Leita í fréttum mbl.is

Ferðasumarið mikla með erlenda bílstjóra og enga leiðsögumenn - Vernda þarf vörumerkið Ísland

Tilefni skrifa minna er ekki atvikið á Tjörnesi heldur eitt og annað sem ég hef heyrt af eða orðið vitni að í sumar í tengslum við skipulegðar hópferðir með ferðamenn um landið.  Óteljandi hópar ferðamanna eru á ferð um landið í hópferðabílum.  Þetta fólk er margt að fara sína fyrstu og einu ferð um Ísland á ævinni.  Mun aldrei aftur til landsins koma og því er mikilvægt að bjóða þeim upp á faglega leiðsögn um landið.  En er það alltaf reyndin?  Nei, og raunar langt frá því.

Fjöldi hópa er á ferð um landið án leiðsögumanna með þekkingu á landinu, hvað þá fagþekkingu.  Notast er við svo kallaða hópstjóra, sem margir hverjir eru að koma í fyrsta sinn til landsins um leið og hópurinn sem þeir eru í fylgd með.  Þegar þeir eru heppnir, þá fá þeir reynda íslenska bílstjóra, en ósjaldan kemur bílstjórinn með hópnum og hefur því ennþá minni reynslu og þekkingu á því að ferðast um landið.  Vissulega á þetta reynsluleysi líka við ófaglærða íslenska leiðsögumenn, en þau tilfelli eru mun færri sem betur fer.

Hvers vegna viljum við hafa menntaða leiðsögumenn og bílstjóra sem þekkja vegina með hópum sem ferðast um landið?  Ástæðurnar eru margar.  Ein sú mikilvægasta er að veita gestum okkar rétta þjónustu.  Hún flest í því að upplýsa gesti okkar um það sem þá þyrstir að vita en ekki síður að segja þeim frá öllu hinum sem þeim datt ekki í hug að spyrja um.  Hópstjóri sem hefur aldrei til landsins komið, þekkir ekki sögur héraðsins, tilurð fjallanna og hvað er mikilvægt að skoða. Hann þekkir ekki til atvinnuhátta, efnahagsmála og stjórnmála.  Lýsingar í flestum handbókum, sem þeir dæmigert lesa beint upp úr, eru takmarkaðar og vekja oft fleiri spurningar en þær svara. 

Hvort sem hópstjórinn er pólskur, japanskur eða ísraelskur, þá á hann ekki að vera einn á ferð með hóp nema viðkomandi hafi sýnt fram á lágmarksþekkingu á landinu.  Tala nú ekki um að hann geti gert sig skiljanlegan við þjónustuaðila sem hann þarf að vera í samskiptum við. 

Því miður eru allt of mörg dæmi um að hópum sem hleypt út á vegi landsins, sem nánast eru ófærir um að bjarga sér sjálfir.  Þá er það lagt á herðar bílstjóranna (sé hópurinn svo heppinn að vera með innlendan bílstjóra) að ganga í verk leiðsögumannsins, þ.e. benda á áhugaverða hluti, sjá um samskipti við þjónustuaðila og koma í veg fyrir að hópstjórinn leiði hópinn í einhverja vitleysu.  Þannig eru bílstjórarnir nánast komnir í hlutverk driver-guide, nokkuð sem þeir hafa hvorki menntun né réttindi til.  Þess fyrir utan að þeim er ekki borgað fyrir að sjá um þetta.

Ísland er verðmætt vörumerki sem við eigum að vernda.  Með því að hleypa reynslulausum hópstjórum sem tóku jafnvel bílstjórana með sér að heiman, þá erum við að skemma þetta vörumerki á tvennan hátt.  Í fyrsta lagi erum við að bjóða upp á lélegar eftirlíkingar og í öðru lagi þá erum við ekki að passa upp á að vörumerkið verði fyrir skemmdum.  Gucci setur ekki merki sitt á neina vöru nema hún standist gæðaprófum.  Við eigum að gera það líka.  Gucci er síðan í stöðugri báráttu gegn lélegum eftirlíkingum.  Við eigum að gera það líka.

Þegar ég fer með hóp ferðamanna, hvort heldur í norðurljósaferð haust, vetur eða vor eða dagsferð út frá Reykjavík allan ársins hring, þá er ég stöðugt að selja Ísland.  Á vetrunum er ég að selja fólki þá hugmynd að koma hingað að sumri til eða fara í fjölbreyttari vetrarferðir.  Á sumrin, þá lýsi ég fegurð Þingvalla á haustin eða vetrum, upplifun af öðrum árstímum.  Allt árið er ég að segja þeim frá öðrum ferðum sem hægt er að fara.  Ég er að gera það áhugavert að koma hingað aftur.  Fyrir þá sem ekki eiga möguleika á að koma aftur, þá er ég að tryggja að ferðin verði þeim eftirminnileg á þann hátt að segja þeim (vonandi) skemmtilegar sögur, sýna þeim það óvenjulega, uppfylla eins og hægt er óskir þeirra.  Með þessu er ég vonandi að auka eftirspurn eftir vörumerkinu Íslandi.  Ég veit raunar að ég er að gera það, því í nánast hverri einustu ferð sem ég hef farið með ferðamenn, þá hefur einhver komið til mín og sagt að hann þurfi að koma aftur og skoða landið betur.

Ferðamaður sem er ánægður sem heimsókn sína til Íslands er besta auglýsing sem landið fær.  Þó hann fái ekki færi á að koma hingað aftur, þá mun hann smita út frá sér þegar hann lýsir sinni upplifun og þeir sem hlustuðu á lýsingar hans setja Ísland á blað yfir áhugaverða staði að heimsækja.  Sé hann óánægður, þá snýst þetta við og hann ber út óánægjuna eins og vírus.  Þess vegna verðum við að vanda til verka og gera kröfur til þeirra sem ferðast með hópa um landið, að þeir hafi fullnægjandi þekkingu á því sem þeir eru að lýsa fyrir ferðamönnunum.  Fólki sem oft er búið að safna í mörg ár fyrir þessari draumaferð.  Þegar við förum í okkar draumaferð, þá viljum við ekki að fúskarar skemmi ferðina fyrir okkur.  Sama á við þá, sem koma til okkar í sína draumaferð.

(Ég tek það fram, að ég rek vefinn Iceland Guide (www.icelandguide.is), sem gefur ferðamönnum kost á að komast í samband við faglærða leiðsögumenn.  Innleggið er þó algjörlega ótengt þeirri þjónustu.)


mbl.is Þétt setin rúta vó salt á vegbrún
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hverju orði sannara. Þetta tíðkast víða í þróuðum ferðamannalöndum að þótt hópar komi frá t.d. Íslandi (eða hvaða landi öðru en móttökulandinu) að það er skylda að fá innlendan, viðurkenndan leiðsögumann. Þetta höfum við margsinnis upplifað sem höfum ferðast eitthvað að ráði ódrukkin um önnur lönd. Sama má í raun segja um tregðu íslenskra við að taka upp aðgangseyri að náttúruvættum. Það þykir sjálfsagður hlutur í öðrum löndum og því skyldi það vera fráleitt hér?

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 13.8.2012 kl. 18:47

2 identicon

það var íslenskur bílstjóri á þessum bíl

ívar örn hlynsson (IP-tala skráð) 18.8.2012 kl. 18:35

3 Smámynd: Hjalti Tómasson

Það er ýmislegt sem bendir til að við eigum töluvert í land með að þróa okkar ferðamannaiðnað til jafns við þau lönd sem næst okkur standa.

Vonandi vakna menn áður en ferðamannafjöldinn vex okkur virkilega yfir höfuð.

Þarna glittir enn og aftur í nýlenduhugsunina sem mér finnst ganga eins og rauður þráður gegnum allt okkar atvinnulíf.

Við flytjum fiskinn óunninn út, álið hálf eða óunnið út, við flytjum vikurinn út, nú vilja menn fara að flytja orkuna út og leiðsögumennina inn.

Það er eitthvað verulega rangt við þetta, ef ég má taka mér þau fleygu orð í munn.

Hjalti Tómasson, 18.8.2012 kl. 18:45

4 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Og, Ívar Örn, á hverju byrja ég pistlinn?  Hann fjallar ekki um atvikið á Tjörnesi og því ekki um þennan bílstjóra eða þennan hóp.  Athugasemd þín er því gjörsamlega úr samhengi við pistilinn og honum óviðkomandi.

Marinó G. Njálsson, 18.8.2012 kl. 19:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (11.9.): 6
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 42
  • Frá upphafi: 1679457

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 25
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband