Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2011

Á íslensku takk! Er verið að færa hluta afsláttarins til baka?

Ég verð að viðurkenna, að ekki er heil brú í þessum texta fréttarinnar:

Lárentínus Kristjánsson, formaður skilanefndar gamla Landsbankans segir að á fundi með kröfuhöfum Landsbankans fyrr í dag hafi verið kynntir samningar sem stefnt er að gera við nýja Landsbankann um útgáfu viðbótarskuldabréfs í árslok 2012 þegar ákveðin eignasöfn sem eru undirliggjandi gefa til þá getur þetta skuldabréf orðið 92 milljarðar króna. Skilanefndin fær síðan afhenta hlut í bankanum á móti.

Gott og vel ég skal skilja þetta þannig, eins og stendur í stuttu útgáfu fréttarinnar, að

Verið er að ganga frá útgáfu skuldabréfs upp á 92 milljarða króna milli skilanefndar gamla Landsbankans og nýja bankans. Skilanefndin fær síðan afhentan hlut í bankanum á móti skuldabréfinu. 

 

Hver er útgefandi/skuldari skuldabréfsins?  Á hvaða forsendu er skuldabréfið gefið út? Í hvaða banka fær skilanefndin hlut?  Ef það er nýi bankinn, hvernig fer það þá saman að nýi bankinn gefi út skuldabréf (gef mér að það sé málið) og um leið eignist skilanefndin hlut í bankanum.  Ég hélt það væri yfirleitt kaupandinn sem greiddi en ekki fyrirtækið sem er keypt.  Er þetta kannski nýtt form á skuldsettri yfirtölu.  Er þetta nýtt bréf til viðbótar við 288 ma.kr. bréfið er verið að skipta því út?

Ég vona að Morgunblaðið verði fljótt að greiða úr þessari flækjum og komi með haldgóð svör.


mbl.is Gefa út 92 milljarða skuldabréf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eigi að breyta, þarf að líta inn á við

Eftir því sem ég hef kynnt mér betur orsakir hruns fjármálakerfa heimsins, hruns íslenska efnahagskerfisins og ekki síst hruns íslensku bankanna, þá er mér sífellt betur ljóst að orsakanna er að leita í hugarfari.  Rétt er að regluverk var víða gallað, að stjórnmálamenn voru ekki vakandi á vaktinni, að eftirlitsaðilar stóðu sig ekki í stykkinu og svona mætti lengi telja.  Ekkert af þessu skiptir máli í raun og veru, því þó allt af þessu hefði verið í lagi, þá er ekkert sem segir að niðurstaðan hefði verið önnur eða afleiðingarnar verið svipaðar.  Það var nefnileg vilji manna til að gera það sem þeir gerðu sem skipti mestu máli, ekki reglurnar sem þeim voru settar.

Vatn leitar til sjávar, sama hvað gert er.  Sé komið fyrir hindrunum í þess eðlilega farvegi, þá finnur það sér leið framhjá henni.  Sama á við þann sem ekki ætlar að hlita lögum og reglum, að séu sett ný lög eða nýjar reglur mun viðkomandi finna sér leið framhjá þeim.  Ástæðan er ekki ónýt lög eða lélegar reglur heldur hugarfar þess sem ekki ætlar að virða lögin og reglurnar.

Allar breytingar, sem skila árangri, byrja innan frá.  Virðing mín í samfélaginu byggir á því að ég beri virðingu fyrir sjálfum mér.  Beri ég ekki virðingu fyrir sjálfum mér, þá er engin ástæða til þess að aðrir beri virðingu fyrir mér.  Hugsanlega bera aðrir meiri virðingu fyrir mér en ég sjálfur, en hún líklegast þverra nema læri að bera virðingu fyrir mér sjálfum.  Sama er það með trúna á sjálfan mig.

Ég get staðið mig vel í skóla samanborið við aðra nemendur, en er það rétt mat á árangri?  Er ekki besti árangurinn að standa sig betur í dag en í gær.  Hvaða máli skiptir þó ég hafi fengið hærri einkunn í stærðfræði en Siggi?  Gerir það mig betri fyrir vikið?  Hvað gerist þá eftir næsta próf, þar sem ég fæ lægri einkunn en Siggi?  Er ég allt í einu lélegur námsmaður eða var það bara Siggi sem tók meiri framförum en ég?

Eini mælikvarðinn fyrir framförum mínum er ég sjálfur.  Allt annað eru sýndarviðmið sem gera ekkert annað en að brengla viðmiðið.  Leikmaður sem ekki sleppur í lið getur ekkert annað gert, en farið á næstu æfingu og lagt sig harðar fram.  Og svo ennþá harðar, þar til þjálfarinn getur ekki lengur gengið framhjá honum við val á liði.

Siðgæðisvitundin er mælikvarðinn

Hvað sem ég geri verð ég að eiga við mína eigin samvisku.  Fái ég samviskubit yfir gjörðum mínum, þá er ég að brjóta gegn siðgæðisvitund minni.  Geri ég eitthvað ólöglegt og fæ ekki samviskubit yfir því, þá er siðgæðisvitund mín eitthvað brengluð.  Stofni ég afkomu fjölda fólks í hættu, vegna þess að ég vil græða aðeins meira, og finnst það allt í lagi, þá er það vegna þess að siðgæðisvitund mín er verulega brengluð.

Siðgæðisvitund mín á að vera hornsteinn minn sem persónu.  Hún á að koma í veg fyrir að ég brjóti lög, svindli á öðrum, níðist á öðrum, komi fram af ókursteisi o.s.frv.  Hún á líka að sjá til þess að viðkomandi hafi samúð með þeim sem minna mega sín, veiti þurfandi hjálparhönd, sýni alúð og væntumþykju, veri heiðarlegur, réttsýnn, o.s.frv.

Ekki erum við öll með sömu siðgæðisvitundina, sem betur fer.  Vandi samfélagsins er hve margir eru með verulega skerta eða brenglaða siðgæðisvitund.  Hve stór hluti fólks þykir hið besta mál að sniðganga lög og reglur eða bara finnst eðlilegt að koma fram af fullkomnu tillitsleysi við meðbræður sína.  Það er þetta sem er stærsta vandamálið okkar og lögum við ekki þetta, þá skiptir engu máli hverju öðru við breytum.  Í sumu tilfellum má leita ástæðunnar fyrir skertri siðgæðisvitund til sjúkleika.

Hvort kemur á undan..

Ég var um daginn á fundi, þar sem var mikil umræða um nýja stjórnarskrá.  Stór hluti fundarmanna leit á nýja stjórnarskrá sem hið nauðsynlega upphaf Nýja Íslands.  Þessu er ég ósammála.  Upphaf nýs Íslands er breytt hugarfar, breyting á siðgæðisvitund í þá átt að velferð landsins komi á undan velferð einstaklingsins, flokksins, fyrirtækisins, kjördæmisins, liðsins eða hvað það nú er sem málið snýst um.

Hrun íslenska hagkerfisins er skýrt dæmi um það, þegar hagsmunir fárra voru teknir fram yfir hagsmuni heildarinnar.  Eða á ég að segja, að það sem áttu að vera hagsmunir fárra (það snerist víða upp í andhverfu sína) voru teknir fram yfir það sem hefðu geta orðið hagsmunir heildarinnar.  Hrun bankakerfisins er líka dæmi um þetta.  Ekki bara hér á landi heldur alls staðar.

Menn vilja bregðast við hruni fjármálakerfisins með því að setja nýjar reglur, en hvað mun koma í veg fyrir að menn sniðgangi þær?  Hvers vegna þarf yfirhöfuð reglur?  Ætti ekki siðgæðisvitund einstaklingsins að vera nægilega sterk og hrein til að skilja að eitthvað athæfi er ekki rétt?  Ok, við viljum reglur til að samræma, þannig að allir sitji við sama borð, hafi sambærilegan skilning á grundgildum samfélagsins.  En þýðir það þá, að ef eitthvað ósiðlegt er ekki bannað, þá sé sjálfsagt fyrir okkur að gera það?  Nei, að sjálfsögðu ekki.  Þó ekki sé allt bannað með lögum, þá á siðgæðisvitund okkar að banna okkur það.  Lögfest boð og bönn eiga ekki að vera endanlegur listi yfir það sem við eigum ekki að gera, heldur bara ábending um það sem ekki má gera og síðan á siðgæðisvitund okkar að bæta heilum helling við, sem hún gerir.  Vandinn er að bæði erum við ekki alltaf trú okkar almennt ríkjandi siðgæðisvitund og hins vegar er siðgæðisvitund þjóðarinnar misjöfn. Af því leiðir að bæði verður listinn yfir það sem er bannað sífellt lengri og forræðishyggja verður áberandi.  Hvorutveggja vinnur gegn sterkri og heilstæðri siðgæðisvitund, þar sem hvatirnar til hegðunar okkar koma utan frá.  Þær eru ekki okkar, heldur "þeirra". Og það sem er "þeirra" er mun auðveldara að brjóta gegn, en það sem er okkar eigið.

Í fjötrum hugarfars

Oft er talað um að samfélög séu föst í fjötrum hugarfars.  Segja má að svo sé ástatt um okkur.  Stjórnmálamenn, hagsmunaaðilar, fjármálafyrirtæki og við almenningur erum öll meira og minna föst í ákveðnum fjötrum.  Þetta eru fjötrar hins gamla Íslands.  Alþingi hefur glatað virðingu landsmanna, vegna þess að fólk upplifir Alþingi sem leikvöll en ekki löggjafarsamkundu.  Leikvöll, þar sem bara sumir fá að vera með og skoðanir skipta ekki máli nema þú sért í réttu klíkunni.  Engu skiptir þó völdin færist á milli klíka, það eru bara þeir sem eru innan valdaklíkunnar sem hlustað er á.  Sama gildir um hagsmunaaðila, hvort heldur á hlið atvinnurekenda eða launþegar.  Sértu ekki í klíkunni, þá skiptir engu hvað þú hefur fram að færa.  Og við almenningur erum ekki barnanna best.  Ekki má tengja neitt við Framsókn, þá upphefjast gengdarlausar árásir þeirra sem er alveg sama um hvað var sagt en sjá bara hver sagði.  Þjóðarsálin er stundum svo föst í fjötrum fortíðarinnar að mesta furða er að hún kunni að nota tölvu.

Meðan þetta ástand varir, þá verður engin breyting.  Ný stjórnarskrá verður bara orð á blaði, því hugarfarið er fast í fortíðinni.  Viljum við breytingu, þá verðum við að leita inn á við.  Við verðum að búa okkur sjálf undir breytt Ísland og leysa okkur sjálf úr fjötrunum sem við erum sjálf búin að festa okkur í.  Um leið og þessi innri breyting hefur átt sér stað, þá munu ytri breytingarnar koma meira og minna af sjálfu sér.


Vitað um lélega arðsemi í áratugi

Ekki neitt í orðum Harðar Arnarsonar kemur mér á óvart.  Margt af því má lesa í lokaritgerð minni í aðgerðarannsóknum frá Stanford háskóla árið 1988, þ.e. fyrir góðum 23 árum.  Ritgerðin ber heitið The Icelandic Electricity System: Supply and Demand Interdependence eða Íslenska raforkukerfið: Samþætting framboðs og eftirspurnar.

Verkefnið vann ég í samvinnu við Landsvirkjun, þ.e. fyrirtækið útvegaði mér öll þau gögn sem ég bað um, og afhenti ég því fyrirtækinu afrit af ritgerðinni.  Hana fékk ég senda til baka og var ekki einu sinni óskað eftir fundi með mér til að fara yfir niðurstöður mínar.

Í niðurstöðu kafla ritgerðarinnar fer ég yfir helstu forsendur og niðurstöður.  Tekið skal fram að á þessum árum voru uppi áætlanir að breyta uppbyggingu verðskrár Landsvirkjunar, þannig að verð skiptist annars vegar í gjald fyrir afl og hins vegar orku.  Gjaldið fyrir aflið færi því eftir hámarksaflnotkun tilgreinds tímabils, gat verið mánuður, mánuðir, eitt eða fleiri ár. Var þetta því tekið inn í reiknilíkanið sem ég útbjó.  Einnig setti ég inn líkan fyrir verðteygni, þ.e. hver viðbrögð kaupenda væru við mismunandi verði, ef gert væri ráð fyrir að verð væri meira fljótandi.

Á þessum tíma biðu nokkrar virkjanir á teikniborðinu, þ.e. stækkun Búrfellsvirkjunar (sem enn er á teikniborðinu), Vatnsfellsvirkjun, Sultartangavirkjun og Fljótsdalsvirkjun, þ.e. sú fyrri sem var með uppistöðulón á Eyjabökkum.  Á eftirspurnarhliðinni var þróun á almennum markaði byggð á orkuspá, en síðan var stillt upp tveimur sviðsmyndum fyrir álver upp á annars vegar 150 MW orkuþörf og hins vegar 300 MW orkuþörf.

Útreikningarnir gerður ráð fyrir að jaðarverð fyrir afl réðist af jaðar kostnaði við að auka aflgetu kerfisins, en jaðarverð fyrir orku réðist af mun flóknari útreikningum sem innbyggðir voru í líkanið.  Því má segja að meðan aflgeta virkjunar hafði ekki verið nýtt, þá kostaði hvert MW ekkert til viðbótar, en breyttist svo eftir því hver kostnaðurinn var við nýja virkjun.  Þar sem alltaf var gert ráð fyrir að ódýrasti kosturinn væri tekinn fyrst, þá hækkaði jaðarkostnaðurinn við aflið með hverri nýrri virkjun.  Eftir því sem lengra gekk á aflgetu virkjunar, þá kom líka í ljós að dýrari gufuaflsvirkjanir höfðu meira að segja í verðútreikningum.  (Athugið að verðtreygnin ákvarðaði verðið í líkaninu, ekki einhliða ákvarðanir fyrirtækisins.)

Líkanið leiddi í ljós að verð á orku varð að hækka hægt og bítandi meðan verð á afl sveiflaðist yfir það tímabil sem var skoðað, þ.e. frá 1990 til 2015, þó áhersla hafi verið lögð á 1995, 2005 og 2015.  Þar sem líkanið var ekki pólitískt, þá gerði það ráð fyrir að hin ódýra Búrfellsvirkjun II kæmi framarlega í framkvæmdaröðinni.  Slík röðun hefur áhrif til lækkunar á afli.  Hafa skal þó í huga, að Búrfell II var á þeim tíma frá tekinn fyrir almenningsveitur, þ.e. ætlunin var að geyma ódýran virkjunarkost til handa almenningi, þannig að stóriðja yrði ekki til þess að keyra verð til almennings upp úr öllu valdi.  Greinilegt er að þetta markmið hefur rokið út í veður og vind með innrás Orkuveitu Reykjavíkur á raforkuframleiðslumarkaðinn hin síðari ár.

Líkanið áttaði sig á því að Landsvirkjun gæti selt ódýra, óörugga raforku utan álagstíma og meðan  ekki var næg eftirspurn miðað við framleiðslugetu virkjana.  Þannig gat blautt ár (þ.e. ár með mikla úrkomu) orðið til þess að orkuframleiðsla varð meiri en eftirspurn, þar sem uppistöðulón gátu bara rúmað takmarkað magn af vatni, þá var annað hvort að hleypa því framhjá virkjunum eða að selja það með verulegum afslætti.  Dæmið snerist svo við í þurru ári.  Langtímaraforkusamningar urðu því að taka mið af framleiðslugetu fyrirtækisins í þurru ári eða a.m.k. að settir væru varnaglar vegna afhendingarbrests í slíku árferði.  Þannig gat Landsvirkjun lent í því að greiða fyrir rekstur varastöðva.  Að þessu leiti er gott að búið er að reisa nokkrar gufuaflsstöðvar, þar sem þær er hægt að nota til að sveiflujafna álagi í þurru ári.  Í slíku ástandi er samt byrjað á því að skerða afhendingu óöruggrar orku.

Ein meginniðurstaða mín, sem kom alveg óvart út úr útreikningum mínum, var að virkjun fyrir orkufrekan iðnað var ekki alltaf hagkvæm.  Eða eins og ég segi í ritgerð minni:

One last thing can be learned from these numbers.  The new power intensive industry will speed up what looks to an inevitable increase in power prices.  This means that a new power intensive industry is not always a good alternative, unless the National Power Company can demostrate some other benefits not counted for here.

Þarna segi ég að tekjur Landsvirkjunar af stóriðju stæðu ekki undir kostnaði fyrirtækisins vegna þeirrar raforku sem stóriðjan keypti.  Í útreikningum á því var gert ráð fyrir að lán vegna framkvæmda væru greidd til baka á 15 árum (sem var það sem gert var á þeim tíma) og bæru 5% árlega vexti.  Þetta þýðir að virkjun yrði að skila 9,6% hagnaði fyrir fjármagnsliði svo hún stæði undir sér.  Síðustu orðin vísa hreinlega til þess að oft var arðurinn af sölu raforku svo lítill samkvæmt líkani mínu, að eina sem kæmi í hlut ríkisins væru skattar starfsmanna.

Fyrir rúmum 11 árum héldum við nokkrir kverúlantar því fram að Fljótsdalsvirkjun hin fyrri stæði ekki undir sér.  Landsvirkjun hélt kostnaðarupplýsingum hina síðari þétt upp að sér svo sem fæstir sæu.  Nú segir Hörður Arnarson, að sömu forsendur hafi brostið varðandi Kárahnjúkastíflu og Fljótsdalsvirkjun hina síðari og var varðandi þá fyrri.  Þetta kemur mér ekkert á óvart.   Spurningin er bara:  Hversu margar framkvæmdir sem farið hefur verið í undanfarna áratugi eru þessu marki brenndar?  Hve oft eru sveimhugar búnir að selja auðlindir landsins á niðursettu verði til aðila sem er alveg sama um landið og þjóðina, ef þeir bara fá nægar tekjur af rekstrinum?  Ég viðurkenni þörf fyrir uppbyggingu atvinnulífs, en sú uppbygging verður að skila einhverju til þjóðarinnar til langframa, en ekki vera skammtíma innspýting sem hverfur nánast um leið og skilur okkur eftir með himinháa reikninga fyrir allt of lítinn arð.  Ég er ánægður með að núverandi forstjóri Landsvirkjunar er á sama máli.


mbl.is Of lítil arðsemi af virkjunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mótbárur sendar fjármálastofnun

Fjármálafyrirtækin eru orðin ansi ágeng í innheimtum sínum og knýja þá sem ekki viðurkenna útreikninga sína til að gangast undir þá.  Eina sem lántakar geta gert fyrir utan að fara í dómsmál, er að hafa uppi mótbárur, þ.e. mótmæla því að krafa á hendur þeim sé réttileg.  Hér fyrir neðan eru mótbárur sem ég sendi Landsbankanum í dag og er öðrum frjálst að nota þær aðlagaðar að sínum þörfum.  Tekið skal fram að textinn er lítillega breyttur frá þeim sem ég sendi.

Mótbárur

Með þessum pósti er ég að halda uppi mótbárum við kröfu Landsbankans hf. og hafa mótbárurnar skjalfestar með mínum tilvísunum til kröfuréttar.  Í bók Páls Hreinssonar Viðskiptabréf segir m.a. um mótbárur:

Mótbárur skuldara gagnvart framsalshafa má flokka í þrennt.  Í fyrsta lagi mótbárur um að krafa á hendur skuldara sé falin niður.  Í öðru lagi mótbárur er lúta að stofnun viðskiptabréfakröfunnar, þ.e. að hún hafi verið ógild frá upphafi.  Í þriðja lagi geta mótbárur varðað efni kröfunnar.. 

Mínar mótbárur falla undir fyrsta liðinn og lúta fyrst og fremst að því að krafa hafi að hluta verið fallin niður þar sem sá hluti hafi verið að fullu efndur eða eins og Páll Hreinsson segir:

Í þennan flokk mótbára [um að viðskiptabréfakrafa sé niður fallin] fellur að sjálfsögðu sú mótbára að krafa sé greidd sbr. tilskipun frá 9. febrúar 1798..

Ég tek að sjálfsögðu fram að ég lít ekki á það að ég hafi verið í vanskilum.  Samkvæmt kröfurétti hef ég fullan rétt á að greiða ekki það sem ég tel ekki vera rétt krafa enda mótmælti ég útreikningunum.  Vanefnd myndast þegar réttileg krafa er ekki greidd með réttilegum hætti og án galla.

Ástæðan fyrir því að ég tel kröfu ykkar ekki rétta er svo sem vel þekkt, en langar mig að rifja það upp með tilvísunum í kröfurétt.  Í bókinni Kaflar úr Kröfurétti Ólafs Lárussonar segir m.a.:

Kröfuhafinn á heimtingu á því, að skuldarinn efni að fullu þær skyldur sem krafan leggur honum á herðar.  Til fullra efnda heyrir það að þær fari fram á réttum stað og á réttum tíma.  Ef fullar efndir eiga sér stað, er skyldu skuldarans þar með lokið og kröfuhafinn getur þá einskis frekar af honum krafist.

Og síðar í bókinni segir:

Við framsalið öðlast nýi kröfuhafinn (framsalshafi) allan þann rétt sem fyrri kröfuhafi (framseljandi) átti á hendur skuldara og að jafnaði öðlast hann ekki annan rétt gegn skuldara en framseljandi átti.

Og enn segir í þeirri ágætu bók:

Þegar krafa er liðin undir lok er greiðsluskyldu skuldarans lokið.  Ef kröfuhafinn færi í mál við skuldarann út af slíkri kröfu og skuldarinn hefði uppi þá vörn að krafan væri úr gildi gengin myndi skuldarinn verða sýknaður af kröfu sækjandans.

Nú í bókinni Kröfuréttur I eftir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Eyvind G. Gunnarsson segir:

Greiðsla skuldara til kröfuhafa leiðir því aðeins til brottfalls skyldu skuldara og þar með til loka kröfuréttinda, að greitt sé í samræmi við ákvæði samnings eða lagareglna.  Til réttra efnda af hálfu skuldara heyrir m.a. að hann inni greiðslu sína af hendi á réttum stað og réttum tíma.  (Neðanmáls: Til viðbótar því, að krafa sé greidd á réttum stað og tíma, heyrir það til réttra efnda á kröfu, að innt sé af hendi greiðsla sú sem greiða átti, hún hafi þá eiginleika til að bera sem um var samið, og að hún sé greidd til kröfuhafa eða einhvers sem heimild hefur til að taka við greiðslunni fyrir hans hönd.) (Leturbreyting er mín)

Og loks vil ég vitna í:

Það heyrir til réttra efnda kröfu í gagnkvæmu skuldarsambandi í fyrst lagi að hún sé greidd á réttum stað og réttum tíma.  Í öðru lagi að kröfuhafi hljóti þá réttarstöðu, sem af samningi leiðir, þ.e. hann öðlist þær heimildir yfir greiðslunni, sem samningur hans og skuldara gerir ráð fyrir.  Í þriðja lagi að greiðslan sé gallalaus, þ.e. að raunverulegum eiginleikum hennar sé ekki áfátt.

Það hefði svo sem verið nóg, að vera bara með fyrstu tilvitnunina, en gaman er að vitna í fleiri til að sýna hversu sterkur réttur minn er samkvæmt kröfurétti.  Ég vil hafa það á hreinu að ég tel að kröfur á mig vegna þess tíma sem kröfurnar voru í höndum Landsbanka Íslands hf. hafi verið að fullu efndar.  Við framsal "öðlast nýi kröfuhafinn (framsalshafi) allan þann rétt sem fyrri kröfuhafi (framseljandi) átti á hendur skuldara og að jafnaði öðlast hann ekki annan rétt gegn skuldara en framseljandi átti" eins og segir að ofan.  Landsbankinn hf. á því engar kröfur á mig sem Landsbanki Íslands hf. átti ekki við framsal kröfunnar.  Landsbankinn hf. (Nýi Landsbankinn hf./NBI hf.) lét þinglýsa í skilmálabreytingu í október 2008 að ég fengi þá skilmálabreytingu vegna þess að ég var í skilum.  Er mér ómögulegt að skilja hvernig Landsbankinn hf. geti átt ríkari rétt á mig núna í nóvember 2011 en hann átti í október 2008.  Ég hef því alltaf mótmælt rétti ykkar til að reikna lánin eins og þið gerið.  Þess vegna neita ég því að um vanskil hafi verið að ræða, þar sem ég fékk aldrei í hendur rétta greiðslukröfu.

Ég mun því gera fyrirvara á bæði skuldabréf og geri hér fyrirvara við útreikninga ykkar á meintum vanskilum, enda tel ég ekkert af þessu standast íslenskan kröfurétt.

Dómstólar eiga bara einn kost

Svo mörg voru þau orð.  Það er mín skoðun og allra lögfræðinga sem ég hef rætt við, að dómstólar eigi bara einn kost í stöðunni, þegar reynir á endurútreikninga fyrir dómi.  Þ.e. að hafna endurútreikningi á þegar greiddum gjalddögum.  Jón Finnbjörnsson við Héraðsdóm Reykjavíkur gerði það raunar í máli nr. X-77/2010 Arion banki gegn Agli ehf. þar sem hann segir:

Þá er ekki heimilt að reikna á ný afborgun af vöxtum og höfuðstól, ef hún hefur verið greidd að fullu á réttum gjalddaga eins og krafist var.

Því miður hefur Hæstiréttur dregið lappirnar með að taka á þessu atriði, þó hann hafi fengið til þess mörg tækifæri.  Rétturinn hunsar með því fjölmarga úrskurði Evrópudómstólsins um að honum beri að hafa í huga betri rétt neytenda, þrátt fyrir að hann hafi ekki verið reifaður fyrir dómi.

Nú tek ég það fram, að ég er ekki löglærður og þekki því ekki alla króka og kima lögfræðinnnar.  Einnig fékk ég Viðskiptabréf Páls Hreinssonar bara í hendur á laugardag og keypti hina tvær síðdegis í gær.  Ég er því ekki  búinn að lesa þær spjaldanna á milli og gæti því hafa yfirsést eitthvað sem vinnur gegn mér og öðrum lántökum í þessu máli.  Þætti mér vænt um að fá ábendingar um slíkt, því hafa skal það sem sannara reynist.


Fjármálafyrirtæki á bara lögvarið það sem það greiddi fyrir kröfu og bara vexti frá stofndegi kröfu

(Ég vara fólk við, að til að skilja allt innihald þessarar færslu þarf að lesa þá síðustu líka.)

Hvenær ætla nýju bankarnir að skilja að þeir eru reistir upp af rústu fyrirtækja sem gengu í skrokk á samfélaginu?  Hvenær ætla þeir að skilja, að þó telji sig eiga fulla greiðslu inni hjá lántökum, þá eru lántakar ekki sammála því?  Og það sem meira er:  Hæstiréttur Íslands tók undir með lántökum í máli nr. 340/2011, þ.e. Icesavedómnum, en þar segir hann:

Áður er fram komið að hluti upphaflegra almennra kröfuhafa hefur selt kröfur sínar eftir 6. október 2008 og að þær hafi haft eitthvert fjárgildi í viðskiptum þótt óumdeilt sé að það hafi verið lágt. Um það nýtur ekki við nánari upplýsinga í málinu. Að öllu þessu virtu þykja sóknaraðilar ekki hafa rennt stoðum undir þær staðhæfingar sínar að kröfur þeirra hafi eða muni tapast að öllu leyti vegna setningar laga nr. 125/2008 þótt ókleift sé á þessu stigi að komast að niðurstöðu um hve mikið kunni að fást greitt af þeim þegar upp verður staðið.

Með þessu er Hæstiréttur að segja, að þó kröfuréttur haldist, þá miðist sá réttur við kaupverð kröfunnar, en ekki þá upphæð sem hún stóð í hjá gamla bankanum.

Nú er ekki einhver kverúlant úr hópi Hagsmunasamtaka heimilanna að tjá sig, heldur Hæstiréttur Íslands.  Þetta fer að vísu 100% saman við það sem ég hef alltaf haldið fram, en núna er Hæstiréttur búinn að staðfesta það.

Skoðum þessa niðurstöðu í samræmi við ákvæði 2. gr. laga nr. 107/2009, þ.e. :

Skal miðað að því að hámarka gagnkvæman ávinning samningsaðila af því að gefa eftir tapaðar kröfur og komast hjá óþarfa kostnaði og óhagræði.

Hæstiréttur segir að sá hluti kröfu, sem fjármálafyrirtækin eru að reyna að innheimta umfram kaupvirði, sé ekki töpuð krafa samkvæmt skilningi laga fáist hún ekki greidd.  Eingöngu sá hluti sem er innan kaupverðskröfunnar getur myndað stofn fyrir tap.  Hitt er glataður hagnaður (ekki orð Hæstaréttar) og hann getur ekki að ósönnuðu máli talist tap (orð Hæstaréttar).

Lög nr. 151/2010 færðu nýju bönkunum meira en þeir áttu

Nú er til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd frumvarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um breytingar á lögum nr. 151/2010, þ.e. Árna Páls-lögunum svo kölluðum.  Ég var gestur nefndarinnar sl. mánudag, ásamt fleiri samherjum.  Í umsögn um frumvarpið, sem ég sendi inn, þá legg ég til að vaxtaútreikningi áður gengistryggðra lána verði breytt þannig, að samningsvextir gildi fram að dómsuppkvaðningu 16. júní 2010, þegar Hæstiréttur staðfesti þá túlkun okkar "kverúlantanna" að gengistrygging væri ólöglegt form verðtryggingar, en eftir það gildi vextir Seðlabanka Íslands.  Megin inntakið er að þegar greiddir gjalddagar verði ekki hreyfðir nema til að gera upp ofgreiðslur (og vangreiðslur) sem hljótast af breyttri upphæð höfuðstólsins, en ekki breyttri vaxtaprósentu eins og lögin hljóma núna.  Þegar gestir voru sérstaklega spurðir út í þetta atriði, þá gafst aðeins einum færi á að svara áður en knappur tími gesta til svara var úti.  Sú sem svaraði var Ása Ólafsdóttir frá Háskóla Íslands, en hún var eini "hlutlausi" aðilinn í hópnum.  Afstaða hennar var skýr.  Afturvirk breyting á vöxtum stenst ekki, en nýir vextir geta tekið gildi frá 16. júní 2010.

Andrea J. Ólafsdóttir, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna, benti á að stofndagur peningakröfu myndast frá síðasta gjalddaga og er það í samræmi við ákvæði 3. gr. vaxtalaga nr. 38/2001.  Í bráðabirgðaákvæði laganna sem sett voru með lögum nr. 151/2010 segir í 3. mgr. 18. gr.:

Vexti samkvæmt ákvæðum 1. mgr. skal reikna frá og með stofndegi peningakröfu, nema samið verði um annað, sbr. 3. gr.

Ef við skoðum svo hvað segir í 3. gr., þá kemur þetta í ljós:

Almenna vexti skal því aðeins greiða af peningakröfu að það leiði af samningi, venju eða lögum. Vexti skal greiða frá og með stofndegi peningakröfu og fram að gjalddaga.

Nú er bara spurningin hvernær er stofndagur peningakröfu.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa fjallað nokkrum sinnum um þetta á vef sínum sem og Vilborg G. Hansen, stjórnarmaður í HH, á bloggsíðu sinni.  HH hafa óskað eftir því við FME að stofnunin svari því hvenær þessi stofndagur er:

Samtökin telja að 5. mgr. 18. gr. laga 38/2001, sbr. 5. mgr. 1. gr. laga nr. 151/2010,  sem heimili að tvíreikna vaxtatímabil þó að vextir séu greiddir sé að þessu leyti ógild og 3. mgr. sama ákvæðis um að vexti skuli reikna frá og með stofndegi peningakröfu, verði að skýra þannig að stofndagur kröfu miðist við ógreidda peningakröfu. Telur FME þessa lagatúlkun vera rétta?

Miðað við orðanna hljóðan og almennan skilning, þá myndast nýr stofndagur við daginn eftir síðasta gjalddaga á undan.  Þannig að borgi ég af láni 1. janúar, þá stofnast ný krafa á mig 2. janúar og er sá dagur jafnframt stofndagur kröfunnar.  Krafan ber síðan vexti frá þessum stofndegi til næsta gjalddaga að báðum dögum meðtöldum.  Breytir þá engu, þó fyrri gjalddagi sé ógreiddur eða ekki.  Þannig getur sama lánið verið með margar kröfur vakandi, hver með sinn stofndag og sinn gjalddaga.  Segjum að ég hafi ekki greitt tvo gjalddaga og þá myndast samt ný krafa eftir annan ógreidda gjalddagann.  Hún ber bara vexti frá stofndeginu fram að gjalddaga, en ekki frá síðasta greidda gjalddaga.  Hann kemur þessu máli ekkert við.  Greiðslurnar tvær sem eru ógreiddar bera ekki almenna vexti lengur en til gjalddaga, eftir það bera þær dráttarvexti.  Þær hafa því ekki áhrif á eða koma í veg fyrir að nýr stofndagur verður til.  Eða eins og segir í 5. gr. laga nr. 38/2001:

Hafi gjalddagi verið fyrir fram ákveðinn er kröfuhafa heimilt að krefja skuldara um dráttarvexti sem reiknast af ógreiddri peningakröfu frá og með gjalddaga fram að greiðsludegi.

Hin ógreidda peningakrafa er því gjalddagagreiðslan en ekki allt lánið, nema náttúrulega að það hafi verið gjaldfellt eða um kúlulán sé að ræða.

Algengustu endalok kröfu eru þau að hún falli niður við greiðslu.  Ólafur Lárusson, prófessor, hélt því fram að daugdagi kröfu væri við greiðslu hennar eða eins og segir í bók sinni Kaflar úr kröfurétti:

Hinn eðlilegi dauðdagi kröfunnar, ef svo mætti segja, er sá, að hún falli niður við greiðslu eða borgun.

Setjum þetta í samhengi við 3. mgr. 18. gr. (bráðabirgðaákvæðis) laga nr. 38/2001 og rifjum upp hvað segir þar:

Vexti samkvæmt ákvæðum 1. mgr. skal reikna frá og með stofndegi peningakröfu

Þarna segir, að vexti samkvæmt 1. mgr., þ.e. Seðlabankavextina, megi eingöngu reikna frá og með stofndegi peningakröfunnar.  Ekki aftur fyrir stofndaginn, heldur frá stofndeginum.  Eins og ég hef skýrt út, þá er þessi stofndagur daginn eftir síðast gjalddaga á undan eða á öðrum þeim degi þegar samningsaðilar eru sammála um að ekki er nein ógreidd krafa útistandandi.   Samkvæmt þessu er ekki hægt að gera kröfu um vexti vegna eldri gjalddaga, þar sem þeim kröfum var öllum lokið við greiðslu eða annað samkomulag um uppgjör.

Mér sýnist samkvæmt þessu, að áður gengistryggð lán geti aldrei borið Seðlabankavexti nema í mesta lagi frá síðasta greidda gjalddaga, í þeim tilfellum sem skilmálabreytingar áttu sé stað frá breytingardegi, lok frystingar hafi hún verið í gangi eða frá dómi Hæstaréttar 16. júní 2010, eftir því hvaða dagsetning er nýjust af þessum fjórum.  Þetta byggist allt á því að kröfum, sem eru greiddar, er með því lokið og þær verða ekki aftur upp teknar nema fyrir tilstilli dómstóla og þá í tengslum við þau ákvæði laga sem segja til um slíkt.  Hvorki löggjafinn né fjármálafyrirtækin hafa borið slíku fyrir sér.

Þegar ég les lög nr. 151/2010 með þessum gleraugum, þá standa þau fullkomlega.  Það álit stendur og fellur með því að stofndagur krafna sé eins og ég kemst að niðurstöðu um.  Sé svo, þá eru lögin ekki afturvirk, það er bara túlkun fjármálafyrirtækjanna á lögunum sem er afturvirk.   (Tekið skal fram að þetta sjónarmið mitt er í andstöðu við alla aðra sem túlkað hafa áhrif laga nr. 151/2010 og einnig efni greinargerðar ráðherra.)


Fortíðin sýnir að eitthvað hefur áunnist, en flest er óbreytt - Hugleiðing um lög nr. 107/2009

Ég var að fletta í gegn um tveggja ára gamlar færslu hér á síðunni minni og verð að viðurkenna að ansi margt hefur áunnist, þrátt fyrir allt.  Fyrir tveimur árum héldu stjórnarþingmenn og ráðherrar því statt og stöðugt fram að allar lækkanir sem bankarnir veittu væru til að sýna gjafmildi þeirra, þar sem lántakar yrðu að standa í skilum.  Í dag dettur engum stjórnmálamanni að segja þetta, ekki einu sinni æðsta varðmanni "erlendra kröfuhafa", Árna Páli Árnasyni, efnahags- og viðskiptaráðherra.  En fyrir tveimur árum sigaði hann "ráðgjöfum" sínum (sem ráðnir voru án auglýsinga) á okkur almúgann og þeirra skilaboð voru skýri:

Þið skuldarar stofnuðuð til þessara skulda og þið verðið að standa í skilum hvað sem það kostar.

Nú er annar þessara "ráðgjafa" orðinn starfsmaður Samtaka fjármálafyrirtækja og get ég ekki séð að hann hafi skipt um lið, bera vinnustað.

Kristrún Heimisdóttir sagði í byrjun nóvember 2009 að 600 milljarðar kr. sem fram kom í skýrslu AGS að væri afskriftarþörf fjármálafyrirtækjanna, ætti bara að fara til þeirra sem bönkunum tækist að draga í gegn um sértæka skuldaaðlögun.  Reyndin er að bankarnir vilja ekki að fólk fari í gegn um sértæka skuldaaðlögun.  Þeir vilja ýta þeim í gegn um 110% leiðina.

Það sem hefur ekki breyst, er að bankarnir sem lögðu þjóðfélagið á hliðina eru dómarar í eigin sök.  Þeir eru líka túlkendur laga og neita að taka tillit til athugasemda viðskiptavina sinna um að þeir fari með rangt mál.

Lög nr. 107/2009

Annað sem ekki hefur breyst eru lögbrotin sem felast í úrræðum bankanna.  23. október 2009 samþykkti Alþingi í miklum asa lög nr. 107/2009.  Um frumvarpið sagði ég í færslu Málið er ekki tilbúið - Óvirðing við lántakendur  og meinti það.  32 þingmenn samþykktu lögin, einn þingmaður (Þór Saari) sagði nei, tveir voru með leyfi og 28 voru fjarverandi.  Meðal þeirra sem samþykktu lögin eru ýmsir sem ekki eru stoltir af því atkvæði sínu í dag.  Þór sagði við mig, að hann hefði greitt atkvæði gegn því af því að Hagsmunasamtök heimilanna hefðu mótmælt því.  Aðrir þingmenn Hreyfingarinnar voru fjarverandi, en einnig formaður félags- og tryggingamálanefndar, Guðríður Lilja Grétarsdóttir, sem bendir til þess að hún hafi ekki geta stutt þennan óskapnað.

En þar með var ekki málinu lokið.  Niðurstaðan hefði getað orðið ásættanleg, ef reglurnar sem fjármálafyrirtækin máttu sammælast um hefðu verið góðar.  Öðru var nær.  Reyndar vill svo til að reglurnar voru að mestu tilbúnar löngu áður en frumvarpið varð að lögum, eins og lesa má í færslunni Verklagsreglur fjármálafyrirtækja um sértæka skuldaaðlögun, en þar er einmitt tengill yfir á drög að verklagsreglunum.  Þar vekur athygli að drögin eru með dagsetningunni 12. október 2009, en það er fjórum dögum áður en félags- og tryggingamálaráðherra, Árni Páll Árnason, lagði frumvarpið á þingskjali 69 fyrir Alþingi og 11 dögum áður en frumvarpið varð að lögum.  Hver ætli hafi ráðið innihaldi laganna, fjármálafyrirtækin eða Alþingi?  Er ég hræddur um að Alþingi hafi í þessu máli, eins og allt of mörgum öðrum, virkað eins og framlenging á stjórn Samtaka fjármálafyrirtækja.

Í bráðabirgðaákvæði laganna er ákvæði um skipan starfshóps til að meta árangurinn af framkvæmd laganna.  Hann áttu að skipa fulltrúar allra þingflokka, sérfræðingar og fulltrúar hagsmunaaðila.  Frómt er frá því að segja, að félags- og tryggingamálaráðherra beið í fyrsta lagi í marga mánuði að skipa hópinn og í honum sátu eingöngu fulltrúar þingflokka.  Klassísk aðferð vanhæfra stjórnvalda til að koma í veg fyrir óþægilegar spurningar.  Hreyfingin sneri á Árna Pál og bað mig um að vera fulltrúa sinn í hópnum og þáði ég það.  Þó ég segi sjálfur frá, þá held ég að með því hafi Árna Páli verið reddað, þar sem á einu bretti fékkst inn í hópinn fulltrúi Hreyfingarinnar, sérfræðingur og  fulltrúi hagsmunaaðila.  Ég held að lögin hafi ekki verið hugsuð þannig.

Starfshópurinn hélt marga fundi og kom með fullt af ábendingum.  Allt of fáar þeirra rötuðu inn í skýrslu hópsins og svo var hann bara lagður niður.  Líklegast voru spurningar okkar orðnar of erfiðar fyrir ráðuneytið.

Verklagsreglurnar og lögin

Lögin voru á margan hátt ótrúlega vitlaus og skil ég ekki enn hvers vegna þeim hefur ekki verið breytt af fenginni reynslu.  Margt í þeim var ekki svo vitlaust, t.d. hafa þau ákaflega göfugt hlutverk og markmið eða eins og segir í 1.gr.:

Markmið laga þessara er að hraða endurreisn íslensks efnahagslífs í kjölfar banka- og gjaldeyrishrunsins haustið 2008 og að jafnvægi komist á virði eigna og greiðslugetu annars vegar og fjárskuldbindinga einstaklinga, fyrirtækja og heimila hins vegar. Lögin kveða á um leiðir og viðmið til að ná því markmiði.

Ekki er ég sammála því að lögin kveði á um leiðir og viðmið til að "jafnvægi komist á virði eigna og greiðslugetu annars vegar og fjárskuldbindinga einstaklinga, fyrirtækja og heimila hins vegar".  Þau fyrst og fremst kveða á um leiðir til að staðfesta að fjármálafyrirtæki eru ekki ábyrg gerða sinna, heldur eiga viðskiptavinirnir að bera allan skaðann þegar fjármálafyrirtæki drulla upp á bak.

Verklagsreglurnar hunsa þetta atriði um að "jafnvægi [eigi að] kom[a]st á virði eigna og greiðslugetu annars vegar og fjárskuldbindinga einstaklinga, fyrirtækja og heimila hins vegar" og fylgja í staðinn hinni leiðinni að allt sem lántakinn á skal hann greiða bankanum og svo skulda allt hitt sem hann getur ekki borgað nema að hann sé svo skuldugur að bankinn geti bara ekki rukkað hann um meira.

Verklagsreglurnar gera meira en að kreista út úr lántökum allt sem hægt er að kreista.  Þær brjóta freklega gegn ákvæði 2. gr. laganna, þar sem segir:

Í samningi milli kröfuhafa og skuldara um eftirgjöf skulda eða breytingu á skilmálum skuldabréfa og lánssamninga skal fyrst og fremst horft til þess að laga skuldir að greiðslugetu og eignastöðu viðkomandi einstaklings eða heimilis. Skal miðað að því að hámarka gagnkvæman ávinning samningsaðila af því að gefa eftir tapaðar kröfur og komast hjá óþarfa kostnaði og óhagræði.

 

Takið sérstaklega eftir orðunum:

Skal miðað að því að hámarka gagnkvæman ávinning samningsaðila af því að gefa eftir tapaðar kröfur og komast hjá óþarfa kostnaði og óhagræði.

Ég hef ekki ennþá orðið var við það fjármálafyrirtæki sem reynir að "hámarka gagnkvæman ávinning samningsaðila af því að gefa eftir tapaðar kröfur".  110% leiðin er t.d. hreint og beint brot á þessum lögum.  Landsbankinn er eini bankinn með tilboði sínu frá því í vor (18 mánðum eftir að lögin voru sett) hefur haft í heiðri:

Í samningi milli kröfuhafa og skuldara um eftirgjöf skulda eða breytingu á skilmálum skuldabréfa og lánssamninga skal fyrst og fremst horft til þess að laga skuldir að greiðslugetu og eignastöðu viðkomandi einstaklings eða heimilis.

Sértæk skuldaaðlögun og 110% leiðin eru báðar skýrt brot á þessu ákvæði.  Sú fyrri fellir ekkert niður, heldur frestar bara hlutum og hin síðari tekur ekkert tillit til greiðslugetu.  Enn frekar, þá hunsa fjármálafyrirtækin almennt þetta með greiðslugetuna (nema Landsbankinn í úrræðum sínum fyrir aðrar skuldir).

Hvenær ætla nýju bankarnir að skilja að þeir eru reistir upp af rústu fyrirtækja sem gengu í skrokk á samfélaginu?  Hvenær ætla þeir að skilja, að þó telji sig eiga fulla greiðslu inni hjá lántökum, þá eru lántakar ekki sammála því?  Og það sem meira er:  Hæstiréttur Íslands tók undir með lántökum í máli nr. 340/2011, þ.e. Icesavedómnum.  Nánar um það í næstu færslu.

Fáein orð um Ólaf Oddsson

Til grafar er borinn í dag gamall kennari minn, Ólafur Oddsson, fyrrum íslenskukennari við Menntaskólann í Reykjavík.  Hann var einn þriggja íslenskukennara sem ég hafði á námsferli mínum við skólann.  Hinir tveir eru látnir fyrir nokkuð löngu.

Ég mun alltaf minnast Ólafs, eða Óla eins og hann var kallaður, fyrir þá ótrúlegu yfirvegun og rósemd sem fylgdi honum.  Það sem mestu skiptir að hann var heiðarlegri en nokkur maður gat verið.  Naut hann mikillar virðingar minnar og samnemenda minna fyrir að vera vinur okkar og ekki síður samherji, en oft þurfti hann að bera klæði á vopnin sem félagar hans meðal íslenskukennara munduðu að "fávísum" nemendum sínum.  Eiga örugglega margir nemendur honum að þakka, að þeir þurftu ekki að endurtaka heilu námsárin.

Glettni var hans vörumerki.  Var hann þar enginn eftirbátur bróður síns, sem flestir landsmenn þekkja betur.  Snerist þessi glettni oftast um eigin hagi og þá sérstaklega kvenfólk og líkamsburði hans.  Var það ansi oft sem hann sagði einhver gamanyrði, en lét síðan fylgja:  "En þetta gæti ég aldrei sagt nema í strákabekk."  Ekki að ummælin væri karlrembuleg, heldur lýsti þetta manninum vel, að ekki mætti rangtúlka að hann væri karlremba, enda var hann stoltur faðir dætra sinna og bárust þær reglulega í tal.  Bar hann ósjaldan líkamsburði sína við þá sem fóru af söguhetjum Íslendingasagnanna og var ýmist að hann taldi sig betur búinn eða hinir.  "Þetta hafa verið óttalegir væsklar", sagði hann gjarnan eða "sæi ég nú ekki mig fyrir mig gera þetta".  Eitt er víst að mönnum fannst þeir hafa fengið stóra vinninginn, þegar í ljós kom að Ólafur Oddsson ætti að kenna þeim.

Að mínu mati, eiga þessar línur Hávamála við um fáa eins og vel Óla Odds:

Deyr fé

deyja frændur

deyr sjálfur ið sama.

En orðstír

deyr aldregi

hveim sér góðan getur.

Ég votta aðstandendum samúð mína.


Er krónan vandamálið eða er hún birtingarmynd vandans?

Undanfarin á ár hafa ákveðnir hópar í þjóðfélaginu kappkostað við að lýsa krónunni sem mesta skaðvaldi þessarar þjóðar.  Hafa menn horft dreymandi augum til evrunnar og inngöngu í ESB sem lausn á öllum okkar vanda.  Nú síðast birtir Vilhjálmur Þorsteinsson, einn af æðstuprestum Samfylkingarinnar, opið bréf á ensku til "observer of Iceland".  Þar vill hann skýra fyrir þessum aðilum það sem hann telur þá ekki vita.

Ég geri alvarlega athugasemd við eftirfarandi hluta af málflutningi Vilhjálms:

Our currency, the króna, has a dismal history of inflation and devaluation. Since the Icelandic króna was separated from its twin sister, the Danish krone, in 1920, it has depreciated by 99,95% against its counterpart. Yes, you read right: you now need 2200 (original) Icelandic króna to buy one Danish krone, coming from parity in 1920. (And it is not like the Danish krone has been a bastion of real value conservation in the meantime, either.) This trend is largely due to the tendency of politicians and economic policy makers to use the devaluation of the króna as a tool to subsidize exports by lowering domestic real wages and other costs. Again, this is caused by the closeness of the export – especially seafood – lobby to the political parties that have dominated our country’s government.

Mér finnst Vilhjálmur, eins og margir aðrir, lýsa krónunni, eins og hún sé hlutur með sjálfstæða hugsun.  Vissulega talar Vilhjálmur um "stjórnamálamenn og þá sem móta efnahagsstefnu þjóðarinnar" og hann á að halda sig við það.  Krónan er ekki vandamálið, frekar en bíllinn er vandamálið þegar ökumaður ekur of hratt.  Vandamálið er að verður alltaf mannlegi þátturinn, þ.e. hagstjórnin.

Hvers vegna hefur krónan verið felld eins og Vilhjálmur lýsir? Jú, vegna þess að við höfum verið svo háð innflutningi og eina leiðin til að ná jöfnuði milli innflutnings og útflutnings hefur verið í gegn um vesalings krónuna. Vandamálið er því ekki krónan heldur viðskiptajöfnuður.  Já, rétt er að nauðsynlegt hefur verið að fella krónuna til að gera útflutning samkeppnishæfan, en aftur er um einkenni að ræða, ekki sjúkdóminn.

Allt snýst þetta um getu hagkerfisins til að standa undir neyslu. Það gerist á tvo vegu: a) hægt er að nota innlendar auðlindir til að framleiða það sem þarf og koma því á markað; b) flutt er út innlend framleiðsla og þjónusta og hún látin greiða fyrir innflutta vöru og þjónustu (til þjónustu telst fjármagnskostnaður). Ef hvorki innlend framleiðsla né útflutingur duga til að standa undir neyslu í hagkerfinu, þá verður meiri eftirspurn eftir gjaldeyri en framboð. Hefðbundið eftirspurnarlíkan segir okkur þá, að verð gjaldeyris hækkar, þ.e. virði krónunnar lækkar.

Vandamálið er sem sagt ekki krónan, heldur samspil innanlandsneyslu og innanlandsframleiðslu, þá fyrst og fremst ójafnvægi í vöruskiptum. Við eigum því að spyrja okkur, hvernig förum við að því að laga þetta ójafnvægi.  Við gerum það eingöngu með því að auka verulega innanlandsframleiðslu um leið og við höldum aftur af innanlandsneyslu.  Ég gæti svo sem reynt að lýsa helstu aðferðum við það, en læt það ógert. 

Á árunum 1989 til 2008 voru vöruskipti neikvæð um 437 ma.kr.  Það er margfaldur gjaldeyrisforði þjóðarinnar í lok september 2008.  Síðustu tvo ár (þetta ekki tekið með) varð viðsnúningur upp á 210 ma.kr., þ.e. vöruskipti síðustu 22 ára voru neikvæð um 227 ma.kr.  Það sem af er ári eru vöruskipti jákvæð um 81 ma.kr.  Þjónustujöfnuður hefur líka verið jákvæður síðustu tæp þrjú ár sem nemur rúmlega 90 ma.kr. (tölur fyrir 3. ársfjórðung 2011 liggja ekki fyrir).  Þá eru eftir afborganir lána og greiðsla vaxta, en þar hallar allverulega á.

Ef ójafnvægi verður áfram, eftir að nýr gjaldmiðill tekur við af krónunni, þá er eins gott að við verðum með góða peningaprentvél. Annars fækkar einfaldlega peningum í umferð ár frá ári, þar til að ekkert verður eftir. Ekki verður nóg að gefa út skuldabréf, því þau þarf að greiða.

Ég hef enga trú á því að krónan verði gjaldmiðill þjóðarinnar til langframa.  Henni verður skipt út fyrir stærri gjaldmiðil innan 10 ára.  Þangað til verðum við að gera það besta úr stöðunni, en fyrst og fremst verðum við að ná jafnvægi í utanríkisviðskiptum.  Annars fer fyrir okkur sem þjóð, eins og svo mörg heimili eru að upplifa.  Skuldabyrðin verður meiri en tekjur standa undir.  Leiðirnar út úr því er gríska leiðin eða leiðin sem Nýfundnaland fór.


Rökstuðningur sem ekki stenst - Seðlabankinn þarf að líta fram á veginn

Þau rök sem höfð eru eftir Þórarni G. Péturssyni í frétt Morgunblaðsins að verið sé að bregðast við launahækkunum í sumar, standast ekki.  Hafi svo verið, þá hefði peningastefnunefnd átt að bregðast við þeim strax eftir að kjarasamningar voru undirritaðir, en ekki 4 mánuðum síðar.  Það er líka út í hött að hækka rekstrarkostnað fyrirtækja með hærri vöxtum, þegar nýbúið er að hækka rekstrarkostnaðinn með hærri launum.  Hafi peningastefnunefnd viljað draga úr þörf á verðhækkunum, þá hefði hún átt að fara í hina áttina, a.m.k. eins og staðan í þjóðfélaginu er í dag.

Stýrivaxtaákvarðanir byggðar á sagnfræði en ekki framtíðarsýn

Ég hef fylgst vel með þróun stýrivaxta Seðlabanka Íslands undanfarin fjögur og hálft ár.  Ófáar færslur hafa fjallað um ákvarðanir bankans, bæði þar sem ég hef gagnrýnt bankann og eins þar sem ég hef tekið undir ákvarðanir hans.  Ákvörðunin á miðvikudaginn var algjörlega í takt við þær villur sem bankinn hefur gert í gegn um tíðina, þ.e. horft er til fjarlægrar fortíðar í staðinn fyrir að líta fram á veginn.  Þannig var í vor mun meiri ástæða til að hækka stýrivexti en núna.  Ástæðan var einföld:  Þá var skammtímaverðbólga mun meiri en hún er núna. 

Í maí sýndu mælingar skammtímaverðbólgu (yfir fjögurra mánaðatímabil) upp á 12,2% meðan langtímamælingar sýndu 3,4%.  Þá var full ástæða til að stíga inn með aðgerðir.  Núna er þessi sama verðbólga 4,1% og hefur farið lækkandi í hverjum einasta mánuði, var 9,9% í júní, 7.2% í júlí, 5,6% í ágúst og 4,6% í september.  Á sama tíma voru stýrivexti SÍ 4,00% fram til 18. ágúst er þeir hækkuðu í 4,25% og síðan eru þeir hækkaðir í 4,50% núna 2. nóvember.

Hvað með vísitölu framleiðsluverðs, sem ég heyrði í morgun að Sigurjón Egilsson var að benda á.  Aftur kemur í ljós að sé litið til síðustu mánaða, þá hefur hún framið lækkandi.  Hún hækkaði vissulega verulega frá janúar til maí, en vísitalan fyrir september (sem er síðasta birta vísitala framleiðsluverðs) er 1,6 stigum lægri en vísitalan í maí.  Þannig að þrátt fyrir verulegar kauphækkanir, þá hefur vísitala framleiðsluverðs lækkað verulega síðustu mánuði, en ekki hækkað.  Ekki getur Seðlabankinn því verið að bregðast við þessari þróun, svo mikið er víst.

Kannski er vandamálið, að peningastefnunefnd skoði bara 12 mánaðatölur.  Þær eru vissulega allar mjög svakalegar, en hafa verður í huga að haustið 2010 var samdrátturinn í þjóðfélaginu mjög mikill og því eru mjög lágar tölur að detta út úr mælingum fyrir hóflegar tölur.  Stökkið kom aftur í allar tölur á vetrarmánuðum fyrri hluta ársins og þá hefði verið mjög eðlilegt að Seðlabankinn hækkaði vextina.  Mikilvægast er að 12 mánaðatölurnar eru söguleg gögn og eins og allir hagfræðingar vita, þá segir fortíðin lítið til um hvernig framtíðin muni verða.

Rökstuðningur í Peningamálum veikur

Við lestur Peningamála má sjá að rök fyrir hækkun vaxta sé m.a. neikvæðir raunvextir.  Hér snýr Seðlabankinn hlutunum á hvolf.  Vextir sem taka gildi 2. nóvember leggjast á lánfé og sparifé eftir þann tíma.  Bankinn spáir sjálfur lækkandi verðbólgu.  Skilaboð hans eru aftur að hann búist við hærri verðbólgu.  Hækkun vaxta núna er ekki hægt að réttlæta með neikvæðum raunvöxtum á síðustu mánuðum.  Við því átti að bregðast meðan horfurnar voru á því að neikvæðir raunvextir myndu vara áfram í nokkra mánuði, en ekki þegar bankinn spáir því sjálfur að verðbólgan sé að minnka.  Miðað við að verðbólga síðustu fjögurra mánaða var 4,1% á ársgrunni, þá fengust jákvæðir raunvextir eftir hækkun vaxta í 4,25% í ágúst.  Bankinn leysir ekki vanda sem skapaðist á fyrri hluta ársins með aðgerðum á síðari hluta ársins, þegar mikill viðsnúningur hefur orðið.  Þetta er eins og að heyja í ágúst til að bregðast við heyleysi fjórum mánuðum fyrr.  Gjörsamlega tilgangslaus aðgerð.

Önnur rök í Peningamálum er gengisþróun.  Ég átta mig ekki á því hvort Seðlabankinn telji það jákvætt eða neikvætt að gengið hafi styrkst.  Í sumum setningum er talað um það á jákvæðum nótum, en síðan er oft hnýtt neikvæðum ábendingum við.  Sé það ætlun peningastefnunefndar að stuðla að styrkingu gengisins, þá hefur það tekist, a.m.k. hefur það styrkst talsvert frá því í ágúst.  Erlendir sérfræðingar gera þó grín af því, að með vaxtaákvörðunum sínum sé bankinn að opna fyrir vaxtaskiptaviðskipta og telja það af hinu illa.  Gengið verður að styrkjast vegna aðstæðna á gjaldeyrismarkaði, en ekki vegna aðgerða Seðlabankans.  Svo hryssingslegt sem það er, þá er ekki innistæða í hagkerfinu fyrir styrkingu gengisins.  Gjaldeyrisjöfnuðu þjóðarinnar er ýmist lítillega jákvæður eða neikvæður.  Til þess að gengið eigi fyrir styrkingu, þá verður þessi jöfnuður að vera verulega jákvæður og haldast þannig.  Meðan það gerist ekki, þá mun gengið ekki styrkjast nema með barbabrellum og ég hélt að við værum búin að fá nóg af þeim.

Þriðju rök Peningamála eru að verðbólga nái hámarki í byrjun næsta árs.  Það er alveg rétt, en ástæðan er ekki sú verðbólga sem er í pípunum heldur sú verðbólga sem löngu er runnin út í sjó.  Á þessu eru vissulega tvær undantekningar, en þær má líka rekja til sögunnar.  Byrjum á undantekningunum.  

Svo fremi sem einhver hækkun verðlags mælist á milli október og nóvember á þessu ári, þá mun ársverðbólga hækka á milli mánaða.  Ástæðan er einfaldlega sú að verðbólga milli október og nóvember 2010 var 0%.  Sama hversu hófleg hækkun vísitölu neysluverðs verður, þá er niðurstaðan alltaf hækkun ársverðbólgu.  Og til þess að ársverðbólga milli desember 2011 og janúar 2012 hækki ekki, þá þarf að eiga sér umtalsverð lækkun á vísitölu neysluverðs milli mánaða.  Ástæðan er að í ár lækkaði vísitalan um 0,9% milli mánaða.  Nú er spurningin hvort Seðlabankinn ætli að nota væntanlega hækkun verðbólgu vegna ofangreindra mánaða sem afsökun fyrir því að hækka stýrivexti eða mun hann líta þetta sem afleiðingu af því sem gerðist í fortíðinni og hann geti ekki við því get.

Þá er það ástæðan fyrir því að verðbólgan mun líklegast toppa í janúar.  Hún er einföld.  Á tímabilinu frá febrúar til maí 2012 munu detta út úr ársverðbólgumælingum mánuðir sem voru með verulega hækkun á vísitölu neysluverðs frá fyrra mánuði.  Þessar mælingar voru 1,2% í febrúar, 1,0% í mars, 0.8% í apríl og 0,9% í maí, samnborði við 0,1 til 0,6% hækkun á milli mánaða síðustu 5 mánuði.  Þannig að haldist sá stöðugleiki sem tók við í júní, þá mun stöðugleikinn einn sjá til þess að lækka verðbólguna og það þrátt fyrir verulega hækkun launa.

Nú geri ég ekkert annað en að lesa úr þeim gögnum sem birt eru í Peningamálum og síðan sem finna má á vef Hagstofunnar.  Niðurstaða mín er:  Hvernig datt ykkur það í hug að hækka vextina?  Það er nákvæmlega ekkert sem bendir til þörf á þeirri hækkun núna, en sú þörf var til staðar í febrúar, mars og apríl.


mbl.is „Hvernig datt ykkur þetta í hug?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver er staða heimilanna, hver er vandinn og hvað þarf að gera? - Endurbirt færsla frá 22/11/2010

Vegna umræðu um vanda heimilanna, hve vanmáttug úrræði bankanna hafa reynst og hve illa gengur að ljúka málum, þá langar mig að endurbirta færslu frá 22/11/2010, þar sem ég birti nokkur atriði úr séráliti mínu sem fulltrúa Hagsmunasamtaka heimilanna í svo kölluðum sérfræðingahópi.  Einnig læt ég sérálitið fylgja með í viðhengi.  Svo áhugavert sem það er, þá skapaðist engin umræða um efni færslunnar á síðasta ári, þrátt fyrir að í þessari færslu (og sérálitinu) sé gerð líklegasta eina tilraunin sem gerð hefur verið til að máta lausnir á skilgreinda hópa heimila eftir skulda- og greiðsluvanda.

Hver er staða heimilanna, hver er vandinn og hvað þarf að gera?

Eftirfarandi er hluti af efni því sem er í séráliti mínu frá því um daginn í framhaldi af vinnu "sérfræðingahóps" forsætisráðherra.  Fyrst er byrjað á inngangi sem ekki er í sérálitinu.

Inngangur

Á undanförnum vikum hafa komið fram alls konar upplýsingar um greiðslu- og skuldavanda almennings.  Ekki er alltaf ljóst hvenær vandinn er greiðsluvandi og hvenær hann er skuldavandi.  Það er heldur ekki ljóst hvor vandinn er alvarlegri.

Skoðum nokkrar staðreyndir sem komið hafa fram í opinberri umræðu á síðustu vikum:

  • Eignir landsmanna voru, skv. Tíund ríkisskattstjóra, metnar á 3.804 milljarða í árslok 2009 og skuldir 1.892 milljarðar, þ.e. hrein eign, mismunur á þessum tveimur tölum, upp á 1.912 milljarða, þar af á efnaðasti hópurinn, en til hans teljast 3.632 fjölskyldur (geta verið einstaklingar eða hjón), um 630 milljarða í hreinni eign.
  • Fasteignir einstaklinga og hjóna voru metnar á 2.500 milljarða um síðustu áramót, þannig að aðrar eignir námu 1.300 milljörðum.  Samkvæmt Tíund voru aðrar eignir en fasteignir, innstæður og verðbréf um 410 milljarðar, verðbréfaeign var upp á 270 milljarða og innstæður 635 milljarðar (alls 1.315 milljarðar).  Hrein eign í fasteignum, þ.e. fasteignamatsverð mínus lán vegna fasteignakaupa, nam 1.300 milljörðum.
  • Heildarhúsnæðisskuldir almennings vegna kaupa á lögheimili eru rúmlega 1.300 milljarðar.  Af þeim eru verðtryggðar skuldir ríflega 1.100 milljarðar, gengistryggðar um 120 milljarðar og óverðtryggðartæplega 100 milljarðar.  Skuldir með veði nema um 1.200 milljörðum og er sú tala notuð til viðmiðunar.  Áætluð greiðslubyrði af þessum 1.200 milljörðum eru 132 milljarðar miðað við að árlega séu greiddar 60.000 kr. af hverri milljón.
  • Samkvæmt tölum fjármálaráðuneytisins og birtar voru á fundi í Þjóðmenningarhúsinu í október, þá eru fasteignaskuldir almennings sem eru með neikvæða eiginfjárstöðu í húsnæði 125 milljarðar umfram fasteignamat.  Heildarfasteignaskuldir þessa hóps nema um 520 milljörðum, þannig að um 20% skuldanna eru án veðtryggingar.  Greiðslubyrði af 125 milljörðum er 7,5 milljarðar á ári og 31,2 milljarðar af 520 milljörðum.
  • Aðrar skuldir heimilanna nema á bilinu 7-800 milljörðum.
  • Fasteignamat íbúðarhúsnæðis mun lækka um 10% þegar nýtt fasteignamat tekur gildi 1. desember nk.  Það þýðir að um 50 milljarðar færast upp fyrir veðrýmismörkin af því sem áður var innan veðrýmis.
  • Gengisdómar Hæstaréttar munu lækka höfuðstólsstöðu gengistryggðra lána um líklegast 20 - 30%, þó dæmi séu bæði um meiri lækkun og minni.  Vandamálið er að ákvarða hvaða lán falla undir fordæmi Hæstaréttardómanna.  Þó svo að öll lánin geri það, þá verður lækkun gengisbundinna skulda ekki nema 24 - 36 milljarðar vegna áhrifa verðtryggingar og/eða vaxta.
  • Skattskyldar tekjur samkvæmt skattframtölum voru árið 2009 955,6 milljarðar kr.  Þessar tekjur dreifast almennt mjög jafnt á þjóðina fyrir utan að tekjuhæstu 5%-in hafa um 18,1% teknanna eða 177 milljarða.
  • Sé litið til fjármagnstekna, þá kemur í ljós efnaðasti hópurinn er með mun hærri hluta af fjármagnstekjum, en stærð hans segir til um.  Þannig voru uppgefnar (og áætlaðar) fjármagnstekjur tæplega 140 milljarðar árið 2009, en þar af komu um 67 milljarðar í hlut efnaðasta hópsins eða um 48%.  Hann fékk 37% af vaxtatekjum af innstæðum, 72 af vaxtatekjum af verðbréfum, rúm 60% alls arðs og 81% af söluhagnaði af hlutabréfum.
  • Vanskil heimilanna hjá bankakerfinu eru um 15% samkvæmt upplýsingum sem komu fram á fundi í Þjóðmenningarhúsinu.  Þessi tala er eitthvað á reiki og misjfön eftir bönkum.
  • Samkvæmt skýrslu AGS er innheimtuvirði útlána í bankakerfinu 3.700 milljarðar, af því eru um 2.400 milljarðar lán sem ekki er verið að greiða af.  Bókfært virði er um 1.700 milljarðar, þar af er ekki verið að greiða af 765 milljörðum.
  • Neysla er mæld af Hagstofunni árlega.  Nýjustu tölur eru fyrir tímabilið 2006 - 2008, en það tímabil lýsir að einhverju leiti mikilli neyslu, en á móti hefur verðbólga verið um 10% frá árslokum 2008.  Fyrst má nefna að meðalneysla í könnun Hagstofunnar var 2,7 milljónir á hverja neyslueiningu.  Þannig er fyrsti fullorðni á heimili 1,0 eining, aðrir fullorðnir 0,7 einingar hver og börn 0,5 einingar.  Hjón með tvö börn eru þá 2,7 neyslueiningar.  Sé neyslan skoðuð eftir ráðstöfunartekjuhópum, þá kemur í ljós að meðaltal næst hæsta tekjuhópsins (3. af 4) er undir meðaltali allra.  Þetta bendir til þess að þeir sem eru með mestar ráðstöfunartekjurnar halda uppi neyslu í þjóðfélaginu.

Greining á stöðu heimila

Skipta má heimilum upp í nokkra hópa:

Hópur 1:  Fólk í greiðsluvanda, þ.e. skuldir eða upphæð húsaleigu er hærri en greiðslugeta þeirra segir til um.  Telur 17.700 fjölskyldur sem eru í eigin húsnæði og örugglega 4-5.000 fjölskyldur sem eru í leiguhúsnæði.
Hópur 2:  Fólk með skuldir umfram eignir, þarf þó ekki að vera vandamál.  Miðað við núverandi fasteignamat og stöðu lána um síðustu áramót eru ríflega 20.000 fjölskyldur í þessum hópi.
Hópur 3:  Fólk á leið í greiðsluvanda, þ.e. fólk sem hefur t.d. nýtt sér úttekt á séreignarsparnaði, náð að selja seljanlegar eignir og lausamuni eða á annan hátt getað losað pening eða fengið til þess að greiða skuldir.  Gæti líka verið fólk sem sér fram á atvinnumissi eða tekjulækkun og síðan þeir sem sjá fram á að skuldir hækki örar en greiðslugetan, o.s.frv.  Líklegast í kringum 20.000 fjölskyldur sem er í eigin húsnæði og 5 - 8.000 sem eru í leiguhúsnæði.  (Hagstofan telur hátt í 50.000 fjölskyldur í hópum 1 og 3)
Hópur 4:  Fólk sem heldur sjó, en hefur dregið úr neyslu til þess að standa í skilum.  Ég met þetta vera í kringum 20.000 fjölskyldur.
Hópur 5:  Fólk sem er vel sett og húsnæðisskuldir eru meira upp á punt en af nauðsyn.  Hátt í 4.000 fjölskyldur.
Hópur 6:  Fólk sem er með það háar ráðstöfunartekjur að það fer létt með að greiða af húsnæðislánum. Um 18.000 fjölskyldur.
Hópur 7:  Fólk með engar húsnæðisskuldir og býr í eigin húsnæði.  Gæti vissulega verið í hópi 1 eða 3, en það hefur ekki verið kannað. Um 30.000 fjölskyldur.
Hópur 8:  Fólk með tvær eignir og hefur greiðslugetu til að standa undir annarri eigninni.  Talið vera um 1.100 fjölskyldur.

Hafa skal í huga að fólk í með skuldir umfram eignir þarf ekki að vera í vanda, en það hefur orðið fyrir miklum hækkunum á skuldum sínum, sem ekki er óeðlilegt að tekið sé tillit til.  Fólk í hópi 2 er líka í öðrum hópum, þ.e. það getur verið í greiðsluvanda (hópur 1), að baksa við að halda sig frá því að fara í hóp 1 (hópur 3), er að berjast við að halda sjó (hópur 4), er með húsnæðisskuldir upp á punt (hópur 5) eða ræður vel við skuldir sínar, þar sem það hefur góðar tekjur (hópur 6). Í umfjöllun hér er horft til þess fólks, sem er í erfiðleikum vegna stöðu sinnar í hópi 2.  Fólk í hópi 5 er yfirleitt líka í hópi 6, þó á því séu vissulega undantekningar, sbr. lífeyrisþega. eru oft sama fólkið eða a.m.k. er mikil skörun á milli hópanna.  Loks er fólk í hópi 8 oftast líka í einum eða fleiri af hópum 1 - 6.

Markmið aðgerða

Það sem þarf að gera, er (og í þessari röð):

  1. Að fækka eins og kostur er í hópum 1 með ýmsum úrræðum. Með þessu er fækkað í hópi 2 í leiðinni.
  2. Koma í veg fyrir að fólk leki úr hópi 3 niður í hóp 1.
  3. Hjálpa þeim sem verða áfram í hópum 1 sem hraðast í gegn um það ferli sem virðist vera óumflýjanlegt, þ.e. nauðungarsölu, greiðsluaðlögun eða gjaldþrot, en best væri að gera það án þess viðkomandi séu gerðir að sakamönnum eða annars flokks þjóðfélagsþegnum.
  4. Færa sem flesta úr hópi 3 yfir í nýja útgáfu af hópi 4, þar sem fólk getur tekið upp eðlilega lífshætti.
  5. Hjálpa þeim sem eftir verða í hópi 3 með sömu úrræðum og þeir sem eru hópi 1 njóta.

Úrræði fyrir þá sem eru með tvæ eignir eru þegar fyrir hendi.  Bankarnir buðu upp á 110% leið, en hjá a.m.k. sumum er fresturinn útrunninn til að nýta sér hana.

Leiðir

Þær leiðir sem gætu komið til greina og sumar eru í boði:

Leið 1:  Leið Hagsmunasamtaka heimilanna, þ.e. flöt leiðrétting á verðtryggð lán með 4% þaki á árlegar verðbætur frá 1.1.2008, gengisbundnum lánum breytt í verðtryggð lán miðað við stöðu 1.1.2008 og þau fá sama þak á árlegar verðbætur og óverðtryggð húsnæðislán fá þak á vexti frá sama tíma.  Mætti framkvæma hana með þaki á upphæð, eign eða ráðstöfunartekjur allt að teknu tilliti til fjölskyldustærðar. 
Leið 2:  Aðlögun skulda að eignarstöðu, sem er útfærsla af sértækri skuldaaðlögun, oft vísað til sem 80-110% leiðar, þar sem skuldir eru strax færðar niður í 110% af eign og ef ekki er greiðslugeta fyrir því, þá má fara með hana niður í 80% og munurinn á 80 og 110 er sett á 3 ára biðlán.  Einnig má útfæra þetta sem niðurfærslu í eitthvað annað hlutfall, svo sem 100%, 70% eða 60%.
Leið 3:  Greiðslumat, þ.e. að setja fólk einfaldlega í greiðslumat og laga skuldir að greiðslugetu með fyrirvara varðandi breytingar á greiðslugetu á næstu 3 - 6 árum.
Leið 4:  Hækkun vaxtabóta og húsaleigubóta til að gera fólki kleift að greiða hærri upphæð, en almennar tekjur ráða við.
Leið 5:  Hjálpa fólki að skipta um húsnæði og fara í ódýrara.  Hægt er að útfæra þetta á ýmsa vegu, en tryggja yrði að fólk væri ekki að tapa eigin fé í leiðinni.
Leið 6:  Kaupleiga, lánardrottnar taka yfir eign og leigi til baka. 
Leið 7:  Lyklafrumvarpsleið, þ.e. að lánardrottnar taka yfir eign og skuldari er laus allra mála.

Leiðir mátaðar

Máta verður leiðirnar við hvern um sig af hópum 1 til 4.  Langar mig að gera hér tillögu og skal tekið fram, að þetta eru mínar vangaveltur en ekki stjórnar Hagsmunasamtaka heimilanna, þó svo að við hefðum rætt málin um daginn.

Hópur 1  (greiðsluvandi):  Mér finnst rétt að nota fyrst leið 1 (flöt leiðrétting) og síðan leið 3 (greiðslumat) á þá sem leið 1 dugar ekki fyrir.  Leið 4 (vaxtabætur og húsaleigubætur) gætu fækkað í hópi 1, en finna þarf þá blöndu af leiðum sem kosta minnst en bjarga flestum.  Þannig gæti leið 5 (skipta í minna) hjálpað fólki að komast í minna húsnæði og um leið slá verulega á skuldir.  Leið 7 (lyklafrumvarpsleið) þýddi vissulega að fólk stæði eignarlaust eftir, en höfum í huga að sumir eru einfaldlega búnir að skuldsetja sig svo mikið að þeir munu ekki ráð við greiðslubyrðina sama hvað er gert. Hluti af hópi 1 endar í greiðsluaðlögun, nauðungarsölu og gjaldþroti, en fækka verður þeim hópi eins og kostur er eða viðurkenna að það sé annar kosturinn, en hinn sé að fara í ígildi þeirra aðgerða eftir samningaleið. Hluti af hópi 1 er líka hreinlega í þeim vanda að veruleg hækkun tekna er það eina sem dugar.

Hópur 2 (yfirskuldsettir): Þetta er hálfgerður vandræðahópur.  Innan hans getur verið fólk úr öllum hinum hópunum, þ.e. sumir sem fá úrlausn með hópum 1, 2 og 4 og aðrir sem þurfa ekki úrlausn, þar sem staða þeirra er ekkert vandamál.  Hafa skal í huga að yfirskuldsetning getur verið skammtíma vandamál, sem leysist hratt þegar fasteignamarkaðurinn kemst í gang, en fyrir stóran hluta þess hóps sem keypti á árunum 2005 - 2008, þá verður ekki undið ofan af skuldsetningunni nema með því að færa skuldir niður.  Leiðir 1 (flöt leiðrétting) og 2 (aðlögun skulda) eru því fyrsta skrefið og líklega skiptir ekki máli hvor er farin.  Ef það dugar ekki, þá eru viðkomandi líklegast jafnframt í hópi 1 og þurfa því þau úrræði sem þar hafa verið nefnd.

Hópur 3 (á leið í greiðsluvanda): Í fljótu bragði þá mun einhver útfærsla af leið 1 (flöt leiðrétting) henta þessum hópi best.  Hluti af þessum hópum geta einnig verið í hópi 2 (yfirskuldsettur) og þar þarf þá að bæta við einhverri útfærslu af leið 2 (aðlögun að eignarstöðu). 

Hópur 4 (halda sjó):  Margt er líkt með honum og hópi 3, en líklegast þarf ekki að ganga eins langt í útfærslunni.  Þak á eignir og ráðstöfunartekjur að teknu tilliti til fjölskyldustærðar þyrfti ekki að koma á óvart sem slík útfærsla.  Hugsanlega væri hægt að setja mál hluta hópsins á bið og sjá hvernig fasteignamarkaðurinn þróast á næstu árum.  Stór hluti hópsins er með lága skuldsetningu og tillögulega viðráðanlega greiðslubyrði.  Fyrir þennan hóp er leiðréttingin sanngirnismál og ekki má hunsa það viðhorf.

Hópur 8 (tvær eignir):  Þessi hópur hefur þegar fengið úrræði, en það má einfalda verulega.  Í mínum huga er um einfalda skuldajöfnun að ræða, sem á að renna hratt og vel í gegn án mikillar skriffinnsku eða pappírssöfnunar.

Aðrir hópar eru ekki í vanda með húsnæðislánin sín að sinni og þurfa því ekki úrræði, nema viðkomandi tilheyri einnig öðrum hópi eða hópum.

Lán á yfirskuldsettum eignum

Nú er fasteignaverð vonandi að nálgast botninn.  Yfirskuldsett húnsæði í dag getur verið með verulegt veðrými innan 5 ára, þó höfuðstóll lána hafi ekki verið færður niður.

Bankarnir hafa þegar gert ráð fyrir að talsverður kostnaður falli til vegna greiðsluvanda heimilanna og ÍLS gerir ráð fyrir að sokkinn kostnaður sé um 25 milljarðar.  Lán umfram veð eru í dag allt að 125 milljarðar, þar af liggja 17 milljarðar í lánum ÍLS.  Ef eingöngu þessi hópur er skoðaður þá er nauðsynlegt að geta í hvernig þessi tala getur breyst.

Atriði til hækkunar eru:

  • Lækkun fasteignamats um 8,6%:  Þýðir að ákveðinn hluti lána að upphæð 114 milljarðar sem er í dag með milli 91 -100% veðsetningu fer upp fyrir 100% mörkin.  Varlega áætlað eru þetta 4,9 milljarðar.  Einnig mun hækka sá hluti um 520 milljarða lána sem er fyrir ofan veðrými úr 125 milljörðum í 159 milljarða (án tillits til annarra atriða).
  • Hækkun vegna verðbóta um 3% á þessu ári:  Ofan á um 1.200 milljarða gerir þetta 36 milljarðar.  Hluti af þessu er á 520 milljarðana sem þegar eru á yfirveðsetningu  og annað á þeim 114 milljörðum til viðbótar sem eru á 91-100% veðsetningu í dag.
  • Áhrif greiðslujöfnunar á eftirstöðvar höfuðstóls: líklega vel undir 10 milljörðum miðað við stöðu lána um síðustu áramót.
  • Vanskilakostnaður sem leggst á höfuðstól:  Getur verið umtalsverð fjárhæð, sbr. dóm í Héraðsdómi Suðurlands sl. föstudag, þar sem um 50% lagðist ofan á höfuðstól sem þegar hafði meira en tvöfaldast.

Atriði til lækkunar eru:

  • Dómar Hæstaréttar, þó endanleg niðurstaða sé ekki fengin, þá eru línurnar að hluta skýrar.  Ekki er ljóst hve mikil áhrif dómarnir hafa á höfuðstól gengistryggðra lána, hvað þá lán umfram veðrými, þ.e. hversu stór hluti gengistryggðra lána er á eignum með neikvætt eigið fé.   Gefum okkur að 50% gengisbundinna lána falli undir fordæmisgildi dómanna og áhrifin verði 30% lækkun höfuðstóls, þá er upphæðin 15 - 20 milljarðar.
  • Úrræði sem fólk hefur nýtt sér:  46.400 eru með verðtryggð lán í greiðslujöfnun, 2.500 með gengisbundin lán í greiðslujöfnun, 1.500 hafa nýtt sér lækkun höfuðstóls gengisbundinna lána, 1.300 hafa nýtt sér lækkun höfuðstóls verðtryggðra lána, 1.500 hafa nýtt sér aðlögun höfuðstóls að 110% af veðrými og 950 eru með lán í frystingu.
  • Fleiri dómar Hæstaréttar:   Í þeim verður tekist á um forsendubrest og hvort fasteignalán eiga að vera verðtryggð eða óverðtryggð og bera þá viðeigandi vexti Seðlabankans.
  • Hugsanleg lög frá Alþingi:  Samkvæmt frumvarpi, þá munu lántakar fá að velja milli þriggja lánaforma.
  • Niðurstöður í hugsanlegum álitum ESA og EFTA-dómstóls:  Telji ESA og/eða EFTA-dómstóllinn að neytendaverndarsjónarmið hafi verið að engu höfð, þá gæti álit þeirra lækkað kröfuupphæð lánanna verulega.

Bara út frá ofangreindum atriðum er hreinlega óskynsamlegt að nota skuldsetningu sem vogarskál til að meta hversu brýnt er að bregðast við fjárhagsvanda heimila.  Einnig má benda á, að samkvæmt tölum úr skattskýrslum, þá er verulegur hópur fólks með bæði eignarstöðu í öðrum eignum og ráðstöfunartekjur til að ráða við slíka yfirskuldsetningu.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 4
  • Sl. sólarhring: 125
  • Sl. viku: 687
  • Frá upphafi: 1677709

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 52
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband