Leita í fréttum mbl.is

Álit lögfræðings ráðuneytisins segir gengistryggingu óheimila, en snerist um ranga spurningu

Viðtal Helga Seljan við Gylfa Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, í Kastljósi var alveg ótrúlegt.  Ég veit ekki hversu oft Helgi gaf Gylfa færi á að segja að kannski hafi hann misskilið eitthvað eða hann hafi kannski ekki alveg farið með rétt mál, en Gylfi roðnaði frekar og svitnaði en að nýta sér þessi tækifæri.

Ég búinn að skoða þetta mál frá ýmsum hliðum síðustu daga, en uppákoman í kvöld er toppurinn á vitleysunni.  Skoðum enn og aftur hvers Ragnheiður Ríkharðsdóttir spurði:

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Í ljósi þessarar fyrirspurnar langar mig að spyrja hæstv. viðskiptaráðherra. Svo virðist sem myntkörfulánin séu í raun hrein krónulán en með erlendu viðmiði. Því spyr ég hæstv. viðskiptaráðherra: Telur hann lögmæti slíkra lána hafið yfir allan vafa þegar höfð eru til hliðsjónar lög nr. 38/2001, um vexti og verðbætur? Þar kemur fram að ekki megi miða lán við neitt annað en það sem þar stendur. Því spyr ég hæstv. viðskiptaráðherra: Telur hann lögmæti myntkörfulána hafið yfir allan vafa?

Hún spyr um myntkörfulán og hvort lögmæti þeirra sé hafið yfir allan vafa.  Og þá er það svar Gylfa við spurningu Ragnheiðar:

Viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (U):

Frú forseti. Ég vík fyrst að fyrirspurn Ragnheiðar Ríkharðsdóttur um lögmæti lána í erlendri mynt. Lögfræðingar bæði í viðskiptaráðuneytinu og annars staðar í stjórnsýslunni hafa vitaskuld skoðað það mál. Niðurstaða þeirra er að lánin séu lögmæt. En það er auðvitað ekki framkvæmdarvaldsins að skera úr um það. Ef það réttarágreiningur í máli sem þessu er það dómstóla þannig að ég tel að telji einhverjir að þessi lán séu ólögmæt þá liggi beinast við að dómstólar skeri úr um það. Það er alla vega hvorki á valdi viðskiptaráðuneytisins né annarra arma framkvæmdarvaldsins að gera það.

Hann svarar fyrirspurn um lögmæti lána í erlendri mynt.  En Ragnheiður spurði um MYNTKÖRFULÁN.  Þegar ráðherra segist vera að svara fyrirspurn Ragnheiðar "um lögmæti lána í erlendri mynt" er nokkuð óeðlilegt að þingheimur hafi skilið það þannig, að hann væri að meina MYNTKÖRFULÁN.  Hann plataði mig, svo eitt er víst.

Nú næst er að benda á orðin: 

Lögfræðingar bæði í viðskiptaráðuneytinu og annars staðar í stjórnsýslunni hafa vitaskuld skoðað það mál. Niðurstaða þeirra er að lánin séu lögmæt.

Fyrri setningin er rétt, þ.e. að lögfræðingar í ráðuneytinu og annars staðar í stjórnsýslunni höfðu skoðað málið, en síðari setningin er röng ef miðað er við það sem Gylfi segist vera að svara, þ.e. spurningu Ragnheiðar um MYNTKÖRFULÁN.  Hún er aftur rétt sem svar við allt annarri spurningu, sem enginn var að spyrja.

Í fyrsta lagi hafði aðallögfræðingur Seðlabankans komist að þeirri niðurstöðu að bannað væri að nota gengistryggingu.  Sigríður Logadóttir var mjög afgerandi í afstöðu sinni.  Hún ekki bara endurtekur efni úr áliti LEX lögmannsstofu, heldur bætir við eigin athugunum.  Svo segir hún:

Undirrituð tekur undir lögfræðiálitið.

Ég spyr bara, er hægt að tala skýrar?

Í öðru lagi hafði talsmaður neytenda sent viðskiptaráðuneytinu í apríl 2009 efasemdir sínar um lögmæti gengistryggingar.  Kannski telst talsmaður neytenda ekki undir lögfræðinga í stjórnsýslunni?

Í þriðja lagi er grundvallarspurningin sem Sigríður Rafnar Pétursdóttir, lögfræðingur viðskiptaráðuneytisins allt önnur, en felst í spurningu Ragnheiðar og því var ekki hægt að nota niðurstöðu Sigríðar Rafnar við spurningunni til að svara Ragnheiði.  Hver var spurningin sem Sigríður Rafnar leitaði svars við?

Eru lánveitingar í erlendum gjaldmiðlum, tengdar gengi erlendra gjaldmiðla, ólögmætar?

Satt best að segja skil ég ekki hvernig Sigríði datt í huga að spyrja hennar.  Var einhver að velta vöngum yfir þessu?  Nei, ekki svo ég viti til.  Sigríður Logadóttir, Gísli Tryggvason, Björn Þorri Viktorsson og fleiri voru að velta fyrir sér hvort heimilt væri að tengja höfuðstól í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla. Ekki hvort heimilt væri að tengja lán í erlendri mynt við erlenda gjaldmiðla!

En gefum okkur nú að Sigríður Rafnar hafi verið að meina þetta.  Hvað segir þá í áliti hennar?  Jú, hún bendir á texta athugasemda með frumvarpi að lögum nr. 38/2001, þar sem segir að gengistrygging sé bönnuð og rétt sé að taka af allan vafa um það.  Einnig bendir hún á framsöguræðu ráðherra, þar sem hann segir að felldar séu niður heimildir til að gengistryggja skuldbindingar í íslenskum krónum.  Nú hún kemst líka að því, að eingöngu er hægt að verðtryggja íslenskar krónur með vísitölu neysluverðs.  Mér finnst þetta vera nokkuð skýrt fram tekið hjá Sigríði Rafnar að gengistrygging sé óheimil.  Það eina sem vefst fyrir henni (eins og mjög mörgum í dag) er hvaða lán teljast til hvaða flokks.  Það er nefnilega alveg á hreinu að lán í erlendri mynt eru lögleg að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.  Í álitinu segir:

Það getur verið álitaefni hvort um ræði lánveitingu í erlendum gjaldmiðli  eða  lánveitingu í íslenskum krónum.  Lánssamningar eru mismunandi og túlkun þeirra skiptir máli.  Úr slíku álitaefni verður að skera á grundvelli þeirra samningsskilmála sem við eiga hverju sinni, með hliðsjón af atvikum við samningsgerð, stöðu samningsaðila o.s.frv.  Heildarmat verður að fara fram á efni samnings, þ.m.t. samningskjörum, enda kunna atvik eða skilmálar að renna stoðum undir að lán sé í þeirri mynt sem tilgreind er eða jafnvel benda til þess að lán sé í raun í annarri mynt þrátt fyrir tiltekið orðalag.

Ekki geri ég athugasemd við þetta og tel þessa ályktun Sigríðar Rafnar vera mjög vandaða, sem og þá næstu sem hún kemur með:

Ákvæði lánssamnings í íslenskum krónum  (eða lánssamnings sem túlka má þannig að sé í raun og veru í íslenskum  krónum) um verðtryggingu í erlendum gjaldmiðli  („gengistryggingu“) kann að koma til álita að ógilda fyrir dómstólum á þeim grundvelli að sérstaka heimild hefði þurft til að semja um tengingu við gengi erlendrar myntar.

Ég verð að viðurkenna, að ég sé ekki betur en að Sigríður Rafnar taki í grófum dráttum undir álit nöfnu sinnar Logadóttur.

En þar sem spurning Sigríðar Rafnar Pétursdóttur var hvort erlend lán væru lögleg eða ekki, þá fjallar niðurstaða hennar náttúrulega um það.  Hún er mjög skýr:

Að mati undirritaðrar verður þó ekki lagður sá skilningur í ákvæði 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, út frá umræddu ákvæði, að þau banni lánveitingar í erlendum gjaldmiðli og tengingu við gengi þeirra í lánssamningum með hliðsjón af gildissviði VI. kafla laganna og meginreglunni um samningsfrelsi.  

Þetta er gott og blessað, en fjallar bara nákvæmlega ekkert um spurningu Ragnheiðar Ríkharðsdóttur og því er það algjört klúður hjá Gylfa Magnússyni að vitna í þessa niðurstöðu, þegar hann svara Ragnheiði.  Ef hann hefði notað málsgreinina sem byrja á "Ákvæði lánssamnings.." sem ég vita í hér fyrir ofan, þá hefði hann verið að svara Ragnheiði.

Spurningin sem ég hlýt að spyrja er hvort ráðherra hafi ekki skilið álit Sigríðar Rafnar eða hvort hann hafi ekki skilið spurningu Ragnheiðar.  Það er ekki um nema þetta tvennt að ræða.  Mér finnst álit Sigríðar Rafnar vera mjög skýrt, þegar ég var búinn að skoða það í ró og næði, og einnig spurning Ragnheiðar.

Sigríður Rafnar veltir fyrir sér í lok álits síns hvernig væri farið með lánin ef gengistryggingarákvæðið yrði ógilt.  Spurði Gylfi sig aldrei af hverju Sigríður var að skoða þetta?  Hún var náttúrulega að því, vegna þess að henni fannst líklegt að á það reyndi.  Eða þannig skil ég vangaveltur hennar.  Hún kemst að svipaðri niðurstöðu og héraðsdómari komst að um daginn, að eitthvað sanngjarnt viðmið kæmi í staðinn.  Hún aftur varar við því að þetta sanngjarna viðmið geti verið breytilegt eftir gerð samninga eða eins og hún segir:

Ef á reyndi myndi dómstóll væntanlega kveða á um það við hvað sanngjarnt væri að miða í staðinn fyrir ógilda gengistryggingu láns í íslenskum krónum (t.d. verðtryggingu, þ.e. þróun vísitölu neysluverðs á lánstímanum).  Fordæmisgildi slíkrar dómsniðurstöðu takmarkast við sambærilega staðlaða lánssamningsskilmála (og atvik við samningsgerð).

Það þýðir líklega, að Sigríður telur líklegt að mismunandi vaxtaviðmið geti verið dæmd á ólíka samninga.

Ótrúlegur skilningur eða skilningsleysi Gylfa

Niðurstaða af þessu öllu er að Gylfi misskilur gróflega spurningu Ragnheiðar og svara í reynd allt annarri spurningu.  Hann misskilur líka álit Sigríðar Rafnar, þar sem hann skoðar svar við spurningu sem enginn spurði.  Nú verst af öllu er að vegna þess að Gylfi er að svara allt annarri spurningu en hann var spurður, þá segir hann ekkert um málið sem spurt var um, en það gátu þingmenn og almenningur ómögulega vitað.  Það er því alveg ljóst að viljandi eða óviljandi afvegaleiddi Gylfi þingheim og almenning með svörum sínum.

Nú veit ég ekki hvort er verra að Gylfi fóru villu vegar viljandi eða óviljandi.  Hafi hann gert það viljandi, þá á hann ekki um neitt annað að ræða en að segja af sér (þó ég sé ekkert viss um að við höfum betri einstaklinga í starfið á reiðum höndum).  Hafi hann gert það óviljandi, þá verður hann maður með meiru að koma fram og biðjast afsökunar.  Ég skil alveg að hann hafi ruglast, þar sem álitið sem hann var með í höndunum er að leita að svari við allt annarri spurningu, en umræðan á þingi og í þjóðfélaginu snerist um.  Það er aftur grafalvarlegt mál, ef ráðherra skilur ekki gögnin sem hann er með í höndunum.  Ætli það sé eitthvað fleira sem hann hefur misskilið?


mbl.is Mátti ekki dreifa minnisblaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sannleikanum hagrætt

Í síðustu færslu minni (Æi, Gylfi, hættu að hagræða sannleikanum) sýni ég nokkur dæmi um það hvernig Gylfi leggur sig fram við að hagræða sannleikanum.  Í umræðunni á Alþingi 1. júlí, 2009 var Gylfi spurður út í lögmæti myntkörfulána.  Hann vissi nákvæmlega hvað hann var spurður um og þó hann hafi notað orðin "lán í erlendri mynt", þá getur hann ekki haldi því fram að með því hafi hann ekki átt við myntkörfulánin sem Ragnheiður Ríkharðsdóttir spurði um.  Hafi hann ekki átt við þau lán, þá var svar hans gróf móðgun við þingheim.

Sá útúrsnúningur ráðuneytisins, að gengistryggð lán séu ekki það sama og myntkörfulán, sýnir rökþrot ráðuneytismanna.  Orðavalið "gengistryggð lán" var almennt ekki notað af stjórnsýslunni, þ.e. ráðherrum og embættismönnum, fyrr en langt var liðið á 2009 eða hvort það var nokkuð fyrr en á þessu ári.  Hagsmunasamtök heimilanna þurftu ítrekað að leiðrétta tungutak viðmælenda sinna í viðræðum og á fundum.  Menn þrjóskuðust við eins og rjúpa við staur að nota "erlend lán", "lán í erlendri mynt" og "myntkörfulán" um það sem sýnt hafði verið fram á af samtökunum, Birni Þorra Viktorssyni og fleirum, að væru ólöglega gengistryggð lán samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001.  Það verður því að skoða orðavalið "erlend lán", "lán í erlendri mynt" og "myntkröfulán" með þeim gleraugum að átt hafi verið við það lánaform sem við í dag köllum "gengistryggð lán".

Það hefur aldrei verið neinn ágreiningur uppi um að erlend lán eða að lán í erlendri mynt væru ólögleg meðan gengið hefur verið þannig frá þeim að allt við lánin sé skráð í erlendri mynt.  Það er t.d. skoðun margra (þ. á m. HH), að "erlend lán" sé samningur, þar sem lánveitandinn sé erlent fjármálafyrirtæki eða erlent dótturfyrirtæki eða útibú íslensks fjármálafyrirtækis.  "Lán í erlendri mynt" sé aftur íslenskt lán, þar sem sótt var um upphæð í erlendri mynt, höfuðstóll lánsins er gefinn upp í erlendri mynt, lánið var greitt út í erlendri mynt inn á gjaldeyrisreikning lántakans og greiðslur fara fram í erlendri mynt.  Varðandi þessi lán er almennt gefið út tryggingabréf og því þinglýst á veðið, en ekki skuldabréfinu sjálfu.  Um þetta hefur ALDREI verið ágreiningur og því engin ástæða fyrir lögfræðinga viðskiptaráðuneytisins eða ráðherrann sjálfan að svar óumbeðið spurningum um slík lán.  Ágreiningurinn var um lán þar sem sótt var um lán í íslenskum krónum með tengingu við dagsgengi erlendra gjaldmiðla, þ.e. svo kölluð gengistryggð lán.

Mér finnst það sorglegt, að starfsmenn efnahags- og viðskiptaráðuneytisins hafi verið settir í að bjarga ráðherranum út úr klemmu, sem hann kom sér í.  Gott og vel, Gylfi hugsanlega misskildi eitthvað eða að starfsmenn ráðuneytisins misskildu hlutina.  Viðurkennið þið það þá og verið menn að meiru.  Hafi Gylfi misskilið eða ruglast, þá er allt í lagi að segja það, en að vera sífellt að snúa og hagræða sannleikanum er ekki til að öðlast traust.

Ég held að Gylfi sé um margt mjög hæfur viðskiptaráðherra og sé a.m.k. ekki í fljótu bragði að margir í þingliði ríkisstjórnarinnar séu betri, þó ég eigi mér vissulega minn kandídat í stöðuna.  Enginn af þeim sem hafa verið framarlega í orðræðunni utan frá, hafa að mínu mati sýnt að þeir séu hæfari.  Mistök ráðherrans hafa helst verið að breiða yfir eldri mistök í staðinn fyrir að viðurkenna að honum hafi orðið á í messunni.  Það verður öllum á.  Þetta hefur undið upp á sig og er sífellt að verða neyðarlegra.  Nú er kominn tími til að Gylfi og ráðuneytið skoði hvað fór úrskeiðis í svörum ráðherra, hvað hann átti við hverju sinni og ef það var annan en spurt var um, hvert var þá hið raunverulega svar.


mbl.is Ranglega vitnað í ræðu ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Æi, Gylfi, hættu að hagræða sannleikanum

Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, virðist ekki hætt að fara með rangt mál.  Nú hefur Pressan eftir honum að hann hafi ekki sagt ósatt á Alþingi, þar sem hann hafi verið spurður út í erlend lán.  Skoðum fyrst fyrri hluta fréttar Pressunnar:

Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra ætlar ekki að biðjast afsökunar á ummælum sínum í ræðustól Alþingis í júní (sic) í fyrra um að það væri samdóma álit lögfræðinga ráðuneytisins og stjórnsýslunnar að lán í erlendri mynt væru lögleg af þeirri einföldu ástæðu að slík lán séu lögleg.

Bendir Gylfi á í samtali við Pressuna að hann hafi ekki verið að tala um gengistryggð lán líkt og þau sem dæmd hafi verið ólögleg heldur gjaldeyrislán þar sem greiðslur og höfuðstóll eru í erlendri mynt.

(Tekið skal fram að umræðan var 1. júlí 2009 og má finna hana hér.)

Sko það er enginn vandi að fara í svona orðaleiki.  Staðreyndin er bara sú, að alveg fram á þetta ár, þá notuðu hér um bil allir hjá stjórnsýslunni, þ.e. ráðherrar og embættismenn, og inni á þingi hugtakið "erlend lán" yfir það sem núna er kallað "gengistryggð lán".  Við hjá Hagsmunasamtökum heimilanna börðumst fyrir því þrotlausri baráttu að greint væri milli "erlendra lána" og "gengistryggðra lána", enda tekjum við að erlend lán geti eingöngu verið þegar lán er tekið hjá erlendum aðila, en lán tekin á Íslandi séu íslensk lán ýmist í íslenskum krónum eða erlendri mynt.  Lánin í íslenskum krónum voru síðan ýmist verðtryggð við vísitölu neysluverðs, óverðtryggð eða verðtryggð við gengi, þ.e. gengistryggð.

Að Gylfi sé að bera það fyrir sig núna, að hann hafi verið að tala um erlent lán, eins og túlkunin á því hugtaki er í dag, er heldur aum skýring.

Skoðum næst spurningu Ragnheiðar Ríkharðsdóttur til ráðherra 1. júlí 2009:

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Í ljósi þessarar fyrirspurnar langar mig að spyrja hæstv. viðskiptaráðherra. Svo virðist sem myntkörfulánin séu í raun hrein krónulán en með erlendu viðmiði. Því spyr ég hæstv. viðskiptaráðherra: Telur hann lögmæti slíkra lána hafið yfir allan vafa þegar höfð eru til hliðsjónar lög nr. 38/2001, um vexti og verðbætur? Þar kemur fram að ekki megi miða lán við neitt annað en það sem þar stendur. Því spyr ég hæstv. viðskiptaráðherra: Telur hann lögmæti myntkörfulána hafið yfir allan vafa?

Er einhver vafi um hvað Ragnheiður spurði?

Því spyr ég hæstv. viðskiptaráðherra: Telur hann lögmæti myntkörfulána hafið yfir allan vafa?

Og hverju svarar Gylfi:

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (U):

Frú forseti. Ég vík fyrst að fyrirspurn Ragnheiðar Ríkharðsdóttur um lögmæti lána í erlendri mynt. Lögfræðingar bæði í viðskiptaráðuneytinu og annars staðar í stjórnsýslunni hafa vitaskuld skoðað það mál. Niðurstaða þeirra er að lánin séu lögmæt. En það er auðvitað ekki framkvæmdarvaldsins að skera úr um það. Ef það réttarágreiningur í máli sem þessu er það dómstóla þannig að ég tel að telji einhverjir að þessi lán séu ólögmæt þá liggi beinast við að dómstólar skeri úr um það. Það er alla vega hvorki á valdi viðskiptaráðuneytisins né annarra arma framkvæmdarvaldsins að gera það.

Hann vissulega notar orðin "lán í erlendri mynt", en þar sem spurning Ragnheiðar var mjög skýr um að  "lögmæti myntkörfulána [sé] hafið yfir allan vafa", þá reiknar maður með að hann hafi verið að svara því sem spurt var um, en ekki einhverju sem ekki var spurt um. Málið er að Gylfi lagði að jöfnu "lán í erlendri mynt" og "myntkörfulán".

Höldum svo áfram með Gylfa og hagræðingu sannleikans.  Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, sendi fyrirspurn á viðskiptaráðuneytið (eða var það orðið að efnahags- og viðskiptaráðuneyti) um hvort þar væri til álit um lögmæti gengistryggðra lána.  Svar hans var að til væri vinnuskjal og samkvæmt upplýsingalögum (eða hvað það nú var sem borið var fyrir), þá væri það skjal trúnaðarmál.  Ergo, það var til álit innan ráðuneytisins um lögmæti gengistryggðra lána.  En nú hefur komið fram að ekki var um vinnuskjal að ræða heldur minnisblað frá aðallögfræðingi Seðlabanka Íslands og lögfræðiálit sem SÍ fékk frá LEX lögmannsstofu.  Eru engin viðurlög við því að hagræða sannleikanum svona.

Og enn eitt tækifæri fékk Gylfi til að tala hreint út.  Eygló Harðardóttir lagði fyrir hann fyrirspurn sem hann svaraði munnlega á Alþingi 2.11.2009.  Þar er skrípaleikurinn ennþá meiri sérstaklega í ljósi þess sem síðar gerðist.  Fyrst er það fyrirspurn Eyglóar:

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Frú forseti. Mikil umræða hefur verið í samfélaginu um lögmæti gengistryggðra lána. Hagsmunasamtök heimilanna hafa ítrekað bent á að þessi lán kunni að vera ólögleg og talsmaður neytenda skrifaði hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra bréf þann 23. október þar sem hann spurði m.a. út í það hvort ráðuneytið hefði aflað lögfræðiálits um lögmæti gengistryggðra lána og hvort fyrirvari hafi verið gerður um það við endurreisn bankanna. Hann hefur líka tekið undir þá túlkun að gengisbundin lán til neytenda standist ekki lög og lýst yfir áhyggjum af efnahagsreikningi bankanna ef ekki hafi verið tekið tillit til lagalegrar óvissu varðandi gengistryggð lán í uppgjöri milli nýju og gömlu bankanna.

Á málþingi nýlega hjá Orator sagði Eyvindur G. Gunnarsson, lektor við lagadeild HÍ, að óheimilt væri að binda lán í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla. Að mati hans eru umrædd lán ekki erlend lán, því að lántakendur hafi aldrei haft annað í höndunum en íslenskar krónur, bæði lánið og afborganirnar hafi farið fram í íslenskum krónum. Máli sínu til stuðnings benti hann m.a. á lög nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, auk lögskýringargagna og einhverja skýringu við 13. og 14. gr. laganna.

Ég er hér með nokkrar spurningar er varða einmitt lögmæti þessara lána. Þessar spurningar bárust mér frá Guðmundi Andra Skúlasyni og fjölmörgum öðrum lántökum í lok október. Þær voru sendar á alla þingmenn, þar á meðal ríkisstjórnina og ýmsa bankastarfsmenn, auk þeirra ráðherra sem ekki eru þingmenn. Samkvæmt vefsíðu Guðmundar Andra bárust engin svör frá ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Ég mundi því gjarnan vilja nýta þann stjórnarskrárbundna rétt minn sem þingmaður og spyrja hæstv. ráðherra eftirfarandi spurninga þar sem hann fer með bankamál í ríkisstjórninni:

1. Hefur ráðherra kynnt sér skilmála lánssamninga í erlendri mynt með tilliti til orðalags og túlkunar á höfuðstól skuldar, sérstaklega í tilvikum þar sem skýrt er kveðið á um að skuldari viðurkenni að skulda fjármálastofnun jafnvirði tiltekinnar krónutölu íslenskrar í tilgreindum myntum og hlutföllum?

2. Hver er afstaða ráðherra til slíkra lánssamninga, sérstaklega að teknu tilliti til 13. gr. og 1. mgr. 14. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, og athugasemda við téðar greinar?

3. Hversu margar lánastofnanir byggðu lánssamninga í erlendri mynt á því orðalagi sem tilgreint er í 1. tölul.? Óskað er upplýsinga um heildartölu hjá lánastofnunum og áætlað heildarnafnvirði lánssamninganna, en ekki hvaða lánastofnanir veittu lánin né upphæðir hjá einstökum stofnunum.

4. Hvað er áætlað að það mundi kosta bankakerfið ef lánssamningar, þar sem segir að skuldari viðurkenni að skulda fjármálastofnun jafnvirði tiltekinnar krónutölu íslenskrar í tilgreindum myntum og hlutföllum, reyndust ólöglegir og höfuðstóll skuldar stæði því í upphaflegri krónutölu að frádregnu því sem greitt hefur verið af höfuðstól til dagsins í dag?

5. Hefur við frágang og uppgjör á milli nýju og gömlu bankanna verið tekið tillit til þess bókfærða mismunar sem kann að vera á virði erlendra lánssamninga reynist téðir samningar ólöglegir?

6. Hefur erlendum kröfuhöfum verið kynnt sú lagalega óvissa sem ríkir um verðmæti skuldbindinga sem gefnar voru út í erlendri mynt eða bundnar dagsgengi erlendrar myntar?

Hér er um mjög skýrt orðaða fyrirspurn með góðum inngangi og Gylfi átti því ekki að eiga möguleika á að snúa sér út úr henni.  En skoðum hvað Gylfi sagði:

Efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (U):

Frú forseti. Innlend fjármálafyrirtæki lúta eftirliti Fjármálaeftirlitsins. Það er ekki og á ekki að vera hlutverk efnahags- og viðskiptaráðherra eða starfsmanna ráðuneytisins að fara yfir skilmála lánssamninga fjármálafyrirtækja eða almennt skilmála í viðskiptum milli fyrirtækja, hvort sem það eru fjármálafyrirtæki eða almenn fyrirtæki.

Þegar þessi lán voru veitt á sínum tíma var gengið út frá því, bæði af hálfu lánveitanda og lántakenda, að þau væru lögleg og við það hefur verið miðað til þessa. Þótt ráðuneytinu sé vel kunnugt um að skoðanir kunni nú að vera skiptar um það hvort orðfæri einstakra lánssamninga kunni að einhverju leyti að vera á skjön við lagabókstafinn, þá er það og verður verkefni dómstóla að leysa úr réttarágreiningi sem slíkur ágreiningur kann að valda. Það væri í hæsta máta óeðlilegt að ráðherra færi að blanda sér í deilur sem annaðhvort eru þegar komnar inn á borð dómstóla eða virðast á leið þangað. Hér höfum við og viljum hafa þrískipt ríkisvald og framkvæmdarvaldið má ekki og getur ekki tekið fram fyrir hendur dómsvaldsins.

Ráðuneytið óskaði eftir því við Fjármálaeftirlitið að það veitti því upplýsingar um hvort það hefði kannað þessa lánssamninga sérstaklega. Í svari þess kom fram að það hefði ekki upplýsingar um hvaða fjármálafyrirtæki hefðu notað það orðalag sem fyrirspyrjandi vísar til fyrstu spurningu, þ.e. skuldari viðurkennir að skulda fjármálastofnun jafnvirði tiltekinnar krónutölu íslenskrar í tilgreindum myntum og hlutföllum. Enn fremur kom það fram í svari Fjármálaeftirlitsins að það telji að orðalag í gengisbundnum lánasamningum eða við erlend lán kunni að hafa verið mismunandi milli hinna einstöku lánveitenda og það hafi ekki aflað sérstaklega upplýsinga um þessa lánssamninga.

Þá kom fram í svari Fjármálaeftirlitsins að það hefði ekki upplýsingar um það hvort vakin hefði verið athygli á lagalegum álitaefnum sérstaklega tengdum þessum lánssamningum við uppgjör á milli nýju og gömlu bankanna. En við það er hægt að bæta að vitaskuld hefur þessi umræða verið opinber, þannig að það hefur væntanlega ekki farið fram hjá neinum af þeim sem komið hafa að þessu uppgjöri að einhverjir gera ágreining vegna þessara lána.

Nú Eygló líkaði ekki alls kostar svar ráðherra:

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Frú forseti. Ég verð að segja að það veldur mér vonbrigðum en kemur kannski ekki á óvart hvernig hæstv. ráðherra velur að svara þessum spurningum. Það kemur fram í 5. og 6. spurningu þar sem spurt er um frágang og uppgjör á milli nýju og gömlu bankanna, hvort tekið hafi verið tillit til þess, og hvort erlendum kröfuhöfum hafi verið kynnt sú lagalega óvissa. Hæstv. ráðherra virðist að einhverju leyti vera að afsaka sig með því að það sé ekki hlutverk ráðherra að leita lögfræðiálita eða fá skýringar á því hvort verið sé að gera hlutina á þann máta sem löggjafinn ætlast til þegar hann setti lögin. Ég veit ekki betur en að það hafi komið fyrir í þó nokkuð mörgum málum að ríkisstjórnin hafi leitað til lögfræðinga og fengið lögfræðileg álit á þeim málum og lögfræðingar komið og talað með eða á móti málum sem ríkisstjórnin hefur verið að leggja til.

Ég verð að ítreka að það eru mikil vonbrigði hvernig ráðherra virðist ætla að víkja sér aftur og aftur undan því að svara þessu varðandi gengistryggðu lánin. Ég held að ég geti fullyrt að í lögskýringargögnum sem komu með lögunum nr. 38/2001, komi alveg skýrt fram hvernig löglegt er að verðtryggða eða tengja lán á Íslandi. Þar er hvergi minnst á gengistryggingu heldur er talað um verðlagsvísitöluna og verðtryggingu á þann máta. Ég held að þetta sé líka dæmi um það sem talsmaður neytenda hefur ítrekað bent á að þær fjármálaafurðir, þær vörur sem hefur má segja verið prangað inn á neytendur á Íslandi á undanförnum árum, og er nú haldið áfram m.a. með nýrri greiðslujöfnunarvísitölu ríkisstjórnarinnar, að það er ekkert skrýtið að fólk hafi hreinlega ekki gert sér grein fyrir því hvað það var að kaupa. Það taldi sig vera að kaupa — ég er hérna með bréf (Forseti hringir.) frá leigutaka til Lýsingar þar sem kemur alveg skýrt fram hvað viðkomandi taldi sig vera að kaupa og hvað honum væri ætlað að borga og hann hefur í rauninni borgað jafnvel meira en samt er búið að hirða bílinn (Forseti hringir.) af leigutakanum og verið að rukka viðkomandi um margfalda þá upphæð sem hann (Forseti hringir.) taldi sig vera að taka að láni.

Og þá kemur í ljósi sögunnar besta svarið hans Gylfa (bara fyrsti hluti svarsins birtur):

Efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (U):

Virðulegi forseti. Vegna orða hv. þm. Eyglóar Harðardóttur, vil ég ítreka að skoðun ráðherra eða lögfræðilegra ráðgjafa hans skiptir ekki höfuðmáli í deilu sem þessari vegna þess að það liggur í eðli máls að úr henni verður ekki skorið nema fyrir dómstólum. Raunar væri það að mínu mati að ganga á svig við þrískiptingu ríkisvaldsins eða framkvæmdarvaldsins, þ.e. ráðherra í þessu tilfelli, að gefa einhvers konar fyrirmæli til dómstóla um það hver hann teldi að ætti að vera rétt niðurstaða í deilumáli sem þessu.

Já, takið eftir því að Gylfi telur það ganga á svig við þrískiptinguna að senda dómstólum fyrirmæli.  Samt veigraði hann sé ekkert við að senda héraðsdómi slík "fyrirmæli".

En steininn tók úr, þegar Gylfi ákvað 31. maí að svara skriflegri fyrirspurn Eyglóar með því að segja ekki frá áliti sem ráðuneytinu hafði borist.  Vissulega spurði Eygló hvort ráðuneytið hefði aflað slíks álits, en minnisblað aðallögfræðings SÍ var ofan í skúffu hjá ráðuneytinu (miðað við orð SÍ) og því hafði ráðuneytið það undir höndum.

Það myndi æra óstöðugan að fara yfir öll ummæli Gylfa Magnússonar og reka ofan í við hann öll mismælin, hvernig hann hagræðir sannleikanum, skiptir um skoðun o.s.frv.  Ég læt þessu því lokið hér.


350 milljarðar vegna lán heimilanna orðnir að innan við 12 milljörðum

Már Guðmundsson svaraði flestum spurningum spyrjanda að stakri prýði í Kastljósinu í kvöld. Jafnvel betur en hann gerði sér grein fyrir og kannski betur en hann ætlaði sér. Í einu svarinu viðurkenndi hann, að hræðsluáróðurinn sem var hér uppi eftir dóma...

Seðlabankinn birtir álit og minnisblað um ólögmæti gengistryggingar

Seðlabanki Íslands hefur birt lögfræðiálit LEX lögmannsstofu og minnisblað Sigríðar Logadóttur , aðallögfræðings bankans. Á bankinn þakkir skyldar fyrir það. Við lestur álits LEX vekur athygli hversu afdráttarlaust það er. Sérstaklega vil ég vekja...

Sérkennileg gagnrýni á Byggðastofnun - Er afnám kvóta það sem koma skal?

Undanfarna daga hefur verið upp gagnrýni á Byggðastofnun, þar sem stofnunin mun tapa háum fjárhæðum eftir að veiðar á úthafsrækju voru gefnar frjálsar. Gagnrýnin byggir á því að stofnunin hafi selt rækjukvóta í eigu stofnunarinnar með veði í kvótanum. Nú...

Seðlabankastjóri með skáldskap í sjónvarpsfréttum og gerir lítið úr aðallögfræðingi sínum

Það var merkilegt viðtal við Már Guðmundsson, seðlabankastjóra, í sjónvarpsfréttum. Fyrst færir hann í stílinn, þegar hann segir að umræðan hafi verið á fullu í þjóðfélaginu um þessi mál í maí í fyrra. Síðan gerir hann lítið úr aðallögfræðingi...

Seðlabankinn missagna og gerir lítið úr aðallögfræðingi sínum

Samkvæmt frétt Morgunblaðsins, þá segir í minnisblaði Seðlabankans til fjölmiðla: Seðlabankinn áréttar að einungis eitt lögfræðiálit hafi talið það "ekki ólíklegt" að lánin væru ólögmæt en álit ýmissa annarra lögfræðinga hafi gengið í aðra átt. Þetta er...

Ekki spurning um að dæma heldur að opna fyrir umræðu

Mér finnst skýring Seðlabankans ekki vera góð. Fyrir nokkrum vikum beið bankinn ekkert með að taka afgerandi afstöðu án þess að vera með skýran lagastuðning. Í fyrra hafði bankinn tækifæri til að koma hér í gang opinni og víðtækri umræðu um lögmæti...

Fúsk og vanhæfi - Hverjir vissu þetta líka?

Stundum verður maður alveg bit á bullinu sem gengur á í þessu þjóðfélagi. Eitt svona dæmi birtist í svörum Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlits til efnahags- og skattanefndar og viðskiptanefndar, sem fjallað er um í yfirlýsingu þingmanna...

Stórfrétt: Seðlabankinn þagði um lögfræðiálit frá 12. maí 2009

Tveir þingmenn Hreyfingarinnar, Margrét Tryggvadóttir og Þór Saari, sendu áðan tölvupóst til formanna viðskiptanefndar og efnahags- og skattanefndar. Afrit var sent á nefndarmenn, fjölmiðla og auk þess sem hann var birtur á síðu Hreyfingarinnar . Því...

Rangfærsla í úrskurði Neytendastofu

Það er ein ákaflega meinleg rangfærsla í úrskurði Neytendastofu. Þessi rangfærsla er svo meinleg að hún gerir niðurstöðuna hálf hjákátlega. Bílasamningar SP-fjármögnunar eru þvi marki brenndir að tekið er lán í SP-einingum. Þannig er í tilfelli þess...

Einföld skuldajöfnun gerð að flóknu ferli

Í febrúar 2009 ræddi finnskur blaðamaður við mig og fjölskylduna eftir að ég hélt ræðu á Austurvelli. Þegar ég sagði honum að við hjónin værum sem tvær eignir, aðra í byggingu sem við gætum ekki gert klára til notkunar og hina sem við gætum ekki selt, þá...

Neytendastofa valdalaus gagnvart neytendavernd í íslenskum lögum

Síðast liðinn föstudag, 30. júlí, gaf Neytendastofa út tvo úrskurði. Annan gegn SP-fjármögnun og hinn gegn Lýsingu . Bæði fyrirtæki brutu að mati Neytendastofu á lántökum við framkvæmd lánasamninga. Í báðum tilvikum bannar Neytendastofa fyrirtækjunum að...

Vont er þeirra ranglæti - verra þeirra réttlæti

Mig langar að birta hér yfirlýsingu sem stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna sendir frá sér áðan: Yfirlýsing frá Hagsmunasamtökum heimilanna vegna dóms héraðsdóms um vexti gengistryggðs bílaláns Reykjavík 25. júlí 2010 Hagsmunasamtök heimilanna furða sig á...

Dómurinn bætir allt að 54% ofan á það sem þegar hefur verið greitt

Sú ákvörðun dómara að bæta lögbrjótum um "forsendubrest" sem hlaust af því að lögbrot þeirra komst upp fjórfaldar ekki bara vextina. Nei, hann gerir gott betur. Sá lántaki sem tók 20 ára lán um mitt ár 2006 til jafns í JPY og CHF og hefur staðið í skilum...

Dómur héraðsdóms mun fjölga gjaldþrotum einstaklinga og auka á óstöðugleika í hagkerfinu

Ég hef verið að skoða hver áhrif dóms héraðsdóms er á ímyndað lán fyrstu 4 ár lánstímans miðað við að lánið hafi verið tekið í júlí 2006. Niðurstaðan kemur mér verulega á óvart. Lánið sem ég skoða er 20 m.kr. myntkarfa jen og svissneskir frankar. Lántaki...

Gengur þvert á fyrri dóma - Hagsmunir neytenda fyrir borð bornir

Eftir að hafa skoðað dóma héraðsdóms, þá er ekki hægt annað en að verða fyrir vonbrigðum. Er það virkilega niðurstaða dómara, að lántaki hafi ætlað að gangast undir allt að 21% vexti á ári af 5 m.kr. láni? Það gerir rúmlega 1 m.kr. í vexti. Ég segi bara:...

Eiríkur Guðnason biðst afsökunar

Eiríkur Guðnason, fyrrverandi seðlabankastjóri, hefur sent frá sér eftirfarandi afsökunarbeiðni vegna ummæla sinna um að lántakar sem tóku gengistryggð lán hafi verið samsekir: Ég sé eftir því að hafa notað stórt orð í viðtali við blaðamann Pressunnar...

Fyrrverandi seðlabankastjóri sendir fólki fingurinn og viðurkennir samsekt

23.7.2010 kl. 09:15: Ég ritaði þessa færslu í gær eftir að hafa lesið viðtal við Eirík Guðnason sem birtist í Pressunni. Nú hefur hann sent frá sér afsökunarbeiðni, þar sem hann segist sjá eftir orðum sínum um að lántakar hafi brotið lög. Virði ég það...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.9.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 1682120

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 11
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband