28.10.2011 | 00:58
Ráðstefna stjórnvalda og AGS
Mér var boðið á ráðstefnu stjórnvalda og AGS um hvernig endurreisn Íslands hefði gengið fyrir sig. Margt forvitnilegt kom fram þar, bæði hjá innlendum og erlendum fyrirlesurum. Sjaldan var reynt að málamyndina bjartari litum og oft heyrðist mikil gagnrýni á áherslu AGS og stjórnvalda í endurreisninni.
Senuþjófur dagsins
Senuþjófurinn var án efa Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands. Blés Gylfi á ýmsar goðsagnir um það hvernig hlutirnir hefur gengið fyrir sig. Benti hann t.d. á að eins ástæðan fyrir því að bönkunum var ekki bjargað, var að ríkissjóður hefði ekki haft efni á því. Það hafi ekki verið í planinu að hlaupa frá skuldum bankanna, heldur hafi hlutirnir bara æxlast svona, vegna lélegra stöðu gjaldeyrisvarasjóðsins. Þetta hafi því verið hundaheppni en ekki útpæld aðgerð að bankarnir voru látnir falla á lánadrottna þeirra. Ennþá meiri heppni hafi verið að AGS hafi ekki verið kallaður að borðinu fyrr, þar sem þá var vandinn ekki eins mikill og menn hefðu því freistast til að ausa peningum í bankana. Hann sagði einnig að þetta með Icesave innstæðurnar hafi byggt á sömu heppni, þ.e. ef peningarnir hefðu verið til, þá hefði ríkið greitt út lágmarksinnstæðunar.
Ummæli dagsins
Gylfi Arnbjörnsson átti ummæli dagsins, þegar hann segist ekki ætla að verja verðtrygginguna.
Samantekt
Ráðstefnan byrjaði á heldur döpru erindi Jóhönnu Sigurðardóttur, en á eftir henni kom Árni Páll Árnason með alveg fyrirtaks erindi. Má segja að með því hafi Árni Páll gefið tóninn fyrir það sem á eftir fór. Byrjaði hann á að greina frá ummælum Poul Thomsen, yfirmanni AGS gagnvart Íslandi, sem sagði að ástandið hér haustið 2008 hafi verið "near death experience". Þ.e. sjúklingurinn Ísland hafi verið nær dauða kominn í þá mund sem AGS kom hingað. ÁPÁ benti á, að gömlu bankarnir þrír hafi verið fyrstu AA fyrirtæki til að fara í vanskil á greiðslum (default). Hann sagði að ríkisstjórnin hafi verið að hugsa um hag heimila og fyrirtækja með því að verja innstæður (nokkuð sem ég átta mig ekki á, þar sem eingöngu lítill hluti einstaklinga og fyrirtækja áttu stóran hluta innstæðna). Hann ítrekaði svo að stjórnvöld vildu og hafa alltaf viljað að skuldir umfram greiðslugetu væru afskrifaðar (hlutur sem illa hefur gengið að hrinda í framkvæmd að mínu mati). -- Mér fannst ÁPÁ bara nokkuð hreinskilinn í erindi sínu og velti því fyrir mér hvers vegna hann tali ekki á þessum nótum oftar í staðinn fyrir að vera sífellt í vörn.
Fyrsti hluti
Stiglitz: Erindi hans hafði verið tekið upp og því sýnt á tjaldi. Hann sagði í sjálfu sér ekki mikið, en myndbandið var flott. Hann sagði þó að rétt hafi verið að láta hluthafa og skuldabréfaeigendur taka á sig skellinn.
Friðrik Már Baldursson: Hann greindi frá því að nettókostnaður ríkisins af hruni bankanna hafi numið um 20% af vegri þjóðarframleiðslu eða um 340 ma.kr. Hann tiltók að 1 ma.EUR skuldabréfaútgáfa í sumar hafi sannað að ríkissjóður gæti tekið lán erlendis, en samkvæmt mínum upplýsingum, þá seldust bréfin til fjárfesta víða um heim. Hann fullyrti að slæm lán hefðu verið skilin eftir í gömlu bönkunumm, sem fékk mig til að valta því fyrir mér hvers vegna nýju bankarnir væru því að reyna að innheimta þau. - Í einkasamræðum þá sagði Friðrik að líklegasta skýringin væri að menn vissu ekki hvaða lán væru slæm og hvaða lán væru góð!
Willem Buiter: Hann blés á þá staðhæfingu að Ísland hefði lent í aftakaveðrinu mikla (perfect storm). Það væri réttlæting á því sem hefði gerst! Hér hefði ríkt múgheimska, þar sem allir hefðu látið stjórnast af sameiginlegu brjálæði. Að halda að hægt væri að vera með alþjóðlegt bankakerfi án þess að vera með alþjóðlega viðurkenndan gjaldmiðil væri mikil skammsýni. Telur hann að m.a. Bretland sé of lítið til að vera með alla þá bankastarfsemi sem er í landinu. Eins og ýmsir síðar, varaði hann við því að heimilin fengju að taka gengisbundin lán og það þyrfti að verja heimilin fyrir sjálfum sér. Alls ekki ætti að bjarga bönkunum út þeim vanda sem þeir kæmu sér í. Það væri hlutverk eigenda og bankanna sjálfra. Hann benti á að væri ekki nógu mikið af hæfileikaríku fólki til að sinna mikilvægum störfum, þá væri lausnin að sækja það til útlanda. Önnur lausn væri að ganga í stærri klúbb, þ.e. ESB. Hann hafði miklar áhyggjur af skorti á fjárfestingu og núverandi hlutfall kæmi niður á komandi kynslóðum. Buiter sagði of miklar skuldir vera í kerfinu og landið þyrfti hreinlega á skuldahreinsun á 50 ára fresti. Lausnin væri að afskrifa eða breyta þeim í eign, þ.e. skuldir væru færðar niður í 70% og bankinn eignaðist í staðinn 30%. Hann sagði 110% leiðina klikkaða. Hann varaði við að hefta nýju bankana með óleystum skuldamálum (overhanging debts). Binda ætti enda á verðtryggingu og skipta bönkum í góða banka og slæma banka. Buiter vildi að bankarnir störfuðu sem bankar en ekki viðeignastýringu. Stjórnvöld hefðu gert mistök við að tryggja innstæður upp í topp. Nóg hefði verið að tryggja þær upp að vissu marki og síðan senda það sem umfram var í almenna kröfuröð.
Vilhjálmur Egilsson: Honum var tíðrætt um gjaldeyrishöftin og óttaðist að þau myndu vara endalaust, ef markmiðið væri að verja stöðugleika krónunnar. Allt sem væri frjálst á markaði sveiflaðist og það vildum við. Gjaldeyrishöftin væru vantraustsyfirlýsing á krónuna! Opna yrði markaði til að hafa þá heilbrigða. Verðlagsstýringar fyrr á árum hefðu ekki haldið verðlagi niðri og hið sama ætti við um gjaldeyrishöft. Hann saknaði vaxtaráætlunar.
Franek Rowzadowski, fulltrúi AGS: Hann lýsti markmiði áætlunar AGS og stjórnvalda, sem var að koma á stöðugleika, upphaflega aðeins gagnvart gengi, en við komu AGS var gjaldeyrisvarasjóðurinn ekki nógu öflugur. Gjaldeyrishöftin hafi verið nauðsynleg aðgerð því allt stefndi í að allur gjaldeyrir kláraðist.
Annar hluti
Stefán Ólafsson: Fyrirlestur Stefáns var sorglegt dæmi um það hvernig menn geta látið tölfræði segja hvað sem er. Ég skrifaði í glósur mínar "hvítþvottur" og tóku ýmsir undir þetta með mér. Hann fór nokkru eftir að hann var búinn með erindi sitt og því var ekki hægt að spyrja hann spurninga. Ég skil t.d. ekki hvernig honum datt í hug að horfa á útgjaldabreytinga fyrir 2007 til 2010, þegar hrunið varð ekki fyrr en á þriðja ársfjórðungi 2008 og kom því EKKERT inn í fjárlög til velferðarmála fyrr en í fjárlögum 2009. Ég get ekki tekið svona framsetning gagna alvarlega.
Jón Daníelsson: Hann kallaði erindið sitt The good, the bad and the ugly. Það góða var að samdrátturinn varð minni en menn óttuðust, gjaldþrot ríkissjóðs var forðað, menn afneituðu ekki skuldunum, tekist hefur að komast á fjármálamarkað á góðum kjörum og atvinnuleysi hefði orðið minna en búast mátti við. Slæmi hlutinn er að gengið hefði hrunið, útflutningur hefði ekki tekið við sér og fjárfesting er í lægð. Sá ljóti er gjaldeyrishöftin a la 6. áratugurinn, þ.e. röng aðferð sem skilar ekki réttum árangri. Hafi menn ætlað að ná jafnvægi með krónuna, þá hefðu verið meiri sveiflur gagnvart evru, en hjá Svíum. Vaxtastefnan væri kolröng. Bönkunum skipt í innlenda - erlenda, en ekki góða og slæma og tveimur komið í hendur hrægammasjóðum. Tími þeirra færi í að hámarka skammtímaeignabjörgun í staðinn fyrir að veita bankaþjónustu. Regluverk hafi verið of lítið fyrir hrun og of mikið eftir hrun. Innlendir bankar þyrftu ekki regluverk fyrir alþjóðlega starfsemi. Bankarnir stjórna 50% fyrirtækja sem skekkir samkeppni og dregur úr hvöt til fjárfestinga. Vantar að viðurkenna töpuð útlán, en það bæði skekkir bókfærða stöðu og heldur aftur af batanum. Í umræðum sagði Jón að gjaldeyrishöft ættu að byggja á skattlagningu á heitu fé.
Gylfi Arnbjörnsson: Ég er ekki sammála þeim sem segja að hann hafi verið afleitur. Hann þarf að læra að setja upp glærur því engin ástæða er að setja allt á glærurnar sem maður ætlar að segja. Hann var mjög gagnrýninn og hef ég ekki áður séð hann jafn gagnrýninn. Gjaldeyrismálin voru honum hugleikin bæði fyrir og eftir hrun. Hneykslaðist hann á því að gjaldeyrisvarasjóðurinn bæði nú og strax eftir hrun hafi vreið tekinn að láni. Hann vill skipta um gjaldmiðil. Hann sagði að lélegir bankamenn hefðu fengið rammann sem þeir unnu innan frá stjórnmálamönnum. (Þ.e. sökin fyrir hegðun bankamanna væri hjá stjórnmálamönnum sem ég kaupi ekki. Hver maður er ábyrgur fyrir sinni hegðun.) Hann taldi að sveigjanlegur gjaldmiðill virkaði ekki í litlu opnu hagkerfi. (Fékk á baukinn frá erlendu hagfræðingunum fyrir þetta síðar. Ég held að sú yfirhalning hafi verið óverðskulduð og sýna örlítinn menntahroka. Menn geta verið ósammála, en þá eiga menn bara að segja það.) Gylfi benti á að 30% tekna heimilanna fari í vexti. Í umræðum hrökk upp úr Gylfa, að hann ætlaði ekki að verja verðtrygginguna.
Paul Krugman: Hann var framan af fastur í tölfræðisamanburði sem átti að sýna að Ísland hafði ekki farið svo illa út úr hruninu. (Gerði að hluta sömu mistök og Julie Kozack síðar.) Hann sagði að áhugi sinn á Íslandi væri að það væri mikilvægt til samanburðar. Óleyst skuldamál væru stærsta vandamálið. Var ósammála um að hægt væri að lyfta gjaldeyrishöftunum og sagði evruna ekki þá lausn sem Ísland þyrfti. Betra væri að hafa krónuna.
Matarhlé
Steingrímur J. Sigfússon hélt ræðu í matarhléinu, þar sem hann opinberaði að óbeit hans á AGS hafi verið á misskilningi byggð. Þetta hafi verið hið vænsta fólk! Ég held að hann hafi endurtekið það svona fimm sinnum, eins og hann væri að venjast því að segja það. Að öðru leiti var ræða hans ekki innihaldsrík. Endurtekning á því sem hann hefur sagt ítrekað inni á Alþingi.
Þriðji hluti
Þorvaldur Gylfason: Hvatti menn til að skoða ákvæði um hæfi stjórnarmanna í lögum um fjármálafyrirtæki.
Gylfi Magnússon: Erindi hans var mjög gott, skýrt og skilmerkilegt. Viðhalda efnahagslegri endurreisn, auka við fjárfestingu, endurfjármögnun opinberra lífeyrissjóða, endursköpun regluverks fyrir fjármálageirann eru það sem ég punktaði hjá mér.
Simon Johnson: Án efa sá hreinskilnasti í salnum. Var ánægður með að menn hefðu losað sig við flestar afsakanir/blekkingar, þó væru nokkrar eftir og hann ætlaði að henda þeim út. Fyrst spurði hann hvort við værum í raun núna að horfast í augu við alheimskreppu. Evrusvæðið væri að leysast upp. Hve mikið væru Þjóðverjar tilbúnir að borga til að halda uppi lífsstandard Berlusconis. Menn yrðu að átta sig á því að engin mörk væru á því hvað ríki gætu skuldsett sig. Hann benti á að það sem þyrfti til að halda nútíma banka gangandi væri nógu stór efnahagsreikningur. Hann spurði salinn hvort hann héldi að Goldman Sachs gæti fallið. Nær engin viðbrögð komu. Málið væri samt að fjármálakerfið væri ekki komið í lag nema hvaða banki sem er gæti fallið. Benti á að launahæstu bankastjórarnir hefðu fengið á þriðja milljarð dala í kaupauka, þar af hefðu 2 ma. USD runnið fimm manna, þ.e. hjá Lehman Brothers, Bears Stern, AIG, NationWide og til eins í viðbót sem ég man ekki. Öll þessi fyrirtæki fór illa út úr hruninu og nokkur þeirra eru ekki til lengur. Laun og árangur fer greinilega ekki saman.
Finnur Oddsson: Flutti mjög áhugavert erindi sem ég hvet fólk til að kynna sér með því að skoða glærurnar hans.
Julie Kozack, AGS: Hún skýrði frá því sem þyrfti að gera á næstu misserum: auka vöxt, draga úr atvinnuleysi, aflétta gjaldeyrishöftum, lækka skuldir hins opinbera, halda áfram endurbótum á fjármálamarkaði, ljúka við endurskipulagningu skulda heimila og fyrirtækja. Hún var ánægð með góðan árangur í skuldabréfaútboði ríkissjóðs, en sagði að fjárfestingar væru nauðsynlegar. Aflandakrónu væru í kringum 30% af vergri landsframleiðslu, þ.e. um 3,5 ma. USD. Óvirk lán í bankakerfinu væru líka um 30% af lánunum. Hún kom með nokkra ákaflega vafasamar yfirlýsingar, sem hún dró til baka þegar ég bað hana um að skýra það út fyrir almenningi sem hefði lent i ótrúlegum hremmingum.
Fjórði hluti
Þessi hluti var samræður sex einstaklinga í pallborði og síðan var opnað fyrir spurningar. Hér fóru flestir í panellnum á kostum nema helst Nemat frá AGS sem var að passa sig á að tala ekki af sér. Sérstaklega ber að nefna stórkostlega frammistöðu Gylfa Zoega, sem ég minnist á fram í þessum pistli. Reittu menn af sér brandara hægri vinstri og fór stundum lítið fyrir alvarlegri umræðu, þó alvaran lægi alltaf undir. Kaldhæðni ætti ég kannski frekar að segja.
Mín upplifun
Ég var ánægður með margt sem kom fram á ráðstefnunni. Allt of margt var það sem ég, Hagsmunasamtök heimilanna og einstaklingar innan þeirra, Samtök lánþega, Lilja Mósesdóttir, Eygló Harðardóttir, Margrét Tryggvadóttir og Þór Saari höfum verið að halda fram síðustu ríflega þrjú ár. Veit ég ekki hvort ég eigi að vera ánægður með það, hvað erlendu sérfræðingarnir sögðu oft hluti sem ég fjallað um eða vera reiður yfir að stjórnvöld hafi ekki verið að hlusta.
Steingrímur og Jóhanna voru með minnsta innihaldið í sínum ræðum og svo voru nokkur erindi sem mér fannst litlu skila inn í umræðuna. Fyrirspurnir komu nánast eingöngu frá okkur í órólegu deildinni, þ.e. hópi sem kom saman á miðvikudag og komum okkur saman um að spyrja ögrandi spurninga. Því miður gafst minni tími til spurninga en æskilegt hefði verið, sérstaklega var Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóri, lélegur í sinni tímastjórnun og komust því nánast engar spurningar að í fyrsta hlutanum, þó ærið tilefni hafi verið til.
Rauði þráðurinn í erindum margra var að halda í krónuna, burt með verðtrygginguna og ganga yrði lengra í afskriftum skulda heimila og fyrirtækja. Eftir ráðstefnuna ræddi ég við tvo aðila sem eru framarlega í íslensku viðskiptalífi um verðtrygginguna (nefni engin nöfn). Benti ég á að ekki ætti að bjóða neinum verðtryggingu nema sá hinn sami gæti náð verðtryggingarjöfnuði. Þannig hafi kerfið verið í upphafi og þannig ætti það að vera. Þetta væri ekki spurningin um að afnema verðtrygginguna heldur banna hana á neytendalánum. Báðum fannst þetta áhugavert sjónarhorn og vona ég að þau fylgi þessu eftir á sínum vettvangi. Staðreyndin er sú að fjármálakerfið er rekið á jöfnuði vegna gjaldeyrisviðskipta og verðtryggingar. Hvernig getum við með sanni sagt að fjármálafyrirtækin séu með verðtryggingarjöfnuð, þegar sá sem er á annarri vogarskálinni er ekki með hann?
Hrósið fá: Aðstandendur ráðstefnunnar fyrir að halda hana og safna saman góðu liði panelista. Ég hélt að hún yrði já-bræðralags fundur, en svo varð ekki.
Loðinn og krúttlegur AGS | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Endurreisn | Breytt 6.12.2013 kl. 01:12 | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (11.9.): 6
- Sl. sólarhring: 6
- Sl. viku: 42
- Frá upphafi: 1679457
Annað
- Innlit í dag: 5
- Innlit sl. viku: 25
- Gestir í dag: 5
- IP-tölur í dag: 5
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Skyldu menn svo taka þessa niðurstöðu til sín og byrja strax á morgun að afnema verðtrygginguna? Þess væri óskandi, en ég tel litlar líkur á að svo verði. Allt þetta tal var fagurgali.
Varðandi Gjaldeyrishöft, þá er það talsverður ýkjustíll að tala um þau sem eitthvað steintröll frá 7. áratugnum. Afnám gjaldeyrishafta er að miklu leyti ástæða þess ójafnvægis og sveiflna sem hafa ríkt á fja´rmálamarkaði síðan á 9. áratugnum. Menn muna glöggt eftir áhlaupi Soros á Pundið, sem hefði ekki verið hægt ef einhverjar hömlur hefðu verið.
Í ESB er fjármagnsflótti í skjóli fjórfrelsis höfuðmein hinna aðþrengdu þjóða. Ég tel þetta frelsi verða banabita þeirra.
Þegar talað er um gjaldeyrishöft, þa er látið eins og um tvennt sé að ræða: Algerar skorður, baunatalning og beurocrasía eða algert hömlu og haftaleysi. Það er millivegur, trúðu mér.
Skorður á peningaflæði, þau ekki væri nema til að mónitora það, eru nauðsynlegar. Það hentar fjármálaheiminum vel að hafa hömluleysið, enda er afnám allra haft meginhluti þeirrar dereguleringar sem komið hefur hinum vestræna heimi á þann stað sem hann er.
Það kemur þó ekkert á óvart að spekúlantar og fræðilegar málpípur þeirra tali gegn því að endurreisa það regluverk, sem liðað var sundur. Þetta gjaldeyrishaftatal er einmitt af þeirri sortinni.
Jón Steinar Ragnarsson, 28.10.2011 kl. 03:46
Já, ég gleymdi að þakka þér fyrir þessa greinargóðu samantekt. Geri það hér með.
Jón Steinar Ragnarsson, 28.10.2011 kl. 03:47
Með verðtryggingun, þá var hun sett á sem bráðabyrgðaraðger með Ólafslögum á sínum tíma. Þá voru laun einnig verðtryggð, svo eitt gekk yfir alla. Skömmu síðar voru svo launin tekin úr sambandi í þessari jöfnu og upp frá því hefur hér grasserað opinbert rán án þess að nokkur æmti.
Merkilegastr er að helstu advokatar þessa ráns eru lífeyrissjóðirnir, sem eiga þó að gæta hagsmunna hinna sömu.
Í löndunum umhverfis okkur eru það einnig lífeyrissjóðirnir sem ráða öllu og eru hættulegustu spekúlantarnir af öllum. Þeir eru fremstir í að kaupa upp fyrirtæki, liða þau í sundur og segja upp fólki. Þeir eru löngu búnir að eyðileggja infrastrúktúr þessara landa. Menn mættu fara að kafa ofan í hverslags glæpafyrirtæki þetta eru.
Jón Steinar Ragnarsson, 28.10.2011 kl. 03:57
Takk kærlega fyrir þessa samantekt sem er okkur sem gátum ekki mætt afar upplýsandi.
Steinn Hafliðason, 28.10.2011 kl. 07:08
Takk, fín samantekt!
Einar Karl, 28.10.2011 kl. 10:11
Takk fyrir góðan fréttaflutning, Marinó.
Hrannar (IP-tala skráð) 28.10.2011 kl. 10:37
Takk fyrir þessa stórgóðu samantekt Marinó. Þú tekur þarna til mjög gott yfirlit um erindin sem þarna voru flutt, sem mörg voru mjög góð og flest í það minnsta áhugaverð.
Mín upplifun af þessu var eins og þín, ég hélt þetta yrði meiri halellúja samkoma en það var alls ekki raunin. Þarna komu fram margvíslegar skoðanir og mjör fínt debat á köflum.
Það sem mér fannst standa upp úr eftir daginn, svona í heild, var að þarna var nokkur samhljómur um tvennt, annars vegar að jákvætt væri að tekist hefði að reisa fjármálakerfið úr rústum hraðar en á horfðist í fyrstu (og forðast greiðslufall), og hins vegar að ekki hefði verið nóg gert í því að leysa innri vandamál almennings í landinu sem af hruninu sköpuðust.
Semsagt: Fjármálakerfið og -stofnanir í skárri málum en búist var við en almenningur í verri stöðu en þurft hefði að vera.
Þetta finnst mér í heildina vera fremur sorgleg niðurstaða.
Jóhannes Þór Skúlason (IP-tala skráð) 28.10.2011 kl. 10:51
Frábær samantekt og takk kærlega fyrir mig.
Anna Kristín Pétursdóttir (IP-tala skráð) 28.10.2011 kl. 11:12
Takk fyrir, Marinó. Fylgdist með ráðstefnunni á vef Seðlabankans og held að yfirlitið sé nokkuð skilmerkilegt. Hvað er annars „verðtryggingajöfnuður“?
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 28.10.2011 kl. 11:13
Sigurður, verðtryggingarjöfnuður gengur út á að halda jafnvægi milli verðtryggðra tekna og verðtryggðra skuldbindinga. Þannig mega fjármálafyrirtæki ekki vera með meira en X% misvægi á milli þessara atriða, þannig að skapist óhagstæðar aðstæður, þ.e. aðstæður sem virka neikvæðar á skuldbindingahliðina, þá verði tjón fjármálafyrirtækisins eins lítið og frekast er hægt. Sá sem er bara með verðtryggðar skuldbindingar og engar verðtryggðar tekjur, þá tekur hann eingöngu á sig tjón/tap af verðbólgu meðan hinn sem bara á verðtryggðar eignir hann fær eingöngu hagnað. Ég vona að þetta skýri málið.
Marinó G. Njálsson, 28.10.2011 kl. 11:27
Takk fyrir þessa samantekt Marínó. Það er gott að heyra að umræðan var málefnaleg og menn virkilega að velta fyrir sér kostum og göllum. Einungis þannig þokast mál áfram.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 28.10.2011 kl. 11:32
Takk kærlega fyrir þessa samantekt, Marinó. En var Þórólfi Matthíassyni virkilega ekki hleypt inn á sviðið til að tala fyrir 110% leiðinni sem hann álítur svo góða?
Sigurður Hrellir, 28.10.2011 kl. 12:12
Marínó byrjar: "Mér var boðið á ráðstefnu stjórnvalda og AGS...". Ég vil taka fram að mér var ekki boðið. Ég bara skráði mig (og fékk synjun fyrst, sagt að allt væri fullt en svo var því breytt). Áhugavert væri að vita hvort að kynjahlutfallið milli þeirra sem var boðið á þessa ráðstefnu til að hlusta var jafnbjagað og milli þeirra var boðið að tala á ráðstefnunni (aðeins tvær konur í hópi fjölmargra ræðumanna, báðar voru þær starfsmenn AGS)
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 28.10.2011 kl. 14:52
Sæll Marinó,
takk fyrir góða samantekt, ég óttast að ekkert breytist þrátt fyrir góðar umræður á ráðstefnunni. Það þarf meira til.
Gunnar Skúli Ármannsson, 29.10.2011 kl. 09:39
Gunnar breytingarnar eru að koma, þær eru nú þegar að hola steininn, sérðu ekki að ráðamenn eru komnir í bullandi vörn, og farnir að tala eins og kosningar séu á næsta leiti, og Jóhanna farin til Danmerkur, það er nú aldeilis nýnæmi.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 29.10.2011 kl. 12:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.