Leita í fréttum mbl.is

Hin endurreista bankastarfsemi á Íslandi

Undanfarin ár hefur ýmislegt gengið á í endurreistum íslenskum bankarekstri.  Lengi leit út fyrir að menn hefðu ekkert lært af hruninu, svo sljákkaði aðeins á ofsanum, eins og menn ætluðu að gera einhverja yfirbót, en nú er eins og tímavélin hafi tekið völdin.  Oft í viku koma fréttir innan úr bankakerfinu eða mér er sagt af gömlum "snillingum" sem hafa verið endurreistir til fyrri stöðu eða nýir búnir að grandskoða hvað gömlu "snillingarnir" gerðu og hafa það eitt markmið að toppa þá.

Vilji til samninga er horfinn

Endurreistu bankarnir hafa sumir hverjir alveg ótrúlega verkferla, sem eiga ekkert skylt við heiðarlega eða góða viðskiptahætti.  Þannig eru þeir allir að stilla fólki og fyrirtækjum upp við veggi í uppgjörsmálum, eins og þeir (eða starfsfólk þeirra) hafi engin tengsl eða siðferðislegar skyldur gagnvart viðskiptavinum vegna þess sem gerðist hér fram að hruni.  Grófasti gjörningurinn er mikill skortur á siðferði.  Kannski er það ekki hluti af bankarekstri að hafa viðskiptasiðferði, a.m.k. ekki á Íslandi, en víða um heim þykir það líklegt til árangurs að hafa þó ekki væri nema hálfa skeið af mannúð, 2 dl af hógværð og 5 g af skilningi í hverju 1 kíló af líkamsþyngd bankastarfsmanns.  Nei, ekki í hinum endurreistu íslensku bönkum.  Þar var mannúð skipt út fyrir hroka, hógværð fyrir fyrirlitningu og skilningi fyrir græðgi.  Niðurstaðan er svo almennt eftir því.

Tæknin sem hefur verið notuð í samningaviðræðum við viðskiptavinina er einföld.  Hún er svona:

  1. Drögum úr hófi fram að finna niðurstöðu.  Svörum ekki póstum, tilboðum og símtölum nema a.m.k. einhverjar vikur, helst mánuðir fái að líða.
  2. Höfnum öllum tillögum viðskiptavinarins, því hann getur örugglega borgað meira en hann leggur til.
  3. Ásökum viðskiptavininn um allt og ekkert, við hljótum að hitta í mark þó ekki nema einu sinni af hverjum 10.000 skiptum.
  4. Leggjum sjálfir fram tillögur að lausn
    1. Ef viðskiptavinurinn samþykkir, þá hljótum við að hafa boðið of vel og látum lánanefndina hafna.
    2. Ef viðskiptavinurinn hafnar, þá lýsum við frati í hann og sendum málið til dómstóla.
  5. Ef eign viðskiptavinarins er álitleg, þá semjum við ekki, þar sem við græðum meira á því að taka eignina af viðskiptavininum og selja hana sjálfir, en að semja.  Skítt með það þó fólk verði gjaldþrota, við fáum feitan bónus.

Undanfarin tvö ár hafa leitað til mín á þriðja tug einstaklinga og fyrirtækja, sem hafa gengið í gegn um þetta ferli hjá endurreistu bönkunum.  Allir hafa nánast sömu sögu að segja, þ.e. bankinn hefur haldið fólki (og fyrirtækjum) í óljósu samningsferli, þar sem lopinn er teygður út í hið óendanlega, meðan skuldir gera ekkert annað en að safna vöxtum.  Sjáið sko til.  Bankinn gefur ekki vextina eftir þó hann sé valdur af töfinni.  Nei, hann tefur málin eins og hægt er til þess að geta einmitt hlaðið á lánin vöxtum, dráttarvöxtum, innheimtugjöldum, lögfræðiskostnaði og málflutningskostnaði.  Ég hef séð skjöl frá öllum endurreistu bönkunum til sönnunar á þessu, þrátt fyrir að viðskiptavinurinn sé búinn að vera að gera sitt besta til að semja.  Hvernig er hægt að semja við fólk sem fær bónusa fyrir að hafa helst allt af viðskiptavininum?  Það er ekki hægt.

Fasteignafélögin síhungruðu

Kostulegasta nýjunginn eru svo kölluð eignafélög endurreistu bankanna.  Þau eru hálfgerður brandari og skil ég ekki hvernig þau virka.  Eitt þeirra var að skila hátt í 1 milljarðs króna hagnaði í vikunni.  Hvernig ætli þessi hagnaður sé til kominn?  Jú, eign hefur verið hirt af fyrirtæki eða einstaklingi á verulega niðursettu verðmati til þess að eins lítið af skuldum gerist upp á móti.  Síðan er kemur nýtt fasteignamat eða bara nýtt verðmat og þá er allt í einu komin betri tíð og blóm í haga.  Matið hækkar um 15 - 20% og, bingó, fasteignafélagið hefur allt í einu hagnast gríðarlega.  Þó svo að bankinn eigi félagið, þá er hann ekkert að láta hinn óheppna fyrri eiganda fasteignarinnar njóta "lottóvinningsins" heldur er líklegast kominn með hann inn í dómsal vegna eftirstöðvanna.  Það er nefnilega ekki nóg að langleiðina stela eignum af fólki og fyrirtækjum, heldur á að troða fólki (og fyrirtækjum) alveg ofan í svaðið.  Og hirða svo bónusinn fyrir árangursríkt verk!

Bestum árangri ná bankarnir, þegar nýju (eða gömlu) "snillingarnir" sitja á sem flestum hliðum borðsins, þ.e. eru að semja við viðskiptavininn, hafa ótakmarkaðan aðgang að lánanefnd bankans og sinna störfum fyrir fasteignafélagið.  Þá geta þeir þóst vera góðu gæjarnir, en um leið stjórnað aftökunni og að sjálfsögðu hagnast á öllu í gegn um bónusana sem þeir fá frá fasteignafélaginu.

Tekið skal fram að ég er hér að lýsa þeim hluta endurreistu bankanna, sem hefur verið endurreistur hvað best til fyrra horfs frá því fyrir hrun, þ.e. þeim sem snýr að því að svína á viðskiptavinunum.  Hrunbankarnir voru orðnir algjörir snillingar (engar gæsalappir) á þessu sviði, eins og kemur nokkuð ítarlega fram í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis.  Ég er sem sagt ekki að tala um gjaldkerana eða þjónustufulltrúana, sem sitja í básum sínum í útibúunum.  Það fólk er alveg jafn misnotað af "snillingunum" og viðskiptavinirnir, vegna þess að þetta starfsfólk er notað til að segja fólki og fyrirtækjum alls konar tröllasögur um hve frábær bankinn sé og hvað hann ætli að vera góður við viðkomandi, þó allt annað standi til.

Ég held að hollast sé fyrir bankana að muna, að ánægður viðskiptavinur er líklegri til að vera áfram í viðskiptum en sá sem er óánægður.  Uppgjörsmál vegna hrunsins verða því að innifela í sér gagnkvæman ávinning en ekki að annar sé keyrður í þrot og hinn taki til sín allan hagnaðinn.  Og bankarnir eru að raka til sín hagnaði eins og afkomutölur þeirra leiða í ljós.

Englasöngur bankanna

Allir reyna endurreistu bankarnir að sýnast vera englar.  Íslandsbanki birti t.d. í afkomutölum sínum um daginn hvað hann hefði nú verið góður við viðskiptavini sína.  Bankinn hélt því fram, að afskriftir til viðskiptavina hefðu numið um 394 milljörðum kr. frá hruni.  Þetta er náttúrulega ein sú svakalegasta tröllasaga sem ég hef heyrt, þar sem Íslandsbanki átti aldrei nema mjög lítinn hluta þessara 394 milljarða og því hefur bankinn ekki framkvæmt þessar afskriftir.  Þær fóru fram hjá Glitni.  Talan verður ennþá skrítnari, þegar hún er borin saman við nærri 800 milljarða eignir bankans í lok fyrsta ársfjórðungs 2012.  Eigum við að trúa því, að Íslandsbanki sé ennþá gjaldfær eftir að hafa afskrifað 33% af eignarsafni sínu?  Hey, við erum ekki alveg svona heimsk, þó við trúum á álfa, huldufólk og tröll.  Þessi saga er ótrúlegri en allar slíkar sögur.  Staðreyndin er að megnið af þessum 394 milljörðum hefur ekki verið að finna í reikningum Íslandsbanka frá hruni.  (Hef að vísu ekki gefið mér tíma til að skoða nýjustu skáldsögu bankans.)  Ekki á eignarhliðinni, ekki í varúðarfærslum og ekki í afskriftum.  Þar má kannski finna þriðjung af henni, en líklegast innan við fjórðung.

Brandarinn um afskriftir Íslandsbanka verður enn betri, þegar afkomutölur bankans eru skoðaðar.  Nánast á hverju ársfjórðungi hefur bankinn skilað vænum hagnaði.  Stundum upp á tugi milljarða.  Til þess að bankinn hefði haft efni á því að afskrifa 394 milljarða og vera ennþá með jákvætt eigið fé upp á 135 ma.kr., þá hefði hann þurft að skila 394 milljörðum aukalega í hagnað fyrir afskriftir.  Slíka tölu er hvergi að finna í reikningum bankans, en er ítrekað flaggað í fréttatilkynningum, þegar árshlutauppgjör og ársuppgjör eru kynnt.  (Þess vegna kallaði ég þessi uppgjör skáldsögu hér að ofan.)

Ég er alveg sæmilega læs á ársreikninga og veit því hvað tölurnar þýða sem þar birtast.  Fyrir hrun var logið að okkur og núna eigum við að trúa því að Íslandsbanki sé gjaldfær eftir að hafa afskrifað þriðjung af eignum sínum.  Ætli sé ennþá verið að ljúga að okkur?

(Tekið skal fram að tölur hinn tveggja eru heldur ekki að ganga upp.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

... og síðan heldur sorgarsagan áfram í gegnum stjórnmálin þar sem almenningur þorir ekki að kjósa með nýju fólki sem ætlar sér að taka algerlega til í þessum málum - sem auðvitað er hægt ef viljinn er fyrir hendi, það vitum við sem höfum verið í baráttunni öll þessi ár.

Andrea Jóhanna Ólafsdóttir (IP-tala skráð) 31.8.2012 kl. 21:02

2 Smámynd: Axel Pétur Axelsson

held að greiðsluverkfall sé eina leiðin fyrir almenning að ná rétti sínum . . . þessir glæpóar gefa ekkert eftir . . .

Axel Pétur Axelsson, 1.9.2012 kl. 09:09

3 Smámynd: Þórir Kjartansson

Enda fær maður grænar bólur þegar auglýsingin  - ,,hvað getum við gert fyrir þig" - hljómar aftur og aftur í auglýsingatímum ljósvakamiðlanna.

Þórir Kjartansson, 1.9.2012 kl. 09:11

4 identicon

Því miður virðist allt satt og rétt sem þú segir hér á bloggi þínu Marinó. Ég hef um árabil starfað við að aðstoða fólk í skulda og greiðsluvanda að sækja um þau úrræði sem í boði eru þ.e. sértæka skuldaaðlögun og greiðsluaðlögun og þekki því dálítið til í þessum málaflokki. Undanbrögð, óbilgirni og allgjör skortur á einhverri hluttekningu með fórnarlömbum hrunsins er það sem helst einkennir framkomu bankanna meðan samningsumleitanir standa yfir. Fólk sem hefur misst vinnu sína eða lækkað talsvert í launum vegna hrunsins og getur ekki staðið í skilum er meðhöndlað eins og hreppsómagar. Það á nákvæmlega engan rétt að mati lánardrottna. Og það er rétt hjá þér Marinó, margt bendir til þess að bankarnir ásælist heimili fólks.

Ég sá í vetur heimildaþátt um siðblindu (e. psychopathy) og bendir margt til þess að siðblinda þ.e. allgjör skortur á hluttekningu og ábyrgðartilfinningu ráði för þegar kemur að skuldamálum heimilanna. Skeytingarleysið er allgjört.

Toni (IP-tala skráð) 1.9.2012 kl. 10:58

5 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Sæll, já það er enn verið að ljúa að okkur og bankakerfið er á fullri siglingu inn í annað og mun stærra hrun þar sem viðskiptavinirnir eru nú þegar merg sognir af greiðslum til þeirra bæði í afborgun lána og skatta sem settir hafa verið á það vegna falls þessa sömu banka!

Marinó þetta er mafía og ekkert annað!

Sigurður Haraldsson, 1.9.2012 kl. 11:44

6 identicon

Takk fyrir greinargóðan pistil Marinó.

Það er kominn tími til að almenningur standi saman og láti ekki blekkjast af vélabrögðum ríkiskerfisflokkanna 4-urra, sem fyrst einka-vina-væddu bankana (það var kallað hægri stefna). 

Svo hrundi allt  í miðjumoðinu (það var kallað Guð blessi Ísland, því þar komu víst engar mannlegar krumlur nærri og enginn því ábyrgur, nema kannski Guð?)

og svo var allt kerfið einkavætt til dýrðar Deutsche Bank, ESB, AGS og hrægömmum og erlendum vogunarsjóðum (það er víst kallað vinstri stefna).

Allt var þetta þó gert skv. Problem-Reaction-Solution aðferðinni, um það hvernig endalaust skal hafa fé af almenningi og setja hann á þrælaklafa stökkbreyttra skulda.  Og fjárhundar ríkiskerfisflokkanna 4-urra fylgja bendingum fjár-hirðanna og drottna yfir okkur sauðunum, með því að tvístra okkur til hægri og til vinstri; það er hinn samtryggði blekkingarleikur þeirra til að deila og drottna og það í gegnum ofvaxið ríkisjötu yfirbyggðarkerfi sitt, sem þeir skattleggja okkur fyrir til ríkisverðtryggðra launa sinna og útbólgins lífeyris; okkur sauðunum til háðungar. 

"... og síðan heldur sorgarsagan áfram í gegnum stjórnmálin þar sem almenningur þorir ekki að kjósa með nýju fólki sem ætlar sér að taka algerlega til í þessum málum - sem auðvitað er hægt ef viljinn er fyrir hendi, það vitum við sem höfum verið í baráttunni öll þessi ár."

Vel mælt hjá Andreu.  Það er kominn tími til að almenningur læri að standa saman - til lýðræðis og velferðar ... okkar allra. 

Það er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi og ef almenningur lærir að standa saman í stað þess að láta sundra sér sem sauðum, til dilkadráttar og slátrunar.  

Við sem ætlum ekki að láta slátra okkur sem sauðum ætlum að standa saman og mæta 6. október 2012 á 1. landsfund SAMSTÖÐU - flokks lýðræðis og velferðar.  Stöndum saman - látum ekki fjár-hirða og fjár-hunda ríkskerfisflokkanna 4-urra sundra okkur. 

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 1.9.2012 kl. 14:14

7 identicon

Sæll Marinó. Tek undir hvert einasta orð hjá þér í þessum pistli.

Ég held ég geti fullyrt að flest ALLIR íslendingar þekkja

einhvern/einhvrerja sem þessir ómerkingar hafa fótum troðið.

Hér  þarf að gerast eitthvað virkilega róttækt svo eitthvað breytist.

Helst dettur mér í hug að fólk hætti bara að borga af öllum lánum

og leyfa þeim að fara til andskotans. Eiga ekkert annað skilið.

M.b.kv.

Sigurður Kristján Hjaltested (IP-tala skráð) 1.9.2012 kl. 14:31

8 identicon

Neyðarlög. 

Það hefði átt að þjóðnýta þessa helvítis glæpabanka strax eftir hrunið. 

Og vitaskuld að afnema bankaleyndina. 

Enn hefur ekkert heiðarlegt, sanngjarnt og gegnsætt uppgjör farið fram.  En það er óhjákvæmilegt að það muni fyrr en síðar fara fram, enda varðar það beinlínis almannaheill íslensku þjóðarinnar að það uppgjör verði að veruleika. 

Það er barnaskapur og strútsháttur að halda það að ríkiskerfisflokkarnir 4 muni standa að því uppgjöri. 

Við þekkjum "uppgjör" helferðarflokkanna, samFylkingar og VG. 

Og er einhver td. svo barnalegur að trúa því í alvöru að Sjálfstæðisflokkurinn muni standa að því uppgjöri ótilneyddur? 

Flokkur sem Styrmir Gunnarsson skrifar svo um nýlega

"Það sem hins vegar getur þvælzt fyrir Sjálfstæðisflokknum ... eru sérhagsmunir einstakra hópa sem hafa áhrif innan flokksins.

Styrmir veit þetta, enda hafa valdaklíkur sérhagsmunanna í Sjálfstæðisflokknum aldrei staðið fyrir almannahagsmuni og almannaheill.

Nei, til þess að svo megi verða þarf almenningur að standa saman og knýja fram uppgjörið, til lýðræðis og velferðar fyrir land og þjóð. 

Þar mun samstaða okkar, óbreytts almennings, um lífs hagsmuni heimila okkar og fjölskyldna, skipta öllu máli. 

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 1.9.2012 kl. 15:25

9 identicon

Nú er það borðliggjandi, og þarf ekkert að deila um það, að fjöldi heimila og fyrirtækja hafa verið lög í rúst, vegna sannanlegra ólöglegra gengisbundina lána,og þá er rökrétt að álikta að þessir ólöglegu gjörningar, verði leiðréttir, og fólk og fyrirtæki fái eigur sínar aftur, og það verður fróðlegt að fylgjast með því hvernig það verður gert, því Norræna velferðarstjórnin hlýtur að stiðja það, að með lögum skal land byggja, eða það hefði maður haldið.

En því ber að fagna að nú styttist í að Verðtryggingin fari fyrir Héraðsdóm, og vonadi fæst flýtimeðferð.

Halldór Björn (IP-tala skráð) 1.9.2012 kl. 16:01

10 identicon

Nei því miður Halldór Björn

Júró helferðarstjórn hausfrau Johanna uns Steinmaske mun ekki styðja neitt sem brýtur í bága við samansúrraðan Icesave gjörninginn og ESB vilja þeirra. 

Þar ráða ríkjum hagsmunir Deutsche Bank og innlendra leppa þeirra og erlendra hrægamma og vogunarsjóða.  Það gildir bæði um ólögmætu gengislánin og verðtryggingu lána.  Stórþjófar ráðskast með lögin sem hentar þeim og framkvæmdavaldið kvittar svo undir gjörninga stórþjófanna. 

Í stíl Cato gamla skal ég svo enn og aftur vitna í frábæra og einstaklega greinargóða athugasemd Seiken sem birtist hér 31. 10. 2011 kl. 15:10.

Þessi athugasemd útskýrir það hvers vegna Atli Gíslason og Lilja Mósedóttir yfirgáfu þingflokk VG ... sögðu sig úr 4-flokknum VG.

Það var vegna viðurstyggilegrar samansúrrunar Icesave málsins og ESB aðlögunarinnar, með Deutsche Bank og AGS sem þrælapískarana, sem heill haugur af fyrrverandi og núverandi 4-flokks-hyski sagði hallelúja við

og þar með einnig verðtryggingu lána

(sbr. f. lið Seiken, sem útskýrir þetta allt og einnig hvers vegna Bjarni Ben og kompaní hans sagði Já við Icesave):  

Það var kominn tími til að fólk færi að kveikja á perunni hvað þetta mál varðar. Atli Gísla var í raun fyrir löngu búinn að gefa þetta í skyn. Og verksummerkin eftir þessa atburðarrás eru alls staðar.

a) VG sækir um í ESB, þrátt fyrir yfirlýsingar um annað fyrir kosningar.

b) Um leið og stjórnin tekur við þá er breytt um stefnu í Icesave (Svavar sendur af stað) og kemur heim með afleitan samning enda hefði ESB neitað að taka við aðildarumsókninni ef að Íslendingar hefðu ekki samið í málinu.

c) Stjórnvöld taka aldrei til varna fyrir Ísland í Icesave málinu erlendis.  ESB getur alltaf hótað að afgreiða ekki umsókn um aðild ef SJS og JS eru með einhvern derring.

d) Nýji landsbankinn gefur út skuldabréf í erlendri mynt (ca. 300 milljarðar) og leggur inn í þrotabú gamla bankans. Viðsemjendurnir í Icesave geta þar með sneitt framhjá gjaldeyrishöftunum.

e) Deutsche Bank er kallaður að samningaborðinu þegar verið er að semja um uppbyggingu bankana ásamt Hollendingum og Bretum. Niðurstaðan er algjör uppgjöf í skuldamálum heimila og endurreisn bankakerfisins. Evrópskir kröfuhafar fá aðstoð við að háma í sig skuldug heimili og fyrirtæki. Aldrei fæst upplýst um hvað nákvæmlega var samið. Þetta kallar SJS að "normalisera samskiptin við útlönd".

f) JS og SJS hafa alltaf viljað afnema verðtryggingu en nú er það allt í einu ekki hægt.  Verið er að nota verðtrygginguna sem svipu á kjósendur til þess að fá þá til þess að styðja aðild að sambandinu. Minni á að nóbelsverðlauna-hagfræðingurinn kallaði verðtrygginguna "anti-social" í Silfri Egils í gær.

g) Það eru fyrst og fremst aðildarsinnar innan SF og VG sem hafa tekið þátt í að sakvæða almenning í umræðum um skuldamál heimilanna.  Og hverjir eru það sem mala hæst um hversu illa var farið með kröfuhafa og því hafi verið réttlætanlegt að senda skuldug heimilinn til vinnu í grjótnámum bankanna, sem voru endurreistir sem innheimtustofnanir kröfuhöfum til dýrðar en ekki með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi (good bank-bad bank)? Hefur einhver spurt Mats Josefsson af hverju hann yfirgaf landið í fýlu?

Það var Joseph Stiglitz, sem er Nóbelsverðlauna-hagfræðingurinn, sem kallaði verðtrygginguna and-samfélagslega, en Steingrímur J. setti upp luntasvip þrjóskunnar,

65 ár samtals ríkisverðtryggður til launa og lífeyris með Jóhönnu Sig., þegar Stiglitz bauðst til að gefa honum góð ráð til hagsbóta fyrir alla þjóðina. 

Nei, fjósamaðurinn, sem kvittar undir alla gjörninga Deutsche Bank, hrægamma og erlendra vogunarsjóða undir drekavæng AGS, vildi ekki góð ráð frá Stiglitz til hagsbóta fyrir alla þjóðina. 

Kannski spilaði þar líka inn blind heift og valdnauðgunarárátta Steingríms J. í garð Lilju Mósedóttur, sem  hafði forgöngu um það að fá þennan mjög svo virta hagfræðing hingað til lands til að gefa góð ráð til heilla og hagsbóta fyrir alla þjóðina. 

Það voru margir velviljaðir, karlar og konur, sem reyndu strax eftir Hrunið, að koma vitinu fyrir ríkis-verðtryggðu 4-flokka hirðina,

sem öll hefur hins vegar staðið þétt saman vegna eigin sérhagsmuna til að ræna íslenskan almenning í gegnum ár og áratugi, enda nýtir öll 4-flokka hirðin ríkis-verðtrygginguna til opin-berra launa sinna og lífeyris.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 1.9.2012 kl. 16:52

11 Smámynd: Bragi

Það liggur fyrir að engar breytingar verða hér á landi nema 4-flokkurinn fari frá. Það er algjört lágmark til að breytingar munu eiga sér stað.

Við stefnum sömu leið og fyrir hrun með áframhaldandi bankastarfsemi.

Bragi, 1.9.2012 kl. 21:46

12 Smámynd: Guðmundur Pétursson

Já, því miður virðast þessir bankamenn upp til hópa vera bæði veruleikafirrtir og siðblindir. Þeir eru auk þess lélegustu og spilltustu bankamenn í heimi, það hefur ekkert breyst.

Guðmundur Pétursson, 4.9.2012 kl. 19:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 3
  • Sl. sólarhring: 125
  • Sl. viku: 686
  • Frá upphafi: 1677708

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 51
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband