Leita í fréttum mbl.is

Fjármálafyrirtæki á bara lögvarið það sem það greiddi fyrir kröfu og bara vexti frá stofndegi kröfu

(Ég vara fólk við, að til að skilja allt innihald þessarar færslu þarf að lesa þá síðustu líka.)

Hvenær ætla nýju bankarnir að skilja að þeir eru reistir upp af rústu fyrirtækja sem gengu í skrokk á samfélaginu?  Hvenær ætla þeir að skilja, að þó telji sig eiga fulla greiðslu inni hjá lántökum, þá eru lántakar ekki sammála því?  Og það sem meira er:  Hæstiréttur Íslands tók undir með lántökum í máli nr. 340/2011, þ.e. Icesavedómnum, en þar segir hann:

Áður er fram komið að hluti upphaflegra almennra kröfuhafa hefur selt kröfur sínar eftir 6. október 2008 og að þær hafi haft eitthvert fjárgildi í viðskiptum þótt óumdeilt sé að það hafi verið lágt. Um það nýtur ekki við nánari upplýsinga í málinu. Að öllu þessu virtu þykja sóknaraðilar ekki hafa rennt stoðum undir þær staðhæfingar sínar að kröfur þeirra hafi eða muni tapast að öllu leyti vegna setningar laga nr. 125/2008 þótt ókleift sé á þessu stigi að komast að niðurstöðu um hve mikið kunni að fást greitt af þeim þegar upp verður staðið.

Með þessu er Hæstiréttur að segja, að þó kröfuréttur haldist, þá miðist sá réttur við kaupverð kröfunnar, en ekki þá upphæð sem hún stóð í hjá gamla bankanum.

Nú er ekki einhver kverúlant úr hópi Hagsmunasamtaka heimilanna að tjá sig, heldur Hæstiréttur Íslands.  Þetta fer að vísu 100% saman við það sem ég hef alltaf haldið fram, en núna er Hæstiréttur búinn að staðfesta það.

Skoðum þessa niðurstöðu í samræmi við ákvæði 2. gr. laga nr. 107/2009, þ.e. :

Skal miðað að því að hámarka gagnkvæman ávinning samningsaðila af því að gefa eftir tapaðar kröfur og komast hjá óþarfa kostnaði og óhagræði.

Hæstiréttur segir að sá hluti kröfu, sem fjármálafyrirtækin eru að reyna að innheimta umfram kaupvirði, sé ekki töpuð krafa samkvæmt skilningi laga fáist hún ekki greidd.  Eingöngu sá hluti sem er innan kaupverðskröfunnar getur myndað stofn fyrir tap.  Hitt er glataður hagnaður (ekki orð Hæstaréttar) og hann getur ekki að ósönnuðu máli talist tap (orð Hæstaréttar).

Lög nr. 151/2010 færðu nýju bönkunum meira en þeir áttu

Nú er til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd frumvarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um breytingar á lögum nr. 151/2010, þ.e. Árna Páls-lögunum svo kölluðum.  Ég var gestur nefndarinnar sl. mánudag, ásamt fleiri samherjum.  Í umsögn um frumvarpið, sem ég sendi inn, þá legg ég til að vaxtaútreikningi áður gengistryggðra lána verði breytt þannig, að samningsvextir gildi fram að dómsuppkvaðningu 16. júní 2010, þegar Hæstiréttur staðfesti þá túlkun okkar "kverúlantanna" að gengistrygging væri ólöglegt form verðtryggingar, en eftir það gildi vextir Seðlabanka Íslands.  Megin inntakið er að þegar greiddir gjalddagar verði ekki hreyfðir nema til að gera upp ofgreiðslur (og vangreiðslur) sem hljótast af breyttri upphæð höfuðstólsins, en ekki breyttri vaxtaprósentu eins og lögin hljóma núna.  Þegar gestir voru sérstaklega spurðir út í þetta atriði, þá gafst aðeins einum færi á að svara áður en knappur tími gesta til svara var úti.  Sú sem svaraði var Ása Ólafsdóttir frá Háskóla Íslands, en hún var eini "hlutlausi" aðilinn í hópnum.  Afstaða hennar var skýr.  Afturvirk breyting á vöxtum stenst ekki, en nýir vextir geta tekið gildi frá 16. júní 2010.

Andrea J. Ólafsdóttir, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna, benti á að stofndagur peningakröfu myndast frá síðasta gjalddaga og er það í samræmi við ákvæði 3. gr. vaxtalaga nr. 38/2001.  Í bráðabirgðaákvæði laganna sem sett voru með lögum nr. 151/2010 segir í 3. mgr. 18. gr.:

Vexti samkvæmt ákvæðum 1. mgr. skal reikna frá og með stofndegi peningakröfu, nema samið verði um annað, sbr. 3. gr.

Ef við skoðum svo hvað segir í 3. gr., þá kemur þetta í ljós:

Almenna vexti skal því aðeins greiða af peningakröfu að það leiði af samningi, venju eða lögum. Vexti skal greiða frá og með stofndegi peningakröfu og fram að gjalddaga.

Nú er bara spurningin hvernær er stofndagur peningakröfu.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa fjallað nokkrum sinnum um þetta á vef sínum sem og Vilborg G. Hansen, stjórnarmaður í HH, á bloggsíðu sinni.  HH hafa óskað eftir því við FME að stofnunin svari því hvenær þessi stofndagur er:

Samtökin telja að 5. mgr. 18. gr. laga 38/2001, sbr. 5. mgr. 1. gr. laga nr. 151/2010,  sem heimili að tvíreikna vaxtatímabil þó að vextir séu greiddir sé að þessu leyti ógild og 3. mgr. sama ákvæðis um að vexti skuli reikna frá og með stofndegi peningakröfu, verði að skýra þannig að stofndagur kröfu miðist við ógreidda peningakröfu. Telur FME þessa lagatúlkun vera rétta?

Miðað við orðanna hljóðan og almennan skilning, þá myndast nýr stofndagur við daginn eftir síðasta gjalddaga á undan.  Þannig að borgi ég af láni 1. janúar, þá stofnast ný krafa á mig 2. janúar og er sá dagur jafnframt stofndagur kröfunnar.  Krafan ber síðan vexti frá þessum stofndegi til næsta gjalddaga að báðum dögum meðtöldum.  Breytir þá engu, þó fyrri gjalddagi sé ógreiddur eða ekki.  Þannig getur sama lánið verið með margar kröfur vakandi, hver með sinn stofndag og sinn gjalddaga.  Segjum að ég hafi ekki greitt tvo gjalddaga og þá myndast samt ný krafa eftir annan ógreidda gjalddagann.  Hún ber bara vexti frá stofndeginu fram að gjalddaga, en ekki frá síðasta greidda gjalddaga.  Hann kemur þessu máli ekkert við.  Greiðslurnar tvær sem eru ógreiddar bera ekki almenna vexti lengur en til gjalddaga, eftir það bera þær dráttarvexti.  Þær hafa því ekki áhrif á eða koma í veg fyrir að nýr stofndagur verður til.  Eða eins og segir í 5. gr. laga nr. 38/2001:

Hafi gjalddagi verið fyrir fram ákveðinn er kröfuhafa heimilt að krefja skuldara um dráttarvexti sem reiknast af ógreiddri peningakröfu frá og með gjalddaga fram að greiðsludegi.

Hin ógreidda peningakrafa er því gjalddagagreiðslan en ekki allt lánið, nema náttúrulega að það hafi verið gjaldfellt eða um kúlulán sé að ræða.

Algengustu endalok kröfu eru þau að hún falli niður við greiðslu.  Ólafur Lárusson, prófessor, hélt því fram að daugdagi kröfu væri við greiðslu hennar eða eins og segir í bók sinni Kaflar úr kröfurétti:

Hinn eðlilegi dauðdagi kröfunnar, ef svo mætti segja, er sá, að hún falli niður við greiðslu eða borgun.

Setjum þetta í samhengi við 3. mgr. 18. gr. (bráðabirgðaákvæðis) laga nr. 38/2001 og rifjum upp hvað segir þar:

Vexti samkvæmt ákvæðum 1. mgr. skal reikna frá og með stofndegi peningakröfu

Þarna segir, að vexti samkvæmt 1. mgr., þ.e. Seðlabankavextina, megi eingöngu reikna frá og með stofndegi peningakröfunnar.  Ekki aftur fyrir stofndaginn, heldur frá stofndeginum.  Eins og ég hef skýrt út, þá er þessi stofndagur daginn eftir síðast gjalddaga á undan eða á öðrum þeim degi þegar samningsaðilar eru sammála um að ekki er nein ógreidd krafa útistandandi.   Samkvæmt þessu er ekki hægt að gera kröfu um vexti vegna eldri gjalddaga, þar sem þeim kröfum var öllum lokið við greiðslu eða annað samkomulag um uppgjör.

Mér sýnist samkvæmt þessu, að áður gengistryggð lán geti aldrei borið Seðlabankavexti nema í mesta lagi frá síðasta greidda gjalddaga, í þeim tilfellum sem skilmálabreytingar áttu sé stað frá breytingardegi, lok frystingar hafi hún verið í gangi eða frá dómi Hæstaréttar 16. júní 2010, eftir því hvaða dagsetning er nýjust af þessum fjórum.  Þetta byggist allt á því að kröfum, sem eru greiddar, er með því lokið og þær verða ekki aftur upp teknar nema fyrir tilstilli dómstóla og þá í tengslum við þau ákvæði laga sem segja til um slíkt.  Hvorki löggjafinn né fjármálafyrirtækin hafa borið slíku fyrir sér.

Þegar ég les lög nr. 151/2010 með þessum gleraugum, þá standa þau fullkomlega.  Það álit stendur og fellur með því að stofndagur krafna sé eins og ég kemst að niðurstöðu um.  Sé svo, þá eru lögin ekki afturvirk, það er bara túlkun fjármálafyrirtækjanna á lögunum sem er afturvirk.   (Tekið skal fram að þetta sjónarmið mitt er í andstöðu við alla aðra sem túlkað hafa áhrif laga nr. 151/2010 og einnig efni greinargerðar ráðherra.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Nú er ég fullkomlega sammála að afturvirkni laga eða vaxtaútreiknings stenst engin lög.  Enda hef ég bréf frá Neytendastofu, vegna kvörtunar sem ég sendi þangað inn vegna annars máls en vaxtaútreiknings bílaláns, sem segir orðrétt:

"Það er meginregla í íslenskum stjórnskipunarrétti að skýra beri lög á þá leið að þeim verði ekki beitt afturvirkt."

Þá komum við að þeirri spurningu: Hvernig á að finna út hver var hin raunverulega staða höfuðstóls þ.16.júní 2010, ef dómstólar úrskurða að sá dagur sé stofndagur peningakröfu í þessum málum?   

Höfuðstóll samningana var í íslenskum krónum. Greiðslurnar báru vexti af útblásnum höfuðstól, þannig hlutfall vaxta í greiðslunni var í raun of hátt miðað við upphaflegan höfuðstól.  Þ.e. vextir hefðu átt að reiknast lægri því höfuðstóll hefði átt að vera lægri, og framreidd greiðsla skilaði sér því ekki til réttmætrar lækkunar höfuðstólsins vegna þess að hann var ranglega útblásinn. 

Þarf því ekki að endurreikna (einu sinni enn) upphaflegan höfuðstól miðað við upphaflegt vaxtaviðmið fram til 16.júní 2010, finna út hvert var réttmætt hlutfall afborgunar og vaxta í greiðslum sem framreiddar voru til þess tíma og draga þær frá útkomunni, til að finna út hver staða höfuðstóls var þ.16.júní 2010?  Eftir þann tíma beri höfuðstóllinn óverðtryggða vexti?

Hvað bílalánasamninga varðar, hvaða nafni sem þeir annars kallast á samningsskjölum, hef ég lengi verið þeirrar skoðunar, að þá samninga  ætti að vera hægt að gera upp tiltölulega auðveldlega að mínu mati.  Það eigi að gera á þann hátt að innheimta og greiðslur falli niður þegar upphaflegum umsömdum heildarlántökukostnaði hafi verið náð.  Það er sú tala sem fyrir lá á greiðsluáætlun við samningssgerð, og gagnkvæmur skilningur var aðila í millum í upphafi að samningurinn mundi kosta.  Lánveitanda er óheimilt að innheimta hærri upphæð sbr. 14.gr.neytendalánslaga, eða nokkurn þann lántökukostnað sem ekki var tilgreindur við samningsgerð.  Þetta er svona svipað og þegar keyptur er hlutur á raðgreiðslum, lokaverð samningsins er fyrirfram ákveðið (og greiðslur reyndar líka).

Nú þekki ég ekki íbúðalánasamninga en þeir eru hugsanlega aðeins flóknari úrlausnar en bílalánasamningarnir.  Þó má vera að hið sama gildi og ég hef að ofan lýst varðandi bílalánasamningana, upphaflegur heildarlántökukostnaður takmarki þá upphæð sem endurheimt er að lokum, en greiðslur á samningstímanum geta eftir sem áður sveiflast eftir hverjar vaxtaákvarðanir Seðlabankans eru á hverjum tíma.

Erlingur Alfreð Jónsson, 12.11.2011 kl. 12:04

2 identicon

Hjartanlega sammála þessari greiningu þinni Marinó

Í mínu tilfelli er verið að krefja um viðbótargreiðslu(eftir endurútreikning) kr. 850.000,- af "gengistryggðu"bílaláni.

Upphaflega var lánið kr 1.600.000,- tekið 2002 og að fullu greitt 2007.

Þessi túlkun fjármálafyrirtækjanna er á skjön við alla almenna skynsem,i að ég tali nú ekki um lög.

Innheimta á svona tilkomnum skuldum er hreint og klárt ofbeldi og verður að svara með slíku.

Jónas Jónsson (IP-tala skráð) 12.11.2011 kl. 17:38

3 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég fékk lánaða í kvöld bókina Viðskiptabréf eftir Pál Hreinsson og las í gegn um hana með hraði.  Hvað eftir annað í bókinni segir Páll eins og t.d. í upphafi 8. kafla Skilríkisreglan á bls. 167:

Meginreglan um greiðslu almennra fjárkrafna er sú, að skuldari losnar undan skuldbindingu sinni ef hann innir greiðslu sína af hendi til hins upphaflega kröfuhafa, enda hvorki viti hann né megi vita að krafan hafi verið framseld öðrum.

Nú segir Páll að þetta sé meginreglan og á henni eru ýmsar undantekningar, eins og gefur að skilja.  Þær undantekningar snúa allar að betri vitund skuldara, því að hann hafi vanrækt eitthvað eða klúðrað einhverju.  Hvergi segir að kröfuhafi geti átt kröfu uppi á skuldara vegna greiddra gjalddaga, þar sem mönnum datt sú fáránlega hugmynd að hækka vexti afturvirkt.

Á netinu fann ég einnig glærur Guðbjargar Bjarnadóttur, fyrrum nágranna míns, en hún lést um aldur fram aðeins 38 ára gömul, frá þeim tíma þegar hún kenndi kröfurétt sem stundarkennari við lagadeild Háskóla Íslands.  Í einu glærusafninu fjallar hún um lok kröfuréttinda og þar segir skýrum stöfum:

Kröfu lýkur við greiðslu

Hinn eðlilegi dauðdagi kröfu er að hún falli niður við greiðslu, en greiðsla leiðir því aðeins til brottfalls skyldu að:

  • hún sé í samræmi við skylduna
  • innt sé af hendi sú greiðsla sem greiða átti
  • hún sé greidd á réttum tíma
  • hún sé greidd á réttum stað
  • hún sé greidd til kröfuhafa eða þess sem er bæt til að taka við  greiðslu fyrir hans hönd

Ég held, Jónas, að ekki fari á milli mála, að viðkomandi fjármálafyrirtæki á ekki nokkra lögvarða kröfu á þig.  Hugsanlega gætir þú átt kröfu á fjármálafyrirtækið, en það er annað mál.

Sé þetta síðan sett í samhengi við lög nr. 38/2001, þ.e. 3. mgr.  18. gr., þá fæ ég ekki betur séð, en að kröfur fjármálafyrirtækja vegna þegar greiddra gjalddaga séu án lagastuðnings og gangi þvert á það sem kennt hefur verið í kröfurétti við lagadeild HÍ.  Er alveg með ólíkindum að fjármálafyrirtækjunum skuli yfirhöfuð detta í hug að vaxtareikna, hvað þá vaxtavaxtareikna, langt aftur í tímann kröfur sem fyrir löngu er lokið, eru dauðar.

Marinó G. Njálsson, 12.11.2011 kl. 23:55

4 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli X-97/2010 segir m.a.:

Samkvæmt síðari málslið 3. gr. laga nr. 38/2001 skal greiða vexti frá stofndegi peningakröfu. Af þeirri ástæðu verður ekki fallist á að vextir reiknist frá „útborgunardegi“ hvers láns, eins og krafan hljóðar um.

Hér er greinilega verið að benda á að stofndagur peningakröfu er ekki útborgunardagur eða lántökudagur, heldur þegar krafa sem greiða á stofnast.  Ef viðkomandi skuldar 60 gjalddaga láns, en þeir eru ekki gjaldfallnir, þá hefur ekki myndast krafa um greiðslu þeirra.  Verði lánið gjaldfellt, þá myndast krafa.

Marinó G. Njálsson, 13.11.2011 kl. 14:04

5 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Á árunum 1989 - 1993 fór ég í gegnum marga tugi svona átaka um "stofndag" kröfu. Ævinlega varð niðurstaða fógeta og héraðsdóma sú að stofndagur væri útgáfudagur víxils eða skuldabréfs. Skuldabréf sem höfðu marga gjalddaga báru afmörkuð "vaxtatímabil" sem voru frá stofndegi til fyrsta gjalddaga og þaðan í frá væru vaxtatímabil XX margir dagar eins og tilgreint væri í skuldabréfinu. Við hvern gjalddaga skyldi kröfueigandi gefa úr greiðsluseðil sem tilgreindi greiðsluna og einnig upphæð eftirstöðva lánsins, að lokinni greiðslu.  Margoft reyndu lögmenn að stofna kröfu við hvern gjalddaga láns, svo þeir fengju margendurtekið stofngjald kröfu.  Þessari tilraun þeirra var alltaf hrundið á grundvelli þess að það væri skuldabréfið sem væri krafan, sama hvort var verið að innheimta 2 eða 10 gjalddaga.  Ég hef ævinlega haldið mig við þessa reglu og aldrei orðið afturreka með það.

Ég er hins vegar að krefja Landsbankann og Íslandsbanka um stöðu nokkurra lánsnúmera samkvæmt fylgiskjali nr. 1 í nýju bönkunum. Þar eiga allar bókfærðar upphæðir lánanna að vera, samkvæmt yfirfærslu þeirra í nýju bankana. FME hefur sagt að sá dagur sé 15. okt. 2008. Ég hef hamrað á því að það sé búið að loka uppgjöri ársins 2008 og endurskoða það uppgjör. Það geti því ekki verið annað en þessar tölur súr til. Ef fylgiskjal nr. 1, með sundurliðuðu eignasafni er ekki til, er bankinn ekki löglegur í starfi. 

Svo vil ég benda á að Seðlabanki hefur enga heimild til að ákveða vexti á öðrum viðskiptum en sínum eigin, og hann má einungis lána ríkinu og lánastofnunum.  

Guðbjörn Jónsson, 14.11.2011 kl. 02:43

6 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Ég hef reynt að krefja Íslandsbanka um núverandi virði íbúðalána minna í bókum bankans, sem og yfirtekið verð þeirra við stofnun hans, en bankinn segir ekki hægt að finna stöðu einstakra lána, aðeins virði lánasafna í heild sinni. Á sama tíma setur bankinn skilyrði í 110% leið bankans að bankinn megi nota niðurstöðu 110% leiðarinnar við endurmat á virði lánasafna hans. Hvernig það er hægt án þess að vita virði lánanna fyrir umsókn skil ég ekki, og á sjálfsagt ekki að skilja. Ég á bara að samþykkja það sem bankinn segir. Það kallast líklega samningaviðræður í skilningi bankans.

Nýlega fullyrti starfsmaður Íslandsbanka við mig að lánin hefðu öll verið bókfærð á fullu virði við stofnun bankans, en ekki yfirtökuvirði, og væru bókfærð þannig í bókum bankans. Ég hélt því hins vegar fram að það væri rangt, og að fólk sé narrað til að samþykkja að staða lána hafi verið með ákveðnum hætti 1. janúar 2011, til þess að bankinn geti "löglega" innheimt þá stöðu sem þeir vilja. Þess vegna hef ég haldið því fram að 110% leiðin sé fjársvik.

Erlingur Alfreð Jónsson, 14.11.2011 kl. 13:03

7 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Í bókinni Kaflar úr Kröfurétti Ólafs Lárussonar segir í kafla 8.1.1:

Kröfuhafinn á heimtingu á því, að skuldarinn efni að fullu þær skyldur sem krafan leggur honum á herðar.  til fulldra efnda heyrir það að þær fari fram á réttum stað og á réttum tíma.  Ef fullar efndir eiga sér stað, er skyldu skuldarans þar með lokið og kröfuhafinn getur þá einskis frekar af honum krafist.

Nú hafa lán heimila og fyrirtækja verið framseld frá gömlu bönkunum til þeirra nýju.  Í undirkafla 9.5.1 í Kaflar úr Kröfurétti Ólafs Lárussonar segir:

Við framsalið öðlast nýi kröfuhafinn (framsalshafi) allan þann rétt sem fyrri kröfuhafi (framseljandi) átti á hendur skuldara og að jafnaði öðlast hann ekki annan rétt gegn skuldara en framseljandi átti.

Um lok kröfuréttinda er fjallað í 16. kafla.  Þar segir í undirkafla 16.2.1:

Öllum kröfuréttindum er sett það markmið að greiðsla sú sem er efni kröfunnar fari fram.  Þegar sú greiðsla hefur farið fram er hlutverki kröfunnar lokið og henni sjálfri er þá lokið um leið.  Hinn eðlilegi dauðdagi kröfunnar, ef svo mætti segja, er sá að hún falli niður við greiðslu eða borgun.

Allt ber þetta að sama brunni.  Þegar greiddir gjalddagar eru fullnægjandi og endanlegt uppgjör og ekki er hægt að hafa uppi frekari kröfu um viðbótargreiðslu, enda hafi þeir verið efndir með því að borgunin hafi verið "í samræmi við skylduna, að innt sé af hendi sú greiðsla sem greiða átti, hún greidd á réttum stað og á réttum tíma og hún greidd til kröfuhafans eða manns sem bær var um að taka við greiðslunni fyrir hans hönd", eins og segir í undirkafla 16.2.1.  Hafi greiðslan ekki átt sér stað á réttum tíma, þá eru dráttarvextir frá gjalddaga til greiðsludags það eina sem kröfuhafi getur krafist, þó svo að tjón hans hafi hugsanlega verið meira.

Marinó G. Njálsson, 14.11.2011 kl. 18:52

8 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Áfram úr Kaflar úr Kröfurétti.

Í kafla 16.7 segir: 

Þegar krafa er liðin undir lok er greiðsluskyldu skuldarans lokið.  Ef kröfuhafinn færi í mál við skuldarann út af slíkri kröfu og skuldarinn hefði uppi þá vörn að krafan væri úr gildi gengin myndi skuldarinn verða sýknaður af kröfu sækjandans.

Þetta atriði kemur beint inn á það sem Jónas talar um hér að ofan.  Hann er búinn að greiða upp skuld sína og kröfuhafi fékk það sem hann krafði hann um.  Kröfuhafinn getur því ekki komið með eftirákröfu og sagt hann skulda 850.000 kr. núna mörgum árum síðar vegna þess að lögum var breytt á Alþingi. Auk þess er mikill vafi um  hver virkni laganna er.

Marinó G. Njálsson, 14.11.2011 kl. 21:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 47
  • Frá upphafi: 1678121

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 42
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband