Leita í fréttum mbl.is

Hvað lærdóm getum við dregið af hruninu?

Ég hef oft velt því fyrir mér hver ætti að vera lærdómur okkar Íslendinga af hruninu.  Er svo sem ekki kominn að neinni endanlegri niðurstöðu, en sífellt bætast fleiri kubbar í myndina.  Í þessari færslu ætla ég að fjalla um einn vinkil sem er hve auðvelt var/er að koma peningum undan og láta aðra sitja uppi með tjónið.

Sumir segja að helsti lærdómur af hruninu sé að best sé að haga sér óskynsamlega, skuldsetja sig upp í rjáfur og ekki sýna neina ráðdeild.  Að besta sé að "grípa hvert tækifæri til að skuldsetja sig og huga að afleiðingunum eftir á", eins og Þórður Snær Júlíusson, viðskiptablaðamaður á Fréttablaðinu komst að orði í grein í blaðinu um daginn.

Mig langar að taka hinn pólinn í hæðina, þ.e. reyna að skilja hvernig væri hægt að sporna við þeirri þróun sem varð hér fyrir hrun.

Skattahagræði í útlöndum

Margoft hefur verið bent á að hluti vanda okkar var endalaus færsla fjármagns úr landi.  Eina stundina var aðaleigandi Flugleiða félag á Íslandi, en þá næstu var það í raun félag í Hollandi án þess að félagið á Íslandi hafi fengið krónu greitt og hvað þá að króna hafi runnið í ríkiskassann.  Á sama hátt voru félög sem áttu stóra hluti í öllum helstu fyrirtækjum landsins að endingu skrásett í skattaparadísum um allan heim meðan íslenska eignarhaldsfélagið var skúffa með 500.000 kr. hlutafé. Lára Hanna Einarsdóttir lýsir þessu vel í færlsunni Bankaleynd og skattsvik.

Ef við viljum eitthvað læra af hruninu, þá er það að koma í veg fyrir að arður af íslenskri starfsemi fari óskattlagður úr landi.  Fari arðurinn skattlagður úr landi, þá skiptir það engu máli hvert hann fer og hvernig hann er notaður.  Lykilatriðið er að peningar sem verða til hér á landi renni í sanngjörnu hlutfalli til uppbyggingar samfélagsins.

Ég tel að breyta þurfi skattalöggjöf á þann hátt, að allur arður, sama hverjum hann er greiddur, sé skattlagður samkvæmt íslenskum skattalögum.  Þetta þýðir að breyta þarf tvísköttunarsamningum, þannig að skattur af fjármagnstekjum verði eftir í því landi sem fjármagnstekjurnar verða til.  Ef þetta fyrirkomulag kemst á um allan heim, þá hætta skattaskjól að gegna sínu hlutverki, þar sem fjármagnstekjur verða sjaldnast til í þeim, heldur eru fjármagnstekjur fluttar til fyrirtækja í þeim löndum til að forðast eðlilegar greiðslur til heimalandsins.

Nú æmtir einhver og segir:  "En hvað með rekstrarkostnað þess sem fékk arðinn eða tap af öðrum fjárfestingum?"

Við þessu er einföld lausn.  Hægt verður að fá hluta fjármagnsskattsins endurgreiddan að uppfylltum ströngum skilyrðum.  Án þess að ætla fara ýtarlega út í það hérna, þá væri það að sönnur væru færðar á tap, að viðkomandi félag gerði grein fyrir atriðum sem valda tapinu, að eignarhald félagsins væri vel skilgreint og þannig tengjanlegt við raunverulega einstaklinga, að félagið væri ekki skúffa.

Eiginfjárkrafa hjá eignarhaldsfélögum

Einn merkilegasti hluti uppljóstrana í tengslum við hrunið er hin víðtæka notkun eignarhaldsfélaga sem eru ekkert nema skúffur.  Þessi félög voru stofnuð með lágmarkshlutafé, en gátu samt stofnað til viðskipta upp á tugi milljarða.  Hvernig getur það gengið að eignarhaldsfélag með 500.000 kr. hlutafé getur keypt hlutafé í Kaupþingi að verðmæti 2 ma.kr.?  Eða eignast hluti í Glitni fyrir tvöfalda þá upphæð?  Hvernig geta svo þessi félög skuldsett sig upp í rjáfur upp á 4 - 8 þúsund falt eigið fé sitt, eins og ekkert sé?  Loks hvernig geta þessi félög greitt eigendum sínum arð sem er upp á margfalt upprunalegt framlag, þó svo að ekkert liggi fyrir um hvernig standa eigi við skuldbindingar félagsins?  Auðvitað ætti þetta ekki að vera hægt, en þetta er hægt samkvæmt íslenskum lögum.

Já, samkvæmt íslenskum lögum geta eignarhaldsfélög með nánast ekkert eigið fé (500 þús.kr. er ekkert til að tala um) skuldsett sig upp á þess vegna milljónfalt hlutafé sitt, bara ef lánveitandinn treystir félaginu.  Þetta á náttúrulega ekki að vera hægt.  Áhættureglur fjármálafyrirtækja eiga að banna þetta og þar sem reynslan sýnir okkur að bankarnir voru á kafi í svindlinu, þá þurfum við lög sem koma í veg fyrir þetta.

Ljóst er að eignarhaldsfélag með 500.000 kr. í hlutafé er ekki líklegt til að standa undir vöxtum af einu sinni 10.000.000 kr. láni án þess að það hafi reglulegar og öruggar tekjur.  Arður er t.d. ekki öruggar tekjur og því ekki reglulegar tekjur.  Arður ræðst af hagnaði sem einhver annar hefur af rekstri sínum.  Sala eigna er heldur ekki öruggar tekjur, þar sem eignaverð getur verið ákaflega kvikt.  Því er ljóst að eignarhaldsfélag með 500.000 kr. hlutafé og ekkert annað eigið fé hefur þann eina tilgang að fría eiganda sinn ábyrgð.  Þess vegna ættu lög að banna óhóflegar lánveitingar til slíkra félaga.  Setja ætti lög sem segja til um að lánveiting til lögaðila geti ekki verið umfram ákveðið margfeldi af eiginfé lögaðilans.  Hvort þessi tala er 10, 50 eða 100 skiptir ekki megin máli, en ekki umfram 100.  Aftur skulum við hafa í huga, að bankarnir fjórir (Straumur með) voru ekkert að hugsa um hvort lánin fyrir hlutabréfunum fengjust greidd aftur.  Lausnin var, jú, alltaf að stofna nýtt eignarhaldsfélag sem keypti af hinu fyrra á hærra verði.

Með svona reglu hefði veri komið í veg fyrir óhóflegar lántökur flestra eignarhaldsfélaga fyrir hrun.  Öll hin fjölmörgu sýndarviðskipti með hlutafé í bönkunum hefðu ekki orðið að veruleika, þar sem félög eins og Stím hefðu þurft að leggja fram milljóna tugi í hlutafé til að geta keypt þau bréf í Glitni sem það svo átti að hafa gert.

Samhliða þessu ætti að gera það refsivert að brjóta lögin.  Vandinn við allt of mikið af lögum um fjármálafyrirtæki, að ekki er hægt að kalla nokkurn mann til ábyrgðar, þar sem gjörningurinn fór fram í nafni lögaðila og maður stingur ekki Kaupþingi í steininn!

Viðskiptavild og aðrar óefnislegar eignir í reikningum

Setja á skýr ákvæði um hve hátt hlutfall viðskiptavild getur verið af eiginfé lögaðila.  Þak á viðskiptavild gæti t.d. verið 5 - 10%.  Allt umfram það er óraunhæft, þó ég sé viss um að einhver telji sig geta rökstutt hærri viðskiptavild, þá eru slíkar óefnislegar eignir ákaflega erfiðar í mati.

Fyrir hrun var ekki óalgengt að sjá óefnislegar eignir upp á marga tugi prósent af eiginfé.  Sterling, svo dæmi sé tekið, fór frá því að vera verðmetið á 4 ma.kr. í 20 ma.kr. á nokkrum mánuðum bara út á óefnislegar eignir.   Allt var líklegast gert til að geta fengið hærra lán og þannig búið til hagnað fyrir viðskiptafélaga.

Markaðsverðmæti hlutafélaga á grunnum verðbréfamarkaði er ekkert að marka.  Ein sala upp á örfáa hluti gat breytt markaðsvirði um tugi prósenta á augabragði.  Slíkt stenst ekki nokkur rök, enda kom í ljós að ekki var innistæða fyrir markaðsvirðingu eigna í reikningum eigenda hlutabréfa.  Markaðsvirðið var einfaldlega óefnisleg eign sem ekkert bjó að baki.  Hverfa þarf frá markaðsvirðisbókhaldi að því marki, að til þess að færa megi eign upp samkvæmt virði á markaði, þá þurfa ákveðin lágmarks viðskipti að hafa átt sér stað á því gengi.  Fyrirtæki með 10 milljón hluti, þar sem virði hluta hækkar um 10 kr. á mánuði í 24 mánuði, má ekki færa upp á nýtt gengi í bókhaldi nema minnst 20% hluta (eða eitthvert annað heppilegt hlutfall) hafi skipt um hendur á hinu nýja gengi eða þaðan af hærra.  (Einnig mætti ákveða að tiltekið hlutfall skráðra eigenda hefðu keypt og selt á nýju gengi til að forðast að hringekja fárra aðila myndi falskt gengi.)  Við sölu er að sjálfsögðu allur söluhagnaður færður sem slíkur í bókhaldinu.

Þak á útgreiðslu arðs

Sögurnar af óhóflegum arðgreiðslum á árunum fyrir hrun eru margar.  Merkilegast þykir mér þegar 500 þ.kr. hlutafélögin eru að greiða 500 - 1.000 milljarða út til eigenda sinna, þrátt fyrir að skuldir séu ennþá stjarnfræðilegar.  Þetta á ekki að vera hægt.

Hér áður fyrr var fyrirtækjum skylt að leggja í varasjóð.  Hvað varð um þá skyldu?  Hún var a.m.k. ekki í hávegum höfð hjá velflestum eignarhaldsfélögunum og fjárfestingafélögunum sem bankarnir töðuðu hvað mest á við hrunið.

Væri myndin önnur, ef ekki mætti greiða meiri arð út árlega en nemur 15% af eiginfé og annað yrði að leggja í varasjóð til að standa undir skuldbindingum?  Einnig mætti miða við hlutfall af inngreiddu hlutafé. 

En 15% af 500 þ.kr. er bara 75 þ.kr.  Já, einmitt.  Hugmyndin er að tryggja hag lánadrottna, en ekki lántaka, þannig að áður en greiddur er út of mikill arður, þá sé tryggt að til sé greiðslugeta í eignarhaldsfélaginu til að standa undir skuldbindingum, að ósýnilegur eigandi geti ekki greitt sér út óhóflega arð og síðan sett skuldugt félag á hausinn, ef illa árar, þó svo að hagnaður fyrri ára hefði dugað til að greiða tapið af mögru árunum.

En eigið fé hækkar með meira virði eigna.  Vissulega, en með reglunni frá því áðan um að markaðsvirði hækkar eingöngu eftir að nægilega margir hafa viðurkennt hærra gengi hlutabréfanna, þá er komið í veg fyrir að falskt eiginfé myndist hjá eignarhaldsfélaginu.  Og með reglunni þar á undan um lán til félags geti ekki farið yfir ákveðið margfeldi á eiginfé, þá var dregið að einhverju leiti úr skuldsetningunni.

Einnig legg ég til að hægt verði að endurkrefja þiggjanda arðs um hann allt að 10 ár aftur í tímann.  Þannig gæti þrotabú gert kröfu á þann sem setti eignarhaldsfélagið í þrot um að viðkomandi (hvort sem um er að ræða einstakling eða annað félag) endurgreiði, segjum 50% af arði fyrri ára allt að 10 ár aftur í tímann.  Hafi viðkomandi ekki efni á því, þá er það bara gjaldþrotamál.  Sé um félag að ræða, þá getur að þrotabúgert kröfu á þann sem fékk arð frá því, o.s.frv.  Þetta þýðir að ekki dugar að fela eignarhald í mörgum lögum af eignarhaldsfélögum.  Að lokum kemur að hinum raunverulega eiganda sem hefur líklegast stundað að skuldsetja 500 þ.kr. félag í topp til þess eins að búa til sýndarhagnað sem hægt var að greiða út í arð, færa eignirnar úr litla félaginu yfir í annað lítið félag, en skilja skuldirnar eftir og setja svo skulduga félagið í gjaldþrot.  Þetta er trikk sem allir auðmenn í heiminum hafa lært vegna þess að lögin eru svo vitlaus að leyfa þetta.

Menn umgangast markaðinn sem Monopoly-spil

Sá lærdómur sem við getum dregið hvað helstan af hruninu er að fjárfestar umgangast  markaðinn sem Monopoly-spil.  Ef vel gengur þá vinna þeir spilið, en ef illa gengur, þá var bara um sýndartap að ræða sem þeir bera enga ábyrgð á.  Þeir vita aðgefið verður upp á nýtt fljótlega og þá fá þeir að vera með í nýju eignarhaldsfélagi.  Með smá heppni gengur betur næst, nú annars endurtaka þeir bara leikinn.

Monopoly-spilið heldur áfram eins lengi og bankinn lánar.  Bankinn lánar eins lengi og hann getur, þar sem hann veit að hagnaður hans felst í því að utanaðkomandi aðilar láti blekkjast og kaupi hluti á óraunhæfu gengi fyrir raunverulega peninga.  Nóg er að blekkja nokkra aðila til þátttöku svo góður hagnaður fáist.  Fyrir hrun voru það nánast bara lífeyrissjóðirnir sem voru blekktir á þennan hátt og síðan gamalt fólk sem búið var að nurla saman peningum til elli áranna.

Ég veit um fjölmörg dæmi af fólki sem hélt sig vera orðið ríkt, þar sem það átti hlutabréf í bönkunum fyrir nokkra tugi eða nokkur hundruð milljónir.  Þegar það vildi selja, þá var reynt að telja því hughvarf, þar sem með því hefði það tekið raunverulega peninga út úr hringstreyminu.  Raunverulega peninga sem hefði þurft að skipta út með sýndarpeningum frá bankanum.  Með því hefði orði óæskilegt útstreymi peninga úr kerfinu.  Þess vegna var lögð mikil vinna í að halda raunverulegum peningum inni í kerfinu, en hlutabréf sem gengu kaupum og sölum með sýndarpeningum þau urðu að vera kvik.

Lærdómurinn sem við eigum að draga af hruninu

Það er þetta sem við þurfum að læra af hruninu, þ.e. að skilja hvenær viðskipti eru sýndarviðskipti og hvenær þau eru raunveruleg viðskipti.  Að einhver Jón hafi keypt sér dýrari bíl en hann hafði kannski efni á og tekið hærra lán en efni stóðu til skiptir ekki máli, þar sem lánið hans Jóns var bara upp á 7-8 m.kr. eða kannski bara 4-5 m.kr.  Höfum í huga að Jón greiddi lánið sitt til baka með raunverulegum peningum sem hann aflaði sér í sínu starfi.  Séra Jón aftur keypti Ranger Rover á 15 m.kr., fékk sýndarpeninga að láni og greiddi til baka með sýndarpeningum sem hann lét eignarhaldsfélagið sitt greiða sér af sýndararðinum sem kom til vegna sýndarhagnaðarins sem varð til vegna sýndarhækkunarinnar á hlutabréfunum sem hann átti í þykjustunni í Monopoly-spilinu sem hann var í með bankanum.  Þegar Jón gat síðan ekki greitt af láninu, þá kom bankinn og hirti bílinn af honum þó hann væri búinn að borga 90% af virði bílsins.  Bankinn tapaði því ekki á Jóni, en öðru gegndi með séra Jón.

Þegar séra Jón gat ekki greitt af bílnum, þá lengdi bankinn í sýndarláninu vegna þess að tæki hann bílinn til sín, þá yrði bankinn að selja bílinn til að tapa ekki á honum.  Og hver átti að kaupa?  Bankinn hafði búið til peninga fyrir séra Jón, þannig að séra Jón var að nota peninga bankans til að borga bankanum.  Séra Jón lagði ekkert inn í flæðið.  Nei, hann tók út.  Eins og áður sagði, varð bankinn að finna einhvern "aula" til að kaupa, svo hann tapaði ekki á vitleysunni.  Þannig losnaði séra Jón af hringekjunni og hoppaði frá borði með ókeypis bíl, ókeypis hús og ókeypis ofurhagnað. 

Málið er bara að hringekjan hætti að snúast áður en allir séra Jónarnir náður að hoppa af og hrunbankarnir sitja uppi með 1.800 ma.kr. tap af séra Jónunum sem þeir fengu með sér í blekkingarleikinn.  Meðal þeirra eru mörg þekkt nöfn sem ég ætla ekki að nefna, en flestir þeirra lifðu í vellystingum í nokkur ár og eiga digra varasjóði á Cayman eða í Lux sem þeir geta dregið á það sem eftir er ævinnar.  Að koma í veg fyrir að svona hringekjur séra Jóna fari aftur af stað er lærdómurinn sem við eiga að draga af hruninu.


Hvaða áhætta var verðlaunuð?

Þórður Snær Júlíusson, viðskiptablaðamaður á Fréttablaðinu, skrifar grein sem birtist í blaðinu í dag.  Þar fullyrðir hann að hinir áhættusæknu hafi verið verðlaunaðir, en hinir sem fóru varlega sitji uppi með skaðann.  Hann tekur máli sínu til stuðnings dæmi sem KPMG reiknaði fyrir Helga Hjörvar, formann efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.  Dæmi KPMG hljóðar upp á að tveir aðilar hafi tekið jafnhá lán (10 m.kr.) í júní 2002, annar gengistryggt og hinn verðtryggt.  Eftirstöðvar hins gengistryggð eru síðan sagðar vera 8 m.kr. en hins verðtryggða 15,3 m.kr.

Ansi margt er hægt að segja um dæmi KPMG, en hér ætla ég bara að nefna tvennt:

1.  Gengistryggð lán stóðu fólki almennt ekki til boða í júní 2002.  Aðeins sérvaldir einstaklingar fengu slík lán á þeim tíma.

2.  Sá sem fræðilega séð hafði fengið gengistryggða lánið greiddi jafnar greiðslur af höfuðstóli allan tímann, að jafnaði 250.000 kr. á ári (miðað við 40 ára lánstíma) fram til áramóta 2008, um 500.000 kr. árið 2008, 650.000 kr. 2009 og 2010 og loks 250.000 kr. árið 2011.  Hann er því búinn að greiða tæplega 3,5 m.kr. í afborganir á þessu tímabili.  Sá sem tók verðtryggt lán borgaði aftur um 1,2 m.kr. (miðað við reiknivél Landsbankans).  Núvirðum mismuninn á þessum tveimur greiðsluseríum og þá þá kemur í ljós að munurinn endar í á að giska 3,5 m.kr.  Dagvaxtareiknum töluna svo til viðbótar og hún hækkar um hátt í 1 m.kr. til viðbótar.  Samtals greiddi sá sem tók gengistryggða lánið því jafngildi 4,5 m.kr. (núvirt og dagvaxtareiknað) meira í afborganir, en sá sem tók verðtryggða lánið.  Mismunurinn fer því úr því að vera 7,3 m.kr. í 2,8 m.kr. 

Svo skulum við reikna út heildargreiðslubyrði lánsins allan lánstímann án allrar núvirðingar.  Heildargreiðsla af verðtryggða láninu miðað við 4% meðalverðbólgu allan lánstímann og 5% vexti er 56.225.870 kr. (samkvæmt reiknivél Landsbankans).  Hins vegar er heildargreiðslubyrði af 20 m.kr. óverðtryggðu láni með 5,9% breytilegum vöxtum 42.072.941 kr.  (Með því að hafa seinna lánið 20 m.kr. þá er ég að reikna með því að viðkomandi lántaki hafi breytt gengistryggðum höfuðstól yfir í íslenskt lán þegar lánið var nálægt því að vera í hæstu stöðu.)  Þannig að án leiðréttingar vegna dóma Hæstaréttar var augljóslega meiri áhætta fólgin í verðtryggða láninu.

Hverjir tapa og hverjir hagnast?

Mér hefur lengi fundist ákveðins misskilnings gæta varðandi "tap" og "hagnað" lántaka vegna hrunsins og þá sérstaklega dóma Hæstaréttar um gengistryggð lán.

Þórður segir í grein sinni:

Þeir sem fóru langverst út úr íslenska hruninu voru þeir sem skulduðu minnst eða ekkert og tóku litla áhættu. Þeir sem lögðu sparifé sitt í húsnæði eða bifreiðar í stað þess að skuldsetja sig upp í rjáfur. Það er hópurinn sem axlar afleiðingarnar í gegnum verðbólgu og hefur séð eignir sínar étast upp vegna hennar. 

Um þetta er margt að segja, því Þórður Snær ruglar saman alls konar hlutum og öðrum:

1. Þeir sem skulduðu minnst töpuðu minnstu í hruninu, þar sem skuldir þeirra hækkuðu af sama skapi lítið í krónum talið, þó hlutfallsleg hækkun hafi verið sú sama.  Það er rangt að þeir hafi farið langverst út úr hruninu.  Ástæðan kemur nánar fram í liðunum hér á eftir.

2. Allir sem áttu húsnæði hafa tapað á lækkun fasteignaverðs, ekki bara sumir. Tap vegna lækkunar fasteignaverðs skiptir ekki máli meðan viðkomandi þarf ekki að selja. Margir sem ekki keyptu á tímabilinu haust 2004 til 2008, eru vissulega stöðu gagnvart eiginfé (í krónum talið) en þeir gerðu um mitt sumar 2004, en það mun jafna sig með hækkandi fasteignaverði.  Á hinn bóginn eru margir í betri stöðu, þar sem hækkun lána náði ekki að éta upp hækkun fasteignaverðs frá kaupdegi til ársloka á síðasta ári.  Það er rangt að miða við fasteignamat í hæsta punkti, þar sem eignir sem voru lágt verðlagðar fram á mitt sumar 2004 hækkuðu margar mjög mikið á þessum árum og hafa ekki lækkað aftur í sama horf.  Ég get t.d. tekið dæmi af einbýlishúsi í Hafnarfirði sem seldist á 28 m.kr. vorið 2004, er núna með fasteignamat upp á tæpar 65 m.kr. og líklegt markaðsverð er ekki lægra.  Raðhús í Kópavogi var með markaðsverð upp á 32,4 m.kr. árið 2003, fór hæst í hátt í 70 m.kr. og stendur núna í 54,5 m.kr.  Fyrri eignin hefur hækkað um 150%, en hin um tæp 70%.  Hvorugur aðili er því að tapa á hruninu, nema að til hafi staðið að selja á árunum eftir 2007 og það ekki tekist.

Er hægt að segja að sá sem keypti eign fyrir 20 árum á 12 m.kr. og tók 8 m.kr. lán á þeim tíma, sé í tapi núna þó eftirstöðvarnar hafi hækkað á síðustu 4 árum úr 16 m.kr. í 22 m.kr., þegar eignin stendur núna í 42 m.kr., þó svo að hún hafi farið upp í 54 m.kr. þegar fasteignaverð var hæst?  Eigið fé er núna 20 m.kr., fór vissulega hæst í 38 m.kr. en er þó hærra en það var í árslok 2004.  Pappírshagnaður er jafn vitlaus samanburður og pappírstap.  Tap eða hagnaður myndast bara við sölu.

3. Þeir sem keyptu fyrir innkomu bankanna á húsnæðismarkaðinn 2004 eru að tapa minna á hækkun lána sinna, en hinir sem keyptu á uppsprengdu verði 2005 til 2007 hafa tapað á lækkun fasteignaverðs.  Ástæðan er augljós.  Fyrri hópurinn keypti á lægra verði og er því með lægri fasteignaskuldir.  (Ég tek ekki inn í þessa pælingu aðrar skuldir sem ekki eru tengdar öflun húsnæðsins eða vegna kostnaðar við það.) Þeir sem tóku lán á árunum 2005-7 til að breyta húsnæði gætu lent í síðari hópnum.

4. Þeir sem keyptu með mikilli skuldsetningu 2005-2007 og tóku verðtryggð lán geta í mjög mörgum tilfellum fengið leiðréttingu á sama hátt og þeir sem tóku gengistryggð lán. Báðir hóparnir hafa lent í því að fasteignaverð hefur lækkað niður fyrir fjárhæð þess láns sem tekið var.  Sá sem keypti með mikilli skuldsetningu átti lítið sem ekkert eigið fé.  Hvort sem lánið var gengistryggt eða verðtryggt hefur þetta eigið horfið og báðir eru því mögulega jafn illa settir, þ.e. eru tæknilega gjaldþrota.  Sá sem ekki á fyrir skuldum sínum er tæknilega gjaldþrota hvort sem viðkomandi skuldar 20% umfram eignir eða 200%.

5. Staðreyndin er að sá hópur sem er að koma verst út úr hruninu er sá sem keypti húsnæði með hæfilegri verðtryggðri skuldsetningu á árunum 2005-2007. Hann var aftur alls ekki varkár, þar sem hann fór inn á fasteignamarkað í mikilli uppsveiflu og var alveg jafn mikið að "gambla" og þeir sem tóku gengistryggð lán. Í ljós hefur nefnilega komið að jafn lítil innistæða var fyrir hækkun fasteignaverðsins og var fyrir styrk krónunnar.  Síðan er ljóst að verðbólgan er afleiðing af falli krónunnar og þar með hækkun verðbótaþáttar lánanna.  Staðreyndin er sú að veiking krónunnar hefur alltaf skilað sér inn í verðbætur lánanna að lokum meðan styrking hennar virðist ekki gera það á hinn veginn.

Greiðslubyrði skiptir máli, ekki skuldabyrði

Ég kem ekki tölu á þau skipti þar sem ég hef bent á að hækkun greiðslubyrði er meginvandamálið, ekki hækkun skuldabyrði.  Vissulega er hækkun skuldabyrði vandamál, en hún skiptir ekki máli nema að annað af tvennu fylgi: 

A. Greiðslubyrði er ekki til staðar til að standa undir skuldabyrðinni. 

B. Viðkomandi skuldari er í þeirri stöðu að þurfa að selja.

Í öðrum tilfellum er hækkun skuldabyrðin ekki stóra málið, heldur hækkun á greiðslubyrði.

Einstaklingur með litla skuldabyrði, jafnvel innan við 20%, gæti lent í vanda, þar sem greiðslubyrðin er meiri en viðkomandi ræður við.  Á sama hátt getur einstaklingur með skuldabyrði upp á 200% verið í góðum málum, þar sem hann ræður við þá greiðslubyrði sem er til staðar.  Ótrúlega margir aðilar eru með mikla yfirveðsetningu á eignum sínum, lán sem koma fasteignakaupum ekkert við og ráða alveg ágætlega við greiðslubyrðina.

Lækkun á stökkbreyttum lánum vegna hrunsins er réttlætismál, hvort heldur viðkomandi tók gengistryggt lán, verðtryggt eða óverðtryggt.  Réttlætismál vegna þess að í fæstum tilfellum bar lántakinn nokkra ábyrgð á þeim fjárglæfrum sem hér voru stundaðir, lögbrotum, svikum, prettum og blekkingum.   Réttlætismál vegna þess að lántakar voru leiddir í gildrur eins og lömb til slátrunar.

Nú bendir flest til þess að Hæstiréttur hafi fært þeim sem tóku gengistryggð lán það réttlæti sem Hagsmunasamtök heimilanna og Samtök lánþega auk fjölda einstaklinga hafa barist fyrir.  Ég tel að baráttunni fyrir réttlæti til handa lántökum með verðtryggð lán sé ekki lokið.  Hreyfingin hefur lagt fram tillögu á Alþingi um leiðréttingu á þeim lánum.  Í staðinn fyrir að búa til einhvern misskilin ríg á milli hópa lántaka, þá hvet ég þá sem telja að lántakar gengistryggðra lána hafi dotitð í lukkupottinn með dómum Hæstaréttar, að leggjast á sveifar með okkur sem enn berjumst fyrir leiðréttingu til handa hinum.  Ég kannast t.d. ekki við að margir blaðamenn Fréttablaðsins hafi hingað til fylkt þann hóp.  Nei, hingað til hafa þeir frekar skrifað á neikvæðan hátt um þá sem leitað hafa réttar síns fyrir dómstólum og kallað þá alls konar sérkennilegum nöfnum, eins og fjárhættuspilara, þegar staðreyndin er að flestir sem tóku gengistryggð lán gerðu það vegna þess að þeir báru traust til bankamanna og töldu sig búa við meira fjárhagslegt öryggi með því að taka lán á lágum vöxtum sem lækkuðu við hverja greiðslu af höfuðstólinum, en fólst í því að taka verðtryggð lán sem gerðu ekkert annað en að hækka fyrstu 2/3 lánstímans.


Skilaboðin eru skýr: Ekki greiða í lífeyrissjóð nema þú ætlir að búa heima hjá þér á efri árunum

Eftir að hafa lesið skýringu Tryggingastofnunar ríkisins á kostnaðarþátttöku lífeyrisþega vegna dvalar á sjúkrastofnunum eða dvalar- og hjúkrunarheimilum, þá eru skilaboðin alveg skýr:

Ef þú sérð fram á að þurfa að nýta þér þjónustu sjúkrastofnunar, dvalar- eða hjúkrunarheimilis á efri árum, borgar sig ekki að greiða í lífeyrissjóð, eyddu peningunum strax eða gefðu hann afkomendum þínum

Lífeyriskerfið miðar við að sjóðfélagi skuli fá greiddan lífeyri sem nemur 56% af mánaðarlaunum.  Í fréttatilkynningu frá TR kemur fram að hver íbúi á dvalar- eða hjúkrunarheimili greiði með tekjum sínum allt að 311.741 kr. á mánuði til viðkomandi heimilis umfram fyrstu 65.005 kr. eftir skatta.  Það sem upp á vantar 689.417 kr. kemur frá ríkinu.  Þessar 311.741 kr. er örugglega eftir skatta, þannig að til að fá eitthvað umfram 65.005 kr. á mánuði í sinn hlut, þá þarf viðkomandi að vera með 376.746 kr. á mánuði í lífeyri eftir skatta eða 541.420 kr. áður en skattar eru teknir af miðað við núverandi skattkerfi.  Nú til að fá 541.420 kr. í lífeyrisgreiðslur, þá þarf viðkomandi að hafa yfir 966.000 kr. á mánuði í laun meðan viðkomandi er á vinnumarkaði, þ.e. 541.420/0,56 = 966.821.

Sá sem er með launatekjur milli 116.000 - 966.000 kr. og dvelur á sjúkrastofnun, dvalar- eða hjúkrunarheimili sér ekki eina krónu af þeim iðgjöldum sem viðkomandi greiðir í lífeyrissjóð af þessum allt að 850.000 kr.  Bara til að skilja um hvaða upphæð er að ræða, þá er 12% af 844.000 = 102.000 kr. á mánuði eða  1.224.000 kr. á ári og 42.840.000 kr. á starfsævinni miðað við 35 ára starfsævi.  Sé starfsævin 40 ár fer upphæðin upp í tæplega 49 m.kr. og 55 m.kr. fari starfsævin upp í 45 ár.  Skilaboðin eru skýr:  Eingöngu þeir allra tekjulægstu eiga að leggja fyrir í lífeyrissjóð.  Allir aðrir koma verr út úr því en að eiga peninga undir kodda.  (Allar tölur eru núvirtar.  56% talan er fengin úr lögum og út frá henni er 3,5% árleg raunávöxtunarkrafan reiknuð.)


mbl.is TR borgar alltaf meirihluta kostnaðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af "húmorsleysi" hinna - Aðgát skal höfð í nærveru sálar

Upp á síðkastið hafa komið upp atvik og fram ummæli sem ég verð nú bara að segja, að valda óhug hjá mér. Þegar háttsemin eða ummæli eru borin upp á viðkomandi, þá er svarið "Djók, ég var bara að fíflast" eða eitthvað í þessa áttina. Ef það er ekki húmor,...

Erindi um gengisdóma

Laugardaginn 25. febrúar hélt ég erindi í Grasrótarmiðstöðinni um gengisdóma Hæstaréttar. Erindið var tekið upp og hefur Rakel Sigurgeirsdóttir klippt það til og birt á vefnum. Langar mig að birta upptökuna hér og fjalla lítillega um hvern hluta. I....

Hagnaður bankanna hefði líklegast orðið 450 ma.kr. árið 2011 ef ekki væri fyrir Hæstarétt!

Á síðustu 15 mánuðum eða svo hafa bankarnir barið sér á brjósti fyrir að vera að "afskrifa" háar upphæðir af lánum einstaklinga og fyrirtækja. Samkvæmt tölum á síðu Samtaka fjármálafyrirtækja þá stóð "afskriftartalan" fyrir einstaklinga/heimili í 196...

Hvernig eru verðmæti metin? Náttúran er landsins verðmætasta eign

Hún er merkileg þessi umræða, þar sem verið er að stilla náttúruvernd upp sem óvini verðmætasköpunar. Hvers vegna það er gert veit ég ekki, þar sem fátt bendir til þess að þetta sé rétt. Náttúran er verðmæti og því er náttúruvernd ekkert frábrugðin því...

Þingsályktun Hreyfingarinnar: Hugmynd sem taka verður alvarlega

Ég hvet þingheim til að taka þessa tillögu Hreyfingarinnar alvarlega. Í henni felst virkilega metnaðarfull tilraun til að höggva á hnút sem haldið hefur stórum hluta húsnæðiseigenda föstum. Vissulega er ég ekki hlutlaus, þar sem tillaga Hreyfingarinnar...

Þetta átti ekki að koma á óvart, en er skynsamlegt að draga að greiða?

Merkilegt að það komi stjórnvöldum og Seðlabanka Íslands á óvart að færa þurfi íslenskar eignir hrunbankanna yfir í erlendan gjaldmiðil. Þetta hljómar pínulítið svoleiðis. Héldu menn virkilega að þessir peningar myndu bara liggja inni á reikningum?...

Ekki hægt að bjarga bönkunum eftir 2005! Var reynt nógu mikið? Og erum við búin undir annað áfall?

Nú er fyrstu viku Landsdómsins lokið og heilmargt hefur verið sagt. Menn segja sína sögu sem nánast alltaf er eitthvað stílfærð. Af þeim framburðum sem ég hef komist í að kynna mér, þá held ég að aðeins ein manneskja hafi komið fyrir dóminn og sagt satt...

Samkeppniseftirlit heimilar samstarf með ströngum skilyrðum

Óhætt er að segja að ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 4/2012 telst tímamót. Ekki sá hluti sem snýr að því að fjármálafyrirtæki megi hafa samstarf, það er nú gegn um gangandi rugl í íslensku samkeppnisumhverfi sem verður að fara að stoppa. Nei, það eru...

Landsbankinn: Dómur hefur lítið fordæmisgildi!

Skuldara barst bréf frá Landsbankanum: Sæll Því miður þá get ég aðeins gefið þér takmarkaðar upplýsingar um stöðu þessara mála þar sem ekki liggur fyrir hvernig þessum málum verður háttað. Samkvæmt upplýsingum lögmanna bankans þá hefur dómur Hæstaréttar...

Dómur Hæstaréttar er mjög skýr: Vextir verða eingöngu leiðréttir til framtíðar

Dómur Hæstaréttar í máli nr. 600/2011 um vaxtaútreikning áður gengistryggðra lána er mjög skýr: ..þykir það standa varnaraðila nær en sóknaraðila að bera þann vaxtamun sem af hinni ólögmætu gengistryggingu hlaust og um er deilt í málinu. Er því fallist á...

Lögfræðiálit LEX er ekki um niðurstöðu Hæstaréttar!

Er þetta ekki dæmigerð nálgun stjórnvalda á ágreiningi sem kominn er upp. Fá skal tvo óháða lögfræðinga (hvar sem þeir finnast) til að rýna álit lögmannsstofunnar Lex um lögfræðileg álitaefni vegna dóms Hæstaréttar 15. febrúar sl. Eins og fram kemur í...

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 7
  • Sl. sólarhring: 14
  • Sl. viku: 47
  • Frá upphafi: 1678219

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 46
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2012
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband