Leita í fréttum mbl.is

Færa þarf höfuðstól lánanna niður

28. september sl. skrifaði ég færslu undir heitinu Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum þar sem lýst er hugmyndum að leiðum til að hjálpa fólki sem er í vanda vegna hækkun lána.  9. október birti ég færsluna Tillögur talsmanns neytenda sem tillögur mínar um aðgerðir vegna síhækkandi höfuðsstóls íbúðalána og var síðan endurbirt 4. nóvember.  Ennþá örlar ekkert á raunhæfum tillögum frá ríkisstjórninni og vil ég því endurbirta tillögu mína einu sinni enn:

  1. Íbúðalánasjóður yfirtekur lán að fullu hjá banka, sparisjóði eða lífeyrissjóði samkvæmt nánari ákvörðun ríkisstjórnar.
  2. Fundið er viðmiðunargengi/vísitala, sem láni er stillt í, fyrir lántakanda að greiða.
  3. Upphæð sem verður afgangs er sett til hliðar og geymd.
  4. Lántakandi greiðir af sínum hluta lánsins eins og áður og tekur þaðan í frá á sig vísitölu- eða gengishækkanir eða nýtur vísitölu- eða gengislækkana.
  5. Verði annað hvort mjög mikil styrking á krónunni/verðhjöðnun eða mikil kaupmáttaraukning, þá tekur lántakandi á sig stærri hluta lánsins.
  6. Stofnaður verði sjóður sem renna í einhverjir X milljarðar á ári, t.d. af fjármagnstekjuskatti eða söluandvirði bankanna þegar þeir verða seldir, og hann notaður til að afskrifa þann hluta lánanna sem er geymdur.

Sú leið að frysta höfuðstólinn í nokkra mánuði bara til þess að lánin safni meiri vöxtum og hækka þannig heildargreiðslur lánatakanda er engin lausn.

Auðvitað er þetta ekkert annað en niðurfærsla höfuðstóls, en þó með þeim formerkjum að ekki er um endanlega niðurfærslu að ræða.  Hugmyndin var fyrst sett fram, þegar talið var að Landsbankinn og Kaupþing myndu standa storminn af sér, þannig að á þeim tímapunkti var gert ráð fyrir að bankar myndu greiða í sjóðinn.  Þar sem ekki er einu sinni vitað hverjir standa þennan storm af sér, þá er einfaldara að nota fjármagnstekjuskatt í þetta eða söluandvirði bankanna.

Til að skýra betur hvað er átt við:

Verðtryggðalán eru stillt af þannig að höfuðstóllinn þeirra er færður í það horf sem hann var þegar vísitalaneysluverðs var 281,8, sem er vísitalan um síðustu áramót.  Þessum höfuðstól er haldið óbreyttum þar til verðbólga milli mánaða er komin niður fyrir efri vikmörk Seðlabankans, en við það hefst aftur tenging höfuðstólsins við vísitöluna. 

Gengistryggð lán eru stillt af þannig að höfuðstóll þeirra sé miðaður við gengi um síðustu áramót.  Það má annað hvort gera með því að færa lánið yfir í íslenska mynt á þessu gengi og láta lánið eftir það breytast eins og um innlent lán sé að ræða eða með því að færa niður höfuðstól lánsins sem því nemur.  Verði farin sú leið að færa lánið yfir í íslenskar krónur, þá byrjar lánið strax að breytast í samræmi við skilmála nýs láns.  Verði farin sú leið að halda gengistengingunni, þá helst lánið í áramótagenginu, þar til nýtt ásættanlegt og fyrirfram ákveðið jafnvægi er komið á krónuna.  Þar sem algjörlega er óvíst hvert jafnvægisgengi krónunnar er, þá gæti þurft að endurskoða endanlega stöðu höfuðstóls þegar því jafnvægi er náð.

Sá hluti höfuðsstólsins, sem settur var til hliðar vegna þessa, er settur á sérstakan "afskriftarreikning".  Þessi reikningur getur lækkað með þrennu móti: 1. a) Verðtryggt lán: Ef breyting á vísitölu neysluverð fer niður fyrir verðbólguviðmið Seðlabankans, þá greiðir skuldarinn hærra hlutfall af skuldinni.  1. b) Gengistryggt lán: Ef gengisvísitala fer niður fyrir ákveðið gildi, þá lækkar höfuðstólsgreiðslan ekki, en skuldarinn greiðir í staðinn hærri hluta skuldarinnar.  2. Stofnaður er sérstakur afskriftarsjóður sem greiðir árlega niður lán á "afskriftarreikninginum".  Afskriftarsjóður hefur tekjur sínar af hagnaði ríkisbankanna, fjármagnstekjuskatti lögaðila og söluandvirði eins eða fleiri af ríkisbönkunum, þegar bankarnir verða seldir aftur.  3.  Við fyrstu sölu eignar rennur ákveðinn hluti andvirðis húsnæðisins í afskriftarsjóðinn.

Auðvitað þarfnast þetta allt nánari útfærslu, en markmiðið er að vera með sanngjarnar reglur.

---

Síðan hvet ég fólk til að mæta í salur HT102 á vinnuráðstefnu Félags viðskiptafræðinga og hagfræðina í fyrramálið kl. 09:00.  Salur HT102 er í Háskólatorgi.

 


mbl.is Hætti að greiða af lánum sínum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Varnarræða FME

Í gær sór Davíð af sér allar sakir og í dag fáum við afsakanir FME.  Ég verð að vísu að viðurkenna, að mér finnast skýringar Jóns Sigurðssonar, formanns stjórnar FME, mun yfirvegaðri og trúverðugri, en þær sem formaður bankastjórnar Seðlabankans gaf í gær.  Jón reynir þó ekki að kenna Seðlabanka og ríkisstjórn um.

Það er tvennt sem mig langar að fjalla betur um í málflutningi Jóns Sigurðssonar:

1.  Jón Sigurðsson segir að það hafi ekki verið verkefni FME að "breyta reglum og lagalegri umgjörð um starfsemi fjármálafyrirtækja".

Mér finnst þetta vera nokkuð áhugaverð staðhæfing í ljósi þess, að FME er útgefandi af stórum hluta þeirra reglugerða sem gilda um fjármálamarkaðinn.  Ég hef svo sem ekki mikla trú á því að FME semji þessar reglur, heldur sé það meira tæknileg framkvæmd að forstjóri FME skrifi undir reglurnar.  Raunar held ég að það sé hreinlega rangt að FME geri slíkt, en nánar um það í lið 2.

En fyrst FME skrifar undir og gefur út reglurnar, þá verðum við að líta svo á að FME geti breytt "reglum og lagalegri umgjörð um starfsemi fjármálafyrirtækja".  Tvær breytingar á undanförnum árum hafa verið mér mjög hugleiknar.  Báðar lúta að sama atriðinu, þ.e. þeim reglum um útreikning á eiginfjárkröfu fjármálafyrirtækja sem kenndur er við Basel II.  Hér eru reglur sem beinlínis opnuðu fyrir vöxt bankanna.  Árið 2003 var eiginfjárkröfu vegna veðlána breytt þannig að áhættavægi af lánum umfram fyrsta veðrétt var lækkað um 50%, sem þýddi að útlánageta bankanna vegna veðlána umfram 1. veðrétt jókst um 100%.  2. mars 2003 var þessari kröfu breytt aftur og nú var áhættuvægið lækkað í 35% af upphaflegu vægi.  Banki sem gat áður lánað 100 kr. fyrir hverjar 8 kr. í eigið fé, gat núna lánað 285 kr.  Þetta er ein af grundvallar ástæðum þess að útlán bankanna jukust jafnmikið og raun bar vitni.  Þegar síðan peningamargfaldarinn (þ.e. áhrifin af því að peningur sem tekinn er að láni verður að innláni sem eykur útlánagetu) er tekinn inn í þetta, þá fáum við enn frekari skýringu á vexti bankanna.  Rétt er að benda á, að breytingin sem framkvæmd var 2. mars 2007 var framkvæmd beint ofan í aðgerðir ríkisstjórnarinnar í verðbólgumálum og í reynd eyðilagði þá aðgerð. Annað sem rétt er að taka fram, að í Basel reglunum er sérstaklega tekið fram að hvert land fyrir sig skuli meta hvort viðeigandi sé að breyta áhættuvæginu úr 50% í 35%.

Hér eru a.m.k. tvær breytingar á reglum sem FME hefði, samkvæmt verkaskiptingu FME og Seðlabanka, getað dregið til baka að hluta eða alveg til að draga úr vexti bankanna.

2.  Jón Siðurðsson segir: "Verkefni FME er að líta eftir því að starfsemi eftirlitsskyldra fjármálafyrirtækja sé í samræmi við gildandi lög og reglur."  Jafnframt finnst honum óráðlegt að FME sameinist Seðlabankanum.

Þetta kemur inn á mitt sérsvið.  Ekki að ég hefi of mikið vit á inniviðum fjármálamarkaðarins, en ég fæst við skilgreiningu reglna, innleiðingu og framkvæmd þeirra og úttektum sem lúta að áhættu- og öryggisstjórnun.  Ég hef rekið áróður fyrir því í langan tíma, að nauðsynlegt sé að tryggja aðskilnað þessara þriggja þátta.  Þá á ég við að sami aðili sé ekki að setja reglur og innleiða þær, að reglusmiðurinn sé ekki jafnfram úttektaraðilinn og að sá sem sér um framkvæmdina taki ekki sjálfan sig út.  Yfirleitt hefur verið auðvelt að skilja á milli framkvæmdar og úttektar, en erfiðara hefur verið að fá menn til að skilja að það sé ekki viðeigandi að sami aðilinn semji reglurnar og sjái um úttekt (nema um óformlega stöðuúttekt sé að ræða). Jafnframt þykir allt of mörgum sjálfsagt, að sami aðili skilgreini kröfurnar sem á að uppfylla og sjái síðan um framkvæmdina.

Þetta gæti verið ein af þeim kerfislægu villum sem Jón Sigurðsson vísar til, þó ég raunar efist um það.  Að mínu áliti er eitt af vandamálum fjármálakerfisins, að FME hefur verið að setja markaðinum reglur og síðan sjá um úttekt á þessum sömu reglum.  Það sem gerist við þetta, er að úttektaraðilinn ber bara framkvæmdina saman við reglurnar, en þá vantar að bera reglurnar sama við kröfurnar, þ.e. lög og alþjóðlega staðla og reglur.

Í mínum bransa sækjast fyrirtæki gjarnan eftir vottun sem krefst vottunarúttektar.  Slík úttekt er tvískipt.  Annars vegar úttekt á því hvernig stjórnkerfið og reglurnar falla að kröfum staðalsins sem um ræðir og hins vegar hvernig fyrirtækinu gengur að vinna í samræmi við hið skilgreinda stjórnkerfi og reglur.  Þar sem FME setur hluta af þeim reglum, sem fjármálafyrirtæki eiga að uppfylla, þá er FME hreinlega vanhæft til að sinna úttektunum.  Ástæðan er sú að með því er FME að taka út sitt eigið regluverk.  Markmið úttektarinnar verður því að skoða framkvæmdina (sem er gott og blessað), en menn missa af því að skoða hvort regluverkið sé rétt.  Það er því alveg rétt, að FME var að standa sig vel í úttektum og bankarnir voru að koma vel út úr þeim, en það vantaði hlutlausan aðila til að spyrja hvort reglurnar, sem úttektirnar voru byggðar á, hafi verið réttar.  Voru kröfur FME og Seðlabankans í samræmi við þá áhættu sem bankakerfið stóð frammi fyrir.  Mín niðurstaða er að svo hafi ekki verið.

Ein alvarlegasta kerfislægan villan í fjármálakerfinu er því að mínu áliti, að ekki er skilið á milli þeirra sem setja reglurnar og þeirra sem sjá um eftirlitið.  Ef við viljum gera breytingar á verkaskiptingu Seðlabanka og FME, þá á að efla eftirlitsþátt FME en flytja reglusmíðina yfir í Seðlabankann.  Þetta kallar örugglega á lagabreytingu varðandi hlutverk Seðlabankans.

Það sem við græðum á þessu er að myndaður er algjör aðskilnaður milli reglusetningar, innleiðingar og framkvæmdar og síðan eftirlits.  Síðan þarf að gera þessa sömu kröfu til allra fjármálafyrirtækja, þ.e. að skilið sé alfarið á milli áhættustýringar (þ.e. mótun stefnu, greining krafna, ákvörðun stýringa), daglegrar öryggisstjórnunar (m.a. gerð verklagsreglna, innleiðing og framkvæmd) og úttekta (þ.e. innra og ytra eftirlits, regluvörslu, o.s.frv.). Mér vitanlega hefur aðeins einn af stóru bönkunum fylgt þessari skiptingu, meðan hinir hafa verið að blanda saman fyrstu tveimur þáttunum. 

Ég mun fara nánar út í mikilvægi þessa aðskilnaðar í námskeiði mínu um áhættustjórnun og stjórnun rekstrarsamfellu sem fram fer 8. og 9. desember nk. Frekari lýsingu á námskeiðinu er að finna hér.


mbl.is Eftirlitshlutverk Fjármálaeftirlits og Seðlabanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Játning Davíðs

Eftir að hafa lesið þessa frétt Morgunblaðsins, þá eru nokkrir punktar sem vekja athygli mína:

1.  Fjölmiðlum kennt um:

Spurði Davíð að því hvort það hefði verið öðruvísi ef fjölmiðlar hefðu ekki verið í þeim heljargreipum sem þeir voru í.

Um þetta er ekki annað að segja, að fjölmiðlar eiga að flytja fréttir ekki leysa vanda.  Vandamál hverfa ekki þó ekki sé fjallað um þau.

2.  Árangurslausar viðvaranir Davíðs:

Að sögn Davíðs varaði hann ítrekað við útrásinni og fylgifiskum hennar...Vísaði Davíð þar til orða sinna á fundi Viðskiptaráðs fyrir ári þar sem þetta kom allt fram. Á þeim fundi varaði Davíð stórlega við útrásinni og öllu því sem henni fylgdi, svo sem skuldasöfnunin og hvað lítið þurfi til þess að loftið fari allt úr útrásinni með skelfilegum afleiðingum. Jafnframt vísaði Davíð til ræðu sinnar á ársfundi Seðlabankans frá því í mars þar sem hann varaði einnig við því sem gæti gerst.

Orð eru til alls vís, en ef engar aðgerðir fylgja þeim, þá gagnast þau ekkert.

3. Skýrsla eftir fund með matsfyrirtækjum:

Davíð vísaði til fundar sem bankastjórnin átti í Lundúnum  í febrúar með matsfyrirtækjum og háttsettum bankamönnum þar í landi. Segir hann að þó seðlabankamenn hafi haft áhyggjur af ástandi mála fyrir fundinn þá hafi þeim verið brugðið eftir fundinn..Þar hafi verið lesin skýrsla, sem var til eftir fundinn í Lundúnum. Í skýrslunni kom fram að áhyggjur af Íslandi lutu eingöngu að íslensku bönkunum og stöðu þeirra. Ef þeim yrði hált á svellinu þá myndu fleiri falla með.

Davíð sagði, að af skýrslunni megi draga þá niðurstöðu, að íslenska bankakerfið hefði verið í verulega hættu á þeim tíma sem skýrslan var kynnt, það er í febrúar. Þar kom fram að markaðir verði almennt lokaðir íslensku bönkunum sem og öðrum bönkum næstu mánuði og í allt að tvö ár.

Í skýrslunni kemur einnig fram, að skortstaða hafi verið tekin á íslensku bankana í trausti þess að markaðir yrðu þeim lokaðir til langs tíma og ekki væri hægt að bjarga þeim frá falli af Seðlabanka. Niðurstaða skýrslunnar er sú, að ljóst sé að íslensku bankarnir hafi stefnt sér og íslensku fjármálalífi í stórhættu með framgöngu sinni undanfarin ár. Nauðsynlegt sé að vinda strax ofan af stöðunni.

Ok, hér er Seðlabankinn með mikið efni að vinna úr, en hver voru viðbrögð hans.  Erindi á ársfundi bankans.

Hér tiltek ég þrjú atriði úr erindi Davíðs, eins og þau koma fyrir í frétt mbl.is.  Í fyrsta kennir hann fjölmiðlum um, í öðru útrásarmönnum og í hinu þriðja bönkunum.  Hann aftur nefnir hvergi til hvaða aðgerða Seðlabankinn greip til að sporna við þróuninni.  Hann viðurkennir meira að segja að Seðlabankinn hafi ekki áttað sig á því fyrir fundinn með matsfyrirtækjunum í febrúar hve staðan hefði verið alvarleg.  En fyrst að staðan var orðin svona alvarleg:

1.  Af hverju jók Seðlabankinn ekki strax við gjaldeyrisvaraforðann sinn í nóvember á síðasta ári í kjölfar ræðu Davíðs á fundi Viðskiptaráðs?

2.  Af hverju lagðist Seðlabankinn gegn því að Kaupþing gerði upp í evrum?

3.  Af hverju var beðið með það fram í maí að fá heimild hjá Alþingi fyrir stóra láninu, ef Seðlabankinn vissi í febrúar að þörf var á því?

4.  Af hverju gerði Seðlabankinn ekki tillögu að því að leita til IMF strax í febrúar, þegar hann hafði þá skoðun matsfyrirtækjanna að lokað væri fyrir lánsfé til íslensku bankanna og slík lokun gæti staðaið yfir í 12 - 24 mánuði?

5.  Af hverju hafnaði Seðlabankinn þeirri leið í sumar (sbr. orð Davíðs í Kastljósþættinum fræga) að leita til IMF á þeim tíma?

6.  Hvað með að beita einhverjum öðrum stjórntækjum, en bara stýrivöxtum?

Það er nákvæmlega ekkert gagn af Seðlabankanum, ef bankinn bara horfir á og fylgist með, en aðhefst ekkert.   Ég hélt að það væri hlutverk Seðlabankans að koma á stöðugleika, að vera bakhjarl bankanna.  Seðlabankinn er búinn að viðurkenna fyrir sér í febrúar, að hann geti ekki bjargað bönkunum!

Í skýrslunni kemur einnig fram, að skortstaða hafi verið tekin á íslensku bankana í trausti þess að markaðir yrðu þeim lokaðir til langs tíma og ekki væri hægt að bjarga þeim frá falli af Seðlabanka.

Það er því ljóst að aðgerðirnar sem gripið var til gegn Glitni í lok september höfðu verið undirbúnar fyrir löngu.  Seðlabankinn var búinn að ákveða það fyrir löngu að hann gæti ekki staðið við þá skuldbindingu sína að vera lánveitandi til þrautarvara. Þannig í staðinn fyrir að auka við sjóði Seðlabankans, þá fóru menn að útbúa áætlun um yfirtöku bankanna.

Eitt í viðbót.  Þetta heyrði ég í hádegisfréttunum:  Davíð skammaði sjálfan sig í ræðu sinni, þegar hann gagnrýnir að FME hafi verið fært undan Seðlabankann með lögum árið 1998.  Hver skyldi nú hafa verið forsætisráðherra þá?

 


mbl.is Fjölmiðlar í heljargreipum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Námskeið um áhættustjórnun og stjórnun rekstrarsamfellu - Hverjum ætlað og hvers vegna

Í síðustu færslu kynnti ég námskeið um áhættustjórnun og stjórnun rekstrarsamfellu sem Betri ákvörðun, ráðgjafarþjónusta mín, mun halda 8. og 9. desember nk. Þar sem ég hef fengið fyrirspurnir í tölvupósti um nánari skýringar á námskeiðinu, efni þess,...

Námskeið um áhættustjórnun og stjórnun rekstrarsamfellu

Betri ákvörðun, ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar, mun halda námskeið um áhættustjórnun og stjórnun rekstrarsamfellu dagana 8. og 9. desember nk. Markmið námskeiðsins er að kynna aðferðafræði við áhættustjórnun og samspil áhættustjórnunar og...

Aukalán LÍN greidd út á næsta ári!

Það er kominn inn frétt á vef LÍN um aukalán fyrir námsmenn í sárri neyð skólaárið 2008-09. Þar segir: Ef námsmaður er í sárri neyð vegna ófyrirsjáanlegrar röskunar á stöðu hans og högum frá því nám hófst í haust, getur hann sótt um sérstakt aukalán,...

Þurfum við stjórnarbyltingu?

Jæja, þá er það komið í ljós. Hið aldurhnigna ljón breska heimsveldisins hefur fundið mús sem það ræður við. Hér eru menn lítilla sanda, lítilla sæva. Hvað segir þetta fólki um möguleika okkar innan ESB? Viljum við treysta ESB fyrir auðlindum okkar,...

Smjörklípur um allt - Er verið að afvegaleiða þjóðina?

Ég tek eftir því að það er verið að henda smjörklípum um allt til að leiða umræðuna frá aðalviðfangsefninu. Það virðist ekki skipta mála með hvaða fjölmiðli maður fylgist með, alls konar furðulegar sögur eru farnar að dúkka upp eða athyglinni er beint að...

Ríkisstjórn alþýðunnar í DV

Það var hringt í mig á miðvikudaginn frá DV og ég beðinn um að taka þátt í léttu gríni. Að vera forsætisráðherra í slembuvalinni ríkisstjórn alþýðunnar. Ég hugsaði mig aðeins um, enda gætu einhverjir litið svo á, að það rigndi upp í nefið á þeim sem tæki...

Leið ríkisstjórnarinnar er röng

Ég legg það ekki í vanann að lesa efni á xd.is, en ákvað að fylgja hlekk af eyjan.is. Þar var vísað í pistil með yfirskriftinni Öflugar aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að verja stöðu heimilanna . Þetta er metnaðarfullur lista, það vantar ekki, en það er...

Aðgát skal höfð í nærveru sálar

Ofsóknaræðið er orðið svo mikið í þjóðfélaginu að menn sjá skrattann í öllum hornum. Fólk skýtur út í loftið án þess að vita af hverju eða á hvern, vegna þess að það er hrætt og reitt. Upplýsingaflæðið frá stjórnvöldum er í dropatali, þegar það á að vera...

Verðbólga yfir 20% í janúar - í samræmi við mína spá fyrir rúmum mánuði

Í færslu hér 1. október sl. ( Skilar sér í vel yfir 20% verðbólgu og 25% stýrivöxtum á næstu mánuðum ), þá spáði ég því að verðbólga gæti farið í 24,5% í byrjun næsta árs. Nú heyrist mér að Seðlabankinn spái 23,9%. Aðrir hafa ekki viljað spá þetta...

Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum

Hér er grimm spá sem þarf ekki að verða að veruleika. Haldi ríkisstjórnin áfram að gera ekki neitt, eins og tíðkast hefur síðustu mánuði og ár, þá mun ekkert koma í veg fyrir að framtíðarsýn Seðlabankans renni upp. Nú þarf strax að grípa til aðgerða og...

Að halda uppi atvinnu skiptir sköpum

Það er sama hvert litið er, alls staðar blasir við sama sjónin. Samdráttur, uppsagnir, þrengingar og gjaldþrot. Þetta minnir mig á það sem sagt var um ástandið í Finnlandi á sínum tíma. Af því sem ég hef heyrt frá fólki sem upplifði finnsku kreppuna, þá...

Hinn almenni borgari á að blæða

Það er gjörsamlega fáránlegt að leggja til svo eignaupptöku. Við skulum hafa í huga, að hinn almenni borgari gerði í fæstum tilfellum nokkuð rangt. Vissulega tóku ýmsir 90 - 100% lán og þau hafa hækkað, en í langflestum tilfellum hefur það eitt gerst að...

Geir, þú átt að segja satt.

Fyrir réttum 5 vikum sagði Geir: "Nei, þetta var enginn krísufundur. Ég er nýkominn að utan og bað um að hitta Davíð til að setja mig inn í málin hérna." Viku seinna sagði Geir: "Nei, það var bara venjulegur fundur. Björgólfur Thor er sjaldan á landinu...

Hvaða áhrif hefur þetta á bankana? Er þetta kauptækifæri?

Það er leiðinlegt að menn tapi á því að treysta Íslendingum og mun skaða orðspor okkar um langa framtíð. Það sem mig langar meira að vita er hvaða áhrif þetta hefur á bankana. Þeir tóku lán til að lána aftur til fyrirtækja og einstaklinga. Ef lánin sem...

Engar hádegisfréttir á Stöð 2

Menn eru byrjaðir að skera niður á Stöð 2. A.m.k. eru hádegisfréttir ekki sendar út en í staðinn fáum við Grey's Anatomy. Vissulega eru fréttirnar á Bylgjunni, þannig að við missum svo sem ekki af neinu.

Veðmál á veðmál ofan

Mér sýnist sem ákveðinn hluti íslenska fjármálageirans sé haldinn slæmri spilafíkn. Það hefði kannski verið betra að leyfa fjárhættuspil hér á landi og skapa þeim sæmilega lokað umhverfi til að leggja sitt eigið líf í rúst, en láta okkur hin í friði. Það...

Forvitnilegt viðtal, þegar horft er í baksýnisspegilinn

Í írafárinu sem varð við þjóðnýtingu Glitnis, þá yfirsást mér viðtal Björgvins Guðmundssonar, blaðamanns Morgunblaðsins, við Þorvarð Tjörva Ólafsson, hagfræðing á hagfræðisviði Seðlabanka Íslands, en viðtalið birtist mánudaginn 29. september. Ég rakst á...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.9.): 2
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 12
  • Frá upphafi: 1682126

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 12
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband