Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008
20.7.2008 | 13:10
Nýr Listaháskóli - fleygur í götumynd Laugavegar
Ég var staddur í Búdapest fyrir rúmum mánuði, sem er svo sem ekki í frásögu færandi. Þrátt fyrir að Ungverjar séu hvorki snyrtipinnar né mikið fyrir viðhald húsa, þá mega þeir eiga eitt. Götumynd aðalgatna Búdapest er ekki hróflað. Við Blaha Lujza Tér á József körút (gata sem myndar hálfhring Pest megin við Dóná) standa yfir miklar framkvæmdir. Þar er m.a. verið að byggja nýtt hús. Búið er að rífa gamla húsið að öllu leiti nema einu. Framhlið hússins stendur!!! Það er nefnilega bannað að hrófla við götumyndinni og þá meina menn að það sé bannað. Sé bætt inn nýjum húsum eða að gamla húsið hefur verið það illa farið, að ekki hefur verið hægt að bjarga framhliðinni, þá verður nýja húsið að hafa framhlið sem fellur inn í gömlu götumyndina.
Nú liggur fyrir tillaga að nýjum Listaháskóla Íslands. Skólinn á að rísa í reit sem afmarkast af Hverfisgötu, Frakkastíg og Laugavegi. Á þessu svæði eru nýleg og gömul hús, sem öll hafa sitt svipmót. Mörg mega alveg missa sín, en önnur eru þess eðlis að mér finnst vera mikilvægt að varðveita þau þar sem þau eru. Ég held að það sé óhætt að segja, að tillaga +Arkitekta hunsi gjörsamlega götumynd þessara þriggja gatna. Það er kannski ekki mikið hægt að tala um heillega götumynd Hverfisgötu á þessu svæði, en bæði ofar og neðar eru glæsileg gömul hús sem sækja hefði mátt hugmyndir í. Sama gildir um Frakkastíginn. En Laugavegurinn hefur ákveðna ásýnd vestan Frakkastígs. Þar eru steinhús báðum megin við Laugaveginn sem eru í fallegum stíl. Þá ég að tala um hornhúsið sunnan megin við Laugaveg og síðan Vínberið, þ.e. þar sem matvöruverslunin er.
Ég verð að viðurkenna, að mér finnst það furðulegt hjá þeirri menntastofnun, sem er (vonandi) að kenna um byggingasögu og byggingalist að virða ekki byggingasögu svæðisins sem hún ætlar að flytja á. Tillag +Arkitekta er glæsileg bygging, en hún á ekki heima á þessum stað. Hún á heima þar sem eru opin svæði allt í kring, þannig að útlit byggingarinnar njóti sín í heild, en ekki í grónu hverfi þar sem hún verður sem fleygur í götumyndina. Þar sem hún verður minnismerki um það hvernig ekki á að gera hlutina. Það sem meira er. Verði reist hús samkvæmt þessari tillögu á þessum stað, er endanlega búið að koma í veg fyrir að hægt sé að varðveita götumynd Laugavegar. Þessi hugmynd er þess furðulegri að ofar á Laugavegi er nýbúið að fjarlægja gamalt hús til að byggja nýtt og framhlið nýja hússins á að vera eins og framhlið gamla hússins í útliti. Þar er farin ungverskaleiðin og arfleifðin varðveitt. Eiga arkitektar og byggingaraðilar þess húss heiður skilið fyrir þetta.
Hvað varðar tillögu að nýjum Listaháskóla, þá er hún (þrátt fyrir að vera mjög glæsileg bygging) eins og illa gerður hlutur í götumynd Laugavegar, Frakkastígs og Hverfisgötu. Svona framúrstefnubygging á ekki heima á þessu svæði. Fyrir utan að hún mun aldrei njóta sín. Arfleifð hennar (verði hún reist) verður svipuð og Morgunblaðshallarinnar í Aðalstræti, þ.e. komandi kynslóðir munu furða sig á tillitsleysi Listaháskólans við umhverfi sitt. Það hlýtur að vera hægt að laga útlit byggingarinnar að umhverfinu. (Það er ekki einu sinni hægt að segja "laga betur að umhverfinu", þar sem útlit hennar sækir nákvæmlega ekkert í umhverfi sitt.) Það hlýtur að vera hægt að ná markmiðum byggingarinnar með ytra útlit sem lagar sig betur að umhverfinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
18.7.2008 | 15:12
Samstarfsamningur við IT Governance Ltd.
Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta hefur gert samstarfssamning við breska fyrirtækið IT Governance Ltd. Til að byrja með mun samstarfið snúast um kynningu og sölu á efni, bókum og tólum sem IT Governance Ltd. hefur til sölu á vefsvæði sínu www.itgovernance.co.uk. En innan fárra vikna mun Betri ákvörðun tengjast ráðgjafaneti IT Governance, þannig að Betri ákvörðun hefur aðgang að ráðgjöfum IT Governance og mun einnig sinna ráðgjöf fyrir IT Governance hvort heldur hér á landi eða erlendis.
IT Governance Ltd. býður upp á fjölbreytta þjónustu tengda stjórnun upplýsingatækni. Fyrirtækið gefur sig út fyrir að vera staðurinn til að heimsækja þegar kemur að stjórnun upplýsingatækni. Þjónustuframboð fyrirtækisins er mjög miki, en grunnurinn er upplýsingagjöf, bóksala og vefverslun, ráðgjöf og námskeið. Fyrirtækið heldur auk vefsetursins www.itgovernance.co.uk úti vefsetrinu www.27001.com sem sérhæfir sig, eins og nafnið gefur til kynni, í efni tengt upplýsingaöryggisstaðlinum ISO 27001 og fylgi stöðlum hans.
Ég hef undanfarna mánuði verið að leita leiða til að styrkja og víkka út starfsemi Betri ákvörðunar. Ég er mjög ánægður með að hafa náð þessum áfanga og vona að það megi verða til þess að ég geti veitt fyrirtækjum og stofnunum ráðgjöf á víðara sviði en hingað til. Einnig er markmiði með samningnum að tryggja aðgang að neti ráðgjafa út um allan heim til að sinna verkefnum fyrir viðskiptavini sem eru með starfsemi utan landsteinanna.
Óski einhverjir eftir nánari upplýsingum um þetta mál, þá má hafa samband við mig með því að hringja í síma 898-6019 eða senda tölvupóst á oryggi@internet.is.
Marinó G. Njálsson
Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.7.2008 | 18:51
Olíuverð í frjálsu falli - loksins
Hráolía (Crude oil) hefur lækkað skarpt í dag. Þegar þetta er ritað kl. 18:45 stendur tunnan í rétt um USD 129,5 og hefur því lækkað um rúmlega 5 USD frá opnun í dag. En breytingin hefur ekki bara verið niður á við, því hæst fór tunna í tæplega USD 138. Nú er bara að sjá hvernig dagurinn endar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.7.2008 | 17:05
Hversu oft hefur mátt horfa upp á krónuna veikjast verulega í lok dags?
Ég hef tekið eftir því ansi oft að gengið hefur styrkst fyrri hluta dags, en síðan snýst allt í öfuga átt síðasta klukkutímann fyrir lokun markaðar. Ég hef svo sem ekki gert neina greiningu á þessu og hugsanlega tek ég bara eftir því þegar færslan er í "vitlausa átt" miðað við það sem ég hef verið að vonast eftir. Kannski er minni mitt bara svona valkvætt og vill ekki kannast við breytinguna í hina áttina, þ.e. þegar gengið styrkist verulega í lok viðskiptadags
Í dag styrktist krónan um allt að 1,2%, en hékk mest allan tímann í kringum 0,5% (miðað við stundargengi Glitnis). Síðan gerist eitthvað og hún lækkaði um 1,5% á 20 mínútum eða svo rétt um 1 klst. fyrir lokun markaðar. Hreyfingarnar voru mjög svipaðar í gær, þó ekki jafn skarpar. Hvað gerðist þessa tvo daga sem verður þess valdandi að sveiflurnar eru andhverfar? Kemur einhver til vinnu milli 2 og 3 sem hefur svona áhrif eða er þetta sá tími þegar tilkynningar eru gefnar út?
Krónan veiktist um 0,9% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.7.2008 | 02:21
Matsfyrirtækin fá ákúru frá SEC og ESB
Ég var að fletta í gegnum fréttir á FT.com og rakst þar á nokkrar um gagnrýni á matsfyrirtækin. Ég gagnrýndi þau í bloggi mínu í vor og taldi þau ábyrg fyrir hluta þess vanda sem fjármálakerfi heimsins er komið í. Nú virðist sem bæði ESB og SEC (fjármálaeftirlitið í Bandaríkjunum) séu komin á sömu skoðun. Og ekki bara það. SEC telur að matsfyrirtækin hafi orðið uppvís að alvarlegum hagsmunaárekstrum, þegar þau voru m.a. að meta skuldabréf sem tryggð voru með undirmálslánum og öðrum eignum.
SEC ákvað í síðasta mánuði að sækja matsfyrirtækin heim, m.a. í framhaldi af því að Moody's varð uppvíst af villu í forriti sem fyrirtækið dró að greina frá. (Sjá blogg mitt: Ætli þetta sé það eina sem Moody's hefur að óttast? frá 21.5.2008.) Það kemur sem sagt í ljós að matsfyrirtækin höfðu eitthvað meira að óttast. Ég hef tvisvar velt því fyrir mér hér hvort matsfyrirtækin séu traustsins verð (sjá blogg frá 3.4.2008 og 23.4.2008) og komst að þeirri niðurstöðu að svo væri ekki. Það hafa greinilega fleiri verið í vafa og því hóf SEC, samkvæmt frétt FT.com, rannsókn sína.
Niðurstöður SEC eru skýrar, að sögn FT.com. Fyrst er að nefna, að matsfyrirtækin gættu þess ekki að viðhalda eðlilegum aðskilnaði ábyrgðahlutverka, þar sem starfsmenn sem séð hafa um að meta verðbréf vinna oft undir stjórn þeirra sem sjá um rekstur fyrirtækjanna. Þetta þykir varhugavert, þar sem fyrirtækin fá þóknun fyrir að meta verðbréf og því er hætta á að greinendur gefi ekki hlutlaust mat, ef yfirmaðurinn á í fjárhagslegum samskiptum við viðkomandi aðila. Christopher Cox, stjórnarformaður SEC, segir að vandamálin hafi verið alvarleg og nefndi dæmi um sömu aðilarnir hafi verið í því að krækja í viðskiptin, semja um verð og sinna greiningu. Ekki bara það, greinendur voru yfirhlaðnir verkefnum sem varð til þess að menn styttu sér leiðir og viku frá líkönum. Niðurstaðan af öllu þessu er að SEC hefur ákveðið að matsfyrirtækin munu framvegis falla undir eftirlit stofnunarinnar.
ESB ætlar líka að breyta sínum reglum og er fyrsta skref að krefjast þess að matsfyrirtækin sæki um skráningu og fella þau undir eftirlit fjármálaeftirlita. Ástæðan er að innra eftirlit fyrirtækjanna hefur reynst óviðunandi. Eru menn innan stjórnkerfis ESB almennt sammála því að matsfyrirtækin beri sinn hluta af ábyrgðinni á lánakreppunni, með því að vandmeta verulega áhættu í tengslum við fjármálavafninga. ESB gerir ráð fyrir að nýja regluverkið verði lagt fyrir forsætisnefnd ESB og Evrópuþingið í október. Líkt og SEC, hefur ESB áhyggjur af hagsmunaárekstrum innan matsfyrirtækjanna, þar sem viðskiptamódel þeirra byggir á tekjum frá þeim sem fyrirtækin eru að meta.
Ólíklegt er að eitthvað regluverk geti bætt fyrir það klúður sem þegar hefur orðið og það mun örugglega ekki rétt af efnahag heimsins. Það sem furðar mig mest í þessari umræðu, er að matsfyrirtækin hafi verið svo vitlaus (það er ekki hægt að nota neitt annað orð) að halda, ef marka má frétt FT.com, að sami aðili gæti bæði verið að meta verðbréf og sjá um samninga við útgefendur. Það er eins og þessir aðilar hafi aldrei heyrt um Basel II, Sarbanes-Oxley eða MiFID en þessi regluverk eru yfirhlaðin kvöðum um aðskilnað ábyrgðarhlutverka, rekjanleika aðgerða og gagnsæi.
Ég verð að viðurkenna, að því meira sem ég les um starfsreglur matsfyrirtækjanna og rekstrarfyrirkomulag er ég sannfærðari um þá skoðun mína, að fyrirtækin bera mikla ábyrgð á fjármálakreppunni og hafa í senn sýnt ótrúlegan hroka og vanhæfni með því að viðhalda ekki faglegum aðskilnaði milli rekstrarhluta fyrirtækjanna og matshluta þeirra. Bara þetta eitt ætti að duga til þess að hvaða aðili sem er, sem tapað hefur peningum á ráðgjöf þeirra, ætti að geta sótt skaðann til þeirra að fullu. Ég sagði í bloggi mínu 3. apríl sl. að ,,[m]ér þætti a.m.k. athyglisvert að sjá hvað gerðist, ef Askar Capital reyndi að sækja tjón sitt á hendur S&P, þar sem það þarf engan snilling til að sjá að undirmálslánin voru lélegir og áhættusamir pappírar, en ekki einföld og örugg leið til að geyma peninga í stutta stund." Sýnist mér sem Askar Capital hafi bæst vopn í safnið með þeim upplýsingum sem hér er verið að fjalla um. Skoðun SEC leiddi nefnilega í ljós að fjölmörgum tilfellum er líklegast ekki hægt að treysta mati sem frá þessum fyrirtækjum hefur komið undanfarin ár, þar sem ýmist voru starfsreglur sniðgengnar, faglegum aðskilnaði var ábótavant og hugsanlega var starfsfólk beitt beinum eða óbeinum þrýstingi til að meta verðbréf og fyrirtæki á annan hátt en annars hefði verið vegna fjárhagslegra tengsla við þá aðila sem áttu í hlut. Vissulega eiga fyrirtæki ekki að taka skori matsfyrirtækjanna gagnrýnilaust, en þetta hafa hingað til verið tól sem hafin hafa verið yfir gagnrýni og vart fyrir almenna starfsmenn fjármálafyrirtækja að efast um áreiðanleika þeirra.
Segja má að kaldhæðnin í þessu öllu er, að í Basel II reglunum, þar sem fjallað er um áhættustuðul vegna eiginfjárkröfu, er treyst á ákvarðanir matsfyrirtækjanna um fjárhagslegan styrk fyrirtækja og áreiðanleika verðbréfa. Færa má rök fyrir því að þetta kerfi sé núna illa laskað, þar sem endurskoða þarf þær einkunnir, sem komið hafa frá matsfyrirtækjunum undanfarin ár, í þeim tilfellum sem minnsti grunur leikur á því að matið hafi ekki verið hlutlaust, að starfsreglur hafi verið brotnar eða að aðskilnaður ábyrgðarhlutverka hafi ekki verið tryggður. Þetta getur haft gríðarleg áhrif á lánshæfismat og mat á fjárhagslegum styrkleika fjármálafyrirtækja um allan heim, þar sem áhættulíkön flestra þessara fyrirtækja byggja á því að inn í þau fari traustar og áreiðanlegar einkunnir matsfyrirtækjanna. Ástæðan fyrir því að ég sagði ,,kaldhæðni" er að Basel II reglunum var ætlað að bæta áhættustýringu fjármálafyrirtækja en hafa í reynd (a.m.k. tímabundið) snúist upp í andhverfu sína. Fjármálafyrirtæki, sem gert var að treysta matsfyrirtækjunum, hafa nú tapað hundruðum milljörðum Bandaríkjadala á því að hafa fylgt fyrirmælum. Ég ætla ekki að kenna Basel II reglunum um, en þarna sannast hið fornkveðna: Þegar gölluð gögn eru notuð má búast við gölluðum niðurstöðum eða ,,rubbish in - rubbish out".
Viðbót 17.7. kl. 13:15:
Við þetta má bæta ESB er að íhuga aðgerð sem ekki getur talist neitt annað en íhlutun í Basel II regluverkið, sbr. frétt í Viðskiptablaðinu frá 11.7. Áhættukostnaður við söfnun og sundrungu aukinn. Ekki er hægt að skilja þessa frétt á annan hátt, en að ESB sé ekki sátt við áhættustjórnunarreglur Basel II. Það má alveg færa rök fyrir því að Basel nefndin hafi farið of geyst í lækkun áhættustuðla og það hafi á einhvern hátt komið þessari atburðarrás af stað. Allt í einu þurftu matsfyrirtækin að meta alls konar gjörninga, vafninga og hvað þetta allt nú er kallað, án þess að hafa mannskap, þekkingu eða tækni til að fást við umfangið og flækjurnar. Með þessu varð til samkeppni milli matsfyrirtækjanna um það hvert yrði fyrst að meta tiltekin bréf/pakka/fyrirtæki og því höfðu menn ekki tíma til að vanda sig eins vel og þörf var á. Ég hef svo sem áður sagt að uppsprettu fjármálakreppunnar væri að finna í Basel og nú sýnist mér ESB vera sama sinnis.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.7.2008 | 12:28
Orðrómur gerir menn taugaveiklaða
Það er grein í Markaðnum í dag, þar sem Christopher Cox, forstjóri bandaríska fjármálaeftirlitsins, er með sams konar vangaveltur um tilraunir skortsala til að hafa áhrif á fjármálamarkaði með því að dreifa órökstuddum orðrómi og FME er að rannsaka hér. Líkt og hér á landi, þá sjá menn að einstök fyrirtæki hafa verið valin úr fjöldanum og neikvæðum orðrómi dreift um þau. Fall Bear Stearns og Lehman Brothers er, t.d., rakið að einhverju leiti til falskra sögusagna, sama á við versnandi stöðu húsnæðislánasjóðanna Fannie Mae, Freddie Mac og Washington Mutal.
Líkt og með íslensku bankana, þá bar Bear Stearns ítrekað til baka sögusagnir um slæma stöðu bankans, en með því að sá fræjum tortryggni tókst þeim sem héldu sögusögnunum á lofti að grafa það mikið undan trausti lánveitenda Bear Stearns á millibankamarkaði, að bankinn hætti að fá peninga að láni. Þetta hljómar kunnuglega fyrir okkur Íslendinga og er mjög svipað "atlögu" spákaupmanna á íslenska bankamarkaðinn.
Svona sjálfsuppfyllandi spádómum virðist fara fjölgandi á fjármálamarkaðinum. Fjöldinn allur af greinendum er togaður fram á sjónarsviðið af fréttamiðlum til að fjalla um órökstuddan orðróm sem birtur var á slúðursíðu einhvers vefmiðils eða bara í bloggi ónafngreinds bloggara. Menn eru orðnir svo hræddir um að lenda í næsta Enron eða WorldCom, að fyrirtæki sem eru í góðum rekstri þurfa að verjast orðrómi með oddi og egg og jafnvel það dugar ekki alltaf til. Að þessu leiti hefur hinn lifandi fréttaflutningur á Internetinu mjög neikvæð áhrif, þar sem auðvelt er að henda inn orðrómi sem athugasemd við blogg hjá trúverðugum sérfræðingi og áður en klukkutími er liðinn, er CNBC eða FT.com búin að birta þetta. Svo eru kallaðir til sérfræðingar virtra fyrirtækja til að fjalla óundirbúið um slúðrið án þess að vita að það er ekki flugufótur fyrir fréttinni. Minnugir þess að Enron hófst með svona "frétt", þá þora menn ekki annað en að trúa "fréttinni" og gefa henni því ósjálfrátt trúverðugleika. Boltinn er farinn að rúlla og nú er sko eins gott að varnirnar séu í lagi.
Því miður er sá tími liðinn, að menn geti beðið af sér storminn. Taka verður strax af festu á svona orðrómi, því eðli Internetsins er einfaldlega þannig, að efni sem þangað fer inn verður þar löngu eftir að frumheimildin er horfin. Jafnvel þótt leiðrétting sé birt eða hin ranga frétt lagfærð, þá hangir upprunalegi textinn inni á ólíklegustu stöðum og getur skotið upp kollinum fyrirvaralaust í fréttaskýringu, greiningarskýrslu eða sem rökstuðningur með annarri órökstuddri staðhæfingu.
En hvað er til ráða? Christopher Cox forstjóri SEC telur að eina leiðin til að ráðast gegn þessum vanda sé meiri upplýsingagjöf fjármálafyrirtækja og vandaðri fréttaflutningur. Vandamálið er aftur að brennt barn forðast eldinn. Enron og WorldCom hneykslin eru enn fersk í minnum manna. Það er gjarnan sagt, að þar sem er reykur, þar er eldur. Allir eru að reyna að verða næsti "whistle blower" og komast þannig á forsíðu Time eða að forðast að verða næsti Arthur Andersen (endurskoðandi Enron sem hjálpaði Enron við að eyða sönnunargögnum). Taugaveiklunin er því alls ráðandi og þetta ástand eru skortsalar og vogunarsjóðir að nýta sér, hugsanlega með hjálp tilhæfulausra frétta um bága stöðu fyrirtækja. Hver sem uppruni slúðursins er, þá er komin í gang hringekja slúðurs og sögusagna sem erfitt verður að stoppa.
Þessu óskylt, en samt ekki. Það er eitt sem ég hef alltaf furðað mig á varðandi verðbreytingar á markaði: Það er hve lítið magn/fjárhæð í viðskiptum getur haft mikil áhrif. Kannski er þetta einfeldni í mér, en mér hefur alltaf þótt óeðlilegt að viðskipti með hlutfallslega lítið magn af bréfum eða olíu á gengi sem er á skjön við gengi í stærri viðskiptum getur gert það að verkum að verðið hækkar eða lækkar. Menn geta verið með kauptilboð inni upp á segjum 100 hluti á verði sem er mun hærra en flestra annarra og þar sem þessu tilboði er að sjálfsögðu tekið, þá er markaðsverðmæti viðkomandi fyrirtækis skyndilega orðið mun hærra en það var áður. Þetta er vel þekkt aðferð við að hafa áhrif á verðmyndun. Aðili með mikið magn bréfa sem þarf að selja, gæti þannig sett fram (dæmigert í gegnum þriðja aðila) óeðlilega hátt kauptilboð á litlu magni í þeirri von að aðrir fylgi á eftir. Síðan er allur pakkinn seldur á hærra gengi með verulegum hagnaði. Vissulega gengur þetta ekki alltaf upp, en taki nokkrir aðilar sig saman, þá getur verið mjög auðvelt að ráðskast með verð á markaði þar sem taugaveiklun ríkir, t.d. bólumarkaði. Olíumarkaðurinn er skýrt dæmi um þetta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.7.2008 | 00:42
Áhrif lánakreppunnar á sjóðsstjóra
Ég var að fá í tölvupósti skýrslu sem tekin var saman af KPMG um áhrif lánakreppunnar (credit crisis) á sjóðsstjóra fjárfestingasjóða (fund managers). Skýrslan er unnum upp út svörum 333 stjórnenda frá 57 löndum, m.a. Íslandi, og viðtölum við 16 forstjóra. Hún er því talin gefa nokkuð góða mynd af því hvað stjórnendur telja vera afleiðingar lánakreppunnar á fjárfestingar og fjárfestingasjóði. Svarendur voru alls staðar af úr heiminum, þó flestir eða 31% séu frá Norður-Ameríku. Þá voru 29% svarenda frá Vestur-Evrópu, 23% frá Asíu/Kyrrahafssvæðinu og 17% annars staðar frá.
Helstu niðurstöður skýrslunnar eru:
- Fjárfestar hafa ekki lengur áhuga á að nota flókin tól við fjárfestingaákvarðanir
- Sjóðsstjórar hafa glatað trausti vegna lánakreppunnar, þó ekki jafnmikið og bankageirinn
- Menn hafa áhyggjur af skorti á hæfu og reyndu starfsfólki
- Áhættustjórnun, matsaðferðir og stjórnskipulag er í uppnámi
- Sjóðsstjórar þurfa, ef þeir ætla að ná árangri í framtíðinni, að huga betur að uppástungum viðskiptavinanna
Annars er forvitnilegt að sjá, að fyrirtæki ætla á næstunni að efla áhættustjórnun (75%), rannsóknir (49%), rekstrar- og áhættuhlítingu (operational and risk compliance) (45%) og áreiðanleikaprófanir á sjóðum/tólum (due diligence on funds/instruments) (43%). Svo er bara að sjá hvort þetta verði til þess að fyrirtæki styrkist og sjóðir aukist eða hvort eitthvað annað stjórni verðmæti sjóðanna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.7.2008 | 12:36
Evra eða ekki, það er spurningin.
Mér finnst þessi umræða um evru eða krónu vera á villugötum. Ég tek undir með þeim sem segja að krónan sé ekki nógu sterkur gjaldmiðill til að vera sjálfstæð, þ.e. án tenginga við aðra gjaldmiðla. Þetta sjáum við bara á sveiflum á gengi krónunnar síðustu 7 ár eða svo, frá því að hún var sett á flot og verðbólgumarkmið voru tekin upp. Það má svo sem leita orsaka fyrir því að krónan er svona óstöðug, en þessi pistill á ekki að fjalla um það.
Mér finnst Seðlabankinn og ríkisstjórn standa frammi fyrir velja milli þriggja meginleiða og síðan hefur hver og einn þeirra sína undirleiðir, ef svo má að orði komast. Meginleiðirnar eru:
- Halda krónunni áfram á floti líkt og verið hefur undanfarin 7 ár.
- Tengja krónuna við einhverja myntkröfu líkt og gert var áður en krónan var sett á flot og láta krónuna fljóta innan tiltekinna vikmarka.
- Kasta krónunni og taka upp einhverja aðra mynt.
Það eru ekki aðrir möguleikar í myndinni. En til að geta ákveðið hvaða leið er heppilegust, er nauðsynlegt að skoða kosti og galla hverrar leiðar og ekki síður skoða hvaða undirleiðir hver og ein meginleið býður upp á.
1. Halda krónunni áfram á floti líkt og hefur verið undanfarin 7 ár.
Þessi leið virðist vera fullreynd. Íslenska hagkerfi virðist ekki nógu stórt til að geta haldið krónunni stöðugri. Hagsveiflur eru miklar og virðist óstöðugleiki krónunnar vega þar þungt. Til þess að þessi leið gangi þá virðist þurfa verulega uppstokkun í peningamálastjórnun Seðlabankans og hugsanlega breytt viðhorf þeirra sem versla með krónuna á millibankamarkaði.
2. Tengja krónuna við einhverja myntkröfu líkt og gert var áður en krónan var sett á flot og láta krónuna fljóta innan tiltekinna vikmarka.
Þessi aðferð var notuð hér á landi allt til ársins 2001. Hún hafði í för með sér gengisfellingu á nokkurra ára fresti eða í hvert sinn sem einhver brestur varð í fiskveiðum. Nú hafa þær breytingar orðið á hagkerfinu að stóriðja er orðin stærri í gjaldeyrisöflun en sjávarútvegur, fjármálageirinn hefur stækkað mikið og ferðaþjónustan er stærri en nokkru sinni fyrr. Hugsanlega er því hægt að taka aftur upp tengingu við myntkröfu, en spurningin er bara hvaða myntir, í hvaða hlutföllum, hvaða vikmörk á að nota, hvenær ætti að taka um slíka tengingu og hvaða ferli ætti að nota til að ákveða breytingar á hlutföllum og vikmörkum. Seðlabankinn ætti að geta nýtt almenn hagstjórnartæki áfram, svo sem verðbólgumarkmið og stýrivexti, en landsmenn yrðu að vera undir það búnir að gengið héldi áfram að sveiflast, þó þær sveiflur yrðu líklegast ekki eins miklar og áður.
3. Kasta krónunni og taka upp einhverja aðra mynt.
Þetta er sú leið sem flestir tala um og halla flestir sér að evrunni. Hér eru mörg vafamál. Fyrsta er spurningin um hvaða mynt ættum við taka upp. Evran er ekki sjálfsagður kostur af þeirri einföldu ástæðu að til að fá inngöngu í myntbandalagið, þá þurfa innviðir hagkerfisins að vera í lagi. Aðrir kostir sem hafa verið nefndir eru norska krónan, svissneski frankinn og Bandaríkja dalur. Hugsanlega eru aðrir kostir og þá þarf alla að gaumgæfa áður en menn festa sig á eina mynt. Við gætum alveg eins tekið upp Kanada dal eða þann ástralska, ekki má heldur útiloka breska pundið og því ekki rússneska rúblu? Það má ekki taka ákvörðun um þetta byggða á því að evrukórinn er háværastur. Lykilatriði í þessu máli er síðan tímasetningin. Tímasetningin hlýtur að taka mið af stöðu krónunnar gagnvart þeirri mynt sem um ræðir. Er evra upp á 110 kr. heppileg eða teljum við að 100 kr. gefi réttari mynd eða 120 kr.? Ef það er svissneski frankinn viljum við sjá hann í 55 kr., 65 kr. eða 75 kr.? Ákvörðun um skipta um mynt verður ekki tekin nema seðlabanki viðkomandi lands samþykki það. Það eru því fullt af álitamálum sem verður að greiða úr áður en hægt er að taka þessa ákvörðun.
Hvað sem verður gert, þá þarf að fara í umfangsmikla vinnu við að greina kosti og galla hverrar leiðar fyrir sig. Þessa vinnu þarf að hefja án tafar og ráða til verksins fagmenn með þekkingu á svona ákvörðunarferli og fá í vinnu hagfræðinga og fulltrúa helstu hagsmunaaðila. Það þýðir ekki að velja einn kost vegna þess að flestir vilji hann. Valið verður að vera byggt á vandlegri greiningu og áhættumati og að fengnum nauðsynlegu samþykki seðlabanka viðkomandi lands/landa. Lykilatriðið er að mínu mati tímasetningin. Ég held að ekki verði hægt að fastsetja einhverja dagsetningu. Betra sé að miða við eitthvað tímabil (1 - 2 mánuði) og velja gengi innan þess tíma, þegar sæmilegt jafnvægi er komið á gengið. T.d. að flökt á 1 - 2 vikna tímabili mætti ekki vera meira en 0,5% (eða 1%). Þetta þyrfti náttúrulega að útfæra nánar.
Sem sérmenntaður á sviði ákvörðunargreiningar (e. decision analysis), þá veit ég að góð ákvörðun verður ekki tekin nema undirvinnan sé góð. Ég veit það líka að góð ákvörðun tryggir ekki góða útkoma, hún eykur bara líkurnar á henni. Eins og ég lýsi þessu viðfangsefni að ofan, þá sýnist mér að leysa megi það með hjálp ákvörðunargreiningar.
Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar veitir ráðgjöf á sviði ákvörðunargreiningar og áhættustjórnunar. Hægt er að óska eftir nánari upplýsingum með því að senda tölvupóst á oryggi@internet.is.
Ríkisstjórnin ræði evrumál við ESB | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
13.7.2008 | 23:13
Rangárvellir undir Eyjafjöllum!
Það er grein í Morgunblaðinu í dag undir fyrirsögninni Völvan í höllinni. Þar er talað við Guðrúnu Hjörleifsdóttur, en hún dvelur um þessar mundir sem ráðskona í húsi bróður míns og mágkonu að Lambafelli undir Eyjafjöllum. Þetta er áhugaverð grein og vil ég benda fólki á að lesa hana, þó ekki væri fyrir annað en að Guðrún les í tarotspil um efnahagsástand næstu mánuði. Mig langar að gera eina athugasemd við þessa annars ágætu grein Guðrúnar Guðlaugsdóttur. Hún segir á einum stað: ,,Lambafell er miðsvæðis á Rangárvöllum.." Þetta er náttúrulega ekki rétt, þar sem Rangárvellir er eins segir á vefnum South.is:
Sveit milli Rangánna, auk þess sem nokkrir bæir austan Eystri-Rangár og sunnan Þverár teljast til Rangárvalla. Sveitin er öll flatlend og hækkar lítið fyrr en kemur upp fyrir byggðina. Efri hluti Rangárvalla er þakinn samfelldri hraunbreiðu sem að mestu er blásin og sandorpin.
Samkvæmt þessu ná Rangárvelli frá Ytri-Rangá, sem m.a. rennur framhjá Hellu, að Eystri-Rangá, þar sem veiðihús og hótel eru rétt hjá þjóðveginum og síðan norður eftir í átt að Heklu. Ég kann nú ekki að nefna allar sveitirnar sem eru austan Rangárvalla, en ég þekki þó Landeyjar og Fljótshlíð. Landeyjar liggja að Eyjafjöllum, en Eyjafjöll eru (samkvæmt South.is):
Sveitin undir Eyjafjöllum. Liggur hún sunnan og vestan undir fjallgarðinum. Þar er marflöt slétta frá sjó og upp að snarbrattri hamrahlíð og hefur það land allt fyrr verið undir sjó. Markarfljót rennur fram um vestanverð Eyjafjöll. Hólmabæir eru vestan þess...Sveitin skiptist skammt austan við bæinn Varmahlíð í Vestur- og Austur- Eyjafjöll.
Ef mig misminnir ekki, þá eru mörkin milli Vestur- og Austur-Eyjafjalla áður en komið er að Ásólfsskála. Lambafell er svo í næsta dal fyrir austan Ásólfsskála, þannig að Lambafell er ekki bara í Eyjafjallasveit, heldur heyrir bærinn undir Austur-Eyjafjöll og er líklegast um 40 kílómetra fyrir austan eystri mörk Rangárvalla. Það er því viss bjarnargreiði að fjalla um þetta fallega hús að Lambafelli, en staðsetja það síðan í kolrangri sveit. En bara fyrir þá sem hafa áhuga á Lambafelli, þá er bærinn rétt austan við Þorvaldseyri og beygt af þjóðvegi nr. 1 á sama stað og ekið er að Seljavallalaug.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.7.2008 | 13:14
Hvaða reglur gilda á þínum vinnustað?
Þessi umfjöllun um hvað Guðmundur Þóroddsson, fyrrverandi forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur (OR), tók eða tók ekki með sér snýr að mínu sérsviði, þ.e. stjórnun upplýsingaöryggis. Í stöðlunum ISO 27001 og ISO 27002, sem eru kjarnastaðlar um stjórnun upplýsingaöryggis, er skilgreint hvaða reglur þurfa að vera til staðar til að taka á atvikum svipuðum þeim sem hér um ræðir. Mér vitanlega þá hefur OR innleit stjórnkerfi upplýsingaöryggis samkvæmt ISO 27001 og því tel ég líklegast að reglurnar séu til hjá fyrirtækinu án þess að vita hvað í þeim stendur. Það sem kemur hér fyrir neðan er því á engan hátt tilvísun til fyrirkomulags hjá OR, heldur almennar leiðbeiningar til fyrirtækja og stofnana um hvað staðlarnir segja um þetta.
Fyrir þá sem ekki vita, þá er ISO 27001 kröfustaðall og sá sem vottun fært gagnvart, meðan ISO 27002 inniheldur leiðbeinandi bestu starfsvenjur. Ég mun því vitna í kröfur ISO 27001, eins og þær eru birtar í viðauka A í staðlinum. Greinarnúmer í ISO 27002 eru þau sömu og í ISO 27001 að undanskyldu "A.".
A.6.1.5 Trúnaðarsamningur: Bera [skal] kennsl á og rýna með reglubundnum hætti kröfur um samninga um trúnað eða þagnarskyldu sem spegla þarfir fyrirtækisins fyrir verndun upplýsinga.
A.7.1.1 Eignaskrá: Bera [skal] kennsl á allar eignir með skýrum hætti og gera skrá yfir mikilvægar eignir og viðhalda henni.
A.7.1.3 Ásættanleg notkun eigna: Setja [skal] reglur, skjalfesta þær og innleiða um ásættanlega notkun upplýsinga og eigna...
A.7.2.1 Leiðbeiningar um flokkun: Upplýsingar [skal] flokka með tilliti til verðmætis, réttarfarsákvæða, viðkvæmni og mikilvægis fyrir fyrirtækið.
A.8.1.3 Ráðningarskilmálar: Sem hluta af samningsbundinni skyldu sinni [skulu] starfsmenn, verktakar og notendur með stöðu þriðja aðila samþykkja og undirrita skilmálana í ráðningarsamningi sínum sem [skulu] kveða á um ábyrgð þeirra og fyrirtækisins á öryggi upplýsinga.
A.8.3.1 Ábyrgð við ráðningarlok: Ábyrgð á framkvæmd ráðningarloka eða breytinga á ráðningu [skal]vera vel skilgreind og falin ákveðnum aðila með skýrum hætti.
A.8.3.2 Eignum skilað: Allir starfsmenn, verktakar og notendur með stöðu þriðja aðila [skulu] skila öllum eignum fyrirtækisins sem eru í þeirra vörslu að loknum ráðningartíma þeirra eða samningi.
A.8.3.3 Niðurfelling aðgangsréttinda: Fella [skal] niður aðgangsréttindi allra starfsmanna, verktaka og notenda með stöðu þriðja aðila að upplýsingum og upplýsingavinnslubúnaði við ráðningarlok þeirra, samnings eða samkomulags, eða aðlaga þau eftir breytingu.
A.10.7.3 Verklagsreglur um meðferð upplýsinga: Setja [skal] verklagsreglur um meðferð og geymslu upplýsinga til þess að vernda þessar upplýsingar fyrir óheimilli uppljóstrun eða misnotkun.
A.11.1.1 Aðgangsstýringarstefna: Aðgangsstýringarstefnu [skal] koma á, skjalfesta og rýna á grundvelli rekstrar- og öryggiskrafna um aðgang.
A.11.6.1 Takmörkun á aðgangi að upplýsingum: Aðgang notenda og starfsmanna, sem annast stuðning, að upplýsingum og aðgerðum hugbúnaðarkerfa [skal] takmarka í samræmi við skilgreinda aðgangsstýringarstefnu.
Þetta er dágóð upptalning og ekki fyrir hvern sem er að útfæra þessar kröfur þannig að vel sé. Auk þess er það algengur misskilningur að staðlarnir nái eingöngu til upplýsinga á rafrænu formi, en svo er alls ekki. Í inngangskafla ISO 27002 segir m.a.: ,,Upplýsingar geta verið á margs konar formi. Þær geta verið prentaðar eða ritaðar á pappír, geymdar með rafrænum hætti, sendar með pósti eða á rafrænan hátt, birtar á filmu eða látnar í ljós í mæltu máli. Á hvaða formi sem upplýsingarnar eru, og hvaða leiðir sem notaðar eru til að samnýta þær eða geyma, ætti ávallt að vernda þær á viðeigandi hátt."
Hafi einhverjir áhuga á að fræðast meira um þetta efni, staðlana ISO 27001 og ISO 27002, innleiðingu á stjórnkerfi upplýsingaöryggis eða bara upplýsingaöryggismál almennt, þá er um að gera að senda mér tölvupóst á oryggi@internet.is eða fara inn á heimasíðu mína www.betriakvordun.is. Þetta er það sem ég hef verið að fást við meira og minna undanfarin 16 ár, þar af sem ráðgjafi síðustu 8 ár. Ég hef alltaf lagt áherslu á það í ráðgjöf minni að stjórnkerfi upplýsingaöryggis nái til allra upplýsinga/skjala/gagna sem viðkomandi aðila notar vegna starfsemi sinnar, því þrátt fyrir að notkun upplýsingakerfa sé orðin mjög víðtæk, þá er ennþá ótrúlega stór hluti mikilvægra upplýsinga geymdur á pappír eða býr í þekkingu fólks.
Upplýsingar stangast á um eðli gagna um OR í vörslu Guðmundar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 0
- Sl. sólarhring: 81
- Sl. viku: 275
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 34
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði