12.11.2011 | 00:54
Fjármálafyrirtæki á bara lögvarið það sem það greiddi fyrir kröfu og bara vexti frá stofndegi kröfu
(Ég vara fólk við, að til að skilja allt innihald þessarar færslu þarf að lesa þá síðustu líka.)
Hvenær ætla nýju bankarnir að skilja að þeir eru reistir upp af rústu fyrirtækja sem gengu í skrokk á samfélaginu? Hvenær ætla þeir að skilja, að þó telji sig eiga fulla greiðslu inni hjá lántökum, þá eru lántakar ekki sammála því? Og það sem meira er: Hæstiréttur Íslands tók undir með lántökum í máli nr. 340/2011, þ.e. Icesavedómnum, en þar segir hann:Áður er fram komið að hluti upphaflegra almennra kröfuhafa hefur selt kröfur sínar eftir 6. október 2008 og að þær hafi haft eitthvert fjárgildi í viðskiptum þótt óumdeilt sé að það hafi verið lágt. Um það nýtur ekki við nánari upplýsinga í málinu. Að öllu þessu virtu þykja sóknaraðilar ekki hafa rennt stoðum undir þær staðhæfingar sínar að kröfur þeirra hafi eða muni tapast að öllu leyti vegna setningar laga nr. 125/2008 þótt ókleift sé á þessu stigi að komast að niðurstöðu um hve mikið kunni að fást greitt af þeim þegar upp verður staðið.
Með þessu er Hæstiréttur að segja, að þó kröfuréttur haldist, þá miðist sá réttur við kaupverð kröfunnar, en ekki þá upphæð sem hún stóð í hjá gamla bankanum.
Nú er ekki einhver kverúlant úr hópi Hagsmunasamtaka heimilanna að tjá sig, heldur Hæstiréttur Íslands. Þetta fer að vísu 100% saman við það sem ég hef alltaf haldið fram, en núna er Hæstiréttur búinn að staðfesta það.
Skoðum þessa niðurstöðu í samræmi við ákvæði 2. gr. laga nr. 107/2009, þ.e. :
Skal miðað að því að hámarka gagnkvæman ávinning samningsaðila af því að gefa eftir tapaðar kröfur og komast hjá óþarfa kostnaði og óhagræði.
Lög nr. 151/2010 færðu nýju bönkunum meira en þeir áttu
Nú er til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd frumvarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um breytingar á lögum nr. 151/2010, þ.e. Árna Páls-lögunum svo kölluðum. Ég var gestur nefndarinnar sl. mánudag, ásamt fleiri samherjum. Í umsögn um frumvarpið, sem ég sendi inn, þá legg ég til að vaxtaútreikningi áður gengistryggðra lána verði breytt þannig, að samningsvextir gildi fram að dómsuppkvaðningu 16. júní 2010, þegar Hæstiréttur staðfesti þá túlkun okkar "kverúlantanna" að gengistrygging væri ólöglegt form verðtryggingar, en eftir það gildi vextir Seðlabanka Íslands. Megin inntakið er að þegar greiddir gjalddagar verði ekki hreyfðir nema til að gera upp ofgreiðslur (og vangreiðslur) sem hljótast af breyttri upphæð höfuðstólsins, en ekki breyttri vaxtaprósentu eins og lögin hljóma núna. Þegar gestir voru sérstaklega spurðir út í þetta atriði, þá gafst aðeins einum færi á að svara áður en knappur tími gesta til svara var úti. Sú sem svaraði var Ása Ólafsdóttir frá Háskóla Íslands, en hún var eini "hlutlausi" aðilinn í hópnum. Afstaða hennar var skýr. Afturvirk breyting á vöxtum stenst ekki, en nýir vextir geta tekið gildi frá 16. júní 2010.
Andrea J. Ólafsdóttir, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna, benti á að stofndagur peningakröfu myndast frá síðasta gjalddaga og er það í samræmi við ákvæði 3. gr. vaxtalaga nr. 38/2001. Í bráðabirgðaákvæði laganna sem sett voru með lögum nr. 151/2010 segir í 3. mgr. 18. gr.:
Vexti samkvæmt ákvæðum 1. mgr. skal reikna frá og með stofndegi peningakröfu, nema samið verði um annað, sbr. 3. gr.
Ef við skoðum svo hvað segir í 3. gr., þá kemur þetta í ljós:
Almenna vexti skal því aðeins greiða af peningakröfu að það leiði af samningi, venju eða lögum. Vexti skal greiða frá og með stofndegi peningakröfu og fram að gjalddaga.
Nú er bara spurningin hvernær er stofndagur peningakröfu.
Hagsmunasamtök heimilanna hafa fjallað nokkrum sinnum um þetta á vef sínum sem og Vilborg G. Hansen, stjórnarmaður í HH, á bloggsíðu sinni. HH hafa óskað eftir því við FME að stofnunin svari því hvenær þessi stofndagur er:
Samtökin telja að 5. mgr. 18. gr. laga 38/2001, sbr. 5. mgr. 1. gr. laga nr. 151/2010, sem heimili að tvíreikna vaxtatímabil þó að vextir séu greiddir sé að þessu leyti ógild og 3. mgr. sama ákvæðis um að vexti skuli reikna frá og með stofndegi peningakröfu, verði að skýra þannig að stofndagur kröfu miðist við ógreidda peningakröfu. Telur FME þessa lagatúlkun vera rétta?
Miðað við orðanna hljóðan og almennan skilning, þá myndast nýr stofndagur við daginn eftir síðasta gjalddaga á undan. Þannig að borgi ég af láni 1. janúar, þá stofnast ný krafa á mig 2. janúar og er sá dagur jafnframt stofndagur kröfunnar. Krafan ber síðan vexti frá þessum stofndegi til næsta gjalddaga að báðum dögum meðtöldum. Breytir þá engu, þó fyrri gjalddagi sé ógreiddur eða ekki. Þannig getur sama lánið verið með margar kröfur vakandi, hver með sinn stofndag og sinn gjalddaga. Segjum að ég hafi ekki greitt tvo gjalddaga og þá myndast samt ný krafa eftir annan ógreidda gjalddagann. Hún ber bara vexti frá stofndeginu fram að gjalddaga, en ekki frá síðasta greidda gjalddaga. Hann kemur þessu máli ekkert við. Greiðslurnar tvær sem eru ógreiddar bera ekki almenna vexti lengur en til gjalddaga, eftir það bera þær dráttarvexti. Þær hafa því ekki áhrif á eða koma í veg fyrir að nýr stofndagur verður til. Eða eins og segir í 5. gr. laga nr. 38/2001:
Hafi gjalddagi verið fyrir fram ákveðinn er kröfuhafa heimilt að krefja skuldara um dráttarvexti sem reiknast af ógreiddri peningakröfu frá og með gjalddaga fram að greiðsludegi.
Hin ógreidda peningakrafa er því gjalddagagreiðslan en ekki allt lánið, nema náttúrulega að það hafi verið gjaldfellt eða um kúlulán sé að ræða.
Algengustu endalok kröfu eru þau að hún falli niður við greiðslu. Ólafur Lárusson, prófessor, hélt því fram að daugdagi kröfu væri við greiðslu hennar eða eins og segir í bók sinni Kaflar úr kröfurétti:
Hinn eðlilegi dauðdagi kröfunnar, ef svo mætti segja, er sá, að hún falli niður við greiðslu eða borgun.
Setjum þetta í samhengi við 3. mgr. 18. gr. (bráðabirgðaákvæðis) laga nr. 38/2001 og rifjum upp hvað segir þar:
Þarna segir, að vexti samkvæmt 1. mgr., þ.e. Seðlabankavextina, megi eingöngu reikna frá og með stofndegi peningakröfunnar. Ekki aftur fyrir stofndaginn, heldur frá stofndeginum. Eins og ég hef skýrt út, þá er þessi stofndagur daginn eftir síðast gjalddaga á undan eða á öðrum þeim degi þegar samningsaðilar eru sammála um að ekki er nein ógreidd krafa útistandandi. Samkvæmt þessu er ekki hægt að gera kröfu um vexti vegna eldri gjalddaga, þar sem þeim kröfum var öllum lokið við greiðslu eða annað samkomulag um uppgjör.
Mér sýnist samkvæmt þessu, að áður gengistryggð lán geti aldrei borið Seðlabankavexti nema í mesta lagi frá síðasta greidda gjalddaga, í þeim tilfellum sem skilmálabreytingar áttu sé stað frá breytingardegi, lok frystingar hafi hún verið í gangi eða frá dómi Hæstaréttar 16. júní 2010, eftir því hvaða dagsetning er nýjust af þessum fjórum. Þetta byggist allt á því að kröfum, sem eru greiddar, er með því lokið og þær verða ekki aftur upp teknar nema fyrir tilstilli dómstóla og þá í tengslum við þau ákvæði laga sem segja til um slíkt. Hvorki löggjafinn né fjármálafyrirtækin hafa borið slíku fyrir sér.
Þegar ég les lög nr. 151/2010 með þessum gleraugum, þá standa þau fullkomlega. Það álit stendur og fellur með því að stofndagur krafna sé eins og ég kemst að niðurstöðu um. Sé svo, þá eru lögin ekki afturvirk, það er bara túlkun fjármálafyrirtækjanna á lögunum sem er afturvirk. (Tekið skal fram að þetta sjónarmið mitt er í andstöðu við alla aðra sem túlkað hafa áhrif laga nr. 151/2010 og einnig efni greinargerðar ráðherra.)
Lánamál | Breytt 6.12.2013 kl. 01:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
12.11.2011 | 00:02
Fortíðin sýnir að eitthvað hefur áunnist, en flest er óbreytt - Hugleiðing um lög nr. 107/2009
Ég var að fletta í gegn um tveggja ára gamlar færslu hér á síðunni minni og verð að viðurkenna að ansi margt hefur áunnist, þrátt fyrir allt. Fyrir tveimur árum héldu stjórnarþingmenn og ráðherrar því statt og stöðugt fram að allar lækkanir sem bankarnir veittu væru til að sýna gjafmildi þeirra, þar sem lántakar yrðu að standa í skilum. Í dag dettur engum stjórnmálamanni að segja þetta, ekki einu sinni æðsta varðmanni "erlendra kröfuhafa", Árna Páli Árnasyni, efnahags- og viðskiptaráðherra. En fyrir tveimur árum sigaði hann "ráðgjöfum" sínum (sem ráðnir voru án auglýsinga) á okkur almúgann og þeirra skilaboð voru skýri:
Þið skuldarar stofnuðuð til þessara skulda og þið verðið að standa í skilum hvað sem það kostar.
Nú er annar þessara "ráðgjafa" orðinn starfsmaður Samtaka fjármálafyrirtækja og get ég ekki séð að hann hafi skipt um lið, bera vinnustað.
Kristrún Heimisdóttir sagði í byrjun nóvember 2009 að 600 milljarðar kr. sem fram kom í skýrslu AGS að væri afskriftarþörf fjármálafyrirtækjanna, ætti bara að fara til þeirra sem bönkunum tækist að draga í gegn um sértæka skuldaaðlögun. Reyndin er að bankarnir vilja ekki að fólk fari í gegn um sértæka skuldaaðlögun. Þeir vilja ýta þeim í gegn um 110% leiðina.
Það sem hefur ekki breyst, er að bankarnir sem lögðu þjóðfélagið á hliðina eru dómarar í eigin sök. Þeir eru líka túlkendur laga og neita að taka tillit til athugasemda viðskiptavina sinna um að þeir fari með rangt mál.
Lög nr. 107/2009
Annað sem ekki hefur breyst eru lögbrotin sem felast í úrræðum bankanna. 23. október 2009 samþykkti Alþingi í miklum asa lög nr. 107/2009. Um frumvarpið sagði ég í færslu Málið er ekki tilbúið - Óvirðing við lántakendur og meinti það. 32 þingmenn samþykktu lögin, einn þingmaður (Þór Saari) sagði nei, tveir voru með leyfi og 28 voru fjarverandi. Meðal þeirra sem samþykktu lögin eru ýmsir sem ekki eru stoltir af því atkvæði sínu í dag. Þór sagði við mig, að hann hefði greitt atkvæði gegn því af því að Hagsmunasamtök heimilanna hefðu mótmælt því. Aðrir þingmenn Hreyfingarinnar voru fjarverandi, en einnig formaður félags- og tryggingamálanefndar, Guðríður Lilja Grétarsdóttir, sem bendir til þess að hún hafi ekki geta stutt þennan óskapnað.
En þar með var ekki málinu lokið. Niðurstaðan hefði getað orðið ásættanleg, ef reglurnar sem fjármálafyrirtækin máttu sammælast um hefðu verið góðar. Öðru var nær. Reyndar vill svo til að reglurnar voru að mestu tilbúnar löngu áður en frumvarpið varð að lögum, eins og lesa má í færslunni Verklagsreglur fjármálafyrirtækja um sértæka skuldaaðlögun, en þar er einmitt tengill yfir á drög að verklagsreglunum. Þar vekur athygli að drögin eru með dagsetningunni 12. október 2009, en það er fjórum dögum áður en félags- og tryggingamálaráðherra, Árni Páll Árnason, lagði frumvarpið á þingskjali 69 fyrir Alþingi og 11 dögum áður en frumvarpið varð að lögum. Hver ætli hafi ráðið innihaldi laganna, fjármálafyrirtækin eða Alþingi? Er ég hræddur um að Alþingi hafi í þessu máli, eins og allt of mörgum öðrum, virkað eins og framlenging á stjórn Samtaka fjármálafyrirtækja.
Í bráðabirgðaákvæði laganna er ákvæði um skipan starfshóps til að meta árangurinn af framkvæmd laganna. Hann áttu að skipa fulltrúar allra þingflokka, sérfræðingar og fulltrúar hagsmunaaðila. Frómt er frá því að segja, að félags- og tryggingamálaráðherra beið í fyrsta lagi í marga mánuði að skipa hópinn og í honum sátu eingöngu fulltrúar þingflokka. Klassísk aðferð vanhæfra stjórnvalda til að koma í veg fyrir óþægilegar spurningar. Hreyfingin sneri á Árna Pál og bað mig um að vera fulltrúa sinn í hópnum og þáði ég það. Þó ég segi sjálfur frá, þá held ég að með því hafi Árna Páli verið reddað, þar sem á einu bretti fékkst inn í hópinn fulltrúi Hreyfingarinnar, sérfræðingur og fulltrúi hagsmunaaðila. Ég held að lögin hafi ekki verið hugsuð þannig.
Starfshópurinn hélt marga fundi og kom með fullt af ábendingum. Allt of fáar þeirra rötuðu inn í skýrslu hópsins og svo var hann bara lagður niður. Líklegast voru spurningar okkar orðnar of erfiðar fyrir ráðuneytið.
Verklagsreglurnar og lögin
Lögin voru á margan hátt ótrúlega vitlaus og skil ég ekki enn hvers vegna þeim hefur ekki verið breytt af fenginni reynslu. Margt í þeim var ekki svo vitlaust, t.d. hafa þau ákaflega göfugt hlutverk og markmið eða eins og segir í 1.gr.:
Markmið laga þessara er að hraða endurreisn íslensks efnahagslífs í kjölfar banka- og gjaldeyrishrunsins haustið 2008 og að jafnvægi komist á virði eigna og greiðslugetu annars vegar og fjárskuldbindinga einstaklinga, fyrirtækja og heimila hins vegar. Lögin kveða á um leiðir og viðmið til að ná því markmiði.
Ekki er ég sammála því að lögin kveði á um leiðir og viðmið til að "jafnvægi komist á virði eigna og greiðslugetu annars vegar og fjárskuldbindinga einstaklinga, fyrirtækja og heimila hins vegar". Þau fyrst og fremst kveða á um leiðir til að staðfesta að fjármálafyrirtæki eru ekki ábyrg gerða sinna, heldur eiga viðskiptavinirnir að bera allan skaðann þegar fjármálafyrirtæki drulla upp á bak.
Verklagsreglurnar hunsa þetta atriði um að "jafnvægi [eigi að] kom[a]st á virði eigna og greiðslugetu annars vegar og fjárskuldbindinga einstaklinga, fyrirtækja og heimila hins vegar" og fylgja í staðinn hinni leiðinni að allt sem lántakinn á skal hann greiða bankanum og svo skulda allt hitt sem hann getur ekki borgað nema að hann sé svo skuldugur að bankinn geti bara ekki rukkað hann um meira.
Verklagsreglurnar gera meira en að kreista út úr lántökum allt sem hægt er að kreista. Þær brjóta freklega gegn ákvæði 2. gr. laganna, þar sem segir:
Í samningi milli kröfuhafa og skuldara um eftirgjöf skulda eða breytingu á skilmálum skuldabréfa og lánssamninga skal fyrst og fremst horft til þess að laga skuldir að greiðslugetu og eignastöðu viðkomandi einstaklings eða heimilis. Skal miðað að því að hámarka gagnkvæman ávinning samningsaðila af því að gefa eftir tapaðar kröfur og komast hjá óþarfa kostnaði og óhagræði.
Takið sérstaklega eftir orðunum:
Skal miðað að því að hámarka gagnkvæman ávinning samningsaðila af því að gefa eftir tapaðar kröfur og komast hjá óþarfa kostnaði og óhagræði.
Ég hef ekki ennþá orðið var við það fjármálafyrirtæki sem reynir að "hámarka gagnkvæman ávinning samningsaðila af því að gefa eftir tapaðar kröfur". 110% leiðin er t.d. hreint og beint brot á þessum lögum. Landsbankinn er eini bankinn með tilboði sínu frá því í vor (18 mánðum eftir að lögin voru sett) hefur haft í heiðri:
Í samningi milli kröfuhafa og skuldara um eftirgjöf skulda eða breytingu á skilmálum skuldabréfa og lánssamninga skal fyrst og fremst horft til þess að laga skuldir að greiðslugetu og eignastöðu viðkomandi einstaklings eða heimilis.
Sértæk skuldaaðlögun og 110% leiðin eru báðar skýrt brot á þessu ákvæði. Sú fyrri fellir ekkert niður, heldur frestar bara hlutum og hin síðari tekur ekkert tillit til greiðslugetu. Enn frekar, þá hunsa fjármálafyrirtækin almennt þetta með greiðslugetuna (nema Landsbankinn í úrræðum sínum fyrir aðrar skuldir).
Hvenær ætla nýju bankarnir að skilja að þeir eru reistir upp af rústu fyrirtækja sem gengu í skrokk á samfélaginu? Hvenær ætla þeir að skilja, að þó telji sig eiga fulla greiðslu inni hjá lántökum, þá eru lántakar ekki sammála því? Og það sem meira er: Hæstiréttur Íslands tók undir með lántökum í máli nr. 340/2011, þ.e. Icesavedómnum. Nánar um það í næstu færslu.Skuldamál heimilanna | Breytt 6.12.2013 kl. 01:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.11.2011 | 10:58
Fáein orð um Ólaf Oddsson
Til grafar er borinn í dag gamall kennari minn, Ólafur Oddsson, fyrrum íslenskukennari við Menntaskólann í Reykjavík. Hann var einn þriggja íslenskukennara sem ég hafði á námsferli mínum við skólann. Hinir tveir eru látnir fyrir nokkuð löngu.
Ég mun alltaf minnast Ólafs, eða Óla eins og hann var kallaður, fyrir þá ótrúlegu yfirvegun og rósemd sem fylgdi honum. Það sem mestu skiptir að hann var heiðarlegri en nokkur maður gat verið. Naut hann mikillar virðingar minnar og samnemenda minna fyrir að vera vinur okkar og ekki síður samherji, en oft þurfti hann að bera klæði á vopnin sem félagar hans meðal íslenskukennara munduðu að "fávísum" nemendum sínum. Eiga örugglega margir nemendur honum að þakka, að þeir þurftu ekki að endurtaka heilu námsárin.
Glettni var hans vörumerki. Var hann þar enginn eftirbátur bróður síns, sem flestir landsmenn þekkja betur. Snerist þessi glettni oftast um eigin hagi og þá sérstaklega kvenfólk og líkamsburði hans. Var það ansi oft sem hann sagði einhver gamanyrði, en lét síðan fylgja: "En þetta gæti ég aldrei sagt nema í strákabekk." Ekki að ummælin væri karlrembuleg, heldur lýsti þetta manninum vel, að ekki mætti rangtúlka að hann væri karlremba, enda var hann stoltur faðir dætra sinna og bárust þær reglulega í tal. Bar hann ósjaldan líkamsburði sína við þá sem fóru af söguhetjum Íslendingasagnanna og var ýmist að hann taldi sig betur búinn eða hinir. "Þetta hafa verið óttalegir væsklar", sagði hann gjarnan eða "sæi ég nú ekki mig fyrir mig gera þetta". Eitt er víst að mönnum fannst þeir hafa fengið stóra vinninginn, þegar í ljós kom að Ólafur Oddsson ætti að kenna þeim.
Að mínu mati, eiga þessar línur Hávamála við um fáa eins og vel Óla Odds:Deyr fé
deyja frændur
deyr sjálfur ið sama.
En orðstír
deyr aldregi
hveim sér góðan getur.
Ég votta aðstandendum samúð mína.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.11.2011 | 20:41
Er krónan vandamálið eða er hún birtingarmynd vandans?
Efnahagsmál | Breytt 6.12.2013 kl. 01:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
4.11.2011 | 13:15
Rökstuðningur sem ekki stenst - Seðlabankinn þarf að líta fram á veginn
Efnahagsmál | Breytt 6.12.2013 kl. 01:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.11.2011 | 11:06
Hver er staða heimilanna, hver er vandinn og hvað þarf að gera? - Endurbirt færsla frá 22/11/2010
Skuldamál heimilanna | Breytt 6.12.2013 kl. 01:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
31.10.2011 | 22:13
Hvar og hvenær eiga ferðamenn að versla?
Ferðaþjónusta | Breytt 6.12.2013 kl. 01:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
31.10.2011 | 13:13
Guðmundi Gunnarssyni svarað
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
28.10.2011 | 22:33
Hæstiréttur: Neyðarlögin voru almenn og framvirk; Jón Steinar: Neyðarlögin voru sértæk og afturvirk
Icesave | Breytt 6.12.2013 kl. 01:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
28.10.2011 | 14:06
Hæstiréttur: Neyðarlögin halda!
Icesave | Breytt 6.12.2013 kl. 01:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
28.10.2011 | 12:04
Verður Ísland gjaldþrota í dag?
Icesave | Breytt 6.12.2013 kl. 01:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
28.10.2011 | 10:49
Ástandið versnar þvert á staðhæfingar stjórnvalda og AGS
Endurreisn | Breytt 6.12.2013 kl. 01:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
28.10.2011 | 00:58
Ráðstefna stjórnvalda og AGS
Endurreisn | Breytt 6.12.2013 kl. 01:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
26.10.2011 | 18:10
Kreppan og endurreisnin - Er Fönix risinn úr öskustónni?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
26.10.2011 | 02:44
Er Hæstiréttur að senda skilaboð um vexti í dómi sínum í máli nr. 274/2011?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.10.2011 | 23:30
Sorgleg niðurstaða - Við viljum fagmennsku en bara með réttri niðurstöðu
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (41)
22.10.2011 | 13:13
Sjá menn ekki í gegn um þetta? Þetta er leikrit!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.10.2011 | 22:18
Sleikjugangur við fjármagnseigendur
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (54)
18.10.2011 | 11:22
Afslættir af lánum heimilanna og afslættir af íbúðalánasöfnum
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (16.1.): 3
- Sl. sólarhring: 6
- Sl. viku: 25
- Frá upphafi: 1681256
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 24
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði