Leita í fréttum mbl.is

Er fjölgun nema í háskólum dulið atvinnuleysi?

Við stærum okkur af því að vera með mjög lítið atvinnuleysi, en maður getur ekki annað en hugleitt hvort hin mikla fjölgun nemenda í háskólum hér á landi (um tvöföldun á nokkrum árum) beri ekki vott um dulið atvinnuleysi hjá ákveðnum þjóðfélagshópum.  Það væri fróðlegt að vita hvert atvinnuleysið væri ef 8000 háskólanemar hættu námi og færu út á vinnumarkaðinn.  Á sama hátt vekur það athygli að svo virðist sem ríflega 3/4 af framhaldsskólanemum fari í háskólanám, ýmist hérlendis eða erlendis.  Er það nema von að við þurfum að flytja inn til landsins í stórum stíl annars vegar ófaglært fólk og hins vegar iðnmenntað fólk.

Þetta er enn þá merkilegra, þegar rannsóknir hafa sýnt að arðsemi háskólamenntunar er mjög oft neikvæð.  Þetta þýðir að í mörgum tilfellum eru ævitekjur háskólamenntaðra lægri en þeirra sem ljúka iðnnámi eða fara strax að vinna annað hvort eftir grunnskóla eða framhaldsskóla.

Lesa má fleira athyglivert út úr þessum tölum.  T.d. að 62,3% háskólanema eru konur.  Flestir myndu líta á þetta sem mikla sókn kvenna í meiri menntun, í mínum huga sýnir það ekki síður að nám sem konur sækja meira í stendur annað hvort ekki til boða á framhaldsskólastigi eða þykir ekki lengur boðlegt launalega.  T.d. eru flestar iðngreinar hefðbundið karlagreinar.  Vissulega hafa konur verið að sækja í þær, en í minna mæli en karlar.  Aðrar greinar hafa á undanförnum áratugum verið að færast af framhaldsskólastiginu yfir á háskólastigið (t.d. kennaranám og hjúkrunarnám).  Og enn aðrar sem ennþá eru á framhaldsskólastigi væri hægt að fylla af nemendum sem þegar hafa lokið stúdentsprófi, sbr. hársnyrtiiðn, klæðskurður og snyrtifræði, og eru því í raun orðnar að framhaldsnámi eftir stúdentspróf.  Það er ekkert að þessari þróun, en hún skekkir allan samburð á milli kynjanna.

Þessar tölur segja okkur líka að yfir 80% kvenna sem fara í framhaldsskóla, halda áfram í háskóla, meðan þetta hlutfall er ekki nema 55% hjá körlum.  Munurinn er gríðarlegur, en líklegasta skýring er að fleiri karlar útskrifast með iðnmenntun og ýmsar hefðbundnar karlagreinar krefjast ekki fagmenntunar.


mbl.is Yfir 102 þúsund manns stunda nám á landinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dæmisaga 2: Eldur og vatn

Þetta er önnur af fimm austurlenskum dæmissögum sem lýsa því sem góður stjórnandi þarf að búa yfir.  Líkt og hin fyrsta er sagan upprunin frá klaustri í Kyund Nam héraði í í Kóreu og birtist í Harvard Business Review í júlí-ágúst tölublaði 1992.

Eldur og vatn - Fire and Water

Á fjórðu öld eftir Krist var, falið innan Lu ríkisins, hérað sem Chuang hertogi réð yfir.  Þrátt fyrir að vera ekki stórt hafði héraðinu vegnað vel og vegur þess vaxið undir stjórn forvera Chuang.  En eftir að Chuang tók yfir sem hertogi, var hægt að sjá marktæka hnignun.  Hið breytta ástand fékk á Chuang, þannig að hann ákvað að fara til Hanfjalls til að sækja visku til hins mikla meistara, Mu-sun.

Þegar hertoginn kom að fjallinu, fann hann meistarann sitja fullan friðsemd á litlum steini þar sem hann horfði yfir aðliggjandi dal.  Eftir að hertoginn hafði skýrt stöðu sína fyrir Mu-sun, beið hann í ofvæni eftir því að meistarinn mikli tæki til máls.  Þvert á það sem Chuang átti von á, sagði meistarinn ekki orð.  Í staðinn, þá brosti hann mildilega og benti hertoganum á að fylgja sér.

Hljóðir gengu þeir uns þeir komu að Tan Fu á, sem var svo stór að ekki sá fyrir endann á henni, bæði var hún löng og breið.  Eftir að hafa hugleitt á ánna um stund, hóf Mu-sun að safna viði í eld.  Þegar eldurinn logaði glatt, bað meistarinn Chuang að setjast hjá sér.  Þeir sátu í drjúga stund meðan eldurinn brann af krafti í næturhúminu.

Um sólarupprás, þegar logar eldsins höfðu liðið út af, benti Mu-sun að ánni.  Og í fyrsta sinn frá því að hertoginn kom, tók hinn mikli meistari til máls,  ,,Skilur þú nú af hverju þér tekst ekki að ná sama árangri og forverar þínir - að viðhalda mikilfeng héraðsins þíns?"

Chuang virtist ruglaður í ríminu; hann var engu nær að skilja það.  Skömm færðist smátt og smátt yfir hertogann.  ,,Mikli meistari," sagði hann, ,,fyrirgefðu mér fáfræðina, en mér er ómögulegt að skilja hina miklu visku sem þú miðlar."  Mu-sun talaði þá í annað sinn.  ,,Veltu fyrir þér, Chuang, eðli eldsins sem logaði glatt fyrir augum okkar í nótt.  Hann var kraftmikill og öflugur.  Logar hans teygðu sig til himins meðan þeir dönsuðu og öskruðu í hrokafullu stærilæti.  Ekkert tré eða villidýr hefði verði nógu öflugt til að standast krafta eldsins.  Hann hefði auðveldlega lagt allt að velli á leið sinni.

Á móti, Chuang, líttur á ána.  Hún byrjar sem lítill lækur í fjarlægum fjöllum.  Stundum rennur hún rólega, stundum með ofsa, en hún rennur alltaf niður á við, með stefnuna setta á láglendið.  Hún fyllir viljandi hverja glufu í jörðinni og viljandi faðmar hún hverja sprungu í landinu, því auðmýkt er í eðli hennar.  Þegar við hlustum eftir vatninu, heyrum við varla í því.  Þegar við snertum það, finnum við varla fyrir því, svo milt er eðli þess.

En að lokum, hvað var eftir af hinum kraftmikla eldi? Aðeins handfylli af ösku.  Því hinn öflugi eldur, Chuang, sem ekki bara eyðileggur allt sem verður vegi hans heldur verður einnig sjálfum sér að fjörtjóni.  Þannig fer ekki með hina rólegu og hljóðu á.  Því eins og hún var, þannig er hún og þannig verður hún um eilífð: rennur ævinlega, dýpkar, breikkar, verður sífellt voldugri á ferð sinni niður til hins botnlausa sjávar, fóstrandi lífi og veitir viðurværi til alls."

Eftir andartaks þögn, sneri Mu-sun sér að hertoganum.  ,,Líkt og með náttúruna, Chuang, er með leiðtoga.  Það er ekki eldurinn heldur vatnið sem sveipar allt og er uppspretta lífs, þannig að það eru ekki hinir kröftugu og valdmannslegu leiðtogar heldur hinir sem sýna auðmýkt og sækja innri styrk djúpt inn á við sem fanga hjörtu fólksins og eru uppspretta velmegunar fyrir þjóð sína.  Íhugaðu, Chuang," hélt meistarinn áfram, ,,hvers konar leiðtogi ert þú.  Kannski liggur svarið sem þú leitar að í því."

Eins og leiftrandi ljós, laust sannleikanum niður í hjarta hertogans.  Stoltið vék fyrir smán og óvissu í upplýstum augum hans.  Chuang sá nú ekkert nema sólina rísa yfir vatnsfletinum.


Dæmisaga 1: Hljóð skógarins

Þetta er fyrsta af fimm austurlenskum dæmissögum sem lýsa því sem góður stjórnandi þarf að búa yfir.  Sagan er upprunin frá klaustri í Kyund Nam héraði í í Kóreu og birtist í Harvard Business Review í júlí-ágúst tölublaði 1992.

Hljóð skógarins - The sound of the Forest 

Aftur á þriðju öld eftir Krist, sendi Ts'ao konungur son sinn, T'ai prins, í klaustur til að nema undir leiðsögn hins mikla meistara Pan Ku.  Þar sem T'ai prins átti að taka við af föður sínum, átti Pan Ku að kenna honum grunnatriði þess að vera góður leiðtogi.  Strax og hann kom í klaustrið, sendi meistarinn prinsinn einan út í Ming-Li skóg.  Þar átti prinsinn að dvelja í eitt ár og koma svo aftur í klaustrið til að lýsa hljóðum skógarins.

Þegar T'ai prins sneri aftur, bað Pan Ku drenginn um að lýsa því sem hann hafði heyrt.  ,,Meistari," svaraði prinsinn, ,,ég heyrði gaukinn syngja, laufin skrjáfa, hunangsfuglana suða, krybbuna kvaka, grasið bærast, býið niða og vindinn hvísla og hrópa."  Þegar prinsinn hafði lokið máli sínu, sagði meistarinn honum að snúa aftur út í skóginn og leggjast betur við hlustir.  Prinsinn varð furðu lostinn yfir beiðni meistarans.  Var hann ekki búinn að greina öll hljóðin þegar?

Dag og nótt, sat ungi prinsinn aleinn í skóginum hlustandi.  En hann heyrði engin önnur hljóð en hann hafði þegar heyrt.  Það var síðan einn morgun, er prinsinn sat hljóður undir trjánum, að hann byrjaði að greina máttfara hljóð ólík þeim sem hann hafði heyrt áður.  Því betur sem hann lagði við hlustir, því skýrari urðu hljóðin.  Hugljómunartilfinning fór um drenginn.  ,,Þetta hljóta vera hljóðin sem meistarinn vildi að ég greindi," hugsaði hann með sér.

Þegar T'ai prins sneri aftur til klaustursins, spurði meistarinn hvað meira hann hefði heyrt. ,,Meistari," svaraði prinsinn fullur auðmýktar, ,,þegar ég lagði betur við hlustir, gat ég heyrt það sem eyrað nemur ekki - hljóðin í blómunum opnast, hljóðið í sólinni að verma jörðina og hljóðið í grasinu að drekka morgundöggina."  Meistarinn kinkaði samþykkjandi kolli.  ,,Að heyra það sem eyrað nemur ekki," bætti Pan Ku við, ,,er nauðsynlegur eiginleiki til að vera góður leiðtogi.  Því þá fyrst þegar leiðtoginn hefur lært að hlusta af nærgætni á hjörtu fólksins, heyrandi tilfinningar sem ekki eru tjáðar, sársauka sem haldið er aftur af og kvartanir sem ekki eru nefndar, getur hann vonast til að blása fólki sínu trausti í brjóst, skilja að eitthvað sé að og uppfylla raunverulegar þarfir þegna sinna.  Hnignun ríkja verður þegar leiðtogar þeirra hlusta aðeins á yfirborðsleg orð og fara ekki djúpt inn í sálir fólksins til að heyra raunverulegar skoðanir, tilfinningar og langanir þeirra."


Hvað gerir stjórnanda góðan?

Ég hef verið að velta því fyrir mér frá því að kosningarúrslitin voru kunn, af hverju Framsóknarflokknum var refsað í kosningunum en Sjálfstæðisflokknum umbunað fyrir nokkurn vegin sömu störf. Ég fann að sjálfsögðu ekkert einhlítt svar við þessu og því...

Talnalæsi/ólæsi

Í viðskiptablaði Morgunblaðsins er áhugaverð fréttaskýring Grétars Júníusar Guðmundssonar undir nafninu ,,Egg stóru bankanna eru í mörgum körfum í útlöndum".  Með fréttaskýringunni er rammagrein um aukin umsvif í nágrannalöndunum þar sem m.a. er tafla...

Hvernig á að bregðast við tölvuglæp?

Þessi spurning kom upp á ráðstefnu um upplýsingaöryggismál sem ég sótti sl. vetur. Einn fyrirlesarinn lýsti því þegar hringt var í fyrirtæki hans eftir að klámvefur m.a. með barnaklámi uppgötvaðist á vef alþjóðlegs banka í ónefndu landi. Einn starfsmaður...

Hive er ekki eitt um þetta

Það er gott fyrir alla símasöluaðila og raunar líka þá sem nota tölvupóst, að kynna sér ákvæði fjarskiptalaga og eldri úrskurði Póst- og fjarskiptastofnunar um þessi mál. Skoðum fyrst hvað fjarskiptalög segja: 46. gr. Óumbeðin fjarskipti. Notkun...

Rýnt í tölur

Það er fróðlegt að skoða úrslit kosninganna og sjá hvað stutt var á milli feigs og ófeigs þ.e. hvað í raun örfá atkvæði hefðu geta haft veruleg áhrif á það hverjir hlutu kosningu og hverjir ekki. Það munaði aðeins 11 atkvæðum á 2. jöfnunarmanni/8....

Um hvað snýst framhaldið?

Mér finnst þessi umræða almennt vera á villugötum. Það er staðreynd að stjórnin hélt velli. Það er staðreynd að stjórnarsamstarfið hefur gengið mjög vel þessi 12 ár. Það er staðreynd að stjórnarflokkarnir eru ánægðir með þann árangur sem hefur náðst, þó...

Drög að öryggisreglum fyrir fjarskiptanet

Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt á vef sínum drög að tvennum reglum (reglugerðum) í tengslum við þær breytingar sem gerðar voru á fjarskiptalögum á síðasta starfsdegi Alþingis í vor. Þó svo að reglunum sé fyrst og fremst beint að...

Nú er ekki tími til að sleikja sárin.

Framsóknarflokkurinn varð fyrir miklu áfalli í kosningunum í gær og nú vilja sumir ráðamenn innan flokksins draga sig út úr ríkisstjórninni þar sem þeir vilja sleikja sár sín í næði úti í horni. Mér finnst ekki vera mikil skynsemi í þessu, nema að þessir...

Enn ein hneisan fyrir Kastljós

Þetta er nú farið að verða alltaf vandræðalegra og vandræðalegra fyrir Kastljósið. Þórhallur er ekki fyrr búinn að svara Jónínu, en það kemur yfirlýsing frá dómsmálaráðuneytinu. þar sem fullyrðing Þórhalls um afgreiðslutíma er skotin í kaf. Fresturinn um...

Það er ekki hvað er sagt, heldur hvernig

Það getur vel verið að Kastljósið hafi aldrei fullyrt eitt eða neitt í þessu máli, en fyrir mig sem m.a. sá yfirheyrslu Helga Seljans yfir Jónínu (ég get ekki annað en kallað þetta yfirheyrslu), þá held ég að það velkist enginn í vafa um að Kastljós kom...

Ósanngjarnt eða hvað?

Mér finnst vera minnst þrjár hliðar á þessu máli með fylgishrun Framsóknarflokksins. Fyrst má segja að þessi niðurstaða skoðanakannana sé mjög eðlileg vegna þess að Framsókn hefur verið dugleg að hrekja kjósendur frá sér. Framsóknarflokkurinn hefur í...

Nú er tækifærið

Það er búið að vera hálf kómískt að hlusta á mæta menn tala um menningarverðmætin sem voru að glatast með eyðileggingunni á Austurstræti 22.  Í mínum huga glötuðust þessi verðmæti fyrir löngu, þegar leyft var að breyta húsinu m.a. í Karnabæ og síðan í...

Getur starfsemin staðið af sér áfall?

Þetta er spurning sem stjórnendur fyrirtækja ættu að spyrja sig að eftir áföll dagsins í dag. Fyrst stórbruninn á horni Austurstrætis og Lækjargötu og síðan bilun í heitavatnsleiðslu á Vitastígi. Hvað ætli það séu mörg fyrirtæki sem urðu fyrir áhrifum af...

Ethernet netkortið vantar

Eftir að hafa stúderað þennan lista, þá furða ég mig á því að vanta skuli þá tækni sem gerði okkur yfirhöfuð kleift að samtengja einmenningstölvur á þann hátt sem algengast hefur verið í gegnum tíðina. Þar á ég við ethernet netkortið sem fundið var upp...

En árið 2000 snjóaði

Það er athyglisvert að sjá að síðast var svona mikil úrkoma í mars árið 2000.  Munurinn á þessum tveimur marsmánuðum er samt sláandi.  Núna rigndi og rigndi en þá snjóaði og snjóaði.  Ég verð nú að viðurkenna að frekar vildi ég fá snjóinn en rigninguna....

Stjórnun upplýsingaöryggis - námskeið hjá Staðlaráði

Þar sem persónuvernd og upplýsingaöryggi eru mínar ær og kýr, þá langar mig að vekja athygli á því að Staðlaráð Íslands heldur reglulega námskeið um þá tvo staðla sem fjalla um þessi mál (sjá nánar hér um næsta námskeið). Þetta eru staðlarnir ÍST ISO/IEC...

Breytinga á fjarskiptalögum - öryggi og persónuvernd

Eitt af síðustu verkum þess þings sem var að fara í kosningafrí var að samþykkja breytingar á fjarskiptalögum nr. 81/2003. Breytingarnar snúast um öryggismál, persónuvernd og neytendavernd. Í fljótu bragði eru eftirfarandi breytingar veigamestar:...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband