingum þá fór AGS fram á það við nýju bankana að gengistryggð lán þeirra sem ekki höfðu tekjur í erlendri mynt yrðu ekki uppfærð með gengisþróun.  Þetta má sjá í árs- og árshlutareikningum Íslandsbanka.  Af þeim sökum voru lánin ekki eins útbólgin og lesa má út úr svari SFF og ýmsum tölum frá FME.  Málið er að þetta átti að vera á fárra vitorði.

Marinó G. Njálsson, 19.9.2011 kl. 12:39

9 identicon

Það sem stingur í augun er að stjórnmálamenn virðast ekki geta sagt sannleikann, sama hversu oft þeir eru leiðréttir, sama hversu oft þeir eru staðnir að því að koma fram með útúrsnúninga og hálfsannleika. Sama þótt þeir sitji við hliðina á konu sem var rétt að sleppa orðinu um siðferði og skort á því hjá stjórnmálamönnum. Samt gat hann ekki sagt satt. Gott að við eigum fólk eins og þig Marinó til að stinga upp í hann. 

Annað mál, er það satt að húsnæðiskostnaður á Íslandi sé ekki nema um 20% af ráðstöfunartekjum eins og haldið var fram í gær?  Eða er það líka svona spunatengt efni? Veist þú á hverju þeir byggja þessar staðhæfingar? 

HA (IP-tala skráð) 19.9.2011 kl. 14:27

10 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Í þessu sambandi langar mig að benda á, að við umsókn um "niðurfærslu" veðskuldar vegna 110% leiðar hjá Íslandsbanka fer bankinn fram á að skuldari gangist við eftirstöðvum lána eins og þau stóðu þ. 01.01.2011.  Jafnframt segir að skuldari gefi bankanum heimild til að nota þessar upplýsingar nafnlaust til að endurmeta verðmæti lánasafna bankans.  M.ö.o. þá er bankinn að fara fram á að skuldarar samþykki að lánin séu meira virði en bankinn er með bókfært í lánasöfnum sínum í dag, og gefa honum þannig heimild til uppfæra bókhald sitt og innheimta eftirstöðvarnar eins og þær standa á greiðsluseðlum.  Til hvers þarf skuldari annars að samþykkja að bankinn "lækki" skuld hans við bankann?  Það er bara til að bankinn geti innheimt hærri eftirstöðvar kröfu en hann hefur bókfærðar vegna krafna sem hannfékk á 28% afslætti frá Glitni banka m.v. orð Magnúsar Orra í Silfrinu. 

Ef bankinn vill lækka skuld viðskiptavinar getur hann gert það, og samþykkir þá að eftirstöðvar skuldarans hafi lækkað og færir venjulega til afskriftar þá upphæð sem lækuninni nemur.  Hann þarf væntanlega ekki heimild skuldara til þess enda er um bókfærslugjörning að ræða hjá bankanum og almenningur er ekki í hlutverki endurskoðenda bankans.   En við 110% leið hefur í flestum, ef ekki öllum tilfellum, engin lækkun verið framkvæmd í bókum bankans.  Sú lækkun fór fram í Glitni eins og margoft hefur verið bent á.

110% "niðurfærsluleið" lána er því að mínu mati fyrst og fremst uppfærsluleið (gróði) fyrir bankann sem fékk almenningslán til sín á um 28% afslætti.

Með því að staðfesta og viðurkenna að eftirstöðvarnar þ. 01.01.2011 hafi verið þær réttu gefur skuldari bankanum peninga.  Þeir sem hafa samþykkt þessa leið hafa því að mínu mati verið blekktir af bankanum til að gangast við að lán sem bankinn eignaðist 14. október 2008 sé meira virði en hann "greiddi" fyrir það, og slík háttsemi er fjársvik sem er hegningarlagabrot.

Ég reikna með að sama gildi um 110% leiðir hjá hinum bönkunum þó ég hafi ekki séð skilmálana.

Erlingur Alfreð Jónsson, 19.9.2011 kl. 14:40

11 Smámynd: Júlíus Björnsson

MOS fór ekkert leynt með ásetning sinn að hann væri ríkið [Sólún er þjóðin] og þett væru bara pappísrsfærslur til að breyta öllu eignum sem hægt væri í vaxtatekjur til skattlangar fyrir sig. Til styrkja íu Íslendka bótakerfið að hluta. Síðan viðurkendi hann að ekkert hverði verið gert til bæta þessi lög sem Dómstólar hér skilja þessum furðu skilningi. Þegar AGS 2005 bar Ísland saman við eigna og fjámála grunn Norðulanda, Frakklands og Þýskalands, þá var Íslend allt öðru vísi með aðrar áherslur í samanburði. Spyrja má hversvegna þessi Ríki voru ekki eins og Ísland. Svarið er auðvelt kerfið hér samrýmst ekki þeirra túlkunum á sínum stjórnarskrám, og er bókhaldslega langtíma séð og skammtíma séð óarðbært í heildina.  Gloppur í bókhaldi á Íslandi í skilningi AGS er gloppur í lögum þetta er eitt og hið sama efnahagslög og þá í samanburði við EU og USA.   Öll veðsöfn hér í kerfinu eftir 2000 subPrime, merkir 20 % eigin- reiðfjár-útborgunar skyldu ekki bara til útlendinga.  subPrime verkir að þau geta ekki skilað raunvirði reiðufjár fram yfir 5 ár og þess vegna aldrei vaxtakröfu upp fyrir meðalhækkanir á neyt-endamörkuðum mælt CIP [USA, eða UK]. Það er, ekki raunvöxtum eða raunhagvexti í heildina litið í samburði við aðra neyt-endmarkaði, sjá neikvæðan raunhagvöxt frá 1980. Þetta er sjúkt kerfi sem kallast landráð erlendis.  Langtíma veltuveðsöfn í borgum  erlendis er til að halda niðri fasteignakostanaði í fjármálaborgum erlendis, til að lækka fastan grunn rekstrakostnað allra til að tryggja hávirðsauka veltu á sömu neyt-enda mörkuðum. Öll þessi söfn byggja á sama bókhaldseignargrunni og stærðfræði og eru öllu í samræmi, með sín  skráðu marksverð: sjá Libor vexti.   Þau eru öll Prime nema subPrime óarðbær og lágir vextir, eða ótrygg ofháir vextir: vextir umfram verðlaghækkanir á veltutíma safna á þeim markaði sem um ræðir. Nýbyggðhverfi, sumarbústaðir og sérhæft milla húsnæði, hámarkveltu tími 5 ár  sem skýrir 20 % útborgunarskylduna.    Ég rak mánarveltu fyrirtæki og aðal skylda mín var að eiga fyrir útborgun næsta mánaðar, til að geta grætt og fara ekki á hausinn, þetta er bundið við skyldu heldur sjálfsagt til að geta annað eftirpurn minna neytenenda.  Mínir lánadrottnar höfðu ekki hag af því að ég minnkaði jafnstreymið gagnvart þeim með að selja eða framleiða minna, því þeir voru ánægðir með traust viðskipti: sem byggjast á 100 % skilningingi á bókhaldi  sem sér um að eigin-reiðu-fé og því eignir fari ekki í rugling: hugtakið hagræða í bókhaldi er nánast glæpur erlendis.  Í bankabókhaldi erlendis og hér fyrir 1980 voru 5 ára veltusöfn 5 ára veltu söfn, x ára veltu söfn x ára veltusöfn, vigtuð yfir sinn þroska og veltu aldur eigin-reiði-fjárlega  séð.     Allir verða hafa skýr skil á þessum söfnum  í sínum jafnvægisreikningum og eigin reiðu fjár sundurliðnum  til að geta uppfyllt reiðufjár útborguhlutfallið sem er háð veltutíma safnsins. Þegar aðliar standa í skilum þá aðhafast lánadrottnar ekkert, vakni grunnur um falsaða sjóða og efnahagsreikinga, orðrómur um greiðslu erfiðleika séu þetta milliliðir  þá eru kvaddir til aðilar matsfyritæki og versta falli AGS til að gera útektir: skoða frumgögn. Efnhagsreikngingur Íslands um 2007 segir: 80% of Icelandic homeloans are mortgage CPI indexed. Þetta þýðir í USA að veðsöfn séu jafngreiðlu 30 ára Prime AAA+++ að mestum hluta. Þetta þýðir ekki að Jói bílstjóri geti borgað sína skuld í framtíðnni, eða hann hafi  skráð sig fyrir alltof dýru veði. Öll veðsöfn sem skila raunvirði erlendis IRR eru CPI index vigtað yfir veltutíma. Ég tek ekkert mark á Íslenskum dómstólum, textinn er á ensku. Það fundust engi slík söfn hér 2004: securities bonds. OCED telur samt sem áður vegna skatta og vaxtakostanðar á Íslenskum neyt-endamarkið að hér sé hægt að auka hávirðisauka mikið meira en til dæmis á Írlandi með öll söfn í lagi í dag. MOS er ekki maður sem ég myndi lána krónu. Lánadrottnar fyrirgefa skuldnautum sem gefa um neikvæðari mynd en þeir hafa sjálfir að rekstrinum og sameiginlegum veðeignum  með ánægju, og bestu hugaslegum lánafyrirgreiðlum í framhaldi, og tala ég af reynslu. MOS viðurkennir að hér allt gert til fegra pappíra í augum ríkisins og þess mati. I USA er almenn byssueign. Neytenda-markaður hér eru 80% bótaþegar [vaxta og leigu] og draslið í boði, í samræmi. Þetta er vaxtatekjustofn MOS: Ríkisins. Þetta skýrir vöxtinn í bótasgeiranum. Það trúir engin útlendingur sem gerir ekki hér úttekt að öll langtímaveðsöfn séu subPrime, þetta er svo geðveikt að er ekki tekið með með reikninginn. Það er verið að brenna upp öllum grunninum vegna eigin-fjár reiðu kostnaðar : langtíma almennir raunvextir eru ekki fræðinlega huganlegir en skila raunvirði er það og kallast að standa vörðu um sinni eignarrétt.  Nema hjá Íslendskum dómstólum , sem gæta hagsmuna MOS.   Lögum má breyta  og setja ný. Fasteignskattar eiga að miða við staðgreiðuverð=markaðverð  [á ensku] í kaupsamning þegar búið er að draga vexti og skatta frá kaupverði, fylgja síðan viðhaldskostnaði: til að veðsöfnin virki. Ríkið vinnur fyrir sína neyt-endamarkaði  en ekki á þeim eins og hlutirnir ganga út á hér síðan 1970. Íslendingar kunna ekki yfirstéttar ensku  og skilja því ekki 4% íbúa UK. Jafnvel þótt þeir hafi stundað hagfræðinám í UK.  Þessi miskilningur tryggir stéttalegan stöðuleika í UK og í öllu stöndugum Ríkjum. 4 % skilja hinvegar hina í öllum skilningi. 

Júlíus Björnsson, 19.9.2011 kl. 16:10

12 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Sæll Marinó og takk fyrir frábæra frammistöðu í Silfrinu.

Ég er um þessar mundir að hanna bréf til slitastjórnar gamla Glitnis og óska eftir lokastöðu á gengistryggðu skuldabréfi sem við hjónin vorum með hjá þeim þegar bankinn fór í þrot. Samkvæmt ákvörðun FME, frá okt. 2008 átti að gera upp stöðu allra lána, finna út stöðu eftirstöðva og þinglýsa þeirri stöðu yfir á nýju bankana.

Íslandsbanki hefur þráast við að gefa þessa stöðu upp. Ég hef óskað eftir afriti af fyrstu skráningu skuldabréfs okkar í höfuðbók nýja Glitnis, en þeirri ósk ekki verið svarað.  Það mætti halda að prinsarnir í höfuðstöðvum Íslandsbanka, sem fara með gengislánin, haldi að ég sé holdsveikur, því þeir hafa ekki fengist til að tala við mig beint, heldur senda svör sín í gegnum konu í útibúinu okkar; konu sem ekkert veit um þessi lánamál. Engu hefur breytt þó ég óski eftir beinu sambandi við þá, því erindi er ekki svarað.

Vegna þessa er ég að setja saman bréf til gamla Glitnis og óska eftir lokastöðu á eftirstöðvum skuldabréfs okkar, þ. e. þeirri upphæð eftirstöðva sem færðust yfir til nýja Glitnis. Gamli Glitnir á ekki að hafa rétt til að neita mér um lokastöðu viðskipta við hann, þar sem skuldabréf okkar hefur aldrei farið í vanskil, alltaf skuldfært á gjalddaga hverju sinni. Nýi Glitnir og síðar Íslandsbanki hafa, án þess að leita heimilda til, haldið áfram að skuldfæra lánið á bankareikning okkar hjóna. Nýi Glitnir og síðar Íslandsbanki eru annað fyrirtæki en gamli Glitnir og sú heimild sem veitt var gamla Glitni til skuldfærslu, var EKKI FRAMSELJANLEG.  Þess vegna eru allar skuldfærslur vegna afborgana lánsins, frá okt. 2008, án heimilda og mjög alvarlegt brot á fjárræði okkar.

Ég vildi leyfa þér að frétta af þessu svo þú vitir að það eru fleiri á sömu línu og þú, að millifærslan milli gömlu og nýju bankanna sé ótrúlega mikilli þoku hulin og afar lítill vilji til gagnsæis og eðlilegra vinnubragða við upplýsingagjöf.  Ég er einnig að skoða lögin hans Árna Páls um vaxtamálin o.fl.  Ég fæ ekki beur séð en ógilda megi þau lög vegna margra alvarlegra galla. Lögin snúast um að gera ólögmætar aðgerir, sem búið er að framkvæma, löglegar með alvarlegu inngripi í fjárræði lántaka. Hvert löggjafinn sækir heimildir sínar til að taka sakamál, sem heima á hjá dómsvaldinu, einu af þrígreindu valdsviði lýðræðisins, og setja afturvirk lög um lögbrotin, í tilraun til að gera þau lögleg. Þetta er MJÖG alvarlegt mál og enn óljóst hvert á að kæra slíkan óvitaskap löggjafans. Mun fljótlega ræða þessi mál bæði við innanríkisráðherra og Umboðsmann Alþingis. Ég hef áður kært lög til ógildingar. Þá voru stjórnvöld fljót að leggja starfsemina niður og afnema lögin, svo kæran varð óþörf. Mér sýnist þessi lög hans ÁPÁ vera öllu verri en hin sem ég kærði, en óvitaskapur og spilling er á mun hærra stigi nú, en hún var þá. Mér sýnist heiðarleiki stjórnsýslu og fjármálafyrirtækja enn vera utan sjóndeildarhrings. Óvíst hvort það nær áhrifum fyrr en eftir næsta bankahrun.

Guðbjörn Jónsson, 19.9.2011 kl. 17:14

13 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Takk fyrir þetta, Guðbjörn.  Þú ættir líka að lesa nýjustu færsluna mína.  Hún er ennfrekar um þetta.

Marinó G. Njálsson, 19.9.2011 kl. 17:18

14 identicon

Var að horfa á Silfrið og finn mig knúnka til að senda þér góðar kveðjur og þakklæti fyrir frábæra frammistöðu. Hrikalegt að sjá alþingismanninn styðja óréttlætið og tjá sig á þennan hátt. Varinn er eignarréttur veðhafa, en veðsala? Hvar er eignarréttur hans?

Ágústa Hauksdóttir (IP-tala skráð) 19.9.2011 kl. 22:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 44
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 39
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband