3.1.2018 | 13:01
Stefnumótun fyrir Ísland
Ég birti þessa færslu fyrst fyrir þremur árum og hafði þá oft kallað eftir því að mótuð væri stefna fyrir fyrirtækið Ísland. Mig langar að birta hana aftur lítillega uppfærða, því lítið ber enn á þessari stefnumótun, en sífellt fleiri eru að kalla eftir henni.
Stefnumótun fyrir Ísland
Eftir hrun bankanna í október 2008, vonuðust margir eftir breytingum. Þær hafa að mestu látið bíða eftir sér og margt sem farið var af stað með endaði í sviknum loforðum. Núna ríflega 9 árum síðar er stjórnarskráin óbreytt, fiskveiðikerfið er óbreytt, ofríki fjármálakerfisins meira en nokkru sinni fyrr, heilbrigðiskerfið er í molum, möguleikar fólks til menntunar hafa verið skertir, bið hefur verið á fjárfestingum og atvinnuuppbyggingu, þó ferðaþjónustan hafi vissulega verið í blússandi uppsveiflu. Ekki dettur mér í hug að segja að ekkert hafi verið gert, en árangurinn er minni en fyrirheitin gáfu til kynna.
Ef Ísland væri fyrirtæki, væri fyrir löngu búið að kalla til lærða sérfræðinga til að endurskipuleggja reksturinn. Búið væri að fara í stefnumótunarvinnu, endurgerð verkferla, greiningu á tekjustreymi, leggja pening í vöruþróun og endurskoða öll útgjöld. Málið er bara, að Ísland er ekki fyrirtæki og því er ekki búið að gera neitt af þessu. (Eða í mjög takmörkuðu mæli.)
Hver er stefna Íslands í menntamálum, heilbrigðismálum, velferðarmálum eða náttúruvernd? Hver utanríkisstefna Íslands, stefna í þróunarmálum, mannúðarmálum eða málefnum innflytjenda? Hvernig atvinnulíf viljum við hafa, hvað má kosta að örva atvinnulífið? Hvernig viljum við nýta auðlindir þjóðarinnar? Hvernig fáum við sem mest út úr auðlindum þjóðarinnar? Vissulega er hægt að lesa eitt og annað út úr stefnulýsingu ríkisstjórna hverju sinni, en málið er að fæstar ríkisstjórnir ná að fylgja slíkum skjölum. Og fljótt skipast veður í loft á pólitískum vettvangi.
Hluthafar fyrirtækisins Íslands kusu vorið 2013 nýja stjórn vegna fyrirheita um breytingar. Aftur var kosið haustið 2016 og enn aftur ári seinna. Með hverri nýrri ríkisstjórn koma fögur fyrirheit, en frekar litlar efndir. Sama fátið og skipulagsleysið blasir við, sama hver ríkisstjórnin er. Stjórnarformanninum, hverju sinni, gengur illa að skilja ábendingar sem til hans er beint og áttar sig alls ekki á þeim tækifærum sem felast í gagnrýni á störf hans og annarri í stjórninni. Væri Ísland fyrirtæki, þá myndu menn skilja að kvartanir og gagnrýni er besta uppspretta hugmynda fyrir endurbótavinnu sem hægt er að hugsa sér.
Ég held að ríkisstjórnir, hver sem er við völd, verði að fara að líta á störf sín sem einmitt stjórnarstörf fyrir fyrirtækið Ísland. Fyrirtæki, sem varð fyrir áfalli, og nú þurfum við samhentan hóp allra til ljúka endurreisninni (henni er ekki lokið meðan stórir hópar búa við verulega skert lífsskilyrði og þurfa að búa á tjaldstæðum allan ársins hring) og móta framtíðarsýn. Góða, hæfa leiðtoga til að leiða starfið, fjölbreyttan hóp í hugmyndavinnuna. Móta þarf skýra stefnu til framtíðar, stefnu sem þjóðin velur, en síðan verður það ríkisstjórnar, þings og embættismanna að framfylgja stefnunni. Þetta þýðir að stefna getur ekki verið til nokkurra ára, heldur langs tíma. Stefnan má ekki markast af stjórnmálaskoðunum, heldur á hún að vera skilgreining á því Íslandi sem við viljum hafa til framtíðar. Hver ríkisstjórn hefur síðan svigrúm til að ákveða leiðir til að fylgja stefnunni, en hún má því aðeins víkja frá markmiðum hennar að um það sé víðtæk sátt og ný markmið hafi verið skilgreind og samþykkt.
Svona stefna gæti haft svipað vægi og stjórnarskráin. Ég tel hana þó ekki eiga að vera hluti af stjórnarskránni. Stjórnarskráin er grunnlög samfélagsins og henni á aðeins að breyta í undantekningartilfellum, þó þurfi að gera verulegar breytingar á henni núna. Stefnuskrá Íslands verður hins vegar að taka reglulegum breytingum, því þannig og aðeins þannig verður fyrirtækið Ísland samkeppnishæft, eftirsóknarvert til búsetu og skilar eigendum sínum þeim ávinningi sem nauðsynlegur er til frekari uppbyggingar.
Ég ætla ekki að leggja aðrar línur hér um hver þessi stefna ætti að vera en að segja að ég tel æskilegt að tekið sé mið af norræna velferðarlíkaninu, eins og það hefur verið útfært í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð. Ekki eru allar þjóðirnar með nákvæmlega sömu útfærslu, en áherslurnar eru mjög líkar.
Meðan Ísland hefur ekki svona stefnu, þá er staða þess ekki ólík stöðu Lísu í Undralandi, þegar hún hitti Chesire köttinn, þar sem hann sat markindalega uppi í tré:
"Would you tell me, please, which way I ought to go from here?"
"That depends a good deal on where you want to get to," said the Cat.
"I don't much care where " said Alice.
"Then it doesn't matter which way you go," said the Cat.
Lísa er þó betur sett en Ísland, að hún þorði að spyrja til vegar.
Íslenska þjóðin og íslensk stjórnvöld horfa bara út í loftið án þess að velta slíkri spurningu fyrir sér. Síðan sest einhver í ráðherrastól og getur upp á sitt sjálfsdæmi ákveðið að setja vegtolla á allar leiðir út úr Reykjavík, einkavætt heilbrigðisþjónustuna, lokað framhaldsskólum fyrir 25 ára og eldri, ákveðið byggingu virkjunar sem eyðileggur stór landsvæði, samið við stóriðju með miklum skattaafslætti og jarðgöngum í bónus, o.s.frv. Menn geta þetta, vegna þess að þeir hafa fullt frelsi til að gera það sem þeim sýnist í leit að atkvæðum til að halda þingsæti sínu. Væri fyrir hendi skýr stefna í öllum þessum málaflokkum, þá væri jafnframt búið að stilla af rammann, sem unnið er innan. Allir vissu hvað mætti gera og hvað ekki. Kjósendur gætu þar með treyst því, að "sannfæring" frambjóðenda hafi ekki tekið u-beygju við það eitt að vera kosnir inn á þing, að þeir héldu sig við fyrirfram ákveðna meginstefnu og þjóðfélaginu yrði ekki snúið á hvolf bara af því að einhver lukkuriddari varð ráðherra. Hluthafar fyrirtækisins Íslands, þ.e. kjósendur, verða að vita fyrirfram fyrir hvað fyrirtækið stendur og treysta því að stjórnmennirnir (þ.e. ríkisstjórnirnar) fylgi þeirri sýn eftir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.12.2017 | 00:06
Væntanleg persónuverndarlög - GDPR hausverkurinn
Hinn 25. maí næst komandi gengur í gildi innan Evrópusambandsins ný persónuverndarreglugerð, Almenna persónuverndarreglugerðin, á ensku General Data Protection Regulation eða GDPR, heitið sem reglugerðin gengur oftast undir. Með rétt um 5 mánuði til stefnu, þá eru þeir sem ekki eru byrjaðir, ekki beint í góðri stöðu. Hinir vita ansi margt af því sem ég segi hér fyrir neðan.
Ég hef undanfarna mánuði verið að aðstoða nokkra aðila bæði í Danmörku og á Íslandi við innleiðingu GDPR og næsta verkefni verður líklegast í Póllandi. Hægt er að nálgast GDPR innleiðingu eftir mörgum leiðum og er engin þeirra réttari en einhver önnur. Mestu skiptir að allt sé gert sem þarf að gera.
- Það er aldrei of seint að byrja. Hvað sem gert er mun færa fólk nær því að uppfylla kröfurnar. Betra er að koma sér úr startholunum en að hafa ekki gert neitt. Innleiðing á GDPR er eins og að borða fíl, það hefst bita fyrir bita. Ef fólk reynir að gera of mikið á of stuttum tíma, þá gæti útkoman orðið önnur en fólk vonaðist til. Allt veltur það, að sjálfsögðu, á stærð og flækjustigi fyrirtækisins eða stofnunarinnar sem á í hlut, umfangi persónuupplýsinga sem verið er að vinna með, stigi þekkingar hjá fyrirtækinu/stofnunni (og þeim sem sér um innleiðinguna), auðlindir sem helgaðar eru viðfangsefninu og hversu ákveðið fólk er í að sjá til lands.
- Gleymum því, að innleiðing verði nokkru sinni fullkomin, þó hún sem slík sé ekki flókin. Það sem er flókið er að reka stjórnkerfið sem GDPR krefst. Það er ferðin endalausa. Alltaf er hægt að gera betur, maður þarf sífellt að vera vakandi og persónuupplýsingarnar gætu verið stöðugt undir árás. Ok, við sem erum á haus í öryggismálum kippum okkur ekkert upp við það. Þannig er þetta á hverjum degi í nettengdu fyrirtækjaumhverfi eða bara í umferðinni til og frá vinnu. Við reynum stöðugt að ná fullkomnun, en nýir leikmenn neyða okkur til að fást við nýjar ögranir, ný tækni gerir fyrri þekkingu okkar úrelta og nýjar reglur breyta leikvellinum.
- Dulkóðun getur verið lausn, en mannlegi þátturinn er hins vegar óútreiknanlegur og gert allar tæknilegar lausnir gagnslausar. Þess vegna þarf vitundarfræðslu, loggun, vöktun, skýrslur, greiningu á hvað er að gerast og viðbragðsferli. Stjórnun rekstarsamfellu, viðreisnaráætlanir, neyðaráætlanir og öll hin atvikastjórnunarferlin sem okkur dettur í hug. Að sjálfsögðu viljum við draga úr líkum á öryggisbrotum, en við komum aldrei í veg fyrir þau og verðum því að búa okkur undir það versta. GDPR leggur okkur vissar línur og segir okkur hverjar afleiðingar af brotum geta orðið.
- Það getur verið gott að byrja á endanum. Meðan tæknifólkið er að draga upp mynd af hvaða persónuupplýsingar er verið að vinna með, þá geta einhverjir aðrir verið að skilgreina hvað þarf að gera ef öryggisbrot verður. Það innifelur, en er ekki takmarkað við: að skipa persónuverndarfulltrúa (Data Protection Officer), skilgreina hlutverk hans og stöðu innan fyrirtækisins/stofnunarinnar, skilgreina mismunandi viðbúnaðarstig og hvernig skal bregðast við brotum á hverju stigi, svo eru það ferli við að tilkynna hitt og þetta: a) hvernig á að láta vita af atviki; b) hvernig á að tilkynna atvik til Persónuverndar; c) hvernig á að láta hinn skráða vita af atviki; d) hvenær og hvernig á að blanda lögreglu í málið, fá utanaðkomandi sérfræðinga og/eða þá sem þekkingu hafa á tölvurannsóknum.
- Gerið skrá yfir allar persónuupplýsingar sem unnið er með og haldið þeirri skrá við. Skiljið hvers vegna gögnunum er safnað og spyrjið hvort haldbær rök séu fyrir því. Hver er með aðgang að hverju og hvers vegna? Hvers konar aðgang og hvers vegna? Með hverjum má deila upplýsingunum og hvers vegna? Lokið síðan á um helming aðgangsheimilda, takmarkið flestan aðgang við lesaðgang og deilið eingöngu upplýsingum með þeim sem geta sýnt fram á að uppfylla GDPR eða eru meðvitaðir um þýðingu reglnanna.
- Ertu ábyrgðaraðili eða vinnsluaðili eða bæði? Maður verður að skilja stöðu sína og hlutverk, því mismundandi hlutverkum fylgja mismunandi skyldur. Sumir vinnsluaðilar eru líka ábyrgðaraðilar. Það gerist, ef vinnsluaðilinn er með fullkomna stjórn/vald yfir þeim hugbúnaði sem er viðskiptavinurinn notar við gagnavinnslu og ef viðskiptavinurinn hefur engin eða lítil áhrif á virkni hugbúnaðarins (hugbúnaður getur verið frá einföldustu smáforritum (apps) til flóknustu hugbúnaðarkerfa). Þetta þýðir að margir þeir sem fyrirtæki/stofnanir fá þjónustu frá eru ábyrgðaraðilar. Facebook, LinkedIn, Instagram og Office 365, svo ég nefni fáa, og nánast allir sem veita vefþjónustu munu falla undir skilgreininguna að vera ábyrgðaraðilar. Það þýðir að notendur slíkrar þjónustu verða að huga að sinni áhættu sem fylgir því að nota þjónustuna. Í því felst að framkvæma áhættumat (heitir reyndar persónuverndaráhrifagreining (Data Protection Impact Analysis, DPIA) í GDPR) á öllu milli himins og jarðar (og lengra ef um er að ræða ESA eða NASA).
- Hvar eru gögnin vistuð? Er það gert staðbundið, miðlægt, í gagnaveri, í öðru landi, í skýinu? Er verið að keyra innanhúskerfi, sérhönnuð kerfi eins og SAP, pakkalausnir eins og Outlook, vefþjónustur eins og Office 365? Hefur fyrirtækið/stofnunin fulla stjórn á gögnunum eða er verið í viðskiptum við þjónustuaðila sem geymir upplýsingarnar í skýinu án þess að geta sagt til um hvort þær eru geymdar innan EES? Eða eru einhver sérlög sem tilgreina að upplýsingarnar verði að vista innan landamæra þess ríkisins? (Getur átt við fyrirtæki sem eru að bjóða þjónustu út um allan heim.)
- Gangið úr skugga um að öll þróunarteymi (líka markaðsfólkið) hafi fulla þekkingu og skilning á GDPR og öll hönnun taki tillit til krafna GDPR, lágmarki söfnun persónuupplýsinga, notkun, loggun, vöktun og gerð persónusniða. Er hægt að skipta persónugreinanlegum upplýsingum út fyrir ópersónugreinanlegar? Er verið að nota persónugreinanlegar upplýsingar að óþörfu? Gera gagnafyrirspurnir í reynd ópersónugreinanlegar upplýsingar persónugreinanlegar? Hver er lágmarksfjöldi einstaklinga sem þarf til að mynda svar við fyrirspurn?
- Endurskoðið öll forrit og sérstaklega smáforrit fyrir snjallsíma og spyrjið ykkur hvort sú söfnun persónuupplýsinga, sem þar á sér stað, sé í samræmi við kröfur GDPR. Hættið að safna upplýsingum án vitundar einstaklingsins. Ég veit að það mun hafa áhrif á afkomuna, en það er einfaldlega ekki leyft (og hefur aldrei verið leyft síðan snjallsímar komu til sögunnar).
- Og meðan þið eruð að vinna að þessu, gerið þá í leiðinni allt sem hefur verið skylda að gera síðan lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga urðu að lögum. GDPR er ekki að svo miklu leiti nýjar kröfur. 90-95% af kröfunum eru í lögum nr. 77/2000. Munurinn er sá, að núna mál leggja risa sektir á þá sem lenda í alvarlegum atvikum.
Strangt til tekið er ekkert nýtt. Krafan um að verja gögnin hefur verið til staðar í 17 ár, fyrir utan að áhættumat hefði átt að segja fólki, að gögn þarf að verja og innleiðing atvikastjórnunar hefði átt að hefjast ekki síðar en 12. september 2001. Vöktun, vírusvarnir, veikleikastjórnun og allt hitt hefði átt að vera til staðar.
Hljómi þetta allt ruglingslegt og fólk vantar einhvern byrjunarreit: Framkvæmið áhættumat!
Viðurkenni, að þarna var ég að leiða fólki í gildru, vegna þess að rétt framkvæmt áhættumat mun krefjast þess að þið gerið allt hitt líka.
Að lokum: Það er ekki til nein pakkalausn á GDPR. Ekki kaupa snákaolíu. Ef ekki er nægur tími eða peningar eru af skornum skammti, þá er bara ein lausn: Gerið hlutina rétt í fyrsta umgang!
(Þetta er þýðing á grein sem ég birti á LinkedIn í síðasta mánuði. Spurningum má beina til mín með því að senda tölvupóst á oryggi@internet.is og ég mun svara að bestu getu.)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.5.2017 | 20:25
Eru tölur um fjölda ferðamanna rangar? Svarið er: Nei
Eftir að turisti.is birti frétt sl. föstudag (19. maí) um að hugsanlega væri fjöldi ferðamanna oftalinn, þá hefur mikið verið rætt um þessa niðurstöðu í fjölmiðlum. Rannsóknastofa verslunarinnar (RSV) og Isavia hafa síðan sent frá sér fréttatilkynningar, annars vegar um kortanotkun ferðamanna og hins vegar nánar um hvernig talning fer fram.
Ég hef aðeins skoðað veltutölurnar frá RSV og síðan tölur frá Ferðamálastofu um fjölda ferðamanna sem byggja á talningu í Leifsstöð. Reiknaði ég þær niður á meðalveltu á hvern ferðamanna í mynt viðkomandi ferðamanns í hverjum mánuði og bar saman á milli áranna 2016 og 2017. Niðurstaðan var nokkuð áhugaverð.
Fyrst er rétt að gera þann fyrirvara, að ekki er skoðað lengra aftur í tímann og notað er meðalmiðgengi hvers mánaðar.
Breyting á neyslu í eigin gjaldmiðli á mann | ||||||
Janúar | Febrúar | Mars | Apríl | Fjöldi jan-apr | Fjölgun % | |
Bandaríkin | 82,5% | 88,7% | 95,8% | 79,8% | 143.287 | 92,2 |
Bretland | 121,7% | 136,8% | 152,2% | 130,1% | 152.177 | 16,0 |
Danmörk | 123,8% | 82,5% | 106,6% | 93,5% | 12.904 | 16,8 |
Finnland | 90,4% | 104,1% | 112,3% | 80,7% | 4.978 | 43,3 |
Frakkland | 86,1% | 79,0% | 117,6% | 80,1% | 23.772 | 61,0 |
Holland | 87,9% | 89,7% | 82,3% | 68,2% | 13.530 | 86,6 |
Ítalía | 48,8% | 44,5% | 59,2% | 65,1% | 8.577 | 158,4 |
Japan | 96,4% | 114,9% | 119,4% | 90,0% | 9.628 | 26,0 |
Kanada | 117,8% | 72,2% | 67,7% | 61,9% | 22.483 | 170,2 |
Kína | 141,6% | 106,1% | 120,6% | 80,2% | 24.449 | 85,8 |
Noregur | 102,0% | 94,4% | 94,2% | 102,9% | 11.656 | 0,1 |
Pólland | 67,3% | 66,5% | 79,8% | 59,7% | 13.270 | 126,1 |
Rússland | 72,7% | 71,3% | 50,8% | 67,7% | 1.832 | 164,0 |
Spánn | 68,9% | 43,3% | 66,2% | 57,3% | 11.804 | 195,2 |
Sviss | 65,6% | 67,0% | 68,3% | 60,8% | 5.595 | 43,3 |
Svíþjóð | 90,0% | 99,7% | 97,2% | 92,6% | 11.915 | 28,2 |
Þýskaland | 97,8% | 86,2% | 87,0% | 75,3% | 31.759 | 82,3 |
Hér eru nokkuð áhugaverðar upplýsingar. Hjá ellefu þjóðum verður lítil breyting og upp í talsverða aukningu á kortaveltu á mann í eigin mynt á milli ára. Það er hjá ferðamönnum frá Bandaríkjunum, Bretlandi Danmörku, Finnlandi, Frakklandi, Hollandi, Japan, Kína, Noregi, Svíþjóð og Þýskalandi. (Miðað er við að meðalvelta miðað við síðasta ár sé minnst 80% yfir mánuðina fjóra.) Kanada liggur svo sem við mörkin (79,9%), en það er eingöngu vegna janúar. Hjá hinum þjóðunum lækkar veltan hins vegar verulega, mest hjá Spánverjum.
Nú geta verið ýmsar skýringar á breyttri kortaveltu og er dýrtíð á Íslandi bara ein af þeim. Aðrar geta verið að aðeins hluti ferðamanna frá þessum löndum stoppuðu á Íslandi, að búið var að greiða fyrir veigamikinn hluta ferðakostnaðarins áður en lagt var af stað (hugsanlega var ferðin með öllu inniföldu), að fólk er að leita sér að ódýrari ferðamáta, að ferð hafi að jafnaði verið styttri en landa þeirra árið áður og að samsetning ferðamanna hafi breyst og þeir sem komu í ár höfðu einfaldlega minna fé á milli handanna.
Líklegt er að allar þessar skýringar eigi við hjá öllum þjóðum, en eftir því sem veltan hefur dregist meira saman, þá aukast líkurnar á því, að um oftalningu farþega frá viðkomandi landi sé að ræða. Á hinn bóginn, þá er mikil veltuaukning meðal breskra ferðamanna. Hóps sem er mun fjölmennari en samanlagður fjöldi ferðamanna frá þeim löndum hverra samdráttur í veltu var mestu.
Eru tölur Ferðamálastofu rangar?
En getur verið það hafi bara alls ekki orðið nein breyting á kortaveltu ferðamanna, heldur búi eitthvað annað að baki? Samkvæmt frétt í gær, þá sendir Isavia Ferðamálastofu upplýsingar um komufarþega, brottfararfarþega og skiptifarþega í hverjum mánuði. Út frá þessu leiðréttir Ferðamálastofa upplýsingar um fjölda ferðamanna sem fara frá Íslandi. Getur verið að þessari leiðréttingu, sem Ferðamálastofa gerir, sé dreift rangt eftir þjóðerni ferðamannanna?
Ég ákvað að skoða hver fjöldi ferðamanna frá hverjum landi hefði þurft að vera, svo ferðamenn frá viðkomandi landi hefðu verið með sömu kortaveltu í eigin mynt bæði árin. Eins og gefur að skilja urðu talsverðar breytingar á fjölda ferðamanna frá hverju landi, en samanlagður fjöldi var ekki svo fjarri tölum Ferðamálastofu. Útkoman var, að það þurfti 115.556 ferðamenn í janúar til að þeir væru með sömu kortaveltu á mann í eigin mynt og landar þeirra árið áður. Tölur Ferðamálastofu segja hins vegar að 112.760 ferðamenn komu frá þessum þjóðum. Kortavelt á mann í eigin mynt var því meiri í janúar í ár, en janúar 2016. Sömu sögu var að segja fyrir febrúar og mars, en í apríl var þessu öfugt farið.
Dæmi um útreikninga: Sé miðað við veltutölur RSV og tölur Ferðamálastofu fjölda ferðamanna frá hverju landi, var kortavelta bandarísks ferðamanns 1,905 USD í apríl árið 2016, en 1.519 apríl í ár. Þetta er samdráttur upp á rúm 20%, eins og kemur fram í töflunni að ofan. Ég reiknaði út hver fjöldi bandarískra ferðamanna hefði þurft að vera svo kortavelta væri sú sama apríl í ár og var í fyrr. Niðurstaðan var, að þá hefðu ferðamenn frá Bandaríkjunum þurft að vera 32.209 í staðinn fyrir 40.387, eins og tölur Ferðamálastofu segja. Fyrir mars hefðu bandarískir ferðamenn þurft að vera 41.191 í stað 42.978 skv. Ferðamálastofu, febrúarfjöldatölurnar voru 25.638 í stað 28.913 og í janúar 25.593 í stað 31.009 eins og Ferðamálastofa greinir frá. Sé fjöldi breskra ferðamanna skoðaður á sama hátt, þá snýst dæmið við og fjöldi þeirra er stórlega vanmetinn. Séu fjöldatölur frá öllum ofangreindum löndum endurmetnar með þessari aðferð, þá er niðurstaðan að ferðmenn frá þessum löndum eru vantaldir um tæp 9.000, en hafa skal í huga að ríflega 100.000 ferðamenn komu frá öðrum löndum, en þeim sem eru í töflunni að ofan.
Af þessu má draga þá ályktun, að fjölgun ferðamanna fyrstu fjóra mánuði ársins er einfaldlega þessi ríflega 55%, þeir hafa EKKI verið að draga úr neyslu sinni í eigin mynt og það er styrking krónunnar sem gerir það að verkum að tekjuaukning af ferðamönnum í íslenskum krónum er ekki í samræmi við fjölgun ferðamannanna. Ferðamálastofa verður hins vegar hugsanlega að endurskoða hvernig hún leiðréttir mismuninn á sinni talningu og tölum Isavia um fjölda brottfararfarþega.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.4.2017 | 21:50
Verðtrygging - böl eða blessun?
Bloggar | Breytt 18.4.2017 kl. 22:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
6.4.2017 | 20:56
Verðstöðugleiki Seðlabankans fíkillinn þarf sífellt stærri skammt
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.2.2017 | 22:29
Jákvætt og neikvætt við stjórnarsáttmálann
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.12.2016 | 21:37
Af hverju er vísitala neysluverð mæling á verðgildi peninga?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.10.2016 | 19:49
Verkefni nýrrar ríkisstjórnar - Stefnumótun fyrir Ísland
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
22.10.2016 | 12:00
Lögfræðiálit vegna gengislána dóma 16. júní 2010
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.10.2016 | 21:33
Vísitala neysluverð og húsnæðisliðurinn - uppfærð færsla
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.9.2016 | 22:59
Vísitala neysluverðs og húsnæðisliðurinn
Bloggar | Breytt 13.10.2016 kl. 21:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.9.2016 | 21:57
Ísland er best - Er það satt?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
2.9.2016 | 22:33
Ótrúlegur veruleiki Seðlabankans
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.8.2016 | 18:28
Seðlabankinn enn með eftiráskýringar
Bloggar | Breytt 29.8.2016 kl. 21:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
21.8.2016 | 22:42
Var verðtrygging eina lausnin árið 1979? Ekki að mati sérfræðings Seðlabankans árið 1977
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
9.7.2016 | 19:23
Ferðin á EM 2016
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.4.2016 | 23:24
Ættu stýrivextir að vera 2,25-3% eða jafnvel lægri?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
12.4.2016 | 16:51
6 árum síðar - höfum við lært eitthvað?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 46
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 41
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði