Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2012

Hvað lærdóm getum við dregið af hruninu?

Ég hef oft velt því fyrir mér hver ætti að vera lærdómur okkar Íslendinga af hruninu.  Er svo sem ekki kominn að neinni endanlegri niðurstöðu, en sífellt bætast fleiri kubbar í myndina.  Í þessari færslu ætla ég að fjalla um einn vinkil sem er hve auðvelt var/er að koma peningum undan og láta aðra sitja uppi með tjónið.

Sumir segja að helsti lærdómur af hruninu sé að best sé að haga sér óskynsamlega, skuldsetja sig upp í rjáfur og ekki sýna neina ráðdeild.  Að besta sé að "grípa hvert tækifæri til að skuldsetja sig og huga að afleiðingunum eftir á", eins og Þórður Snær Júlíusson, viðskiptablaðamaður á Fréttablaðinu komst að orði í grein í blaðinu um daginn.

Mig langar að taka hinn pólinn í hæðina, þ.e. reyna að skilja hvernig væri hægt að sporna við þeirri þróun sem varð hér fyrir hrun.

Skattahagræði í útlöndum

Margoft hefur verið bent á að hluti vanda okkar var endalaus færsla fjármagns úr landi.  Eina stundina var aðaleigandi Flugleiða félag á Íslandi, en þá næstu var það í raun félag í Hollandi án þess að félagið á Íslandi hafi fengið krónu greitt og hvað þá að króna hafi runnið í ríkiskassann.  Á sama hátt voru félög sem áttu stóra hluti í öllum helstu fyrirtækjum landsins að endingu skrásett í skattaparadísum um allan heim meðan íslenska eignarhaldsfélagið var skúffa með 500.000 kr. hlutafé. Lára Hanna Einarsdóttir lýsir þessu vel í færlsunni Bankaleynd og skattsvik.

Ef við viljum eitthvað læra af hruninu, þá er það að koma í veg fyrir að arður af íslenskri starfsemi fari óskattlagður úr landi.  Fari arðurinn skattlagður úr landi, þá skiptir það engu máli hvert hann fer og hvernig hann er notaður.  Lykilatriðið er að peningar sem verða til hér á landi renni í sanngjörnu hlutfalli til uppbyggingar samfélagsins.

Ég tel að breyta þurfi skattalöggjöf á þann hátt, að allur arður, sama hverjum hann er greiddur, sé skattlagður samkvæmt íslenskum skattalögum.  Þetta þýðir að breyta þarf tvísköttunarsamningum, þannig að skattur af fjármagnstekjum verði eftir í því landi sem fjármagnstekjurnar verða til.  Ef þetta fyrirkomulag kemst á um allan heim, þá hætta skattaskjól að gegna sínu hlutverki, þar sem fjármagnstekjur verða sjaldnast til í þeim, heldur eru fjármagnstekjur fluttar til fyrirtækja í þeim löndum til að forðast eðlilegar greiðslur til heimalandsins.

Nú æmtir einhver og segir:  "En hvað með rekstrarkostnað þess sem fékk arðinn eða tap af öðrum fjárfestingum?"

Við þessu er einföld lausn.  Hægt verður að fá hluta fjármagnsskattsins endurgreiddan að uppfylltum ströngum skilyrðum.  Án þess að ætla fara ýtarlega út í það hérna, þá væri það að sönnur væru færðar á tap, að viðkomandi félag gerði grein fyrir atriðum sem valda tapinu, að eignarhald félagsins væri vel skilgreint og þannig tengjanlegt við raunverulega einstaklinga, að félagið væri ekki skúffa.

Eiginfjárkrafa hjá eignarhaldsfélögum

Einn merkilegasti hluti uppljóstrana í tengslum við hrunið er hin víðtæka notkun eignarhaldsfélaga sem eru ekkert nema skúffur.  Þessi félög voru stofnuð með lágmarkshlutafé, en gátu samt stofnað til viðskipta upp á tugi milljarða.  Hvernig getur það gengið að eignarhaldsfélag með 500.000 kr. hlutafé getur keypt hlutafé í Kaupþingi að verðmæti 2 ma.kr.?  Eða eignast hluti í Glitni fyrir tvöfalda þá upphæð?  Hvernig geta svo þessi félög skuldsett sig upp í rjáfur upp á 4 - 8 þúsund falt eigið fé sitt, eins og ekkert sé?  Loks hvernig geta þessi félög greitt eigendum sínum arð sem er upp á margfalt upprunalegt framlag, þó svo að ekkert liggi fyrir um hvernig standa eigi við skuldbindingar félagsins?  Auðvitað ætti þetta ekki að vera hægt, en þetta er hægt samkvæmt íslenskum lögum.

Já, samkvæmt íslenskum lögum geta eignarhaldsfélög með nánast ekkert eigið fé (500 þús.kr. er ekkert til að tala um) skuldsett sig upp á þess vegna milljónfalt hlutafé sitt, bara ef lánveitandinn treystir félaginu.  Þetta á náttúrulega ekki að vera hægt.  Áhættureglur fjármálafyrirtækja eiga að banna þetta og þar sem reynslan sýnir okkur að bankarnir voru á kafi í svindlinu, þá þurfum við lög sem koma í veg fyrir þetta.

Ljóst er að eignarhaldsfélag með 500.000 kr. í hlutafé er ekki líklegt til að standa undir vöxtum af einu sinni 10.000.000 kr. láni án þess að það hafi reglulegar og öruggar tekjur.  Arður er t.d. ekki öruggar tekjur og því ekki reglulegar tekjur.  Arður ræðst af hagnaði sem einhver annar hefur af rekstri sínum.  Sala eigna er heldur ekki öruggar tekjur, þar sem eignaverð getur verið ákaflega kvikt.  Því er ljóst að eignarhaldsfélag með 500.000 kr. hlutafé og ekkert annað eigið fé hefur þann eina tilgang að fría eiganda sinn ábyrgð.  Þess vegna ættu lög að banna óhóflegar lánveitingar til slíkra félaga.  Setja ætti lög sem segja til um að lánveiting til lögaðila geti ekki verið umfram ákveðið margfeldi af eiginfé lögaðilans.  Hvort þessi tala er 10, 50 eða 100 skiptir ekki megin máli, en ekki umfram 100.  Aftur skulum við hafa í huga, að bankarnir fjórir (Straumur með) voru ekkert að hugsa um hvort lánin fyrir hlutabréfunum fengjust greidd aftur.  Lausnin var, jú, alltaf að stofna nýtt eignarhaldsfélag sem keypti af hinu fyrra á hærra verði.

Með svona reglu hefði veri komið í veg fyrir óhóflegar lántökur flestra eignarhaldsfélaga fyrir hrun.  Öll hin fjölmörgu sýndarviðskipti með hlutafé í bönkunum hefðu ekki orðið að veruleika, þar sem félög eins og Stím hefðu þurft að leggja fram milljóna tugi í hlutafé til að geta keypt þau bréf í Glitni sem það svo átti að hafa gert.

Samhliða þessu ætti að gera það refsivert að brjóta lögin.  Vandinn við allt of mikið af lögum um fjármálafyrirtæki, að ekki er hægt að kalla nokkurn mann til ábyrgðar, þar sem gjörningurinn fór fram í nafni lögaðila og maður stingur ekki Kaupþingi í steininn!

Viðskiptavild og aðrar óefnislegar eignir í reikningum

Setja á skýr ákvæði um hve hátt hlutfall viðskiptavild getur verið af eiginfé lögaðila.  Þak á viðskiptavild gæti t.d. verið 5 - 10%.  Allt umfram það er óraunhæft, þó ég sé viss um að einhver telji sig geta rökstutt hærri viðskiptavild, þá eru slíkar óefnislegar eignir ákaflega erfiðar í mati.

Fyrir hrun var ekki óalgengt að sjá óefnislegar eignir upp á marga tugi prósent af eiginfé.  Sterling, svo dæmi sé tekið, fór frá því að vera verðmetið á 4 ma.kr. í 20 ma.kr. á nokkrum mánuðum bara út á óefnislegar eignir.   Allt var líklegast gert til að geta fengið hærra lán og þannig búið til hagnað fyrir viðskiptafélaga.

Markaðsverðmæti hlutafélaga á grunnum verðbréfamarkaði er ekkert að marka.  Ein sala upp á örfáa hluti gat breytt markaðsvirði um tugi prósenta á augabragði.  Slíkt stenst ekki nokkur rök, enda kom í ljós að ekki var innistæða fyrir markaðsvirðingu eigna í reikningum eigenda hlutabréfa.  Markaðsvirðið var einfaldlega óefnisleg eign sem ekkert bjó að baki.  Hverfa þarf frá markaðsvirðisbókhaldi að því marki, að til þess að færa megi eign upp samkvæmt virði á markaði, þá þurfa ákveðin lágmarks viðskipti að hafa átt sér stað á því gengi.  Fyrirtæki með 10 milljón hluti, þar sem virði hluta hækkar um 10 kr. á mánuði í 24 mánuði, má ekki færa upp á nýtt gengi í bókhaldi nema minnst 20% hluta (eða eitthvert annað heppilegt hlutfall) hafi skipt um hendur á hinu nýja gengi eða þaðan af hærra.  (Einnig mætti ákveða að tiltekið hlutfall skráðra eigenda hefðu keypt og selt á nýju gengi til að forðast að hringekja fárra aðila myndi falskt gengi.)  Við sölu er að sjálfsögðu allur söluhagnaður færður sem slíkur í bókhaldinu.

Þak á útgreiðslu arðs

Sögurnar af óhóflegum arðgreiðslum á árunum fyrir hrun eru margar.  Merkilegast þykir mér þegar 500 þ.kr. hlutafélögin eru að greiða 500 - 1.000 milljarða út til eigenda sinna, þrátt fyrir að skuldir séu ennþá stjarnfræðilegar.  Þetta á ekki að vera hægt.

Hér áður fyrr var fyrirtækjum skylt að leggja í varasjóð.  Hvað varð um þá skyldu?  Hún var a.m.k. ekki í hávegum höfð hjá velflestum eignarhaldsfélögunum og fjárfestingafélögunum sem bankarnir töðuðu hvað mest á við hrunið.

Væri myndin önnur, ef ekki mætti greiða meiri arð út árlega en nemur 15% af eiginfé og annað yrði að leggja í varasjóð til að standa undir skuldbindingum?  Einnig mætti miða við hlutfall af inngreiddu hlutafé. 

En 15% af 500 þ.kr. er bara 75 þ.kr.  Já, einmitt.  Hugmyndin er að tryggja hag lánadrottna, en ekki lántaka, þannig að áður en greiddur er út of mikill arður, þá sé tryggt að til sé greiðslugeta í eignarhaldsfélaginu til að standa undir skuldbindingum, að ósýnilegur eigandi geti ekki greitt sér út óhóflega arð og síðan sett skuldugt félag á hausinn, ef illa árar, þó svo að hagnaður fyrri ára hefði dugað til að greiða tapið af mögru árunum.

En eigið fé hækkar með meira virði eigna.  Vissulega, en með reglunni frá því áðan um að markaðsvirði hækkar eingöngu eftir að nægilega margir hafa viðurkennt hærra gengi hlutabréfanna, þá er komið í veg fyrir að falskt eiginfé myndist hjá eignarhaldsfélaginu.  Og með reglunni þar á undan um lán til félags geti ekki farið yfir ákveðið margfeldi á eiginfé, þá var dregið að einhverju leiti úr skuldsetningunni.

Einnig legg ég til að hægt verði að endurkrefja þiggjanda arðs um hann allt að 10 ár aftur í tímann.  Þannig gæti þrotabú gert kröfu á þann sem setti eignarhaldsfélagið í þrot um að viðkomandi (hvort sem um er að ræða einstakling eða annað félag) endurgreiði, segjum 50% af arði fyrri ára allt að 10 ár aftur í tímann.  Hafi viðkomandi ekki efni á því, þá er það bara gjaldþrotamál.  Sé um félag að ræða, þá getur að þrotabúgert kröfu á þann sem fékk arð frá því, o.s.frv.  Þetta þýðir að ekki dugar að fela eignarhald í mörgum lögum af eignarhaldsfélögum.  Að lokum kemur að hinum raunverulega eiganda sem hefur líklegast stundað að skuldsetja 500 þ.kr. félag í topp til þess eins að búa til sýndarhagnað sem hægt var að greiða út í arð, færa eignirnar úr litla félaginu yfir í annað lítið félag, en skilja skuldirnar eftir og setja svo skulduga félagið í gjaldþrot.  Þetta er trikk sem allir auðmenn í heiminum hafa lært vegna þess að lögin eru svo vitlaus að leyfa þetta.

Menn umgangast markaðinn sem Monopoly-spil

Sá lærdómur sem við getum dregið hvað helstan af hruninu er að fjárfestar umgangast  markaðinn sem Monopoly-spil.  Ef vel gengur þá vinna þeir spilið, en ef illa gengur, þá var bara um sýndartap að ræða sem þeir bera enga ábyrgð á.  Þeir vita aðgefið verður upp á nýtt fljótlega og þá fá þeir að vera með í nýju eignarhaldsfélagi.  Með smá heppni gengur betur næst, nú annars endurtaka þeir bara leikinn.

Monopoly-spilið heldur áfram eins lengi og bankinn lánar.  Bankinn lánar eins lengi og hann getur, þar sem hann veit að hagnaður hans felst í því að utanaðkomandi aðilar láti blekkjast og kaupi hluti á óraunhæfu gengi fyrir raunverulega peninga.  Nóg er að blekkja nokkra aðila til þátttöku svo góður hagnaður fáist.  Fyrir hrun voru það nánast bara lífeyrissjóðirnir sem voru blekktir á þennan hátt og síðan gamalt fólk sem búið var að nurla saman peningum til elli áranna.

Ég veit um fjölmörg dæmi af fólki sem hélt sig vera orðið ríkt, þar sem það átti hlutabréf í bönkunum fyrir nokkra tugi eða nokkur hundruð milljónir.  Þegar það vildi selja, þá var reynt að telja því hughvarf, þar sem með því hefði það tekið raunverulega peninga út úr hringstreyminu.  Raunverulega peninga sem hefði þurft að skipta út með sýndarpeningum frá bankanum.  Með því hefði orði óæskilegt útstreymi peninga úr kerfinu.  Þess vegna var lögð mikil vinna í að halda raunverulegum peningum inni í kerfinu, en hlutabréf sem gengu kaupum og sölum með sýndarpeningum þau urðu að vera kvik.

Lærdómurinn sem við eigum að draga af hruninu

Það er þetta sem við þurfum að læra af hruninu, þ.e. að skilja hvenær viðskipti eru sýndarviðskipti og hvenær þau eru raunveruleg viðskipti.  Að einhver Jón hafi keypt sér dýrari bíl en hann hafði kannski efni á og tekið hærra lán en efni stóðu til skiptir ekki máli, þar sem lánið hans Jóns var bara upp á 7-8 m.kr. eða kannski bara 4-5 m.kr.  Höfum í huga að Jón greiddi lánið sitt til baka með raunverulegum peningum sem hann aflaði sér í sínu starfi.  Séra Jón aftur keypti Ranger Rover á 15 m.kr., fékk sýndarpeninga að láni og greiddi til baka með sýndarpeningum sem hann lét eignarhaldsfélagið sitt greiða sér af sýndararðinum sem kom til vegna sýndarhagnaðarins sem varð til vegna sýndarhækkunarinnar á hlutabréfunum sem hann átti í þykjustunni í Monopoly-spilinu sem hann var í með bankanum.  Þegar Jón gat síðan ekki greitt af láninu, þá kom bankinn og hirti bílinn af honum þó hann væri búinn að borga 90% af virði bílsins.  Bankinn tapaði því ekki á Jóni, en öðru gegndi með séra Jón.

Þegar séra Jón gat ekki greitt af bílnum, þá lengdi bankinn í sýndarláninu vegna þess að tæki hann bílinn til sín, þá yrði bankinn að selja bílinn til að tapa ekki á honum.  Og hver átti að kaupa?  Bankinn hafði búið til peninga fyrir séra Jón, þannig að séra Jón var að nota peninga bankans til að borga bankanum.  Séra Jón lagði ekkert inn í flæðið.  Nei, hann tók út.  Eins og áður sagði, varð bankinn að finna einhvern "aula" til að kaupa, svo hann tapaði ekki á vitleysunni.  Þannig losnaði séra Jón af hringekjunni og hoppaði frá borði með ókeypis bíl, ókeypis hús og ókeypis ofurhagnað. 

Málið er bara að hringekjan hætti að snúast áður en allir séra Jónarnir náður að hoppa af og hrunbankarnir sitja uppi með 1.800 ma.kr. tap af séra Jónunum sem þeir fengu með sér í blekkingarleikinn.  Meðal þeirra eru mörg þekkt nöfn sem ég ætla ekki að nefna, en flestir þeirra lifðu í vellystingum í nokkur ár og eiga digra varasjóði á Cayman eða í Lux sem þeir geta dregið á það sem eftir er ævinnar.  Að koma í veg fyrir að svona hringekjur séra Jóna fari aftur af stað er lærdómurinn sem við eiga að draga af hruninu.


Hvaða áhætta var verðlaunuð?

Þórður Snær Júlíusson, viðskiptablaðamaður á Fréttablaðinu, skrifar grein sem birtist í blaðinu í dag.  Þar fullyrðir hann að hinir áhættusæknu hafi verið verðlaunaðir, en hinir sem fóru varlega sitji uppi með skaðann.  Hann tekur máli sínu til stuðnings dæmi sem KPMG reiknaði fyrir Helga Hjörvar, formann efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.  Dæmi KPMG hljóðar upp á að tveir aðilar hafi tekið jafnhá lán (10 m.kr.) í júní 2002, annar gengistryggt og hinn verðtryggt.  Eftirstöðvar hins gengistryggð eru síðan sagðar vera 8 m.kr. en hins verðtryggða 15,3 m.kr.

Ansi margt er hægt að segja um dæmi KPMG, en hér ætla ég bara að nefna tvennt:

1.  Gengistryggð lán stóðu fólki almennt ekki til boða í júní 2002.  Aðeins sérvaldir einstaklingar fengu slík lán á þeim tíma.

2.  Sá sem fræðilega séð hafði fengið gengistryggða lánið greiddi jafnar greiðslur af höfuðstóli allan tímann, að jafnaði 250.000 kr. á ári (miðað við 40 ára lánstíma) fram til áramóta 2008, um 500.000 kr. árið 2008, 650.000 kr. 2009 og 2010 og loks 250.000 kr. árið 2011.  Hann er því búinn að greiða tæplega 3,5 m.kr. í afborganir á þessu tímabili.  Sá sem tók verðtryggt lán borgaði aftur um 1,2 m.kr. (miðað við reiknivél Landsbankans).  Núvirðum mismuninn á þessum tveimur greiðsluseríum og þá þá kemur í ljós að munurinn endar í á að giska 3,5 m.kr.  Dagvaxtareiknum töluna svo til viðbótar og hún hækkar um hátt í 1 m.kr. til viðbótar.  Samtals greiddi sá sem tók gengistryggða lánið því jafngildi 4,5 m.kr. (núvirt og dagvaxtareiknað) meira í afborganir, en sá sem tók verðtryggða lánið.  Mismunurinn fer því úr því að vera 7,3 m.kr. í 2,8 m.kr. 

Svo skulum við reikna út heildargreiðslubyrði lánsins allan lánstímann án allrar núvirðingar.  Heildargreiðsla af verðtryggða láninu miðað við 4% meðalverðbólgu allan lánstímann og 5% vexti er 56.225.870 kr. (samkvæmt reiknivél Landsbankans).  Hins vegar er heildargreiðslubyrði af 20 m.kr. óverðtryggðu láni með 5,9% breytilegum vöxtum 42.072.941 kr.  (Með því að hafa seinna lánið 20 m.kr. þá er ég að reikna með því að viðkomandi lántaki hafi breytt gengistryggðum höfuðstól yfir í íslenskt lán þegar lánið var nálægt því að vera í hæstu stöðu.)  Þannig að án leiðréttingar vegna dóma Hæstaréttar var augljóslega meiri áhætta fólgin í verðtryggða láninu.

Hverjir tapa og hverjir hagnast?

Mér hefur lengi fundist ákveðins misskilnings gæta varðandi "tap" og "hagnað" lántaka vegna hrunsins og þá sérstaklega dóma Hæstaréttar um gengistryggð lán.

Þórður segir í grein sinni:

Þeir sem fóru langverst út úr íslenska hruninu voru þeir sem skulduðu minnst eða ekkert og tóku litla áhættu. Þeir sem lögðu sparifé sitt í húsnæði eða bifreiðar í stað þess að skuldsetja sig upp í rjáfur. Það er hópurinn sem axlar afleiðingarnar í gegnum verðbólgu og hefur séð eignir sínar étast upp vegna hennar. 

Um þetta er margt að segja, því Þórður Snær ruglar saman alls konar hlutum og öðrum:

1. Þeir sem skulduðu minnst töpuðu minnstu í hruninu, þar sem skuldir þeirra hækkuðu af sama skapi lítið í krónum talið, þó hlutfallsleg hækkun hafi verið sú sama.  Það er rangt að þeir hafi farið langverst út úr hruninu.  Ástæðan kemur nánar fram í liðunum hér á eftir.

2. Allir sem áttu húsnæði hafa tapað á lækkun fasteignaverðs, ekki bara sumir. Tap vegna lækkunar fasteignaverðs skiptir ekki máli meðan viðkomandi þarf ekki að selja. Margir sem ekki keyptu á tímabilinu haust 2004 til 2008, eru vissulega stöðu gagnvart eiginfé (í krónum talið) en þeir gerðu um mitt sumar 2004, en það mun jafna sig með hækkandi fasteignaverði.  Á hinn bóginn eru margir í betri stöðu, þar sem hækkun lána náði ekki að éta upp hækkun fasteignaverðs frá kaupdegi til ársloka á síðasta ári.  Það er rangt að miða við fasteignamat í hæsta punkti, þar sem eignir sem voru lágt verðlagðar fram á mitt sumar 2004 hækkuðu margar mjög mikið á þessum árum og hafa ekki lækkað aftur í sama horf.  Ég get t.d. tekið dæmi af einbýlishúsi í Hafnarfirði sem seldist á 28 m.kr. vorið 2004, er núna með fasteignamat upp á tæpar 65 m.kr. og líklegt markaðsverð er ekki lægra.  Raðhús í Kópavogi var með markaðsverð upp á 32,4 m.kr. árið 2003, fór hæst í hátt í 70 m.kr. og stendur núna í 54,5 m.kr.  Fyrri eignin hefur hækkað um 150%, en hin um tæp 70%.  Hvorugur aðili er því að tapa á hruninu, nema að til hafi staðið að selja á árunum eftir 2007 og það ekki tekist.

Er hægt að segja að sá sem keypti eign fyrir 20 árum á 12 m.kr. og tók 8 m.kr. lán á þeim tíma, sé í tapi núna þó eftirstöðvarnar hafi hækkað á síðustu 4 árum úr 16 m.kr. í 22 m.kr., þegar eignin stendur núna í 42 m.kr., þó svo að hún hafi farið upp í 54 m.kr. þegar fasteignaverð var hæst?  Eigið fé er núna 20 m.kr., fór vissulega hæst í 38 m.kr. en er þó hærra en það var í árslok 2004.  Pappírshagnaður er jafn vitlaus samanburður og pappírstap.  Tap eða hagnaður myndast bara við sölu.

3. Þeir sem keyptu fyrir innkomu bankanna á húsnæðismarkaðinn 2004 eru að tapa minna á hækkun lána sinna, en hinir sem keyptu á uppsprengdu verði 2005 til 2007 hafa tapað á lækkun fasteignaverðs.  Ástæðan er augljós.  Fyrri hópurinn keypti á lægra verði og er því með lægri fasteignaskuldir.  (Ég tek ekki inn í þessa pælingu aðrar skuldir sem ekki eru tengdar öflun húsnæðsins eða vegna kostnaðar við það.) Þeir sem tóku lán á árunum 2005-7 til að breyta húsnæði gætu lent í síðari hópnum.

4. Þeir sem keyptu með mikilli skuldsetningu 2005-2007 og tóku verðtryggð lán geta í mjög mörgum tilfellum fengið leiðréttingu á sama hátt og þeir sem tóku gengistryggð lán. Báðir hóparnir hafa lent í því að fasteignaverð hefur lækkað niður fyrir fjárhæð þess láns sem tekið var.  Sá sem keypti með mikilli skuldsetningu átti lítið sem ekkert eigið fé.  Hvort sem lánið var gengistryggt eða verðtryggt hefur þetta eigið horfið og báðir eru því mögulega jafn illa settir, þ.e. eru tæknilega gjaldþrota.  Sá sem ekki á fyrir skuldum sínum er tæknilega gjaldþrota hvort sem viðkomandi skuldar 20% umfram eignir eða 200%.

5. Staðreyndin er að sá hópur sem er að koma verst út úr hruninu er sá sem keypti húsnæði með hæfilegri verðtryggðri skuldsetningu á árunum 2005-2007. Hann var aftur alls ekki varkár, þar sem hann fór inn á fasteignamarkað í mikilli uppsveiflu og var alveg jafn mikið að "gambla" og þeir sem tóku gengistryggð lán. Í ljós hefur nefnilega komið að jafn lítil innistæða var fyrir hækkun fasteignaverðsins og var fyrir styrk krónunnar.  Síðan er ljóst að verðbólgan er afleiðing af falli krónunnar og þar með hækkun verðbótaþáttar lánanna.  Staðreyndin er sú að veiking krónunnar hefur alltaf skilað sér inn í verðbætur lánanna að lokum meðan styrking hennar virðist ekki gera það á hinn veginn.

Greiðslubyrði skiptir máli, ekki skuldabyrði

Ég kem ekki tölu á þau skipti þar sem ég hef bent á að hækkun greiðslubyrði er meginvandamálið, ekki hækkun skuldabyrði.  Vissulega er hækkun skuldabyrði vandamál, en hún skiptir ekki máli nema að annað af tvennu fylgi: 

A. Greiðslubyrði er ekki til staðar til að standa undir skuldabyrðinni. 

B. Viðkomandi skuldari er í þeirri stöðu að þurfa að selja.

Í öðrum tilfellum er hækkun skuldabyrðin ekki stóra málið, heldur hækkun á greiðslubyrði.

Einstaklingur með litla skuldabyrði, jafnvel innan við 20%, gæti lent í vanda, þar sem greiðslubyrðin er meiri en viðkomandi ræður við.  Á sama hátt getur einstaklingur með skuldabyrði upp á 200% verið í góðum málum, þar sem hann ræður við þá greiðslubyrði sem er til staðar.  Ótrúlega margir aðilar eru með mikla yfirveðsetningu á eignum sínum, lán sem koma fasteignakaupum ekkert við og ráða alveg ágætlega við greiðslubyrðina.

Lækkun á stökkbreyttum lánum vegna hrunsins er réttlætismál, hvort heldur viðkomandi tók gengistryggt lán, verðtryggt eða óverðtryggt.  Réttlætismál vegna þess að í fæstum tilfellum bar lántakinn nokkra ábyrgð á þeim fjárglæfrum sem hér voru stundaðir, lögbrotum, svikum, prettum og blekkingum.   Réttlætismál vegna þess að lántakar voru leiddir í gildrur eins og lömb til slátrunar.

Nú bendir flest til þess að Hæstiréttur hafi fært þeim sem tóku gengistryggð lán það réttlæti sem Hagsmunasamtök heimilanna og Samtök lánþega auk fjölda einstaklinga hafa barist fyrir.  Ég tel að baráttunni fyrir réttlæti til handa lántökum með verðtryggð lán sé ekki lokið.  Hreyfingin hefur lagt fram tillögu á Alþingi um leiðréttingu á þeim lánum.  Í staðinn fyrir að búa til einhvern misskilin ríg á milli hópa lántaka, þá hvet ég þá sem telja að lántakar gengistryggðra lána hafi dotitð í lukkupottinn með dómum Hæstaréttar, að leggjast á sveifar með okkur sem enn berjumst fyrir leiðréttingu til handa hinum.  Ég kannast t.d. ekki við að margir blaðamenn Fréttablaðsins hafi hingað til fylkt þann hóp.  Nei, hingað til hafa þeir frekar skrifað á neikvæðan hátt um þá sem leitað hafa réttar síns fyrir dómstólum og kallað þá alls konar sérkennilegum nöfnum, eins og fjárhættuspilara, þegar staðreyndin er að flestir sem tóku gengistryggð lán gerðu það vegna þess að þeir báru traust til bankamanna og töldu sig búa við meira fjárhagslegt öryggi með því að taka lán á lágum vöxtum sem lækkuðu við hverja greiðslu af höfuðstólinum, en fólst í því að taka verðtryggð lán sem gerðu ekkert annað en að hækka fyrstu 2/3 lánstímans.


Skilaboðin eru skýr: Ekki greiða í lífeyrissjóð nema þú ætlir að búa heima hjá þér á efri árunum

Eftir að hafa lesið skýringu Tryggingastofnunar ríkisins á kostnaðarþátttöku lífeyrisþega vegna dvalar á sjúkrastofnunum eða dvalar- og hjúkrunarheimilum, þá eru skilaboðin alveg skýr:

Ef þú sérð fram á að þurfa að nýta þér þjónustu sjúkrastofnunar, dvalar- eða hjúkrunarheimilis á efri árum, borgar sig ekki að greiða í lífeyrissjóð, eyddu peningunum strax eða gefðu hann afkomendum þínum

Lífeyriskerfið miðar við að sjóðfélagi skuli fá greiddan lífeyri sem nemur 56% af mánaðarlaunum.  Í fréttatilkynningu frá TR kemur fram að hver íbúi á dvalar- eða hjúkrunarheimili greiði með tekjum sínum allt að 311.741 kr. á mánuði til viðkomandi heimilis umfram fyrstu 65.005 kr. eftir skatta.  Það sem upp á vantar 689.417 kr. kemur frá ríkinu.  Þessar 311.741 kr. er örugglega eftir skatta, þannig að til að fá eitthvað umfram 65.005 kr. á mánuði í sinn hlut, þá þarf viðkomandi að vera með 376.746 kr. á mánuði í lífeyri eftir skatta eða 541.420 kr. áður en skattar eru teknir af miðað við núverandi skattkerfi.  Nú til að fá 541.420 kr. í lífeyrisgreiðslur, þá þarf viðkomandi að hafa yfir 966.000 kr. á mánuði í laun meðan viðkomandi er á vinnumarkaði, þ.e. 541.420/0,56 = 966.821.

Sá sem er með launatekjur milli 116.000 - 966.000 kr. og dvelur á sjúkrastofnun, dvalar- eða hjúkrunarheimili sér ekki eina krónu af þeim iðgjöldum sem viðkomandi greiðir í lífeyrissjóð af þessum allt að 850.000 kr.  Bara til að skilja um hvaða upphæð er að ræða, þá er 12% af 844.000 = 102.000 kr. á mánuði eða  1.224.000 kr. á ári og 42.840.000 kr. á starfsævinni miðað við 35 ára starfsævi.  Sé starfsævin 40 ár fer upphæðin upp í tæplega 49 m.kr. og 55 m.kr. fari starfsævin upp í 45 ár.  Skilaboðin eru skýr:  Eingöngu þeir allra tekjulægstu eiga að leggja fyrir í lífeyrissjóð.  Allir aðrir koma verr út úr því en að eiga peninga undir kodda.  (Allar tölur eru núvirtar.  56% talan er fengin úr lögum og út frá henni er 3,5% árleg raunávöxtunarkrafan reiknuð.)


mbl.is TR borgar alltaf meirihluta kostnaðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af "húmorsleysi" hinna - Aðgát skal höfð í nærveru sálar

Upp á síðkastið hafa komið upp atvik og fram ummæli sem ég verð nú bara að segja, að valda óhug hjá mér.  Þegar háttsemin eða ummæli eru borin upp á viðkomandi, þá er svarið "Djók, ég var bara að fíflast" eða eitthvað í þessa áttina.  Ef það er ekki húmor, þá er sagt að umræðan hafi átt sér stað á lokaðri vefsíðu, viðkomandi hafi verið sofandi, klassískt er "hún vildi þetta, en vissi það bara ekki" og nú síðast sá ég afsökunina "þú verður að skilja í hvaða samhengi þetta var sagt".

Með þessu eru menn (og konur) að réttlæta nauðganir, tilraunir til nauðgana, ósmekklegar vefsíður, tilraunir til mannráns og hugsanlega hópnauðgun, ósmekkleg ummæli, morðhótanir og hvað það nú var sem fólki datt í hug.  Þessi svarti húmor sem virðist tröllríða samfélaginu er greinilega farinn að ganga lengra en í gamla daga.  Þá var svarta húmornum beint gegn einhverjum sem maður þekkti.  Í dag snýst þetta um ókunnuga einstaklinga.  Ung stúlka á gangi á Fríkirkjuvegi, þeir sem lesa upp Passíusálma, femínistar eða ekki femínistar.

Svartur húmor er ekki húmor nema gagnvart einstaklingi sem maður þekkir og veit að getur tekið gríninu.  Um leið og honum er beint gegn ókunnugum án þess að viðkomandi skilji samhengið, þá er það ekki húmor.  Það heitir meinfýsni, árás, ærumeiðin, hótun, siðbrot eða eitthvað í þá áttina.  Þeir sem ekki skilja þess línuna milli svarts húmors í hópi vina og svarts húmos sem beint er gegn ókunnugum eru í vondum málum.

Tilefni skrifa minna eru tvær fréttir í vefmiðlum í dag og í gær.  Fyrri er um fávita sem töldu það saklaust grín að þykjast ætla að draga með valdi unga stúlku inn í bíl fullan af ungum karlmönnum.  Þessi stúlka var svipt öryggi sínu í mjög langan tíma.  Hún mun líklegast aldrei aftur þora að ganga ein um miðbæ Reykjavíkur að kvöldi til.  Ég er ekki einu sinni viss um að ég myndi vilja að eldri dóttir mín gerði það og er ég viss um að fleiri hugsa eins.  Sagt er að þetta hafi hugsanlega verið gert í gríni.  Er það víst?  A.m.k. eru viðkomandi svo miklir heiglar að þeir þora ekki að gefa sig fram við lögreglu og hvað þá að biðja stúlkuna afsökunar á athæfi sínu.  Bjó kannski eitthvað annað að baki?

Hin er umfjöllun Eiríks Jónssonar um ummæli Egils Ólafssonar, formanns Vantrúar, á vef félagsins fyrir fjórum vikum, þar sem Egill segir:  "Til að taka af öll tvímæli þá vill ég láta banna Passíusálmana. Og ekki bara það, ég vil taka alla þá sem hafa tekið þátt í flutningi þeirra af lífi."  Þessi orð sem dæma sig sjálf hafa leitt til viðbragða frá konu sem hefur lesið Passíusálm í útvarpi, en hún segir að kannski sé best að leita eftir "pólitísku hæli í Kaupmannahöfn", eins og Eiríkur setur það fram.  Viðbrögðin láta ekki á sér standa og Eiríkur og hugsanlega viðkomandi kona eru sökuð um húmorsleysi.  

Hann er orðinn merkilegur þessi "húmor" í dag, þar sem bara "innvígðir og innmúraðir" skilja brandarana en þó er þeim beint gegn einstaklingum sem ekki eru "innvígðir og innmúraðir".  Málið er að þó þetta séu brandarar í huga þess sem lætur vitleysuna út úr sér eða framkvæmir hlutinn, þá er þetta langt frá því að vera fyndið í huga þess, sem vitleysunni er beint að.  Það vill svo til að hópnauðganir eru allt of algengar hér á landi.  Stúlka á gangi á Fríkirkjuvegi sem reynt er að draga af bláókunnugum inn í bifreið á ferð getur ekki búist við neinu öðru en að tilgangurinn hafi verið að nauðga henni.  Morðhótanir settar fram í "gríni" eru ekki grín fyrir þann sem "gríninu" er beint að, ef ekkert bendir til þess að um grín sé að ræða.  Einn broskarl hefði dugað til að breyta skilaboðunum á augabragði.

Nú hef ég ekkert upp á Vantrú að klaga annað en einhliða málflutning, en hann er þeirra réttur.  Ég veit ekki betur en að innan Vantrúar sé þverskurður af þjóðfélaginu, þ.e. fólk í alls konar stöðu.  Það þýðir að "grínhótun" frá Vantrú er jafnmikið "grín" og frá einstaklingum í kristnum söfnuði, múslima, hindúa eða búddista.

Áður en hér hellist yfir fólk haldið heilagri reiði, þá er punktur minn í þessu öll: 

Aðgát skal höfð í nærveru sálar.


Erindi um gengisdóma

Laugardaginn 25. febrúar hélt ég erindi í Grasrótarmiðstöðinni um gengisdóma Hæstaréttar.  Erindið var tekið upp og hefur Rakel Sigurgeirsdóttir klippt það til og birt á vefnum.  Langar mig að birta upptökuna hér og fjalla lítillega um hvern hluta.

I. Nokkrir tímamótadómar Hæstaréttar frá hruni fram til dóms nr. 600/2011

Í fyrsta hlutanum kynni ég helstu dóma sem fallið hafa um gengistryggða láns- og leigusamninga.  Flesta tel ég vera mjög skýra og rökrétta, en einn tel ég vera á mörkunum að standast og annan tel ég hreinlega vera rangan, þ.e. vaxtadóminn nr. 471/2010 frá 15. september 2010.   Eftir um 8 og hálfa mínútu byrja ég svo að fjalla um dóm nr. 600/2011. (Ath. ég misrita númer dómsins í yfirskrift á glærum, en dómurinn er nr. 600/2011, en hvorki 600/2012 né 600/2010.)

Hér er svo yfirlit yfir dóma bæði héraðsdóms og Hæstaréttar sem gengið hafa og ég veit af:

Hæstiréttur

Héraðsdómur

Við þennan lista af héraðsdómum væri hægt að bæta við helling af dómum sem snúið hefur verið af síðari Hæstaréttardómum.

II. Dómur númer 600/2011

Í þessari klippu er eingöngu fjallað um dóm nr. 600/2011 og ekkert annað.  Legg ég mikla áherslu á muninn á rökleiðslu og niðurstöðu.  Tel ég t.d. niðurstöðuna vera að rangur lagaskilningur verði bara leiðréttur til framtíðar og skipti þá ekki máli hvort viðkomandi lántaki hafi fullnaðarkvittun í höndunum eða ekki.

III. Þýðing dómsins og álit Sigurjóns Högnasonar og lögmanna LEX

Í þessum hluta byrja ég að fjalla um þýðingu dómsins, þ.e. hver eru áhrif hans á lántaka.  Hvað á lántaki að greiða, hvað á hann ekki að greiða, hvaða upphæðir koma til lækkunar á höfuðstóli og hvaða upphæðir hafa ekki áhrif á eftirstöðvar og þar með framtíðar.  Höfum í huga að þetta er mín sýn á niðurstöðu dómsins, en ég tel líkur á því að lántakar eigi jafnvel betri rétt þegar öll kurl verða komin til grafar.

Daginn áður en erindið var flutt hafði KPMG verið með fund um dóminn þar sem Sigurjón Högnason, lögfræðingur (og líklegast starfsmaður Samtaka fjármálafyrirtækja), hafði greint frá sinni skoðun á fordæmisgildi dómsins og sama dag sendi LEX lögmenn frá sér álitsgerð unna að beiðni SFF.  Fjalla ég um skoðun Sigurjóns og álit LEX sem mér finnst hvorutveggja vera nokkuð halt undir fjármálafyrirtækin.  Örfá orð af þessari umfjöllun flæða yfir í byrjun hluta IV.

IV. Var Hæstiréttur blekktur og þá hvernig

Hér byrja ég að fjalla um muninn á mismunandi túlkunum, þ.e. hvað kostar mismunandi túlkun.   Tölurnar eru svakalegar, mun hærri en bankarnir hafa viljað viðurkenna.  Yfirleitt hafa bankarnir laumað inn frétt ef tölur eru út úr kú, en nú er það ekki gert.  Þeir hafa þegar viðurkennt að dómar Hæstaréttar hafi kostað þá um 200 ma.kr. og spurningin er bara hve mikið á eftir að koma upp úr hattinum.

Alvarlegast finnst mér þó hve Hæstiréttur lét blekkjast í máli nr. 471/2010 og byrja ég að fjalla um það í þessum hluta.

V. Grunnvillur í rökleiðslu Hæstaréttar og ábyrgð Lýsingar

Í þessum hluta held ég áfram með það sem ég kalla grunnvillur í rökleiðslu Hæstaréttar í máli nr. 471/2010.  Mest púður fer í að fjalla um hvers vegna Hæstiréttur mátti ekki samkvæmt lögunum dæma "seðlabankavexti" á gengistryggðu lánin, þ.e. lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu setja mjög strangar skorður á það hvenær nota má ákvæði II. kafla laganna, þ.e. "því aðeins að ekki leiði annað af samningum, venjum eða lögum."  Samkvæmt þessu mátti Hæstiréttur ekki dæma seðlabankavexti á áður gengistryggð lán.  Svo einfalt er það.

Stærsta ruglið í þessu öllu er þó hvernig stóð á því að mál nr. 471/2010 skyldi yfirhöfuð hafa orðið að örlagavaldi þeirra lántaka sem tekið höfðu lán með ólöglegri gengistryggingu.  Er það þvílík steypa og frekja að hálfa væri nóg.

VI. Kvörtunin til þriggja stofnana ESB

Byrjað er að benda á að Frjálsi fjárfestingabankinn hafi dregið til baka í febrúar 2011 áfrýjun á því atriði sem dæmt var um  í febrúar 2012.

Loks er fjallað um kvörtun lánþega til ESA, Evrópuþingsins og framkvæmdarstjórnar ESB.

Hugsanlega eiga fleiri bútar eftir að bætast við og verða þeir líka birtir hér ef svo verður.


Hagnaður bankanna hefði líklegast orðið 450 ma.kr. árið 2011 ef ekki væri fyrir Hæstarétt!

Á síðustu 15 mánuðum eða svo hafa bankarnir barið sér á brjósti fyrir að vera að "afskrifa" háar upphæðir af lánum einstaklinga og fyrirtækja.  Samkvæmt tölum á síðu Samtaka fjármálafyrirtækja þá stóð "afskriftartalan" fyrir einstaklinga/heimili í 196 ma.kr. í desember sl.  Í fréttum frá Arion banka og Landsbankanum, þá hafa þessir tveir bankar fært niður áður gengistryggð lán um 55 ma.kr. vegna dóms Hæstaréttar 15. febrúar sl. þannig að sú upphæð bætist ofan á það sem áður var gert.  Alls gerir þetta því 251 ma.kr. og þá á Íslandsbanki eftir að koma með sínar tölur.  Frjálsi tilkynnti aftur fyrir helgi tap upp á milljarða tugi á tveimur árum, 8,9 ma.kr. fyrir 2011 og 27,4 ma.kr. vegna 2010.

Það stórkostlega við tölur bæði Landsbanka og Arion banka er að fyrir rúmu ári, þ.e. þegar dómar í málum nr. 603/2010 og 604/2010 gengu í Hæstarétti hinn 14. febrúar 2011, þá sáum við ekki afturvirka niðurfærslu í ársreikningi fyrir 2010.  Nei, þeir dómar höfðu nánast engin áhrif inn í ársreikningana.  Samt áttu bankarnir hlutdeild í 146 ma.kr. niðurfærslu vegna endurútreiknings gengistryggðra lána.  Núna er dómurinn sem gekk 15. febrúar 2012, þ.e. nr. 600/2011, látinn hafa strax áhrif.  Gefum okkur að þessi tveir bankar hafi gefið eftir 60% af 146 ma.kr. eða 87,6 ma.kr., bætum svo 55 ma.kr. vegna dóms nr. 600/2011 og hagnaði upp á 28 ma.kr., þá fáum við að hagnaður þessara tveggja banka hefði orðið a.m.k. 170,6 ma.kr. vegna síðasta árs.  Við þessa tölu á eftir að bæta áhrifum af "afskriftum" til lögaðila sem dómar nr. 603/2010 og 604/2010 þvinguðu bankana til að veita.  Heildarhagnaður hefði því líklegast endað í einhverjum 300-350 ma.kr. bara hjá þessum tveimur bönkum.  Ekki slæmt í hagkerfi sem varð nánast gjaldþrota fyrir 3,5 árum. Síðasta ár hefði því skilað tveimur bönkum hátt í tvöföldum hagnaði á við alla bankana þrjá ríflega 2 ár þar á undan.  Gefum okkur næst að Íslandsbanki sýni álíka hagnað og meðaltal hinna, þá 

Svo segjast þeir ekki hafa haft neitt svigrúm til að leiðrétta lán heimilanna.  Kanntu annan betri?


Hvernig eru verðmæti metin? Náttúran er landsins verðmætasta eign

Hún er merkileg þessi umræða, þar sem verið er að stilla náttúruvernd upp sem óvini verðmætasköpunar. Hvers vegna það er gert veit ég ekki, þar sem fátt bendir til þess að þetta sé rétt.  Náttúran er verðmæti og því er náttúruvernd ekkert frábrugðin því að við viljum verja störf í fiskvinnslu eða stóriðju.  Með því að verja náttúruna erum við að verja þau verðmæti sem í henni felast.

Á síðustu árum hefur orðið mikil fjölgun ferðamanna til Íslands.  Flest viljum við halda að það sé vegna þess að fegurð landsins sé að draga fólk hingað, dulúð þess og svo hin óbeislaða náttúra þess.  Hvert árið á eftir öðru hefur verið metár í fjölda ferðamanna.  Hefur þessi fjölgun fært í þjóðarbúið gjaldeyristekjur sem nema tugum milljarða á ári.  Þá er ég bara að tala um áhrifin af fjölguninni.  Kostnaðurinn á móti er óverulegur, en hleypur þó örugglega á milljörðum.

Síðasta stóriðja sem var byggð hér á landi kostaði með öllum tengdum mannvirkjum og framkvæmdum í kringum 300 milljarða króna á gengi þess tíma.  Nú hefur þetta gengi hátt í þrefaldast á þeim hluta lánanna sem tekin voru í japönskum jenum, en hækkað um 80-100% af lánum í evrum og dollurum.  Núvirt er því staða lánanna kannski í kringum 700 milljarðar króna.  Þessi framkvæmd útvegar vel innan við 5.000 manns vinnu og telur um 60 milljarða í útflutningstekjur (miðað við fréttir í fjölmiðlum nýlega).

Út frá þessu einfalda samanburði er enginn vafi í mínum huga, að arðsemi ferðaþjónustu er margföld á við virkjana.  Verðmætaaukningin sem við erum að fá út úr hverri krónu sem sett er í uppbyggingu ferðaþjónustu er margföld á við þá verðmætaaukningu sem fæst fyrir hverja krónu sem sett er í framkvæmdir vegna stóriðju og virkjanir tengdar þeim.  Menn segja að virkjanirnar borgi sig upp á 20-30 árum og eftir það verður hagnaðurinn meiri.  Raforkuöflun er ekki ein um að þegar afskriftartími er liðinn, þá aukist hagnaðurinn.  Það á líka við um ferðaþjónustuna.

Nú er ég ekki að segja, að við eigum ekki að virkja og ég er ekki að segja, að við eigum ekki að nýta orku frá virkjunum til afmarkaðrar atvinnustarfsemi á borð við stóriðju.  Nei, ég er að benda á að í mörgum tilfellum erum við að fórna meiri hagsmunum fyrir minni, langtíma hagsmunum fyrir skammtíma, með því að rjúka af stað í virkjanir og stóriðju.  Þess vegna styð ég þá varfærni sem er kemur fram í vinnu að rammaáætlun um orkunýtingu.  Frestun virkjunar getur vissulega leitt til tapaðra tekna, en virkjun á röngum stað getur eyðilagt svæðið sem ferðamannasvæði og þar með valdið meiri skaða en tekjurnar sem virkjunin halar inn.  Virkjun sem er frestað má byggja síðar, en röskuð náttúra verður aldrei ósnortin aftur.

Ísland er vin í eyðimörkinni

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að stærsta auðlind Íslands er landið sjálft.  Ég hef alltaf verið heillaður af fegurð þess og margbreytileika.  Í mínum huga höfum við bara nýtt okkur brot af þeim möguleikum sem felast í ferðaþjónustu, en er jafnframt þeirrar skoðunar að við eigum að ganga varlega um gleðinnar dyr.

Ekki er hugmyndin að selja ferðalög um landið í þessum pistli heldur benda á að til lengdar þá felast meiri verðmæti í tiltölulega ósnortinni náttúru en í stóriðjuverum.  Stóriðjan og virkjanir kunna að útvega skjótfengin auð, en hitt færir okkur meiri auð til lengri tíma.

Ísland er vin í eyðimörkinni í þeim skilningi að hér á landi er aðgangur að náttúru sem hvergi er að finna í Evrópu.  Hvergi í Evrópu eru víðáttur sem hér þar sem engir þéttbýliskjarnar eru að trufla útsýnið.  Hvergi í Evrópu getur þú á sama klukkutímanum gengið á jökul og nýrunnið hraun.  Hvergi í Evrópu getur þú á sama klukkutímanum farið í fuglabjarg og setið í náttúrulega heitri setlaug.  Hvergi í Evrópu getur þú gengið um náttúruperla á borð við Mývatnssvæðið og á sama klukkutíma skoðað hverasvæði á borð við Hverönd.  Hvergi í Evrópu getur þú gengið eftir sigdal sem enn er í mótun og horft til hægri yfir á Evróasíu plötuna, en til vinstri á Norður-Ameríku plötuna.  Og fyrir þá sem eru að leita að norðurljósunum, þá Ísland sá staður sem auðveldast er að komast til og skartar norðurljósunum reglulega.  Það er þessi nálægð staða sem gerir Ísland svo sérstakt.  Það er þetta sem við viljum og verðum að varðveita.  Það er þessi nálægð landsins við helstu markaðssvæði sem gerir náttúru Íslands að mikilvægri og eftirsóttri söluvöru.  En hún verður það bara á meðan við varðveitum hana og röskum ekki meira en nauðsynlegt er.


mbl.is Vísar gagnrýni Bjarna á bug
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þingsályktun Hreyfingarinnar: Hugmynd sem taka verður alvarlega

Ég hvet þingheim til að taka þessa tillögu Hreyfingarinnar alvarlega.  Í henni felst virkilega metnaðarfull tilraun til að höggva á hnút sem haldið hefur stórum hluta húsnæðiseigenda föstum.

Vissulega er ég ekki hlutlaus, þar sem tillaga Hreyfingarinnar byggir á minni hugmynd.  Hana setti ég fyrst fram í séráliti mínu með skýrslu "sérfræðingahóps" um skuldamál heimilanna í nóvember 2010.  Eins og annað í því séráliti, þá féll hún í grýttan jarðveg enda ekki sett fram að fulltrúum "réttra" aðila. 

Útfærsla tillögunnar í ályktun Hreyfingarinnar er unnin í samvinnu þingmanna Hreyfingarinnar, framkvæmdastjóra þinghópsins og mín.  Markmiðið er að finna leið sem hægt væri að hrinda í framkvæmd.  Í mínum huga er endanleg útfærsla ekki aðalmálið og t.d. væri hægt að tengja hana við hugmynd Ólafs Margeirssonar um "peningaprentun".  Í slíkri útfærslu fengju kröfuhafa peningana sína strax (með eðlilegum afslætti) og því væri bæði hægt að "prenta"minna af peningum og greiða "prentaranum" hærri vexti.

Þátttaka margra

Tillagan gerir ráð fyrir að árlegar verðbætur umfram 2,5% verði færðar af  lánunum vegna áranna 2008 - 2011 yfir í sérstakan afskriftarsjóð.  Er lengra gengið en í tillögum Hagsmunasamtaka heimilanna sem gerðu ráð fyrir 4,0%.  Munurinn á þessu tvennu er ekki mikill í heildarupphæðinni, en skiptir gríðarlegu máli fyrir lántaka.  Sjóðurinn verði síðan greiddur niður á 25 árum með 3,5% óverðtryggðum vöxtum.

Gert er ráð fyrir þátttöku margra aðila við að greiða niður sjóðinn.  Þ.e.

  • lántaka í formi mjög hóflegs vaxtaálags.  Álagið nemur í upphafi 2.500 kr. á ári af hverri 1 m.kr. sem skuld stendur í, en lækkar niður í 1.000 kr. eftir 15 ár.  Lækkunin nemur 100 kr. á ári;
  • bankar og eigendur bréfa sem Íbúðalánasjóður og forverar hans hafa gefið út til að fjármagna útlán sjóðsins, s.k. HFF-bréf, aðrir en lífeyrissjóðir greiði 0,195% eignaskatt af eignum sínum sem lækkar árlega um 0,005% þar til hann endar í 0,075%;
  • vaxtabætur sem annars hefðu runnið til lántaka renni til sjóðsins, ljóst er að lán án niðurfærslu hefðu gefið lántaka hærri vaxtabætur en með niðurfærslu og mismunurinn fari því í að greiða niður sjóðinn án nokkurs kostnaðarauka fyrir ríkissjóð;
  • lífeyrissjóðirnir greiði eignarskatt af eignum sínum til að dekka það sem þá vantar upp á.

Árleg greiðsla af sjóðnum er áætluð innan við 15,2 milljarðar króna.

Annar kostnaður

Hver sem hefur vit á fjármálum sér að annar kostnaður getur verið við hugmyndina.  Sá kostnaður felst t.d. í töpuðum væntum tekjum, að vextir sem greiddir eru af afskriftarsjóðnum séu lægri en "markaðsvextir", að verðbætur eru ekki greiddar af sjóðnum o.s.frv.  Þessi kostnaður er raunverulegur að því marki að við gerum ráð fyrir áframhaldandi óstöðugleika og óbreyttu húsnæðislánakerfi.  Í Danmörku eru vextir af húsnæðislánum neikvæðir um þessar mundir.  Það þykir ekkert tiltökumál, þar sem það eru vextir yfir allan lánstímann sem skipta máli.

Von allra hér á landi er að stöðugleiki náist og verðbólga minnki.  Stærstu áhrifavaldar í verðbólguþróun eru fjármálafyrirtæki og lífeyrissjóðir.  Fjármálafyrirtæki sem lánveitendur stjórna framboði á lánsfé.  Þau geta því myndað bólur og haldið aftur af þeim.  Lífeyrissjóðirnir sem fjárfestar hafa mikil áhrif á ávöxtunarkröfu á markaði og framboð á fé til fjárfestinga.  Mikilvægt er því að þvinga þessa aðila til að taka þátt í að viðhalda stöðugleikanum.

En núverandi kröfuhafar þurfa ekki að verða fyrir þessum afleidda kostnaði verði farin leið "peningaprentunar", þ.e. ef Seðlabankinn verði látinn fjármagna sjóðinn að fullu í upphafi og eigi hann í reynd, en kröfuhafar fái í staðinn niðurfærsluna greidda að fullu við stofnun sjóðsins.  Þar sem sjóðurinn myndi krefjast afsláttar af kröfunum, þá þyrfti sjóðurinn ekki að vera eins hár án þess að endurgreiðslum væri raskað.  Þannig væri hægt að greiða eitthvað hærri vexti til Seðlabankans fyrir vikið.

Samtaka nú

Ég skora á þingmenn að koma upp úr pólitískum skotgröfum og fjalla um þessa tillögu Hreyfingarinnar án upphrópana.  Sumir geta örugglega ekki haldið aftur af sér og tala um að einhverjir sem ekki þurfi séu að fá niðurfærslu.  Við þessu er einföld lausn.  Bjóðum þeim sem ekki vilja eða telja sig ekki þurfa möguleika á að segja sig frá úrræðinu.

Ég reikna líka með því að upphefjist rammakvein frá forsvarsmönnum lífeyrissjóðanna, en það sem farið er fram á varðandi þátttöku þeirra er ekki einu sinni það sem skattgreiðendur gáfu þeim þegar Steingrímur J. Sigfússon veitti þeim 33,4 ma.kr. afslátt af svo kölluðum Avens-bréfum.  Sýnið karlmennsku og hættið að kvarta.  Við erum öll í þessu og þurfum öll að leggjast á árarnar til að komast út úr þessu.  Já, þetta skerðir árlega ávöxtun sjóðanna um á bilinu 0,07 - 0,14% sem vart telst há tala.  Gagnvart fjármálafyrirtækjum og eigendum HFF-bréfa (annarra en lífeyrissjóða), þá er þetta líka óveruleg skerðing á ávöxtun.  Í báðum tilfellum er gert ráð fyrir "peningaprentun" og greitt verði fyrir afskurðinn þegar hann verður framkvæmdur.

Tæknileg mál

Ég hef heyrt menn velta fyrir sér hvernig niðurfærslan verði framkvæmd, hvernig kröfur færist yfir í afskriftarsjóðinn og skattskyldu niðurfærslunnar.  Einfaldast er að framkvæma niðurfærsluna sem greiðslu inn á höfuðstól lánanna eða með skilmálabreytingu.  Hvorutveggja eru vel þekktar aðferðir og ætti því vart að vefjast fyrir nokkrum í framkvæmd.  Um leið og skuldir Íbúðalánasjóðs lækka, þá framkvæmir sjóðurinn sambærilega aðgerð á útlánum til heimilanna.

Eigi núverandi kröfuhafar eftir niðurfærsluna kröfu á afskriftarsjóðinn, þá er einfaldast og eðlilegast að sjóðurinn gefi út skuldabréfaflokk eða flokka sem afhentir verði kröfuhöfum í samræmi við upphæð kröfu þeirra.  Skuldabréfin geti eftir það gengið kaupum og sölum á markaði. Greiði sjóðurinn kröfuhöfum beint við yfirtöku, þá er það Seðlabankinn sem eignast skuldabréfin og getur selt þau á markaði.

Setja yrði lög um að niðurfærslan væri ekki skattskyld.  Lítið gagn er í því að lækka greiðslubyrði um 20% árlega, ef maður fær í hausinn himinn háa skattkröfu í staðinn.  Algjört skilyrði fyrir aðgerðinni er því skattleysi niðurfærslunnar.


mbl.is Leggja til almenna niðurfærslu lána
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta átti ekki að koma á óvart, en er skynsamlegt að draga að greiða?

Merkilegt að það komi stjórnvöldum og Seðlabanka Íslands á óvart að færa þurfi íslenskar eignir hrunbankanna yfir í erlendan gjaldmiðil.  Þetta hljómar pínulítið svoleiðis.

Héldu menn virkilega að þessir peningar myndu bara liggja inni á reikningum? 

Samantektin á innlendum eignum hrunbankanna í greinargerðinni með frumvarpinu um breytingu á lögum um gjaldeyrishöftin sýna að þær eru alls 1.166 ma.kr.  Inni í þeirri tölu er skuldabréf sem Landsbankinn þarf að greiða Landsbanka Íslands.  Af þessum 1.166 ma.kr. þarf að greiða erlendum kröfuhöfum 783 ma.kr., sem er "aðeins" 47% af vergri þjóðarframleiðslu.  Á móti kemur að erlendar eignir þrotabúanna nema 1.702 ma.kr. og menn hafa fengið út að 254 ma.kr. af þeirri upphæð renni til innlendra kröfuhafa.  (Af hverju draga menn ekki 254 ma.kr. frá 783 ma.kr. og segja einfaldlega að greiða þurfi 519 ma.kr. út úr landinu?)

Fyrir utan þessa upphæð er fleira misjafnlega þolinmótt fjármagn erlendra aðila sem vill líklegast úr landi á næstu árum.  Vegur þar náttúrulega þyngst endurgreiðslur á lánum frá AGS og öðrum sem lögðu til pening í gjaldeyrisvarasjóðinn.

Gjaldeyrisforði þjóðarinnar var 1.081 ma.kr. 31. janúar sl., þar af 957 ma.kr. í SDR körfu og 124 ma.kr. utan þessarar körfu.  (Samsetning körfunnar er ákveðin af AGS til 5 ára í senn.)  Strangt til tekið væri hægt að nota þessa peninga til að losa um gjaldeyrishöftin.  Slíkt hefði þó mikið rask í för með sér í formi gríðarlegrar gengislækkunar.  Spurningin er bara hvort það sé ekki nákvæmlega það sem við þurfum.

Ég lagði það til í nóvember 2008, að búinn yrði til tveggja vikna gluggi upp úr miðjum janúar 2009, þar sem öllum, sem vildu fara, yrði hleypt með fjármuni sína úr landi.  Skilyrðið væri bara að þeir yrðu að fara á því gengi sem þá væri í boði.  Síðan í lok tímabilsins yrði genginu handstýrt í sama gildi og það stóð í áður en glugginn opnaðist.  Ég held ennþá að þetta hefði verið góður kostur.  Eina sem þurfti að gera samhliða þessu var að taka úr sambandi verðtrygginguna, þannig að losun fjármagns úr landi kæmi ekki niður á skuldum heimilanna.  Ástæðan fyrir því að ég lagði til seinni hluta janúar var að þá er yfirleitt minnstur innflutningur til landsins.

En þetta var ekki gert og í staðinn erum við með gjaldeyrishöft þremur árum síðar, höfum látið eignir útlendinga hér á landi safna vöxtum sem í sumum tilfellum nema um og yfir þriðjungi af höfuðstóli skuldanna og höfuðstóll skuldanna er enn fastur.  Tær snilld!  Eftir því sem peningarnir eru fastir hér lengur á flottum vöxtum og með gjaldeyrishöftum, þá þurfa eigendur þeirra svo sem ekkert að kvarta.  Ef allt gengur upp og krónan styrkist, þá fá þeir fleiri evrur, dollara, pund, franka og jen fyrir krónurnar sínar, en ef því opnuðum allt upp á gátt og hleyptum þeim úr landi með gengisvísitöluna í 350.  Önnur aðferð er að nota grísku leiðina, þ.e. hleypa þeim út með helminginn gegn því að þeir felli hinn helminginn niður.

Höftin eru ekki að virka, eins og við viljum.  Viðurkennum það bara.  Afnemum þau með einu pennastriki, en kippum verðtryggingunni úr sambandi um leið.  Eina annað sem við getum gert er að taka upp aðra mynt og fá lán hjá viðkomandi seðlabanka svo hægt sé að skipta innlendum eignum erlendra kröfuhafa í nýju myntina.  Hugsanlega gætum við fiffað þetta sem rafpeninga, en það væri náttúrulega bara blekking.

Hvernig sem allt horfir við, þá verða gjaldeyrishöft hér þar til við tökum upp alþjóðlega viðurkennda mynt eða að viðskiptajöfnuður við útlönd helst lengi svo jákvæður, að hægt er að byggja upp góðan gjaldeyrisforða.  Ok, þar til við tökum upp alþjóðlega viðurkennda mynt, hvenær sem það verður.  (Gætum líka greitt AGS okurvexti á lánum frá sjóðnum í 20-30 ár og vonað hið besta.)


mbl.is Stoppa útgáfu skuldabréfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki hægt að bjarga bönkunum eftir 2005! Var reynt nógu mikið? Og erum við búin undir annað áfall?

Nú er fyrstu viku Landsdómsins lokið og heilmargt hefur verið sagt.  Menn segja sína sögu sem nánast alltaf er eitthvað stílfærð.  Af þeim framburðum sem ég hef komist í að kynna mér, þá held ég að aðeins ein manneskja hafi komið fyrir dóminn og sagt satt og rétt frá án stílfærslu, þ.e. hún sagði nákvæmlega frá hlutunum eins og þeir gerðust á hennar vakt.  Þessi manneskja er Sylvía Kristín Ólafsdóttir, fyrrverandi forstöðumaður viðbúnaðarsviðs Seðlabanka Íslands.  Allir aðrir framburðir segja, að mínu áliti, breytta sögu af því sem gerðist, oftast til að beina ábyrgðinni frá sér. 

Þessi færsla er þó ekki um hvernig menn kjósa að muna liðinn tíma.  Hún er heldur ekki um Landsdóm.  Og þess síður um kærur á hendur Geir.  Hún er um þann þvergirðingshátt sem fólst í því að grípa ekki til aðgerða til að lina fallið.  Hún er um þá sjálfsögðu kröfu til mikilvægra fyrirtækja og stofnana í þessu þjóðfélagi, að þau undirbúi sig fyrir hið "ófyrirséða".

Framburður Sylvíu

Mig langar að vitna í Sylvíu Kristínu Ólafsdóttur, eins og mbl.is hefur eftir henni:

Kem inn í SÍ eftir að míníkrísan 2006 kom til. Í nóvember 2007 gerðum við okkur grein fyrir þessari hættu. Vorum að gera lausafjárpróf og álagspróf. Stigmagnaðist eftir því sem fram leið á árið 2008.

Rijfar upp að það var gerð viðlagaæfing hjá stjórnvöldum 2007. „Það var talað um það þannig að við ættum að undirbúa okkur undir áfallið eins og það gæti gerst... Markaðsfjármögnunin var veikur punktur hjá bönkunum á þessum tíma. Markaðarnir voru þeim nær lokaðir.“

Kvaðst þekkja til starfa [samráðs]hópsins úr fjarlægð. Var kölluð til af fólki í fjármálaráðuneytinu og tók þátt í gerð sviðsmynda. Gerir ráð fyrir að þessi sviðsmyndagerð hafi ratað inn í samráðshópinn. Sagði þar hafa verið rædda valmöguleika sem væru tiltækir ef til fjármálaáfalls kæmi. „Það varð snemma ljóst að úrræðin og kostirnir voru fáir og enginn þeirra góður í raun og veru,“ sagði Sylvía Kristín. Sagði það svo hafa verið vilja sinn að til yrði kallaður aðgerðahópur því samráðshópurinn hafi frekar verið umræðuvettvangur. „En það var kannski auðveldara í orði en á borði að koma með hugmyndir á þessu stigi málsins.“

Kveðst ekki hafa litið á það sem hlutverk samráðshópsins að leggja fram viðbúnaðaráætlun. „Fyrst fannst mér það vanta... en svo sáum við að heimildir hans til slíks voru ekki til staðar.“

Segir að út frá störfum sínum hjá slökkviliðinu sé það ljóst að allt snúist ekki um viðlagaáætlun heldur frekar það að menn séu vanir að vinna saman. Lýsti svo yfir athugasemdum með að viðbragðsáætlun hefði skilað miklu.

Sigríður spurði út í viðbúnað við greiðslumiðlun og lýsti Sylvía Kristín þá því yfir að hún teldi að þrekvirki hefði verið unnið í Seðlabankanum við að tryggja hana í hruninu.

„Það voru allir komnir að borðinu eftir Glitnishelgina og þá er málið komið úr höndum Seðlabankans,“ sagði Sylvía Kristín um hina örlagaríku helgi.

Auðvitað veit ég ekkert hvort hún sé að segja alveg satt og rétt frá, en út frá mínum störfum á sama sviði, þá er lógík í hinum tilvísuðu orðum.

Greinilegar gloppur í ferlinu

Þegar farið er yfir framburð Sylvíu þá sjást vel gloppurnar sem virðast hafa verið í ferlinu.  Stærsta gloppan er:  Hvar voru bankarnir?

Já, Seðlabankinn og ráðuneytin voru í vinnu við að undirbúa hugsanlegt hrun fjármálakerfisins.  Byrjað var að vinna við þetta eftir "míníkrísuna" 2006, en hvers vegna var ekki gerð krafa um að bankarnir færu í svona vinnu á sama tíma.  Af hverju áttu stjórnvöld að undirbúa sig, en ekki bankarnir?

Svo vill til að ég á örlitla aðkomu að þessu máli frá hlið eins bankans.  Hún felst í því að haustið 2005 veitti ég Landsbanka Íslands hf. ráðgjöf á svið stjórnunar rekstrarsamfellu.  Vissulega sneri verkefnið til að byrja með að upplýsingatæknimálum og síðan að erlendum dótturfyrirtækjum og útibúum bankans, en hugmyndir voru uppi um að skoða innlenda starfsemi út frá því að tryggja samfeldan rekstur einstakra útibúa og þar með aðalbankans.  Búið var að safna miklum upplýsingum um erlendu starfsemina, þegar verkefninu var frestað vegna þess að önnur þóttu brýnni.  Þráðurinn var tekinn upp í ágúst 2008, en þá var einfaldlega of stuttur tími til stefnu.

Bankarnir voru ekki með

Ef Seðlabanki Íslands, Fjármálaeftirlit og stjórnvöld hefðu skikkað bankana út í sömu vinnu og Sylvía var ráðin til hjá Seðlabanka Íslands, þá er ég viss um að margt hefði farið á annan veg.  Ég held nefnilega að það sé algjört kjaftæði sem komið hefur fram í framburði mjög margra fyrir Landsdómi, að ekki hafi verið hægt að bjarga bönkunum.  Hvernig vogar fólk sér að segja þetta, þegar fyrirliggur hið augljósa:  Ekki var gerð nægilega alvarleg tilraun til þess og það sem mestu skiptir.  Bankarnir sjálfir voru ekki þátttakendur í þessari tilraun.

Þetta er náttúrulega alveg stórmerkilegt.  Hugmyndin er að bjarga fjármálakerfi landsins, en fjármálakerfið er ekki haft með í undirbúningnum svo nokkru nemur!  Það var nefnilega með í áætlun vegna fuglaflensu.

Hvaða vinna er í gangi núna?

Í ljósi sögunnar væri áhugavert að vita hvaða vinna við viðbragðsáætlanir er í gangi núna.  Ég tek eftir því að Sylvía Kristín Ólafsdóttir er flutt til Luxemborg.  Vona ég að einhver hafi tekið við keflinu af henni.  Um daginn kom út skýrsla almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra um ógnir og hættur auk yfirlits yfir áhættumat fyrir grunninnviði Íslands.  Að baki skýrslunni er örugglega heilmikil vinna sem ekki er ætluð almenningi, en aftur spyr ég:  Hvar eru fjármálafyrirtækin sjálf?

Fyrir um 30 mánuðum átti ég fund með Birnu Einarsdóttur vegna skulda heimilanna og stjórnun rekstrarsamfellu barst í tal.  Ég hvatti hana til að láta þau mál vera hluta af endurreisn bankans.  Þ.e. ekki endurreisa bankann nema fara strax í að skilgreina úrræði sem ættu að styrkja innviði bankans og koma í veg fyrir að sagan endurtæki sig.  Að hennar ósk sendi ég henni efni og vona að það hafi komið bankanum að einhverjum notum.

Um það leiti þegar Höskuldur H. Ólafsson tók við hjá Arion banka var ég á fullu að vinna m.a. neyðarhandbók fyrir VALITOR með viðbragðsáætlunum og síðan hafa bæst við endurreisnaráætlanir.  Ég veit því að Höskuldur er mjög meðvitaður um þessa hluti.  Sama á við um yfirmann áhættustýringar hjá bankanum, Gísla Óttarsson.  Ég vona bara að þeir hafi þetta nógu ofarlega á forgangslista hjá sér.

Landsbanki Íslands var eini bankinn sem var byrjaður á þessum málum fyrir hrun (svo ég best veit), en öryggisstjórinn þeirra þá er farinn til annarra verka.  Þekki ég ekki til hvernig þessum málum er háttað hjá þeim núna.  Aftur vona ég að þessi mál séu nógu ofarlega á lista hjá nýjum stjórnanda.

Búið ykkur fyrir hið "ófyrirséða"

Menn geta ekki leyft sér að fljóta aftur sofandi að feigðarósi.  Þó við fáum vonandi ekki sams konar hrun aftur, þá mun eitthvað annað áfall dynja yfir.  Spurningin er ekki hvort heldur hvenær.  Síðasta áfall kostaði eigendur, kröfuhafa og þjóðfélagið örugglega yfir 10.000 milljarða.  Hluta af þessu hefði mátt koma í veg fyrir með því að leggja innan við 100 milljónir í forvarnavinnu.  Það er ákaflega lítil upphæð miðað við tjónið sem hefði verið hægt að koma í veg fyrir.

Þetta á ekki bara við um bankana.  Hér á landi eru fjölmörg fyrirtæki og stofnanir sem eru þjóðhagslega mikilvæg.  Gera á þá afdráttarlausu kröfu til þeirra, að áhættustjórnun og stjórnun rekstrarsamfellu sé háttað þannig, að þau lifi af áföll og ekki bara það, að þau komist nokkuð klakklaust út úr öllum helstu áföllum sem yfir þau geta dunið.  Slíkt gerist ekki nema menn hafi unnið heimavinnuna.  Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra á ekki að sjá um þá vinnu fyrir þessi fyrirtæki og stofnanir.  Deildin á aftur að skilgreina úrræði og viðbrögð, ef áætlanir fyrirtækjanna og stofnananna reynast ekki fullnægjandi, t.d. ef áhrif af atburði eru hreinlega svo mikil að ekki er hægt að ætlast til þess að einstök fyrirtæki eða stofnanir ráði við afleiðingarnar. 

Svona að lokum.  Það er ekkert til sem heitir ófyrirséð.  Eingöngu atburðir sem við höfum ekki lagt okkur fram við að láta okkur detta í hug.  Atburðir geta verið óvæntir, ólíklegir og hvað það nú er sem dregur úr áhuga okkar að skoða þá, en ekkert er ófyrirsjáanlegt!  EKKERT!


Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.12.): 38
  • Sl. sólarhring: 67
  • Sl. viku: 346
  • Frá upphafi: 1680484

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband