Leita í fréttum mbl.is

Sannleikurinn er sagna bestur!

Ég verð að leyfa mér að efast um sannleiksgildi svars Arion banka.  Enginn banki hefur veitt meiri upplýsingar um stöðu lánasafna sinna og jafnframt hve mikið hefur verið fært á afskriftarreikning og Kaupþing.  Þessar upplýsingar er að finna í skýrslu til kröfuhafa (Creditors Report), sem Ólafur Garðarsson, skiptastjóri Kaupþings, hefur gefið reglulega út frá febrúar í fyrra.  Þar er því að finna marg fróðlegt.

Í fyrstu skýrslu til kröfuhafa kom fram að lánasöfn að verðmæti 1.410 milljarðar króna hafi verið færð yfir til Nýja Kaupþings.  Síðan kemur fram að 954 milljarðar hafi verið færið á afskriftarreikning (Impairment on loans to customers), þannig að bókfært verðmæti sé aðeins 456 milljarðar króna.  Þessi afskrift tengist eingöngu þeim lánum sem flytjast til Nýja Kaupþings nú Arion banki, en lán til viðskiptavina, sem urðu eftir í gamla bankanum voru að verðmæti 962 milljarðar króna, en sannvirði talið 250 milljarðar króna.  Þessi lán eru til viðskiptavina í Bretlandi (661 milljarður króna), á Norðurlöndum (123 milljarðar króna), í Lúxemborg (83 milljarðar króna) og annars staðar (96 milljarðar króna).  Jafnframt kemur fram að lán til einstaklinga námu 52 milljarðar kr., til eignarhaldsfélaga var lánað 318 milljarðar króna, "industry" fengu 187 milljarða króna að láni, fasteignafyrirtæki 158 milljarða króna, þjónustufyrirtæki 136 milljarða króna og "trade" 112 milljarða króna.

Í nýjustu skýrslunni koma fram frekari upplýsingar um skiptingu lánanna.  Þar segir meðal annars að verðmæti lána sem flutt voru til Arion banka séu skráð á "transfer price", þ.e. á því mati sem notað var við flutning lánanna til Arion banka.  Einnig er tekið fram, að lán undir 2 milljörðum eru metin samkvæmt flokkun og margfeldi á tilteknu bili (e. "valued based on categorisation and multiples at certain intervals").  Þetta er mikilvægt, þar sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gaf upp í októberskýrslu sinni að heildareignir Nýja Kaupþings voru 624 milljarðar kr. miðað við stöðu 31.12.2008 (töflur á bls. 19 og 46).  Í nýjustu skýrslu til kröfuhafa er tekið fram að þessar eignir hafi eitthvað lækkað, þar sem einhverjar eignir voru færðar til baka. 

En snúum okkur aftur að skýrslu AGS.  Á bls. 21 eru birt tvö gröf með súluritum.  Annað grafið er með upplýsingar um skuldir heimilanna að brúttó virði og sannvirði.  Lesa má það út úr súluritunum að brúttó virði skulda heimilanna sem fluttar voru yfir í Arion banka hafi verði um 280 milljarðar kr. en sannvirði um 155 milljarðar kr.  Hitt grafið er með upplýsingar um skuldir fyrirtækja og fyrir Arion banka eru þær tölur 930 milljarðar kr. brúttó en 310 milljarðar að sannvirði.  Höfum í huga að þessi lán eru, samkvæmt skýrslu til kröfuhafa Kaupþings, bókfærð á "transfer price".  Við höfum því að verðmæti lánasafna heimilanna hjá Arion banka er því 55% af því sem þau voru í hjá Kaupþingi.  Og nú langar mig að vitna í skýrslu AGS, þar sem sjóðurinn er að skýra hvernig nota má þennan mismun:

The authorities acknowledged the importance of safeguarding credit discipline and of distinguishing between viable debtors (who can be rehabilitated) and non-viable debtors (whose rapid exit should be arranged through credible and efficient liquidation and bankruptcy procedures). For these reasons, they have rejected calls for across-the-board debt relief. The authorities recognized that there would be no room for further fiscal assistance. However, they noted that the compensation agreement between the new and old banks will provide the new banks with a margin to fund restructuring: the difference between the face value and new book value of their loans (text figure). This would be used judiciously, with representatives of old banks monitoring the process.

Þarna er sem sagt viðurkennt að nýju bankarnir hafi svigrúm til að fjármagn endurskoðun skulda.  Hjá Arion banka er þetta svigrúm vegna lána heimilanna sagt vera 125 milljarðar kr. eða 45% af brúttó virði lánanna.   Það er gjörsamlega útilokað að Arion banki hafi þegar nýtt þetta svigrúm, eins og segir í tilkynningu bankans.  Að halda því fram, eins og kom fram í einhverri frétt, að afskriftir eignarhaldsfélaganna sé að koma í veg fyrir frekari leiðréttingu lána heimilanna, er aum skýring.  Í fyrsta lagi, þá eru skuldir heimilanna óháðar skuldum eignarhaldsfélaganna.  Í öðru lagi, þá hef ítrekað verði hamrað á því að ekki megi nota svigrúm frá einum hópi lántaka til að nýta til afskrifta hjá öðrum.  Og í þriðja lagi, þá urðu skuldir eignarhaldsfélaga að mestu eftir í Kaupþingi.

Ég hef áður sýnt fram á, að þó svo að gengistryggð lán heimilanna séu færð niður um 50% og verðtryggð og óverðtryggð lán um 20%, þá er ennþá eftir svigrúm hjá Arion banka upp á yfir 40 milljarða kr. til að mæta öðrum töpuðum útlánum og hærri fjármögnunarkostnað af þeim 155 milljörðum sem teljast sannvirði lána.  Tilkynning Arion banka gerir ekkert til að hrekja þá staðhæfingu eða sanna hið gagnstæða.  Hún er bara fullyrðing án nokkurs sönnunargildis.  Vil ég því skora á forráðamenn Arion banka, líkt og ég skoraði á forráðamenn Íslandsbanka, að sanna þá staðhæfingu sína að svigrúmið sé að fullu nýtt.  Ég verð að viðurkenna að það gengur ekki upp í mínum huga.

Svona til frekari upplýsinga, þá hefur Arion banki kynnt að um 10.500 viðskiptavinir hafi þegið greiðsluaðlögun verðtryggðra lána.  Sú aðgerð hefur engin áhrif á "svigrúmið".  Um 2.000 til viðbótar hafa þegið önnur úrræði, þar af um helmingur greiðslujöfnun gengistryggðra lána.  Af þessum 2.000 var frekar fámennur hópur með háar skuldir og meðal "afskrift" var vel innan við 10 m.kr. eða vel innan við 20 milljarðar kr. alls.  Þá eru a.m.k. 105 milljarðar kr. eftir af "svigrúminu" samkvæmt mínum útreikningum.  Nú bíð ég bara eftir nánari útreikningum frá Arion banka og Íslandsbanka sem sanna staðhæfingar þeirra.


mbl.is Gerðu ráð fyrir útlánatapi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég skora á Íslandsbanka að sanna orð bankastjórans

Þau eru áhugaverð ummæli Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, að bankinn "sé nú þegar að nýta það svigrúm sem hann hefur til afskrifta, bæði gagnvart einstaklingum og fyrirtækjum."  Skora ég á bankann að sýna fram á hvernig bankinn er að nýta þetta svigrúm.  Samkvæmt októberskýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins voru lánasöfn heimilanna færð frá Glitni til Íslandsbanka með 44% afslætti eða úr um 290 milljörðum króna niður í um 160 milljarða króna.  Mismunurinn er því 130 milljarðar króna.  Þau úrræði sem Íslandsbanki býður upp á til einstaklinga/heimilanna heggur lítið í þessa upphæð.

Hæsta almenna leiðrétting/lækkun, sem bankinn býður upp á, er samkvæmt núverandi gengi rétt rúmlega 30%.  Fæst hún með því að breyta gengistryggðu láni með jena viðmið í óverðtryggt lán án slíks viðmiðs.  Bankinn miðar "leiðréttingu" sína við gengi 29. september 2008, en þann dag var gengi jensins 0,944 kr. en í dag er gengið 1,383 kr. (miðað við miðgengi þessara tveggja daga samkvæmt upplýsingum á vef Íslandsbanka/Glitnis).  Sé miðað við lán tryggt við svissneska franka, þá er hlutfallsleg lækkun rétt rúm 20%.  En lækkun höfuðstólsins segir ekki allt.  Ef lántaki kýs að nýta sér höfuðstólslækkunina, þá breytast vextirnir frá því að vera LIBOR vexti (sem núna standa í um 0,25% á hvorri mynt um sig) með álagi (2,9% samkvæmt upplýsingum frá bankanum í haust) yfir í fasta eða breytilega vexti (nú 6%, en voru fyrst 7,5%). 

Að halda því fram, að hér sé bankinn að nýta svigrúm sitt er harla einkennileg stærðfræði, svo ekki sé meira sagt.  Ég hef átt í samskiptum við upplýsingafulltrúa bankans út af þessari framsetningu bankans á upplýsingum, auk þess sem mér var boðið á fund með Birnu Einarsdóttur í september.  Bankinn lagði fram útreikninga sem áttu að sýna hve mikið bankinn var að koma til móts við lántaka.  Því miður reyndust þessir útreikningar ekki bakka þá staðhæfingu bankans uppi.  Tekið var dæmi um 20 milljón kr. gengistryggt lán, sem fært var niður um 25% í 15 milljóna krónu óverðtryggt lán.  Útreikningar bankans sýndu að á þriggja ára tímabili námu heildargreiðslur af hvoru láni um sig (þ.e. óbreyttu láni og síðan óverðtryggðu láni) um 3 milljónum króna.  Greiðslubyrðin af óverðtryggðu láni var um 60.000 kr. lægri eða innan við 2.000 kr. á mánuði.  Það sem meira var, að höfuðstólsafborgun af óverðtryggða láninu nam rúmlega 340 þúsund kr., en 1.700 þúsund kr. af gengistryggða láninu!  Mismunurinn er hærri vaxtagreiðsla af óverðtryggða láninu.

Þetta dæmi, sem ég fékk að skoða hjá Íslandsbanka í september, endurspeglar kannski ekki nákvæmlega það úrræði, sem Íslandsbanki býður upp á, þar sem útfærslunni var eitthvað breytt.  Það er aftur nokkuð fært í stílinn hjá Birnu Einarsdóttur og hreint og beint ósanngjarnt gagnvart lántökum, að halda því fram að með þessu úrræði sé verið að nýta "svigrúmið".  Í fyrsta lagi, þá er "svigrúmið" mjög breytilegt fyrirbrigði.  Þannig minnkar það, ef gengið styrkist og stækkar ef gengið veikist, meðan lánið er gengistryggt.  Í öðru lagi, komst héraðsdómur að því í febrúar að gengistrygging væri óheimil samkvæmt lögum nr. 38/2001 og framkvæmdastjóri Sambands banka og verðbréfafyrirtækja (forveri Samtaka fjármálafyrirtækja) viðurkennir í umsögn samtakanna frá 2001 um frumvarp að lögunum að svo sé.  Staðfesti Hæstiréttur dóm héraðsdóms, þá verður Íslandsbanki að færa niður höfuðstól gengistryggðra lána langt umfram það sem bankinn er að bjóða núna.  Í þriðja lagi, getur bankinn varla talist vera að nýta "svigrúmið", ef hann er bara að núvirða greiðsluflæði sitt, eins og reyndin er með þessa reiknikúnst sem felst í því að breyta gengistryggðu láni með LIBOR vexti í 20- 30% lægra óverðtryggt lán á 6 - 7% vöxtum.  Það eina sem bankinn er að gera, er að færa innflæði peninga á milli reikninga í bókhaldi.  Í fjórða lagi, þá er "afslátturinn" sem bankinn veitir langt frá því að nýta það "svigrúm" sem myndaðist við færslu lánasafnanna frá Glitni til Íslandsbanka.  Þó svo að öll gengistryggð lán heimilanna hjá bankanum væru færð niður um 50% og verðtryggð um 20%, þá væri bankinn líklegast ekki að nýta nema 2/3 af svigrúminu (ef hægt er að taka mark á upplýsingum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins).  Þá er eftir 1/3 sem hægt er að nota til að mæta hærri fjármögnunarkostnaði og afskriftum umfram 50 prósentin annars vegar og 20 prósentin hins vegar. Í fimmta lagi, þá er bankinn að fastsetja tap lántaka með því að breyta hinum ólöglegu gengistryggðu lánum yfir í óverðtryggð lán á tíma þegar gengið er mjög óhagstætt án nokkurra ákvæða um að lántakinn njóti styrkingar krónunnar.

Ég hef fulla trú á því að Íslandsbanki, líkt og fleiri fjármálastofnanir, hafa mun meira svigrúm til leiðréttinga á höfuðstóli lána, en bankastjórinn vill láta í veðri vaka.  Raunar held ég að bankinn sé undir það búinn, að dómstólar dæmi lántökum í hag bæði hvað varðar gengistryggingu og forsendubrest.  Annað væri óábyrgt af hálfu bankanna.  Bankarnir standa frammi fyrir mikilli lagalegri óvissu sem getur haft veruleg áhrif á verðmæti lánasafna þeirra.  Hafi þeir ekki gert ráð fyrir því, að dómstólar gætu dæmt þeim í óhag, þá hafa menn einfaldlega ekki unnið heimavinnu sína.  Það er ekki hægt að vera með hræðsluáróður, eins og Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, hefur haft uppi um að bankarnir fari á hausinn, ef lántakar reynast með réttinn sín megin.  Leiði slíkt til fall bankanna, þá þýðir það bara að menn hafa ekki gert ráð fyrir að dómar féllu þeim í óhag.  Hversu fjarlægur möguleiki sem slíkt er í hugum bankamanna, þá væri það óafsakanlegt kæruleysi að gera ekki ráð fyrir því.  Raunar er bönkum gert skylt í a.m.k. tvennum reglum að vera með stjórnkerfi rekstrarsamfellu.  Slíkt stjórnkerfi væri ekki rétt innleitt, nema gert væri ráð fyrir því að dómar í mikilvægum málum féllu bönkunum í óhag.  Ég segi þetta, þar sem ég hef atvinnu af því að veita ráðgjöf um uppbyggingu stjórnkerfis rekstrarsamfellu og veit því hvaða kröfur eru gerðar til slíkra kerfa og hvaða kröfur eru gerðar til fjármálafyrirtækja um tilvist slíkra kerfa.  Annars ættu öll fyrirtæki, sem taka rekstur sinn alvarlega, að vera með innleitt stjórnkerfi rekstrarsamfellu.


mbl.is Birna: Erum að nota svigrúmið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjármálafyrirtæki vissu árið 2001 að gengistrygging lána var óheimil

Hin grimmi slagur sem fjármögnunarleigur eru í við viðskiptavini sína er með ólíkindum.  Það er ekki bara að þau beiti lántaka miklum órétti við uppgjör á vörslusviptum bílum og bílum sem hefur verið skilað inn, heldur virðast þau þverbrjóta þær heimildir sem þau hafa til starfrækslu fyrirtækjanna.  Má þar t.d. benda á nýlegt flopp hins nýskipaða slitastjóra VBS í svari við kvörtun viðskiptavinar Avants til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki.

En það vellur sífellt meiri skítur undan teppum fjármálafyrirtækjanna.  Nýjasta tilfellið er umsögn Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja (SBV, undanfari Samtaka fjármálafyrirtækja) frá 24. apríl 2001 um frumvarp til laga um vexti og verðtryggingu.  Þetta frumvarp varð síðan að lögum nr. 38/2001 um vexti og verðbætur.  Í umsögninni segir:

Til viðbótar við framangreind atriði telja umsagnaraðilar nauðsynlegt að gera athugasemdir við ákvæði 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins, sem gerir ráð fyrir að verðtrygging sparifjár og lánsfjár skuli miðast við vísitölu neysluverðs.  Í 2. mgr. 14. gr. er síðan tekið fram að þó sé heimilt að miða við hlutabréfavísitölu, eða safn slíkra vísitalna, þegar um lánasamninga er að ræða.  Ekki verður séð hvaða rök eru fyrir því að takmarka verðtrygginguna við við þessar vísitölur.  Það gengur gegn almennu samningsfrelsi, enda getur verið fullkomlega eðlilegt að viðsemjendur fái að nota aðrar viðmiðanir sem þeir koma sér saman um.  Til að skýra þetta betur má benda á að eins og lögin eru í dag (og verða að óbreyttu frumvarpi) er óheimilt að tengja lánssamninga í íslenskum krónum við erlenda mynt, t.d. danskar krónur.  Hins vegar er ekkert sem bannar að lána beint í erlendu myntinni.  Slík lög leiða eðlilega til þess að menn velja síðari leiðina, ef þeir sjá sér hag í því, enda skiptir lántakandinn erlendu myntinni í íslenskar krónur við móttöku lánsfjár.  Þá ýtir það undir að aðilar fari aðrar og mun áhættusamari leiðir, t.d. með því að gera afleiðusamninga sín á milli fremur en almennan lánssamning, en afleiður eru undanþegnar verðtryggingu sbr. 2. mgr. 13. gr frumvarpsins.  Tenging við vísitölur eða sérstakar viðmiðanir er eðlilegur hluti af áhættustýringu á fjármálamarkaði í dag.  Óeðlilegt er að opinber fyrirmæli hindri þann þátt starfseminnar.  Brýnna er að opinbert eftirlit vinni í samvinnu við markaðsfyrirtækin að því að tryggja að skilmálar í slíkum samningum séu skýrir og valdi engum vafa um túlkun síðar.

Þessi hluti umsagnarinnar er alveg ótrúlegur.  Tekið skal fram að hún er undirrituð af Guðjóni Rúnarssyni, framkvæmdastjóra SBV, en hann er núverandi framkvæmdastjóri SFF.

Skoðum nokkur atriði nánar:

Til að skýra þetta betur má benda á að eins og lögin eru í dag (og verða að óbreyttu frumvarpi) er óheimilt að tengja lánssamninga í íslenskum krónum við erlenda mynt, t.d. danskar krónur.

Þarna er það alveg kýr skýrt að fjármálafyrirtækin vissu að gengistrygging lánasamninga var og er ólögleg!  Samt ákvað stórhluti fjármálafyrirtækja að bjóða upp á afurð, sem framkvæmdastjóri samtaka þeirra hafi viðurkennt í umsögn til Alþingis að væri ólögleg.  Það hlýtur að vera sársaukafullt fyrir lögmenn, sem hafa verið að verja þessa fjármálagjörninga, að sjá þessa umsögn SBV.

Og það er haldið áfram:

Hins vegar er ekkert sem bannar að lána beint í erlendu myntinni.  Slík lög leiða eðlilega til þess að menn velja síðari leiðina, ef þeir sjá sér hag í því, enda skiptir lántakandinn erlendu myntinni í íslenskar krónur við móttöku lánsfjár.

Hér er stóra málið, að lántakar fengu aldrei erlenda mynt í hendur til að skipta yfir í íslenskar krónur.  Fólk sótti um í íslenskum krónum, t.d. kr. 10 milljónir, og fékk þá upphæð að frádregnum lántökukostnaði.  Lántakar voru ekki einu sinni rukkaðir um þóknun fyrir að "skipta" úr erlendu myntinni yfir í íslenskar krónur, eins og gert er í gjaldeyrisviðskiptum.  Það fóru því aldrei nein gjaldeyrisviðskipti fram.

Þá er það ábending um það hvernig hægt væri að fara framhjá ákvæðum laganna:

Þá ýtir það undir að aðilar fari aðrar og mun áhættusamari leiðir, t.d. með því að gera afleiðusamninga sín á milli fremur en almennan lánssamning, en afleiður eru undanþegnar verðtryggingu sbr. 2. mgr. 13. gr frumvarpsins.

Nú klikkuðu mörg fjármálafyrirtæki illilega, þar sem starfsleyfi þeirra takmörkuðu heimildir þeirra til að eiga viðskipti með óskráða afleiðusamninga við viðskipti við fagfjárfesta.  Afleiðusamninga er ekki hægt að nota sem lánasamninga á neytendamarkaði.

Ég ætla ekki að fara dýpra ofan í þessa umsögn SBV.  Hún segir allt sem segja þarf:

Fjármálafyrirtæki vissu árið 2001 að gengistrygging lána var óheimil.


mbl.is Mótmæla innheimtuaðferðum fjármögnunarfyrirtækja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smákrimmar dæmdir en þeir stóru sleppa

Hún er allra athygli verð frétt Morgunblaðsins um ungu mennina tvo sem stálu 2 milljónir úr spilakössum og fá fyrir það og ýmis önnur afbrot 8 og 12 mánaða fangelsi. Langar mig að endursegja þessa frétt undir öðrum formerkjum, þ.e. fjalla um...

Er landið í þunglyndi?

Ég brá mér frá í nokkra daga til að hlaða rafhlöðurnar. Ótrúleg tilbreyting. Að komast í umhverfi sem er laust við allt þetta sem hefur hvílt sem mara á þjóðlífinu síðustu 18 mánuði, ef ekki lengur. Staðurinn skiptir kannski ekki megin málin, en ég fór...

Rök sem ekki standast - Matsfyrirtækin með hótanir

Það stenst engin rök, að lánshæfismat lækka þó þjóðin hafni viðaukanum við Icesave samkomulagið. Það hefur komið fram að þegar liggur á borðinu mun betri samningsdrög, en það hefur samt ekki orðið til þess að lánshæfimatið hafi hækkað eða í veðri látið...

Afnemum verðtryggingu í skrefum - Bönnum hana á lánum einstaklinga og heimila

Hún er merkileg þessi hræðsla manna við að afnema verðtrygginguna af lánum. Á sínum tíma tók það dagstund á Alþingi að afnema verðtryggingu launa. Þá skipti engu máli, þó fólk hefði gert framtíðaráætlanir sínar miðað við að laun væru verðtryggð. Voru...

Óveruleg áhrif ef gengistrygging verður dæmd ólögleg - Má þá ekki leiðrétta strax?

Samkvæmt frétt Morgunblaðsins meta formenn skilanefnda banka að "áhrifin yrðu óveruleg, hvernig sem endanlegar dómsniðurstöður yrðu" varðandi lögmæti gengistryggðra lána. Má þá spyrja hvers vegna bankarnir geta ekki bara komið strax til móts við lántaka...

Aðstoð óskast

Mig langar til að leita aðstoðar hjá lesendum. Þannig eru mál með vexti, að ég er að byggja og stefni í að flytja inn á næstu vikum. Flest er komið á sinn stað, en tvennt af því sem vantar virðist ómögulegt að fá innan þess fjárhagsramma sem lagt var upp...

Gísla Tryggvason í 1. sæti

Þegar Gísli Tryggvason hringdi í mig fyrir nokkrum vikum og bar undir mig þá hugmynd sína að bjóða sig fram til 1. sætis í prófkjör Framsóknarflokksins í Kópavogi, þá ákvað ég að hvetja hann til verksins. Ekki að ég væri flokksbundinn framsóknarmaður, en...

Sýslumaður verðmetur eign langt undir fasteignamati - Réttargæslu vantar fyrir gerðarþola

Í nýlegum fjárnámsúrskurði mat fulltrúi sýslumannsins í Reykjavík eign, sem bent var á, langt undir fasteignamat eignarinnar. Samkvæmt skrá Fasteignaskrár Íslands er fasteignamat eignarinnar kr. 27.550.000, fulltrúi sýslumanns mat hana á 20 m.kr. Í þessu...

Jón Ásgeir hlýtur að það þurfa að borga skatt af þessu

Hér finnst mér borgleggjandi að Jón Ásgeir Jóhannesson hafi þurft að gefa þessa eftirgjöf um til skatts eða ef þetta var gjöf, þá hafi hún verið skattskyld. Ríkisskattsstjóri hefur gefið upp að heimilin í landinu verði að greiða skatt verði eignamyndun...

Kaupþing og Glitnir veðsettu húsnæðislánasöfn sín

Það hefur fyrir löngu komið fram, að það voru Kaupþing og Glitnir sem veðsettu hluta húsnæðislánasafna sinna gegn fyrirgreiðslu frá Seðlabankanum. Að vera með eitthvað pukur í kringum það er fráleitt. Mig minnir að það hafi meira að segja komið fram að...

Meingallað svar fjármálaráðherra og villandi svar Seðlabankans

Ekki þarf mikla stærðfræðisnilld til að átta sig á því að svar ráðherra er meingallað. Skoðum tölurnar: Tekjur Fjöldi Undir 119.000 kr. 100.000 119.000 - 200.000 kr. 63.000 200.000 - 650.000 kr. 141.000 650.000 - 1.000.000 kr. 9.400 Meira en 1.000.000...

Verkamaður hraunar yfir "stjörnulögfræðing"

Ég hvet alla að lesa grein Jóns Þorvarðarsonar, verkamanns, sem birt er í Morgunblaðinu í dag. Óhætt er að segja að hann hrauni yfir Hróbjart Jónatansson, lögmann Avant, í grein sinni, en Hróbjartur staðhæfir í greinargerð unninni fyrir Avant að bílalán...

Tölur Seðlabankans ekki nothæfar eins og þær eru kynntar

Seðlabanki Íslands tók saman heilmikið af tölu í fyrra vor og voru þær kynntar með pompi og prakt um miðjan júní. Um þá kynningu sá Þorvarður Tjörvi Ólafsson, hagfræðingur hjá Seðlabankanum. Samkvæmt niðurstöðum bankans var staða heimilanna ekki svo...

Einbjörn, Tvíbjörn, Þríbjörn og Fjórbjörn

Steingrímur sagði ekki ég, Kalli sagði ekki ég, Guðmundur sagði ekki ég og Þór sagði ekki ég. Munurinn á þessu og litlu gulu hænunni er að enginn gengst við verkinu. Þetta minnir óþyrmilega á dópsala neita því að hafa flutt inn dópið sem fannst í hreysi...

Geta bankanna að leiðrétta lán heimilanna

Mikið hefur verið rætt um getu bankanna til að koma til móts við viðskiptavini sína vegna stökkbreytingu lána. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn birti í skýrslu um fyrstu endurskoðun sjóðsins, sem kom út í byrjun nóvember, mat sjóðsins á getu bankanna. Í...

Svindl og svínarí í skuldsettri yfirtöku

Það er með ólíkindum þetta plott nokkurra ósvífinna einstaklinga/eignarhaldsfyrirtækja að kaupa fyrirtæki af sjálfum sér með skuldsettri yfirtöku til þess eins að mjólka nokkra tugi milljarða út úr bankanum sínum. Eins og kemur fram í frétt Markaðarins...

Svælum út illa fengið fé með gjaldmiðilsskiptum

Mig langar að varpa fram hugmynd sem ég hef heyrt oftar en einu sinni. Hún er að skipta um gjaldmiðil, þ.e. úr krónum í nýjar krónur eða hvað við viljum kalla nýja gjaldmiðilinn. Tilgangurinn væri fyrst og frest til að svæla út fé sem skotið var undan af...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband