Leita í fréttum mbl.is

Af útúrsnúningi um afnám verðtryggingar

Einu sinni sem oftar gengur Guðmundur Gunnarsson, fyrrverandi formaður Rafiðnaðarsambandsins, fram á ritvöllinn og talar um afnám verðtryggingar (sjá Afnemum verðtrygginguna).  Einu sinni enn snýr hann út úr umræðunni eins og hann sé haldinn slæmum hrörnunarsjúkdómi sem leiðir af af sér alvarlegt minnisleysi.

Guðmundur talar nánast alltaf um afnám verðtryggingu sem alsherjar afnám hennar.  Við sem höfum rætt hvað mest um afnám verðtryggingar höfum hins vegar einskorðað umræðuna við afnám verðtryggingu af neytendalánum.  Hvergi hefur verið lagt til að banna verðtryggingu alfarið og hvergi verið lagt til að hún verði ekki notuð til að tryggja verðgildi lífeyris.  Guðmundur er almennt ekki að láta slík smáatriði trufla sig og túlkar hlutina á sinn veg.  Er það ákaflega hvimleitt svo ekki sé meira sagt, þar sem með því er hann að blekkja auðtrúa lesendur skrifa sinna.  Kaldhæðnin í þessu er að yfirskrift Guðmundar á síðunni hans á Eyjan.is er "enginn er eins blindur og sá sem vill ekki sjá".

Til að hafa staðreyndir á hreinu, þá höfum ég, Hagsmunasamtök heimilanna, þingmenn Hreyfingarinnar, Lilja Mósesdóttir og Eygló Harðardóttir, svo nokkrir séu nefndir, talað fyrir því að leggja af notkun verðtryggingar í neytendalánasamningum.  Já, hér er um mjög skýra afmörkun að ræða, NEYTENDALÁNASAMNINGAR.  Ekki er verið að tala um að banna fyrirtækjum að taka verðtryggð lán, gefa út verðtryggð skuldabréf eða tengja greiðslur sem þau inna af hendi við vísitölu neysluverðs.  Ekki er heldur verið að leggja til bann við sams konar háttarlagi ríkissjóðs, opinberra stofnana, sveitarfélaga eða annarra aðila sem stærðar sinnar vegna hafa bolmagn til að ráða við nánast viðstöðulausa hækkun höfuðstóls skuldar framan af lánstímanum af völdum hækkunar á vísitölu neysluverðs.  Vissulega væri lítið vit í því hjá Íbúðalánasjóði að gefa út verðtryggð skuldabréf til að fjármagna sjóðinn, ef stærsti hluti lántaka væri að fá óverðtryggð lán, þannig að útgáfa verðtryggðra skuldabréfa myndi því dragast stórlega saman, ef til þessa kæmi.

Ég veit ekki af hverju menn eru sífellt að tengja saman verðtryggingu lífeyris og verðtryggingu íbúðalána.  Engin tengsl eru á milli þessa tveggja.  Takið eftir:  ENGIN TENGSL ERU Á MILLI VERÐTRYGGINGAR LÍFEYRIS OG AÐ ÍBÚÐALÁN EINSTAKLINGA ÞURFI AÐ VERA VERÐTRYGGÐ.  Að halda því fram byggir annað hvort á gífurlegri vanþekkingu eða verið er að beita vísvitandi blekkingum.  Vísitölutryggðar eignir lífeyrissjóðanna eru vissulega að mestu í verðtryggðum skuldabréfum Íbúðalánasjóðs og fyrirrennara hans, en staðan í dag þarf ekki að segja neitt til um stöðuna til framtíðar, frekar en að fortíðin segir til um stöðuna í dag.

Ég fullyrði að ekkert mál er að halda lífeyri verðtryggðum, þó stærsti hluti eigna lífeyrissjóðanna verði óverðtryggður.  Á fyrstu árum þessarar aldar voru einmitt réttindi sjóðsfélaga í nokkrum lífeyrissjóðum hækkuð vegna góðrar ávöxtunar á óverðtryggðum eignum viðkomandi sjóða.  Þessi sömu réttindi voru svo skert vegna taps á þessum sömu óverðtryggðu eignum og öðrum eignum, sem m.a. voru verðtryggðar.  Afkoma lífeyrissjóðanna ræðst ekki af því hvort eignir þeirra eru verðtryggðar eða ekki.  Hún ræðst af því hve naskir fjárfestingastjórar sjóðanna eru að fjárfesta í eignum sem gefa af sér góða ávöxtun.  Vissulega auðveldar það fjárfestingastjórunum lífið að vera með verðtryggð skuldabréf Íbúðalánasjóðs eða sjóðfélaga, en það gerir menn líka værukæra og gefur ekki alltaf bestu ávöxtun.  Staðreyndin er að þeir sem eru stöðugt í leit að betri ávöxtun, þeir enda uppi með betri ávöxtun, en hinir sem láta hlutina bara malla, þeir missa af tækifærunum sem bíða þarna úti.

Óskandi væri, að í framtíðinni haldi menn sig við staðreyndir, þegar talað er um afnám verðtryggingar.  Eingöngu er verið að tala um afnám verðtryggingar á neytendalánasamningum, þar með talið lánum til húsnæðiskaupa.  Alls ekki er verið að tala um afnám verðtryggingar á lífeyri og ekki er verið að banna öðrum en neytendum að taka slík lán eða gefa út verðtryggð skuldabréf.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er ekki hægt að réttlæta verðtryggingu lána meðan laun eru óverðtryggð.

Þetta ætti verkalíðshreyfingin að skylja og setja á oddin í öllum kjarasamningum.

Sama kerfi ætti að gilda um eignir og skuldir.

Jónas Jónsson (IP-tala skráð) 28.8.2012 kl. 11:50

2 Smámynd: Guðmundur Gunnarsson

Ef menn vilja aftur á móti reikna með þannig að lífeyrissparnaður skerðist ekki og þar með að lífeyrir- og örorka haldi verðgildi þá taka við fullir breytilegir vextir, sem setur lánþega í mun verri stöðu en þeir eru í dag. Það er nákvæmlega það sem hefur staðið í mönnum þegar farið er að skoða niðurfellingu verðtryggingarkerfisins.

Guðmundur Gunnarsson, 28.8.2012 kl. 20:36

3 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Nei, Guðmundur, það er ekki slík bein tengsl á milli þessara hluta nema menn séu gjörsamlega vanhæfir í fjárstýringunni sinni.  Auk þess mun afnám verðtryggingar á neytendasamninga alveg örugglega hafa þá hliðarverkun, að menn munu gera allt sem þeir geta til að halda aftur af verðbólgunni.  Og þegar ég tala um "menn", þá er ég að vísa til fjármagnseigenda, bankakerfisins og lífeyrissjóðanna.

Ég hef tekið þátt í þessari umræðu, þó ekki á sömu stöðum og þú, um hvað gæti gerst.  Til eru tvenns konar sjónarmið:  Annað að allt verði eins, þ.e. fjármálageirinn verði eins óábyrgur og áður varðandi útlán og kollsteypi öllu enn og aftur.  Hitt er að menn skilji samspil útlána og verðbólgu og sýni meiri ábyrgð og það sem meira er hagi sér þannig að stöðugleiki myndist.  Því miður eru það fjármagnseigendur og fjármálageirinn sem fylla fyrri hópinn.  Þeir hafa sem sagt ekki trú á því að þeir geti breytt hegðun sinni. 

Vandi Íslands er að fjármálageirann skipa í of miklu mæli fólk sem heldur að það geti hagað sér eins og því sýnist.  Bara að það fái þóknun eða bónus af næsta glæfraleik sínum, þá er það ánægt.  Því er nákvæmlega sama um afleiðinguna fyrir aðra.  Nú er það m.a. þitt hlutverk, Guðmundur, að breyta þessari hegðun sem stjórnarmaður í lífeyrissjóði.  Að versla bara við þá sem eru ábyrgir í hugsun og verkum og einangra hina eins og hægt er.  Við verðum að losa okkur við þessa vitleysinga út úr kerfinu, því annars leika þeir bara sama leikinn aftur.

Marinó G. Njálsson, 28.8.2012 kl. 20:52

4 identicon

Það er eðlilegt að Guðmundur vilji ríghalda í núverandi kerfi, verðtryggingin er forsenda þess að hægt sé að setja hvaða mann sem er í stjórnir lífeyrissjóða, t.d. rafvirkja...

Það þarf enga sérfræðinga í þessi störf í dag á meðan verðtryggingin sér um alla vinnu fyrir þá.

Sigurður #1 (IP-tala skráð) 1.9.2012 kl. 11:45

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Vilji menn koma böndum á verðbólgu er afnám verðtryggingar nauðsynleg forsenda þess, þar sem hún er meðal meginorsaka hárrar verðbólgu á Íslandi. Empirísk sönnunargögn sýna að verðbólga á Íslandi hefur alls ekki minnkað með tilkomu verðtryggingar heldur þvert á móti, og þar með er hægt að fullyrða að henni hafi mistekist það hlutverk sem ætlað var í upphafi þegar hún var innleidd. Þegar eitthvað hefur sýnt sig að virki ekki, þá er tilgangslaust að halda áfram að nota það.

P.S. gott að Marinó skyldi nefna það en þessi misskilningur virðist seint verða kveðinn niður og því full ástæða til að endurtaka:

ÞAÐ ERU ENGIN TENGSL MILLI LÍFEYRISGREIÐSLANA OG VERÐTRYGGINGAR. ÞEIR SEM REYNA AÐ HALDA ÖÐRU FRAM ERU ANNAÐHVORT AÐ BLEKKJA EÐA VITA SJÁLFIR EKKI BETUR. ALDREI NOKKURNTÍMA HEFUR FYRIRFUNDIST SÁ LÍFEYRISÞEGI SEM HEFUR RAUNVERULEGA FENGIÐ INNGREIÐSLUR SÍNAR TIL BAKA FRÁ LÍFEYRISSJÓÐNUM MEÐ ÓSKERTRI 3,5% RAUNÁVÖXTUN!

Endalaus jákvæð raunávöxtun er veruleikafirrt draumsýn, slíkt getur aðeins gerst með áframhaldandi og endalausum þjófnaði, sem lýkur í seinasta lagi þegar ekkert fleira er eftir til þess að stela.

Guðmundur Ásgeirsson, 9.9.2012 kl. 16:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 7
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 47
  • Frá upphafi: 1678163

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 45
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband