Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Hver er kostnaðurinn af bæjarstjóraskiptunum í Grindavík?

Mér finnst þessi umræða um kostnað af bæjarstjóraskiptunum í Grindavík vera nokkuð merkileg.  Þar takast menn á um ábyrgð og útgjöld og í báðum tilfellum vilja sjálfstæðismenn varpa sökinni á Samfylkinguna. Hér fara sjálfstæðismenn með rangt mál og langar mig að skýra út af hverju.

Það er viðurkennt að bæjarstjórinn kosti Grindvíkinga 42 milljónir kr. það sem eftir er ráðningartíma hans og út biðlaunatímann.  Það er líka viðurkennt að fyrrverandi meirihluti hafi gert þennan samning án uppsagnarákvæðis og því bundið hendur lýðræðislega kosinna fulltrúa bæjarins í 4 ár og 6 mánuði.  Það er því ljóst að ábyrgðin á þessum 42 milljónum kr. er hjá fyrrverandi meirihluta, þ.e. bæði sjálfstæðismönnum og Samfylkingu.  Að halda einhverju öðru fram er fásinna.  Þessi kostnaður var geirnegldur með ráðningarsamningi við Ólaf Örn Ólafsson og kostnaður vegna samningsins er núverandi meirihluta gjörsamlega óviðkomandi.

Er þá enginn kostnaður vegna samstarfsslitanna?  Jú, mikil ósköp, en hann er ekki vegna fyrrverandi bæjarstjóra.  Hann er vegna núverandi bæjarstjóra.  Nú hefur ekkert komið fram hvað nýi bæjarstjórinn fær í laun og hugsanlega verða þau jafnhá og hjá Ólafi Erni og með sama biðlaunarétti.  Sé það málið, þá verður kostnaður Grindvíkinga kr. 42 milljónir, en verði Jónu Kristínu Þorvaldsdóttur boðin einhver önnur starfskjör, þá verður kostnaðurinn af þeim sá kostnaður sem Grindvíkingar bera af samstarfsslitunum.

Ástæðan fyrir því að ég er að fjalla um þetta mál, er að þessi ályktun sjálfstæðismanna er dæmi um ályktunarvillu sem algeng er í ákvörðunarferli/ákvörðunargreiningu.  Tekin er kostnaðarákvörðun úr fortíðinni og hún tekin sem kostnaður við nýja ákvörðun vegna þess að ekki er búið að greiða allan reikninginn.  Þetta er eins og að segja, að ef ég kaupi mér nýtt hús án þess að geta selt það gamla, þá séu eftirstöðvarlána af gamla húsinu hluti af kostnaðinum af því nýja.  Auðvitað er það ekki rétt, en vissulega eykst greiðslubyrðin.

Fyrir 16 árum eða svo var ég með námskeið um markvissari ákvörðunartöku, þar sem ég fór yfir helstu þætti ákvörðunarferlisins.  Byggði ég námskeiðið á sérnámi mínu í aðgerðarannsóknum, en þar hafði ég einbeitt mér að ákvörðunargreiningu (decision analysis).  Á þessu námskeiði kynnti ég fyrir nemendunum hvað gott ákvörðunarferli þarf að bjóða upp á og hvað það er sem helst kemur í veg fyrir að góð ákvörðun sé tekin.  Ég fer alltaf öðru hvoru yfir þetta efni mitt og furða mig alltaf jafn mikið á því hvað þessar einföldu staðreyndir sem þar koma fram eru réttar og sannar.  Þeir sem hafa áhuga á að vita meira um þetta efni eða vantar ráðgjöf á þessu sviði geta haft samband með því að senda tölvupóst á oryggi@internet.is.


Hvað hefði gerst ef þetta hefði verið öfugt?

Það er forvitnilegt að fylgjast með fréttum um þennan "eltingaleik".  Hvalaskoðunarskip fer á hvalveiðislóðir til að ná "hneykslanlegum" myndum af hvalveiðum.  Skipstjóri hvalveiðibátsins segist ekki hafa viljað skjóta fleiri hrefnur af ótta við að stefna farþegum og áhöfn hvalaskoðunarskipsins í hættu og fullyrðir að báturinn hafi verið langt fyrir utan svæði hvalaskoðunarskipa.  Skipstjóri hvalaskoðunarskipsins segir hvalfangarana ekki hafa þorað að drepa fleiri hrefnur af ótta við að það næðist á filmu.  Auk þess væri óþolandi að hvalveiðar færu fram á því svæði sem hvalaskoðun fer fram.  Skipstjóri hvalveiðibátsins segist hafa verið langt fyrir utan hvalaskoðunarsvæðið og því hafi hann á engan hátt truflað venjubundna hvalaskoðun.

Þetta sjónarspil sem þarna var sett á svið og fjölmiðlamenn greindu frá er dæmigert fyrir baráttuna gegn hvalveiðum.  Fjölmiðlar gleypa við þessum "fréttum", sem í mínum huga eru sviðsettar og því alls ekki baráttunni gegn hvalveiðum til framdráttar.  Þá ég við að það eru engar fréttir að verið sé að veiða hrefnu.  Það eru heldur engar fréttir að fullt af fólki sé á móti hrefnuveiðum.  Það eru enn síður fréttir að þegar hrefna er skorin, þá flæðir blóð.  Mér finnst sem fjölmiðlar séu að láta nota sig málstað annars aðilans til framdráttar.  Nú er ég með þessu hvorki að taka afstöðu með eða móti veiðunum, heldur eingöngu að horfa á þessa atburðarrás hlutlaust.  (En bara svona til að halda því til haga, þá er ég mótfallinn þeim, þar sem mér finnst þær vera óþarfar.)  Þessi ferð var ekki farin til að sýna fram á að hvalveiðar fari fram á svæði hvalaskoðunarmanna.  Hún var heldur ekki farin til að fjalla á hlutlægan hátt um hvalveiðar eða andstöðuna við þær.  Hún var fyrst og fremst farin til að ná í myndefni fyrir IFAW og af þeirri sök einni áttu fjölmiðlamenn ekkert með að fara í þessa ferð.

Hvalverndunarsinnar náðu fram sínu, þ.e. áhöfn hvalveiðibátsins var látin líta illa út í fjölmiðlum og myndefni fékkst sem hugsanlega er hægt að nota einhvers staðar úti í heimi til að safna peningum og hvetja mótmælendur til dáða.  Menn jafnvel glöddust yfir því að hvalfangararnir náðu ekki að drepa nema eina hrefnu sl. nótt.  Hvalaskoðunarfólk fékk tækifæri til að hneykslast á því að hvalveiðar færu fram á "hvalaskoðunarsvæði" og svona mætti halda áfram. 

Almenningi er nokk sama um atburðinn, þar sem í raun gerðist ekkert þannig séð eða hvað?  Jú, það var eitt sem gerðist.  Það sem gerðist var að skip með heimild til löglegra veiða (þær geta verið siðlausar, en eru löglegar) var elt á röndum af fulltrúa atvinnuvegar sem telur sig hafa hag af því að hinn hætti starfsemi sinni.  Þessir tveir aðilar eru í samkeppni um sama hlutinn, en á mismunandi forsendum.  Ef skipið hefði verið frá einhverjum öðrum aðila en hvalaskoðunarfyrirtæki, þá lítur þetta öðru vísi út.  Spurningin er hvað myndi gerast, ef hvalveiðiflotinn tæki upp á því að sigla daginn inn og daginn út í kringum hvalaskoðunarskipin á svipaðan hátt og Elding II gerði í kringum Njörð í dag.  Ég býst við að þá heyrðist hljóð í horni og kært væri til löggæsluyfirvalda.

Það sem mér finnst samt verst í þessu máli, að fjölmiðlar skuli láta nota sig í áróðursstríði annars aðilans gegn málstað hins.  Það er léleg fréttamennska og á ekki að líðast.


mbl.is Eltu hvalafangara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úrskurður Persónuverndar í Grundarmáli

Persónuvernd birti í gær úrskurð sinn í máli sem snýst um rétt elliheimilisins Grundar til að láta InPro, áður Heilsuvernd og nú Heilsuverndarstöðin, skrá upplýsingar um fjarvistir og veikindi starfsmanns síns.  Niðurstaða Persónuverndar er að ,,[v]innsla upplýsinga um fjarvistir [starfsmanns] frá vinnu á elliheimilinu Grund vegna veikinda var ekki í samræmi við ákvæði laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga."  Persónuvernd vísar annars vegar til þess að vinnslusamningur InPro/Heilsuverndarstöðvarinnar við Grund hafi ekki verið fullnægjandi, þar sem skyldur vinnsluaðila höfðu ekki verið afmarkaðar og hins vegar að starfsmaðurinn hafi ekki gefið yfirlýst samþykki sitt fyrir vinnslunni.  Sjá má úrskurðinn á síðu Persónuverndar (www.personuvernd.is) eða með því að smella hér.

Ég ætla hér ekki að fjalla um þetta tiltekna mál, en verð þó að viðurkenna að það hefur lengi verið skoðun mín, að vinnuveitandi þyrfti að afla yfirlýsts samþykkis starfsmanns áður en þriðji aðili gæti aflað og unnið með slíkar upplýsingar.  Nú hefur Persónuvernd staðfest þessa skoðun mína.

Það er talsvert algengt að fyrirtæki og stofnanir safni alls konar persónuupplýsingum án þess að gæta þeirra atriða sem Persónuvernd nefnir í úrskurði sínu, þ.e.

  1. Fá yfirlýst samþykki fyrir söfnun upplýsinganna og vinnslu þeirra.
  2. Fræða viðkomandi um tilgang og eðli vinnslunnar.
  3. Gæta þess að þeir sem vinna með upplýsingarnar hafi rétt til þess og vinni með þær á þann hátt sem gefið var upp þegar söfnun þeirra var samþykkt.

Ég verð oft var við þetta bæði í starfi mínu sem ráðgjafi um upplýsingaöryggi og persónuvernd og sem viðskiptavinur fyrirtækja og stofnana.  Það er eins og menn telji að það sé leyfilegt og öllum finnist sjálfsagt að upplýsingar sem gefnar eru upp séu skráðar í upplýsingakerfi og unnið sé með þær á allan mögulegan hátt án þess að skilgreint sé hvað gert er með upplýsingarnar, hver vinni með þær, hve lengi þær verða varðveittar og hverjir hafi aðgang að þeim, svo fátt eitt sé nefnt af ákvæðum persónuverndarlaga.  Það sem ég geri því með viðskiptavinum mínum er að skilgreina þessa þætti.  Þetta snýst m.a. um að fá samþykki fyrir skráningunni, veita fræðslu um það hvað á að gera við upplýsingarnar og rétt hins skráða, aðgangsstjórnun, skilgreiningu á verkferlum, skilgreiningu á varðveislutíma og verkferli sem tryggja eiga að upplýsingarnar séu ekki geymdar lengur en þörf er og örugga förgun þeirra eftir það.

Það er of flókið að fara nánar út í þetta verkferli hér, en þeir sem vilja frekari upplýsingar geta sent póst á oryggi@internet.is

Lög um persónuvernd nr. 77/2000 eru oftast brotin vegna þess að menn þekkja lögin ekki nægilega vel.  Það er ekki vegna þess að það sé flókið að fylgja lögunum, því þau eru í eðli sínu einföld og leiðbeiningar þeirra skýrar, heldur er það vegna þess að menn hafa ekki fyrir því að kynna sér þau.  Það góða við þessi lög er að þau eru sambærileg, og mér liggur við að segja samhljóma, persónuverndarlögum í flestum nágrannalöndum okkar (að Bretlandi undanskyldu), enda byggja þau á tilskipun Evrópusambandsins 95/46/EC.  Hafa skal þó þann vara á að túlkun tilskipunarinnar er mjög mismunandi milli landa.  Þannig er margt sem þykir sjálfsagður hlutur á Íslandi alveg fráleitt á Ítalíu.  Það sem er algengt í Bretlandi er bannað í Frakklandi.  Spánverjar túlka viss ákvæði gjörsamlega andstætt við venjur á Norðurlöndum og þannig mætti lengi telja. Þetta er það sem gerir útfærslu verkferla vegna persónuverndar bæði krefjandi og áhugavert viðfangsefni sem kallar á góða þekkingu á ákvæðum persónuverndarlaga.


Áhugaverðir og spennandi tímar framundan hjá GGE

Það er gaman að sjá að hugsjónir manna deyja ekki, þó kreppi að eða pólitík bregði fyrir mönnum fæti.  Hátt í ári er síðan að REI-málið setti allt á endann og stein í götu GGE manna.  Þykist ég vita að mikill tími hafi farið í að vinnu úr klúðri reykvískra stjórnmálamanna, en vonandi er það að baki með þeim samningi sem hér var kynntur í dag.

GGE hefur fengið um borð tvo virta einstaklinga og verður gaman að fylgjast með því hvernig málin þróast næstu mánuði og ár.


mbl.is Eigið fé Geysis Green aukið um fimm milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af kökum, hausum og fleira vefrusli á blog.is

Ég er með einkaeldvegg (personal firewall) á tölvunni minni og með hann stilltan þannig að lokað er fyrir allt sem ekki er sérstaklega leyft.  Ég get stillt eldvegginn þannig, að hann lætur mig vita hvaða smáforrit (cookies, private header og þess háttar) vill vistast á harða diskinn hjá mér.  Þessi smáforrit eru fyrst og fremst notuð til að skilja eftir sig slóð og safna upplýsingum.  Mér er almennt ekkert um þessi smáforrit gefið og hafna þeim því oftast.  Nokkur vefsetur hafa þó hann háttinn á, að ekki er hægt að lesa efni á þeim nema maður samþykki Private header information. 

Stundum get ég ekki annað en spurt mig hvers vegna er verið að hlaða vefkóða með öllu þessu drasli. Oftast þyngir þetta vefsíður meira en góðu hófi gegnir fyrir utan að ég vissi ekki til þess að ég hafi nokkru sinnum verið spurður að því hvort viðkomandi aðili megi skoða netnotkun mína eða skilja eftir rusl á harða diskinum mínum sem ég verð síðan að þrífa upp.  Áðan opnaði ég tvær síður á blog.is.  Ég var með eldvegginn stilltan þannig, að hann lætur mig vita af popup, private header, persistent HTTP cookie, web bug og þess háttar rusli.  Þessar tvær síður gáfu af af sér 400 tilkynningar um popup, private header information, persistent HTTP cookies, tilkynningar um að vafrinn minn vildi senda upplýsingar til baka og þess háttar.  FJÖGUR HUNDRUÐ tilkynningar vegna TVEGGJA blogg-síðna.  Önnur síðan gaf ein af sér 250 tilkynningar!!!  Það er ekki verið að spara bandvíddina þarna.  Af hverju þarf að reyna að vista upp undir 50 persistent HTTP cookies þegar ég er að skoða eina blog.is síðu?  Af hverju þarf ein síða hjá mbl.is að kalla á samskipti yfir 6 TCP Port á 60 sekúndna fresti? Af hverju get ég ekki lesið mbl.is án þess að leyfa Private Header Information og Persistent HTTP cookies?  Af hverju þarf að endurhlaða þessum upplýsingum á 60 sekúndna fresti?  Hvað græðir mbl.is á því að senda/vista private header information á 60 sekúndna fresti? 

Þó ég taki mbl.is og blog.is hér sem dæmi, þá hefði ég alveg eins geta tekið visir.is (40 tilkynningar við það eitt að opna síðu), vb.is (hátt í 30 tilkynningar), eyjan.is (25 tilkynningar áður en síðan birtist) eða ruv.is (sem vinnur á mörgum IP-tölum!).  Í mínum huga er þessi hnýsni og óumbeðna upplýsingasöfnun farin að ganga út í öfgar og væri gaman að fá skýringar á því af hverju þörf er á þessu og hvort það myndi nú ekki létta umtalsvert á umferðinni að sleppa þessu drasli?


Þetta er nú meiri skáldskapurinn!

Það er merkilegt að skuldatryggingaálagið skuli hækka nokkrum dögum eftir að Kaupþing tekur lán á kjörum sem eru með álagi langt undir 100 punktum.  (Voru það ekki 35 punktar?)  Þessi "markaður" með skuldatryggingaálag er bara skáldskapur og það heldur lélegur.  Hefur það virkilega engin áhrif á markaðinn að Kaupþing fékk lán á góðum kjörum? Eða eru menn svo uppteknir í sínum sýndarveruleika að þeir átta sig ekki á því hvað er að gerast utan hans.  Mér sýnist vera best að hunsa þennan markað bara, þar sem hann hunsar hvort eð er staðreyndir.
mbl.is Skuldatryggingaálag hækkar enn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 82
  • Sl. viku: 276
  • Frá upphafi: 1680564

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband