Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2012
16.2.2012 | 17:45
Þýðing dóms Hæstaréttar fyrir lántaka
Það rigna yfir mig fyrirspurnir um hvað niðurstaða Hæstaréttar í gær þýðir í raun og veru fyrir lántaka. Eins og alltaf er til einföld og ónákvæm skýring og síðan flókin og ítarleg skýring.
Einföld skýring
Endurreikna skal öll lán, þannig að miðað sé við íslenskan höfuðstól og samningsvexti frá lántöludegi til gildistöku laga nr. 151/2010. Dómar Hæstaréttar frá 16. júní og 16. september 2010 hafa bara dagsetningarlegt gildi fyrir þau mál sem þar var fjallað um. Frá og með gildisdegi laganna, 29. desember 2010, gilda vextir í samræmi við ákvæði laganna. Ofgreiðslur og vangreiðslur eru dagvaxtareiknaðar og það sem eftir stendur á greiðandi á hverjum tíma annað hvort að greiða (ef um vangreiðslu að ræða) eða fá greitt (ef um ofgreiðslu er að ræða).
Hér er skautað framhjá mörgum atriðum, en aðferðin er einföld og gegnsæ.
Flókna skýringin
Svo er það hin leiðin og hun er endalaust flókin, þar sem álitamálin eru mörg. Mig langar að telja upp nokkur:
1. Fram að gildistöku laga nr. 151/2010 var innihald 18. gr. laga nr. 38/2001 annað en það er í dag. Spurning hvaða áhrif það hefur, þar sem þar datt mönnum ekki í hug að kröfuhafi gæti krafið skuldara um greiðslu, heldur bara að skuldari gæti krafið kröfuhafa um greiðslu.
2. Hæstiréttur segir að varnaraðili eigi að bera vaxtamuninn. Þýðir það hafi verið greitt á veikara gengi en á lántökudegi, þá megi ekki rukka hærri vexti fyrir þann gjalddaga, þó staðan uppreiknaðs höfuðstóls íslenskum krónum sé hærri en upprunalega höfuðstólsins umreiknuðum í krónur.
3. Hvert á lántaki að sækja ofgreiðslur?
4. Má kröfuhafi reikna vangreiðslur? Hvaða kröfuhafi á vangreiðslurnar séu þær til staðar?
5. Hvað á að gera varðandi samninga, þar sem lántaki mótmælti útreikningum kröfuhafa, þar sem dráttur hafið orðið á uppgjöri, þar sem eignir hafa verið teknar o.s.frv.
Margt af þessu er af sama meiði, þ.e. hver er réttur kröfuhafa til að rukka fyrir vangreiðslu.
Sátt Sjómannafélagsins
Nú mun sú staðreynd að um mál Sjómannafélags Íslands gegn Arion banka náðist sátt utan dómstóla líklegast verða til þess að hægt er að deila um hvert lántaki á að sækja leiðréttingu sína. Hafi lán, t.d., verið tekið hjá Kaupþingi, farið þaðan inn til Seðlabanka Íslands og svo til Arion banka, þá er ekki á hreinu hvert lántaki á að snúa sér til að fá leiðréttingu. Auðvitað væri best, ef Arion banki tæki að sér að gera upp og myndi síðan sækja þann hluta endurgreiðslunnar, sem nær til gjalddaga áður en hann eignaðist lánin, til fyrri kröfuhafa.
Vangreiddir vextir
Hæstiréttur talar um að kröfuhafi eigi að bera vaxtamuninn. Spurningin er hvort það eigi bara við varðandi það að vaxtaprósenta samningsvaxta er lægri en seðlabankavaxta. Önnur hlið er nefnilega á þessu máli, þ.e. þegar endurreiknaður höfuðstóll er með hærri stöðu en upprunalegur höfuðstóll á tilteknum gjalddaga. Slíkt á sér að jafnaði stað þegar gengi á gjalddaga var lægra en gengi á lántökudegi. Þó þetta muni almennt ekki háum upphæðum, þá eru tilvik, þar sem munurinn er mikill. Ef túlka skal dóm Hæstaréttar þannig að ekki má rukka hærri vexti fyrir gefið tímabil en þá sem komu fram á tilkynningu eða greiðsluseðli, þá er óheimilt að hækka vaxtakröfuna þó þróun höfuðstólsins hefði átt að vera önnur. Hæstiréttur talar nefnilega ekki um vaxtaprósentuna heldur um vextina.
Stóra málið er samt ekki vangreiddir vextir.
Ofgreiðslur og hvert á að sækja þær
Langflestir lántakar hafa lent í því að ofgreiða, þ.e. bæði vextir og afborganir sem greitt var voru mun hærri en dómar Hæstaréttar nr. 92/2010, 153/2010 og 600/2011 segja til um. Kjarninn í þessum dómum, svo það sé á hreinu:
a) Bannað er að nota gengistryggingu sem verðtryggingu og því skal höfuðstóll lánsins ekki breytast í samræmi við breytingar á gengi.
b) Samningsvextir skulu gilda á þegar greiddar gjalddagagreiðslur.
Fyrir þann sem hefur alltaf greitt af láni sínu, þá getur þetta haft í för með sér verulegar ofgreiðslur. Ég hef hreinlega ekki haft tíma til að vinna sýnidæmi, en um leið og næði gefst, þá mun ég búa til nokkur dæmi byggð á raunverulegum tölu.
Spurningarnar sem vakna eru:
1) Hvert sæki ég ofgreiðsluna?
2) Hvernig get ég notað hana?
3) Má búast við töfum eða vankvæðum?
Þó svo að eitt ákvæði laga 151/2010 hafi verið dæmt ógilt, þ.e. afturvirknin, þá gilda önnur áfram. Lög nr. 151/2010 eru nefnilega ekki bara ólög. Margar greinar laganna voru mjög nauðsynlegar til að greiða úr þeirri óreiðu sem ógilding gengistryggingarákvæða lánssamninga hafði í för með sér. Því er eðlilegast að leita í lögin eftir leiðbeiningum um ofangreindar spurningar:
1. Lántaki snýr sér til kröfuhafa, þ.e. núverandi eiganda kröfunnar. Ef ekki er á hreinu hver á kröfuna, þá skal snúa sér til þess fjármálafyrirtækis sem sér um innheimtu kröfunnar. Í lögunum segir:
..Kröfuhafa ber að endurgreiða skuldara þá fjárhæð sem hann hefur þannig ranglega af honum haft vegna ólögmætra vaxta og/eða verðtryggingar..
..Ef útreikningur á uppgjöri skv. 5. mgr. leiðir til þess að krafa sé að fullu greidd skal lánveitandi gefa út fullnaðarkvittun, hlutast til um afléttingu veðbanda og gefa út þær yfirlýsingar sem nauðsyn krefur. Ef skuldari á að loknum útreikningi skv. 5. mgr. kröfu á lánveitanda skal lánveitandi greiða þá fjárhæð sem upp á vantar eigi síðar en 30 dögum frá því að krafa er gerð um endurgreiðslu..
..Nú hafa, einu sinni eða oftar, orðið aðila- eða skuldaraskipti að lánssamningi þar sem um er að ræða ólögmæta vexti og/eða verðtryggingu. Skal þá hver skuldari eiga sjálfstæðan rétt gagnvart kröfuhafa til leiðréttingar á greiðslum þeim sem þeir inntu af hendi vegna lánsins, svo og rétt eða skyldu til leiðréttingar vegna breytinga á höfuðstól lánsins vegna áhrifa gengistryggingar. Réttindi og skyldur hvers og eins aðila skulu miðast við þann tíma sem viðkomandi var skuldari lánssamnings..
Hægt væri að tína til fleiri atriði, en þetta eru þau helstu. Niðurstaðan er að snúa sér til núverandi kröfuhafa og hann á að framkvæma uppgjör innan 30 daga frá því að gerð er krafa um endurgreiðslu.
Eiga einhverjir ekki rétt á endurútreikningi
Ég hef tekið eftir því að menn voru strax farnir að snúa út úr niðurstöðu Hæstaréttar og segja að úrskurðurinn tæki bara til þeirra sem eru í skilum. Það er rangt! Úrskurðurinn nær til allra greiddra gjalddaga áður gengistryggðra lána og kaupleigusamninga sem falla undir fordæmisgildi annarra dóma og úrskurða Hæstaréttar, þar sem gengisbinding hefur verið talin ólögmæt verðtrygging. Vissulega hefur rétturinn ekki fjallað um hvort nákvæmlega öll tilvik falli undir úrskurð hans, en allir sjö dómarar voru sammála um að lög nr. 151/2010 fælu í sér, hvað varðar afturvirkni vaxta, ákvæði sem ekki gæti gilt afturvirkt. Þannig að hvort sem viðkomandi hefur greitt af láninu eða ekki, þá er ekki hægt að..
..breyta með afturvirkum hætti reglum um efni skuldbindinga og greiðslur skulda frá þeim sem teljast hafa gilt þegar til þeirra var stofnað eða af þeim greitt..
Allir sjö dómararnir nota þetta orðalag, en meirihlutinn bætir um betur og segir til viðbótar:
Færi slíkt í bága við þá vernd eignarréttinda sem leiðir af 72. gr. stjórnarskrárinnar. Af þeim sökum fá nefnd lög ekki haggað þeirri niðurstöðu sem komist er að í kafla IV hér að framan.
Hvernig sem menn snúa þessu, þá er ekki hægt að breyta skuldbindingu afturvirkt, þannig að þeir sem ekki greiddu af lánum sínum, af hvaða ástæðu sem er, verða ekki krafðir um hærri vexti en samningsvexti. Að sjálfsögðu gilda ákvæði um dráttarvexti, en þá komum við aftur að lögum nr. 151/2010.
Í 5. mgr. 1. gr. segir m.a.:
Frá höfuðstól og áföllnum vöxtum skal draga þær fjárhæðir sem inntar hafa verið af hendi fram að uppgjörsdegi í vexti, hvers kyns vanskilaálögur og afborganir miðað við hvern innborgunardag. Þannig útreiknuð fjárhæð myndar eftirstöðvar skuldarinnar og skulu þá upphaflegir eða síðar ákvarðaðir endurgreiðsluskilmálar gilda að því er varðar lánstíma, gjalddaga og aðra tilhögun á greiðslu skuldar, allt að teknu tilliti til þeirra breytinga sem leiðir af ákvæðum þessarar greinar.
Sé verið að krefja um vanskilagjöld, þá dragast þau einfaldlega strax af.
Nær ákvörðun Hæstaréttar til fyrirtækja
Ég fæ ekki annað séð en svo sé. Vissulega er ég ekki lögfræðingur, en hef bæði rætt við lögfræðinga um málið og hlustað á þá tjá sig um málið í fjölmiðlum.
Úrskurður Hæstaréttar fellur á reglum kröfuréttar og þær gilda jafnt fyrir fyrirtæki sem einstaklinga. Raunar fellur á þeirri grundvallarreglu kröfuréttar að hinn eðlilegi dauðdagi kröfu sé greiðsla hennar, enda sé sú upphæð greidd sem skuldari er krafinn um, hún sé greidd á réttum tíma, á réttum stað og kröfuhafi hafi full afnot af greiðslunni. Hæstiréttur lítur svo á að greiðslutilkynningar verði hér lagðar að jöfnu við "fullnaðarkvittun um greiðslu á því sem gjaldféll hverju sinni". Ekki verður séð að þetta atriði sé eingöngu tengt greiðslu einstaklings, enda breytist eðli greiðslutilkynningar eða fullnaðarkvittunar ekkert við það hvort handhafinn sé einstaklingur eða lögaðili.
--
Meira síðar.
Fallin fyrirtæki gætu látið reyna á stöðu sína | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lánamál | Breytt 6.12.2013 kl. 00:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
15.2.2012 | 18:38
Afturvirkni vaxta ólögmæt af greiddum gjalddögum
Stóridómur Hæstaréttar er fallinn:
Ekki er heimilt að endurreikna afturvirkt vexti af þegar greiddum gjalddögum fyrrum gengistryggðra lána
Ég veit ekki hvort ég eigi að hlæja eða gráta. Vissi af niðurstöðunni rétt rúmlega þrjú og las frétt mbl.is en vantaði heildarmyndina áður en ég gæti öskrað YES, YES, YES!!!!!!
Við lögðum kerfið að velli. Við sem sögðum að FME og Seðlabankinn hafi verið að hvetja til lögbrota í lok júní 2010, höfðum rétt fyrir okkur. Við sem sögðum að afturvirkniákvæði laga nr. 151/2010 væru ólögleg íþyngjandi ákvæði, við höfðum rétt fyrir okkur. Og áður höfðum við líka haft rétt fyrir okkur um að gengistrygging væri ólögleg verðtrygging.
Hvernig væri að fara að hlusta á okkur?
Við erum nokkuð nösk í túlkun okkar á lögum og kröfurétti.
Dómur Hæstaréttar
Áður en hægt er að fjalla um hver niðurstaða Hæstaréttar er, þá þarf að lýsa hver ágreiningurinn var í málinu.
Í stuttu máli snerist ágreiningurinn um hvort varnaraðili, þ.e. Frjálsi fjárfestingabankinn, hafi mátt skuldajafna málskostnaðargreiðslu sem Hæstiréttur dæmdi sóknaaðila, þ.e. Sigurði og Elviru, vegna máls nr. 604/2010. Varnaraðili sagði að þau hafi vangreitt vexti miðað við að vextir ættu að vera í við dóm Hæstarétta nr. 471/2010 frá 16. september 2010, þ.e. lægstu vexti á óverðtryggðum skuldabréfum sem Seðlabanki Íslands heldur utan um. Sóknaraðili hélt því fram að þar sem hann hefði alltaf staðið í skilum, þá skuldaði hann enga vexti og engu væri að skuldajafna.
Fjórir dómarar, þe. Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir, Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason (settur hæstaréttardómari) tóku undir málsrök sóknaraðila, en þrír, þ.e. Garðar Gíslason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson, tóku undir málsrök varnaraðila. Þetta er nokkuð merkileg skipting, þar sem þau þrjú hafa öll setið lengur hvert um sig, en nokkurt hinna fjögurra. Því mætti segja að nýi tíminn hafi lagt þann gamla.
Hvað tekur Hæstiréttur afstöðu til
Hér hleyp ég bara á nokkrum atriðum vegna tímaskorts, en mun hugsanlega laga færsluna síðar.
Hæstiréttur segir:
Samkvæmt framansögðu verður að taka afstöðu til þess hvort sóknaraðilar teljist í ljósi atvika málsins hafa fengið réttmæta ástæðu til að ætla að ekki gæti komið til frekari vaxtakröfu varnaraðila síðar.
Til að styðja við niðurstöðu sína leitar Hæstiréttur í kröfurétt og skal engan undra með helsta sérfræðing þjóðarinnar í kröfurétti sem einn af þeim sem mynda meirihlutann, þ.e. Þorgeir Örlygsson, og annan mikinn sérfræðing í kröfurétti, Benedikt Bogason.
Það er meginregla í kröfurétti að kröfuhafi, sem fengið hefur minna greitt en hann átti rétt til í lögskiptum aðila, á kröfu á hendur skuldara um það sem vangreitt er. Frá meginreglunni eru þó undantekningar, meðal annars um að fullnaðarkvittun kröfuhafa geti að vissum skilyrðum fullnægðum valdið því að hann glati frekari kröfu. Hvílir áherslan þá á því, að skuldari hafi við móttöku kvittunar fengið í hendur viljayfirlýsingu kröfuhafa um að greiðslu sé lokið og þar með réttmæta ástæðu til að ætla að hann sé búinn að gera upp að fullu greiðslu sína á viðkomandi gjalddaga og geti treyst því að ekki komi til frekari kröfu síðar. Í þessu máli verður lagt til grundvallar að greiðslutilkynningar, sem varnaraðili sendi um væntanlega gjalddaga lánsins með útreikningum á fjárhæðinni sem greiða skyldi og síðan fyrirvaralaus móttaka hans á greiðslum í samræmi við tilkynningarnar, hafi jafngilt fullnaðarkvittun um greiðslu á því sem gjaldféll hverju sinni.
Ásamt öðrum rökstuðningi kemst rétturinn að eftirfarandi niðurstöðu:
Þegar öll framangreind atriði eru virt heildstætt og það lagt til grundvallar sem áður greinir, að greiðslutilkynningar varnaraðila og fyrirvaralaus móttaka hans á greiðslum í samræmi við þær tilkynningar hafi jafngilt fullnaðarkvittunum, þykir það standa varnaraðila nær en sóknaraðilum að bera þann vaxtamun sem af hinni ólögmætu gengistryggingu hlaust og um er deilt í málinu. Er því fallist á með sóknaraðilum, að sá rangi lagaskilningur sem samkvæmt framansögðu lá til grundvallar lögskiptum aðila í upphafi og þar til dómur Hæstaréttar gekk 14. febrúar 2011 verði í uppgjöri aðila einungis leiðréttur til framtíðar. Af því leiðir að varnaraðili getur ekki krafið sóknaraðila um viðbótargreiðslur vegna þegar greiddra vaxta aftur í tímann, en á því var yfirlýsing hans um skuldajöfnuð byggð.
Um lög 151/2010
Hæstiréttur er ekki ósammála um allt. Þannig eru allir dómararnir á því að ekki sé hægt að setja afturvirk íþyngjandi/skuldbindandi ákvæði með almennum lögum. Hér er það sem meirihlutinn segir:
Með almennum lögum er ekki unnt, með svo íþyngjandi hætti sem á reynir í málinu, að hrófla með afturvirkum hætti við réttarreglum um efni skuldbindinga og greiðslur skulda frá því sem gilti þegar til þeirra var stofnað og af þeim greitt. Færi slíkt í bága við þá vernd eignarréttinda sem leiðir af 72. gr. stjórnarskrárinnar. Af þessum sökum fá nefnd lög ekki haggað þeirri niðurstöðu sem komist er að í kafla IV hér að framan.
Hvað þýðir þetta svo
Sá sem vill túlka þetta þröngt mun segja að eingöngu þeir sem hafi greitt skv. tilkynningu séu lausir og hinir sem eru í vanskilum, hafa fengið frystingar eða skilmálabreytingar fái á sig hina háu vexti. Vissulega fjallar Hæstiréttur bara um þá sem eru í skilum, en það útilokar ekki að rétturinn á að samningsvextir gildi áfram sé til staðar. Hafa skal í huga að Hæstiréttur segir að lög 151/2010 séu ólög hvað varðar afturvirkni. Það hlýtur því jafnt að gilda um lán sem staðið var í skilum með og önnur lán.
Um 60.000 heimili og fleiri þúsund fyrirtæki munu njóta góðs af þessari niðurstöðu Hæstaréttar. Líkur eru á að einhver fjármálafyrirtæki lifi það högg ekki af sem á þau kemur. Það er því mjög mikilvægt fyrir lántaka að stíga varlega til jarðar.
Ég hef séð lán þar sem þessi niðurstaða hækkar endurgreiðslu um tugi milljóna meðan hjá öðrum er munurinn nokkur hundruð þúsund. Fyrir fjármálafyrirtækin þá mun höggið hlaupa á tugum milljarða, ef ekki hátt í 150 ma.kr. ef marka má gögn FME frá miðju sumri 2010. Hafa skal þó í huga að mörg fyrirtæki eru þegar búin að fá lán sín leiðrétt langt umfram niðurstöðu Hæstaréttar í dag.
Miði við erlendu vextina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lánamál | Breytt 6.12.2013 kl. 00:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (31)
14.2.2012 | 22:48
Sighvati Björgvinssyni svarað
Sæll Sighvatur
Þetta er Marinó "nokkur" Njálsson. Þú sendir mér pillur í einhverju bræðikasti, þar sem þér líkar ekki við málflutning minn um orð þín í Silfri Egils sl. sunnudag. Ég tek það fram að ég á ekki í neinu stríði við þig og mér þykir þú fara sérkennilega leið að Ólafi Arnarsyni að spyrða málflutning okkar saman. Við Ólafur höfum svo sem þekkst í mjög mörg ár, leiðir okkar lágu saman í MR, en þess fyrir utan ekki talað mikið saman nema þá sjaldan að við hittumst á förnum vegi.
Mér fannst það merkilegt, sem þú sagðir í Silfrinu sl. sunnudag og þá sérstaklega orðin:
Ég benti á í færslu sl. sunnudag og aftur í dag, að þetta geti ekki staðist, þ.e. ómögulegt sé að lífeyrisgreiðslur vegna starfa sem blaðamaður (ritstjóri Alþýðublaðsins) frá 1969 til 1974, standi undir stórum hluta lífeyristekna þinna í dag. Slíkt sé ekki fræðilegur möguleiki. Benti ég á því til stuðnings orð Guðmundar Gunnarssonar, fyrrverandi formanns Rafiðnaðarsambands Íslands, sem sat með þér í settinu síðasta hluta umræðunnar. Hann sagðist hafa greitt í lífeyrissjóð í 10 ár, þegar verðtryggingin var sett á. Þá hafi inneign hans verið búin að rýna niður í andvirði eins lambalæris.
Ég sé að þessi málflutningur minn fer eitthvað illa í þig. En þó svo sé, finnst mér í lagi að greinir satt og rétt frá. Líklegast hefur þú í starfi þínu hjá Þróunarsamvinnustofnun átt erfitt með að fylgjast með þjóðfélagsumræðunni hérna heima, en mig langar til að leiðréttar nokkrar rangfærslur hjá þér og óþarfa ergelsi:
Þú segir:
Ég sé nú að Marinó nokkur Njálsson sem mun hafa verið formaður Hagsmunasamtaka heimilanna en sagði af sér, væntanlega af ærnu tilefni, sem eitthvað var víst rætt um á þeim tíma, tekur í tauminn með þér. Því geri ég ykkur báðum, þér og Marinó, sama tilboðið.
Hér tekst þér einhvern veginn að snúa flest á annan veg en það er:
- Fyrsta er þetta með "Marinó nokkur Njálsson". Þú hefðir nú getað hringt í hana Jóhönnu fyrrum samstarfskonu þína og spurt hana út í þennan mann sem dirfðist að efast um sannleiksgildi orða þinna. Auk þess er óvirðing að tala um menn á þessum nótum, þegar síðan er beint áskorun til manns. Loks, þá aðgreini ég mig með G. fyrir Gunnar vegna þess að ég á mér nafna, Marinó Njálsson, sem er hinn mætasti maður og vil ég ógjarnan að villst sé á okkur. Báðir höfum við unnið hjá sama fyrirtæki, báðir eru við kenndir við tölvubransann og báðir erum við í sama gönguhópnum. Því greini ég mig skýrt með þessu G á milli fornafns og eftirnafns. Eitt í viðbót aðgreinir okkur nafna. Hann er kallaður Marri en ég Maddi af þeim sem nota ekki Marinó.
- "..mun hafa verið formaður Hagsmunasamtaka heimilanna.." - ég var aldrei formaður HH, ekki einu sinni varaformaður, en gegndi um tíma stöðu ritara.
- "..en sagði af sér.." - ég get ekki sagt af mér embætti sem ég gegndi ekki, en ég vissulega hætti í stjórn áður en kjörtímabilinu lauk. Ég sem sagt sagði mig úr stjórninni.
- "..væntanlega af ærnu tilefni.." - hér gefur þú í skyn að ég hafi haft óhreint mjöl í pokahorninu. Staðreyndin er sú, að ég hafði gert samkomulag við konuna mína að um leið og ég og okkar fjármál yrði að söluefni í fjölmiðlum, þá stigi ég til hliðar. Já, tilefnið var ærið, það var loforð sem ég stóð við. Menn hafa leitað að ýmsu til að gera mig tortryggilegan. Nú síðast sá Viðskiptablaðið ástæðu til að slá því upp, að fyrir 18 árum hafði ég dæmt handboltaleiki með Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur. Þetta hlýtur þá að þýða að þessi 18 ár á milli fundu þeir ekki neitt!
- "..tekur í tauminn með þér.." - gefur þú þarna í skyn að ég taki í tauminn með Ólafi Arnarsyni, en hið sanna er að mín færsla um að ekki stæðist að stór hluti lífeyrisgreiðslna þinna kæmu frá tímum þínum sem blaðamanns birtist áður en Ólafur birti sína, þannig að nær væri að tala um að Ólafur hafi gripið í tauminn með mér.
Boð um upplýsingaskipti
Þú gerir mér tilboð um einhver upplýsingaskipti, eins og ég hafi skorað á þig um að gefa upp einhverjar upplýsingar. Því fer fjarri lagi. Ég hef bara farið fram á að þú leiðréttir orð þín um að stór hluti lífeyris þíns komi frá því sem þú greiddir inn fyrir 38-43 árum. Ég tek þessi orð ekki trúanleg, sérstaklega þegar orð Guðmundar Gunnarssonar um að hans lífeyrir hafi rýrnað niður í ígildi lambalæris þó hann hafi safnað í 10 ár en þú bara fimm.
Þú segir svo að ég fari með lygasögur. Þær hef ég engar sagt, nema að ég kallaði þig óvart kommissar hjá Tryggingastofnun en átti að vera Þróunarsamvinnustofnun. Var það saklaust misminni.
Þú biður mig um að hlusta á upptökur af þættinum:
Síðasta Silfur Egils er á netinu og nærtækt fyrir þá sem vilja fara með satt en ekki búa til lygi að heyra það orðrétt, sem þar var sagt. Þar sagði ég að ég þekkti til hinna almennu lífeyrissjóða af eigin reynslu því kona mín fengi sinn lífeyri þaðan og ég sjálfur fengi greiðslur úr lífeyrissjóði blaðamanna. Ég sagði aldrei að þorri lífeyrisins míns kæmi þaðan enda fer því víðs fjarri. Það er lygasaga, tilbúningur ykkar.
Allt í lagi, hlustum þá á Silfrið. Hægt er að nálgast upptökuna hér. Þrjú myndbönd eru birt í færslunni og sé myndband nr. 2 skoðað, þar sem Sigurður Þ. Ragnarsson kemur fram, þá segir þú orðrétt eftir 7 mínútur og 29 sekúndur:
Vissulega notaði ég eftir minni "meginhluta", þar sem ég hafði ekki upptökuna þegar ég skrifaði færsluna. Leiðréttist það hér með. En hver stór hluti er "stór hluti" miðað við "meginhluti"? Á þessu er í mínum huga bitamunur en ekki stærðarmunur. Þú gætir haft aðra skoðun á því. Túlkunaratriði hvort 30% sé nóg til að vera stór hluti, eða hvort það þurfi að vera yfir 50%. Samkeppniseftirlitinu finnst t.d. 40% ekki vera nógu stór til að vera "stór hluti", þ.e. samkeppnisráðandi. Þetta er því erfitt túlkunaratriði sem hver og einn hefur líklegast sína sýn á. Ólafur Arnarson færði ögn í stílinn og sagði þig hafa sagt engan annan lífeyri fá. En það voru ekki mín orð og óska ég eftir því að þú gerir greinarmun á okkur Ólafi. Við kunnum að vera á svipuðum aldri og með stúdentspróf frá sama skóla, en hann er með ljóst hár, ég dökkt, á okkur er ágætur munur í þyngd, hann er sjálfstæðismaður en ég er í Samstöðu og hann er uppalinn í Garðabæ, ég á Seltjarnarnesi og svona mætti lengi telja. Ekki vildir þú að Siggi ruglaði ykkur Styrmi saman.
Þú heldur svo áfram:
Ég kæri mig hins vegar ekki um að búa til sams konar lygasögur um persónulega hagi ykkar og þið gerið um mig. Því endurtek ég tilboðið. Ég er reiðubúinn að gera opinberlega grein fyrir mínum persónulegu högum þannig að fólk geti sjálft séð hvort og þá að hve miklu leyti mínir eiginhagsmunir hafi áhrif á þær skoðanir sem frá mér koma.
Það er nú um seinan fyrir þig að búa ekki eitthvað til um mig. Þú ert bæði búinn að gera það beint og óbeint. Ég hef ekki búið til eitt eða neitt um þína persónulegu hagi, þar sem ég hef enga vitneskju um þá né kæri mig um slíka vitneskju. Ég hef ekki efast um hvaða hagsmuna þú ert að gæta eða gert ráð fyrir að málflutningur þinn sé á annarlegum nótum. Ég efast um að ég hafi hagsmuna að gæta varðandi greiðslur til þín úr þeim lífeyrissjóði sem þú ert líklegast að fá blaðamannalífeyrinn þinn úr (án þess að ég viti hvaða sjóður það er) og ef svo er þá eru þeir hagsmunir mjög litlir. Mínir stærstu lífeyrishagsmunir eru nefnilega í Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda og hann var ekki stofnaður fyrr en um það leiti sem þú steigst inn á þing eða 26. september 1974.
Hvers vegna ætti ég að gera grein fyrir mínum persónulegu högum, eignum, skuldum og tekjum? Ég hef ekki óskað eftir slíku frá þér og hef engan áhuga á slíkum upplýsingum. Hugsanlega þætti einhverjum fjölmiðlum það áhugavert, en ég hef engan áhuga á að svala forvitni þeirra. Ég vil bara að þú viðurkennir, að þú hafir mismælt þig eða orðið á í messunni. Hafir þú ætlað að segja að þú hefðir góðar tekjur frá lífeyrissjóðinum sem þú greiddir í sem blaðamaður eða nokkrar eða eitthvað annað, þá er það hið besta mál. Þú þarft ekki annað en að leiðrétta það. En að gera þann úlfalda úr mýflugu sem þú gerir er fáránlegt. Auk þess væri ekki nóg fyrir þig að gera grein fyrir eignum, skuldum og tekjum í dag. Til þess að við stæðum jöfnum fótum, þá yrðir þú að fara aftur til áranna sem þú segist hafa stóran hluta lífeyris þíns frá, svo hægt væri að rekja hvernig réttindi þín þróuðust. Síðan yrðir þú að gera grein fyrir lánum sem þú tókst á þeim tíma, upphæð þeirra og greiðsluflæðið af þeim. Ertu til í það? Ég hef engan áhuga á að vita það, en ég vil bara að hlutirnir séu á jafnréttisgrunni.
Mín saga í grófum dráttum
Ég hef sagt flest af því sem kemur hér fyrir neðan áður og hefið því verið auðvelt fyrir þig að leita upplýsingarnar uppi á vefnum.
Í mars 2002 eignuðumst við hjónin yndislega dóttur. Bættist hún við ekki minna yndislegan hóp þriggja barna. Við þessa fjölgun stóðum við frammi fyrir því að þáverandi húsnæði myndi ekki duga okkur innan fárra ár. Við héldum samt aftur af okkur meðan strákarnir gátu deilt herbergi, en ljóst var að slíkt gat ekki gengið til lengdar. Sóttum við því um lóð í Þingahverfi í Kópavogi vorið 2005, þ.e. áður en mesta brjálæðið byrjaði, og fengum. Hugmyndin var að byggja eins ódýrt og hægt væri og láta söluandvirði af gamla húsinu dekka framkvæmdakostnað vegna nýja hússins. Ég er viss, Sighvatur, að þú eða einhver í kringum ykkur hjónin hafi farið eins að hér á árum áður. Ég er líka viss um að þú hafir átt þér svipaðan draum, fyrir utan að margt er líkt með okkur hvað fjölskylduna varðar, þ.e. 4 börn, 2 strákar og 2 stelpur. Já, okkur hjón langaði til að byggja okkar draumahús.
En draumurinn snerist upp í martröð, þegar fasteignamarkaðurinn botnfraus í nóvember 2007 rétt um það leiti þegar við vorum komin nógu langt með nýja húsið til að setja það gamla á sölu. Við sitjum uppi með tvær eignir. Aðra sem við getum ekki selt (án þess að tapa háum upphæðum) og hina sem við náum ekki að klára (þó vissulega styttist í það, er að sparsla efri hæðina eftir því sem tími og peningar leyfa, en verð að láta vera að fá fagmenn í verkið). Við búum í nýja húsinu og mikið væri gott að geta gert það áfram.
Við erum með alla flóruna í lánum. Þegar ég sá hvert stefndi vorið 2008, reyndi ég að fá öll lán fryst meðan það versta væri að ganga yfir. Í ljós koma að það versta var framundan, en ekki að baki, og við, þ.e. Íslendingar, erum enn að moka okkur í gegn um skaflinn. Framan af gerðum við allt til að halda lánum í skilum og lánadrottnum góðum. Frystingar fengust, greiddir voru bara vextir og svona mætti lengi telja. Frekar seig á ógæfuhliðina þegar SPRON féll í mars 2009. Má segja að sú ákvörðun Steingríms og Gylfa Magnússonar, að færa SPRON ekki yfir í Nýjan SPRON hafi orðið að myllusteinum um háls okkar hjóna. Myllusteina sem ómögulegt hefur verið að losna við og eru bök okkar sífellt að bogna meira undan þeim.
En eitt verður ekki af okkur tekið. Við höfum sífellt reynt að semja. Ég á það skjalfest, að 904 dagar eru í dag frá því fyrsta tilboð okkar um skuldauppgjör fór til eins lánadrottins okkar hjóna. Á þessum 904 dögum hefur ýmislegt verið reynt og ekki í einu einasta tilfelli hefur verið gert ráð fyrir niðurfellingu upprunalegs höfuðstóls veðlána. En ekkert hefur gengið þrátt fyrir að ég hafi gert fleiri tilboð en ég kæri mig um að nefna.
Á sama tíma hef ég barist harðri baráttu fyrir leiðréttingu lána allra heimila með húsnæðislán og hef ALDREI látið mína stöðu stjórna gjörðum mínum. Raunar er það þannig, að í sumum tilfellum hef ég talað fyrir úrræðum sem hafa gengið gegn hagsmunum okkar hjóna. (Gerði ég það m.a. í vinnu sérfræðingahópsins svo kallaða.)
Á þessum tíma hef ég líklegast fórnað tekjum upp á 8-9 m.kr. bæði vegna þess að ég hef látið hagsmunabaráttuna allt of oft ganga fyrir tekjuöflun og hitt að fyrirtæki úr ákveðnum geira þjóðfélagsins hafa ekki beint verið æst í að kaupa þjónustu af mér, en þau sköffuðu mér aftur uppistöðuna í tekjum mínum áður fyrr.
Þrátt fyrir þetta hefur hópur einstaklinga haft það að leik eða vegna sjúkleika að níðast á mér, eins og ég hafi verið á óstjórnlegu neyslufylleríi, vilji láta aðra borga skuldir mínar, tortryggt mig við öll tækifæri og ég veit ekki hvað. Ég er með þykkan skráp, en þetta hefur reynt mikið á fjölskyldu mína. Samt tel ég mig bara vera að vinna að því að þeir sem brutust inn á heimili landsmanna skili því sem þeir tóku ófrjálsri hendi. Í þeim innbrotum eru lífeyrissjóðirnir á vissan hátt þjófsnautar, þar sem þeir hafa glaðir skráð til eigna hjá sér verðbætur af verðbólgunni sem innbrotsþjófarnir orsökuðu.
Framhaldið
Næstu skref eru óljós. Hæstiréttur, ESA, Evrópuþingið og framkvæmdastjórn ESB eru öll með mikilvæg mál til úrskurðar. Við ættum að heyra frá Hæstaréttin innan 10 daga, en lengra er í hina. Hugsanlega gætum við fengið fjórar mismunandi niðurstöður og þá verður úr vöndu að ráða. Hvernig sem allt fer, þá vonast ég til að fleiri treysti mér til góðra verka en áður og verkefnin, sem hafa látið bíða eftir sér, fari að koma í hús. Nú ef ekki, þá er bara að halda áfram að freista gæfunnar í útlöndum og vona að maður detti niður á áhugaverð verkefni þar.
Lokaorð
Ég vona að þú Sighvatur sért sáttur við þau svör og þær skýringar sem ég hef gefið hér. Mig langar ekkert að elda grátt silfur við þig. Mér fannst það aftur neikvætt að þú hafir ákveðið að hagræða sannleikanum í Silfri Egils sl. sunnudag til að koma höggi á félaga minn Sigurð Þ. Ragnarsson, varaformann Samstöðu. Hann fékk ekki færi á að leiðrétta þig þar sem þú tókst upp nær allan tímann sem Egill ætlaði honum. Það er ekki þér að kenna, þannig séð, því auðvitað á Egill að stjórna því hve mikið menn tala, en þér þótti ekkert leitt að yfirgnæfa Sigurð. Sýna að þú værir ekki dauður úr öllum æðum, að það var meiri stormur í þér en Sigga stormi.
Ég held að þar hafir þú misreiknað þig. Almenningur vill ekki lengur panelista sem tala aðra á kaf og leyfa ekki umræðunni að fljóta. Fólk vill heldur ekki menn sem segja "fáránlegt" án þess að skýra það út. Fólk er búið að fá nóg af þeim sem tala allt niður og segja "ekki hægt". Ég hélt að vinnan fyrir Þróunarsamvinnustofnun myndi gera þig víðsýnni, því þar er fólk (að ég get ímyndað mér) sífellt að leysa "ekki hægt" viðfangsefni. Við Siggi stormur, Lilja Mósesdóttir og þau sem eru með okkur í Samstöðu erum einmitt ásamt fleiri góðum félögum okkar úr öðrum flokkum að vinna að því að festa í sessi þessa hugsun hér á landi. "Ekki hægt" er ekki til í okkar orðaforða. Vandamál eru heldur ekki til. Hjá okkur eru þetta viðfangsefni sem þarf samhentan og hugmyndaríkan hóp til að finna góð lausn á til hagsbótar fyrir þjóðfélagið í heild en ekki þröngan hóp innan þess.
Með vinsemd
Marinó G. Njálsson
Lífeyrissjóðir | Breytt 6.12.2013 kl. 00:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
12.2.2012 | 15:27
Ótrúlegar rangfærslur í Silfri Egils - Hægri/vinstri skipting er úrelt hugmyndafræði
Ég var að hlusta á Silfur Egils, þar sem eru í panel fjórir einstaklingar. Tveir sem eru að meta stöðuna á hlutlausan hátt, þ.e. Jóhanna Vigdís og Styrmir, og tveir sem eru að drepast úr spælingu yfir góðu gengi SAMSTÖÐU - flokks um lýðræði og velferð, þ.e. Þóra Kristín og Sighvatur. Þau fyrrnefndu tjáðu skoðun sína á hlutlausan hátt og lýst því sem er að gerast, meðan hin tvö fóru með alls konar rangfærslur um SAMSTÖÐU og fyrir hvað hún stendur og Sighvatur síðar um lífeyrissjóðina. Sumu af þessu verður bara að svara.
Spuni Þóru Kristínar
Þóra Kristín hélt því fram að Lilja Mósesdóttir og SAMSTAÐA hafi ekki viljað og vilji ekki vinna með Hreyfingunni og elur á því að hún sé ekki húsum hæf og vilji ekki vinna með neinum. Nú er ég einn af þeim sem er í baklandi SAMSTÖÐU þó svo að ég hafi ekki talið rétt að bjóða mig fram til skilgreindra trúnaðarstarfs fyrir flokkinn. Kom ég að vinnu við grunnstefnu flokksins og stefnuskrá var á eins mörgum undirbúningsfundum og mér var mögulegt. Ég veit því upp á hár hvaða umræða hefur átt sér stað og á hvaða línu.
Það fer enginn í samstarf við annan aðila nema vera með sína stefnu á hreinu. Stefna er ekki á hreinu nema hún sé skjalfest. Þetta er sú leið sem var farin. Ég er fyrsti maður til að viðurkenna, að margt er líkt með því sem Hreyfingin stendur fyrir og því sem stendur í stefnuskrá SAMSTÖÐU, en það var ekki vitað fyrr en stefnuskrá SAMSTÖÐU var komin niður á blað. Hitt er að Hreyfingin var í viðræðum innan svo kallaðrar Breiðfylkingarog er það enn. Spyrjum að leikslokum varðandi Breiðfylkinguna og sjáum svo hvort Breiðfylkingin og SAMSTAÐA eigi einhverja samleið. Sjálfur sé ég marga vinkla á slíku og hef marg lýst því yfir að ég mundi vilja sameina það fólk sem harðast hefur barist fyrir nýju Íslandi með réttlátri leiðréttingu skulda heimila og rekstrar fyrirtækja og nauðsynlegri siðbót í samfélaginu.
Ótrúlegur Sighvatur
Sighvatur Björgvinsson er greinilega ekki hættur í pólitík og þekkir manna best þá leið að búa sannleikann í trúverðuga felubúninga. Málið er að hann er ekki að segja sannleikanna. Tvö atriði standa upp úr:
1. Erlendir kröfuhafar eiga stjórnarskrárvarðan rétt á kröfur sínar í gömlu bankana. Kröfuhafar gömlu bankanna skiptast í þá sem áttu kröfurnar fyrir 6. október 2008 og þá sem eignuðust þær eftir þann dag. Hæstiréttur hefur komist að þeirri niðurstöðu að eignarréttur þeirra sem áttu kröfurnar fyrir 6. október 2008 er ríkari en þeirra sem eignuðust þær síðar. Samkvæmt yfirliti yfir kröfuhafa í gömlu bönkunum sem hafa birst í fjölmiðlum, svörum ráðherra á þingi og í skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna, þá hefur stór hluti núverandi kröfuhafa eignast kröfurnar eftir 6. október 2008. Hæstiréttur sagði í Icesave dómum sínum, að þeir sem keyptu kröfurnar með miklu afslætti, allt niður í 5% af nafnverði, eigi bara varinn eignarrétt fyrir þessum 5 prósentum en ekki öllum 100. Þannig, Sighvatur, hættu að fara með svona steypu og ferðu að tala fyrir hagsmunum Íslands en ekki hagsmunum sem kröfuhafar eiga ekki.
2. Meginhluti lífeyris hans kæmi frá þeim tíma þegar hann var blaðamaður. Sighvatur Björgvinsson er búinn að vera þingmaður, eins og kom fram, síðan áður en verðtryggingunni var komið á. Hann kom fyrst inn á þing árið 1974. Hann hefur því fengið lífeyrisrétt af blaðamannalaununum sínum fyrir þann tíma (1969-1974). Guðmundur Gunnarsson fletti óvart ofan af bullinu í Sighvati, þegar hann sagðist hafa greitt í lífeyrissjóð frá 1970 og á þeim tíma þegar verðtryggingunni var komið á átti hann andvirði eins lambalæris! Sé Sighvatur að fá megnið af lífeyri sínum af því sem greitt var inn þegar hann var blaðamaður, þá er greinilegt að einhver annar er að greiða fyrir hann. Svo skulum við ekki gleyma því að Sighvatur var þingmaður í 15 eða 17 ár, ráðherra í nokkrum ríkisstjórnum og loks kommissar í Tryggingastofnun ríkisins. Ætli hann sé ekki að njóta lífeyris vegna þeirra starfa í dag, þ.e. úr Eftirlaunasjóði þingmanna (sem aldrei hefur átt fyrir útgreiddum lífeyri), Eftirlaunasjóði ráðherra (sem aldrei hefur átt fyrir útgreiddum lífeyri) og loks LSR. Ég skal hundur heita, ef Sighvatur er að fá meira út úr lífeyrissjóðnum sínum sem hann greiddi í sem blaðamaður með grænjaxlalaun, en úr öllum hinum. Nú ef svo er, þá er alveg öruggt að hann er ekki að fá þann lífeyri fyrir þann pening sem hann og Alþýðublaðið greiddu inn, því eins og Guðmundur lýsti svo vel var hann orðinn að lambalæri árið 1979 og Sighvatur vill bara fá lambalæri í dag hafi hann lagt inn lambalæri! Svo má náttúrulega ekki gleyma því að Sighvatur fengi lambalærið út á 6-8 árum, þannig að hann fær bara nokkrar sneiðar á hverju ári!
Ég gæti tekið nokkur atriði til viðbótar hjá Sighvati, en læt það vera.
Mér leiðist það, þegar maður eins og Sighvatur kemur fram og skreytir sannleikann eins og hann gerði í Silfrinu. Það er honum ekki samboðið.
Tvö atriði hjá Guðmundi Gunnarssyni
Guðmundur Gunnarsson sagði að verið væri að greiða milli 70 og 80 ma.kr. á ári úr lífeyriskerfinu. Það er bara núna þegar greiddir hafa verið vel yfir 50 ma.kr. úr séreignarsjóðum á þremur árum. Sleppum greiðslunni úr séreignarsparnaði og þá er talan um 40-45 ma.kr.
Annað var þessi umræða um að lífeyrissjóðirnir hafi ekki mátt gefa verðtrygginguna eftir, þar sem menn hefðu með því brotið lög. Enginn var að segja að þetta hefði verið gert án lagasetningar. Mér finnst þetta aumur útúrsnúningur sem var líka notaður á okkur í Hagsmunasamtökum heimilanna á fundi með Landssamtökum lífeyrissjóða haustið 2010. Fyrirgefið, þið eruð að tala við hugsandi fólk en ekki tóma grautarhausa.
Hægri - vinstri - snú
Ingimar Karl Helgason þykist hafa himinn höndum tekið vegna ummæla Sigurðar Þ. Ragnarssonar í Silfrinu um að SAMSTAÐA - flokkur lýðræðis og velferðar væri ekki vinstri flokkur og þegar litið væri á þá sem stóðu að stofnun hans væri alveg eins hægt að kalla hann hægri flokk. Greinilegt er að fjölmiðlamenn og stjórnmálaskýrendur eru í miklum vanda. Kominn er fram flokkur sem ekki vill taka sér sæti samkvæmt skipaninni í franska þinginu á 18. öld.
Átta menn sig ekki á því, að stjórnmál í dag eru ekki lengur um hugmyndafræði 19. aldar? Landsstjórn snýst um að gera það sem kemur best út fyrir þjóðfélagið á hverjum tíma. Eina stundina getur það þýtt aðgerð sem er í anda frjálshyggju eins og að losa verslun undan verðlagsákvörðunum, aðra róttæk þjóðnýting eins og þegar Landsbankinn var tekinn yfir, þriðja atriðið er dreifingar ábyrgðar eins og þegar grunnskólinn var færður til sveitarfélaganna á sínum tíma. Vá, Sjálfstæðisflokkurinn stóð að þessu öllu, en eitt atriðið er argasti kommúnismi, annað frjálshyggja og þriðja félagshyggja. Hér á landi er meiri ríkisrekstur en í flestum samfélögum í kringum okkur, en þar hafa þó oftar verið vinstri stjórnir en hér á landi. Velferðarkerfið er í anda jafnaðarmennsku Norðurlandanna. Er Sjálfstæðisflokkurinn þá í raun og veru vinstri flokkur, þar sem hann hefur verið oftast í stjórn og viðhaldið þessu kerfi? Nei, hann er bara sambland af öllum stjórnmálastefnum og leggur eins og fleiri áherslu á það sem selur best hverju sinni, en hann kallar sig hægri flokk þar hefði honum verið skipað til sætis í franska þinginu. Hægra megin við hina!
Bara til að fólk átti sig á því hvaðan fólk er að koma sem stendur að SAMSTÖÐU - flokki um lýðræði og velferð, þá koma nokkrir úr Fólkinu í bænum í Garðabæ, þarna er varaformaður Hagsmunasamtaka heimilanna og fyrrum Sjálfstæðismaður, fyrrverandi formaður Sambands ungra framsóknarmanna, fyrrverandi formaður Landsamtaka framsóknarkvenna, sjálfur hef ég hvergi verið í flokki fyrir utan að ég skráði mig í Framsókn vorið 2010 til að styðja Gísla Tryggvason í prófkjöri flokksins. Hef ég ekki komið því í kring að skrá mig úr flokknum. Út frá þessu er ljóst að margir koma af hægri vængnum, aðrir úr miðjunni og enn aðrir, eins og Lilja, af þeim vinstri. En við sameinumst í þessu afli sem neitar að láta draga sig í dilka úreltrar hugmyndafræði sem á enga samleið með nútímanum.
Dægurmál | Breytt 6.12.2013 kl. 00:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (42)
10.2.2012 | 19:15
Af vanhæfi, hlutleysi og fagmennsku dómara
Á Eyjunni er frétt þar sem rætt er við Brynjar Níelsson (eða vitnað í hann) vegna gagnrýni sem komið hefur á einn dómara í Hæstarétti fyrir að hafa ekki sagt sig frá máli, þegar kom í ljós að góður vinur hans flutti málið fyrir annan málsaðilann. Mér er alveg sama hverjir einstaklingarnir eru, þar sem í mínum huga snýst málið ekki um einstaklinga heldur grundvallarmál.
Af hverju veldur það ekki vanhæfi ef dómari og lögmaður annars aðila eru bestu vinir, en það veldur vanhæfi ef viðkomandi eru venslaðir eða tengdir nánum ættarböndum eða eins og Brynjar nefnir, hjón, skil ég ekki? Menn sem spila golf saman eyða meiri tíma við þá iðkun en með bróður sínum eða systur á heilum mánuði eða þess vegna ári.
Mér finnst þetta dæmi um vonlausar rökleiðingar sem hinir löglærðu setja oft fram. Því miður er mýgrútur af slíku í dómasafni landsins. Fer stundum um mig hrollur við lestur rökleiðslu hvort heldur lögmanna eða dómara.
Hvers vegna velta menn fyrir sér vanhæfi?
Af hverju væri vanhæfi til staðar ef dómarinn væri bróðir lögmannsins (eða maki)? Jú, vegna þess að dómarinn gæti meðvitað eða ómeðvitað dregið taum bróðursins (makans) í málinu. Þannig að ástæða er ekki eingöngu að viðkomandi eru bræður (hjón) heldur vegna þess að dómarinn gæti ekki gætt hlutleysis. Af hverju ætti dómarinn að vera líklegri til að gæta hlutleysis þegar góður vinur á í hlut? Gott væri að fá skýringu Brynjars Níelssonar á því. Ekki með tilvísun í bókstaf laganna um hæfi eða vanhæfi, heldur út frá því sjónarmiði að dómarinn eigi að geta sýnt hlutleysi í málinu. Og fyrst Brynjar nefnir fagmennsku, þá er þetta einmitt dæmi um að fagmennsku er ekki gætt.
Tekið skal fram að ég er ekki að væna einn eða neinn dómara um að gæta ekki hlutleysis. Ég er að benda á að slíkt hlutleysi er ekki hafið yfir eðlilegan vafa, þegar kemur í ljós að menn eru í svo nánu sambandi að þeir fara á bíó saman eða spila golf saman. Hvað vitum við nema bíóferðin hafi verið farin í yfirskyni þess að geta rætt málin saman.
Teldist vanhæfi í mínu starfi
Ég vinn m.a. við úttektir. Sem úttektarmaður, þá þarf niðurstaða mín þegar um svo kallaða ytri úttekt er að ræða, að vera hafin yfir allan vafa. (Ytri úttekt er þegar hlutlaus aðili tekur út fyrirtæki og ætlunin er að nota niðurstöður úttektarinnar til að fá viðurkenningu á borð við vottun, samning við þriðja aðila eða fá að tengjast t.d. viðskiptakerfi þriðja aðila.) Mér dettur ekki í hug að vinna að ytri úttekt hjá fyrirtæki sem einhver sem ég þekki náið stýrir. Ég gæti unnið innri úttekt, þar sem hún væri eingöngu ætluð fyrirtækinu sjálfu. Að sjálfsögðu tel ég mig hafa nægilega fagþekkingu í mínu starfi annars tæki ég aldrei að mér að vinna úttektina. Ég tel mig líka nægilegan fagmann, en það er einmitt þess vegna sem ég kæmi aldrei að ytri úttekt hjá einhverjum sem ég er í miklum persónulegum tengslum við, þ.e. hef unnið hjá eða fyrir undanfarin 3-5 ár, er venslaður mér eða telst til míns helsta vinarhóps. Ástæðan er fyrst og fremst sú að þá getur sá sem nýtir sér úttektina ekki rengt hana (þ.e. ef ég vinn hana ekki) eða notað hana gegn fyrirtækinu á síðari stigum og þar með grafið undan faglegri ímynd minni (þ.e. hafi ég unnið hana). Þetta snýst ekki um faglega þekkingu mína á viðfangsefninu heldur eingöngu hvers konar fagmaður ég er.
Fagleg þekking og fagmennska eru ólíkir hlutir
Átta menn sig ekki á því, að fagleg þekking og fagmennska eru tveir óskyldir þættir. Einstaklingur getur sýnt framúrskarandi faglega þekkingu á viðfangsefni en verið algjör rusti í framkomu, druslulegur, dónalegur og svo hlutdrægur að hið hálfa væri nóg. Svo er það hinn sem sýnir fagmennsku í öllu sem hann gerir. Svo sem vinnur ítarlega heimildarvinnu og vitnar í alls konar lög máli sínu til stuðnings, snyrtilegur, gætir fullkomlega hlutleysis o.s.frv. en í ljós kemur að hann er á algjörum villugötum hvað varðar skilning sinn á efninu. Er ekki einu sinni í réttu lagasafni. Það dregur samt ekki úr því að hann sýndi óaðfinnanlega fagmennsku, en fagþekkingunni var ábótavant.
Að dómara skuli detta í hug að víkja ekki í máli þar sem mjög góður félagi hans er lögmaður annars aðila ber vott um skort á fagmennsku og, þar sem meira er, telst í mínum huga dómgreindarleysi. Það hefur ekkert með þekkingu hans á þeim lögum sem dæma skal eftir eða að hann gæti ekki úrskurðað í sambærilegu máli sem annar lögmaður flytur. Nei, þetta fjallar númer eitt, tvö og þrjú um það, að hinn aðili málsins geti ekki verið viss um fullkomið hlutleysi dómarans. Með því að víkja sæti er hann því ekki síður að verja sig fyrir (tilhæfulausum) ásökunum um spillingu.
Dægurmál | Breytt 6.12.2013 kl. 00:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
10.2.2012 | 12:47
480 ma.kr. menntunarkostnaður lífeyrissjóðanna - Lífeyrissjóðirnir taki yfir Íbúðalánasjóð
Oft hef ég deilt á sýn Guðmundar Gunnarssonar á hlutina. Í dag birtir hann færslu á bloggi sínu, Samhengi hlutanna, og setti ég meðfylgjandi athugasemd inn á hjá honum. Í þessu tilfelli get ég tekið undir flest það sem hann segir.
Sparisfjáreigendur ekki skúrkar hrunsins
Rétt er það að eigendur sparifjár er ekki skúrkar hrunsins. Þeir eru miklu fremur þeir sem stjórnvöld ákváðu að ættu ekki að taka hrunið á sig ólíkt öllum hinum. Að mörgu leiti finnst mér staða þessa hóps verst af öllum þeim mismunandi hópum sem urðu fyrir tjóni af hruninu.
Rétt er það, að þeir sem lögðu sparnað sinn í hlutfé í góðum og gildum fyrirtækjum (eða það héldum við öll) þeir eru búnir að missa þann sparnað. Hef ég margoft mælt fyrir því að þessu fólki, þ.e. litlum hlutabréfaeigendum, væri bætt tjón sitt þó ekki nema að hluta. Ég veit um marga sem fóru frá ríkidæmi til nánast örbirgðar á þremur dögum út af þessu.
Upplýsingagjöd stjórnvalda brást
Rétt er að á árunum fyrir hrun var viðhöfð aðferð svepparæktar varðandi stóran hluta upplýsingargjafar um stöðu fjármálakerfisins (og er að hluta enn gert), þ.e. "keep them in the dark and feed them shit!"
Skiptir ekki máli hvað við köllum það sem tapaðist
Mér finnst það aftur vera orðaleikur að tala um að iðgjöld hafi ekki glatast, bara ávöxtun. Það er náttúrulega ekki rétt, þar sem iðgjöld voru notuð til að kaupa hlutabréf og skuldabréf. Þetta var ekki keypt fyrir ávöxtun sem aðrar fjárfestingar gáfu af sér. Raunar skiptir ekki máli hvort það var sem tapaðist. Mestu máli skiptir að lífeyrissjóðirnir töpuðu eignum sem áttu að ganga upp í réttindi sjóðfélaga.
Skattgreiðendur taka á sig mest allt tapið
Ég held að menn verði að horfast í augu við það, að tap allra lífeyrissjóðanna lendir á skattborgurum. Ekki í formi inngreiðslna, eins og hjá LSR/LH, heldur sem annars vegar tapaðar skatttekjur og hins vegar aukin framlög til almannatrygginga, a.m.k. eins og kerfið er í dag. Kostnaður ríkisins af ríkisábyrgð á LSR/LH er því mun minni en mann vilja vera láta. Eins og kerfið er í dag rennur allt að 100% af greiðslum úr líferyissjóði aftur til ríkisins, annað hvort í formi skatta eða í formi lækkaðra útgjalda.
Langtímaávöxtun á að ráða för
Lífeyrissjóðirnir villtust út af þeirri leið, að langtímaávöxtun skipti meira máli en skammtímaávinningur. Kröfur um mikla ávöxtun geta farið saman með því að henni sé náð til langstíma. Hrunið er skýrasta sönnun þess. Þeir lífeyrissjóðir sem töpuðu minnstu voru í langtímafjárfestingum á föstum vöxtum.
Hæfi stjórnarmanna skiptir máli og ekkert annað
Hvernig menn eru nákvæmlega valdir inn í stjórnir sjóðanna skiptir ekki mestu máli meðan að viðkomandi er hæfur til setu. Ég hef ekki tekið undir það sjónarmið að seta launagreiðenda sé af hinu illa. Allt veltur á einstaklingnum. Þess fyrir utan er hæfi afstætt. Mestu skiptir að menn viðhafi fagleg vinnubrögð sem tryggi langtímahagsmuni. Mér liggur við að segja, að banna eigi fjárfestingar/ávöxtunarleiðir sem eingöngu er ætlað að tappa af einhverri tískubólu.
Slíðrum sverðin og byggjum saman upp
Loks vil ég segja, að tími sé kominn til að slíðra sverðin og snúa bökum saman. Framundan er grettistak í viðreisn lífeyrissjóðanna og ekki minni í endurreisn trausts í samfélaginu. Vissulega þurfa einhverjir að stíga til hliðar, en þrátt fyrir allt verðum við að halda einhverjum "skúrkum" eftir í þeirri von að þeir hafi lært af reynslunni. Gleymum því ekki að við vorum að leggja 480 ma.kr. í menntunarkostnað þeirra og synd væri að láta þá menntun fara til ónýtis.
En uppbyggingin verður að ná til fleiri þátta en bara eigna lífeyrissjóðanna. Stórt verkefni sem tengist sjóðunum sterkum böndum er vandi þeirra sem eru með síhækkandi húsnæðislán fengin hjá Íbúðalánasjóði. Nú vil svo til að lífeyrissjóðirnir eiga stóran hluta af þeim lánum sem ÍLS (og forverar hans) hefur nota til að fjármagna útlán sín. Ég hef því velt fyrir mér hvort réttast væri að lífeyrissjóðirnir hreinlega eignuðust sjóðinn. Þar með væru þrjár flugur slegnar í einu höggi. Í fyrsta lagi væri fjármögnun húsnæðislána tryggð um líklegast alla framtíð. Í öðru lagi fengju lífeyrissjóðirnir farveg fyrir drjúgan hluta fjármuna sinna. Í þriðja lagi færi ríkisábyrgðin af húsnæðislánakerfinu.
Bæði eru kostir og gallar á því að lífeyrissjóðirnir taki yfir Íbúðalánasjóð. Þá þyrfti að skoða og meta, en ég held að þetta gæti verið ólitlegur kostur með þeim fyrirvara að ég hef ekki ígrundað hann djúpt.
Lífeyrissjóðir | Breytt 6.12.2013 kl. 00:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fyrir hartnær áratugi fékk ég það verkefni í vinnunni að greina allar breytur og stikur í lögum um almannatryggingar og reglugerðum sem Tryggingastofnun ríkisins vann eftir. Ástæða var að fyrirtækið sem ég vann hjá var að forrita nýtt hugbúnaðarkerfi fyrir TR. Ég átti að ljúka þessu af á dagsstund eða svo, þar sem mönnum datt ekki annað í hug en að það færi nú vart meiri tími í verkið. Reyndin varð önnur.
Þegar ég var beðinn um að skila af mér, þar sem nauðsynlegt var að leggja afraksturinn fyrir fund, þá höfðu gott betur en 8 tímar farið í verkið og ástæðan var einföld. Ég hafði þá þegar uppgötvað 239 breytur og stikur sem höfðu áhrif á útgreiðslur úr kerfinu. (Breyta er stærð sem sett er inn einstaklingsbundið (oftast upphæð) eða eftir hópum meðan stika (e. parameter) er ýmist hreinn fasti eða föst tala byggð á útreikningi (oftast einhvers konar hlutfallstala.) Já, 239 breytur eða stikur. Er nema von að fáir, ef nokkrir átta sig á virkni kerfisins.
Það sem mér fannst vandasamast í greiningu minni voru atriði sem virtust gjörsamlega ósamrýmanleg eða svo vítavert ósanngjörn. Mörgum þessara atriða er búið að breyta síðan, sumum til batnaðar, en ég held ég sé ekki að ýkja að flestum hafi verið breytt til hins verra.
Margt í almannatryggingakerfinu er sett þar inn af göfugum hug. Þá á ég við barnabætur, makabætur, ekju- eða eknabætur, örorkulífeyrir, örorkustyrkir, ellilífeyrir, tekjutrygging o.s.frv. en svo átta menn sig á því að ríkissjóður stendur ekki undir þessu öllu. Við því er brugðist með tekjutengingum á alla kanta. Slíkar tekjutengingar eru náttúrulega ekkert annað en jaðarskattar eða hreinlega aukaskattheimta á lífeyris- og bótaþega. T.d. borga lífeyrisþegar tvöfaldan fjármagnstekjuskatt á við aðra. Tekjuteningar gera það að verkum að um leið og persónuafslætti lýkur, þá tekur við kerfi, þar sem lífeyrisþegar fá ekki njóta aukinna tekna. Þeir eru hreinlega skattlagðir hátt í 100% af öllum umframtekjum.
Margar óeðlilegar skerðingar
Margar af þessum skerðingum eru ekki óeðlilegar, en þó mætti færa skerðingarmörkin ofar. Þá á ég við að viðkomandi njóti t.d. greiðslna úr lífeyrissjóði upp að vissu marki umfram lágmarksframfærslulífeyris, en skerðingin hefjist síðan og sé stigvaxandi. Mér finnst alveg eðlilegt að sá sem hefur góðar tekjur úr lífeyrissjóði sé ekki líka að fá fulla tekjutryggingu. Sama á við um húsaleigubætur.
Ein er sú skerðing sem ég skil ekki eða á ég að kalla skatt. Það er skerðing vegna fjármagnstekna. Fjármagnstekjur eru taldar sameiginlegar hjónum. Þannig að sé annað lífeyrisþegi, þá skerða fjármagnstekjur hins lífeyrisgreiðslurnar sem nemur 25% af fjármagnstekjunum. Ekki er einu sinni gert ráð fyrir fjármagnstekjuskattinum, sem þýðir þá að 25% af því sem er eftir skattinn skerði tekjurnar. Nei, það er of flókið. Fái hinn aðilinn 100.000 kr. í fjármagnstekjur, þá renna fyrst 20.000 í skatt og síðan dragast 25.000 kr. frá lífeyrinum. Þannig að af 100.000 kr. eru 55.000 kr. eftir. Maki lífeyrisþegar og lífeyrisþegi borga því 45% fjármagnstekjuskatt. Og ég hélt að fjármagnstekjuskattur ætti að vera lægri en tekjuskatturinn! Af þessari ástæðu, þá er ódýrara fyrir maka lífeyrisþegar sem er með eigin starfsemi (einyrki), að hafa starfsemina á eigin kennitölu því að öllum líkindum borgar þá viðkomandi ekki nema 42% skatt af hagnaði í staðinn fyrir 45%!
Lífeyrisþegum refsað fyrir að lenda í slysi
Annað dæmi er af lífeyrisþeganum sem er svo óheppinn að lenda í slysi. Hann er óheppnasti maður á Íslandi þá stundina. Í fyrsta lagi er honum refsað fyrir það í útreikningi á slysabótunum fyrir að vera lífeyrisþegi og síðan refsar TR honum fyrir að fá bæturnar! Má hann bara þakka fyrir að skulda ekki TR pening eftir að hafa fengið hungurlúsina frá tryggingafélaginu. Vissulega er búið að breyta einhverju af þessu, en eilíf skal vera skömm þeirra þingmanna sem létu glepjast af fagurgala tryggingafélaganna og samtaka þeirra á 10. áratug síðustu aldar. Í fjöldamörg ár voru þeir sem lentu í slysum sviptir eðlilegum bótum vegna þeirra lævíslegu ákvæða sem sett voru inn í lög. Og enn hörmulegra er að Alþingi hafi ekki séð sóma sinn í að leiðrétta hlut þeirra sem í því lentu.
Þekki þetta á eigin skinni
Tekið skal fram að konan mín er 75% öryrki vegna MS sjúkdóms og hefur því verulega skerta starfsorku. Þekkjum við hjónin því margar af fátækragildrum almannatryggingakerfisins á eigin skinni. Á sumum þessum skerðingum hef ég skilning, en aðrar eru settar inn, að því virðist, af hreinni mannvonsku. Líklegast hafa menn komist að því að einn eða tveir einstaklingar hafa komist gegn um einhverja kjánalega glufu í kerfinu og ætlunin hefur verið að setja tappann í. Æðubunugangurinn hefur síðan verið svo mikill, að breyting var ekki keyrð á allt kerfið heldur bara sýndarsafn eða að menn höfðu ekki fyrir því að skoða jaðartilfellin.
Mörg dæmi um hreina mannvonsku
Mannvonskutilfellin eru svo mörg að það mundi æra óstöðugan að telja þau upp. Til mín kom um daginn maður sem heldur úti vefsvæði, þar sem vakin er athygli á mannréttindu lífeyrisþega. Án þess að þekkja sögu hans neitt umfram það sem hann sagði mér á hlaupum, þá virtist mér sem kerfið væri markvisst að brjóta hann niður. Öll sjálfsbjargarviðleitni er laminn til baka af fullri hörku. Honum skal gert ókleift að lifa sjálfstæðu lífi. Þannig er saga margra öryrkja. Hrúgum þeim inn í sambýli, þar sem hægt er að fela þá fyrir umhverfinu. Tölum niður til þeirra á opinberum fundum með því að segja "ástandið getur nú ekki verið svona slæmt", eins og ég hef heyrt nokkra ráðherra segja. Jú, það er það og líklegast mun verra.
Aftur að mannvonskutilfellunum. Þegar skattar á hátekjufólk voru hækkaðir um 5% sumarið 2009 fengu lífeyrisþegar á sig 27% skattahækkun! Ljóst er hver eru breiðu bökin í samfélaginu! Í liggur við hverjum einustu fjárlögum er bætt við nýrri breytu eða stiku í almannatryggingakerfið. Ekki til að hækka réttindi. Nei, til að klípa af þeim sem minnst hafa! Efnaðir Íslendingar geta alveg greitt 50-60% skatt af tekjum yfir 1 milljón. Þeir eiga a.m.k. auðveldara með það en sá sem er á lífeyri. Nei, það má ekki vegna þess að þessir ríku gætu farið eitthvað annað með peningana sína. Vitiði hvað. Þeir fóru annað með peningana sína meðan skattumhverfið hér var þeim eins hagstætt og hugsast getur, þannig að það getur ekki versnað. Farið hefur betra fé!
Breytinga þörf strax
Framkoma hverrar ríkisstjórnar á fætur annarri við lífeyrisþegar jaðrar við mannréttindabrot, ef hún er það ekki. Kerfinu verður að breyta. Ég veit að endurskoðun er í gangi, en það er með breytingar á almannatryggingakerfinu, eins og stjórnarskránni. Vinnan gengur hægt og tillögur daga gjarnan uppi. Nema náttúrulega þær sem eru til skerðinga.
Ég hef verið hlynntur því í mörg ár, að breyta áherslunum og fara frá því sem fólk getur ekki yfir í það sem fólk getur. Ég hef margoft tekið þátt í umræðu um starfsorku. Líklegast fyrir á árunum 2004 - 5, þegar ég vann að ráðgjöf um upplýsingaöryggi hjá flestum af stærstu lífeyrissjóðum landsins og síðan aftur þegar ég vann að ráðgjöf fyrir Starfsendurhæfingarsjóð. En ég veit ekki hvort allir átti sig á því, að slíkt kerfi virkar ekki nema atvinnulífið taki þátt. Hvaða gagn er af því að vera með breytilega 25-50% starfsorku, ef ekkert starf býður upp á breytilegt 25-50% starfshlutfall?
Annað sem þarf að gera er að taka almennilega til í lögum um almannatryggingar. Einfalda fyrirkomulagið, fella út alls konar furðulegheita ákvæði. Gera skerðingar sanngjarnar og réttlátar. Afnema fullkomlega tengsl á milli tekna lífeyrisþega og maka. Nauðsynlegt er að kerfið hvetji til atvinnuþátttöku, en letji fólk ekki með hugsunarlausum skerðingum. Á ég þá sérstaklega við örorkulífeyrisþega.
Jóhanna Sigurðardóttir skipaði nefnd haustið 2007 til að endurskoða almannatryggingakerfið. Fyrir þeirri nefnd fór Stefán Ólafsson. Hvað varð um vinnu þessarar nefndar? Af hverju var ekki haldið áfram? Var þetta eins og alltaf, að þeim er fórnað fyrst sem eru í veikustu stöðunni! Núna er Árni Gunnarsson í forystu fyrir vinnunni. Hvað tefur orminn langa? Stefánsnefndin átti að skila af sér í nóvember 2008. Var sú vinna ekki nógu góð?
Ég hef sagt áður og vil endurtaka það:
1. Skilgreinum kerfið eins og við helst viljum hafa það væru engar takmarkanir á fjármagni.
2. Áttum okkur á því hverju við höfum efni á núna og hvernig staðan mun þróast næstu árin.
3. Skilgreinum algjör grunnréttindi í kerfinu sem við erum ekki tilbúin að fórna, sama hvað.
4. Forgangsröðum því sem ekki er hluti af grunnréttindum, en er inni í draumakerfinu.
5. Bætum eins og við getum atriðum úr lið fjögur ofan á grunnréttindin.
6. Setjum okkur tímaplan um hvenær það sem eftir er gæti verið komið til framkvæmdar að gefnum efnahagslegum forsendum.
Almannatryggingakerfið á ekki að vera vandamál eða olnbogabarn. Það á að vera verðugt viðfangsefni, þar sem unnið er eftir skýrum markmiðum. Ég geri mér fyllilega grein fyrir að öllum markmiðum verður ekki náð, en séu þau ekki til staðar, þá vitum við ekki hvert við stefnum.
Efnahagsmál | Breytt 6.12.2013 kl. 00:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.2.2012 | 12:52
SFF notar loðið orðalag og segir ekki alla söguna
Samkvæmt fréttum frá SFF þá hafa lán heimilanna verið færð niður um tæpa 200 ma.kr. Efast margir um sannleiksgildi þessarar staðhæfingar og er ég í þeirra hópi. Í fyrsta lagi, þá er ekki hægt að lesa þessa tölu út úr reikningum fjármálafyrirtækjanna, hversu góður vilji væri til þess að leita af þeim. Í öðru lagi, þá eru, eins og segir í frétt mbl.is, ekki allir sáttir við að túlka aðlögun stöðu lána að lögum vera niðurfærslu. Síðan í þriðja lagi, þá er ýmislegt sem bendir til þess, að fjármálafyrirtækin séu ekki að tapa neinu á þessum aðgerðum, þar sem a) sum þeirra eru ekki einu sinni að skila þeim afslætti sem þau fengu af lánasöfnunum frá gömlu hrunbönkunum og b) eru í tilfelli áður gengistryggðra lána bara að fresta tekjufærslunni, þ.e. í staðinn fyrir að hafa háan höfuðstól í bókum sínum sem myndar hagnað síðar, þá eru þau að rukka mun hærri vexti en áður og fá hagnaðinn eftir þeim leiðum.
Samtök fjármálafyrirtækja og fjármálafyrirtækin sjálf þorðu ekki að hleypa Hagfræðistofnun Háskóla Íslands í þau gögn sem upplýsingar um "niðurfærslu" lánanna eru byggðar á. Hvers vegna ætli það sé? Varla er það bankaleynd, þar sem ekki var farið fram á að sjá upplýsingar sem greinanlegar eru niður á viðskipta vini. Samt var því borið við. Hver getur ástæðan þá verið? Eina vitræna skýringin sem ég hef, er að undirliggjandi gögn gefa aðra mynd, en upplýsingar SFF.
Svara er enn beðið
Þegar Hagfræðistofnun Háskóla Íslands var falið að sannreyna upplýsingar SFF um "niðurfærslu" lána heimilanna, var ég ásamt nokkrum öðrum á vegum Hagsmunasamtaka heimilanna boðaður á fund tveggja starfsmanna stofnunarinnar. Á þeim fundi lagði ég fram 10 spurningar sem ég taldi mikilvægt að fá svör við. Einn félaga minna lagði síðan fram nokkrar í viðbót. Hagfræðistofnun hunsaði þessar spurningar að mestu og er þeim að því leiti ósvarað.
Spurningarnar voru ekki settar fram að nauðsynjalausu. Við sem höfum legið yfir tölum um skuldamál heimilanna höfum nefnilega áttað okkur á þeim gloppum og misræmi sem er í tölunum og upplýsingum sem birtar hafa verið opinberlega. Meðan ekki fæst skýring á þessu misræmi og gloppum, þá getum við ekki tekið tölur SFF trúanlegar. Þær stemma ekki við upplýsingar úr opinberum gögnum frá Seðlabanka Íslands og sem ráðherrar hafa gefið upp á þingi.
Spurningar eru sem hér segir. Fyrst frá mér:
1. Hvaða lán heimilanna færðust frá gömlu bönkunum til þeirra nýju? - Þessari spurningu er ekki svarað, bara er talað um íbúðalán.
2. Hver var upphæð einstakra lánaflokka hjá hverjum banka um sig, annars vegar bókfært verð í gamla bankanum og hins vegar gangvirði/raunvirði í nýja bankanum við yfirfærslu? Þ.e. hvaða afslátt fékk hver og einn banki af mismunandi flokkum útlána til heimilanna (samkvæmt útlánaflokkun Seðlabanka Íslands)? - Þessari spurningu er bara svarað að hluta.
3. Hvaða lán heimilanna urðu eftir hjá gömlu bönkunum og hvert var bókfært virði þeirra 30/09/2008 og hvert er bókfært virði þeirra núna? - Þessari spurningu er bara svarað að hluta.
4. Í hagtölum Seðlabanka Íslands kemur fram að lán heimilanna lækkuðu umtalsvert á milli talna í september og síðan í lok október 2008? Hver er skýringin á þessari lækkun milli mánaða, þ.e. hve stór hluti er vegna lána sem færðust á milli gömlu og nýju bankanna og hve stór hluti er lán sem urðu eftir í gömlu bönkunum og eru því ekki inni í tölu SÍ vegna október? - Þessari spurningu er svarað að mestu leiti.
5. Samtök fjármálafyrirtækja hafa fullyrt að áður gengistryggð lán hafi verið færð niður um 130 ma.kr. Hvernig er þessi tala fengin? Hver eru áhrif endurútreiknaðra vaxta á þessa upphæð? Eru endurútreiknaðir vextir inni í 130 ma.kr. eða utan? Hvernig breyttist (áætlað) heildargreiðsluflæði (tekjustreymi) fjármálafyrirtækjanna fyrir og eftir endurútreikning? - Þessari spurningu er ekki svarað.
6. Í skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna er á blaðsíðu 30 fullyrt að öll gengisbundin lán hafi verið færð yfir með yfir 50% afslætti. Óskað er eftir staðfestingu á því að þetta sé rétt. Nú ef svo er ekki í tilfelli lánasafna heimilanna, hver er skýringin á því að skýrsluhöfundar fullyrða þetta? Ef þetta er rétt, hvernig kemur það þá heim og saman við 130 ma.kr. töluna að ofan? - Þessari spurningu er ekki svarað.
7. Samkvæmt Creditor Report Kaupþings frá febrúar og fram í ágúst 2009, þá voru lánasöfn að bókfærðu virði 1.410 ma.kr. færð yfir til Nýja Kaupþings á 456 ma.kr. Óskað er eftir staðfestingu á að þetta sé rétt tala og ef ekki hver hún var í raun og veru? Ef hún var ekki þessi tala, þá er óskað eftir að vita hver talan var. - Þessari spurningu er ekki svarað.
8. Í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar sem birt var 14. september sl. eru birtar tölur um stöðu lánasafna í stofnefnahagsreikningi nýju bankanna. Óskað er eftir upplýsingum um það hvernig lán heimilanna skiptast niður í flokkað samkvæmt útlánaflokkun SÍ. - Þessari spurningu er bara svarað að hluta og ekki er vitnað í fyrirspurn Guðlaugs Þórs í skýrslunni heldur í eldri fyrirspurn frá Ásbirni Óttarssyni.
9. Fjármálafyrirtækin hafa fullyrt að afskriftir þeirra vegna lána heimilanna nemi yfir 160 ma.kr. Hve stór hluti þessara afskrifta er leiðrétting í bókhaldi fyrirtækjanna vegna lögbrota, hver stór hluti er hluti af þeim afslætti sem fékkst af lánasöfnunum við flutning þeirra og hve stór hluti er niðurfærsla á gangvirtu höfuðstóli eins og hann var skráður við flutning í nýju bankana? - Þessari spurningu er ekki svarað.
10. Fjármálafyrirtækin hafa fullyrt að afskriftir hafi numið 160 ma.kr. Hafa aðrar afskriftir átt sér stað, þ.e. svo dæmi sé tekið á lánum heimilanna, sem urðu eftir hjá gömlu bönkunum? Er einhver hluti þessara 160 ma.kr. vegna afskrifta á lánum sem ennþá eru í eignasöfnum gömlum bankanna og hve stór hluti, ef svo er? - Þessari spurningu er ekki svarað.
Síðan frá félaga mínum í hópnum:
11. Í samræmi við IAS 39 þá gera bankarnir væntanlega upp útlán sem keypt eru með miklum afslætti (deep discount) með aðferð virkra vaxta. Í því ljósi þarf að greina á milli þess hversu stóran hluta afsláttarins megi rekja til tapaðra krafna og hversu stóran hluta afsláttarins megi rekja til núvirðingar. Í ljósi þess að verið er að skoða svigrúm bankanna til niðurfærslu lána til heimilanna er eðlilegt að bankarnir gefi upp í tölum hvernig þessi skipting var í upphaflegu verðmati brotið niður á tegund lánasafna og hvernig bókfærð staða afsláttarins, eftir teg., sé nú m.v. síðasta árshlutauppgjör í samanburði við kröfuvirði.
12. Vegna núvirðingar deep discount lána þá hafa bankarnir væntanlega gefið sér einhverja ávöxtunarkröfu og miðað við IAS 39 er ávöxtunarkrafan sú sama út allan lánstíman (miðað er við upphaflega virka vexti) a.m.k. á íbúðarlánum sem bera fasta vexti. Hvaða ávöxtunarkröfu gera bankarnir til niðurfærðra lána til heimilanna eftir tegundum útlána? Hefur sú ávöxtunarkrafa breyst frá upphaflegri ákvörðun ef svo er þá hvernig? Hér kemur upp sú spurning hvernig IAS 39 eigi við hér, þegar lánasöfn bankanna voru meira og minna keypt með miklum afslætti og jafn mikil breytingi hefur orðið á vaxtastigi í landinu frá hruni sem raun ber vitni. Væntanlega hefur ávöxtunarkrafan verið gerð þegar vaxtastig var óeðlilega hátt mv. það sem vænta má í dag til framtíðar. Spurning hvort ekki sé eðlilegt að aðlaga þessa ávöxtunarkröfu sem gæfi eðlilegilegri niðurstöðu og aukið svigrúm til afskrifta á lánasöfnum. Hafa verður í huga að hér eru mjög sérstakar aðstæður og í upphafi gert ráð fyrir því að stór hluti afsláttarins færi í að leiðrétta lánasöfnin fyrir þeim forsendubresti sem hrunið leiddi af sér. Auðvelt er að reikna afsláttinn út af borðinu með óraunhæfri ávöxtunarkröfu.
13. Þegar bankarnir gefa upp sínar afskriftartölur er mikilvægt að gera sér grein fyrir forsendum sem að baki þeim liggja. T.d. hefur bönkunum verið gert að tekjufæra ekki gengismun af gengistryggðum lánum. Hér þurfa bankarnir hreinlega að gefa upp aðferðarfræði sína í þessu sambandi. Best er að taka dæmi: Gengistryggt lán að kröfuvirði kr. 1.000.000 er yfirtekið af bankanum á kr. 500.000.- Við endurskipulagningu lánsins er kröfuvirðið kr. 1.500.000.- Lánið er fært niður í kr. 1.000.000.- Hvað myndi bankinn tilgreina að hann hafi veitt mikinn afslátt af láninu í samræmi við þær tölur sem opinberlega eru í umræðunni? Er mismunur eftir tegundum lána, verðtryggt, óverðtryggt eða gengistryggt?
14. Hluti útlána bankanna til heimilanna eru þannig að þrátt fyrir forsendubrest þá er til staðar nægjanlegt veðrými og greiðslugeta lánþega. Hefur afsláttur sem fékkst í upphafi af þessum lánum verið tekjufærður? M.ö.o, er litið á þessi lán sem fullendurskipulögð og afsláttur því tekjufærður strax? Hvernig er litið á lán sem farið hafa í gegnum 110% leiðina, eru það lán sem bankarnir líta á sem full endurskipulögð lán?
15. Lýsing á aðferðarfræði bankanna við tekjufærslu afsláttar af niðurfærðum útlánum til heimilanna (endurmat útlánasafna). Eitthvað virðist aðferðarfræðin vera mismunandi eftir bönkum mv. framsetningu upplýsinga um vaxtainnlausn bankanna skv. ársreikningum.
Þessar spurningar voru ekki settar fram af nauðsynjalausu og ekki heldur af einhverri meinfýsni. Nei, þær voru settar fram til að hjálpa Hagfræðistofnun við vinnu sína. Leiða stofnunina inn á rétta braut (að okkar mati), sem myndi verða til þess að niðurstöðurnar stæðust faglegar kröfur og það sem meira er. Þær væru hafðar yfir allan vafa. Við bíðum ennþá svara!
Óánægja með framsetningu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Skuldamál heimilanna | Breytt 6.12.2013 kl. 00:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.2.2012 | 18:05
Samstaða - flokkur lýðræðis og velferðar
Ég vil byrja á því að óska Lilju Mósesdóttur til hamingju með fundinn í dag og flokkinn. Nýju afli Samstöðu - flokki lýðræðis og velferðar hef verið hleypt af stokkunum.
Þegar stefnuskrá flokksins er skoðuð koma fram ýmis óhefðbundin atriði. Þekki ég þessa hluti ágætlega, þar sem ég hef verið í bakvarðasveit flokksins, þ.e. í hópi þess fólks sem undirbjó stofnunina, skilgreindi stefnuskrá hans o.s.frv. Vildi ég með því taka þátt í að endurreisa Ísland á forsendum lýðræðis og velferðar, þar sem
- unnið er gegn landlægri spillingu,
- rödd fólksins fær að heyrast,
- tekið er á málefnum líðandi stundar á forsendum þjóðfélagsins en ekki úreltra flokkspólískra lína,
- hugað er að velferð einstaklings,
- lágmarksréttindi einstaklingsins eru varin,
- málefnalegri umræðu er fagnað og ágreiningur er hluti af því að finna farsæla lausn og
- samfélagsleg ábyrgð kallar á þátttöku allra.
Með því að taka þátt í þessu starfi vil ég halda áfram að verða að liði í endurreisninni og vona að þátttakan komi ekki í veg fyrir áframhaldandi samstarf við þá samherja í baráttunni fyrir réttindum heimilanna sem ég hef unnið mest með hingað til. Ég vona líka að gott samstarf, góð samstaða geti átt sér meðal þessara aðila, þó þegar kemur að kosningum muni hver og einn örugglega gera sínar hosur grænar fyrir kjósendum hver á sinn hátt. En munum að sameinuð stöndum vér, sundraðir föllum vér!
Samstaða - flokkur lýðræðis og velferðar mun vinna hlutina á sínum verðleikum og vonandi munu aðrir gera það líka. Skotgrafarpólitík sem gengur út á smjörklípur, að fara í manninn en ekki málefnin og að tala aðra niður frekar en að tala fyrir sínum málefnum, er því miður hinn sorglegi veruleiki hins hefðbunda flokkakerfis. Í síðustu kosningum kom fram afl sem sveigði af þeirri leið og hefur sýnt að það sé hægt. Samstaða - flokkur lýðræðis og velferðar ætlar sér að vinna á sömu forsendum, þ.e. við tölum fyrir okkar málstað en ekki niður málstað annarra.
Samvinna sem flestra skilar okkur áfram
Svo það sé á hreinu, þá er mitt markmið ekki að fara í framboð, heldur vinna að góðum málefnum með góðu fólki. Vona ég innilega að það takist. Ég stefni að því að vera óbreyttur flokksmaður sem framvarðasveit hans getur kallað á sér til aðstoðar eða skyldustarfa í þágu málefnanna. Það sem gott fólk er vonandi í öllum flokkum, þá mun ég halda áfram að vinna með þeim sem með mér vilja vinna.
Endurreisn Íslands er á ábyrgð okkar allra. Sagt er að margar hendur vinni létt verk og er það hverju orði sannara. Viðfangsefnin eru mörg og þau þarf að leysa. Í minni hugmyndafræði eru eingöngu til viðfangsefni, ekki vandamál. Á hverju viðfangsefni eru mörg sjónarhorn sem skoða verður af kostgæfni, þannig að valin sé lausn eða blanda lausna sem hentar hverjum aðstæðum best. Slíkt tekst eingöngu þegar ólíkir aðilar koma að lausn málsins. Slíkt tekst eingöngu, þegar við hvetjum til heilbrigðs skoðanaágreinings í fyrri hluta vinnunnar sem við síðan reynum eftir fremsta megni að leysa úr á leið að niðurstöðu. Þetta er aðferðafræði lýðræðislegrar umræðu, þetta er aðferðafræði lýðræðislegrar vinnubragða og þetta leiðir vonandi af sér niðurstöðu sem breið samstaða er um. En hver sem niðurstaðan verður, þá má hún ekki vera á kostnað manngilda okkar. Hún má ekki brjóta gegn siðgæðisvitund okkar. Niðurstaða sem gerir það, er slæm niðurstaða hvernig sem á það er litið.
Flokkur lýðræðis og velferðar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.12.2013 kl. 00:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
7.2.2012 | 14:24
Námskeið um áhættustjórnun og stjórnun rekstrarsamfellu
Betri ákvörðun, ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar, mun halda námskeið um áhættustjórnun þriðjudaginn 6. mars og stjórnun rekstrarsamfellu miðvikudaginn 7. maí. Markmið námskeiðanna er að kynna aðferðafræði við áhættumat og samspil áhættumats og stjórnunar rekstrarsamfellu. Hægt er að sækja annað námskeiðið eða bæði. Að hámarki eru 15 sæti í boði á hvoru námskeiði.
Tekið skal fram að ekki er fjallað um áhættustjórnun fjárstýringa.
Dagskrá námskeiðanna verður sem hér segir:
Áhættustjórnun
Þriðjudagur 6. mars
Kl. 08.45 - 09.00 Skráning
Kl. 09.00 - 09.55 Kynning. Inngangur.
Kl. 09.55 - 10.10 Kaffihlé
Kl. 10.10 - 11.50 Áhættumat og áhættustjórnun - aðferðir, staðlar, hugmyndafræði fyrri hluti
Kl. 11.50 - 12.40 Hádegismatur
Kl. 12.40 - 13.30 Áhættumat og áhættustjórnun - aðferðir, staðlar, hugmyndafræði seinni hluti
Kl. 13.30 - 14.40 Framkvæmd áhættumats - aðferðir, leiðbeiningar, form, skjalamát
Kl. 14.40 - 15.00 Kaffihlé
Kl. 15.00 - 15.30 Verkefni: Áhættumat
Kl. 15.30 - 16.40 Kynning á niðurstöðu verkefna og umræður
Kl. 16.40 Námskeiði lokið
Stjórnun rekstrarsamfellu
Miðvikudagur 7. mars
Kl. 08.45 - 09.00 Skráning
Kl. 09.00 - 09.55 Stjórnun rekstrarsamfellu - markmið, tilgangur
Kl. 09.55 - 10.10 Kaffihlé
Kl. 10.10 - 10.50 Stjórnun rekstrarsamfellu - aðferðir, staðlar, hugmyndafræði
Kl. 10.50 - 11.50 Áhrifagreining - aðferðir, leiðbeiningar, form, skjalamát
Kl. 11.50 - 12.40 Hádegismatur
Kl. 12.40 - 13.30 Stutt verkefni unnið saman
Kl. 13.30 - 14.40 Neyðarstjórnun - neyðarhandbók
Kl. 14.40 - 15.00 Kaffihlé
Kl. 15.00 - 15.40 Viðbragðsáætlun - endurreisnaráætlun
Kl. 15.40 - 16.40 Viðbragðsáætlun útbúin
Kl. 16.40 Námskeiði lokið
Meðal þeirra staðla og aðferða sem stuðst er við á námskeiðinu má nefna ISO 27001, ISO 27002, ISO 27005, BS 25999, BS 31100 og CobiT (Control Objectives for Information and Related Technology).
Leiðbeinandi á námskeiðinu er Marinó G. Njálsson, CISA, CRISC, sérfræðingur í stjórnun upplýsingaöryggis, M Sc og Engineer Degree Operations Research, Stanford University.
Verð fyrir hvort námskeið er kr. 40.000, en ef bæði eru sótt, þá kostar þau kr. 70.000. Innifalið er námskeiðsgögn, léttar veitingar og hádegisverður. Veittur er 10% afsláttur ef tveir eða fleiri koma frá sama aðila.
Skráning á námskeiðið er hafin og fer hún fram með því að senda tölvupóst á oryggi@internet.is. Þar eru einnig veittar nánari upplýsingar, ef óskað er.
Námskeiðið verður haldið miðsvæðis á Reykjavíkursvæðinu og verður staðsetning auglýst síðar.
Áhættustjórnun | Breytt 6.12.2013 kl. 00:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (15.9.): 0
- Sl. sólarhring: 8
- Sl. viku: 36
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 23
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði