Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2012

Ber Landsbankinn þá ábyrgð á núverandi verðbólgu?

Greiningardeildir bankanna eru stundum alveg óvart uppspretta skemmtiefnis.  Oftast hefur það verið greiningardeild Arion banka, sem veitt hefur mér slíka skemmtun, en núna er það deild Landsbankans.

Niðurstaða greiningardeildar Landsbankans er að 2,5 ma.kr. endurgreiðslur Arion banka til skilvísra viðskiptavina geti haft áhrif til hækkunar verðbólgu, þar sem slík endurgreiðsla gæti leitt til meiri einkaneyslu á komandi mánuðum.  Ég er að vísu ekki búinn að sjá hvernig deildin tengir saman meiri einkaneyslu við núverandi aðstæður í þjóðfélaginu við hækkun vöruverðs.  Vissulega er slíkt orsakasamhengi þekkt, en það tengist yfirleitt því að eftirspurn eykst umfram framboð.  Hér á landi hefur lítið borið á því síðustu mánuði að eftirspurn sé að drekkja framboðinu.  Frekar að því sé öfugt snúið, þ.e. að framboð sé lagt umfram þá eftirspurn sem er í þjóðfélaginu.

En þetta er ekki það mér er skemmt yfir.  Ástæðan er að Landsbankinn fór út í tífalt umfangsmeiri aðgerðir í fyrrasumar og ég spyr því:  Ber Landsbankinn ábyrgð á núverandi verðbólgu?  Er það niðurstaða greiningardeildar Landsbankans, að það hafi verið stórhættulegt fyrir þjóðfélagið, að Landsbankinn hafi ákveðið að koma til móts við skuldsetta viðskiptavini sína?  Ef það er skoðun greiningardeildar Landsbankans að slík endurgreiðsla valdi verðbólgu, varaði greiningardeildin bankastjórn Landsbankans við því áður en hann fór út í aðgerðirnar sl. sumar og haust?  Ef ekki, hvers vegna varaði deildin ekki við því?

Sýnir þörfina að losna við verðtryggingu

Þessi umsögn greiningardeildar Landsbankans er enn ein vísbending um hve nauðsynlegt er að losna við verðtryggingu af neytendalánum.  Sama hvernig hlutirnir þróast, þá verða þeir einhvern veginn alltaf til þess að verðbólgan eykst og lánin hækka.  Hagkerfið hrynur, þá hækka lánin.  Hagkerfið rís úr öskustónni, þá hækka lánin.  Lánin hækka, þá eykst verðbólgan og lánin hækka.  Lánin lækka vegna leiðréttingar, þá eykst verðbólgan og lánin hækka aftur.  Þetta er vítahringur sem verður ekki rofinn nema á einn hátt.  Aftengja þarf verðtryggingarákvæði neytendalána, þar til jafnvægi verður komið á og verið viss, jafnvægið kemst á innan 12 mánaða.

Landsbankinn og Arion banki munu ná til baka þeim endurgreiðslum, sem þeir greiddu viðskiptavinum sínum, á nokkrum mánuðum í formi verðbóta.  Málið er nefnilega að stærsti hluti verðtryggðra lán bankanna er fjármagnaður með óverðtryggðum innlánum.  Með vaxtamun upp á 8-10%, þá tekur það Landsbankann í mesta lagi 1 ár og Arion banka innan við 1 mánuð.  Séu aðgerðirnar auk þess verðbólguvaldandi, eins og greiningardeild Landsbankans heldur fram, þá má segja að aðgerðin sé ókeypis fyrir bankanna.  Það sem meira er, að með þeim er verið að leggja meira á þá sem ekki fengu neina endurgreiðslu, þar sem verðbólgan leggst jafnt á alla.  Sem sagt, miðað við rök greiningardeildar Landsbankans, er enn einu sinni verið að færa fé frá þeim sem eru í erfiðleikum til þeirra sem eru aflögufærir.  


mbl.is Endurgreiðslan getur aukið verðbólgu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kynslóðatilfærsla lífeyriskerfisins er frá þeim YNGRI til þeirra ELDRI!

Ég get ekki að því gert, að það fer voðalega í taugarnar á mér, þegar Gylfi Arnbjörnsson, Arnar Sigurmundsson og fleiri varðmenn lífeyrissjóðakerfisins byrja með grátkórinn sinn um að amma gamla eigi að greiða verði lífeyrissjóðirnir krafðir um að taka þátt í lækkun á skuldum heimilanna.  Vilhjálmur Bjarnason, fjárfestir, tók síðan undir með kórnum í Silfri Egils í dag. Rök þeirra eru í grófum dráttum að leiðrétting lána upp á 200-250 ma.kr. sé stærsta eignatilfærsla í sögu lýðveldisins, að lífeyrissjóðirnir hafi orðið fyrir svo miklum skaða að bæta yrði þeim sem núna eru að taka lífeyri tjón þeirra, ef frekar yrði bætt á tjónið og síðan hjá Vilhjálmi í Silfrinu, að menn hafi gengið út frá því að kaup lífeyrissjóðanna á bréfum Íbúðalánasjóðs (og forvera hans) væri áhættulaus fjárfesting.

Málið er að hvernig sem á allt er litið, þá eru það yngri sjóðfélagar sem eru að taka á sig tjónið sem lífeyrissjóðirnir urðu fyrir í hruninu og ekki bara í hruninu heldur eru yngri sjóðfélagar líka að taka á rangar forsendur sjóðanna í gegn um tíðina sem hafa í reynd leitt til þess að eldri sjóðfélagar hafa ekki safnað fyrir þeim réttindum sem þeir eru ýmist að fá greidd út eða verið er að lofa að þeir fái greitt út þegar þeir hefja töku lífeyris.  Í þessari færslu (sem ég er búinn að ganga með í maganum nokkuð lengi og hefur verið tilbúin í nokkra daga) fer ég yfir það sem ég tel vera mesta eignatilfærsla sem er í gangi á Íslandi í dag og ennþá stærri sem er framundan.  Stóra málið er að yngri sjóðfélagar eru að tapa mun hærri upphæðum í kerfinu en þeir eldri.

Ómaklegt að etja saman kynslóðunum

Mér finnst þessi aðferð að etja saman kynslóðunum vera ómakleg og röng.  Það nefnilega vill svo til að fæstir sem eru að taka lífeyri í dag, ef nokkur, ávann sér að fullu þann lífeyri sem viðkomandi er að fá.  Já, náði ég athygli ykkar.

Fæstir sem eru að taka út lífeyri í dag eiga fulla innistæðu fyrir honum í sjóðnum sínum!

Þetta vita Gylfi, Arnar, Vilhjálmur Egils og allir forystusauðir lífeyrissjóðakerfisins.  Ég ætla ekki að kenna þeim um að svo sé, en ég vil bara að þeir hætti að fela sannleikann fyrir fólkinu í landinu. 

Eina leiðin til þess að hægt sé að greiða fólki út þann lífeyri sem búið er að lofa því í mörg ár, er að ganga á innstæður þeirra sem yngri eru.  Eðlilegast væri náttúrulega að laga réttindi allra sjóðfélaga að stöðu sjóðanna, en þá myndu m.a. Gylfi, Arnar og Vilhjálmur missa spón úr sínum aski.  Ekki að það muni skipta þá máli, en það mun skipta fjölmarga aðra máli.  Þess vegna er farin sú leið að telja fólki trú um að réttindaávinningur þeirra sé meiri en sjóðirnir standa undir.  Þá er ég ekki að tala um að ávöxtun sjóðanna hafi ekki verið næg, heldur eru það aðrir þættir og mun ég skýra það út hér fyrir neðan.

Hækkun iðgjalda..

Ekki eru nema tæp 6 ár frá því sett voru lög um að lágmarksiðgjöld í lífeyrissjóði hækkuðu úr 10% í 12%.  Með kjarasamningum sem tóku gildi 1. janúar 2005 var framlag launagreiðenda hækkað úr 6% í 7% og tveimur árum síðar hækkuðu þau úr 7% í 8%.  Ástæðan fyrir þessari hækkun var fyrst og fremst til að bæta tryggingafræðilega stöðu sjóðanna, en lengri ævi og fjölgun öryrkja hafði skekkt stöðu sjóðanna.  Með öðrum orðum, greiðslur í samtryggingasjóði höfðu ekki staðið undir þeim réttindum, sem sjóðsfélögum hafði verið lofað á þeim tíma sem þeir greiddu iðgjöld sín og launagreiðendur mótframlagið.

Líklegast er bannað að segja það sem ég ætla að segja núna.  Staðreyndin er sú, að þeir allir sem taka lífeyri núna úr samtryggingasjóðum eða munu byrja töku hans á næstu tveimur áratugum munu ekki hafa unnið fyrir öllum réttindum sínum með greiðslu í lífeyrissjóðinn sinn.  Skekkjan er minni eftir því sem lengra líður milli lífeyristöku og gildistöku ákvæðisins um 8% framlag launagreiðandans.  En framundan er frekari skekking, því samkomulag hefur náðst um að lágmarksiðgjald í lífeyrissjóði hækki í 15,5% á árunum 2014 - 2020.  Látum það þó að mestu liggja á milli hluta í þessari umfjöllun.

..til að mæta hærri lífaldri og fjölgun öryrkja

Við hækkun framlags launagreiðenda úr 6 í 8% varð 20% hækkun á inngreiðslu.  Henni var, eins og áður segir, ætlað að mæta hækkuðum aldri og fjölgun öryrkja.  Staðan var einfaldlega sú að tryggingafræðileg staða sjóðanna var neikvæð og auka þurfti inngreiðslur í þá til að standa undir þeim löforðum sem höfðu verið gefin.  Ekki ætla ég að agnúast út í það. Frekar fagna því að ég geti með mínu framlagi í minn lífeyrissjóð tekið þátt í velferðarkerfinu og stutt við þá sem eldri eru og lokið hafa starfsævi sinni eða þurft að fara af vinnumarkaði vegna slysa eða sjúkdóma.  Mér finnst aftur rétt að vekja athygli á því, að þessu 20% framlagi er til að byrja með fyrst og fremst ætlað að leiðrétta minni inngreiðslur á árum áður en nauðsynlegt hefði verið miðað við þá þróun sem átt hefur sér stað.  Í skýrslu sem Samtök atvinnulífsins gáfu út árið 2006 og fjallar um lífeyriskerfið frá ýmsum hliðum segir m.a.:

Í greinargerð sem lögð var fram af hálfu ASÍ í viðræðum um endurnýjun kjarasamninga aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins kvað hins vegar við nokkuð annan tón þar sem áherslan var lögð á aðsteðjandi vanda lífeyrissjóðanna vegna aukinnar örorkutíðni og lengri meðalævi (sem er eitt og sér að sjálfsögðu gleðiefni). Megin niðurstaða skýrslunnar var að iðgjöld þyrftu að hækka um allt að 2% ef takast ætti að halda gildandi lífeyrisloforðum óbreyttum.

Með öðrum orðum þá hafði lífeyriskerfið á þeim tíma ekki efni á að greiða út þann lífeyri sem það var að greiða út nema ganga á rétt annarra sjóðfélaga.  Ef jafnvægi átti að vera á milli réttinda sem fólk stóð í góðri trú um að það hafði áunnið sér og þeirra réttinda sem það hafði í raun og veru áunnið sér út frá tryggingafræðilegum útreikningum, þá var bara um eitt að ræða:  Þeir sem voru og myndu greiða í sjóðina þurftu að leggja meira fram, svo þeir sem hættir voru að greiða eða áttu stutt eftir af starfsævinni gætu fengið það sem þeim hafði verið lofað.  Þannig var hægt að verja eldri réttindi allra, en í staðinn tóku yngri sjóðfélagar að sér að vera einhvers konar velgjörðar menn hinna eldri.

Kaupmáttaraukning skekki líka myndina

En þetta er ekki allt.  Bjarni Þórðarson, tryggingarstærðfræðingur, er sá sem líklegast veit mest um stöðu lífeyrissjóðanna.  Í skýrslu SA er vitnað í umsögn hans og þar segir:

Var vitnað til útreikninga Bjarna Þórðarsonar, tryggingastærðfræðings, sem komst að þeirri niðurstöðu að ef kaupmáttur yxi að jafnaði um 1% á ári myndu lífeyrisloforð til manns sem greiddi frá 20 til 67 ára aldurs í samtryggingarlífeyrissjóð, verða 6% hærri en innistæða væri fyrir og 12% ef kaupmáttaraukningin væri 2%. Þar til viðbótar væri vandi sjóðanna enn stærri ef kaupmáttur yxi hraðar á síðari hluta starfsævinnar en á þeim fyrri. Mikil kaupmáttaraukning síðastliðinn áratug hefur þannig orðið til þess að auka vanda lífeyriskerfisins.

Þ.e. kaupmáttaraukning í gegn um tíðina hjá þeim, sem núna eru að taka lífeyri eða munu byrja á næstu árum, veldur því að við sem enn erum að greiða í sjóðina þurfu enn frekar að greiða fyrir hluta þess lífeyris sem þetta fólk hefur fengið, er að fá eða mun fá til æviloka.  Yngra fólkið á að greiða fyrir það eldra.

18,7% skerðing á réttindaávinningi

Og síðan er það rúsínan í pylsuendanum.  Enn úr skýrslu SA:

Hækkun iðgjalds í lífeyrissjóðina, úr 10% í 11% samtals frá árinu 2005 og í 12% frá árinu 2007, sem ákveðin var með gerð kjarasamninga árið 2004, var almennt ekki ætlað að auka rétt sjóðsfélaga til lífeyris heldur að gera þeim kleift að standa undir núverandi lífeyrisloforðum. Almenn hækkun iðgjalds um 1% án breytinga á reglum sjóðanna um ávinnslu réttinda hefði því birst þeim eins og 10% kauphækkun og hefði því engan vanda leyst heldur þvert á móti aukið hann. Óhjákvæmilegt var því að draga úr ávinnslu réttinda samhliða hækkun iðgjaldsins og það gerðu flestir sjóðirnir. Sem dæmi um útfærslu má taka Lífeyrissjóð verzlunarmanna sem árið 2005 lækkaði réttindastuðul úr 1,65 í 1,5, sem felur í sér að 11% iðgjald skapaði sama rétt og 10% iðgjald gerði áður. (Leturbreyting MGN)

Sem sagt fólk vinnur sér inn sömu réttindi fyrir 11% iðgjald og það gerði áður fyrir 10% iðgjald.  En skertust þá réttindi þeirra sem áður greiddu 10% iðgjald?  Nei, þau héldust óbreytt, þannig að þeir sem hafa greitt hærra iðgjaldið hafa verið að nota huta af launatekjum sínum (iðgjald launagreiðanda er náttúrulega ekkert annað en launatekjur) til að bæta þeim sem ekki eru búnir að greiða nóg upp það sem á vantaði.  Í dag er það svo komið að sá sem greiðir 12% í t.d. Lífeyrissjóð verzlunarmanna verður að sætta sig við réttindastuðulinn 1,341 sem er 18,7% lækkun.  Já, hægst hefur á lífeyrissöfnun þeirra sem eru að greiða í sjóðina um 18,7% m.a. svo þeir sem eldri eru missi ekki rétt sem þeim var lofað en í reynd ekki áunnið sér.  Þetta er hin óhjákvæmilega leið til að "draga úr ávinnslu réttinda".  Er ekki tilveran dásamleg?

Tilfærsla á milli kynslóða

Segja má að þessi breyting á lífeyrissjóðunum og sú sem stefnt er að árið 2014-2020 sé mjög skýrt dæmi um tilfærslu milli kynslóða.  Frá yngri kynslóðunum til þeirra eldri.  Og þessi tilfærsla er ekkert smáræði.

Fái þeir sem eru að greiða í sjóðina núna 18,7% minni réttindi fyrir það sem þeir greiða í lífeyrissjóðina, en þeir sem fóru á ellilífeyri fyrir ársbyrjun 2005, þá liggur beinast við að þessi 18,7% sé verið að nota a.m.k. að hluta til að bæta þeim upp mistök fyrri ára. 

Upphæðin skiptist gróft séð í tvennt.  Annars vegar að leiðrétta eigin ávinning greiðenda, hins vegar að leiðrétta fyrir fá sem eru byrjaðir að taka lífeyri eða ná ekki að leiðrétta sína réttindaávinnslu.  Ég er 51 árs, þannig að það tekur nokkur ár fyrir mig að leiðrétta fortíðina.  Aftur á móti sá sem er 30 ára, hann er hugsanlega búinn að greiða alla sína starfsævi 12% í lífeyrissjóð.  Á hverju ári hafa því 18,7% af iðgjöldum hans farið til að greiða lífeyri þeirra sem eru að fá úr sjóðunum í dag og hjálpa við að leiðrétta skekkjuna hjá þeim eru að nálgast lífeyrisaldur. 

Gefum okkur að helmingur af iðgjaldagreiðendum séu þannig að greiða þessi 18,7% til eldri kynslóð, fjórðungur sé að greiða helming tölunnar og síðasti fjórðungurinn sé bara að leiðrétta sjálfan sig.  Miðað við að iðgjöld ársins 2010 voru hátt í 80 ma.kr., þá hleypur kynslóðatilfærslan á líklegast 10-12 ma.kr. ef ekki meira.  Já, þeir sem eru 55 ára og yngri eru (samkvæmt þessum grófu útreikningum) að greiða árlega 10-12 ma.kr. af lífeyrisiðgjöldum sínum svo þeir sem eru 67 ára og eldri fái meiri lífeyri en þeir hafa unnið sér fyrir, þó þeim hafi verið talin trú um annað. (Tekið fram að ekki er verið að varpa neinni sök á eldri sjóðfélaga.  Þeir vissu ekki betur en að þeirra lífeyrissöfnun stæði undir loforðunum sem þeim voru gefin.)

Háar upphæðir færast á milli

Hvernig sem er á allt litið, þá eru háar upphæðir að færast á milli kynslóðanna.  Miðað við 10 ma.kr. á ári fyrir 12% iðgjald og helming þess fyrir 11%, þá hafa þegar 60 ma.kr. farið frá yngri sjóðfélögum til þeirra eldri.  Haldist réttindastuðullinn óbreyttur við hækkun iðgjalda í 15,5% og sú hækkun komi í 0,5% þrepum á ári, þá verður tilfærslan orðin 27,5 ma.kr. á ári árið 2020 og uppsafnað ársloka 2020 alls 220 ma.kr. eða ríflega 11% af núverandi eignum lífeyrissjóðanna.  Á þessum áratug einum er gert ráð fyrir að yngri sjóðfélagar leggi þeim eldri til 180 ma.kr. svo ekki þurfi að skerða lífeyri þeirra til samræmis við raunverulegan réttindaávinning þeirra.

Gera verður ráð fyrir að réttindastuðullinn hljóti að hækka á árunum 2014 til 2020.  Annað væri hreint og klárt rán, ef 55% hækkun iðgjalds (úr 10 í 15,5%) gæfi enga hækkun á réttindastuðlinum.  Hugsanlega ætla menn bara að vinna upp lækkunina 2005 og 2007, en verði það lendingin, þá munu sjóðfélagar árið 2020 ávinna sér sömu réttindi og þeir sem greiddu inn fyrir 1. janúar 2005, en greiða fyrir það 55% hærra iðgjald.  Hækki réttindastuðullinn í samræmi við hækkun úr 12% í 15,5%, þá yrði stuðullinn hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna 1,73.  Ef aftur á móti stuðullinn frá 2004 upp á 1,65 væri hækkaður sem nemur hækkun iðgjaldsins til 2020, þá endaði hann í 2,56 sem er 47,8% hærri stuðull!  Verði þetta ofan á, þá hefur réttindaávinningur þeirra sem greiða í lífeyrissjóði frá og með 1. janúar 2020 skerst um 32,4% miðað við þá sem greiddur fyrir 1. janúar 2005.  Nú finnst mér líklegt að markmiðið með því að færa iðgjaldið upp í 15,5% sé bara að hækka réttindastuðulinn aftur upp í 1,65 og verði það niðurstaðan, þá nemur skerðingin hvorki meira né minna en 35,6%.

Óhjákvæmileg aðgerð

Ég tek það skýrt fram, að ég er ekki að mæla með því að þetta verði ekki gert.  Langt í frá.  Ég vil gjarnan að þeir sem eru búnir að ljúka sinni starfsævi, hvort heldur vegna aldurs eða örorku geti lifað mannsæmandi lífi.  Raunar finnst mér velferðarkerfið hafa margoft brugðist þessu fólki og verulegt svigrúm er að bæta það sem miður hefur farið.

Ég velti því aftur fyrir mér hvort þetta hafi verið kynnt nægilega vel.  Var yngra fólkið spurt að því hvort það vildi skerða lífeyrisréttindi sín miðað við inngreidd iðgjöld um hátt í 36% til að vega upp mistök þeirra sömu manna og sömdu um þessa breytingu?  Var yngra fólkið spurt að því hvort það vildi fórna rúmlega þriðjungi af sínum lífeyri svo eldri sjóðfélagar þyrftu ekki að taka á skerðingu, þar sem menn misreiknuðu sig?  Ég efast um það. 

Tilfærslan er í öfuga átt við fullyrðingar Arnars, Gylfa og Vilhjálms fjárfestis

Séu þær upplýsingar skoðaðar, sem ég hef hér farið í gegn um, þá skýtur það skökku við, að Arnar Sigurmundsson, Gylfi Arnbjörnsson, Vilhjálmur Bjarnason, fjárfestir, og fleiri hafi haldið því fram, að þátttaka lífeyrissjóðanna í því að leiðrétta forsendubrest verðtryggðra lána feli í sér tilfærslu frá eldri kynslóðunum til þeirra yngri.  Staðreyndin er sú, að yngri kynslóðirnar eru að óska eftir því að dregið verði úr tilfærslunni frá þeim til þeirra eldri.

Miðað við það sem ég hef farið í gegn um að ofan, þá finnst mér nánast hjákátlegt að lífeyrissjóðirnir vilji ekki taka þátt í því að leiðrétta lán heimilanna, eins og óskað hefur verið eftir.  Mér finnst það fáránlegt þegar menn á borð við Gylfa Arnbjörnsson og Arnar Sigurmundsson koma fram og segja það ekki hægt, vegna þess að þá þurfi að skerða greiðsluna til ömmu gömlu, eins og þeim er svo tíðrætt um.  Greiðslur sem ekki er innistæða fyrir og yngra fólkið er að hlaupa undir bagga með að borga. Einnig er fáránlegt að verið sé að tala um eignatilfærslu frá þeim eldri til þeirra yngri, þegar þeir eldri eiga ekki inneign í sjóðunum fyrir því sem greitt er til þeirra.  Svo um tilfærslu sé að ræða, þá þarf sá sem fært er frá að eiga það sem fært er.

Á næstu 9 árum, að þessu meðtöldu, þá munu núverandi greiðendur í lífeyrissjóði öðlast mun minni réttindi fyrir inngreidd iðgjöld en kom í hlut þeirra sem á sama tíma eru að fá greitt úr sjóðunum.  Miðað við iðgjaldgreiðslur ársins 2010 munu þeir sem eru að greiða leggja um 200 ma.kr. í sjóðina án þess að njóta þess.  Já, 200 milljarða króna, hvorki meira né minna.  Bætist sú tala ofan á um 80 ma.kr. sem þannig hafa farið án réttindaávinnings á síðustu 7 árum.  Þetta eru háar upphæðir og í hítina á eftir að bætast á hverju ári meðan núverandi samtryggingakerfi er við líði eða að lífaldur fólks lækki verulega.

Áritunarsaga úr banka

Mér barst um daginn póstur frá manni sem sagði mér sögu af samskiptum sínum við viðskiptabankannn sinn.  Hann óskaði eftir því að áritað væri á skuldabréf greiðsla af láni.  Hér fer saga hans nánast óbreytt eins og hann skrifar hana.  Eina sem ég breytti voru greinarskil og línuskipti.  Öllum nöfnum var breytt af bréfritara og bankinn ekki auðkenndur, þar sem ekki skiptir máli hver hann er, en einhverjir munu samt átta sig á því.

Raunir bankans

Eftir umfjallanir um lánamál heimilanna, ákvað ég að kanna nokkra hluti, t.d.: Eru lánapappíranir mínir hér á landi? Er skuldabréfið áritað fyrir innborgunum? Er lánið búið að skipta um eigendur?

Ég er þessi millistéttar auli, sem tók lán í íslenskum krónum með okkar ástsælu verðtryggingu.

Þegar ég fór í Bankann, með pening í vasanum, til að standa skil á afborgun af láninu, var ég nokkuð viss um að gjaldkeri væri ekki með Bréfið hjá sér, þannig að ég fór til “Bakvinnslunnar”.  Kynnti mig og sagði að erindið væri að greiða af láninu mínu. Það var auðsótt.  Greiðsluseðill var prentaður út, upphæð yfirfarinn og sammþykkt. Greiðsla boðin, en,

“Ég vildi gjarnan láta árita skuldabréfið fyrir afborgun”. 

Bakvinnsla “Ha, nei, nei, það gerum við ekki lengur.”

“Nú(dró upp Tilskipun um áritun afborgana á skuldabréf), en það er í lögum að Bankanum ber að gera það.  Eins og reynslan hefur sýnt okkur, er engum að treysta, þessi Banki gæti farið á hausinn, aftur, bréfið endað einhversstaðar og ég krafinn um greiðslu, frá fyrsta degi, af öllu bréfinu.”

Bakvinnslan var nú ekki sammála, “Þetta er allt skráð í Tölvunni.” 

“En ef Kínverskir tölvuhakkarar gera árás á Reiknistofuna og allt hrynur, ha?”

Bakvinnslan: “Það eru til afrit.”

“Mér er alveg sama, ég treysti þessu ekki og vildi gjarnan fá bréfið áritað, eins og ykkur ber lagaskylda til.” sagði ég kurteist, en ákveðið.

Bakvinnsla: “Já en, bréfið er í skjalageymslu” “Ekki mitt mál, viltu ekki renna þá eftir því...?”

Við sættumst á að áritun færi fram síðar.

Með greiðsluseðill í hendinni, gekk ég að gjaldkera og sýndi seðilinn.

“Ég ætla að fá að borga af þessu láni.”

Setti seðlana á borðið, gjaldkeri tók við þeim, skellti þeim í teljarann...

“Síðan þarf ég að fá áritun á skuldabréfið”

Gjaldkeri: “Nei, það geri ég ekki.”

“Víst” sagði ég og dró upp Tilskipunina, “þér ber skylda til þess samkvæmt lögum, þú ert að taka við greiðslu og ég á að fá áritun á skuldabréfið...”

Gjaldkeri fór vægast sagt í kerfi, hljóp úr básnum sínum, út úr stúkunni og inn til Skrifstofustjóra.  Jafn rjóðan gjaldkera hef ég ekki séð.

Eftir að skrifstofustjóri útibúsins hafði fengið beiðni mína, fór allt af
stað....  Viðskiptaþjónusta var sett í málið (lögfræðingur) og tími var ákveðinn fyrir
áritun.

Ég mætti á slaginu, og fékk að sjá bréfið, það hafði verið framselt til einhvers sjóðs, sem einhver á, í júlí 2008 (Lánið er tekið Nóv -05)

Nú hófst fjörið.  Sestir við borð voru: Ég, Skrifstofustjóri, Lögfræðingur og Bakvinnsla.

Fyrsta stimplun skall á bréfinu, og mér varð að orði: "Gott að stimpillinn var til!"

Lögfræðingur: "Hann var nú búin til fyrir þetta mál!"  Hann raðaði aftur bunka af löggiltum skjalapappír, sem viðbúið var að þyrfti fyrir allar áritanirnar.

Skrifstofustjóri: "Viltu láta árita stöðu lánsins eins og hún er í dag eða..?"

"Nei, ég vil fá áritun  frá framsalsdegi, því ekki getið þið áritað fyrir Skilanefndina"

Skrifstofustjóri: "Nei, en þú getur talað við þau."

"Það get ég ekki, því þið eruð með bréfið, það er ykkar að eiga við þau"

Undarlegur svipur kom upp á Bankafólkinu.

Upphófst nú mikið talnarím á mörgum blöðum, til að komast að stöðu lánsins við framsal 2008.  Einhver tala fannst og varð að áritun. Næsta tala var ekki eins góð, og eftir margar ferðir til "bakvinnslu" og tugi prentaðra síða, gafst Lögfræðingurinn upp, og játaði sig sigraðann, að sinni.

Allar útprentanir sem þau höfðu undir höndum, gáfu ekki rétta mynd af stöðu lánsins, og varð því að fresta fundi, fara niður í Höfuðstöðvar, láta lesa saman úr nokkrum kerfum rétta stöðu, og boða til  annars fundar. Átti þetta ekki allt að vera í Tölvunni?

Þetta tók tæpa klukkustund, og má búast við að þegar "Bakvinnslan" sest við að skrá, í minni viðurvist, allar 42 áritanirnar, að nokkur stund fari í það.  Ég reikna með að fylgja þessu eftir um hver mánaðarmót.

Mórallinn í sögunni er sá, að ekki þarf nema nokkur hundruð lánþega, sem mæta í sitt útibú, og krefjast áritunar, til að bankakerfið lamist.  Þar með erum við kominn með tromp, til að krefjast leiðréttingar á lánunum. 

Tilskipunin segir, að ef þú býður Bankanum greiðslu, en hann er ekki með bréfið við höndina, er Bankanum óheimilt að reikna vexti frá þeim degi er þú býður greiðslu. Bankinn verður að árita bréfið, ef þú vilt það, og vextir og dráttarvextir eru í frosti þangað til að svo er gert.

Það yrði því fljótt að myndast langur hali vaxtalausra lána, meðan beðið er eftir áritun.

---

Þetta er saga eins einstaklings, sem ákvað að bankinn ætti að fara að lögum.  Ég veit um fleiri sem hafa gert það og er Sturla Jónsson einn þeirra.  Þetta er sem sagt ekki saga hans. 

Mér sýnist í fljótu bragði að þessi banki hafi sett ekki undir 10 vinnustundir starfsmanna sinna í þetta mál.  Þetta var einn einstaklingur og eitt lán.  Hve marga þarf í viðbót til að setja allt á hliðina?

Tengill á tilmælin:  Tilskipun um áritun afborgana á skuldabréf

 


Er búinn að fá upp í kok á ruglinu

Nú er enn einu sinni verið að fjalla um Vafningsfléttuna í fjölmiðlum, landsdómsmál Geirs tröllríður öllu og Baldur Guðlaugsson ætlar að sleppa við ákæru vegna meintra innherjasvika á tæknilegum formsatriðum.  Þessu til viðbótar er verið að skuldahreinsa stóran hluta þeirra aðila sem voru helstu gerendur í hruninu, en ekki má gera það sem nauðsynlegt er fyrir heimilin í landinu.  Ég verð að viðurkenna að ég er búinn að fá gjörsamlega upp í kok af þessu bulli.

Ég tel staðreyndir þessara mála vera:

  • Baldur Guðlaugsson væri ekki að reyna að losna frá málinu á tæknilegum atriðum, ef hann gæti sannað sakleysi sitt.
  • Bjarni Benediktsson væri ekki að reyna að losa Geir undan Landsdómi nema hann óttist það sem fram myndi koma í réttarhöldunum.
  • Vafningsfléttan er dæmi um svindl og lögbrot, sama hvernig litið er á það. 
  • Nýja bankakerfið er að losa helstu hrunverjana undan skuldum sínum, því annars munu þeir draga stóran hluta stjórnenda, og hugsanlega starfsfólks, nýju bankanna með sér.
  • Vinir og félagar eru á fullu að bjarga mönnum sem settu Ísland á hausinn vegna þess að annars kemur hlutur þeirra í ljós.

Rjúfa verður þögnina

Sem betur fer er stór hópur fólks hér í þjóðfélaginu sem ekki er sátt við þá þöggun sem er í gangi.  Hallgrímur Helgason á hrós skilið fyrir sín skrif um Vafningsmálið.  Sturla Jónsson er á fullu að fletta ofan af samtryggingunni innan dómskerfisins, þar sem dómarar kveða upp hvern úrskurðinn á fætur öðrum gegn almenningi og labba svo inn á skrifstofu sína með lögmönnum fjármálafyrirtækjanna til að eiga gott spjall saman (frásögn Sturlu af málum).  Guðmundur Ásgeirsson og Ragnar Þór Ingólfsson eru að fletta ofan af lífeyrissjóðunum og verðtryggingarruglinu.  Lára Hanna Einarsdóttir er óþreytandi í að birta áhugaverðar upplýsingar um svikamyllur.  Sjálfur hef ég ruggað bátnum nokkrum sinnum.

Mörgum sinnum hefur mér verið sent efni í trúnaði, sem ég hef stundum ekki mátt nota.  Hinu hef ég reynt að koma á framfæri án þess að upplýsa hver sendandinn er.  Sumt er hreinlega ekki hægt að tala um án þess að ljóstrað sé upp um heimildarmanninn.

Allir bankarnir ógjaldfærir 2007

Eftir að hafa lesið og hlustað á óteljandi fréttir, pistla, greinar, bækur og sögur, þá er ég þess handviss að bankarnir þrír, þ.e. Landsbanki Íslands, Kaupþing banki og Glitnir voru allir orðnir ógjaldfærir frá miðju sumri 2007 og fram í nóvember. 

Ég hef fyrir því áreiðanlegar heimildir að Glitnir hafi fyrstur orðið ógjaldfær og það í júlí eða ágúst 2007.  Lárus Welding getur betur svarað því, hvenær það gerðist nákvæmlega, en hann lagði, samkvæmt mínum heimildarmanni, fyrir stjórn Glitnis tillögu í ágúst eða september 2007 um að farið yrði í brunaútsölu á eignum.  Bankinn yrði brotinn upp og allt selt sem hægt væri að koma í verð.  Þetta væri eina leiðin til að bjarga bankanum frá yfirvofandi þroti.  Bjarni Ármannsson ætti líka að geta staðfest þetta, þar sem ráðgjöfin kom frá honum.  Stjórn Glitnis og helstu eigendur höfnuðu þessu, þar sem með því yrði aðgangur þeirra að fjármagni verulega skertur og þeir sáu fram á að tapa eignum sínum.  Í staðinn fór í gang ótrúlega flétta, sem fólst í því að safna peningum inn í peningamarkaðssjóði bankans svo hægt væri að kaupa "ástarbréf" af fyrirtækjum helstu eigenda bankans.  Hringt var gengdarlaust í fólk með innstæður á bankareikningum og nuðað í því að færa þá í peningamarkaðssjóðina.  Dæmi voru um að hringt hafi verið daglega í fólk, þar til það gafst upp á nuðinu.  Ég hef rætt við nokkra starfsmenn sem stóðu í þessu og líður engum þeirra vel með þetta.  Þeirra staða var að vinna vinnuna sína eða vera rekinn.  Ég held að samviska margra þeirra væri betri í dag, ef þeir hefðu valið síðari kostinn.

Varðandi Landsbanka Íslands, þá herma mínar heimildir að bankinn hafi verið orðinn ógjaldfær síðla hausts.  Raunar þarf engan heimildarmann til að sjá þetta út.  Um leið og krónan lækkaði haustið 2007 varð Landsbanki Íslands ógjaldfær.  Hér er um einfalt reikningsdæmi að ræða.  Bankinn safnaði háum upphæðum inn á Icesave reikningana í Bretlandi 2006 og 2007 meðan gengið var tiltölulega sterkt.  Nær undantekningarlaust fór þessi peningur beint inn á gjaldeyrismarkað og rann því sem íslenskar krónur inn á eignarhlið bankans.  Þegar krónan lækkaði haustið 2007, þá myndaðist verulegur halli á virði innstæðna í íslenskum krónum og eigna bankans til að greiða þessar innstæður.  Í staðinn fyrir að reyna að vinda ofan af þessu, þá fór LÍ sömu leið og Glitnir, þ.e. byrjaði að narra fólk til að flytja peningana sína úr öruggu skjóli, þar sem bankinn komst ekki í þá, yfir í áhættustöður, þar sem bankinn beindi þeim nær samstundis yfir til sérvalinna viðskiptavina.

Haustið 2007 var farið að sverfa verulega að lausafjárstöðu Kaupþings.  Þegar ljóst var hvert stefndi, þá sýnt að draga þurfti verulega úr útlánum og jafnvel skrúfa alveg fyrir þau.  Bankinn réð á þeirri stundu ekki við að greiða sínar eigin skuldir, að sögn heimildarmanns, og því var gripið til þessara ráða.  Þetta féll í grýttan jarðveg hjá helstu eigendum enda voru þeir allir sem einn komnir í mjög erfiða lausafjárstöðu.  Því var ákveðið að hlaupa undir bagga með elítunni, en skrúfa fyrir almenning.  Á fundi í lánadeild Kaupþings í nóvember 2007 voru gefin skýr fyrirmæli um að hætta útlánum til almennings (sjá færslu hjá Daða Rafnssyni á vefnum Economis Disaster Area).  Áfram var haldið að lána til elítunnar og fóru slíkar upphæðir út til þeirra, að líkast var sem menn byggjust ekki við að sól risi daginn eftir.  Mínir heimildarmenn segja alveg öruggt að ekki hafi verið gert ráð fyrir að þetta fé yrði endurgreitt.  Verið var að tæma bankann innan frá.

Almenningur borgar brúsann

Þessar aðgerðir sem ég lýsi að ofan voru undanfarinn að hruni krónunnar og verðbólgunnar sem gaus upp að fullu árið 2008.  Þess vegna vill almenningur að nýju kennitölur bankanna þriggja gefi eftir þá hækkun lána sem af þessu leiddi.  Starfsmenn, stjórnendur, stjórnarmenn og eigendur Glitnis, Landsbanka Íslands og Kaupþings banka höfðu á nokkrum mánuðum síðsumars og fram á haust 2007 staðið í slíkum svikum, blekkingum, prettum og lögbrotum, í þeim eina tilgangi (að því virðist) að sérvaldir viðskiptamenn gætu tæmt sjóði bankanna, að okkur hinum finnst hreinlega frekulegt að við eigum að borga brúsann.

Það fáránlega við háttsemi bankanna þriggja á seinni hluta árs 2007 er, að Fjármálaeftirlitið, Seðlabanki Íslands og bæði fyrrverandi og núverandi ríkisstjórnum finnst ekkert óeðlilegt við hana.  Það virðist nefnilega vera löglegt að beita svikum, blekkingum, prettum og lögbrotum sé það gert í nafni fjármálaþjónustu.  Neytendur fjármálaþjónustu eru ekki varðir fyrir óheiðarleika og vanhæfi og þess síður svikum, blekkingum, prettum og lögbrotum fjármálafyrirtækja.  Nei, þegar viðskiptavinirnir gera þá sjálfsögðu kröfu að farið sé að lögum, þá koma ríkisstjórnir, Fjármálaeftirlit og Seðlabanki Íslands hinum brotlegu til varnar.  Já, það er gott að vera alvöru fjárglæframaður á Íslandi, þegar klappliðið er svona skipað með núverandi forsætisráðherra sem aðalklappstýru.

Viðbót kl. 21:45

Mynd um þróun nýrra lána til íbúðakaupa.

utlan_til_ibu_akaupa_1132455.jpg

 


Ekki hefur verið sýnt fram á að svigrúmið sé fullnýtt, hvað sem "hlutlausir aðilar" segja

Sagan endalausa heldur áfram.  Hagsmunasamtök heimilanna spurðu í haust hvert væri það svigrúm sem fjármálafyrirtækin hefðu fengið til að leiðrétta lán heimilanna.  Óskað var eftir því að fá réttar og nákvæmar upplýsingar frá opinberum aðilum og fjármálafyrirtækjunum um þetta og síðan hvernig þetta "svigrúm" hefði verið nýtt.  Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur ákvað að verða við þessari beiðni og fól á endanum Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að skoða málið.

Hagfræðistofnun boðaði samtökin á fund sinn fyrri hluta nóvember mánaðar.  Var ég einn að þeim sem sérstaklega var boðaður á þann fund.  Inn á fundinn kom ég með 10 spurningar sem mér fannst mikilvægt að Hagfræðistofnun leitaði svara við vinnu sinni.  Með fullri virðingu fyrir sérfræðingum stofnunarinnar, þá gerði ég ráð fyrir, að ég hefði sett meiri tíma í þetta mál en þeir á þeim tímapunkti og taldi mig spara þeim mikla rannsóknavinnu með því að leggja þeim til þessar spurningar áður en megin hluti vinnunnar hófst.  Spurningarnar fylgja með neðar í þessari færslu.  Frómt er að segja, að fæstum spurningunum er svarað svo nokkru nemur og raunar nær allar sniðgengnar í skýrslunni.

Fengu ekki aðgang vegna bankaleyndar!

Krafa Hagsmunasamtaka heimilanna var að tölur og fullyrðingar bankanna væru sannreyndar með því að skoða raungögn frá hverjum og einum banka.  Hagfræðistofnun viðurkennir í skýrslu sinni að stofnunin fékk ekki að gang að neinum gögnum "vegna bankaleyndar".  Þetta er sú aumasta skýring sem ég hef heyrt.  Hvaða bankaleynd kom í veg fyrir að Hagfræðistofnun gæti séð samanteknar upplýsingar frá hverjum banka?  Bankaleynd nær eingöngu til upplýsingar um einstaka viðskiptafærslur um auðkennda viðskiptamenn, en ekki samanteknar upplýsingar án auðkenningar.

Sem sagt, vegna "bankaleyndar" gat Hagfræðistofnun ekki sannreynt eitt eða neitt.  Tölur í skýrslu Hagfræðistofnunar (og líklegast ályktanir) eru mataðar upplýsingar, þar sem stofnunin fékk ekki færi á að rannsaka hlutina.  Ég sæi nú fyrir mér hvort dómstólar samþykktu sönnunarfærslu sem byggð væri á munnmælasögum.  Okkur er aftur ætlað að trúa Hagfræðistofnun sem hafði þó ekkert annað en munnmælasögur.  Það sem verra var, að Hagfræðistofnun lagði ekki einu sinni vinnu í að kanna hvernig munnmælasögurnar féllu að raunveruleikanum.  Nei, þeim var bara trúað eins og um heilaga ritningu væri að ræða.  Ósk HH um að tölur væru sannreyndar voru því hunsaðar algjörlega.  Við hvað eru menn hræddir?

"Hlutlausu aðilar" Jóhönnu

Í svari til Sigmundar Davíðs á Alþingi í dag (sjá frétt sem færslan er hengd við), þá segir Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, að "bæði Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann, hlutlausa aðila, hafa farið yfir skýrsluna og því hlytu niðurstöður hennar að vera réttar".  Jóhanna getur gert betur en þetta.

Þessir svo kölluðu hlutlausir aðilar lögðu til í kjölfar dóma Hæstaréttar 16. júní 2010 að bankarnir endurreiknuðu öll gengistryggð lán með vöxtum sem skráðir eru af Seðlabanka Íslands og almenn kallaðir seðlabankavextir.  Ekki var lagt til að þessir vextir giltu frá dómsuppkvaðningu, heldur frá útgáfudegi lánanna.  Ástæðan:  Til að vernda fjárhag bankanna.  Nei, þessir aðilar eru ekki hlutlausir, þeir eru svo illilega hlutdrægir og hafa ítrekað sýnt það í aðgerðum sínum og aðgerðarleysi.  Satt best að segja, man ég ekki eftir einu einasta skipti sem Seðlabanki Íslands eða Fjármálaeftirlit hafa tekið stöðu gegn fjármálafyrirtækjunum og með lántökum í deilu máli.  Nei, þessi hlutlausu aðilar eru mjög hlutdrægir í öllum sínum aðgerðum.

Hvað bendir til að svigrúmið hafi ekki verið fullnýtt?

Ég fullyrði að ekkert bendi til þess að svigrúmið hafi verið fullnýtt.  Ég er svo sem búinn að benda á margt af þessu áður, en sakar ekki að gera það einu sinni enn.

1. Milli 30. september og 31. október lækkaði staða lána heimilanna hjá innlánsstofnunum eins og sýnt er í meðfylgjandi töflu (staðan í júlí 2011 er sett inn til samanburðar):

HAGTÖLUR SEÐLABANKANS

   
    

Flokkun útlána innlánsstofnana - tímaraðir

   
    

M.kr

sep.08

okt.08

júl.11

Heimilin, alls

1.032.026

584.939

486.564

                þ.a. íbúðalán

606.886

310.749

269.380

2   Yfirdráttarlán

78.280

59.529

42.895

4   Óverðtryggð skuldabréf

26.724

18.128

88.047

                þ.a. íbúðalán

 

298

45.383

5   Verðtryggð skuldabréf

627.091

346.424

289.942

                þ.a. íbúðalán

499.333

251.893

203.166

6   Gengisbundin skuldabréf

271.950

145.699

55.209

                þ.a. íbúðalán

107.553

58.558

20.831

7   Eignarleigusamningar

22.136

11.033

8.979

8   Gengisbundin yfirdráttarlán

5.207

3.644

1.347

Heimild: Upplýsingasvið SÍ.

   

 

Á milli september og október er mismunur upp á rúmlega 447 ma.kr.  Engar annar innlánsstofnanir höfðu ástæðu til að færa niður lán til heimilanna milli þessara tveggja mánaða, svo líklegast er að öll lækkunin sé komin til vegna bankanna þriggja.  Þetta er jafnframt hámark þess afsláttar sem bankarnir fengu og tölur sem hér eru nefndar á eftir eru dregnar frá henni.

2.  Samkvæmt skýrslu Hagfræðistofnunar fóru einhver útlán ekki yfir í nýju bankana á þessum tíma.  Þau eru (bókfært virði í september 2008):

  • Lán sem KMIIF átti að bókfærðu virði 114 ma.kr.
  • Lán sem fóru til Seðlabanka Íslands að bókfærðu virði 71 ma.kr.
  • Lán sem urðu eftir í gömlu bönkunum að bókfærðu virði 14 ma.kr.

Auk þess tala Hagfræðistofnun um lán að bókfærðu virði 50 ma.kr. sem fóru yfir í Íbúðalánasjóð, en segir að þau hafi færst yfir í september.  Ákveðnar líkur eru þar af leiðandi á því að þau hafi ekki verið inni í september tölum bankanna, þ.e. ef allt hefur verið fært á réttan hátt.

Lánin sem fóru til Seðlabanka Íslands færðust síðan yfir í Arion banka með 19 ma.kr. niðurfærslu, þannig að nettó er tilfærslan 52 ma.kr. sem dregst frá 447 ma.kr. og loks dreg ég 128 ma.kr. frá því sem eftirstendur.  Mismunurinn er því 267 ma.kr.  sem er sá afsláttur sem bankarnir höfðu beint til umráða.

3.  Samkvæmt tölum Samtaka fjármálafyrirtækja höfðu fjármálafyrirtækin fært niður lán til heimilanna um 172,6 ma.kr. í lok september 2011.  Þetta á við um öll fjármálafyrirtæki, en ekki bara innlánsstofnanir.  Ómögulegt er út frá upplýsingum SFF að segja til um hvaða afskriftir tilheyra bönkunum þremur og þeim lánasöfnum sem þeir tóku yfir frá gömlu bönkunum.  Þó svo að öll upphæðin væri skrifuð á bankana þrjá, þá munar samt rúmlega 94 ma.kr. á tölunni að ofan, þ.e. 267 mínus 172,6 = 94,4.  Reikna má aftur með að aðrar fjármálastofnanir hafi átt einhverja hlutdeild í þessari upphæð.  Hvort sú tala er 10, 15 eða 20% af heildinni er ekki nokkur leið að vita.  Tökum lægstu töluna, þ.e. 10%, þá er hlutdeild bankanna þriggja 155 ma.kr. og ónýtt svigrúm 111 ma.kr.  Höfum í huga að hér er verið að tala um öll lán heimilanna, en ekki bara húsnæðislán.

Einnig er hægt að skoða þetta frá hinni hliðinni, þ.e. uppgefnum upplýsingum um afslætti og hvernig þeir hafa verið nýttir.   Ég er búinn að birta þá útreikninga tvisvar og læt nægja að vísa í hana hér (Hagfræðistofnun ályktar vitlaust út frá tölum).  Niðurstaðan úr þeim útreikningum var að bankarnir ættu eftir svigrúm vegna íbúðalána upp á 52-53 ma.kr.  Var það miðað við upplýsingar í skýrslu Hagfræðistofnunar.  Um líkt leiti og skýrsla stofnunarinnar var gefin út, birtist frétt á vef Viðskiptablaðsins, þar sem fram kom að Arion banki hefði keypt lánasöfn KMIIF.  Samkvæmt upplýsingum á vef Arion banka voru þau metin á 120 ma.kr.  Bókfært virði þessara lána var 114 ma.kr. í lok september 2008.  Frá þeim tíma hefur vísitalan hækkað um 23%, þannig að án tillits til afborgana og vaxta hefðu þau hækkað í 140 ma.kr.  Þrátt fyrir það segir í tilkynningu Arion banka um þessa yfirtöku að enginn afsláttur hafi verið veittur.  Væri áhugavert að sjá hvernig 114 ma.kr. verði að 120 ma.kr. í 23% verðbólgu og greiðslujöfnun, þegar afborgunarhluti greiðslna er mjög líklega umtalsvert undir jafnaðarafborgun lánanna.  Miðað við jafnarafborganir, þá greiðast 5,7 ma.kr. af 114 ma.kr. lánum séu þau til 20 ára, 4,6 ma.kr. séu þau til 25 ára og 3,8 ma.kr. séu þau til 30 ára.  Lánin hafa því verið að jafnaði ígildi 20 ára jafngreiðslu lána, lántakar hafa greitt meira inn á en ákvæði lánasamnings segja til um eða að KMIIF var búið að færa safnið eitthvað niður.  En hvað sem því líður, þá var ég sem sagt búinn að áætla að hluti 30 ma.kr. sem farið höfðu í 110% leiðina hefðu dreifst á þessi lán líka.  Greinilegt er að slíkt er ólíklegt og því lækkar ónýtt svigrúm sem því nemur þ.e. 6 - 8 ma.kr. Eftir stendur að svigrúmið er metið núna 44 - 47 ma.kr., þ.e. búið er að nota 47-50 ma.kr. af því. 

Tölurnar tala sínum máli

Ég er búinn að heyra alls konar skýringar á þeirri villu sem ég og HH eigum að vera í.  Helst er talað um núvirðingu lánanna út frá þeim vaxtakjörum sem bankarnir þurftu að fjármagna sig með á markaði.  Ég hef svarað þessu atriði áður, en góð vísa er aldrei of oft kveðin.

Bankarnir fjármögnuðu sig ekki á markaði.  Þeir fjármögnuðu sig með því að taka á sig skuldbindingar vegna innlána viðskiptavina.  Þessi innlán voru að verulegu leiti óverðtryggð samkvæmt upplýsingum Seðlabanka Íslands.  Séu innlán heimilanna hjá innlánsstofnunum skoðuð fyrir september 2008, þá stóðu þau í 660 ma.kr., þar af voru verðtryggð innlán 123 ma.kr. og óverðtryggð því 537 ma.kr. 

Ég er ekki með á hreinu  hverjir voru vextir óverðtryggðra innlána á þessum tíma, en gefum okkur að þeir hafi verið 2 - 3%.  Óverðtryggð útlán voru aftur á móti með 18 - 26% vexti.  Ég get ekki séð að bankarnir hafi verið með vaxtatap á þessu.  Verðtryggð útlán voru aftur með 4 - 8% raunvexti og námu mun hærri tölu en verðtryggð innlán.  Að ætla að reikna bönkunum vaxtatap út frá fræðilegri fjármögnun þeirra er einhver ótrúlegasta misnotkun á fræðunum sem ég hef séð lengi.  Fyrir utan að það var enginn seljandi að slíkum skuldabréfum á þeim tíma, sem gat greitt fræðilega markaðsvexti og tryggt var að myndi greiða skuldir sínar til baka.  Ekki gátu bankarnir farið til útlanda, þar sem þeim stóð ekki til gjaldeyrir til slíkra kaupa.

Raunveruleikinn er annar en fræðin.  Í þessu tilfelli réð raunveruleikinn för.  Tölurnar í stofnefnahagsreikningum bankanna þriggja tala sínu máli.  Bankarnir tóku útlánin yfir sem greiðslu frá gömlu bönkunum fyrir að taka yfir innlán.  Það var ekki öfugt, að innlánin hafi verið tekin vegna þess að útlánin voru tekin yfir.   Ríkisstjórnin lofaði að vernda innistæðurnar en ekki að verja eignir hrunbankanna í útlánum.  Nýju bankarnir fengu óverulega peningagreiðslu frá gömlu bönkunum, ef nokkrar og höfðu því enga peninga til að kaupa skuldabréf á markaði. Vinsamlegast hættið að misbjóða dómgreind almennings með svona fræðilegri skýringu, þegar raunveruleikinn var allt annar.

Spurningarnar sem óskað var svara við

Loks endurbirti ég spurningarnar sem ég lagði fyrir Hagfræðistofnun á fundinum í nóvember.  Spurningunum var ætlað að aðstoða stofnunina við vinnu sína, þ.e. benda á atriði sem vert væri að skoða til að varpa ljósi á hvert svigrúmið var í raun og veru og hvernig það hafði verið nýtt.  Því miður er nánast ekkert tekið á þeim í skýrslunni, en ég get ekki fullyrt hvort menn nýttu sér þær við vinnslu skýrslunnar.

1.    Hvaða lán heimilanna færðust frá gömlu bönkunum til þeirra nýju?  - Þessari spurningu er ekki svarað, bara er talað um íbúðalán.
2.    Hver var upphæð einstakra lánaflokka hjá hverjum banka um sig, annars vegar bókfært verð í gamla bankanum og hins vegar gangvirði/raunvirði í nýja bankanum við yfirfærslu?  Þ.e. hvaða afslátt fékk hver og einn banki af mismunandi flokkum útlána til heimilanna (samkvæmt útlánaflokkun Seðlabanka Íslands)?  -  Þessari spurningu er bara svarað að hluta.
3.    Hvaða lán heimilanna urðu eftir hjá gömlu bönkunum og hvert var bókfært virði þeirra 30/09/2008 og hvert er bókfært virði þeirra núna?  -  Þessari spurningu er bara svarað að hluta.
4.    Í hagtölum Seðlabanka Íslands kemur fram að lán heimilanna lækkuðu umtalsvert á milli talna í september og síðan í lok október 2008?  Hver er skýringin á þessari lækkun milli mánaða, þ.e. hve stór hluti er vegna lána sem færðust á milli gömlu og nýju bankanna og hve stór hluti er lán sem urðu eftir í gömlu bönkunum og eru því ekki inni í tölu SÍ vegna október? -  Þessari spurningu er svarað að mestu leiti.
5.    Samtök fjármálafyrirtækja hafa fullyrt að áður gengistryggð lán hafi verið færð niður um 130 ma.kr.  Hvernig er þessi tala fengin?  Hver eru áhrif endurútreiknaðra vaxta á þessa upphæð?  Eru endurútreiknaðir vextir inni í 130 ma.kr. eða utan?  Hvernig breyttist (áætlað) heildargreiðsluflæði (tekjustreymi) fjármálafyrirtækjanna fyrir og eftir endurútreikning?  -  Þessari spurningu er ekki svarað.
6.    Í skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna er á blaðsíðu 30 fullyrt að öll gengisbundin lán hafi verið færð yfir með yfir 50% afslætti.  Óskað er eftir staðfestingu á því að þetta sé rétt.  Nú ef svo er ekki í tilfelli lánasafna heimilanna, hver er skýringin á því að skýrsluhöfundar fullyrða þetta?  Ef þetta er rétt, hvernig kemur það þá heim og saman við 130 ma.kr. töluna að ofan?  -  Þessari spurningu er ekki svarað.
7.    Samkvæmt Creditor Report Kaupþings frá febrúar og fram í ágúst 2009, þá voru lánasöfn að bókfærðu virði 1.410 ma.kr. færð yfir til Nýja Kaupþings á 456 ma.kr.  Óskað er eftir staðfestingu á að þetta sé rétt tala og ef ekki hver hún var í raun og veru?  Ef hún var ekki þessi tala, þá er óskað eftir að vita hver talan var.  -  Þessari spurningu er ekki svarað.
8.    Í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar sem birt var 14. september sl. eru birtar tölur um stöðu lánasafna í stofnefnahagsreikningi nýju bankanna.  Óskað er eftir upplýsingum um það hvernig lán heimilanna skiptast niður í flokkað samkvæmt útlánaflokkun SÍ. -   Þessari spurningu er bara svarað að hluta og ekki er vitnað í fyrirspurn Guðlaugs Þórs í skýrslunni heldur í eldri fyrirspurn frá Ásbirni Óttarssyni.
9.    Fjármálafyrirtækin hafa fullyrt að afskriftir þeirra vegna lána heimilanna nemi yfir 160 ma.kr.  Hve stór hluti þessara afskrifta er leiðrétting í bókhaldi fyrirtækjanna vegna lögbrota, hver stór hluti er hluti af þeim afslætti sem fékkst af lánasöfnunum við flutning þeirra og hve stór hluti er niðurfærsla á gangvirtu höfuðstóli eins og hann var skráður við flutning í nýju bankana?  -  Þessari spurningu er ekki svarað.
10.    Fjármálafyrirtækin hafa fullyrt að afskriftir hafi numið 160 ma.kr.  Hafa aðrar afskriftir átt sér stað, þ.e. svo dæmi sé tekið á lánum heimilanna, sem urðu eftir hjá gömlu bönkunum?  Er einhver hluti þessara 160 ma.kr. vegna afskrifta á lánum sem ennþá eru í eignasöfnum gömlum bankanna og hve stór hluti, ef svo er?  -  Þessari spurningu er ekki svarað.

Ég tel enn mikilvægt að þessum spurningum sé svarað og auglýsi eftir þeim aðila, sem er tilbúinn til þess.  Spurningarnar geta líka verið gott innlegg í fyrirspurn á Alþingi.


mbl.is Skýrslan mikill áfellisdómur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dóttirin ballerínan í viðtali við Morgunblaðið

Mig langar að birta hér viðtal sem Morgunblaðið tók við dóttur mína og birt er í blaðinu í dag.  Vona að Morgunblaðið fyrirgefi mér birtinguna, þar sem þetta er nú einu sinni birt á Moggablogginu.

--

Harður heimur, en þess virði
Sæunn Ýr hefur verið ballerína frá þriggja ára aldri
Hún er einungis 24 ára, en hefur lagt stund á ballett í 21 ár. Sæunn Ýr Marinósdóttir er atvinnuballettdansari og starfar með Peter Schaufuss-balletti...
 
saeunn_i_mogganum.jpg 
Atvinnuballerína Sæunn Ýr Marinósdóttir starfar með Peter Schaufuss-ballettinum í London. »Það endist enginn lengi í þessu nema hann elski að dansa,« segir hún og kveðst hafa byrjað í ballett þegar hún var þriggja ára að aldri.
Hún er einungis 24 ára, en hefur lagt stund á ballett í 21 ár. Sæunn Ýr Marinósdóttir er atvinnuballettdansari og starfar með Peter Schaufuss-ballettinum í London, sem þykir afar framsækinn, og ferðast með honum vítt og breitt um Evrópu.
 
»Ég byrjaði í ballett þegar ég var þriggja ára. Mamma segir að ég hafi sagt þegar ég var lítil að mig langaði til að dansa Öskubusku á sviði,« segir Sæunn Ýr. »Ég get ekki svarað því hvers vegna ballett varð fyrir valinu, ég hef dansað svo lengi, dansinn er hluti af lífinu. En það endist enginn lengi í þessu nema hann elski að dansa.« Eftir grunnskóla lá leið Sæunnar í Konunglega ballettskólann í Stokkhólmi og þaðan lauk hún stúdentsprófi. Næst tók ungverska dansakademían við í Búdapest í Ungverjalandi, þar lauk hún BA-prófi í klassískum ballett, fyrst íslenskra dansara. Hún segir aðaltilganginn með Ungverjalandsdvölinni hafa verið að dansa með fremstu dönsurum heims, gráðan hafi verið aukabónus.
 
Þrotlausar æfingar og fórnir
»Bestu ballettskólarnir eru í þessum gömlu kommúnistalöndum. Samkeppnin þarna úti er rosalega hörð og dansheimurinn allt öðruvísi en hér. Það eru mörg hundruð að keppa um sömu stöðurnar.« Eftir Ungverjalandsdvölina starfaði Sæunn um skeið við leikhúsið í Dortmund í Þýskalandi. Árangur hennar þykir einstakur fyrir svo ungan dansara. En hann hefur ekki komið af sjálfu sér, heldur er afrakstur þrotlausra æfinga og mikilla fórna. »Þetta var bara það sem mig langaði til að gera. Maður fórnar eiginlega öllu; ég sé fjölskylduna sjaldan og missti af fermingum beggja bræðra minna. Það er ekkert gaman að vera alltaf einn í útlöndum. En þetta er það sem þessi árangur kostar og ég sé ekkert eftir að hafa valið þetta.« Dagur atvinnuballerínunnar er eins og hver annar vinnudagur. »Ég mæti klukkan hálftíu og hita upp. Þá taka við æfingar og síðan æfum við verkin sem við erum að vinna að. Yfirleitt er vinnudagurinn átta til tíu stunda langur.« Sæunn Ýr segist ekkert geta sagt til um hversu lengi hún verði við störf í Bretlandi, því mikil þróun sé í dansheiminum. »Hver veit?«
 
--
Sæunn Ýr hefur fengist við fleira en danslist undanfarið, því hún leikur ballerínu í sjónvarpsþætti um lögreglufulltrúann knáa Barnaby. Þátturinn var ...
 
Sæunn Ýr hefur fengist við fleira en danslist undanfarið, því hún leikur ballerínu í sjónvarpsþætti um lögreglufulltrúann knáa Barnaby. Þátturinn var tekinn upp í fyrrasumar og hefur verið sýndur í Bretlandi. Hún segir þetta hafa verið skemmtilega lífsreynslu. »Ballettkennari sem ég þekki stakk upp á mér í þetta verkefni. Þátturinn er um Ninu, gamla ballerínu, sem rifjar upp ævi sína og ég dansa hlutverk hennar þegar hún var ung.« Sæunn Ýr segir þetta hafa verið skemmtilega reynslu og segist til í að endurtaka leikinn. »Atriðið var tekið upp í gömlu og fallegu leikhúsi og þetta tók allan daginn, það fór mestur tími í að bíða. En leikstjórinn var mjög ánægður með hvernig til tókst.«
 

Hagfræðistofnun ályktar vitlaust út frá tölum

Eins og ég sýni fram á í færslu í gær, þá dregur Hagfræðistofnun ranga ályktun út frá þeim upplýsingum sem hún vinnur með.  Er alveg með ólíkindum hvað niðurstaða stofnunarinnar er gjörsamlega á skjön við fyrirliggjandi upplýsingar.  Langar mig að birta niðurstöðu kafla færslunnar, en hvet fólk til að kynna sér efni hennar:

Er svigrúmið fullnýtt?

Jæja, þá er komið að því að bera saman tölur.  Stóri dómur Hagfræðistofnunar er að svigrúmið sé fullnýtt þar sem Samtök fjármálafyrirtækja segja að svo sé eða því sem næst.  Skýring Hagfræðistofnunar er sem hér segir:

  • Eftirgjöf á íbúðalánum samkvæmt 110% leiðinni er 31,3 ma.kr. hjá fjármálafyrirtækjum!  Ath. að inni í þeirri tölu eru líka sparisjóðirnir og lífeyrissjóðir, þannig að talan hjá bönkunum er lægri.  Síðan bætir stofnunin við að 4,6 ma.kr. hafi verið færðir niður hjá Íbúðalánasjóði.
  • Niðurfærsla vegna sértækrar skuldaaðlögunar er 6 ma.kr. - Hér er hvorki greint á milli hvort skuldirnar eru íbúðalán eða aðrar skuldir né hvað heyrir undir bankana og hvað undir önnur fyrirtækin innan SFF.
  • Umreikningur á gengislánum vegnahæstaréttardóma nam að sögn SFF 101 ma.kr.  Þessi tala er hvergi sannreynd og aftur er ekkert sagt til um hvernig skiptingin er milli fjármálafyrirtækja.
  • Samtals gerir þetta 144 ma.kr. sem búið er að færa niður íbúðalán hjá fjármálafyrirtækjum, íbúðalánasjóði og lífeyrissjóðum.

Við lok þessarar upptalningar hjá Hagfræðistofnun segir í lok 2. kafla á bls. 11:

Samanlagðar niðurfærslur bankanna eru því nokkuð umfram þann mun sem fram kemur á virði íbúðalána í september og október 2008. Af því má ráða að það svigrúm sem verið hafi til að færa niður íbúðalán hjá bönkunum hafi þegar verið nýtt og ríflega það. Sérstaklega á þetta við um gengisbundin lán, enda var við stofnun nýju bankanna ekki gert ráð fyrir öðru en að þau lán væru lögleg.

Skoðum þetta nánar:

  1. Bankarnir þrír fengu afslátt upp á 95 ma.kr. vegna íbúðalána, þar af 71 ma.kr. vegna verðtryggðra lána og 24 ma.kr. vegna gengistryggðra lána.
  2. Bókfært virði gengistryggðra íbúðalána bankanna þriggja var 103,1 ma.kr. í lok september 2008, af þeim urðu 14 ma.kr. lán eftir í gömlu bönkunum, þannig að lán að bókfærðu virði 89 ma.kr. voru færð yfir í tveimur færslum.
  3. Öll fjármálafyrirtæki, Íbúðalánasjóður og lífeyrissjóðir hafa fært niður lán (önnur en bílalán) um 144 ma.kr. og þess vegna er svigrúmið búið.

Ef þetta er fagmennskan sem viðgengst hjá Hagfræðistofnun, þá legg ég til að skipt verði um starfslið.

  1. Niðurfærsla sem átt hefur sér stað á verðtryggðum íbúðalánum bankanna er í allra hæsta lagi 37 ma.kr., en líklega umtalsvert lægri.  Ég ætla leyfa mér að giska á innan við 30 ma.kr.  Eftir eru því ríflega 40 ma.kr.
  2. Af þessum á hámarki 30 ma.kr. var líklega hluti vegna lána voru í eigu KMIIF og önnur sem fluttust til Íbúðalánasjóðs.  Sá hluti niðurfærslunnar verður því ekki tekinn af svigrúmi bankanna, heldur lendir hann á eigendur lánanna, þ.e. ÍLS og KMIIF.  Sé þetta í réttum hlutföllum, þá skrifast 12 ma.kr. á aðra eigendur en bankanna og bankarnir hafa því aðeins nýtt 18 ma.kr. af svigrúminu í að lækka verðtryggð lán í sinni eigu.
  3. Gengisbundin lán sem færð voru yfir voru að bókfærðu virði 89 ma.kr.  Ekki er nokkur möguleiki að þau standi fyrir 101 ma.kr. niðurfærslu.  Bankarnir fengu, að sögn Hagfræðistofnunar, 24 ma.kr. í afslátt, en samkvæmt skýrslu fjármálaráðherra fengu þeir að minnsta kosti 44,5 ma.kr. í afslátt.  Hagfræðistofnun gerir heldur enga tilraun til að reikna vaxtahagnað bankanna vegna áhrifa Árna Páls laganna, en í mörgum tilfellum þá fengu lántakar nánast enga lækkun á lánum sínum.  Hvort sem bankarnir notuðu alla þessa 24 ma.kr. eða ekki þá er allt umfram 24 ma.kr. utan svigrúmsins. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lagði höfuð áherslu á að ekki mætti færa afslætti á milli lánaflokka og því má ekki færa afgang af afslætti vegna verðtryggðra lána yfir á gengisbundin lán.

Mín niðurstaða er því að svigrúmið hefur ekki verið fullnýtt.  Raunar er langur vegur í að það hafi verið fullnýtt.  Miðað við það sem að ofan segir, þá eru bankarnir líklegat búnir að nýta annars vegar 24 ma.kr. (mér finnst talan vera of há) af svigrúmi vegna gengisbundinna lána og 18-19 ma.kr. vegna verðtryggðra lána.  Alls hafa bankarnir því nýtt 42-43 milljarða af svigrúminu og eftir eru 52-53 milljarðar króna.

Eftir er að nýta 52-53 milljarða af svigrúminu eða um 55% af því!

 

 


mbl.is Búnir að nota svigrúmið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðtryggður vandi - Glærur frá borgarafundi

Ég var með framsögu á borgarafundi í Háskólabíói 23. janúar.  Í meðfylgjandi skjali eru glærurnar mínar fyrir þá sem hafa áhuga á að skoða þær.
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Líklegast ríflega 52 ma.kr. eftir af svigrúminu eða 55%

Nú er vika síðan ég var boðaður á fund Hagfræðistofnunar til að sjá drög að þeirri skýrslu sem gefin hefur verið út.  Við lestur draganna féllust mér eiginlega hendur svo margt einkennilegt var í þeim.  Lokaútgáfan byrjar á sömu einkennilegheitunum.

Hagfræðistofnun skilur ekki gögn sem hún notar

Fyrsta atriðið sem hnotið er um í skýrslu Hagfræðistofnunar er á bls. 4 undir samantekt.  Þar segir:

Að því að fram kemur í samantekt Samtaka fjármálafyrirtækja frá október 2011 hafa íbúðalán verið færð niður um 144 milljarða króna vegna 110% leiðar, sértækrar skuldaaðlögunar og endurreiknings gengisbundinna lána, en kostnaður vegna taps fjármálafyrirtækja af gjaldþrotum einstaklinga liggur ekki fyrir.  Þá voru vaxtabætur hækkaðar um 12 milljarða á árunum 2011 og 2012 og eru þær nú um 30% af vaxtagreiðslum einstaklinga.

Sagt er að upplýsingarnar séu fengnar úr Þjóðhagsáætlun 2012, (Skýrsla um efnahagsstefnu), bls. 8.

Sé bls. 8 í tilvísuðu efni lesin og samantekt SFF frá í október, þá kemur ekki það fram sem lesa má í skýrslu Hagfræðistofnunar.  Í fyrsta lagi er eingöngu sagt að vaxtabætur séu 12 ma.kr. en ekki greint frá því að þær séu 30% af vaxtagreiðslum einstaklinga.  Í öðru lagi þá segir hvorki í skýrslunni né samantekt SFF að íbúðalán hafi verið færð niður um 144 ma.kr.  Báðar heimildir nefna að gengisbundin fasteignalán hafi verið færð niður um 92 ma.kr. og SFF nefnir að niðurfærsla vegna 110% leiðarinnar sé 27,2 ma.kr. og 5,6 ma.kr. vegna sértækrar skuldaaðlögunar.  Hafa skal í huga að þetta eru leiðréttingar eða niðurfærslur hjá ÖLLUM fjármálafyrirtækjum, en ekki bara bönkunum þremur.

Hagfræðistofnun var bent á þetta og er raunar ALLUR textinn hér að ofan beint upp úr athugasemdum HH til Hagfræðistofnunar.  Já, búið er að benda stofnuninni á að hún sé að fara með rangt mál, en samt breytir hún engu!

Fræðilegt vaxtatap en raunverulegur vaxtahagnaður

Á bls. 6-7 í skýrslunni talað um "vaxtatapið" sem bankarnir þrír verða fyrir við að taka yfir útlán viðskiptavinanna sem færðir voru með valdi frá hrunbönkunum.  Skoðum hvað þar segir með leturbreytingu minni: 

Niðurfærslum var ætlað að endurspegla bæði tapáhættu og afföll vegna hárra markaðsvaxta.  Var talið að margir myndu eiga erfitt með að standa í skilum á lánum á þeim krepputímum sem færu í hönd.  Þá myndu nýju bankarnir aðeins geta fjármagnað sig á innlendum markaði og vextir sem þar buðust væru hærri en (fastir) vextir þeirra lána sem nýju bankarnir höfðu eignast.

Þessi staðhæfing um háa markaðsvextir eru algjör steypa.  Það þarf ekki annað en að skoða stofnefnahagsreikning nýju bankanna til að sjá að þeir voru ekki að fjármagna sig með skuldabréfum á innlendum markaði heldur með innlánum.  Vextirnir sem bönkunum buðust voru því verulega miklu lægri en þeir sem voru á lánunum.  Er það grafalvarlegur hlutur að Hagfræðistofnun sé ekki gagnrýnni á þessa framsetningu, sem augljóslega heldur ekki vatni.  Tafla 1 á bls. 7 er því í besta falli skemmtiefni og kemur efni skýrslunnar að öðru leiti ekkert við.

Þess fyrir utan.  Hvernig getur það verið að lán sem tekin eru yfir á með verulegum afslætti mynda vaxtatap?  Skýring Hagfræðistofnunar er að "markaðsvextir" hefðu verið hærri og því hefðu bankarnir þrír átt að fá afföll vegna þeirra.

Ég verð að viðurkenna, að ég skil ekki þetta, enda er ég ekki hagfræðingur.  Hvernig getur banki sem kaupir 100 milljarða virði af lánum á segjum 70 milljarða haft vaxtatap á viðskiptunum, þegar hann heldur áfram að rukka 100 milljarða?  Annað hvernig getur hann verið með vaxtatap, þegar hann borgaði fyrir lánin með því að taka á sig skuldir í formi innlána, sem báru nánast enga vexti?  Þriðja, hvernig er hægt að tala um vaxtatap, sem hefði orðið ef bankarnir hefðu fjármagnað sig á markaði, þegar þeir fjármögnuðu sig ekki á markaði?  Loks má spyrja:  Hefðu bankarnir orðið fyrir vaxtatapi, ef lánin hefðu orðið eftir í gömlu bönkunum, lánþegar fengið ný lán (á sömu vöxtum) hjá nýja bankanum, greitt gamla bankanum upp lánið, sem síðan hefði greitt nýja bankanum fyrir að taka yfir innstæðurnar?  Eitt í viðbót:  Verða nýju bankarnir fyrir tapi af því að lána viðskiptavinum sínum á lágum vöxtum, þegar þeir geta ekki komið fjármagninu sem er inni í bönkunum út?

Gömlu bankarnir fjármögnuðu sig að miklu leiti á markaði, en þeir nýju hafa ekki gert það.  Stærsti hluti fjármögnunar þeirra er í formi innlána og stærstur hluti þeirra er á lágum vöxtum.  Það getur verið að samkvæmt fræðunum, þá sé rétt að miða við markaðsvexti skuldabréfa, en í raunveruleikanum þá fór fjármögnunin fram á allt annan hátt.  Verður því að hafna því alfarið að bankarnir hafi orðið fyrir vaxtatapi við yfirtöku lánanna.  Enn síður á þetta við eftir að Árni Páll Árnason, þáverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, og Alþingi ákváðu að gefa nýju bönkunum seðlabankavexti á áður gengistryggð lán langt aftur í tímann.

Eitt í viðbót varðandi þetta.  Bankarnir hafa allir verið að bjóða mun hagstæðari lán en sem nam ímynduðum markaðsvöxtum í október 2008.  Meira að segja bera sum þessara lána neikvæða raunvexti.  Miðað við það, þá eru bankarnir að græða á tá og fingri á yfirteknu lánunum. 

Talnaleikur um bókfært virði lána

Á bls. 8 er farið í mikla talnaleikfimi til að skýra út hve hátt bókfært virði íbúðalána hefði verið á hverjum tíma.  Niðurstaða þeirra leikfimiæfinga er verðtryggð lán að bókfærðu virði 218,8 ma.kr. voru færð yfir á 153,7 ma.kr. og gengisbundin að bókfærðu virði 48,1 ma.kr. voru færð yfir á 36,8 ma.kr.  Alls gerir þetta að íbúðalán að bókfærðu virði 266,9 ma.kr. fóru yfir á 190,5 ma. kr.  Afslátturinn var því 76,4 ma.kr. eða 28,6%.  Eftir urðu í gömlu bönkunum og hjá öðrum aðilum lán sem voru bókfærð á 248,8 ma.kr. eða 48,2% af lánunum.  Vil ég biðja fólk um að muna þessa tölu þegar lengra er komið.

Að gengisbundin án hefðu verið færð yfir með  aðeins 26,3% afslætti er ekki í samræmi við upplýsingar í skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna.  Þar segir nefnilega á bls. 30:

Mat eignanna miðast við októbermánuð 2008 en á þeim tíma voru tugþúsundir gengistryggðra lána í bönkunum sem greitt var af og engum hafði blandast hugur um að væru gildir gerningar. Seðlabanki Íslands og FME höfðu látið þessar lánveitingar óátaldar og þær höfðu tíðkast um árabil. Um það leyti sem endanlega var gengið frá samningum við gömlu bankana heyrðust raddir um að gengistrygging lána kynni að vera ólögmæt. Það atriði var á þeim tíma umdeilt meðal lögfræðinga og algjörlega óraunhæft að meðhöndla öll slík lán sem ólögmæt í samningunum. Bent var á að öll gengistryggð lán hefðu verið afskrifuð um meira en helming við yfirfærslu þeirra til nýju bankanna, engin greining hefði farið fram á lánaskilmálum m.t.t. ólögmætis og þótt svo færi að hluti þeirra yrði metinn ógildur myndu ákvæði 18. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 leiða til þess að upphaflegur höfuðstóll yrði framreiknaður með óverðtryggðum vöxtum.  (Leturbreyting MGN)

Já, það er stórmerkilegt að Hagfræðistofnun kemst að annarri niðurstöðu en fjármálaráðherra gerði fyrir tæpum 10 mánuðum.  Fjármálaráðherra segir að "öll gengistryggð lán hefðu verið afskrifuð um meira en helming" meðan Hagfræðistofnun segir að gengisbundin lán hafi bara verið færð niður um 26,3%. Þessi skilningur Hagfræðistofnunar var í drögunum og spurðu Hagsmunasamtök heimilanna út í þetta í athugasemdum sínum við drögin.  Stofnunin kýs að svara þessu ekki.

Lán sem ekki fóru á milli

Hagfræðistofnun kemur með upplýsingar um lánin sem ekki fóru á milli:

  1. Kaupþing Mortage Institutional Investor Fund (KMIIF) átti verðtryggð lán að bókfærðu virði114 ma.kr. (bæði í september og október).
  2. Kaupþing hafði lagt verðtryggð fasteignalán og gjaldeyrislán inn í Seðlabankann sem veð í endurhverfum viðskiptum.  Bókfært virði þeirra í september 2008 virðist hafa verið 71 ma.kr. (tölur ekki ljósar, en sagt að bókfært virði þeirra hafi verið 52 ma.kr. í janúar 2010 eftir 19 ma.kr. niðurfærslu.  Skiptist í 28 ma.kr. gengisbundin lán og 24 ma.kr. verðtryggð lán.
  3. Í september 2008 voru íbúðalán að fjárhæð um 50 ma.kr. flutt í Íbúðalánasjóð frá Landsbanka Íslands og Glitni.  Hagfræðistofnun segir að draga þurfi þau frá þegar leitað er að skýringu á mismuninum milli september og október.  - Hafi verið færð yfir í september, þá er rökréttast að álykta að þau hafi verið í tölum Íbúðalánasjóðs í september en ekki bankanna.  Var verið að falsa bókhald bankanna eða kann Hagfræðistofnun aðra skýringu?
  4. Loks urðu gengisbundin lán að upphæð 14 ma.kr. eftir í gömlu bönkunum

Samkvæmt þessu fóru lán að upphæð 249 ma.kr. ekki yfir í nýju bankana við stofnun þeirra.

Svigrúmið vegna íbúðalána

Hagfræðistofnun kemst að þeirri niðurstöðu að svigrúm vegna íbúðalána hafi verið 95 ma.kr., þ.e. 70,9 ma.kr. vegna verðtryggðra lána og 24 ma.kr. vegna gengistryggðra lána.  En er þetta vegna allra lánanna sem voru í gömlu bönkunum fyrir hrun?  Nei, langt því frá.  Þetta er vegna verðtryggðra lána sem voru að bókfærðu virði 248,6 ma.kr., en lán að bókfærðu virði 164 ma.kr. voru fyrir utan þetta.  70,9 ma.kr. eru 28,5% af yfirfærðu upphæðinni.  Það er hærri upphæð en Hagsmunasamtök heimilanna hefur farið fram á að verði leiðrétt!  Raunar kemst Hagfræðistofnun að því síðar í skýrslunni að krafa HH sé upp á 18,7%!  Rétti upp hönd þeir sem hafa fengið þennan afslátt.

Næst eru það gengisbundnu lánin.  Lán að bókfærðu virði 89,1 ma.kr. voru færð yfir og nam afslátturinn 24,3 ma.kr. eða  26,3%!  Eigum við að trúa því, að verðtryggð lán hafi verið færð meira niður en gengistryggð?  Ég segi bara:  Áttu annan betri?  Þess fyrir utan, eins og getið er að ofan, þá kemur fram í skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna, að  "öll gengistryggð lán hefðu verið afskrifuð um meira en helming".  Já, öll, ekki sum.

Þar sem ég átti von á því að menn reyndu að fela sig í talnamengun, þá lagði HH að mínu frumkvæmi 10 spurningar fyrir Hagfræðistofnun snemma í vinnuferlinu.  Ein spurningin er beint um þetta efni, þar sem mér datt í hug að reynt yrði að menga talnaflóruna með misvísandi gögnum:

6.    Í skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna er á blaðsíðu 30 fullyrt að öll gengisbundin lán hafi verið færð yfir með yfir 50% afslætti.  Óskað er eftir staðfestingu á því að þetta sé rétt.  Nú ef svo er ekki í tilfelli lánasafna heimilanna, hver er skýringin á því að skýrsluhöfundar fullyrða þetta?  Ef þetta er rétt, hvernig kemur það þá heim og saman við 130 ma.kr. töluna að ofan?

(130 ma.kr. er tala frá Samtökum fjármálafyrirtækja sem enginn skilur nema kannski SFF.)

Hagfræðistofnun svaraði þessari spurningu að sjálfsögðu ekki.

Er svigrúmið fullnýtt?

Jæja, þá er komið að því að bera saman tölur.  Stóri dómur Hagfræðistofnunar er að svigrúmið sé fullnýtt þar sem Samtök fjármálafyrirtækja segja að svo sé eða því sem næst.  Skýring Hagfræðistofnunar er sem hér segir:

  • Eftirgjöf á íbúðalánum samkvæmt 110% leiðinni er 31,3 ma.kr. hjá fjármálafyrirtækjum!  Ath. að inni í þeirri tölu eru líka sparisjóðirnir og lífeyrissjóðir, þannig að talan hjá bönkunum er lægri.  Síðan bætir stofnunin við að 4,6 ma.kr. hafi verið færðir niður hjá Íbúðalánasjóði.
  • Niðurfærsla vegna sértækrar skuldaaðlögunar er 6 ma.kr. - Hér er hvorki greint á milli hvort skuldirnar eru íbúðalán eða aðrar skuldir né hvað heyrir undir bankana og hvað undir önnur fyrirtækin innan SFF.
  • Umreikningur á gengislánum vegnahæstaréttardóma nam að sögn SFF 101 ma.kr.  Þessi tala er hvergi sannreynd og aftur er ekkert sagt til um hvernig skiptingin er milli fjármálafyrirtækja.
  • Samtals gerir þetta 144 ma.kr. sem búið er að færa niður íbúðalán hjá fjármálafyrirtækjum, íbúðalánasjóði og lífeyrissjóðum.

Við lok þessarar upptalningar hjá Hagfræðistofnun segir í lok 2. kafla á bls. 11:

Samanlagðar niðurfærslur bankanna eru því nokkuð umfram þann mun sem fram kemur á virði íbúðalána í september og október 2008. Af því má ráða að það svigrúm sem verið hafi til að færa niður íbúðalán hjá bönkunum hafi þegar verið nýtt og ríflega það. Sérstaklega á þetta við um gengisbundin lán, enda var við stofnun nýju bankanna ekki gert ráð fyrir öðru en að þau lán væru lögleg.

Skoðum þetta nánar:

  1. Bankarnir þrír fengu afslátt upp á 95 ma.kr. vegna íbúðalána, þar af 71 ma.kr. vegna verðtryggðra lána og 24 ma.kr. vegna gengistryggðra lána.
  2. Bókfært virði gengistryggðra íbúðalána bankanna þriggja var 103,1 ma.kr. í lok september 2008, af þeim urðu 14 ma.kr. lán eftir í gömlu bönkunum, þannig að lán að bókfærðu virði 89 ma.kr. voru færð yfir í tveimur færslum.
  3. Öll fjármálafyrirtæki, Íbúðalánasjóður og lífeyrissjóðir hafa fært niður lán (önnur en bílalán) um 144 ma.kr. og þess vegna er svigrúmið búið.

Ef þetta er fagmennskan sem viðgengst hjá Hagfræðistofnun, þá legg ég til að skipt verði um starfslið.

  1. Niðurfærsla sem átt hefur sér stað á verðtryggðum íbúðalánum bankanna er í allra hæsta lagi 37 ma.kr., en líklega umtalsvert lægri.  Ég ætla leyfa mér að giska á innan við 30 ma.kr.  Eftir eru því ríflega 40 ma.kr.
  2. Af þessum á hámarki 30 ma.kr. var líklega hluti vegna lána voru í eigu KMIIF og önnur sem fluttust til Íbúðalánasjóðs.  Sá hluti niðurfærslunnar verður því ekki tekinn af svigrúmi bankanna, heldur lendir hann á eigendur lánanna, þ.e. ÍLS og KMIIF.  Sé þetta í réttum hlutföllum, þá skrifast 12 ma.kr. á aðra eigendur en bankanna og bankarnir hafa því aðeins nýtt 18 ma.kr. af svigrúminu í að lækka verðtryggð lán í sinni eigu.
  3. Gengisbundin lán sem færð voru yfir voru að bókfærðu virði 89 ma.kr.  Ekki er nokkur möguleiki að þau standi fyrir 101 ma.kr. niðurfærslu.  Bankarnir fengu, að sögn Hagfræðistofnunar, 24 ma.kr. í afslátt, en samkvæmt skýrslu fjármálaráðherra fengu þeir að minnsta kosti 44,5 ma.kr. í afslátt.  Hagfræðistofnun gerir heldur enga tilraun til að reikna vaxtahagnað bankanna vegna áhrifa Árna Páls laganna, en í mörgum tilfellum þá fengu lántakar nánast enga lækkun á lánum sínum.  Hvort sem bankarnir notuðu alla þessa 24 ma.kr. eða ekki þá er allt umfram 24 ma.kr. utan svigrúmsins. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lagði höfuð áherslu á að ekki mætti færa afslætti á milli lánaflokka og því má ekki færa afgang af afslætti vegna verðtryggðra lána yfir á gengisbundin lán.

Mín niðurstaða er því að svigrúmið hefur ekki verið fullnýtt.  Raunar er langur vegur í að það hafi verið fullnýtt.  Miðað við það sem að ofan segir, þá eru bankarnir líklegat búnir að nýta annars vegar 24 ma.kr. (mér finnst talan vera of há) af svigrúmi vegna gengisbundinna lána og 18-19 ma.kr. vegna verðtryggðra lána.  Alls hafa bankarnir því nýtt 42-43 milljarða af svigrúminu og eftir eru 52-53 milljarðar króna.

Eftir er að nýta 52-53 milljarða af svigrúminu eða um 55% af því!

Spurningar sem óskað var svara við

Að lokum vil ég birt hér spurningarnar sem óskað var eftir að Hagfræðistofnun svaraði og setti ég mitt mat á því hvort þeim hafi verið svarað.

1.    Hvaða lán heimilanna færðust frá gömlu bönkunum til þeirra nýju?  - Þessari spurningu er ekki svarað.
2.    Hver var upphæð einstakra lánaflokka hjá hverjum banka um sig, annars vegar bókfært verð í gamla bankanum og hins vegar gangvirði/raunvirði í nýja bankanum við yfirfærslu?  Þ.e. hvaða afslátt fékk hver og einn banki af mismunandi flokkum útlána til heimilanna (samkvæmt útlánaflokkun Seðlabanka Íslands)?  -  Þessari spurningu er bara svarað að hluta.
3.    Hvaða lán heimilanna urðu eftir hjá gömlu bönkunum og hvert var bókfært virði þeirra 30/09/2008 og hvert er bókfært virði þeirra núna?  -  Þessari spurningu er bara svarað að hluta.
4.    Í hagtölum Seðlabanka Íslands kemur fram að lán heimilanna lækkuðu umtalsvert á milli talna í september og síðan í lok október 2008?  Hver er skýringin á þessari lækkun milli mánaða, þ.e. hve stór hluti er vegna lána sem færðust á milli gömlu og nýju bankanna og hve stór hluti er lán sem urðu eftir í gömlu bönkunum og eru því ekki inni í tölu SÍ vegna október? -  Þessari spurningu er svarað að mestu leiti.
5.    Samtök fjármálafyrirtækja hafa fullyrt að áður gengistryggð lán hafi verið færð niður um 130 ma.kr.  Hvernig er þessi tala fengin?  Hver eru áhrif endurútreiknaðra vaxta á þessa upphæð?  Eru endurútreiknaðir vextir inni í 130 ma.kr. eða utan?  Hvernig breyttist (áætlað) heildargreiðsluflæði (tekjustreymi) fjármálafyrirtækjanna fyrir og eftir endurútreikning?  -  Þessari spurningu er ekki svarað.
6.    Í skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna er á blaðsíðu 30 fullyrt að öll gengisbundin lán hafi verið færð yfir með yfir 50% afslætti.  Óskað er eftir staðfestingu á því að þetta sé rétt.  Nú ef svo er ekki í tilfelli lánasafna heimilanna, hver er skýringin á því að skýrsluhöfundar fullyrða þetta?  Ef þetta er rétt, hvernig kemur það þá heim og saman við 130 ma.kr. töluna að ofan?  -  Þessari spurningu er ekki svarað.
7.    Samkvæmt Creditor Report Kaupþings frá febrúar og fram í ágúst 2009, þá voru lánasöfn að bókfærðu virði 1.410 ma.kr. færð yfir til Nýja Kaupþings á 456 ma.kr.  Óskað er eftir staðfestingu á að þetta sé rétt tala og ef ekki hver hún var í raun og veru?  Ef hún var ekki þessi tala, þá er óskað eftir að vita hver talan var.  -  Þessari spurningu er ekki svarað.
8.    Í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar sem birt var 14. september sl. eru birtar tölur um stöðu lánasafna í stofnefnahagsreikningi nýju bankanna.  Óskað er eftir upplýsingum um það hvernig lán heimilanna skiptast niður í flokkað samkvæmt útlánaflokkun SÍ. -   Þessari spurningu er bara svarað að hluta og ekki er vitnað í fyrirspurn Guðlaugs Þórs í skýrslunni.
9.    Fjármálafyrirtækin hafa fullyrt að afskriftir þeirra vegna lána heimilanna nemi yfir 160 ma.kr.  Hve stór hluti þessara afskrifta er leiðrétting í bókhaldi fyrirtækjanna vegna lögbrota, hver stór hluti er hluti af þeim afslætti sem fékkst af lánasöfnunum við flutning þeirra og hve stór hluti er niðurfærsla á gangvirtu höfuðstóli eins og hann var skráður við flutning í nýju bankana?  -  Þessari spurningu er ekki svarað.
10.    Fjármálafyrirtækin hafa fullyrt að afskriftir hafi numið 160 ma.kr.  Hafa aðrar afskriftir átt sér stað, þ.e. svo dæmi sé tekið á lánum heimilanna, sem urðu eftir hjá gömlu bönkunum?  Er einhver hluti þessara 160 ma.kr. vegna afskrifta á lánum sem ennþá eru í eignasöfnum gömlum bankanna og hve stór hluti, ef svo er?  -  Þessari spurningu er ekki svarað.


mbl.is Líklegt að ríkið myndi bera kostnað við niðurfellingu skulda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýðræðisleg umræða verður að eiga sér stað

Í gær áttu sér stað umræður á Alþingi um hvort draga eigi til baka kæru á hendur Geir H. Haarde.  Ég viðurkenni það fúslega, að ég fylgdist ekki með umræðunni og kaus frekar að horfa á handbolta en fréttir.  Ég er því gjörsamleg ómengaður af þeirri umræðu sem þar átti sér stað.

Til að byrja með þá vil ég segja, að mér finnst hugmyndin galin.  Tekin var ákvörðun af Alþingi í september 2010 að fela ákæruvaldinu að skoða hvort fótur væri fyrir því að kæra Geir H. Haarde fyrir landsdóm á grundvelli ákvæði laga um ráðherraábyrgð.  Saksóknari Alþingis ákvað eftir að hafa rannsakað gögn málsins, að rétt væri að höfða mál á grundvelli 6 ákæruatriða og það var gert.  Landsdómur kom saman, málið dómtekið og ákveðið var að fjögur ákæruatriði væru dómtæk.

Höfum í huga, að ákæruvaldið, þ.e. saksóknari Alþingis, má ekki leggja fram kæru nema að líkur á sakfellingu séu taldar mjög miklar.  Saksóknari taldi svo vera um sex atriði, en verjandanum tókst að fá tveimur þeirra vísað frá dómi.  Eftir standa fjögur atriði sem Landsdómur áleit að ekki væri haldbær rök fyrir frávísun.  Það eitt ætti að senda þau skilaboð til kærandans í málinu, þ.e. Alþingis, að um réttmæta kæru sé að ræða.

Tillaga Bjarna Benediktssonar um fallið verði frá kæru eftir að Landsdómur er búinn að komast að því, að kæran sé réttmæt, er eins galin og hægt er að hugsa sér.  Málið hefði litið öðruvísi við, ef tillagan hefið komið áður en niðurstaða frávísunarkröfunnar var ljós eða bara áður en málið var dómtekið.  Að ætla að grípa inn í núna er eins og að Alþingi breyti lögum afturvirkt svo mál sem er fyrir héraðsdómi verði látið niður falla, þar sem áður ólöglegt athæfi er allt í einu löglegt.

En gott og vel, þingsályktunartillagan er komin fram.  Þá er það réttur hvers þingmanns að tillaga hans fái þinglega meðferð.  Um það snúast m.a. þingsköp fyrir utan að stjórnarskráin tilgreinir rétt alþingismanna til að leggja fram ályktanir.  Hversu vitlaus ályktun er, að mati annarra þingmanna, þá á Bjarni Benediktsson stjórnarskrárvarinn rétt til að leggja fram þessa tillögu.  Þá kemur að þingsköpun (lög nr. 55/1991), en um meðferð þingsályktana er fjallað í 45. gr. Þar segir m.a.:

Er fyrri umræðu er lokið gengur tillagan til síðari umræðu og þeirrar nefndar er forseti leggur til. Atkvæða skal þó leitað ef einhver þingmaður óskar þess, svo og ef önnur tillaga kemur fram um til hvaða nefndar málið fari.

Þarna segir hreint út að eftir fyrri umræðu skal þingályktunartillaga gagna til nefndar, sem síðan vinnur með málið áfram. 

Undir þessa málsmeðferð gangast alþingismenn, þegar þeir setjast á þing.  Það er því ekkert sorglegt við það að málið hafi farið þessa leið.  Raunar má frekar segja, að hin rökstudda dagskrártillaga um frávísun málsins, hafi verið aðför að venjum og hefðum sem birtast í þingsköpum.

Vilji einhver hluti þingmanna ekki, að þingsályktunartillaga Bjarna Benediktssonar komist til síðari umræðu og þar með atkvæðagreiðslu, þá er ekkert annað en að setjast á málið í nefndinni.  Mörg dæmi eru um að málum hefur verið stungið undir stól, þ.e. þau ýmist ekki tekin til umræðu í nefndum eða þau ekki afgreidd úr nefndunum.  Ætli þetta séu ekki örlög 95% allra þingmannamála.

Þó við séum ekki öll sammála því að einhver umræða þurfi að eiga sér stað, þá er það samt lýðræðislegur réttur hvers og eins að ræða málin.

Versta sem getur gerst fyrir lýðræðislega umræðu er að hún eigi sér ekki stað.

(Bara til að hafa það á hreinu, þá hef ég ekki tekið neina afstöðu til ákæruatriða og er í þessari færslu ekki að fjalla um ákæruna sjálfa.  Þessi færsla er um efnismeðferð.)


mbl.is Afstaða til landsdómsmálsins ekki ljós
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband