Leita í fréttum mbl.is

Sigurjón víkur sér undan ábyrgð - Snilldar afleikur "snillings"

Þorbjörn Þórðarson, fréttamaður á Stöð 2, tók alveg kostulegt viðtal við Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóra Landsbanka Íslands, sem birt er á visir.is í dag.  Þar er Sigurjón spurður út í málarekstur slitastjórnar Landsbanka Íslands hf. gegn honum, Halldóri J. Kristjánssyni og Elínu Sigfúsdóttur.  Tvennt stingur í augu varðandi það sem Sigurjón segir.  Annað er að hann skilur greinilega ekki hvað felst í ábyrgð æðstu stjórnenda og hitt er að verkferlar bankans hafa verið eitthvað meira en lítið furðulegir.

Furðulegir verkferlar

Ég ætla að byrja á síðara atriðinu.  Um lán upp á litla 19 ma.kr. til Straums í byrjun október 2008 segir Sigurjón:

Fjárstýring metur það, samkvæmt reglum, hvort bankinn eigi laust fé til að lána og það kemur ekki inn á borð bankastjóra. Þeir lánuðu þessa peninga í viku og eftir það veit ég ekki hvað gerðist.

Og um lán til Grettis upp á 40 ma.kr. segir hann:

Ég var í sumarfríi á þessum tíma, þ.e þeim tíma sem máli skiptir. Á síðari stigum málsins kom ég að málinu til að reyna að leysa úr því en það var á allt öðrum tímapunkti. Enda var það innbyggt í ferla bankans að það var ekki gert ráð fyrir að bankastjóri væri að vasast í einstökum málum af þessu tagi.  Landsbankinn var risastórt fyrirtæki. Og verkferlar gerðu ekki ráð fyrir því að bankastjóri kæmi að ákvörðunum eins og að innheimta ábyrgðir.

Já, greinilegt er að Landsbanki Íslands var risastórt fyrirtæki, þegar lán til eins aðila upp á 19 ma.kr. er ekki nógu stórt til að þurfa endanlegt samþykki æðstu yfirmanna.  Ég held ég leyfi mér að fullyrða, að öll fyrirtæki sem ég þekki til og líklegast flest önnur hafa þrepaskiptingu hvað varðar heimildir starfsmanna til aðgerða, hvort heldur það felst í að skuldbinda fyrirtækið fjárhagslega eða framkvæma eitthvað sem hefur varanleg áhrif á rekstur eða afkomu fyrirtækisins.  Þannig má starfsmaður á "gólfinu" ekki stofna til neinna útgjalda án samþykkis deildarstjóra, deildarstjórinn má stofna til eða samþykkja útgjöld upp á segjum 100 þús.kr. án samþykkis sviðsstjóra, sviðsstjórinn hefur heimild til að samþykkja eða stofna til útgjalda upp á segjum 400 þús.kr. án samþykkis framkvæmdastjóra og framkvæmdastjórinn verður síðan að leita til stjórnar vegna útgjalda yfir 1 m.kr.  (Tekið fram að um sýnidæmi er að ræða.)  En hjá Landsbanka Íslands mátti Fjárstýring borga út 19 ma.kr. án aðkomu bankastjóranna vegna þess að bankinn var svo stór.  (Líklegast voru 50 metrar á milli þessara aðila í húsnæði Landsbanka Íslands við Austurstræði/Hafnarstræti.)  Ég veit svo sem að útibússtjórinn minn í vesturbæ mátti ekki hreyfa sig ef upphæðin fór yfir 1 m.kr. og þurfti að leita til lánanefndar, þannig að skýrirng Sigurjóns er ekki trúverðug.

Eitthvað er stórlega að stjórnun fyrirtækis, þar sem útgreiðsla sem nam árshagnaði þess, fór fram án vitneskju eða samþykki æðsta yfirmanns.  Hafi þetta verið í samræmi við verkferla, þá þætti mér áhugavert að vita hvort þeir ferlar hafi verið í samræmi við lög, tilmæli Fjármálaeftirlits og fengið samþykki regluvarðar bankans.

Ábyrgðarleysi Sigurjóns

Á nokkrum stöðum í viðtalinu vísar Sigurjón allri ábyrgð frá sér.  Fyrst var það fjárstýringin sem átti að axla ábyrgðina, síðan var hann í sumarfríi og því bar hann enga ábyrgð, loks voru það starfsmenn Björgólfs sem "hönnuðu" bankaábyrgð fyrir 40 ma.kr. lánum.  Til hvers var Sigurjón í stóli bankastjóra, ef það voru alltaf einhverjir aðrir sem báru ábyrgð?  Samkvæmt því sem hann segir, þá gerði hann jafnmikið gagn í sæti bankastjóra í þessum málum og Óli prik hefði gert, þ.e. ekkert.

Auðvitað bar Sigurjón ábyrgð á öllum þessum málum.  Hann var ábyrgur gagnvart stjórn og hún gagnvart hluthöfum vegna þessara mála.  Þannig er það í öllum hlutafélögum.  Engu skiptir hver sér um framkvæmd á verkinu, ábyrgðin hvílir hjá bankastjórunum.  Hvers konar aumingjaskapur er þetta að varpa ábyrgð yfir á aðra?

Bara þetta einfalda mál, að starfsmenn Björgólfs (formanns bankastjórnar) "hönnuðu" bankaábyrgð sem var gjörsamlega ófullnægjandi.  Bankastjóri með bein í nefinu og sem tekur ábyrgð á rekstri bankans síns hefði aldrei samþykkt ábyrgð sem rynni út nokkrum dögum eftir lán fellur á gjalddaga.  Þessi ábyrgð er slíkur málamyndagerningur að það eitt að samþykkja hana lýsir vanhæfi þeirra sem það gerðu.  (Ég reikna með að Sigurjón hafi ekki komið nálægt því, bara einhver nafnlaus undirmaður.)

Snillingur eða lélegur stjórnandi

Sigurjóni hefur oft verið hampað sem snillingi, en mér finnst hann frekar sanna hið gagnstæða í þessu viðtali.  Hér er t.d. kostuleg skýring:

Það voru þeir sem hönnuðu þessa ábyrgð og þess vegna var hún dálítið óvenjuleg. Það var gerð krafa um ábyrgð en með því að taka við henni minnkaði Landsbankinn áhættu sína gagnvart stjórnarformanninum. Mál af þessi tagi komu ekki inn á borð til okkar Halldórs nema einhverjir starfsmenn bankans leituðu til okkar með þau. Það var ekki leitað til bankastjóra vegna átta daga vanskila á einstökum lánum. Bankinn var það stór og það var fjöldi deilda sem áttu að sjá um þetta. Þess vegna finnst mér undarlegt að hægt sé að krefja bankastjórnendur um skaðabætur.

Í þessum texta eru nokkur atriði sem lýsa lélegum stjórnanda:

  1. Starfsmenn Björgólfs hönnuðu gagnslausa bankaábyrgð og Sigurjón hefði (af snilld sinni) átt að sjá í gegn um hana.
  2. Áhætta bankans breyttist ekkert gagnvart stjórnarformanni, þar sem ábyrgðin var vita gagnslaus.  Ef Sigurjón hefur virkilega verið þessi "snilli" sem sagt er, þá átti hann að sjá það.
  3. Ekki var leitað til hans eða Halldórs vegna 40 ma.kr. ábyrgða sem greinilega voru haldslausar.
  4. Ekki skal leita til bankastjóra, þegar ábyrgð upp á 40 ma.kr. er að renna út og þegar hefur orðið greiðslufall.  Ábyrgur bankastjóri hefði gengið sjálfur persónulega í málið áður en ábyrgðin rann út.
  5. Hann vísar ábyrgð á  undirmenn sína í staðinn fyrir að koma fram eins og maður og viðurkenna umorðalaust að vissulega beri hann ábyrgð í málinu, en hann muni verjast skaðabótakröfunni.

Nei, það fer ekki mikið fyrir snilld Sigurjóns í orðum hans.  Viðtalið sýnir mann í mikilli afneitun og á flótta frá staðreyndum.  Tilvitnuð orð lýsa ítrekað ótrúlegu vanhæfi hans til að gegna starfi bankastjóra.  Ætli sé hægt að stefna honum fyrir vanhæfi?

Tekið skal fram að allt sem hér hefur verið sagt um ábyrgð bankastjóra, á jafnt við Halldór J. Kristjánsson.  Þeir tveir og síðan Björgólfur Thor Björgólfsson og Björgólfur Guðmundsson bera ábyrgð á því klúðri sem varð í þeim tveimur málum sem stefnt hefur verið út af.  Björgólfur Thor heldur að vísu, að hann gangi á vatni, þ.e. sé syndlaus með öllu, en hann hefði ekki verið með alla þessar fléttur í kringum eignarhald í félögum sínum, nema vegna þess að hann ætlaði að snúa á lögin.  Haldi hann eitt augnablik, að almenningur í þessu landi sjái ekki í gegn um fléttur hans, þá er hann minni "snillingur" en meira að segja Sigurjón og ekki fer mikið fyrir "snilld" hans í viðtalinu sem Þorbjörn Þórðarson tók við hann. 

Að lokum

Íslensk þjóð hefur mátt þola nóg vegna gerða (og aðgerðarleysis) stjórnenda, stjórnarmanna og eigenda hrunbankanna. Er hægt að gera þá einföldu kröfu til þeirra, að þeir hætti að ljúga að þjóðinni, þegar þeir eru að skýra sína hlið á málinu?  Ég hef mikinn áhuga á að heyra þeirrar hlið málsins, en vinsamlega hættið að hvítþvo ykkur af afglöpum ykkar.  Björgólfur Thor kemur fram þessa daganna og lætur sem hann sé syndlaus.  Hann fékk bankahrunið í fangið og það er ekkert honum að kenna.  Maður fær æluna upp í háls að lesa heilaga ritningu BTB.  Ég trúi því alveg að skýrsla RNA fari ekki alltaf rétt með og oft eru túlkanir byggðar á sannfæringakrafti viðmælanda, en ekki staðreyndum, en enginn fær mig til að trúa því að BTB sé saklaus.

Ábyrgð fjölmiðla er mikil.  T.d. í viðtali, eins og því sem vísað er til að ofan.  Hvar eru gagnrýnu spurningarnar?  Af hverju er Sigurjón ekki spurður út í það hvers vegna hann hafi samþykkt sýndarábyrgð sem rann út áður en vanskil voru orðin þess virði að hafa áhyggjur af þeim.  Hvar er spurningin um yfirmannsábyrgð Sigurjóns eða hvað upphæðin þurfi að vera há til að megi trufla bankastjórana í sumarfríi.  Maður hefur helst á tilfinningunni, að mennirnir sem settu þjóðina á hausinn fáist ekki í viðtöl nema um drottningarviðtöl sé að ræða.  Bannað að spyrja alvöru spurninga.  Bannað að sauma að viðmælandanum.  Bannað að reka sannleikann upp í nasir viðkomandi vegna þess að hann gæti fengið blóðnasir.

Sjálfur var ég í Silfri Egils sl. sunnudag.  Með mér í panel var Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar.  Hann tók upp á því að segja alls konar tröllasögur, sem hann vildi sannfæra þjóðina um að væri sannleikanum samkvæmt.  Því miður fyrir Magnús var ég þarna líka og ég þekkti sögurnar betur en hann.  Hans útgáfa var dapurleg hliðrun sannleikans og þannig er það því miður of oft.  Þjóðin vill ekki að það sé logið að henni.  Hún vill sannleikann hversu hraðneskjulegur sem hann er.  Meðan sannleikurinn er ekki uppi á borðinu, þá verður haldið áfram að grafa eftir honum.  Í leiðinni verður grafið undan trúverðugleika ansi margra í þjóðfélaginu. Er ekki betra að koma hreint fram um hvað gerðist og hvað er að gerast, en að halda þessu bulli áfram?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Einn þekktasti sérfræðingur heims í fjármálaglæpum, William K. Black, fullyrti í maí fyrir rúmu ári, eftir að hafa lesið úrdrátt úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, að starfsemi hinna föllnu banka hefði verið skólabókardæmi um svokallaða Ponzi-svikamyllu. Hann svaraði aðspurður, í fyrirlestri í Háskóla Íslands, að svindlið hefði hafist „frá fyrsta degi“ eftir einkavæðingu bankanna. Rannsókn sérstaks saksóknara rennir stoðum undir þá fullyrðingu.

http://www.visir.is/william-k.-black--islensku-bankarnir-voru-eitt-stort-ponzi-svindl/article/2010101740933

Hjörtur Hjartarson (IP-tala skráð) 21.9.2011 kl. 15:04

2 identicon

Það reynir enginn lengur að halda því fram að hér hafi verið einhver eðlileg  bankastarfsemi í landinu fram að hruni.

Frá degi eitt eftir einkavæðingu voru þetta ekkert annað en skipulögð glæpastarfssemi þar sem þessir menn komust ekki í gegnum einn einasta heila vinnudag án þess að brjóta einhver lög um fjármálastarfssemi í landinu.

Þetta liggur allt fyrir, að t.d. sýndarviðskipti með hlutabréf í bönkunum byrjuðu strax á degi eitt eftir einkavæðingu og svoa var haldið áfram alveg til falls bankanna.

Þess vegna er það svo galið þegar menn láta út úr sér að árangurinn af þjófnaðinum sé stjórnarsrkárvarin eign banksteranna????

Þetta eru allt miljarðamæringar í dag, lifa í höllum og snekkjum um allan heim með allar skuldir afskrifaðar, á meðan í öllum öðrum löndum eru svona menn leiddir í járnum út af skrifstofunni og bankareikningar þeirra frystir á meðan saksóknari rannsakar málið.

Hér gerist ekki neitt, nema það þarf að þjóðnýta heimilin í landinu svo þessir menn geti haldið sínu????

Það þarf að hreinsa út úr vistheimilinu á Austurvelli, og koma mútuþegunum út.

Ég efast um að margir landsmenn njóti meira trausts en þú Marinó til að leiða nýtt stjórnmálaafl í landinu.

Sigurður #1 (IP-tala skráð) 21.9.2011 kl. 16:12

3 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Sigurður #1, ég hef aldrei haldið því fram að ég yrði eitthvað betri þingmaður eða ráðherra heldur en þeir sem eru í jobbinu og ekki sækist ég eftir því.

Marinó G. Njálsson, 21.9.2011 kl. 16:39

4 Smámynd: Skarfurinn

Þakka þér fyrir að vekja máls á þessu, hef lengi undrast af hverju menn eins og Sigurjón & Halldór skuli ekki fyrir löngu komnir bak við lás og slá, hver heldur hlífskyldi yfir þessum mönnum ? við erum með Ólaf Þór og herskara manns á fullum launum við að rannsaka þessi mál og eftir heil  3 ár hefur ekkert gerst ? 

Skarfurinn, 21.9.2011 kl. 16:48

5 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég held að betra sé að rannsaka málin vel og hafa þau skotheld, þegar kemur að ákæru, en að lenda í því að slyngir lögmenn fái þeim hent út úr dómi.  Baugsmálið ætti að kenna okkur ýmislegt.

Marinó G. Njálsson, 21.9.2011 kl. 16:53

6 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Hjörtur og Sigurður. Það er reyndar margt sem bendir til þess að svikamyllan hafi ekki verið bara frá upphafi einkavæðingar, heldur byrjað löngu fyrr. Einkavæðingin flýtti vissulega fyrir, en breytti hinsvegar engu um grundvallargerð hins sviksamlega kerfis.

En það sem Bill Black lætur hinsvegar ósagt er að, að það sem gerði íslenska fjármálakerfið að þesskonar svikamyllu, er alls ekkert öðruvísi en hvernig fjármálakerfi annara ríkja eru uppbyggð. Þau eru í rauninni öll byggð á samskonar svikamyllu. Eina ástæðan fyrir því hversu áberandi það er á Íslandi er vegna þess að smæð hagkerfisins og hið mikla magn tölvutækra upplýsinga um það gerir óháðum rannsakendum auðveldara að greina þau ferli sem áttu sér stað fram að hruni.

Jú það er reyndar eitt sem gerði íslenska hagkerfið að öfgakenndara, og þar með meira lýsandi dæmi um svikamyllu en flest hin hagkerfin. Það fyrirbæri kallast verðtrygging og er sjálf-útblásandi verðbólguhvati.

Guðmundur Ásgeirsson, 21.9.2011 kl. 17:22

7 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Góð grein að vanda Marinó.

Ég væri orðinn klikkaður ef ég byggi á Íslandi, mín siðferðisvitund bara gæti ekki þolað þetta endalausa rugl og þvætting sem kemur frá þessu fólki.  Ég veit ekki á hvaða plánetu það býr en það hlýtur að koma að því að jarðnesk yfirvöld komi þessu fólki niður á jörðina.  Enginn bar ábyrgð á neinu og það er ekki spurning að þetta var allt saman rekið á svikum og prettum.  Það var ekki þverfótað fyrir markaðsmisnotkun til að keyra upp verðmæti bankanna og allt þetta kerfi var Ponzi frá upphafi til enda - og ég er hræddur um að það sé það ennþá! 

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 21.9.2011 kl. 17:45

8 identicon

A) Ég mun hins vegar halda því fram alla sjö daga vikunnar, allar vikur ársins að þú yrðir betri þingmaður en flestir af þeim sem sitja á þingi Marínó.

B) Þó að þú kunnir ekki að sækjast eftir starfi sem þingmaður þá þykist ég vita að þeir skipti tugum þúsunda þeir Íslendingar sem vilja sjá þig í framboði. Þá er ég jafn viss um að það er til handfylli af stjórnmálamönnum sem óttast fátt meira enn að þú farir fram.

C) Þegar það er sagt þá verður auðvitað að virða rétt hvers manns til þess að ráða örlögum sínum, en ég leyfi mér hins vegar, eins og svo margir aðrir, að láta mig dreyma um að sjá Lilju, Eygló, Marínó, Benedikt Sigurðsson og annað heiðarlegt fólk sameinast í nýju afli sem sópa myndi til sín 30% fylgi í næstu kosningum.  Ef ekki tekst að koma á breytingum í næstu atlögu þá verður ólíft á Íslandi.  

Benedikt Helgason (IP-tala skráð) 21.9.2011 kl. 18:18

9 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég þakka fyrir mig, Benedikt.

Ég er sammála þér í því að sniðugt væri að fylkja saman fólki úr hópi núverandi þingmanna sem skera sig úr varðandi stuðning við heimilin og gæti ég nefnt fleiri en þær stöllur.  Vandamálið er að hver er í sínum hópi af ástæðu og ekki er víst, þó fólk finni hljómgrunn í einu málefni að það deili með sér nægilega mörgum öðrum til að geta stigið samstiga fram.

Það er með þetta eins og svo margt annað, að enginn veit sína ævi fyrr en öll er.

Marinó G. Njálsson, 21.9.2011 kl. 18:38

10 identicon

Tek undir frómar óskir Sigurðar#1 og Benedikts Helgasonar, lið A, B og C. 

Frettir um Besta sem skeifu undir framsóknarmerina og með samfylktu freti er ekkert svar fyrir nóboddíana í öskustó hrunsins.

Hér þarf nýtt alvöru afl, rödd "venjulega fólksins" og þar hafa Marinó og Hagsmunasamtök heimilanna, Hreyfingin  og Lilja og fleira gott og vel meinandi og heiðarlegt baráttufólk verið í fararbroddi og til þeirra lítum við sem vonumst til að hreinsað verði til hér á landi, svo við neyðumst ekki til að hrekjast úr landi undan ofríki gunga og drusla 4flokka.   

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 21.9.2011 kl. 18:51

11 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Ágæt grein Marinó. Mér finnst reyndar að það þurfi að rökræa  lánamál, gengistryggingu og verðtryggingu og bankaafskriftir, þá á ég við að skoða málið með fleiri sjónarhornum. Stundum festast menn í þessari umræðu, með mjög vafasöm rök, sem skaðar umræðuna. Með rökræðunni eykst skilningurinn og heildarmyndin verður skýrari.

Annað er að undir þinni stjórn völdu Hagsmunasamtök heimilanna að vara afskaplega hógvær og varfærin. Svo komu pólitíkusarnir og víluðu ekki fyrir sér að fara rangt með. Magnús Schram er eins og engill í samanburði við Jóhönnu, Steingrím, Mörð, Skúla og aðstoðarmann Jóhönnu. Ég teldi að við þyrftum að vera aðeins ,,þéttari" við mótmælin 1 október, en án skrílsláta. Verði engin löregla þarf að safna hópi til þess að koma í veg fyrir slíka atburði. 

Varðandi framboðsmál þá hefur þú bæði sýnt getu og heiðarleika. Það er það sem við þurfum á að halda í dag. Þú hefur meira á þing að gera en  margir  sem þar eru. Að gefa kost á sér er hins vegarrrrrrr ákvörðun  tekin af hverjum og einum

Sigurður Þorsteinsson, 21.9.2011 kl. 19:51

12 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Okkur má vera ljóst og það fyrir löngu síðan að fjórflokkurinn mun ekki breyta neinu og þaðan af síður standa fyrir einhverju réttlæti almenningi til handa.

Ég, þó aumur sé og ættsmár mun greiða nýju fólki mitt atkvæði

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 21.9.2011 kl. 20:28

13 identicon

Ég skil vel að fólk sé að hvetja þig til að láta til þín taka og fara í framboð. Ég get að sumu leyti tekið undir það. Hitt er annað mál að flestir þeirra sem fara á þing með fögur fyrirheit virðast fyrst rekast þar á ókleifan hamar sérhagsmuna og blindast svo af fölskum gylliboðum, þannig að lítið verður úr efndum á loforðum fyrir kjósendur. Svo kannski ert þú best staðsettur einmitt þar sem þú ert Marinó, eins glöggur á tölur og þú ert og ennþá gleggri á að sjá í gegn um atvinnulygaspuna og yfirklór. Hafðu þakkir fyrir alla þína óeigingjörnu vinnu og atorkusemi.

HA (IP-tala skráð) 21.9.2011 kl. 20:58

14 Smámynd: Júlíus Björnsson

Ég man eftir honum nokkrum mánuðum fyrir hrun þegar engin EU banki vildi kasta meira reiðufé í veðlausa bankakerfið hér og þjóðverjar búir að klófesta öllu bestu veðsöfninn, þá birtast hann í TV og sagði að eftir stofnun útibúanna væri reiðuféð nú byrjað streyma inn á fullu. Það koma fram að lykil aðilar á sömu mörkuðum mæltu með þessum áhættuvöxtum sem útbúin buðu upp á.   Heima bankar vildu ekki þessa vexti af Íslensku bönkunum.  Svo sagði hann að það hefði ekkert veruð að hafa upp úr langtíma veðskuldu íbúðalánasjóðs, það er hinsvegar eðlilegt þar slík bréf eru hluti að veðsöfnum IRR, sem eiga ekki skila raunvöxtum heldur raunvirði síns eigin-reiðufjár á hverjum tíma óháð vætanlegum farmtíðar tekjum  sem verða ekki eignir nema þegar safni eða sjóði er lokað. Árs útborganir úr þessum sjóðum fara starx aftur í nýjar jafnmargar veðskuldir. Ef ekki þá gtrur þetta reiðfé farið í að borga það sem upp á vantar, þess vegna er þetta kallað varasjóðir nauðsynleg tól í allri bankastrafsemi sem hagnast starfmönnum fyrirtækja.  Við erum ríkið sagði fólkið nokkrum áru eftir dauða Lúðvíks 14.

Magnus Orri er okkar þjónn, sem svíkst undan skildu sinni og segist vera ríkið: Við sem borgum launin hans og missum heimilin í staðinn. Kerfið hér eru fasteignaskattar á vaxta formi þeir hæstu í heimi.  Sem lenda á 80 % þegnanna en hinir sem leigja út sleppa.  

Júlíus Björnsson, 22.9.2011 kl. 07:46

15 identicon

Sæll Marinó.

Ég hef lesið eftir þig, held ég, allar þínar greinar sem þú hefur birt og eru allar settar fram á Íslenksu máli sem almenningur skilur og vill sjá. Allt þetta froðusnakk sem við höfum þurft að hlýða á frá handónýtu stjórnmálafólki gerir mann flökurt dag eftir dag. Ég tek undir það sem margir hér á undan hafa sagt, ef einhver getur komið fram með trúverðugt framboð, þá ert það þú. Þú færð mitt atkvæði og þinn flokkur ef til þess kemur. Þú getur og ég veit, sett saman lista með hæfu fólki sem fólkið treystir. Ég er ekki að tala um Besta flokks bull, þar sem tilgangurinn einn er að koma börnum fyrrverandi stjórnmálamanna að kötlunum einu sinni enn. Ég vill sjá nýtt blóð og nýtt fólk, því börn fyrrverandi stjórnmálamanna haga sér alveg eins og foreldrarnir gerðu og jafnvel ver. Það hefur svo marg sýnt sig. Með öllum þeim tíma og skrifum sem þú hefur varið til þess að upplýsa okkur almenning um hvað er í raun í gangi, áttu fálkaorðu skilið.  Haltu áfram og þú munt njóta trausts almennings í kosningum.

Kveðja Sigurður

Sigurður Kristján Hjaltested (IP-tala skráð) 22.9.2011 kl. 16:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 31
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 28
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband