Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2011
30.11.2011 | 00:06
37 af stærstu bönkum heims lækka í lánshæfismati
Samkvæmt frétt Huffington Post hefur Standard & Poors lækkað lánshæfismat 37 af stærstu bönkum heims um eitt stig. Þetta verður að teljast meiriháttar frétt og gæti haft ruðningsáhrif um allan fjármálaheiminn næstu daga. Meðal bankanna eru:
Frá Bandaríkjunum m.a:
- Bank of America Corp. dótturfélög,
- Citigroup Inc.,
- Goldman Sachs Group Inc.,
- JPMorgan Chase & Co.,
- Morgan Stanley og
- Wells Fargo & Co.
Frá Bretlandi m.a.:
- Barclays,
- HSBC Holdings,
- Lloyds Banking Group og
- The Royal Bank of Scotland.
Nokkrir af stærstu bönkum Evrópu halda þó sinni einkunn, m.a. Credit Suisse, Deutsche Bank, ING og Societe Generale.
Áhugavert verður að sjá hvernig fjármálamarkaðir bregðast við þessari frétt og hvort hin matsfyrirtækin fylgi á eftir.
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt 6.12.2013 kl. 00:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.11.2011 | 23:45
Stjórnin stendur tæpt - Vill Samfylkingin kosningar?
Ekki er hægt að túlka orð Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur á annan veg, en að verði Jóni Bjarnasyni bolað burt, þá hætti hún stuðningi sínum við ríkisstjórnina.
Ég átti von á því í vor, þegar Lilja Mósesdóttir, Ásmundur Einar og Atli Gíslason sögðu skilið við þingflokk VG, að Guðfríður Lilja færði sig líka um set. Hefur mér fundist hún hafa átt litla samleið með þessari ríkisstjórn nokkuð lengi og m.a. orðið undir í nokkrum stórum málum. Vil ég þar bara nefna þegar lögum nr. 107/2009 um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldmiðilshrunsins var þröngvað í gegn um þingið með miklum hraða í október 2009. Þá treysti hún sér greinilega ekki, sem formaður þeirrar nefndar, sem hafði með málið að gera, til að styðja það og var því fjarverandi við atkvæðagreiðsluna. Ekki má heldur gleyma því, þegar menn settu hana ákaflega klaufalega af sem formann þingflokks VG eftir að hún kom úr fæðingarorlofi.
Viðtalið við Jón Bjarnason í kvöld fréttum RÚV í gær gaf betur í skyn en nokkuð annað hver staðan er á stjórnarheimilinu. Hann svaraði spurningu fréttamanns um stöðu hans með því að segja að hann stæði traustur, þar sem hann stóð í lappirnar þegar viðtalið var tekið! Ég get ekki séð að hann sitji út vikuna. En hvernig ætlar Steingrímur að tryggja sér nauðsynlegan stuðning hans og G. Lilju, þegar líklegast Árni Þór Sigurðsson verður gerður að ráðherra í stað hans?
Kosningar í vændum?
Ég get ekki annað en velt því fyrir mér hvort Samfylkingin sé orðin þreytt á stjórnarsetunni. Þingmenn flokksins gera allt sem þeir geta til að níða skóinn af Ögmundi Jónassyni og Jóni Bjarnasyni og haga sér ansi oft, eins og VG sé í einhverri annarri ríkisstjórn en Samfylkingin. Ómögulegt er að sjá tilganginn með þessu nema annað að tvennu komi til: A. Samfylkingin vill kosningar; B. Samfylkingin er búin að ná samkomulagi við Framsókn og Sjálfstæðisflokk um ríkisstjórnarsamstarf til loka kjörtímabilsins. Hvorugt þykir mér líklegt, en menn hljóta að átta sig á því, að Ögmundur, Jón og G. Lilja eru þríeyki þar sem gildir "einn fyrir alla, allir fyrir einn".
En eru líkur á því að B, D og S fari saman í stjórn? Já, ég held það. Þó Sjálfsstæðisflokkurinn mælist vel í könnunum, þá held ég að þegar nýju framboðin (sem eru óhjákvæmileg) kynna sig í aðdraganda kosninga, þá muni drjúgur hluti fylgis gömlu flokkanna færast. Nái menn aftur á móti að lifa af út kjörtímabilið og að ég tali nú ekki um, ef Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn gætu tekið þátt í næsta hluta upprisu íslenska hagkerfisins (sem er óhjákvæmileg), þá munu flokkarnir ekki tapa eins miklu fylgi og jafnvel vinna á. Ný öfl fá nefnilega mest fylgi, þegar óánægja er mikil, en þau gömlu þegar rísandi er í gangi. Af þeirri ástæðu einni er lífsnauðsynlegt fyrir B og D að halda Jóhönnu við völd.
Ég tel besta kostinn vera að fá kosningar á næstu mánuðum, t.d. í apríl. Einnig gætum við farið þá leið sem Grikkir og Ítalir hafa farið, að fá annað hvort stjórn allra flokka eða hreinlega utanþingsstjórn.
Mikið áfall ef VG snýr baki við Jóni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.12.2013 kl. 00:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.11.2011 | 02:18
Nubo má ekki kaupa landið en má hann byggja?
Mér finnst þessi umræða um ákvörðun Ögmundar Jónassonar, innanríkisráðherra, hafa farið út algjöra vitleysu. Nokkrir þingmenn hafa vaðið á súðum og ausið úr skál reiði sinnar, eins og dómsdagur hafi runnið upp. Örfáir hafa haldið ró sinni og er Oddný Harðardóttir gott dæmi um það.
Ég get ekki séð að ákvörðun Ögmundar í dag þýði að engin leið sé fyrir Huang Nubo að fara í þær framkvæmdir sem hann vill fara út í. Þær munu bara ekki byggja á eignarhaldi á flennistóru svæði austan Jökulsár á Fjöllum. Viðskiptahugmyndin hefur varla breyst mikið við það, að hann þurfi ekki að punga fyrirfram út 1 ma.kr. fyrir landi sem margir sjá bara sem auðn en aðrir sem mikla fegurð. Spurningin sem menn eiga því að velta fyrir sér er hvort framkvæmdirnar hafi verið háðar því að Nubo eignaðist jörðina. Sé málum svo vaxið, þá er næst að spyrja hvernig á því standi. Hafi slíkt samhengi ekki verið til staðar, þá ætti að vera auðvelt að finna aðra lausn leiðir til þess að framkvæmdir geti hafist.
Mér er ómögulegt að skilja að meiri arður verði af framkvæmdinni, ef hún kostar 1 ma.kr. meira í upphafi frekar en að greidd sé leiga af því landi sem fer undir framkvæmdasvæðið og kannski eitthvað helgunarsvæði í kring. Vissulega fá landeigendur ekki eins mikið í sinn vasa strax og því er hér fyrst og fremst um þeirra tap að ræða.
Ég tek það fram, að ég sé ekki mikinn mun í því að "selja" land til Alcoa fyrir orkuöflun vegna verksmiðju fyrirtækisins eða að hóteleigandi kaupi flæmi undir sína framkvæmd. Vissulega er það fyrra klætt í búning þess að Landsvirkjun sé að nýta landið, en meðan orkusölusamningar eru í gildi milli Alcoa og Landsvirkjunar, þá er alveg eins hægt að segja að Alcoa "eigi" landið. Hefði Alcoa fengið að eignast landið undir Hálslóni? Nei, alveg örugglega ekki. Ekkert frekar en að Alusuisse fékk að eignast Búrfellsvirkjun og lón hennar á sínum tíma.
Ef nota á jöfnun á milli álvers Alcoa og hugmynda um hótel á Grímsstöðum, þá ætti Nubo að fá að kaupa eða leigja lóð undir þær byggingar sem hann vill reisa vegna hótelsins og það annað sem hann vill framkvæma á svæðinu. Síðan ætti hann að greiða þóknun fyrir að landið verði að öðru leiti ósnortið, þar sem hann lítur greinilega á það sem auðlind, líkt og Alcoa greiðir fyrir rafmagnið.
Hagsmunir þjóðar mikilvægir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
25.11.2011 | 00:42
OECD og BIS: Gallaðir stjórnhættir og áhættustjórnun fjármálafyrirtækja orsök fjármálakreppunnar
Eftir hrunið í október 2008 greindi ég í stuttu máli orsakir hrunsins og taldi ég þær vera eftirfarandi:
- Regluverk fjármálakerfisins á Íslandi
- Framkvæmd peningamálastefnu Seðlabanka Íslands
- Afmörkun og framkvæmd eftirlits FME með fjármálafyrirtækjum
- Framkvæmd áhættustjórnunar hjá íslenskum bönkum
- Framkvæmd áhættustjórnunar hjá erlendum bönkum
- Ótrúleg afglöp matsfyrirtækjanna við mat á fjármálavafningum með undirmálslánum - sem síðar kom lausafjárkreppunni af stað
- Of skammur aðlögunartími fyrir Basel II regluverk Bank of International Settlements (Alþjóðagreiðslubankinn, BIS) eða að bankar og matsfyrirtæki hófu undirbúning of seint
- Í senn bíræfni, bjartsýni og áræðni íslensku útrásarinnar. Útrásarmenn tróðu líklegast of mörgum um tær á vegferð sinni og sköpuðu sér þannig óvinsældir og láðist að ávinna sér traust nema í þröngum hópi.
Núna er ég búinn að átta mig á því að það var ekki eingöngu íslenska regluverkið sem var gallað heldur var sama staða uppi nánast alls staðar, sama átti við um afmörkun og framkvæmd fjármálaeftirlits um allan heim, það var í skötulíki. (Svo komst ég, eins og öll þjóðin, að því að spilling, vanhæfi, svik, lögbrot og prettir hafði viðgengist árum saman innan fjármálafyrirtækjanna og það eitt hefði líklegast hvort eð er fellt þau, þó ekkert af hinu hefði komið til.) En eftir því sem dýpra hefur verið kafað, þá kemur í ljós að vilji manna til að sniðganga eða leika á eftirlitið var og er líklegast helsti vandi fjármálakerfis heimsins um þessar mundir.
Góðir stjórnhætti sniðgengnir
OECD og BIS (Bank of International Settlement, Alþjóðagreiðslubankinn) hafa verið í farabroddi við stefnumótun annars vegar varðandi hagstjórn og hins vegar fjármálastjórnun. Ríkisstjórnir út um allan heim hafa treyst í blindni á ráðgjöf og tillögur þessara stofnana. Báðar þessar stofnanir eiga því sinn þátt í hruninu og verða að axla sinn hluta af ábyrgðinni af fjármálakreppunni. Þær hafa reynt að gera það, en mér sýnist samt það gert með því að benda á það sem þær áttu að hafa bent á fyrir löngu.
Í skýrslu OECD frá febrúar 2010 er bent á að bæta þurfi stjórnhætti fyrirtækja og áhættustjórnun þeirra. Kaflar í skýrslunni bera heiti eins og "governance of renumeration and incentives", "improving the governance of risk management", "improving board practices", "promoting competent boards", "risk management and incentive systems". Af þessu má sjá að OECD horfir mikið til innri starfsemi fyrirtækja sem ástæðu fyrir hruninu. BIS hefur gefið út tvær skýrslu sem taka á innri stjórnun, þ.e. Principles for the Sound Management of Operational Risk frá júní í ár og Principles for enhancing corporate governance frá því í október í fyrra. Of langt mál er að telja upp kaflaheiti í þeim. Báðar leggja áherslu á ábyrgð stjórnar og þátt áhættustjórnunar í innra eftirliti. Þá er ný komin út skýrsla frá European Banking Authority um Internal Governance.
Fyrir mig er ákaflega áhugavert að sjá þessa áherslu á stjórnhætti fyrirtækja. Ég hef nefnilega lengi haldið því fram að þeir hafi verið vandamálið, þ.e. skortur á þeim, undanbrögð frá þeim og svo þeim sem voru einfaldlega rangir. Áhugi minn á stjórnháttum fyrirtækja má rekja til starfa minna síðustu 14 ár eða svo. Þó svo að ég hafi að stórum hluta einblínt á áhættustjórnun, öryggisstjórnun og stjórnun rekstrarsamfellu, þá er enginn munur á því og gæðastjórnun, ferlastjórnun, breytingastjórnun o.s.frv. Einn þáttur í viðbót sem ég hef mikið unnið að, er úttektir, enda er ekkert stjórnkerfi marktækt sem ekki er tekið út og ekki hægt að taka út sem ekki er skjalfest. Þannig að stjórnkerfið og úttektir eiga að vera samofin.
En ekki er sama stjórnkerfi og stjórnkerfi. T.d. ætla ég ekki að láta mér detta í hug, að flestir ef ekki allir bankar í heimi hafi haft stjórnkerfi með skilgreindum ferlum. Ferlarnir voru bara ýmist ekki réttir, þ.e. tryggðu ekki bestu hagsmuni fyrirtækisins, eða voru sniðgengnir af þeim sem áttu að fara eftir þeim ýmist samkvæmt eigin ákvörðun eða fyrirmælum að ofan. Ferlar vilja nefnilega oft þvælast fyrir, eins og mýmörg dæmi sanna. Af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis má ráða, að t.d. regluverðir bankanna hafa verið meira til staðar að nafninu til, en sem mikilvægur þáttur í innra eftirliti bankanna.
Horfa verður bæði langt og skammt
Áhættustjórnun er gríðarlega mikilvægur þáttur í ferlagerð. Þessu gera ekki allir sér grein fyrir. Sama á við um stjórnun rekstrarsamfellu. Hið fyrra skiptir máli við að meta hættuna af ferlinu sjálfu, en það síðara setur það í samhengi við langtímamarkmið um framtíð fyrirtækisins. Og það var einmitt þetta síðara sem yfirleitt vantaði á árunum fyrir hrun og það vantar enn. Ef við notum hagfræðilega nálgun, má segja að áhættustjórnun glími við skammtímajaðaráhrif á rekstur fyrirtækis meðan stjórnun rekstrarsamfellu skoði langtímajaðaráhrif á rekstur fyrirtækis. Ég veit það fyrir víst, að gömlu bankarnir voru í nokkuð góðri stöðu gagnvart áhættustjórnun, en með allt niðurumsig gagnvart stjórnun rekstrarsamfellu. Því miður voru þeir ekkert einir um að. Þetta var frekar reglan en undantekningin hjá íslenskum fyrirtækjum og veit ég um sárafá sem innleitt hafa stjórnun rekstrarsamfellu samkvæmt forskrift viðurkenndra staðla. Ennþá færri fyrirtæki hafa skjalfest og innleitt endurreisnaráætlun.
Tilhneiging flestra fyrirtækja er að líta til skammtímaáhrif af því sem gert er. Þannig er skjótfenginn gróði gripinn án þess að hugsa um áhrif til lengri tíma. Hugsunin er að fara inn og ná í allt sem hægt er og koma sér út áður en eitthvað fer úrskeiðis. Þetta er ekki ósvipuð hugsun og hjá innbrotsþjófi. Mönnum er þannig alveg sama um þann skaða sem þeir sem ekki sleppa út verða fyrir og hugsa ekki um tjónið sem þeir sjálfir verða fyrir komist þeir ekki á brott í tæka tíð. Fjármálakerfið virkar í stórum dráttum svona og er sorglegt frá að segja. Allt vogunarsjóðakerfið er í því að ná í skjótfenginn gróða og þeim er algjörlega sama um afleiðingarnar.
Sök bítur sekan
Fjármálakreppan ætti að kenna mönnum að oft bítur sök sekan. Fjármálafyrirtæki sem hafa keppst við að hala inn skjótfengnum gróða eru nú í óðaönn að vinda ofan af tapinu sem þessi gróði olli annars staðar í kerfinu. Sá sem skortseldi hlutabréf í AIG hagnaðist kannski á því, en síðan átti viðkomandi skuldabréf á fyrirtæki sem tapaði á lækkun hlutabréfaverðsins. Skuldabréfin urðu hugsanlega verðlaus og þar með var hagnaðurinn af skortsölunni rokinn út í vindinn. Nú íslenskt dæmi um þetta er kaup Bakkavararbræðra á gjaldeyri sem varð til þess að krónan hrundi. Þeir áttu mikil verðmæti í Exista en eignir fyrirtækisins nánast þurrkuðust út í hruninu. Kannski ná þeir að innheimta nokkra tugi milljarða í gengishagnað á gjaldeyriskaupunum, en tap þeirra á Exista nemur hugsanlega 200 milljörðum, ef ekki meira. Áhættugreiningin á gjaldeyriskaupunum reyndist rétt, en rekstrarsamfellan gleymdist. Íslenski málshátturinn "í upphafi skal endinn skoða" á vel við í þessu samhengi.
Lífsnauðsynlegt að sinna stjórnun rekstrarsamfellu
Eins og ég hef oft greint frá, þá vinn ég að ráðgjöf um áhættustjórnun, öryggisstjórnun og stjórnun rekstrarsamfellu og hef unnið með einu fyrirtæki nær óslitið frá 2004. Þar var búið að fara í gegn um árlegt áhættumat þrisvar eða fjórum sinnum fyrir hrun, innleiða öryggisstjórnkerfi og stjórnun rekstrarsamfellu, enda fór svo að gripið var til skjalfestra viðbragðsáætlana þegar mest á reyndi dagana 7. til 10. október 2008. Vissulega var engin áætlun sem lýsti nákvæmlega ástandinu sem hafði skapast, en þær gerðu það nægilega vel til að hægt var að halda öllu gangandi. Þetta var svo hvorki í fyrst né síðasta sinn sem gripið hefur verið til áætlanna, en í þetta sinn var ástandið upp á líf eða dauða. Ef þetta fyrirtæki hefði ekki farið út þessa vinnu, hvort sem ég kom að henni eða ekki, þá get ég fullyrt að skellurinn hefði orðið mun alvarlegri fyrir þjóðfélagið en það sem gerðist. Þess vegna eiga stjórnvöld að skylda öll lykilfyrirtæki í landinu til að hafa skjalfesta stjórnun rekstrarsamfellu til viðbótar áhættustjórnun og öðrum stjórnkerfum sem fyrirtækin telja sig þurfa.
Verði þessi skrif til þess að einhverjir fá áhuga á að skoða þessi mál nánar, þá er bara að hafa samband. Netfangið er oryggi@internet.is og menn geta verið vissir um að ég segi þeim hreint út hvað má betur fara
HRUNIÐ | Breytt 6.12.2013 kl. 00:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.11.2011 | 17:29
Stórfrétt: Íslandsbanki tapar stofnfjármáli
Hæstiréttur hafði margt fyrir stafni í dag. Stærsta mál réttarins var líklegast staðfesting á dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. 118/2011 Íslandsbanki gegn Hermanni Harðarsyni, stofnfjáreiganda í Sparisjóði Norðlendinga. Hæstiréttur fer ekki mörgum orðum um málið, enda er rökstuðningur Ásmundar Helgasonar, héraðsdómara, ákaflega ítarlegur.
Héraðsdómur hafið komist að þeirri niðurstöðu að Glitnir hafi ekki viðhaft heiðarlega viðskiptahætti, þegar hann kynnti fyrir væntanlegum lántökum að eingöngu stofnbréfin sjálf væru höfð til tryggingar lántökunni en síðan hafi verið sett inn ákvæði um persónulega ábyrgð í skuldabréfið. Eða eins og segir í dómnum:
Glitni banka bar samkvæmt þessu m.a. að fylgja almennri reglu 5. gr. laganna sem leggur þá skyldu á fjármálafyrirtæki að starfa í samræmi við eðlilega viðskiptahætti og venjur í verðbréfaviðskiptum, með trúverðugleika fjármálamarkaðarins og hagsmuni viðskiptavina að leiðarljósi...Ekki verður séð að Glitnir banki hafi gætt skyldu sinnar samkvæmt þessu ákvæði þannig að stefndi fengi nægilega greinargóðar upplýsingar um þá áhættu sem fólst í að taka lán til kaupa á stofnfjárbréfum sem námu margfaldri stofnfjáreign stefnanda.
Mér sýnist þetta mál vera í meginatriðum alveg eins og mál Saga Capital (eða hvað það nú heitir í dag) gegn stofnfjárkaupendum í Sparisjóði Svarfdælinga og líklegast til fleiri málum. Virðist mér sem allir stofnfjárkaupendur sem fengu tilboð frá fjármálafyrirtækjum um að eingöngu bréfin og arður af þeim væri til tryggingar lánum til kaupa bréfanna séu því lausir allra mála eða eins og segir í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur (sem Hæstiréttur staðfesti):
Það er óumdeilt að stefndi getur borið fyrir sig að ósanngjarnt sé að byggja á umræddum lánssamningi, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936, þó að krafa samkvæmt samningnum hafi verið framseld frá Glitni banka til stefnanda. Þegar litið er til framangreindra atriða, er lúta að atvikum við samningsgerðina og stöðu aðila, efni lánssamningsins og atvika sem síðar komu til, er það niðurstaða dómsins að ósanngjarnt sé af stefnanda að bera lánssamninginn fyrir sig að því leyti sem hann felur í sér rétt til að leita fullnustu á greiðsluskyldu stefnda í öðru en hinum veðsettu stofnfjárbréfum og arði af þeim. Því er rétt að breyta efni hans þannig að stefnanda sé einungis unnt að leita fullnustu í stofnfjárbréfunum og arði af þeim. Þar sem krafa stefnanda beinist að því að fá aðfararhæfan dóm um skyldu stefnda til greiðslu eftirstöðva lánsins verður hann sýknaður af kröfum stefnanda.
Ég hef fylgst með þessu máli, þar sem ég var fyrir fjórum árum beðinn um að lesa yfir tilboð Saga Capital til stofnfjáreigenda í Sparisjóði Svarfdæla. Mér sýnist það mál vera á allan hátt eins og þetta, þ.e. sent er tilboð þar sem boðin er fjármögnun á stofnfjáraukningu gegn tryggingu í bréfunum sjálfum og arði af þeim. Þessum málflutningi er haldið á lofti allt kynningartímabilið, en síðan er bætt inn í lánasamninginn, sem kemur til undirritunar, ákvæði um persónulegar ábyrgðir. Þetta hátterni hefur Hæstiréttur núna dæmt bera vott um óeðlilega viðskiptahætti!
Þurfa ekki að greiða fyrir stofnfjárbréf | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lánamál | Breytt 6.12.2013 kl. 00:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
24.11.2011 | 08:53
Vandamál sem vitað hefur verið af í rúm 2 ár
Í umræðu um Icesave sumarið 2009 bentum við Haraldur Líndal Haraldsson á þetta vandamál, sem fjallað er um í frétt mbl.is, og hef ég reglulega haldið því á lofti. Það er gott að menn séu loksins að fatta það. Þessi vandi eykst enn frekar, þegar nýju bankarnir greiða þeim gömlu 76 ma.kr. hagnað af betri innheimtu lána, en sú tala getur endað í 320 ma.kr. Af þeirri ástæðu einni er hagstæðast fyrir endurreisn hagkerfisins, að nýju bankarnir reyni ekki að innheimta neitt umfram lágmarksmat Deloitte á lánasöfnunum.
Þó svo að nýju bankarnir ættu gjaldeyri upp á einhverja tugi milljarða, þá hefði greiðsla hans til gömlu bankanna alltaf neikvæð áhrif á gengi krónunnar. Ástæðan er einföld. Meðan gjaldeyrinn er notaður í greiðslu til gömlu bankanna, þá er hann ekki notaður í uppbyggingu innanlands.
Ég sé enga ástæðu til þess að aðrar reglur gildi um þrotabú gömlu bankanna/kröfuhafa þeirra og aðra sem eiga krónur fastar í landinu. Einar reglur verða að gilda fyrir alla.
Aflétting gjaldeyrishafta í bráð útilokuð með verðtryggingu
Eins og það væri gott að aflétta gjaldeyrishöftunum sem fyrst, þá er það útilokað meðan verðtrygging íbúðalána er við líði í óbreyttri mynd. Besta leiðin er setja þak á árlegar verðbætur fyrir árið 2012 til að byrja með og opna síðan fyrir útflæði gjaldeyris í mjög takmarkaðan tíma. Þannig mætti til dæmis opna upp á gátt í 2 vikur í febrúar og hleypa öllum gjaldeyri út sem vildi fara. Gengið myndi örugglega falla um tugi prósenta, en ætti að jafna sig að einhverju leiti aftur innan nokkurra vikna. Sama árangri mætti ná með því að opna fyrir útflæðið á föstu gengi með 30, 50 eða þess vegna 80% álagi á gjaldeyriskaup, þ.e. búa til sýndargengi eða hliðargengi. Mikilvægast er að þetta ástand vari bara í mjög stuttan tíma og þeir sem ekki nýttu sér það væru jafnframt að skuldbinda sig til lengri tíma.
Ekkert liggur fyrir um krónur kröfuhafa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Snjóhengjur | Breytt 6.12.2013 kl. 01:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.11.2011 | 11:11
Skuldakynslóðin og áhrifin á hagvöxt framtíðarinnar
Á viðskiptavef visir.is er myndband um skuldakynslóðina, þar sem David Malone, einn þekktasti heimildarmyndagerðarmaður breska ríkisútvarpsins BBC, heldur því fram að heil kynslóð væri skuldum vafin eftir glórulausar ákvarðanir bankamanna. Hér á landi erum við að upplifa þetta.
Í gærkvöldi var fundur hjá Samtökum lánþega og eins á fyrri fundum samtakanna, þá kemur sífellt betur í ljós hve breiður hópur aldurslega það er, sem er í vanda. Tölur úr lífskjararannsókn Hagstofunnar staðfesta þetta einnig.
Það sem veldur mér mestum áhyggjum er ekki endilega hve margir eru skuldum vafnir, heldur hvaða hópur stendur verst. Þekkt er að um 20% þjóðarinnar er vel skuldsettur. Þannig hefur það verið frá því að ég fór fyrst að fylgjast með slíkum tölum og greining Seðlabanka Íslands á þessu hefur sýnt að á árunum fyrir hrun, í mesta góðærinu, þá voru 20% heimila verulega skuldsett. Nei, áhyggjur mínar lúta frekar að því að hópurinn sem venjulega stendur að baki nýsköpun og uppbyggingu, er í vanda.
Ég er að tala um fólk undir 40 ára og þá helst frá 30 - 39 ára. Þetta er sá hópur sem er búinn með sitt nám á háskólastigi, hefur byrjað að vinna í almennri launavinnu, en hefur alla jafna verið tilbúinn að taka næsta skrefið. Hópurinn með ferskustu hugmyndirnar en nógu mikla reynslu til að vita að ekki gengur hvað sem er. Hópurinn sem er nógu ungur til að vilja taka stökkið vitandi um áhættuna sem því fylgir, en nógu efnaður til að þola högg sem mögulega kæmi. Hópurinn sem bankarnir hafa treyst vegna þess að hann hefur átt eignir til að veðsetja og framtíðartekjur til að greiða niður lánin. Samkvæmt tölum Hagstofunnar á 60% af þessum hópi í vanda, þ.e. á í erfiðleikum með að ná endum saman.
Ef hópurinn, sem á að vera helsta uppspretta vaxtar í þjóðfélaginu, er geldur fjárhagslega, þá mun hann ekki geta sinnt þessi hlutverki sínu. Margir munu fara leið gjaldþrots sem mér sýnist vera bara ágætlega skynsamt val, meðan aðrir fara út úr landi og freista gæfunnar handan við hafið. Vissulega verður sá hópur, sem sér tækifæri í kreppunni eða sér sig knúinn til sjálfshjálpar, en þau áform verða að öllum líkindum mun smærri í sniðum en hjá þeim sem fetað hafa sömu slóð undanfarna áratugi.
Vel getur verið, að versta kreppan verði yfirstaðinn eftir 3 - 5 ár, jafnvel fyrr. Áhrifa hennar mun gæta mun lengur, ef ekki verður gengið lengra í endurskipulagningu og leiðréttingu skulda heimilanna.
Ég hvatti til þess strax í lok september 2008 að farið yrði í róttækar aðgerðir til að létta undir greiðslubyrði heimilanna. Síðan höfum við farið í gegn um tímabil smáskammtalækninga og tekist þannig að "bjarga" hluta þeirra sem verst stóðu og létta undir með mörgum. Gríðarlega stórir hópar eru ennþá í vanda. Samkvæmt tölum Hagstofunnar á ríflega helmingur heimila, 51,5%, í erfiðleikum með að ná endum saman. Þessi tala stóð í 36,8%árið 2005. Sé eingöngu litið til barnafólks, þá hefur tala farið úr 39,4% í 60,1% á þessum 6 árum. Þetta er ríflega 50% aukning. (Breytingin er enn meiri, ef 2007 er notað sem viðmiðunarár.)
Tími smáskammtalækninga er liðin. Stjórnvöld verða að ganga fram fyrir skjöldu og knýja fjármagnseigendur og lándrottna að samningaborðinu. Þessir aðilar græða ekkert á því að halda kröfum sínum til streitu. Hagsmunasamtök heimilanna lögðu það til í fyrra að lífeyrissjóðirnir gæfu eftir hluta af kröfum sínum á Íbúðalánasjóð og skerðingin sem kæmi á áunnin lífeyrisréttindi væri dreift á sjóðfélaga þannig að þeir sem ættu lengstan starfsaldur framundan tækju á sig mesta skerðingu meðan þeir sem hafa hafið töku lífeyris fengju enga skerðingu á sig. Hagnaður bankakerfisins sýnir að þar er borð fyrir báru.
Í mínum huga er þetta sáraeinfalt og hefur alltaf verið það. Annað hvort verður farið í þessar aðgerðir með heimilunum og þau studd til uppbyggingar eða fjármálafyrirtækin halda sínu til streitu og þurfa að afskrifa þessar skuldir síðar. Fyrri kosturinn leiðir til þess að við vinnum okkur vonandi hratt og vel út úr kreppunni, en sú síðari dregur hana á langinn. Eins og ég sagði í færslu haustið 2009: Leiðréttingar strax eða afskriftir síðar. Menn nýttu ekki tækifærið þá og því sitjum við nánast í sömu sporum, ef við höfum ekki færst nokkur skref aftur á bak.
Endurreisn | Breytt 6.12.2013 kl. 01:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
19.11.2011 | 19:40
Halelúja samkunda með engin tengsl við raunveruleikann
Eftir lestur tveggja frétta af landsfundi Sjálfstæðisflokksins, þá sýnist mér fundargestir þar vera á kafi í meðvirkni. Tveir fyrrverandi formenn flokksins stíga í pontu og lýðurinn ærist af fögnuði. Engir tveir einstaklingar innan opinberar stjórnsýslu bera eins mikla ábyrgð á hruninu og þessir tveir menn. Það getur verið að einhverjar réttar aðgerðir hafi verið teknar EFTIR hrun, en málið er allt það sem var gert rangt FYRIR hrun.
EF ríkisstjórnin og Seðlabankinn hefðu haft efni á því að bjarga bönkunum, þá hefði það verið reynt. Sem betur fer hafði hvorugur aðili burði til þess, þannig að við URÐUM að fara þá leið sem var farin. Þetta er staðreynd sem við skulum ALDREI gleyma. Það var okkar happ að hvorki Seðlabankinn né ríkisstjórnin höfðu efni á að bjarga bönkunum. Annars værum við í stöðu Íra að vera búin að þjóðnýta alla banka landsins eða því sem næst og sjá ekki út um augu fyrir skuldum.
EF ríkisstjórnin og Seðlabankinn hefðu gripið í taumana í nóvember 2007, eftir fræga ræðu seðlabankastjóra, þá hefði kannski farið betur.
EF ríkisstjórnin og Seðlabankinn hefðu sagt sannleikann í febrúar og mars 2008 í staðinn fyrir að fara í skrumherferð í fjölmiðlum og til annarra landa, þar sem logið var til um styrk ríkissjóðs og bankanna, þá hefði tjónið örugglega orðið minna.
EF Seðlabankinn hefði ekki keypt "ástarbréf" af bönkunum upp á hundruð milljarða sumarið 2008, þá hefði bankinn ekki orðið gjaldþrota.
EF Seðlabankinn hefði ekki fengið lánalínu hjá einum helsta lánveitanda Glitnis, þá hefði bankinn ekki misst sína lánalínu.
EF seðlabankastjóri hefði kunnað sér hóf í fjölmiðlum og látið stjórnmálmenn um stjórnmál, þá hefðu bresk stjórnvöld kannski sleppt því að nota ákvæði hryðjuverkalaga gegn íslensku þjóðinni.
Nei, Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, héldu uppi berum ósannindum, neituðu að þiggja ráð eða hlusta á ábendingar nágranna okkar, höfnuðu aðkomu AGS um sumarið 2008 og svona mætti lengi telja, vegna þess að það gat ekki verið að þetta væri að gerast á þeirra vakt. Svo voga þessir menn sér að kenna slökkviliðinu um afleiðingar eldanna sem þeir sjálfir kveiktu eða báru í eldmat svo þeir löguðu betur. Og undir þetta taka með lófataki landsfundargestir sem eru greinilega illa haldnir af meðvirkni.
Það sorglega við þetta, er að stór hluti landsmanna virkilega heldur að þjáningarnar sem þjóðin er að ganga í gegn um núna séu Steingrími og Jóhönnu að kenna. Þau hefðu alveg örugglega getað gert meira til að lina þjáningarnar, en ástandið núna er vegna þess að hér varð hrun og tveir af þeim mönnum sem verulega ábyrgð bera á því hruni eru Davíð Oddsson, þáverandi seðlabankastjóri, og Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra. Að þessir tveir menn séu hylltir með lófataki sem einhverjar hetjur eða mikilmenni er móðgun við þjóðina.
Þrennt bjargaði Íslendingum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (86)
17.11.2011 | 22:51
Stundum ratast manni allt of vel á - Endurbirtar glefsur úr gömlu bloggi
Ég var að fletta í gegn um gömul blogg og rakst á færslu frá 10. nóvember í fyrra, þar sem ég fjalla um frétt RÚV um skýrslu "sérfræingahópsins" svo kallaða. Færslan heitir Rangur fréttaflutningur RÚV - Ruglar saman skuldastöðu og greiðsluvanda. Ótrúlegt er hvað margt er enn við það sama.
Bútar úr færslunni
Tillögur Hagsmunasamtaka heimilanna nýtast yfir 20.000 heimilum í skuldavanda, en bæta stöðu um 1.500 heimilum í alvarlegum greiðsluvanda. Á þessu er mikill munur. Aðeins ein önnur tillaga nýtist jafn mörgum heimilum í skuldavanda, þ.e. tillaga um að lækka skuldir að 100% af fasteignamati eigna, og aðeins tvær nýtast fleirum í alvarlegum greiðsluvanda, þ.e. sértæk skuldaaðlögun sem þegar er boðið upp á og lækkun vaxta í 3%, en hún er jafnframt dýrasta tillagan sem metin var.
Því er einnig haldið fram að sértæk skuldaaðlögun muni nýtast best, en sértæk skuldaaðlögun er ekkert annað en eignaupptaka. Hún gengur út á að fólk losi sig við eignir til að eiga fyrir stökkbreyttum skuldum. Ekki á leiðrétta neitt fyrr en búið er að hafa af fólki flestar eignir á niðursettu verði. Viljum við virkilega svipta tug þúsundir manna afrakstri ævistarfs síns? Ef svo er, þá vitum við jafnframt að landflótti mun stóraukast og kreppan mun dýpka. Verði þeim að góðu sem vilja þetta réttlæti... engin ein leið bætti[r] stöðu allra. Samkvæmt gögnum sem nefndin vann með eiga nokkur þúsund heimil ekki fyrir lágmarksneyslu samkvæmt neysluviðmiðum. Einhverjir í þessum hópi eru neyslugrennri en viðmiðin segja til um og er það bara mjög gott, en aðrir eru upp á matargjafir eða náð og miskunn annarra komnir. Á bilinu 10.700 til 17.700 fjölskyldur eiga ekki fyrir reiknuðum afborgunum fasteignalána, hvað þá afborgunum annarra skulda. (Lægri talan miðast við lægra neysluviðmið.) Þær tillögur sem skoðaðar voru munu áfram skilja stærstan hluta þessa hóps eftir á köldum klaka. Hans bíður lítið annað en gjaldþrot og röðin eftir matargjöfum.
Stjórnvöld verða að vakna til lífsins um alvarlegan vanda margra heimila. Hvert er það þjóðfélag sem við ætlum að bjóða börnunum okkar?
Glefsur úr athugasemdum
Yfirskuldsetning er ekki vandamál nema annað af tvennu komi til:
1. Fólk hafi ekki efni á að greiða af lánum sínum og þá er það greiðsluvandi ekki skuldavandi.
2. Fólk sé að selja eign sína, en getur það ekki vegna yfirskuldsetningar og þá er það skuldavandi.
Í reynd eru því mjög fáir í skuldavanda, en þess stærri hópur í greiðsluvanda. Auk þess er mjög margt fólk sem er með yfirveðsetningu í yfirvofandi greiðsluvanda, það hefur dregið mjög mikið úr útgjöldum sínum eða gengið á sparnað. Loks er allstór hópur fólks sem á bara ágætlega auðvelt með að greiða af öllum sínum lánum án tillits til skuldsetningar.
Mín skoðun er að grípa þarf til aðgerða til að bjarga fyrstu tveimur hópunum með verulegri leiðréttingu lána, þeir sem eru í yfirvofandi greiðsluvanda þurfa hógværa leiðréttingu í dúr við tillögur HH, en síðasti hópurinn verður líklegast að sitja uppi með sína stöðu án leiðréttingar. Málið er að bankarnir vilja bæta stöðu allar sem eru með yfirveðsetningu án tillits til efnahags.
Við verðum að skilja að meðan heimilin eru í þessar spennutreyju mun hærri greiðslubyrði en þau ráða með góðu móti við, þá verður enginn bati í hagkerfinu. Tjón lánveitenda mun ekkert gera annað en að aukast. Það hlýtur að vera betra fyrir fjármálafyrirtæki að lántaki greiði sem nemur 60% af greiðslu, en að hann greiði ekki neitt. Markmið allra aðgerða á að vera að færa sem mest af lánum úr því að vera óvirk (þ.e. ekki er verið að greiða af þeim) yfir í að vera virk. Annað markmið þessu skylt í flestum tilfellum er að heimilin í landinu eiga að geta séð sér farborða. Ef við klikkum á þessum tveimur markmiðum, þá er leikurinn tapaður.--
Við erum ekki ósammála, bara köllum hlutina mismunandi nöfnum. Það sem ég er að segja, er að yfirskuldsetning (sem þú kallar skuldavanda) er ekki skuldavandi nema greiðsluvandi fylgi. Þetta er því fyrst og fremst greiðsluvandi. Eða ert þú að segja, að ef fasteignamat hækkaði um 30%, þá hætti fólki að vera í vanda? Sá sem er í greiðsluvanda er það án tillits til skuldsetningar. Mér sýnist sem fólkið í kringum þig sé einmitt í greiðsluvanda eða yfirvofandi greiðsluvanda vegna tekna sinna.
Skuldamál heimilanna | Breytt 6.12.2013 kl. 01:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.11.2011 | 18:35
Áhugaverð lesning þessi dómur - Dæmi um klassíska íslenska spillingu
Skoðaði þennan dóm á vef Hæstaréttar og maður getur ekki annað en sett stórt spurningamerki við það hvernig þessi bankaviðskipti fóru fram. Viðkomandi aðili á að hafa greitt úr 76 m.kr. án heimildar eða eins og segir í dómnum "greiðslu skuldar vegna innistæðulausra færslna". Hvernig getur viðskiptavinur safnað upp 76 m.kr. í fjölmörgum innistæðulausum færslum? Er ekkert kerfi sem kemur í veg fyrir slíkar færslur?
Maðurinn er dæmdur (réttilega eða ekki) fyrir þessar færslur á grunni þess að hann hafi ekki gert athugasemdir við færslurnar á yfirliti. Og vegna þess að hann gerði ekki athugasemdina innan 20 daga, þá taldist hann hafa samþykkt það sem á yfirlitinu stóð! Bíddu nú við, er ekki eitthvað stórlega athugavert við þetta? Hafa skal í huga að nær allar færslurnar voru framkvæmdar af bankanum sjálfum í tengslum við verðbréfaviðskipti. Það var því ekki maðurinn sem framkvæmdi færslurnar og þó svo að samkomulag hafi verið milli Landsbanka Íslands hf. og viðkomandi einstaklings um að bankinn skuldfærði hlaupareikning viðkomandi fyrir greiðslum, þá er samt spurning hvort bankinn hafi haft heimild til að skuldfæra reikninginn fyrir meiru en yfirdráttarheimild hljóðaði upp á. Ef ég reyni að fara út fyrir mína heimild, þá fæ ég skilaboð um að innstæða sé ekki fyrir hendi. Hefði það ekki átt að vera líka í þessu tilfelli. Það getur ekki staðist að bankinn hafi getað skuldfært reikning án innstæðu án þess að hann væri að brjóta reglur sínar. Ef hann var ekki að brjóta reglurnar, þá var ekki nema um það að ræða að þegar færslurnar fóru fram, hafi verið innstæða fyrir hverri færslu fyrir sig. Síðan gæti það hafa gerst að heimild hafi verið afturkölluð, en það er allt annað mál.
Þetta mál er dæmigerður angi af íslensku spillingunni. Viðkomandi reikningshafi er þekktur og umsvifamikill í viðskiptum. Greinilegt er að hann hafði "opinn" reikning hjá útibúinu sínu, þar sem menn voru ekki að hafa fyrir því að tilgreina hver takmörkin voru, og inn og út af reikningnum flæddu peningarnir eins og mönnum datt í hug. Hvað eru 76 m.kr. þegar maður er í jarðakaupum upp á hundruð milljóna út um allt land? Nei, þetta var bara klink og Landsbanki Íslands hvorki vildi né þorði að benda á þennan formgalla sem var á notkun reikningsins. Lög og reglur eru og hafa alltaf verið fyrir litlu fiskana, en þeir stóru rífa netin.
Hvað ætli þeir hafi verið margir stóru fiskarnir sem fengu að svamla um í litlum tjörnum út um allt land? Svo kallaðir auðmenn, sem byggðu veldi sitt á lánsfé eða annarra manna peningum, eins og mér skilst að viðkomandi einstaklingur hafi gert (ef eitthvað er að marka DV). Hvað ætli það séu margir útibússtjórar sem virkuðu eins og einkasjóðsstjórar fyrir svona "auðmenn"? 76 m.kr. eru há tala fyrir flesta hér á landi, þannig að úttektir umfram heimild upp á 76 m.kr. ætti að teljast talsverð upphæð fyrir lítið útibú á Suðurlandi.
Þessi dómur gengur einhvern veginn samt ekki upp í mínum huga. Hafi Landsbanki Íslands hf. sjálfur framkvæmt færslurnar vitandi að ekki var innstæða fyrir þeim, þá er ekki hægt að kenna reikningseigandanum um, þó hann hafi ekki haft rænu á að skoða hvert einasta yfirlit í hörgul. Enda segist hann fyrir héraðsdómi "hvorki beðið um né heimilað stærstan hluta umræddra færslna". Er Hæstiréttur þar með að segja, að fari ég í ferðalag í tvo mánuði, þá geti bankinn minn bara notað tækifærið til að millifæra af reikningnum mínum upphæðir langt umfram þá úttektarheimild sem ég hef? Nei, auðvitað getur hann það ekki, þrátt fyrir að reikningurinn minn sé gefinn upp sem skuldfærslureikningur vegna alls konar lána og VISA-kortsins o.s.frv. Eftir að heimild þrýtur, þá er ekki til innstæða fyrir færslunni og fjárskuldbindingin sem átti að greiðast fer í vanskil. Þannig átti það að vera í þessu tilfelli þ.e. færslurnar sem ekki var innstæða fyrir áttu að fara í innheimtu í samræmi við þá skilmála sem voru á þeim viðskiptum.
Dómurinn er ótrúleg skilaboð til fjármálafyrirtækja. Þið megið vaða inn á reikninga viðskiptavina ykkar og taka út það sem ykkur listir, ef bara reikningurinn er gefinn upp sem skuldfærslureikningur. Síðan getið þið stefnt viðskiptavinunum á grunni þess að ekki hafi verið innstæða fyrir úttektinni sem fjármálafyrirtækið framkvæmdi. Ef þetta er ekki bananalýðveldi, þá veit ég ekki hvað.
Nú er aftur spurning hvort ekki þurfi að snúa dómi Héraðsdóms Vesturlands í máli Arion banka gegn Birni Þorra Viktorssyni og Karli Georg Sigurbjörnssyni frá 23. nóvember 2010. Í því máli skuldfærði Sparisjóður Mýrasýslu einmitt reikning Björns Þorra fyrir greiðslu á gengistryggðu láni og sendi honum kvittun þar að lútandi þrátt fyrir ekki hafi verið innstæða fyrir skuldfærslunni. Kannski er ekki sama Guðmundur og Björn.
Tekið skal fram að ég byggi allt sem ég segi á dómi Hæstaréttar í máli nr. 150/2011 Guðmundur A. Birgisson gegn Landsbankanum hf. og dómi Héraðsdóms Suðurlands frá 15/12/2010 sem samritaður er undir dómi Hæstaréttar.
Gert að greiða bankanum 76 milljónir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.12.): 37
- Sl. sólarhring: 66
- Sl. viku: 345
- Frá upphafi: 1680483
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 40
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði